• Lykilorð:
  • Sekt dæmd og fangelsi sem vararefsing
  • Vopnalagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. janúar 2018 í máli nr. S-172/2017:

Ákæruvaldið

(Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Úlfar Guðmundsson hdl.)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 7. nóvember sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 9. maí 2017 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...];

fyrir, hegningar- og vopnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 17. júní 2016, við innganginn að bænahúsi Menningarseturs múslima á Íslandi að Skógarhlíð í Reykjavík, lagt eld að salernispappír og síðan vafið salernispappír utan um hurðarhúna hússins og reynt að kveikja í pappírnum sem hann skýrði við handtöku lýsandi fyrir andstöðu sína við Íslam og fól í sér ógnandi og smánandi tjáningu á opinberum vettvangi í garð ótilgreinds hóps múslima hér á landi.  Á sama tíma hafði ákærði í vörslum sínum fjaðrahníf og hnúajárn, sem lögregla fann í úlpuvasa hans. 

Telst þetta varða við 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og b. og c. lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á fjaðrahníf og hnúajárni samkvæmt heimild í 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Kröfur ákærða í málinu:

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæru um brot gegn 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en að öðru leyti verði honum gerð sú vægasta refsing sem lög framast heimila. Þá krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg þóknun verjanda hans til handa.

I

Síðla nætur 17. júní 2016, eða kl. 05:28, barst lögreglu tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um að búið væri að bera eld að Menningarsetri múslima við Skógarhlíð. Fóru þrír lögreglumenn á vettvang. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu veittu lögreglumennirnir því athygli er þeir komu að húsinu að búið var að leggja eld að salernispappír skammt frá inngangi hússins. Slökkti lögregla í glóð sem var í pappírnum. Skammt frá lá karlmaður, ákærði í máli þessu, sem lögreglu­mönnunum virtist sofa ölvunarsvefni. Ræddu þeir í kjölfarið við ákærða sem neitaði aðspurður að hafa kveikt í pappírnum. Eftir að lögregla hafði rætt við ákærða var hann beðinn um að yfirgefa svæðið. Yfirgáfu lögreglumennirnir vettvang við svo búið.

Um það bil 10 mínútum síðar barst lögreglu að nýju tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um að verið væri að bera eld að Menningarsetri múslima. Fóru lögreglumennirnir því aftur á á vettvang. Í frumskýrslu lögreglu er bókað að þegar lögreglu bar að hafi ákærði verið með kveikjara hendi og verið að gera tilraun til að að kveikja í salernispappír sem komið hafði verið fyrir á útidyrahurð hússins. Í kjölfarið var ákærði handtekinn og honum kynnt réttarstaða hans sem sakbornings. Í skýrslu lögreglu eru eftirfarandi ummæli bókuð eftir ákærða, sem hann er sagður hafa látið falla í viðræðum við lögreglu á leið á lögreglustöð: „... sagði ákærði að hann væri mikill þjóðernissinni og að hann væri á móti íslam. Ákærði sagðist annars ekki eiga sökótt við neinn mann. Ákærði sagði að þessi verknaður hans væri yfirlýsing af hans hálfu. Ákærði gat ekki útskýrt hvað hann meinti með því betur en svo.“

Við leit lögreglu á ákærða fundust á honum fjaðrahnífur, 23 cm að lengd, og hnúajárn.

II

Ákærði kom fyrir dóm 23. ágúst 2017 og neitaði sök hvað varðaði ákæru á hendur honum fyrir brot gegn 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann viðurkenndi hins vegar án undandráttar að hafa brotið gegn og b- og c-liðum 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998 með þeim hætti sem í ákæru greinir. Við aðalmeðferð málsins sagði ákærði þessa afstöðu sína óbreytta.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði farið í tvö samkvæmi um nóttina og drukkið ótæpilega af áfengi. Hann hefði því verið í mjög annarlegu ástandi umrætt sinn og myndi hann af þeim sökum atvik ekki að öllu leyti vel. Ákærði kvað sig þó ráma í að hann hefði verið á leið í sjoppu til þess að kaupa sígarettur þegar hann hefði komið að húsi gegnt sjoppunni. Húsið kvaðst ákærði hafa talið að hýsti starfsemi kórs. Það hefði húsið í það minnsta gert síðast þegar hann vissi. Tók ákærði fram að hann hefði ekkert erindi átt að þessu húsi.

Við húsið sagðist ákærði hafa fundið salernis- eða eldhúsrúllur. Ákærði bar að hann myndi mjög óljóst eftir því að hafa kveikt í pappír við húsið. Þó fyndist honum eins og búið hefði verið að kveikja í pappírnum þegar hann kom á staðinn. Aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa vafið pappír utan um hurðarhún. Fram kom hjá ákærða að hann ætti það til þegar hann væri ölvaður að tendra eld, og þá eingöngu sér til skemmtunar en ekki í þeim tilgangi að valda tjóni á fólki eða munum.

Ákærði sagði lögreglu hafa komið á vettvang og handtekið hann. Minntist ákærði þess ekki að lögregla hefði kynnt honum réttarstöðu hans sem sakbornings. Rámaði ákærða hins vegar í að í lögreglubílnum hefði hann verið spurður „út í eitthvað pólitískt“. Í spurningum lögreglu hefði komið fram að hús það sem hann hefði verið handtekinn við væri Menningarsetur múslima. Kvaðst ákærði örugglega hafa svarað spurningum lögreglu „... eitthvað fjandsamlega miðað við hvernig ástandi ég var í.“ Aðspurður sagði ákærði rétt geta verið að hann hefði sagst vera þjóðernissinni, þó svo líklegra væri að hann hefði sagst vera föðurlandsvinur. Þá afstöðu sína sagði ákærði ekkert hafa með kynþáttafordóma eða útlendingahatur að gera. Ákærði kannaðist ekki við að hafa lýst yfir andstöðu við íslam en sagði hins vegar mögulegt að hann hefði lýst yfir andstöðu við trúarbrögð almennt. Sú afstaða hans sneri hins vegar ekkert meira að íslam en öðrum trúarbrögðum. Þá sagði ákærði það algert bull að í því að leggja eld að pappírnum, hefði hann yfir höfuð gert það, hefði falist yfirlýsing af hans hálfu. Ákærði tók fram í því sambandi að hann hefði ekki verið í neinu ástandi til þess að lýsa einu né neinu yfir. Um fyllerísrugl hefði verið að ræða, ekkert annað.

III

A lögreglumaður greindi svo frá fyrir dómi að lögreglu hefði borist tilkynning síðla nætur þess efnis að búið væri að bera eld að Menningarsetri múslima. Vitnið hefði farið á vettvang ásamt starfsfélögum sínum og séð þar sótugan salernispappír við útihurð hússins. Skammt frá pappírnum hefði legið maður, ákærði í máli þessu, sem sofið hefði ölvunarsvefni. Lögreglumennirnir hefðu farið og rætt við ákærða. Að því loknu hefðu þeir beðið ákærða um að yfirgefa svæðið. Lögregla hefði því næst yfirgefið vettvang.

Skömmu síðar hefði önnur tilkynning borist, svipaðs efnis og hin fyrri. Lögregla hefði því aftur farið á vettvang. Þegar að húsinu kom hefði vitnið séð ákærða með kveikjara í hendi og hefði hann verið að reyna að kveikja í salernisrúllu. Ákærði hefði í kjölfarið verið handtekinn og honum kynnt réttarstaða sakaðra manna. Uppgefna ástæðu handtöku sagði vitnið hafa verið tilraun til íkveikju. Ákærða kvað vitnið hafa verið svo ölvaðan að hann hefði átt erfitt með gang.

Á leiðinni á lögreglustöð hefði ákærði verið inntur eftir ástæðum gjörða sinna. Ákærði hefði sagst vera þjóðernissinni og að hann væri á móti íslam. Gjörðir sínar hefði ákærði sagt vera yfirlýsingu af sinni hálfu. Staðfesti vitnið að í spurningum lögreglu hefði komið fram að umrætt hús væri Menningarsetur múslima. Gat vitnið ekkert um það borið hvort ákærða hefði áður verið um það kunnugt.

Aðspurt sagðist vitnið ekki hafa kannað frá hverjum fyrrnefndar tilkynningar hefðu borist.

B lögreglumaður bar fyrir dómi að tilkynning hefði borist lögreglu þess efnis að verið væri að bera eld að moskunni við Skógarhlíð. Þegar vitnið kom á vettvang hefði logað í salernisbréfi framan við inngang hússins og hefði lögregla slökkt í bréfinu. Hinum megin við húsið hefði maður setið uppi við vegg og hefðu starfsfélagar vitnisins farið og rætt við manninn. Að því loknu hefði lögregla farið af vettvangi.

Skömmu síðar hefði lögreglu borist önnur tilkynning, sama efnis. Vitnið og starfsfélagar þessu hefðu því snúið við og farið aftur að húsinu. Þegar á vettvang kom hefði vitnið séð áðurnefndan mann standa við inngang hússins. Búið hefði verið að safna saman salernispappír við útidyrahurðina og hefði ákærði verið með kveikjara í hendi. Ákærði hefði í kjölfarið verið handtekinn. Aðspurt kvaðst vitnið ekkert geta borið um samræður ákærða og starfsfélaga þess á leiðinni á lögreglustöð en fram kom hjá vitninu að það hefði verið ökumaður bifreiðarinnar.

C lögreglumaður kvaðst hafa farið að „Ýmishúsinu“ umrætt sinn vegna tilkynningar um eld við húsið. Þegar að var komið hefði eld þar hins vegar vart verið að sjá. Ákærði hefði verið á vettvangi og hefði starfsfélagi vitnisins fengið hjá honum persónuupplýsingar. Að því loknu hefði ákærði verið beðinn um að yfirgefa vettvang. Lögregla hefði því næst haldið á brott.

Stuttu síðar hefði borist önnur tilkynning um að verið væri að bera eld að húsinu. Vitnið hefði því farið þangað að nýju ásamt starfsfélögum sínum. Þegar lögregla kom á vettvang hefði ákærði verið að bera eld að salernispappír sem búið var að vefja um sneril á útidyrahurð hússins. Ákærði hefði í kjölfarið varið handtekinn og færður í fangageymslur.

Á leiðinni á lögreglustöð sagði vitnið hafa komið fram hjá ákærða að hann hefði óbeit á íslamskri trú, ekki fólkinu sem þeirrar trúar væri, heldur trúnni sem slíkri. Þá hefði ákærði sagst vera þjóðernissinni.

IV

A

Upplýst er að ákærði var við handtöku aðfaranótt 17. júní 2016 með fjaðrahníf og hnúajárn í vörslum sínum. Ákærði hefur skýlaust játað þá háttsemi og er játning hans í samræmi við gögn málsins. Með háttseminni gerðist ákærði brotlegur við b- og c-liði 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998, svo sem réttilega er vísað til í ákæru.

B

Ákærða er í málinu einnig gefið að sök hegningarlagabrot með því að hafa umrædda nótt, við innganginn að bænahúsi Menningarseturs múslima á Íslandi að Skógarhlíð í Reykjavík, lagt eld að salernispappír og síðan vafið salernispappír utan um hurðarhúna hússins og reynt að kveikja í pappírnum sem hann hafi við handtöku sagt vera lýsandi fyrir andstöðu sína við íslam og hafi falið í sér ógnandi og smánandi tjáningu á opinberum vettvangi í garð ótilgreinds hóps múslima hér á landi.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi kvaðst hann er atvik máls gerðust ekki hafa vitað hvaða starfsemi færi fram í fyrrnefndu húsi. Við húsið sagðist ákærði hafa fundið salernis- eða eldhúsrúllur og myndi hann mjög óljóst eftir að hafa kveikt í pappír við húsið. Þó fyndist honum eins og búið hefði verið að kveikja í pappírnum þegar hann kom á staðinn. Ákærði kvaðst hins vegar ekki minnast þess að hafa vafið pappír utan um hurðarhún á útidyrahurð hússins. Ákærði minntist þess heldur ekki að lögregla hefði, eftir að hann var handtekinn, kynnt honum réttarstöðu hans sem sakbornings. Hins vegar rámaði ákærða í að í lögreglubílnum hefði hann verið spurður „út í eitthvað pólitískt“. Í spurningum lögreglu hefði komið fram að hús það sem hann hefði verið handtekinn við væri Menningarsetur múslima. Ákærði kannaðist ekki við að hafa lýst yfir andstöðu við íslam en sagði hins vegar mögulegt að hann hefði lýst yfir andstöðu við trúarbrögð almennt. Sú afstaða varðaði ekki íslam umfram önnur trúarbrögð. Ákærði sagði það „algert bull“ að í því að leggja eld að pappírnum, hefði hann yfir höfuð gert það, hefði falist yfirlýsing af hans hálfu. Um fyllerísrugl hefði verið að ræða, ekkert annað.

Samkvæmt 233. gr. a. almennra hegningalaga nr. 19/1940 skal hver sá sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga.

Samkvæmt framburði ákærða og A lögreglumanns, sbr. einnig skýrslu sem rituð var vegna vistunar ákærða í fangaklefa og ber með sér ölvunarástand hans, telur dómurinn upplýst í málinu að umrædda nótt hafi ákærði komið ofurölvi að bænahúsi Menningarseturs múslima á Íslandi við Skógarhlíð í Reykjavík. Þar hafi hann gert tilraun til þess að leggja eld að salernispappír á útidyrahurð hússins en ekki tekist. Ekkert hefur fram um það komið að á vettvangi hafi verið aðrir en ákærði en óupplýst er hver var tilkynnandi umrætt sinn. Af þessari háttsemi ákærða hefði bæði getað hlotist hætta og eignatjón. Að því virtu sem rakið hefur verið um aðstæður verður hins vegar trauðla séð að í framgöngu ákærða hafi falist sérstök tjáning af hans hálfu á opinberum vettvangi. Þá verður til þess að líta að svo tjáning geti talist refsiverð samkvæmt 233. gr. a. almennra hegningarlaga þarf hún að hafa haft það að markmiði að hæða, rægja, smána eða ógna manni eða hópi manna, en þau fátæklegu gögn sem lögregla aflaði við rannsókn málsins styðja ekki þann málatilbúnað ákæruvalds. Ummælum sem lögreglumenn hafa haft eftir ákærða úr viðræðum við hann í lögreglubíl eftir handtöku verður ekki gefið slíkt vægi að þau geti ráðið úrslitum hvað þetta atriði varðar þegar þess er gætt að ákærði var að svara spurningum lögreglumanna sem ákváðu að spyrja hann út í málsatvik þrátt fyrir það sem áður var rakið um ástand hans og þá augljósu staðreynd að ákærði naut ekki aðstoðar verjanda. Það gerði ákærði hins vegar þegar skýrsla var af honum tekin síðar um daginn, eftir að hann hafði verið vistaður í fangaklefa, en við skýrslutökuna neitaði ákærði að í athöfnum hans um nóttina hefði falist yfirlýsing af hans hálfu. Með vísan til alls þessa er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að með háttsemi sinni hafi ákærði gerst sekur um brot gegn 233. gr. a. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum.

V

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Refsing ákærða vegna brota hans gegn vopnalögum þykir hæfilega ákveðin 40.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds og 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998 eru gerð upptæk fjaðrahnífur og hnúajárn sem lögregla haldlagði við rannsókn málsins.

Fyrir liggur að ástæða þess að aðalmeðferð fór fram í málinu var sú að ákærði neitaði þeim sakargiftum sem hann hefur verið sýknaður af samkvæmt framansögðu. Að því gættu og með vísan til grunnraka 1. og 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála greiðist þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi málsins, Lilju Margrétar Olsen hdl., og þóknun skipaðs verjanda ákærða hér fyrir dómi, Úlfars Guðmundssonar hdl., úr ríkissjóði, en þóknun lögmannanna þykir að virtu umfangi starfa þeirra hæfilega ákveðin með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, greiði 40.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.

Ákærði sæti upptöku á fjaðrahníf og hnúajárni.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun tilnefnds verjanda ákærða, Lilju Margrétar Olsen hdl., 84.320 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og þóknun skipaðs verjanda ákærða, Úlfars Guðmundssonar hdl., 421.600 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

           

Kristinn Halldórsson