• Lykilorð:
  • Vinnuslys

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2018 í máli nr. E-2942/2017:

Víðir Freyr Guðmundsson

(Viktoría Hilmarsdóttir lögmaður)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 18. apríl sl., var höfðað 20. september 2017 af Víði Frey Guðmundssyni, [...], gegn Tryggingamiðstöðinni hf., [...].

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði með dómi réttur hans til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu Eðalbygginga ehf., kt. 470406-1430, hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í vinnuslysi við Berghóla 26 þann 5. febrúar 2015. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

I.

Það er upphaf máls þessa að stefnandi varð fyrir slysi í starfi sínu hjá byggingafélaginu Eðalbyggingum ehf. 5. febrúar 2015. Stefnandi var, ásamt öðrum starfsmanni fyrirtækisins, á leið niður af þaki byggingar við Berghóla 26, þar sem þeir höfðu unnið að þakklæðningu. Samstarfsmaður stefnanda, Bergsteinn Kárason, var á leið niður af þakinu en á leið sinni að stiga sem notaður var til að komast upp og niður af þakinu datt hann og rann niður þakið. Stefnandi greip til Bergsteins og forðaði því að hann færi fram af þakinu en ekki vildi betur til en svo að stefnandi missti þá jafnvægið og féll fram af þakbrúninni, þrjá metra til jarðar. Stefnandi var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til frekari skoðunar. Í „samskiptaseðli“ slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 5. febrúar 2015 kemur fram að stefnandi hafi lent „eitthvað á fótum en svo aðallega beint á mjóbaki“.

Lögregla var kölluð á vettvang og í skýrslu Davíðs Ómars Gunnarssonar lögreglumanns 12. febrúar 2015 var aðkomu á slysstað lýst með eftirfarandi hætti: „Engar öryggislínur, net, eða stillansar voru á þessum vinnustað“. Þá kemur fram í skýrslu lögreglunnar að verkstjóri hafi verið Jón Helgi Daníelsson og að vitni að atvikinu hafi verið Sveinbjörn Jóhannsson og Ómar Norðfjörð Guðmundsson.

Samkvæmt gögnum málsins var Vinnueftirlitinu tilkynnt samdægurs um slysið og tímasetning slyssins í tilkynningunni tilgreind kl. 9.30. Í umsögn Vinnueftirlitsins kemur fram að Hannes Snorrason, eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins, hafi farið á staðinn kl. 10.00 5. febrúar 2017. Í umsögn Hannesar frá 23. febrúar 2018 kemur meðal annars fram að engar fallvarnir hafi verið til staðar og engar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi starfsmanna nærri þakbrún. Um aðstæður á slysstað segir að veður hafi verið stillt og úrkomulaust en raki í lofti og hiti nærri frostmarki. Nánar segir svo að hálka hafi myndast á þakklæðningunni, sem var úr nýju bárujárni, „og því mjög sleipt á þakinu“ en eftirlitsmaður tilgreinir einnig í umsögn sinni að halli þaksins hafi mælst um 18 gráður. Niðurstaða rannsóknar Vinnueftirlitsins var sú að rekja mætti orsök slyssins til þess að við verkið voru engar fallvarnir notaðar né aðrar öryggisráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir fall. Í niðurstöðunni er einnig vísað til þess að þakhalli hafi verið 18° og að „hálka vegna veðurfarslegra áhrifa hafði myndast á þakinu“.

Með tölvupósti lögmanns stefnanda 4. maí 2015 var slysið tilkynnt til stefnda, sem var vátryggjandi Eðalbyggingar ehf. á slysdegi. Þann 3. júlí 2015 staðfesti stefndi bótaskyldu úr slysatryggingu launþega. Með tölvupósti lögmanns stefnanda 17. september 2015 var bótaskylda stefnda úr ábyrgðartryggingu Eðalbygginga ehf. rökstudd og þess krafist að félagið viðurkenndi bótaskyldu úr umræddri tryggingu.

Með bréfi 11. júlí 2016 hafnaði stefndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu Eðalbygginga ehf. Stefnandi kærði afstöðu stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Niðurstaða nefndarinnar var sú að stefnandi ætti rétt á fullum bótum úr ábyrgðartryggingu Eðalbygginga ehf. hjá stefnda. Með bréfi 6. desember 2016 tilkynnti stefndi að félagið ætlaði sér ekki að hlíta úrskurði í máli stefnanda. Að þeim svörum fengnum höfðaði stefnandi mál þetta.

Slysið hefur haft varanlegar afleiðingar í för með sér og hefur Sigurður Thorlacius læknir metið varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda 8%. Á grundvelli matsins hefur stefnandi fengið greiddar bætur úr slysatryggingu launþega.

II.

Stefnandi reisir dómkröfur sínar á því að slys hans sé bótaskylt úr launþegatryggingu Eðalbygginga ehf. hjá stefnda. Afleiðingar slyssins hafi verið metnar með matsgerð Sigurðar Thorlaciusar læknis. Lögmannsstofa stefnanda og stefndi hafi staðið sameiginlega að matinu og hafi niðurstaða matsgerðarinnar verið sú að tímabil tímabundinnar óvinnufærni teldist vera 100% í fjóra mánuði, frá slysdegi 5. febrúar 2015 að telja. Varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda, sbr. töflu örorkunefndar frá 21. febrúar 2006, lið VI.A.c, hafi þótt hæfilega metin 8%. Bætur hafi verið greiddar úr launþegatryggingu Eðalbygginga ehf. og lögmaður stefnanda gert fyrirvara um frekari kröfu í ábyrgðartryggingu fyrirtækisins.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í 37. gr. sömu laga, sbr. einnig 42. gr., segi að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Í 14. gr. laganna segi að atvinnurekandi skuli gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi skuli að auki sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Samkvæmt 21. gr. laganna sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og beri honum að sjá til þess að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað sem hann hefur umsjón með. Í 1. mgr. 23. gr. laganna sé einnig kveðið á um að verkstjóri skuli beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórnar séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um að þeim ráðstöfunum sem gerðar séu til að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli verkstjóri jafnframt tryggja að hættu sé afstýrt verði hann var við einhver þau atriði sem leitt geti til hættu á slysum.

Stefnandi vísar til þess að sérstakar lágmarkskröfur gildi um vinnustaði á byggingarsvæði, sbr. B-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Í 31. gr. komi fram sérstakar lágmarkskröfur er varði vinnu á þökum. Stefnandi vísar til greinar 31.1 sem mæli fyrir um að ef framkvæma skal vinnu á þaki, sem vegna halla þaksins, áferðar þakflatarins eða vegna veðurskilyrða geti orsakað það að starfsmenn falli niður, megi ekki hefja vinnuna fyrr en nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar, svo ekki sé hætta á að menn eða efni falli niður. Nauðsynlegt geti verið að reisa verkpalla við slíka vinnu til að fyrirbyggja hættu eða setja upp annan öryggisbúnað. Þá segi í grein 31.4 að verði slíkum eða a.m.k. jafntryggum öryggisbúnaði ekki komið við skuli hver starfsmaður sem vinnur á þaki hafa öryggisbelti með lás í líflínu af viðurkenndri gerð. Líflínan skuli fest á öruggan hátt í fastan hluta byggingarinnar. Þá segi í grein 4.1.1 í I. viðauka með reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja að við tímabundna vinnu í hæð þar sem fallhætta sé fyrir hendi, og ekki unnt að tryggja öryggi starfsmanna og viðeigandi vinnuvistfræðilegar aðstæður á heppilegu undirlagi, skuli velja þau tæki sem best tryggja öruggar starfsaðstæður. Nota skuli persónuhlífar sé ekki unnt að koma við almennum öryggisráðstöfunum. Velja skuli tæki í samræmi við eðli verks, fyrirsjáanlegt álag og þannig að starfsmenn geti unnið og farið um á öruggan hátt. Þá skuli velja heppilegustu aðgangsleiðir að tímabundnum verkstöðvum þar sem starfsmenn séu í fallhættu eftir því hve oft þurfi að fara um, í hvaða hæð og hve lengi sé unnið. Í grein 4.1.4 komi fram að gera skuli viðeigandi ráðstafanir, eftir því hvaða tegund búnaðar sé valin, á grundvelli þess sem að framan greini, til að lágmarka áhættu fyrir starfsmenn sem noti slíkan búnað við vinnu. Ef nauðsyn krefur skuli gera frekari öryggisráðstafanir til að verjast falli. Við slíkar ráðstafanir skuli gerð búnaðar og styrkleiki vera með þeim hætti að unnt sé að fyrirbyggja eða stöðva fall úr hæð og, eftir því sem unnt er, fyrirbyggja að starfsmenn verði fyrir meiðslum.

Til stuðnings málatilbúnaði sínum skírskotar stefnandi til umsagnar Vinnueftirlitsins þar sem fram komi að slys stefnanda megi rekja til þess að engar fallvarnir hafi verið notaðar né aðrar öryggisráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir fall, og þá hafi einnig hálka myndast á þakinu vegna veðurfars. Þá liggi einnig fyrir lögregluskýrsla sem staðfesti að engar öryggislínur, net eða vinnupallar hafi verið á vinnustaðnum. Auk þess hafi Bergsteinn Kárason staðfest að engar fallvarnir hafi verið á staðnum. Það sé því með öllu ósannað að slíkur búnaður hafi verið til staðar.

Með hliðsjón af framangreindu telur stefnandi ljóst að verkstjórn hafi verið ábótavant, enda hafi aðbúnaður starfsmanna ekki verið í neinu samræmi við framangreindar hátternisreglur og því um skýrt brot á þeim að ræða. Rík skylda hafi hvílt á atvinnurekanda, eða verkstjóra sem fulltrúa hans, að tryggja að framangreindar öryggisreglur væru virtar og gripið yrði til aðgerða til þess að koma í veg fyrir fallhættu. Enn ríkari þörf hafi verið á því vegna veðurskilyrða á slysdegi. Stefnandi hafi verið undir boðvaldi vinnuveitanda síns umrætt sinn og verkstjóri verið á staðnum sem hafi hvorki gefið þau fyrirmæli að starfsmenn skyldu nota þann öryggisbúnað sem framangreindar lagareglur kveða á um né gert athugasemdir við það að starfsmenn væru ekki með umræddan búnað. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að fullyrðingar stefnda, þess efnis að verkstjórinn hafi gefið starfsfólki leiðbeiningar um fallvarnarbúnað og að slíkur búnaður hafi verið á verkstaðnum umrætt sinn, eigi ekki við rök að styðjast. Mjög hættulegar aðstæður hafi verið þennan morgun og því hafi verið óforsvaranlegt að starfsmenn ynnu á þakinu án þess að öruggar fallvarnir væru til staðar. Að mati stefnanda hafi verkstjóri Eðalbygginga brotið gróflega gegn þeim skyldum sem á honum hvíla samkvæmt lögum nr. 46/1980, sem og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli laganna, og því sé stefndi skaðabótaskyldur.

Stefnandi telur að Eðalbyggingar ehf. hafi með saknæmum hætti vanrækt skyldur sínar til þess að tryggja öryggi á vinnustað og að slysið hefði ekki orðið ef félagið hefði fylgt þeim öryggisreglum sem því hafi borið að fylgja.

Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi að Eðalbyggingar beri skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda á grundvelli sakarreglunnar sem og meginreglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Félagið hafi verið tryggt ábyrgðartryggingu hjá stefnda á slysdegi og því sé málshöfðun þessari beint gegn stefnda, sbr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um lagarök að öðru leyti vísi stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, auk stjórnvaldsfyrirmæla sem sett séu á grundvelli þeirra laga. Stefnandi vísar einnig til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili að lögum og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

III.

Varnir stefnda eru á því byggðar að vátryggingartakinn Eðalbyggingar ehf. hafi í hvívetna fylgt lögum og reglum og tryggt öryggi á vinnustaðnum eftir því sem hægt hafi verið og aðstæður leyfðu.

Stefndi bendir á að í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 sé kveðið á um að starfsmenn skuli stuðla að því að starfsskilyrði innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, og einnig að því að þeim ráðstöfunum sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti samkvæmt lögunum sé framfylgt. Í 2. mgr. þessarar lagagreinar sé kveðið á um að starfsmaður, sem verði var við ágalla eða vanbúnað sem leitt gæti til skerts öryggis eða lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta, og hann geti ekki sjálfur bætt úr, skuli umsvifalaust tilkynna það öryggisverði, öryggistrúnaðarmanni, verkstjóra eða atvinnurekanda. Stefnandi hafi aldrei komið á framfæri við atvinnurekanda sinn, Eðalbyggingar ehf., athugasemdum um að aðbúnaði væri áfátt eða öryggisráðstafanir á vinnustaðnum væru ófullnægjandi.

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi verið vanur starfsmaður og fram komi í umsögn Vinnueftirlitsins að stefnandi hafi haft rúmlega eins árs reynslu af störfum fyrir Eðalbyggingar ehf. á slysdegi. Samkvæmt upplýsingum frá verkstjóra verksins að Berghólum 26–28 hafði stefnandi unnið við tiltekið verk frá því 15. janúar 2015 þegar húsið var reist og til þess dags er slysið átti sér stað þann 5. febrúar 2015.

Stefndi byggir varnir einnig á því að stefnandi hafi farið á öryggisnámskeið. Í umsögn Vinnueftirlitsins sé því ranglega haldið fram að stefnandi hafi ekki hlotið sérstaka fræðslu vegna verkþáttarins varðandi öryggismál. Stefndi bendir á að í svörum Baldurs Pálssonar, eiganda Eðalbygginga ehf., og Jóns Helga Daníelssonar verkstjóra komi fram að starfsmenn fyrirtækisins, þar á meðal stefnandi, hafi setið öryggisnámskeið um fallhættu áður en hafist var handa við þakviðgerðir byggingar Vífilfells sumarið 2014. Eftir það námskeið hafi allir starfsmenn Eðlabygginga ehf. verið vel upplýstir um fallvarnarbúnað og notkun hans þegar unnið er við aðstæður þar sem hætta er á að menn geti fallið fram af. Verkstjórinn bendi á það í svörum sínum að starfsmenn séu reglulega minntir á að nota fallvarnarbúnað þegar unnið sé við aðstæður þar sem hætta sé á falli. Sérstakt skilti sem áréttaði öryggisatriði á vinnustaðnum hafi ekki farið fram hjá nokkrum starfsmanni.

Stefndi bendir á að öryggisbúnaður hafi verið fyrir hendi á vinnustaðnum, öfugt við það sem segi í umsögn Vinnueftirlitsins og í lögregluskýrslu. 

Stefndi mótmælir því að verkstjórn á vinnustaðnum hafi verið áfátt. Verkstjóri á staðnum hafi mátt treysta því að vanur starfsmaður notaði þann öryggisbúnað sem var til staðar. Það sé ekki hlutverk verkstjóra að klæða vana starfsmenn í öryggisbelti og setja hjálm á höfuð þeirra.

Stefndi reisir varnir sínar einnig á því að umsögn Vinnueftirlitsins sé í ósamræmi við aðstæður á verkstað. Í umsögn Vinnueftirlitsins sé vísað til þeirra laga- og reglugerðarákvæða sem atvinnurekanda beri að fylgja við framkvæmd vinnu, þ.á.m. reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Sérstaklega sé fjallað um vinnu á þökum í IV. viðauka B-hluta reglnanna. Í grein 31.1, sem Vinnueftirlitið vitni til, segi að ef framkvæma skal vinnu á þaki, sem vegna halla þaksins, áferðar þakflatarins eða vegna veðurskilyrða geti orsakað það að starfsmenn falli niður megi ekki hefja vinnuna fyrr en nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar svo ekki sé hætta á að menn eða efni falli niður. Nauðsynlegt geti verið að reisa verkpalla við slíka vinnu til að fyrirbyggja hættu, eða setja upp annan öryggisbúnað.

Stefndi telur að fullnægjandi öryggisbúnaður, öryggisbelti og línur, hafi verið fyrir hendi á verkstaðnum en stefnandi hafi vanrækt að nota þennan búnað. Vinnueftirlitið vísi til greinar 31.4, en þar segir að verði slíkum eða a.m.k. jafntryggum öryggisbúnaði ekki komið við skuli hver starfsmaður sem á þaki vinnur hafa öryggisbelti með lás í líflínu af viðurkenndri gerð. Líflínan skuli fest á öruggan hátt í fastan hluta byggingarinnar. Stefndi tiltekur í greinargerð sinni að stefnandi hafi tveimur dögum fyrir slysið unnið á þaki hússins í öryggisbelti og bundinn líflínu. Hann hafi hins vegar sjálfur ákveðið að nota ekki öryggisbúnaðinn þennan dag. Sökin liggi hjá stefnanda en ekki atvinnurekanda hans.

Í umsögn Vinnueftirlitsins sé þess getið að fyrirtækið hafi ekki gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn, þ.á.m. áhættumat um áætlun og forvarnir. Starfsmenn, þ.á.m. stefnandi hafi setið námskeið um fallvarnir. Eftir það hafi allir starfsmann verið vel upplýstir um fallvarnarbúnað og notkun hans þegar unnið sé við aðstæður þar sem hætta er á að menn geti fallið fram af. Slíkt námskeið gagnist, að mati stefnda, betur en skriflegar leiðbeiningar.

Stefndi telur úrlausn úrskurðarnefndar haldna ágöllum. Nefndin hafi algjörlega litið fram hjá eftirfarandi atriðum: Stefnandi hafi tveimur dögum fyrir slysið unnið á þaki hússins í öryggisbelti sem fest hafi verið með líflínu. Hann hafi setið öryggisnámskeið og þekkt vel til notkunar á fallvarnarbúnaði. Verkstjórinn, Jón Helgi Daníelsson, hafi staðhæft að öryggisbelti hefðu verið í vinnuskúr á staðnum og starfsmenn Eðalbygginga ehf., Sveinbjörn Jóhannsson og Ómar Norðfjörð Guðmundsson, sem urðu vitni að slysinu, hafi fullyrt að öryggisbúnaður hefði verið í vinnuskúr þeirra á verkstaðnum.

Stefndi telur að slysið verði rakið til óhapps eða aðgæsluleysis stefnanda, en ekki til saknæmrar eða ólögmætrar hegðunar vátryggingartakans, Eðalbygginga ehf. Orsakir slyssins verði fyrst og fremst raktar til þeirrar ákvörðunar stefnanda að nota ekki þann öryggisbúnað sem tiltækur var og hann hafði notað við sambærilegar aðstæður og honum hafi borið að nota þennan dag. 

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að rekja megi slys stefnanda til vanbúnaðar vinnustaðarins og að slysið verði að einhverju leyti rakið til athafna eða athafnaleysis starfsmanna vátryggingartakans, Eðalbygginga ehf., krefjist stefndi þess að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur að verulegu leyti. Krafan um eigin sök stefnanda sé byggð á skaðabótalögum nr. 50/1993, gr. 23 a. Varakrafa stefnda um eigin sök stefnanda byggi á því að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að fara til starfa á þaki hússins Berghólar 26–28 að morgni 5. febrúar 2015 án þess að klæðast öryggisbelti og vera bundinn líflínu. Stefnandi hafi áður verið búinn að vinna á þaki hússins og tveimur dögum áður hafi hann verið að vinna þar og þá í öryggisbelti bundinn líflínu. Stefnandi hafi setið námskeið um fallvarnir og öryggisbúnað. Hann hafi því þekkt vel til þeirrar hættu sem var því samfara að vera ekki í öryggisbelti. Hann hafi því sjálfur skapað sér ófullnægjandi vinnuaðstæður. Með því að hlýða ekki þeim leiðbeiningum sem honum höfðu verið gefnar og sniðganga þann öryggisbúnað sem tiltækur hafi verið á verkstaðnum hafi stefnandi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Á því beri hann einn ábyrgð og eigi hann að bera verulegan hluta tjóns síns sjálfur.

            Stefndi vísar til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttarins. Þá er vísað til reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr., sbr. 129. gr., laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Í tilkynningu um vinnuslys sem Baldur Pálsson, fyrirsvarsmaður Eðalbygginga ehf., sendi Vinnueftirlitinu 5. febrúar 2015 kemur fram að starfsmaður hafi fallið fram af þaki þann sama dag og að slysið hafi orðið kl. 9.30 um morguninn. Í lögregluskýrslu sem gerð var 12. febrúar 2015 kemur fram að Davíð Ómar Gunnarsson flokksstjóri hafi farið á staðinn og rætt við menn á vettvangi. Í skýrslu lögreglu greinir að engar öryggislínur, net eða vinnupallar hafi verið á vinnustað þessum. Þá er tekið fram í skýrslunni að starfsmaður Vinnueftirlitsins, Hannes Snorrason, hafi komið á staðinn og tekið við rannsókn málsins. Í umsögn Vinnueftirlitsins, sem dagsett er 23. febrúar 2015 og undirrituð af áðurnefndum Hannesi, segir að lögreglunni hafi verið tilkynnt um slysið kl. 9.40 5. febrúar 2015 og að eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins hafi farið á staðinn kl. 10.00 samdægurs og aðstæður hafi verið „óbreyttar“. Í umsögninni segir nánar, undir fyrirsögninni „Vinnubrögð og starfshættir“, að húsið sem um ræðir sé á einni hæð með þakhallann 18° og staðsett á jafnsléttu. Engar fallvarnir hafi verið fyrir hendi á vinnustaðnum og engar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi starfsmanna nærri þakbrún. Þar segir jafnframt að stefnandi sé ófaglærður starfmaður sem hafi meira en eins árs reynslu hjá fyrirtækinu en stefnandi hafi þó ekki hlotið sérstaka fræðslu vegna verkþáttarins varðandi öryggismál. Í umsögn Vinnueftirlitsins er aðstæðum á slysstað að öðru leyti lýst á þann hátt að veður hafi verið stillt og úrkomulaust en raki í lofti og hiti nærri frostmarki. Hálka hafi myndast á þakklæðningunni, sem var úr nýju bárujárni, og því hafi verið mjög sleipt á þakinu.  

            Við aðalmeðferð málsins kom stefnandi fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Kvaðst hann aldrei hafa farið á öryggisnámskeið hjá Eðalbyggingum ehf. og að ekki hefði verið lögð mikil áhersla á öryggismál hjá fyrirtækinu á því samtals 14 mánaða tímabili sem hann starfaði þar. Kvaðst stefnandi áður hafa notað öryggislínur við störf sín á þessum sama stað, þ.e. við Berghóla 26, Selfossi, en þennan umrædda morgun sem slysið varð hafi slíkar línur ekki verið á staðnum.

            Í skýrslu sinni fyrir dómi við þetta sama tækifæri fullyrti fyrirsvarsmaður Eðalbygginga ehf., Baldur Pálsson, að fallvarnarbúnaður hefði verið til hjá fyrirtækinu og aðgengilegur starfsmönnum. Sagði Baldur að ef slíkur búnaður hefði ekki verið í vinnuskúr á staðnum hefði hann verið í höfuðstöðvum fyrirtækisins þar skammt frá. Baldur sagði einnig að hann hefði gert munnlegar athugasemdir við þá niðurstöðu Vinnueftirlitsins að engar fallvarnir hefðu verið á staðnum. Í framburði hans kom einnig fram að á slysdegi hefði skriflegt áhættumat ekki legið fyrir vegna þeirra verkframkvæmda sem hér um ræðir.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu einnig vitnaskýrslu þeir Bergsteinn Kárason, Ómar Norðfjörð Guðmundsson, Sveinbjörn Jóhannsson og Jón Helgi Daníelsson, sem allir voru viðstaddir á vinnustaðnum þegar slysið varð. Í vætti síðastnefnds vitnis kom fram að hann hefði verið verkstjóri á vinnustaðnum á slysdegi, en að hann hefði þó ekki komið á staðinn þennan dag fyrr en rétt áður en slysið varð og hann hefði séð stefnanda detta fram af þakinu. Í skýrslu Jóns Helga kom einnig fram að hann teldi að öryggislínur hefðu verið á staðnum fyrir alla sem voru að vinna á þakinu.

Af hálfu stefnda hefur réttilega verið á það bent að stefnanda hafi borið að gæta tilhlýðilegrar varúðar við störf sín. Slíka ábyrgð má meðal annars lesa út úr ákvæðum 26. gr. laga nr. 46/1980 og reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum, sbr. reglur nr. 504/1999, sem settar eru á grundvelli 38. gr. laga nr. 46/1980. Af ákvæðum sömu laga og reglna leiðir þó jafnframt að sem vinnuveitandi stefnanda bar vátryggingartakinn Eðalbyggingar ehf. ríka ábyrgð og sérstakar skyldur til að tryggja öryggi starfsmanna. Í málinu sem hér um ræðir hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi fengið nauðsynlega kennslu og þjálfun í að vinna störf sín á öruggan hátt, sbr. ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980. Í skýrslutökum við aðalmeðferð málsins kom fram að verkstjóri hefði ekki komið á vinnustaðinn fyrr en um það leyti sem menn voru að fara niður af þakinu í morgunkaffi, um kl. 9.30. Fjarvist verkstjóra leysir vinnuveitanda ekki undan þeirri lögbundnu skyldu að tryggja að öryggiskröfur séu uppfylltar. Með hliðsjón af veðurskilyrðum þennan morgun og aðstæðum að öðru leyti lutu þessar kröfur sérstaklega að því að sjá til þess að öruggar fallvarnir væru á vinnustaðnum.

Fyrir liggur að bæði í skýrslu lögreglu og umsögn Vinnueftirlitsins um slysið er þess getið að engar fallvarnir hafi verið á vinnustaðnum. Rannsókn Vinnueftirlitsins lauk með þeirri niðurstöðu að orsök slyssins mætti rekja til hálku á þakinu og þess að við verkið hefðu engar fallvarnir verið notaðar. Þar sem upplýst er að fyrirsvarsmenn Eðalbygginga ehf. freistuðu þess ekki að fá þessari niðurstöðu hnekkt, sbr. málskotsheimild 98. gr. laga nr. 46/1980, geta síðari fullyrðingar, sem ganga gegn greindri niðurstöðu Vinnueftirlitsins, engu breytt. Stendur því óraskaður sá grundvöllur sem stefnandi hefur reist málssókn sína á, þ.e. að tjón hans megi rekja til þess að engar fallvarnir hafi verið á vinnustaðnum sem afstýrt hefðu getað því líkamstjóni sem hann varð fyrir við fallið.

Samkvæmt ákvæði 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993 verður réttur starfsmanns til skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann verður fyrir í starfi sínu ekki skertur vegna meðábyrgðar nema viðkomandi hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð. Við mat á varúðarskyldu stefnanda verður ekki fram hjá því horft að stefnandi var að reyna að bjarga samstarfsmanni sínum frá falli þegar slysið varð. Starfsreynsla stefnanda sjálfs gat að takmörkuðum notum komið við þær aðstæður, þar sem ráðrúm til viðbragða var mjög lítið. Þegar litið er til aðdraganda slyssins og þess að stefndi hefur ekki hnekkt áðurgreindum niðurstöðum í umsögn Vinnueftirlitsins verður ekki talið að gáleysi stefnanda í umrætt sinn hafi verið á því stigi sem um ræðir í áður tilvitnuðu ákvæði 23. gr. a í lögum nr. 50/1993.

Með vísan til framanritaðs verður fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda, svo sem nánar greinir í dómsorði. Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákvarðaður 950.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur stefnanda, Víðis Freys Guðmundssonar, til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu Eðalbygginga ehf., hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í vinnuslysi við Berghóla 26 þann 5. febrúar 2015. Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.

 

 

Arnar Þór Jónsson