• Lykilorð:
 • Akstur án ökuréttar
 • Ávana- og fíkniefni
 • Hegningarauki
 • Hraðakstur
 • Hylming
 • Ítrekun
 • Líkamsmeiðing af gáleysi
 • Eignaupptaka
 • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn
 • Skilorðsrof
 • Tilraun
 • Þjófnaður
 • Ökuréttarsvipting
 • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn 7. apríl 2009, í máli nr. S-1275/2008:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir ftr.)

gegn

Viktoríu Guðmundsdóttur

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

Andra Þór Guðmundssyni

(Bjarni Hauksson hdl.)

og

Jóhannesi Arnari Rúnarssyni

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 10. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 24. nóvember 2008, á hendur Viktoríu Guðmundsdóttur, kt. 000000-0000, Bakkavegi 2, Hnífsdal, Andra Þór Guðmundssyni, kt. 000000-0000, Dalseli 12, Reykjavík, Jóhannesi Arnari Rúnarssyni, kt. 000000-0000, Brekkustíg 6, Reykjanesbæ, og Bjarka Fannari Smárasyni, kt. 000000-0000, Strandgötu 21, Hafnarfirði, „fyrir eftirtalin brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni;

1.                  Gegn ákærðu Viktoríu, með því að hafa föstudaginn 26. október 2007, flutt til landsins með flugi nr. FHE-902 frá Kaupmannahöfn, Danmörku, í sölu- og dreifingarskyni, samtals 291,65 g af kókaíni er hún faldi innanklæða.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.

2.                  Gegn ákærða Andra Þór, með því að hafa, lagt á ráðin um innflutninginn, sbr. 1. lið ákæruskjals, fengið ákærðu Viktoríu til þess að flytja inn fíkniefnin til Íslands, verið í samskiptum við ákærðu Viktoríu er hún var erlendis og afhent henni peninga til þess að fjármagna ferð hennar utan og erlendis.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.

3.                  Gegn ákærða Jóhannesi Arnari, fyrir hlutdeild í innflutningi fíkniefna, sbr. 1. lið ákæruskjals, með því að óskað (svo) eftir því við ákærðu Viktoríu að hún færi utan í því skyni að flytja inn fíkniefni fyrir ákærða Andra Þór, ekið Viktoríu og samferðarmanni hennar út á flugvöll og verið í samskiptum við ákærðu Viktoríu og komið boðum milli hennar og ákærða Andra Þórs varðandi innflutninginn.

Telst háttsemi þessi varða við 2. gr., sbr. 1., og 5. mgr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

4.                  Gegn ákærða Bjarka Fannari, fyrir að hafa afhent ákærðu Viktoríu, samtals 291,65 g af kókaíni, ætluðum til sölu- og dreifingar, á hótel Bel Air í Kaupmannahöfn sunnudaginn 28. október 2008.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.“

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar en jafnframt verði þeim gert að sæta upptöku á 291,65 g af kókaíni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Við þingfestingu málsins 18. desember 2008 var 1. liður ákærunnar leiðréttur af hálfu ákæruvalds þannig að tilgreint atvik hafi átt sér stað mánudaginn 29. október 2007, en ekki föstudaginn 26. október 2007.

Í þinghaldi 16. janúar 2009 var þáttur ákærða Bjarka Fannars Smárasonar klofinn frá málinu og fékk mál hans númerið S-15/2009.

 

Við þingfestingu málsins var mál nr. S-1257/2008 sameinað þessu máli. Það mál var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 25. nóvember 2008, á hendur áðurnefndum Jóhannesi Arnari Rúnarssyni „fyrir auðgunarbrot og brot á umferðarlögum á árinu 2007:

1.

Brot á umferðarlögum með því að hafa, aðfaranótt miðvikudagsins 1. ágúst, ekið bifreiðinni LJ-556 undir áhrifum ávana- og fíkniefna og því óhæfur um að stjórna henni örugglega um götur í Garðabæ þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans á Bæjarbraut.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006.

 

2.

Tilraun til þjófnaðar með því að hafa, að morgni miðvikudagsins 1. ágúst, farið með óþekktum manni inn í iðnaðarhúsnæði að Lyngási 10, Garðabæ, og reynt í félagi við manninn að stela þar 2 bifhjólum en horfið frá vegna mannaferða á vettvangi.

Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

3.

Hylming með því að hafa í síðari hluta júlí keypt tölvuflatskjá af óþekktum manni þrátt fyrir að hann vissi að skjárinn væri þýfi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006.“

 

Í þinghaldi 16. janúar 2009 var mál nr. 944/2008 sameinað þessu máli. Það mál var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 9. september 2008, á hendur áðurgreindum Andra Þór Guðmundssyni „fyrir eftirtalin brot:

I.

Hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, þriðjudagskvöldið 23. október 2007, á leið norður Hafnarfjarðarveg í Kópavogi, ekið bifreiðinni SP-630 sviptur ökurétti og með að minnsta kosti 110 km hraða á klst., of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðatakmörk, í þéttbýli, í beygju og á blautum vegi og þar sem hámarkshraði var 70 km á klst., þegar ákærði missti stjórn á bifreiðinni skammt sunnan við afrein frá Nýbýlavegi með þeim afleiðingum að hún lenti upp á umferðareyju, á ljósastaur og yfir á akreinar fyrir umferð á móti þar sem hún valt og stöðvaðist á hvolfi og farþegi í bifreiðinni, Anna María Gísladóttir, fædd 2. apríl 1977, hlaut tilfært brot á lendhryggjarlið með brotaflaska sem skagaði inn í mænuganginn og ótilfært afrifubrot á upphandlegg.

Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. og a-, c- og h-liði 2. mgr. 36. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr., 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007.

 

II.

Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 24. mars 2008, ekið bifreiðinni AF-100 sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, vínandamagn í blóði 1,05‰, vestur Breiðholtsbraut í Reykjavík uns lögregla stöðvaði aksturinn þar við Stekkjarbakka.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 1. mgr. 101. og 1. og 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006, og jafnframt samkvæmt 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 57/1997, og 8. gr., sbr. 7. og 10. gr., reglugerðar um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota nr. 929/2006 vegna uppsafnaðra punkta en ákærði hefur 19 staðfesta punkta á ökuferilsskrá og fær 4 punkta fyrir framangreind brot, samtals 23 punkta.“

 

Í þinghaldi 20. febrúar 2009 var lögð fram í málinu ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefin 15. febrúar 2009, á hendur áðurgreindum Andra Þór Guðmundssyni og hún sameinuð málinu. Er þar ákært „fyrir eftirtalin brot gegn umferðarlögum:

1.                  Með því að hafa, miðvikudaginn 22. ágúst 2007, ekið bifreiðinni JD-436 vetur (svo) Hringbraut yfir gatnamót Njarðargötu, Reykjavík, á 70 km hraða á klukkustund (að teknu tilliti til vikmarka) þar sem hámarkshraði er 60 km á klukkustund.

Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

2.                  Með því að hafa, aðfararnótt miðvikudaginn 24. desember 2008, ekið bifreiðinni VT-231, Sæbraut við Kirkjusand, Reykjavík, sviptur ökuréttindum, undir áhrifum áfengis (0,49 ml/l) á 97 km hraða á klukkustund (að teknu tilliti til vikmarka) þar sem hámarkshraði er 60 km á klukkustund.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Í sama þinghaldi var fallið frá 1. lið ákærunnar af hálfu ákæruvalds.

 

Í þinghaldi 20. febrúar 2009 var lögð fram í málinu ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefin 15. febrúar 2009, á hendur áðurgreindum Jóhannesi Arnari Rúnarssyni og hún sameinuð málinu. Er þar ákært „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum:

1.                  Fyrir þjófnað, með því að hafa, aðfararnótt sunnudagsins 28. september 2008, í félagi við tvo aðila, brotið rúðu í versluninni Bang og Ulufsen (svo), Síðumúla 21, Reykjavík, og í kjölfarið farið inn í verslunina og tekið þaðan í heimildarleysi tvo hátalara að gerðinni Bela 8000 loudspeakers og geislaspilara að (svo) gerðinni BeoSound 4, samtals muni að verðmæti kr. 793.000.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.                  Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfararnótt fimmtudagsins 4. desember 2008, ekið bifreiðinni TH-232, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (455 ng/ml amfetamín) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, um Borgartún, móts við hús númer 26, Reykjavík.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr.a og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

Í þinghaldi 2. mars 2009 var lögð fram í málinu framhaldsákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefin 27. febrúar 2009, um að breyta verði „ákæru útgefinni 15. febrúar 2009 á hendur Andra Þór Guðmundssyni, kt. 000000-0000, Dalseli 12, Reykjavík, með þeim hætti að í 2. lið ákæruskjalsins bætist við heimfærsla til 1., sbr. 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“

 

Af hálfu ákærðu Viktoríu er krafist vægustu refsingar, sem lög leyfa, og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin. Verði refsing ákærðu ákveðin óskilorðsbundið fangelsi, er þess krafist að gæsluvarðhald sem ákærða sætti vegna málsins komi til frádráttar refsingunni. Loks er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu ákærða Andra Þórs Guðmundssonar er krafist sýknu af ákæru útgefinni 24. nóvember 2008, en að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu ákærða Jóhannesar Arnars Rúnarssonar er krafist vægustu refsingar, sem lög leyfa og að hún verði ákveðin skilorðsbundin. Þá er krafist málsvarnarlauna að mati réttarins.

 

 

 

II.

Málavextir.

A.

Ákæra, útgefin 24. nóvember 2008 á hendur öllum ákærðu.

Í frumskýrslu lögreglu, dags. 30. október 2007, segir að þær ákærða Viktoría Guðmundsdóttir og Alexandra Garðarsdóttir hafi verið stöðvaðar af tollgæslunni á Suðurnesjum mánudaginn 29. október 2007 er þær komu með flugi frá Kaupmannahöfn. Þær hafi verið teknar til frekari skoðunar og hafi fundist í fórum ákærðu Viktoríu sex pakkningar af ætluðum fíkniefnum.

Rannsóknarlögreglumenn komu á vettvang og tilkynntu ákærðu Viktoríu og Alexöndru að þær væru handteknar vegna gruns um fíkniefnabrot. Kváðust þær hvorugar vera með fíkniefni falin í líkama sínum og gengust sjálfviljugar undir röntgenrannsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að ganga úr skugga um það. Enga aðskotahluti var að sjá í kviðarholi þeirra á röntgenmyndum. Að myndatöku lokinni voru ákærða Viktoría og Alexandra vistaðar í fangaklefa á lögreglustöðinni í Keflavík.

Í frumskýrslunni segir að í viðræðum við Alexöndru hafi komið fram að hún hafi farið með ákærðu Viktoríu til Kaupmannahafnar föstudaginn 26. október 2007, en ákærða hafi boðið henni með sér daginn áður. Alexandra hafi ennfremur greint frá því að hún hafi verið í litlu sambandi við ákærðu fram að því að hún bauð henni með í þessa ferð. Að sögn Alexöndru hafi hún ekkert vitað um ætluð fíkniefni sem fundust í fórum ákærðu.

Ákærða Viktoría hafi tjáð lögreglu að hún hafi verið með 6 kúlulaga pakkningar sem innihéldu kókaín. Hún hafi komið þeim fyrir innvortis í líkama sínum en síðan misst þær frá sér um borð í flugvélinni á leið til landsins. Hafi hún talið heildarmagn efnanna nema 400 grömmum.

Með úrskurðum, uppkveðnum 30. október 2007, var ákærðu Viktoríu og Alexöndru gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins, en ákærðu Viktoríu var sleppt úr haldi hinn 7. nóvember 2007.

Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu nam heildarmagn efnanna 291,65 grömmum. Fíkniefnin voru í sex pakkningum, þ.e. í smokkum, og var plastfilma einnig vafin um hverja pakkningu. Hver eining var á bilinu 41-51 gramm. Efnin voru send til greiningar hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Matsgerð rannsóknastofunnar er dags. 22. nóvember 2007. Þar segir að með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnaprófum hafi komið í ljós að sýnin sex innihéldu kókaín, amfetamín, diltíazem og sykuralkóhól. Styrkur kókaíns í sýnunum hafi verið 55-57%, sem samsvari 62-64% af kókínklóríði og styrkur amfetamínbasa í sýninu 3,5-4,1%, sem samsvari 4,8-5,6% af amfetamínsúlfati.

Þá segir í matsgerðinni að diltíazem sé lyfseðilsskylt hjartalyf, sem skráð sé til notkunar hér á landi. Það sé ekki á lista yfir ávana- og fíkniefni eða önnur eftirlitsskyld efni.

Meðal rannsóknargagna málsins eru myndir úr eftirlitsmyndavél Bel Air hótelsins í Kaupmannahöfn þar sem sjá má ætlaðan Bjarka Fannar Smárason í móttöku hótelsins 28. október 2007 um kl. 12.00 og 13.00.

Í lögregluskýrslu, dags. 15. janúar 2008, segir að hinn 6. nóvember hafi fíkniefnalögreglan í Kaupmannahöfn að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum haft samband við Zöndru Rosen, starfsmann Bel Air hótelsins í Kaupmannahöfn. Zandra hafi verið að vinna á hótelinu dagana 26. til 29. október 2007. Hún hafi upplýst að samkvæmt dagbók hótelsins hafi Alexandra Garðarsdóttir leigt herbergi nr. 132 frá því klukkan 13.16 föstudaginn 26. október og til klukkan 9.13 mánudaginn 29. október 2007. Zandra hafi sagst muna eftir því að önnur íslensk stúlka hefði verið í för með Alexöndru, en sagðist ekki muna nafnið á henni. Þær hafi borgað fyrst fyrir eina nótt í reiðufé og síðan óskað eftir einni nótt í viðbót daginn eftir og þá einnig greitt í reiðufé. Þriðju nóttina hafi íslenskur maður innritað sig á hótelið og gist í herbergi nr. 8. Hafi hann borgað fyrir herbergi stelpnanna þá nótt með reiðufé. Sagðist Zandra sjálf hafa innritað umræddan mann inn á hótelið og hann gefið upp nafnið Bjarki Smárason og útfyllt innskráningarkort með nafni, heimilisfangi og símanúmeri. Hann hafi komið með leigubifreið á hótelið 28. október 2007 klukkan 10.43 og farið af hótelinu kl. 12.30 daginn eftir. Hafi hún lýst manninum sem 24-27 ára gömlum og u.þ.b. 165 cm á hæð, með venjulega líkamsbyggingu og hálfsítt ljóst hár. Zandra hafi einnig upplýst að einhvern tíma dagsins hinn 28. október 2007 hafi íslensku stelpurnar skilið lykilinn að herbergi 132 eftir í afgreiðslunni og sagt að það ætti að afhenda hann manni, en þær hafi ekki munað nafn viðkomandi. Starfsfólkið á hótelinu hafi ekki munað hvort lykillinn hafi verið afhentur einhverjum manni þennan dag.

Við rannsókn málsins var farið fram á að fyrirtækin Vodafone og Síminn létu í té upplýsingar um hvaða viðskiptamenn væru skráðir fyrir IP-tölum, sem skráð hefðu sig inn á netfangið vikka90@visir.is á tímabilinu 26. til 1. nóvember 2007.

Í upplýsingaskýrslu lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 26. maí 2008, segir að frá IP-tölu, sem skráð væri á Jón Björn Marteinsson og Guðbjörgu Erlu Ragnarsdóttur, hefði verið farið inn á áðurgreint netfang hinn 27. og 28. október 2007. Í skýrslu lögreglu segir að um sé að ræða leigusala ákærða Andra Þórs að Dalseli 12 í Reykjavík á þessum tíma. Einnig hefði verið farið inn á áðurgreint netfang frá IP-tölu, sem skráð væri á Kolbein Sævarsson, kærasta Alexöndru Garðarsdóttur, hinn 27. október 2007. Loks hefði verið farið inn á áðurgreint netfang frá netkaffihúsinu Ground Zero og frá annarri óþekktri IP-tölu, sem lögregla telji vera á Kastrup flugvelli.

Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 15. nóvember 2007, voru viðskipti ákærða Andra við Landsbanka, Kaupþing, Icebank og Glitni rannsökuð. Var ekki að sjá að færslur á reikningum ákærða Andra tengdust rannsókn málsins.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:

Ákærða Viktoría Guðmundsdóttir játaði sök að því er varðar 1. lið ákæru útgefinnar 24. nóvember 2008. Hún sagði að ákærði Jóhannes, sem kallaður væri Addi, hefði sótt sig í vinnuna á þriðjudeginum áður en hún fór út og ekið inn á bensínstöð. Þar hefði hann spurt sig að því hvort hún væri til í að fara til Amsterdam, en hún hefði frekar viljað fara til Danmerkur. Daginn eftir hefðu þau Jóhannes byrjað að skipuleggja ferðina með því að skoða blöð heima hjá Andra. Hún sagði að Jóhannes hefði spurt hana að því hversu mikið magn af efnum hún væri til í að flytja til landsins og hvort hún vildi fara með lest frá Danmörku til Amsterdam eða fá efnin afhent í Danmörku. Að morgni fimmtudags hefði Jóhannes hringt í hana og beðið hana um að koma að sækja pening og panta síðan flug því hún ætti að fara út á föstudeginum. Hún sagði að Andri hefði afhent henni peninginn. Við það tækifæri hefði Andri rætt um hvert hún ætti að fara og hvort hún ætti að taka lest til Amsterdam eða ekki. Einnig hefði hún látið Andra fá lykilorð á netfanginu sínu til að geta verið í samskiptum við hann. Sagðist hún hafa farið heim til Andra að Dalshrauni 12 eða eitthvað, eins og ákærða orðaði það, og sótt peninga, um 120.000 krónur. Ágúst hefði síðan farið með henni til að kaupa flugmiða. Sagðist hún hafa hringt í Alexöndru vinkonu sína og beðið hana um að koma með sér í verslunarferð. Um kvöldið eða nóttina hefði hún sótt vasapeninga að Bárugötu og hefðu það verið 45.000 til 50.000 krónur. Hún sagði að ákærði Andri hefði afhent henni þessa fjármuni og tjáð sér að ákveðinn maður kæmi með efnin og að hún ætti bara að vera slök og skemmta sér. Á Bárugötunni hefðu einnig verið ákærði Jóhannes og einhver stelpa, sem hún sagðist halda að byggi þarna, svo og vinur hennar. Þetta fólk hefði þó ekki heyrt það sem fór á milli hennar og ákærða Andra. Eftir þetta hefði hún farið heim og pakkað niður. Um þrjúleytið um nóttina hefði ákærði Jóhannes skutlað henni út á flugvöll á bílnum hans Ágústs. Þá sagði hún að sig minnti að Ágúst hefði einnig verið í bifreiðinni ásamt Alexöndru. Hún sagðist ekki muna eftir því hvort Kolbeinn, kærasti Alexöndru, var í bifreiðinni.

Aðspurð sagðist ákærða hafa kynnst ákærða Jóhannesi í gegnum fyrrverandi kærasta sinn og átt góð samskipti við hann. Sagðist hún hafa verið í daglegri neyslu fíkniefna á þessum tíma og oft hafa gist heima hjá ákærða Andra þar sem hún hefði verið heimilislaus. Sagðist hún nánast hafa búið á sófanum hjá Andra vikuna áður en hún fór út. Hún sagðist aðallega hafa rætt um ferðina við ákærða Jóhannes. Aðspurð sagðist ákærða hafa eytt peningunum sem hún fékk frá ákærða Andra í flugmiða, hótelherbergi, mat og fíkniefni.

Aðspurð sagðist ákærða halda að hún hefði farið í þessa ferð fyrir ákærða Andra, en sagðist þó ekki vera viss um það hvort hann væri höfuðpaurinn eða milliliður. Hún sagðist halda að hann hefði fjármagnað ferðina. Á meðan hún var úti hefði hún haft samband við Andra í gegnum tölvupóst og SMS. Einnig hefði einhver, sem hún vissi engin deili á, hringt í hana þrisvar eða fjórum sinnum á meðan hún var úti. Einn ókunnur aðili hefði hringt í hana úr tíkallasíma á Íslandi og þá hefði Bjarki, sem hefði látið hana fá efnin úti, hringt í hana. Talað hefði verið um að það yrði hringt í hana þegar hún kæmi aftur til landsins og væri komin í gegnum tollhliðið. Aðspurð sagðist ákærða telja að ákærði Jóhannes hefði verið milliliður á milli hennar og ákærða Andra.

Ákærða sagðist hafa verið orðin mjög pirruð úti í Kaupmannahöfn þegar hún var orðin peningalaus og því hefði hún sent tölvupóst og SMS í númer ákærða Andra, 846 1115, og þá hefði ákærði Andri svarað henni og sagt henni að vera róleg. Hún sagðist ekki muna hvort hún var í samskiptum við ákærða Jóhannes á meðan hún var úti. Hún sagði að engir aðrir en hún og ákærði Andri hefðu haft aðgang að netfangi hennar. Hún sagðist halda að ákærði Jóhannes hefði einn verið viðstaddur þegar hún lét Andra fá lykilorðið að netfanginu. Ákærða sagðist hafa skoðað tölvupóstinn daglega á meðan hún var úti. Hún sagðist hafa sent sms-skilaboð úr síma Alexöndru þar sem frelsiskortið hennar hefði ekki virkað úti.

Ákærða sagðist hafa farið í fíkniefnameðferð eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Eftir það hefði hún fallið tvívegis en farið tvisvar í meðferð hjá Götusmiðjunni og lokið henni síðastliðið sumar. Sagðist hún hafa verið án vímuefna í 6 mánuði. Hún sagðist nú stunda nám í Tækniskólanum. Þá hefði hún stofnað heimili og tekið upp sambúð með manni.

Ákærða gaf skýrslu hjá lögreglu 29. október 2007, sem er í samræmi við skýrslu hennar hér fyrir dómi, en ákærða neitaði í fyrstu að nafngreina samverkamenn sína. Ákærða gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 1. nóvember 2007. Þar viðurkenndi ákærða að hafa verið í sambandi við ákærða Andra á meðan hún var úti og nafngreindi einnig ákærða Jóhannes og vitnið Ágúst Þór. Þá kvað hún ákærða Andra hafa látið hana fá peninga fyrir fargjaldinu. Loks gaf ákærða skýrslu hjá lögreglu 7. nóvember 2007, sem einnig er í samræmi við skýrslu hennar hér fyrir dómi.

Ákærði Jóhannes Arnar Rúnarsson játaði sök að því er varðar 3. tölulið, sbr. 1. tölulið ákæru útgefinnar 24. nóvember 2008, 1., 2. og 3. tölulið ákæru, útgefinnar 25. nóvember 2008 og 1. og 2. tölulið ákæru, útgefinnar 15. febrúar 2009. Sagðist ákærði hafa útvegað peninga til fararinnar og verið í sambandi við ákærðu Viktoríu. Hann sagðist hafa verið í daglegri neyslu fíkniefna á þessum tíma. Hann sagði að sig minnti að Viktoría hefði talað um það að hún væri til í að fara svona ferð og á endanum hefði hann spurt hana að því hvort hún væri til í það og hún hefði játað því. Hann sagðist ekki vita hvort ákærði Andri vissi af ferðinni. Ákærði sagðist sjálfur hafa látið Viktoríu hafa peningana, en sagðist ekki muna eftir því hvar afhending peningana fór fram, en minnti þó að það hefði verið heima hjá Andra Þór í Dalseli. Sagðist hann hafa búið heima hjá Andra og haft fullan aðgang að síma hans og tölvu. Aðspurður sagðist hann hafa útvegað peningana, um 170.000 krónur, með sölu á efnum. Fyrst hefði hann látið Viktoríu hafa peninga fyrir farinu um tveimur dögum áður en hún fór út og síðan á bensínstöð í Hafnarfirði að hann minnti. Hann sagði að Viktoría og Andri hefðu ekki haft samskipti á þessum tíma og Viktoría hefði ekki haft aðgang að íbúð Andra. Hann sagði að Viktoría hefði þó komið einu sinni með sér heim til Andra, en þá hefði Andri ekki verið heima. Hann sagðist ekki vita til þess að Viktoría og Andri þekktust. Aðspurður sagði hann að þeir Andri hefðu látið hvor annan hafa peninga þegar þannig stóð á og að þeir hefðu hjálpast að við innkaup til heimilisins.

Ákærði sagðist hafa skutlað Viktoríu og samferðakonu hennar út á flugvöll á bifreið Ágústs, sem einnig hefði verið með í för ásamt Kolbeini. Sagðist hann hafa sótt Viktoríu í Hafnarfjörð og farið síðan upp í Grafarvog og sótt Alexöndru. Hann sagðist ekki muna eftir því hvort þau komu við á Bárugötunni, en það gæti þó verið. Honum var bent á að í lögregluskýrslu hefði hann sagt að þau hefðu komið við á Bárugötunni í umrætt sinn. Sagði ákærði þá að ekkert væri að marka lögregluskýrsluna þar sem hann hefði verið undir miklum áhrifum þegar hann gaf hana. Hann sagði að lögreglan hefði lagt sér orð í munn um þetta atriði.

Ákærði sagðist hafa haft aðgang að netfangi Viktoríu og í öll skiptin verið heima hjá Andra þegar hann hafði samband við hana í gegnum netfangið. Aðspurður sagði ákærði að þó gæti verið að hann hefði haft samband við hana á staðnum Ground Zero niðri í bæ. Sagðist hann muna eftir að hafa farið tvisvar sinnum á þann stað, en ekki muna eftir að hafa tengst tölvu þar. Þá sagðist hann ekki hafa stundað þann stað.

Hann sagði að ákærða Viktoría og Alexandra hefðu átt að hringja í hann við komuna til landsins, en það hefði þó ekki verið ákveðið fyrirfram. Ákærði kvaðst ekki vilja tjá sig um það við hvern hann hefði verið í sambandi úti í tengslum við afhendingu á efnunum þar. Hann sagðist ekki vita hvernig samskiptum Viktoríu við þann mann var háttað. Sagðist hann hafa hringt í Viktoríu úr símanum hans Andra á meðan hún var úti. Þó sagðist hann hafa fengið eitt SMS í sinn síma. Aðspurður sagðist hann hafa notað síma Andra þar sem hann hefði óttast að það yrði fylgst með hans eigin síma. Sagðist hann ekkert hafa hugsað út í það að með því kynni hann að koma vini sínum í klandur. Hann sagðist hafa hangið mikið með Andra á þessum tíma og fengið símann hans lánaðan. Andri hefði þó ekki vitað af samskiptum hans og Viktoríu. Hann sagðist ekki muna eftir hvað þeim Viktoríu fór á milli á tölvupósti á meðan hún var úti. Ákærða var bent á að í skýrslutöku hjá lögreglu hefðu samskiptin við Viktoríu á tölvupósti og í sms-skilaboðum í síma hans verið borin undir hann en hann hefði ekkert kannast við þau. Sagði ákærði þá að ekkert væri að marka skýrslu hans hjá lögreglu því hann hefði verið undir miklum áhrifum efna á þessum tíma. Sagðist hann aðeins hafa sagt það sem lögreglan vildi heyra og hugsað um það eitt að komast út. Þá sagði hann aðspurður af verjanda sínum að vel gæti verið að Andri hefði afhent Viktoríu peningana fyrir hans hönd.

Spurður um þátt Andra í málinu sagði ákærði að hann væri enginn. Hann sagði að einu samskipti Andra og Viktoríu hefðu verið þau að þau hefðu hist lítillega þegar hann kom með hana heim til Andra, en Andri hefði þá verið á leiðinni út. Nánar aðspurður sagði ákærði að vel gæti verið að þau hafi kannast hvort við annað.

Ákærði sagðist vera nýbyrjaður í sex mánaða meðferð í Krýsuvík og sagðist vera búinn að vera edrú í eina viku.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 11. janúar 2008. Þar neitaði ákærði því í fyrstu að tengjast umræddum fíkniefnainnflutningi. Kvaðst hann þekkja ákærðu Viktoríu, en neitaði að hafa látið hana fá peninga eða komið nokkuð að ferð hennar til Kaupmannahafnar í október 2007. Þá neitaði ákærði því að hafa kynnt Andra og Viktoríu og sagði að þau hefðu þekkst áður. Síðar í skýrslunni viðurkenndi ákærði að hafa beðið ákærðu Viktoríu um að fara út og „sækja smá“ og sagði að ákærði Andri hefði látið Viktoríu hafa peninga til fararinnar.

Ákærði Andri Þór Guðmundsson neitaði sök að því er varðar 2. tölulið ákæru útgefinnar 24. nóvember 2008, en játaði sök að því er varðar I. og II. tölulið ákæru útgefinnar 9. september 2008 og 2. tölulið ákæru útgefinnar 15. febrúar 2009.

Ákærði sagðist ekki hafa átt neinn þátt í innflutningi fíkniefna þeirra sem fjallað væri um í ákæru útgefinni 24. nóvember 2008. Hann sagðist ekkert þekkja ákærðu Viktoríu, en hafa áttað sig á því við síðustu fyrirtöku málsins að hann hefði einhvern tímann rekist á hana með ákærða Jóhannesi. Hann sagðist hins vegar ekkert hafa kannast við nafnið þegar lögreglan innti hann eftir því á sínum tíma. Hann sagði að Viktoría hefði ekki gist heima hjá honum svo hann vissi af, en bróðir hans og ákærði Jóhannes hefðu haft aðgang að íbúð hans. Hann sagðist lítið hafa verið í íbúðinni á þessum tíma þar sem hann hefði dvalið löngum stundum hjá stelpu á Bárugötunni. Ákærði sagði að hann og ákærði Jóhannes væru vinir og hefðu verið það í nokkur ár. Sagðist hann hafa vera með nokkur símanúmer í gangi á þessum tíma, m.a. númerið 846 1115. Ákærði sagðist hafa verið í neyslu ávana- og fíkniefna á þessum tíma, en þó ekki eins mikilli og t.d. ákærði Jóhannes. Sagðist hann ekki hafa neytt fíkniefna daglega.

Ákærði sagðist ekkert hafa vitað af ferð ákærðu Viktoríu til Kaupmannahafnar og ekki hafa verið um það kunnugt að ákærði Jóhannes hefði afhent henni fjármuni til fararinnar. Sjálfur hefði hann ekki látið hana fá peninga. Inntur út í framburð Viktoríu um að hann hefði látið hana fá peninga sagði ákærði að vel gæti verið að hann hefði látið ákærða Jóhannes hafa peninga á Bárugötunni og gat sér til um að Viktoría væri að rugla því saman. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa hitt Viktoríu á Bárugötunni. Það gæti þó vel verið að hún hefði komið við á Bárugötunni en ekki til að hitta sig eða taka við peningum frá honum. Ákærði sagðist ekki muna eftir að ákærða Viktoría hefði látið hann fá lykilorð að netfangi sínu. Hann sagði að í íbúð hans að Dalseli hefði verið internetsamband, en það hefði fylgt íbúðinni og beinirinn (routerinn) verið opinn öllum í stigaganginum. Sjálfur sagðist hann ekki hafa átt tölvu. Hann sagði að fólk hefði oft komið með tölvu í heimsókn til hans, m.a. ákærði Jóhannes. Hann sagðist ekki muna sérstaklega eftir því hvort hann hefði farið á netið í íbúðinni á þeim tíma sem um ræðir í málinu. Aðspurður sagði ákærði að þeir vinir hans, sem hefðu verið í kringum hann hverju sinni, hefðu haft aðgang að síma hans og fengið að hringja hjá honum, en hann hefði hins vegar greitt fyrir notkunina. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa verið í fastri vinnu á þessum tíma, en sagðist hafa verið á bótum og ekki haft aðrar tekjur. Sagði hann framburð ákærðu Viktoríu um þátt hans í málinu ekki réttan, en gat ekki skýrt það hvers vegna hún væri að ljúga upp á hann sök. Hann sagði að á þessum tíma hefðu peningar gengið á milli þeirra ákærða Jóhannesar og þeir hefðu brallað ýmislegt saman.

Aðspurður sagðist ákærði hafa farið í meðferð á Vogi fyrir um ári og verið meira og minna edrú síðan, en fallið aðeins um jólin. Eftir meðferðina hefði hann fljótlega komist á sjóinn og stundað sjómennsku eftir það.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 11. janúar 2008 og neitaði þá að tjá sig sjálfstætt um málið. Hann viðurkenndi að eiga símanúmerið 846 1115, en kannaðist ekkert við sms-skilaboð, sem send voru í símann 26. og 27. október 2007 úr síma 846 6976. Sagðist hann ekki kannast við ákærðu Viktoríu og ekki kannast við að hún hafi gist heima hjá honum. Neitaði hann því að hafa átt þátt í innflutningi á fíkniefnum og kvaðst ekki hafa látið Viktoríu fá peninga til fararinnar. Þá sagðist hann ekki hafa átt nein samskipti við hana á meðan hún var í Kaupmannahöfn.

Vitnið Ágúst Þór Hansson sagðist lítið vita um málið og ekki muna eftir að hafa verið farþegi í bifreið þeirri, sem ekið var út á flugvöll. Hann sagðist lítið eða ekkert þekkja ákærðu í máli þessu.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 8. nóvember 2007. Þar skýrði vitnið frá því að hann hefði skutlað ákærðu Viktoríu og Alexöndru út á flugvöll 26. október 2007 á bifreið sinni og með í för hefðu einnig verið Kolbeinn og ákærði Jóhannes Arnar. Sagðist hann hafa byrjað á því að sækja ákærðu Viktoríu og Jóhannes í Dalselið og þá hefði ákærði Jóhannes tekið við akstri bifreiðarinnar. Næst hefðu þau náð í Alexöndru og Kolbein upp í Grafarholt og því næst komið við á Bárugötu þar sem Viktoría, Jóhannes og Alexandra hefðu farið inn og stoppað í 5 til 10 mínútur. Sagðist hann hafa beðið úti í bíl á meðan. Þau hefðu síðan stoppað í sjoppu í Hafnarfirði og ekið þaðan til Keflavíkur.

Vitnið Kolbeinn Sævarsson sagðist fyrst hafa heyrt af málinu þegar ákærða Viktoría og Alexandra voru handteknar við komuna til landsins. Hann sagðist hafa verið farþegi í bifreið þeirri, sem ók stúlkunum út á flugvöll. Í bifreiðinni hefði einnig verið ákærði Jóhannes, einhver strákur, sem hann þekki ekki og síðan ákærða Viktoría og Alexandra. Sagðist hann hafa verið mjög ölvaður þetta kvöld og ekki muna hvar hann fór upp í bifreiðina, en hann hefði komið með til að kveðja Alexöndru. Þá sagðist hann ekki muna eftir að komið hefði verið við á einhverjum stað á leiðinni út á flugvöll. Sagðist hann hafa vitað það eitt að Alexandra væri á leiðinni til Danmerkur, en ekki haft hugmynd um fyrirhugaðan innflutning á fíkniefnum. Hann sagðist hafa verið á sjó með ákærða Jóhannesi fyrir löngu, en sagðist ekkert þekkja ákærðu Viktoríu og Andra. Hann sagðist ekki kannast við netfangið vikka90@visir.is, en kvaðst telja líklegt að um væri að ræða netfang Viktoríu. Sagðist hann ekki vita hvernig stæði á það að samband hefði verið haft við netfang Viktoríu úr netfangi hans þessa helgi. Hann sagðist engin samskipti hafa við ákærða Jóhannes, hvorki fyrir né eftir atburði málsins.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 29. maí 1008, sem er í samræmi við framburð þess fyrir dómi.

Vitnið Björg Thorberg Sigurðardóttir sagðist ekkert hafa vitað um fyrirhugaðan innflutning á fíkniefnum. Hún sagðist hafa unnið með ákærða Jóhannesi áður fyrr og sagðist hafa þekkt ákærða Andra frá því í grunnskóla. Hún sagðist aðeins einu sinni hafa séð ákærðu Viktoríu. Ákærði Andri hefði búið hjá sér á þessum tíma, en þó sennilega ekki fyrr en í desember. Hún sagðist ekki muna eftir því að ákærða Viktoría hefði komið heim til hennar á Bárugötuna 26. október 2007. Hún sagði að ákærðu Andri og Jóhannes hefðu sagt henni að Viktoría héldi því fram að hún hefði komið heim til hennar til að ná í peninga, en þar sem hún myndi ekki eftir því hlyti hún annaðhvort að hafa verið sofandi eða ekki heima þegar það gerðist. Þá sagði hún að Andri hefði ekki munað eftir þessu, en hann hefði spurt hana að því hvort hún kannaðist við það. Aðspurð sagðist hún ekki kannast við netfangið vikka90@visir.is. Sagðist hún hafa verið á kafi í neyslu fíkniefna á þessum tíma og telja að Andri hefði einnig neytt fíkniefna.

Alexandra Garðarsdóttir sagðist lítið muna eftir umræddri ferð til Kaupmannahafnar. Hún sagði að ákærða Viktoría hefði hringt í sig með stuttum fyrirvara og boðið sér með í verslunarferð til Danmerkur. Viktoría hefði lagt út fyrir farseðlinum, en í staðinn hefði hún haldið henni uppi í mat og drykk á meðan þær voru úti. Aðspurð sagðist hún hafa kynnst Viktoríu í grunnskóla á árinu 1999 eða 2000 en ekki hafa umgengist hana í nokkur ár þegar þarna var komið sögu. Hún sagði að Viktoría hefði farið nokkrum sinnum út á flugvöll til að komast á netið, en hún hefði ekki fylgst með því við hvern hún hafði samskipti. Sagðist hún ekki hafa áttað sig á því hvað var í gangi, enda sagðist hún ekki þekkja vini og kunningja Viktoríu. Hún sagði að Viktoría hefði fengið að hringja nokkrum sinnum hjá henni, en sagðist ekki hafa hlustað á þau samtöl og sagðist ekki vita í hvern hún hefði hringt. Sími Viktoríu hefði ekki virkað úti, en sjálf hefði hún verið með frelsiskort, sem virkaði í útlöndum og því hefði Viktoría fengið að hringja og senda SMS í hennar síma. Hún sagði að vinur Viktoríu hefði skutlað þeim út á flugvöll, en sagðist ekki muna hverjir voru í bifreiðinni með þeim. Sagðist hún eiga við minnisleysi að stríða. Hún sagðist ekki muna eftir að þær hefðu hitt mann úti. Sagðist hún halda að Viktoría hefði borgað fyrstu tvær næturnar á hótelinu, en hún síðustu nóttina. Hún sagðist ekki hafa séð neitt athugavert við hegðun og framkomu Viktoríu í ferðinni. Aðspurð sagðist hún ekkert kannast við ákærðu Jóhannes Arnar og Andra Þór.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 30. október og 1. nóvember 2007 og eru þær skýrslur í  meginatriðum í samræmi við framburð vitnisins hér fyrir dómi.

Tekin var skýrsla af Bjarka Fannari Smárasyni sem sakborningi hjá lögreglu 2. maí 2008, en hann neitaði alfarið að tjá sig um sakarefnið.

Af hálfu ákæruvalds er bent á að símtengingar á milli síma ákærða Andra Þórs og þess síma sem ákærða Viktoría hafði aðgang að á meðan hún var í Kaupmannahöfn, svo og tengingar við netfang hennar á meðan hún var úti, samræmist framburði ákærðu Viktoríu hér fyrir dómi um þátt ákærða Andra Þórs í brotinu, svo og framburði ákærða Jóhannesar Arnars hjá lögreglu. Þá er á það bent að framburður ákærða Jóhannesar Arnars fyrir dóminum sé ekki í samræmi við framburð hans hjá lögreglu og hann sé því ekki trúverðugur. Af hálfu ákæruvalds sé talið sannað með greinargóðum og trúverðugum framburði ákærðu Viktoríu, sem samræmis gögnum málsins, að ákærði Andri Þór hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í stefnu.

Af hálfu ákærða Andra Þórs er á það bent að meðákærði Jóhannes Arnar hafi viðurkennt að hafa lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna, fengið Viktoríu til þess að flytja þau inn, verið í samskiptum við hana á meðan hún var úti og afhent henni peninga til að fjármagna ferð hennar utan og dvöl hennar erlendis. Þá er því haldið fram að framburður meðákærðu Viktoríu sé með ákveðnum ólíkindabrag og ekki í fullu samræmi við framburð hennar hjá lögreglu. Jafnframt er á það bent að strax hjá lögreglu hafi komið fram hjá meðákærða Jóhannesi Arnari að hann hefði haft afnot af síma ákærða og aðgang að tölvu á heimili ákærða. Gögn málsins nægi ekki til sakfellingar ákærða og beri því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvalds með vísan til 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Loks er af hálfu ákærða krafist að geymslugjald að fjárhæð 129.799 vegna geymslu á bifreiðinni SP 630 í 101 sólarhring verði lagt á ríkissjóð og jafnframt bent á að hugsanlega hafi ekki verið þörf á því að fram færi sérstök bíltæknirannsókn vegna umferðarslyssins 23. október 2007.

 

B.

Ákærur, útgefnar 25. nóvember 2008 og 15. febrúar 2009, á hendur Jóhannesi Arnari Rúnarssyni.

Málið dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða að því er framangreindar ákærur varðar og er því um málavexti skírskotað til ákæranna.

C.

Ákærur, útgefnar 9. september 2008 og 15. febrúar 2009, á hendur Andra Þór Guðmundssyni.

Málið dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða að því er framangreindar ákærur varðar og er því um málavexti skírskotað til ákæranna.

 

III.

Niðurstaða

A.

Ákæra, útgefin 24. nóvember 2008 á hendur öllum ákærðu.

Þáttur ákærða Andra Þórs Guðmundssonar:

Ákærði Andri Þór hefur staðfastlega neitað því að hafa átt aðild að innflutningi á fíkniefnum þeim, sem greinir í ákæru.

Fram hefur komið að ákærði og meðákærði Jóhannes eru vinir og voru báðir í neyslu fíkniefna á þeim tíma, sem um ræðir í máli þessu. Ákærði hefur viðurkennt bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi að hafa átt og notað símanúmerið 846 1115 á umræddum tíma. Óumdeilt er að á meðan meðákærða Viktoría dvaldi í Kaupmannahöfn voru sms-skilaboð send á milli fyrrgreinds símanúmers ákærða og símanúmers Alexöndru, sem Viktoría notaði á meðan hún var úti. Þá sýna gögn málsins að farið var inn á netfang Viktoríu á sama tíma frá IP-tölu, sem skráð er á nöfn leigusala ákærða Andra Þórs að Dalseli 12 í Reykjavík, þ.e. á heimili ákærða. Í skilaboðunum frá Danmörku er lýst peningavandræðum, vangaveltum um hvort fara eigi til Amsterdam og einnig eru skilaboð um að það megi láta gaurinn hringja. Til baka eru send skilaboð um að þær skuli vera rólegar og að það verði hringt í þær.

Hér fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa, áður en atvik málsins áttu sér stað, rekist á Viktoríu í fylgd meðákærða Jóhannesar. Þá sagði hann að hugsanlegt væri að hann hefði afhent meðákærða Jóhannesi peninga á Bárugötunni og útilokaði ekki að Viktoría hefði átt þar viðdvöl í greint sinn. Þykir það renna stoðum undir þann framburð meðákærðu Viktoríu að hún og Jóhannes hafi komið við á Bárugötunni seint um kvöld eða að næturlagi á leið út á flugvöll. Hefur hún borið um það að þar hafi ákærði Andri afhent henni peninga til fararinnar. Í ljósi alls framangreinds þykir ótrúverðugur sá framburður ákærða Andra Þórs að honum hafi ekki verið kunnugt um ferð Viktoríu til Danmerkur og að hann kannist ekkert við sms-skilaboð hennar í síma hans. Loks þykir ótrúverðugur sá framburður ákærða Andra að þeir sem voru í kringum hann hverju sinni hefðu haft óheftan aðgang að síma hans, en hann hefði sjálfur borið kostnað af notkun símans.

Framburður meðákærða Jóhannesar Arnars hefur verið hvarflandi og ber skýrslu hans hjá lögreglu ekki saman við framburð hans hér fyrir dómi um þátt ákærða Andra Þórs í innflutningnum. Þykja skýringar hans á þessu ósamræmi ekki trúverðugar. Skýrsla meðákærða Jóhannesar hjá lögreglu samræmist hins vegar ágætlega framburði meðákærðu Viktoríu í málinu um þátt ákærða Andra Þórs. Var meðákærði mjög hikandi í framburði sínum hér fyrir dómi og skýrði ekki frá atvikum málsins í frjálsri frásögn. Þykir framburður hans um að hann hafi sjálfur alfarið séð um skipulagningu og fjármögnun innflutningsins og að ákærði Andri Þór hafi þar hvergi komið nálægt mjög ótrúverðugur.

Meðákærði Jóhannes útilokaði ekki hér fyrir dómi að þau Viktoría hefðu komið við á Bárugötunni á leið sinni út á flugvöll, en það þykir renna stoðum undir framburð Viktoríu um þá viðdvöl og tilgang hennar. Jafnframt sagði hann að sig minnti að hann hefði afhent meðákærðu Viktoríu peninga til kaupa á farmiðum heima hjá ákærða Andra og síðar sagði hann að vel gæti verið að Andri hefði afhent meðákærðu Viktoríu peningana fyrir hans hönd. Loks þykja ótrúverðugar skýringar meðákærða Jóhannesar á því hvers vegna hann notaði síma ákærða Andra til að hafa samband við meðákærðu Viktoríu á meðan hún var úti. Þykja þær sérstaklega ótrúverðugar í ljósi þess að ákærði Andri Þór hafði á þessum tíma sætt refsingu vegna brots gegna ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, en ekki meðákærði Jóhannes. Þá hefur meðákærði sjálfur borið um það að hafa verið í slagtogi með ákærða Andra á þessum tíma og fram er komið að þeir voru báðir í neyslu fíkniefna á þeim tíma sem um ræðir.

Í ljósi alls framangreinds og með vísan til greinargóðs og trúverðugs framburðar Viktoríu, sem jafnframt hefur verið stöðugur og fær stuðning í rannsóknargögnum og að sumu leyti í framburði ákærða og meðákærða Jóhannesar, þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði Andri Þór hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í 2. lið ákærunnar.

Þáttur ákærðu Viktoríu Guðmundsdóttur og Jóhannesar Arnars Rúnarssonar:

Ákærðu Viktoría og Jóhannes Arnar játuðu brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í framangreindum ákærum. Þykir með játningu ákærðu, sem á sér stoð í gögnum málsins, sannað að ákærðu hafi gerst sek um þá háttsemi sem ákært er fyrir og eru brot ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunum.

 

B.

Ákærur, útgefnar 25. nóvember 2008 og 15. febrúar 2009, á hendur Jóhannesi Arnari Rúnarssyni.

Ákærði Jóhannes Arnar játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í framangreindum ákærum. Þykir með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunum.

C.

Ákærur, útgefnar 9. september 2008 og 15. febrúar 2009, á hendur Andra Þór Guðmundssyni.

Ákærði Andri Þór játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í framangreindum ákærum. Þykir með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunum.

 

Ákærða Viktoría er fædd árið 1990. Samkvæmt sakavottorði hefur hún ekki áður gerst brotleg. Við ákvörðun refsingar hennar er litið til þess að hún hefur frá upphafi rannsóknar játað brot sitt og leitast við að upplýsa málið. Þá er litið til þess að ákærða er ung að árum, en hún var nýlega orðin 17 ára þegar brotið var framið. Þykir rétt að hún njóti góðs af öllu framangreindu við ákvörðun refsingar, sbr. 4., 5., og 8. tölulið 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er litið til þess að þáttur ákærðu í brotinu laut aðeins að því að flytja efnin til landsins, en ákærða kom hvorki að skipulagningu né fjármögnun ferðarinnar. Í ljósi alls framangreinds þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Með hliðsjón af því að ákærða er ung að árum og hefur ekki áður sætt refsingu, svo og því að ákærða hefur tekið sig á, hætt fíkniefnaneyslu og stundar nú nám, þykir mega fresta fullnustu á sex mánuðum af framangreindri refsingu og ákveða að hún falli niður að liðnum tveimur árum haldi ákærða almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955. Samkvæmt heimild í 76. gr. almennra hegningarlaga ber að draga frá refsingunni gæsluvarðhaldsvist ákærðu frá 30. október 2007 til 7. nóvember 2007.

Ákærði Jóhannes Arnar er fæddur árið 1986. Samkvæmt sakavottorði gekkst ákærði hinn 29. nóvember 2004 undir viðurlagaákvörðun, sekt og sviptingu ökuréttar, vegna hraðaksturs og fyrir að vera ekki með ökuskírteini meðferðis. Hinn 28. ágúst 2007 gekkst ákærði undir sekt hjá lögreglustjóra og ökuréttarsviptingu í einn mánuð vegna hraðakstur og fyrir að vera ekki með ökuskírteini meðferðis. Þá var ákærði hinn 5. nóvember 2007 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 151. gr. almennra hegningarlaga. Loks var ákærði hinn 22. október 2008 dæmdur til greiðslu 70.000 krónu sektar og sviptur ökurétti í eitt ár frá 12. nóvember 1008 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Brot samkvæmt ákærum útgefnum 24. og 25. nóvember 2008 og 2. lið ákæru útgefinnar 15. febrúar 2009 eru framin áður en dómar frá 5. nóvember 2007 og 22. október 2008 gengu og ber því að dæma ákærða hegningarauka við þá dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Með broti sínu hinn 4. desember 2008, sbr. 2. lið ákæru síðastgreindu ákærunnar, rauf ákærði hins vegar skilorð sama dóms, en með því að brotið varðar aðeins sektum þykir rétt með heimild í 60. gr. almennra hegningarlaga að láta skilorðsdóminn haldast. Ber að tiltaka refsingu ákærða í einu lagi fyrir öll brotin.

Við ákvörðun refsingar er höfð hliðsjón af því að ákærði hefur játað brot sín, en jafnframt er litið til þess að ákærði gegndi mikilvægu hlutverki sem milligöngumaður við innflutninginn. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna. Þá er ákærði sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 12. nóvember 2009.

Ákærði Andri Þór er fæddur árið 1983. Samkvæmt sakavottorði nær sakaferill hans allt aftur til ársins 2002. Hinn 23. maí það ár var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað, en ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið. Á árinu 2003 gekkst ákærði undir greiðslu sektar hjá lögreglustjóra og sviptingu ökuréttar vegna ölvunaraksturs og á árinu 2004 gekkst ákærði aftur undir sekt hjá lögreglustjóra vegna hraðaksturs. Hinn 6. október 2004 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í þrjú ár frá 29. október það ár vegna ölvunaraksturs. Með dómi 10. október 2005 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar og sviptur ökurétti ævilangt frá 29. október 2007 vegna ölvunar- og sviptingaraksturs. Hinn 13. febrúar 2006 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi vegna ölvunar- og sviptingaraksturs og ævilöng svipting ökuréttar áréttuð. Hinn 14. júní 2006 gekkst ákærði undir greiðslu 100.000 króna sektar hjá lögreglustjóra vegna aksturs sviptur ökurétti og þá var ákærði hinn 20. september sama ár dæmdur í 45 daga fangelsi vegna hraðaksturs og aksturs sviptur ökurétti. Hinn 26. sama mánaðar var ákærða dæmdur hegningarauki við fyrri dóminn, 45 daga fangelsi fyrir hraðakstur og akstur sviptur ökurétti. Hinn 20. desember 2007 var ákærði Í Hæstarétti Íslands dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnum og lá þar til grundvallar dómur héraðsdóms frá 14. febrúar 2007. Um var að ræða hegningarauka við dóma frá 20. og 26. september 2007. Loks var ákærði hinn 6. febrúar 2008 dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf.

Brot samkvæmt I. lið ákæru útgefinnar 9. september 2008 og samkvæmt ákæru útgefinni 24. nóvember 2008, eru framin áður en dómurinn frá 6. febrúar 2008 gekk og ber því að dæma ákærða hegningarauka við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Brot samkvæmt II. lið ákæru útgefinnar 9. september 2008 og 2. lið ákæru útgefinnar 15. febrúar 2008, eru hins vegar framin eftir að fyrrgreindur dómur gekk. Ákærði hefur nú þrívegis gerst sekur um akstur sviptur ökurétti og tvívegis um ölvunarakstur. Er þar um að ræða þriðju og fjórðu ítrekun á sviptingarakstri og fjórðu ítrekun á ölvunarakstri. Með hliðsjón af ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga ber að gera ákærða refsingu í einu lagi fyrir öll brotin.

Við ákvörðun refsingar er höfð hliðsjón af því að ákærði hefur áður gerst sekur um innflutning á talsverðu magni af kókaíni til landsins. Þá hefur ákærði ítrekað gerst sekur um ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Einnig er litið til þess að ákærði gegndi veigamiklu hlutverki við skipulagningu og fjármögnun innflutnings á fíkniefnunum. Loks er litið til hinna alvarlegu áverka sem farþegi í bifreið ákærða hlaut í umferðarslysi er ákærði missti stjórn á bifreiðinni vegna hraðaksturs. Þykir ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð frá deginum í dag að telja.

Ákærðu er gert að þola upptöku á 291,65 g af kókaíni.

Ákærða Viktoría greiði sakarkostnað að fjárhæð 812.129 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipas verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 613.536 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Jóhannes Arnar greiði sakarkostnaða að fjárhæð 772.283 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 418.320 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Andri Þór greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.251.868 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 488.040 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Gjald vegna geymslu á bifreið og kostnaður vegna bíltæknirannsóknar eru óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar á brotum gegn umferðarlögum og 219. gr. almennra hegningarlaga og teljast til sakarkostnaðar samkvæmt c-lið 216. gr. laga nr. 88/2008. Þykir rétt að fella þann kostnað á ákærða eins og að framan greinir.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

 

Dómsorð:

Ákærða Viktoría Guðmundsdóttir sæti fangelsi í átta mánuði en fullnustu sex mánaða af refsingunni er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldvist ákærðu frá 30. október til 7. nóvember 2007.

Ákærði Jóhannes Arnar Rúnarsson sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði Jóhannes Arnar er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 12. nóvember 2009.

Ákærði Andri Þór Guðmundsson sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði Andir Þór er sviptur ökurétti ævilangt frá deginum í dag að telja.

Upptæk eru gerð 291,65 g af kókaíni.

Ákærða Viktoría greiði sakarkostnað að fjárhæð 812.129 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hdl., að fjárhæð 613.536 krónur.

Ákærði Jóhannes Arnar greiði sakarkostnað að fjárhæð 772.283  krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., að fjárhæð  418.320 krónur.

Ákærði Andri Þór greiði sakarskostnað að fjárhæð 1.251.868 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hdl., að fjárhæð  488.040 krónur.

Ragnheiður Bragadóttir

 

Rétt endurrit staðfestir.

Héraðsdómi Reykjaness 7.4.2009.