• Lykilorð:
  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 23. maí 2019 í máli nr. S-70/2019:

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Jóhannes Albert Kristbjörnsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem þingfest var 4. mars 2019 en dómtekið 30. apríl sama ár, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru 31. janúar 2019 á hendur X, kt. 000000-0000, [...],

„fyrir neðangreind hegningar- og barnaverndarlagabrot, framin á þáverandi sameiginlegu heimili ákærða og stjúpdætra hans A, kennitala 000000-0000, og B, kennitala 000000-0000, að [...], á árunum 2013 – 2016:

I.

Barnaverndarlagabrot, með því að hafa ítrekað sýnt stjúpdætrum sínum, hvorri um sig, ósiðlegt athæfi, með því að vera nakinn í fjöldamörg skipti svo að kynfæri hans voru sjáanleg, ýmist ber fyrir neðan mitti eða allsnakinn undir opnum baðslopp, bæði inni í herbergi sínu með opna hurð, þar sem ákærði stundaði auk þess sjálfsfróun liggjandi í rúmi, og inni í stofu íbúðarinnar sitjandi eða liggjandi í sófa, ýmist að A eða B ásjáandi.

Telst þetta varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til [...] 2015 að því er brot gegn B varðar.

 

II.

Kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot, með því að hafa í tvö skipti, er ákærði og A sátu í sitthvorum sófanum í stofu íbúðarinnar og horfðu á sjónvarpið, opnað baðslopp sinn, sem ákærði var í einum fata, svo að sást í nakinn líkama hans og kynfæri í reisn og snert á sér kynfærin, en háttsemin var til þess fallin að særa blygðunarsemi A.

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2002.

III.

Kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot, með því að hafa í eitt skipti, er ákærði og B voru saman að horfa á sjónvarpið í stofu íbúðarinnar, berað kynfæri sín í reisn og þrifið í hana, er hún hugðist yfirgefa stofuna, og sagt henni að horfa á sig, en háttsemin var til þess fallin að særa blygðunarsemi B.

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu C, kt. 000000-0000, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar A, kt. 000000-0000, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni kr. 1.550.000 í skaða- og miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. nóvember 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar vegna starfa lögmanns bótakrefjanda samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til virðisaukaskatts.“

Ákærði neitar sök og krefst aðallega sýknu af öllum sakargiftum. Til vara krefst hann þess að honum verði ekki gerð refsing, en til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög framast leyfa. Hann hafnar bótakröfu, en krefst þess til vara að hún verði verulega lækkuð. Loks krefst hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málsatvik

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum er upphaf málsins að 30. nóvember 2016 mætti A á lögreglustöðina til að leggja fram kæru á hendur X, stjúpföður sínum, ákærða í máli þessu, vegna kynferðisbrots. Í skýrslunni er tekið fram að X sé sambýlismaður D, móður A, og hafi meint brot átt sér stað á sameiginlegu heimili þeirra að [...]. Auk þeirra byggju þar B, systir A, og E, stjúpsystir A og dóttir X.

Að sögn A var tilefni kærunnar atvik sem átti sér stað skömmu eftir klukkan sex að morgni 29. nóvember, þ.e. daginn fyrir skýrslutöku. Hafi hún þá vaknað við að X hafi komið nakinn inn í herbergi hennar og strokið á henni lærið með tveimur fingrum. Hún hafi einnig verið nakin og hafi henni brugðið mjög við þetta og hrópað. X hafi þá farið út úr herberginu, en komið aftur, þá klæddur í baðslopp. Hafi hann spurt hvaða óþverra hana væri að dreyma og hefði hann hagað sér eins og þetta hefði aldrei gerst. A greindi einnig frá því að X væri alltaf nakinn fyrir framan hana og hafi hann byrjað á því fyrir um tveimur til þremur árum, þegar hún var í 8. bekk grunnskóla, þá 14 ára gömul. Kvaðst hún oft hafa orðið vitni að því þegar hann væri að bera vaselín á kynfærin í skrifstofuherbergi sínu, en einnig sagðist hún nokkrum sinnum hafa séð hann fróa sér í svefnherberginu og hefði hann þá hurðina opna þannig að hún sæi hann. Þá sagði hún að X hefði einu sinni berað sig þegar þau voru að horfa á mynd í stofunni. Hafi hann verið í baðslopp einum fata, en tekið hann frá og fiktað í getnaðarlimi sínum og fengið „standpínu“. Einnig kvaðst hún oft hafa lent í því, er hún sæti í sófa í stofunni, að X væri þar „eitthvað á typpinu“. Þá gat hún þess að tvær vinkonur hennar hefðu einnig orðið vitni að sömu hegðun X. A kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessu, en hún hafi gefið í skyn að A væri að ýkja. X hafi engu að síður viðurkennt sumt af því sem gerðist, en héldi því fram að þetta væri sýniþörf vegna lyfja sem hann tæki við parkinsonssjúkdómi sem hann væri haldinn.

Skýrsla var einnig tekin af A í Barnahúsi 3. janúar 2017. Í meginatriðum greindi hún þar frá atvikum á sama veg og hjá lögreglu, en bætti því við að X hefði tvisvar sinnum risið hold fyrir framan hana er þau sátu í sófanum, og hefði hann hagað sér eins gagnvart B, systur hennar. Þá sagði hún að X hagaði sér ekki svona í návist móður þeirra systra.

Í kjölfar kæru A var B, systir A, yfirheyrð sem vitni af lögreglu 11. janúar 2017. Í upphafi tók B fram að X væri haldinn parkinsonssjúkdómi og kvaðst hún vita að sýniþörf væri algeng hjá slíkum sjúklingum. Kæmi það fyrir að hann væri ekki í nærbuxum þegar hann sæti í sófanum og væri limurinn þá stundum í reisn. Þá kvaðst hún þrisvar sinnum hafa gengið framhjá svefnherberginu þar sem X hafi legið í rúminu og verið að fróa sér og hafi hurðin að herberginu þá verið opin. Sagði hún að þessi hegðun hefði byrjað þegar X fór að taka lyf við parkinsonssjúkdómnum fyrir um þremur árum, þegar hún var 16 ára gömul. Aðspurð sagðist B aðeins einu sinni hafa orðið fyrir óviðeigandi snertingu af hálfu X og tók fram að það væri það eina alvarlega sem hún hefði orðið fyrir af hans hálfu. Hafi það gerst fyrir um tveimur árum. Þau hafi þá verið að horfa á sjónvarpið og hafi X setið með reistan liminn. Hafi henni þótt það óþægilegt og því hafi hún labbað í burtu. X hafi þá sagt; „Nei, komdu og horfðu á, þú veist komdu og sjáðu“. Kvaðst B þá hafa farið á baðið og læst sig þar inni þar til X var farinn. Daginn eftir sagðist hún hafa sagt mömmu sinni frá þessu atviki. Sérstaklega aðspurð sagðist B ekki ætla að kæra X. Þegar henni var kynntur réttur hennar til að koma að bótakröfu í málinu sagði hún; „Nei, ég ætla ekki að taka peninga frá föður mínum“.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 3. janúar 2017 og 7. desember 2017 og kvaðst ekki kannast við þær sakir sem á hann voru bornar. Hann kannaðist þó við að bera vaselín á kynfærin við húðþurrki, og verið gæti að A, stjúpdóttir hans, hafi einhvern tíma séð það. Þá sagðist hann oft hafa gengið um í baðslopp að loknu baði, en kannaðist ekki við að hafa verið að fikta í getnaðarlimi sínum eða að fróa sér að A ásjáandi.

Sérstaklega spurður um atvik að morgni 29. nóvember 2016 sagðist ákærði muna eftir því að hafa þá komið í herbergi A. Hann neitaði því að hafa verið nakinn eða að hafa áreitt hana, en sagðist hafa farið þangað þar sem hann hafi heyrt einhver hljóð úr herberginu og taldi að A væri veik og þyrfti hjálp. Fram kom í máli ákærða að hann væri haldinn parkinsonssjúkdómi og tæki daglega lyf við sjúkdómnum.

Framburður fyrir dómi

Ákærði neitaði alfarið sakargiftum og kvaðst ekki kannast við þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Hann sagðist hafa baðað sig á kvöldin og færi í baðslopp eftir það. Oft hafi hann verið nakinn undir sloppnum, en héldi honum þá að sér. Sagðist hann ekki vita til þess að hann væri haldinn sýniþörf og tók sérstaklega fram að hann gengi ekki nakinn um eða fróaði sér að öðrum ásjáandi. Sérstaklega spurður um atvik samkvæmt III. ákærulið sagðist hann muna eftir því að hafa fengið holdris þegar hann og B sátu saman og horfðu á sjónvarp. Hafi hann þá verið í sloppnum og taldi ekki ólíklegt að hún hafi séð það undir sloppnum. Hann neitaði því hins vegar að hafa þrifið í hana þegar hún stóð upp eða að hafa hneppt frá sér svo að limur hans sæist í reisn. Ákærði sagðist vita til þess að stjúpdætur hans hefðu kvartað við mömmu þeirra yfir hegðun hans, en mundi ekki hver viðbrögð hans urðu við því. Hins vegar kvaðst hann muna eftir því að gert hefði verið eitthvert samkomulag um að hann léti af hegðun sinni og hafi hann reynt að standa við það. Ekki sagðist ákærði gera sér grein fyrir af hverju A hafi borið á hann þær sakir sem lýst er í ákæru, en sagði að henni hafi alltaf verið illa við hann og verið óstýrilát á þessum tíma.

Þegar bornar voru undir ákærða lýsingar sambýliskonu hans á meintri sýniþörf hans sagðist hann kannast við að hafa stundum gleymt sér og staðið nakinn í herberginu þegar hann klæddi sig, en tók fram að hann hafi ekki haft neina þörf fyrir að aðrir sæju þá til hans.

Ákærði kvaðst hafa greinst með parkinsonssjúkdóm árið 2011 og tæki lyf við sjúkdómnum. Þau valdi því að hann eigi mjög erfitt með svefn og vaki hann stundum heilu sólarhringana. Einnig verði hann oft ósjálfbjarga. Hins vegar sagðist hann ekki kannast sérstaklega við það að lyfin röskuðu hvatastjórn hans.

Vitnið A sagðist fyrst hafa séð er ákærði var að fróa sér þegar hún var 13 ára, en síðan oft eftir það. Hafi hann þá viljandi skilið hurðir eftir opnar svo að hún sæi hann. Hann hafi einnig alltaf gengið um án nærfata í stofunni, en verið í fráhnepptum baðsloppi svo að hún sæi hann nakinn. Fengi hann þá stundum „standpínu“. Oftast hafi þetta gerst þegar hún var ein heima með ákærða. Taldi hún að líklega hafi ákærði viðhaft þessa hegðun vikulega í þrjú til fögur ár. Vitnið greindi einnig frá því að hún hafi vorkennt ákærða vegna parkinsonssjúkdómsins og því hafi hún stundum samþykkt að poppa poppkorn fyrir hann og sitja með honum í stofunni og horfa á mynd. Hafi hann þá líka verið að sýna sig beran með því að fletta sloppnum frá sér eða færa fæturna sundur þannig að sæist í kynfærin. Ekki hafi hann þó alltaf verið að snerta kynfærin. Vitnið sagðist stundum hafa sagt honum að henni þætti þetta óviðeigandi, en stundum hafi hún einnig látið þetta yfir sig ganga og horft á myndina með honum til enda. Ekki sagðist vitnið vita til þess að ákærði hafi sýnt sig beran fyrir dóttur sinni, E, sem einnig bjó á heimilinu á þessum tíma. Hins vegar kvaðst hún vita til þess að ákærði hefði einnig komið svona fram við systur sína, B. Nefndi hún sérstaklega í því sambandi atvik sem B hefði sagt henni frá, en þá á ákærði að hafa gripið í B og sagt henni að horfa á sig nakinn.

Aðspurt sagðist vitnið oft hafa kvartað við móður sína um hegðun ákærða og hafi móðir hennar þá rætt við ákærða, án þess að það hafi borið tilætlaðan árangur. Vegna samskiptavanda við ákærða og eftir að hafa tekið of stóran skammt af lyfjum kvaðst hún hafa farið á barna- og unglingageðdeild á árinu 2016. Fram kom einnig í máli vitnisins að eftir þetta sé hún kvíðin og oft svefnvana, en jafnframt reið út í móður sína fyrir að leggja ekki nægan trúnað á frásagnir hennar af framferði ákærða.

Vitnið B taldi sig hafa skynjað breytingar á hegðun ákærða eftir að fjölskyldan fluttist í íbúðina að [...], en nokkru áður hafði ákærði greinst með parkinsonssjúkdóm. Hafi hún þá verið í 10. bekk grunnskóla. Sagði hún að ákærði hefði nær alltaf gengið um í baðslopp og oftast verið nakinn undir honum. Reglulega hefði hún séð hann í stofunni eða í skrifstofuherberginu og hafi hann þá haft sloppinn fráhnepptan þannig að sæist í kynfærin á honum. Þá hafi hún stundum séð ákærða fróa sér, ýmist í skrifstofuherberginu eða í svefnherberginu. Hurðin að herbergjunum hafi þá verið opin og taldi hún að hann hefði opnað þær svo að hún sæi til hans. Í stofunni hefði hann líka verið að snerta á sér kynfærin og fróa sér. Sagði vitnið að ákærði hefði oft verið að bjóða henni og A, systur hennar, að horfa á bíómynd með sér þegar móðir þeirra var ekki heima. Hafi hann þá verið í baðsloppnum, en leyst hann frá á meðan á sýningu myndarinnar stóð og þá verið með reistan liminn. Kvaðst vitnið oft hafa rætt þetta við móður sína, sem taldi að þetta væri vegna áhrifa lyfjanna sem ákærði tók. Þá sagðist vitnið hafa rætt við ákærða um að vera ekki ber undir sloppnum og sagt honum að hann gæti að minnsta kosti verið í nærbuxum, en hann hafi svarað því til að hann ætti erfitt með að komast í þær á kvöldin vegna sjúkdómsins. Sagði vitnið að rétt væri að hann hafi verið misgóður af sjúkdómnum og verstur á kvöldin, en taldi að hann hefði a.m.k. getað verið í buxum á morgnana og um daginn. Vitnið sagðist hafa flutt að heiman, en kvaðst vita til þess að þessi hegðun ákærða hafi haldið áfram gagnvart A eftir það. Fram kom í máli vitnisins að ákærði hefði aldrei sýnt af sér þessa hegðun gagnvart móður hennar eða E, dóttur hans.

Vitnið var sérstaklega spurt um atvik að baki III. ákærulið og taldi hún að það hefði átt sér stað árið 2015. Hún og ákærði hafi þá verið ein heima og verið að horfa á bíómynd saman. Ákærði hafi þá verið í baðsloppnum og verið að snerta á sér kynfærin með reistan lim. Hafi henni þótt það óþægilegt og ætlað að ganga í burtu. Ákærði hefði þá komið á eftir henni, tekið í hönd hennar og beðið hana um að sjá. Við það hefði hún kippt að sér hendinni og flýtt sér í burtu og læst sig inni á baði þar til ákærði sofnaði. Sagðist vitnið hafa sagt móður sinni frá þessu.

Vitnið D, fyrrverandi sambýliskona ákærða, tók fram í upphafi að hún hafi aldrei orðið vitni að þeirri háttsemi sem ákærði er sakaður um gagnvart dætrum hennar. Engu að síður hefði hann viðurkennt fyrir henni að hann gengi um ber að neðan undir baðslopp og ætti það til að bera kynfæri sín að dætrum hennar ásjáandi. Höfðu dætur hennar þá rætt við hana, m.a. um að ákærði væri að fróa sér í svefnherberginu, án þess að loka að sér, svo og að hann sæti í sófanum og opnaði sloppinn svo sæist í kynfæri hans. Í samtali hennar við ákærða hefði hann sagt þetta hugsunarleysi í sér, en lofað bót og betrun. Jafnframt hefðu þau gert samkomulag um að ákærði léti af þessari hegðun, en það samkomulag hefði þó ekki haldist nema í stuttan tíma. Í fyrstu kvaðst vitnið hafa afneitað ásökunum dætra sinna gagnvart ákærða og því ekki séð hve alvarlegt ástandið var orðið fyrr en of seint, en þá hefði hún skynjað mikla vanlíðan hjá A. Hafi sambúð hennar og ákærða lokið skömmu eftir að A lagði fram kæru á hendur ákærða. Sérstaklega aðspurð sagði vitnið að fyrst hafi farið að bera á þessari hegðun ákærða tveimur eða þremur árum áður en sambúð þeirra lauk, og hafi hún ágerst með árunum. Fram kom einnig í máli vitnisins að hún teldi að ákærði hafi aðeins haft sýniþörf gagnvart dætrum hennar, enda hafi hann aldrei komið svona fram við sína eigin dóttur, sem einnig bjó á heimilinu á þessum tíma. Spurð um líðan A eftir sambúðarslit vitnisins og ákærða sagði vitnið að henni hafi liðið mjög illa, hún ætti erfitt með að treysta fólki og væri kvíðin og ætti erfitt með svefn. 

Vitnið F læknir, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum, kvaðst hafa greint ákærða með parkinsonssjúkdóm árið 2011. Hann staðfesti framlagða greinargerð sína, dagsetta 8. janúar 2017, þar sem lýst er einkennum sjúkdómsins hjá ákærða og lyfjameðferð. Aðspurður um aukaverkanir þeirra lyfja sem ákærði tæki, sagði hann að meiri líkur væru á röskun á hvatastjórnun ef vitsmunaleg skerðing væri einnig til staðar hjá sjúklingum sem tækju þau lyf. Í tilviki ákærða sagðist vitnið hvorki hafa merkt vitsmunalega skerðingu hjá honum né haft grunsemdir um aukaverkanir lyfjanna. Hins vegar taldi hann að mögulegt væri að skýra sýniþörf ákærða gagnvart stjúpdætrum sínum vegna áhrifa lyfjanna.

Vitnið G geðlæknir staðfesti í upphafi fyrirliggjandi geðrannsókn sem hann vann á ákærða og dagsett er 24. febrúar 2017. Sagði vitnið að ákærði hafi ekki sýnt áberandi merki um kvíða, þunglyndi eða minnistruflanir. Hins vegar hafi sambúðarkona ákærða lýst hegðunarbreytingum hjá honum sem þekkt séu við lyfjameðferð við parkinsonssjúkdómi, og þá einkum vegna áhrifa lyfsins Ropinirole sem ákærði tók. Þá sagði læknirinn að þótt lyfin kynnu að valda röskun á hvatastjórnun gerðu þau ákærða ekki alls óhæfan um að stjórna atferli sínu eins og skilyrði er samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þó væri þetta álitamál og „á gráu svæði“. Engu að síður var það álit læknisins að refsing gæti borið árangur.

Auk ofantalinna gáfu skýrslu fyrir dóminum sem vitni C, faðir systranna A og B, H, sambýliskona föðurins, svo og vinkonur A, I og J. Óþarft er að rekja framburð þeirra, en öll báru þau um mikla vanlíðan, ótta og skapgerðarbreytingar A eftir brot ákærða.

Niðurstaða

Eins og áður segir hefur ákærði neitað sök og kveðst ekki kannast við þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Fyrir dómi kvaðst hann þó minnast þess að hafa fengið holdris þegar hann og B sátu saman í stofu og horfðu á sjónvarpið, og taldi ekki ólíklegt að hún hefði séð það undir baðsloppnum sem hann klæddist. Hins vegar neitaði hann því að hafa þrifið í B þegar hún stóð upp, svo og að hafa leyst frá sér sloppinn í því skyni að hún sæi lim hans í reisn, en háttsemi þessari er lýst í III. lið ákæru. Einnig sagðist ákærði fyrir dómi vita til þess að stjúpdætur hans hefðu kvartað við mömmu þeirra yfir hegðun hans og að gert hefði verið eitthvert samkomulag um að hann léti af hegðun sinni. Þegar bornar voru undir hann lýsingar sambýliskonu hans á meintri sýniþörf kvaðst hann aðeins kannast við að hafa stundum gleymt sér og staðið nakinn í herberginu þegar hann klæddi sig, en vildi ekki kannast við að hann væri haldinn sýniþörf.

Meðal gagna málsins er geðrannsókn á ákærða, sem unnin var af G geðlækni að beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í rannsóknarskýrslu læknisins kemur fram að ákærði hafi greinst með parkinsonssjúkdóm árið 2011 og taki hann nánar tilgreind lyf við sjúkdómnum. Í skýrslunni er haft eftir ákærða að fósturdætur hans hafi kvartað yfir því að hann sé nakinn og eftir að A hafi legið á barnageðdeild sumarið 2016 hafi hegðun hans komið til umræðu. Vegna þessa hafi verið haldinn sáttafundur og hafi hann lofað að vera klæddur undir sloppnum. Af einhverjum ástæðum hafi hann þó ekki haldið samkomulagið að fullu eða öllu leyti um að vera í nærbuxum undir sloppnum. Orðrétt segir þar einnig: „X segir að hann hafi engar beinar skýringar á því af hverju hann geri þetta og hann sé þess vel meðvitaður að þær systur hafi kvartað yfir hegðun hans í meira en tvö ár. Hann segir að hugsanlegt sé að sjúkdómur hans eða lyfjameðferð orsaki eða sé orsakaþáttur í framferði hans“. Bætti hann síðan við „kannski er ég bara perri.“ Fyrir dómi var læknirinn spurður út í nokkur atriði geðrannsóknarinnar. Kom þar fram að þótt lyfin sem ákærði tæki við sjúkdómi sínum kynnu að valda röskun á hvatastjórnun, gerðu þau hann ekki alls óhæfan um að stjórna atferli sínu. Það væri þó álitamál og „á gráu svæði“. Engu að síður var það álit læknisins að refsing gæti borið árangur.

Hér að framan hefur framburður ákærða og vitna verið rakinn að því marki sem máli skiptir. Báðar systurnar, A og B, lýstu ítarlega þeirri háttsemi sem ákærði er sakaður um og þykir dóminum framburður þeirra greinargóður og trúverðugur. Fær hann einnig stoð í framburði móður þeirra, sem bar fyrir dómi að ákærði hefði viðurkennt fyrir henni að hann gengi um ber að neðan undir baðslopp og ætti það til að bera kynfæri sín fyrir dætrum hennar. Vegna þessa hafi þau gert samkomulag um að ákærði léti af þessari hegðun, en það samkomulag hefði þó ekki haldist nema í stuttan tíma. Fyrir dómi kannaðist ákærði raunar bæði við að stjúpdætur hans hefðu kvartað við mömmu þeirra yfir hegðun hans, svo og að eitthvert samkomulag hefði verið gert um að hann léti af þeirri hegðun. Þá verða orð hans, sem eftir honum eru höfð í rannsóknarskýrslu geðlæknisins og greint er frá hér að framan, vart skýrð á annan hátt en þann að hann hafi sjálfur gert sér grein fyrir því að með óviðeigandi hegðun sinni hafi hann verið að brjóta á stjúpdætrum sínum. Í þessu ljósi, en einnig að því gættu að framburður ákærða þykir samkvæmt ofansögðu ótrúverðugur, er það mat dómsins að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í ákæru. Þá bendir framferði hans til þess að ásetningur hans hafi staðið til þess að brjóta á stjúpdætrum sínum, en fyrir liggur að hann viðhafði ekki þessa hegðun gagnvart sambýliskonu sinni né eigin dóttur. Er háttsemi hans í ákæru rétt heimfærð til refsiákvæða. Að því er varðar brot ákærða gagnvart B samkvæmt I. og III. lið ákæru og heimfærslu þeirra til 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2002 skal tekið fram að B varð 18 ára [...] 2015. Samkvæmt öllu framansögðu hefur ákærði unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur í [...] og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar hans verður til þess horft. Á hinn bóginn ber einnig að líta til 1., 4., 6. og 7. tl. 1. mgr., sbr. og 3. mgr., 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir, eins og atvikum er hér háttað, einnig rétt að taka tillit til þess að báðir læknarnir sem gáfu skýrslu fyrir dómi, annars vegar meðferðarlæknir ákærða, en hins vegar sá er annaðist geðrannsókn á honum, sögðu að lyfin sem ákærði tæki við parkinsonssjúkdómi gætu mögulega skýrt sýniþörf hans eða röskun á hvatastjórnun, en sá síðarnefndi tók þó fram að þau gerðu hann ekki alls óhæfan um að stjórna atferli sínu. Þá taldi sá síðarnefndi að ákærði væri sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að refsing gæti borið árangur. Við ákvörðun refsingar ber loks að líta til þess að rannsókn þessa máls hófst 30. nóvember 2016 og var henni að mestu leyti lokið í mars 2017. Ákæra var sem fyrr segir ekki gefin út fyrr en 31. janúar 2019 og verður þessi töf á málsmeðferð hvorki rakin til ákærða sjálfs né hefur hún verið réttlátt á annan hátt. Að þessu leyti er málsmeðferðin í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Að því gættu og með hliðsjón af framanrituðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði, sem rétt þykir þó í ljósi atvika að binda skilorði svo sem nánar greinir í dómsorði.

Í málinu krefst A, brotaþoli í máli þessu, miskabóta úr hendi ákærða, alls að fjárhæð 1.550.000 krónur, auk vaxta og þóknunar vegna starfa réttargæslumanns. Krafan er dagsett 7. apríl 2017 og var hún sett fram undir rannsókn málsins af föður A, C, en A var þá ólögráða. Brotaþoli er nú tvítug og lögráða og ræður því ein fé sínu.

Þar sem dómurinn hefur slegið því föstu að ákærði hafi brotið gegn brotaþola með þeim hætti sem áður er lýst verður hann dæmdur til að greiða henni miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skulu þær ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir, en við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og loks umfangs tjónsins. Í dómaframkvæmd hefur því verið slegið föstu að brot af því tagi sem hér um ræðir séu almennt til þess fallin að valda brotaþola andlegri vanlíðan og sálrænum erfiðleikum. Með hliðsjón af framburði brotaþola og vitna um afleiðingar brota ákærða á andlega líðan brotaþola, auk læknabréfs og göngudeildarnóta vegna innlagnar brotaþola á barna- og unglingageðdeild Landspítalans í júlí 2016, verða miskabætur hennar ákveðnar að álitum 700.000 krónur, með vöxtum eins og í dómsorði greinir. 

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er þar um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 827.545 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, 637.670 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 46.200 krónur, og annan sakarkostnað að fjárhæð 562.260 krónur. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 700.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. nóvember 2016 til 27. mars 2019, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 827.545 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, 637.670 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 46.200 krónur, og 562.260 krónur í annan sakarkostnað.

 

Ingimundur Einarsson