• Lykilorð:
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Vinnulaunamál

 

                                                            D Ó M U R

                                                            Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 12. mars 2014 í máli nr. E-1762/2013:

                                                            Kristján Oddsson

                                                            (Lára Valgerður Júlíusdóttir hrl.)

                                                            gegn

                                                            íslenska ríkinu

                                                            (Óskar Thorarensen hrl.)

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 6. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristjáni Oddsyni, Haukalind 10 í Kópavogi. Stefnandi er íslenska ríkið, Arnarhvoli í Reykjavík en fyrir þess hönd er stefnt fjármálaráðherra og velferðarráðherra. Stefna var birt 17. apríl 2013.

            Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum vangreidd laun vegna yfirvinnu fyrir tímabilið frá 1. febrúar 2007 til 28. febrúar 2011 auk orlofs, samtals að fjárhæð 3.535.191 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sem hér segir: Af 4.612 kr. frá 1. febrúar til 1. mars 2007, af 27.670 kr. frá 1. mars til 1. apríl 2007, af 115.293 kr. frá 1. apríl til 1. maí 2007, af 129.405 kr. frá 1. maí til 1. ágúst 2007, af 152.924 kr. frá 1. ágúst til 1. september 2007, af 235.243 kr. frá 1. október til 1. nóvember 2007, af 251.378 kr. frá 1. nóvember til 1. desember 2007, af 321.937 kr. frá 1. desember 2007 til 1. janúar 2008, af 462.519 kr. frá 1. janúar til 1. febrúar 2008, af 537.992 kr. frá 1. febrúar til 1. mars 2008, af 590.771 kr. frá 1. mars til 1. apríl 2008, af 701.125 kr. frá 1. apríl til 1. maí 2008, af 787.490 kr. frá 1. maí til 1. júní 2008, af 806.682 kr.frá 1. júní til 1. júlí 2008, af 851.063 kr. frá 1. júlí til 1. ágúst 2008, af 961.418 kr. frá 1. ágúst til 1. september 2008, af 992.605 kr. frá 1. september til 1. október 2008, af 1.100.473 kr. frá 1. október til 1. nóvember 2008, af 1.305.934 kr. frá 1. nóvember til 1. desember 2008, af 1.531.942 kr. frá 1. desember 2008 til 1. janúar 2009, af 1.721.994 kr. frá 1. janúar til 1. febrúar 2009, af 1.865.817 kr. frá 1. febrúar til 1. mars 2009, af 1.999.367 kr. frá 1. mars til 1. apríl 2009, af 2.184.282 kr.frá 1. apríl til 1. maí 2009, af 2.251.057 kr. frá 1. maí til 1. júní 2009, af 2.281.876 kr. frá 1. júní til 1. júlí 2009, af 2.415.426 kr. frá 1. júlí til 1. ágúst 2009, af 2.430.836 kr. frá 1. ágúst til 1. september 2009, af 2.620.888 kr. frá 1. september til 1. október 2009, af 2.744.165 kr. frá 1. október til 1. nóvember 2009, af 2.862.305 kr. frá 1. nóvember til 1. desember 2009, af 2.944.490 kr. frá 1. desember 2009 til 1. janúar 2010, af 3.113.995 kr. frá 1. janúar til 1. febrúar 2010, af 3.170.497 kr. frá 1. febrúar til 1. mars 2010, af 3.180.770 kr. frá 1. mars til 1. apríl 2010, af 3.216.726 kr. frá 1. apríl til 1. maí 2010, af 3.273.228 kr. frá 1. maí til 1. ágúst 2010, af 3.386.232 kr. frá 1. ágúst til 1. september 2010, af 3.417.051 kr. frá 1. september til 1. nóvember 2010, af 3.422.188 kr. frá 1. nóvember til 1. desember 2010, af 3.488.963 kr. frá 1. desember 2010 til 1. janúar 2011, af 3.514.645 kr. frá 1. janúar til 1. febrúar 2011, af 3.524.918 kr. frá 1. febrúar til 1. mars 2011, af 3.535.191 kr. frá 1. mars 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Enn fremur krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi hans. Til vara krefst stefnandi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

 

            Atvik máls og ágreiningur

            Í máli þessu er deilt um launagreiðslur til stefnanda fyrir yfirvinnu. Stefnandi hóf störf hjá Landlæknisembættinu á árinu 2006, fyrst í tímabundið starf en síðan í fast starf sem yfirlæknir embættisins. Ráðningarsamningur var gerður þann 10. október 2007. Um tíma var hann staðgengill landlæknis. Í ráðningarsamningi kemur fram að samningurinn sé ótímabundinn, starfshlutfall stefnanda sé 100% og upphafsdagur ráðningar sé 16. október 2007. Þá segir um fyrirkomulag launagreiðslna: „Mánaðarlaun eru greidd eftirá fyrsta virkan dag hvers mánaðar næst á eftir vinnumánuði. Þá eru einnig greidd laun fyrir yfirvinnu, vaktaálög, ferðakostnaður, akstursgjald og aðrar greiðslur fyrir tímabilið frá 16. degi mánaðar til 15. dags mánaðar næst á undan greiðsludegi.‟ Stefnandi hefur verið í launalausu leyfi frá embættinu frá því í maí 2011.

            Stefnandi kveðst hafa verið sagt frá því fljótlega eftir að hann hóf störf hjá embættinu að sú regla gilti um yfirvinnu að hún væri ekki greidd út heldur mættu starfsmenn taka hana út í fríi.

            Ágreiningur um vinnutíma og greiðslur endurspeglast nokkuð í tölvupóstsamskiptum milli aðila frá árinu 2010. Þann 27. janúar sendi stefnandi landlækni óskir um frídaga í febrúar til maí það ár, bæði orlof og námsleyfi. Landlæknir svarar sama dag og biður um nánari upplýsingar um námsleyfi en gerir að öðru leyti ekki athugasemdir við orlof sem hann kveðst ganga út frá að sé hluti af sumarleyfi. Stefnandi svarar og segir að þetta sé „sumarfrí, vetrarfrí og uppsöfnuð yfirvinna allt í bland”. Í skeytum milli sömu aðila 20. maí s.á. kemur fram að stefnandi vilji vinna á Kirkjubæjarklaustri í nokkra daga og spyr hann landlækni hvort hann sjái eitthvað því til fyrirstöðu. Landlæknir fellst ekki á að stefnandi sé í vinnu á tveimur stöðum samtímis og sé á tvöföldu kaupi og tilkynnir stefnanda það samdægurs með tölvuskeyti. Stefnandi svarar með því að óska eftir launalausu leyfi. Þá innir stefnandi landlækni eftir heimild til að sinna kennslu við HR samhliða starfi, í skeyti þann 28. júní. Landlæknir svarar sama dag og segir hann geta tekið að sér kennsluna á vinnutíma en aftur á móti vænti hann þess að stefnandi láti „embættið njóta þessarra klst. þegar verkefni þín fyrir embættið krefjast þess utan hefðbundis dagvinnutíma‟. Stefnandi er ekki alls kostar sáttur við þessi svör og lýsir því í svarskeyti en landlæknir bregst við með skeyti þann 1. júlí og ítrekar þar að yfirvinna sé ekki greidd við embættið nema um það sé sérstaklega samið og kveðst gera ráð fyrir að stefnanda sé kunnugt um þá reglu sem gilt hafi fyrir hann sem aðra starfsmenn og ekki standi til að gera breytingu á. Fyrra skeytið hafi falið í sér ítrekun á þeirri reglu. Í tölvuskeyti þann 13. apríl 2011, sem stefnandi sendi Þórarni Gunnarssyni, fjármálastjóra landlæknisembættisins, með afriti til landlæknis, fer hann fram á að fá greidda yfirvinnu samkvæmt vinnuskýrslum. Vísar hann til ráðningarsamnings síns og fer fram á að greiðslur verði inntar af hendi fyrir 1. júní það ár. Þá fylgdi Læknafélag Íslands eftir kröfum stefnanda með bréfaskiptum Landlæknisembættið sem hefur alfarið hafnað kröfum hans um yfirvinnugreiðslur.

            Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Þá komu fyrir dóm vitnin Geir Gunnlaugsson landlæknir, Matthías Halldórsson, fyrrverandi aðstoðarlandlæknir, og Þórarinn Gunnarsson, fjármálastjóri hjá Embætti landlæknis.

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi byggir kröfu sína á því að með ráðningarsamningi milli hans og Landlæknisembættisins hafi verið skýrlega samið um að hann fengi greitt fyrir yfirvinnu og samkvæmt almennri reglu samningaréttarins skuli samningar halda. Yfirvinnu stefnanda hafi aldrei verið mótmælt af hálfu embættisins eða óskað eftir því að hann ynni ekki þá vinnu. Hafi það verið ætlun embættis landlæknis að breyta ráðningarsamningi aðila hvað varðar yfirvinnu hefði verið nauðsynlegt að segja samningnum upp með samningsbundnum uppsagnarfresti og semja að nýju við stefnanda. Það hafi ekki verið gert. Yfirvinna stefnanda frá því að ráðningarsamningur var gerður sé umtalsverð, m.a. þar sem stefnandi og annar stafsmaður á Embætti landlæknis hafi um tíma skipt á milli sín einu starfi til viðbótar við eigið starf. Tækifæri stefnanda til að taka út yfirvinnu í fríum hafi því verið takmarkað.

            Fjöldi yfirvinnustunda sem krafist er greiðslu fyrir eru unnar upp úr gögnum stefnanda sjálfs vegna áranna 2007 til 2008 en fyrir árið 2009 og síðari ár er byggt á gögnum frá Þórarni Gunnarssyni, starfmanni Embættis landlæknis. Ofan á yfirvinnulaun beri að greiða orlof samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987. Stefnandi eigi rétt á 13,04% orlofi, samkvæmt kjarasamningi sínum, og hafi orlofi þegar verið bætt við launafjárhæðina í útreikningum málsins.

 

                                 yfirvinnutímar              krónur

Febrúar ´07                          1                             4.612

Mars ´07                              5                           23.059

Apríl ´07                            19                           87.623

Maí ´07                                3                           14.112

Ágúst ´07                             5                           23.520

September ´07                     7                           32.928

Október ´07                     10,5                           49.391

Nóvember ´07                 3,43                           16.135

Desember ´07                    15                           70.559

Janúar ´08                       29,3                         140.582

Febrúar ´08                   15,73                           75.473

Mars ´08                            11                           52.778

Apríl ´08                            23                         110.355

Maí ´08                              18                           86.364

Júní ´08                                4                           19.192

Júlí ´08                            9,25                           44.382

Ágúst ´08                           23                         110.355

September ´08                  6,5                           31.187

Október ´08                        21                         107.867

Nóvember ´08                    40                         205.462

Desember ´08                    44                         226.008

Janúar ´09                          37                         190.052

Febrúar ´09                        28                         143.823

Mars ´09                            26                         133.550

Apríl ´09                            36                         184.915

Maí ´09                              13                           66.775

Júní ´09                                6                           30.819

Júlí ´09                               26                         133.550

Ágúst ´09                             3                           15.410

September ´09                   37                         190.052

Október ´09                        24                         123.277

Nóvember ´09                    23                         118.140

Desember ´09                    16                           82.185

Janúar ´10                          33                         169.506

Febrúar ´10                        11                           56.502

Mars ´10                              2                           10.273

Apríl ´10                              7                           35.956

Maí ´10                              11                           56.502

Ágúst ´10                           22                         113.004

September ´10                     6                          30l.819

Nóvember ´10                      1                             5.137

Desember ´10                    13                           66.775

Janúar ´11                            5                           25.683

Febrúar ´11                          2                           10.273

Mars ´11                              2                           10.273

 

            Auk þegar tilgreindra lagaraka vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu sinni um málskostnað og til laga nr. 50/1988 vegna virðisaukaskatts á þann kostnað.

 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að í júní 2000 hafi verið tekin ákvörðun um að greiða ekki fyrir yfirvinnu nema starfsmaður hafi verið sérstaklega beðinn um að vinna hana. Ákvörðunin hafi verið kynnt öllum starfsmönnum bréflega í upphafi og síðan þá verið á allra vitorði, þ. á m. stefnanda. Hann hafi m.a. setið fundi þar sem þetta hafi verið ítrekað rætt. Samkvæmt almennum venjuhelguðum reglum um sönnun beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að samþykki landlæknis fyrir yfirvinnu, sem stefnandi kveðst hafa unnið og krefst launa fyrir, hafi legið fyrir. Af framlögðum gögnum stefnanda verði ekki ráðið að slíkt samþykki hafi legið fyrir. Þvert á móti hafi landlæknir alltaf neitað greiðslu yfirvinnu stefnanda frá því hann fyrst hafi sett fram slíka kröfu, sem hafi verið á vormánuðum 2010.

            Stefnandi hafi hins vegar innt af hendi yfirvinnu í lengri tíma án samþykkis landlæknis fyrir greiðslu hennar. Hafi verið fullt tilefni fyrir stefnanda til að mótmæla eða gera athugasemdir við launaafgreiðslu Embættis landlæknis ef hann taldi sig eiga lögvarinn rétt til greiðslu fyrir yfirvinnu. Með vísan til þessa sé því mótmælt sem ósönnuðu að yfirvinnu stefnanda hafi aldrei verið mótmælt af hálfu Embættis landlæknis og þess hafi aldrei verið óskað af hálfu embættisins að stefnandi ynni ekki þá yfirvinnu sem hann kveðst hafa unnið.

            Ákvörðun um að greiða ekki fyrir yfirvinnu nema um hana hafi verið samið hafi verið fyllilega lögmæt og byggist á stjórnunarrétti vinnuveitanda á grundvelli laga nr. 70/1996 og óskráðum meginreglum vinnuréttar. Með vísan til 1. mgr. 17. gr. starfsmannalaganna og stjórnunarréttar vinnuveitanda mótmælir stefndi því að stefnandi eigi lögvarinn rétt til greiðslu á grundvelli ráðningarsamnings aðila. Samningurinn hafi verið gerður í samræmi við reglur fjármálaráðuneytisins nr. 351/1996 Ekkert í ráðningarsamningi stefnanda feli í sér rétt hans til greiðslu yfirvinnu svo sem hann geri kröfu um í málinu. Samkvæmt kjarasamningum sé vinnuvikan 40 stundir og skv. 2. mgr. 17. gr. starfsmannalaga sé meginreglan sú að starfsmanni er ekki skylt að vinna yfirvinnu nema forstöðumaður telji hana nauðsynlega. Kjarasamningar takmarka auk þess ekki rétt vinnuveitanda til að setja skorður við yfirvinnu starfsmanna. Ekki hafi því verið þörf á að segja upp ráðningarsamningi aðila vegna reglna embættis landlæknis um fyrirkomulag á yfirvinnu.

            Þá byggir stefndi sýknukröfu sína einnig á því, að hafi stefnandi átt þann rétt sem hann telur sig eiga, þá sé hann fallinn niður fyrir tómlæti enda hafi hann hvorki gert athugasemdir við fyrirkomulagið né krafist launa fyrr en löngu síðar eða á vormánuðum 2010, eða rúmum þremur árum eftir að stefnandi hóf störf fyrir stefnda. Hafi honum þó verið kunnugt um framangreinda reglu um yfirvinnu allan tímann. Stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag fyrr en á fyrrihluta árs 2010. Hafi stefnandi því, að mati stefnda, sýnt af sér stórkostlegt tómlæti og kröfur hans, ef einhverjar eru, því niður fallnar vegna þess.

            Varakröfu sína um lækkun styður stefndi við sömu málsástæður og sjónarmið og að framan greinir. Verði sýknukrafa ekki tekin til greina þá mótmælir stefndi kröfum stefnanda fyrir 17. apríl 2009 þar sem þær eru fyrndar Fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905 og 3. gr. laga nr. 150/2007 og hafi fyrningu verið slitið við málshöfðun skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007, sbr. einnig m.a. 1. og 11. gr. laga nr. 14/1905. Mál þetta telst höfðað með birtingu stefnu þann 17. apríl 2013.

            Auk þessa er varakrafa byggð á því að stefnandi hafi tekið hluta af yfirvinnu út í fríi vegna fjarveru frá vinnu á tímabilinu 1. september 2010 til 30. apríl 2011. Þess sé krafist að frá kröfu stefnanda dragist 160 yfirvinnutímar sem stefnandi tók út í fríi vegna yfirvinnu í febrúar, mars og apríl á árinu 2011, sem fram komi á yfirliti sem fjármálastjóri vann úr vinnuskýrslum stefnanda Samkvæmt yfirliti fjármálastjóra standi því aðeins eftir um 69 yfirvinnutímar þegar búið er að taka tillit til þess tímabils sem fyrnt er.

            Loks mótmæli stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda en ef dráttarvextir verði dæmdir koma þeir að mati stefnda fyrst til álita frá þingfestingardegi stefnu.

 

            Niðurstaða

            Í málinu er deilt um launagreiðslur til stefnanda vegna yfirvinnu á tímabilinu 1. febrúar 2007 til 1. mars 2011.

            Stefnandi byggir á því að í ráðningarsamningi aðila frá 10. október 2007 hafi verið samið um að hann fengi greitt fyrir yfirvinnu. Nánar tiltekið vísar hann til þessa ákvæðis í samningnum: „Mánaðarlaun eru greidd eftirá fyrsta virkan dag hvers mánaðar næst á eftir vinnumánuði. Þá eru einnig greidd laun fyrir yfirvinnu, vaktaálög, ferðakostnaður, akstursgjald og aðrar greiðslur fyrir tímabilið frá 16. degi mánaðar til 15. dags mánaðar næst á undan greiðsludegi.“ Kröfugerð hans miðar að því að fá greitt fyrir yfirvinnu sem hann kveðst hafa unnið á tímabilinu febrúar 2007 til mars 2011. Vísar hann til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.

            Ekki er um það deilt að stefnanda var kunnugt um það frá því fljótlega eftir að hann hóf störf hjá Embætti landlæknis að takmarkanir væru á greiðslum fyrir yfirvinnu. Í stefnu segir stefnandi að tilkynnt hafi verið skömmu eftir að hann hóf störf að ekki yrði greitt fyrir yfirvinnu heldur skyldi taka hana út í fríum. Fallist er á það með stefnda að framangreint ákvæði í ráðningarsamningi aðila standi ekki í vegi þess að landlæknir, sem yfirmaður stofnunar, geti sett reglur um takmarkanir á yfirvinnu. Þá liggur fyrir að stefnandi gerði ekki athugasemdir við að fá ekki greiðslur fyrir yfirvinnu fyrr en í upphafi árs 2010, sem hann fylgdi síðan eftir með skriflega í bréfi til fjármálastjóra Landlæknisembættisins í apríl 2011.

            Í skýrslutöku fyrir dómi bar stefnandi að hann hefði alltaf unnið mikla yfirvinnu en fengið að taka hana út í fríum. Síðan hafi yfirvinna farið að safnast upp hjá honum án þess að hann hafi tekið frí á móti. Geir Gunnlaugsson landlæknir bar í skýrslu sinni fyrir dómi að embættið greiddi ekki fyrir yfirvinnu nema sérstaklega væri samið um að hún væri unnin. Sú regla hafi verið við líði frá því á árinu 2001 og væri svo ennþá. Honum væri ekki kunnugt um að samið hefði verið við stefnanda um greiðslur fyrir yfirvinnu og hann hafi ekki gert það eftir að hann tók við. Aðspurður hvort hann kannaðist við að starfsmenn hefðu fengið að taka yfirvinnu út í fríum sagði hann að það hefði verið gert í einhverjum tilvikum. Almennt hefðu starfsmenn embættisins nokkuð sveigjanlegan vinnutíma og gætu því sjálfir haft nokkuð um það að segja hvernig þeir höguðu vinnutíma sínum og ekki væri fylgst nákvæmlega með því hvort þeir væru að störfum fyrir embættið allan þann tíma sem þeir væru skráðir til vinnu samkvæmt stimpilklukku. Í sama streng tók Matthías Halldórsson, fyrrverandi aðstoðarlandlæknir, sem gegndi störfum sem landlæknir um tíma. Þórarinn Gunnarsson, fjármálastjóri embættisins, bar að reglan væri sú að ekki væri greitt fyrir yfirvinnu nema um það væri sérstaklega samið. Sú regla hefði verið sett í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar á fjárreiðum embættisins sem gerð var árið 2000. Þáverandi landlæknir hefði gert öllum starfsmönnum embættisins skriflega grein fyrir þessu. Ítrekað hefði verið rætt um þetta fyrirkomulag á starfsmannafundum í tengslum við gerð rekstraráætlana. Þá hefði þetta verið rætt ítrekað á fundum stjórnenda embættisins sem stefnandi hafi setið. Aðspurður hvort það hefði tíðkast að yfirvinna hefði verið greidd út í fríi sagði hann það tíðkast enda hafi verið óskað eftir því að viðkomandi starfsmaður inni yfirvinnu.

            Af framangreindum framburði allra sem komu fyrir dóminn, og þeim gögnum sem liggja fyrir, má slá því föstu að ekki hafi tíðkast að greiða fyrir unnar yfirvinnustundir hjá Embætti landlæknis nema um það væri samið. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi samið um það að fá yfirvinnu greidda. Dómurinn felst ekki á að ákvæði í ráðningarsamningi stefnanda feli í sér ótvíræðan eða skilyrðislausan rétt hans til greiðslu fyrir yfirvinnu. Hvað sem túlkun þess ákvæðis líður telur dómurinn ljóst að réttur stefnanda til greiðslu launa fyrir yfirvinnu sé fallinn niður fyrir tómlæti stefnanda sjálfs. Er þar til þess að líta að stefnandi ber að honum hafi verið kunnugt um það frá upphafi starfs síns að ekki væri greitt fyrir yfirvinnu og til samræmis við það hafi hann ekki fengið slíkar greiðslur þrátt fyrir talsverða yfirvinnu. Auk þess liggur fyrir að hann gerði ekki athugasemd við þetta fyrirkomulag eða lét stefnda vita að hann teldi sig eiga rétt til greiðslna vegna yfirvinnu fyrr en í upphafi árs 2010 og setti fram kröfu þar að lútandi í apríl 2011, þremur árum eftir að elsta krafan um ógreidda yfirvinnu féll til. Að mati dómsins hefur stefnandi fyrirgert rétti sínum til frekari launa fyrir umdeilda yfirvinnu með tómlæti. Þegar af þessum sökum verður að hafna kröfum hans. Þá er ljóst að kröfur stefnanda frá fyrri tíma en 17. apríl 2009 eru fyrndar skv. 3. gr. laga nr. 150/2007 sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga.

            Með vísan til þess sem rakið er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Samkvæmt úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað skv. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sem telst hæfilega ákveðinn, með hliðsjón af umfangi málsins, 350.000 krónur.

            Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp dóminn.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnanda, Kristjáns Oddssonar. Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Ingibjörg Þorsteinsdóttir