• Lykilorð:
  • Jafnrétti
  • Stjórnsýsla
  • Stöðuveiting

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2009 í máli nr. E-1164/2008:

Jafnréttisstofa vegna Önnu Ingólfsdóttur

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Háskóla Íslands

(Tryggvi Þórhallsson hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 18. desember sl., var höfðað 19. febrúar sl. af Jafnréttisstofu, Norðurslóð, Borgum, Akureyri, fyrir hönd Önnu Ingólfsdóttur gegn Háskóla Íslands, Suðurgötu, Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi hafi með því að ganga fram hjá Önnu við ráðningu dósents í tölvunarfræði við tölvunarfræðiskor verkfræði­deildar stefnda 1. janúar 2006 brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá er þess krafist að viður­kennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna fyrrgreindrar ráðningar og loks er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða Önnu Ingólfsdóttur eina milljón króna í miskabætur með dráttar­vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 19. febrúar 2008 til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk álags er nemi virðisaukaskatti af málskostnaði.

            Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

            Í greinargerð stefnda var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 23. september sl.

 

            Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

            Anna Ingólfsdóttir var ein fjögurra umsækjenda um starf lektors eða dósents í tölvunarfræði við tölvunarfræðiskor í verkfræðideild stefnda sem auglýst var laust til umsóknar í Morgunblaðinu 10. október 2004 og á starfatorgi.is. Að áliti dómnefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. þágildandi laga um stefnda nr. 41/1999 var einn umsækj­enda ekki talinn hæfur til starfsins, einn var aðeins talinn hæfur til að gegna stöðu lektors en tveir umsækjendur, Anna Ingólfs­dóttir og Kristján Jónasson, voru taldir hæfir til að gegna stöðu dósents.

            Verkfræðideild stefnda fékk dómnefndarálitið til umfjöllunar og var það tekið fyrir á deildarfundi 8. júní 2005. Þar urðu úrslit kosninga þau að Anna fékk þrjú atkvæði, Kristján 14 atkvæði og þrír skiluðu auðu. Á fundinum var samþykkt að mæla með því að Kristján yrði ráðinn í stöðuna og óskað eftir að það yrði gert í bréfi deildarforseta til rektors 23. júní s.á. Í bréfinu kemur fram að umræður á deildar­fundinum hafi að mestu snúist um þær áherslur í rannsóknum og kennslu sem skil­greining starfsins feli í sér. Þar er m.a. vísað til þess að í auglýsingu um starfið komi fram að lektorinn eða dósentinn þyrfti að geta kennt helstu grunnnám­skeið við tölvunar­fræðiskor og sinnt meistara- og doktors­námi við skorina. Mat meiri­hluta fundar­manna hafi verið að það sjónarmið sem hefði þyngst vægi við ákvörðun um ráðstöfun starfsins væri þörf verkfræðideildar fyrir kennslu í grunnnámi. Að teknu tilliti til þessara sjónarmiða væri Kristján hæfasti umsækjandinn í starfið.

            Af hálfu rektors var óskað eftir ítarlegri rökstuðningi fyrir þessu með bréfi til deildarforseta verkfræðideildar 5. ágúst s.á. Á deildarfundi 14. október s.á. varð niðurstaðan sú að óska eftir því að Kristján yrði ráðinn dósent. Hann væri afburða­góður kennari og ætti auðvelt með að fá nemendur til samstarfs. Þrátt fyrir mikla reynslu Önnu á sviði rannsókna og kennslu væri það mat deildarinnar að hann væri hæfari til að gegna hinu auglýsta starfi, enda hefði hann farsælan rannsókna- og kennsluferil að baki hjá stefnda. Niðurstaða þessi byggðist á reynslu sem einstaka kennarar deildar­innar hefðu af samstarfi við þessa umsækjendur. Rökstuðningurinn var sendur rektor með bréfi 17. október s.á. og féllst hann á tillöguna.

            Með bréfi 4. nóvember s.á. til rektors óskaði Anna eftir nánari rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðninguna. Einnig var óskað útskýringa á tilgreindum atriðum í ályktun deildarinnar sem hefðu legið til grundvallar ákvörðun rektors. Erindi Önnu var svarað með bréfi rektors 18. nóvember s.á.

            Anna leitaði til Kærunefndar jafnréttismála með kæru 22. desember s.á. Í áliti nefndarinnar 1. júní 2006 kemur fram að stefndi hefði ekki að áliti nefndarinnar sýnt fram á að gætt hefði verið jafnréttis kynjanna við ráðningu í umrætt starf dósents. Af því leiði að líta verði svo á að stefndi hefði brotið gegn lögum nr. 96/2000 við ráðningu í starfið. Í álitinu var þeim tilmælum beint til stefnda að viðunandi lausn yrði fundin á málinu.

            Í bréfi stefnda til Kærunefndar jafnréttismála 12. júlí 2006 kemur fram að stefndi sé ósammála niðurstöðu nefndarinnar, þess efnis að stefnda hefði ekki tekist að sýna fram á að jafnréttis hefði verið gætt við ráðninguna.

            Af hálfu stefnanda er vísað til þess að Anna hafi farið þess á leit við stefnanda að höfðað yrði mál á hendur stefnda á grundvelli álits Kærunefndarinnar og var það gert með málshöfðun þessari. Málssóknin er byggð á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga í ráðningaferlinu. Anna hafi verið látin gjalda kynferðis síns við meðferð málsins og þegar tekin var ákvörðun um ráðninguna. Þar með standi upp á stefnda að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið að baki ákvörðun hans í þessu efni, sbr. 3. mgr. 24. gr. þágildandi laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

            Af hálfu stefnda er því haldið fram að meðferð málsins hjá stefnda hafi verið í samræmi við lög og aðrar reglur og engar lagareglur hafi verið brotnar gagnvart Önnu Ingólfsdóttur.

 

            Málsástæður og lagrök stefnanda

            Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi hafi í október 2004 auglýst laust til umsóknar starf lektors eða dósents í tölvunarfræði við tölvunar­fræðiskor verkfræði­deildar. Í auglýsingu um starfið komi meðal annars fram að umsækjandi skyldi hafa lokið doktorsnámi í tölvunarfræði eða skyldum greinum og hafa reynslu af rann­sóknum og kennslu á því sviði. Einnig að viðkomandi þyrfti að geta kennt helstu grunn­námskeið, sem kennd eru við tölvunarfræðiskor, og sinnt meistara- og doktors­námi við skorina. Hæfi umsækjenda og meðferð umsókna færi eftir ákvæðum laga um stefnda nr. 41/1999 og reglugerðar nr. 458/2000. Umsækjendur skyldu láta fylgja um­sókn sinni vandaða skýrslu um vísindastörf, sem þeir hefðu unnið, ritsmíðar og rann­sóknir (ritaskrá) og vottorð um námsferil sinn og störf (curriculum vitae).

            Fjórir umsækjendur hafi verið um starfið. Að áliti dómnefndar, sem gefið hafi umsögn um hæfi umsækjenda, hafi einn ekki verið talinn hæfur til starfsins, einn aðeins talinn hæfur til að gegna stöðu lektors en tveir umsækjendur, Anna Ingólfs­dóttir og sá sem ráðinn var, hæfir til að gegna stöðu dósents.

          Í samræmi við reglur nr. 458/2000 um stefnda hafi verkfræðideild verið falið að gera tillögu um ráðningu í starfið. Fyrst hafi verið fjallað um dóm­nefndarálitið á fundi tölvunarfræðiskorar og síðan á deildarfundi verkfræðideildar 8. júní 2005. Á þeim fundi hafi formaður tölvunarfræðiskorar greint frá umfjöllun um dómnefndar­álitið á skorarfundi og niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Þar hafi Anna fengið eitt atkvæði, Kristján fimm, en einn hafi skilað auðu. Mjög miklar umræður hafi orðið um álitið á deildarfundi en úrslit kosningar hafi orðið þau að Anna fékk þrjú atkvæði, Kristján 14 og þrír skiluðu auðu. Niðurstaðan hafi orðið sú að mæla með því að Kristján yrði ráðinn dósent við tölvunarfræðiskor.

            Með bréfi deildarforseta til rektors 23. júní s.á. hafi verið greint frá niðurstöðu deildarfundar. Þar komi og fram að umræður á fundinum hefðu að mestu snúist um áherslur í rannsóknum og kennslu sem skilgreining starfsins feli í sér. Mat meirihluta fundarmanna hafi verið að það sjónarmið, sem þyngst vægi hefði við ráðstöfun starfsins, væri þörf verkfræðideildar fyrir kennslu í grunnnámi. Að teknu tilliti til þess væri Kristján hæfari til starfans. Lögfræðingur stefnda hafi í framhaldi af þessu óskað fyrir hönd rektors eftir ítarlegri rökstuðningi af hálfu deildarinnar fyrir tillögu sinni. Málið hafi því verið aftur á dagskrá deildarfundar verkfræðideildar 14. október 2005, þar sem mættir voru 26, þar af fjórar konur. Á þeim fundi hafi deildarforseti lagt fram tillögu að eftirfarandi rökstuðningi um veitingu starfsins:

 

„Fjallað var um ráðstöfun á auglýstu starfi á fundi í verkfræðideild þann
8. júní síðastliðinn. Umræður á deildarfundi snerust að mestu um þær áherslur í rannsóknum og kennslu sem skilgreining starfsins felur í sér. Í því efni var meðal annars vísað til auglýsingar um starfið, en þar segir m.a.: Tölvunarfræðiskor hefur markað þá stefnu að rannsóknir og kennsla við skorina standist samanburð við það besta sem völ er á. Lektorinn/dósentinn þarf að geta kennt helstu grunnnámskeið sem kennd eru við tölvunar­fræðiskor og sinnt meistara- og doktorsnámi við skorina. Niðurstaða fundarins var sú, að óska eftir því að Kristján Jónasson verði ráðinn dósent við tölvunarfræðiskor til þriggja ára frá og með 1. janúar næstkomandi. Eins og fram kom í auglýsingunni um starfið var áhersla lögð á kennsluþáttinn í starfinu sem vegur því þungt við val milli hæfra umsækjenda og stóð valið því milli Kristjáns Jónassonar og Önnu Ingólfsdóttur. Það er mat deildarinnar að Kristján sé afburðagóður kennari og eigi auðvelt með að fá nemendur til samstarfs. Þrátt fyrir mikla reynslu Önnu á sviði rannsókna og kennslu er það mat deildar­innar að Kristján sé hæfari til að gegna hinu auglýsta starfi, enda hefur hann farsælan rannsókna- og kennsluferil að baki við Háskóla Íslands. Niðurstaða þessi byggir á þeirri reynslu sem kennarar deildarinnar hafa haft af samstarfi við þessa umsækjendur.“

 

Miklar umræður hafi orðið á fundinum um rökstuðning þennan og ástæður þess að hann væri borinn upp á þessum fundi en ekki þeim er fjallaði um starfið. Fram kom breytingartillaga við rökstuðninginn sem var samþykkt og hafi lokasetning rökstuðningsins með breytingu hljóðað svo: „Niðurstaða þessi byggir á þeirri reynslu sem einstakir kennarar innan deildar hafa haft af samstarfi við þessa umsækjendur.“ Þessi rökstuðningur hafi verið sendur rektor með bréfi 17. október 2005 og hafi hann fallist á tillögu verkfræðideildar um ráðninguna.

            Með bréfi 4. nóvember 2005 hafi Anna óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun rektors um ráðningu í starfið. Hann hafi verið veittur með bréfi stefnda 18. nóvember 2005. Þar hafi efnislega verið vísað til fyrrgreinds rökstuðnings deildar fyrir tillögu að ráðningu. Auk þess hafi verið vísað til þess að það væri hlutverk deildar/stofnunar að skilgreina það starf sem ráðið væri til. Í skilgreiningu starfsins fælist afstaða til þess hvaða vægi einstakir þættir starfsins skyldu hafa, á hvaða sérsviði starfið væri og hvaða hæfniskröfur væru gerðar til umsækjenda. Þessi skilgreining væri hverju sinni grundvöllur auglýsingar og tillögugerðar um veitingu starfs. Rektor hafi talið að í þessu tilviki hefði sérstök áhersla verið lögð á kennsluþáttinn, sérstaklega kennslu í grunnnámi, eins og auglýsing um starfið bæri skýrlega með sér. Meistara- og doktorsnám væri einnig áherslusvið en ráða mætti af niðurstöðu deildar að hæfni til kennslu í grunnnámi hefði vegið þyngst við tillögugerðina. Rektor hafi talið ekkert fram komið er benti til annmarka á skipun þessari eða niðurstöðu dómnefndar.

            Að fengnum þessum rökstuðningi hafi Anna kært til Kærunefndar jafnréttis­mála og óskað þess að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort stefndi hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 við ráðninguna. Á fundi kærunefndarinnar 1. júní 2006 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði ekki sýnt fram á að gætt hefði verið jafnréttis kynjanna við ráðningu í starfið. Því yrði að líta svo á að stefndi hefði brotið gegn lögum nr. 96/2000 við ráðninguna. Nefndin hafi beint þeim tilmælum til stefnda að viðunandi lausn yrði fundin á málinu.

            Stefndi hafi ritað Kærunefnd jafnréttismála bréf 12. júlí 2006, þar sem því hafi verið lýsti yfir að stefndi væri ósammála niðurstöðu nefndarinnar. Vísað hafi verið til minnisblaðs lögfræðinga stefnda, þar sem komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að álit kærunefndarinnar hefði ekki hrakið afstöðu stefnda, þess efnis að við ráðninguna hefði verið höfð í heiðri sú meginregla að ráða til starfa þann umsækjanda sem metinn væri hæfastur af verkfræðideild á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Stefndi sæi því ekki að honum bæri að verða við tilmælum nefndarinnar eða stefnanda um að leita sérstakra lausna í málinu. Anna hafi þá farið þess á leit við stefnanda að höfðað yrði mál á hendur stefnda á grundvelli álits kærunefndarinnar. Með bréfi 1. febrúar 2008 hafi lögmanni stefnanda verið falið að höfða málið.

            Stefnandi vísi til þess að málið sé höfðað á grundvelli 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Markmið þeirra laga sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laganna. Atvinnurekendur gegni þýðingarmiklu hlutverki í því að ná þessu fram, enda á þá lagðar ríkar skyldur samkvæmt lögunum og enn fremur væru þeim settar skorður hvað varði ákvarðana­tökur í þessu sambandi. Samkvæmt 13. gr. laganna skuli atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þeir skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Þá skuli fyrirtæki og stofnanir, þar sem vinni fleiri en 25, setja sér jafnréttisáætlun þar sem sérstaklega skuli kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum réttindi laganna.

            Í samræmi við þessar lagaskyldur hafi stefndi sett sér áætlun með það að markmiði að jafna stöðu kynjanna innan háskólasamfélagins þar sem fram komi að litið skuli á jafnréttisstarf sem lið í gæðaumbótum stefnda. Í þessu skyni hafi stefndi sett það markmið að sé starf auglýst á sviði þar sem halli á annað kynið skuli vekja athygli á því markmiði að jafna hlutfall kynjanna á viðkomandi starfsvettvangi. Þá skuli deildir, stofnanir og stjórnsýslusvið setja sér markmið um að jafna kynja­skiptingu innan starfs- og fræðasviða þar sem hún sé ójöfn. Um það segi í áætluninni að séu tveir eða fleiri umsækjendur um starf jafn hæfir verði valinn umsækj­andi af því kyni sem sé í minnihluta á umræddu starfs- eða fræðasviði. Stefndi hafi virt sínar eigin reglur algerlega að vettugi þegar hann gekk framhjá Önnu við ráðningu dósents í verkfræðideild. Samkvæmt samantekt jafnréttisnefndar stefnda hafi heildarhlutfall kvenna í dósents­stöðum hjá stefnda árið 2007 verið 32%, en aðeins 3% í verkfræði­deild, eða þrjár af átján.

          Stefnandi byggi á því að Önnu Ingólfsdóttur hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis er framhjá henni var gengið við ráðningu dósents við verkfræðideild. Með því að ráða karlumsækjanda, en ekki Önnu, hafi stefnandi brotið gegn 23. og 24. gr. laga nr. 96/2000. Af umsækjendum hafi aðeins Anna og karlinn, er ráðinn var, verið metin dósentshæf af sérskipaðri dómnefnd samkvæmt reglum nr. 458/2000 um stefnda. Í ljósi þessa og reglna jafnréttislaga sem og markmiða stefnda í jafnréttis­málum hefði átt að ráða konuna. Það hafi ekki verið gert en með því einu sé ljóst að stefndi hafi brotið lög á konunni.

            Þá byggi stefnandi á því að þrátt fyrir álit dómnefndar, þess efnis að Anna og karlinn er starfið hlaut hafi bæði verið metin dósentshæf, hafi Anna í raun verið hæfari til starfans. Við skoðun á umsóknum þessara umsækjenda blasi við að vísindalegt framlag Önnu sé langtum umfangsmeira en karlsins, auk þess sem kennslureynsla hennar sé meiri. Því ætti að öðru jöfnu ekki að leika neinn vafi á því hvor umsækj­endanna hafi verið hæfari enda njóti við áratuga venju og reglna um slíkt fræðilegt mat við háskóla. Í auglýsingu um starfið hafi verið lögð áhersla á menntun um­sækjenda og reynslu svo og árangur í rannsóknum, kennslu og stjórnunarstörfum. Af samanburði á umsækjendum megi ráða að þeir hafi báðir haft jafnmikla menntun fyrir utan að konan hafi lokið námi í kennslufræði fyrir háskólakennara. Að því er rann­sóknir varði hefði konan sýnt áberandi betri árangur þar sem hún hefði birt margfalt fleiri greinar en sá sem ráðinn var og í hærra metnum tímaritum og ráð­stefnum. Þá hafi hún setið í ritstjórnum virtra fræðilegra tímarita og setið í dagskrár­nefndum fyrir virtar ráðstefnur í faginu, en karlinn sem ráðinn var hafi ekki hlotið slíka viðurkenningu. Í kennslu á bæði doktors- og meistarastigi hafi konan haft all­veru­lega reynslu og náð góðum árangri, en sá sem ráðinn var hafi nánast enga reynslu af kennslu á þeim sviðum. Þá hafi konan tekið virkan þátt í samningu kennsluefnis fyrir þetta stig en það hafi sá sem ráðinn var ekki gert. Hvað varði kennslu á grunn­stigi hafi árangur beggja umsækjenda verið svipaður en konan hafi haft mun lengri og fjölbreyttari kennslureynslu í tölvunarfræði á því stigi. Stjórnunarreynsla beggja sé takmörkuð en ekki sé tilefni til að draga þá ályktun að sá sem ráðinn var hafi haft meiri reynslu en konan á því sviði.

            Stefnandi telji af framansögðu ljóst að konan verði að teljast hæfari til að gegna umræddu starfi, bæði með tilliti til skilgreiningar starfsins og þess sem komi fram í auglýsingu og út frá mati á innsendum gögnum. Á þá skoðun stefnanda hafi þegar verið fallist með áliti Kærunefndar jafnréttismála. Þar segi í niðurstöðu að ef litið væri til rannsóknarvirkni kæranda og kennsluferils, sem telja megi að hafi verið lengri á háskólastigi, megi fallast á það að hún hafi alla jafna getað talist standa þeim sem ráðinn var framar við ráðningu í starf dósents við tölvunarfræðiskor stefnda, þ.e. ef ekki hefðu komið til sérstakir kostir eða eiginleikar sem réttlætt hefðu aðra niðurstöðu. Engar fullnægjandi röksemdir hafi komið fram af hálfu stefnda, sem grundvallað geta ályktun um að neinir slíkir sérstakir kostir eða eiginleikar, sem réttlætt hefðu getað aðra niðurstöðu, hafi verið til staðar í þessu máli.

            Stefnandi byggi á því að auglýsing um starfið hafi ekki borið með sér að krafa væri gerð um sérstaka kosti eða eiginleika hvað varðaði hæfni umsækjenda á sviði kennslu í grunnnámi. Fullyrðingar í þá veru hafi fyrst komið fram í bréfi deildarforseta til rektors 23. júní 2005 sem það sjónarmið er hefði þyngst vægi við ákvörðun deildarinnar um ráðstöfun starfsins, þ.e. þörf deildarinnar fyrir kennslu í grunnnámi. Enginn frekari rökstuðningur hafi hins vegar verið settur fram af hálfu deildarinnar fyrir því hvers vegna konan uppfyllti síður þær kröfur en sá er stöðuna hlaut, enda hafi rektor óskað frekari rökstuðnings af hálfu deildarinnar. Varðandi mat deildarinnar á reynslu konunnar af kennslu í grunnnámi vísi stefnandi á að það sé alrangt að kennslureynsla hennar sé eingöngu bundin við framhaldsnám. Hún hafi meiri reynslu en sá sem ráðinn var af kennslu í grunnnámi í tölvunarfræði. Hún hafi kennt mun lengur á háskólastigi almennt og öll sú reynsla sé af kennslu í tölvunarfræði og stór hluti hennar sé í grunnnámi í því fagi. Karlinn sem ráðinn var hafi hins vegar mest­megnis kennt stærðfræði en ekki tölvunarfræði og reynsla hans í kennslu í því fagi sé því takmörkuð.

            Þá byggi stefnandi á því að mat deildarfundar verkfræðideildar, þess efnis að karlinn, sem ráðinn var, hafi verið hæfari en konan til að gegna starfinu, sé bersýni­lega rangt og byggt á ómálefnalegum forsendum. Niðurstaða þessi hafi verið sett fram af deildarforseta á fundi deildar, eftir að deildin hafði þegar tekið ákvörðun og kynnt hana rektor. Ályktunin beri með sér að mat á hæfni konunnar hafi byggst á huglægri afstöðu einstakra manna í hennar garð og sé hún ekki rökstudd með neinum hætti. Fundargerð verkfræðideildar frá 14. október 2005 beri þessa glöggt vitni, en þar hafi verið gerð breyting á upphaflegri tillögu deildarforseta. Upphaflega hafi þar átt að fullyrða að niðurstaða úr hæfnismati þeirra tveggja er til greina komu hafi byggt á reynslu kennara við deildina, en því hafi verið breytt í „reynslu einstakra kennara“ af samstarfi við konuna. Ekki komi fram í bókun þessari á hvern hátt reynsla þessi hafi verið könnuð eða hvað lægi að baki þessari fullyrðingu. Með þessu hafi í raun verið tekin ómálefnaleg ákvörðun, er hafi grundvallast á geðþótta, en faglegt mat verið látið víkja. Verði því ekki annað séð en að stefndi hafi ekki aðeins brotið jafnréttislög heldur einnig málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar og þá ólögfestu grundvallarreglu að hæfasta umsækjandanum beri starfið sem í boði sé.

            Með vísan til þessa hafi stefnandi sýnt fram á að stefndi hafi í ráðningarferli sínu farið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 við ráðninguna. Ljóst sé af atvikum að stefnandi hafi verið látin gjalda kynferðis síns við meðferð málsins og við töku ákvörðunar um ráðninguna. Því standi upp á stefnda að sýna fram á að aðrar ástæður hafi legið að baki ákvörðun hans í þessu efni, sbr. 3. mgr. 24. gr. laganna. Það hafi honum ekki tekist, hvorki í ráðningarferlinu sjálfu né gagnvart Kærunefnd jafnréttis­mála. Það sé því ljóst að stefndi hafi brotið jafnréttislög á stefnanda.

            Stefnandi vísi til jafnréttislaga nr. 96/2000. Um bótarétt vísist 28. gr. laganna, en sá sem af ásettu ráði eða vanrækslu brjóti gegn lögunum sé skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur megi dæma hlutað­eigandi til að greiða þeim sem misgert var við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, bætur vegna miska. Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur sé einnig krafist álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti samkvæmt lögum nr. 50/1988.

 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Sýknukrafa stefnda er á því byggð að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að mat verkfræðideildar stefnda á umsækjendum hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum.  Engin slík ályktun verði dregin af áliti Kærunefndar jafnréttismála, sem þvert á móti segi skýrt að við val á milli umsækjenda hafi verið málefnalegt að leggja áherslu á kennslu í grunnnámi í tölvunarfræði umfram aðra þætti, þar á meðal rannsóknavirkni. Jafnframt segi í áliti kærunefndar að það hafi verið á valdi verkfræðideildar og stefnda að leggja mat á og ákveða hvaða þættir hafi mátt vega þyngst með tilliti til skipulags og starfsemi deildarinnar. Stefndi sé sammála þessari ályktun nefndarinnar. Verk­fræði­­deild hafi staðist þær kröfur sem gera verði í þessu sambandi, hvort heldur á grundvelli jafnréttislaga eða þeirra laga sem giltu um stefnda sem opinbera stofnun.

            Stefndi vísi því alfarið á bug að stefndi hafi brotið gegn 23. og/eða 24. gr. jafn­réttislaga, eða öðrum lagaákvæðum. Verkfræðideild stefnda hafi komist að niður­stöðu í vali milli tveggja hæfustu umsækjendanna um greint starf, með því að svara þeirri spurningu hvort þeirra væri betri kennari í grunnnámi í tölvunarfræði. Svar deildar­innar hafi grundvallast á lögum og reglum um stefnda, sem deildar­mönnum hafi verið rétt og skylt að fylgja í tillögugerð sinni.

            Stefndi vísi til 6. mgr. 43. gr. reglna sem gilt hafi um stefnda á þessum tíma um mat á hæfi umsækjenda um störf háskólakennara: „Við mat á kennsluframlagi ber öðru fremur að athuga hversu mikla alúð umsækjandi hefur lagt við kennslustörf sín, svo sem við samningu kennsluefnis og leiðbeininga, fjölbreytni og nýjungar í kennsluaðferðum. Eins skuli líta til frumkvæðis í uppbyggingu og endur­bótum á tilhögun kennslu og viðleitni til að hvetja nemendur til sjálfstæðra og fræði­legra vinnubragða.“

            Á deildarfundi 8. júní 2005 hafi ríflega 2/3 hlutar deildarmanna verið á einu máli um hvor umsækjendanna væri hæfari út frá mati á kennsluframlagi. Þetta veiti enga vísbendingu um annað en að valið hafi byggst á faglegum forsendum. Þá hafi rök­stuðn­ingur fyrir tillögu um veitingu starfsins verið afgreiddur samhljóða á deildar­fundi 14. október s.á. Hvort tveggja beri þess órækt vitni að deildarmenn hafi talið Kristján hæfari en Anna.

            Stefndi hafni því að breytingartillaga við rökstuðning deildarinnar, sem lögð var fram á deildarfundi 14. október 2005, hafi einhverja efnislega þýðingu í þessu sambandi. Tillagan beri með sér að hafa snúist um orðalag, sem mestur hluti fundarmanna hafi greinilega ekki haft mikla skoðun á. Fráleitt sé því að leggja út af þessu orðalagi á þann veg að niðurstaða deildarinnar hafi ráðist af geðþótta fremur en faglegum forsendum.

            Stefndi mótmæli því að geðþótti hafi ráðið þegar ákvörðun var tekin á grund­velli huglægra matsatriða. Eðli málsins samkvæmt reyni mjög oft á slík atriði við ráðningu í störf og sé engin ástæða til þess að gera þau tortryggileg.

            Að teknu tilliti til þessa hafi tillagan um þann sem ráðinn var í starfið verið í fullu samræmi við þá meginreglu opinbers réttar, að í auglýst starf skuli hverju sinni ráða þann umsækjanda sem hæfastur er talinn út frá skilgreiningu starfsins og áherslum sem fram komi í auglýsingu um það. Af því leiði enn fremur að þær reglur eigi ekki við sem annars gildi um forgang umsækjenda til starfa á sviðum þar sem halli á annað hvort kynið.

            Fráleitt sé að líta svo á að niðurstaða dómnefndar hafi falið í sér að stefnandi og sá sem ráðinn var væru jafnhæf til starfsins. Í þeirri staðhæfingu felist fullkominn misskilningur á hlutverki nefndarinnar, enda liggi fyrir samkvæmt reglum stefnda að dómnefndir meti einvörðungu hvort umsækjendur uppfylli lágmarksskilyrði vegna ráðningar í tiltekið starf. Á hinn bóginn sé hlutverk deildarfundar að velja á milli hæfra umsækjenda, þ.e. þeirra sem uppfylli lágmarks­skilyrði, á grundvelli þess hver þeirra teljist hæfastur.

            Stefnandi taki upp þá málsástæðu Kærunefndar jafnréttismála í málatilbúnaði sínum að telja megi kennsluferil stefnanda lengri á háskólastigi og að það hafi veitt stefnanda einhvers konar löglíkur fyrir tilkalli eða forgangi til starfsins. Þessum löglíkum telji stefnandi að verði ekki hnekkt nema sýnt sé fram á að sérstakir kostir eða eiginleikar réttlæti aðra niðurstöðu. Stefndi mótmæli alfarið að þessi málsástæða eigi við rök að styðjast, hvort sem er á vettvangi kærunefndar eða fyrir dómi. Ástæðan sé sú að mat á kennsluhæfni byggist á nokkrum lykilþáttum sem nákvæmlega eru tíundaðir í reglum stefnda, sbr. áðurgreind ákvæði 6. mgr. 43. gr. Lengd kennsluferils sé ekki á meðal þessara þátta, enda einn og sér í besta falli óáreiðanlegur og í versta falli rangur mælikvarði á gæði kennslustarfa. Það sé algerlega á skjön við gögn málsins og grundvöll þess, að láta óskil­greindan mælikvarða ganga framar þeim þáttum sem lög og reglur kveði á um að leggja skuli til grundvallar við hæfnismatið. Lengd kennsluferils, jafnvel þótt mismun­andi sé milli umsækjenda, geti ein og sér frá­leitt talist leiða líkur að beinni eða óbeinni mismunun í skilningi 24. gr. laga nr. 96/2000. Fráleitt sé að fram þurfi að fara sérstök sönnunarfærsla af þessu tilefni til þess að tryggja að stefndi verði sýknaður af áburði um að hann hafi brotið lög. Hann leggi þó fram niðurstöður kennslukannana og önnur gögn til þess að dómurinn geti lagt mat á réttmæti þeirrar ákvörðunar sem tekin var út frá kennsluhæfni. Stefndi vísi einnig til vitnisburða kennara verkfræðideildar fyrir dómi um ráðningarmálið og það hæfnismat sem fram hafi farið. Hæfnismatið hafi byggst á auglýsingu um starfið, en þar hafi venju fremur verið lögð mikil áhersla á kennslu í grunnnámi. Sú áhersla eigi ekki að vera um­deilan­leg.

            Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda að málsmeðferðar­reglur stjórn­sýslu­réttarins hafi verið brotnar í ráðningarmálinu. Þvert á móti hafi stefndi framfylgt í einu og öllu þágildandi reglum samkvæmt lögum nr. 41/1999 um stefnda og stjórn­valdsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra laga, einkum III. kafla reglna nr. 458/2000 fyrir stefnda. Í þessum reglum sé ítarlega kveðið á um réttarstöðu umsækjenda um störf hjá stefnda, m.a. hvað varði undir­búning að ákvörðun um veitingu starfa, auk þess sem fylgt hafi verið tilteknu verklagi í því efni. Í mála­tilbúnaði stefnanda sé hvergi á því byggt að þessar reglur í lögum og stjórnvalds­fyrirmælum hafi verið brotnar, eða að þær hafi stangast á við lágmarksreglur sem settar hafi verið með stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

            Með þessu sé þó ekki sagt að ráðningarfyrirkomulag stefnda sé þar með hafið yfir gagnrýni. Stefndi hafi brugðist við þeirri rökstuddu gagnrýni sem fram hafi komið, um að ráðningarferlið væri ekki nógu gegnsætt og að treysta þyrfti betur grundvöll ákvarðana um veitingu starfs. Stefnanda hafi hins vegar sýnt af sér mikið tómlæti, sem eitt og sér, eða með hliðsjón af öðrum atvikum, hljóti að leiða til sýknu.

            Stefndi mótmæli einnig þeim málsástæðum stefnanda sem vanreifuðum og óstaðfestum sem lúti að því að stefnanda hafi verið „mismunað á grundvelli kynferðis“ með því að „ganga fram hjá“ stefnanda við ráðninguna. Hvergi sé vikið að mismunun, hvorki beinni né óbeinni, í álitsgerð kærunefndar. Þótt gagnrýni kæru­nefndar hafi byggst á því að ráðningarfyrirkomulag stefnda skorti tilteknar varnir gegn óbeinni mismunun, fari fjarri að þar með hafi verið sýnt fram á að mismunun hafi raunverulega átt sér stað í þessu tilviki. Verði stefndi sýknaður af viðurkenningar­kröfum stefnanda, byggðum á þessum ófullkomnu málsástæðum, séu skilyrði brostin fyrir ákvörðun miskabóta.

            Verði ekki fallist á sýknu af þessum ástæðum byggi stefndi á því að sýkna beri af kröfu stefnanda um miskabætur vegna aðildarskorts. Stefndi vísi til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála og þess að stefnandi, Jafnréttisstofa, sé ekki réttur aðili til þess að hafa uppi slíka kröfu fyrir dómi.

            Stefndi byggi málatilbúnað sinn einkum á ákvæðum laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og stjórnvaldsfyrirmæla settum á grundvelli þeirra laga, einkum III. kafla reglna nr. 458/2000, fyrir stefnda, þar sem fjallað sé um ráðningar í störf háskólakennara. Þá byggi stefndi á IV. kafla laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eins og ákvæði kaflans hafi verið skýrð og framkvæmd, m.a. af Kærunefnd jafnréttismála. Um málskostnaðarkröfu sína vísi stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

            Niðurstaða

            Eins og að framan er rakið sótti Anna Ingólfsdóttir um starf dósents í tölvunar­fræði við verkfræðideild stefnda sem auglýst var laust til umsóknar í Morgunblaðinu 10. október 2004 og á starfatorgi.is, sbr. yfirlit um laus störf hjá ríkinu í sama blaði sama dag. Hún fékk ekki starfið og eru kröfurnar í málinu byggðar á því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis þegar gengið var fram hjá henni við stöðu­veitinguna. Með þessu hafi verið brotið gegn ákvæðum 24. gr. þágildandi laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

            Byggt er á því að Anna hafi verið hæfari en karlinn sem ráðinn var dósent. Vísindalegt framlag hennar hafi verið langtum umfangsmeira en karlsins og hún hafi sýnt áberandi betri árangur en hann hvað rannsóknir varði þar sem hún hafi birt margfalt fleiri greinar en hann og í hærra metnum tímaritum og ráðstefnum. Hún hafi setið í ritstjórnum virtra fræðilegra tímarita og hlotið viður­kenningu sem hann hafi ekki hlotið. Hún hafi allverulega reynslu af kennslu á doktors- og meistarastigi og náð góðum árangri en karlinn hafi nánast enga reynslu af kennslu á þeim sviðum. Árangur beggja í kennslu á grunnstigi hafi verið svipaður en hún hafi haft mun lengri og fjölbreyttari kennslureynslu í tölvunarfærði á því stigi. Hans reynsla sé takmörkuð þar sem hann hafi mestmegnis kennt stærðfræði. Hún hljóti að öllu þessu virtu að teljast hæfari en hann til að gegna umræddu starfi. Mat deildarfundar sé bersýnilega rangt og byggt á ómálefnalegum forsendum þar sem faglegt mat hafi verið látið víkja. Með því hafi ekki aðeins verið brotið gegn jafnréttis­lögum heldur einnig gegn málsmeðferðar­reglum stjórnsýsluréttar og þeirri ólögfestu grund­vallar­reglu stjórn­­sýslu­réttar að hæfasti umsækjandanum beri starfið sem í boði sé.

            Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. þágildandi laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 bar dómnefnd, sem skipuð var samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar, að láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða mætti af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann væri hæfur til að gegna starfinu. Engum umsækj­anda má veita starf nema meirihluti dómnefndarinnar hafi látið það álit í ljós að hann sé hæfur til að gegna því. Dómnefndin mat bæði Önnu Ingólfsdóttur og þann sem dósetnsstarfið hlaut hæf til að gegna því samkvæmt áliti nefndarinnar 4. maí 2005.

            Háskólarektor ræður prófessora og dósenta til stefnda samkvæmt tillögu há­skóla­­deildar, sbr. 1. mgr. 12. gr. sömu laga. Á deildarfundi verkfræðideildar 8. júní  s.á. var fjallað um dómnefndarálitið og gerð tillaga um ráðningu dósent­s samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Formaður dómnefndarinnar gerði grein fyrir áliti nefndar­innar á deildarfundinum, eins og fram kemur í fundar­gerð. Greidd voru atkvæði á fundinum en í framhaldi af því var samþykkt samhljóða að mæla með því að sá sem flest atkvæði hlaut yrði ráðinn dósent. Í bréfi deildarforseta til rektors 23. júní s.á. er því lýst að umræður á deildarfundi hafi að mestu snúist um þær áherslur í rann­sóknum og kennslu sem skilgreining starfsins feli í sér. Mat meirihluta fundar­manna hafi verið „að það sjónarmið sem hefði þyngst vægi við ákvörðun um ráð­stöfun starfsins væri þörf verkfræðideildar fyrir kennslu í grunnnámi“. Niðurstaða deildar­­fundar hafi verið sú að umsækjandinn, sem hlaut flest atkvæði á fundinum, væri hæfastur til að gegna starfinu að teknu tilliti til þessara sjónarmiða.

            Háskólarektor réð þann sem verkfræðideild mælti með í dósentsstarfið að fengnum nánari rökstuðningi deildarfundar sem haldinn var 14. október s.á. Eins og fram hefur komið voru á þessum tíma í gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laganna bar atvinnurekanda að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans ef leiddar væru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, m.a. við ráðningu í starf.

            Í auglýsingu um starfið segir að umsækjandi skuli hafa lokið doktorsnámi í tölvunarfræði eða skyldum greinum og hafa reynslu af rann­sóknum og kennslu á því sviði. Verkfræðideild hafi markað þá stefnu að rannsóknir og kennsla við skorina standist samanburð við það besta á alþjóðavettvangi sem völ sé á. Í auglýsingu á starfatorgi.is segir enn fremur að lektorinn/dósentinn þurfi að geta kennt helstu grunn­námskeið, sem kennd eru við tölvunarfræðiskor, og sinnt meistara- og doktorsnámi við skorina.

            Áður en rektor tók ákvörðun um að ráða Kristján dósent lá fyrir mat deildar­fundar frá 14. október 2005 á því að hann væri afburðagóður kennari og ætti auðvelt með að fá nemendur til samstarfs. Þetta er í samræmi við það sem fram kemur í áliti dómnefndarinnar um kennsluhæfileika hans. Dómnefndin lagði þó ekki mat á það hvort þeirra Önnu eða Kristjáns væri hæfara til að gegna starfi dósents. Fram kemur í fundargerð deildar­fundarins að þrátt fyrir mikla reynslu Önnu á sviði rannsókna og kennslu væri mat deildarinnar að Kristján væri hæfari til að gegna hinu auglýsta starfi, enda hefði hann farsælan rannsóknar- og kennslu­feril að baki hjá stefnda. Þessi niðurstaða byggðist á þeirri reynslu sem ein­stakir kennarar innan deildar­innar hefðu haft af samstarfi við þessa umsækjendur. Báðir umsækjendur höfðu kennt tölvunar­fræði við deildina þegar þetta mat fór fram.

            Sýknukrafa stefnda er byggð á því að mat á hæfni umsækjenda hafi verið málefna­legt. Verkfræðideild hafi komist að þeirri niðurstöðu að Kristján væri betri kennari í grunnámi í tölvunarfræði. Af hálfu stefnda er vísað til 6. mgr. 43. gr. reglna um stefnda, sem gilt hafi á þessum tíma, en þar segi að við mat á kennsluframlagi beri öðru fremur að athuga hversu mikla alúð umsækjandi hafi lagt við kennslustörf sín, svo sem við samn­ingu kennsluefnis og leiðbeininga, fjölbreytni og nýjungar í kennslu­aðferðum. Eins skuli líta til frumkvæðis í uppbyggingu og endurbótum á tilhögun kennslu og við­leitni til að hvetja nemendur til sjálfstæðra og fræðilegra vinnubragða. Á deildar­fundi 8. júní 2005 hafi ríflega tveir þriðju hlutar fundarmanna verið á einu máli um  að Kristján væri hæfari en Anna út frá mati á kennsluframlagi.

            Af hálfu stefnda er því haldið fram að það hafi verið á valdi verkfræði­deildar og stefnda að leggja mat á og ákveða hvaða þættir hafi mátt vega þyngst við mat á hæfni umsækjenda með tilliti til skipulags og starfsemi deildarinnar. Í gögnum málsins kemur fram að rætt hafi verið á deildar­fundi hvað skyldi leggja mesta áherslu á við matið. Samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð 14. október 2005 og í bréfi deildarforseta til rektors 23. júní s.á. snerust umræður á deildarfundi 8. júní s.á. að mestu um þær áherslur í rannsóknum og kennslu sem skilgreining starfsins feli í sér. Kennarar stefnda eru prófessorar, dósentar og lektorar samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999. Við mat á því hver af hæfum umsækjendum teljist hæfastur til að gegna starfi dósents verður að teljast lögmætt sjónarmið að leggja mesta áherslu á kennslu­þáttinn, eins og gert var af hálfu verk­fræðideildar. Niðurstaða um mat á hæfni umsækj­enda til að sinna kennslu hlýtur að ein­hverju leyti að ráðast af faglegu mati á þeim eiginleikum og hæfileikum sem best nýtast í því starfi. Reynslutíminn einn eða lengd kennsluferils þarf ekki endilega að ráða úrslitum við slíkt hæfnismat, eins og réttilega er haldið fram af hálfu stefnda.

            Að þessu virtu verður að líta svo á að sýnt hafi verið fram á að mat á hæfni umsækjenda hafi stuðst við faglegar upplýsingar, sem lágu fyrir í gögnum málsins og komu fram á deildarfundi 8. júní 2005, þar sem álit dómnefndarinnar var ítarlega rætt samkvæmt fundargerð svo og hvað skyldi leggja mesta áherslu á við matið, eins og að framan greinir. Í dómnefndarálitinu er kennsluferill Önnu og Kristjáns rakin og fram koma upplýsingar um árangur og kennslu­framlag þeirra. Við skýrslutökur fyrir dóm­inum komu fram upplýsingar um að mikið álag væri á kennurum í tölvunarfræði vegna fjölda nemenda sem að jafnaði væru skráðir í námið. Mikilvægt væri að kennsla í grunnnáminu gengi vel og að hlusta þyrfti á nemendur og taka tillit til þeirra við kennsluna. Á deildar­fundinum komu fram upplýsingar um að kennsla Önnu hefði ekki gengið nógu vel. Á fundinum hafi verið lagt til grundvallar að velja bæri þann hæfasta til að gegna dósents­starfinu. Einnig kom fram við skýrslutökurnar að þótt skiptar skoðanir hafi verið um það á fundinum hvort leggja bæri meiri áherslu á rannsóknir eða kennslu hafi niðurstaðan orðið sú að leggja mesta áherslu á kennslu í grunnnámi. Að teknu tilliti til þess mat deildarfundur Kristján hæfari en Önnu. Verður að telja að matið sé byggt á nægi­lega traustum grunni og að það sé stutt viðhlítandi rökum. Samkvæmt því ber að hafna því að það byggist á ómál­­efnalegum forsendum eða að það sé bersýnilega rangt, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda.  

            Samkvæmt framangreindu er ekki fallist á að brotnar hafi verið reglur stjórn­sýslulaga þegar hæfni umsækjenda var metin eða að leiddar hafi verið líkur að því að beinni eða óbeinni mismunun hafi verið beitt vegna kynferðis við ráðningu í dósents­starfið sem um ræðir. Verður þar með að hafna því að brotið hafi verið gegn þágild­andi lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar ráðinn var dósent í starfið sem um ræðir af hálfu stefnda og ber því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um viðurkenningu á því.

            Að fenginni þessari niðurstöðu eru skilyrði skaðabótaskyldu stefnda ekki fyrir hendi í máli þessu. Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um viður­kenningu á henni og kröfunni um miskabætur.

            Rétt þykir að málskostnaður falli niður, einkum með vísan til þess að Kæru­nefnd jafnréttismála hafði komist að gagnstæðri niðurstöðu og talið að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan ­rétt kvenna og karla við ráðningu í umrætt starf.  

            Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

            Stefndi, Háskóli Íslands, er sýknaður af kröfum stefnanda, Jafnréttisstofu vegna Önnu Ingólfsdóttur, í máli þessu.

            Málskostnaður fellur niður.

                                                     Sigríður Ingvarsdóttir.