• Lykilorð:
  • Jafnrétti
  • Miskabætur
  • Rannsóknarregla
  • Skaðabætur
  • Stjórnsýsla
  • Stöðuveiting
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2017 í máli nr. E-2475/2016:

Gná Guðjónsdóttir

(Áslaug Árnadóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

 

Mál þetta er höfðað 31. ágúst 2016 og dómtekið 8. mars sl. Stefnandi er Gná Guðjónsdóttir, Rauðarárstíg 38, Reykjavík en stefndi íslenska ríkið.

            Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna setningar A, B og C í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í maí 2014. Einnig krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 17. ágúst 2015. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefna eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar. 

 

I

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

Atvik málsins eru ágreiningslaus um það sem máli skiptir við úrlausn þess. Þann 21. febrúar 2014 auglýsti innanríkisráðuneytið lausar til umsóknar þrjár stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna á löggæslusviði við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í auglýsingunni voru helstu verkefnum og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóna lýst og er sú lýsing í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglunnar. Þar kom fram að aðstoðaryfirlögregluþjónn væri yfirlögregluþjóni til aðstoðar og færi með stjórn og ábyrgð á deildum, svo og með tilteknum verkefnum sem honum væru falin og krefðust sérstakrar þekkingar, þjálfunar og/eða menntunar, þ. m. t. rannsókn mála og aðstoð við saksókn. Aðstoðaryfirlögregluþjónar hefðu einnig eftirlit með því að reglum og fyrirmælum væri framfylgt og að fjárhagslegur rekstur deilda eða eininga væri innan fjárheimilda. Í samræmi við starfsgengisskilyrði 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. mgr. 14. gr. framangreindrar reglugerðar var gerð krafa um að umsækjendur um stöðurnar hefðu starfað sem lögreglumenn í að minnsta kosti fimm ár frá því þeir luku prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Auk þessara almennu hæfisskilyrða var í auglýsingunni gerð grein fyrir þeim persónulegu eiginleikum sem umsækjendur þurftu til að bera. Var sérstaklega tilgreint að góð hæfni í mannlegum samskiptum væri nauðsynleg og að skipulagshæfileikar, frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum væru mikilvægir eiginleikar. Þá var sérstaklega tekið fram að leitað væri að einstaklingum með reynslu af störfum þar sem reynt hefði á þessa hæfileika. Þá var tekið fram í auglýsingunni að konur væru sérstaklega hvattar til þess að sækja um. Út frá þeirri forsendu að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fór með stjórnun þess embættis sem hinar lausu stöður tilheyrðu fól innanríkisráðherra lögreglustjóranum að meta hvaða hæfisskilyrði yrðu lögð til grundvallar við matið og þannig meta þá hæfileika sem hann teldi að best gögnuðust í umræddum stöðum. Áður en umsóknarfrestur rann út fól lögreglustjórinn þremur einstaklingum að skipa hæfnisnefnd, undirbúa ráðningarferlið og í framhaldinu starfa saman að því að leggja mat á hvaða einstaklingar kæmu helst til greina í stöðurnar. Þeir sem skipuðu hæfnisnefndina voru X, Y og Z lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en allir þessir nefndarmenn voru taldir hafa góða þekkingu á starfsemi embættisins, sem og á hlutverki og verkefnum stöðvarstjóra og þeim kröfum sem gerðar væru til stjórnenda í lögreglu.

Um stöðurnar þrjár bárust 51 umsókn, en þar af voru 11 umsækjendur konur. Af þeim sem sóttu um voru 25 umsækjendur taldir uppfylla hæfisskilyrðin sem sett voru fram í auglýsingu. Var þeim boðið í fyrsta starfsviðtal. Stefnandi var í hópi þeirra sem komust í fyrsta starfsviðtal, en auk hennar voru tvær aðrar konur boðaðar í það viðtal. Í ráðningaráætluninni sem hæfnisnefndarmennirnir settu saman var skilgreindur matsgrundvöllur og forsendur fyrir mati á hæfni og vali á umsækjendum sem helst kæmu til greina í stöðurnar þrjár. Í ráðningaráætluninni, sem unnin var í mars 2014, var að finna ítarlega lýsingu á forsendum fyrir vali á umsækjendum og voru forsendurnar byggðar á hlutverki aðstoðaryfirlögregluþjóns sem stöðvarstjóra.  Þá voru forsendur fyrir vali hæfnisnefndar á umsækjendum í fyrsta starfsviðtal að viðkomandi hefði að lágmarki eins árs samfellda reynslu af stjórnun fólks og skipti umfang stjórnunar máli, bæði verkefni og fjöldi starfsmanna. Þá taldi hæfisnefndin reynslu af stjórnun einstakra málaflokka eða rannsókna ekki vega jafn þungt. Þegar litið var til þessara atriða var það mat hæfnisnefndar að boða skyldi þá umsækjendur í fyrsta viðtal sem hefðu að minnsta kosti eins árs stjórnunarreynslu, próf frá Lögregluskólanum og hefðu starfað í lögreglu í fimm ár eða lengur. Fyrsta viðtali var ætlað að greina betur upplýsingar úr umsóknum umsækjenda um stjórnunarreynslu, tíma og umfang þeirrar reynslu, auk þekkingar og reynslu á sviði löggæslu. Í viðtalinu var stuðst við staðlaðan spurningalista og fengu allir umsækjendur í því viðtali sömu spurningar og sömu tækifæri til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Voru umsækjendum jafnframt gefin stig fyrir fyrirfram skilgreinda matsþætti samkvæmt sérstökum matskvarða. Stefnandi var ekki í hópi þeirra tíu umsækjenda sem hæfnismatsnefndin mat hæfasta að loknu fyrsta viðtali og komst því ekki áfram í ráðningarferlinu. Hlaut stefnandi 24 stig að loknu viðtalinu, en til þess að komast í annað viðtal þurfti umsækjandi að hljóta 29 stig. Voru tíu umsækjendur sem náðu þeim stigafjölda eða hærri, þar af ein kona. Ráðningarferlið samanstóð af tveimur viðtölum til viðbótar, ásamt úrlausn sem fólst í kynningu þeirra umsækjenda sem komust í síðari viðtöl.  Eftir viðtal númer tvö var fimm umsækjendum boðið í þriðja og síðasta viðtal, þann 5. maí 2014. Þann 26. maí 2014 setti innanríkisráðherra þá A, B og C í hinar auglýstu stöður.

Stefnandi óskaði eftir rökstuðningi innanríkisráðherra vegna setningar í stöðurnar. Með bréfi 3. júlí 2014 rökstuddi innanríkisráðherra stöðuveitingarnar. Kom þar meðal annars fram það mat ráðuneytisins að niðurstaða hæfnismatsnefndarinnar hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum með það að markmiði að finna hæfustu umsækjendurna til starfans. Þá kom einnig fram að ráðuneytið hefði ekki séð ástæðu til þess að gera athugasemdir við mat hæfnisnefndarinnar sem lagt hafði verið undir og samþykkt af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi kærði ákvörðun innanríkisráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála 2. janúar 2015. Þann 12. júní 2015 komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að innanríkisráðherra hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við setningu í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í maí 2014. Í úrskurði kærunefndarinnar sagði m.a.:  „[….] er ljóst að mat á að minnsta kosti fimm af sjö spurningum er beint var til umsækjenda var háð annmörkum að meira eða minna leyti. Telur nefndin að kærði hafi ekki metið hæfni kæranda til að gegna stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns á málefnalegum forsendum. Framangreindar athugasemdir kærunefndar við stigagjöf sýna að hæfni kæranda var að öllum líkindum vanmetin. Við þessar aðstæður telur kærunefnd að leiddar hafi verið líkur að því að kærði hafi mismunað kæranda og þykir kærði ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hennar hafi legið þar til grundvallar.“  Við meðferð málsins hjá kærunefndinni kom fram að ráðuneytið viðurkenndi að frammistöðu í viðtali hefði verið gefið of mikið vægi. Tekið var fram í úrskurðinum, að við meðferð málsins hjá kærunefndinni hafi innanríkisráðuneytið leiðrétt stigagjöf fyrir svör stefnanda við spurningum þannig að í stað fjögurra stiga fyrir svör við spurningu 3 um samstarf við hagsmunaaðila hefði borið að gefa fimm stig, í stað þriggja stiga fyrir spurningu 6 um stjórnunarreynslu hefði borið að gefa fjögur stig og fyrir spurningu 9 um rekstur og áætlanagerð hefði verið rétt að gefa fimm stig í stað fjögurra.Var því stigagjöfin leiðrétt þannig að bætt var þremur stigum við heildarfjölda stiga og fór hann því úr 24 stigum í 27 stig. 

Í júlí 2015 óskaði stefnandi eftir viðbrögðum stefnda við úrskurði kærunefndarinnar og viðræðum um skaðabætur. Í bréfi stefnda, 3. nóvember 2015, var ekki fallist á að skaðabótaskylda væri fyrir hendi án frekari sönnunargagna. Var kröfunni um skaðabætur því hafnað. Stefnandi sendi á ný bréf til stefnda, 30. desember 2015, þar sem krafa um viðbrögð við úrskurði kærunefndar jafnréttismála og krafa um skaðabætur voru ítrekaðar. Með bréfi stefnda, 8. apríl 2016, var kröfu um skaðabætur á ný hafnað.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dóminum. Auk þess komu fyrrum yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, X, Y og Z fyrir dóminn sem vitni.

 

II

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að gengið hafi verið framhjá sér við setningu í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í maí 2014. Hafi bæði verið formlegir og efnislegir annmarkar á setningu innanríkisráðherra í stöðurnar og annmarkarnir verið verulegir. Hafi stefnandi orðið fyrir verulegu fjártjóni og miska vegna þessa og krefjist hann þess að viðurkennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda. Þá krefjist stefnandi greiðslu miskabóta. Stefnandi byggi á því að með setningu A, B og B hafi hæfasti umsækjandinn um umræddar stöður ekki verið valinn. Því sé setningin í stöðurnar stjórnvaldsákvörðun sem grundvallist á ólögmætum sjónarmiðum að því er varði mat á hæfni umsækjenda. Stefnandi byggi í fyrsta lagi á því að hann telji sig ekki hafa notið sannmælis við einkunnagjöf hæfnisnefndar á grundvelli matskvarðans. Í öðru lagi sé á því byggt að hæfnisnefndin hafi breytt matskvarðanum eftir að viðtöl höfðu verið tekin og einkunnagjöf lá fyrir. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að spurningar og mat á svörum og einkunnagjöf hafi ekki alltaf verið í samræmi við hinn fyrirfram gefna matsskala. Að lokum telji stefnandi að umsækjendur hafi ekki setið við sama borð þegar lagt hafi verið mat á þá þætti sem tilgreindir voru í auglýsingunni.

Spurning 1 í spurningalista hæfnisnefndar í starfsviðtalinu, sem grundvallast hafi á matskvarða þeirra sem tekið hafi viðtalið, hafi lotið að almennri og sérstakri menntun sem nýttist í starfinu. Stefnandi vísi til þess að í lögum séu ekki gerðar neinar sérstakar hæfniskröfur til aðstoðaryfirlögregluþjóna aðrar en þær kröfur sem gerðar séu til lögreglumanna, en samkvæmt 4. mgr. 28. gr. laga nr. 90/1996 skuli hver sá sem skipaður sé til lögreglustarfa hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Um aðstoðaryfirlögregluþjóna sé fjallað í 6. gr. reglugerðar nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglunnar. Samkvæmt ákvæðinu felist verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóns í að vera yfirlögregluþjóni til aðstoðar, stjórna og bera ábyrgð á deildum svo og tilteknum verkefnum sem honum séu falin og krefjast sérstakrar þekkingar, þjálfunar og/eða menntunar, þ.m.t. rannsókn mála og aðstoð við saksókn auk eftirlits með að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur deilda eða eininga sé innan fjárheimilda. Stefnandi bendi á að í auglýsingu um starfið hafi aðeins verið gerð krafa um próf frá Lögregluskóla ríkisins og sérstaklega tekið fram að þeir sem yrðu settir í starfið myndu eiga þess kost að sækja stjórnendanám við Lögregluskóla ríkisins. Í ráðningaráætlun þeirri sem hæfnisnefnd setti fram hafi ekki verið fjallað um kröfur til menntunar, en í matskvarða hafi verið gert ráð fyrir hæstu einkunn ef umsækjandi hefði sinnt starfsþróun með símenntun á breiðu sviði sem nýttist mjög vel í starfinu.

Stefnandi telji sig hafa aflað sér meiri menntunar heldur en hinir þrír sem fengið hafi setningu í stöðurnar. Þannig hafi hún lokið samtals 92 eininga námi við háskóla, þar af 32 einingum í stjórnmálafræði og kynjafræði við Háskóla Íslands og 60 einingum í viðskiptafræði á stjórnunarlínu við Háskólann í Reykjavík og því lokið diplóma námi í viðskiptafræði og stjórnun. Þeir sem fengið hafi stöðurnar hafi ekki lokið öðru námi á háskólastigi en námskeiði fyrir stjórnendur í lögreglu við Lögregluskóla ríkisins, en það sé 23 eininga nám við Endurmenntun Háskóla Íslands. Þá hafi þeir ekki lokið öðru stjórnunarnámi. Stefnandi og þeir þrír umsækjendur sem fengið hafi stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna hefðu öll lokið fjölmörgum styttri námskeiðum tengdum störfum innan lögreglunnar. Þrátt fyrir þetta hafi það verið niðurstaða hæfnisnefndar að veita stefnanda fjögur stig fyrir þessa spurningu, A fimm stig, B 4,6 stig og C fjögur stig. Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem fylgt hafi með athugasemdum innanríkisráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála, hafi sagt að hæfnisnefndin hafi við mat sitt einkum horft til símenntunar á sviði löggæslu auk stjórnunarnáms í Lögregluskóla ríkisins. Jafnframt að stjórnunarnám Lögregluskólans væri eina námið sem sniðið væri að störfum stjórnenda í lögreglu og stæði það að því leyti framar stjórnunarnámi sem stefnandi hefði stundað. Þá kom fram í greinargerðinni að hæfnisnefndin teldi nám stefnanda á stjórnunarlínu í viðskiptafræði aðeins nýtast óbeint í starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns. Stefnandi telji rétt að geta þess að á árinu 2007 þegar stefnandi hafi starfað í lögreglunni hafi hún sótt um inngöngu í stjórnunarnám í Lögregluskólanum en verið sagt að ekki væri komið að henni að hljóta inngöngu. Námið hafi ekki verið í boði frá þeim tíma. Stefnandi geri alvarlega athugasemd við þetta mat nefndarinnar og telji ljóst að stjórnunarmenntun og menntun frá öðrum skólum en Lögregluskóla ríkisins geti nýst mjög vel í starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns, enda kærunefnd jafnréttismála gert athugasemd við stigagjöf stefnanda fyrir þessa spurningu og talið að hæfnisnefndin hefði ekki gætt málefnalegra sjónarmiða.

Ekki verði séð að stutt símenntunarnámskeið m.a. í atvinnuköfun, fallhlífarstökki og umgengni við þyrlur nýtist stjórnanda innan lögreglu betur en nám stefnanda á háskólastigi í mannauðsstjórnun. Stefnandi telji einnig verða að líta til þess að símenntunarnámskeið innan lögreglunnar séu yfirleitt frá hálfum degi upp í þriggja daga námskeið, en þau námskeið sem stefnandi hafi lokið við Háskólann í Reykjavík miðist við kennslu í 120 klukkustundir. Þá hafði stefnandi lokið þriggja mánaða námi hjá FBI þar sem hún hafi lært forvirkar rannsóknir á netinu. Þá sé vakin athygli á því að í greinargerð lögreglustjóra hafi verið vísað til þess að námskeið þau sem stefnandi hefði sótt á sviði löggæslu væru talin „nokkuð sérhæfð, tengdust einkum verkefnum hennar í alþjóðadeild RLS.“ Þegar ferilsskrár annarra umsækjenda séu skoðaðar verði ekki annað séð en að mörg námskeið á sviði löggæslu sem þeir hafi sótt hafi ekki síður verið sérhæfð, en ekki litið til þess við matið. Af framangreindu telji stefnandi ljóst vera að hún hafi aflað sér mun meiri menntunar á sviði stjórnunar en þeir sem settir hafi verið í stöðurnar og lokið mun fleiri einingum á háskólastigi í stjórnunarnámi en þeir. Miðað við stigagjöf þeirra sem fengu stöðurnar og matskvarða hæfnisnefndar verði að telja að stigagjöf fyrir þennan lið hafi verið röng og stefnandi átt að fá fleiri stig en þeir sem stöðurnar fengu.

Í spurningu 2 hafi verið spurt um reynslu af störfum sem varðstjóri/aðalvarðstjóri/við rannsóknir, með tilliti til tíma og umfangs. Í auglýsingu hafi verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu að minnsta kosti fimm ára starfsreynslu sem lögreglumenn. Þá hafi verið óskað eftir því að umsækjendur hefðu reynslu af störfum þar sem reynt hefði á skipulagshæfileika, frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum. Í matskvarða hæfnisnefndar hafi stigagjöf verið miðuð við lengd starfsreynslu sem varðstjóri, aðalvarðstjóri eða við rannsóknir. Af greinargerð lögreglustjóra megi hins vegar sjá að nefndin hafi ákveðið að víkja verulega frá matsskalanum og veita eingöngu stig fyrir reynslu af stjórnun með mannaforráð í umræddum stöðum. Rök fyrir þeirri breytingu, sem hafi verið gefin eftir á af nefndinni, hafi verið þau að reynsla í árum segði ekki endilega til um hæfni viðkomandi til að gegna umræddu starfi. Telji stefnandi því niðurstöðu hæfnisnefndar í algjöru ósamræmi við hin fyrirfram settu matsviðmið sem sé óviðunandi. Telji stefnandi það benda til þess að þau hafi verið sett til hliðar til að rökstyðja fyrirfram ákveðna niðurstöðu.

Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála hafi sagt um þessa spurningu að gögn málsins beri með sér að hæfnisnefnd hafi metið svör við spurningunni fyrst og fremst með tilliti til stjórnunarreynslu en ekki með tilliti til árafjölda við tiltekin störf eins og kvarðinn hafi gert ráð fyrir. Telji stefnandi að skilja megi úrskurð kærunefndar jafnréttismála þannig að nefndin telji að stefnandi hafi átt að fá fimm stig fyrir þennan lið í samræmi við hinn fyrirfram ákveðna matskvarða. Í skjali frá hæfnisnefnd um feril stefnanda og þeirra þriggja sem stöðuna fengu og greinargerð lögreglustjóra, sem fylgt hafi með athugasemdum innanríkisráðuneytisins, megi sjá að hæfnisnefndin hafi talið stefnanda hafa starfað í 11 ár sem stjórnanda án mannaforráða og í þrjú ár við stjórnun með mannaforráð í friðargæslu. Þá hafi nefndin talið A hafa starfað sem aðstoðarvarðstjóra í þrjú ár og í átta ár sem aðalvarðstjóra. Í samantekt í greinargerð lögreglustjóra segi að A hafi þriggja ára reynslu af stjórnun án mannaforráða en tíu ára reynslu í lögreglu af stjórnun með mannaforráð. Stefnandi telji að af gögnum málsins verði þó ekki ráðið að stjórnunarreynsla hans með mannaforráð í lögreglu sé svo mikil og sé sérstaklega vert að benda á starfslýsingu hans sem aðalvarðstjóra hjá ríkislögreglustjóra, en þar verði ekki séð að stöðunni fylgi mannaforráð. Þá hafi verið tiltekin fjögurra ára stjórnunarreynsla A úr friðargæslu. B hafi verið sagður hafa starfað í þrjú ár sem aðstoðarvarðstjóri, þrjú ár sem varðstjóri og níu ár sem aðalvarðstjóri. Af ferilsskrá hans verði þó ekki ráðið að hann hafi starfað lengur en í sjö ár sem aðalvarðstjóri. Í greinargerð lögreglustjóra hafi sagt að hann hafi starfað í fimm ár við stjórnun án mannaforráða og í sjö ár við stjórnun með mannaforráð. Stefnandi telji ljóst af þessu að þarna sé starf sem B hafi gegnt talið sem stjórnunarstarf með mannaforráð, en sambærilegt starf sem stefnandi hafi gegnt ekki talið sem stjórnunarstarf með mannaforráðum. C hafi starfað í eitt ár sem aðstoðarvarðstjóri, sjö ár sem rannsóknarlögreglumaður og í sjö ár sem lögreglufulltrúi. Í greinargerð lögreglustjóra hafi hann verið sagður hafa starfað í sex ár við stjórnun án mannaforráða og í sjö ár við stjórnun með mannaforráð. Fram komi í gögnum málsins að það sé mat hæfnisnefndarinnar að reynsla innan lögreglu vegi óumdeilt þyngra en reynsla innan friðargæslu, en sú niðurstaða ekki rökstudd frekar.

Samkvæmt reglugerð um starfsstig innan lögreglunnar séu starfsstigin níu. Sé ríkislögreglustjóri æðstur, næst komi í öðru starfsstigi aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins. Á þriðja starfsstigi séu aðstoðarlögreglustjórar við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og staðgenglar annarra lögreglustjóra. Á fjórða starfsstigi séu yfirlögregluþjónar. Aðstoðaryfirlögregluþjónar séu á fimmta starfsstigi. Aðalvarðstjórar og lögreglufulltrúar séu á sjötta starfsstigi, en fyrir neðan þá, á sjöunda starfsstigi, komi varðstjórar og rannsóknarlögreglumenn. Þar fyrir neðan komi lögreglumenn á áttunda starfsstigi og á níunda og neðsta starfsstiginu séu lögreglunemar, afleysingamenn í lögreglu og héraðslögreglumenn. Stefnandi telji að sé litið á ferilsskrá hennar sé ljóst að hún hafi haft 10,8 ára reynslu af starfi á sjötta starfsstigi. A hafi aðeins haft átta ára reynslu af starfi á sjötta starfsstigi, en að auki þriggja ára reynslu sem aðstoðarvarðstjóri, en það starfsstig sé ekki lengur til. B hafi starfað samtals í þrjú ár á sjöunda starfsstigi, auk þess sem hann hafi verið aðstoðarvarðstjóri í þrjú ár, og í níu ár á sjötta starfsstigi, en C í sjö ár á sjöunda starfsstigi, auk þess sem hann hafi verið aðstoðarvarðstjóri í eitt ár, en í sjö ár á sjötta starfsstigi. Stefnandi telji því ljóst að hann hafi haft lengri starfsreynslu en þeir sem fengu stöðuna á sjötta starfsstigi, sem sé næst fimmta starfsstigi sem aðstoðaryfirlögregluþjónar séu á. Verði því að telja ómálefnalegt að gefa stefnanda aðeins þrjú stig vegna reynslu af störfum sem varðstjóri, aðalvarðstjóri eða við rannsóknir, en miðað við matskvarðann telji stefnandi ljóst að hún hafi átt að fá fimm stig og sé það í samræmi við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. 

Í spurningu 3 hafi verið spurt um reynslu af samstarfi við hagsmunaaðila. Þrátt fyrir mjög umfangsmikla reynslu stefnanda af samstarfi við hagsmunaaðila, bæði úr starfi sínu sem lögreglufulltrúi og úr starfi við friðargæslu, hafi stefnandi aðeins fengið fjögur stig fyrir þennan þátt, einu stigi minna en A og B. Stefnandi telji að ef ferilsskrá stefnanda sé borin saman við ferilsskrár þeirra sem stöðurnar fengu megi sjá að reynsla stefnanda á þessu sviði sé mun yfirgripsmeiri en reynsla þeirra A, B og C og sýni einkunnagjöfin vel að stefnandi hafi ekki notið sannmælis við einkunnagjöf hæfninefndar á grundvelli matskvarðans. Við nánari skoðun hafi það einnig verið skoðun innanríkisráðuneytisins, en í bréfi ráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála 17. apríl 2015 hafi komið fram að ráðuneytið teldi að stefnandi hefði átt að fá fullt hús stiga fyrir þessa spurningu. 

Í spurningu 4 hafi verið spurt um tungumálaþekkingu. Í ráðningaráætlun hafi verið gert ráð fyrir því að spurning varðandi tungumálaþekkingu hefði jafn mikið vægi og aðrar spurningar sem settar voru fram í áætluninni við ráðningu í umræddar stöður. Í viðtölunum hafi verið spurt um tungumálaþekkingu og gefin stig fyrir spurninguna. Niðurstaða hæfnisnefndar hafi verið að veita stefnanda fimm stig fyrir spurninguna, en þeim sem stöðurnar fengu færri stig. Hins vegar hafi hæfnisnefndin ákveðið, eftir að viðtölum var lokið og niðurstaða þeirra lá fyrir, að fella þennan lið út og taka niðurstöður hans ekki með í heildarmat á umsækjendum. Sagði um þessa ákvörðun í greinargerð lögreglustjóra að nefndarmönnum hafi þótt viðeigandi að kanna þessa þekkingu þar sem einhver tungumálakunnátta væri gagnleg í störfum stöðvarstjóra eins og annarra lögreglumanna, en ekki hafi þótt rétt að horfa til hennar í mati þar sem hún hafi ekki verið hluti af hæfniskröfum. Ekki hafi verið færð fram nein frekari rök fyrir niðurfellingu spurningarinnar, en stefnandi telji ljóst að við mat á umsækjendum hafi verið horft til fjölmargra þátta sem ekki voru hluti af hæfniskröfum í auglýsingu. Telji stefnandi óeðlilegt og ómálefnalegt að fara ekki að þeirri ráðningaráætlun sem gerð hafi verið og fella niður spurningu eftir að niðurstöður stigagjafar einstakra umsækjenda lágu fyrir, enda í ósamræmi við tilgang ráðningaráætlunar. 

Í spurningu 5 hafi umsækjendur verið spurðir um aðra starfsreynslu sem nýst gæti í starfi. Hafi þetta verið í samræmi við ráðningaráætlun sem gert hafi ráð fyrir að þessi spurning hefði jafn mikið vægi og aðrar spurningar sem settar voru fram í áætluninni. Í matskvarða hafi verið gert ráð fyrir að verkefnastjórnun og stjórnun hópa hefðu mikið vægi við stigagjöf, en einnig verið litið til mikilla samskipta og samstarfs t.d. við aðra sérfræðinga. Gengið hafi verið út frá því að stigagjöf væri hærri því stærri sem hópar og verkefni væru. Fyrir þennan lið hafi stefnandi fengið mun færri stig en þeir umsækjendur sem fengu starfið. Eftir að stigagjöf lá fyrir hafi verið ákveðið að fella þennan lið brott. Í fyrsta lagi geri stefnandi alvarlegar athugasemdir við einkunnagjöf stefnanda fyrir þennan lið. Ekki hafi virst tekið neitt tillit til starfa stefnanda í útlöndum þar sem stefnandi hafi stýrt annars vegar 8 til 10 manna deild í Líberíu og hins vegar heilu sviði á NATO alþjóðaflugvellinum í Kabúl þar sem starfsmenn undir stefnanda stjórn hafi verið hátt í 100 talsins. Í nótum hæfnisnefndar sé hins vegar vísað til þess að stefnandi eigi fjögur börn og hafi margra ára reynslu af starfi í Al-anon. Ekkert sé vísað til starfa stefnanda áður en hún hóf störf hjá lögreglu, en þá hafi hún rekið eigið fyrirtæki í níu ár. Hjá A, sem einnig hafi reynslu af friðargæslu, sé hins vegar vísað til reynslu í útlöndum, en það virst hans eina starfsreynsla utan lögreglu. Hjá B sé vísað til starfa sem tollvörður og þjálfunar í handbolta og fái hann fleiri stig en stefnandi. Þá fái C mun hærri einkunn en stefnandi að því er virðist fyrir störf í björgunarsveit og þjálfun á vegum björgunarsveitar. Telur stefnandi að taka eigi spurninguna með í heildarmat á umsækjendum, í samræmi við ráðningaráætlun, og að stefnandi hafi með réttu átt að fá fullt hús stiga fyrir hana.

Í spurningu 6 í spurningalista hæfnisnefndar hafi verið spurt um reynslu af stjórnun og stjórnunarstörfum. Matskvarðinn hafi gert ráð fyrir að mikið umfang stjórnunar á breiðu sviði gæfi 5 stig, minna umfang og færri starfsmenn gæfi 4 stig og verkefnastjórnun gæfi 3 stig. Ekkert komi fram í matskvarðanum um að aðeins skuli miðað við störf innan lögreglunnar. Hins vegar hafi hæfnisnefndin miðað sitt mat aðeins við stjórnun innan lögreglu og talið að reynsla stefnanda af stjórnun sem lögreglumaður í friðargæslu kæmi ekki að beinum notum í starfinu. Stefnandi telji ljóst að matið hafi ekki verið í samræmi við matskvarðann. Verði að telja það óeðlilegt, enda stjórnun innan lögreglu verið metin í spurningu 2, að vísu ekki í samræmi við matskvarðann þar heldur. Geri stefnandi einnig athugasemd við stigagjöf fyrir þessa spurningu. Ef tekið sé mið af matskvarðanum sé ljóst að stefnandi hafi reynslu af mjög umfangsmikilli stjórnun á breiðu sviði með fjölda starfsmanna og því átt að fá 5 stig fyrir þessa spurningu. Sé það í samræmi við álit kærunefndar jafnréttismála. Stefnandi hafi hins vegar aðeins fengið 3 stig fyrir þennan þátt. Hafi sagt í greinargerð lögreglustjóra að það teljist stefnanda til tekna að mati hæfnisnefndar að hafa reynslu af stjórnun í fjölmenningarlegu umhverfi, en að hún hafi ekki náð að sýna fram á hvernig sú reynsla kæmi að beinum notum í starfi stöðvarstjóra. Fyrir sömu spurningu hafi A fengið 5 stig, B 4,6 stig og C 4,6 stig. Við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála hafi innanríkisráðuneytið leiðrétt stigagjöf fyrir svör stefnanda við spurningunni þannig að í stað 3ja stiga hafi borið að gefa stefnanda 4 stig. Kærunefnd jafnréttismála hafi metið lýsingu á spurningu í ráðningaráætlun svo að hún hefði borið með sér að spurt hafi verið um reynslu af stjórnun. Í rökstuðningi hafi verið fjallað um hvort sú stjórnunarreynsla væri til þess fallin að nýtast í starfinu. Hafi kærunefndin talið að þar með væri verið að meta stjórnunarreynslu innan lögreglu með stigagjöf fyrir tvær spurningar og talið að slíkt samræmdist ekki matskvarðanum. Hafi kærunefndin talið að með því að setja mælistikuna upp á þann máta að stjórnun með mannaforráð innan lögreglu skyldi vega þyngra en stjórnun með mannaforráð innan friðargæslu, fæli hún nánast í sér að þeir starfsmenn sem gegnt hefðu yfirmannsstöðum í lögreglunni sætu fyrir um starf en það væru nánast eingöngu karlmenn. Því hafi kærunefndin talið að starfsreynsla stefnanda hefði ekki verið metin sem skyldi og ekki í samræmi við þá ráðningaráætlun sem lagt hafi verið upp með.  

Í spurningu 7 hafi verið spurt um hugmyndafræði og áherslur í starfsemi lögreglustöðva. Sjáist á matskvarðanum að við stigagjöf sé einkum horft til þess hvort umsækjendur þekki vel til starfsemi lögreglustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Í greinargerð lögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins hafi komið fram að tilgangurinn með spurningunni hafi m.a. verið að fá fram sýn umsækjenda á stöðvaskipulagið og hlutverk stjórnandans í því. Hafi sagt að spurningunni hafi ekki verið ætlað að vera ívilnandi fyrir einhverja umsækjendur heldur vera opin til þess að allir umsækjendur gætu tjáð sig um sýn sína á fyrirkomulag stöðvaskipulagsins, hugmyndafræði og áherslur. Stefnandi geri verulegar athugasemdir við framkvæmd viðtalsins að því er þessa spurningu varðar, en þegar komið hafi að henni hafi hún verið spurð hvort hún gæti upplýst hæfnisnefndina um það í hverju breytingarnar sem gerðar voru hjá embættinu árið 2009 hefðu verið fólgnar. Stefnandi hafi kynnt sér starfsemi embættisins eins og hægt var, en þar sem ekki hafi verið um opinberar upplýsingar að ræða og hún ekki í starfi hjá embættinu hafi hún eðlilega ekki getað gert ítarlega grein fyrir umræddum breytingum. Það sé því ljóst að spurningin, eins og hún hafi verið sett fram, hafi verið verulega ívilnandi fyrir þá umsækjendur sem störfuðu hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Telji stefnandi þetta vera í samræmi við skoðanir hæfnisnefndar sem hafi talið fullkomlega eðlilegt að umsækjandi úr röðum starfsmanna embættisins gæti átt kost á starfsþróun við embættið. Þeir sem hafi reynslu hlytu að búa að henni, eins og framhafi komið hjá nefndinni. Telji stefnandi augljóst að með þessu hafi umsækjendum verið mismunað.

Í spurningu 8 hafi verið spurt um hvaða kosti umsækjandi teldi að hann hefði í starfið og hafi nokkrir þættir verið sérstaklega tilteknir, s.s. samskipti, skipulagning, frumkvæði, erfið starfsmannamál, álag, þrautseigja, styrkleikar og veikleikar. Ekki liggi fyrir að leitað hafi verið umsagnar meðmælenda stefnanda vegna mats á hæfni hennar samkvæmt þessari spurningu, en stefnandi telji það setja hana í aðra stöðu en þá umsækjendur sem hafi verið undirmenn og samstarfsmenn þeirra sem setið hafi í hæfnisnefnd, en allir þeir sem stöðuna fengu hefðu starfað undir stjórn X og tveir undir stjórn bæði X og Y. Í raun virðist ekki einu sinni hafa verið höfð hliðsjón af umsóknargögnum, heldur aðeins litið til framkomu í viðtali, en í greinargerð lögreglustjórans sem fylgt hafi athugasemdum innanríkisráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála sagði að það væri rétt hjá stefnanda að kostir hennar hafi verið tilgreindir í umsóknargögnum en í ráðningarviðtalinu hafi henni ekki tekist að sannfæra nefndarmenn um afgerandi kosti sína í starfið. Hafi verið viðurkennt í erindi innanríkisráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála 17. apríl 2015 að við ráðninguna hafi of mikil áhersla verið lögð á frammistöðu í viðtalinu á kostnað umsóknargagna. Í umsóknargögnum stefnanda hafi m.a. verið að finna umsögn frá yfirmönnum hennar, bæði frá Líberíu og Afganistan, þar sem henni hafi sérstaklega verið hrósað m.a. fyrir frumkvæði, sjálfstæði, nákvæmni, nýbreytni, jákvæðni, heilindi, fagmennsku, úrræðagetu og þolinmæði. Telji stefnandi mjög ómálefnalegt að líta ekki til fyrirliggjandi gagna varðandi þessa spurningu, heldur einungis til viðtalsins og sé það ekki í samræmi við ráðningaráætlun. Þá bjóði slík vinnubrögð upp á geðþóttamat hæfnisnefndarmanna.

Í spurningu 9 hafi verið spurt um reynslu af rekstri og aðkomu að áætlanagerð, eftirfylgni við áætlanir í fjárhags- og mannaflamálum og utanumhald og skipulag vinnu í Vinnustund. Í matskvarða hæfnisnefndar hafi verið gengið út frá því að stig væru gefin eftir almennri reynslu af áætlanagerð og eftirfylgni með áætlunum, rekstri og utanumhaldi um vinnutíma.Við mat hæfnisnefndar virðist hins vegar aðeins hafa verið litið til reynslu innan lögreglunnar og lítið gert úr annarri reynslu. Telji stefnandi þá stigagjöf ekki í neinu samræmi við matskvarðann og sýna vel að stefnandi hafi ekki notið sannmælis við matið, enda hún haft mjög víðtæka reynslu af áætlanagerð og eftirliti með nýtingu fjármuna m.a. frá störfum sínum í Líberíu og Afganistan.Við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála hafi komið fram sú skoðun innanríkisráðuneytisins að stefnandi hafi ekki notið sannmælis við stigagjöf hæfnisnefndar og borið að að gefa stefnanda 5 stig í stað 4 stiga.

Stefnandi telji að af framangreindu megi sjá að þau sjónarmið sem byggt hafi verið á við setningu í embættin hafi alls ekki verið í samræmi við það sem lagt var upp með í upphafi ferlisins. Vægi sjónarmiða hafi einnig tekið miklum og óforsvaranlegum breytingum í gegnum ráðningarferlið frá því sem lagt hafi verið upp með. Þá liggi fyrir að samanburður sem gerður hafi verið á umsækjendum í umsóknarferlinu hafi verið ófullnægjandi og ómálefnalegur. Einnig hafi þær ályktanir sem dregnar hafi verið af fyrirliggjandi gögnum og viðtölum og lagðar voru til grundvallar verið óforsvaranlegar að efni til. Loks hafi vægi sem viðtölum hafi verið gefið umfram þau skriflegu gögn sem legið hafi fyrir við ákvörðunina verið ámælisvert. Í stigagjöf fyrir viðtalið hafi stefnandi hlotið 24 stig. Við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála hafi stigagjöf fyrir svör stefnanda verið leiðrétt af innanríkisráðuneytinu þannig að hún hafi átt að fá 27 stig. Stefnandi telji með vísan til þess sem að framan greini að taka hefði átt svör við öllum spurningunum með í niðurstöðu hæfnisnefndar. Þegar allar spurningarnar séu teknar með og niðurstöður leiðréttar í samræmi við það sem að framan greini sé niðurstaðan sú að stefnandi hefði fengið 41,3 stig, A hefði 42,4 stig, B 40,8 stig og C 38,9 stig. Það sé því ljóst að stefnandi hafi verið með fleiri stig en tveir þeirra sem hlutu starfið. Þá sé ljóst, þó að spurningar 4 og 5 séu ekki teknar með, að stefnandi hefði átt að vera með 31,3 stig og því hefði hún átt að komast í annað viðtal, miðað við að þeir sem voru með fleiri en 29 stig hefðu komist þangað, ef hæfnisnefnd hefði farið eftir ráðningaráætlun og beitt málefnalegum sjónarmiðum. Sé þetta í samræmi við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Telji stefnandi niðurstöðu hæfnisnefndarinnar því óforsvaranlega og í andstöðu við réttmætisregluna.

Stefnandi byggi einnig á því að hæfnisnefndin hafi gert strangari kröfur til hæfis umsækjenda í ráðningarferlinu en samkvæmt auglýsingu um starfið. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli auglýsa önnur störf en embætti opinberlega samkvæmt reglum sem settar skuli af fjármálaráðherra. Slíkar reglur um auglýsingar á lausum störfum hafi verið settar og birtar í B-deild Stjórnartíðinda sem reglur nr. 464/1996. Í 4. gr. reglnanna sé mælt fyrir um þær lágmarksupplýsingar sem skuli koma fram í slíkri auglýsingu, en  samkvæmt 7. tölul. ákvæðisins skuli í slíkri auglýsingu veita upplýsingar um hvaða menntunar- og/eða hæfniskröfur gerðar séu til starfsmanns. Ákvæðið hafi verið skýrt svo að tilgreina skuli í auglýsingu um laust starf ef krafist sé sérstakrar menntunar umfram almenna menntun, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/1996 og ennfremur þegar krafist sé sérstakrar hæfni sem starfsmaðurinn þurfi að uppfylla til þess að geta gegnt starfi og haldið því. Í auglýsingu um stöður þær sem auglýstar hafi verið í febrúar 2014 hafi komið fram þær kröfur sem gerðar hafi verið til þeirra sem sóttust eftir starfinu sem og að mikilvægir eiginleikar listaðir upp. Stefnandi telji meðal annars með hliðsjón af 7. tölul. 4. gr. reglna nr. 464/1996 að við mat á almennu hæfi umsækjenda hafi ráðherra verið bundinn af þeim kröfum sem fram hafi komið í auglýsingunni. Stefnandi bendi á að í ráðningarferlinu hafi hins vegar verið gerðar mun meiri kröfur til umsækjenda en samkvæmt auglýsingunni. Í ráðningaráætlun hafi sagt að það væri niðurstaða hæfnisnefndarinnar varðandi umsækjendur að fyrst yrði að horfa til reynslu þeirra af stjórnun fólks, ekki aðeins tímabundið í afleysingum heldur samfelldri reynslu, að lágmarki eitt ár. Umfang stjórnunar, bæði verkefni og fjöldi starfsmanna skipti máli. Þannig hafi í raun verið gerð krafa um nokkuð umfangsmikla stjórnunarreynslu, sem ekki hafi verið getið um í auglýsingu um stöðurnar. Þannig hafi í raun verið gerð krafa um það í ráðningarferlinu að umsækjendur hefðu reynslu af mannaforráðum innan lögreglu og að þeir hefðu lokið stjórnunarnámi við Lögregluskóla ríkisins. Sé síðasta atriði í beinni mótsögn við það sem fram hafi komið í auglýsingunni um stöðurnar. Telji stefnandi þessar kröfur hæfnisnefndarinnar ganga gegn meginreglum stjórnsýslulaga, ákvæðum nr. 70/1996 og reglum nr. 464/1996.

Stefnandi byggi á því að með setningu þriggja karlmanna í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu hafi ráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna sé atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar séu líkur að því að við ráðningu, setningu eða skipun í starf hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. laganna. Við mat á því hvort að ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotin skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa sé gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði annars að komi að gagni í starfinu. Stefnandi telji mismununina koma skýrt fram í gögnum málsins. Stefnandi bendi á að í ráðningaráætlun hafi verið gengið út frá því að notaður yrði sami spurningalistinn fyrir alla umsækjendur, en þar hafi í fyrsta lagi verið spurt um menntun sem nýtist í starfinu. Þegar niðurstöður hæfnisnefndar hafi legið fyrir hafi komið í ljós að nefndin hafi nær eingöngu horft annars vegar til símenntunar á sviði löggæslu og hins vegar til stjórnunarnáms í Lögregluskóla ríkisins við mat á menntun umsækjenda. Stefnandi telji að með þessu hafi hæfnisnefndin þrengt mjög þann hóp sem komið hafi til greina í umræddar stöður. Samkvæmt upplýsingum frá Lögregluskóla ríkisins hafi 120 aðilar lokið stjórnunarnámi við skólann á árunum 2003 til 2007 og kynjaskipting  verið þannig að einungis 10 konur luku stjórnunarnámi við Lögregluskóla ríkisins á framangreindu tímabili, en 110 karlar. Telji stefnandi því mun færri konur en karla eiga kost á því að fá stjórnunarstörf innan lögreglunnar ef framangreind viðmið séu notuð við að meta menntun umsækjenda. Þá beri að hafa það í huga að umrætt námskeið fyrir stjórnendur í lögreglu hafi ekki verið kennt síðan 2007. Þar með hafi enginn átt möguleika á stjórnunarstöðu innan lögreglunnar sem ekki hafi fengið þann framgang á þeim tíma að hann væri valinn til að fara í umrætt nám. Stefnandi telji einnig skipta máli að á þeim tíma sem umrætt námskeið var kennt hafi það verið yfirmenn innan lögreglunnar sem ákveðið hafi hverjir fengju að sækja námið. Stefnandi hafi sótt um inngöngu í námið á árinu 2007, en verið tjáð að ekki væri komið að henni. Með því að nota það sem skilyrði fyrir veitingu stjórnunarstöðu innan lögreglunnar að viðkomandi hefði lokið slíku námi hefðu yfirmenn lögreglu haft öll völd í hendi sér um það hverjir yrðu framtíðarstjórnendur í lögreglu. Verði ekki séð að slíkt geti talist málefnalegt og telji stefnandi ljóst að illmögulegt sé fyrir konur að fá skipun í stjórnunarstörf hjá lögreglu ef byggt yrði á þessum forsendum. Í þessu sambandi bendi stefnandi á að í auglýsingu um starfið hafi ekki verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu lokið námi fyrir stjórnendur í lögreglu. Þar hafi skýrlega komið fram að þeir sem skipaðir yrðu til að gegna hinum auglýstu störfum skyldu eiga þess kost að sækja stjórnunarnámskeið við Lögregluskóla ríkisins, eða sambærilegt nám á almennum markaði hafi þeir ekki sótt slíkt námskeið áður.

Í öllu mati hæfnisnefndar á reynslu stefnanda hafi eingöngu verið miðað við stjórnunarreynslu og stjórnun með mannaforráð innan lögreglunnar á Íslandi, þrátt fyrir að matskvarðar hafi gert ráð fyrir að tekið yrði mið af annarri reynslu. Stefnandi bendi á að hæfnisnefndinni hafi ekki einu sinni þótt ástæða til að horfa til reynslu stefnanda af starfi hennar sem lögreglumaður í friðargæslu. Í rökstuðningi ráðuneytisins til stefnanda 3. júlí 2014 hafi m.a. sagt að hæfnisnefndin hafi kosið að leggja aukið vægi á reynslu innan lögreglunnar, sem og menntun sem tengdist beint lögreglustörfum og hafi ráðuneytið talið það málefnaleg sjónarmið þegar um væri að ræða yfirmannsstöðu  innan lögreglunnar. Þá hafi sagt að það þætti góð mannauðsstjórnun en rannsóknir hafi m.a. sýnt að starfsþróun innan vinnustaðar væri árangursríkari aðferð en sú að fá utanaðkomandi aðila til að gegna starfi yfirmanns. Stefnandi byggi á því að rökstuðningur veitingarvaldshafa feli í sér að þeir sem hafi starfað innan lögreglunnar ættu meiri möguleika en aðrir á að fá stöðurnar og jafnvel að aðrir hafi verið útilokaðir. Sýni rökstuðningurinn vel það viðhorf sem ríkjandi hafi verið í ráðningarferlinu. Stefnandi ítreki að karlar séu í miklum meirihluta í öllum stöðum innan lögreglunnar og einungis karlar gegni stöðu yfirlögregluþjóns. Hafi mjög fáar konur verið í stjórnunarstörfum hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í upphafi árs 2014, en aðeins 2 konur hafi gegnt stöðu lögreglufulltrúa, 3 konur gegnt stöðu varðstjóra og 17 konur verið rannsóknarlögreglumenn. Engin þessara kvenna hafi haft mannaforráð og engin kona verið í hærra starfsstigi en starfsstigi lögreglufulltrúa. Með því að gera þær kröfur að umsækjendur hefðu haft mannaforráð í stjórnunarstöðu innan lögreglu, telji stefnandi að í raun verið að útiloka konur frá því að fá stöðurnar. Sé slíkt í andstöðu við hvatningu til kvenna um að sækja um stöðuna sem fram hafi komið í auglýsingu og fari gegn skýrum ákvæðum jafnréttislaga. Í viðtali hjá hæfnisnefnd hafi stefnandi verið spurð að því hvort hún gæti upplýst hæfnisnefndina um það í hverju breytingarnar sem gerðar hafi verið hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu árið 2009 hefðu verið fólgnar. Eins og áður hefði komið fram sé ekki um að ræða opinberar upplýsingar og því vonlaust fyrir þá sem ekki hafi starfað hjá embættinu að fá jafn mörg stig fyrir þennan lið eins og þá sem hafi verið starfandi þar. Í ljósi þess að mun fleiri karlar en konur starfi hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu telji stefnandi þessa spurningu til þess fallna að mismuna umsækjendum eftir kyni. Eins og rakið hafi verið hér að framan og fram komi í úrskurði kærunefndar jafnréttismála telji stefnandi stigagjöf hæfnisnefndar stefnanda til handa fela í sér brot á jafnréttislögum, enda liggi fyrir að hæfnisnefndin hafi ítrekað veitt stefnanda mun færri stig en karlkyns umsækjendum, sem þó höfðu minni menntun, reynslu og hæfni til starfans en hún. Stefnandi telji liggja ljóst fyrir að sér hafi verið mismunað á grundvelli kyns við setningu í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóns í maí 2014. Hafi innanríkisráðuneytið ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun ráðherra um að setja þrjá karlmenn í embættin. Telji stefnandi þetta í samræmi við úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli stefnanda, en innanríkisráðherra hafi ekki borið úrskurðinn undir dómstóla og sé hann því bindandi gagnvart málsaðilum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008.

Stefnandi byggi á því að ráðherra hafi ekki gætt að skyldum sínum sem veitingavaldshafi. Á þeim tíma er ráðningarferlið hafi átt sér stað hafi innanríkisráðherra farið með skipunarvald í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóna, sbr. þágildandi 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Veitingarvaldshafa beri almennt sjálfum að taka ákvarðanir um réttarstöðu umsækjanda sem hafi verulega þýðingu fyrir stöðu hans í ráðningarferli s.s. ákvarðanir sem miði að því að þrengja hóp umsækjanda. Þá beri veitingavaldshafa einnig að sjá til þess að ákvörðun um ráðningu byggi á nægjanlega traustum grundvelli og tryggi að lögmælt réttindi umsækjenda verði ekki fyrir borð borin við málsmeðferðina, sbr. m.a. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnandi telji ljóst af málsatvikum og gögnum málsins að ráðherra hafi alfarið falið hæfnisnefnd, sem skipuð hafi verið af Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, að taka þá ákvörðun að ljúka ráðningarferlinu gagnvart stefnanda og því hafi veitingavaldshafi ekki lagt sjálfstætt mat á grundvöll þeirrar niðurstöðu nefndarinnar. Telji stefnandi þetta sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða. Þá hafi ráðherra ekki gætt að því að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, eins og sjá megi á samskiptum ráðuneytisins við kærunefnd jafnréttismála. Stefnandi telji að þetta feli í sér verulegan annmarka á málsmeðferð veitingavaldshafa.

Stefnandi byggi einnig á því að Y, sem var nefndarmaður í hæfnisnefnd, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993. Hæfisreglur þær sem fram komi í II. kafla laga nr. 37/1993 taki til allra starfsmanna sem veiti eða taki þátt í að veita umsögn um stjórnsýslumál sem ætlað sé að vera grundvöllur að stjórnvaldsákvörðun í málinu. Hafa fræðimenn talið að starfsmenn sem sæti eigi í dómnefndum, aðilar sem veiti umsagnir um og taka viðtöl við umsækjendur um opinberar stöður verði að uppfylla hæfisskilyrði laga nr. 37/1993. Á fyrri hluta árs 2014, þegar umsóknir um stöðurnar hafi verið til meðferðar, hafi Y verið yfir almennri löggæslu og því lögreglustöð 2, sem umsækjandinn C starfað á, og lögreglustöð 5, sem umsækjandinn B starfaði á, heyrt beint undir hann. Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem fylgt hafi með athugasemdum innanríkisráðherra til kærunefndar jafnréttismála segi um hæfi nefndarmanna í tilvikum þar sem umsækjandi hafi verið undirmaður fráfarandi stöðvarstjóra á löggæslusviði sem heyri undir einn nefndarmanna þá hafi sá nefndarmaður ekki tekið þátt í viðtalinu. Sé ljóst að Y hafi talið einhverja umsækjendur, m.a. B og C, hafi staðið í svo nánum tengslum við sig að telja yrði hættu á að haft gæti áhrif á hann. Í fræðiritum hafi verið bent á að ef starfsmaður treysti ekki sjálfum sér til þess að leysa úr máli án þess að byggja á ómálefnalegum sjónarmiðum væri erfitt fyrir aðra að treysta honum. Verði því að telja að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem almennt hafi verið til þess fallnar að draga úr trú á óhlutdrægni viðkomandi nefndarmanns og að hætta hafi verið á að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á úrlausn máls. Stefnandi telji að Y hafi því borið að víkja úr hæfnisnefndinni þegar fyrir hafi legið að hann teldi sig vanhæfan til að fara með umsóknir hluta umsækjenda. Þrátt fyrir að fram komi að Y hafi talið sig vanhæfan megi ráða af gögnum málsins að Y hafi í raun ekki vikið í viðtölum við þá B og C, eins og hann segist hafa gert, en matsblöðin sem notuð hafi verið í viðtalinu séu útfyllt af öllum þremur hæfnisnefndarmönnum fyrir alla þá sem settir hafi verið í stöðurnar. Að mati stefnanda verði að telja að vanhæfi hæfnisnefndarmannsins teljist verulegur annmarki á meðferð málsins og sé ljóst að hlutdrægni hans hafi haft mikil áhrif á niðurstöðu málsins, enda komi fram í greinargerð lögreglustjórans að þó nefndarmenn styðjist við hlutbundna matskvarða hafi þeir verið þeirra skoðunar að aldrei væri hægt að komast alveg hjá því að huglægt mat væri lagt á frammistöðu einstaklinga í viðtölum, eins nauðsynleg og þau væru í ferlinu sjálfu. Stefnandi telji að ekki verði séð að það hefði nægt fyrir Y að víkja eingöngu úr viðtölum við þá einstaklinga sem hann hafi talið sig vanhæfan vegna, enda sé ráðningarferlið samfellt ferli sem endi með töku einnar ákvörðunar og hann því vanhæfur til meðferðar málsins í heild.

Stefnandi bendi á að send hafi verið beiðni til innanríkisráðuneytisins þar sem óskað hafi verið eftir öllum gögnum málsins og gögnin borist 16. og 18. desember 2015. Meðal gagnanna hafi ekki verið að finna neitt skjal þar sem fram kom skráning á helstu niðurstöðum viðtals við stefnanda. Í málinu liggi fyrir blöð þau sem nefndarmenn hæfnisnefndar hafi fyllt út á meðan á viðtölum stóð. Hafi sagt um umrædd skjöl í greinargerð lögreglustjóra að nefndarmenn hafi skráð minnipunkta við einstök svör jafnóðum. Bent er á að minnispunktar séu samhengislausir og ekki rétt að horfa til þeirra, þeir séu ekki lýsandi fyrir álit nefndarmanna á kæranda. Stefnandi telji því ljóst að minnispunktarnir uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu í 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um skráningu munnlegra upplýsinga sem hafi verulega þýðingu fyrir úrlausn máls. Stefnandi vísi til þess að það sem fram hafi komið í viðtölum við umsækjendur hafi haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins, enda hafi komið fram í upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu að frammistaða í viðtali hafi haft 50% vægi á móti öðrum gögnum, en innanríkisráðuneytið viðurkennt í bréfi til kærunefndar jafnréttismála að það vægi væri fullmikið sérstaklega í ljósi þess að þau stig sem umsækjendur fengu séu ekki rökstudd frekar. Þá hafi sagt í greinargerð lögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins að í viðtölunum hafi verið lögð áhersla á mat á upplifun á frammistöðu og viðmóti umsækjenda í viðtalinu, hversu sannfærandi þeir væru með tilliti til stjórnunar- og leiðtogahlutverks stöðvarstjóra. Þá hafi hæfisnefndin sagt að stefnanda hafi ekki tekist að sannfæra nefndarmenn um afgerandi kosti sína í starfið þrátt fyrir að kostir hennar væru skýrlega tilgreindir í umsóknargögnum. Af framangreindu telji stefnandi ljóst að þær munnlegu upplýsingar sem veittar hafi verið í viðtalinu hafi haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þá árétti stefnandi að engin skrifleg gögn liggja fyrir um það að kannað hafi verið hvort að stefnandi hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingu um góða hæfni til mannlegra samskipta eða hvort að hún hefði skipulagshæfileika, sýndi frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum. Hæfnisnefndin hafi hins vegar haft þær upplýsingar um þá umsækjendur sem fengu stöðurnar, enda tveir þeirra undirmenn meiri hluta hæfnisnefndarinnar og sá þriðji verið það á þeim árum sem hann hafi starfað sem aðalvarðstjóri í almennri löggæslu hjá Lögreglunni í Reykjavík á árunum 2002 til 2007. Ekki hafi því verið jafnræði með umsækjendum. Telji stefnandi því ljóst að meðferð málsins hafi verið verulega áfátt að þessu leyti.

Stefnandi byggir kröfu sína um bætur í fyrsta lagi á ákvæði 31. gr. laga nr. 10/2008. Samkvæmt ákvæðinu leiði brot gegn lögunum af ásettu ráði eða vanrækslu til skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum. Dæma megi hlutaðeigandi til greiðslu miskabóta auk bóta fyrir fjártjón sé því að skipta. Samkvæmt bindandi úrskurði kærunefndar jafnréttismála liggi fyrir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi brotið gegn framangreindum lögum við setningu í stöðurnar þrjár. Þá byggi stefnandi bótakröfu sýna jafnframt á því að þar sem brotnar hafi verið fjölmargar reglur stjórnsýsluréttar sem skylt sé að fara eftir í aðdraganda ráðningar og þar sem ekki hafi verið farið að meginreglu stjórnsýsluréttar um að velja þann umsækjanda í opinbert starf sem hæfastur verður talinn hafi skaðabótaskylda stofnast. Enda sé litið svo á í framkvæmd að ef út af því sé brugðið og það leiði til tjóns, geti sá sem hafi orðið fyrir brotinu almennt gert kröfu um skaðabætur. Með vísan til þessa telji stefnandi ljóst að stefnandi hafi með réttu átt að vera með fleiri stig en tveir af þeim sem ráðnir hafi verið í stöðu. Þar af leiðandi hafi nægar líkur verið leiddar að því að ef ráðningin hefði verið í samræmi við þær reglur sem um málsmeðferðina gildi hefði stefnandi verið sett í eina af þeim þremur stöðum sem auglýstar hafi verið. Stefnandi telji sig því hafa orðið af þeim launum sem hún hefði fengið greidd og þar af leiðandi liggi fyrir að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, enda hún án atvinnu í kjölfar ráðningarinnar. Þá sé enginn vafi á því að stefnandi hafi orðið fyrir miska vegna brotanna, skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem í ráðningarferlinu hafi verið gert lítið úr allri starfsreynslu og menntun stefnanda og hún augljóslega beitt mismunun. Í því hafi falist meingerð gegn æru hennar og persónu.

 

III

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveður stefnanda byggja kröfur sínar um greiðslu miskabóta og viðurkenningu á skaðabótaskyldu ríkisins vegna setningar þriggja karla í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á því, að með setningu A, B og C hafi hæfasti umsækjandinn ekki verið valinn. Að mati stefnanda grundvallist setningarnar á ólögmætum sjónarmiðum hvað varði mat á hæfni umsækjenda. Stefnandi hafi ekki notið sannmælis við einkunnagjöf hæfnisnefndar á grundvelli matskvarða, hæfnisnefndin hafi breytt matskvarðanum eftir að fyrsta viðtal hafi farið fram, einkunnagjöf hæfnisnefndar hafi ekki alltaf verið í samræmi við hinn fyrirframgefna matsskala og telji stefnandi að umsækjendur hafi ekki setið við sama borð þegar lagt hafi verið mat á þá þætti sem tilgreindi hafi verið í auglýsingu. Stefndi mótmæli framangreindum málsástæðum.

Spurt hafi verið í spurningu 1 um almenna og sérstaka menntun sem nýtist í starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns. Stefnandi telji að stefnandi hafi átt að fá fleiri stig fyrir þennan lið en þeir sem fengið  hafi stöðurnar, þar sem stefnandi hafi aflað sér meiri menntunar á sviði stjórnunar og lokið fleiri einingum á háskólastigi í stjórnunarnámi en þeir sem settir hafi verið í stöðurnar. Stefndi bendi á að í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem fylgt hafi greinargerð innanríkisráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála og í úrskurði kærunefndarinnar hafi verið gerð grein fyrir þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ráðið hafi því að stefnandi hafi fengið fjögur stig af fimm mögulegum fyrir þennan lið. Hafi þar verið rakið að hæfnisnefndin hafi, í samræmi við eðli og inntak starfs aðstoðaryfirlögregluþjóna, lagt áherslu á formlegt stjórnunarnám, sem og sérhæfð námskeið á sviði stjórnunar og löggæslu sem nýttist beint við starfið. Stefndi veki jafnframt athygli á því að niðurstaða um hver hafi bestu menntunina þegar valið sé á milli umsækjenda um opinbert starf geti eftir atvikum ráðist af fleiri þáttum en fjölda prófgráða eða eininga á háskólastigi. Skipti þar mestu máli hvort og þá hvernig sú menntun sem umsækjandi hafi aflað sér verði talin gera hann hæfari til að sinna því starfi sem um ræði, sbr. afstöðu umboðsmanns Alþingis í málum af þessum toga. Að mati hæfnisnefndarinnar hafi sérsniðin námskeið á sviði stjórnunar og löggæslu vegið þyngra en ólokið nám stefnanda í viðskipta-, stjórnmála- og kynjafræði, þrátt fyrir að stefnandi hafi lokið fleiri einingum í háskólanámi. Að mati stefnda hafi verið málefnalegt að gera þennan greinarmun, enda ljóst að hin sérsniðnu námskeið og formlegt stjórnunarnám á sviði lögreglu nýtist beint í starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns þegar litið sé til starfslýsingar og þeirra almennu og sérstöku hæfniskrafna sem gerðar séu til starfsins í lögreglulögum og reglugerð um starfsstig innan lögreglunnar og fram hafi komið í auglýsingu. Það sé því mat stefnda að málefnalegt hafi verið að meta það sem svo að námskeið sem væru sérsniðin að störfum innan lögreglu gætu nýst betur fyrir störf innan lögreglunnar heldur en önnur námskeið og jafnvel formlegra nám.  Jafnframt rúmist þetta innan þess svigrúms sem umboðsmaður Alþingis hafi játað veitingarvaldshafa við mat hans á því hvernig einstaka umsækjendur falli að þeim sjónarmiðum sem lögð séu til grundvallar matinu.

Stefnandi haldi því einnig fram að hæfnisnefndin hafi veitt stjórnunarnámi í Lögregluskóla ríkisins óeðlilega mikið vægi í matinu og það hafi valdið því að hún hafi ekki hlotið fullt hús stiga fyrir þessa spurningu. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda. Stefndi árétti að í matskvarðanum hafi komið fram að til að hljóta fullt hús stiga hafi viðkomandi þurft að hafa sinnt starfsþróun með símenntun á breiðu sviði sem nýttist mjög vel. Þegar stigagjöf stefnanda og þeirra sem fengið hafi starfið sé skoðuð sjáist að stefnandi og C hafi hlotið 4 stig og hinir tveir umsækjendurnir 4,6 og 5 stig. Allir þrír umsækjendurnir sem fengið hafi hinar auglýstu stöður hafi lokið stjórnunarnámi hjá Lögregluskólanum, en þrátt fyrir það hafi stefnandi fengið jafnmörg stig og C og verði því ekki séð að umræddu stjórnunarnámi í Lögregluskólanum hafi verið veitt óeðlilega mikið vægi. Mat hæfnisnefndarinnar hafi verið að símenntun umsækjendanna A og B hafi verið betur sniðin að starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns heldur en menntun stefnanda og C og fái stefndi ekki séð að ómálefnaleg sjónarmið hafi þar ráðið nokkru. Sé það því mat stefnda að stefnandi hafi ekki borið halla af því, umfram þá sem hlotið hafi setningu í störfin, að hafa ekki lokið stjórnunarnámi við Lögregluskólann. Í stefnu sé þess getið að á árinu 2007, þegar stefnandi hafi starfað í lögreglu, hafi hún sótt um inngöngu í stjórnunarnám í Lögregluskólanum, en verið sagt að ekki væri komið að henni að hljóta inngöngu og námið ekki staðið til boða síðan þá. Í tilefni af þessu vísist til tveggja tölvupósta frá ríkislögreglustjóranum 23. nóvember 2016, þar sem fram komi að enga umsókn sé að finna frá stefnanda um sæti í stjórnunarnámi við Lögregluskólann frá 2003 til 2007. Stefndi geti ekki fallist á það með stefnanda að stefnanda hafi verið mismunað á nokkurn hátt við mat á fyrstu spurningu, enda niðurstaðan í samræmi við áherslur hæfnisnefndar í ráðningaráætlun, fyrirframgefinn matskvarða, sem og almennar og sérstakar hæfniskröfur.

Stefnandi gagnrýni að hæfnisnefnd hafi ákveðið að gera breytingar á matskvarðanum á þá leið að leggja aukna áherslu á stjórnunarreynslu með mannaforráðum í stað þess að binda matið við árafjölda almennrar stjórnunarreynslu, án tillits til þess hvort umsækjandi hafi haft mannaforráð. Þó að það hafi ekki komið fram berum orðum í matskvarðanum að lögð hafi verið áhersla á reynslu af stjórnun með mannaforráðum, þá telji stefndi að ekki hafi verið vikið verulega frá upphaflegum áformum hvað þennan lið varð. Staða aðstoðaryfirlögregluþjóns feli í sér umfangsmikil mannaforráð og því sé að mati stefnda eðlilegt að krafa sé gerð til umsækjenda um að þeir hafi stjórnunarreynslu með mannaforráð. Í skýringum hæfnisnefndar hafi komið fram, að rétt hafi þótt að leggja áherslu á stjórnun með mannaforráð, enda segi reynsla í árum ekki endilega til um hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræði. Ráðningaráætlunin hafi gert ráð fyrir að litið skyldi sérstaklega til stjórnunarreynslu sem spannaði alla verkþætti í störfum stjórnenda, svo sem gerð áætlana, eftirfylgd við stefnu og markmið, stjórnun fólks, eftirlit með árangri o.s.frv. Hafi sú áhersla verið í samræmi við þær almennu og sérstöku hæfniskröfur sem gerðar séu til starfs aðstoðaryfirlögregluþjóns þegar litið sé til verkefna hans og ábyrgðar. Að mati stefnda sé ekki hægt að gera kröfu um að mat á tiltekinni starfsreynslu, eins og stjórnunarreynslu, verði alfarið byggð á lengd starfstíma. Við mat á starfsreynslu verði stjórnvald að leggja mat á hvernig það telji líkur á að fyrirliggjandi reynsla umsækjanda, og þar með bæði tími og þau viðfangsefni sem umsækjandi hafi fengist við í fyrri störfum, muni nýtast í hinu nýja starfi.  

Að því er varði spurningu 2 hafi í skjali frá hæfnisnefnd um feril stefnanda og hinna þriggja umsækjenda sem fengið hafi auglýstu stöðurnar og í greinargerð lögreglustjóra komið fram að stefnandi hafi starfað við stjórnun án mannaforráða í 11 ár (10,8 ár) og í 3 ár við stjórnun með mannaforráð í friðargæslu. Hafi stefnandi fengið 3 stig í samræmi við 2ja til 4 ára reynslu af stjórnun með mannaforráð. Umsækjandinn A sé í greinargerð lögreglustjóra sagður vera með 3ja ára reynslu af stjórnun án mannaforráða en með 10 ára stjórnun með mannaforráð og fengið 5 stig. Samkvæmt upplýsingum á yfirliti hæfnisnefndar yfir nám, námskeið og feril stefnanda og þeirra þriggja sem stöðurnar hafi hlotið, hafi A þó einungis haft 8 ára reynslu af stjórnun með mannaforráð og því borið að fá 4 stig samkvæmt matskvarðanum. Þetta hafi leitt til þess að umsækjandinn hefði átt að fá 32 heildarstig úr fyrsta viðtalinu í stað 33 og það því ekki haft áhrif á það að hann hafði nægilega mörg stig til að komast í annað viðtal. Umsækjendurnir B og C hafi hvor um sig fengið 4 stig vegna þessa hluta matsins en þeir höfðu báðir 7 ára reynslu af stjórnun með mannaforráð, B sem aðalvarðstjóri og C sem lögreglufulltrúi á lögreglustöð, þar sem hann hafi farið með stjórnun deildar og þar með mannaforráð.  Hafi þessir umsækjendur því réttilega fengið 4 stig. Með vísan til þessa telji stefndi að réttilega hafi verið staðið að mati á starfsreynslu stefnanda hvað þennan lið varði og jafnframt að málefnalegt hafi verið að leggja aukna áherslu á reynslu af mannaforráðum, enda megi ráða af starfslýsingu aðstoðaryfirlögregluþjóns að stjórnun mannafla sé stór hluti starfsins.

Að því er spurningu 3 varði geri stefnandi athugasemdir við stigagjöf við mat á reynslu af samstarfi við hagsmunaaðila og telji að stefnanda hafi borið að fá fimm stig fyrir þennan matsþátt. Við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála hafi stefndi fallist á þetta og leiðrétt stigagjöf fyrir svör stefnanda þannig að í stað fjögurra stiga fyrir spurningu um samstarf við hagsmunaaðila hafi borið að gefa henni fimm stig. Stefndi hafi þannig fallist á að rétt hefði verið að gefa stefnanda fullt hús stiga fyrir þennan matsþátt.

Að því er spurningar 4 og 5 varðar telji stefnandi óeðlilegt og ómálefnalegt að gera breytingar á ráðningaráætlun og fella niður spurningar eftir að niðurstöður úr fyrsta viðtali við umsækjendur hafi legið fyrir. Af hálfu stefnda sé bent á að tungumálaþekking hafi ekki verið tilgreind sem hæfnikrafa í auglýsingu um stöðurnar. Hins vegar hafi hæfninefndin í upphafi talið rétt að kanna tungumálakunnáttu umsækjenda, þar sem einhver tungumálaþekking væri gagnleg í störfum aðstoðaryfirlögregluþjóns sem og annarra lögreglumanna. Það hafi þó verið niðurstaða nefndarmanna að ekki hafi verið rétt að horfa til slíkrar þekkingar sem ráðandi þáttar við heildarmat á umsækjendum í fyrsta viðtali og telji stefndi að það rúmast innan heimilda veitingarvaldshafa til að ákveða hvaða mælikvarða skuli leggja til grundvallar vali á einstaklingum. Stefndi telji að ekki hafi verið óeðlilegt eða ómálefnalegt að falla frá tilteknum liðum í matsferlinu, svo framarlega sem það hafi tekið til allra umsækjenda. Af gögnum málsins sé ljóst að spurning fjögur um tungumálaþekkingu hafi verið tekin út úr hinu heildstæða mati hjá öllum 25 umsækjendum sem komist hafi í fyrsta viðtal og því fyllsta jafnræðis verið gætt við það mat. Stefnandi hafi þannig ekki borið skarðan hlut frá borði við þá breytingu enda breytingin tekið til allra umsækjenda. Stefnandi geri jafnframt athugasemdir að við einkunnagjöf hafi ekki verið tekið tillit til starfa hennar við friðargæslu, sem hins vegar hafi verið gert hvað varði umsækjandann A. Telur stefnandi að rétt hafi verið að taka spurninguna með í heildarmat umsækjenda í samræmi við ráðningaráætlun og að stefnandi hafi með réttu átt að fá fullt hús stiga fyrir hana.  Stefndi árétti að þessi spurning hafi verið tekin út úr heildstæðu mati á umsækjendum.  Í skýringum í greinargerð lögreglustjóra komi fram að í auglýsingu hafi verið tilgreind krafa um reynslu af störfum þar sem reyndi á samskiptahæfni, skipulagshæfileika, frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum. Við gerð spurningalistans hafi spurningin orðið viðtækari en auglýsingin hafi gefið til kynna og svör umsækjenda að sama skapi spannað vítt svið sem hafi verið lítt samanburðarhæf. Til þess að tryggja að allir umsækjendur sætu við sama borð í mati og að enginn myndi gjalda fyrir takmörkuð svör en aðrir njóta fyrir markviss svör, hafi verið ákveðið að horfa ekki til svara við þessari spurningu sérstaklega og hún tekin út úr heildarmatinu. Af þeim ástæðum hafi hún því ekki haft vægi hjá neinum umsækjanda. Hafi umsækjendum þannig ekki verið mismunað að neinu leyti og sama gengið yfir alla. 

Að því er spurningu 6 varði sé af hálfu stefnanda byggt á því að reynsla stefnanda af stjórnun og stjórnunarstörfum hafi ekki verið rétt metin þar sem stefndi hafi lagt of mikla áherslu á stjórnun innan lögreglunnar við mat á þessum lið, sem jafnframt hafi verið metin í spurningu 2. Telji stefnandi að ómálefnalegt hafi verið að leggja aukna áherslu á stjórnun með mannaforráð innan lögreglu, umfram stjórnun með mannaforráð innan friðargæslu. Stefndi leggi áherslu á að við meðferð máls stefnanda fyrir kærunefnd jafnréttismála hafi stefndi að hluta fallist á sjónarmið stefnanda með þeim rökstuðningi að út frá ferilskrá hennar og svörum mætti ráða að hún hafi sannarlega sinnt stjórnun með mannaforráð, en ekki einvörðungu verkefnastjórnun. Hafi stigagjöf stefnanda því hækkuð úr þremur stigum í fjögur stig.  Umsækjandi A hafi fengið 5 stig, en umsækjendurnir B og C fengið 4,6 stig hvor. Stefndi hafi talið að það væri í samræmi við matskvarða hæfnisnefndarinnar að stefnandi fengi fjögur stig, en til þess að hljóta fullt hús stiga hafi verið áskilnaður um stjórnun lögreglumanna í umfangsmiklum verkefnum á vettvangi og innan lögreglu. Það sé mat stefnda að ekki hafi verið ómálefnalegt að láta sértæka starfsreynslu af stjórnun með mannaforráð innan lögreglu vega þyngra en aðra stjórnunarreynslu með mannaforráð, þar sem um mjög sérhæfða starfsemi sé að ræða. Telji stefndi að það sé í samræmi við heimildir veitingarvaldshafa til að meta hvaða atriði séu best til þess fallin að skera úr um hæfni umsækjenda til starfans. Stefnandi tilgreini undir þessum lið reynslu sína af rekstri eigin fyrirtækja og reynslu af stjórnunarstörfum á vettvangi friðargæslu. Að því er varði rekstur eigin fyrirtækja þá hafi þar um verið að ræða rekstur fyrirtækisins Neglur og list, daggæslu barna og rekstur Pizzameistarans. Stefndi telji að þessi reynsla stefnanda úr einkageiranum nýtist ekki með beinum hætti í stjórnunarstarf hjá lögreglu, enda sé slíkur rekstur alls óskyldur starfsemi og verkefnum lögreglu. Reynsla stefnanda af stjórnunarstörfum á vettvangi friðargæslu nýtist hins vegar betur í stjórnunarstörfum hjá lögreglu og slík reynsla hafi talist stefnanda til tekna að mati hæfnisnefndarinnar, en þó hafi stefnandi ekki náð að sýna nægilega fram á hvernig reynslan kæmi að beinum notum í starfi stöðvarstjórans. Stefndi hafi hins vegar við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála talið að undir þessum lið hafi stjórnunarreynsla stefnanda verið vanmetin og henni borið að fá fjögur stig af fimm mögulegum. Stefndi hafi ekki fallist á það með kærunefndinni að stefnanda hafi borið að fá fullt hús stiga undir þessum lið. Stefndi telji óumdeilt að stefnandi hafi ekki haft reynslu af því að stjórna lögreglumönnum til verka í umfangsmiklum verkefnum á vettvangi, en þeir sem settir hafi verið í stöðurnar hafi hins vegar allir haft töluverða reynslu af slíku og þessi reynsla sé að mati stefnda nauðsynleg fyrir stöðvarstjóra, sem starf aðstoðaryfirlögregluþjóns felist fyrst og fremst í. Þeir sem settir hafi verið í stöðurnar hafi allir gefið skýr dæmi um stjórnunarreynslu og útskýrt vel hvernig þeir brygðust við og leystu verkefni sem upp kæmu. Þeir umsækjendur hafi sannfært hæfnisnefnd um stjórnunarfærni sína og hvernig fyrri reynsla þeirra myndi nýtast á nýjum vettvangi í stjórnun innan lögreglu, en stefnanda síður tekist að sýna fram á þetta í viðtalinu. Með hliðsjón af þessu telji stefndi að málefnalega hafi verið staðið að einkunnagjöf fyrir þennan lið, að teknu tilliti til þeirrar leiðréttinga sem gerð hafi verið við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála.

Spurning 7 hafi lotið að hugmyndafræði og áherslum í starfsemi lögreglustöðva. Samkvæmt ráðningaráætlun hafi tilgangur spurningarinnar verið að fá fram sýn umsækjenda á skipulag lögreglustöðva og hlutverk aðstoðaryfirlögregluþjóns sem stjórnanda í því, ásamt því að leggja mat á hvernig stjórnunarreynsla þeirra og viðhorf féllu að skipulaginu. Hafi stefnandi fengið 3 stig fyrir svör sín við þessari spurningu, en A 4,1 stig, B 4,6 stig og C 5 stig. Stefnandi telji að spurningin hafi verið ívilnandi fyrir þá umsækjendur sem starfað hafi innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og umsækjendum verið mismunað með spurningunni. Stefndi geti ekki fallist á þessar röksemdir og telji rétt að benda á að einn þeirra þriggja sem hlotið hafi setningu í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns, umsækjandinn A, hafi ekki unnið hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og hið sama ætti við um fimm aðra umsækjendur. Stefnandi hafi því setið við sama borð og sex aðrir umsækjendur hvað þennan matslið varði. Stefndi vísi til þess að í viðtalinu við stefnanda hafi komið fram að stefnandi þekkti grunnstefnu embættisins, en ekki gefið til kynna með skýrum hætti að hún hefði trú á fyrirkomulaginu og tillögur hennar að úrbótum verið á afmörkuðu sviði. Þeir sem settir hafi verið í stöðurnar hafi að mati stefnda haft skýrari sýn á skipulagið, eftir atvikum bæði kosti og galla, hvað mögulega mætti betur fara og hvernig, starfseminni til hagsbóta. Samkvæmt ráðningaráætluninni hafi fimm stig verið gefin fyrir mikla þekkingu á starfsemi lögreglustöðva, samsömun og tileinkun. Stefndi telji að af gögnum málsins verði ekki séð að stefnanda hafi verið mismunað við mat á þessum lið fyrir það eitt að hafa ekki verið í starfi hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, enda hún að því leyti setið við sama borð og sex aðrir umsækjendur eins og áður sagði. Stefndi telji ekki ómálefnalegt að spyrja umsækjendur um stjórnandastöðu innan lögreglunnar um hvaða hugmyndir og áherslur þeir sjái fyrir sér í starfsemi lögreglustöðva. Skýr sýn umsækjanda á skipulag lögreglustöðva, kosti og galla núverandi skipulags og tillögur að breytingum til hins betra, séu að mati stefnda þættir sem heimilt sé og málaefnalegt að líta til við heildarmat á hæfni umsækjenda. Eðli málsins samkvæmt geti þeir sem þegar starfi í því starfsumhverfi sem sótt sé um starf í haft betri innsýn í það skipulag sem sé fyrir hendi hjá embættinu, en allir umsækjendur ættu að standa jafnt að vígi hvað varði hugmyndir og tillögur um breytingar eða nýja sýn. Sé að mati stefnda ekki óeðlilegt að umsækjendur úr röðum starfsmanna embættisins geti átt kost á starfsþróun við embættið og þeir sem hafi reynslu hljóti alltaf að búa að henni, en það eitt og sér geti að mati stefnda ekki leitt til ómálefnalegrar mismununar við heildarmat og enn síður feli það í sér nokkra kynjamismunun. Það sé því mat stefnda að eðlilega hafi verið staðið að stigagjöf stefnanda fyrir svör hennar við þessari spurningu og að engin mismunun hafi þar átt sér stað.

Varðandi spurningu 8 geri stefnandi athugasemd við spurninguna í matskvarðanum, þar sem spurt hafi verið um eigið mat umsækjanda á persónubundnum þáttum sem nýst gætu í starfi að mati hæfnisnefndar og fram hafi komið í auglýsingu. Stefnandi hafi fengið 3,3 stig fyrir svör sín við þessari spurningu, en A 4,6 stig og þeir B og C 5 stig hvor. Stefnandi byggi á því að ómálefnalegt hafi verið af stefnda að líta ekki til umsagna yfirmanna hennar frá Líberíu og Afganistan, né annarra umsagnaraðila og annarra fyrirliggjandi gagna um þessa persónubundnu þætti, heldur hafi einungis verið litið til frammistöðu í viðtali.  Þótt fram hafi komið í erindi innanríkisráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála að færa megi rök fyrir því að upplifun nefndarmanna á frammistöðu í viðtali hafi verið heldur mikið, þá telji stefndi engu að síður að rétt hafi verið að líta fyrst og fremst til frammistöðu umsækjenda í viðtalinu hvað þessa spurningu varði. Helgist það af því að þessari spurningu hafi einmitt verið ætlað að fá fram mat umsækjanda sjálfs á eigin ágæti, en ekki að fá álit annarra á umsækjanda. Athugasemdir stefnanda er varði aðkomu fyrrum yfirmanna annarra umsækjenda að ráðningarferlinu hafi af sömu ástæðu ekki þýðingu að mati stefnda, enda hafi matið á svörum við þessari spurningu ekki byggt á upplifun eða umsögnum annarra, heldur á eigin mati umsækjenda. Þá telji stefndi rétt að taka fram að almennt sé umsagna um umsækjendur ekki leitað fyrr en á síðustu stigum máls og þá til að staðreyna að þær upplýsingar sem hafi komið fram séu eins og umsækjandi hafi greint frá. Oftar en ekki sé einungis leitað umsagna með þeim sem þyki hæfastir að undangengnu mati á umsóknargögnum og viðtali. Að mati stefnda geti líka verið varhugavert að byggja um of á umsögnum annarra, enda sé oft mikill munur á þeim aðilum sem umsagnir veiti og mismunandi hvernig þeim takist til við að koma umsögn til skila. Stefndi telji það almenna og þekkta framkvæmd að byggja mat á persónubundnum þáttum á frammistöðu í viðtali, enda vandséð betri leið til að fá fram eigið mat umsækjanda á kostum sínum í starfið. Með vísan til þessa telji stefndi að eðlilegt hafi verið að byggja stigagjöf fyrir þessa spurningu á frammistöðu stefnanda í viðtalinu og jafnframt að eðlilegt hafi verið að leita ekki umsagna um persónubundna þætti stefnanda á þessu stigi.

Í spurningu 9 hafi verið spurt um reynslu af rekstri og aðkomu að áætlanagerð, eftirfylgni við áætlanir í fjárhags- og mannaflamálum og utanumhald og skipulag vinnu í Vinnustund. Í stigagjöf fyrir þessa spurningu hafi stefnandi fengið 4 stig, A og B 5 stig og C 4,6 stig. Stefndi árétti að við meðferð máls stefnanda hjá kærunefnd jafnréttismála hafi stefndi fallist á athugasemdir stefnanda varðandi þennan matslið og stefnandi þannig fengið fullt hús stiga fyrir svör sín við þessari spurningu og þar með jafnmörg stig og tveir af þeim sem fengið hafi stöður aðstoðaryfirlögregluþjóns. Að mati stefnda sé því ekki lengur ágreiningur hvað þennan matslið varði.

Í stefnu komi fram það mat stefnanda að henni hafi borið að fá 41,3 stig að loknu fyrsta viðtali og að taka hafi átt allar spurningar matskvarðans með í heildarmati á umsækjendum. Jafnframt hafi stefnandi talið að henni hafi borið fullt hús stiga fyrir þá stigagjöf sem ágreiningur sé um. Hafi þannig verið byggt á því af hálfu stefnanda að stefnandi hafi átt að komast áfram í ráðningarferlinu og spreyta sig í öðru viðtali. Vísi stefandi til þess að slík niðurstaða sé í samræmi við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 1/2015. Stefndi hafni framangreindum fullyrðingum stefnanda og telji þær í meginatriðum rangar. Stefndi bendi á að í stigagjöf fyrir fyrsta viðtal hafi stefnandi hlotið 24 stig en þeir sem settir hafi verið í stöðurnar að loknu umfangsmiklu ráðningarferli hlotið 33, að því er varði A, 32 að því er varði B og 31 að því er varði C, stig að loknu fyrsta viðtali. Við meðferð máls stefnanda hjá kærunefnd jafnréttismála hafi stefndi leiðrétt stigagjöf fyrir svör stefnanda við spurningum, í samræmi við framkomnar ábendingar stefnanda, þannig að í stað 4 stiga við spurningu 3 um samstarf við hagsmunaaðila hefði borið að gefa 5 stig, í stað 3 stiga fyrir svör við spurningu 6 um stjórnunarreynslu hefði borið að gefa 4 stig og fyrir spurningu 9 um rekstur og áætlanagerð hefði rétt stigagjöf verið 5 stig í stað 4 stiga. Þannig hafi að mati stefnda rétt stigagjöf fyrir frammistöðu stefnanda í viðtalinu átt að gefa henni 27 stig. Þrátt fyrir að stefndi hafi leiðrétt heildarmat stefnanda úr fyrsta viðtali í samræmi við ábendingar stefnanda, sem fram hafi komið við meðferð máls hennar hjá kærunefndinni, þá telji stefndi ljóst að stefnandi hefði ekki komist áfram í annað viðtal, enda þurft til þess 29 stig úr heildarmati. Það sé mat stefnda að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að henni hafi borið hærri stigagjöf en sú sem hún hafi hlotið eftir leiðréttinguna eða samtals 27 stig. Stefndi geti heldur ekki fallist á þær fullyrðingar stefnanda að óheimilt hafi verið gera breytingar á ráðningaráætlun, að loknu fyrsta viðtali, enda hafi þær breytingar tekið jafnt til allra umsækjenda sem fengið hafi tækifæri til að spreyta sig í þeim hluta ráðningarferlisins. Stefnandi hafi því gengist undir sama heildarmat í fyrsta viðtali og aðrir umsækjendur í sömu stöðu. Breytingarnar hafi að mati stefnda verið málefnalegar og til þess fallnar að varpa sem skýrustu ljósi á hæfni umsækjenda um stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns. Stefndi telji breytingarnar jafnframt rúmast innan þeirra heimilda sem skipunarvaldshafi hafi, enda hafi hann talsvert svigrúm til mats hvað þetta varði og sé skylt að líta til þess með hvaða hætti menntun og starfsreynsla nýtist best í því starfi sem til umfjöllunar sé hverju sinni, allt með hliðsjón af auglýsingu um starfið sem og lögákveðnum skilyrðum um verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóns, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1051/2006. Það sé mat stefnda að niðurstaða hæfnisnefndarinnar, að teknu tilliti til leiðréttingar stefnda við meðferð málsins hjá kærunefndinni, hafi verið forsvaranleg og málefnaleg og í fullu samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Stefnandi byggi á því að þær hæfniskröfur sem hæfnisnefnd og ráðningaráætlunin hafi gert til umsækjenda um stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns hafi gengið gegn meginreglum stjórnsýslulaga, ákvæðum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglum nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum, þar sem við heildarmat í fyrsta viðtali hafi verið gerð krafa um nokkuð umfangsmikla stjórnunarreynslu sem hafi ekki verið getið um í auglýsingu. Stefndi hafni framangreindum fullyrðingum og telji rétt að árétta að reglur nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum mæli fyrir um lágmarksupplýsingar sem stjórnvöldum beri að veita þegar opinbert starf sé auglýst laust til umsóknar. Að mati stefnda fáist ekki séð annað en að stefndi hafi gætt þeirra lágmarksupplýsinga sem krafist sé í reglunum. Í auglýsingunni hafi komið fram greinargóðar upplýsingar um þær almennu og sérstöku hæfnikröfur sem gerðar séu til rækslu stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns. Í 6. gr. laga nr. 70/1996 sé mælt fyrir um almenn hæfisskilyrði sem allir starfsmenn ríkisins þurfi að uppfylla til að geta hlotið starf eða embætti. Í 5. tölulið 6. gr. laganna sé svo mælt fyrir um þær almennu og sértæku menntunarkröfur sem verði að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfsins. Stefndi fallist á með stefnanda að í auglýsingu skuli almennt gera grein fyrir þeim almennu hæfisskilyrðum sem þeir sem til greina geti komið í starfið þurfi að uppfylla, sem og þeim sérstöku hæfiskröfum sem stjórnvald hyggist leggja áherslu á við mat á umsækjendum. Að mati stefnda hafi komið mjög skýrt fram í auglýsingu undir liðnum helstu verkefni og ábyrgð að stjórnun með mannaforráð væri meginhluti starfs aðstoðaryfirlögregluþjóns. Stefndi telji því að ekki hafi verið ómálefnalegt að stjórnun með mannaforráð hafi aukið vægi við heildarmat umsækjenda í fyrsta viðtali þegar litið sé til þeirrar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að leitast skuli við að velja hæfasta umsækjandann. Telji stefndi þessa óskráðu meginreglu fela það meðal annars í sér að ákvörðun um veitingu starfs skuli ávallt byggjast á mati á atriðum, sem séu til þess fallin að varpa ljósi á frammistöðu viðkomandi í því starfi sem um ræði hverju sinni. Að mati stefnda sé því beinlínis rangt sem haldið sé fram í stefnu að ekki hafi verið gerð krafa um stjórnunarreynslu í auglýsingu, sú krafa hafi einfaldlega verið fólgin í lýsingu á helstu verkefnum og ábyrgð starfsins og svo nánar verið útfærð í ráðningaráætluninni. Þegar lögmæltum hæfisskilyrðum eða sjónarmiðum sem skylt sé að byggja á við skipun, setningu eða ráðningu í starf hjá ríkinu sleppi, þá komi það í hlut stjórnvalds að ákveða á hvaða sjónarmiðum skuli byggja við val milli hæfra umsækjenda. Sjónarmiðin verði þó að vera málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2630/1998. Það sé mat stefnda að stefndi hafi fyllilega byggt á málefnalegum sjónarmiðum og að þær kröfur sem gerðar hafi verið til hæfis umsækjenda hafi verið í eðlilegum tengslum við stöðurnar sem auglýstar hafi verið.

Af hálfu stefnanda sé byggt á því að með setningu þriggja karlmanna í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi stefndi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008. Stefnandi telji að sér hafi verið mismunað á grundvelli kyns er hæfnisnefnd hafi veitt henni færri stig en karlkynsumsækjendum. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 20/2008 komi fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt 4. mgr. 26. gr. skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, ef leiddar séu líkur að því að við ráðningu, setningu eða skipun í starf hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns. Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli stefnanda, nr. 1/2015, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum við setningu í umræddar stöður. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 séu úrskurðir kærunefndar bindandi fyrir málsaðila og sé þar mælt nánar fyrir um hvernig þeir verði bornir undir dómstóla.  Ákvæðið sé að mati stefnda vandskýrt og erfitt að festa hönd á hvernig úrskurður þessa efnis sé bindandi að lögum eða hafi réttaráhrif. Stefndi byggi á því að úrskurður kærunefndar jafnréttismála geti ekki talist bindandi á þann hátt að þegar séu skilyrði til að taka kröfur stefnanda til greina að einhverju leyti eða öllu. Liggi til þess margar ástæður.

Í fyrsta lagi telji stefndi að dómstólar séu ekki bundnir af úrskurði kærunefndarinnar um hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 10/2008, enda sé sakarefni um það ekki undanskilið úrlausnarvaldi dómstóla í lögunum, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Í ljósi þess ákvæðis stjórnarskrár beri að túlka ákvæði laga nr. 10/2008 um bindandi gildi úrskurðarins þröngt. Dómurinn hafi því vald til þess að kveða á um öll skilyrði bótaskyldu í málinu, sem til skoðunar geti komið, og hvort setning í stöðurnar hafi verið lögmæt og réttra aðferða gætt við hana. Ákvæði laga nr. 10/2008 séu þar ekki undanskilin.  Að sama skapi hafi stefndi rétt til þess að byggja á því að skipunin hafi ekki brotið gegn nefndum lögum og sé mótmælt að úrskurðurinn feli í sér lögbundið mat.

Í öðru lagi byggi stefndi á því að úrskurður kærunefndar jafnréttismála hafi hvorki kveðið á um að setja hafi átt stefnanda í stöðuna né að greiða beri bætur henni til handa. Úrskurður kærunefndarinnar hafi ekki verið bindandi á þá lund að stefnandi hafi verið hæfust umsækjenda. Telji stefndi að sakarefni máls þessa sé ótruflað af úrskurði kærunefndarinnar, hvort heldur litið sé til þess að þeir þrír umsækjendur sem hlutu stöðurnar hafi verið hæfastir umsækjenda eða að þeir, ásamt sjö öðrum umsækjendum hafi verið metnir hæfari en stefnandi.

Í þriðja lagi byggi stefndi á því að þótt dómurinn teldi sig bundinn af úrskurði nefndarinnar að einhverju leyti, þá leysi það ekki úr því hvort skilyrði bótaskyldu séu fyrir hendi. Dóminum sé óhjákvæmilegt að leysa úr öllum vörnum stefnda gegn kröfum stefnanda, hvort heldur þær lúti að kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda eða kröfum stefnanda um miskabætur úr hendi stefnda. Vísi stefndi til dómaframkvæmdar að bótaréttur um hvort tveggja sé sjálfstætt úrlausnarefni. Þannig telji stefndi að hann geti, án tillits til niðurstöðu kærunefndarinnar, fengið leyst úr öllum málsástæðum og lagarökum sínum gagnvart kröfum stefnanda. Eigi það við um öll skilyrði bóta, svo sem hvort um ólögmæta háttsemi hafi verið að ræða, saknæmi, ætlað tjón, orsakatengsl og sennilega afleiðingu, sem og alla sönnunarfærslu. Úrskurður kærunefndarinnar geti því ekki haft áhrif á það hvort setja hafi átt stefnanda í eina af hinum auglýstu stöðum, frekar en þá sem stöðurnar hafi fengið eða einhverja aðra umsækjendur, né heldur geti úrskurðurinn haft áhrif á hvort stefnandi geti átt rétt til bóta fyrir fjártjón eða miska. Stefndi byggi á því að þeir þrír umsækjendur sem settir hafi verið í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna hafi verið hæfustu umsækjendurnir og að stefnandi hafi ekki sannað að setja hafi átt hana í eina af þeim stöðum.

Stefndi byggi á því að úrskurður kærunefndar jafnréttismála hafi verið haldinn form- og efnisannmörkum. Telji stefndi að nefndin hafi ekki rannsakað nægilega úrlausnarefnið sem fyrir hana hafi verið lagt og að rökstuðningur fyrir niðurstöðunni hafi verið ófullnægjandi, en nefndinni hafi borið að upplýsa málið ítarlega samkvæmt 6. og 7. gr. laga nr. 10/2008 og gæta einnig ákvæða laga nr. 37/1993. Hafi nefndinni verið þetta vel kunnugt enda legið fyrir álit umboðsmanns Alþingis þar að lútandi í máli nr. 2214/1997. Stefndi telji að kærunefndin hafi ekki metið málefnalega menntun og starfsreynslu þeirra þriggja umsækjenda sem hlutu stöðurnar og jafnframt hafi kærunefndin ofmetið menntun og reynslu stefnanda að sama skapi. Vísi stefndi nánar um þetta til þess sem rakið hafi verið þar sem gerð sé ítarleg grein fyrir afstöðu stefnda til stigagjafar fyrir hverja spurningu og ítreki þá afstöðu að rétt hafi verið staðið að stigagjöf til handa stefnanda, að teknu tilliti til síðari leiðréttinga sem raktar hafi verið. Stefndi telji að framangreint leiði meðal annars til þess að úrskurðurinn geti ekki haft áhrif til stuðnings kröfum stefnanda, enda niðurstaða kærunefndarinnar ekki á þá lund að setja hafi átt stefnanda í eina af hinum auglýstu stöðum. Þótt ekki yrði fallist á að úrskurður nefndarinnar hafi verið haldinn formannmörkum að þessu leyti, sé aðstaðan engu að síður sú að nefndin hafi ekki haft forsendur til að slá því föstu að stefnandi hafi átt að hljóta stöðuna. Aðilar að kærumálinu hafi einungis verið þeir sömu og aðilar dómsmáls þessa og nefndin því ekki tekið til skoðunar aðra umsækjendur sem komið hafi fremur til greina en stefnandi. Þá ítreki stefndi að nefndin hafi ekki kveðið á um skaðabótaskyldu stefnda. Stefndi byggi á því að fram hafi farið ítarleg könnun á umsækjendum eins og rakið hafi verið sem unnin hafi verið af hæfnismatsnefnd þriggja einstaklinga með mikla reynslu af starfsmannamálum innan lögreglunnar, m.a. mannauðsstjóri embættisins. Afrakstur þeirrar vinnu hafi verið á allan hátt hlutlaus og engin merki þess að kynferði hafi nokkru ráðið. Í því sambandi bendi stefndi sérstaklega á að kvenkyns umsækjendur hafi upphaflega verið 11, þrjár þeirra verið í hópi 25 umsækjenda sem uppfyllt hafi almennar hæfiskröfur til þess að vera boðaðir í fyrsta viðtal og af þeim 10 sem boðaðir hafi verið í annað viðtal hafi verið ein kona. Það sé því að mati stefnda ekki með réttu hægt að halda því fram að kynferði hafi ráðið því að stefnanda hafi ekki verið boðið að koma í annað viðtal.

Stefndi vísi til þess að samkvæmt 26. gr. laga nr. 10/2008 verði að liggja fyrir einhverjar vísbendingar eða líkur um beina eða óbeina mismunun vegna kynferðis og jafnframt að þegar svo sé þá þurfi atvinnurekandi að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Að mati stefnda hafi ekki verið sýnt fram á að einhverjar vísbendingar hafi verið um mismunun á grundvelli kynferðis. Afstaða kærunefndarinnar hafi verið sú að hæfni stefnanda hafi að öllum líkindum verið vanmetin og að það feli í sér að leiddar hafi verið líkur að því að stefndi hafi mismunað stefnanda. Stefndi hafi fallist á það við meðferð málsins að í þremur tilvikum hefði hæfni stefnanda verið vanmetin og stigagjöfin verið leiðrétt í samræmi við það. Það hafi hins vegar ekki leitt til þess að hún kæmist í annað viðtal í ráðningarferlinu, en það hafi hins vegar önnur kona gert, eins og rakið hafi verið. Þá bendi stefndi á að kærunefnd jafnréttismála hafi ekkert skoðað hvort sams konar annmarkar hafi verið á stigagjöf allra umsækjenda, óháð kynferði. Hið langa ráðningarferli og ítarleg og umfangsmikil gögn sýni fram á að mat á umsækjendum hafi verið óháð kynferði og fullyrði stefndi að kynferði umsækjenda hafi engin áhrif haft við meðferð umsókna eða við val á setningu í stöðurnar og sé fullyrðingum um að svo hafi verið mótmælt sem ósönnuðum. Að mati stefnda sé því sú niðurstaða kærunefndarinnar um að stefndi hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hennar hafi legið þar til grundvallar, einfaldlega röng og sé þannig um efnislegan annmarka á úrskurðinum að ræða.

Stefndi byggi á því að þeir þrír umsækjendur sem settir hafi verið í stöðurnar hafi verið hæfustu umsækjendurnir. Jafnframt byggi stefndi á því að sjö aðrir umsækjendur hafi verið hæfari en stefnandi, þar á meðal ein kona og hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hún hafi verið jafnhæf og þau sem komust í annað viðtal, hvað þá að hún hafi sýnt fram á að hún hafi verið hæfari. Jafnframt byggi stefndi á því að játa verði stöðuveitanda svigrúm til að meta persónulega eiginleika og kosti umsækjenda og líta þá einnig sérstaklega til frammistöðu í viðtölum. Telji stefndi samkvæmt öllu framansögðu að fyrir liggi að þetta mat hafi verið málefnalegt og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Bæði þeir sem settir hafi verið í stöðurnar og sjö aðrir umsækjendur hafi staðið stefnanda framar að þessu leyti og ekkert í úrskurði kærunefndarinnar segi að gengið hafi verið framhjá stefnanda við setningu í stöðuna, enda nefndin ekki lagt mat á það hvort stefnandi teldist jafnhæf eða hæfari en þeir sem settir hafi verið. Stefndi bendi á að það sé skilyrði þess að um brot gegn lögum nr. 10/2008 geti verið að ræða að umsækjandi sem haldi því fram að brotið hafi verið gegn sér hafi verið metinn í það minnsta jafnhæfur þeim sem að lokum hafi verið settur í stöðu. Þetta skilyrði eigi jafnt við þótt konur séu í minnihluta í þeirra starfstétt sem um ræði. Því hafi ekki verið til að dreifa í tilviki stefnanda að hún hafi verið metin jafnhæf þeim sem hlutu stöðurnar og grundvöllur dómkrafna hennar sé því ekki fyrir hendi að mati stefnda. Með vísan til þessa telji stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði séu til viðurkenningar á bótaskyldu eða til greiðslu miskabóta á grundvelli 31. gr. laga nr. 10/2008. Stefndi telji að mat á því hvort bótaskilyrðum þess ákvæðis sé fullnægt sé sjálfstætt úrlausnarefni, sem ekki verði skilið undan lögsögu dómstóla þótt stefndi hafi ekki skotið úrskurði kærunefndarinnar sérstaklega til dómstóla. Ákvæðið hafi verið sama efnis í áður gildandi jafnréttislögum og dómstólar leyst úr því sérstaklega hvort bótaréttur sé fyrir hendi, hvort heldur sé vegna ætlaðs fjártjóns eða miska. Stefndi telji að um sé að ræða heimildarákvæði en ekki skyldu til greiðslu bóta. Hafi þannig verið leyst úr því sérstaklega, jafnvel að fenginni niðurstöðu í dómi að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna. Samkvæmt öllu framansögðu byggi stefndi á því að ekki hafi verið brotið gegn lögunum, enda hafi engri mismunun verið fyrir að fara á grundvelli kynferðis. Þá byggi stefndi á því að saknæmisskilyrði 31. gr. laganna séu ekki uppfyllt. Ráðherra og undirmenn hans hafi verið í góðri trú um að sá faglegi grunnur sem lagður hafi verið að setningunni væri málefnalegur og í samræmi við lög. Þótt sú yrði niðurstaðan að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 á þann hátt sem kærunefndin hafi talið, byggi stefndi á því að ekki séu skilyrði til greiðslu bóta fyrir fjártjón eða miska, hvorki á grundvelli nefndrar 31. gr. né annarra bótareglna. Hafi stefnandi ekki sannað að setja hafi átt hana í stöðurnar framar öðrum umsækjendum, eins og ítarlega hafi verið rakið og skilyrði bótaskyldu því ekki fyrir hendi.

Á því sé byggt af hálfu stefnanda að ráðherra hafi ekki gætt að skyldum sínum sem veitingarvaldshafi, með því að hann hafi alfarið falið hæfnisnefnd að taka þá ákvörðun að ljúka ráðningarferlinu gagnvart stefnanda og því hafi ráðherra sem veitingarvaldshafi ekki lagt sjálfstætt mat á grundvöll þeirrar niðurstöðu nefndarinnar.

Stefndi bendi á að á þeim tíma sem um ræði hafi 4. mgr. 28. gr. laga nr. 90/1996 mælt fyrir um að ráðherra skipaði aðstoðarlögregluþjóna. Með 7. gr. laga nr. 51/2014, sem tekið hafi gildi 27. maí 2014, hafi ákvæðinu verið breytt á þann veg að lögreglustjóri skipi nú aðstoðaryfirlögregluþjóna að fenginni umsögn hæfnisnefndar, sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1996, en þar sé mælt fyrir um að ríkislögreglustjóri starfræki hæfnisnefnd sem veiti lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfni umsækjenda við skipun í störf lögreglumanna. Eins og rakið sé hér að framan, þá hafi innanríkisráðherra falið lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að vinna ráðningaráætlun og í framhaldinu verið skipuð hæfnisnefnd þriggja yfirmanna sem hafi verið falið að leggja frekara mat á umsækjendur um stöðurnar. Telji stefndi rétt að hafa í huga sem áður hafi komið fram, að ráðherra hafi talið lögreglustjóra og yfirmenn hjá embætti hans best til þess fallna að meta hæfi og hæfni umsækjenda, enda hafi lögunum nú verið breytt á þann veg að veitingarvaldið sé í dag hjá lögreglustjóra og hafi sú breyting raunar tekið gildi daginn eftir að innanríkisráðherra hafi sett í stöðurnar. Stefnandi telji innanríkisráðuneytið hafa litið svo á að hlutverk þess hafi, á þeim tíma sem skipunarvaldið var hjá ráðherra, verið að tryggja að ráðningarferlið væri réttmætt og að þeir matskvarðar er lagðir væru til grundvallar ákvörðun væru réttmætir og málefnalegir. Ráðuneytið hafi farið í gegnum ráðningarferlið sem lögreglustjóri hafi lagt fram og matskvarðana og mat á þá leið að það væri faglega uppbyggt, byggði á málefnalegum forsendum og væri til þess fallið að finna hæfustu umsækjendurna. Bendi stefndi á að ráðuneytið hafi til dæmis samþykkt að það væri réttmæt ákvörðun að taka einungis þá 25 umsækjendur sem hefðu a.m.k. eins árs samfellda stjórnunarreynslu í fyrsta viðtal. Jafnframt hafi ráðuneytið samþykkt að eðlilegt væri að 10 manns færu áfram í annað viðtal að undangengnu mati á umsækjendum, sem byggt hafi á þeim matskvörðum sem ráðuneytið hafi áður samþykkt. Að hálfu stefnda sé því hafnað að framangreint feli í sér verulegan annmarka á málsmeðferð veitingarvaldshafa, þannig að nokkur áhrif geti haft á málatilbúnað stefnanda.

Stefnandi byggi á því að Y, sem verið hafi nefndarmaður í hæfnisnefndinni, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993. Sé byggt á því að þar sem nefndarmaðurinn hafi á þeim tíma sem um ræðir verið yfirlögregluþjónn yfir almennri löggæslu, þá hafi tveir þeirra umsækjenda sem hlotið hafi stöðurnar starfað á lögreglustöðvum sem heyrt hafi undir nefndarmanninn og hann hafi því verið vanhæfur til að sitja í hæfnisnefndinni. Að mati stefnanda teljist ætlað vanhæfi nefndarmannsins Y til verulegs annmarka á málsmeðferð og að ekki myndi nægja að nefndarmaðurinn viki einungis í viðtölum við þá umsækjendur sem hann teldi sig vanhæfan vegna, heldur væri hann vanhæfur til meðferðar málsins í heild. Af hálfu stefnda sé ekki fallist á þetta. Stefndi telji rétt að ítreka að mat á umsækjendum hafi verið byggt á fyrirframgefnum matskvörðum sem ætlað hafi verið að tryggja sem best að nefndarmenn styddust við hlutbundna matskvarða þegar lagt hafi verið mat á frammistöðu umsækjenda. Þá telji stefndi ljóst að umrædd hæfnisnefnd hafi verið ráðgefandi, enda skipunarvaldið í höndum innanríkisráðherra á þessum tíma. Ekki verði annað séð af gögnum máls en að ráðherra hafi tekið sjálfstæða ákvörðun, að fenginni tillögu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um setningu í stöðurnar og því hafi stefnandi ekki sýnt fram á að vanhæfi Y hafi haft áhrif á heildarmat á umsækjendum í fyrsta viðtali.

Stefnandi gagnrýni að skráning upplýsinga úr viðtölum hafi verið ábótavant og ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í 27. gr. laga nr. 140/2012. Stefndi fallist á með stefnanda að betur hafi mátt standa að skráningu upplýsinga úr fyrsta viðtali. Hins vegar veki stefndi einnig athygli á því að við meðferð máls stefnanda hjá kærunefnd jafnréttismála hafi verið tekið tillit til þessara ábendinga og fallist á að í ljósi þessa hafi frammistaða í viðtali fengið of mikið vægi. Stefndi bendi á að þrátt fyrir að frammistaða í viðtalinu væri tekin út úr matinu hjá öllum umsækjendum, þá væri staðan engu að síður sú að stefnandi hefði ekki fengið nægilega mörg stig að loknu heildarmati til að komast áfram í annað viðtal. Verði því að mati stefnda ekki séð að þessi annmarki hafi haft áhrif við heildarmat á umsækjendum eða við setningu í stöðurnar.

Að því er varði málsástæður stefnda um að skilyrði fyrir skaðabótaskyldu stefnda séu ekki fyrir hendi, vísist nánar til umfjöllunar þar sem fjallað hafi verið um ætlað brot gegn jafnréttislögum. Sé ítrekuð sú afstaða stefnda að skilyrði til greiðslu bóta fyrir fjártjón eða miska séu ekki fyrir hendi, hvorki á grundvelli 31. gr. laga nr. 10/2008 né annarra bótareglna. Stefnandi hafi ekki sannað að setja hafi átt hana í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns framar öðrum umsækjendum og því hafi hún ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni eða miska af völdum stefnda, en um það beri stefnandi sönnunarbyrði. Stefndi mótmæli því sérstaklega að skilyrði séu til greiðslu miskabóta eftir 26. gr. laga nr. 50/1993. Engri ólögmætri meingerð hafi verið fyrir að fara gagnvart stefnanda og á engan hátt vegið að starfsheiðri stefnanda, persónu hennar eða æru. Stefndi vísi til stuðnings lækkunarkröfu sinni til allra ofangreindra málsástæðna sem að mati stefnda eigi að leiða til lækkunar miskabótakröfu, fallist dómurinn á hana.

Til stuðnings kröfum sínum um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi mótmælir kröfugerð og málsástæðum stefnanda í heild sinni. 

 

IV

Niðurstaða

Innanríkisráðuneytið auglýsti lausar til setningar þrjár stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 21. febrúar 2014. Í auglýsingunni kom fram að sett yrði í stöðurnar til reynslu í tólf mánuði með skipun í huga að reynslutíma loknum. Þá kom einnig fram hver væru helstu verkefni aðstoðaryfirlögregluþjóna og jafnframt skilgreindar hæfniskröfur sem gerðar voru til umsækjenda. Loks kom fram að konur væru sérstaklega hvattar til að sækja um. Á þessum tíma kvað 4. mgr. 28. gr. laga nr. 90/1996 á um að ráðherra skipaði aðstoðaryfirlögregluþjóna.

Alls bárust fimmtíu og ein umsókn um framangreindar stöður. Að höfðu samráði við innanríkisráðherra skipaði lögreglustjórinn á höfðuborgarsvæðinu hæfnisnefnd til að undirbúa ráðningarferlið og leggja mat á hæfi og hæfni umsækjenda. Eftir yfirferð á umsóknum var ákveðið að kalla tuttugu og fimm umsækjendur í fyrsta starfsviðtal og var stefnandi þar á meðal. Tíu umsækjendur voru síðan valdir til að fara í annað starfsviðtal og var stefnandi ekki þar á meðal. Af þeim tíu sem fóru í annað viðtal valdi hæfnisnefndin síðan fimm til að fara í þriðja og síðasta viðtalið. Innanríkisráðherra setti þrjá nafngreinda karlmenn úr þeim hópi í stöðurnar í framhaldinu. Stefnandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir setningunni og barst rökstuðningur ráðherra 3. júlí 2014.

            Stefnandi kærði setningu í stöður aðstoðaryfirlögregluþjónanna til kærunefndar jafnréttismála 2. janúar 2015. Með úrskurði kærunefndarinnar 12. júní 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að innanríkisráðherra hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við setningu í stöðurnar. Taldi nefndin ljóst að mat á að minnsta kosti fimm spurningum af sjö sem beint var til umsækjenda hafi verið háð annmörkum að meira eða minna leyti. Þá taldi nefndin að stefndi hafi ekki metið hæfni stefnanda til að gegna stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns á málefnalegum forsendum. Nefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að hæfni stefnanda hafi að öllum líkindum verið vanmetin og því nægilegar líkur verið leiddar að því að stefndi hafi mismunað stefnanda. Þótti stefndi ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði stefnanda hafi legið þar til grundvallar. Því taldi nefndin að stefndi hafi brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

            Í því máli sem hér er til meðferðar krefst stefnandi viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda sem og greiðslu miskabóta úr hans hendi. Byggir stefnandi kröfu sína á því að verulegir, formlegir og efnislegir, annmarkar hafi verið á setningu innanríkisráðherra í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfðuborgarsvæðinu í maí 2014. Embættisveitingin hafi því verið ólögmæt. Stefnandi hafi verið hæfasti umsækjandinn, eða að minnsta kosti jafnhæf og þeir sem settir hafi verið í umræddar stöður. Með setningunum hafi jafnréttislög því verið brotin.   

Í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 segir að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Stefndi hefur ekki höfðað mál til ógildingar úrskurðinum. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er heimilt að bera réttarágreining undir endanlegan úrskurð dómstóla. Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til, nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu. Verður réttur til að bera réttarágreining undir dómstóla samkvæmt þessu ekki takmarkaður nema með skýrum og ótvíræðum hætti.

Samkvæmt ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 hafa úrskurðir kærunefndar jafnréttismála bindandi áhrif fyrir aðila máls. Var ákvæði þetta nýmæli í lögum nr. 10/2008, en áður gaf nefndin upp álit sitt í málum sem til hennar bárust. Var ætlunin með setningu þessa ákvæðis að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi og leiða til þess að þær yrðu virtar. Svo sem fyrr var rakið er heimilt samkvæmt ákvæðinu að bera úrskurði kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla. Stefndi hefur borið fyrir sig að úrskurður kærunefndarinnar sé haldinn ýmsum göllum og að ekki sé unnt að leggja hann til grundvallar um að stefndi hafi gerst brotlegur við jafnréttislög. Úrskurður kærunefndar jafnréttismála var kveðinn upp 12. júní 2015. Þar sem stefndi hefur ekki krafist ógildingar úrskurðarins fyrir dómstólum verður talið að úrskurðurinn sé bindandi fyrir aðila málsins, en sú skýring á ákvæðinu styðst við framangreind lögskýringargögn. Hefur úrskurðurinn því réttaráhrif samkvæmt efni sínu og er ekki á færi dómsins að breyta efni hans í því máli sem hér er til úrlausnar. Verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins, að við setningu í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi innanríkisráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008.

 Að þessari niðurstöðu virtri verður næst til úrlausnar hvort stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna stöðuveitinganna og hvort stefnandi eigi rétt á miskabótum úr hendi stefnda vegna brots gegn lögum nr. 10/2008. Samkvæmt 31. gr. laga nr. 10/2008 er sá sem af ásettu ráði eða vanrækslu brýtur gegn lögunum skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur má dæma hlutaðeigandi til að greiða þeim sem misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, bætur vegna miska. Stefnandi reisir kröfu sína um skaðabætur á því að stefnandi hefði með réttu átt að vera með fleiri stig en tveir af þeim sem settir voru í stöðurnar. Þar af leiðandi hafi nægilegar líkur verið leiddar að því að ef ráðningin hefði verið í samræmi við þær reglur sem um málsmeðferðina gilda hefði stefnandi verið sett í eina af þeim þremur stöðum sem auglýstar voru. 

Að því er kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varðar er til þess að líta að stefnandi var, eins og áður er komið fram, ein af tuttugu fimm umsækjendum sem metnir voru nægilega hæfir til að komast í fyrsta viðtal. Eftir að niðurstöður út fyrsta viðtali lágu fyrir valdi hæfnisnefndin tíu umsækendur, sem hún taldi nægilega hæfa, til að fara í annað viðtal. Stefnandi var ekki þar á meðal. Stefnandi hlaut í fyrsta starfsviðtali 24 stig, en þeir er komust í annað starfsviðtal þurftu að hljóta 29 stig. Eftir viðtal númer tvö valdi hæfnisnefndin fimm umsækjendur, sem hún taldi nægilega hæfa, til að fara í þriðja og síðasta viðtalið. Úr hópi síðustu fimm umsækjendanna voru þrír settir í hinar auglýstu stöður.   

Eftir almennum reglum ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi átt lögvarinn rétt til setningar í hinar umþrættu stöður umfram aðra umsækjendur. Við meðferð máls stefnanda fyrir kærunefnd jafnréttismála viðurkenndi stefndi að stefnandi hefði fengið of fá stig í stigagjöfinni í tilgreindum tilvikum. Að því er reynslu af samstarfi við hagsmunaaðila í spurningu 3 varðar fékk stefnandi fjögur stig hjá hæfnisnefndinni en stefndi kveður stefnanda með réttu hafa átt að fá fimm stig. Að því er stjórnunarstörf og reynslu á því sviði varðar fékk stefnandi þrjú stig hjá hæfnisnefndinni en stefndi féllst á fyrir kærunefndinni að stefnandi hefði átt að fá fjögur stig. Loks fékk stefnandi fjögur stig í spurningu nr. 9 um rekstur og aðkomu að áætlanagerð en stefndi viðurkenndi fyrir kærunefndinni að stefnandi hefði átt að fá fimm stig. Stefnanda hefði því borið að fá 27 stig eftir starfsviðtalið. Að auki hefur stefndi viðurkennt að starfsviðtal hefði haft of mikið vægi í ráðningarferlinu og því ekki nægjanlegt tillit tekið til fyrirliggjandi gagna um umsækjendur. Allt eru þetta þættir sem stefndi hefur viðurkennt sem mistök við ráðningarferlið eftir að sett var í hinar auglýstu stöður.

Að mati dómsins eru fleiri þættir en hér að framan greinir, sem telja verður annmarka á ráðningarferlinu. Þannig var sérstaklega horft til þess varðandi mat á almennri og sérstakri menntun hvort umsækjendur hefðu lokið stjórnendanámi við Lögregluskóla ríkisins. Óumdeilt er að nám þetta hefur ekki verið í boði fyrir starfsmenn innan lögreglunnar frá árinu 2007. Með því að leggja slíkt vægi á nám sem ekki er lengur í boði fyrir lögreglumenn er umsækjendum mismunað á ómálefnalegan hátt. 

Dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafa á liðnum árum í málum er varða stöðuveitingar hins opinbera lagt til grundvallar að veitingarvaldshafi hafi ákveðið svigrúm við ráðningu og skipun í opinber störf. Þannig sé ákveðið svigrúm til staðar er kemur að því að meta hæfisskilyrði umfram hin almennu hæfisskilyrði, þegar gera þarf upp á milli hæfra umsækjenda um starf. Þau sjónarmið sem að baki ráðningum búi þurfi að vera málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf. Þá þurfi forsvaranlegar ályktanir að vera dregnar af fyrirliggjandi upplýsingum, en ávallt sé til staðar ákveðið efnislegt mat þegar kemur að samanburði á hæfni umsækjenda. Hafi stjórnvald aflað sér fullnægjandi upplýsinga til þess að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falli að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram í ljósi þeirra, njóti stjórnvöld töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfi.

Að öðru leyti en varðandi þá annmarka er hér að framan voru tíundaðir á störfum og mati hæfnisnefndarinnar verður talið að hæfnisnefndin hafi haft fullnægjandi upplýsingar yfir að ráða við mat og samanburð á hæfni einstaka umsækjenda. Þá verður ekki talið að þær áherslur er nefndin miðaði við hafi verið fyrir utan það svigrúm sem veitingavaldshafinn hefur eða verið ómálefnalegar þegar litið er til þeirra starfa er um ræddi.

Eins og mál þetta er lagt fyrir dómstóla, að því er kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varðar, verður ekki fullyrt að stefnanda hafi borið setning í hinar umþrættu stöður, umfram þá tíu umsækjendur sem komust í annað starfsviðtal. Leiðir sú niðurstaða af þeirri staðreynd að fyrir dóminn eru ekki lögð gögn svo unnt sé að meta hæfni þeirra umsækjenda annarra er komust í tíu manna úrtakið og hvort einhver þeirra umsækjenda hefði með réttu átt að fá fleiri stig en hæfnisnefndin veitti viðkomandi. Af þeirri ástæðu er dóminum ómögulegt að slá föstu hvort stefnandi hafi átt að fá eina af hinum auglýstu stöðum til setningar, þrátt fyrir að hæfnisnefnd hafi mismunað stefnanda á ómálefnalegan hátt, í samanburði við þá umsækjendur er settir voru í stöðurnar. Af þessu leiðir að stefnanda hefur ekki tekist að sýna fram á að hún hafi orðið fyrir tjóni á þeim grundvelli að hún hafi beðið fjártjón við að fá ekki setningu í stöðuna. Verður stefndi því sýknaður af skaðabótakröfu stefnanda. Af þessari niðurstöðu leiðir jafnframt, eðli máls samkvæmt, að stefnandi hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr öðrum málsástæðum að baki skaðabótakröfunni, svo sem um ætlað vanhæfi eins nefndarmanns hæfnisnefndarinnar, að innanríkisráðherra hafi ekki verið heimilt að framselja mat sitt á hæfni umsækjenda til hæfnisnefndar, að hæfnisnefndin hafi gert strangari kröfur til umsækjenda en fram komu í auglýsingu um starfið eða að hæfnisnefndin hafi ekki skráð nægjanlega niður þau atriði sem fram komu í viðtali við hvern og einn umsækjenda.

            Krafa stefnanda um miskabætur byggist á því að í ráðningarferlinu hafi verið gert lítið úr allri starfsreynslu stefnanda og menntun og hún beitt mismunun, en í því hafi falist meingerð gegn æru hennar og persónu, sbr. 31. gr. laga nr. 10/2008 og b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Að þeirri niðurstöðu var komist í úrskurði kærunefndar jafnréttismála 12. júní 2015 að stefndi hafi, í ráðningarferlinu, mismunað stefnanda á grundvelli kynferðis hennar og þannig brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Verður að telja slík brot almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir slíkri mismunun verður miska. Í ljósi þess hvernig brotið var gegn stefnanda í málinu verður talið að uppfyllt séu skilyrði 31. gr. laga nr. 10/2008 til þess að dæma stefnanda miskabætur. Að mati dómsins þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Bera bæturnar dráttarvexti frá 17. ágúst 2015, en þá var liðinn mánuður frá bréfi lögmanns stefnanda til stefnda með boði um að ljúka málinu með greiðslu á fébótum og miskabótum.

            Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.800.000 krónur. 

            Af hálfu stefnanda flutti málið Áslaug Árnadóttir héraðsdómslögmaður, en af hálfu stefnda Guðrún Sesselja Arnardóttir hæstaréttarlögmaður.

            Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Gná Guðjónsdóttur, 800.000 krónur í miskabætur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 17. ágúst 2015 til greiðsludags.

Stefndi er sýkn af viðurkenningarkröfu stefnanda.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.800.000 krónur.