• Lykilorð:
  • Endurgreiðslukrafa
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2014 í máli nr. E-4565/2013:

Holiday Czech Airlines

(Jón Eðvald Malmquist hdl.)

gegn

Isavia ohf.

(Hlynur Halldórsson hrl.)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var þann 29. september 2014 var höfðað af Holiday Czech Arlines a.s., Jana Kašpara 1069/1, 160 08 Prag 6, Tékklandi, á hendur Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, 101 Reykjavík.

I.

        Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi, Isavia ohf., greiði stefnanda 1.947.070 Bandaríkjadali ásamt vöxtum skv. 3. gr. vaxtalaga frá 2. nóvember til 2. desember 2012 og ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 2. desember 2012 að telja til greiðsludags.

        Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæðum 2.927,93 evrur, 908.566 íslenskar krónur, 130.401 tékknesk króna og 70.800 Bandaríkjadalir ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 2. nóvember 2012 til 2. desember 2012 og með dráttarvöxtum skv. 9. sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

       Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi komi til aðalmeðferðar máls þessa.

 

        Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.

        Þá gerir stefndi þær dómkröfur að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu eftir mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

 

II.

Málsatvik

         Mál þetta varðar kröfu stefnanda um endurgreiðslu á lendingar-, stæðis-, flugverndar-, farþega- og innritunargjöldum, sem félagið greiddi stefnda þann 2. nóvember 2012 í tengslum við flugstarfsemi á þess vegum fyrir Iceland Express ehf., nánar leiguflug til og frá Íslandi. Jafnframt varðar málið kröfu stefnanda um skaðabætur vegna stöðvunar stefnda á flugvél stefnanda með skráningarnúmerið OK-LEE á Keflavíkurflugvelli frá 24. október 2012 til 2. nóvember sama ár vegna krafna stefnda um greiðslu á ofangreindum flugvallargjöldum samkvæmt gjaldskrá Keflavíkurflugvallar.

        Stefnandi, sem er flugrekandi með aðsetur í Prag í Tékklandi, hóf í nóvember 2011 að fljúga með farþega fyrir Iceland Express ehf. Flugvélar stefnanda sinntu áætlunarflugi fyrir Iceland Express ehf. til og frá Íslandi allt þar til rekstur Iceland Express ehf. lagðist af 25. október 2012 og var seldur WOW air ehf. Áður hafði Iceland Express ehf. notið þjónustu bresks flugfélags, Astreus um árabil, en Astreus varð gjaldþrota í nóvember 2011 og leitaði Iceland Express ehf. þá til stefnanda.

      Stefnandi samdi við Iceland Express ehf. um að Iceland Express ehf. skyldi greiða öll flugvallargjöld vegna starfseminnar á Keflavíkurflugvelli. Ákvæði 2. gr. 5. tl. í samningi félaganna, sem er dagsettur 18. nóvember 2011, var svohljóðandi, gr. 2, tl. 5 samkvæmt íslenskri þýðingu á samningi aðila:

„Sérhver og allir skattar, gjöld, öryggisgjöld og tengd gjöld sem lögð eru á hvern farþega eða á grundvelli flugtekna (að undanskildum sköttum á hreinar tekjur leigusala) sem sérhver stofnun stjórnvalda eða flugvallaryfirvalda leggur á, þar með talið en ekki takmarkað við brottfararskatta, nefskatta, vörugjöld, losunarheimildir innan losunarviðskiptakerfis ESB og farseðilskatta og skatta á flugfarþega skal leigutaki greiða. Komi til þess að leigusali þurfi að greiða eitthvað slíkt, er leigusala heimilt að rukka leigutakann um slíka greiðslu.“

        Sá háttur hafði verið hafður á meðan á viðskiptasambandi Astreus og Iceland Express ehf. stóð að stefndi beindi öllum reikningum til Iceland Express ehf. Í tölvupósti, dags. 21. nóvember 2011, frá framkvæmdastjóra fjármálasviðs stefnda til fjármálastjóra Iceland Express ehf. segir að ef félagið vilji hafa sama fyrirkomulag og með Astreus varðandi lendingargjöld og leiðarflugsgjald, farþega-, flugverndar- og PRM-gjald verði stefndi að fá yfirlýsingu frá Iceland Express ehf. og stefnanda um það hvernig samskiptum þeirra verði háttað vegna greiðslu á gjöldum til stefnda. Sama dag sendi fjármálastjóri Iceland Express ehf., Gunnar Már Petersen, svar til stefnda og sagðist geta staðfest að félagið myndi greiða þessi gjöld fyrir stefnanda. Hann myndi gera samkomulag við stefnanda um þetta og senda til stefnda.

        Framkvæmdin var síðan sú að stefndi gaf út reikninga vegna þessara gjalda á stefnanda c/o Iceland Express ehf. Aðrir þjónustuveitendur gáfu reikninga út á Iceland Express ehf. Stefndi sendi reikningana til Iceland Express ehf. en ekki til stefnanda. Vanhöld voru á greiðslu gjaldanna af hálfu Iceland Express ehf. og var fjármálastjóri stefnda í miklu sambandi við fjármálastjóra Iceland Express ehf. vegna vanskila . Í tölvupósti fjármálastjóra stefnda, dags. 2. júlí  2012, til fjármálastjóra Iceland Express ehf. vegna vanskila var bent á 136. gr. loftferðalaga sem fjallar um heimildir til að aftra för flugfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.

        Með tölvupósti, dags. 18. júlí 2012, óskaði stefndi eftir greiðslum frá Iceland Express ehf. og tók fram að ef ekki yrði greitt færu kröfur í lögfræðiinnheimtu. Í tölvupósti, dags. 9. ágúst 2012, óskaði stefndi enn eftir því að Iceland Express ehf. greiddi ógreidd farþegagjöld og tók fram að til greina kæmi að senda málið í lögfræðiinnheimtu. Með tölvupósti dags. 14. september ítrekað stefndi kröfur sínar gagnvart Iceland Express ehf. og hótaði frekari aðgerðum. Þessi sjónarmið voru síðan ítrekuð í síðari tölvuskeytum.

        Í tölvupósti fjármálastjóra stefnda, dags. 3 október 2012, kemur fram að stefndi kveður einu leiðina í stöðunni þá að tilkynna stefnanda um skuldina og senda honum greiðsluáskorun með afriti á Iceland Express ehf. Þann 4. október 2012 svaraði fjármálastjóri Iceland Express ehf. þessum tölvupósti og kvað félagið vera að vinna að hlutafjáraukningu í félaginu. Jafnframt óskaði hann heftir því að stefndi héldi þessu hjá sér og sendi ekki greiðsluáskorun til stefnanda.

        Með fréttatilkynningu þann 23. október 2012 var tilkynnt um kaup WOW air ehf., á hluta af rekstri Iceland Express ehf.

         Daginn eftir, eða þann 24. október 2012, var flugvél í eigu stefnanda með skráningarnúmerið OK-LEE stödd á Keflavíkurflugvelli eftir flug til landsins fyrir Iceland Express ehf. Flugvélin átti að halda frá landinu samdægurs í annað flug á vegum félagsins. Flugvélinni var meinað af stefnda að taka á loft frá flugvellinum. Benti stefndi á að kröfur sem samtals næmu 192.539,25 USD og 221.263.855 ISK væru ógreiddar og vísaði til loftferðalaga um heimild sína til þess að stöðva flugvélina.

Stefndi tilgreindi eftirtalda reikninga sem ógreidda í tilkynningu til stefnanda:   

Útg. Isavia  R12-03164, gjald. 30.06.12,  eindagi 30.07.12, eftirst. 11.143.465 kr.

Útg. Isavia  R12-03745  gjald. 31.07.12,   eindagi 30.08.12              69.412.385 kr.

Útg. Isava   R12-04063, gjald. 30.08.12    eindagi 30.08.12                2.657.176 kr.

Útg. Isavia  R12-04324, gjald. 31.08.12    eindagi 30.09.12               73.238.015 kr.

Útg. Isavia R12-04333, gjald. 31.08.12   eindagi 30.09.12                          9.537 kr.

Útg. Isavia R12-04487, gjald. 31.08.12   eindagi 30.09.12                   2.335.485 kr.

Útg. Isavia R12-04857, gjald.  30.09.12   eindagi 30.10.12                 37.778.740 kr.

Útg. Isavia R12-05019, gjald. 30.09.12   eindagi 30.10.12                1.353.002 kr.

Útg. Isavia R12-05145, gjald. 24.10.12   eindagi 23.11.12             23.070.765 kr.

Útg. Keflavíkurflugvöllur reikn.7959  dags. 15.08.12                     51.654,70 USD

Útg. Keflavíkurflugvöllur reikn. 7989  dags. 31.08.12                    46.658,75 USD

Útg. Keflavíkurflugvöllur  reikn. 8024 dags. 15.09.12                    28.231,60 USD

Útg. Keflavíkurflugvöllur  reikn. 8052  dags. 30.09.12                   27.009,10 USD

Útg. Keflavíkurflugvöllur  reikn. 8096  dags. 15.10.12                   25.737,70 USD

Útg. Keflavíkurflugvöllur  reikn. 8102  dags. 24.10.12                   13.170,40 USD

 

        Stefnandi hafnaði þegar skilningi stefnda og taldi gjöldin sér óviðkomandi með bréfi dags. 25. október 2012 . Benti stefnandi á að hann hefði samið við Iceland Express ehf. um að annast flug á vegum félagsins og að jafnframt hefði verið samið um að Iceland Express ehf. myndi greiða öll viðeigandi gjöld. Þetta hefði stefndi samþykkt í reynd, sent reikninga á Iceland Express ehf. og hafi aldrei átt samskipti við stefnanda. Fór stefnandi fram á að flugvélinni yrði þegar leyft að að fara frá Keflavíkurflugvelli.

        Með bréfi, dags. 25. október 2012, barst svar stefnda þar sem því var hafnað að ólögmætt væri að leggja gjöldin á stefnanda og vísaði stefndi sérstaklega til IX. og X. kafla loftferðalaga um heimild sína til álagningar gjöldunum.

        Stefnandi mótmælti sjónarmiðum stefnda með bréfi dags. 26. október 2012 og ítrekaði að stefndi teldi sér ekki skylt að greiða gjöldin. Benti stefnandi á að stefndi hefði engin samskipti haft við stefnanda vegna gjaldanna og það þrátt fyrir að vanskil Iceland Express ehf. hefðu staðið yfir um nokkurra mánaða skeið. Tómlæti stefnda eitt og sér leiddi til þess að hann ætti engan rétt til greiðslna frá stefnanda. Þá kæmi hvergi fram í gjaldskrá stefnda að hann hefði val um það að hverjum greiðslukröfum skyldi beint.

        Stefndi svaraði bréfinu með bréfi, dags. 26. október 2012, og benti stefndi þar á að stefnandi væri flugrekandi og að stefnandi hefði haft starfsemi á viðkomandi flugvelli. Fullyrðir stefndi í bréfinu að flugrekendur séu notendur þjónustu stefnda og að þeim beri því að greiða hin umþrættu gjöld.

        Stefnanda var nauðsynlegt að fá flugvélina lausa og hóf viðræður við stefnda um lausn hennar. Þar sem ekki náðist samkomulag þar um á milli stefnanda og stefnda greiddi stefnandi stefnda álögð gjöld með fyrirvara um réttmæti greiðslunnar. Voru kröfur stefnda greiddar þann 2. nóvember 2012 í Bandaríkjadölum en krafist hafði verið greiðslu á 192.539,25 USD og 221.263.855 ISK. Síðari hluti greiðslunnar var umreiknaður í USD miðað við greiðsludag sem USD 1.754.530,75 þannig að samtals greiddi stefnanda stefnda 1.947.070 USD.

        Flugvél stefnanda hélt frá Íslandi þann 2. nóvember 2012. Með bréfi, dags. 30. maí 2013, ítrekaði stefnandi fyrirvara sinn og krafist endurgreiðslu á þeim gjöldum sem hann hafði greitt. stefnda. Svar barst frá stefnda dags. 1. júlí 2013 þar sem hann hafnaði því að endurgreiða gjöldin.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Krafa stefnanda um endurgreiðslu er annars vegar byggð á því að ekki hafi verið heimild til þess að krefja stefnanda um greiðslu gjalda og hins vegar á því að hafi slík heimild verið til staðar leiði vanræksla stefnda, á því að tilkynna stefnanda um þá gríðarháu skuld, sem til hafði stofnast, til þess að stefndi teljist hafa fyrirgert rétti sínum til greiðslu úr hendi stefnanda. Á stefnda hafi hvílt skylda til þess að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem starfa á flugvöllum stefnda. Stefndi hafi beint óforsvaranlegum kröfum að stefnanda sem stefnda sé skylt að endurgreiða stefnanda. 

        Krafa stefnanda um skaðabætur er á því byggð að með aðgerðum sínum hafi stefndi valdið stefnanda tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti, en fyrirvaralaus stöðvun flugvélar stefnanda hafi leitt til verulegs tjóns þar sem stefnandi gat ekki haft afnot af flugvél sinni á meðan hún var stöðvuð og starfsmenn stefnanda þurftu dvelja lengur á Íslandi en ella með tilheyrandi kostnaði.

        Stefnandi byggir á því að engin heimild hafi verið til þess að krefja stefnanda um greiðslu þeirra gjalda sem stefndi krafði hann um og sem stefnandi greiddi. Stefnandi hafi greitt gjöldin með fyrirvara og aðeins í því augnamiði að fá yfirráð yfir flugvél sinni á nýjan leik. Stefndi sé opinbert hlutafélag sem starfi samkvæmt sérstökum lögum og félaginu sé veitt sérstök heimild í loftferðalögum til þess að innheimta gjöld til þess að standa undir rekstri flugvallar vegna þeirrar aðstöðu, búnaðs og mannvirkja sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýti á flugvellinum. Í lögunum komi ekki fram að hverjum skuli beina kröfu um greiðslu þessara gjalda en litið hafi verið svo á að viðkomandi ferðaþjónustuveitandi beri greiðsluskylduna sem í þessu tilviki sé Iceland Express ehf. Stefnandi kveðst hafa túlkað lögin með þessum hætti svo sem ljóst sé af samskiptum hans við Iceland Express ehf. í gegnum tíðina en Iceland Express ehf. hafi ávallt verið krafið um greiðslu þessara gjalda af stefnda. Þannig sé ljóst að engin heimild sé eða hafi verið til þess að krefja stefnanda um greiðslu umræddra gjalda.

        Þegar Astreus, sem áður annaðist flugrekstur fyrir Iceland Express ehf., varð gjaldþrota, hafi stefndi talið eðlilegt að Iceland Express ehf. greiddi öll áfallin gjöld vegna flugferða á vegum Iceland Express ehf. Stefndi hafi þannig samþykkt í verki að Iceland Express ehf. hafi í þessu tilviki verið hinn rétti greiðandi gjaldanna. Sú háttsemi stefnda, að velja sér greiðanda að eigin geðþótta eftir því hver sé gjaldfær og hver hugsanlega ógjaldfær, njóti ekki réttarverndar að íslenskum rétti. Samkvæmt innheimtulögum skuli kröfuhafi senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan tíu daga frá sendingu viðvörunar. Að því leyti sem segja megi að slík viðvörun hafi verið send þá hafi hún verið send til Iceland Express ehf. af hálfu stefnda og sé því ljóst að stefndi leit á Iceland Express ehf. sem raunverulegan skuldara kröfunnar.

        Þar sem stefnda hafi verið óheimilt að krefjast greiðslu úr hendi stefnanda eigi stefnandi rétt til endurgreiðslu og um þessa afstöðu stefnanda hafi stefnda verið ljóst frá upphafi enda hafi stefnandi greitt með fyrirvara um réttmæti kröfunnar og mótmælti henni þegar hún kom fram. Af þessum sökum beri að taka endurgreiðslukröfu stefnanda til greina.

        Stefnandi byggir á því að sönnunarbyrði um tilvist kröfu hvíli á þeim sem haldi fram tilvist hennar og það sé stefndi sem hafi haldið því fram að stefnanda hafi borið að greiða honum þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í kröfugerð. Vegna ákvæða loftferðalaga hafi stefndi verið í aðstöðu til þess að knýja á um greiðslu þeirra. Stefndi hafi ekki fært nein sannfærandi rök fyrir greiðsluskyldu stefnanda þrátt fyrir áskoranir stefnanda.

       Stefnandi byggir á því að í greiðslu sinni á kröfunni hafi ekki falist nein viðurkenning á réttmæti kröfunnar og hana hefði stefnandi ekki greitt ef ekki væri fyrir heimild stefnda til þess að stöðva flugvélar á grundvelli ógreiddra gjalda. Með því móti hafi stefnda tekist að knýja á um að stefnandi greiddi kröfu sem stefnanda var allsendis óskylt að greiða. Þá sé ljóst að kröfur stefnda á hendur Iceland Express ehf. hefðu ekki orðið jafn háar og raun ber vitni hefði stefnanda verið ljóst að Iceland Express ehf. var hætt að greiða reikninga stefnda. Stefnandi hefði hætt að fljúga fyrir Iceland Express ehf. við vanskilin og þannig komið í veg fyrir að kröfurnar yrðu jafn háar og raun ber vitni. Þegar stefndi hafi fyrst tilkynnti Iceland Express ehf. um vanskilin hafi þau numið um 70 milljónum og sé sú fjárhæð umtalsvert lægri en heildarskuld Iceland Express ehf. við stefnda í lok október mánaðar 2012. Stefndi beri þannig ábyrgð á því að krafan varð jafn há og raun ber vitni og stefndi geti ekki velt ábyrgðinni af hinni háu kröfu yfir á stefnanda.

        Stefnandi byggir á því að samkvæmt almennum reglum kröfuréttur skuli kröfuhafi hafa frumkvæði að efndum gagnvart skuldara í tilvikum þar sem greiðslustaður og greiðslutími séu ekki þekkt. Stefnandi hafi ekki haft upplýsingar um reikninga eða mögulegar kröfur á hendur félaginu þar sem reikningar stefnda hafi ekki verið sendir til stefnanda. Af þeim sökum sé ljóst að stefndi leit aldrei svo á að hann ætti kröfu á hendur stefnanda. Ef stefndi hefur litið á stefnanda sem skuldara að kröfunum hafi honum borið að eiga frumkvæði að því að stefnanda yrði gert kunnugt um skuldina og knýja á um efndir. Vanræksla stefnda að þessu leyti hafi leitt til þess að skuld Iceland Express ehf. varð jafn há og raun bar vitni og mun hærri en stefnandi hefði leyft, hefði hann haft vitneskju um hana.

        Þá vísar stefnandi til þess að samskipti stefnda og Iceland Express ehf. á dómskjölum nr. 5-11 beri skýrlega með sér að þar sé að um ræða hefðbundin samskipti kröfuhafa og skuldara og að þessir aðilar hafi litið á sig sem kröfuhafa og skuldara í þessu sambandi. Hefði stefndi litið öðruvísi á hefði honum borið að tilkynna þar um með hliðsjón af almennum reglum kröfuréttar um tillitsskyldu í samningssambandi og frumkvæðisskyldu kröfuhafa. Þá sé það meginreglan í kröfurétti að innheimtuaðgerðum verði ekki beitt án þess að greiðsluáskorun sé fyrst beint að viðkomandi skuldara, en það hafi stefndi aldrei gert gagnvart stefnanda sem staðfesti að stefndi leit aldrei á stefnanda sem skuldara gjaldanna en knúði hann einungis til greiðslu þeirra, þar sem hann var í aðstöðu til þess. Slík háttsemi nýtur ekki réttarverndar að íslenskum rétti og beri því að taka endurgreiðslukröfu stefnanda til greina.

       Stefnandi byggir á því að þar sem stefndi beindi engum tilkynningum að stefnanda um vanskil Iceland Express ehf. eða skuldir félagsins við stefnda hafi allar kröfur sem stefndi kynni að hafa átt á hendur stefnanda fallið brott sökum tómlætis. Hefði stefndi átt kröfu á hendur stefnanda hefði honum borið að fylgja henni eftir með útgáfu reiknings eða greiðsluáskorun um leið og vanefndirnar komu í ljós. Þar sem hann gerði það ekki hafi hann fyrirgert þeim rétti sem hann kynni að hafa átt á hendur stefnanda. Beri því að taka endurgreiðslukröfu stefnanda til greina.

        Stefndi vísar til þess að í gjaldskrá stefnda komi hvergi fram hver skuli greiða þau gjöld sem stefndi leggur á. Gjaldskráin sé sett samkvæmt sérstakri heimild stefnda í lögum til álagningar gjalda og ekki komi fram í lögunum á hvern gjöldin skuli lögð. Ekki hafi því verið skýr lagaheimild fyrir innheimtu gjaldanna hjá stefnanda og beri því að taka endurgreiðslukröfu stefnanda til greina.

        Kröfu sína um skaðabætur byggir stefnandi á því að stefndi hafi valdið sér tjóni með ólögmætri og saknæmri háttsemi. Svo sem að framan sé rakið hafi verið ólögmætt að innheimta gjöld vegna flugvélarinnar úr hendi stefnanda. Stöðvun stefnda á flugvél stefnanda hafi því verið ólögmæt. Stefnda hafi ekki dulist að með ákvörðun sinni um að aftra brottför flugvélarinnar yrði stefnandi fyrir verulegu fjártjóni þar sem hann þyrfti að kosta uppihald áhafnar og gæti ekki hagnýtt vélina í önnur verkefni á meðan stöðvunin stæði yfir. Því valdi sem stefnda sé falið með ákvæði loftferðalaga megi ekki beita þannig að það skaði með óréttmætum hætti hagsmuni þeirra sem eiga leið um flugvöll stefnda. Almennt njóti kröfuhafar ekki sjálfdæmis um beitingu fullnusturáðstafana heldur þurfi atbeina handhafa opinbers valds til. Eðlilegt sé að líta svo á að einungis sé heimilt að beita stöðvunarrétti stefnda í tilvikum þar sem krafan sé óumdeild og fyrir liggi að hún verði ekki greidd. Hvorugt eigi við í þessu tilviki þar sem stefnandi hafi mótmælt kröfunni og stefndi auk þess stöðvaði vélina áður en nokkur samskipti við stefnanda höfðu átt sér stað.

        Stefnandi hafi greitt laun og uppihald starfsmanna sinna á Íslandi á meðan stöðvun flugvélarinnar stóð yfir og stefnandi greiddi 2.927,93 evrur vegna ferða starfsmanna til og frá Íslandi, 908.566 íslenskar krónur vegna ferðalaga þeirra til og frá flugvellinum, 130.401 tékkneska krónu í laun og þá greiddi stefnandi 70.800 Bandaríkjadala í leigu vegna flugvélarinnar meðan á stöðvuninni stóð.

        Stefnandi byggir á því að ákvörðun stefnda um að stöðva flugvél stefnanda sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar enda hafi þar verið tekin ákvörðun um réttindi og skyldur manna í einstöku tilviki. Alla jafna séu ákvarðanir um þvingunarráðstafanir af þessu tagi teknar af sýslumönnum. Að því marki sem stjórnvöldum sé falið vald til töku slíkra ákvarðana sé ávallt um stjórnvaldsákvarðanir að ræða. Ákvörðunin lúti þar með þeim reglum sem almennt eigi við um stjórnvaldsákvarðanir. Skipti engu máli í þessu samhengi að stefndi sé opinbert hlutafélag, enda sé stefnda falin meðferð opinbers valds við innheimtu gjalda samkvæmt loftferðalögum. Stefnda hafi því verið skylt að byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum og gæta að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, en verulega skorti á að hennar hafi verið gætt. Stefndi hafði aldrei sett sig í samband við stefnanda þegar flugvélin var stöðvuð og hafi afstaða stefnanda til kröfu stefnda því verið allsendis óþekkt. Engin ástæða hafi verið til þess að ætla að stefnandi myndi ekki greiða lögmætar kröfur sem að honum yrði beint. Af þeim sökum hafi engin ástæða verið til þess að grípa til svo harkalegra aðgerða gagnvart stefnanda sem raun ber vitni.

        Þetta skipti jafnframt máli hvað varðar skyldur stefnda gagnvart stefnanda. Stjórnvöldum sé skylt að upplýsa um að tiltekin mál séu til meðferðar og óska eftir sjónarmiðum viðkomandi aðila. Fram komi í samskiptum stefnda og Iceland Express ehf. að stefndi hafði talið koma til greina að beita þvingunarúrræðum loftferðarlaga þann 2. júlí 2012. Á þeim degi hafi stefnda borið að tilkynna öllum hlutaðeigandi um mögulegar þvingunaraðgerðir. Það hafi stefndi ekki gert með þeim afleiðingum að verulegar skuldir söfnuðust upp sem stefnandi getur ekki borið ábyrgð á.

 

        Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um stofnunarhætti krafna sem og til meginreglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Til stuðnings kröfu sinni um skaðabætur vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar og vísar sérstaklega til sakarreglunnar.

        Þá vísar stefnandi til laga um loftferðir nr. 60/1998, laga um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009, laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006, innheimtulaga nr. 95/2008, meginreglna kröfuréttar og ólögfestra reglna um skyldur gagnvart viðsemjendum og reglna kröfuréttar um réttaráhrif tómlætis. Um málskostnað vísar stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr.

        Um vexti og dráttarvexti vísar stefnandi til II. og III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þá sérstaklega til 3. gr., 3. mgr. 5. gr., 1. og 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. þeirra.

        Um málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

        Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi mótmælir málsástæðum og lagarökum stefnanda í heild sinni. Stefnandi hafi ekki mótmælt því að hafa þegið þá þjónustu sem hann var krafinn um greiðslu fyrir. Slík mótmæli komi hvorki fram í stefnu né í þeim fyrirvörum sem stefnandi gerði þegar hann greiddi kröfuna. Í stefnu sé hvorki fjárhæð kröfunnar mótmælt né tilvist hennar. Hann telur aðeins að sér hafi verið óskylt að greiða kröfuna og krefjist nú endurgreiðslu.

       Óumdeilt sé í málinu að stefnandi lenti loftfari sínu á Keflavíkurflugvelli og notaði þá þjónustu og aðstöðu sem stefndi krafði hann um greiðslu fyrir. Stefndi byggir á því að á stefnanda sem evrópskum flugrekanda hvíli sú skylda að kynna sér hvaða gjöld honum beri að greiða sem flugrekandi á þeim flugvöllum sem loftför á hans vegum fljúga til og frá og hver beri ábyrgð á greiðslu gjalda vegna þjónustu við loftfar í hans umráðum. Stefnandi geti ekki borið fyrir sig að honum hafi verið ókunnugt um skyldu sína til að greiða skatta og gjöld sem á flugrekendur eru lögð samkvæmt lögum. Alls staðar í Evrópu beri flugrekandi ábyrgð á greiðslu framangreindra flugvallargjalda. Byggir stefndi á því að á stefnanda hvíli beinlínis sú athafnaskylda að ganga úr skugga um að greiðsla gjalda og skatta vegna afnota loftfars hans af aðstöðu mannvirkja á Keflavíkurflugvelli væri í skilum. Stefnanda bar í ljósi samnings hans við Iceland Express ehf., þar sem félagið tók við reikningum í umboð hans samkvæmt fyrirmælum frá stefnanda, að tryggja að greiðsla gjalda væri í skilum. Stefnandi hafi haldið áfram að fljúga til Keflavíkurflugvallar allt til 25.10.2012.

        Stefndi byggir á því að greiðsluskylda hvíli á flugrekanda og umráðanda loftfars. Stefndi byggir á því að hvorki ákvæði loftferðalaga nr. 60/1998, reglugerða settra með stoð í þeim né aðrar réttarheimildir eða gjaldskrá stefnda verði túlkuð á annan hátt en að greiðsluskylda flugvallargjalda sem falli til þegar loftfar lendir á flugvelli og nýtir þjónustu þar hvíli hjá eiganda eða umráðanda viðkomandi loftfars. Samkvæmt gjaldskrá Keflavíkurflugvallar sé það stefnandi sem sé umráðandi loftfarsins enda sé hann flugrekandinn. Þar sem greiðsluskylda lendingargjalda hvíli á umráðanda eða eiganda loftfars beinist ákvæði 136. gr. loftferðalaga eðli málsins samkvæmt eingöngu að eiganda eða umráðanda loftfarsins, sem í þessu tilviki sé stefnandi.

        Stefndi byggir á því að greiðsluskylda stefnanda vegna þeirra gjalda sem hann innti af hendi þann 2. nóvember 2012 sé ótvíræð og hann sé réttur greiðandi þeirra. Hún byggi á afnotum stefnanda sem flugrekanda af Keflavíkurflugvelli og beri honum skylda að lögum til að greiða fyrir þá aðstöðu í samræmi við birta gjaldskrá stefnda. Engar forsendur séu til að taka undir sjónarmið stefnanda um endurgreiðslu, enda sé sú krafa ekki studd neinum haldbærum rökum gagnvart stefnda.

        Krafa stefnanda um sýknu byggir á aðildarskorti. Stefndi telur að málinu sé ranglega beint að sér. Kjarni máls þessa sé sá að samkvæmt 71. gr. loftferðalaga og gjaldskrá Keflavíkurflugvallar sé stefndi kröfuhafi og réttur viðtakandi flugvallargjaldanna og stefnandi réttur skuldari og greiðandi þeirra. Stefndi telur hafið yfir vafa að gagnvart stefnda hafi stefnanda borið sem umráðanda loftfarsins að greiða stefnda flugvallargjöldin. Telji stefnandi sig hafa greitt kröfu sem annar aðili, væntanlega Iceland Express ehf., hafi átt á endanum að greiða á grundvelli samningssambands þeirra á milli, verði hann að beina kröfum sínum að þeim viðsemjanda sínum, en ekki stefnda. Rétt væri að stefnandi krefði WOW air um endurgreiðslu á grundvelli samningssambands stefnandi við Iceland Express ehf., sem WOW air hafi nú yfirtekið.

        Telji stefnandi að einhver annar aðili hafi átt að greiða kröfuna verði hann að snúa sér að honum. Fallist dómurinn á þennan málatilbúnað stefnda leiði það til sýknu vegna aðildarskorts skv. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

         Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi geti ekki svo bindandi sé gagnvart stefnda gert samning við þriðja aðila um að sá aðili takist á hendur skuldbindingar stefnanda gagnvart stefnda. Það sé ein af meginreglum kröfuréttar að skuldaraskipti geti ekki farið fram nema með beinu samþykki kröfuhafa, þ.e. skuldaraskipti verði ekki gerð nema með samþykki kröfuhafa. Stefndi hafi aldrei, hvorki með orðum né í verki, samþykkt að stefnandi væri leystur undan greiðsluskyldu umþrættra gjalda og Iceland Express ehf. tæki við. Málatilbúnaður stefnanda virðist vera reistur á þessu sjónarmiði, þ.e. að ferðaskipuleggjandinn,Iceland Express ehf., hafi átt að greiða umrædd gjöld. Með hliðsjón af framangreindu sé nauðsynlegt að mótmæla sérstaklega fullyrðingu í stefnu um að litið sé svo á að ferðaþjónustuveitandi beri greiðsluskylduna. Þessari fullyrðingu er mótmælt sem rangri og ósannaðri. Í kjölfar fullyrðingarinnar segi „í þessu tilviki Iceland Express“. Þetta sé í engu samræmi við það sem fram komi í tölvupósti starfsmanns Iceland Express ehf. þann 21. nóvember 2011 þar sem segi: „Ég get staðfest að IEX mun greiða þessi gjöld fyrir CSA.“ Það sé því augljóslega ekki skilningur framangreinds „ferðaþjónustuveitanda“ að skylda til að greiða þessi gjöld hvíli á honum. Af þessum orðum starfsmanns Iceland Express ehf. sé jafnframt ljóst að afstaða IEX, sem viðsemjanda stefnanda, sé sú að greiðsluskyldan hvíli á stefnanda, en ekki „ferðaþjónustuveitandanum“.

        Stefndi mótmælir því að á honum hafi hvílt skylda til að senda innheimtuviðvörun til stefnanda áður en hann meinaði loftfari í umráðum stefnanda brottför af Keflavíkurflugvelli. Ákvæði 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 yrði haldlaust fyrir flugvallarrekanda þyrfti hann að senda innheimtuaðvörun áður en hann hefti för loftfars. Engin skilyrði eða áskilnað sé að finna í 136. gr. loftferðalaga um að senda þurfi innheimtuaðvörun eins og stefnandi heldur fram. Einu lagaskilyrðin séu að gjöld séu gjaldfallin og ógreidd þegar úrræði ákvæðisins sé beitt. Stefndi byggir á því að um sérlagaákvæði sé að ræða sem gangi framar almennum ákvæðum innheimtulaga nr. 95/2008. Auk þess segi í 1. gr. innheimtulaga að þau gildi um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Þau gildi þó ekki um innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og löginnheimtu. Þannig sé ljóst að ákvæði innheimtulaga eigi ekki við í tilfelli stefnda og því sé mótmælt að innheimtulög eigi við í þessu máli.

        Stefndi bendir í þessu sambandi á tilgang ákvæðis 136. gr. loftferðalaga. Þar sem stefnandi sé með starfsstöð og starfsemi í erlendu ríki séu möguleikar stefnda til að innheimta gjöldin stórum minni ef hann geti ekki gripið til úrræðisins þegar í stað lendi loftfar í eigu flugrekandans á flugvelli stefnda. Heimildin í 136. gr. loftferðalaga sé mjög víðtæk og nái bæði til þess að aftra för loftfars vegna gjalda sem falla til vegna þess loftfars svo og annarrar starfsemi eiganda eða umráðanda loftfarsins þó að slík gjöld tengist ekki beint því loftfari sem stöðvað er. Beiting heimildarinnar hafi enn fremur verið útvíkkuð með 19. gr. laga nr. 50/2012, en með þeim lögum hafi verið aukið við 136. gr. loftferðalaga ákvæði þess efnis að Umhverfisstofnun geti fyrirskipað rekstraraðila flugvallar að aftra för loftfars fyrirvaralaust uns lögmæt gjöld vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, er varði viðkomandi loftfar séu greidd. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 50/2012 komi skýrt fram að ábyrgð á þeim gjöldum hvíli á flugrekendum og sé úrræðinu beint gagnvart þeim, líkt og heimildin nái til annarra gjalda og skulda er flugrekendur stofna til þegar þeim ber að greiða gjöld og skatta vegna loftfara í þeirra umráðum. Með m.a. vísan til framangreinds mótmælir stefndi því alfarið að það sé skilyrði fyrir beitingu 136. gr. loftferðalaga að senda þurfi sérstaka innheimtuaðvörun áður en gripið sé til úrræðisins sem felst í greininni.

        Stefndi mótmælir því að hann hafi fyrirgert rétti sínum til greiðslna á grundvelli sjónarmiða um tómlæti. Elsti gjalddagi á umþrættum gjöldum sé 30.7.2012, eða innan við þremur mánuðum áður en loftfarinu var meinuð brottför. Svo skammur tími milli elsta gjalddaga krafna og innheimtu þeirra geti ekki leitt til þess að kröfuhafi hafi fyrirgert rétti sínum til greiðslu á grundvelli tómlætis. Málsástæða stefnanda hvað þetta varði sé vanreifuð og ekki séu færð rök fyrir því hvaða athafnir stefnda, sem ítrekað hélt kröfu sinni að stefnanda og umboðsmanni hans, eigi að leiða til þess að réttaráhrif tómlætis eigi við um háttsemi stefnda.

         Stefndi byggir á því að stefnandi sé flugrekandi í atvinnurekstri, honum eigi að vera fullkunnugt um þær skyldur sem hvíla á honum, hann geti ekki gert samning við þriðja aðila og með því undanskilið sig þeim skuldbindingum og kröfum sem hann hafi stofnað til þegar hann notaði aðstöðu og þjónustu sem stefndi hefur yfir að ráða. Hvorki stefnandi né annar aðili, svo sem Iceland Express ehf., eigi rétt á eða hafi heimild til að ráðstafa hagsmunum og kröfum stefnda með þeim hætti sem stefnandi virðist grundvalla málatilbúnað sinn á. Stefnandi hafi tekið ákvörðun um að greiðslur umþrættra gjalda færu í gegnum umboðsmann hans, þ.e. Iceland Express ehf., en það breytir engu um skyldu stefnanda til að standa skil á þessum greiðslum.

        Stefndi krefst sýknu af skaðabótakröfu stefnanda. Stefndi hafi verið í fullum rétti þegar hann aftraði för loftfarsins af Keflavíkurflugvelli og vísar til 136. gr. loftferðalaga um heimild sína. Stefndi hafi tilkynnt fyrirsvarsmanni stefnanda það um leið og bent á að vélinni yrði heimiluð brottför þegar gjöldin yrðu greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra. Þannig hafi það verið með öllu á valdi stefnanda hvert framhaldið yrði og þar með hversu lengi vélinni yrði meinuð brottför af vellinum. Stefnandi hefði getað greitt fjárhæðina strax eða lagt fram tryggingu og þar með „losað“ loftfarið og komið í veg fyrir meint tjón sitt. Þess í stað hafi hann mótmælt kröfum sem réttilega hafi verið beint að honum og með því hafi hann lengt þann tíma sem flugvélinni var öftruð brottför af Keflavíkurflugvelli. Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna tafar sem eingöngu sé tilkomin vegna hans sjálfs og verði hann að bera ábyrgð á því en ekki stefndi.

        Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að skilyrði sakarreglunnar um ólögmæti eða saknæmi séu til staðar og verði því ekki séð hver bótagrundvöllur kröfu hans sé. Stefnandi hafi hvorki bent á atvik né athafnir í málinu sem leiði til bótaskyldu af hálfu stefnda.

        Stefndi byggir jafnframt á því að skaðabótakrafa stefnanda sé vanreifuð. Þannig sé t.d. krafist 70.800 Bandaríkjadala vegna leigu á vélinni meðan á stöðvuninni stóð. Hvergi sé að finna útlistun á því hvernig sú tala er fundin. Þá skorti verulega á alla sundurliðun hverrar fjárhæðar fyrir sig, auk þess sem stefnufjárhæðin sé sett fram í mismunandi gjaldmiðlum. Af þeim sökum sé um verulegan ágalla á málatilbúnaði stefnanda, hvað þennan lið varðar, að ræða sem ekki verður bætt úr undir rekstri málsins, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

        Stefndi vísar til þess að útleigu flugvéla fylgi áhætta en hún geti einnig verið ábatasöm ef vel gangi. Þeim sem starfi á þessum vettvangi sé það fullkunnugt. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að kynna sér fjárhagslega stöðu leigjanda vélarinnar og meta þannig áhættuna af viðskiptunum. Eftir atvikum hefði hann getað áskilið sér í samningi þeirra rétt til að afla upplýsinga frá þriðja aðila um hvort leigutaki væri í skilum á þeim gjöldum sem samningur þeirra kvað á um að leigjandi ætti að annast. Þetta virðist hann aftur á móti ekki hafa gert. Ekki hefði staðið á stefnda að veita stefnanda upplýsingar um að Iceland Express ehf. stæði ekki skil á greiðslunum ef eftir því hefði verið óskað. Á þessari óvarkárni stefnanda í annars áhættusömum viðskiptum geti stefndi ekki borið ábyrgð.

        Stefndi mótmælir því að reglur og sjónarmið stjórnsýsluréttar komi til álita við beitingu 136. gr. loftferðalaga. Stefndi sé hvorki hluti af stjórnsýslu ríkisins  né sveitarfélag og falli þannig ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. þeirra laga. Þá megi einnig ráða af 2. gr. laganna að þeim sé ekki ætlað að eiga við um lagaheimildir sem taki til fullnustu- og aðfarargerða og annarra lögbundinna ráðstafana til að tryggja greiðslu peningaskuldar sem til stofnast á grundvelli 71. gr. loftferðalaga, líkri þeirri sem felist í 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. 

        Samkvæmt 136. gr. sé flugvallarrekanda heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. Þannig séu einu skilyrði þess að gripið sé til úrræða sem í ákvæðinu felst að til staðar sé gjaldfallin krafa sem stefnanda sé skylt að greiða lögum samkvæmt og ákvæðið sé ekki matskennt. Óumdeilt sé að stefnandi notaði aðstöðu og stofnaði til þeirra gjalda sem tiltekin séu í gjaldskrá stefnda fyrir Keflavíkurflugvöll, en gjaldskrá og gjöld séu sett með stoð í 71. gr. loftferðalaga nr. 60/1998.

        Stefndi bendir á, án þess að það eigi að hafa þýðingu um niðurstöðu í málinu, að það hafi staðið Iceland Express ehf. nær að upplýsa stefnanda um að gjöldin væru ekki í skilum, og það sérstaklega eftir að starfsmaður stefnda vakti athygli félagsins á því að það kæmi til greina að beita heimild 136. gr. laga um loftferðir til að knýja fram greiðslu eða tryggingu. Eigi síðar en á þeim degi hefði Iceland Express ehf. mátt upplýsa stefnanda um að félagið hefði ekki staðið skil á þeim greiðslum sem samningur þeirra kvað á um að félagið greiddi. Þá verði ekki annað lesið úr tölvupósti 4. október 2012 en að starfsmönnum Iceland Express ehf. hafi verið fullkunnugt um að greiðsluskyldan væri hjá stefnanda. Stefndi mótmælir því að á honum hafi hvílt skylda til að upplýsa stefnanda um að Iceland Express ehf. stæði ekki skil á greiðslunum eins og venja hefði verið. Stefndi telur að í raun hafi það staðið stefnanda næst að kanna af sjálfsdáðum hvort viðsemjandi hans stæði skil á greiðslunum til stefnda, enda um að ræða flugvallargjöld vegna véla í eigu (umráðum) stefnanda.

        Verði fallist á kröfur stefnanda í heild eða að hluta, mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta á kröfum. Byggir stefndi á 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 en samkvæmt reglunni sé ekki heimilt að reikna dráttarvexti fyrr en frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Telur stefndi að slíka kröfu hafi stefnandi fyrst sett fram með skýrum hætti í stefnu. Krefst stefndi þess að kröfur stefnanda, verði þær teknar til greina, beri dráttarvexti frá dómsuppsögu.

        Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

 

IV.

Niðurstöður 

        Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort stefnanda í málinu hafi borið að greiða stefnda flugvallargjöld samkvæmt gjaldskrá fyrir Keflavíkurflugvöll sem lögð voru á vegna þjónustu við loftför í hans umráðum og stefnandi innti af hendi þann 2. nóvember 2012. Gjaldskráin tók gildi 1. apríl 2012 og sett var samkvæmt ákvæðum greinum 71, 71a og 71b í loftferðalögum nr. 60/1998, ákvæðum 10. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar nr. 76/2008, sbr. lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009 og reglugerð nr. 475/2008 um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga sem ferðast með flugi. Í 1. gr. varðandi gildissvið, segir að gjaldskráin gildi fyrir afnot loftfara af Keflavíkurflugvelli.

        Stefnandi er flugrekandi og handhafi flugrekstrarleyfis sem útgefið er í Tékklandi og í samræmi við skráningarreglur hafa flugför á hans vegum forskeytið OK sem eru skráningarstafir loftfara frá Tékklandi. Fyrir liggur í málinu að stefnandi var umráðamaður loftfarsins OK-LEE, sem meinuð var brottför af Keflavíkurflugvelli í umrætt sinn. Stefnandi hafði fengið úthlutað afgreiðslutímum við flugstöðina.

        Í 1. mgr. 71. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 er mælt fyrir um það að rekstraraðila flugvallar sé heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar og fyrir þeirri aðstöðu, búnaði og mannvirkjum sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtir á flugvellinum.        

        Af hálfu stefnanda er á því byggt að í þessu ákvæði felist ekki heimild fyrir stefnda til þess að krefja sig um greiðslu þessara gjalda þar sem ekki sé mælt fyrir um það í lögum að hverjum skuli beina kröfu um greiðslu gjaldanna og samið hafi verið um að Iceland Express ehf. greiddi þessi gjöld. Í eldri lögum, sbr. lög nr. 74/2000, sagði að í innanlandsflugi og millilandaflugi skyldu lendingargjöld greidd af umráðendum loftfara til Flugmálastjórnar fyrir afnot loftfara af þeim flugvöllum þar sem flugupplýsingaþjónusta er veitt.

        Ekki verður ráðið af athugasemdum við þessa grein frumvarpsins að með þessari breytingu á orðalagi 71. gr. ætti að verða breyting á því á hverjum gjaldskyldan hvíldi. Í athugasemdunum segir að það sé eitt markmiða þessara breytinga að lögð sé af taka skatts og tekin upp gjaldtaka í formi þjónustugjalds. Gjaldtaka samkvæmt 1. og 2. mgr. byggist á því sérgreinda endurgjaldi sem fáist gegn greiðslu gjaldsins og miðist við þann kostnað sem almennt hljótist af því að veita þá þjónustu sem í hlut eigi. Gjaldinu sé ætlað að standa undir þeim kostnaði við þá þjónustu sem gjaldanda sé veitt.

        Líta verður svo á að flugrekandi viðkomandi loftfars sé sá sem njóti þjónustunnar. Telja verður samkvæmt því sem rakið hefur verið að greiðsluskylda vegna flugvallargjalda sem fellur til vegna lendingar flugfars á Keflavíkurflugvelli og þeirrar þjónustu sem nýtt er þar hvíli á eiganda eða umráðanda loftfars. Þessi skilningur á sér einnig stoð í 136. gr. loftferðalaga, en þar segir í 1. mgr. að Samgöngustofu eða þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu sé heimilt að aftra för loftfars af flugvellinum uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

         Stefnandi hefur hvorki mótmælt því að hann hafi þegið þá þjónustu sem hann var krafinn um greiðslu fyrir samkvæmt ofansögðu né fjárhæð kröfunnar. Hann byggir hins vegar á því að sér hafi verið óskylt að greiða kröfuna og að hann eigi því rétt á endurgreiðslu. Að fenginni þeirri niðurstöðu að eiganda eða umráðanda loftfars beri að greiða flugvallargjöldin kemur til skoðunar hvort önnur atriði leiði til þess að stefnanda beri ekki að greiða gjöldin. Fyrir liggur að stefndi gaf út reikninga vegna flugvallargjaldanna á stefnanda c/o Iceland Express ehf. og sendi reikningana til Iceland Express ehf., en ekki til stefnanda. Það var samkvæmt samkomulagi fjármálastjóra Iceland Express ehf. við stefnda um að sama fyrirkomulag yrði varðandi greiðslu þessara gjalda og verið hafði þegar Astreus annaðist flug fyrir félagið og fyrri flugrekendur sem sinnt höfðu leiguflugi fyrir Iceland Express ehf.

        Í tölvupósti þann 21.nóvember 2011 frá Gunnari Má Petersen til Elínar Árnadóttur, fjármálastjóra stefnda, segir í framhaldi af fyrirspurn hennar til Gunnars Más um það hvort hann vilji hafa sama fyrirkomulag og verið hafi með Astreus: „Ég get staðfest að IEX mun greiða þessi gjöld fyrir CSA. Ég mun fara í að gera samkomulag á milli IEX og CSA varðandi þetta og senda á ykkur.“ Ekki liggur fyrir í málinu að slík yfirlýsing hafi verið send stefnda.

       Þá var ákvæði um það í 5. gr. samnings stefnanda við Iceland Express ehf. um leiguflugsþjónustu, dags. 18. nóvember 2011, að Iceland Express ehf. greiddi öll þessi gjöld. Í niðurlagi 5. gr. sagði síðan: „Komi til þess að leigusali þurfi að greiða eitthvað slíkt, er leigusala heimilt að rukka leigutakann um slíka greiðslu.“

        Ekki er hægt að fallast á að 5. gr. samnings stefnanda og Iceland Express ehf. sé bindandi gagnvart stefnda um það að Iceland Express ehf. takist á hendur skuldbindingar stefnanda gagnvart stefnda þar sem slík skuldaraskipti geta ekki farið fram nema með beinu samþykki kröfuhafa, en slíkt samþykki liggur ekki fyrir. Hins vegar beindi stefndi kröfum sínum um greiðslu þessara gjalda að Iceland Express ehf. og átti í samningum við félagið um greiðslu á vanskilum sem söfnuðust upp. Í framburði Elínar Árnadóttur, fjármálastjóra stefnda, sem kom sem vitni fyrir dóminn, kom fram að litið hafi verið á Iceland Express ehf. sem umboðsmann stefnanda. Í samskiptum við Iceland Express ehf. hafi tölvusamskipti bæði varðað innheimtu á flugvallargjöldum og síðan ýmsu öðru sem snerti aðeins Iceland Express ehf., eins og t.d. húsaleigu og fleiru vegna aðstöðu félagsins á flugvellinum, en þessar kröfur hafi verið á aðskildum reikningum. Greiðslufrestir hafi verið veittir í trausti þess að Iceland Express ehf. myndi greiða gjöldin eins og þeir hafi gert í gegnum tíðina þó að erfiðleikatímabil hafi komið upp eins og t.d. þegar félagið hóf Ameríkuflug. Því hafi ekki verið haft samband við stefnanda eða honum tilkynnt um vanskilin. Stefndi hafi talið að stefnandi væri upplýstur um stöðu mála, en það hafi verið fyrst þann 4. október 2012 að stefnda hafi farið að verða ljóst að svo væri ekki. Þá hafi fjármálastjóri Iceland Express ehf. greint frá því að verið væri að vinna að því að auka hlutafé í félaginu og óskað eftir því að ekki yrði send greiðsluáskorun til stefnanda eða honum kynnt málið fyrr en fundað hefði verið með stefnda og honum kynnt staðan og leiðir að lausn. Vitnið kvaðst þá ekki hafa sett sig í samband við stefnanda þar sem búist hafi verið við efndum af hálfu Iceland Express ehf.

        Telja verður að eðlilegt hefði verið að stefndi hefði jafnframt beint tölvupósti vegna ógreiddra skulda þann 2. júlí 2012 sem sendur var til Iceland Express ehf. til stefnanda þar sem vikið var að þeim möguleika að aftra för flugvéla stefnanda á grundvelli ógreiddra gjalda. Stefndi lét undir höfuð leggjast að tilkynna stefnanda um vanskilin á þeim grundvelli að hann taldi að stefnanda væri eða mætti vera kunnugt um stöðu mála. Ekkert liggur fyrir um að stefnanda hafi orðið kunnugt um vanskil á umræddum gjöldum fyrr en með tölvupósti framkvæmdastjóra fjármálasviðs stefnda þann 24. október 2012 og þá var eindagi elsta ógreidda reiknings 30. júlí 2012. Telja verður líklegt að stefnandi hefði gripið í taumana hefði honum verið kunnugt um vanhöld Icelandic Express ehf. á að greiða um rædd flugvallargjöld.

        Til þess er hins vegar að líta að stefnandi er flugrekandi og honum mátti vera ljóst hvaða skyldur hvíldu á honum um greiðslu þeirra gjalda sem um ræðir í máli þessu. Þótt hann hafi gert samning við þriðja aðila, Iceland Express ehf., um greiðslu þessara gjalda, þá hefði hann átt að fylgjast með því hvort greiðslur þessar væru inntar af hendi þar sem ekki lá fyrir bindandi samkomulag við stefnda um að undanskilja stefnanda skuldbindingum og kröfum vegna aðstöðu og þjónustu á Keflavíkurflugvelli. Þá verður einnig að telja eðlilegt að stefnandi hefði kynnt sér fjárhagsstöðu viðsemjanda síns þar sem hér er um að ræða áhættusöm viðskipti.

        Með hliðsjón af niðurlagi 5. töluliðs 2. gr. samnings milli stefnanda og Iceland Express ehf. um leiguflugsþjónustu, dags. 18. nóvember 2011, þar sem segir að komi til þess að leigusali þurfi að greiða eitthvað af þeim gjöldum sem upp eru talin í greininni, þá sé leigusala heimilt að rukka leigutakann um slíka greiðslu, verður ekki annað ályktað en að stefnanda hafi verið fullkunnugt um að hann yrði krafinn um þessi gjöld ef viðsemjandinn, Iceland Express ehf., stæði ekki skil á þessum gjöldum. Iceland Express ehf., eftir nafnbreytingu IEMI ehf., var úrskurðað gjaldþrota 1. mars 2013 og lýsti stefnandi þá kröfum vegna þessara gjalda, sem hann hafði innt af hendi, í þrotabúið með kröfulýsingu dags. 7. júní 2013.   

        Elstu vanskil umræddra gjalda voru frá 30. júlí 2012 eða innan við þriggja mánaða gömul þegar kröfum var beint að stefnanda. Ekki verður fallist á að stefndi hafi fyrirgert rétti sínum á grundvelli tómlætis, en hann beindi kröfum sínum ítrekað að viðsemjanda stefnanda, Iceland Express ehf., sem tekið hafði að sér að annast greiðslur þessara gjalda samkvæmt samningi þeirra. Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af endurgreiðslukröfu stefnanda.

        Varðandi skaðabótakröfu stefnanda þá verður ekki fallist á það að ákvörðun stefnda um að meina loftfari í umráðum stefnanda brottför af Keflavíkurflugvelli í umrætt sinn hafi verið ólögmæt og saknæm háttsemi sem sé skaðabótaskyld. Ákvörðun stefnda var byggð á 136. gr. loftferðalaga og á stefnanda hvíldi greiðsluskylda vegna þeirra gjalda sem voru í vanskilum og hann innti síðan af hendi þann 2. nóvember 2012. Stefnandi er með starfsstöð og starfsemi í erlendu ríki og erfiðleikum kann að vera bundið að innheimta þau gjöld sem hér um ræðir þegar aðstæður eru með þeim hætti. Heimildin í 136. gr. loftferðalaga er víðtæk. Möguleikar stefnda til innheimtu þessara gjalda eru minni ef hann getur ekki gripið til þessa úrræðis þegar í stað lendi loftfar flugrekandans á flugvelli stefnda og í raun væri úrræðið haldlaust ef hann þyrfti að senda innheimtuviðvörun áður en hann stöðvar för loftfars. Ekki er fallist á að stöðvun flugvélar stefnanda hafi verið stjórnvaldsákvörðun þar sem ekki er um eiginlega stjórnsýslu í þágu ríkis eða sveitarfélags að ræða, en stefndi hafði ítrekað beint kröfum um greiðslu gjaldanna til Iceland Express ehf. og varað félagið við því að til þess gæti komið að þessu úrræð yrði beitt, en félagið kom fram gagnvart stefnda og átti að annast greiðslur þessara gjalda samkvæmt samningi við stefnanda frá 18. nóvember 2011. Stefnandi gat takmarkað tjón sitt með því að setja strax tryggingu fyrir gjöldunum eða greiða þau með fyrirvara eins og hann gerði síðar. Ekki verður því fallist á að stefndi hafi farið of harkalega í innheimtuaðgerðir gagnvart stefnanda með því að meina flugfari stefnanda brottför.

        Samkvæmt því verður ekki fallist á skaðabótakröfu stefnanda og ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

        Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

          Stefndi, Isavia ohf., er sýkn af kröfum stefnanda, Holiday Czech Arlines a.s.

          Málskostnaður fellur niður.

 

Þórður Clausen Þórðarson