• Lykilorð:
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

 

 

logohd    

 

 

 

D Ó M U R

23. mars 2018

 

 

 

 

Mál nr.            E-1402/2017:

Stefnandi:       Nirosh Lakmal R Mudiyanselage

                        (Magnús Björn Brynjólfsson lögmaður)

 

Stefndu:          ÍSAM ehf.

                        Vátryggingafélag Íslands hf. (til réttargæslu)

                        (Ólafur Arinbjörn Sigurðsson lögmaður)

 

Dómari:           Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari

 

 

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2018 í máli nr. E-1402/2017:

Nirosh Lakmal R Mudiyanselage

(Magnús Björn Brynjólfsson lögmaður)

gegn

ÍSAM ehf.

Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu

(Ólafur Arinbjörn Sigurðsson lögmaður)

 

I. Dómkröfur

Mál þetta, sem þingfest var 31. október 2017 en tekið var til dóms 1. febrúar sl., er höfðað af hálfu Nirosh Lakmal R Mudiyanselage, Hjallabraut 17 í Hafnarfirði, á hendur ÍSAM ehf. Tunguhálsi 11, Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf. Ármúla 3, Reykjavík til réttargæslu.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi ÍSAM ehf. verði dæmt skaðabótaskyldur fyrir öllu líkamstjóni sem hann hlaut í vinnuslysi hjá stefnda ÍSAM ehf. í Myllunni, Skeifunni 19 í Reykjavík þann 9. apríl 2016. Að auki er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts eða samkvæmt ákvörðun dómsins.

Stefndi ÍSAM ehf. krefst  þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að sök verði skipt og stefnanda verði gert að bera meiri hluta sakar. Í báðum tilvikum gerir stefndi auk þess kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins. Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar dómkröfur í þessu máli um annað en málskostnað, enda engar kröfur gerðar sérstaklega á hendur félaginu. Réttargæslustefndi tekur undir kröfur og málatilbúnað stefnda.

 

II. Málavextir

Stefnandi varð fyrir slysi og ristarbrotnaði á hægri fæti við störf sín í bakaríi Myllunnar 9. apríl 2016, Skeifunni 19, Reykjavík, sem er í eigu stefnda ÍSAM ehf. Slysið varð þegar stefnandi var að nota rafmagnsbrettalyftara til að flytja flórsykur á vörubretti inn í lögunarherbergi. Lyftarinn var handstýrður en hægt var að vera á fótpalli eða ganga með hann.

Þegar stefnandi hafði lokið notkun lyftarans og ætlaði að skila honum með tómu vörubrettinu til baka inn á lagerinn, rann hann til á gólfinu og klemmdist milli lyftara og árekstrarvarnar við hrærivél. Þegar stefnandi hrasaði hélt hann enn í handfangið með þumalinn á inngjöfinni á rafmagnslyftaranum, sem keyrði áfram af krafti á stefnanda með þeim hætti að hægri fótur hans klemmdist á milli lyftara og árekstrarvarnar við hrærivélina.

Stefnandi fór á bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi sama dag. Kom þá í ljós að hann hafði hlotið klemmuáverka og að brotalínan gekk út í liðinn. Fékk stefnandi spelku og var útskrifaður sama dag en ákveðið var að hann yrði í gifsi í 6 vikur án ástigs.

Bæði lögreglu og Vinnueftirlitinu var tilkynnt um slysið sama dag. Í skýrslu lögreglu 10. apríl 2016 segir að lögreglumenn á vettvangi hafi veitt því eftirtekt að gólf verksmiðjunnar hafi verið sleipt og á því hafi mátt sjá hveiti á víð og dreif. Enn fremur segir í skýrslunni að stefnandi hafi ekki verið í neins konar hlífðarfatnaði og ekki í öryggisskóm með stáltá. Hann hafi eins og flestir aðrir starfsmenn verið í hvítum CROCS gúmmískóm.

Í ódagsettri umsögn Vinnueftirlitsins um slysið segir m.a. svo:

 

„Nirosh var að flytja rafmagnslyftara með bretti á göfflunum frá lögunarherbergi inn á lager. Hann bakkaði út úr lögunarherberginu. Að sögn verkstjóra þarf starfsmaður að bakka út úr lögunarherberginu, svo hann geti haldið vængjahurðunum opnum á meðan hann fer út. Hann gengur aftur á bak með lyftarann á eftir sér og snýr bakinu í hrærivélina sem var rétt við dyrnar. Hann hrasar við þetta en þar sem hann heldur enn í handfangið á rafmagnslyftaranum keyrir hann áfram. Fóturinn á Nirosh lendir á milli árekstrarvarna við hrærivélina og lyftarans. Nirosh var á s.k. „Crocs“-skóm, en það eru einfaldir plastskór notaðir til heimilisnota.

 

Aðstæður á slysstað

Hurðin á milli rýmanna er útbúin með gormum sem halda henni lokaðri. Hurðin er ekki með sjálfvirkum opnunarbúnaði. Þegar starfsmenn koma út úr deigrýminu er umferðarleiðin erfið vegna þrengsla. Það er öflug árekstravörn við hrærivélina.

Gólfið þarna er með hveitiryki en ekki meira en það sem búast má við í starfsemi sem þessari.“

 

 

Í framhaldinu er lýst því mati Vinnueftirlitsins að orsök slyssins megi rekja til eftirfarandi atriða:

 

„Að starfsmaður þarf að bakka út úr lögunarherbergi til að halda vængjahurðum opnum, við þessar aðstæður er erfitt að sjá aftur fyrir sig.

Umferðarleið þarna er mjög þröng og erfitt að athafna sig.

Starfsmaður var ekki í öryggisskóm og því alls óvarinn fyrir hálku sem þarna gæti myndast.“

 

            Í umsögninni segir einnig að það hafi verið meðvirkandi þáttur að stefnandi notaði ekki fótpall lyftarans. Síðan segir að þótt fótpallur hefði hugsanlega hlíft fæti stefnanda í þessu tilviki, en hann hefði ekki komið í veg fyrir annað líkamstjón við árekstur við fasta hluti við þessar aðstæður.

Í umsögn Vinnueftirlitsins voru síðan sett fram fyrirmæli um eftirfarandi úrbætur í kjölfar slyssins:

 

„Gera skal áhættumat verkþátta þegar unnið er við aðstæður sem heildaráhættumat fyrirtækisins nær ekki yfir.

Gera skal úrbætur á  vængjahurðum svo að starfsmaður þurfi ekki að bakka út úr lögunarherbergi.

Starfsmenn skulu vera í öryggisskóm til að verja þá gegn hálku, sem gæti myndast í vinnurýminu.

Hafa skal verklag þar sem starfsmenn eiga að nota öryggisbúnað á lyftara.“

 

Þann 21. september 2016 gerði Stefán Dalberg bæklunarlæknir beiðni um sjúkraþjálfun fyrir stefnanda. Við skoðun læknisins sama dag kom í ljós að stefnandi var nokkuð bólginn á ristinni. Þreifieymsli hafi verið framan til og utan til á hægri ristinni og við hásinarfestuna. Stefnandi hafi auk þess haft stirðar hreyfingar í ökklanum og verki við fulla réttingu ökklans. Mun Stefán hafa ráðlagt bólgueyðandi meðferð og hreyfiæfingar á hægri fæti og ökkla.

Samkvæmt vottorði sama læknis, dags. 16. mars 2017, sem stefnandi aflaði í tilefni af þessu máli kemur fram að stefnandi telji sig hafa verið við góða heilsu fyrir slysið og ekki kennt sér meins. Hann hafi ekki lent í neinum meiri háttar slysum. Þá kemur fram að við skoðun á hægri fæti hafi komið fram að stefnandi geti ekki gengið óhaltur og hann hafi skertar hreyfingar en þær afleiðingar slyssins hafi háð honum bæði við vinnu sem og megináhugamál sitt krikket, sem hann spili, en hann geti þó ekki hlaupið sem sé hluti af spilamennskunni.

Stefnandi hafði samband við réttargæslustefnda í september 2016 og óskaði eftir afstöðu félagsins til bótaskyldu stefnda. Haft var aftur samband við tryggingarfélagið í desember og svo aftur í janúar 2017. Engin svör bárust frá félaginu. Eftir ítrekanir og eftirgangsmuni lögmanns stefnanda kom svar frá réttargæslustefnda þann 2. mars 2017 þar sem félagið hafnaði bótaskyldunni á þeim grundvelli að ekki væru fyrir hendi orsakatengsl milli líkamstjóns og slyssins. Lögmaður stefnanda skoraði samdægurs á réttargæslustefnda að rökstyðja ákvörðun sína eða nefna málsástæður máli sínu til stuðnings. Félagið svaraði því til samdægurs að stefnandi hefði ekki rökstutt kröfu sína um bótaskyldu.

Í byrjun mars 2017 sendi Vinnueftirlitið lögmanni stefnanda endurskoðaða umsögn um vinnuslysið. Þar kom fram að áhættumat hafði ekki farið fram á þeim verkþætti, sem sneri að vinnu með rafmagnslyftara við framangreindar aðstæður. Í fyrri umsögn Vinnueftirlits sagði einungis að ekki væri vitað hvort þessi verkþáttur hefði verið metinn. Réttargæslustefnda var send hin nýja og breytta umsögn og gefinn kostur að breyta afstöðu sinni til bótaskyldunnar. Réttargæslustefndi ítrekaði ÞÁ fyrri afstöðu um að bótaskylda væri ekki fyrir hendi.

Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins en auk þess gáfu skýrslu fyrir dóminum Maciej Janusz Turlo og Ólafur Jensson. Í framhaldi af skýrslutökum var gengið á vettvang.

 

III. Málsástæður aðila

Málsástæður stefnanda

Stefnandi telur að stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna slyssins vegna saknæmrar og ólögmætrar hegðunar á vinnustaðnum í Skeifunni 19. Vísar stefnandi í því sambandi til þess að bæði lögreglu og Vinnueftirliti beri saman um ýmsa öryggisþætti hafi skort til að gætt hefði verið fyllsta öryggis, aðbúnaðar og hollustuhátta. Vísar stefnandi að því leyti til umsagnar Vinnueftirlitsins og skýrslu lögreglu. Þá hafi Vinnueftirlitið sett fram fyrirmæli um ákveðnar úrbætur.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hann hafi nýlokið við að laga glassúr úr flórsykri í lögunarherbergi og notað til þess rafmagnsbrettalyftara af T 20 gerð. Stefnandi lýsir atvikum á þann veg að til þess að koma lyftaranum úr herberginu hafi hann þurft að bakka sjálfur með lyftara á eftir sér og jafnframt að halda vængjahurðum opnum í leiðinni. Með því að þurfa að bakka sjálfur eða ganga afturábak hafi stefnandi misst yfirsýn yfir þann flöt sem hann gekk afturábak yfir með þungan (um 800 kg.) rafmagnsknúinn brettalyftara á eftir sér.

Stefnandi telur að ýmsir samverkandi þættir hafi ráðið því að hann rann til á sleipu gólfinu. Þannig hafi gólfið verið hált vegna hveitisalla, auk þess sem stefnandi hafi klæðst svokölluðum CROCS-skóm úr gúmmí sem veittu enga vörn þegar hægri fóturinn varð á milli lyftara og árekstravarnar úr stáli, sem var boltuð í gólfið. Þá telur stefnandi það hafa átt þátt í slysinu að vængjahurð vantaði opnunarbúnað, umferðaleiðin hafi verið þröng, auk þess sem yfirsýn stefnanda, sem þurfti að bakka með lyftara, hafi verið skert. Þá bendir stefnandi á að ekki hafi verið fyrir hendi áhættumat, auk þess sem verkstjórn hafi verið ábótavant.

Að því er varðar skort á sjálfvirkum opnunarbúnaði vísar stefnandi nánar tiltekið til þess að vængjahurðir hafi upphaflega verið hægt að festa í opinni stöðu en sá búnaður hafi verið bilaður þegar slysið átti sér stað. Þess vegna þurfti stefnandi að ganga aftur á bak úr lögunarherbergi til að halda vængjahurðum opnum á sama tíma sem hafi heft yfirsýn hans aftur fyrir sig. Stefnandi telur að ekki hafi verið unnt að nota fótpall þar sem nauðsynlegt var að halda annarri eða báðum vængjahurðunum opnum með höndunum þegar lyftaranum var bakkað í gegnum hurðaopið. Ekki hafi verið hægt að bakka lyftara nema hafa hendi eða hendur á stýri- og stjórnunararmi lyftarans á sama tíma.

Í annan stað hafi umferðarleið verið þröng og erfitt að athafna sig. Stefnandi hafi þurft að hafa augun á annarri umferð fyrir utan dyrnar, þar sem hætta hafi verið á því að rekast í einhvern um leið og vængjadyr voru opnaðar. Í þriðja lagi hafi gólfið verið sleipt og sérstaklega vegna hveitisalla (hveiti á víð og dreif), sem sést á ljósmyndum og er staðfest í lögregluskýrslu og umsögn Vinnueftirlits. Í fjórða lagi hafi stefnandi ekki verið í öryggisskóm en atvinnurekanda bar að útvega öryggisskó í samræmi við vinnuaðstæður samkvæmt reglum nr. 497/1994. Á stjórnborði rafmagnsbrettalyftara er blá ljósmynd sem sýnir hvers konar öryggisskóbúnað á að viðhafa ,sbr. I. Viðauka í reglum nr. 497/1994. Bæði var stefnandi óvarinn fyrir hálku sem þarna var og einnig óvarinn til fótanna fyrir þeirri klemmu og því höggi, sem hann varð fyrir er hann rann til og missti vald á lyftaranum. 

Í fimmta lagi hafði ekki verið gerð skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þ.m.t. áhættumat samkvæmt XI. kafla um áhættumat sbr. 65. gr. og 65.gr.a. Að því er varðar ágalla á verkstjórn hjá stefnda telur stefnandi að verkstjóri hafi átt að sjá til þess að annar starfsmaður eða viðeigandi opnunarbúnaður héldi vængjahurð opinni á meðan rafmagnsbrettalyftara var ekið í gegn. Opnunarbúnaður hafi verið bilaður á þessum tíma, þannig að dyr festust ekki í opinni stöðu eins og þær gerðu upphaflega á sínum tíma. Viðhaldi hafi því verið ábótavant. Þá hafi hann átt að sjá til þess að ekki væri hveitisalli á gólfi og koma þannig í veg fyrir hálku eða sleipt yfirborð. Það hafi einnig verið í hans verkahring að ganga eftir því að starfsmenn og þ.m.t. að stefnandi væri í öryggisskóm, sem vinnuveitandi útvegaði samkvæmt reglum nr. 497/1994.   

Stefnandi telur að framangreind óaðgæsla og vanræksla stefnda sem vinnuveitanda hafi valdið honum alvarlegu líkamstjóni. Beint orsakasamhengi og sennileg afleiðing sé á milli saknæmrar hegðunar stefnda og líkamstjóns stefnanda og beri stefndi bótaábyrgð í málinu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga. Frumorsök slyssins hafi verið ófullnægjandi opnunarbúnaður á vængjahurð, þrengsli, hálka v. hveitisalla eða bleytu, ófullnægjandi skóbúnaður, ófullnægjandi verkstjórn og vöntun áhættumats. Þessir þættir valdi allir skaðabótaskyldu stefnda sem og vinnuveitanda. Starfsmenn stefnda hafi sýnt saknæmt aðgæsluleysi, sem hafi valdið líkamstjóni stefnanda.

Að mati stefnanda getur stefndi ekki haldið því fram með réttu að heilsutjón stefnanda verði rakið til stórkostlegs gáleysis hans. Með vísan til 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009, verði réttur stefnda til skaðabóta ekki skertur, hvorki að hluta né að öllu leyti. Jafnvel þótt talið verði að hann hafi sýnt aðgæsluleysi. Hann hafi ekki sýnt af sér það gáleysi eða ásetning, sem heimili að skerða bætur til hans eða fella þær niður samkvæmt ákvæðinu. Telur stefnandi því að stefndi beri fulla skaðabótaábyrgð á líkamstjóni hans af völdum slyssins.          

Stefnandi áskilur sér allan rétt til að krefja stefnda um beinar og óbeinar skaðabætur vegna þess heilsutjóns, sem hann hefur orðið fyrir en honum beri nauðsyn til að fá viðurkenndan bótarétt sinn, þar sem réttargæslustefndi VÍS hf. hafi hafnað bótaskyldu f.h. stefnda. Með hliðsjón af því að deilt er einvörðungu um bótaskyldu, telur stefnandi rétt að höfða mál gegn hlutaðeigandi aðila, sem tengist málinu með beinum hætti. Vátryggingarfélagi Íslands hf. er stefnt til réttargæslu en ekki er gerð málskostnaðarkrafa á hendur því. 

Stefnandi styður kröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, sakarregluna og meginregluna um vinnuveitendaábyrgð, lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 5. gr., 13.gr., 14.gr., 21.gr., 23.gr., 37.gr., 42.gr., 46.gr., 65.gr., 87.gr., 99.gr. laganna. Af hálfu stefnanda er einnig byggt á reglugerð um notkun tækja nr. 367/2006, einkum 5. gr. og 8. gr. og I. viðauka með reglugerð nr. 367/2006, einkum lið 2.3., 2.4. og 3.1.5.

Einnig er byggt á reglugerð nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, einkum 5. gr. og 6. gr. Þá er byggt á reglum um notkun persónuhlífa nr. 497/1994, einkum 1. mgr., 3. mgr.,6. mgr. og 7. mgr. 4. gr. og I. viðauka reglugerðarinnar, um öryggisskó. Þá byggir stefnandi á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Um aðild vísast til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991 og um málskostnað er vísað til 129. gr. og 130. gr. sömu laga.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi mótmælir alfarið öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Vísar stefndi til þess að stefnandi hafði starfað hjá stefnda ÍSAM ehf. um 10 ára skeið, er hann lenti í slysi í framleiðslusal Myllunnar bakarís að Skeifunni 19 í Reykjavík rétt fyrir kl. 10:00 um morgun þann 9. apríl 2016. Eitt af verkefnum stefnanda þennan dag hafi falist í því að laga glassúr, en í því skyni þurfti hann að sækja bretti í hliðarsal starfsstöðvarinnar, þar sem hráefni eru geymd.

Af hálfu stefnda er bent á að stefnandi hafi ekki verið starfsmaður á lager, heldur starfsmaður í framleiðslusal, og hann hafi því ekki verið klæddur í öryggisskó með stáltá. Þeir starfsmenn fyrirtækisins sem vinna á lagernum klæðast öryggisskóm með stáltá við vinnu sína. Þeir starfsmenn fyrirtækisins sem vinna í framleiðslusal klæðast hins vegar skóm sem sérstaklega eru hannaðir fyrir starfsmenn matvælafyrirtækja og varna því að notandinn renni til þar sem gólf geta verið hál. Er því sérstaklega mótmælt sem röngu, sem fram kemur í lögregluskýrslu og í framhaldi hennar í skýrslu Vinnueftirlitsins og stefnu, að um hafi verið að ræða einfalda plastskó af gerðinni „Crocks“, sem ætlaðir séu til heimilisnota. Þvert á móti er um að ræða skó frá merkinu „Shoes for Crews“, sem séu sérstaklega hannaðir fyrir einmitt þær aðstæður sem stefnandi vann í. Sjá má að um sé að ræða sams konar skó af mynd í lögregluskýrslu sem fyrir liggur í málinu. Stefndi bendir enn fremur á að starfsmönnum er óheimilt að notast við annan skóbúnað í framleiðslusalnum nema að fá til þess heimild verkstjóra samkvæmt þeim reglum stefnda sem hangi frammi á vinnustaðnum.

Af hálfu stefnda er enn fremur vísað til þess að í stað þess að nota hefðbundinn pallettutjakk til að sækja brettið inn í hliðarsalinn, líkt og eðlilegt sé, hafi stefnandi ákveðið sjálfur að notast við lyftara til að flytja brettið. Lyftarinn sem um ræðir er geymdur á lager fyrirtækisins, þar sem stefnandi starfar ekki, og er ætlaður til flutninga lagerstarfsmanna á þungum hlössum, sem yfirleitt vega í kringum og yfir tonn. Lyftarinn er ekki leyfisskyld vél og er starfsmönnum framleiðslusalar ekki bannað að nota hann við framkvæmd starfa sinna. Til þess sé hins vegar hvorki ætlast né mælst.

Stefndi bendir enn fremur á að lyftarar af tveimur öðrum tegundum séu til taks á staðnum, annars vegar hefðbundnir pallettutjakkar, svo sem venja sé og eðlilegt að nota til að lyfta léttu hlassi á einu vörubretti, og hins vegar léttari rafknúinn lyftari, sem hægt sé að nota til að lyfta léttari hlössum og er hvorki eins kraftmikill eða hraðskreiður eins og sá sem stefnandi notaði þegar slysið varð. Ætlast sé til þess að pallettutjakkar séu notaðir við flutninga á stökum vörubrettum með léttum hlössum, líkt og það sem stefnandi flutti þegar slysið varð.

Stefndi vísar einnig til þess að starfsmenn eigi að notast við fótpall við notkun lyftarans sem um ræðir, en það hafi stefnandi ekki gert. Fótpallurinn er fastur á lyftarann og er hann settur niður, þannig að sá sem stýrir lyftaranum geti staðið á honum og þurfi ekki bæði að gæta þess hvert hann gengur og gæta að för lyftarans. Samhliða fótpallinum beri starfsmönnum að notast við sérstaka persónuhlíf, eins konar handrið, sem gengur út úr lyftaranum og umlykur þann sem stýrir honum, svo að stjórnandi lyftarans sé varinn fyrir höggi eða tjóni meðan á stjórnun lyftarans stendur. Sé fótpallur lyftarans niðri er ekki hægt að keyra lyftarann nema persónuhlífin sé einnig úti. Séu hvorki fótpallur né persónuhlíf úti er hægt að keyra lyftarann, en með þeim hætti eigi ekki að nota lyftarann nema til að færa hann til og frá örstuttan spöl.

Stefndi bendir á að í stað þess að nota fótpallinn hafi stefnandi gengið á undan lyftaranum, aftur á bak. Telur stefndi að stefnanda hafi verið í lófa lagið annað hvort að ganga áfram með lyftarann á undan sér, nota fótpall lyftarans eða nota pallettutjakk.

Stefndi mótmælir því sem haldið er fram í stefnu um að bilun hafi verið í opnunarbúnaði hurðarinnar milli hliðarsalarins og framleiðslusalarins, hún var og er í góðu lagi. Hurðin sem um ræðir sé tvöföld sveifluhurð (e. swing door), sem er hurðarhúnslaus og opnist í báðar áttir. Stefndi hafi valið hurðina sérstaklega fyrir framleiðslusalinn að vel athuguðu máli, þar sem hún auðveldi aðgengi fyrir starfsfólk en tryggi samtímis hollustuhætti. Hurðin sé létt og meðfærileg og opnist auðveldlega ef keyrt er í gegnum hana á lyftara eða pallettutjakk. Alvanalegt sé að starfsmenn opni hana með því að keyra pallettur á brettum eða stór ker á hjólum á undan sér, eða dragi þau á eftir sér. Ekki sé þörf á að halda henni opinni með höndunum, heldur opnist hún auðveldlega ef gengið er á hana, hvort heldur er áfram eða aftur á bak. Hurðin hafi verið í notkun í um 5 ár og kveður stefndi aldrei, hvorki fyrr né síðar, hafa orðið slys á vinnustaðnum sem rekja megi til hurðarinnar eða þess að hún sé ekki rétt útbúin. Hurðin hafi ekki sjálfvirkan opnunarbúnað, enda sé um að ræða fjölmenna starfsstöð þar sem slíkur opnunarbúnaður gæti orðið til trafala. Hurðin geti hins vegar haldist opin sjálf, sé hún opnuð upp á gátt. Búnaðurinn sem tryggir þann möguleika hafi ekki verið bilaður á þeim tíma sem slysið varð, líkt og haldið er fram í stefnu.

Stefndi telur að stefnandi hafi ekki haft neina ástæða til að sleppa notkun fótpallsins, sem tryggja eigi öryggi og auðvelda notkun lyftarans, þegar hann keyrði lyftarann gegnum sveifluhurðina umrætt sinn. Telur stefndi að notkun fótpallsins hefði komið í veg fyrir slysið, en eina ástæða þess að árekstur varð milli lyftarans og hrærivélarinnar var sú að stefnandi rann til meðan hann hafði fingurinn á inngjöf lyftarans og gaf lyftaranum við það inn. Keyrði lyftarinn við það áfram og á fót stefnanda, sem klemmdist milli lyftarans og árekstrarvarnar hrærivélar sem stóð þar nokkuð fyrir aftan. Hefði stefnandi notað fótpall lyftarans, eða notað pallettutjakk svo sem venjulegt er að nota við starfann, hefði slysið ekki orðið.

Stefndu lætur þess einnig getið að slysið varð snemma morguns á laugardegi, þegar bakstri er næstum lokið. Eina framleiðslan sem var í gangi þegar slysið varð var sú sem stefnandi vann að, en þess utan voru aðeins starfsmenn við þrif í salnum. Var því engum færanlegum grindum og kerum á hjólum í salnum til að dreifa, né heldur umferð fólks sem stefnandi þurfti að gæta sín á. Um fjórir metrar séu frá hurðinni og að næsta gólffasta hlut í framleiðslusalnum, sem sé grind við vél gegnt hurðinni,. Lyftarinn sem stefnandi keyrði umrætt sinn sé um tveir metrar á lengd. Hafði stefnandi því nægt rými til að athafna sig og þurfti ekki að taka skarpa beygju þegar út í framleiðslusal var komið, líkt og hann gerði.

Að því er varðar aðalkröfu sína um sýknu vísar stefndi til þess að samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar verði sá sem krefst skaðabóta að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni, auk þess sem hann ber sönnunarbyrðina fyrir því hver atvik að baki tjóninu voru. Þá beri honum að sanna að orsakatengsl séu milli tjóns hans og atvika. Sönnunarbyrðin hvíli á tjónþola og verði ekki vikið frá þessari almennu reglu nema í algjörum undantekningartilvikum. Í þessu máli beri stefnanda því að sanna að tjónið megi rekja til atvika sem ÍSAM ehf. eða starfsmenn sem félagið ber ábyrgð á beri skaðabótaábyrgð að lögum.

Sýknukrafa stefnda byggir á því að stefnandi hafi ekki sannað framangreint heldur megi rekja slysið til óhappatilviljunar og/eða eigin sakar stefnanda sjálfs sem ÍSAM ehf. verður ekki gefin að sök.

Stefndi mótmælir því að slysið verði rakið til þess að ÍSAM ehf. hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða reglum settum á grundvelli laganna. Vinnustaðurinn sem um ræðir hafi uppfyllt allar öryggiskröfur og öryggi starfsmanna þar hafi verið tryggt með viðeigandi hætti.

Stefndi leggur áherslu á að ekki hafi verið sýnt fram á hver hafi verið orsök þess að stefnandi rann til, með þeim afleiðingum sem getur í stefnu. Að því sé látið liggja að hveiti og/bleytu hafi þar verið um að kenna, án þess að sönnur séu færðar á það. Undirstrika ber að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að bleyta hafi verið á gólfinu. Af gögnum málsins megi hins vegar ráða að hveitiryk hafi verið á gólfi, svo sem við má búast á vinnustað líkt og þeim sem um ræðir.

Stefndi telur að almennt megi gera ráð fyrir að hveiti sé á gólfi í framleiðslusal bakarís. Hins vegar sé það ósannað og er því alfarið hafnað að slysið sé að rekja til þess að hveiti var á gólfinu. Verkferlar stefnda hafi tryggt að gólf í framleiðslusal væri reglulega sópað og hreinsað þannig að ekki væri slysahætta af því. Eðli málsins samkvæmt finnist þó ávallt hveiti og hveitiryk í framleiðslusal stórs bakarís líkt og þess sem um ræðir í málinu, enda sé nauðsynlegt að dreifa reglulega hveiti á framleiðsluvélarnar til að deig festist ekki við þær. Það hveitiryk setjist á gólf framleiðslusalarins og því séu starfsmönnum útvegaðir sérstakir skór til að varna því að þeir renni til. Þeir skór séu öryggisskór og uppfylli allar kröfur sem gerðar séu til persónuhlífa og aðbúnaðar á vinnustöðum. Slíkir skór séu enn fremur mun betur til þess fallnir að tryggja öryggi starfsmanna stefnda heldur en stáltárskór, svo sem haldið sé fram í stefnu að útvega hafi átt stefnanda, enda varni stáltárskór því ekki að hægt sé að renna til ef gólf er hált. Stáltárskór hefðu síst komið í veg fyrir slysið, í ljósi þess að stefnandi vanrækti það að nota fótpall og hlíf lyftarans, heldur þvert á móti aukið slysahættuna þar sem slíkir skór eru ekki stamir og hefðu ekki varnað því að stefnandi rynni til.

Af hálfu stefnda er enn fremur vísað til að engin bilun hafi verið í sveifluhurðinni milli framleiðslusalarins og hliðarsalarins, svo sem haldið sé fram í stefnu. Fullyrðing stefnanda um þetta atriði eigi sér því ekki nokkra stoð í gögnum málsins. Sveifluhurðin hafi verið í góðu lagi og sú staðreynd að hún hafi ekki verið búin sjálfvirkum opnunarbúnaði hafi á engan hátt valdið slysinu, enda var það ekki fyrr en eftir að komið var í gegnum hurðina sem stefnandi rann til. Hurðina megi láta standa opna með einföldum hætti en einnig sé auðvelt að keyra í gegnum hana án þess að halda henni sérstaklega opinni, sérstaklega ef notaður er fótpallur og meðfylgjandi persónuhlíf, enda ýta þau þá hurðinni upp á gátt.

Stefndi ítrekar að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að nota rafmagnslyftarann sem um ræðir við að færa vörubrettið en til þess hafi stefndi hvorki ætlast né mælst. Eðlilegra hefði verið að flytja svo létt hlass með einföldum pallettutjakki, eða léttari og kraftminni gerð af rafmagnslyftara. Stefnandi hafi hins vegar sótt kraftmesta og hraðskreiðasta lyftara fyrirtækisins inn á lagerinn til að flytja eitt vörubretti. Þá var það ákvörðun stefnanda að nota ekki fótpall lyftarans, svo sem honum hefði verið í lófa lagið og hefði varnað því að hann rynni til með fyrrgreindum afleiðingum. Stefndi ítrekar og leggur áherslu á að stefnandi var búinn að vinna á þessum vinnustað í um 10 ár og hann hafi því verið mjög reyndur.

Stefndi hafnar því að plássið sem stefnandi hafði til að athafna sig hafi verið þröngt, eða að slíkt plássleysi hafi orsakað slysið. Frá hurðinni milli framleiðslusalarins og hliðarsalarins að næsta fasta hlut séu um fjórir metrar, en lyftarinn sem hann notaði sé um tveir metrar á lengd. Þurfti hann því ekki að bakka í beygju eftir að í gegnum hurðina var komið, heldur hefði hann hæglega getað bakkað beina leið út úr hliðarsalnum og keyrt svo áfram beygjuna. Einnig sé til þess að líta að slysið varð snemma morguns á laugardegi þegar bakstri var að mestu lokið. Voru því fáir starfsmenn á staðnum og lítil umferð fólks sem huga þurfti að, andstætt því sem haldið er fram í stefnu.

Þá telur stefndi að engu í aðbúnaði eða verkstjórn stefnda verði kennt um það slys sem stefnandi varð fyrir heldur hafi það eingöngu verið að rekja til óhappatilviljunar og/eða eigin sakar stefnanda sjálfs. Þá hafnar stefndi því alfarið sem röngu og ósönnuðu að það að ekki hafi verið gert áhættumat um umræddan verkþátt hafi á einhvern hátt átt þátt í að slysið varð. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á nein orsakatengsl þar á milli. Þá bendir stefndi á að hvorki stefnandi né aðrir starfsmenn ÍSAM hafa gert athugasemd við umrædda hurð, gólf, lyftara, verklag, verkstjórn og/eða aðra meinta ágalla eða vanbúnað á vinnustaðnum, sbr. 26. gr. laga nr. 46/1980.

Stefndi telur ljóst af framangreindu að það sé ósannað með öllu að hann hafi með einhverjum hætti vanrækt skyldur sínar, hvort sem er samkvæmt lögum eða almennum reglum skaðabótaréttarins. Þar með sé ósannað að meint vanræksla hafi orsakað slys stefnanda. Hvorki sé sýnt fram á að slysið sé í orsakatengslum við, né sennileg afleiðing af, saknæmri og ólögmætri háttsemi sem stefndi ber ábyrgð á. Af þeim sökum ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

 

Varakrafa um skiptingu sakar.

Til vara krefst stefndi þess að sök verði skipt í málinu og stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfs.Varakröfu sína byggir stefndi á 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga, þar sem í háttsemi stefnanda umræddan dag hafi falist stórkostlegt gáleysi. Skuli bótaréttur hans því skerðast.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því annars vegar að notast við umræddan lyftara til starfans og hins vegar að beita umræddum lyftara með röngum hætti. Með því að nota svo kraftmikinn og hraðskreiðan lyftara fyrir svo létt hlass, án þess að notast við innbyggðan búnað, þ.e. fótpall og persónuhlíf, sem er til að tryggja öryggi notandans, hafi stefnandi sýnt af sér svo mikla vangá að hún teljist til stórkostlegs gáleysis. Til þess beri að líta að stefnandi sé reyndur starfsmaður með langa starfsreynslu hjá stefnda sem hafi átt að vita betur en að sleppa notkun fótpalls og persónuhlífar við keyrslu lyftarans. Stefndi vísar að öðru leyti til umfjöllunar um sýknukröfuna, eftir því sem við á.

Krafa stefnda um að stefnandi greiði honum málskostnað er byggð á 129. - 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála

 

IV. Niðurstaða

   Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fella beri skaðabótaskyldu á stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir við störf sín 9. apríl 2016 þegar hann klemmdist á milli lyftara sem hann var að nota og árekstrarvarnar við hrærivél.

Stefnandi telur sem fyrr segir að ýmsir samverkandi þættir hafi valdið slysi hans sem stefndi beri ábyrgð á. Þannig hafi gólfið á vinnustað stefnanda verð hált vegna hveitisalla, auk þess sem stefnandi hafi klæðst CROCS-skóm úr gúmmí sem veittu enga vörn þegar hægri fóturinn varð á milli lyftara og árekstravarnar úr stáli, sem boltuð var í gólfið. Þá telur stefnandi það hafa átt sinn þátt í slysinu að vængjahurð vantaði opnunarbúnað, umferðaleiðin hafi verið þröng, auk þess sem yfirsýn stefnanda, sem þurfti að bakka með lyftara, hafi verið skert. Þá bendir stefnandi á að ekki hafi verið fyrir hendi áhættumat, auk þess sem verkstjórn hafi verið ábótavant.

Stefndi vísar í meginatriðum til þess að stefnandi beri sjálfur sök á slysinu þar sem hann hafi ekki notað fótpall og persónuhlíf lyftarans sem um ræðir, sem hefði komið í veg fyrir slysið. Auk þess er því mótmælt af hálfu stefnda að slys stefnanda megi rekja til þess að skófatnaði stefnanda, sem og aðstæðum á vinnustað og verkstjórn stefnda, hafi verið áfátt.

Dómurinn getur tekið undir það með stefnanda að hafa megi ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og stjórnvaldsfyrirmæl sem sett hafa verið á grundvelli þeirra til hliðsjónar sem lágmarksviðmið um kröfur til aðbúnaðar og öryggis á vinnustað. Í ódagsettri umsögn Vinnueftirlitsins í kjölfar slyss stefnanda er lýst því mati að slysið megi rekja til þess að stefnandi hafi bakkað út úr lögunarherberginu og átt erfitt með að sjá aftur fyrir sig, auk þess sem umferðarleiðin á vinnustaðnum sé þröng og erfitt hafi verið að athafna sig. Í umsögninni kemur er hins vegar jafnframt bent á að stefnandi hafi ekki notað fótpall lyftarans sem um ræðir. Þá er því lýst sem meðvirkandi þætti að ekki hafi verið búið að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar með talið áhættumat.

       Við mat á því hvort saknæmri háttsemi starfsmanna stefndu sé til að dreifa verður aftur á móti að líta til þeirrar röksemdar stefnda að stefnandi hafi ekki átt að nota lyftarann sem um ræðir án þess að styðjast við þar tilgerðan fótpall. Óumdeilt er í málinu að þegar slysið varð notaði stefnandi hvorki fótpall sem var á lyftaranum né persónuhlíf sem gengur út úr lyftaranum og umlykur stjórnanda lyftarans og ver hann fyrir höggi eða tjóni meðan á stjórnun lyftarans stendur. Þá er ekki deilt um að þegar fótpallur lyftarans er niðri er ekki unnt að keyra lyftarann nema persónuhlífin sé einnig úti.

Dómurinn telur ljóst að ef stefnandi hefði notað lyftarann með tilskildum hætti þá hefði hann ekki orðið fyrir því slysi sem hann krefst þess nú að stefndi verði gerður bótaskyldur fyrir. Skóbúnaður stefnanda og hveitiryk á slysstað hefðu því engu máli skipt, ef stefnandi hefði notað lyftarann réttilega. Að því er varðar þá málsástæðu stefnanda að vængjahurð hafi verið biluð þegar slysið átti sér stað þá liggja engar upplýsingar um slíkt fyrir í gögnum málsins. Verða fullyrðingar stefnanda þar um ekki lagðar til grundvallar. Eftir að hafa farið á vettvang og skoðað aðstæður á slysstað fær dómurinn enn fremur ekki annað séð en að stefnanda hafi verið hægt um vik að nota önnur tæki eins og pallettutjakk við að flytja flórsykurinn umræddan morgun.

Að mati dómsins hefur ekkert komið fram í málinu sem rennir stoðum undir þær málsástæður stefnanda vinnusvæðinu eða verkstjórn hjá stefnda hafi verið ábótavant með þeim hætti að slys stefnanda verði rakið til þeirra. Þá hefur stefnandi ekki gert grein fyrir því í málatilbúnaði sínum með hvaða hætti áhættumat eða skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað hefði getað varnað því að stefnandi lenti í slysinu og hvernig það verði þá rakið til sakar stefnda eða starfsmanna sem hann ber ábyrgð á.

       Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi verið rétt að notast við þann fótpall sem var á lyftaranum og ætlaður var til að forða slysum. Þá verður ekki horft fram hjá því að stefnandi hafði þegar slysið varð starfað í langan tíma í bakaríi stefnda og var því vel kunnugur öllum aðstæðum á vinnustaðnum. Í því sambandi verður heldur ekki litið framhjá þeim vörnum stefnda, sem stefnandi hefur ekki hnekkt, að fátt hafi verið um manninn á starfsstöð stefnda daginn sem slysið varð. Að teknu tilliti til aldurs og verklegrar reynslu stefnanda verður auk þess að telja að hann hafi mátt gera sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgdi því að nota lyftarann með þeim hætti sem hann gerði. Verður því ekki önnur ályktun dregin af framangreindu en að slysið þann 9. apríl 2016 verði að öllu leyti rakið til aðgæsluleysis stefnda sjálfs. 

       Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að færa sönnur á að rekja megi líkamstjón hans til ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað sem stefndi beri ábyrgð á. Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

       Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.

Stefnandi lagði við aðalmeðferð málsins fram reikning um málskostnað frá lögmanni sínum sem hljóðar upp á samtals 2.820.431 krónur. Þótt hér sé ekki tekin endanleg afstaða fjárhæðarinnar með ákvörðun málskostnaðar telur dómurinn engu að síður að fjárhæðin sé úr hófi miðað við umfang málsins.

            Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Stefndi, Ísam ehf., skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Nirosh Lakmal R Mudiyanselage. Málskostnaður fellur niður.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson