• Lykilorð:

 

            Árið 2011, fimmtudaginn 7. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-115/2011: Ákæruvaldið gegn Þorvarði Davíð Ólafssyni en málið var dómtekið 15. f.m.

            Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 7. febrúar 2011, á hendur:

 

            ,,Þorvarði Davíð Ólafssyni, kennitala [………………],

            Eggertsgötu 18, Reykjavík,

 

            fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík árið 2010:

 

                                                                        I.

            Tilraun til manndráps, en til vara stórfellda líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 14. nóvember, að Urðarstíg 4, veist með ofbeldi að föður sínum, Ólafi Tryggva Þórðarsyni, m.a. sparkað í maga hans, tekið hann hálstaki, kýlt hann tvisvar í höfuð með hnúajárni svo hann féll og þar sem hann lá upp við steyptan arin, sparkað ítrekað í andlit hans þannig að höfuðið kastaðist í arininn og ítrekað stappað og hoppað ofan á höfði hans og hálsi og ekki hætt fyrr en hann rann til í blóði.

 

            Af atlögunni hlaut Ólafur Tryggvi lífshættulegan höfuðáverka, útbreidda áverka á höfði, marbletti og skurði, blæðingar í heilavef og fyrir utan heila á fjölmörgum stöðum, lítil drep í heilavef, heilmikið mar á mjúkvefi hálsins hægra megin, því sem næst afskorna fremsta kjúku á hægri þumalfingri, og mikla marbletti og mjúkvefjaþrota á handarbökum og framhandleggjum.

 

            Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

 

                                                                        II.

            Fíkniefnalagabrot, með því að hafa þann 14. og 16. nóvember á Eggertsgötu 18, íbúð 201, haft í vörslum sínum samtals 33,65 g af kókaíni sem lögregla fann við húsleit.

 

            Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk 33,65 g af kókaíni sem hald var lagt á, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu Ólafs Tryggva Þórðarsonar, kennitala 160849-3479 er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 3.000.000, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2010 þar til mánuður er liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga. Jafnframt er krafist viðurkenningar á bótaskyldu ákærða verða líkamstjóns brotaþola, sbr. 1. gr. laga nr. 50/1993. Þá er krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun, en áskilinn er réttur til að leggja fram reikning eigi síðar en við aðalmeðferð málsins, ef til hennar kemur.“

 

            Verjandi ákærða krefst sýknu af tilraun til manndráps en að verknaður ákærða verði færður undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög heimila. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 15. nóvember 2010 komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar var lögreglan send að Urðarstíg 4. kl. 16.14, 14. nóvember sl. en tilkynnt hafði verið um hávaða frá húsinu. Stuttu eftir komu lögreglu á vettvang kom þar Dagbjört Helen Óskarsdóttir, eiginkona Ólafs Tryggva Þórðarsonar. Var henni greint frá ástæðu komu lögreglunnar og sagðist hún telja að Þorvarður Davíð, sonur Ólafs hefði komið þarna, en fram kom hjá Dagbjörtu að Þorvarður Davíð hefði áður hótað föður sínum auk þess að hafa ráðist á hann og lýsti hún því. Er inn var komið lá Ólafur Tryggvi í blóði sínu á gólfi hússins og er því nánar lýst í skýrslunni. Þegar var hringt á sjúkrabifreið og Ólafur Tryggvi fluttur á sjúkrahús.

            Í gögnum málsins er lýst rannsókninni í framhaldinu, handtöku ákærða og fleiru. Sumt af því verður rakið síðar. Við yfirheyrslur hjá lögreglunni játaði ákærði að vera valdur að áverkum Ólafs Tryggva, föður síns.

 

            Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi og vitnisburður eins og ástæða þykir, þrátt fyrir skýlausa játningu ákærða.

                                                                        I

            Ákærði játar sök. Hann kvaðst hafa verið á heimili sínu fyrr þennan dag ásamt nafngreindri konu. Þau hefðu verið að drekka, auk þess að neyta fíkniefna. Konan hefði greint sér frá því að Ólafur, faðir ákærða, hefði misnotað hana er hún var 8 ára gömul og ítrekað eftir það. Ákærði tók fram að það hefðu verið mistök hjá sér að trúa þessu, og að hann trúði frásögn konunnar ekki í dag.

            Meðal gagna málsins eru skýrslur hinnar nafngreindu konu sem kvaðst aldrei hafa hitt Ólaf Tryggva og aldrei hafa haft nein samskipti við hann en ákærði kvaðst ekki vita af neinum samskiptum þeirra.

            Eftir þetta fór ákærði á heimili föður síns til að ræða þetta við hann. Ákærði lýsti því að hann hefði misst stjórn á sér og ráðist á föður sinn. Aðdragandinn var sá að sögn ákærða að hann hefði sagt við föður sinn að þeir þyrftu að ræða saman og hefði faðir hans tekið undir það og ætlað að setjast í sófa. Þá hefði ákærði sparkað í hann og tekið hálstaki og sakað hann um það sem konan hafði áður greint ákærða frá og rakið var að framan. Hann kvaðst ekki hafa gefið föður sínum rúm til að svara áður en hann kýldi hann. Árás ákærða hefði byrjað við sófa í stofunni og barist þaðan fram í eldhús þar sem ákærði kýldi föður sinn nærri ísskápnum og að lokum við arininn í stofunni. Það sem gerðist eftir þetta kvaðst ákærði muna óljóst. Hann kvaðst hafa notað hnúajárn og kýlt föður sinn tvisvar sinnum af afli í höfuðið með því, en hann sagðist hafa misst stjórn á skapi sínu eins og rakið var. Hann kvað lýsinguna í ákærunni rétta um árásina, en farið var nákvæmlega yfir hana með ákærða. Hann kvaðst ekki muna hversu oft hann sparkaði í föður sinn en það var ítrekað.

            Rannsóknargögn gefa til kynna að sparkað hafi verið að minnsta kosti tíu sinnum í höfuð Ólafs Tryggva liggjandi. Ákærði kvaðst telja að það hefði ekki verið svo oft, en fram kom að hann mundi þetta ekki vel. Ákærði kvaðst hafa hætt spörkunum eftir að hann rann til í blóði eins og lýst er í ákærunni. Þá hefði hann hætt árásinni og reiðin þá runnið af honum að einhverju leyti. Þennan dag kvaðst ákærði hafa neytt kókaíns og kannabisefna og hafa verið undir miklum áhrifum er árásin átti sér stað. Spurður hvað honum hafi gengið til með árásinni á föður sinn kvað ákærði reiði hafa blossað upp innra með sér vegna frásagnarinnar um að faðir hans hefði beitt konuna kynferðislegu ofbeldi eins og lýst var að framan. Ekki hefði vakað fyrir sér að ráða föður sínum bana og ekki hefði hvarflað að sér að afleiðingar árásinnar yrðu jafn alvarlegar og raun ber vitni, en hann sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir afleiðingunum. Hann hefði verið gripinn stundarbrjálæði og framkvæmt í hugsunarleysi og ekki gert sér grein fyrir hinum alvarlegu afleiðingum fyrr en eftir handtöku. Áður en ákærði fór úr húsinu kvaðst hann hafa reynt að þurrka upp blóð, en hætt því. Faðir hans lá á gólfinu og kvaðst ákærði hafa gert sér grein fyrir því að hann var á lífi er hann fór, en þetta sagðist hann hafa merkt á því að hann heyrði andardrátt hans. Hann kvaðst ekki hafa hlúð að föður sínum áður en hann yfirgaf húsnæðið. Hann sagðist ekki átta sig vel á því hve löng dvöl hans að Urðarstíg 4 hafi verið á þessum tíma en það hefðu verið nokkrar mínútur. Hann kvað þá feðga áður hafa deilt vegna erfðamáls en för ákærða til föður síns þennan dag tengdist ekki því máli. Hann sagðist áður hafa ráðist á föður sinn. Það var síðastliðið sumar, er hann sló hann og sparkaði í hann vegna upplýsinga sem ákærði hafði um föður sinn, máli þessu óviðkomandi, en ákærði kvaðst hafa trúað því sem honum var sagt um föður hans. Hann kvaðst hafa greint Þórði, bróður sínum, frá því áður að hann ætlaði að ráðast á föður sinn en hann mundi ekki hvernig hann lýsti því fyrir Þórði.

            Ákærði kvaðst hafa farið í leigubíl frá Urðarstíg 4 og hitt kunningja sinn á Laugavegi, en þeir höfðu áður mælt sér mót. Eftir það hefði hann farið heim til sín þar sem hann var handtekinn síðar sama dag. Hann kvaðst hafa sett fatnað í þvottavél eftir heimkomu. Þetta hefði hann gert þar sem fatnaðurinn var blóðugur en ákærði hefði ætlað að hylja slóð sína og reynt það en framburður ákærða um þetta var fremur óljós.

            Vitnið Dagbjört Helen Óskarsdóttir, eiginkona Ólafs Tryggva, kvaðst hafa farið að heiman frá sér um klukkan 14.30 þennan dag. Hún hefði hringt í Ólaf um klukkan 16 og þá hefði allt verið í lagi hjá honum þar sem hann var heima. Eftir þetta hefði hún ekið vinkonu sinni heim til sín og haldið eftir það heim á leið. Er hún kom þar var lögreglan fyrir utan húsið og henni var greint frá því að hringt hefði verið í lögreglu vegna hávaða frá húsinu. Er inn var komið sá hún strax að eitthvað hafði gengið á og sá hún Ólaf liggjandi í blóði sínu á gólfinu. Hún lýsti því sem gerðist í framhaldinu. Dagbjört var spurð hvort hún vissi um eitthvað sem gæti skýrt háttsemi ákærða. Hún kvað ákærða á þessum tíma hafa haft miklar ranghugmyndir um föður sinn og lýsti hún því. Ákærði hefði komið áður á heimilið, verið ógnandi auk þess sem hann hefði sparkað í föður sinn síðastliðið sumar eftir viðræður við hann þar sem fram komu miklar ranghugmyndir ákærða um föður sinn. Hún lýsti ástandi Ólafs Tryggva daginn sem hún kom fyrir dóminn og kvað Ólaf þá mjög veikan.

            Vitnið Þórður Daníel Ólafsson, tvíburabróðir ákærða, kvaðst fyrst hafa frétt af árásinni eftir að faðir hans hafði verið fluttur á sjúkrahús. Hann lýsti vitneskju sinni um illindi ákærða í garð föður þeirra. Þórður lýsti því að ákærði hefði kennt föður sínum um ýmislegt sem miður hefði farið. Þórður lýsti því að ákærði hefði hringt í sig og þeir hist í kjölfarið þótt þeir hefðu ekki haft mikið samband á þeim tíma. Þá hefði ákærði sagst vera með alls kyns upplýsingar um föður þeirra sem hann lýsti og var ljóst af því sem fram kom að þar voru ranghugmyndir á ferð. Þórður lýsti árás ákærða á föður þeirra síðastliðið sumar. Þórður kvaðst hafa óttast eftir þetta að eitthvað kynni að gerast þar sem hann vissi hvernig bróðir hans gæti verið þegar hann væri í þeim ham sem hann var í og lýsti hann því. Þórður kvaðst hafa haldið sambandi við ákærða í þeirri von að það gæti leitt til góðs og ákærði áttaði sig á sannleikanum í stað þess að hafa ranghugmyndir um föður þeirra. Fram kom hjá ákærða að hann ætlaði að ganga í skrokk á föður þeirra ,,berja í klessu“ eins og Þórður lýsti og hafði eftir ákærða. Þá lýsti Þórður því að ákærði hefði einu sinni lýst því svo að menn í hans bransa hefðu verið drepnir fyrir svipaða hluti, en fram kom að hugmyndir um þetta voru óljósar. Ákærði hefði borið þungan hug til þeirra og Þórður kvaðst hafa óttast að ákærði gerði föður þeirra eitthvað. Þórður lýsti breytingum í fari ákærða eftir lok afplánunar á árinu 2010. Í afplánuninni hefði hann virkað heilbrigðari og faðir þeirra haft trú á honum, heimsótt hann reglulega og hefði allt viljað fyrir hann gera. Eftir að ákærði hóf aftur fíkniefnaneyslu eftir að afplánun lauk merkti Þórður strax breytingar í fari ákærða og lýsti hann því. Þórður kvaðst hafa rætt þetta við föður þeirra sem hefði ekki viljað trúa þessu.

            Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður ritaði skýrslu um rannsókn sína á vettvangi, blóðferlagreiningu og fleira. Ragnar hefur mikla reynslu af vinnu sem þessari og hefur aflað sér menntunar á þessu sviði. Hann kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti skýrsluna. Hann lýsti því að upphafstaðir blóðferla hafi verið tveir í íbúðinni. Í eldhúsinu og við arin í stofu þar sem komið var að Ólafi liggjandi. Ragnar lýsti því að ráða hefði mátt af blóðferlum þar sem Ólafur lá að hann hefði legið er hann hlaut höggin sem orsökuðu blóðferlana. Hann lýsti því að höggin hefðu verið veitt af afli, líklega með spörkum og skýrði þetta nánar. Hann sagði að með þessu hefði mátt greina tíu aðskilda blóðferla. Þannig hefði Ólafur hlotið að minnsta kosti tíu þung höfuðhögg við arininn í stofunni þar sem blóðferlarnir greindust.

            Guðrún Karlsdóttir endurhæfingarlæknir á Grensásdeild kom fyrir dóminn. Hún skýrði og staðfesti læknisvottorð fyrir Ólaf Tryggva, dagsett 7. mars 2011. Vottorðið er svohljóðandi:

            ,,Það vottast hér með að ofangreindur, Ólafur T. Þórðarson, hlaut alvarlegan heilaáverka þann 14. nóvember 2010 í kjölfar líkamsárásar. Hann var á gjörgæsludeild LSH og heila- og taugaskurðdeild til 4. janúar 2011, en þá kom hann á endurhæfingardeild LSH á Grensási. Þar hefur hann verið nánast samfleytt síðan en þurfti þó tímabundið á meðferð að halda á bráðadeild í tvær vikur í febrúar vegna sýkingar í kvið og lungum.

            Hans ástand hefur lítið breyst undanfarna mánuði og er því áfram mjög alvarlegt.

            Hann er enn meðvitundarlítill og þarf alla umönnun og hjúkrun. Hann opnar þó augu heldur meira eins og við t.d. sársaukaáreiti, en sýnir engin klár merki þess að hann skynji umhverfi sitt á neinn hátt eða fylgi fyrirmælum og er þannig í sk. skynlausu ástandi (e. vegetative state). Hann hreyfir ekki útlimi viljastýrt og er nokkuð spastískur. Hann fær næringu um slöngu sem liggur gegnum kviðvegg og inn í maga. Hann hefur enga stjórn á þvaglátum eða hægðum. Hann er vegna ástands síns útsettur fyrir sýkingum, sárum og ýmsum öðrum fylgikvillum.

            Hann hefur verið á Grensásdeild til meðferðar og endurhæfingar þar sem áherslan hefur m.a. verið á örvun, meðferð til að draga úr vöðvaspennu og koma í veg fyrir kreppur í liðum. Framfarir eru nánast engar enn sem komið er og horfur teljast því ekki góðar.

            Almennt má segja um batahorfur eftir heilaáverka, að þær fara að töluverðu leyti eftir því hversu lengi meðvitundarskerðing varir. Í tilviki Ólafs er sá tími orðinn langur og því líklegt að hann muni í framtíðinni búa við mikla fötlun, andlega og líkamlega, þótt enn sé ekki tímabært að segja til um hversu mikil hún verður.“

            Guðrún sagði ástand Ólafs lítið hafa breyst eftir komu hans á Grensásdeild 4. janúar 2011. Engin merki væru um að Ólafur skynjaði umhverfi sitt á neinn hátt. Hún lýsti horfum en kvað erfitt að segja til um þær. Eftir því sem meðvitundarleysi varaði lengur væru batahorfur verri. Hún lýsti þessu nánar og kvað líklegast að Ólafur þyrfti umönnun alla ævi. Engar líkur væru á því að hann næði sér. Ólafur væri útsettari fyrir sýkingar og í dag væri hann með lungnabólgu en beint samband væri milli áverkanna sem hann hlaut við árásina og veikindanna og hversu útsettur hann er fyrir sýkingar. Hún kvað Ólaf hafa hlotið þá áverka sem lýst er í ákærunni.

            Ingvar Hákon Ólafsson heila- og taugaskurðlæknir ritaði læknisvottorð fyrir Ólaf, dagsett 29. nóvember 2010. Vottorðið hljóðar svo:

            ,,Ólafur er inniliggjandi á heila- og taugaskurðdeild eftir hrottafengna árás þann 14.11.2010. Við komu á bráðamóttöku var hann með útbreidda áverka á höfði, marbletti í andliti og hársverði og skurð 5 cm yfir vi. augabrún, 2 cm skurð á kollinum hæ. megin og aftur á hnakka einnig u.þ.b. 2 cm skurð. Hafði blætt mikið. Auk þess, því sem næst afskorna fremstu kjúkuna á hæ. þumalfingri og mikla marbletti og mar og mjúkvefjaþrota á handarbökum, meira hæ. megin og á framhandleggnum þar. Var hann algjörlega meðvitundarlaus við komu en gat andað sjálfur.

            Tölvusneiðmynd, sem gerð var af höfði, sýndi blæðingar í heilavef og fyrir utan heila á fjölmörgum stöðum en ekki nein stór. Útlit samrýmist best blæðingum sem maður fær við svokallaða háorkuáverka, þegar högg er mikið. Hann hefur farið í eina aðgerð á höfði þar sem settur var þrýstingsmælir inn í heilahólf.

            Ólafur hefur aldrei komist til meðvitundar. Hann er kominn úr öndunarvél. Andar hann sjálfur en sýnir ekki klár viðbrögð um að hann sé að komast til meðvitundar. Kom í ljós fyrstu dagana eftir komu að hann fékk heilmikið mar á mjúkvefi hálsins hæ. megin, eins og að hann hefði fengið högg þar undir.

            Fór í segulómskoðun af heila sem sýndi merki um lítil drep í heilavef, væntanlega eftir áverka á æðar í hálsi og auk þess djúpar, litlar blæðingar, sem sjást við svokallaða háorkuáverka.

            Nú eru liðnar rúmlega 2 vikur frá því honum voru veittir þessir áverkar og Ólafur hefur ekki komist til meðvitundar og meðan að slíkt er, þá er lífi hans ógnað og hann hefur ekki sýnt nein merki þess að vera að koma til meðvitundar, sem gerir þá horfur mjög slæmar varðandi að hann nái sér nokkurn tíma eftir þetta.

            Ég tel hann ennþá vera í lífshættu þar sem ekki má á nokkurn hátt út af bregða varðandi hans lífsmörk, svo hans lífi sé ógnað.“

            Ingvar Hákon kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti læknisvottorðið og lýsti mjög djúpu meðvitundarleysi Ólafs við komu á sjúkrahúsið. Þá lýsti hann ástandi hans að öðru leyti og ráðstöfunum sem gerðar voru á sjúkrahúsinu. Ljóst var af áverkum að höggin hefðu verið fleiri en eitt. Engar framfarir hefðu orðið hjá Ólafi uns hann var fluttur á Grensásdeild. Ingvar Hákon kvað möguleika Ólafs til bata hverfandi. Hann yrði aldrei aftur maður. Hann kvað lýsinguna í ákæru geta skýrt áverka Ólafs. Ingvar Hákon lýsti því hvernig atlaga að höfði getur verið alvarleg og valdið lífshættulegum áverkum, en í því tilviki sem hér um ræðir sé ljóst að höggin voru mjög hörð, háorkuáverkar þar sem höggin voru þung. Þetta sæist meðal annars á rannsóknum sem gerðar voru og skýrði hann þetta nánar. Árásin hafi verið lífshættuleg og maður sem verður fyrir slíkri árás geti hæglega látist. Ingvar Hákon kvað, væri tekið mið af ástandi Ólafs við komu á sjúkrahúsið, að hending ein hefði ráðið því að hann lifði árásina og skýrði hann það. Hann kvað Ólaf enn geta látist af áverkunum.

            Ákærði gekkst undir geðheilbrigðisrannsókn hjá Sigurði Páli Pálssyni geðlækni. Niðurstöðukafli geðheilbrigðisrannsóknarinnar, sem dagsett er 7. febrúar 2011, er svofelldur:

            ,,1.       Það er niðurstaða mín að Þorvarður hafi verið, sé sakhæfur þegar verknaðurinn var framinn.

            2.         Á verknaðardegi er hann reiður, spenntur og undir miklum áhrifum eiturlyfja að eigin sögn.

            3.         Þorvarður hefur merki geðhæðar í upphafi skoðunartíma tólf dögum eftir atburð. Með þessum einkennum voru ýktar hugsanir, og ranghugmyndir um föður hans en þær virtust flestar skiljanlegar miðað við reynslu hans, persónuleikaþætti og stöðu sem hann var komin í. Síðan dvína þau og hverfa. Heimildir og gögn benda til ranghugmynda áður en þá var hann í mikilli neyslu kókaíns og stera og notaði áfengi. Eftir því sem leið á skoðunartíma skildist betur hvað um var að ræða.

            4.         Grunnpersónuleiki Þorvarðar er ekki auðmetinn vegna mikillar fíkniefnanotkunar. Þorvarður er örugglega mjög vel greindur. Þó er ljóst að Þorvarður hefur skilmerki siðblindu og andfélagslegspersónuleika. Þorvarður hefur tilhneigingu til að fegra sjálfan sig og réttlæta sjálfan sig með að varpa ábyrgð á aðra. Hann er að upplagi mjög tortrygginn (paranoid personality). Heimildir eru einnig um að hann hafi sóst í ofbeldi oft tengt einhverri réttlætisbaráttu.

            5.         Þorvarður var á brotadegi undir miklum áhrifum kókaíns en einnig stera, testósteróns sem hann hafði í aðdraganda atburðar notað stærri skömmtum. Hann þekkti sjálfur hvernig slík efni gátu breytt hughrifum hans.

            6.         Þau einkenni sem sáust síðar útiloka hvorki fangelsisvist né að refsing komi að gagni. Þorvarður var með eðlilegar geðskoðanir síðasta mánuð geðskoðunar miðað við aðstæður hans, stöðu og áður þekktra persónuleikaviðbragða, varnarhátta.

            7.         Fylgjast þarf hins vegar vel með geðhag Þorvarðar áfram þar sem Þorvarður gæti verið í hættu að þróa geðhvarfasjúkdóm með geðrofseinkennum haldi hann áfram í neyslu örvandi fíkniefna og stera.

            8.         Líklega hefði ástand þetta aldrei þróast ef Þorvarður hefði viðhaldið edrú mennsku sinni sem hann á vissum tímabilum hefur náð og hefur honum þá gengið vel í lífinu.

            9.         Ekkert í dag bendir til að Þorvarður hafi viðvarandi alvarlegan geðsjúkdóni nema neysla komi til.“

            Sigurður Pál kom fyrr dóminn, staðfesti og skýrði rannsókn sína. Hann kvað ákærða hafa í upphafi skoðunar borið merki geðhæðar en er leið á rannsóknina hafi hann farið í geðlægð og sýnt merki iðrunar og sektarkenndar sem ekki hafi verið sýnileg í byrjun. Hann lýsti ranghugmyndum ákærða um föður sinn. Þær hefðu horfið er á leið.

            Fram kemur í gögnum málsins að blóðsýni sem tekið var úr ákærða 14. nóvember 2010 barst ekki Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði fyrr en 21. janúar 2011. Segir í matsgerð rannsóknarstofunnar að styrkur eiturefna í blóði kunni að hafa verið hærri er blóðsýnin voru tekin en niðurstaða rannsóknarinnar gaf til kynna.

            Sigurður Páll var spurður hvort rannsókn hans hafi bent til þess að ákærði hefði verið undir miklum áhrifum er hann framdi brot sitt. Sigurður Páll kvað svo vera og skýrði það nánar. Sigurður Páll kvað heildarniðurstöðu sína þá að ákærði hefði verið sakhæfur á verknaðarstundu og að refsing gæti borið árangur.

            Vitnið Kjartan Jónas Kjartansson geðlæknir ritaði greinargerð, dagsetta 30. janúar 2011, yfir geðskoðanir og meðferð ákærða. Hann kvaðst fyrst hafa séð ákærða 8. desember 2010 í fangelsinu á Litla-Hrauni og hann hefði þá verið í geðrofsástandi sem aðallega voru ranghugmyndir sem tengdust föður ákærða. Hann lýsti því að einkennin hefðu farið stigminnkandi eftir því sem tíminn leið en hann hitti ákærða á tveggja vikna fresti eftir þetta.

                                                                        II

            Ákærði játar sök samkvæmt þessum ákærulið og er skírskotað til ákærunnar

um lýsingu málavaxta.

 

            Niðurstaða

            Ákærði er sakhæfur.

            Sannað er með skýlausri játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í báðum köflum ákæru greinir og er brot ákærða rétt fært til refsiákvæðis í II. kafla ákærunnar.

            Brot ákærða skv. I. kafla ákæru er mjög alvarlegt. Hann réðst á ofsafenginn hátt á föður sinn, sló hann ítrekað með hnúajárni í höfuðið og sparkaði margsinnis í andlit hans þar sem hann lá bjargarlaus í gólfinu. Samkvæmt vitnisburði Ragnars Jónssonar rannsóknarlögreglumanns er með vissu hægt að segja að höfuðhöggin voru tíu og jafnframt að höggin voru þung. Um þetta má jafnframt vísa til vitnisburðar Ingvars Hákonar Ólafssonar heila- og taugaskurðlæknis sem lýsti mjög þungum höfuðhöggum sem Ólafur hlaut svo af hlutust mjög alvarlegir háorkuáverkar. Árás ákærða var svo ofsafengin og hömlulaus að hann hætti ekki atlögunni fyrr en hann rann til í blóði eins og rakið var. Afleiðingar árásarinnar urðu þær sem í ákærunni greinir og vísast um þetta til læknisvottorða sem rakin voru og til vitnisburðar læknanna Guðrúnar Karlsdóttur og Ingvars Hákonar Ólafssonar.

            Ákærði játar sök skv. II. kafla ákærunnar en neitar því að fyrir honum hafi vakað að ráða föður sínum bana. Margt bendir til þess að um hríð hafi búið með ákærða ásetningur um að vinna föður sínum mein og má vísa til þess sem rakið var að framan um fyrri atlögur ákærða að föður sínum og til vitnisburðar Þórðar Daníels Ólafssonar, tvíburabróður ákærða, sem bar um þetta fyrir dóminum. Þótt ekki sé með vissu hægt að slá því föstu að ásetningur ákærða hafi verið til staðar um að ráða föður sínum bana er hann kom til hans að Urðarstíg 4, 14. nóvember síðastliðinn, telur dómurinn hins vegar ljóst að sá ásetningur myndaðist eftir komu ákærða þangað. Þetta álit dómsins helgast af þeirri ofsafengnu atlögu ákærða að föður sínum, einkum að höfði hans, hvernig atlagan var í heild og ákærði hefur lýst henni og studd er læknisfræðilegum gögnum og blóðferlarannsókn sem sýnir fjölda höfuðhögga ásamt hinum gríðarlega alvarlegu afleiðingum árásarinnar. Af öllu þessu er ljóst að ákærða gat ekki dulist að bani kynni að hljótast af atlögu hans. Brot ákærða varða því við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

            Ákærði á að baki sakaferil frá árinu 1999 og hefur síðan hlotið fimm refsidóma fyrir fíkniefnalaga- og umferðarlagabrot, líkamsárás, bæði skv. 1. mgr. 217. og skv. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur ákærði gengist undir fimm lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot. Hinn 2. apríl 2010 hlaut ákærði reynslulausn á 340 daga eftirstöðvum refsingar. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð reynslulausnarinnar og er hún dæmd upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 og 77. gr. almennra hegningarlaga.

            Hending réð að ekki hlaust bani af hinni ofsafengnu árás ákærða og kemur ekki til álita að færa refsingu ákærða niður á grundvelli 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Það er mat dómsins að ákærði eigi sér engar málsbætur og ber hann fulla refsiábyrgð. Að þessu virtu og af hinum gríðarlega alvarlegu afleiðingum brotsins þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 14 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 15. nóvember 2010.

            Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmd upptæk 33,65 g af kókaíni.

            Ákærði hefur samþykkt miskabótakröfu og bótaskyldu vegna líkamstjóns, allt eins og krafist er. Er hann dæmdur til greiðslu bóta og er bótaskyldur eins og í dómsorði greinir.

            Ákærði greiði Guðrúnu Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanni, skipuðum réttargæslumanni Ólafs Tryggva 307.475 krónur í réttargæsluþóknun að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Ákærði greiði 834.580 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

            Ákærði greiði Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni 1.255.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun verjandans er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð

            Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

            Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

                                                                        Dómsorð:

            Ákærði, Þorvarður Davíð Ólafsson, sæti fangelsi í 14 ár. Til frádráttar refsivistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 15. nóvember 2010 að telja.

            Upptæk eru dæmd 33,65 g af kókaíni.

            Ákærði greiði Ólafi Tryggva Þórðarsyni kt. 160849-3479, 3.000.000 króna í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2010 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 7. mars 2010 til greiðsludags.

            Ákærði er bótaskyldur vegna líkamstjóns Ólafs Tryggva Þórðarsonar, sbr. 1. gr. laga nr. 50/1993.

            Ákærði greiði 834.580 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

            Ákærði greiði Guðrúnu Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanni, 307.475 krónur í réttargæsluþóknun.

            Ákærði greiði Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni 1.255.000 krónur í málsvarnarlaun. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

 

                                                            Guðjón St. Marteinsson