• Lykilorð:
  • Samningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2016 í máli nr. E-1463/2014:

Landsbankinn hf.

(Eva B Sólan Hannesdóttir hdl.)

gegn

Einari V Ingimundarsyni

(sjálfur)

 

            Mál þetta höfðaði Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 23. apríl 2014 á hendur Einari Vali Ingimundarsyni, Fjölnisvegi 5, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 25. janúar sl., endurupptekið og dómtekið á ný 15. þessa mánaðar. 

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 26.545.120 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 23. september 2013 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara að kröfur hans verði aðeins dæmdar að hluta.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

 

            Stefndi stofnaði myntveltureikning í japönskum jenum í útibúi stefnanda að Laugavegi 77 þann 16. janúar 2008.  Fékk hann yfirdráttarheimild og þann 17. janúar 2008 tók hann út fé og varð staða reikningsins þá neikvæð um 29.840.848,81 jen.  Stefnandi segir að yfirdráttarheimild stefnda hafi runnið út án þess að skuldin væri greidd.  Hann segir ekki hvenær það var, en skuld stefnanda hafi þá numið 30.339.114,94 jenum. 

            Stefnandi kveðst hafa endurreiknað skuld stefnda í samræmi við lög nr. 151/2010 um breytingu á vaxtalögum nr. 38/2001.  Hafi hann í útreikningnum miðað við lægstu vexti af óverðtryggðum skuldum, sbr. 10. gr. vaxtalaga.  Útreikningur þessi sýni að skuld stefnda á reikningnum hafi numið 26.545.120 krónum.  Miðist hann við stöðuna 9. febrúar 2012. 

            Stefnandi tekur fram að síðar hafi gengið dómur í Hæstarétti sem hafi slegið því föstu að yfirdráttarlán á gjaldeyrisreikningum væru gild lán í erlendum gjald­miðlum.  Endurútreikningur sinn hafi því verið umfram skyldu og falið í sér ívilnun til stefnda. 

            Stefnandi kveðst byggja á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga.  Um aðild sína vísar hann til laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. 

 

            Í greinargerð stefnda segir að hann hafi farið að ráðum starfsmanna Lands­banka Íslands er hann þurfti að losa fé til að styðja dætur sínar.  Hafi hann að ráði þeirra sett hlutabréf sín í Landsbankanum að handveði fyrir láni sem hann tók í formi yfirdráttar á gjaldeyrisreikningi.  Hafi útibússtjóri bankans ráðlagt honum að veðsetja bréfin frekar en að selja þau. 

            Stefndi segir að sumarið 2008 hafi bankinn gert veðkall og hafi honum þá verið ráðlagt að veðsetja fleiri hlutabréf.  Hann hafi þá spurt hvort ekki væri best fyrir sig að selja hlutabréfin í Landsbankanum, en mælt hafi verið eindregið gegn því. 

            Eftir hrun bankans í október 2008 segist stefndi hafa verið krafinn um frekari veð.  Hafi hann þá bent starfsmanni bankans á hlutabréf sín í Straumi og Atorku og að þeir skyldu koma þeim í verð áður en lengra væri haldið.  Í greinargerð sinni skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram allar hljóðritanir af samtölum hans við starfsmenn bankans.  Byggir hann á því að snúa verði sönnunarbyrðinni við þar sem bankinn hafi ekki lagt fram neinar hljóðritanir samtala. 

            Stefndi byggir á því að bankinn hafi neitað honum um að selja bréfin og ákveðið að hann skyldi taka lán og í hvaða formi það yrði gert.  Bankinn hafi nýtt sér aðstæður hans til að gæta að hagsmunum bankans, en ekki hans.  Þetta hafi verið gróf misnotkun aðstöðumunar. 

            Í greinargerð stefnda segir að hann hafi tvívegis fengið innheimtubréf.  Hafi hann rætt við útibússtjóra bankans í bæði skiptin og bent á að illa væri að honum vegið.  Hafi innheimtan verið stöðvuð og ákveðið að reynt skyldi að ná sanngjörnu samkomulagi um uppgjör skuldarinnar.  Er stefna í þessu máli hafi loks verið birt hafi starfsmenn bankans ekki viljað virða neitt af því sem samið hefði verið um.  Byggir stefndi á því að stefnandi sé bundinn af samningi hans við fyrri útibússtjóra. 

            Stefndi kveðst telja að hann hafi verið blekktur með rangri ráðgjöf.  Starfs­menn bankans hafi ýtt honum út í skuldsetningu á forsendum sem ekki hafi staðist.  Bankinn hafi átt að vita betur um forsendur ráðgjafarinnar og ekki að beita viðskipta­vini sína þrýstingi til að fara eftir ráðgjöf sem hvorki var hlutlaus né rétt og ekki veitt með hagsmuni viðskiptavinarins í huga.  Hefði bankinn selt bréfin eins og hann vildi sjálfur hefði verið hægt að gera upp allar kröfur bankans.  Byggir stefndi á því að framkoma bankans og starfsmanna hans hafi brotið gegn III. kafla samningalaga nr. 7/1936, einkum 30., 31., 33. og 36. gr.  Hafa verði í huga að starfsmönnum bankans hafi mátt vera ljóst hver staða bankans var og hvert stefndi.  Hafi þeir þurft að hindra að bréfin í bankanum lækkuðu og af þeirri ástæðu hafi verið unnið að því að fá fólk ofan af því að selja þau. 

            Að lokum skoraði stefndi á stefnanda að upplýsa á hvaða verði lánið hafi verið flutt yfir til hans. 

 

            Stefndi lagði fram ljósrit af síðu úr dagbók dóttur sinnar, Valgerðar, með texta sem hún skrifaði við föstudaginn 26. september 2008.  Þar segir: 

            Úff! þvílíkur dagur.  Gat klárað næstum allt í ... okkar pabba en ó ó ó shit hvað mér leið ömurlega þegar ég heyrði pabba verða öskureiðan í símann.  Landsbanki með leiðindi.  Er mjög forvitin og heyrði að pabbi talaði um að selja hlutabréf.  Veit ekki hvort hann sé kominn í vanda út af því að hjálpa okkur með íbúðina.  Langar svo að spyrja pabba hvaða hlutabréf hann vill selja en það kemur mér já ekki við.  Hann bauðst til að hjálpa mér því ég átti von á barni...

            Valgerður Einarsdóttir kom fyrir dóm og staðfesti þessa frásögn í dagbók sinni. 

            Jafnframt leiddi stefndi vitnið Ágúst Ásgeirsson, sem er fyrrum samstarfs­maður hans.  Ágúst kvaðst hafa hitt stefnda þann 29. september 2008.  Honum hafi verið mikið niðri fyrir.  Hann hafi farið með stefnda inn í útibú Landsbankans að Laugavegi 77.  Einar hafi þar sagt við starfsmenn bankans að þeir yrðu nú að setja hlutabréf hans í bankanum upp í lánið hans.  Vitnið kvaðst muna þessa dagsetningu vel, en þetta væri afmælisdagur hans. 

            Stefnandi mótmælti sönnunargildi framburðar þessara vitna.  Þá mótmælti stefnandi því sem ósönnuðu að stefndi hefði gefið bankanum fyrirmæli um að selja bréf upp í yfirdráttarskuldina.  Við endurupptöku málsins þann 15. þessa mánaðar óskaði stefnandi eftir fresti til að kanna upptökur af símtölum stefnda við starfsmenn bankans.  Dómari neitaði frekari fresti þar sem stefnandi hefði þegar fengið nægan tíma til að kanna öll sín gögn um viðskiptin við stefnda. 

 

            Niðurstaða

            Stefndi stofnaði til skuldar við Landsbanka Íslands á sérstökum gjaldeyris­reikningi með yfirdráttarheimild.  Stefnandi hefur ekki upplýst hversu lengi heimildin átti að gilda.  Telja verður fullvíst að stefnda hafi ekki dottið þetta form lántöku í hug sjálfum og verður að leggja til grundvallar að starfsmenn Landsbanka Íslands hafi ráð­lagt honum að taka þetta yfirdráttarlán, eins og hann heldur fram. 

            Stefndi fullyrðir að hann hafi beðið um að skuld sín yrði gerð upp í lok september 2008 með því að verðbréf hans, sem hafi verið veðsett til tryggingar yfir­drættinum, yrðu seld.  Hann hefur leitt dóttur sína til vitnis um símtal við starfsmann bankans og fyrrum samstarfsmann sem vitnar um heimsókn stefnda í bankann og ósk hans um sölu bréfanna.  Þá skoraði hann á stefnanda að leggja fram upptökur af samtölum hans við starfsmenn bankans, en stefnandi varð ekki við þeirri áskorun.  Sú skýring sem lögmaður stefnanda gaf að stefndi yrði að veita nákvæmari upplýsingar til að unnt væri að finna umrædd samtöl er fyrirsláttur sem er að engu hafandi. 

            Samkvæmt framansögðu verður að telja sannað að stefndi hafi beðið um að skuld hans yrði gerð upp með sölu verðbréfa sem voru í vörslu bankans.  Þessari beiðni var ekki sinnt. 

            Alþekkt er nú að á árinu 2008 unnu forsvarsmenn Landsbanka Íslands að því að hindra að hlutabréf í bankanum lækkuðu í verði.  Sú ákvörðun stefnda að selja ekki bréf sín í janúar 2008, heldur að taka lán í formi yfirdráttar, féll að þessum fyrir­ætlunum bankans.  Ekki er neitt upplýst um hvort stefndi hafi haft tekjur japönskum jenum eða átt peningalegar eignir í þeirri mynt.  Forsendur fyrir þessari ákvörðun hans eru með öllu óútskýrðar. 

            Stefndi byggir á því að hann hafi verið blekktur.  Hann vísar einnig til ákvæða samningalaga um svik, misneytingu, óheiðarleika og ósanngirni.  Ósannað er að stefndi hafi verið beittur svikum eða sætt misneytingu af hálfu bankans.  Þegar horft er til þeirra ráðlegginga sem stefnda voru veittar um lántöku, sem fól í sér verulega áhættu fyrir hann, og vanrækslu bankans á að selja verðbréf til greiðslu skuldarinnar þegar stefndi krafðist þess, verður að telja að það sé óheiðarlegt af bankanum að bera þessa skuldbindingu stefnda fyrir sig.  Verður samningur aðila um yfirdráttarlán talinn ógildur samkvæmt 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986.  Getur stefnandi því ekki krafist endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar og verður stefndi sýknaður af öllum kröfum hans. 

            Stefndi flutti mál sitt sjálfur.  Hann hefur ekki gert grein fyrir neinum sérstökum kostnaði sínum af málsvörninni og verður málskostnaður því felldur niður.

            Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

 

D ó m s o r ð

 

            Stefndi, Einar Valur Ingimundarson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Landsbankans hf. 

            Málskostnaður fellur niður.