• Lykilorð:
  • Miskabætur
  • Nauðgun
  • Fangelsi
  • Sönnun
  • Sönnunarmat

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 19. desember 2017 í máli nr. S-202/2017:

 

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 24. október 2017, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 26. maí 2017 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...];

fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. febrúar 2015, að [...] í [...], haft önnur kynferðismök en samræði við Y, með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar, en ákærði nuddaði kynfæri Y innanklæða, setti fingur ítrekað inn í leggöng hennar, káfaði á brjóstum hennar utanklæða, sleikti kinn hennar og háls, setti fingur ítrekað upp í munn hennar, lét hendi hennar á getnaðarlim sinn utanklæða og fróaði sér liggjandi við hlið hennar.

Teljast brot ákærða varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu Y, kt. [...], er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.500.000 kr. með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2015 til þess dags er  mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um skipun réttargæslumanns skv. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og málflutningsþóknunar réttargæslumanns, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Kröfur ákærða í málinu eru þær aðallega að ákærði verði sýknaður, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið og til þrautavara að ákærða verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Hvað bótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði þess aðallega að kröfunni verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð verulega. Þá krefst verjandi hæfilegrar þóknunar sér til handa samkvæmt framlagðri tímaskýrslu, sem greiðist úr ríkissjóði.

I

A

Hinn 21. febrúar 2015 hafði móðir Y, brotaþola í málinu, samband símleiðis við [...] og upplýsti að brotaþoli hefði tjáð henni í Facebook-skilaboðum að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi samnemanda í [...] fjórum vikum áður. Brotaþoli hefði í fyrstu ekki ætlað að greina móður sinni frá atvikinu en hún síðan ákveðið að gera það þar sem henni hefði liðið illa og hún ekki vitað hvað hún ætti að gera. Í símtalinu hafði móðir brotaþola það eftir dóttur sinni að hún hefði umrætt sinn verið stödd í samkvæmi hjá vinkonu sinni, orðið ofurölvi og lagst upp í rúm. Brotaþoli hefði síðan vaknað við að strákur, sem hún hefði álitið vin sinn, ákærði í máli þessu, lá við hlið hennar og var að káfa á henni innan klæða. Ákærði hefði káfað á kynfærum brotaþola, farið með fingur inn í löggöng hennar og káfað á brjóstum hennar. Brotaþoli hefði „frosið“ og látið sem hún væri sofandi. Ákærði hefði síðan lagst ofan á brotaþola og kysst hana á hálsinn. Þetta hefði staðið yfir í einhvern tíma en brotaþoli síðan þóst vakna og hún látið sem ekkert hefði í skorist. Brotaþoli hefði í kjölfarið brotnað niður og sagt vinkonum sínum frá því sem gerst hafði.

Eftir að hafa rætt við brotaþola hafði móðir hennar að nýju samband við [...] 26. febrúar 2015 og upplýsti um þá afstöðu brotaþola að hún vildi kæra ákærða. Með bréfi degi síðar kom A félagsráðgjafi kærunni á framfæri við lögreglu fyrir hönd barnaverndarnefndar [...].

B

Í kjölfar símtals til Neyðarlínunnar 7. apríl 2015 kom ákærði á lögreglustöðina í [...] þar sem lögreglumaður ræddi við hann. Er í skýrslu lögreglu bókað að ákærði hafi viljað „gangast við kynferðisbroti.“ Þá er í skýrslunni eftir ákærða haft að hann hafi verið „... í samkvæmi í [...] í byrjun febrúar á þessu ári og hafi hann legið í rúmi með stúlku sem heitir Y, er í [...] og býr í [...] en hann veit ekki frekari deili á henni. Hafi Y verið mjög ölvuð og hafi hún virst sofandi. Hann hafi þá káfað á kynfærum hennar í smá stund. X sagðist vita að hann hafi gert rangt og væri búinn að líða illa yfir þessu. Hann sagðist hafa heyrt af því að hún hafi kært í þessu máli sem og að honum hafi borist einhver sms skilaboð út af því. Því vildi hann játa brot sitt.“ Samkvæmt skýrslu lögreglu var ákærði upplýstur um réttarstöðu sína umrætt sinn, meðal annars um réttinn til þess að fá tilnefndan verjanda. Óskaði ákærði ekki eftir aðkomu verjanda að svo stöddu.

Framburðarskýrsla var síðan tekin af ákærða vegna málsins 16. febrúar 2015 að viðstöddum verjanda. Bar ákærði þá meðal annars að hann hefði kysst og faðmað brotaþola er þau voru komin inn í herbergi í fyrrgreindu samkvæmi, sem haldið hefði verið aðfaranótt 1. febrúar 2015. Brotaþoli hefði ekki svarað atlotum ákærða og hann þá gert sér grein fyrir því að hún var orðin dauðadrukkin. Síðar í skýrslutökunni bar ákærði jafnframt um að hann hefði í stutta stund káfað á kynfærum brotaþola utan klæða.

C

Undir rannsókn málsins tók lögregla vitnaskýrslur af nokkrum gestum í áðurnefndu samkvæmi, sem upplýst er í málinu að haldið var í íbúð að [...] í [...]. Einnig voru skýrslur teknar af móður brotaþola og tveimur systrum hennar. Þá afhenti brotaþoli lögreglu skjáskot af SMS-skilaboðum sem ákærði sendi henni 2.-4., 7. og 11. febrúar 2015, en vikið verður að efni þeirra í IV. kafla dómsins.

D

Í þágu rannsóknar málsins var aflað vottorðs B, sérfræði­læknis í geðlækningum, sem dagsett er 24. október 2015 og varðar brotaþola. Í vottorðinu segir meðal annars svo:

... lagst inn eftir  ofskammt lyfja, í febrúar 2014 og febrúar 2015. ...

Kom síðan brátt til innlagnar í október 2015 ... Þar lýsti hún áleitnum sjálfsvígshugsunum og vanlíðan. Sagðist vera í meðferð hjá sálfræðingi í kjölfar kynferðisofbeldis sem hún hafði orðið fyrir í jan/feb 2015. Hún lýsti skapsveiflum og auknum og tíðari sjálfsvígshugsunum. Var í tæpar 4 vikur á deildinni. [---]

Hún lagðist aftur inn í nóvember lok 2015 og síðan aftur í febrúar 2016 ... Í febrúar 2016 hafði hún tekið inn alvarlegan ofskammt lyfja í sjálfsvígstilgangi. Í samtölum kom fram óstöðugleiki og auknar sjálfsvígshugsanir þar sem triggerinn var sá að það hafði liðið 1 ár frá nauðguninni sem hún varð fyrir. Var ljóst að hún hafði orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli við ofbeldið sem hún varð fyrir. ...

 

Kom B fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði vottorðið.

Meðal gagna málsins er einnig skýrsla C sálfræðings, dagsett 21. september 2015, sem geymir samantekt hennar á niðurstöðum sjö viðtala sem hún átti við brotaþola. Í skýrslunni segir að brotaþola hafi verið vísað til sálfræðingsins í mars 2015 vegna áfallastreitu sem tengdist kynferðismisnotkun. Niðurstöður sjálfsmatslista, er lagður hafi verið fyrir brotaþola í mars 2015, hafi bent til alvarlegra einkenna áfallastreitu og miðlungsalvarlegra til alvarlegra þunglyndi­seinkenna og miðlungskvíða, sem aukið hafi á forðun í félagslegum aðstæðum. Mælingar hafi verið teknar reglulega á meðferðartímabilinu frá mars til júlí 2015 og hafi þær verið nokkuð stöðugar. Forðun í félagslegum aðstæðum hafi aukist töluvert eftir áfallið og því hafi virkni minnkað og þunglyndis­einkenni aukist. Þá hafi brotaþoli lýst viðvarandi og truflandi sjálfsvígsvíshugsunum, er aukist hefðu eftir áfallið.

C kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði skýrslu sína. Vitnið sagði brotaþola hafa mætt í sjö viðtöl af níu sem vitnið hefði boðað hana til. Brotaþola kvað vitnið hafa átt erfitt með að tjá sig í viðtölunum. Lýsti vitnið því að í viðtölunum hefði eingöngu farið fram undirbúningsvinna en brotaþoli ekki unnið með áfallið. Að sögn vitnisins kom ekki til frekari meðferðar brotaþola hjá því en fram kemur í skýrslunni.

Í málinu liggur frammi vottorð D sálfræðings, dagsett 23. október 2017, er varðar viðtöl sem sálfræðingurinn tók við ákærða. Fram kemur í vottorðinu að sálfræðingurinn hafi átt fjögur viðtöl við ákærða á tímabilinu 6. október 2015 til 10. febrúar 2016. Þar segir jafnframt að [...] hafi vísað ákærða til sálfræðingsins og þess verið óskað að hann ræddi við ákærða um meinta kynferðislega áreitni hans gegn brotaþola. Hafi ákærði borið af sér sakir í viðtölunum. Þegar sálfræðingurinn hafi rætt við ákærða í fimmta sinn í janúar 2017 hafi, eins og í fyrri viðtölum, mátt greina kvíða hjá ákærða en einnig sterk þunglyndis­einkenni.

D kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði vottorð sitt. Fram kom hjá vitninu að því hefði fundist ákærði mjög einlægur og hrekklaus í viðtölunum.

II

Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins og neitaði sök. Þá hafnaði hann bótakröfu brotaþola. Við upphaf aðalmeðferðar lýsti ákærði því yfir að þessi afstaða hans væri óbreytt.

Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins greindi ákærði svo frá að hann hefði umrætt kvöld fengið símtal frá vinkonu sinni, brotaþola í málinu. Erindi brotaþola hefði verið að fá ákærða í samkvæmi með brotaþola og vinum hennar. Ákærði hefði þekkst boð brotaþola og mætt síðla kvölds í samkvæmið, sem haldið hefði verið í húsi við [...] í [...].

Ákærði sagði samkvæmisgesti hafa skemmt sér vel. Brotaþola og marga aðra kvað ákærði hafa verið að neyta áfengis. Ákærði hefði hins vegar verið akandi og hann því verið allsgáður. Ákærði sagði þau brotaþola hafa rætt um heima og geyma og hefðu þau E og F tekið þátt í þeim samræðum að nokkru. Brotaþola kvað ákærði sérstaklega hafa nefnt að áfengisvandamál væri til staðar í hennar fjölskyldu. Var á ákærða að skilja að brotaþoli hefði verið leið vegna þessa, hún verið í ójafnvægi tilfinningalega og ákærði þurft að hugga hana. Fullyrti ákærði að hann og brotaþoli hefðu verið mjög mikið saman um kvöldið og nefndi ákærði sérstaklega að brotaþoli hefði faðmað hann.

Ákærði sagði þau tvö á einhverjum tímapunkti hafa farið saman inn í herbergi þar sem brotaþoli hefði verið orðin þreytt á birtunni og viljað komast úr henni og í myrkur. Eftir að inn í herbergið var komið hefðu þau haldið áfram að tala saman. Hefðu E og F einnig komið inn í herbergið til að spjalla.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði skutlað E heim um nóttina, líklega um kl. 01:00, og hefði brotaþoli komið með. Að því loknu hefðu ákærði og brotaþoli snúið aftur í samkvæmið. Er þangað kom hefðu þau aftur farið inn í herbergið og haldið áfram að tala saman. Brotaþoli hefði síðan fært sig nær og nær ákærða. Ákærði sagðist hafa verið mjög hrifinn af brotaþola og hann haldið að það væri gagnkvæmt. Hann hefði því faðmað brotaþola, og þau síðan faðmað hvort annað. Var á ákærða að skilja að er það gerðist hefðu þau setið í rúmi í herberginu. Þau hefðu í framhaldinu lagst í rúmið og ákærði síðan kysst brotaþola á munninn og strokið brjóst hennar og kynfæri utan klæða, allt í einni samfellu. Brotaþoli hefði hins vegar engin viðbrögð sýnt við því „... þannig að ég hætti.“ Spurður um hvort hann teldi að brotaþoli hefði verið sofnuð er þarna var komið sögu svaraði ákærði: „Ég held að hún var dauðadrukkin, já.“ Þá staðfesti ákærði að á þessum tímapunkti hefði hann sagt: „Vá hvað þú ert dauð.“ Hann hefði þarna áttað sig á því ástandi brotaþola. Ákærði hefði síðan farið að sofa. Framburð brotaþola þess efnis að hann hefði nuddað kynfæri hennar innan klæða og ítrekað sett fingur inn í leggöng hennar sagði ákærði vera rangan. Einnig væri rangt hjá brotaþola að hann hefði sleikt kinn hennar og háls. Enn fremur kvaðst ákærði hvorki hafa tekið hönd brotaþola og sett á getnaðarlim sinn né sett fingur upp í munn hennar. Þá neitaði ákærði því að hafa fróað sér við hlið brotaþola. Kvaðst ákærði engar skýringar geta gefið á því af hverju brotaþoli væri að bera hann röngum sökum.

Aðspurður taldi ákærði að alltaf hefði staðið til að brotaþoli gisti í íbúðinni um nóttina þar sem hún hefði verið búsett í [...]. Sjálfur hefði ákærði ekki átt að gista en hann hins vegar verið svo þreyttur að hann hefði ákveðið að gera það líka. Kvaðst ákærði ekki hafa fengið leyfi húsráðanda til þess.

Spurður um ölvunarástand brotaþola svaraði ákærði því til að hún hefði verið búin að „... drekka svolítið mikið.“ Hún hefði átt „erfitt með að labba“ og því hefði ákærði hjálpað henni. Hann hefði meðal annars þurft að hjálpa henni inn í herbergið. Kom fram hjá ákærða að brotaþoli hefði þegar verið orðin ölvuð þegar hann kom í samkvæmið um kvöldið.

Um morguninn sagði ákærði þau brotaþola hafa vaknað og farið fram í eldhús. Þar hefðu þau rætt saman á léttum nótum. Kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa merkt á brotaþola að nokkuð amaði að. Brotaþoli hefði síðan spurt ákærða þess hvort hún gæti fengið far hjá honum að [...]. Ákærði hefði sagt það sjálfsagt og hann í kjölfarið ekið brotaþola á [...]. Þar hefðu þau kvaðst.

Ákærði sagðist aðspurður ekki hafa haft hugmynd um það að brotaþoli væri samkynhneigð. Kom fram hjá ákærða að þau hefðu verið í sama skóla er atvik máls gerðust og kynni þeirra verið búin að standa yfir í nokkurn tíma. Ákærði hefði kynnst brotaþola í gegnum vinkonur hennar, sem hann hefði verið búinn að þekkja miklu lengur en hana. Skaut ákærði á að hann og brotaþoli hefðu mögulega verið búin að hittast fimm sinnum áður en þau hittust í samkvæminu. Nefndi ákærði sérstaklega að hann hefði í eitt skipti aðstoðað brotaþola við heimavinnu.

Fram kom hjá ákærða að skömmu eftir samkvæmið 1. febrúar 2015 hefði G komið upp að honum í skólanum og slegið hann í hnakkann. Hún hefði síðan sagt: „Vá hvað þú ert dauð.“ Ákærði kvaðst ekkert hafa vitað um hvað G var að tala. Ákærði sagði G hafa misst hring við höggið og ákærði því elt hana og ætlað að skila hringnum. Tók ákærði fram að G væri mjög ofbeldisfull og því hefði þessi hegðun hennar ekki verið neitt sérstaklega óvenjuleg. Ákærði hefði reynt að fá G til að skýra gerðir sínar en hún í raun ekki gert það. Hún hefði einungis sagt við ákærða að hann vissi vel hvað hann hefði gert við brotaþola. Þá hefði G sagt ákærða vera ógeðslegan. Ákærði sagðist engu nær hafa verið eftir þessi orð G.

Ákærði staðfesti fyrir dómi að hafa sent brotaþola SMS-skilaboð þau sem frammi liggja í málinu og bera með sér að hafa verið send 11. febrúar, kl. 14:28. Skilaboðin sagðist ákærði hafa sent brotaþola í kjölfar þess að G kom að honum í skólanum eins og áður var lýst þar sem „... ég var hræddur um að ég hafði gert eitthvað rangt.“ Í skilaboðunum sagðist ákærði hafa verið að vísa til kossins og strokanna sem áður var lýst. Áréttaði ákærði að hann hefði verið skotinn í brotaþola og hann viljað hitta hana aftur. Sagði ákærði þetta hafa verið síðustu samskipti hans við brotaþola.

Spurður um ástæðu þess að ákærði mætti að eigin frumkvæði á lögreglustöð 7. apríl 2015 svaraði hann því til að hann hefði sætt stanslausu áreiti í skólanum. „Stelpurnar“ hefðu kallað hann ógeð og H helt yfir hann gosi. Á þessum tímapunkti sagði ákærði sér hafa verið farið að líða þannig að hann hefði gert eitthvað rangt með því að hafa kysst og strokið brotaþola eins og áður var lýst. Ákærði kvaðst hafa talið að ef hann færi og ræddi við lögreglu myndi ástandið lagast. Það hefði hins vegar ekki orðið raunin. Ákærði sagðist hafa greint frá atvikum hjá lögreglu með sama hætti og hann hefði síðar gert fyrir dómi. Hann hefði játað fyrir lögreglu að hafa brotið gegn brotaþola með því að kyssa hana og strjúka henni, eins og áður var rakið, enda hefði hann á þeim tíma haldið að með þeirri háttsemi hefði hann gerst sekur um brot.

III

Y, brotaþoli í málinu, lýsti málsatvikum svo fyrir dómi að hún hefði umrætt kvöld farið í samkvæmi heima hjá vinkonu sinni, I. Brotaþoli sagði sér hafa dottið í hug að bjóða ákærða í samkvæmið þar sem vinkona hennar, E, hefði verið svolítið hrifin af honum. Spurð um tengsl sín við ákærða bar brotaþoli að þau hefðu verið skólafélagar og verið búin að þekkjast í skamman tíma. Þau hefðu kynnst í gegnum sameiginlega vinkonu. Kvað brotaþoli þau ákærða aldrei hafa hist fyrir utan skóla fyrr en þetta kvöld.

Brotaþoli sagði samkvæmið ekki hafa verið fjölmennt. Taldi hún að samkvæmisgestir hefðu mögulega verið sjö talsins. Brotaþoli kvaðst hafa hafið áfengisneyslu eftir að í samkvæmið kom og áleit hún að flestir gestanna hefðu einnig verið að drekka áfengi, þó ekki ákærði. Brotaþoli sagði að þetta hefði verið í fyrsta skiptið sem hún hefði orðið verulega ölvuð. Hún hefði á ákveðnum tímapunkti orðið kvíðin vegna þess þar sem ávallt hefði verið brýnt fyrir henni að drekka ekki þar sem mikill alkóhólismi væri í fjölskyldunni. Brotaþoli sagði ákærða hafa talað við hana og reynt að róa hana niður.

Seint um kvöldið eða um nóttina hefði E þurft að yfirgefa samkvæmið þar sem hún hefði verið á leið út á land daginn eftir. Ákærði hefði ekið E heim og hefði brotaþoli farið með þeim. Þegar brotaþoli og ákærði hefðu komið til baka í samkvæmið hefðu nokkrir gestir enn verið í íbúðinni. Kvaðst brotaþoli muna eftir húsráðanda, frænku hennar, J, og vinkonum sínum, H og G. Brotaþoli hefði síðan farið inn í herbergi bróður húsráðanda þar sem hún hefði sofnað. Tók brotaþoli fram að hún myndi ekki atvik máls vel eftir að hún kom til baka í íbúðina og þar til hún sofnaði.

Brotaþoli kvaðst hafa vaknað við það að ákærði var að káfa á henni. Brotaþoli hefði þá legið á hliðinni í rúmi í fyrrnefndu herbergi og hefði andlit hennar vísað að veggnum. Ákærði hefði í fyrstu legið fyrir aftan brotaþola en í framhaldinu hefði hann ítrekað fært brotaþola til í rúminu. Það hefði tekið brotaþola dálitla stund að átta sig á því sem var að gerast en hún síðan „frosið“ og ekkert þorað að gera. Hefði hún ekkert vitað hvernig hún átti að bregðast við því sem var að gerast. Skömmu eftir að brotaþoli vaknaði hefði ákærði sagt nafn hennar í tvígang. Þegar brotaþoli hefði ekki svarað hefði ákærði sagt: „Vá hvað þú ert dauð.“

Háttsemi ákærða lýsti brotaþoli nánar svo að hann hefði troðið hendinni ofan í buxur hennar, sem hún sagði hafa verið svartar gallabuxur, og káfað á og nuddað kynfæri hennar. Ákærði hefði einnig ítrekað sett fingur til skiptis upp í leggöng hennar og munn. Ákærði hefði jafnframt sleikt kinn brotaþola og niður á hálsinn og káfað á brjóstum hennar utan klæða. Þá hefði hann í stutta stund sett hönd brotaþola á reistan lim sinn og hreyft höndina. Enn fremur taldi brotaþoli að ákærði hefði sjálfur strokið lim sinn, fróað sér, sem brotaþoli hefði merkt á því sem hún heyrði og því að rúmið fór að hristast aðeins. Brotaþoli sagðist þá hafa hreyft sig aðeins og látið líta út fyrir að hún væri að renna út úr rúminu. Hefði ákærði þá látið af þessari háttsemi sinni. Hann hefði er þetta gerðist legið fyrir innan brotaþola í rúminu. Þessu öllu hefði lokið þegar brotaþola hefði tekist að láta líta út fyrir að hún vaknaði. Ákærði hefði þá farið á fætur og klætt sig en hann hefði verið kominn úr öllum fötunum nema nærbuxunum. Hann hefði síðan sagst vera þreyttur og ætla að leggja sig aðeins. Brotaþoli hefði þá sagst ætla fram og hún síðan sent skilaboð, annaðhvort SMS- eða Facebook-skilaboð á I, þess efnis að hún þyrfti að tala við hana strax. Hún hefði komið fram og þær talað saman í matarbúrinu. Brotaþoli hefði greint vinkonu sinni frá því að hún hefði verið kynferðislega misnotuð. I hefði enn verið ölvuð og af þeim sökum ekki alveg skilið hvað brotaþoli var að fara. Hún hefði krafið brotaþola nánari sagna um það sem gerðist en brotaþoli ekki viljað skýra nánar frá, enda hefði hún ekki viljað að ákærði heyrði til hennar. Í kjölfarið hefði I farið aftur að sofa en brotaþoli sest niður í stofunni og grátið.

Skömmu síðar hefði ákærði komið fram. Hann hefði sagst vera svangur og spurt brotaþola að því hvort hún vildi fara eitthvað að borða en brotaþoli sagst þurfa að fara heim. Ákærði hefði þá boðist til þess að aka brotaþola á [...] og það boð hefði brotaþoli þegið, enda hefði það eina sem hún hefði viljað á þessari stundu verið að komast heim. Það hefði verið sunnudagur og langt á milli ferða og brotaþoli ekki viljað hætta á að missa af næstu ferð. Brotaþoli hefði samt sem áður misst af ferðinni sem hún sagði hafa stafað að því hversu lengi ákærði var að hafa sig til og hversu hægt hann ók. Eftir að brotaþoli kom á [...] hefði hún ítrekað séð til ákærða aka framhjá. Hún hefði síðan sætt færis og hraðað sér að nærliggjandi bensínstöð þaðan sem hún hefði húkkað sér far.

Spurð um klæðnað sinn þessa nótt bar brotaþoli að auk gallabuxnanna hefði hún verið klædd í nærföt og stuttermabol.

Brotaþoli sagðist aðspurð ekki hafa sýnt ákærða áhuga eða lýst hrifningu á honum sem hefði getað gefið honum ástæðu til að ætla að hún væri samþykk einhverju í þá veru sem hann gerði. Tók brotaþoli fram í því sambandi að hún hrifist af stelpum, ekki strákum. Kom fram hjá brotaþola að kynhneigð hennar hefði ekki verið leyndarmál og hefði hún meðal annars komið til tals í samkvæminu. Brotaþoli taldi því að ákærða hefði verið um hana kunnugt. Enn fremur kom fram hjá brotaþola að hún hefði enga kynlífsreynslu haft er atvik máls gerðust.

Dagana á eftir sagði brotaþoli ákærða hafa reynt að setja sig í samband við hana. Ákærði hefði ítrekað sent brotaþola SMS-skilaboð þar sem hann hefði beðið hana um að hitta sig. Brotaþoli kvaðst hins vegar hafa forðast ákærða og gefið honum ýmsar afsakanir fyrir því að hún gæti ekki hitt hann. Brotaþoli sagðist ekki hafa treyst sér til þess að segja beint nei við ákærða því að hún hefði í fyrstu ekki viljað „... að hann vissi að ég vissi.“ Þá sagðist brotaþoli ekki hafa mætt í skólann eftir þetta. Einn daginn hefði hún reyndar ætlað að mæta en þá séð ákærða og snúið við og farið heim.

Fyrir dómi staðfesti brotaþoli að hún hefði tekið framlögð sjáskot af skilaboðum ákærða til hennar og sent þau til lögreglu. Skilaboð frá 11. febrúar 2015 sagði brotaþoli ákærða hafa sent í kjölfar þess að vinkona brotaþola, G, sló hann í skólanum. Brotaþoli kvaðst þá hafa verið búin að segja vinkonum sínum frá því sem gerðist. Síðar hefði G sagt brotaþola frá því að eftir að hún sló ákærða utan undir hefði hann spurt hana að því hvað hann hefði gert og hún þá endurtekið orð hans frá því um nóttina: „Vá hvað þú ert dauð.“ Í kjölfarið hefði ákærði elt G að bókasafninu þar sem hann hefði sagt henni að brotaþoli hefði verið samþykk því sem gerðist. Þá fullyrðingu ákærða sagði brotaþoli samkvæmt framansögðu vera alranga og sagðist hún hafa skilið skilaboð ákærða þannig að í þeim hefði falist viðurkenning hans á því að hann hefði brotið gegn henni.

Um líðan sína eftir atvikið í samkvæminu bar brotaþoli að hún hefði áður glímt við þunglyndi og kvíða. Þegar atvik máls gerðust hefði hún verið á góðum batavegi og líðan hennar verið orðin mun betri. Við brot ákærða hefði andleg líðan brotaþola hins vegar versnað mjög og allur sá árangur sem náðst hafði að engu orðið. Brotaþoli hefði reynt að taka sitt eigið líf skömmu eftir atvikið. Haustið 2015 hefði hún síðan ítrekað lagst inn á geðdeild og einnig verið í viðtölum hjá sálfræðingum. Ári eftir atvikið hefði brotaþoli aftur reynt að taka líf sitt og verið lögð inn á geðdeild í kjölfarið. Þegar mál þetta hefði komist á dagskrá hefðu allar þær tilfinningar sem brotið hefði vakið hjá brotaþola hellst yfir hana að nýju. Þá hefði hún fengið kvíðakast þegar hún fékk af því fréttir að ákærði hefði neitað sök. Brotaþola hefði liðið mjög illa í aðdraganda skýrslugjafar sinnar fyrir dómi og hún varla náð að sofa síðustu sólarhringana á undan.

E sagði brotaþola vera vinkonu sína. Þær hefðu kynnst fyrir nokkrum árum. Ákærða kvað vitnið hafa verið skólafélaga sinn á þeim tíma er atvik máls gerðust. Umrætt kvöld sagðist vitnið hafa farið ásamt fleirum í samkvæmi heim til I. Í samkvæminu hefði vitnið meðal annars spjallað við brotaþola og ákærða, en fram kom hjá vitninu að það og brotaþoli hefðu boðið ákærða og vini hans þangað.

Vitnið bar að það hefði verið allsgáð er atvik máls gerðust og taldi vitnið að það hefði ákærði einnig verið. Brotaþoli hefði hins vegar verið að neyta áfengis, líkt og flestir aðrir gestir í samkvæminu. Ástandi brotaþola þegar vitnið yfirgaf samkvæmið lýsti það þannig að hún hefði verið „... góð á því ... ég man ekkert eftir því að hún hafi verið dauðadrukkin eða neitt svoleiðis þegar ég fór.“ Brotaþoli hefði virst vera áttuð á stað og stund.

Vitnið sagðist hafa heyrt af meintu broti ákærða gegn brotaþola frá H um mánuði síðar. H hefði þá hringt og sagt brotaþola hafa beðið sig um að upplýsa vitnið um það sem gerst hefði. Brotaþoli hefði ekki treyst sér til þess að gera það sjálf. Komið hefði fram hjá H, sem hún hefði haft eftir brotaþola, að ákærði hefði káfað á brotaþola síðar um nóttina er hún hefði verið orðin dauðadrukkin og litið út fyrir að vera rænulaus. Það hefði brotaþoli hins vegar ekki verið en hún verið of hrædd til að gera nokkuð er ákærði tók að snerta hana. Í kjölfar samtals vitnisins við H hefði brotaþoli komið í símann og rætt við vitnið. Kvað vitnið brotaþola hafa verið niðurbrotna í símtalinu. Atvikið sagði vitnið hafa haft mjög slæm áhrif á geðheilsu brotaþola, sem ekki hefði verið í góðu lagi fyrir. Sagðist vitnið hafa reynt að leiða huga brotaþola frá málinu með því að ræða við hana aðra hluti.

Spurt um kynhneigð brotaþola svaraði vitnið því til að „... síðast þegar ég vissi var hún aðallega fyrir stelpur.“ Vitnið taldi að vinum brotaþola hefði verið um þetta kunnugt á þeim tíma sem atvik máls gerðust. Um vitneskju ákærða hvað þetta varðaði kvaðst vitnið ekki geta borið.

Fyrir dómi var skýrsla vitnisins hjá lögreglu borin undir það. Kvaðst vitnið hafa skýrt satt og rétt frá fyrir lögreglu og eftir sínu besta minni.

H greindi svo frá fyrir dómi að hún og brotaþoli væru búnar að vera mjög góðar vinkonur um langt skeið. Ákærða kvað vitnið hafa verið skólafélaga þeirra.

Vitnið sagðist hafa verið í samkvæmi hjá I umrætt kvöld. Tók vitnið fram að það myndi málsatvik ekki mjög vel vegna þess hversu langt væri um liðið. Vitnið kvaðst hafa verið töluvert ölvað í samkvæminu. Brotaþola sagði vitnið hafa verið mjög ölvaða, eiginlega „alveg bakk“. Spurt um samskipti brotaþola og ákærða í samkvæminu bar vitnið að ekki hefðu verið nein sérstök samskipti þeirra á milli, „bara samtal“. Þegar liðið var nokkuð á samkvæmið og klukkan var „orðin svolítið margt“ kvaðst vitnið hafa séð brotaþola fara inn í herbergi litla bróður I að leggja sig. Þar taldi vitnið hana hafa verið þegar vitnið yfirgaf samkvæmið. Ákærði hefði þá verið frammi. Áður hefði vitnið séð hann inni í herberginu hjá brotaþola. Þau hefðu setið þar saman og ákærði verið að spjalla við brotaþola.

Nokkrum dögum síðar kvað vitnið brotaþola hafa sagt sér frá því sem gerst hefði síðar um nóttina. Brotaþoli hefði lýst því að hún hefði legið uppi í rúmi og ákærði komið og lagst við hlið hennar. Hann hefði síðan káfað á henni og meðal annars sett fingur „upp í kynfæri hennar“, þ.e. leggöngin. Hefði brotaþoli verið of ölvuð til þess að hreyfa sig. Þá hefði ákærði sagt á einhverjum tímapunkti: „Vá hvað þú ert dauð.“ Brotaþola sagði vitnið hafa verið mjög leiða er hún greindi frá þessu og henni liðið hræðilega.

Þegar brotaþoli greindi vitninu frá atvikum hefði hún einnig sýnt því löng SMS-skilaboð frá ákærða. Í þeim hefði ákærði verið að biðja brotaþola afsökunar.

Spurt um kynhneigð brotaþola kvaðst vitnið ekki vita hver hún væri, en kannaðist þó við umræður í kunningjahópnum um að brotaþoli væri mögulega lesbísk.

Vitnið sagði tímabilið eftir hið meinta brot hafa verið erfitt fyrir brotaþola. Vitnið hefði greint mikla vanlíðan hjá henni. Brotaþoli hefði glímt við þunglyndi og kvíða og reynt að svipta sig lífi. Í dag taldi vitnið að brotaþola liði mun betur.

Aðspurt kannaðist vitnið við að hafa gengið upp að ákærða í skólanum eftir að brotaþoli greindi frá hinu meinta broti og helt gosi yfir ákærða.

G sagði brotaþola vin sinn til margra ára. Ákærða kvaðst vitnið hafa kynnst í skóla og hefðu þau orðið vinir. Þau tengsl væru ekki lengur til staðar.

Vitnið skýrði svo frá atvikum að það hefði farið í samkvæmi hjá I umrætt kvöld. Vitnið kvað drykkju hafa verið mjög almenna í samkvæminu. Nefndi vitnið sérstaklega að brotaþoli, H og húsráðandi hefðu allar verið talsvert drukknar. Tók vitnið fram í því sambandi að brotaþoli hefði á einhverjum tímapunkti kastað upp. Vitnið sagðist einnig hafa verið ölvað en ekki eins mikið og brotaþoli og fyrrnefndar tvær stúlkur. Ákærða taldi vitnið hafa verið allsgáðan.

Fram kom hjá vitninu að það hefði yfirgefið samkvæmið um kl. 4 eða 5 um nóttina ásamt H. Þá hefði brotaþoli verið í herbergi litla bróður I. Sagði vitnið að líklega hefði brotaþoli þá verið farin að sofa. Aðspurt út í ummæli í lögregluskýrslu staðfesti vitnið að það hefði séð ákærða fara með brotaþola þangað inn. Tók vitnið fram að það hefði nokkrum sinnum um kvöldið séð til ákærða inni í herberginu hjá brotaþola. „Hann var mjög mikið með henni þetta kvöld. Mjög mikið að hugsa um hana af því að hún var að æla og þannig ...“

Einni til tveimur vikum síðar kvaðst vitnið hafa heyrt af því sem komið hefði fyrir brotaþola um nóttina. Það hefði komið þannig til að H hefði haft samband við vitnið og greint frá því að „eitthvað“ hefði komið upp á og að vitnið ætti að tala við brotaþola. Vitnið hefði í kjölfarið sett sig í samband við brotaþola, annaðhvort símleiðis eða í gegnum netið. Fram hefði komið hjá brotaþola að hún hefði verið inni í herbergi þegar ákærði hefði snert hana, farið undir föt hennar og káfað á henni. Á einhverjum tímapunkti hefði ákærði sagt: „Vá hvað þú ert dauð.“ Brotaþoli hefði orðið mjög hrædd og ákveðið að þykjast vera sofandi. Hún hefði ekki þorað að gera neitt strax heldur smám saman þóst vakna.

Vitnið kvaðst hafa reiðst mjög er hún heyrði sögu brotaþola. Er vitnið hefði rekist á ákærða í matsal skólans hefði það gengið upp að ákærða og löðrungað hann. Í kjölfarið hefði vitnið endurtekið nokkrum sinnum þau orð sem ákærði hafði látið falla við brotaþola um nóttina samkvæmt áðursögðu. Vitnið hefði síðan gengið að bókasafni skólans. Ákærði hefði elt vitnið þangað og þau sest niður og rætt saman. Ákærði hefði í fyrstu ekkert þóst vita hvað það var sem hann átti að hafa gert. Vitnið hefði sagt að það vissi hann vel. Ákærði hefði þá farið að gráta og verið í uppnámi. Hann hefði síðan lýst hatri á sjálfum sér og því hversu mikið hann verðskuldaði að deyja. Vitnið hefði þá sagt að svo auðveldlega kæmist hann ekki frá málinu. Þau hefðu ekki rætt atvikið í neinum smáatriðum en ákærði játað að það sem hann gerði brotaþola hefði verið rangt. Ákærði hefði spurt vitnið þess hvort hann gæti talað við brotaþola en vitnið sagt það af og frá. Það kæmi ekki til greina að hann talaði við hana augliti til auglitis. Vitnið sagðist hafa upplýst brotaþola að nokkru um hvað þeim ákærða fór á milli. Ákærða kvað vitnið hafa leitað eftir fyrirgefningu og vitnið sagt honum að „við“ myndum aldrei getað fyrirgefið honum. Svona lagað væri ekki hægt að fyrirgefa.

Dagana á eftir sagði vitnið brotaþola ekki hafa getað komið nærri skólanum þar sem hún hefði getað átt von á að hitta ákærða þar.

Spurt um kynhneigð brotaþola svaraði vitnið því til að á þeim tíma sem atvik máls gerðust hefði brotaþoli sagt henni að hún væri „gay“.

I sagði brotaþola vera vinkonu sína. Vitnið sagðist hafa verið í sama skóla og ákærði en ekkert þekkja hann.

Umrætt kvöld sagði vitnið samkvæmi hafa verið á heimili þess. Kvaðst vitnið lítið muna eftir kvöldinu vegna ölvunar. Um nóttina hefði vitnið farið að sofa um leið og frænka þess, J.

Morguninn eftir hefði vitnið vaknað er það fékk SMS-skilaboð frá brotaþola sem sagst hefði þurfa að tala við vitnið. Vitnið hefði því farið fram. Ákærði hefði þá setið í sófa í stofunni. Vitnið sagðist ekki hafa áttað sig á því hver ákærði var og tók fram að það hefði ekki boðið honum í samkvæmið. Aðspurt sagði vitnið aldrei hafa komið til tals að ákærði fengi að gista. Það hefði enginn átt að gista, að brotaþola undanskildum, sem fengið hefði inni hjá vitninu þar sem hún hefði verið búsett í [...] er atvik máls gerðust.

Þegar vitnið kom fram til þess að ræða við brotaþola kvaðst það enn hafa verið frekar drukkið. Brotaþoli hefði sagt vitninu að ákærði hefði gert „eitthvað“ við hana en hún ekki viljað segja nánar frá því sem ákærði hefði gert þar sem hann hefði enn verið í húsinu. Vegna ástands síns kvaðst vitnið ekki hafa áttað sig á því hvað brotaþoli var í raun og veru að segja en hún hefði sagst ætla að ræða betur við vitnið síðar. Vitnið hefði síðan farið aftur að sofa. Þegar vitnið hefði vaknað að nýju hefðu allir verið farnir. Vitnið hefði þá hringt í brotaþola sem greint hefði vitninu frá því að ákærði hefði misnotað hana.

Vitnið sagði brotaþola hafa hætt að mæta í skólann eftir þetta atvik. Hún hefði þjáðst af kvíða og verið döpur. Kvað vitnið brotaþola enn í dag glíma við kvíða. Spurt um kynhneigð brotaþola sagði vitnið alla hafa vitað að hún væri samkynhneigð.

F kvað ákærða hafa verið skólafélaga sinn. Brotaþola hefði vitnið kynnst í gegnum vinkonur hennar.

Vitnið sagðist hafa verið í samkvæminu heima hjá I umrædda nótt. Vitnið kvaðst hafa verið allsgáð. Var á vitninu að skilja að nokkur ölvun hefði verið í samkvæminu en vitnið treysti sér ekki til að bera um ölvunarástand einstakra gesta. Spurt út í ummæli sín í lögregluskýrslu þess efnis að ölvunarástand brotaþola hefði ekki verið neitt hræðilegt og hún hefði getað gengið óstudd staðfesti vitnið ummælin sem rétt eftir höfð.

Vitnið sagðist hafa yfirgefið samkvæmið um kl. 4:00 nóttina. Þá hefðu enn verið á staðnum brotaþoli, I, H, G og ákærði. Sérstaklega spurt út í hvar ákærði og brotaþoli hefðu þá verið staðfesti vitnið ummæli sem eftir því eru höfð í lögregluskýrslu þess efnis að þau hefðu þá verið saman inni í herbergi bróður I.

Í vikunni á eftir sagðist vitnið hafa frétt af málinu. Þá hefði verið einhver uppákoma í skólanum. Ákærða kvað vitnið hafa einangrað sig eftir að málið kom upp.

Spurt um kynhneigð brotaþola svaraði vitnið því til að það hefði vitað að hún væri ekki gagnkynhneigð. Hver vitneskja ákærða hefði verið um þetta atriði sagðist vitnið ekki geta um borið.

J kvaðst hafa verið í samkvæmi hjá I umrætt kvöld. Vitnið sagðist aðspurð hafa veitt því athygli að brotaþoli var að neyta áfengis. Staðfesti vitnið þau ummæli sín í lögregluskýrslu varðandi ölvunarástand brotaþola að það hefði á skalanum 1-10 verið á bilinu 4-5.

K, móðir brotaþola, sagði dóttur sína hafa greint sér frá broti ákærða skömmu eftir að atvik gerðust. Kvaðst vitnið hafa greint breytingar á brotaþola vegna málsins. Þunglyndi sem hún hefði glímt við fyrir hefði aukist. Vitnið hefði einnig skynjað skömm hjá dóttur sinni vegna atviksins. Stuttu síðar hefði brotaþoli síðan reynt að stytta sér aldur. Kvaðst vitnið aðspurt telja augljóst að það hefði tengst broti ákærða.

Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði sagt vitninu söguna af því sem gerðist í tveimur áföngum þar sem hún hefði átt erfitt með að greina frá atvikinu. Fyrst hefði brotaþoli greint frá því að ákærði hefði leitað á hana, kysst hana og káfað á henni. Stuttu síðar hefði brotaþoli síðan einnig sagt móður sinni frá því að ákærði hefði káfað á brjóstum hennar og innan klæða að neðan. Hefði ákærði jafnframt stungið fingri upp í leggöng brotaþola. Meðan á þessu stóð hefði ákærði sagt: „Mikið ógeðslega ertu dauð.“ Fram hefði komið hjá brotaþola að henni hefði brugðið svo við er hún vaknaði upp við háttsemi ákærða að hún hefði algerlega frosið, hún ekki þorað að bregðast við.

Vitnið sagði líðan brotaþola hafa verið mjög sveiflukennda frá því atvik máls gerðust. Tók vitnið fram að margt annað væri að gerast í lífi brotaþola. ... kom fram hjá vitninu að brotaþoli væri búin að kvíða dómsmálinu mikið.

L, tvíburasystir brotaþola, sagði hana hafa greint sér frá því að hún hefði verið í samkvæmi skömmu áður og verið að drekka. Brotaþoli hefði dáið áfengisdauða og síðan vaknað við það að ákærði var að misnota hana. Brotaþola sagði vitnið hafa verið mjög leiða er hún greindi frá þessu atviki og hún átt mjög erfitt með að tala um það.

Eftir þetta atvik sagði vitnið brotaþola hafa orðið mjög þunglynda. Hún hefði verið þjökuð af leiða og kvíða og glímt við sjálfsvígshugsanir. Tók vitnið fram að brotaþoli hefði verið þunglynd áður, en ástandið hefði versnað mjög eftir þetta atvik. Þannig hefði brotaþoli þurft að leggjast inn á geðdeild. Vitnið sagði brotaþola hafa flust austur á land fyrir um ári og tengdi vitnið þá flutninga beint við atvikið í samkvæminu. Vitnið kvaðst hafa búið með systur sinni eystra síðasta sumar og hafa greint að líðan brotaþola batnaði verulega fyrst eftir flutningana. Þegar brotaþoli hefði fengið fregnir af dómsmáli þessu síðasta sumar hefði ástand hennar hins vegar versnað aftur og kvíðinn ágerst.

Spurt um kynhneigð systur sinnar er atvik máls gerðust svaraði vitnið: „Ég er ekki alveg viss með það því hún breytti því stundum.“ Hún hefði mögulega verið samkynhneigð eða „by“. „Ég held að hún hafi ekki verið gagnkynhneigð.“

M, systir brotaþola, bar fyrir dómi að brotaþoli hefði greint henni frá atvikinu í samkvæminu um það bil hálfum mánuði eftir að það gerðist. Sjá hefði mátt á brotaþola að henni leið illa þegar hún greindi frá því sem gerðist. Hefði vitnið skynjað skömm hjá brotaþola og að henni fyndist hún hafa verið niðurlægð.

Atvikinu hefði brotaþoli lýst svo að hún hefði verið í samkvæminu með vinum sínum og drukkið of mikið. Brotaþoli hefði farið inn í herbergi og lagst þar niður. Skildi vitnið brotaþola svo að þar hefði hún í raun dáið áfengisdauða. Ákærði hefði síðan komið og káfað á henni og kysst hana. Hefði ákærði káfað á bringu brotaþola, kynfærum hennar og sett fingur inn í leggöngin.

Vitnið sagði brotaþola hafa verið búna að glíma við þunglyndi áður en umrætt atvik átti sér stað sem versnað hefði í kjölfar þess. Líðan brotaþola hefði hins vegar eitthvað batnað eftir að hún fluttist austur á [...].

N, móðir ákærða, bar fyrir dómi að ástandið á heimilinu hefði verið mjög erfitt eftir að umræddar ásakanir komu fram á hendur ákærða. Vitnið sagði ákærða hafa tjáð sér að ásakanirnar ættu ekki við rök að styðjast. Ákærði hefði lýst atvikum svo fyrir vitninu að hann hefði kysst brotaþola og strokið henni utan klæða en hætt þegar brotaþoli hefði ekki gefið til kynna að hún hefði áhuga á meiru. Ákærði hefði einnig greint vitninu frá því að honum hefði eftir þetta farið að líða mjög illa í skólanum þar sem vinkonur brotaþola hefðu herjað á hann og borið hann þungum sökum. Eftir að hafa velt hlutunum mikið fyrir sér hefði ákærði farið á fund lögreglu og tjáð sig um það sem gerst hafði.

Vitnið sagði ákærða hafa leitað sér aðstoðar sálfræðings eftir að málið kom upp þar sem það hvíldi þungt á honum. Ákærði væri búinn að vera þungur í sinni og átt erfitt með að fara í skóla og hefði námsárangur hans versnað.

IV

Fyrir liggur með framburði ákærða og vitna að ákærði og brotaþoli voru ásamt fleirum í samkvæmi í íbúð að [...] í [...] sem stóð fram eftir nóttu sunnudaginn 1. febrúar 2015. Upplýst er að um nóttina fóru brotaþoli og ákærði inn í eitt svefnherbergja íbúðarinnar. Í málinu er ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa inni í því herbergi haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. Í ákæru er ákærði sagður hafa nuddað kynfæri brotaþola innanklæða, sett fingur ítrekað inn í leggöng hennar, káfað á brjóstum hennar utanklæða, sleikt kinn hennar og háls, sett fingur ítrekað upp í munn hennar, látið hönd hennar á getnaðarlim sinn utanklæða og fróað sér liggjandi við hlið hennar.

Brotaþoli bar fyrir dómi um kynni þeirra ákærða að þau hefðu verið skólafélagar og hefðu þau verið búin að þekkjast í skamman tíma er atvik máls gerðust. Umrætt kvöld hefðu þau hist í fyrsta skipti utan skóla. Ákærði bar um þetta atriði að þau hefðu verið í sama skóla og sagði hann kynni þeirra hafa verið búin að standa yfir í nokkurn tíma. Skaut ákærði á að hann og brotaþoli hefðu mögulega verið búin að hittast fimm sinnum áður en þau hittust í samkvæminu. Má ráða af þessum framburði ákærða og brotaþola, sem og annarra vitna að nokkru, að brotaþoli og ákærði hafi verið búin að þekkjast í skamman tíma er atvik máls gerðust. Að virtum framburði brotaþola og annarra vitna, sbr. sérstaklega vætti systur brotaþola, L, verður aftur á móti engu slegið föstu um vitneskju ákærða um kynhneigð brotaþola, en nokkuð var gert úr því atriði af hálfu ákæruvalds við aðalmeðferð málsins. Það breytir hins vegar engu um að dómurinn fær ekki séð að nokkuð haldbært hafi komið fram í málinu er styðji það, sem ráða mátti af framburði ákærða fyrir dómi, að samdráttur hafi verið með honum og brotaþola um nóttina. Verður ekki annað séð en ákærði hafi einn haldið slíku fram í málinu.

Um ástand sitt umrædda nótt bar brotaþoli fyrir dómi að hún hefði í samkvæminu orðið verulega ölvuð í fyrsta skipti. Á brotaþola var að skilja að hún myndi atvik máls ekki vel eftir að hún kom til baka í íbúðina ásamt ákærða og þar til hún sofnaði í herberginu. E bar um ástand brotaþola að hún hefði verið ölvuð en „góð á því“. Minntist vitnið þess ekki að brotaþoli hefði verið dauðadrukkin en fyrir liggur að vitnið yfirgaf samkvæmið á undan brotaþola. H sagði hins vegar brotaþola hafa verið mjög ölvaða, eiginlega „alveg bakk“. Þá sagði G brotaþola hafa verið talsvert drukkna og tók fram í því sambandi að hún hefði á einhverjum tímapunkti kastað upp. Vitnið F bar einnig um ölvun brotaþola í samkvæminu, en fyrir dómi staðfesti hann ummæli sín fyrir lögreglu þess efnis að ölvunarástand brotaþola hefði ekki verið neitt „hræðilegt“. Að endingu liggur fyrir að ákærði bar sjálfur um áfengisneyslu brotaþola. Kvað hann brotaþola hafa orðið dauðadrukkna og verður framburður hans ekki skilinn öðruvísi en svo að brotaþoli hafi sofnað ölvunarsvefni inni í fyrrnefndu herbergi. Samkvæmt öllu þessu þykir mega slá því föstu og leggja til grundvallar við úrlausn málsins að brotaþoli hafi verið mjög ölvuð er hún og ákærði voru tvö ein inni í herberginu um nóttina.

Ákærði neitar sök. Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti hann atvikum í herberginu svo að hann og brotaþoli hefðu rætt saman er inn í herbergið var komið. Brotaþoli hefði síðan fært sig nær og nær ákærða. Ákærði hefði faðmað brotaþola, og þau síðan faðmað hvort annað. Var á ákærða að skilja að þegar það gerðist hefðu þau setið í rúmi í herberginu. Þau hefðu í framhaldinu lagst í rúmið og ákærði kysst brotaþola á munninn og strokið brjóst hennar og kynfæri utan klæða, allt í einni samfellu. Brotaþoli hefði engin viðbrögð sýnt og ákærði því ekkert meira aðhafst. Var á ákærða að skilja að er þarna var komið sögu hefði hann áttað sig á því að brotaþoli væri líklegast sofnuð ölvunarsvefni. Staðfesti ákærði að á þeim tímapunkti hefði hann sagt: „Vá hvað þú ert dauð.“ Hann hefði síðan farið að sofa.

Eins og ítarlega er rakið í upphafi kafla III hér að framan bar brotaþoli fyrir dómi að eftir að hún kom aftur í samkvæmið hefði hún farið inn í áðurnefnt herbergi. Þar hefði hún sofnað. Brotaþoli hefði síðan vaknað við að ákærði var að káfa á henni. Það hefði tekið brotaþola dálitla stund að átta sig á því sem var að gerast en hún síðan „frosið“ og ekkert þorað að gera. Skömmu eftir að brotaþoli vaknaði hefði ákærði sagt nafn hennar í tvígang. Þegar brotaþoli hefði ekki svarað hefði ákærði sagt: „Vá hvað þú ert dauð.“ Háttsemi ákærða lýsti brotaþoli annars svo að hann hefði troðið hendinni ofan í buxur hennar og káfað á og nuddað kynfæri hennar. Hann hefði einnig ítrekað sett fingur til skiptis upp í leggöng hennar og munn. Ákærði hefði jafnframt sleikt kinn brotaþola og niður á hálsinn og káfað á brjóstum hennar utan klæða. Þá hefði hann í stutta stund sett hönd brotaþola á reistan lim sinn og hreyft höndina. Enn fremur taldi brotaþoli að ákærði hefði sjálfur strokið lim sinn, fróað sér, sem brotaþoli hefði merkt á því sem hún heyrði og því að rúmið fór að hristast aðeins. Brotaþoli sagðist þá hafa hreyft sig aðeins og látið líta út fyrir að hún væri að renna út úr rúminu. Hefði ákærði þá látið af háttsemi sinni.

Framburður brotaþola þess efnis að hún hafi strax í kjölfarið greint I frá því sem gerðist inni í herberginu fær stoð í framburði þeirrar síðarnefndu fyrir dómi. Þá hefur frásögn brotaþola af þeim atvikum frá upphafi verið stöðug og nákvæm, svo sem ráða má af framburði þeirra vitna sem hún greindi frá atvikum og ítarlega er rakinn í III. kafla dómsins. Vætti brotaþola fær einnig stoð í vottorði B, sérfræðilæknis í geðlækningum frá 24. október 2015, sbr. kafla I.D hér að framan, en þar kemur meðal annars fram að andlegt heilsufar brotaþola hafi versnað mjög á árinu 2015, en í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi verið lögð inn í febrúar 2015 vegna inntöku ofskammts af lyfjum og þá hafi hún aftur reynt að taka eigið líf í febrúar 2016. Þá var eitt ár liðið frá umræddu atviki og vísaði brotaþoli til þess í viðtölum við lækninn. Vottorð C sálfræðings, dagsett 21. september 2015, sem fékk brotaþola til meðferðar í mars 2015, er því einnig til stuðnings að brotið hafi verið kynferðislega gegn brotaþola umrætt sinn. Hið sama má segja um framburð vinkvenna brotaþola, systra hennar og móður, en öll báru vitnin um að andleg líðan brotaþola hefði breyst mjög til hins verra eftir að atvik máls gerðust, sem öll vitnin tengdu meintu broti ákærða.

Við mat á trúverðugleika framburðar brotaþola og ákærða verður ekki litið framhjá SMS-skilaboðum sem ákærði sendi brotaþola 11. febrúar 2015 í kjölfar þess að vitnið G veittist að honum í skólanum eins og fyrr var rakið. Í skilaboðunum stóð meðal annars: „Ég trúi varla hvað ég gerði þér. Ég trúði að að þér finndist þetta „Gott“ en mér hefur aldrei verið jafn rangt. Þetta er allt mér að kenna. Ég átti aldrei að detta þetta í hug. Ég hef aldrei átt að láta þér líða svona hræðilega. Og svo keyrði ég þig heim. Þú áttir þetta aldrei skilið og ég get aldrei litið í spegil á mig með sömu augum.“ Að mati dómsins samrýmist hin mikla eftirsjá ákærða, sem fram kemur í skilaboðunum, mun betur lýsingum brotaþola á þeirri alvarlegu háttsemi sem ákærða er gefin að sök í málinu en framburði ákærða sjálfs um þau atvik. Framburður G varðandi fyrrnefnd samskipti þeirra ákærða og það sem vitnið hafði eftir ákærða er einnig framburði brotaþola til stuðnings. Með sama hætti telur dómurinn þá staðreynd enn fremur styðja framburð brotaþola að ákærði mætti á lögreglustöð að eigin frumkvæði viku eftir að atvik máls gerðust, en í skýrslu lögreglu sem rituð var vegna þeirrar komu er bókað að ákærði hafi viljað „gangast við kynferðisbroti.“ Þá er eftir ákærða haft í skýrslunni að brotaþoli hafi umrætt sinn „... verið mjög ölvuð og hafi hún virst sofandi. Hann hafi þá káfað á kynfærum hennar í smá stund. X sagðist vita að hann hafi gert rangt og væri búinn að líða illa yfir þessu.“

Eins og rakið hefur verið liggur fyrir stöðugur og nákvæmur framburður brotaþola af atvikum máls aðfaranótt 1. febrúar 2015. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það mat dómsins að framburður brotaþola sé trúverðugur og í góðu samræmi við framburð annarra vitna og framlögð gögn í málinu. Framburður ákærða fær hins vegar ekki haldbæra stoð í framburði vitna og öðru því sem fram er komið í málinu. Að mati dómsins eru lýsingar ákærða á atvikum inni í herberginu í ljósi alls framangreinds ótrúverðugar og bera þess merki að hann hafi með framburði sínum freistað þess að fegra sinn hlut. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað með framburði brotaþola og því sem honum er til stuðnings samkvæmt framansögðu, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

V

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Hann var einungis 17 ára gamall er hann framdi brot sitt. Skal litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar ákærða, sbr. 4. og 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir einnig verða að horfa til þess langa tíma sem leið frá því að rannsókn málsins lauk og þar til ákæra var gefin út í málinu.

 Brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga varðar fangelsi ekki skemur en í 1 ár og allt að 16 árum. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot, sbr. lögfestingu 3. gr. laga nr. 61/2007. Samkvæmt þessu og að virtum dómafordæmum Hæstaréttar Íslands þykir refsing ákærða, að teknu tilliti til þess sem áður var rakið, að málsatvikum öllum virtum og með vísan til 1., 2. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, réttilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsingu ákærða.

VI

Í málinu krefst brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá því ákærða var birt bótakrafan til greiðsludags.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi brotið gegn brotaþola svo varði við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinni refsiverðu háttsemi hefur ákærði bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir og við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og loks umfangs tjónsins.

Við mat á miskabótum til handa brotaþola þykir mega líta til vottorðs B, sérfræðilæknis í geðlækningum frá 24. október 2015, sbr. kafla I.D hér að framan, en þar kemur fram að andlegt heilsufar brotaþola hafi versnað mjög á árinu 2015, þ.e. í kjölfar brots ákærða. Eins og áður var getið kemur meðal annars fram í vottorðinu að brotaþoli hafi verið lögð inn í febrúar 2015 vegna inntöku ofskammts af lyfjum og þá hafi hún aftur reynt að taka eigið líf í febrúar 2016. Vottorð C sálfræðings, dagsett 21. september 2015, sem fékk brotaþola til meðferðar í mars 2015, er því einnig til stuðnings að brot ákærða hafi haft mikil áhrif á andlega heilsu og líðan brotaþola. Til hins sama bendir framburður vinkvenna brotaþola, systra hennar og móður, en öll báru vitnin um að andleg líðan brotaþola hefði breyst mjög til hins verra eftir brot ákærða.

 Með vísan til alls framangreinds og að broti ákærða virtu þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 1.300.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir, en rétt þykir að miða upphafstíma dráttarvaxta við 2. nóvember 2015, en mánuði áður var kröfunni hafnað af hálfu ákærða með tölvupósti skipaðs verjanda til lögreglu, sbr. framlagða lögregluskýrslu, dagsetta 2. október 2015.

VII

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar hdl., og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., sem að teknu tilliti til tímaskýrslna lögmannanna og að gættu umfangi málsins þykir réttilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir. Ákærði greiði einnig ferðakostnað réttargæslumanns brotaþola með þeim hætti sem þar segir.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Kristinn Halldórsson, sem dómsformaður, Sandra Baldvinsdóttir og Jón Höskuldsson. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði samtals 1.261.260 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar hdl., 706.180 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 527.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan ferðarkostnað réttargæslumanns, 28.080 krónur.

Ákærði greiði brotaþola, Y, 1.300.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2015 til 2. nóvember 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Kristinn Halldórsson

Sandra Baldvinsdóttir

Jón Höskuldsson