• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Brot í opinberu starfi
  • Hlutdeild
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot
  • Þagnarskylda

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 7. apríl 2017 í máli nr. S-893/2016:

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X,

(Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Y og

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Z

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 8. nóvember 2016, á hendur X, kennitala [...], [...],[...], Y, kennitala [...], [...], [...] og Z, kennitala [...], [...], [...].

 

I.  Á hendur ákærða X fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem lögreglumaður og ákærða Y fyrir hlutdeild í þeim brotum

a.      Með því að hafa síðla sumars eða haustið 2015, ákærði X sem lögreglumaður í deild R2 við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í samræðum við meðákærða Y á fundi sem þeir áttu í Öskjuhlíð í Reykjavík, upplýst hann um að hann hefði ekki heyrt minnst á Y hjá samstarfsmönnum sínum í deild R2 í einn og hálfan til tvo mánuði, að tiltekin nafngreindur maður, A, væri skráður upplýsingagjafi hjá deildinni og að „B“ væri í upplýsingasambandi við A, og að hafa upplýst meðákærða Y um innra skipulag og málefni fíkniefnadeildar, og greint honum frá nöfnum og hlutverki lögreglumanna í deildinni, og á hendur ákærða Y fyrir að hafa með spurningum og hvatningu fengið meðákærða X til að veita sér framangreindar upplýsingar.

b.     Með því að ákærði X upplýsti, frá árinu 2013 til ársloka 2015, ákærða Y ítrekað um skráningar í upplýsingakerfi sem lögregla heldur um fíkniefnamál, mansal og vændi og ber heitið M, þegar upplýsingar sem vörðuðu Y voru skráðar þar og á hendur ákærða Y fyrir að hafa óskað eftir og hvatt ákærða X til að veita sér upplýsingarnar.

 

            Teljast brot ákærða X varða við 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot ákærða Y teljast varða við 1. mgr. 136. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

 

II. Á hendur ákærða X og ákærða Y fyrir spillingu

a.      Með því að hafa í framangreint skipti síðla sumars eða haustið 2015, sem getið er um í I. kafla ákæru, a-lið, ákærði X látið meðákærða Y lofa sér og tekið við frá honum Nokia 130 síma, og í lok mars 2015 eða síðar móttekið Samsung Galaxy fame síma að andvirði 19.990 krónur frá Y, í tengslum við starf ákærða X sem lögreglumaður. Ákærði Y lofaði, gaf og bauð umræddar gjafir eða ávinning í tengslum við starf meðákærða sem opinbers starfsmanns og sem lið í samskiptum þeirra sem meðal annars er lýst undir I. kafla ákæru.

 

b.     Með því að ákærði X heimtaði í SMS-skilaboðum 14. ágúst 2012, í tengslum við framkvæmd starfa hans, peninga af ákærða Y.

 

            Teljast brot ákærða X samkvæmt liðum a og b varða við 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot ákærða Y samkvæmt a-lið teljast varða við 1. mgr. 109. gr. almennra hegningarlaga.

 

III. Á hendur ákærða X og ákærða Z fyrir spillingu

            Með því að hafa á tímabilinu frá 27. ágúst til 19. september 2013 verið í SMS-samskiptum þar sem ákærði X lét meðákærða Z lofa sér í sambandi við framkvæmd starfa hans sem lögreglumaður, 500.000 króna peningagreiðslu og tveimur flugmiðum með WOW-Air gegn því að ákærði X útvegaði ákærða Z skýrslu [...] um [...]banka sem bar yfirskriftina „O.“

            Ákærði Z lofaði og bauð meðákærða X framangreindar gjafir eða ávinning í tengslum við starf meðákærða sem opinber starfsmaður.

 

            Telst brot ákærða X varða við 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot ákærða Z telst varða við 1. mgr. 109. gr. almennra hegningarlaga.

 

IV. Á hendur ákærða X fyrir brot í opinberu starfi

a.      Með því að hafa frá árinu 2011 til ársloka 2015, í stöðu sinni sem lögreglumaður og lýst er að framan, ekki gætt lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, þegar hann var í upplýsingasambandi við meðákærða Y, án vitundar yfirmanna sinna og í andstöðu við III. kafla reglna innanríkisráðherra um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála frá 20. maí 2011 og reglna ríkissaksóknara um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa við rannsókn sakamáls, RS:3/1999 frá 1. júlí 1999.

b.     Með því að hafa um 1–2 mánaða skeið fram til 29. desember 2015, í stöðu sinni sem lögreglumaður og lýst er að framan, gerst sekur um stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, með því að varðveita 1,18 grömm af amfetamíni og 10 millilítra af vefaukandi sterum af gerðinni bodenón undecýlenat og 20 millilítra af testósterón prípíónati í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum. Lyfin hafði ákærði fengið afhent vegna starfs síns en ekki gengið frá þeim í samræmi við reglur ríkislögreglustjóra nr. 1/2008 F frá 15. apríl 2008 um haldlagningu, skráningu, meðferð og eyðingu fíkniefna og annarra efna.

c.      Með því að hafa 29. desember 2015, í stöðu sinni sem lögreglumaður og lýst er að framan, gerst sekur um stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, með því að hafa varðveitt tvær loftskammbyssur í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum. Ákærði sem taldi byssurnar hafa verið haldlagðar af lögreglu, gat ekki skýrt hvaða máli þær tengdust, en þær átti að varðveita í geymslu fyrir haldlagða muni.

 

            Telst brot ákærða samkvæmt a-lið varða við 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot samkvæmt b- og c-lið varða við 141. gr. sömu laga.

 

V. Á hendur ákærða Y fyrir fíkniefnabrot

Með því að hafa, þegar framkvæmd var húsleit á heimili hans að [...], [...], 6. janúar 2016, haft í vörslum sínum 18,06 grömm af amfetamíni, 1,77 grömm af hassi og 0,96 grömm af kókaíni.

 

            Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

 

VI. Á hendur ákærða Y fyrir brot gegn vopnalögum

Með því að hafa, þegar framkvæmd var húsleit á heimili hans að [...], [...], 6. janúar 2016, haft afsagaða haglabyssu Brno nr. 278838 sem ákærði átti ekki og hafði ekki skotvopnaleyfi fyrir en byssunni hafði verið stolið í innbroti í júní 2014, og að hafa haft í vörslum sínum skammbyssu af tegundinni Ruger 22. cal, án þess að hafa fyrir henni skotvopnaleyfi.

 

            Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 12. gr. og 38. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Þess er krafist að gert verði upptækt með dómi;

1.     Þau fíkniefni sem um getur í b-lið IV. kafla ákæru; 1,18 grömm af amfetamíni og V. kafla ákæru; 18,06 grömm af amfetamíni, 1,77 grömm af hassi og 0,96 grömm af kókaíni, allt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

2.     Þá stera sem um getur í b-lið IV. kafla ákæru; 10 millilítra af bodenón undexýlenat og 20 millilítra af testósterón prípíónati, þau tvö skotvopn sem um getur í c-lið IV. kafla; tvær loftskammbyssur og þau tvö skotvopn sem um getur í VI. kafla ákærunnar; Brno haglabyssu með nr. 278838 og skammbyssu af gerðinni Ruger 22. cal. Allt samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

            Verjandi ákærða X krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður, til vara að honum verði ekki gerð refsing eða vægasta refsing sem lög leyfa og að ef til fangelsisrefsingar kemur verði hún skilorðsbundin. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

            Verjandi ákærða Y krefst þess að hann verði sýknaður af ákæruliðum I og II en krefst vægustu refsingar vegna ákæruliða V og VI. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

            Verjandi ákærða Z krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna.

 

Málsatvik

            Upphaf máls þessa var að C mætti til fundar við ríkissaksóknara og afhenti upptöku af samtali ákærðu X og Y. Upptakan var lág og mikið um truflanir en af henni mátti heyra að ákærði Y tók upp án vitneskju ákærða X. Á upptökunni er rætt um starfsemi fíkniefnadeildar og að tilgreindur lögreglumaður sé spilltur. Þótti upptakan gefa til kynna að framangreindir aðilar ættu í óeðlilegu upplýsingasambandi þar sem ákærði X, sem rannsóknarlögreglumaður, væri að gefa upplýsingar sem brytu gegn þagnarskyldu hans í starfi. Þá var talið að samtalið gæfi til kynna að um mútugreiðslu væri að ræða.

            Framangreind upptaka var send til nánari vinnslu þar sem aukahljóð voru hreinsuð út eins og hægt var. Í málinu liggur fyrir endurrit samtalsins, auk hljóðupptökunnar bæði fyrir og eftir vinnslu. Þá liggja fyrir gögn úr rannsóknum á tölvum og símum í eigu ákærðu. Við rannsókn á framangreindum gögnum komu í ljós frekari samskipti milli ákærðu X og Y sem nánar verður gerð grein fyrir í niðurstöðukafla. Þá fundust samskipti við ákærða Z þar sem hann virðist leita eftir tiltekinni skýrslu gegn greiðslu.

            Ákærði X var handtekinn 28. desember 2015 og í kjölfarið var farið í húsleit á heimili hans og vinnustað. Á vinnustaðnum fundust í skúffu á skrifborði hans tiltekin fíkniefni og tvær loftskammbyssur. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 29. desember 2015 til 5. janúar 2016.

 

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi

            Ákærði X gerði grein fyrir störfum sínum fyrir lögregluna allt frá árinu 2001. Hann kvaðst hafa starfað við fíkniefnadeild í 12 ár með einu 9 mánaða hléi. Hann hefði starfað sem rannsóknarlögreglumaður, fyrst í götudeild og svo í rannsóknardeild. Hann hefði ekki verið í upplýsingaöflun og hefði ekki verið sérstaklega þjálfaður til að taka á móti upplýsingum.

            Ágreiningur hefði verið uppi um það hverjir mættu taka á móti upplýsingum eftir breytingar sem hefðu verið gerðar í deildinni. Ómögulegt væri að vera rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild og geta ekki tekið á móti upplýsingum. Þetta hefði verið rætt og komið hefði fram að það væri misskilningur að menn mættu ekki taka á móti upplýsingum. Málin byrjuðu með því að menn færu út að leita að brotum. Stærstu málin gætu byrjað með mjög litlum upplýsingum. Ef einhver væri tekinn fyrir eitthvað lítið væri reynt að pumpa hann um upplýsingar. Ákærði kvaðst einu sinni hafa fengið umfangsmiklar upplýsingar frá manni sem hefðu verið sannreyndar og hefði þá leitað til þáverandi yfirmanna sinna. Í samráði við þá hefði verið ákveðið að hann færi, ásamt samstarfsmanni úr upplýsingateymi, til [...] að hitta þennan mann.

            Ákærði staðfesti að um hann væri að ræða í hljóðrituðu samtali sem greint væri frá í ákærulið I.a. Hann hefði átt þetta samtal við meðákærða Y en hann mundi ekki nákvæmlega hvenær það hefði átt sér stað. Þeir hefðu rætt saman um hluti sem hefðu verið í gangi í fíkniefnadeild. Af samtalinu væri ljóst að hann væri að fiska eftir upplýsingum með því að gefa eitthvað á móti. Meðákærði hefði áður gefið honum upplýsingar í stóru máli sem hefðu komið að miklu gagni. Þá hefði hann gefið frekari upplýsingar sem hann hefði skráð inn í málaskrá. Hann hefði verið að gefa honum upplýsingar en samt ekki. Hann hefði vitað að hann væri að „dansa á mjög þunnri línu“ og segja honum sem minnst en láta hann halda að hann væri að fá eitthvað. Hann kvað nafn A, sem hann nefni, virðast vera rétt en hann hefði ekki haft aðgang að þeim grunni sem geymi upplýsingar um upplýsingagjafa lögreglu. Hann geti því ekki sagt til um hvort þessi maður sé skráður upplýsingagjafi með fullri vitneskju. Hann vissi ekki til þess að A, sem nafngreindur sé og hafi verið í upplýsingateymi, hafi verið í upplýsingasambandi við þann aðila. Hann kvað meðákærða Y ekki hafa fengið neinar greiðslur. Hann hefði verið í samskiptum við hann frá árinu 2012 er hann hefði veitt upplýsingar vegna máls D sem hefðu leitt til fundar mikils magns fíkniefna. Síðan þá hefði hann veitt frekari upplýsingar sem hefðu verið skráðar inn í málaskrárkerfið M. Yfirmenn hans, E og F, hefðu vitað að hann væri að tala við mann þegar mál D hefði verið í gangi. Þeir hefðu hins vegar ekki vitað um samskipti hans við meðákærða eftir það.

            Ákærði kvað þá meðákærða í samtalinu vera að ræða um leka úr fíkniefnadeildinni. Ástandið þar hefði verið sérstakt á þessum tíma. Hann taldi upphafið hafa verið kjaftasögu sem hefði byrjað í samkvæmi lögreglumanna í [...]. Hefði þar komið fram að yfirmaður upplýsingateymis hefði lekið upplýsingum. Hann hefði upplifað þetta þannig að verið væri að reyna að koma vissum mönnum út úr deildinni. Þetta hefði orðið svo slæmt að 9 af 16 starfsmönnum deildarinnar hefðu skrifað undir vantraustsyfirlýsingu á hendur manninum. Vegna þess hefði meðákærði Y einungis viljað eiga í samskiptum við hann. Ákærði kvað sumt satt sem hann hefði sagt meðákærða en annað ekki. Hann hefði verið að reyna að búa til traust á milli þeirra til þess að fá upplýsingar sem gagnast gætu við fíkniefnarannsóknir. Þá hefðu upplýsingar um skipulag deildarinnar og deilur innanhúss verið á allra vitorði. Meðákærði þekkti líka ýmsa menn í deildinni í gegnum handbolta og hefði stundum vitað meira en hann um hvað væri að gerast í deildinni.

            Ákærði kvaðst hafa hitt meðákærða Y nokkrum sinnum á ári. Hann hefði talið sig hafa heimild til þess að afla upplýsinga með þessum hætti. Lögreglumönnum væri ekki bannað að tala við fólk. Þá kvaðst hann ekki vita hver væri munurinn á þessu og upplýsingasambandi. Hann hefði ekki verið að afla upplýsinga um tiltekið mál. Meðákærði hefði haft tengsl inn í fíkniefnaheiminn sem hann hefði getað nýtt.

            Varðandi ákærulið I.b greindi ákærði X frá því að hann hefði sagt meðákærða Y frá því ef nafn hans kom upp í umræðunni. Hann hefði ekki sagt honum frá því í hvert skipti sem þeir hittust og ekki alltaf sagt honum satt um þetta. Þetta hefðu verið upplýsingar eins og þær að hann væri talinn virkur í sölu á fíkniefnum eða einhverri brotastarfsemi. Hann hefði ekki gefið honum nákvæmar upplýsingar. Hann hefði vitað að hann „dansaði á þunnri línu“ en hann hefði gætt þess að gefa honum ekki upplýsingar sem gætu aðstoðað hann á einhvern hátt. Hann hefði ekki gert hluti sem hefðu ekki verið gerðir áður. Ákærði kvaðst hafa virt óskir meðákærða um að hann kæmi hvergi fram og hann væri einungis í samskiptum við hann. Hann kvaðst ekki vita hvort upplýsingateymið myndi gæta nafnleyndar.

            Ákærði kvaðst hafa tekið við tveimur símum frá meðákærða Y en hann hefði vitað að það væri ekki viðurkennd aðferð. Meðákærða hefði fundist þetta öruggara en hann hefði ekki viljað hringja í hann í lögreglusímann. Annar síminn hefði ekki verið notaður neitt. Hann hefði tekið við þessum símum vegna starfs síns en þeir hefðu verið ætlaðir til nota í samskiptum hans við meðákærða. Ekki hefði verið um að ræða einhvers konar gjöf eða umbun.

            Ákærði kvaðst aldrei hafa tekið við greiðslum frá meðákærða og engin fjárhagsleg tengsl væru á milli þeirra. Þeir hefðu rætt um peninga í samtalinu í fyrsta lið ákærunnar, en ekki greiðslur á milli þeirra. Hann hefði ekki haft neina stjórn á samtalinu og vissi ekki hvað hann hefði verið að tala um. Skilaboð sem fjallað væri um í ákærulið II.b, um að hann þyrfti að heyra í meðákærða Y sem fyrst og fyrir klukkan fjögur, taldi hann snúast um að hann hefði verið að reyna að fá upplýsingar frá honum um mál sem hann væri að reyna að koma á koppinn eða koma í rannsókn eða þetta væri vegna áframhaldandi símhlustunar. Þetta tengdist líklega manni sem kallaður væri G. Ómögulegt væri að vita hvað hann hefði átt við þegar hann hefði rætt um upphæð. Hann væri að biðja um upplýsingar þarna, jafnvel upplýsingar um peninga. Skilaboðin hefðu verið illa orðuð. Hann kvað utanlandsferð sína daginn eftir og gjaldeyriskaup vegna hennar ekki tengjast þessum skilaboðum á neinn hátt.

            Ákærði kvað meðákærða Z hafa verið vin sinn til yfir 20 ára. Þeir hefðu verið í miklum samskiptum og þúsundir skilaboða hefðu farið á milli þeirra. Ákæruefnið í ákærulið III væri þvættingur. Hann vissi ekkert um hvað skýrslu væri að ræða og hefði aldrei haft upplýsingar um hana. Hann hefði ekki aðgang að neinum skýrslum tengdum fjármunabrotum og vissi ekki hvar hann ætti að leita þeirra. Hann hefði ekkert gert til að leita að þessari skýrslu. Svör hans hefðu bara verið til að svara einhverju. Hann hefði ekki verið að vísa í neinn sérstakan mann og hefði búið til nafnið sem þar væri greint. Hann taldi að hugsanlega hefðu þeir meðákærði rætt þetta áður en skilaboðin hefðu verið send en mundi það þó ekki. Hann sagði engin samskipti hafa verið milli þeirra meðákærðu Z um þetta eftir sendingu skilaboðanna. Samskipti þeirra hefðu verið samskipti á milli vina en meðákærði hefði ekki verið að biðja hann um að nota starfið.

            Vegna ákæruliðar IV.b kvaðst ákærði hafa verið með þessi efni í skúffunni. Vinur hans hefði haft samband við hann þar sem hann hefði fundið þetta í herbergi sonar síns. Hann hefði tekið við þessu frá honum. Hann hefði átt að vera búinn að ganga frá þessu og skrá þetta í málaskrá lögreglu sem „fíkniefni fundin afhent“. Hann hefði sett þetta í skúffuna sína og læst henni þar sem hann hefði skyndilega þurft að fara í annað verkefni. Hann hefði svo gleymt að ganga frá þessu. Efnin hefðu verið þarna í um einn til tvo mánuði.

            Ákærði kvaðst hafa haft loftbyssurnar í ákærulið IV.c í skrifborðsskúffunni. Hann kvaðst ekki muna til þess að þær tengdust neinu af þeim málum sem hann hefði unnið í og hefðu líklega verið haldlagðar fyrir hans tíð í deildinni. Ýmsir munir sem hefðu verið haldlagðir í gegnum tíðina hefðu verið í deildinni. Hann vissi ekki af hverju þetta hefði verið þarna, en þær hefðu verið þarna lengi. Hugsanlega hefði hann notað þetta á fyrirlestrum eða námskeiðum. Allir í deildinni hefðu vitað af byssunum þarna. Venju samkvæmt hefði þetta átt að fara í munavörslu. Hann hefði ekki haldlagt þetta og ekki gert munaskýrslu um þetta. Þetta gæti hugsanlega hafi komið frá H í munavörslunni. Hann vissi ekki hvort hægt væri að finna út hvaðan loftbyssurnar kæmu en þær ættu örugglega að vera í munavörslunni.

            Ákærði Y kvaðst neita sök í I. og II. kafla ákærunnar en játa sök í V. og VI. kafla. Hann nýtti sér rétt sinn til þess að svara ekki frekari spurningum, en vísaði til framlagðrar yfirlýsingar sinnar og skýrslu hjá lögreglu. Í yfirlýsingu hans kemur fram að hann hafi lítið tjáð sig um málið þar sem hann telji að hann setji sjálfan sig og sína nánustu í mikla hættu með því. Honum hafi borist fjölmargar hótanir frá því að málið hafi komið upp. Hann lýsti því að ekkert hefði verið óeðlilegt við samband hans við ákærða X. Grunur hefði leikið á því að yfirmaður upplýsingadeildar hefði verið í mjög nánu samstarfi við stóran og þekktan aðila í undirheimum Reykjavíkur. Þessi grunur væri ekki eingöngu úr þeim heimi sem hann þekkti heldur líka hjá lögreglunni. Hann hefði ekki tekið það í mál að vera í samskiptum við lögregluna ef þau hefðu þurft að fara í gegnum þann lögreglumann. Hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að hann væri að brjóta lög um þagnarskyldu þegar hann hefði rætt við ákærða X og hefði aldrei hvatt hann til þess. Þeir hefðu einfaldlega verið vinir að tala saman. Hann skilji ekki hvernig hann hefði átt að gera sér grein fyrir því að hann væri að brjóta af sér þar sem hann hefði einungis verið að hlusta á ákærða X.

            Hann vísi algerlega á bug ákæruliðum sem snúi að spillingu, mútum og meintum greiðslum til ákærða X. Hann hefði ítrekað beðið ákærða X um að fá sér símtæki vegna samskipta þeirra þar sem hann hefði viljað að samskiptin færu leynt og öruggt væri að þau lækju ekki innan lögreglunnar. Ákærði X hefði ekki virst hafa af þessu miklar áhyggjur. Hann hefði því sjálfur keypt Nokia síma sem hefði kostað 3.000 krónur og síðar snjallsíma á 17.000 krónur, þar sem hægt væri að ræða saman á samskiptaforritinu Skype. Símarnir hefðu ekki á neinn hátt verið greiðsla til ákærða X. Ákærði X hefði aldrei fengið neinn pening frá honum á því tímabili er þeir hefðu verið í samskiptum. Grunur lögreglu um að ákærði X hefði látið hann vita af rannsókn á honum árið 2013 sé algerlega út í hött. Rannsóknin hefði einungis strandað á því að hann hefði séð lögreglumann sem hann hefði þekkt og vitað að starfaði í fíkniefnadeild á þessum tíma. Sú mynd sem lögreglan reyni að draga upp af honum í málinu sé ekki í samræmi við raunveruleikann. Það sé fjarri lagi að hann sé hátt settur aðili í undirheimum Íslands og sé með lögreglumann í vasanum. Hann ætli þó ekki að halda því fram að hann sé saklaus kórdrengur sem sé hér algerlega að ósekju. Líf hans hefði litast af vanda með fíkniefnaneyslu og afbrotum tengdu því að framfleyta sér í hörðum heimi fíkniefna. Hann sé nú gjaldþrota, eignalaus, heilsulaus og með langa sakaskrá vegna ýmissa smábrota sem muni fylgja honum um ókomna tíð. Hvorki fjárhagur hans né sakaskrá styðji að hann sé sá stórglæpamaður sem ákæruvaldið haldi fram.

            Ákærði Z kvað I hafa komið til sín og verið að leita að skýrslunni í ákærulið III fyrir annan mann. Hann hefði beðið hann um þann greiða að aðstoða sig við leitina. Rætt hefði verið um að sá sem vildi fá skýrsluna væri hugsanlega tilbúinn til að greiða fyrir hana. Ekki hefði verið talað um aðferð við leitina en ákærði hefði mátt nefna þetta við alla. Hann hefði ekki vitað hvers eðlis skýrslan væri en hefði fengið senda mynd af henni. Þá hefði hann ekki vitað hvar skýrsluna kynni að vera að finna eða hvort hún gæti verið í fórum lögreglu. Leitin hefði ekki skilað árangri. Ákærði kvaðst eiga marga kunningja innan lögreglunnar, meðal annars hefði hann þekkt menn hjá sérstökum saksóknara. Þeir meðákærði X væru vinir og hann hefði leitað til hans sem slíks. Hann hefði ekki vitað til hvaða manns meðákærði hefði verið að vísa í skilaboðunum til hans og vissi ekki hvers vegna hann hefði ítrekað skilaboð sín til hans. Hann hefði sjálfur ekki haft neina persónulega hagsmuni af þessu. Hann kvaðst einnig hafa leitað til nokkurra annarra, föður síns, systur, endurskoðanda og tveggja vinnufélaga sinna. Hann hefði ekki leitað til starfsmanna sérstaks saksóknara.

            Ákærði Z greindi frá því að hann hefði rekið öryggis- og akstursþjónustu. Nokkrir lögreglumenn hefðu starfað við akstur fyrir hann, meðal annars meðákærði X. Viðskiptavinir akstursþjónustunnar hefðu verið efnaðir og stundum greitt þjórfé sem hefði getað verið frá 10 til 1.000 dollarar.

            Vitnið C, fyrrverandi lögreglumaður, greindi frá því að ákærði Y, sem væri mágur hans, hefði komið til hans með upptöku af samtali til varðveislu. Hann hefði hlustað á samtalið. Nokkru síðar hefði hann rekist á fyrrum samstarfsmann sinn í lögreglunni, en sá hafi þá starfað í fíkniefnadeildinni. Hann hefði haft áhyggjur af málefnum innan deildarinnar og þeir hefðu farið að ræða þau. Meðal annars hefði komið fram að áhyggjur væru í deildinni af spillingu reynds lögreglumanns, yfirmanns upplýsingateymis, og undirskriftum hefði verið safnað vegna þessa. Vitnið hefði þá sagt honum frá upptökunni. Hann hefði stungið upp á því að þeir sneru sér til ríkissaksóknara. Þeir hefðu gert það og afhent upptökuna. Vitnið kvaðst hafa þekkt viðmælendur af upptökunni en hann hefði áður unnið með ákærða X.

            Vitnið F lögreglumaður kvaðst hafa tekið við stjórn deildar R2 eða fíkniefnadeildar í upphafi árs 2007 og stýrt henni þar til í mars 2014. Ákærði X hefði allan þann tíma starfað í deildinni. Deildin hefði skipst í tvær einingar, annars vegar götuhóp og hins vegar rannsóknarhóp. Hann hefði viljað bæta við einni einingu, upplýsingateymi eða höndlarateymi, í samræmi við framkvæmd í Evrópu. Hlutverk upplýsingateymisins væri að afla upplýsinga, vera í sambandi við upplýsingagjafa og vinna úr þeim upplýsingum gögn sem annaðhvort fari í götuhóp eða rannsóknarhóp. Ákveðinn lausagangur hefði verið á þessu þegar hann hefði komið að deildinni. Breytingarnar hefðu átt sér stað árið 2009 en nýjar reglur hefðu verið settar í þessum efnum árið 2011. Markmið þeirra væri meðal annars að tryggja öryggi upplýsingagjafans. Þrír til fjórir starfsmenn hefðu verið í upplýsingateyminu en nokkrir til viðbótar hefðu fengið sérstaka þjálfun til þess að vera í þessum samskiptum. Ákærði X hefði ekki verið þar á meðal en hann hefði allan tímann verið í rannsóknarhópnum. Þau samskipti hefðu lotið þessum reglum sem hefðu verið stöðug eða skipulögð. Umgjörð væri utan um hvern fund og lögreglumaður hitti upplýsingagjafann ekki einn. Lögreglumenn tækju á móti upplýsingum en ávallt væri metið hvort tilefni væri til frekara samstarfs ef einhver gæfi upplýsingar oftar en tvisvar sinnum. Þá fari þetta í ákveðið ferli og sé skráð. Samskiptin séu þannig að lögregla stjórni þeim og setji umgjörðina. Lögreglan geti afhent síma en það sé aldrei á hinn veginn. Það sé vel þekkt að menn vilji velja hvern þeir eigi í samskiptum við innan lögreglunnar. Það sé hins vegar lögreglan sem eigi að velja það. Hún verði að hafa fullkomna stjórn á þessum samskiptum. Ekki eigi að gefa upplýsingar um starfshætti deildarinnar eða hvort viðkomandi sé til rannsóknar. Þótt ákveðnar upplýsingar um lögreglumenn séu aðgengilegar sé reynt að veita þeim eins mikið skjól og hægt sé. Ákveðið forrit sem kallist N haldi utan um þessi skipulögðu samskipti og mjög fáir hafi aðgang að því. Alltaf sé gætt nafnleyndar um upplýsingagjafa en um fjórir til fimm starfsmenn viti um hvern sé að ræða og meðal þeirra sé yfirmaður upplýsingateymisins. Upplýsingar um eitt tiltekið skipti fari hins vegar inn í upplýsingakerfi sem kallist M.

            Vitnið kvaðst hafa vitað af samskiptum ákærða X við einhvern í máli D. Um stórt mál hefði verið að ræða. Því sambandi hefði svo átt að ljúka. Honum hefði ekki verið kunnugt um að ákærði ætti í sambandi við fastan upplýsingagjafa eftir það. Hann hefði rætt við ákærða eftir lok málsins. Hann hefði staðið sig vel en farið hefði verið yfir reglurnar um upplýsingagjöf og honum greint frá því að ef upplýsingasambandið yrði áframhaldandi yrði það að fara í annan farveg. Hann hefði ekki vitað um frekari samskipti. Hann kvað ákærða X hafa leitað eftir því að komast í upplýsingateymið að minnsta kosti einu sinni eða tvisvar. Hann hefði hins vegar ekki viljað gera þær breytingar og talið ákærða eiga að vera í rannsóknarhópnum.

            Vitnið staðfesti að hann hefði veitt upplýsingar sem fram komi í bréfi lögreglu sem byggist á mánaðarskýrslum hans og bókunum frá starfsmannafundum. Hann kvað nýjar reglur um upplýsingasambönd hafa verið kynntar öllum starfsmönnum ítarlega. Ekki hefðu allir verið sáttir við breytingarnar. Þá hefði yfirmaður upplýsingateymisins verið umdeildur. Jafnframt hefðu allir þekkt reglur um eyðingu fíkniefna og unnið eftir þeim. Vitnið staðfesti að starfsmenn deildarinnar hefðu oft verið kallaðir út til annarra verkefna. Ákveðnar reglur giltu einnig um meðferð skotvopna. Þá hefðu ákveðnir hlutir verið notaðir til kennslu og sýninga með heimild yfirstjórnar. Einhvers konar vopn hefðu getað verið til í deildinni sem trassað hefði verið að ganga frá. Hann kannaðist ekki við loftbyssurnar sem fundist hefðu hjá ákærða. Vitnið kvaðst ekki þekkja ákærða Y en kannast við nafn hans. Fíkniefnadeild hefði einhvern tíma haft hann til rannsóknar en rannsóknin hefði ekki gengið vel.

            Vitnið E lögreglumaður var yfirmaður ákærða X í rannsóknum í fíkniefnadeild. Ákærði hefði ekki verið í upplýsingateymi. Vitnið kvaðst vita hver ákærði Y væri. Hann kvaðst hafa vitað til þess að ákærði X hefði fengið upplýsingar frá einhverjum en hann hefði ekki vitað hvort um einn eða fleiri væri að ræða. Hann hefði sagt að sá aðili treysti ekki upplýsingateyminu. Hann kvaðst ekki muna hvenær þetta hefði verið en meðal annars hefði það verið í kringum mál D. Þetta hefðu verið einhver tilvik sem hann hefði nefnt að hann væri að fá upplýsingar. Hann hefði haldið að um einstakar upplýsingar væri að ræða en ekki fast upplýsingasamband og þetta færi því ekki gegn reglum um upplýsingasambönd. Hann kvaðst ekki muna eftir því að ákærði X hefði komið með upplýsingar sem gagnast hafi í rannsóknum eftir mál D en hann gæti ekki útilokað að svo hafi verið. Hann kvaðst hafa verið yfirmaður upplýsingateymisins síðastliðið ár. Í upplýsingasambandi mætti alls ekki gefa upplýsingar um starfsemi deildarinnar og skipulag umfram það sem kæmi fram í skipuriti. Þá stýrði lögreglan öllum samskiptum. Ekki væri heimilt að veita upplýsingar um samband við upplýsingagjafa.

            Vitnið kvað muni sem gerðir hafa verið upptækir eiga að skila sér í munavörslu fljótlega. Einhvern tíma hefði verið eitthvað um muni í deildinni sem hafi verið notaðir sem sýningargripir eða minjagripir. Ákærði X gæti hafa fengið muni til að fara með til sýninga. Hann hefði ekki vitað um loftbyssur í vörslum ákærða.

            Vitnið J lögreglumaður tók við sem yfirmaður fíkniefnadeildar í apríl 2014. Hún kvað þrjá aðila hafa verið í upplýsingateyminu. Þeir hefðu séð um að vera í sambandi við skráða upplýsingagjafa á grundvelli reglna ráðuneytisins. Hún hefði ekki orðið vör við að menn væru að öðru leyti í sambandi við upplýsingagjafa, en hún vissi til þess að það hefði tíðkast áður fyrr. Hafi það haldið áfram hafi það verið óheimilt. Ef einungis væri um að ræða eitt til fjögur skipti væru slík samskipti ekki skráð. Annars yrðu þau að fara í gegnum teymið. Hún kvað ákærða X hafa unnið í rannsóknardeild og ekki hafa verið í skráðu upplýsingasambandi. Menn hefðu yfirleitt bara verið í einni deild. Einhverjar undantekningar hefðu verið á því en slíkt hefði ekki þótt æskilegt. Ákærði X hefði ekki haft aðgang að upplýsingum úr N.

            Ákærði hefði einu sinni haft samband við hana, um vorið 2015, þar sem maður hefði haft samband við hann og leitað eftir því að veita upplýsingar. Ákveðið hefði verið að skoða það nánar og senda ákærða ásamt höndlara að hitta þann mann til að koma á samskiptum. Þeir hefðu verið að meta hvort þetta væri aðili sem þau vildu fá á skrá. Þeim hefði ekki litist vel á þann mann. Ákærði hefði sagt öðrum frá því að hann hefði verið í sambandi við manninn á Facebook. Hann hefði neitað því þegar hún hefði spurt. Áður hefðu þau fengið ávæning af því að hugsanlega væri maður, sem ekki væri upplýsingagjafi, að reyna að fá upplýsingar hjá ákærða X. Hún hefði spurt hann út í þetta og hann hefði sagt að þetta væri rétt. Hún hefði þá farið yfir reglurnar með honum. Ekki hefði verið um ákærða Y að ræða. Hann hefði ekki verið til rannsóknar í deildinni meðan hún hefði verið þar.

            Hún kvaðst kannast við kergju í deildinni en menn hefðu verið ósáttir við að strangt væri tekið á reglum um fast upplýsingasamband. Slíkt verði í öllum tilvikum að tilkynna yfirmanni. Það sé andstætt reglum að taka við síma frá upplýsingagjafa. Lögregla eigi að afhenda símann. Um ódýra síma væri að ræða sem væru einungis notaðir til þess að vera í upplýsingasambandi. Aldrei megi gefa upplýsingar á móti í samskiptum við upplýsingagjafa og alls ekki gefa upplýsingar um innra starf lögreglunnar fyrir utan það sem sé opinbert eins og skipurit. Þá megi ekki gefa upplýsingar um hvaða mál séu til rannsóknar.

            Vitnið kvaðst þekkja ágreining sem hefði verið í deildinni. Hann hefði meðal annars verið vegna óánægju með reglur um upplýsingasambönd. Hún hefði vitað um undirskriftalista vegna yfirmanns upplýsingateymis, en hún hefði ekki séð hann. Einhverjir hefðu talað um að eitthvað óeðlilegt væri í gangi og talað um upplýsingaleka í því sambandi. Málið hefði verið rannsakað hjá héraðssaksóknara en verið fellt niður. Það hefði verið talið byggjast á sögusögnum. Hún lýsti því að hún, yfirmaður upplýsingateymisins og einn annar starfsmaður hefðu ávallt vitað um upplýsingagjafa. Það hefðu verið um fimm starfsmenn sem hefðu fengið upplýsingar um hann. Skýrt væri að upplýsingagjafinn mætti ekki stýra ferðinni. Mjög algengt væri að menn segðust bara vilja tala við einn lögreglumann, en ekki væri hlustað á það. Upplýsingagjafinn mætti ekki stýra ferðinni. Lögreglumaður geti ekki leyst slíkt mál með því að fara fram hjá reglunum og gera þetta eftir sínu höfði.

            Vitnið K lögreglumaður kvaðst hafa starfað sem lögreglumaður frá árinu 2005 og hefði verið í fíkniefnadeild í sex ár, þar af fjögur ár í upplýsingateymi ásamt rannsóknardeild. Hann kvaðst muna eftir hlutum sem hefðu verið haldlagðir og notaðir sem sýningargripir í deildinni, meðal annars einhvers konar vopnum. Hann mundi til þess að ákærði X hefði farið með honum að halda fræðsluerindi, en mundi ekki til þess að hann hefði tekið með vopn. Hann mundi ekki til þess að slíkir munir hefðu verið notaðir til sýninga utanhúss nema í lögregluskólanum. Hann kvaðst vita hver ákærði Y væri, en hann hefði verið til rannsóknar í deildinni árið 2013. Hann mundi eftir skyggingu á honum sem hefði eyðilagst en hann vissi ekki hvers vegna. Hann vissi þó að ákærði hefði séð lögreglumann sem hann kannaðist við. Vitnið kvaðst hafa tekið að sér akstur með frægt fólk en hann hefði sjálfur aldrei fengið þjórfé. Hann hefði þó heyrt að einhverjir aðrir hefðu fengið það.

            Vitnið L, fyrrverandi lögreglumaður, kvaðst hafa starfað í fíkniefnadeild frá 2006 til 2013. Hann sagði oft leitað til lögreglumanna í deildinni með upplýsingar. Hægt væri að óska eftir nafnleynd. Þá yrði að meta áreiðanleika þeirra. Móttaka upplýsinga hefði farið í fastari skorður þegar höndlarateymið hefði verið stofnað. Það hafi þá séð um upplýsingagjafa. Áður hefði verið til staðar sérstök upplýsinga- og eftirlitsdeild. Menn hafi þá komið upplýsingum áfram til viðkomandi deilda. Ýmsir hefðu verið ósáttir við breytingarnar þar sem þeir hefðu verið í sambandi við upplýsingagjafa áður. Þeir hefðu til dæmis haft áhyggjur af því að upplýsingargjafar yrðu ekki lengur tilbúnir til að veita upplýsingar. Til hefðu verið einhverjar verklagsreglur um hvort ætti að upplýsa yfirmenn um sambönd við upplýsingagjafa. Hann hefði sjálfur gert það. Vitnið kvað ýmsa muni hafa verið í deildinni, meðal annars hefði þar verið að finna „wall of fame“. Þetta hefði verið til sýnis en starfsmenn hefðu ekki tekið þetta heim. Einhverjir starfsmenn hefðu verið með vopn, meðal annars skotvopn, en ekki væri um virk vopn að ræða. Hann kvaðst muna eftir einni loftbyssu sem hefði verið í hillu fyrir aftan skrifborð ákærða X. Hann hefði ekki borið ábyrgð á því að ganga frá þessum vopnum umfram aðra. Vitnið kvaðst starfa við lúxusakstursþjónustu í dag. Hann kvað oft greitt þjórfé og stundum væri það hátt.

            Vitnið P lögreglustjóri kvað þær breytingar hafa verið gerðar að fíkniefnadeild væri ekki lengur til hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu heldur væru slík mál rannsökuð ásamt öðrum málum í miðlægum deildum. Hún kvaðst kannast við sviptingar sem hefðu orðið í fíkniefnadeild. Ásakanir hefðu komið fram á hendur yfirmanni upplýsingadeildar og kvartað hefði verið undan stjórn deildarinnar. Óttast hefði verið að upplýsingar kæmust ekki til skila vegna þessa, en ábendingar um það hefðu borist frá ríkislögreglustjóra. Almennt væri hægt að leita til lögreglunnar með upplýsingar en sérstakar reglur innanríkisráðuneytisins giltu um upplýsingagjafa. Ákveðin skilyrði þurfi að vera uppfyllt fyrir slíku sambandi, meðal annars þurfi að vera um ábyggilegan aðila að ræða sem hafi ekki annarlega hagsmuni. Lögreglan hafnaði því ekki að fá upplýsingar en svona samband væri annars eðlis. Vitnið kvaðst hafa heyrt að það hefði tíðkast að vopn hefði verið að finna innan deildarinnar, en hún þekkti þó ekki til þess sjálf.

            Vitnið B lögreglumaður kvaðst hafa starfað í upplýsingateymi fíkniefnadeildar. Hann kvaðst ekki vita til þess að ákærði X hefði haft aðgang að N eða fengið upplýsingar úr þeim grunni. Hann ætti ekki að hafa fengið þær. Vitnið kvaðst hafa farið í utanlandsferð til [...] ásamt ákærða til þess að hitta mann í því skyni að fá upplýsingar. Hann kannaðist ekki við upplýsingar um ákærða Y. Sérstaklega spurður kvað vitnið það rétt [...].

            Vitnið H, fyrrum lögreglumaður, kvaðst hafa farið á eftirlaun árið 2012. Hann kvaðst ekki hafa séð um munavörslu en hann hefði skráð þá hluti sem hefðu verið notaðir til kennslu. Hann kvaðst ekkert vita um byssurnar sem fundist hefðu hjá ákærða X en hann taldi að einungis eftirlíkingar hefðu verið á listanum yfir kennslumunina.

            Vitnið Q var starfsmaður munavörslu frá október 2006 til ársloka 2007. Hún kvaðst hafa tekið á móti munum og fíkniefnum frá lögreglumönnum. Hún kvað lögreglumenn stundum hafa sótt muni en ekkert eftirlit hefði verið með því hvort mununum hefði verið skilað aftur eða hve lengi þeir hefðu þá. Slíkir munir hefðu stundum legið á borðum lögreglumanna eða annars staðar í deildunum. Hún kvaðst muna eftir ákærða X en vissi ekkert um loftbyssurnar.

            Vitnið I kvað breskan félaga sinn hafa spurt sig hvort möguleiki væri á að afla tiltekinnar skýrslu. Af þessum sökum hefði hann spurst fyrir hjá nokkrum mönnum, meðal annars ákærða Z, sem væri félagi hans og bæði vel tengdur og bóngóður. Hann kvað enga peninga hafa verið nefnda í þessu sambandi og hann hefði ekki ýtt á eftir þessu. Þá kvaðst vitnið einnig hafa sinnt gæslu á tónleikum og séð um akstur í tengslum við það. Vitnið kvaðst þekkja til ákærða X en hann hefði aðstoðað við akstur í tengslum við komu tiltekinnar hljómsveitar til landsins. Vitnið staðfesti að viðskiptavinir akstursþjónustunnar greiddu stundum þjórfé.

            Vitnið R lögreglumaður kvaðst ekki hafa unnið hjá ríkislögreglustjóranum í ágúst og september 2013. Hann hefði starfað í deild R2 hjá lögreglustjóranum í Reykjavík en færst til sérstaks saksóknara árið 2009. Hann hefði verið þar með hléum til apríl 2013. Hann hefði svo byrjað aftur um mánaðamótin september/október 2013. Hann kvaðst þekkja bæði ákærðu X og Z. Hann kannaðist ekki við að haft hefði verið samband við hann vegna skýrslunnar í ákærulið III og vissi ekki hvar hana hefði verið að finna. Aðspurður kvaðst vitnið muna til þess að ýmsa haldlagða muni hefði verið að finna á ganginum í R2, meðal annars sverð.

            Vitnið S, fyrrverandi lögreglumaður, kvaðst hafa unnið hjá sérstökum saksóknara á þeim tíma sem um ræði. Hann kvaðst þekkja ákærðu X og Z. Ákærði X hefði ekki hafa haft samband við hann vegna þeirrar skýrslu sem um ræðir í ákærulið III. Hann rak ekki minni til að hafa séð skýrsluna.

            Vitnið T kvaðst hafa verið samstarfsmaður ákærða Z. Hann minnti að ákærði hefði spurt sig um skýrsluna í III lið ákærunnar. Þetta gæti hafa verið árið 2013 en erfitt væri að muna það nákvæmlega vegna þess hve langt væri um liðið. Hann taldi að ekki hefði verið talað neitt um laun fyrir þetta. Hann hefði ekki spurt hvers vegna hann þyrfti skýrsluna.

            Vitnið U kvað ákærða Z hafa leitað til sín munnlega um skýrsluna. Þetta hefði verið í september 2013 er þeir hefðu starfað saman hjá [...]. Hann kvaðst ekkert hafa vitað um skýrsluna og ekkert hafa gert til að leita hennar. Hann kvaðst hafa verið lögreglumaður í 22 ár og hefði meðal annars starfað hjá sérstökum saksóknara síðari hluta ársins 2011. Hann kvað ákærða aldrei hafa beðið hann um að nýta sér tengsl sín hjá lögreglunni.

            Vitnið V kvað ákærða X vera gamlan vin sinn. Hann hefði leitað til hans síðla hausts 2015, líklega í nóvember/desember, þar sem hann hefði fundið fíkniefni á heimili ættingja. Um hefði verið að ræða hvítt efni í poka, töflur og ampúlur. Hann hefði haft samband við ákærða og fengið ráðleggingar um hvað hann ætti að gera. Ákærði hefði viljað fá efnin til skoðunar og hann hefði hitt hann til að afhenda honum þau. Hann vissi ekki hvað hefði orðið um efnin eftir það.

            Vitnið Þ lögreglumaður kvaðst hafa haft yfirumsjón með rannsókn málsins að beiðni ríkissaksóknara. Upphaf hennar hefði verið hljóðupptaka sem hefði gefið til kynna að ekki væri allt með felldu. Upptakan hefði verið óskýr en unnið hefði verið að lagfæringu hennar. Farið hefði verið í húsleit á heimili og vinnustað þar sem hefðu fundist gögn sem skiptu máli. Lögregla hefði talið sig heyra á upptökunni að 100.000 krónur hefðu gengið á milli aðila þar sem talað væri um 100 kall á upptökunni. Rannsókn málsins hefði meðal annars beinst að þessu. Þetta hefði þó ekki komið nógu skýrt fram og hefði því ekki náð lengra. Tölvur, farsímar o.fl. frá ákærða X hefðu verið rannsökuð. Komið hefðu í ljós sms-samskipti við ákærða Z. Það hefði verið mat þeirra sem stýrðu rannsókninni að skoða þyrfti þetta nánar. Hann kvað rannsóknina ekki hafa leitt í ljós neitt sem tengdi skýrsluna við fíkniefnadeildina. Skoðað hefði verið hvort einhver Á innan lögreglunnar tengdist skýrslunni en ekkert hefði komið út úr því. Aðspurður kvað hann ekkert í rannsókninni hafa bent til þess að ákærði X ætti að nota vald sitt sem lögreglumaður til að afla þessarar skýrslu.

            Vitnið Æ lögreglumaður vann að rannsókn málsins. Hann kvað ríkissaksóknara hafa stjórnað rannsókninni og fengið til þess aðstoð ríkislögreglustjóra. Hann kvaðst ekki hafa komið að rannsókn á öðrum lögreglumanni sem rannsakaður hefði verið á sama tíma. Rannsóknin hefði byrjað í desember 2015 þegar hljóðupptaka hefði borist ríkissaksóknara. Ýmis hljóð hefðu verið á upptökunni sem reynt hefði verið að eyða með aðstoð hljóðsérfræðings sem norska lögreglan notaðist við. Í upphafi rannsóknarinnar hefði verið leitast við að finna út hver ræddi við ákærða X á upptökunni og í ljós hefði komið að um væri að ræða ákærða Y. Hann hefði verið talinn tengjast fíkniefnaheiminum. Upptakan hefði verið talið gefa tilefni til frekari rannsóknar. Lögregla hefði meðal annars talið koma fram á upptökunni 100.000 króna greiðsla og að ákveðinn aðili væri að gefa lögreglu upplýsingar. Ákærði X hefði verið handtekinn og gerð húsleit heima hjá honum. Talið hefði verið að upptakan gæfi tilefni til þess að farið væri yfir öll símasamskipti. Varðandi skýrsluna í ákærulið III kvað hann ekkert hafa bent til þess að skýrsluna hefði verið að finna hjá fíkniefnadeildinni. Þá hefðu þeir „Á“ sem hefðu komið til greina ekkert kannast við málið. Ekkert hefði komið fram hjá ákærðu um að ákærði Z hefði leitað til ákærða X og ætlast til þess að hann beitti valdi sínu sem lögreglumaður til að afla skýrslunnar, heldur að hann hafi leitað til hans þar sem hann þekkti marga.

            Vitnið Ö lögreglumaður kvaðst hafa starfað við rannsókn málsins. Hann kvaðst hafa verið viðstaddur skýrslutökur og rannsakað tölvu- og símagögn úr búnaði ákærðu. Hann útskýrði að samhæfingarskrá væri skrá vegna tengingar síma við geymslu í tölvu eða á skýi. Þarna visti tölvan afrit af öllum sms-um úr símanum. Um væri að ræða stillingaratriði í tölvunni. Starfsmaður héraðssaksóknara hefði afritað tölvuna fyrir þá og afhent þeim gögnin.

 

Niðurstaða

Ákæruliður I.a

            Í ákærulið I.a er ákærða X gefið að sök brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem lögreglumaður í deild R2, sem einnig var kölluð fíkniefnadeild, og ákærða Y gefin að sök hlutdeild í þeim brotum. Ákærðu neita báðir sök.

            Í málinu liggur fyrir upptaka af samskiptum milli ákærðu X og Y og endurrit af samtalinu. Ákærði Y tók samtalið upp og er ekki dregið í efa hverjir ræða þar saman. Ákærða X er gefið að sök að hafa í þessu samtali brotið gegn þagnarskyldu sinni með því að hafa upplýst ákærða Y um að hann hefði ekki heyrt minnst á hann í deildinni í einn og hálfan til tvo mánuði, með því að upplýsa að tiltekinn maður væri skráður upplýsingagjafi og að hann væri í upplýsingasambandi við tiltekinn lögreglumann, auk þess að hafa veitt upplýsingar um innra skipulag og málefni deildarinnar ásamt nöfnum lögreglumanna og hlutverki þeirra.

            Ákærði X ber því við að í framangreindu samtali hafi hann verið að fiska eftir upplýsingum með því að segja sem minnst og jafnvel að segja ósatt. Þá hefur hann bent á að ýmsar upplýsingar um starfsemi deildarinnar hafi verið á allra vitorði.

            Í samtalinu greinir ákærði X frá ýmsum starfsmönnum deildarinnar og hvaða verkefni þeir hafi með höndum. Þá lýsir hann ágreiningi og hugsanlegum skipulagsbreytingum. Fyrir liggur að upplýsingar um ágreining innan deildarinnar voru til umfjöllunar í fjölmiðlum. Þá er ekki erfitt að komast að því hvaða lögreglumenn starfi í deildinni. Þær upplýsingar sem ákærði veitti voru hins vegar talsvert umfram þær upplýsingar sem eru opinberar. Ákærði X greindi einnig frá því, spurður af ákærða Y, að hann hefði ekki heyrt minnst á hann lengi eða í einn og hálfan til tvo mánuði. Þá svarar ákærði X ákærða Y því til að hann viti um upplýsingagjafa sem hann nafngreinir, þrátt fyrir að hann hafi ekki upplýsingar úr kerfum sem halda utan um þær upplýsingar. Hann tilgreinir einnig lögreglumann sem sé í samskiptum við þennan upplýsingagjafa. Dómari hefur hlustað á upptökuna og telur ekki fara milli mála hvern ákærði X nefnir og að hann geri það að fyrra bragði. Ákærði neitaði því ekki fyrir dóminum að hafa nefnt þennan mann. Vitnið B greindi frá því að hann væri sá lögreglumaður sem ákærði nefnir í samtalinu og [...]. Samkvæmt framangreindu er sannað að ákærði X gaf ákærða Y upplýsingar sem brutu gegn þagnarskyldu hans sem lögreglumanns. Háttsemi ákærða varðar við 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga.

            Framangreint samtal var tekið upp af ákærði Y. Hann leiddi samtalið og hvatti ákærða X til þess að veita upplýsingar um málefni sem honum gat ekki dulist að ákærði X væri bundinn þagnarskyldu um. Hefur hann með háttsemi sinni því gerst sekur um hlutdeild í framangreindu broti ákærða X og varðar brot hans við 1. mgr. 136. gr., sbr. 22. gr., almennra hegningarlaga.

 

Ákæruliður I.b

            Í framangreindum ákærulið er ákærða X gefið að sök að hafa frá árinu 2013 til ársloka 2015 upplýst ákærða Y ítrekað um skráningar á upplýsingum varðandi hann í upplýsingakerfi lögreglu, M, og ákærða Y gefin að sök hlutdeild í þeim brotum. Meðal gagna málsins eru skýrslur um framangreint upplýsingakerfi. Þar kemur fram að eingöngu eru vistaðar upplýsingar um inn- og útskráningar úr kerfinu og nær sú skráning aftur til miðs árs 2014. Þá liggja ekki fyrir gögn sem staðfesta samskipti milli ákærðu eftir september 2015.

            Eins og fram kom hér að framan, í niðurstöðu um ákærulið I.a gaf ákærði X meðákærða Y, í samtalinu sem þar greinir, upplýsingar um að hann hefði ekki heyrt minnst á hann í einn og hálfan til tvo mánuði. Ákærði lýsti því jafnframt fyrir dóminum að hann hefði sagt meðákærða Y frá því ef nafn hans hefði komið upp í umræðunni. Hann kvað upplýsingarnar ekki alltaf hafa verið réttar og ekki mjög nákvæmar. Í skýrslutöku hjá lögreglu 7. janúar 2016 skýrði ákærði X frá því að hann hefði látið meðákærða Y vita ef komið hefðu upplýsingar um hann inn í M í skiptum fyrir upplýsingar frá honum. Eftir á að hyggja gerði hann sér grein fyrir því að meðákærði hefði verið að veiða hann í að láta sig fá þær upplýsingar. Í framangreindu samtali ákærðu leitar ákærði Y eftir upplýsingum frá ákærða X um hvort einhver mál tengd honum hafi komið inn. Er sannað að ákærðu hafi gerst sekir um það sem þeim er gefið að sök í þessum ákærulið, að teknu tilliti til þess sem greint er um tímasetningar, og er háttsemi þeirra þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

Ákæruliður II.a

            Í ákærulið II.a er ákærða X gefið að sök að hafa, þegar ákærðu áttu samtal það sem greint er frá í ákærulið I.a, látið meðákærða Y lofa sér og tekið við frá honum Nokia 130 síma og í lok mars 2015 eða síðar móttekið Samsung Galaxy fame síma frá honum, í tengslum við starf hans sem lögreglumaður. Þá er ákærða Y gefið að sök að hafa lofað, gefið og boðið umræddar gjafir eða ávinning í tengslum við starf ákærða X sem opinbers starfsmanns og sem lið í samskiptum þeirra.

            Ákærðu neita sök í þessum ákærulið. Ákærði X hefur viðurkennt að hafa tekið við framangreindum símum af meðákærða Y í því skyni að eiga samskipti við hann. Hann telur hins vegar að ekki hafi verið um gjafir eða ávinning að ræða. Ákærði Y hefur einnig staðfest að hafa látið ákærða X hafa símana til samskipta við hann, en ber því við að þeir hafi verið mjög ódýrir og í þeim hafi ekki falist nein greiðsla.

            Samkvæmt 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga skal opinber starfsmaður, alþingismaður eða gerðarmaður sem heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, sæta refsingu.

            Ákærðu hafa báðir greint frá því að afhending símanna hafi verið í tengslum við starf ákærða X og þeir hafi notað þá til samskipta. Ekki verður séð að ákærði X hafi látið ákærða Y lofa sér síma, heldur virðist af samskiptum ákærðu sem ákærði Y hafi komið með símann án hans vitundar. Hann tók hins vegar við báðum símunum. Er ekki hægt að líta öðruvísi á en að hann hafi með þessu tekið við ávinningi sem hann hafi ekki átt tilkall til. Verðmæti símanna skiptir ekki máli í þessu sambandi. Framangreind háttsemi ákærða X er rétt heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.

            Ákærða Y er gefið að sök að hafa með framangreindri háttsemi brotið gegn 1. mgr. 109. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því ákvæði skal hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, alþingismanni eða gerðarmanni gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans, sæta refsingu. Framangreind afhending ákærða Y á símunum var í því skyni að fá ákærða X til þess að vera í upplýsingasambandi við sig og var um einhvers konar ávinning að ræða. Hefur hann því gerst sekur um brot á framangreindu ákvæði.

 

Ákæruliður II.b

            Í þessum ákærulið er ákærða X gefið að sök brot gegn 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga með því að heimta í sms-skilaboðum 14. ágúst 2012, í tengslum við framkvæmd starfa hans, peninga af meðákærða Y.

            Framangreind skilaboð sem ákærði X sendi ákærða Y þennan dag eru svohljóðandi: „Þarf að heyra í þér sem fyrst. Þarf ekki stóra upphæð í dag en þó eitthvað smá helst fyrir kl. 4.“ Ákærði segir þessi skilaboð hafa snúist um það að hann væri að reyna að fá frá honum upplýsingar, hugsanlega hefði verið um að ræða upplýsingar um peninga. Með hliðsjón af orðalagið skilaboðanna þykja skýringar ákærða ótrúverðugar. Ákærði Y hefur ekki gefið neinar skýringar á skilaboðunum en kveður engin fjárhagsleg tengsl hafa verið á milli þeirra. Dómurinn telur ekki hægt að skilja framangreind skilaboð á annan veg en að þarna fari ákærði X fram á greiðslu frá ákærða Y. Þá verður orðalag 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga, um að heimta, talið ná til þess að farið sé fram á greiðsluna. Er því sannað að ákærði X hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum lið ákærunnar.

 

Ákæruliður III

            Í III. lið ákærunnar er ákærðu X og Z gefin að sök spilling með því að hafa verið í sms-samskiptum þar sem ákærði X lét meðákærða Z lofa sér, í sambandi við framkvæmd starfa hans sem lögreglumaður, peningagreiðslu og tveimur flugmiðum gegn því að ákærði X útvegaði ákærða Z tiltekna skýrslu og ákærða Z er gefið að sök að hafa lofað og boðið ákærða X framangreindar gjafir eða ávinning í tengslum við starf hans sem opinber starfsmaður. Eru framangreind brot talin varða við 1. mgr. 128. gr. og 1. mgr. 109. gr. almennra hegningarlaga sem gerð var grein fyrir hér að framan.

            Þann 27. ágúst 2013 sendi ákærði Z skilaboð til meðákærða X sem eru svohljóðandi: „Hefur tú nokkuð nád ad kíkja eitthvad á skýrslurnar sem mig langar í;)“ Þann 31. sama mánaðar sendi hann: „Ég skal gefa ter 2 flugmida með wow air ef skýrslurnar finnast;)“ Hann sendi á ný skilaboð 14. september: „Fyrir 500 túsund heldur tu ad tad se ekki hægt ad finna skýrsluna fyrir tad?“ Þessu svaraði ákærði X samdægurs: „Það ætla ég að vona, ég kem heim seinnipart á þriðjudag.“ Fjórum dögum síðar sendi hann: „Tala við Á á morgun, er búinn að sá fræjum um peninga þannig ég ætti að geta svarað á morgun hvort ég get reddað þessu :)“ Ákærði Z þakkaði fyrir en engin fleiri samskipti fundust um þetta.

            Ákærðu neita báðir sök. Ákærði Z kvaðst hafa leitað til meðákærða X sem vinar síns, auk þess að leita til nokkurra annarra, en hann hefði ekki haft hugmynd um hvar skýrsluna væri að finna. Ákærði X taldi að meðákærði Z hefði ekki verið að óska þess að hann nýtti sér starf sitt við leit að skýrslunni enda hefði hann ekkert vitað hvar þessa skýrslu kynni að vera að finna.

            Fram kemur í gögnum málsins að skýrsluna sem ákærði Z leitaði eftir var að finna hjá embætti sérstaks saksóknara. Ákærði X starfaði í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ákærða Z var kunnugt um það. Ekkert hefur komið fram um að ákærða X hefði verið kunnugt um hvar skýrslan var niðurkomin. Þá hafa þeir „Á“ sem taldir voru koma til greina, sem maðurinn sem ákærði X nefnir í skilaboðum sínum, ekkert kannast við málið. Lögreglumenn sem komu að rannsókninni töldu ekkert hafa komið fram sem benti til þess að ákærði X hefði átt að nýta sambönd sín hjá lögreglunni til að finna skýrsluna.

            Það er ekki skilyrði samkvæmt 1. mgr. 109. gr. og 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga að gjöf eða ávinningur sem um ræði hafi komið til, hins vegar þarf ávinningurinn að tengjast framkvæmd opinbers starfs viðkomandi. Ákærðu X og Z hafa báðir greint frá löngu vinasambandi þeirra í milli og töldu þeir báðir að fyrirspurnin um skýrsluna hefði einungis verið vegna þeirra vinatengsla. Fyrir dóminn komu tveir aðilar sem báru um að ákærði Z hefði leitað til sín um sama efni vegna vinatengsla. Ekkert kemur fram í gögnum málsins eða framburði fyrir dómi um að ákærði X hafi nýtt sér starf sitt eða hafi átt að nýta sér það til þess að afla framangreindrar skýrslu. Er ekki sannað að ávinningi hafi verið lofað í sambandi við framkvæmd starfa ákærða X sem lögreglumanns. Framangreint skilyrði ákvæðisins er því ekki uppfyllt og verða ákærðu X og Z sýknaðir af þessum ákærulið.

 

Ákæruliður IV.a

            Í ákærulið IV.a er ákærða X gefið að sök að hafa árin 2011 til 2015 í stöðu sinni sem lögreglumaður ekki gætt lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, þegar hann var í upplýsingasambandi við meðákærða Y, án vitundar yfirmanna sinna og í andstöðu við III. kafla reglna innanríkisráðherra um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála frá 20. maí 2011 og reglur ríkissaksóknara um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa við rannsókn sakamáls, RS:3/1999 frá 1. júlí 1999. Er þetta talið varða við 132. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir að ef opinber starfsmaður, sem getið er í 130. til 131. gr. laganna, gæti ekki, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, hald, leit, fangelsan eða framkvæmd refsingar, eða við beitingu annarra áþekkra úrræða, skuli hann sæta refsingu.

            Fram hefur komið að reglur ríkissaksóknara misstu gildi sitt við gildistöku reglna innanríkisráðherra, sem einnig hafa verið gefnar út sem reglugerð nr. 516/2011. Framangreindar reglur voru ítarlega kynntar starfsmönnum fíkniefnadeildar. Í III. kafla reglnanna er fjallað um uppljóstrara. Samkvæmt þeim er uppljóstrari skilgreindur sem einstaklingur sem gefur lögreglu upplýsingar um afbrot eða menn sem tengjast brotastarfsemi og getur ætlast til nafnleyndar. Gerður er greinarmunur á uppljóstrara, þ.e. annars vegar þeim sem er í föstu upplýsingasambandi við lögreglu og hins vegar uppljóstrara sem gefur lögreglu upplýsingar án þess að til eiginlegs upplýsingasambands sé stofnað. Ef um fast upplýsingasamband er að ræða er það tvíhliða og undir umsjón og eftirliti yfirmanns lögreglu. Markmiðið með upplýsingasambandi er að fyrirbyggja brotastarfsemi, upplýsa um afbrot og tryggja öryggi uppljóstrara og lögreglumanna, vitneskju yfirmanna, ábyrgð og eftirlit. Samkvæmt gögnum málsins og framburði ákærða X átti hann í upplýsingasambandi við ákærða Y árin 2011 til 2015. Hann gerði yfirmönnum sínum ekki grein fyrir þessu sambandi og laut það því ekki umsjón og eftirliti yfirmanns.

            Í 10. gr. reglnanna er fjallað um stofnun og slit upplýsingasambands og í 11. gr. um skráningu upplýsingasambands. Þá er gerð grein fyrir meginreglum um samskiptin í 12. gr. og nánar fjallað um eftirlit í 13. gr. Ákærði sneiddi algerlega hjá öllum þessum reglum. Hefur hann því brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt framangreindum reglum innanríkisráðherra og varðar háttsemi hans við 132. gr. almennra hegningarlaga.

 

Ákæruliður IV.b

            Í þessum lið ákærunnar er ákærða X gefin að sök stórfelld og ítrekuð vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, með því að varðveita nánar tilgreind efni í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum um eins til tveggja mánaða skeið.

            Ákærði neitar sök, en hann hefur borið að hann hafi fengið efnin hjá vini sínum og ætlað að ganga réttilega frá þeim í samræmi við reglur þar um, en hann hefði skyndilega þurft að fara út, látið efnin ofan í skúffu og gleymt þeim. Samkvæmt framangreindu var ákærða ljóst að háttsemi hans var ekki í samræmi við reglur um haldlagningu, skráningu, meðferð og eyðingu fíkniefna og annarra haldlagðra efna. Hann staðfesti að efnin hefðu verið í skúffu hans þann tíma sem tilgreindur er í ákæru og hefur vitni staðfest að hafa afhent honum efnin um það leyti. Þótt ákærði geti hafa þurft að hverfa frá eftir viðtöku efnanna og skilja þau eftir í skúffu sinni getur það ekki réttlætt það hirðuleysi að skilja þau eftir þar til lengri tíma. Verður því að sakfella ákærða samkvæmt þessum ákærulið og varðar brot hans við 141. gr. almennra hegningarlaga.

 

Ákæruliður IV.c

            Í þessum ákærulið er ákærða X gefið að sök að hafa gerst sekur um stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, með því að hafa varðveitt tvær loftskammbyssur í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum. Ákærði neitar sök. Hann vísaði til þess að fleiri haldlagða muni hefði verið að finna í deildinni en hugsanlega hefðu þessi vopn verið notuð til kennslu eða sýninga. Fyrir liggur að loftskammbyssurnar hefði átt að varðveita í geymslu fyrir haldlagða muni.

            Þótt eitthvað hafi verið um að haldlagðir munir hafi verið í fíkniefnadeild sem minja- eða sýningargripir gerir það þá háttsemi ákærða að geyma haldlagt skotvopn í skrifborðskúffu sinni ekki refsilausa. Ákærði gat ekki gefið neinar skýringar á því hvaða máli vopnin tengdust. Telst ákærði því með þessu hafa gerst sekur um brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga.

 

Ákæruliðir V. og VI.

            Ákærði Y hefur játað sök í þessum liðum ákærunnar. Játning hans er studd sakargögnum. Verður hann sakfelldur fyrir þau brot sem þar eru tilgreind og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

 

Refsing og sakarkostnaður

            Ákærði X er fæddur í [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Hann hefur í málinu verið sakfelldur fyrir mörg brot í opinberu starfi sem þó eru misalvarleg. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði brást því trausti sem honum var falið með starfi sínu sem lögreglumaður. Þá voru brotin framin yfir nokkurra ára skeið. Við vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða X hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

            Ákærði Y er fæddur í [...]. Hann á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2001. Er þar einkum um að ræða brot gegn umferðar-, fíkniefna- og vopnalögum. Við ákvörðun refsingar verður litið til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða Y hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði.

            Ákærði Z hefur verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk þau fíkniefni sem um getur í ákærulið IV.b; 1,18 grömm af amfetamíni og V. lið ákæru; 18,06 grömm af amfetamíni, 1,77 grömm af hassi og 0,96 grömm af kókaíni. Þá eru gerð upptæk sterar, sem um getur í ákærulið IV.b; 10 millilítrar af bodenón undexýlenat og 20 millilítrar af testósterón prípíónati, tvö skotvopn sem um getur í ákærulið IV.c; tvær loftskammbyssur og þau tvö skotvopn sem um getur í VI. lið ákærunnar; Brno haglabyssa með nr. 278838 og skammbyssa af gerðinni Ruger 22. cal.

            Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 3.958.080 krónur.

            Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 2.529.600 krónur, og málsvarnarlaun verjanda síns á rannsóknarstigi, Gríms Sigurðarsonar hrl., 1.585.650 krónur.

            Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Z, Eiríks Elísar Þorlákssonar hrl., 2.045.225 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

            Ákærðu X og Y greiði óskipt 3.398.556 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

            Dóm þennan kveður upp Barbara Björnsdóttir héraðsdómari.

 

                                                            D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 29. desember 2015 til 5. janúar 2016 kemur til frádráttar refsingu.

            Ákærði, Y, sæti fangelsi í 9 mánuði.

            Ákærði, Z, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

            Upptæk eru gerð 19,24 grömm af amfetamíni, 1,77 grömm af hassi, 0,96 grömm af kókaíni, 10 millilítrar af bodenón undexýlenat, 20 millilítrar af testósterón prípíónati, tvær loftskammbyssur, Brno haglabyssa með nr. 278838 og skammbyssa af gerðinni Ruger 22. cal.

            Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 3.958.080 krónur.

            Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 2.529.600 krónur, og málsvarnarlaun verjanda síns á rannsóknarstigi, Gríms Sigurðarsonar hrl., 1.585.650 krónur.

            Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Z, Eiríks Elísar Þorlákssonar hrl., 2.045.225 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

            Ákærðu X og Y greiði óskipt 3.398.556 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                                        Barbara Björnsdóttir