• Lykilorð:
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 5. júlí 2018 í máli nr. E-130/2017:

Bragi Skúlason

(Jón Sigurðsson lögmaður)

gegn

Landspítalanum

(Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 13. júní sl., var höfðað 11. janúar 2017.

            Stefnandi er Bragi Skúlason, [...] í Reykjavík.

            Stefndi er Landspítalinn, Eiríksgötu 5 í Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna ráðningar Rósu Kristjánsdóttur í starf deildarstjóra djákna og presta hjá stefnda í júlí 2016. Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.000.000 kr. í miskabætur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri upphæð frá 11. janúar 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

            Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

 

                                                                        I

            Málsatvik eru að mestu leyti óumdeild. Stefnandi hóf störf hjá Ríkisspítölum, forvera stefnda, í júní árið 1989. Hefur hann starfað samfellt þar og síðar hjá stefnda, sem varð til árið 2000 við sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við aðalmeðferð kom fram að þann 1. júní sl. fór stefnandi í launalaust leyfi hjá stefnda.

            Mál þetta varðar ágreining um ráðningu í starf deildarstjóra sálgæslu djákna og presta hjá stefnda í júlí 2016. Starfið var auglýst í maí 2016. Umrædd deild heyrir undir geðsvið stefnda. Fram kom í auglýsingunni að sóst væri eftir liðsmanni með skýra framtíðarsýn og framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfileika í starf deildarstjórans. Stór hluti starfsins væri klínísk (verkleg) vinna. Helstu verkefnum og ábyrgð deildarstjóra var lýst á þann veg að hann hefði faglega umsjón með störfum djákna og presta hjá stefnda og skyldi leiða framþróun þjónustunnar, samhliða virku starfi við sálgæslu. Samkvæmt auglýsingunni voru hæfnikröfur framhaldsmenntun í sálgæslu (CPE), framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfileikar, reynsla og þekking á stjórnun, rík þjónustulund og frumkvæði og skýr framtíðarsýn.

            Fimm einstaklingar sóttu um stöðuna. Fjórir umsækjendanna voru boðaðir í starfsviðtal og var stefnandi einn þeirra. Þriggja manna nefnd innan stefnda annaðist undirbúning og umsjón með ráðningarferlinu. Í nefndinni sátu María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs stefnda, Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs stefnda, og Sigríður Edda Hafberg, mannauðsráðgjafi geðsviðs stefnda. Verður ekki annað séð en að viðtölin hafi verið stöðluð þannig að sömu spurningar hafi verið lagðar fyrir umsækjendur. Að loknu viðtali gáfu matsaðilar hver fyrir sig stig inn í matsramma sem hafði að geyma eftirfarandi sex viðmið: (a) Fagleg færni til að hafa umsjón með störfum djákna og presta (færni og þekking á klínískri vinnu við sálgæslu). (b) Samskiptafærni (áætlaðir samstarfshæfileikar). (c) Reynsla og þekking á stjórnun – áætluð færni í stjórnun og forystu. (d) Þjónustulund (þ.m.t. hugmyndir um aukningu gæða þjónustunnar). (e) Skýr framtíðarsýn (hugmyndir um framþróun þjónustunnar). (f) Heildarmat (spá um líklegan árangur í starfinu). Hámarkseinkunn var 5,0. Niðurstaða nefndarinnar var að Rósu Kristjánsdóttur, djákna, voru veitt flest stig, eða 4,33 í heildarmati. Sá sem kom næstur hlaut 3,88 stig, sá næsti þar á eftir hlaut 3,75 stig og loks hlaut stefnandi 3,61 stig. Ákvað nefndin að bjóða Rósu Kristjánsdóttur starf deildarstjóra.

            Stefnandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stefnda og barst hann með tölvubréfi, dags. 22. júlí 2016. Eftir nokkur bréfaskipti milli aðila höfðaði stefnandi mál þetta. Kjarni ágreinings aðila varðar það álitaefni hvort stefndi hafi farið að lögum í ráðningarferlinu og hvort stefnda beri að greiða stefnanda bætur vegna þess hvernig staðið var að ráðningunni.

            Auk stefnanda gáfu skýrslu fyrir dómi Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahússprestur og umsækjandi, Ingileif Malmberg, sjúkrahússprestur og umsækjandi, Ragnheiður Katla Laufdal Ólafsdóttir, umsækjandi, og fyrrnefndir þrír nefndarmenn, þ.e. María Einisdóttir, Ásta Bjarnadóttir og Sigríður Edda Hafberg.

 

                                                                        II

            Stefnandi byggir einkum á því að ákvörðun stefnda um ráðningu Rósu Kristjánsdóttur í starf deildarstjóra presta og djákna hjá stefnda hafi verið ólögmæt og saknæm og haldin það verulegum annmörkum að hún sé ógildanleg að stjórnsýslurétti. Með ráðningunni hafi hvorki verið farið að sérlögum sem um starfið gildi né að lagaskyldum þeim sem stjórnvaldi beri að virða við ráðningar í opinber störf og málsmeðferð því samfara. Þá sé ákvörðunin um ráðningu einnig ómálefnaleg, með hliðsjón af hæfnis-, menntunar- og réttindakröfum sem stefnda hafi borið að gera við ráðninguna. Stefnandi hafi uppfyllt skilyrði laga, auglýsingar og hæfniskröfur til þess að hljóta hið auglýsta starf. Stefndi hafi með hinni ólögmætu ákvörðun, og um leið höfnun á því að ráða stefnanda í starfið, bakað stefnanda fjártjón og miska. Stefndi beri ábyrgð á því tjóni og greiðsluskyldu gagnvart stefnanda vegna þess. Nánar tiltekið byggir stefnandi málatilbúnað sinn um ólögmæti, ógildi ákvörðunar stefnda og dómkröfur á eftirfarandi sjö meginmálsástæðum.

            Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn. Við ráðningu í auglýst störf hjá ríkinu beri stjórnvöldum að velja hæfasta umsækjandann í hvert starf. Þetta sé viðurkennd meginregla í stjórnsýslurétti. Í þessu felist að ráða beri í starfið þann umsækjanda sem hafi mesta menntun og starfsreynslu til að bera til þess að sinna hinu auglýsta starfi, auk þess að sá sem veljist til starfans þurfi að uppfylla lagakröfur sem eigi við um starfið. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi þverbrotið við ákvörðunartökuna að fara að þessum skyldum sem á stjórnvaldinu hvíli. Augljóst sé að stefnandi hafði mun meiri reynslu, starfsréttindi og menntun til þess að gegna hinu auglýsta starfi en sú sem ráðin hafi verið og í raun slíka yfirburði hvað þessa þætti varðar og sem áskildir voru í auglýsingu, umfram þá sem ráðin var, að telja verði ákvörðunina um ráðningu með öllu óskiljanlega, óeðlilega og ólögmæta.

            Augljósasti munurinn hafi verið sá að stefnandi hafi um áratugaskeið gegnt starfi sjúkrahússprests, sem eðli máls samkvæmt hafi verið skilyrði þess að fá ráðningu í starf yfirmanns og faglegs umsjónarmanns með starfi presta og djákna, en Rósa Kristjánsdóttir sé ekki prestur. Starf sjúkrahússprests sé allt annað og meira en starf djákna. Til þess að geta orðið prestur þurfi viðkomandi að hafa háskólapróf í guðfræði og hljóta vígslu sem prestur þjóðkirkjunnar. Rósa Kristjánsdóttir hafi hvorki verið né getað orðið prestur með þeirri menntun sem hún hafi og þetta hafi stefnda verið ljóst af ráðningargögnum. Hafi stefnda borið að líta til þessa munar á umsækjendum við mat sitt á því hver yrði ráðinn í starfið.

            Byggt sé á því að stefnandi hafi verið hæfastur til að fá ráðningu í starfið og verið mun hæfari en sú er ráðin hafi verið í það, með vísan til þess að stefnandi hefði áður gegnt því starfi hjá stefnda sem ráðið hafi verið í og verið staðgengill forstöðumanns hjá stefnda í sama starfi og ráðið hafi verið í. Í staðgengilsstörfum hafi stefnandi m.a. verið yfirmaður Rósu Kristjánsdóttur. Ólögmæti ákvörðunar stefnda felist einnig í því að virða reynslu þessa og stöðu að vettugi við mat á umsækjendum og við ákvörðunartöku um ráðningu. Samkvæmt 2. gr. erindisbréfs stefnanda frá 22. desember 1997 veitti stefnandi forstöðu skor sjúkrahússpresta á Ríkisspítölunum og hafi haft með höndum skipulagningu þjónustunnar og faglega umsjón. Stefnandi hafi gegnt þessu forstöðumannsstarfi allan síðasta áratug síðustu aldar, fram að árinu 2000 þegar stefndi varð til við samruna sjúkrahúsa og sr. Sigfinnur Þorleifsson hafi tekið við forstöðustarfinu. Við framangreinda sameiningu hafi stefnandi svo orðið staðgengill sr. Sigfinns, deildarstjóra, og gegnt því starfi fram til ársins 2016, þegar sr. Sigfinnur lét af störfum. Vakin sé athygli á því að enginn efnismunur sé á inntaki starfa stefnanda og sr. Sigfinns sem forstöðumanns, sbr. óundirrituð erindisbréf sem liggi fyrir í málinu. Stefnandi kveðst hafa rakið sérstaklega þessa starfsreynslu sína sem yfirmaður við þá fulltrúa stefnda sem tóku við hann ráðningarviðtal. Ljóst megi vera, að teknu tilliti til ráðningargagna, að stefndi hafi skellt skollaeyrum við þeim upplýsingum, sem þó hafi verið augljóst að grundvallarþýðingu hafi haft við mat á umsóknunum. Rósa Kristjánsdóttir hafi aftur á móti aldrei gegnt yfirmannsstöðu hjá stefnda á sviði sálgæslu.

            Hvað menntun stefnanda varði, þá sé hann með doktorsgráðu í mannfræði, en það sé í doktorsverkefninu skilgreint sem mannfræði, heilsa, sálfræði og sálgæsla. Stefnandi sé með háskólapróf í guðfræði, meistarapróf í verklegri guðfræði, háskólapróf í sálgæslu frá háskóla í Bandaríkjunum (CPE-gráða), háskólapróf í uppeldis- og kennslufræði, hafi lokið tveggja ára námi í fjölskylduvinnu og fjölskyldumeðferð, auk þess að hafa setið ýmis námskeið og alþjóðlegar ráðstefnur á þeim sviðum sem hann starfi á, bæði sem almennur þátttakandi og fyrirlesari. Starfsferill stefnanda sé mjög umfangsmikill og langur, eins og fram hafi komið í starfsumsókn og ferilskrá stefnanda. Rósa Kristjánsdóttir hafi hins vegar samkvæmt umsóknargögnum ekki lokið fullnaðarprófi úr háskóla og ekki verði heldur séð að hún hafi lokið stúdentsprófi. Hún hafi lokið námi í djáknafræði frá guðfræðideild Háskóla Íslands, prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands, þ.e. námi í hjúkrun áður en það nám varð að háskólanámi, auk styttri námskeiða. Hvað klíníska (verklega) sálgæslu varðar hafi hún einungis setið stutt námskeið á því sviði, ólíkt stefnanda. Starfsreynsla Rósu hafi falist í starfi hjúkrunarfræðings og djákna á Landspítala, auk þess sem hún hafi starfað í eitt ár sem útfararstjóri. Með vísan til þessa sé því alfarið hafnað að starfsreynsla og menntun Rósu hafi verið umfram lágmarkskröfur og verið umfram stefnanda.

            Þá ítrekar stefnandi að hið auglýsta starf hafi verið starf „deildarstjóra sálgæslu presta og djákna“ og vísar til þess sem fram komi í auglýsingunni. Meðal umsækjenda um starfið hafi verið þrír starfandi sjúkrahússprestar hjá stefnda, en þeir hafi allir hlotið vígslu innan þjóðkirkjunnar af hendi biskups Íslands, sem sé faglegur yfirmaður þeirra. Fjórði umsækjandinn hafi verið djákni og hafi hún verið ráðin í starfið. Stefnandi byggir á því að augljóst sé að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið valinn, með tilliti til þess að sú er hafi verið ráðin sé djákni, sem sé starf innan þjóðkirkjunnar og um leið stefnda sem standi skör neðar en starf sjúkrahússprests. Þegar af þeirri ástæðu hafi borið að ráða prest í starfið.

            Stefnandi byggir í öðru lagi á því að Rósa Kristjánsdóttir hafi ekki átt fullnægjandi sálgæslunám að baki til að gegna starfinu. Í auglýsingu um starfið hafi komið fram að stór hluti starfsins væri klínísk (verkleg) vinna. Fyrsta hæfniskrafan í auglýsingu sé að umsækjandi hafi „framhaldsmenntun í sálgæslu (CPE)“. Í rökstuðningsbréfi stefnda til stefnanda, dags. 22. júlí 2016, sé tekið fram að þessi krafa hafi verið „meginkrafan í auglýsingu“. CPE-prófgráðan standi fyrir „Clinical Pastoral Education“, sem útleggja megi sem sérnám í verklegri sálgæslu. Stefnandi reisir stefnukröfur á því að Rósa Kristjánsdóttir hafi ekki haft fullnægjandi sálgæslumenntun til þess að hljóta starfið og jafnframt að ljóst megi vera að stefnandi hafi búið að mun meiri menntun en Rósa hvað sálgæslu varði, þ.m.t. fullnægjandi CPE-prófgráðu. Grunnviðmið til starfa sem sjúkrahússprestur sé að lágmarki 1.600 handleiddar klukkustundir eða ársnám í CPE. Sé þetta alþjóðlegt viðmið. Stefnandi hafi fullnægt þessu með sálgæslunámi sínu í Bandaríkjunum og með doktorsgráðu sinni og frekari menntun. Það hafi Rósa Kristjánsdóttir ekki gert. Hún hafi einungis lokið 400 stunda starfsnámi í sálgæslu.

            Stefnandi sé með prófgráðu í sálgæslu frá háskólasjúkrahúsi í Bandaríkjunum, Abbot Northwestern Hospital, en að baki þeirri prófgráðu sé ársnám. Að baki prófgráðunni séu 1.600 klukkustundir og feli prófið í sér fjórar einingar, þ.e. tvær einingar af „Basic“ námi og tvær einingar af „Advanced“ námi. Stefnandi hafi einnig lokið enn öðrum áfanga í sálgæslu (CPE) frá háskólasjúkrahúsinu United Hospital í Grand Forks í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum.

            Rósa Kristjánsdóttir hafi hins vegar einungis lokið stuttum sálgæslunámskeiðum samkvæmt umsóknargögnum hennar og starfsreynsla hennar af sálgæslu sé mun styttri og takmarkaðri en stefnanda. Það námskeið sem hún hafi setið hjá Sentralsykehuset í Akershus í Danmörku sé grunnnám í sálgæslu í 400 stundir og veiti henni ekki réttindi til þess að tilheyra samtökum sjúkrahússpresta eða til meistaranáms. Þá verði að telja að stefnda hafi mátt vera fullkomlega ljóst við rannsókn og mat á ráðningargögnum að nám Rósu í sálgæslu hafi í engu verið fullnægjandi til þess að hún hefði faglega umsjón með sálgæslustörfum presta og djákna. Sú skylda hafi hlotið að vera enn ríkari að þessu leyti þar sem stefndi sé háskólasjúkrahús.

            Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að ráðning Rósu Kristjánsdóttur brjóti í bága við lög um þjóðkirkjuna og starfsreglur um sérþjónustupresta. Nánar tiltekið hafi stefndi með ráðningunni brotið í bága við ákvæði laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Í auglýsingu um starfið komi fram að deildarstjóri muni hafa „faglega umsjón með störfum djákna og presta“. Stefnandi bendir á að engum vafa sé undirorpið að ákvæði laga nr. 78/1997 hafi átt hér við og útheimti að ráða beri prest í deildarstjóra- og umsjónarstarf með djáknum og prestum. Stefnda hafi sömuleiðis borið að gera prestsstöðu að hæfniskröfuþætti í auglýsingu um starfið sem þó hafi ekki verið gert. Þá telur stefnandi að stefndi hafi einnig brotið í bága við starfsreglur nr. 824/1999 um sérþjónustupresta, m.a. með því að hafa ekki skipað valnefnd við ráðninguna og haft um hana samráð við biskup. Enginn fulltrúi biskups hafi átt sæti í þeim hópi sem ræddi við umsækjendur. Þannig hafi enginn í þeim hópi haft þekkingu á innihaldi sálgæslumenntunar.

            Samkvæmt 44. gr. laga nr. 78/1997 skuli prestar með sérmenntun til starfans starfa á sjúkrastofnunum. Biskupi Íslands sé samkvæmt sama ákvæði heimilt að samþykkja að ráðnir séu prestar á vegum stofnana, en slíkir prestar teljist þá vera þjónandi prestar þjóðkirkjunnar, sbr. 33. gr. laganna. Samkvæmt 33. gr. lúti sjúkrahússprestur hjá stefnda tilsjón kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum þótt hann gegni launuðu starfi á vegum aðila sem ekki heyri undir þjóðkirkjuna. Biskupi sé jafnframt samkvæmt 44. gr. ætlað að setja sérþjónustuprestum ráðningarbréf, í samvinnu við þær stofnanir sem þeir séu ráðnir til, auk vígslubréfs. Í 47. gr. laganna sé mælt fyrir um að heimilt sé, m.a. í samráði við viðkomandi sjúkrahússprest, að ráða djákna til starfa á sjúkrastofnun. Ljóst megi vera af framangreindum lagaákvæðum, sem og með vísan til laga nr. 78/1997 í heild, að djákni geti ekki að lögum haft faglega umsjón með starfi presta. Hið sama eigi við um það að djákni sé gerður að yfirmanni presta hjá stofnun á borð við stefnda. Djákni geti í engum tilvikum annast prestsþjónustu, sem óhjákvæmilega fylgi starfsskyldum, en sé þess í stað ráðinn í samráði við sjúkrahússprest og hljóti því eðli máls samkvæmt að lúta faglegri umsjón prests. Að þessu virtu gildi því einu skýringar stefnda eftir á, þar sem mikið sé gert úr öðrum þáttum sem eigi að hafa ráðið ákvörðun um ráðningu. Af framanröktum lagaákvæðum leiði að þegar þess sé kostur að ráða einstakling sem sé sjúkrahússprestur beri stjórnvaldinu að ráða slíkan aðila í starfið.

            Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi með ráðningunni brotið í bága við starfsreglur kirkjuþings nr. 824/1999 um sérþjónustupresta sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka þar sem mælt sé fyrir um aðkomu og þátttöku biskups í ráðningu er varði presta á vegum m.a. sjúkrastofnana. Starfsreglur þessar séu settar með heimild í 44. og 59. gr. laga nr. 78/1997, sbr. 9. gr. starfsreglnanna. Samkvæmt reglunum sé áskilið að biskup þurfi að samþykkja þá málaleitan að ráðinn verði prestur þjóðkirkjunnar, hafa beri samráð við biskup og samvinnu um undirbúning og annað vegna starfsins og drög að ráðningarsamningi skuli kynnt fyrir biskupi. Teljist regla þessi vera til samræmis við framangreint ákvæði 33. gr. laga nr. 78/1997, enda lúti sjúkrahússprestur tilsjón kirkjulegra stjórnvalda samkvæmt því lagaákvæði. Samkvæmt sömu grein starfsreglna skuli drög að erindisbréfi biskups kynnt fyrir stefnda sem vinnuveitanda. Í því sambandi sé áréttað að biskup hafi samið erindisbréf sr. Sigfinns Þorkelssonar. Í 4. gr. starfsreglnanna sé mælt fyrir um að biskup skipi einn aðila í valnefnd sem veiti umsögn um þá sem sækja um starf sérþjónustuprests. Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda vegna ráðningarinnar, dags. 23. sept. 2016, sé staðfest að ekki hafi verið haft samráð við biskup Íslands í ráðningarferlinu vegna starfsins. Þetta sé einnig staðfest í bréfi sem biskup Íslands ritaði forstjóra stefnda, dags. 5. október 2016, í tilefni af ráðningunni. Svo hátti til að biskup hafi í öðrum ráðningum sjúkrahússpresta á umliðnum árum skipað fulltrúa sinn í ráðningarnefnd á vegum stefnda. Að auki séu dæmi um að auglýsingar um laus störf sjúkrahússpresta hafi verið samdar beinlínis af Biskupsstofu. Frá þessu hafi stefndi vikið með auglýsingu um stöðu deildarstjóra. Ekki sé því eingöngu um að ræða að vikið hafi verið frá lagakröfum við ráðninguna, heldur hafi einnig starfsreglur verið brotnar, en augljóslega hafi verið staðið þannig að ráðningarferlinu núna að vikið sé í meginatriðum frá því sem tíðkast hefur við ráðningar í störf sjúkrahússpresta stefnda og um leið í störf sem tengjast viðkomandi deild.

            Stefnandi vísar til langrar reynslu sinnar sem sjúkrahússprestur hjá stefnda og sem vígður prestur íslensku þjóðkirkjunnar. Samkvæmt erindisbréfi hans sem sjúkrahússprests starfi hann samkvæmt lögum nr. 78/1997. Tekið sé fram í erindisbréfinu að sjúkrahússprestar séu þeir prestar einir sem hlotið hafi sérmenntun til starfans. Í erindisbréfi sé enn fremur vísað til vígslubréfs stefnanda. Með vísan til þess og framanritaðs hafi borið að ráða sjúkrahússprest til starfans og byggir stefnandi á því að fram hjá honum hafi verið gengið við ráðningu með ólögmætum hætti þar sem sú lagaskylda hafi ekki verið virt.

            Stefnandi byggir á því að af þessari ótvíræðu lagaskyldu, sem hvíldi á stefnda, leiði að hvernig svo sem auglýsing um starf deildarstjóra djákna og presta hafi verið orðuð hafi stefndi ekki getað vikið sér undan því að ráða prest í starfið, enda hafi hann sannanlega verið að ráða í starf faglegan yfirmann með störfum presta. Hafa verði einnig í huga að stór hluti starfsins sé verkleg vinna, en djákni hafi ekki rétta eða nægjanlega menntun til þeirra starfa.

            Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að hið auglýsta starf hafi verið það sama og fyrirrennari hans gegndi. Þetta komi í ljós við samanburð á erindisbréfi sr. Sigfinns Þorkelssonar og umræddri auglýsingu um starf deildarstjóra, enda inntak starfanna og verkefni hin sömu. Þetta fái einnig stuðning í því að auglýst sé í starfið í framhaldi af því að sr. Sigfinnur hafi látið af starfinu fyrir aldurs sakir. Stefnandi byggir á því að sömu kröfur, hvað varðar m.a. starfsréttindi og menntun, hafi borið að gera til þess sem starfið fengi og þess sem starfinu hafði gegnt fram til ársins 2016.

            Stefnandi byggir einnig á því að sú staðreynd að prestur hafði sinnt starfi deildarstjóra áður en stefndi réð í starfið árið 2016, og að erindisbréf sr. Sigfinns sé sérstaklega byggt á ákvæðum laga nr. 78/1997, feli í sér viðurkenningu af hálfu stefnda á því að prestvígslu þurfi til þess að gegna starfinu og um leið að stefnda hafi borið að ráða prest í starfið.

            Stefnandi byggir í fimmta lagi á því að önnur atriði en þau sem komið hafi fram í starfsauglýsingu hafi verið gerð að aðalatriði í meðförum stefnda. Í samskiptum við stefnda eftir ráðninguna komi m.a. fram að meginmáli hafi skipt við mat á því hver ráðinn hafi verið reynsla, færni og þekking í stjórnun, samskiptafærni, þjónustulund og framtíðarsýn, sbr. rökstuðningsbréf stefnda, dags. 22. júlí 2016. Stefnandi byggir á því að umrædd atriði hafi aldrei getað vegið meira en sem aukaatriði við ákvörðunartöku, þar sem slíkar kröfur ryðji ekki út lagalegum kröfum um ráðningu prests í starfið eða því að hæfasti umsækjandinn sé valinn. Allt að einu hafi ákvörðun stjórnvaldsins um það hver yrði ráðinn ekki samræmst lögum eða meginreglum þeim sem virða bar við slíka ákvörðunartöku samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar og vinnuréttar.

            Þar fyrir utan fái stefnandi ekki séð, enda þótt heimilt hefði verið að gera reynslu af stjórnun að einhverju meginatriði við matið, hvernig stefndi hafi getað litið svo á að Rósa Kristjánsdóttir hefði reynslu af stjórnun. Gögn málsins beri ekki vott um að hún búi yfir neinni slíkri reynslu. Hins vegar liggi ótvírætt fyrir að stefnandi hafi haft þá reynslu. Nægi varðandi það að vísa til þess að hann hafi hátt í þrjá áratugi stýrt deild sjúkrahússpresta hjá stefnda og verið staðgengill forvera Rósu í starfi hjá stefnda.

            Í rökstuðningsbréfi stefnda til stefnanda, dags. 22. júlí 2016, komi fram að meðal þess sem stefndi hafi metið við ráðningu hafi verið „færni og þekking á klínískri vinnu við sálgæslu“. Stefnandi byggir á því að stefndi sé í engu fær um að leggja slíkt mat á hæfni umsækjenda til klínískrar (verklegrar) vinnu, enda hafi ekki komið fram að sértækt mat aðila með réttindi og menntun á sviði verklegrar sálgæslu hafi farið fram. Raunar sé gert ráð fyrir að nefnd samkvæmt 4. gr. starfsreglna nr. 824/1999 um sérþjónustupresta annist slíkt mat, en stefndi hafi farið á svig við þá skyldu að skipa þá nefnd og bjóða biskupi aðkomu að henni. Engu að síður sé ljóst að slíkt mat hafi enga þýðingu ef umsækjendur uppfylli tilsett skilyrði um menntun og starfsreynslu á sviði sálgæslu, þ.e. matið geti ekki gengið framar prófskírteini eða reynslu á umræddu sviði eða komið í stað menntunar og reynslu. Þegar af þeirri ástæðu verði að telja að ákvörðun sem tekin sé á grundvelli alls ófullnægjandi mats á hæfni sé haldin slíkum annmörkum að hún sé ógild.

            Af fyrirliggjandi matsramma, sem stefndi beitti við ráðningu, megi sjá að stefndi hafi sannanlega ekki metið hvernig umsækjendur uppfylltu kröfur laga og aðrar hæfniskröfur viðvíkjandi því að hafa faglega umsjón með störfum presta og djákna. Af spurningum í matsramma megi sjá að umsækjendum hafi verið falið að svara því hvað þeir teldu sig sjálfa hafa fram að færa til þess að sinna því faglega umsjónarstarfi.

            Stefnandi byggir í sjötta lagi á því að beiting stefnda á matsramma við töku ákvörðunarinnar um ráðningu eigi sér enga stoð í lögum, reglum eða öðrum réttarheimildum. Ekki verði séð að nein sértæk heimild sé til staðar í lögum eða reglum til notkunar matsramma sem þessa eða að niðurstöður af beitingu hans hafi að lögum nokkra þýðingu við ráðningu í störf hjá ríkinu. Með beitingu umrædds matsramma hafi stefndi vikið frá þeim kröfum sem stefnda hafi borið að gera til þess sem ráðinn var og um leið frá skilyrðum auglýsingar. Ljóst megi vera að matsramminn og stigagjöfin taki ekki tillit til þeirra hæfniskrafna og lagalegu krafna sem gera þurfti. Þannig hafi t.a.m. menntun, reynsla og prestvígsla engin áhrif á mat á umsækjendum samkvæmt matsramma og stigagjöf. Þess í stað séu gerð að aðalatriðum í matsrammanum og stigagjöf almenn huglæg atriði sem ráðningaraðilar meti, og virðist almennt notuð fremur við ráðningar á almennum vinnumarkaði. Sérstaka athygli veki að stefndi hafi í fyrirliggjandi bréfum í málinu ekki bent á neina réttarheimild sem matsramminn styðjist við.

            Stefnandi byggir í sjöunda lagi á því að stefndi hafi brotið í bága við reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meginreglur stjórnsýsluréttar og góða stjórnsýsluhætti. Sé ákvörðunin um ráðningu ólögmæt af þessari ástæðu.

            Hvað varði brot stefnda gegn lögmætisreglunni þá byggi stefnandi á því að ákvörðunin um ráðningu sé stjórnvaldsákvörðun samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993. Slíka ákvörðun verði að byggja á traustum og lögmætum grunni og sá sem hana taki verði að fara í einu og öllu að ákvæðum laga, m.a. laga nr. 78/1997, laga nr. 37/1993 og öðrum viðurkenndum meginreglum stjórnsýsluréttar. Málsmeðferð stefnda hafi verið verulega ábótavant að þessu leyti. Stefndi sé sem stjórnvald bundinn af því að taka ákvarðanir sem samræmist lögum, sbr. lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Með vísan til þess sem að framan greini megi ljóst vera að ákvörðunina skorti lögmæti og hafi hún því gengið í berhögg við umrædda meginreglu stjórnsýsluréttar.

            Hvað varði brot stefnda gegn réttmætisreglunni þá byggir stefnandi á því að í þeirri reglu felist að stjórnvaldsákvarðanir verði að vera málefnalegar. Svo hafi ekki háttað til um ákvörðun stefnda um ráðningu. Stefndi hafi haft uppi ómálefnaleg sjónarmið við ákvörðunartöku og val á því hver hlyti starfið, m.a. með því mati sem framkvæmt hafi verið á umsækjendum. Stefnda hafi borið við það mat að líta til þess augljósa og verulega munar sem hafi verið á Rósu Kristjánsdóttur og stefnanda hvað varði menntun, starfsréttindi og starfsreynslu, en einnig þeirrar staðreyndar að stefnandi hafði gegnt um árabil því starfi sem ráðið hafi verið í og einnig verið staðgengill fráfarandi deildarstjóra. Stefndi hafi hins vegar kosið að virða þau atriði að vettugi. Ekki geti talist málefnalegt sjónarmið að stefndi hafi við mat sitt litið svo á að hjúkrunarpróf Rósu Kristjánsdóttur, sem þó hafi ekki verið háskólagráða, og reynsla hennar af hjúkrunarstörfum hafi getað jafnast á við háskólamenntun og reynslu stefnanda sem tilskilin hafi verið og átt að vera í auglýst starf.

            Hvað varði brot stefnda gegn rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993 þá byggir stefnandi á því stefnda hafi verið og mátt vera fullkunnugt um þær lagalegu skyldur sem á honum hafi hvílt við ráðningu í starfið. Stefnda hafi borið, í samræmi við ákvæðið, að tryggja það að prestur yrði ráðinn í starfið, ef slíkur aðili sækti á annað borð um starfið. Fyrir liggi að stefndi hafi annað hvort ekki rannsakað málið nægjanlega út frá umsóknargögnum og framangreindu lagaboði eða kosið að virða lagafyrirmæli sem á honum hafi hvílt að vettugi við rannsókn málsins. Að virtum málsgögnum sé síðarnefnda ályktunin nærtækari. Stefndi hafi heldur ekki rannsakað hvort Rósa Kristjánsdóttir hefði fullnægjandi sálgæslupróf, og eins hafi ekki verið rannsakað frekar það sem stefnandi upplýsti stefnda um í ráðningarviðtali, að stefnandi hefði sinnt áður því starfi sem ráðið hafi verið í. Auk þess hafi ekki verið rætt við meðmælendur. Verulegar brotalamir hafi því verið á rannsókn málsins.

            Hvað varði meðalhófsreglu og rökstuðningsreglu laga nr. 37/1993 þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi jafnframt brotið gegn þeim reglum.

            Stefnandi lýsir því einnig varðandi fyrri dómkröfu hans, þ.e. um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, að ráðningin hafi verið hvort tveggja ólögmæt og háð svo verulegum annmörkum að hún sé ógildanleg að stjórnsýslurétti, sbr. framangreint, og því beri stefndi ábyrgð á því fjártjóni sem hann hafi valdið stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti. Leiti stefnandi viðurkenningardóms á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hafi stefnandi ótvíræða lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar og telji skilyrði skaðabótaábyrgðar uppfyllt og um leið sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni. Tjón stefnanda leiði af því að hann hafi ekki hlotið ráðningu í starf deildarstjóra þrátt fyrir að hafa uppfyllt skilyrði laga til að hljóta starfið og sé tjónið því talið nema launum deildarstjóra í a.m.k. tvö ár frá ráðningu, að frádregnum launum sem hann hafi fengið greidd í því starfi sem hann sinni á sama tímabili, sbr. dómvenju um slíkan frádrátt.

            Stefnandi lýsir því að hann reisi miskabótakröfu sína á því að stefndi hafi með framferði sínu í tengslum við hina ólögmætu ráðningu valdið stefnanda ólögmætri meingerð gegn æru hans og persónu og beri því bótaábyrgð vegna þess miskatjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir. Til þess verði einnig að líta í þessu sambandi að stefnandi hafi uppfyllt allar kröfur laga til þess að hljóta starfið og verið óumdeilanlega mun hæfari til þess að gegna starfinu en sú er ráðin hafi verið, að því er varði menntun, starfsréttindi og starfsreynslu, og sé því miski hans enn meiri en ella. Með því framferði að stefndi hafi þverbrotið ákvæði laga nr. 78/1997 með ráðningunni í starfið hafi hann valdið stefnanda, sem hafi haft lögbundna stöðu og fullnægjandi menntun sem umsækjandi til þess að hljóta starfið, álitshnekki, rýrt starfsheiður hans, smánað hann og valdið honum miklum óþægindum. Stefnandi byggi enn fremur á því að með ráðningu í starfið hafi staða stefnanda, menntun, starfsferill og starfsreynsla verið sniðgengin á einkar niðurlægjandi hátt og verið í raun höfð að engu. Stefnandi bendi á það að einu gildi varðandi miskabótakröfuna þó að fleiri umsækjendur en hann hafi haft hin tilskildu réttindi og stöðu samkvæmt lögum. Miskatjón stefnda af því að hafa verið sniðgenginn ólöglega við ráðningu samkvæmt framansögðu liggi fyrir.

            Um lagarök vísar stefnandi einkum til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, vinnuréttar, stjórnsýsluréttar og kirkjuréttar. Stefnandi vísar einnig til almennu skaðabótareglunnar, til laga nr. 78/1997, til laga nr. 37/1993 og til laga nr. 91/1991, m.a. til 2. mgr. 25. gr. þeirra laga. Þá er vísað til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 

                                                                        III

            Stefndi vísar málsástæðum stefnanda á bug. Sýknukröfu sína byggir stefndi einkum á því að umrætt starf deildarstjóra tilheyri stjórnkerfi stefnda og það sé ótvírætt á valdi stefnda að ákveða hæfniskröfur og málefnaleg sjónarmið sem leggja skuli til grundvallar við val á milli umsækjenda. Jafnframt sé það á valdi stefnda að ákveða vægi einstakra þátta sem komi til skoðunar við mat og val á milli umsækjenda.

            Í íslenskum rétti hafi ekki verið lögfestar almennar reglur um það hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um veitingu á opinberu starfi, þegar almennum hæfisskilyrðum sleppi. Um almenn hæfisskilyrði vísist hér til 6. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en ekki sé að finna ákvæði í sérlögum um almenn hæfisskilyrði hvað varði starf deildarstjóra sálgæslu presta og djákna við Landspítala. Þegar lögmæltum hæfisskilyrðum eða sjónarmiðum sem skylt sé að byggja á við skipun, setningu eða ráðningu í starf hjá ríkinu sleppi, þá komi það í hlut stjórnvalds að ákveða á hvaða sjónarmiðum skuli byggja við val milli hæfra umsækjenda. Sjónarmiðin verði þó að vera málefnaleg og í eðlilegum tengslum við það starf sem um ræði. Það sé mat stefnda að fyllilega hafi verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum og að þær kröfur sem gerðar hafi verið til hæfis umsækjenda hafi verið í eðlilegum tengslum við það starf sem auglýst hafi verið.

            Stefndi leggur áherslu á að hann hafi ekki verið að ráða í starf sjúkrahússprests eða prests við stefnda, sem ákvæði laga nr. 78/1997 taki til. Í auglýsingu um starfið komi skýrt fram að verið sé að leita að deildarstjóra með próf í sálgæslu og reynslu og þekkingu á stjórnun, en ekki hafi verið gerð krafa um háskólapróf. Það hafi þannig ekki verið um það að ræða að verið væri að ráða í starf prests samkvæmt þjóðkirkjulögum, heldur í starf stjórnanda hjá stefnda.

            Stefndi vísar því á að bug að honum hafi borið að ráða prest og verið óheimilt að ráða djákna. Lagatúlkanir stefnanda hvað þetta varði séu að mati stefnda óljósar og langsóttar og telji stefndi að 44. gr. laga nr. 78/1997 standi ekki í vegi fyrir því á nokkurn hátt að ráða megi djákna til að sinna starfi deildarstjóra.

            Ítrekað hafi verið staðfest af umboðsmanni Alþingis, sem og í dómafordæmum, að niðurstaða um það hver hafi bestu menntunina þegar valið sé á milli umsækjenda um opinbert starf geti eftir atvikum ráðist af fleiri þáttum en fjölda prófgráða eða eininga á háskólastigi. Skipti þar mestu hvort sú menntun sem umsækjandi hafi aflað sér verði talin gera hann hæfari til að sinna því starfi sem um ræðir.

            Skýrt hafi komið fram í starfsauglýsingunni að ekki væri krafist háskólaprófs í guðfræði eða prestvígslu, heldur hafi einkum verið leitað eftir því að umsækjendur hefðu framhaldsmenntun í sálgæslu. Allir fjórir umsækjendurnir sem kallaðir hafi verið í viðtal hafi uppfyllt það hæfisskilyrði.

            Af hálfu stefnda sé einnig vakin athygli á því að ýmis atriði til viðbótar við menntun ráði því hvernig umsækjendur um stöður hjá stefnda hafa verið metnir. Í því sambandi megi taka sem dæmi framkvæmdastjóra sviða stefnda, sem séu í efsta stjórnunarlagi spítalans næst á eftir forstjóra. Framkvæmdastjórarnir séu valdir til starfa að undangengnu ráðningarferli þar sem valdir séu úr hópi umsækjenda þeir sem hæfastir séu taldir til að vera stjórnendur og leiðtogar. Menntun og jákvæð reynsla af störfum þeirra skipti vissulega máli og þeir verði að sjálfsögðu að uppfylla lágmarkskröfur sem settar séu varðandi þann þátt, en það séu aðrir ekki síður mikilvægir þættir sem ráði úrslitum um val, svo sem jákvætt lífsviðhorf, hæfni til tjáningar í ræðu og riti, framúrskarandi leiðtoga- og samskiptahæfileikar, frumkvæði, drifkraftur og stefnumótandi hugsun og fleira. Í því sambandi veki stefndi athygli á því að fjórir af sjö framkvæmdastjórum klínískra (verklegra) sviða á spítalanum séu hjúkrunarfræðingar, eins og sú sem ráðin hafi verið deildarstjóri sálgæslu presta og djákna. Sem framkvæmdastjórar séu þeir yfirmenn sérfræðilækna, m.a. yfirlækna og fjölda annarra, sem séu með meiri formlega menntun en þeir. Einnig veki stefndi athygli á því að þegar nýtt skipurit hafi tekið gildi á spítalanum árið 2009 hafi tveir af framkvæmdastjórum spítalans verið með grunnmenntun í hjúkrun frá Hjúkrunarskóla Íslands, eins og Rósa Kristjánsdóttir, og ekkert liggi fyrir um að athugasemdir hafi verið gerðar um að menntun þeirra hafi ekki uppfyllt grunnkröfur starfsins.

            Stefndi telji ljóst samkvæmt framansögðu að enda þótt menntun skipti alltaf máli við mat á hæfni umsækjenda, þá sé hún ekki slíkt grundvallaratriði að úrslitum eigi að ráða á kostnað annars konar hæfni og hæfileika. Stefndi hafi talsvert svigrúm til mats hvað þetta varðar og sé skylt að líta til þess með hvaða hætti menntun og starfsreynsla, auk persónulegra eiginleika viðkomandi umsækjanda, nýtist best í starfi, allt með hliðsjón af auglýsingu um starfið. Enn og aftur sé ítrekað að ekki hafi verið gerð sérstök krafa um háskólamenntun í auglýsingunni, heldur krafa um framhaldsmenntun í sálgæslu og það skilyrði hafi sú sem ráðin hafi verið í starfið uppfyllt, auk stefnanda og tveggja annarra umsækjenda.

            Það sé mat stefnda að heimilt hafi verið að haga auglýsingu í starfið með þeim hætti sem gert hafi verið og að þær kröfur sem þar hafi komið fram rúmist innan þess svigrúms sem handhafi ráðningarvalds hafi til að meta hvað leggja beri til grundvallar við ráðningu í starf.

            Stefndi hafni fullyrðingu stefnanda um að aðrir þættir en menntun og reynsla hafi verið aukaatriði þegar hæfni umsækjenda í hið auglýsta starf hafi verið metin.

            Starfið sem um ræðir sé, eins og að framan greini, um 75% klínískt (verklegt) starf, þar sem viðkomandi starfsmaður verði, eðli málsins samkvæmt, að geta sinnt verkefnum deildarinnar samhliða öðrum starfsmönnum. Þeir umsækjendur sem komið hafi til greina séu og hafi verið starfsmenn deildarinnar í langan tíma, þrír prestar og einn djákni. Þeir hafi allir sinnt starfi sínu óaðfinnanlega og því ljóst að stefndi hafi treyst þeim vel til að sinna sínu starfi af samviskusemi og trúmennsku hér eftir sem hingað til. Það sé þannig ljóst að allir hafi uppfyllt vel það skilyrði að geta sinnt áfram hinum klíníska hluta starfsins og engar forsendur hafi verið til að gera upp á milli þeirra eða raða þeim niður á grundvelli þess þáttar.

            Hvað varði hinn hluta starfsins, þ.e. um það bil 25% stjórnunarhlutann, þá skipti einmitt þeir þættir sem stefnandi kalli aukaatriði mestu máli að mati stefnda. Það hafi ítrekað verið staðfest í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis að stjórnvald hefur fulla heimild til að ákveða vægi einstakra þátta þegar komi að vali á umsækjendum í ráðningu í opinbert starf. Stjórnvaldi sé þannig heimilt að leggja áherslu á persónulega eiginleika umsækjenda við ákvörðun um ráðningu, enda sé almennt talið málefnalegt að byggja á slíkum sjónarmiðum við ráðningar í opinber störf. Það sem skipti máli sé að fram fari heildstætt mat á þeim sjónarmiðum sem komi fram í rökstuðningi um starfið og slíkt heildstætt mat hafi einmitt farið fram. Lagðar hafi verið sömu spurningar fyrir alla umsækjendurna sem komið hafi í viðtal, þau atriði sem áhersla hafi verið lögð á hafi verið ákveðin fyrir fram og verið í samræmi við auglýsingu um starfið, allir hafi fengið u.þ.b. sama tíma til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í viðtalinu og byggt hafi verið á heildstæðu mati þriggja valnefndarmanna sem allir hafi gefið umsækjendum stig í samræmi við frammistöðu þeirra í viðtalinu. Stefndi telji því að gætt hafi verið málefnalegra sjónarmiða við ráðningu í starfið og að heimilt hafi verið að veita öðrum þáttum en háskólamenntun, sem ekki hafi verið krafist í auglýsingu, meira vægi við val á hæfasta umsækjandanum.

            Stefndi mótmæli því að stefnandi hafi verið fastur staðgengill deildarstjóra frá árinu 2000 og þar til sá síðarnefndi lét af störfum á árinu 2016. Hins vegar liggi fyrir í gögnum málsins að stefnandi hafi í fjögur skipti leyst deildarstjórann af á árunum 2001 til 2004. Nánar tiltekið hafi stefnandi leyst deildarstjórann af frá 15. mars 2001 til 22. mars 2001, frá 9. júlí 2001 til 19. ágúst 2001, frá 26. júní 2003 til 1. ágúst 2003 og frá 29. júlí 2004 til 29. ágúst 2004. Frá þeim tíma hafi stefnandi ekki leyst deildarstjórann af sem staðgengill.

            Ódagsettum og óundirrituðum erindisbréfum sr. Sigfinns Þorleifssonar, stefnanda og Rósu Kristjánsdóttur sé mótmælt og sönnunargildi þeirra andmælt, einkum því sem þar segi um að stefnandi sé staðgengill deildarstjórans í forföllum. Stangist efni erindisbréfs stefnanda enda á við fyrirliggjandi yfirlýsingu sr. Sigfinns.

            Með hliðsjón af framangreindu telji stefndi að sú stjórnunarreynsla stefnanda sem rakin sé í stefnu sé ekki jafn mikil og þar sé haldið fram og í það minnsta hafi stefnandi ekki leyst deildarstjórann af síðustu 12 árin sem deildarstjórinn fyrrverandi gegndi stöðunni. Hvað varði stjórnunarreynslu Rósu Kristjánsdóttur þá vísist nánar til rökstuðningsbréfs stefnda til stefnanda, dags. 22. júlí 2016.

            Því sé hafnað að matsramma stefnda hafi skort lagastoð. Í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis um ráðningar hjá opinberum aðilum hafi ítrekað komið fram ábendingar og athugasemdir um skyldu stjórnvalda til að beita samræmdum, stöðluðum aðferðum í viðtölum og við samanburð matsþátta í ráðningarferli. Sérstök áhersla sé lögð á skýrleika í framsetningu á mati og niðurstöðum. Til að mæta þessari skyldu hafi í máli þessu verið beitt aðferðum sem séu vel þekktar og viðurkenndar, til dæmis fyrir fram ákveðnum spurningum sem beint sé til allra sem valdir hafi verið til viðtals, sambærilegum tímaramma viðtals og matsramma fyrir viðmælendur þar sem einstakir þættir séu metnir. Hér sé því um að ræða verkferil og verkfæri sem notuð séu til að mæta lagaskyldu um vönduð og samræmd vinnubrögð í ráðningarferlinu og aðdraganda ákvörðunar og séu ýmis dæmi um að þessum aðferðum hafi verið beitt án athugasemda frá umboðsmanni Alþingis. Þá komi þessi aðferð jafnframt til móts við jafnræðis- og rannsóknarreglu laga nr. 37/1993 og skyldu samkvæmt 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að skrá upplýsingar sem notaðar séu sem grundvöllur ákvörðunar.

            Þeir þættir sem fram komi í matsramma séu málefnalegir og í fullu samræmi við auglýsinguna um starfið. Þar sé rætt um skýra framtíðarsýn, framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfileika, framþróun, þjónustu og stjórnun, sem séu allt mikilvægir eiginleikar deildarstjóra sálgæslu presta og djákna. Með hliðsjón af framansögðu andmælir stefndi því að matsramminn og þeir þættir sem þar séu tilgreindir séu án lagastoðar eða hafi verið í ósamræmi við auglýsingu um starfið.

            Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn. Sú sem ráðin hafi verið í starfið hafi verið með lengri starfsaldur en stefnandi, þ.e. 40 ára starfsreynslu úr heilbrigðiskerfinu, fyrst sem hjúkrunarfræðingur frá árinu 1981 og síðan sem djákni. Það hafi verið mat valnefndarmanna að Rósa hefði mikilvæga reynslu og menntun umfram stefnanda og aðra umsækjendur sem hjúkrunarfræðingur, en sú reynsla nýtist vel í samskiptum við sjúklinga og aðstandendur þeirra í starfi á sjúkrahúsi og gefi að mati stefnda aðra sýn á þarfir notenda þjónustunnar. Þá hafi Rósa reynslu af forystustörfum og reynslu af því að veita endurgjöf og taka á erfiðum starfsmannamálum vegna nema í djáknanámi, auk þess sem hún hafi verið talin sterk í mannlegum samskiptum og talin líkleg til að nálgast leiðtogahlutverkið sem jafningi, sem góður hlustandi og skipuleggjandi og talin vera líkleg til að tileinka sér þjónandi forystu. Jafnframt hafi Rósa reynslu af stýringu fjármála og launakostnaðar og hún hafi haft skýrar hugmyndir um það hvernig áherslupunktar í stefnu spítalans gætu birst í þjónustu sálgæsluteymisins. Allt þetta, auk frekari röksemda sem fram komi í rökstuðningsbréfi spítalans, dags. 22. júlí 2016, hafi orðið til þess að valnefndin taldi Rósu vera hæfasta umsækjandann.

            Stefndi hafni því að stefnandi hafi verið hæfasti umsækjandinn og jafnframt sé því hafnað að valið hafi staðið milli stefnanda og Rósu Kristjánsdóttur. Í þessu sambandi horfi stefnandi fram hjá því að tveir aðrir umsækjendur hafi komið til greina í starfið, sem báðir hafi verið metnir hæfir eins og stefnandi og Rósa og báðir hafi hlotið fleiri stig en stefnandi úr matsviðtalinu. Báðir þessir umsækjendur hafi verið prestar eins og stefnandi. Stefndi telji því að valið hafi ekki staðið milli stefnanda og Rósu, heldur milli Rósu og þess umsækjanda sem næstur henni hafi komið að stigum út úr viðtalinu.

            Að því er varði fullyrðingar í stefnu um að stjórnvöldum beri að ráða í starfið þann umsækjanda sem hafi mesta menntun og starfsreynslu til að bera til að sinna hinu auglýsta starfi, þá vísist um það sem rakið hafi verið hér á undan um starfsreynslu Rósu og stefnanda hvað varði störf hjá stefnda. Jafnframt vísist til þess sem áður hafi verið rakið um að dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafi viðurkennt að niðurstaða um það hver hafi bestu menntunina þegar valið sé á milli umsækjenda um opinbert starf geti eftir atvikum ráðist af fleiri þáttum en fjölda prófgráða eða eininga á háskólastigi.

            Stefndi telji samkvæmt þessu að sú sem ráðin hafi verið í starfið hafi verið hæfasti umsækjandinn og að menntun og starfsreynsla hennar muni nýtast best í starfið.

            Hvað varði meinta nauðsyn á aðkomu biskups að ráðningarferli þá fjalli 33. gr., 44. gr. og 47. gr. laga nr. 78/1997 vissulega um heimild fyrir aðkomu biskups með tilteknum hætti við ráðningu presta og djákna til starfa á vegum stofnana og félagasamtaka. Þótt þarna sé um heimildarákvæði að ræða þá hafi af hálfu Landspítala verið leitast við það í áranna rás að eiga gott samstarf við biskup þegar ráðnir hafi verið sjúkrahússprestar og djáknar til spítalans.

            Árétta verði það sem áður hafi komið fram um að ekki hafi verið um að ræða ráðningu í starf sjúkrahússprests eða prests hjá stefnda, heldur hafi hér verið ráðið í starf deildarstjóra sálgæslusviðsins. Ekkert sé að finna í lögum nr. 78/1997 sem sýni fram á að sérstaklega þurfi að bera það undir biskup hverjum verði falið að sinna stjórnun í samræmi við skipurit stofnunarinnar, þ.e. deildarstjórn samhliða venjulegum verkefnum í klínísku starfi og sálgæslu. Þá bendi stefndi á samantekt um ábyrgðarsvið stjórnenda hjá stefnda. Þar sé tiltekið eftir hvaða lögum stjórnendur stefnda starfi og hvergi sé þar minnst á lög nr. 78/1997. Stefndi hafi því ekki talið sér skylt að bera málið undir biskup, enda hafi hér verið um að ræða mál sem alfarið hafi fallið undir ráðningarvald forstjóra stefnda, eða þess stjórnanda sem hafi fengið það vald framselt. Stefndi telji að túlka beri takmarkanir á ráðningar- og valrétti forstjóra þröngt í ljósi almennrar reglu um að það sé á hans valdi að ráða starfsmenn stofnunarinnar, þar á meðal deildarstjóra og aðra stjórnendur. Þá bendi stefndi einnig á að ekki verði annað séð en að biskup sé sammála því að ráðningarvaldið sé alfarið á ábyrgð stjórnenda Landspítalans, sbr. bréfaskipti stefnda og biskups sem fyrir liggi í málinu.

            Þá hafni stefndi því alfarið að brotið hafi verið gegn reglum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar við ráðninguna í starf deildarstjóra.

            Hvað lögmætisregluna varði þá sé á því byggt af hálfu stefnda að ákvörðun um ráðningu í starf deildarstjóra hafi byggt á traustum og lögmætum grunni og að farið hafi verið eftir lögum nr. 37/1993 og viðurkenndum meginreglum stjórnsýsluréttar. Hins vegar sé því hafnað af hálfu stefnda að honum hafi borið að fara eftir lögum nr. 78/1997 við ráðninguna og vísist nánar til rökstuðnings að framan um þetta efni. Um leið og fallist sé á að um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993 þá hafni stefndi því að ákvörðunin sé haldin svo verulegum annmarka að ógildanleg sé.

            Hvað varði réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins þá feli hún það í sér að stjórnvaldsákvarðanir þurfi að vera málefnalegar. Stefndi hafnar málsástæðu stefnanda um að byggt hafi verið á ómálefnalegum sjónarmiðum. Sýnt hafi verið fram á að ákvörðunin hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum, auk þess sem því sé hafnað að stefnandi hafi verið staðgengill deildarstjóra um árabil.

            Hvað varði rannsóknarregluna þá telur að stefndi að hún hafi verið virt í hvívetna við undirbúning ráðningar deildarstjóra. Eins og málsgögn beri með sér hafi umsækjendur verið metnir með sambærilegum hætti og þeir spurðir um sömu atriði við gerð hæfismatsins. Þá hafi valnefndarmenn kynnt sér rækilega umsóknargögn, þar á meðal upplýsingar um menntun sem komið hafi fram í þeim. Vísist nánar til rökstuðnings stefnda að framan um þetta efni, þar á meðal um það hvers vegna ekki hafi verið talin þörf á því að ræða við umsagnaraðila sem umsækjendur vísuðu til, enda hafi allir umsækjendurnir verið starfsmenn sálgæslusviðsins og valnefndarmönnum kunnugir. Hafi málið þannig verið rannsakað gaumgæfilega og nægilega upplýst til þess að hægt væri að taka ákvörðun í því.

            Hvað varði meðalhófsregluna þá hafni stefndi því að hafa brotið meðalhófsreglu laga nr. 37/1993. Stefndi hafni því alfarið að ekki hafi verið gætt allra þeirra lagasjónarmiða sem við hafi átt í málinu og vísi því einnig á bug að borið hafi að ráða prest í starfið og vísi nánar um þetta til rökstuðnings að framan. Jafnframt minni stefndi á að biskup hafi ekki gert athugasemdir við ráðningu djákna í starfið, eftir að skýringar stefnda á ráðningunni hafi verið sendar biskupi.

            Hvað varði rökstuðningsreglu 22. gr. laga nr. 37/1993 þá sé málsástæðu stefnanda um brot á þeirri reglu alfarið hafnað, enda hafi stjórnvaldsákvörðunin falist í því að ákveða að ráða Rósu í starf deildarstjóra og rökstuðningur hafi sannarlega verið veittur fyrir þeirri ákvörðun, sbr. rökstuðningsbréf, dags. 22. júlí 2016. Með því bréfi hafi stefndi uppfyllt skyldu sína samkvæmt 21. og 22. gr. laga nr. 37/1993.

            Loks tekur stefndi fram að viðurkenningarkröfu stefnanda sé alfarið hafnað, enda telji stefndi að ákvörðun um ráðningu Rósu Kristjánsdóttur í starf deildarstjóra hafi verið fullkomlega lögmæt, þar sem hún hafi verið hæfasti umsækjandinn. Í þessu sambandi bendi stefndi á að fjórir umsækjendur hafi komið til greina í starfið og auk Rósu hafi tveir aðrir umsækjendur verið metnir hæfari en stefnandi. Stefndi telji því að stefnandi hafi ekki verið næstur í röðinni á eftir Rósu samkvæmt niðurstöðu mats sem gert var í framhaldi af viðtölum. Jafnframt byggi stefndi á að játa verði stöðuveitanda svigrúm til að meta persónulega eiginleika og kosti umsækjenda og líta þá einnig sérstaklega til frammistöðu í viðtölum. Telji stefndi samkvæmt öllu framansögðu að fyrir liggi að þetta mat hafi verið málefnalegt og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að borið hafi að ráða hann í stöðuna sem auglýst var. Beri samkvæmt framasögðu að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfu stefnanda, enda hafi ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti gengið fram hjá stefnanda við ráðningu í umrædda stöðu deildarstjóra.

            Þá hafni stefndi því að með ráðningu Rósu Kristjánsdóttur í stöðu deildarstjóra hafi stefndi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Með vísan til framangreindra röksemda telji stefndi að skilyrði til greiðslu miskabóta séu ekki fyrir hendi, þar sem engri ólögmætri meingerð hafi verið fyrir að fara gagnvart stefnanda og á engan hátt hafi verið vegið að starfsheiðri hans, persónu eða æru. Vísist sérstaklega til þess sem rakið hafi verið um að samkvæmt niðurstöðum úr viðtölum valnefndar við umsækjendur, þá hafi stefnandi ekki komið næstur á eftir Rósu Kristjánsdóttur og hafi stefnanda því ekki tekist að sýna fram á að honum hafi borið starf deildarstjóra, fremur en þeim tveimur umsækjendum sem komu næstir á eftir Rósu úr matinu eftir viðtalið. Beri því að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda.

            Til stuðnings lækkunarkröfu stefnda sé vísað til allra framangreindra málsástæðna, sem að mati stefnda eigi að leiða til lækkunar miskabótakröfu, fallist dómurinn á hana. Telji stefndi að miskabótakrafan sé ekki í samræmi við dómafordæmi í sambærilegum málum.

 

                                                                        IV

            Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið óheimilt, einkum á grundvelli 33. og 44. gr. laga nr. 78/1997, að ráða í starf deildarstjóra sálgæslu djákna og presta án aðkomu biskups. Á þetta verður ekki fallist. Í 33. gr. laganna kemur fram að prestar lúti tilsjón kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum. Ljóst er því að prestur sem starfar á sjúkrahúsi ber annars vegar starfsskyldur á grundvelli ráðningarsambands við vinnuveitanda sinn og jafnframt lögbundnar skyldur gagnvart kirkjulegum stjórnvöldum. Slíkt felur ekki mótsögn í sér, enda er með þessu lögð áhersla á ákveðið faglegt sjálfstæði prests gagnvart þeim aðilum sem hann starfar hjá ef þeir heyra ekki undir þjóðkirkjuna, svo sem við á um sjúkrahús, þannig að í kirkjulegum efnum lúti prestur einvörðungu yfirstjórn kirkjulegra stjórnvalda þótt hann verði að öðru leyti að hlíta þeim starfsreglum sem við eiga á viðkomandi vinnustað. Þennan skilning á lagaákvæðinu staðfesta lögskýringargögn. Í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 78/1997 segir að biskupi Íslands sé heimilt að samþykkja að ráðnir séu prestar á vegum stofnana og félagasamtaka. Teljist þeir prestar vera þjónandi prestar þjóðkirkjunnar, sbr. 33. gr. laganna. Þá kemur fram í 3. mgr. 44. gr. laganna að biskup Íslands setji sérþjónustuprestum ráðningarbréf, í samvinnu við þær stofnanir sem þeir séu ráðnir til, auk vígslubréfs.

            Þessi lagaákvæði gilda samkvæmt orðalagi sínu um tilvik þar sem opinberar stofnanir hyggjast auglýsa eftir presti til starfa. Ákvæðin verða aftur á móti ekki skilin á þann veg að opinberri stofnun, á borð við stefnda, sé óheimilt að auglýsa starf deildarstjóra sálgæslu djákna og presta án sérstakrar aðkomu biskups, enda var þar um að ræða starf þar sem ekki var gerður nokkur áskilnaður um embættispróf í guðfræði, sbr. orðalag starfsauglýsingar stefnda. Sjónarmið stefnanda um að prestur geti ekki verið undirmaður starfsmanns með aðra menntun en hann býr sjálfur yfir hrófla ekki við þessari niðurstöðu, enda leiðir það beinlínis af 33. gr. laga nr. 78/1997 að prestar njóta, eins og áður segir, ákveðins faglegs sjálfstæðis í störfum sínum fyrir utan þjóðkirkjuna þótt þeir verði að öðru leyti að hlíta þeim starfsreglum sem við eiga á viðkomandi vinnustað. Er því engan veginn útilokað að yfirmaður deildar búi að einhverju leyti að annarri menntun en aðrir starfsmenn deildarinnar.

            Stefndi starfar meðal annars á grundvelli laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og telst vera ríkisstofnun. Ráðning í opinbert starf, á borð við stöðu deildarstjóra sálgæslu djákna og presta, telst stjórnvaldsákvörðun. Af því leiðir að lög nr. 37/1993 gilda um slíkar ráðningar ásamt öðrum reglum íslensks stjórnsýsluréttar, þar á meðal sú grundvallarregla að veitingarvaldshafa ber að velja þann umsækjanda sem hæfastur verður talinn með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hann hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á.

            Framangreind grundvallarregla kom ekki í veg fyrir að stefndi legði við ráðningu í starf deildarstjóra áherslu á stjórnunarhæfileika umsækjenda. Aftur á móti mátti slík áhersla ekki verða til þess að önnur þýðingarmikil sjónarmið yrðu virt að vettugi. Í greinargerð stefnda kemur fram að áætlað sé að 25% af vinnutíma deildarstjóra fari í stjórnun en 75% vinnutímans fari í klíníska (verklega) vinnu, þ.e. almenn verkefni sambærileg þeim sem aðrir starfsmenn deildarinnar sinna á sviði sálgæslu. Af hálfu stefnanda var ekki gerð tilraun til að hnekkja þessu mati eða það sérstaklega dregið í efa. Verður það mat því lagt til grundvallar. Af þessu leiðir að sálgæsla telst meginviðfangsefni starfsins þegar litið er til umfangs slíkra verkefna í starfinu. Sú ályktun fær auk þess nokkra stoð í orðalagi rökstuðningsbréfs stefnda, dags. 22. júlí 2016, þar sem rætt er um að „meginkrafan“ í auglýsingu hafi verið krafa um framhaldsmenntun í sálgæslu (CPE).

            Vegna starfa sinna hjá stefnda voru umsækjendurnir fjórir, sem boðaðir voru í viðtal, allir taldir uppfylla það skilyrði að geta sinnt sálgæslu með fullnægjandi hætti. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og framburði nefndarmanna fyrir dómi en að nefndarmenn hafi þar með ekki talið nauðsynlegt að framkvæma nánari könnun á þessum þætti í ráðningarferlinu, þ.e. menntun og hæfni umsækjenda á sviði sálgæslu, heldur talið rétt að einblína á stjórnunarþátt starfsins, sem stefndi metur eins og áður segir sem 25% þátt í starfinu.

            Til viðbótar við þetta verður að líta til þess að nefndarmenn sem annast áttu ráðninguna bjuggu ekki yfir sérstakri þekkingu á sálgæslu. Slíkt samsetning matsnefndar getur talist forsvaranleg, en þá reynir eðli máls samkvæmt í ríkari mæli á umsagnir þeirra sem upplýst geta um starfshæfni umsækjenda á sviði sálgæslu. Slíkra umsagna var aftur á móti hvorki leitað með formlegum né óformlegum hætti, eins og María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs stefnda, staðfesti fyrir dómi, enda þótt umsækjendur hefðu sjálfir bent á umsagnaraðila í umsóknum sínum, en sérstaklega virtist gert ráð fyrir því í rafrænu ráðningakerfi stefnda að benda ætti á umsagnaraðila. Vegna langvarandi starfa þeirra fjögurra umsækjenda, sem boðaðir voru í viðtal, hjá stefnda hefði auk þess komið til greina að leita umsagna innan sjúkrahússins um færni þeirra í störfum við sálgæslu, til dæmis hjá fráfarandi deildarstjóra, en eins og áður segir var það ekki gert.

            Að öllu framangreindu virtu verður ekki ráðið að nokkuð heildstætt mat eða samanburður hafi farið fram á menntun eða hæfni umsækjenda til að sinna sálgæslu, sem telst þó til 75% starfsskyldna deildarstjóra. Þótt stefnda hafi verið heimilt, eins og áður segir, að leggja áherslu á stjórnunarþáttinn þá gat hann ekki gengið svo langt að leggja í reynd ekkert heildstætt mat á menntun og hæfni umsækjenda varðandi meginviðfangsefni starfsins. Fullnægði stefndi því ekki þeim kröfum til rannsóknar á máli, sem honum bar að gera samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993, og sem var nauðsynleg forsenda þess að stefndi gæti talist hafa staðið undir þeirri skyldu að ráða hæfasta umsækjandann.

            Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi ekki litið til stjórnunarreynslu sinnar þegar matsnefndin lagði mat stjórnunarreynslu og þekkingu umsækjenda á stjórnun. Fyrir liggur að stefnandi bjó að umtalsverðri stjórnunarreynslu á sviði sálgæslu í starfi hjá forvera stefnda, Ríkisspítölum. Þannig kemur fram í 3. gr. erindisbréfs stefnanda, dags. 23. október 1990, sem gefið var út af Ríkisspítölum, að stefnandi skuli veita forstöðu þeirri skor er nefnist „Sjúkrahússprestur“ og hafi þar með umsjón með þjónustu þeirra presta sem sinni prestsþjónustu á Ríkisspítölum. Þetta eigi enn fremur við um þá guðfræðinema sem tengist skorinni á námstíma sínum. Meðal þeirra undirmanna sem störfuðu undir stjórn stefnda var Rósa Kristjánsdóttir, sem ráðin var á skor stefnanda árið 1997. Þann 22. desember 1997 var nýtt erindisbréf stefnanda gefið út af stefnda. Var þar tekið fram í 2. gr. að stefnandi veitti forstöðu „skor sjúkrahússpresta“ á Ríkisspítölum og hefði með höndum skipulagningu þjónustunnar og faglega umsjón. Stefndi varð, eins og áður segir, til við sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 2000. Tók sr. Sigfinnur Þorleifsson þá við stjórn starfseiningarinnar, en stefnandi gegndi a.m.k. fjórum sinnum staðgengilsstörfum í fjarveru sr. Sigfinns eftir sameininguna, eins og fyrirliggjandi gögn bera með sér.

            Óumdeilt er að við mat á stjórnunarreynslu umsækjenda leit matsnefndin ekki til stjórnunarreynslu stefnanda úr starfi hans við sálgæslu hjá forvera stefnda, Ríkisspítölum. Við skýrslutökur bentu nefndarmenn réttilega á að stefnandi hefði ekki rakið þessa stjórnunarreynslu í umsókn sinni eða ferilskrá. Stefnandi lýsti því aftur á móti fyrir dómi að hann hefði upplýst um stjórnunarreynsluna í viðtalinu og kannaðist einn nefndarmanna, Ásta Bjarnadóttir, sem er framkvæmdastjóri mannauðssviðs stefnda, við það fyrir dómi að stefnandi hefði eitthvað lýst starfsreynslu sinni úr tíð Ríkisspítala en að nefndin hefði ekki spurt nánar út í þá reynslu. Við úrlausn á því álitaefni hvort matsnefndin hafi búið yfir nægum upplýsingum til að hafa tilefni til að rannsaka nánar stjórnunarreynslu stefnanda, svo sem með frekari spurningum í viðtalinu við stefnanda, verður að mati dómsins að líta til þess að stefndi hefur sjálfur byggt á því að matsnefndin hafi kosið að leggja sérstaka áherslu á að meta stjórnunarreynslu og þekkingu umsækjenda á stjórnun í ráðningarferlinu. Verður því að telja að matsnefndinni hafi, í samræmi við þann farveg ráðningarferlisins sem hún kaus sjálf að móta, borið að spyrja stefnanda nánar í viðtalinu um þessa reynslu hans. Í þessu samhengi verður jafnframt að líta til þess að stefnandi hafði á umsóknardegi starfað í rúman aldarfjórðung hjá stefnda og forvera hans, Ríkisspítölum. Mátti stefnandi því með réttu búast við því að stefndi hefði, sem vinnuveitandi hans, varðveitt erindisbréf stefnanda og aðrar grundvallarupplýsingar um starf hans hjá stefnda og forvera hans, Ríkisspítölum. Í gögnum málsins liggur fyrir starfsvottorð stefnanda, sem stefndi útbjó og Ásta Bjarnadóttir staðfesti að matsnefndin hefði stuðst við. Starfsvottorðið nær aftur til 21. júní 1989 en þar er að finna ófullnægjandi upplýsingar um starfsheiti stefnanda á því tímabili sem hann veitti forstöðu skor sjúkrahússpresta. Verður stefnandi ekki látinn bera hallann af því að upplýsingar í starfsvottorði, sem stefndi útbjó, hafi verið skráðar með ónákvæmum hætti í andstöðu við erindisbréf um störf stefnanda.

            Af þeim sex viðmiðum sem metin voru í viðtalinu hlaut stefnandi lægstu einkunnir sínar í þættinum „Reynsla og þekking á stjórnun – áætluð færni í stjórnun og forystu“. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að óumdeilt er að stefndi leit við mat sitt á stjórnunarreynslu ekki að neinu leyti til reynslu stefnanda af stjórnun skorar sjúkrahússpresta í hartnær áratug verður ekki hjá því komist að álykta sem svo að stefndi hafi að þessu leyti ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993.

            Að öllu framangreindu virtu liggur fyrir að stefndi stóð með saknæmum og ólögmætum hætti að því ráðningarferli sem fram fór þegar ráðið var í starf deildarstjóra sálgæslu djákna og presta í júlí 2016.

            Fyrri krafa stefnanda, þ.e. um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda, er reist á því að stefnda hafi borið að ráða stefnanda í starf deildarstjórans og að misbrestur á því hafi bakað honum tjón sem felist í lægri launagreiðslum eftir ráðninguna en raunin hefði orðið ef hann hefði hlotið starfið. Dómurinn fellst á það með stefnanda að þegar ráðið var í starf deildarstjóra bjó stefnandi yfir mun meiri menntun en Rósa Kristjánsdóttir, þar á meðal meiri menntun á sviði sálgæslu. Til að mynda var CPE-nám stefnanda umfangsmeira en CPE-nám Rósu. Nánar tiltekið er óumdeilt að 1.600 handleiðslustundir bjuggu að baki námi stefnanda en 400 handleiðslustundir að baki námi Rósu. Stefnandi bjó einnig yfir þó nokkuð lengri starfsreynslu en Rósa á sviði sálgæslu. Loks bjó hann yfir umtalsvert meiri stjórnunarreynslu en Rósa, bæði almennri stjórnunarreynslu og stjórnunarreynslu úr starfi forstöðumanns skorar sjúkrahússpresta í hartnær áratug. Allir þessir hlutlægu mælikvarðar gáfu til kynna að stefnandi væri hæfari en Rósa Kristjánsdóttir til að hljóta starf deildarstjóra. Þá hefur stefndi ekki fært haldbær rök fyrir því að þau huglægu viðmið sem nefndin lagði til grundvallar, einkum um framtíðarsýn umsækjenda sem birtist í starfsviðtölum þeirra, hafi nægt til að til hrófla við þeirri niðurstöðu, enda verður ekki séð af einkunnagjöf matsnefndar að Rósa Kristjánsdóttir hafi staðið stefnanda verulega framar í þeim þætti. Í þessum efnum skiptir einnig máli að dómurinn hefur þegar slegið því föstu að stefndi hafi ekki lagt viðhlítandi mat í ráðningarferlinu á menntun, færni og stjórnunarreynslu stefnanda á sviði sálgæslu. Loks hefur ekkert komið fram í málinu um að stefndi hafi haft nokkuð út á störf stefnanda að setja allan þann tíma sem hann hafði starfað í þágu stefnda. Að öllu þessu virtu þykir stefnandi hafa sýnt nægilega fram á að hann hafi verið hæfari umsækjandi en Rósa Kristjánsdóttir þegar stefndi réð í umrætt starf deildarstjóra sálgæslu djákna og presta.

            Þrátt fyrir þetta verður við úrlausn þessarar kröfu stefnanda að líta til þess að auk stefnanda og Rósu Kristjánsdóttur voru tveir aðrir umsækjendur einnig boðaðir í starfsviðtal og virðast þeir báðir hafa átt að baki langan og nokkuð farsælan starfsferil. Að mati dómsins verður ekki fullyrt að ef stefndi hefði fylgt lögum um framangreind atriði, sem dómurinn hefur þegar komist að niðurstöðu um að ábótavant hafi verið í ráðningarferlinu, þá hefði stefnandi hlotið umrætt starf fremur en Gunnar Rúnar Matthíasson eða Ingileif Malmberg, en fyrir því ber stefnandi sönnunarbyrði. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda.

            Hvað síðari kröfu stefnanda varðar, þ.e. um greiðslu miskabóta úr hendi stefnda, þá verður ekki séð að starfsmenn stefnda hafi í tengslum við ráðningarferlið látið orð falla til að vega að persónu eða æru gagnáfrýjanda. Þrátt fyrir það verður ekki fram hjá því litið að málsmeðferð stefnda var slíkum annmörkum háð að starfsmenn hans teljast hafa vanrækt veigamikil atriði í rannsókn sinni við undirbúning ráðningar deildarstjóra sálgæslu djákna og presta. Varð sú vanræksla til þess að ekki var litið til þess að stefnandi var í reynd hæfari umsækjandi en sá einstaklingur sem ráðinn var í starf deildarstjóra og gat þetta að ófyrirsynju bitnað á orðspori stefnanda og orðið honum þannig að meini. Þegar þetta er virt verður að líta svo á að fullnægt sé skilyrðum b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefnda og breytir þá engu þótt óljóst sé um hæfi tveggja annarra umsækjenda þannig að ekki verði ráðið að stefnandi hafi átt lögvarinn rétt á að hljóta starf deildarstjóra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010, en um þetta má að nokkru leyti einnig vísa til dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Þær miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. janúar 2017 til greiðsludags, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga.

            Með hliðsjón af þessum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.600.000 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Sigurðsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður.

            Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 19. febrúar sl., en hafði fram til þess engin afskipti haft af meðferð þess.

 

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

            Stefndi, Landspítalinn, greiði stefnanda, Braga Skúlasyni, 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2017 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 1.600.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson