• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Sakarkostnaður
  • Sönnun
  • Sönnunarmat

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 23. júlí 2018 í máli nr. S-483/2017:

 

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Helgi Jóhannesson lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 7. júní sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 14. desember 2017 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...] í [...];

„fyrir eftirgreind kynferðisbrot gegn barnabarni sínu A, kt. [...], framin á heimili ákærða að [...], [...], er drengurinn var níu til ellefu eða tólf ára gamall, á tímabilinu frá árinu 2010 til ársins 2012 eða 2013, en ákærði nýtti sér yfirburði sína gagnvart drengnum og traust hans og trúnað til hans sem afa:

I

Með því að hafa í fjölda skipta, haft önnur kynferðismök en samræði við A, með því að snerta kynfæri drengsins og fróa honum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Með því að hafa í eitt skipti, er ákærði lá í sama rúmi og A, lyft sænginni og sagt við drenginn að limur hans væri „rosalega stór“ og spurt hvort hann mætti finna hvað hann væri „harður“ og snert kynfæri drengsins.

Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

III

Með því að hafa í fjölda skipta þuklað í kringum kynfæri A innan klæða.

Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. [...], vegna ólögráða sonar hennar, A, kt. [...], er þess krafist að ákærði greiði drengnum miskabætur að fjárhæð 2.500.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 4. gr. sömu laga, frá 21. júlí 2012 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til  greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðar­reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Kröfur ákærða:

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin hæfileg þóknun verjanda til handa. Hvað bótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði þess aðallega að kröfunni verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni en til þrautavara að krafan verði lækkuð.

A

Hinn 7. júlí 2016 óskaði Barnaverndarnefnd [...] eftir því við lögreglu að hafin yrði rannsókn á meintum brotum ákærða og eiginkonu hans gegn brotaþola, A, en brotaþoli er barnabarn þeirra hjóna. Upplýsingar um meint brot höfðu borist nefndinni símleiðis fyrr um daginn frá föður brotaþola, C, en hann er sonur ákærða og eiginkonu hans. Í símtalinu greindi faðir brotaþola svo frá að kvöldið áður hefði drengurinn sagt foreldrum sínum frá því að ákærði hefði misnotað hann kynferðislega þegar hann var yngri. Brotaþoli hefði lýst atvikum svo að ákærði hefði snert hann og fróað honum í hjónarúmi ákærða og ömmu brotaþola. Misnotkunin hefði staðið yfir í nokkur ár og skiptin verið mörg. Hefði amma brotaþola verið viðstödd og vakandi í einhverjum þessara tilvika en hún ekkert sagt við háttsemi ákærða.

Skýrsla var tekin af brotaþola vegna málsins 21. júlí 2016. Lýsti hann því þá meðal annars að ákærði hefði ítrekað fróað honum. Það hefði fyrst gerst þegar drengurinn var  níu eða tíu ára gamall. Brotaþoli gat ekki tiltekið hversu mörg skiptin hefðu verið en sagði þetta hafa gerst „alveg oftar en einu sinni“, í „kannski svona átta skipti.“ Brotaþoli og ákærði hefðu þá verið staddir í svefnherbergi ákærða og ömmu brotaþola. Brotaþoli lýsti því jafnframt hvernig ákærði hefði þvegið honum og bróður hans, D, „extra vel“ þegar þeir dvöldust á heimilinu, meðal annars um kynfæri og á milli rasskinna. Enn fremur bar brotaþoli að ákærði hefði í tvígang sýnt honum myndir í tölvu af nöktum konum. Ákærði hefði gert það með þeim skýringum um að hann vildi veita brotaþola kynfræðslu. Brotaþola hefði ekki liðið vel með þetta.

Lögregla tók skýrslu af foreldrum ákærða og bróður hans vegna málsins 20. og 21. júlí 2016. Hinn 22. júlí 2016 voru ákærði og eiginkona hans handtekin. Þá var heimili þeirra ljósmyndað með tilliti til þess sem fram hafði komið í málinu um vettvang meintra brota.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu 22. júlí 2016 neituðu ákærði og eiginkona hans sakargiftum. Nefndi ákærði sem skýringu á framburði brotaþola að drengurinn hefði eitt sinn byrjað að fróa sér undir sænginni á meðan ákærði var að lesa fyrir hann. Taldi ákærði að brotaþoli hefði þá verið um það bil ellefu ára gamall. Ákærði sagðist hafa talað um þetta við drenginn þar sem það að fróa sér væri fullkomlega eðlilegur hlutur. Það ætti ekki að vera neitt feimnismál en heldur ekki að vera til sýnis. Ákærði sagði brotaþola hafa verið mjög bráðþroska líkamlega. Ákærði hefði lyft sænginni og haft á orði hvað limur drengsins væri stór. Í framhaldinu hefði ákærði spurt hvort hann mætti finna hversu harður limurinn væri og drengurinn svarað játandi „... og svo gerði ég það.“ Ákærði sagði ekkert kynferðislegt hafa verið við þetta atvik. Þá kannaðist ákærði við að hafa í eitt sinn, þegar hann og brotaþoli hefðu verið að tala um stelpur og píkur, bent drengnum á að skrifa „vagina“ í leitarstreng á vefsíðunni Wikipedia. Hefðu þá birst fjölmargar myndir af kynfærum kvenna. Á ákærða var að skilja að umfang myndefnisins hefði verið miklu meira en hann átti von á sem skýrðist af lítilli þekkingu hans á virkni netsins.

 Skýrsla var tekin öðru sinni af bróður ákærða, D, 8. mars 2017. Þann sama dag var skýrsla einnig tekin öðru sinni af brotþola. Var brotaþoli þá meðal annars spurður út í frásögn ákærða fyrir lögreglu af framangreindu tilviki þar sem ákærði sagði brotaþola hafa farið að fróa sér undir sæng. Við skýrslutökuna kvaðst brotaþoli ekki muna sérstaklega eftir slíku tilviki. Enn var tekin skýrsla af brotaþola 24. október 2017. Brotaþoli bar þá um nokkur tilvik þar sem ákærði hefði farið með höndina ofan í nærbuxur hans á meðan þeir voru að horfa á sjónvarpið. Í þeim tilvikum hefði ákærði káfað á svæðinu við typpi brotaþola.

Undir rannsókn málsins var aflað vottorðs E læknis, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, vegna komu, skoðunar og læknismeðferðar brotaþola. Einnig var aflað vottorða varðandi andlegt heilsufar brotaþola frá sálfræðingunum F, Dr. G og H. Efni vottorðanna og framburður vottorðsgjafa verður reifaður í kafla D hér á eftir.

Málið var sent héraðssaksóknara að lokinni rannsókn lögreglu 20. mars 2017. Hinn 13. október 2017 endursendi héraðssaksóknari lögreglu málið til frekari rannsóknar vegna frásagnar brotaþola af atvikum sem komið hafði fram í viðtali hans hjá H sálfræðingi 29. september 2017. Í kjölfarið var tekin þriðja framburðarskýrslan af brotaþola, svo sem fyrr var getið, en einnig var skýrsla tekin af ákærða og eiginkonu hans. Rannsókn lögreglu lauk síðan endanlega í lok október 2017. Var ákæra gefin út á hendur ákærða 14. desember það ár samkvæmt áðursögðu.

B

Ákærði neitar sök. Við aðalmeðferð málsins bar ákærði að enginn fótur væri fyrir þeirri lýsingu atvika sem ákæruliðir I og III hefðu að geyma. Hvað varðaði það atvik sem ákæruliður II tæki til kvaðst ákærði hafa lýst því atviki strax við upphaf rannsóknar lögreglu að eigin frumkvæði. Samskipti þau sem þar hefðu átt sér stað, á milli mjög sérstaks drengs og afa hans, sagði ákærði hafa verið fullkomlega eðlileg.

Atvikum samkvæmt ákærulið II lýsti ákærði nánar svo að brotaþoli hefði gist hjá honum og ömmu drengsins umrætt sinn. Ákærði og brotaþoli hefðu verið saman í tvíbreiðu rúmi í herbergi í kjallara hússins. Ákærði hefði talið drenginn fara að sofa og hefði hann því farið að lesa bók. Eftir svolítinn tíma hefði ákærði veitt því athygli að brotaþoli var byrjaður að fróa sér. Ákærði hefði í fyrstu látið drenginn afskiptalausan en síðan ákveðið „að blanda mér í þetta“. Ákærði kvaðst hafa rætt við brotaþola á hans forsendum vegna þess hversu sérstakur drengurinn væri. Ákærði hefði spurt brotaþola: „Ertu að runka þér?“ Hann hefði síðan lyft upp sænginni og sagt: „Mikið svakalega er hann stór.“ Því næst hefði ákærði tekið utan um typpið á drengnum með tveimur fingrum og bætt við: „Og harður.“ Vegna skýrslugjafar sinnar fyrir lögreglu um þetta atvik tók ákærði fram að hann kannaðist ekki við að hafa beðið um að fá að koma við typpið. Um mismæli hlyti að vera að ræða. Brotaþoli hefði þegar þarna var komið sögu sagt við ákærða: „Nuddaðu hann afi.“ Ákærði hefði svarað: „Nei, það gerir maður bara sjálfur.“ Ákærði sagðist í framhaldinu hafa rætt við brotaþola fram og til baka og lagt á það áherslu að ekkert væri óeðlilegt við það að fróa sér, það gerðu allir, en að þeir gerðu það í einrúmi. Fullyrti ákærði að þessi samskipti þeirra brotaþola hefðu verið mjög góð og hefðu þau ekki haft nein neikvæð áhrif á drenginn. Það hefði ekki verið fyrr en löngu seinna „... sem að þetta var fært  yfir á annað plan.“

Ákærði sagði brotaþola vera sérstakan. Drengurinn væri með [...]. Af þeim sökum væri nauðsynlegt að fara að brotaþola með sérstökum hætti þegar höfð væru við hann samskipti. Samband sitt við brotaþola kvað ákærði hafa verið afskaplega gott, sérstaklega þegar tekið væri mið af sambandi drengsins við annað fólk.

Ákærði sagði mikil samskipti hafa verið á milli sín og eiginkonu sinnar annars vegar og fjölskyldu brotaþola hins vegar á meðan brotaþoli og bróðir hans voru litlir, eða allt þar til drengirnir voru orðnir nógu stórir til að sjá um sig sjálfir þegar foreldrarnir voru að heiman. Ákærði nefndi að faðir drengjanna hefði um tíma dvalið á [...] og á því tímabili hefðu ákærði og eiginkona hans fengið drengina til sín á umgengnishelgum föður en foreldrar þeirra hefðu þá verið skilin.

Eftir að mál þetta kom upp kvað ákærði brotaþola ekki hafa komið á heimili sitt. Allt fram til þess tíma hefði drengurinn hins vegar iðulega komið á heimilið. Frá sama tímamarki hefðu foreldrar drengsins heldur ekkert samband haft við ákærða og eiginkonu hans. Aðspurður kvaðst ákærði vera þess fullviss að hinn ranga sakaráburð brotaþola mætti rekja til þeirra aðila, fyrst og fremst sálfræðinga, sem haft hefðu drenginn til meðferðar. Þeir aðilar hefðu ekki vísvitandi afvegaleitt brotaþola heldur væri brotaþoli þannig gerður að hann svaraði alltaf því sem hann héldi að fólk vildi heyra. Drengurinn væri með frásögn sinni af meintum brotum ákærða að reyna að geðjast öðru fólki. Ásakanirnar kvað ákærði hafa komið honum og eiginkonu hans algerlega í opna skjöldu.

Aðspurður kvaðst ákærði einu sinni hafa rætt um málefni tengd kynlífi við bróður brotaþola, D, sem þá hefði verið 13 eða 14 ára gamall. Ákærði hefði þá spurt drenginn að því hvort hann hefði nokkru sinni séð píku á kvenmanni og hefði drengurinn svarað því neitandi.

C

A, brotaþoli í málinu, lýsti atvikum svo fyrir dómi að ákærði hefði ítrekað, þegar brotaþoli var um það bil 10-12 ára gamall, farið með hann niður í svefnherbergi sitt og ömmu brotaþola, tekið með hendinni um typpi brotaþola og fróað honum. Þetta hefði gerst í nokkur skipti að kvöldi til. Stundum hefðu þeir bara verið tveir í herberginu en stundum hefði amma brotaþola verið í dyragættinni. Ákærði hefði verið þögull á meðan hann fróaði brotaþola. Í fyrstu tvö skiptin hefði ákærði tekið buxurnar niður um brotaþola en í síðari skiptin hefði brotaþoli gert það sjálfur. Spurður um hversu oft þetta hefði átt sér stað svaraði brotaþoli því til að þetta hefði gerst í sjö til níu skipti. Minntist brotaþoli þess ekki að hann hefði fengið sáðlát. Aðspurður sagði brotaþoli sér hafa liðið vel líkamlega á meðan ákærði fróaði honum. Andlega hefði honum heldur ekki liðið illa.

Einu tilviki lýsti brotaþoli svo að hann og ákærði hefðu verið í rúmi ákærða og ömmu brotaþola. Kvaðst brotaþoli hafa farið að fróa sér. Ákærði hefði tekið þátt í því með því að segja brotaþola hvað það væri kallað sem hann væri að gera. Aðspurður kvað brotaþoli ákærða ekki hafa komið við typpi hans í þetta skipti. Er þetta atvik gerðist hefðu einhver áðurnefndra tilvika verið búin að eiga sér stað.

Öðru tilviki lýsti brotaþoli svo að hann og ákærði hefðu verið að horfa á sjónvarp. Brotaþoli hefði setið í fangi ákærða þegar ákærði hefði sett hönd ofan í nærbuxur brotaþola og káfað í kringum typpi hans. Ákærði hefði í það skipti ekki snert sjálft typpið. Bar brotaþoli að tilvik sem þetta hefðu verið fleiri og fullyrti brotaþoli að amma hans hefði verið viðstödd í einhverjum þeirra. Þá taldi brotaþoli mögulegt að bróðir hans, D, hefði einnig orðið vitni að nokkrum tilvikanna.

Spurður um tilvik það sem ákærði hefur borið um og lýst með sambærilegum hætti og fram kemur í ákærulið II svaraði brotaþoli því til að hann minntist þess tilviks ekki sérstaklega.

Aðspurður kannaðist brotaþoli við að hafa skömmu áður en kæra var lögð fram í málinu sent móður sinni SMS-skilaboð, þá staddur í prentsmiðju afa síns, þess efnis að hann vildi fara heim. Ástæðan hefði verið mikil vanlíðan, sem brotaþoli kvaðst aðspurður ekki geta skýrt. Þá staðfesti brotaþoli að hann forðaðist að fara í verslun [...] í [...] vegna nálægðar hennar við vinnustað ákærða. Brotaþoli væri hræddur um að rekast á ákærða, færi hann þangað.

Brotaþoli bar að gegnum tíðina hefði hann ekki verið mikið á heimili afa síns og ömmu. Hann hefði þó verið þar stundum um helgar og einnig þegar faðir hans dvaldist tímabundið erlendis við vinnu. Brotaþoli sagðist ekki koma á heimili afa síns og ömmu í dag. Síðast hefði hann komið þangað skömmu áður en hann greindi foreldrum sínum frá brotum ákærða.

Samband sitt við ákærða kvað brotaþoli ekki hafa verið gott. Samband brotaþola við ömmu sína sagði hann hins vegar hafa verið gott. Brotaþola hefði þótt vænt um hana þegar hann var yngri. Honum þætti hins vegar ekki vænt um ömmu sína lengur þar sem hún hefði ekki brugðist við brotum ákærða á nokkurn hátt.

Brotaþoli kvaðst hafa sagt foreldrum sínum fyrstum allra frá brotum ákærða. Brotaþoli sagði sér ekki hafa liðið vel áður en hann upplýsti þau um málið en honum hins vegar liðið betur eftir að hann greindi þeim frá.

Líðan sína í dag sagði brotaþoli vera ágæta. Aðspurður kvaðst hann hvorki stunda nám né vinnu.

D, bróðir brotaþola, kvaðst ekki hafa orðið vitni að meintum kynferðisbrotum ákærða gegn brotaþola. Fram kom hjá vitninu að fyrstu árin sem brotaþoli og vitnið hefðu gist hjá afa sínum og ömmu hefði vitnið gist eitt í herbergi en brotaþoli sofið inni hjá þeim. Á þessu hefði síðan orðið breyting fyrir um fimm árum síðan en þá hefðu þeir bræður farið að sofa saman í herbergi. Vitnið sagði sér hafa fundist skrýtið í ljósi aldurs brotaþola, og þess að til staðar voru laus herbergi í húsinu, hversu lengi brotaþoli var látinn sofa inni hjá afa sínum og ömmu.

Vitnið sagði bræðurna hafa gist talsvert hjá afa og ömmu fyrst eftir skilnað foreldra þeirra á meðan faðir þeirra var að leita sér að húsnæði. Eftir að faðir bræðranna tryggði sér húsnæði hefði tilvikunum fækkað og þeir farið óreglulega til afa og ömmu í pössun.

Atvikum kvöld það sem brotaþoli greindi fyrst frá meintum brotum ákærða lýsti vitnið svo að bræðurnir og mamma þeirra hefðu verið að spjalla á rólegum nótum þegar brotaþoli hefði farið að ræða um vanlíðan sína. Brotaþoli hefði síðan sagt að hann héldi að ákærði hefði beitt hann kynferðislegu ofbeldi. Vitninu og móður bræðranna hefði verið brugðið við þessi orð brotaþola og hefði móðir þeirra í kjölfarið hringt í föður þeirra sem komið hefði til þeirra skömmu síðar. Eftir að hann var kominn hefði brotaþoli lýst málsatvikum frekar. Brotaþoli hefði sagt að ákærði hefði snert hann kynferðislega, fróað honum „og svoleiðis“. Þetta hefði staðið yfir í nokkur ár. Brotaþoli hefði ekki verið viss um að í þeirri háttsemi ákærða hefði falist brot þar sem brotaþola hefði þótt þetta gott og hann skammast sín. Vitnið sagði sér hafa virst brotaþola vera létt eftir að hann greindi frá háttsemi ákærða, bæði fyrst á eftir og líka þegar frá leið. Svo virtist sem það hefði hjálpað brotaþola að tala um það sem gerðist.

Það eina sem vitnið kvaðst geta borið um tengt meintum brotum væri að í eitt skipti hefðu þeir bræður farið með afa sínum í sturtu. Ákærði hefði byrjað á því að þvo á þeim hárið, undir höndum og þess háttar en síðan farið á „einkasvæðið“ og þvegið með sápu á milli rasskinna, pung og typpi. Þá sagði vitnið ákærða eitt sinn hafa farið að fræða hann um kynfæri kvenna. Vitninu hefði þótt það óþægilegt. Vitnið hefði þá verið á bilinu sjö til tíu ára gamalt.

Brotaþola sagði vitnið lengi hafa verið leiðan og lokaðan. Á því hefði tekið að bera um það leyti sem foreldrar þeirra skildu og meint brot ákærða hófust. Vitnið kvaðst leggja trúnað að frásögn brotaþola. Í því sambandi vísaði vitnið til þess að hún skýrði hegðun brotaþola í kringum afa þeirra og ömmu og af hverju hann hefði ekki viljað fara heim til þeirra. Sjálft kvaðst vitnið ekki hafa komið þangað síðan mál þetta kom upp. Vitnið sagði það sína upplifun að ákærði stjórnaði öllu á heimili hans og ömmu vitnisins og hefði vitnið að tilfinningunni að hún væri hrædd við ákærða. Þá kom fram hjá vitninu að þegar það horfði til baka þá fyndist því sem að með tímanum hefði byggst upp reiði hjá brotaþola í garð ákærða. Hann hefði ekki viljað fara á heimili afa síns og ömmu og iðulega mótmælt þegar til stóð að fara þangað. Þá hefði hann verið reiður og ósáttur út í ákærða og lítið viljað vera með honum.

C, sonur ákærða og faðir brotaþola, sagðist fyrst hafa fengið vitneskju um málið þegar hann hefði verið beðinn um það af barnsmóður sinni, B, um kl. 02:00 að nóttu, að koma heim til hennar og drengjanna. Ástæðan hefði verið sögð sú að brotaþoli þyrfti að tala við þau. B hefði verið mikið niðri fyrir og því hefði vitnið gengið á hana og hún þá sagt að brotaþoli hefði upplýst hana um að hann hefði sætt kynferðisbrotum af hálfu ákærða.

Vitnið sagðist búa nærri heimili B og hefði það því verið þangað komið skömmu síðar. Brotaþoli hefði síðan, án þess að fara út í nein smáatriði, greint vitninu og móður sinni frá því að hann hefði sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Þótt brotaþoli hefði ekki lýst háttsemi ákærða nákvæmlega hefði komið fram hjá honum að ákærði hefði snert hans „prívat staði“. Vitnið hefði greint hræðslu hjá brotaþola á meðan hann sagði frá og ljóst hefði verið að honum leið mjög illa. Fram hefði komið hjá brotaþola að brot ákærða hefðu verið ítrekuð og að þau hefðu átt sér stað á nokkurra ára tímabili. Kvaðst vitnið hafa lagt trúnað á frásögn drengsins. Eftir að hafa hlýtt á brotaþola hefðu vitnið og móðir hans, að höfðu samráði við drenginn, tekið ákvörðun um að fara á fund barnaverndaryfirvalda daginn eftir og gefa skýrslu um málið. Bar vitnið að brotaþola hefði virst létt eftir að hann greindi frá og sá viðbrögð foreldra sinna við frásögn hans.

Um brotaþola bar vitnið að drengurinn hefði greinst með [...] þegar hann var lítill. Síðar hefði farið að gæta þunglyndis hjá honum sem aukist hefði eftir því sem á leið. Drengurinn hefði orðið erfiður í samskiptum og líðan hans sífellt versnað. Taldi vitnið að brotaþoli hefði verið átta eða níu ára gamall þegar andleg líðan hans tók að versna. Líðan hans hefði versnað greinilega þegar hann var í  [...] bekk grunnskóla.  Þá hefði drengurinn fengið slæmar martraðir og hefði móðir hans haft samband við sálfræðing vegna þess. Vorið [...] hefði líðan brotaþola verið orðin svo slæm að foreldrarnir hefðu verið farnir að hafa verulegar áhyggjur af því að drengurinn myndi skaða sig, jafnvel taka sitt eigið líf. Eftir að brotaþoli greindi frá brotum ákærða hefði hann verið í stöðugri meðferð í Barnahúsi sem skilað hefði miklum árangri. Hann ætti þó enn langt í land. Aðspurt kvaðst vitnið ekki vita um nein önnur áföll en brot ákærða, sem brotaþoli hefði orðið fyrir, er skýrt gætu vanlíðan drengsins.

Vitnið sagði brotaþola og bróður hans, D, hafa verið mikið á heimili foreldra vitnisins. Þau hefðu verið einu afinn og amman sem drengirnir þekktu. Nefndi vitnið sérstaklega að þegar það hefði dvalist erlendis í þrjá mánuði á árinu 2008 hefðu drengirnir verið aðra hvora helgi hjá afa sínum og ömmu.

Vitnið kvað bróður brotaþola, D, hafa kvartað yfir óeðlilegum þvotti á heimili afa síns og ömmu. Í kjölfarið hefði vitnið rætt við foreldra sína og beðið um að látið yrði af þessum þvotti þar sem drengjunum liði illa vegna hans.

Eftir að málið kom upp kvaðst vitnið hafa litið til baka og þá séð hlutina í öðru ljósi. Nefndi vitnið að brotaþoli hefði ekki viljað vera í fyrirtæki ákærða og hegðun hans breyst og hann viljað fara þegar ákærði birtist. Nefndi vitnið sérstaklega eitt tilvik af þessum toga sem átt hefði sér stað vorið 2016. Einnig hefði brotaþoli verið hættur að vilja fara heim til afa síns og ömmu án þess að gefa á því neinar skýringar. Í einhverjum tilvikum hefði honum samt sem áður verið gert að fara þangað gegn vilja sínum. Aðspurt gat vitnið ekki tímasett nákvæmlega hvenær það var sem brotaþoli hætti að vilja fara á heimili afa síns og ömmu. Samskipti við þau kvað vitnið engin hafa verið eftir að mál þetta kom upp.

B, móðir brotaþola, greindi svo frá fyrir dómi að aðfaranótt 7. júlí 2016 hefði hún verið stödd á heimili sínu og verið að spjalla við syni sína, brotaþola og D. Brotaþoli hefði þá upp úr þurru sagt að hann héldi að ákærði hefði misnotað hann kynferðislega. Brotaþoli hefði síðan leiðrétt sig og sagt: „Ég held það ekki, ég veit að hann gerði það.“ Brotaþoli hefði lýst brotunum svo að ákærði hefði verið að fitla við hann og fróa honum. Vitnið sagðist í kjölfarið hafa hringt í föður drengjanna sem komið hefði til þeirra í framhaldinu og þau síðan rætt saman við brotaþola. Aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa virst létt eftir að hann greindi frá brotum ákærða. Sagðist vitnið hafa lagt trúnað á frásögn hans. Daginn eftir hefðu vitnið og faðir drengsins farið á fund barnaverndaryfirvalda og gefið skýrslu um málið.

Vitnið sagði brotaþola hafa verið mikið á heimili ákærða og konu hans ásamt bróður sínum. Nefndi vitnið sérstaklega í því sambandi tímabil þegar faðir bræðranna var að vinna úti á landi. Um tíma hefðu þau haft drengina hjá sér aðra hvora helgi.

Vitnið sagði brotaþola ekkert hafa farið til afa síns og ömmu eftir að mál þetta kom upp. Árið þar á undan hefði brotaþoli verið lítið búinn að fara til þeirra. Hann hefði fyrir löngu verið hættur að vilja að fara til þeirra. Honum hefði þótt óþægilegt að vera á heimilinu. Taldi vitnið að þess viðhorfs brotaþola hefði farið að gæta fyrir allt að fimm árum síðan. Brotaþoli hefði þrátt fyrir það farið þangað stundum í heimsókn með föður sínum. Aðspurt kannaðist vitnið ekki við að brotaþoli og ákærði hefðu átt með sér einstakt samband, líkt og ákærði hefði lýst.

Vitnið bar um tilvik þar sem því hefðu borist SMS-skilaboð frá brotaþola, sem þá hefði verið staddur á vinnustað ákærða með föður sínum. Drengurinn hefði ólmur viljað komast heim, hann lýst vanlíðan, miklum hjartslætti og höfuðverk.

Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði verið kátur og lífsglaður drengur þegar hann var yngri. Þegar brotaþoli hefði verið í 3. bekk grunnskóla hefði það tekið að breytast og hann orðið þyngri í sinni. Eftir það hefði brotaþoli farið að einangrast í skólanum og ekki viljað taka þátt. Þá hefði hann ítrekað fengið martraðir á nokkurra mánaða tímabili. Hann hefði þá verið um níu ára gamall. Árið áður en brotaþoli greindi frá háttsemi afa síns hefði honum liðið mjög illa. Hann hefði oft fengið svimaköst, aukinn hjartslátt og fengið doða út í hendurnar. Vitnið hefði ítrekað farið með brotaþola til læknis vegna þessa. Blóð- og þvagprufur hefðu verið teknar og rannsakaðar en engar skýringar fengist á líðan drengsins. Þá hefði brotaþoli hangið heima, hann ekki viljað fara út og ekki viljað þrífa sig. Þeirra viðhorfa hefði raunar strax farið að gæta hjá brotaþola þegar hann var í sjötta eða sjöunda bekk. Vegna alls þessa hefðu foreldrar drengsins haft af honum miklar áhyggjur. Á tímabili hefði vitnið óttast að drengurinn myndi taka líf sitt og vitnið farið heim úr vinnu í nokkur skipti til að líta til með brotaþola vegna ónotatilfinningar sem tengdist þeim áhyggjum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki vita til þess að brotaþoli hefði orðið fyrir áföllum, öðrum en brotum ákærða, sem skýrt gætu niðurstöðu H sálfræðings, er greint hefði drenginn með áfallastreituröskun. Vitnið sagði brotaþola hafa unnið í sínum málum eftir að mál þetta kom upp. Það væri léttara yfir honum í dag og hann sækti meira í samskipti við vitnið og bróður sinn.

I, eiginkona ákærða, kvaðst ekki átta sig á því hvernig þetta mál væri til komið. Um algerar ranghugmyndir brotaþola væri að ræða. Frásagnir brotaþola af kynferðisbrotum ákærða gegn sér, í sumum tilvikum að vitninu viðstöddum, væru óskiljanlegt bull og kynni vitnið engar skýringar á þessum ásökunum drengsins á hendur afa sínum. Vitnið nefndi þó í því sambandi veikindi brotaþola, þunglyndi og ranghugmyndir.

Vitnið sagðist hafa passað brotaþola og bróður hans mikið í gegnum tíðina. Bæði áður en þeir byrjuðu á leikskóla og síðan fjölmargar helgar eftir það en á tímabili þegar faðir drengjanna var í leyfi frá störfum hefðu vitnið og ákærði haft drengina hjá sér á umgengnishelgum föðurins.

Vitnið kvað brotaþola lengi hafa glímt við erfiðleika. Hann hefði átt í erfiðleikum með hreyfingar og til dæmis verið mjög seinn til að hjóla. [...] hjá E lækni. Upp úr  því hefði drengurinn verið greindur með [...]. Frá þeim tíma hefði þunglyndis gætt hjá brotaþola. Skólagöngu drengsins sagði vitnið enn fremur hafa verið erfiða, einkum vegna þess hversu illa hann tæki tilsögn.

Samband ákærða og brotaþola sagði vitnið hafa verið mjög gott alla tíð. Síðustu mánuðina áður en drengurinn steig fram með ásakanir sínar á hendur ákærða hefði hins vegar orðið breyting þar á. Hann hefði þá verið farinn að vera í meðferð hjá sálfræðingum. Brotaþola kvað vitnið vera mjög leiðitaman og segði hann bara það sem hann héldi að fólk vildi heyra.

Aðspurt kannaðist vitnið við að brotþoli og bróðir hans hefðu oft verið settir í sturtu þegar þeir komu til vitnisins og ákærða. Ástæðuna sagði vitnið hafa verið þá að drengjunum hefði, hvað þrif varðaði, ekki alltaf verið nægjanlega vel sinnt og þeir því verið skítugir. Þeir hefðu þá einfaldlega verið settir í sturtu og þeim þvegið. Kannaðist vitnið við að drengirnir hefðu í tengslum við þetta kvartað yfir þvotti á milli rasskinnanna.

Vitnið sagðist ekkert samband hafa haft við brotaþola og fjölskyldu hans eftir að mál þetta kom upp. Verjandi vitnisins á fyrri stigum málsins hefði ráðlagt því að hafa ekki frumkvæði að samskiptum og fjölskylda ákærða hefði ekkert haft samband. Brotaþola sagði vitnið hafa hætt að koma á heimili þess og ákærða nokkrum mánuðum áður en kæra var lögð fram í málinu.

Þá gaf einnig skýrslu fyrir dómi, J læknir, en ekki þykir þörf á að rekja framburð hans hér sérstaklega.

D

Í málinu liggur frammi vottorð H sálfræðings frá 10. október 2017 vegna meðferðar sem hún hefur veitt brotaþola. Í ítarlegu vottorði sálfræðingsins kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi verið greindur með [...]. Brotaþoli er í vottorðinu sagður hafa verið afar samkvæmur sjálfum sér í viðtölunum þegar talið hafi borist að því kynferðisofbeldi sem hann hafi greint frá. Þar segir jafnframt að sálfræðimeðferð drengja sem sætt hafi  kynferðislegu ofbeldi reynist oft á tíðum um margt flóknari en meðferð stúlkna þar sem drengir glími oft við annars konar vandamál, einkum tengdum þeirri skömm sem felist í því að líkami þeirra bregðist á jákvæðan hátt við snertingum sem þeir hafi óbeit á og líði illa yfir. Þetta valdi oft mikilli sálarangist.

Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að erfitt sé að segja til um afleiðingar meintra brota á líðan brotaþola til framtíðar litið en að ætla megi að hann muni þurfa á áframhaldandi meðferð að halda í Barnahúsi um óákveðinn tíma. Mögulega þarfnist brotaþoli frekari sérfræðiaðstoðar síðar á lífsleiðinni.

H kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði vottorð sitt. Vitnið sagði brotaþola vera búinn að koma í yfir 50 viðtöl eftir að honum var vísað til vitnisins í kjölfar þess að mál þetta kom upp. Brotaþoli hefði verið mjög samkvæmur sjálfum sér í viðtölunum, heiðarlegur og skýr. Það sem angraði brotaþola mest og honum reyndist erfiðast að kyngja væru hin nánu tengsl hans við gerandann. Þess hefði ekki gætt hjá brotaþola að hann væri að bæta neinu við það sem gerðist eða ýkja frásögn sína. Brotaþoli hefði upplifað mikla skömm vegna þeirrar upplifunar sinnar líkamlega að það sem við hann var gert væri á einhvern hátt þægilegt. Þá hefði gætt forðunar hjá brotaþola.

Vitnið sagði ekkert annað áfall en meint brot ákærða hafa komið í ljós í viðtölunum sem skýrt gæti þá áfallastreituröskun sem brotaþoli hefði verið greindur með. Sagði vitnið „... voðalega erfitt að tengja þessa miklu vanlíðan og þessa áfallastreituröskun eða einkenni við neitt annað en það sem hann er að segja frá.“ Vitnið sagði líðan brotaþola hafa batnað og því sjái mögulega fyrir endann á viðtölunum. Honum yrði þó fylgt eftir í það minnsta fram að næstu áramótum.

Meðal gagna málsins er einnig greinargerð Dr. G sálfræðings frá 12. ágúst 2016. Var sálfræðingurinn með brotaþola í viðtölum á tímabilinu mars til júní 2016. Samandregið segir í vottorðinu að brotaþoli gími við greinilegan og margþættan vanda. Auk fyrri greininga á [...] sýni niðurstöður athugunar vottorðsgjafa þunglyndi og mjög slakan málþroska. Ljóst sé að innra með brotaþola búi mikil vanlíðan og þrátt fyrir að hann hafi verið á geðdeyfðarlyfjum þegar hann fyllti út þunglyndiskvarða BYI hafi niðurstöðurnar verið einu og hálfu staðalfráviki fyrir ofan meðaltal jafnaldra drengja.

G kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði greinargerð sína. Aðspurt sagði vitnið mögulegt að viðtöl þess við brotaþola á tímabilinu mars til júní 2016 hefðu hreyft þannig við brotaþola að hann hefði ákveðið að upplýsa um meint kynferðisbrot afa síns í júlí sama ár. Tók vitnið fram að brotaþoli hefði neitað því í þeim viðtölum sem það hefði átt við drenginn að hann hefði orðið fyrir einhverjum áföllum.

Í málinu liggur einnig frammi vottorð E læknis, dagsett 27. júlí 2016. Þar kemur fram að læknirinn hafi hitt brotaþola allnokkrum sinnum frá árinu 2006 en það ár hafi hann greint brotaþola með [...]. Brotaþoli hafi þá einnig átt við [...] að stríða og átt erfitt uppdráttar í skóla með einbeitingu og athygli. Vottorðsgjafi hafi eftir 2006 séð brotaþola óreglulega, aðallega vegna [...]. Brotaþoli hafi verið á lyfjameðferð [...] sem dregið hafi nokkuð úr einkennum og líðan hans orðið betri. Síðastliðið ár eða svo hafi brotaþoli einnig hitt G sálfræðing, sem orðið hafi að liði.

E kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði vottorð sitt.

Þá liggur og frammi í málinu vottorð F sálfræðings. Í vottorðinu kemur fram að 2008 hafi brotaþola verið vísað til sálfræðingsins af heimilislækni vegna hegðunarvanda, erfiðleika varðandi félagslega aðlögun og andlegrar vanlíðunar. Haustið 2008 hafi brotaþoli komið í tvö viðtöl til sálfræðingsins sem í kjölfarið hafi mælt með frekari greiningu á vanda drengsins hjá skólasálfræðingi og Miðstöð heilsuverndar barna (nú Þroska- og hegðunarstöð). Í desember 2009 hafi móðir brotaþola hringt í vottorðsgjafa vegna slæmra martraða sem drengurinn hefði fengið.

Haustið 2012 hafi brotaþoli komið í tvö viðtöl til sálfræðingsins. Líðan hans hafi þá verið búin að versna töluvert. Brotaþoli hafi verið dapur, félagslega einangraður, ekki fengist til að taka þátt í skólanum [...]. Vottorðsgjafi hafi talið vanlíðan drengsins uppfylla greiningarmerki fyrir þunglyndi og hún vísað málinu áfram til heimilislæknis. Brotaþoli hafi enn komið til viðtals í febrúar 2013 og líðan hans þá verið betri.

F kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði vottorð sitt.

E

Ákæruliður II:

Í öðrum lið ákæru er ákærða gefið að sök kynferðisbrot gegn brotaþola á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir, með því að hafa nýtt sér yfirburði sína gagnvart drengnum og traust hans og trúnað til hans sem afa, með því að hafa í eitt skipti, er ákærði lá í sama rúmi og brotaþoli, lyft sænginni og sagt við drenginn að limur hans væri „rosalega stór“ og spurt hvort hann mætti finna hvað hann væri „harður“ og snert kynfæri drengsins.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi lýsti hann hins vegar atviki sem samrýmist vel háttsemislýsingu ákæruliðar II. Þannig bar ákærði að hann og brotaþoli hefðu verið saman í tvíbreiðu rúmi í herbergi í kjallara húss ákærða og konu hans. Ákærði hefði veitt því athygli að brotaþoli var byrjaður að fróa sér og fljótlega ákveðið „að blanda sér í þetta“. Ákærði kvaðst hafa rætt við brotaþola og spurt hann: „Ertu að runka þér?“ Ákærði hefði síðan lyft sænginni og sagt: „Mikið svakalega er hann stór.“ Því næst hefði ákærði tekið utan um typpið á drengnum með tveimur fingrum og bætt við: „Og harður.“ Ákærði sagðist í framhaldinu hafa rætt við brotaþola fram og til baka og lagt á það áherslu að ekkert væri óeðlilegt við það að fróa sér, það gerðu allir, en að þeir gerðu það í einrúmi. Þessi samskipti sem þarna hefðu átt sér stað, á milli mjög sérstaks drengs og afa hans, sagði ákærði hafa verið fullkomlega eðlileg.

Fyrir dómi bar brotaþoli að ákærði hefði ítrekað brotið gegn honum kynferðislega er hann var um það bil 10-12 ára gamall. Samkvæmt framburði brotaþola fyrir lögreglu taldi drengurinn mögulegt að brotin hefðu hafist þegar hann var 9 ára gamall. Spurður fyrir dómi út í atvik það sem ákæruliður II tekur til kvaðst brotaþoli ekki minnast þess sérstaklega. Allt að einu þykir mega leggja tilvitnaða frásögn ákærða sjálfs af atvikinu til grundvallar við úrslausn málsins, enda verður framburður brotaþola alls ekki skilinn svo að hann hafni því að atvikið hafi gerst.

Samkvæmt 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. 202. gr. fangelsi allt að sex árum. Dómurinn telur að tilvitnuð ummæli ákærða og þá eftirfarandi háttsemi hans að snerta reistan lim barnungs brotaþola verði í ljósi aðstæðna að telja kynferðislega áreitni í skilningi 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði verður því sakfelldur fyrir að hafa með þeirri háttsemi sem hann hefur gengist við samkvæmt framansögðu brotið gegn tilvitnuðu ákvæði almennra hegningarlaga, sbr. ákærulið II.

Ákæruliðir I og III:

Í fyrsta lið ákæru eru ákærða gefin að sök kynferðisbrot gegn brotaþola, á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir, með því að hafa nýtt sér yfirburði sína gagnvart drengnum og traust hans og trúnað til hans sem afa, með því að hafa hafa í fjölda skipta haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola með því að snerta kynfæri drengsins og fróa honum.

Ákærði neitar sök. Framburður hans fyrir dómi er rakinn í kafla B hér að framan. Ákærði hefur borið að enginn fótur sé fyrir þeim ásökunum brotaþola sem lýst er í ákæruliðum I og III.

Sakargiftir í málinu samkvæmt ákæru eru reistar á framburði brotaþola. Fyrir dómi lýsti brotaþoli atvikum svo að ákærði hefði ítrekað, þegar brotaþoli var um það bil 10-12 ára gamall, farið með hann í svefnherbergi sitt og ömmu brotaþola, tekið með hendinni um typpi brotaþola og fróað honum. Þetta hefði gerst í nokkur skipti að kvöldi til. Stundum hefðu þeir bara verið tveir í herberginu en stundum hefði amma brotaþola verið í dyragættinni. Í fyrstu tvö skiptin hefði ákærði tekið buxurnar niður um brotaþola en í síðari skiptin hefði brotaþoli gert það sjálfur. Spurður um hversu oft þetta hefði átt sér stað svaraði brotaþoli því til að þetta hefði gerst í sjö til níu skipti. Minntist brotaþoli þess ekki að hafa fengið sáðlát.

I, amma brotaþola og eiginkona ákærða, hefur alfarið hafnað því að hún hafi orðið vitni að einhverjum þeirra meintu brota ákærða sem brotaþoli hefur borið um samkvæmt framansögðu. Eins og málið liggur fyrir verður við mat á framburði hennar ekki framhjá því litið að hún er eiginkona ákærða og hefur búið með honum í áratugi og gerir enn, sbr. 126. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Framburði brotaþola verður að því gættu ekki vísað á bug af þeirri ástæðu einni að hann samrýmist ekki vætti I.

Í málinu hefur ekkert komið fram um það að brotaþoli hafi af annarri ástæðu en vegna meintra brota borið þungan hug til ákærða. Þannig liggur ekkert fyrir um að brotaþoli hafi sett fram ásakanir sínar á hendur ákærða í kjölfar þá nýliðinna ótengdra atvika. Þvert á móti er upplýst með framburði bróður og móður brotaþola að þau þrjú voru að tala saman á rólegum nótum þegar brotaþoli upplýsti um meint brot ákærða gegn honum. Þá bar bróðir brotaþola að sú frásögn brotaþola hefði komið í kjölfar þess að hann tók að ræða líðan sína.

Bróðir brotaþola bar fyrir dómi um þvott ákærða á kynfærum þeirra bræðra og rassi sem olli honum vanlíðan. Er upplýst í málinu að faðir drengjanna ræddi við foreldra sína vegna þessa og var í kjölfarið látið af þvottinum. Enn fremur liggur fyrir í málinu með framburði bróður brotaþola og ákærða, bæði fyrir dómi og fyrir lögreglu, að ákærði ákvað að eigin frumkvæði og án þess að vera um það beðinn af foreldrum drengsins, að sýna honum ljósmyndir af kynfærum kvenna og ræða við hann kynferðisleg málefni. Að þessu gættu og einnig með vísan til sakfellingar ákærða samkvæmt ákærulið II þykir dómnum mega slá því föstu að ákærði hafi í nokkrum tilvikum komið fram við brotaþola og bróður hans á óviðeigandi hátt, bæði með gerðum sínum en einnig með því að ræða við þá um hluti sem ekki samrýmdust aldri drengjanna og tengslum þeirra við ákærða sem afa. Þykir dómnum þetta vera til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar ákærða í málinu. Að sama skapi er þetta framburði brotaþola til nokkurs stuðnings.

Af hálfu ákærða hefur verið til þess vísað að framburður brotaþola í málinu sé um margt óljós og á reiki. Hvað þetta varðar er til þess að líta að atvik þau sem hér um ræðir áttu sér stað fyrir um fimm til átta árum síðan, sem eitt og sér getur skýrt það að brotaþoli muni þau ekki fyllilega. Þá var brotaþoli einungis 9-12 ára gamall á umræddum tíma. Að mati dómsins dregur það því ekki úr trúverðugleika framburðar brotaþola að hann hafi ekki getað greint nákvæmlega frá öllum atvikum málsins.

Bæði ákærði og eiginkona hans lýstu þeirri skoðun sinni fyrir dómi að skýringa á ásökunum brotaþola væri að leita í andlegu heilsufari hans. Að mati dómsins fá þær hugleiðingar hvorki stoð í sérfræðigögnum, sem frammi liggja í málinu og reifuð eru í kafla D hér að framan, né heldur í framburði þeirra sérfræðinga sem gögnin unnu. Þvert á móti kemur fram í vottorði H sálfræðings, sem greindi brotaþola með áfallastreituröskun, að brotaþoli hafi verið afar samkvæmur sjálfum sér í viðtölum þegar talið hafi borist að því kynferðisofbeldi sem hann hefði greint frá. Við skýrslugjöf fyrir dómi áréttaði sálfræðingurinn þessa niðurstöðu sína og kvað hún brotaþola jafnframt hafa verið heiðarlegan og skýran í viðtölunum. Þá sagði hún þess ekki hafa gætt hjá brotaþola að hann væri að bæta neinu við það sem gerðist eða ýkja frásögn sína. Enn fremur bar sálfræðingurinn að ekkert annað áfall en meint brot ákærða hefði komið í ljós í viðtölunum sem skýrt gæti áfallastreituröskun brotaþola. Sagði hún „... voðalega erfitt að tengja þessa miklu vanlíðan og þessa áfallastreituröskun eða einkenni við neitt annað en það sem hann er að segja frá.“ Samkvæmt öllu þessu verður það sem fyrir liggur um andlegt heilsufar brotaþola ekki talið vera til þess fallið að draga úr sönnunargildi framburðar hans. Er tilvitnað vottorð H sálfræðings og vætti hennar fyrir dómi þvert á móti framburði brotaþola til stuðnings.

Í framburði H sálfræðings kom einnig fram að forðunar hefði gætt hjá brotaþola gagnvart ákærða í þeim viðtölum sem hún hefði átt við drenginn. Er sú niðurstaða í samræmi við framburð foreldra brotaþola og bróður hans sem öll báru fyrir dómi að brotþoli hefði talsvert löngu áður en hann setti fram ásakanir sínar á hendur ákærða verið hættur að vilja fara heim til afa síns og ömmu, án þess að gefa á því skýringar. Þá lýstu bæði faðir og móðir brotaþola atviki sem átti sér stað nokkru áður en brotaþoli greindi frá meintum brotum ákærða þar sem brotaþoli sendi móður sinni SMS-skeyti og vildi ólmur komast af vinnustað afa síns vegna vanlíðanar. Enn fremur liggur fyrir í málinu framburður foreldra brotaþola og gögn er frá sálfræðingum stafa, sem og framburður sálfræðinganna fyrir dómi, er eindregið benda til þess að andleg líðan brotaþola hafi versnað umtalsvert þegar hann var 9-10 ára gamall án þess að á þeim tíma fyndust á því haldbærar skýringar þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan. Þá er upplýst að brotaþoli fékk á þeim tíma ítrekað martraðir. Að mati dómsins verður að telja öll þessi atriði að sínu leyti vera til stuðnings framburði brotaþola um að á þessu tímabili hafi hann sætt kynferðisbrotum af hálfu ákærða.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins meta verði framburð brotaþola í málinu trúverðugan. Að sama skapi þykja þau atriði sem rakin hafa verið draga úr trúverðugleika framburðar ákærða. Samkvæmt því og þegar allt það sem að framan er rakið er virt heildstætt þykir dómnum mega leggja hinn trúverðuga framburð brotaþola til grundvallar við úrlausn málsins.

Með vísan til framburðar brotaþola þykir ekki óvarlegt að slá því föstu að fjöldi þeirra tilvika sem ákærði hafði önnur kynferðismök en samræði við brotaþola með því að snerta kynfæri drengsins og fróa honum hafi verið að minnsta kosti sjö. Samkvæmt því og með vísan til framburðar brotaþola að öðru leyti og því sem honum er til stuðnings samkvæmt áðursögðu þykir sannað gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi í að minnsta kosti sjö skipti á heimili sínu að [...] í [...], haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola með því að snerta kynfæri drengsins og fróa honum, sbr. ákærulið nr. I, og er sú háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Með sömu rökum og að framan greinir verður framburður brotaþola jafnframt lagður til grundvallar hvað sakargiftir samkvæmt ákærulið III varðar. Í þeim ákærulið eru ákærða gefin að sök kynferðisbrot gegn brotaþola, á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir, með því að hafa nýtt sér yfirburði sína gagnvart drengnum og traust hans og trúnað til hans sem afa, með því að hafa hafa í fjölda skipta þuklað í kringum kynfæri brotaþola innanklæða. Svo sem rakið er í kafla C hér að framan bar brotaþoli um þá háttsemi ákærða fyrir dómi að ákærði hefði ítrekað sett hönd ofan í nærbuxur hans og káfað í kringum typpi hans. Með vísan til framburðar brotaþola og þess sem honum er til stuðnings samkvæmt áðursögðu þykir því sannað gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið III og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

F

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing.

Við ákvörðun refsingar ákærða er til þess að líta að brotaþoli var á aldrinum níu til tólf ára gamall er ákærði braut gegn honum. Brot ákærða voru alvarleg og voru framin á nokkurra ára tímabili. Þá nýtti ákærði sér þá yfirburðastöðu sem hann hafði gagnvart barnungum sonarsyni sínum. Skal litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar ákærða, sbr. 1., 2., 6. og 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að háttsemi ákærða varði við 1. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða varða fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 16 árum. Að því gættu og með vísan til þess sem að framan er rakið þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

G

Í málinu krefst brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. júlí 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi er liðinn var mánuður frá birtingu bótakrakröfunnar til greiðsludags. Brotaþoli krefst einnig málskostnaðar úr hendi ákærða.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi ítrekað brotið gegn brotaþola svo varði við 1. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinni refsiverðu háttsemi hefur ákærði bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir og við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og umfangs tjónsins. Í dómaframkvæmd hefur því verið slegið föstu að brot af því tagi sem hér um ræðir séu almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum. Þá voru þau fjölskyldu­tengsl sem á milli ákærða og brotaþola eru til þess fallin að auka á miska hans. Við mat á miskabótum til handa brotaþola þykir enn fremur mega líta til vottorðs H sálfræðings frá 10. október 2017, en efni vottorðsins er reifað í kafla D hér að framan. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi verið greindur með áfallastreituröskun. Þunglyndis og kvíðaeinkenni hafi jafnframt mælst yfir klínískum mörkum hjá honum. Erfitt sé að segja til um afleiðingar brotanna á líðan brotaþola til framtíðar litið en að ætla megi að hann muni þurfa á áframhaldandi meðferð að halda um óákveðinn tíma. Mögulega þarfnist brotaþoli frekari sérfræðiaðstoðar síðar á lífsleiðinni. Þá kom fram hjá sálfræðingnum fyrir dómi að ekkert annað áfall en brot ákærða hefði komið í ljós í viðtölum sálfræðingsins við brotaþola sem skýrt gæti þá áfallastreituröskun sem hann hefði greinst með.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykja miskabætur til handa brotaþola réttilega ákvarðaðar 1.700.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir en af gögnum málsins verður ráðið að krafan hafi fyrst verið birt ákærða við birtingu fyrirkalls 22. janúar sl.

Við þingfestingu málsins var Jóhanna Sigurjónsdóttir lögmaður skipuð réttargæslumaður brotaþola í málinu. Af þeim sökum eru ekki lagaskilyrði til þess að dæma brotaþola málskostnað úr hendi ákærða, sbr. ákvæði 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, heldur verður réttargæslumanni ákveðin þóknun samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. sömu laga.

H

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti héraðssaksóknara, dagsettu 14. desember 2017, 105.000 krónur. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar lögmanns, þóknun skipaðs verjanda á fyrri stigum málsins, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, en þóknun verjenda og réttargæslu­manns þykir að umfangi málsins virtu hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákærði greiði 4.089.120 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar lögmanns, 1.538.840 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, þóknun skipaðs verjanda á fyrri stigum málsins, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 463.760 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, 1.981.520 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði greiði brotaþola, A, 1.700.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. janúar 2014 til 22. febrúar 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Kristinn Halldórsson