• Lykilorð:
  • Laun
  • Ráðningarsamningur
  • Skaðabætur
  • Stjórnvaldsákvörðun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2014 í máli nr. E-4447/2012:

Hjörtur Haraldsson

(Garðar Steinn Ólafsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. febrúar sl., er höfðað af Hirti Haraldssyni, Kongevej 9b, 6400 Sønderborg, Danmörku, á hendur íslenska ríkinu.

           

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 3.585.552 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2009 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða aðra fjárhæð, lægri að mati réttarins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

           

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara krefst hann þess að stefnukrafan verði lækkuð og að málskostnaður verði felldur niður.

 

II.

Málsatvik

Stefnandi var nemandi í læknadeild Háskóla Íslands skólaárið 2008-2009 og hafði lokið 4. ári. Kom hann því til greina sem læknanemi til afleysinga læknis í leyfi. Af gögnum verður ráðið að um langt skeið hafði verið við lýði það fyrirkomulag við ráðningar læknanema til afleysinga í tímabundnum leyfum lækna að Félag læknanema hafði um það milligöngu. Hafði tilhögunin verið sú í aðalatriðum að heilbrigðisstofnun, sem óskaði eftir að ráða læknanema til afleysingar, hafði samband við félagið og var úthlutað starfsmanni eftir ráðningarreglum félagsins. Læknanemar, sem sóttust eftir afleysingarstörfum hjá heilbrigðisstofnunum, er nýttu sér ráðningarkerfi félagsins, þurftu því að vera félagar eða aukafélagar í Félagi læknanema, auk þess að uppfylla tiltekin skilyrði. Fólst ráðningarkerfi félagsins meðal annars í því að félagsmönnum voru boðnar lausar stöður í samræmi við forgangsröðun eftir tilteknum reglum. Liggur fyrir að stefnandi taldi þetta kerfi óeðlilegt og velti fyrir sér lögmæti þess.

 

Stefnandi lýsir því að hann hafi hinn 9. desember 2008 reynt að sækja um starf aðstoðarlæknis á heilsugæslu á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Daginn eftir fékk hann svarbréf með tölvupósti frá framkvæmdastjóra lækninga á stofnuninni og er í stefnu vitnað til bréfsins með svofelldum hætti: „Sæll Hjörtur. Þakka þér áhugann. Við erum að velta fyrir okkur næsta sumri og munum fyrst reyna að fá útskrifaða lækna. Gangi það ekki er það regla að leita á náðir félags læknanema. Við þá viljum við halda góðu samstarfi. Að sjálfsögðu ert þú velkominn þá leiðina til okkar í vinnu. Mér þykir leitt ef ég hef komið einhverjum öðrum skilaboðum frá mér.“ Eftir að stefnandi hafði óskað eftir því við Heilbrigðisstofnun Suðurlands að stofnunin skýrði þau sjónarmið sem lægju að baki framangreindu svari barst honum tölvupóstur hinn 4. febrúar 2009, ásamt áliti lögfræðings stofnunarinnar, þar sem fram kemur að lögmaðurinn telji ráðningarferlið, með milligöngu Félags læknanema, í samræmi við lög.

 

Stefnandi lagði hinn 3. mars 2009 fram stjórnsýslukæru til heilbrigðisráðuneytisins vegna framangreinds svars stofnunarinnar. Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 11. maí 2009, var kæru hans hafnað með þeim rökum að ekki yrði séð að í svari Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, dags. 10. desember 2008, fælist synjun á ráðningu í starf heldur upplýsingar um hvernig staðið yrði að ráðningu ef ákveðið yrði að ráða læknanema. Hafi því ekki verið um að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Stefnandi hafði símsamband við Sigurgeir Jensson, yfirlækni á Heilsugæslustöðinni Vík í Mýrdal, í mars 2009. Greinir aðila á um hvað falist hafi í samtali þeirra. Telur stefnandi, gegn mótmælum stefnda, að Sigurgeir hafi í símtalinu tekið stjórnsýsluákvörðun um ráðningu sína til að leysa hann af sumarið á eftir. Með því hafi komist á munnlegur samningur milli aðila sem hafi komið í veg fyrir að stefnandi leitaði sér að annarri vinnu.

 

Stefnandi kveðst hafa hringt í Heilbrigðisstofnun Suðurlands í apríl 2009 í því skyni að fá upplýsingar um hvenær hann ætti að hefja störf og óska eftir að honum yrði sent afrit af ráðningarsamningi til undirritunar. Hafi honum þá verið tilkynnt að ekkert yrði af ráðningu hans þetta sumar. Stefnandi sendi stofnuninni í kjölfarið tölvupóst til að grennslast fyrir um ástæður þessa og í svarbréfi, dags. 16. apríl 2009, sem undirritað var af Sigurgeiri Jenssyni lækni, f.h. Heilsugæslustöðvarinnar Vík, og staðfest með áritun af Óskari Reykdalssyni, framkvæmdastjóra lækninga, f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir svo: „Í samtölum sem ég átti við þig í mars mánuði s.l. voru möguleikar ræddir varðandi ráðningu þína í afleysingarstarf hjá stofnuninni í sumar og í þeim samskiptum gaf ég þér vilyrði um slíka ráðningu. Í ljós hefur komið að í febrúar mánuði s.l. óskaði Hsu eftir því við Félag læknanema að um ráðningar í öll afleysingarstörf næsta sumar færi í samræmi við gildandi fyrirkomulag um samstarf hlutaðeigandi aðila nema því aðeins að útskrifaðir læknar fengjust til að gegna afleysingarstörfum á þessu tímabili. Á framangreint við um afleysingarstörf á Heilsugæslustöðinni Vík.“

 

Í framhaldi af kvörtun stefnanda komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu í áliti sínu, dags. 18. nóvember 2011, í máli nr. 5986/2010, að ekki hefði verið heimilt að lögum að gera það að skilyrði fyrir ráðningu læknanema í afleysingarstörf á opinberum heilbrigðisstofnunum að Félag læknanema hefði milligöngu um ráðningarnar. Taldi hann jafnframt að af því leiddi að sú afstaða Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að stefnandi kæmi ekki til greina í afleysingarstarf á stofnuninni árið 2009 nema hann nýtti sér ráðningarkerfi félagsins væri ekki í samræmi við lög. Var þeim tilmælum beint til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að tekið yrði til athugunar með hvaða hætti hægt væri að rétta hlut stefnanda, kæmi ósk um slíkt fram frá honum.

 

Með bréfi, dags. 12. desember 2011, fór lögmaður stefnanda fram á það við Heilbrigðisstofnun Suðurlands að stefnanda yrðu greiddar skaðabætur vegna launataps og kostnaðar hans af málinu. Í svarbréfi, dags. 19. janúar 2012, var bótaábyrgð stofnunarinnar hins vegar alfarið hafnað.

      

III.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Auk hans gáfu skýrslu vitnin Guðrún Geirsdóttir, Þorbjörn Jónsson Have læknir, Guðmundur Pálsson yfirlæknir, Fjölnir Guðmannsson læknir, Karl Kristinsson læknir, Óskar Sesar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga, Ómar Sigurvin Gunnarsson læknir og Bjarki Ívarsson læknir.

 

IV.

Helstu málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi vísar til þess að Sigurgeir Jensson, yfirlæknir á Heilsugæslustöðinni Vík, hafi í símtali sínu við hann í marsmánuði 2009 tekið stjórnsýsluákvörðun um ráðningu sína. Frá þeim tíma hafi verið í gildi milli þeirra munnlegur samningur, með gagnkvæmum skuldbindingum, sem komið hafi í veg fyrir að stefnandi leitaði sér að annarri atvinnu. Þar sem meginregla íslensks samningaréttar sé að munnlegur samningur sé bindandi fyrir báða aðila hafi stefnandi talið sig skuldbundinn til að koma til vinnu í byrjun sumars það ár. Í símtalinu hafi Sigurgeir komið fram gagnvart stefnanda sem handhafi ráðningarvalds í stöðu afleysingarlæknis á heilsugæslustöðinni, eins og hann hafi gert áður gagnvart afleysingarlæknum. Hafi stefnandi einfaldlega gert ráð fyrir að Sigurgeir kæmi fram á grundvelli lögmæts valdframsals frá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Enda þótt stefnandi og Sigurgeir hafi ekki undirritað ráðningarsamning skv. ákv. 42. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafi þeir sammælst um að gera það fljótlega. Verði ekki séð að umrætt ákvæði standi því í vegi að handhafi ráðningarvalds geti stofnað til gagnkvæmrar skuldbindingar um atvinnuveitingu áður en gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur. Þar sem samningurinn hafi verið rofinn af starfsmönnum stefnda krefjist stefnandi efndabóta miðað við launamun á starfi afleysingalæknis á Heilsugæslustöðinni Vík annars vegar og því starfi sem hann hafi tekið að sér hins vegar.

 

Stefnandi byggi jafnframt á því að bréf Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til sín, dags. 16. apríl 2009, hafi falið í sér afturköllun á fyrri stjórnvaldsákvörðun um ráðningu hans. Skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi hins vegar ekki verið fyrir hendi í málinu. Tjón stefnanda, meðal annars vegna launamunar á milli starfs afleysingalæknis á heilsugæslustöðinni og þess starfs sem hann hafi neyðst til að taka að sér, auk tapaðs tíma og lögfræðikostnaðar, sé allt fyrirsjáanlegt tjón sem stafi af þessari ólögmætu afturköllun.

 

Verði ekki talið sannað að samningur um ráðningu stefnanda hafi verið kominn á, eða að slíkur samningur hafi ekki haft gildi af einhverjum ástæðum, byggi stefnandi á því að framkoma Sigurgeirs hafi verið slík að fyrirsjáanleg afleiðing hennar hafi verið að skapa hjá stefnanda réttmætar væntingar um starfið. Sé því til stuðnings bent á að í bréfi Heilsugæslustöðvarinnar Vík til stefnanda hinn 16. apríl 2009, sem Sigurgeir hafi undirritað, segist hann hafi gefið stefnanda „vilyrði“ fyrir ráðningu og að aðeins upplýsingar sem hann hafi síðar komist yfir hafi orðið til þess að hann skipti um skoðun. Erfitt sé að skýra hvað „vilyrði“ þýði í þessu samhengi feli það ekki í sér loforð um starf.

 

Stefnandi kveðst og byggja sjálfstæða bótakröfu á því að ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem fram komi í framangreindu bréfi, sé ólögmæt og að tjón hans sé fyrirsjáanleg afleiðing af þeirri ákvörðun. Þannig brjóti það gegn ákvæði í 1. málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, um neikvætt félagafrelsi, að gera það að skilyrði ráðningar að hann tilheyri ákveðnu félagi. Jafnframt jafngildi það valdframsali að fela Félagi læknanema að fækka umsækjendum með þeim hætti sem gert hafi verið og brjóti gegn ákv. 5. gr. laga nr. 70/1996 og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu.

 

Hvað varði orsakatengsl milli athæfis starfsmanna stefnda og tjóns stefnanda sé vísað til þess að þegar ákvörðun hafi verið tekin í málinu hafi verið lítill tími til stefnu til að leita að vinnu. Auk þess hafi slík leit ekki verið líkleg til árangurs. Sýni gögn málsins fram á ítrekaðar tilraunir stefnanda til að sækja um starf afleysingalæknis á löglegan hátt og ítrekaðar synjanir stofnana undir stefnda á því að taka við slíkum umsóknum. Viðhorf stofnana á vegum stefnda hafi verið þau að slíkum umsóknum skyldi hafna án umfjöllunar og viðhorf stefnda að slíkt væri ekki á hans ábyrgð. Miðað við það hafi ekki verið raunhæfur möguleiki fyrir stefnanda að finna sér aðra vinnu með sambærilegum kjörum og hann hefði notið sem afleysingalæknir í Vík.

 

Það sé einnig málsástæða stefnanda að vanræksla stefnda á yfirstjórnar- og eftirlitsskyldum sínum gagnvart heilbrigðisstofnunum hafi stuðlað að og viðhaldið ólögmætu ástandi í ráðningarmálum. Áralöng framkvæmd í stofnunum undir heilbrigðisráðherra hafi ekki verið í samræmi við lög. Stefndi beri húsbóndaábyrgð á ráðherranum og öllum stofnunum og starfsmönnum sem heyri undir yfirstjórn- og eftirlitsheimildir hans.

 

Stefnandi kveðst reisa kröfu sína um bætur á reglum samninga- og kröfuréttar um efndabætur, auk almennra skaðabótareglna. Með því að það starf sem stefnandi hafi gengið í sumarið 2009 hafi ekki jafnast á við starf afleysingarlæknis á Heilsugæslustöðinni Vík í kjörum sé mismunur á mánaðarlaunum hans það sumar og þeim launum sem hann hefði haft í Vík grundvöllur kröfu hans á hendur stefnda. Samkvæmt upplýsingum læknanema sem gegnt hafi starfi afleysingarlæknis í Vík hafi laun þar verið um 1.800.000 krónur á mánuði. Frá þeirri upphæð séu dregnar þær mánaðartekjur sem stefnandi hafi haft. Sundurliðist krafan því með eftirgreindum hætti:

Laun afleysingarlæknis í júní            kr.        1.800.000

Laun stefnanda í júní                          kr.        -    63.825

Samtals í júní                                     kr.        1.736.175

 

Laun afleysingarlæknis í júlí             kr.        1.800.000

Laun stefnanda í júlí                          kr.        -  302.402

Samtals í júlí                                      kr.        1.497.598

 

Laun afleysingarlæknis í ágúst          kr.        1.800.000

Laun stefnanda í ágúst                       kr.        -  526.947

Samtals í ágúst                                   kr.        1.273.053

 

Heildarkrafa samtals                          kr.        4.506.826       

 

Að auki er tilgreint í stefnu að stefnandi hafi þurft á lögmannsaðstoð að halda vegna málsins á öllum stigum þess og liggi fyrir nákvæmt yfirlit yfir fjölda vinnustunda á sérstökum yfirlitum sem fyrir liggi í málinu.

 

Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi höfuðstól kröfu sinnar með vísan til þess að fyrir lægju nú nákvæmari upplýsingar um forsendur fyrir útreikningi á tjóni stefnanda.

 

V.

Helstu málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi mótmælir því að tekin hafi verið stjórnsýsluákvörðun um ráðningu stefnanda í samtali hans við Sigurgeir Jensson lækni í marsmánuði 2009. Þá hafi heldur ekki í því samtali komist á munnlegur samningur á milli aðila, með gagnkvæmum skuldbindingum, sem komið hafi í veg fyrir að stefnandi leitaði sér að annarri vinnu. Engin skilyrði séu í málinu til efndabóta eða annarra bóta til handa stefnanda. Af 5. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, leiði að það séu forstjórar heilbrigðisstofnana sem fari með vald til að ráða í störf við stofnanir og beri ábyrgð á að ákvarðanir um ráðningar séu í samræmi við lög. Forstöðumaður geti framselt þetta vald sitt til tiltekinna stjórnenda á grundvelli 50. gr. laga nr. 70/1996. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hafi hvorki framselt ráðningarvald sitt til viðkomandi læknis né annarra stjórnenda. Verði því að leggja til grundvallar að forstjórinn hafi verið einn bær að lögum til að gefa stefnanda skuldbindandi loforð fyrir ráðningu í umrætt sumarstarf, en slíkt loforð liggi ekki fyrir. Fráleitt sé því að stefnandi hafi talið sig skuldbundinn til að koma til vinnu í byrjun sumars.          

 

Stefndi bendir á að í orðinu „vilyrði“ í þessu sambandi felist eingöngu það að Sigurgeir hafi verið reiðubúinn að skoða möguleika á ráðningu og mæla með stefnanda í afleysingarstarf. Hins vegar hafi ekki falist í þessari orðnotkun skuldbindandi samningur um ráðningu í starf né bindandi loforð, sem telja megi jafngilda ráðningu í starf. Hafa verði í huga að forsenda ráðningarsambands byggist á gagnkvæmu samkomulagi milli aðila, sem feli í sér skuldbindingar af beggja hálfu, og sé forstöðumaður stofnunar einn bær til að gefa slíkt skuldbindandi loforð hafi hann þá ekki framselt það til annarra stjórnenda stofnunar.

 

Samkvæmt 42. gr. laga nr. 70/1996 skuli gera skriflegan ráðningarsamning milli forstöðumanns stofnunar og starfsmanns, þar sem m.a. komi fram ráðningarkjör. Gerð skriflegs ráðningarsamnings hjá stofnunum ríkisins sé forsenda þess að ráðningarsamband stofnist við starfsmann. Leiði af framangreindu að formlegt ráðningarsamband, í skilningi íslensks vinnuréttar og laga nr. 70/1996, hafi ekki stofnast milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og stefnanda. Því sé hvorki orsakasamband milli athafna starfsmanna stofnunarinnar og þess tjóns sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir vegna misskilnings eða óraunhæfra væntinga né teljist tjónið fyrirsjáanleg afleiðing þeirra.

 

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda sé á því byggt, vegna varakröfu um lækkun á stefnukröfu, að þau mánaðarlaun sem stefnandi noti við útreikning á stefnukröfum sínum séu allt of há. Hið rétta sé að launagreiðslur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi tekið mið af sama kjarasamningi og stefnandi hefði fengið greitt eftir samkvæmt starfi sem hann hefði sinnt á umræddu tímabili.

 

VI.

Niðurstöður

Kröfur stefnanda byggjast í fyrsta lagi á því að í símtali hans við Sigurgeir Jensson, lækni á Heilsugæslustöðinni Vík, í marsmánuði 2009, hafi verið tekin stjórnsýsluákvörðun um ráðningu hans. Komist hafi þar á munnlegur samningur milli málsaðila um ráðningu stefnanda í stöðu afleysingarlæknis á stöðinni. Af hálfu stefnda er þessum skilningi alfarið mótmælt.

 

Fyrir liggur að aldrei var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, eins og kveðið er á um í 42. gr. laga nr. 70/1996 að gera skuli við ráðningu í starf hjá stefnda. Framangreindur læknir á Heilsugæslustöðinni í Vík var ekki leiddur fyrir dóminn til skýrslugjafar en í bréfi sem hann ritaði undir fyrir hönd heilsugæslustöðvarinnar hinn 16. apríl 2009 kemur fram að í samtölum sem hann hafi átt við stefnanda í mars sama ár hafi verið ræddir möguleikar „varðandi ráðningu þína í afleysingarstarf hjá stofnuninni í sumar og í þeim samskiptum gaf ég þér vilyrði um slíka ráðningu“.

 

Af 5. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, leiðir að forstjórar heilbrigðisstofnana fara með vald til að ráða í störf við stofnanir og bera ábyrgð á að ákvarðanir um ráðningar séu í samræmi við lög. Forstöðumaður getur framselt þetta vald sitt til tiltekinna stjórnenda á grundvelli 50. gr. laga nr. 70/1996. Fyrir liggur að Heilsugæslustöðin Vík, ásamt sjö öðrum heilsugæslustöðvum og einu sjúkrahúsi, voru á árinu 2004 sameinaðar í eina stofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, og hefur forstjóri þeirrar stofnunar þær ráðningarheimildir sem fram koma í framangreindum lagaákvæðum. Hefur stefnandi ekki hnekkt þeirri staðhæfingu stefnda að þær heimildir hafi ekki verið framseldar til umrædds læknis á Heilsugæslustöðinni Vík. Samkvæmt því féll það ekki innan valdssviðs þess læknis að ráða afleysingarlækna eða annað starfsfólk til starfa á heilsugæslustöðina.

 

Þegar framangreint er virt verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að í umræddu símtali hans við lækni heilsugæslustöðvarinnar hafi falist meira en jákvæð afstaða læknisins til umsóknar stefnanda um starf afleysingarlæknis, kæmi slík umsókn fram. Verður því ekki á það fallist með stefnanda að í símtalinu hafi verið tekin stjórnsýsluákvörðun þar sem stofnað hafi verið til ráðningarsambands milli hans og stefnda, með þeim réttindum og skyldum sem slíkri ráðningu fylgja. Verður heldur ekki talið í ljós leitt að framkoma læknisins í umræddum samskiptum hans við stefnanda geti með einhverjum hætti leitt til bótaskyldu stefnda á þeim grundvelli að hún hafi skapað hjá stefnanda réttmætar væntingar um starfið.

 

Með því að þeirri málsástæðu stefnanda hefur verið hafnað að tekin hafi verið stjórnsýsluákvörðun um ráðningu hans í greint sinn verður einnig hafnað þeirri málsástæðu að framangreint bréf, dags. 16. apríl 2009, hafi falið í sér afturköllun á fyrri stjórnvaldsákvörðun um ráðningu hans.

 

Stefnandi kveðst einnig byggja kröfu sína á því „að ákvörðun HSu, sem fram kemur í dskj. 6 sé ólögmæt og að tjón hans sé fyrirsjáanleg afleiðing af þeirri ákvörðun“. Verður að skilja þetta svo að stefnandi byggi á því að sú yfirlýsing sem fram kemur í niðurlagi bréfs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, dags. 16. apríl 2009, þar sem segir „að ekki getur orðið af ráðningu þinni til heilsugæslustöðvarinnar næsta sumar ...“ vegna þess „að um ráðningar í öll afleysingarstörf næsta sumar færi í samræmi við gildandi fyrirkomulag um samstarf“ stofnunarinnar og Félags læknanema, hafi falið í sér ólögmæta stjórnvaldsákvörðun, sem leitt hafi til tjóns hans. Stefndi mótmælir þessari málsástæðu í greinargerð sinni án þess að rökstyðja þau mótmæli frekar. Við mat á því hvort framangreind málsástæða geti leitt til þess að fallist verði á bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda verður að horfa til þess að jafnvel þótt fallist yrði á að í umræddri yfirlýsingu hafi falist afstaða sem samræmdist ekki lögum átti stefnandi á því stigi enga lögvarða kröfu til þess að fá ráðningu í stöðu aðstoðarlæknis við Heilsugæslustöðina Vík. Í fyrsta lagi lá, við undirritun bréfsins, engin formleg umsókn fyrir frá honum um stöðu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og í öðru lagi gat hann á engan hátt gengið út frá því að umrædd staða yrði veitt honum. Meint tjón hans getur því hvorki talist hafa orsakast af umræddri yfirlýsingu né talist sennileg afleiðing hennar og verður því þegar af þeirri ástæðu að hafna bótakröfu stefnanda á þessum grundvelli. Á sama grundvelli verður og að telja að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að meint vanræksla stefnda á yfirstjórnar- og eftirlitsskyldum sínum gagnvart heilbrigðisstofnunum hafi stuðlað að og viðhaldið ólögmætu ástandi í ráðningarmálum og þar með leitt til þess tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir.

 

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.

 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                       

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hjartar Haraldssonar.

 

Málskostnaður fellur niður.

                                                            Ásgeir Magnússon