• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Flýtimeðferð
  • Gjafsókn
  • Gjaldtaka
  • Miskabætur
  • Stjórnarskrá
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsákvörðun

 

                                         D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2015 í máli nr. E-327/2015:

                                               Snædís Rán Hjartardóttir

                                               (Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

                                               aðallega gegn

                                               Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

                                               og

                                               íslenska ríkinu

                                               (Óskar Thorarensen hrl.)

                                               en til vara gegn

                                               Reykjavíkurborg

                                               (Ebba Schram hdl.)

                                                                     I

       Mál þetta, sem var dómtekið 8. júní sl., er höfðað 28. janúar 2015, af Snædísi Rán Hjartardóttur, Háaleitisbraut 129 í Reykjavík, aðallega gegn Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Grensásvegi 9 í Reykjavík, og íslenska ríkinu, Arnarhvoli í Reykjavík, en til vara gegn Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11 í Reykjavík.

       Dómkröfur stefnanda á hendur aðalstefndu, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkinu, eru eftirfarandi:

       1.    Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði að stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hafi verið óheimilt, á grundvelli 4. gr. reglugerðar nr. 884/2004 og 2. gr. gjaldskrár nr. 444/2013, að synja stefnanda um veitingu endurgjaldslausrar túlkaþjónustu frá 7. október 2014.

       2.    Stefnandi krefst þess til vara að stjórnvaldsákvarðanir stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, 23. október 2014 og 10. nóvember 2014 um að synja stefnanda um túlkaþjónustu verði dæmdar ólögmætar.

       3.    Samhliða kröfum 1 og 2 krefst stefnandi þess að stefndu, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkið, verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt (in solidum) 1.050.670 kr. ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 40.536 kr. frá 19. nóvember 2014 til 23. nóvember 2014, en af 50.670 kr. frá þeim degi til þingfestingardags, en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.050.670 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

       Verði ekki fallist á dómkröfur stefnanda á hendur aðalstefndu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur á hendur varastefnda Reykjavíkurborg:

       4.    Stefnandi krefst þess að stjórnvaldsákvörðun Reykjavíkurborgar 9. desember 2014 um að synja stefnanda um túlkaþjónustu verði dæmd ólögmæt.

       5.    Samhliða dómkröfu 4 krefst stefnandi þess að stefnda Reykjavíkurborg verði dæmd til þess að greiða stefnanda 1.050.670 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi.

       Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess einnig að stefndu greiði stefnanda sameiginlega (in solidum) málskostnað að skaðlausu, að teknu tilliti til úrslita málsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Við matið verði jafnframt tekið mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

       Aðalstefndu krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og að hún verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist af hálfu aðalstefndu að krafa stefnanda verði lækkuð og að málskostnaður verði felldur niður.

       Varastefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að mati dómsins.

       Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

                                                                     II

       Stefnandi er á tuttugasta aldursári og er með arfgengan taugahrörnunarsjúkdóm. Sjúkdómurinn gerði fyrst vart við sig þegar stefnandi var á fimmta aldursári með því að heyrn hennar skertist. Sjúkdómurinn ágerðist og svo fór að stefnandi missti heyrn og lærði í kjölfarið táknmál. Því næst fór að bera á skertu jafnvægi og sjónmissi sem leiddi til lögblindu. Jafnvægi stefnanda hélt áfram að skerðast og hefur stefnandi notað hjólastól frá 12 ára aldri. Stefnandi hefur örlítinn mátt í fótum en engan í höndum. Hún getur talað með eigin rödd en getur ekki notað hendur til þess að tala táknmál. Vegna heyrnarskerðingarinnar getur stefnandi ekki skilið talmál. Stefnandi er því háð því að eiga samskipti með snertitáknmáli sem byggist á táknmáli heyrnarlausra.

       Fram kemur í stefnu að með erfðarannsókn hafi tekist að greina þann erfðagalla sem hrjái stefnanda. Tengist hann upptöku á B-2 vítamíni. Í stefnu kemur fram að með risavöxnum dagskammti af efninu á hverjum degi virðist hafa tekist að stöðva hrörnunina. Líkamlegt ástand stefnanda sé hins vegar óbreytt.

       Vegna sjúkdóms stefnanda kveðst hún að öllu leyti vera háð aðstoð túlks í daglegu lífi og starfi. Án túlks sé henni ómögulegt að eiga samskipti við annað fólk, tjá sig og skilja það sem fram fari í kringum hana. Stefnandi hafi lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og hafi fengið túlkaþjónustu á skólatíma á grundvelli 19. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80/1996. Sú þjónusta hafi hins vegar verið bundin við formlegar kennslustundir og hafi ekki fengist í frímínútum og matartímum. Eins fái stefnandi túlk innan heilbrigðisþjónustunnar á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

       Stefndi, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, er ríkisstofnun sem starfar á grundvelli laga nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að annast táknmálstúlkun, eins og fram kemur í c-lið 2. gr. laganna. Um skipan þjónustunnar skal ráðherra setja reglugerð, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Á þessum grunni hefur verið sett reglugerð nr. 1058/2003, sbr. reglugerð nr. 884/2004. Þá segir í 6. gr. laganna að ráðherra geti, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir.

       Stefnandi kveðst nýta sér þjónustu stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hún tekur þó fram að þá þjónustu þurfi að panta með fyrirvara og það geti komið fyrir að hún fái ekki túlk til að aðstoða sig. Fyrir vikið eigi hún erfitt með að taka þátt í félagslífi, tómstundum og jafnvel réttindabaráttu, en stefnandi sitji í stjórn Fjólu, sem er félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þá komi fyrir að stofnunin synji um endurgjaldslausa túlkaþjónustu þar sem hún hafi ekki fjármagn til að sinna henni. Í þeim tilvikum sé þjónusta veitt gegn gjaldi. Þetta valdi því að stefnandi þurfi í hvert skipti að vega og meta þörf sína fyrir þjónustu, enda um afar takmörkuð gæði að ræða. Segir stefnandi að leyfi hún sér að hafa túlk með sér til liðsinnis utan skóla og heilbrigðisþjónustu vofi alltaf sú hætta yfir að næst verði sjóðurinn tómur.

       Stefnandi óskaði eftir því við stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, að hún fengi túlkaþjónustu á stjórnarfundi í Fjólu sem halda skyldi 6. nóvember 2014. Með bréfi 23. október 2014 var beiðninni svarað á þá leið að framlag mennta- og menningarmálaráðherra, sem ætlað væri til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu á árinu 2014, svokallaður Þorgerðarsjóður, væri uppurinn og yrði ekki mætt með auknu fjárframlagi samkvæmt ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins 29. september 2014. Því væri stofnuninni ekki heimilt að veita túlkaþjónustu nema gegn gjaldi, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 884/2004, samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Stefnandi greiddi fyrir þjónustuna og nam kostnaðurinn 40.536 krónum.

       Stefnandi óskaði jafnframt eftir endurgjaldslausri túlkaþjónustu fyrir fund hjá nemendafélagi Menntaskólans við Hamrahlíð sem haldinn var 10. nóvember 2014. Með bréfi sama dag var erindinu svarað á sama veg og fyrra erindi stefnanda. Stefnda greiddi sjálf fyrir túlkaþjónustu í umrætt sinn, 10.134 krónur.

       Fyrir liggur að á fjárlögum ársins 2014 var 18,6 milljónum króna ráðstafað í endurgjaldslausa túlkaþjónustu í daglegu lífi. Á fjáraukalögum fyrir það ár var aukafjárveitingu veitt í þá þjónustu sem nam 4,5 milljónum króna.

       Með bréfi 28. nóvember 2014 fór lögmaður stefnanda fram á það að Reykjavíkurborg tryggði stefnanda aðstoð túlks í 120 klukkustundir í hverjum mánuði, utan þeirrar aðstoðar sem hún fengi í skóla og á sjúkrahúsum á grundvelli sérlaga. Til stuðnings beiðninni, sem var ítarlega rökstudd, var meðal annars vísað til laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, og laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, auk 76. gr. stjórnarskrárinnar og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með bréfi lögfræðings velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 9. desember 2014, var erindinu svarað á þá leið að samkvæmt lögum nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra væri það óskoruð skylda íslenska ríkisins að veita túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa. Því væri Reykjavíkurborg ekki réttur aðili til að veita slíka aðstoð og var erindinu því hafnað.

       Stefnandi gerði samning við velferðarsvið Reykjavíkurborgar 15. maí 2013 um notendastýrða persónulega aðstoð. Mun samningurinn hafa verið gerður á grundvelli tímabundins tilraunaverkefnis um innleiðingu slíkrar þjónustu, en verkefnið er reist á IV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Samningurinn var tímabundinn og átti að gilda til 31. desember 2014, en var framlengdur til 1. mars sama ár með möguleika á áframhaldandi framlengingu til ársloka 2015. Í meginatriðum felur samningurinn í sér að stefnandi felur umsýsluaðila að ráða starfsfólk með samþykki stefnanda sem er ætlað að veita henni þjónustu í samræmi við starfslýsingu sem hún semur sjálf. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar greiðir stefnanda mánaðarlegar greiðslur sem er ætlað að standa undir kostnaði stefnanda af 731 vinnustund á mánuði. Samkvæmt reglum sem varastefndi hefur sett um samninga um notendastýrða aðstoð er eftirtalin þjónusta hluti af samningnum: a) félagsleg heimaþjónusta, b) liðveisla, c) frekari liðveisla og d) ferðaþjónusta, nema þegar notandi getur ekki nýtt sér almenningssamgöngur með aðstoðarmanni.

 

                                                                  III

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

       Stefnandi kveðst byggja á því að stefndu veiti henni ekki þá þjónustu sem hún þurfi á að halda til þess að lifa eðlilegu lífi. Réttur hennar til aðstoðar túlks hafi úrslitaáhrif á það hvort hún geti tjáð sig og tekið virkan þátt í lífi og starfi til jafns við aðra. Stefnda, íslenska ríkinu, beri fyrst og fremst skylda til þess að tryggja borgurum sínum aðstoð vegna sjúkleika og örorku samkvæmt tvenns konar réttarheimildum, annars vegar stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og hins vegar alþjóðasáttmálum sem Ísland er aðili að. Stefndi, íslenska ríkið, eigi mat um það hvernig skyldan sé útfærð með almennum lögum og reglugerðum sem settar séu með stoð í þeim.

       Stefnandi kveðst aðallega byggja á því að almenn lög færi skyldu til að veita henni aðstoð táknmálstúlks í hendur stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Verði ekki á það fallist að stefndu, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkinu, beri að sinna þjónustu sem stefnandi eigi tilkall til samkvæmt stjórnarskrá er það niðurstaða stefnanda að stefnda Reykjavíkurborg hafi verið falið að sinna henni samkvæmt almennum lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992.

       Stefnandi vísar framangreindu til stuðnings til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segi að öllum sem þess þurfi skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Með hugtökunum sjúkleika, örorku og sambærilegum atvikum sé meðal annars átt við líkamlega fötlun. Samkvæmt framangreindu ber íslenska ríkið jákvæðar skyldur til að tryggja fötluðum aðstoð með því að mæla fyrir um opinbera fjárhagsaðstoð ríkis og sveitarfélaga til þeirra sem þess þurfi. Stefnandi vísar jafnframt til 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fram komi að hver maður eigi rétt á því að láta í ljós hugsanir sínar, en tjáningarfrelsið sé að engu hafandi fyrir þá sem ekki geti tjáð sig án aðkomu túlks. Þá vísar stefnandi til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. hennar. Telur stefnandi að ákvæðið hafi meðal annars þýðingu við skýringu laga. Ef aðilum er mismunað verði það að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og allar takmarkanir á mannréttindum verði að túlka þröngt. Í tilviki stefnanda sé unnið með mjög mikilvæg mannréttindi hennar, þ.e. réttinn til þess að eiga samskipti við annað fólk, þar með talið til að sinna hagsmunabaráttu og stunda félagslíf og tómstundir til jafns við aðra.

       Stefnandi telur að þegar komi að því að túlka lagaákvæði sem byggjast á þessum sjónarmiðum verði að velja þann skýringarkost sem best samrýmist tilgangi löggjafarinnar í heild sinni, eðlilegri framkvæmd og þeim markmiðum sem löggjöfinni sé ætlað að ná, að því gættu að slík túlkun falli að orðalagi ákvæðisins.

       Stefnandi telur einnig að skýra beri þau lög sem við eiga til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem hafi verið undirritaður fyrir Íslands hönd 30. mars 2007 og sé í fullgildingarferli þegar mál þetta er höfðað. Í samræmi við þá skuldbindingu hafi verið lögfest túlkunarregla í 2. mgr. 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992. Þar komi fram að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

       Stefnandi vísar til þess að í 9. gr. SRFF komi fram að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Ráðstafanirnar skuli meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefti aðgengi, og eigi meðal annars að ná til upplýsinga- og samskiptaþjónustu, rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu. Þá segi einnig í 9. gr. að samningsaðilar skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess að láta í té ýmiss konar beina aðstoð og þjónustu milliliða, þar með talið fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem almenningi er opin. Stefnandi vísar einnig til 21. gr. samningsins þar sem samningsaðilar skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þar með talið frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali. Ráðstafanirnar feli meðal annars í sér að viðurkenna og auðvelda fötluðu fólki notkun táknmáls, óhefðbundinna tjáskiptaleiða og allra annarra tjáskiptaleiða sem mögulegar séu og fatlað fólk kjósi að nota í opinberum samskiptum.

       Af hálfu stefnanda er jafnframt vísað til þess að íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til þess að vernda friðhelgi einkalífs borgara sinna, jafnræði, tjáningarfrelsi, funda- og félagafrelsi og leggja bann við mismunun með undirritun, fullgildingu og lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefnandi vísar einnig um skyldur stefnda íslenska ríkisins til 1., 2., 7., 19. og 1. mgr. 27. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, 2., 17., 18., 2. mgr. 19., 26. og 27. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 2. og 15. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og inngangsorð félagssáttmála Evrópu.

       Af ákvæðum framangreindra samninga, yfirlýsinga og sáttmála telur stefnandi ljóst að stefndi, íslenska ríkið, hafi skuldbundið sig til þess að tryggja stefnanda rétt til þjónustu sem geri henni kleift að taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum til jafns við aðra, að eigin vali. Eini möguleikinn í þessu skyni sé að tryggja stefnanda þjónustu túlks í daglegu lífi hennar, einnig utan skóla og sjúkrahúsa.

       Stefnandi reisir kröfur sína á hendur aðalstefndu í kröfuliðum 1 til 3 á því að lög nr. 129/1990, og reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í þeim, feli í sér jákvæða skyldu fyrir aðalstefndu til að sinna túlkaþjónustu við stefnanda. Um þetta vísar stefnandi einnig til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 61/2011, þar sem fram komi að stjórnvöld skuli hlúa að íslensku táknmáli og styðja það, þar sem það sé fyrsta mál þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Í 13. gr. sömu laga komi einnig fram að ríkið skuli tryggja að allir þeir sem þess þurfi skuli eiga kost á þjónustu á íslensku táknmáli. Bendir stefnandi á að samkvæmt c-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1990 sé það hlutverk stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra, að annast táknmálstúlkun, en um skipan þjónustunnar skuli kveðið á í reglugerð eftir 2. mgr. 2. gr. laganna. Í frumvarpi til laganna sé ákvæðið skýrt með þeim hætti að stofnuninni sé ætlað að „...annast túlkaþjónustu“. Í 6. gr. laganna komi síðan fram að ráðherra geti, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þjónustu sem hún veiti.

       Stefnandi byggir á því að ákvæði þessi verði að lesa í samhengi við þær jákvæðu skyldur sem hvíli á stefnda íslenska ríkinu samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps er varð að lögunum sé þá einu skýringu að finna að eðlilegt þyki að taka megi gjald fyrir þjónustu veitta „öðrum aðilum en heyrnarlausum og heyrnarskertum“. Af þessu megi álykta að þjónusta við heyrnarlausa og heyrnarskerta skuli vera gjaldfrjáls.

       Stefnandi bendir á að stjórnvaldsákvarðanir stefndu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem dómkröfur stefnanda í lið  REF _Ref280294380 \r \h  \* MERGEFORMAT 0 08D0C9EA79F9BACE118C8200AA004BA90B02000000080000000E0000005F005200650066003200380030003200390034003300380030000000 og  REF _Ref280352164 \r \h  \* MERGEFORMAT 0 08D0C9EA79F9BACE118C8200AA004BA90B02000000080000000E0000005F005200650066003200380030003300350032003100360034000000 taki til, byggi á því að stofnuninni sé ekki heimilt að veita túlkaþjónustu nema gegn gjaldi þar sem framlag, sem ætlað hafi verið til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu árið 2014, sé uppurið. Um þetta sé vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 1058/2003, eins og henni hafi verið breytt með reglugerð nr. 884/2004, þar sem segi að verkefni stofnunarinnar séu að „veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust skv. nánari ákvæðum í gjaldskrá“. Í 2. gr. gjaldskrár fyrir stofnunina nr. 444/2004 komi síðan fram að heimilt sé „að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs [...] á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert“.

       Stefnandi telur að þessi ákvæði verði ekki skýrð með þeim hætti sem hinar umdeildu ákvarðanir byggi á. Í fyrsta lagi sé ekkert í orðalagi þeirra sem bendi til þess að fjárskortur skuli koma í veg fyrir endurgjaldslausa þjónustu. Í öðru lagi sé fjárskortur ekki lögmæt ástæða til að stjórnvald víki sér undan skyldum sem hvíli á því samkvæmt lögum og stjórnarskrá. Önnur niðurstaða fæli óhjákvæmilega í sér að ákvæðin gengju lengra við skerðingu þeirra réttinda sem stefnandi njóti samkvæmt stjórnarskrá, alþjóðasáttmálum, 2. gr. laga nr. 129/1990 og 13. gr. laga nr. 61/2011. Verði ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 1058/2003 og 2. gr. gjaldskrár nr. 444/2004 túlkuð á þann veg að stefndi, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, geti hverju sinni tekið ákvörðun um hvort heyrnarlausir og heyrnarskertir fái þjónustu túlks, með vísan til stöðu sjóðsins, sem sé á forræði stefnda, íslenska ríkisins, að fjármagna, telur stefnandi að ákvæðin gangi beinlínis gegn skýrum ákvæðum og markmiðum laga nr. 129/1990 og 61/2011. Jafnframt væri um of víðtækt framsal að ræða á því valdi sem ráðherra sé fengið í 6. gr. laga nr. 129/1990.

       Stefnandi telur að ákvæði í reglugerðum og gjaldskrá ráðherra geti ekki breytt þessari niðurstöðu. Stjórnsýslan sé lögbundin, og af lögmætisreglunni leiði að réttindi stefnanda samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar verði ekki skert með ákvæðum í reglugerð, þar með talið með innheimtu gjalds fyrir þjónustu sem henni sé tryggð samkvæmt lögum og stjórnarskrá, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Enn fremur leiði þetta fyrirkomulag til augljósrar mismununar, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem komið sé á fót eins konar „fyrstur kemur, fyrstur fær“-fyrirkomulagi fyrir þá sem þarfnist þjónustu táknmálstúlka. Slíkt standist ekki í ljósi þeirra skyldna sem hvíli á aðalstefndu, eins og þær verði að skýra með tilliti til 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur þurfi aðalstefndu að úthluta opinberum gæðum á grundvelli skýrra lagaákvæða og reglna. Slíkar reglur hafi ekki verið settar.

       Loks byggir stefnandi á því að ákvarðanirnar brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat, rannsóknarreglu og andmælarétt. Stefnanda hafi ekki verið veittur kostur á því að koma á framfæri andmælum við ákvarðanirnar, enda hafi þær byggst á því fortakslausa mati að stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, væri beinlínis óheimilt að veita þjónustu táknmálstúlks án endurgjalds. Stefnda hafi hins vegar borið að taka mið af skyldum sínum, tilefni beiðni stefnanda og meta þörfina fyrir þjónustu með hliðsjón af aðstæðum í hvert sinn, í stað þess að bera fyrir sig það ómálefnalega sjónarmið að fjárskortur komi í veg fyrir veitingu hennar.

       Með hliðsjón af framangreindu telur stefnandi að ákvarðanir stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, séu ekki reistar á lögmætum sjónarmiðum. Stefnandi krefst þess því að þær verði dæmdar ólögmætar. Loks gerir stefnandi fjárkröfu á hendur aðalstefndu sem hvíli á sama grunni, eins og síðar verði vikið að.

       Til stuðnings kröfum sínum á hendur varastefnda Reykjavíkurborg vísar stefnandi til þess að með lögum nr. 152/2010 hafi verið gerð sú breyting á lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk hafi flust frá ríki til sveitarfélaga. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna beri sveitarfélög ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar og kostnaði vegna hennar. Byggir stefnandi aðallega á því að líta beri á lög nr. 129/1990 sem sérlög gagnvart lögum nr. 59/1992, og því beri aðalstefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, að sjá stefnanda fyrir þjónustu táknmálstúlks. Verði ekki fallist á það telur stefnandi að stefnda Reykjavíkurborg beri að veita henni þjónustuna í samræmi við lög nr. 59/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 152/2010.

       Stefnandi tekur fram að inntak þjónustunnar, sem sveitarfélögum beri að tryggja fötluðum íbúum, sé nánar útfært í lögunum. Í 7. gr. sé kveðið á um rétt fatlaðs fólks til almennrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga og enn fremur áréttað að ávallt skuli leitast við að „veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu“. Ef þörf fatlaðs einstaklings er hins vegar meiri en svo að hægt sé að uppfylla hana með almennri þjónustu beri viðkomandi að fá viðbótarþjónustu samkvæmt lögunum. Markmið laganna sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti, sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Við framkvæmd þeirra skuli samkvæmt 2. mgr. 1. gr. taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, einkum samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

       Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 8. gr. laganna skuli veita fötluðu fólki þjónustu sem miði að því að gera því kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra. Í 24. gr. laganna komi fram að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á liðveislu, þ.e. persónulegan stuðning og aðstoð sem miði að því að rjúfa félagslega einangrun, t.d. aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Samkvæmt 25. gr. skuli veita frekari liðveislu í sérstökum tilvikum, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun.

       Stefnandi vísar jafnframt til þess að löggjafinn hafi leitast við að uppfylla jákvæðar skyldur sínar með setningu laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp sem varð að lögunum beri sveitarfélagi að útfæra réttinn til þjónustu með almennum hætti og miða aðstoð sína við aðstæður hvers umsækjanda fyrir sig. Í 1. gr. laganna segi að markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi, m.a. með því að veita aðstoð svo að íbúar geti stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi. Sú aðstoð geti falið í sér fjárhagsaðstoð, sbr. 2. tölulið 2. gr., og þjónustu við fatlaða einstaklinga, sbr. 7. tölulið 2. gr. Í lögunum sé jafnframt tekið sérstaklega á þjónustu við fatlaða og ber sveitarfélögum að „vinna að því að fötluðum, hvort sem heldur er af líkamlegum eða andlegum ástæðum, séu tryggð sambærileg lífskjör og jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna“. Jafnframt skuli skapa fötluðum skilyrði til þess að lifa sem eðlilegustu lífi miðað við getu hvers og eins, sbr. 42. gr. laganna.

       Stefnandi vísar einnig til 13. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslenskt táknmál, þar sem fram komi að ríki og sveitarfélög skuli tryggja að allir sem þess þurfa eigi kost á þjónustu á íslensku táknmáli.

       Samkvæmt framangreindu telur stefnandi ljóst að sveitarfélögum beri að skapa skilyrði fyrir íbúa sveitarfélagsins, sem búa við líkamlega eða andlega fötlun, til að lifa eðlilegu lífi. Ein leið til þess sé að veita einstaklingi fjárhagsaðstoð til að hann geti stundað nám, iðkað tómstundir og stundað félagsstarf sem hann kjósi. Með hliðsjón af aðstæðum stefnanda sé ljóst að eina leiðin til að tryggja henni aðstoð, sem geri henni kleift að lifa eðlilegu lífi, sé að veita henni þjónustu túlks í námi, starfi, tómstundum, félagsstarfi og öðrum samskiptum sem hún kjósi að taka þátt í. Það sé jafnframt ljóst að mati stefnanda að stefndi Reykjavíkurborg beri jákvæða lagaskyldu til þess að tryggja henni slíka þjónustu, eftir atvikum með því að greiða fyrir hana hjá stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

       Stjórnvaldsákvörðun stefnda Reykjavíkurborgar kveður stefnandi byggja á þeirri forsendu að skyldan sé lögð í hendur stefndu, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, og íslenska ríkisins, og því sé sveitarfélagið ekki réttur aðili til að beina kröfunum að. Dómkröfur stefnanda í liðum 4 og 5 hvíli á því að þetta mat sé rangt, og komi til álita ef komist verður að þeirri niðurstöðu að sýkna beri aðalstefndu af dómkröfum 1 til 2.

       Stefnandi byggir á því samhliða að ekki hafi verið farið að formreglum stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunarinnar. Þannig hafi hvorki aðstæður stefnanda né þörfin fyrir hina umbeðnu aðstoð verið skoðuð sérstaklega. Það hafi farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, meginreglu um skyldubundið mat og 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili þess. Stefnanda hafi ekki verið veittur réttur til andmæla, enda hafi ákvörðunin verið reist á fortakslausu mati um að skyldan til aðstoðar hvíldi ekki á stefnda Reykjavíkurborg. Komi í ljós að það mat reynist rangt hvíli hin umdeilda stjórnvaldsákvörðun á röngum forsendum og því beri að mati stefnanda að dæma hana ólögmæta. Stefnandi gerir jafnframt fjárkröfu á hendur Reykjavíkurborg undir kröfulið 5, sem byggi á sömu málsástæðum og rakin hafi verið.

       Í stefnu gerir stefnandi sérstaka grein fyrir fjárkröfum stefnanda í liðum 3 og 5 í dómkröfum. Þar sé gerð krafa um að aðalstefndu annars vegar og varastefndi hins vegar bæti stefnanda tjón og endurgreiði kostnað sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vanrækslu á skyldum stjórnvaldanna gagnvart stefnanda. Stefnandi krefjist þess aðallega að stefndu, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkið, verði dæmd til að inna fjárkröfuna af hendi á sömu forsendum og málsástæðum og greini hér að framan. Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefndi Reykjavíkurborg beri skylduna í samræmi við framangreind rök í þá veru byggir stefnandi á því að borginni beri að standa skil á greiðslunni. Stefnandi kveður stefnda, íslenska ríkinu, vera stefnt til að þola dóm um fjárkröfuna ásamt undirstofnun sinni.

       Stefnandi rökstyður fjárkröfu sína í fyrsta lagi með því að hún hafi þurft að greiða stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, fyrir þjónustu sem stefndu hafi borið lögum samkvæmt að tryggja henni endurgjaldslaust. Með því hafi stefnandi orðið fyrir kostnaði sem beri að endurgreiða í samræmi við 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Samtals hafi stefnandi greitt 50.670 krónur á grundvelli stjórnvaldsákvarðana stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Því sé krafist endurgreiðslu sömu fjárhæðar með vöxtum eins og greini í dómkröfum.

       Í tilviki aðalstefndu sé krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, frá því að greiðslurnar áttu sér stað, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga, frá málshöfðun, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995. Hvað stefnda Reykjavíkurborg varðar sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, frá málshöfðun, en varastefndi hafi fyrst verið krafinn um endurgreiðslu kostnaðarins með bréfi stefnanda 28. nóvember 2014. Varastefndi hafi synjað kröfu stefnanda um að greiða kostnaðinn á þeirri forsendu að skyldan hvíli á aðalstefndu. Reynist það mat rangt beri Reykjavíkurborg að endurgreiða stefnanda kostnaðinn.

       Í öðru lagi telur stefnandi að hún eigi kröfu á hendur stefndu um miskabætur. Þá kröfu reisir hún á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi leitast við að koma á lögmætu ástandi án árangurs. Þar sem stefnandi hafi ekki fengið aðstoð túlks, eins og hún eigi lögvarinn rétt til, hafi henni verið aftrað frá því að njóta réttar síns til þess að lifa lífi sínu til jafns við aðra. Í þessu samhengi beri að árétta að aðstoð túlks sé nauðsynlegt skilyrði þess að stefnandi geti skynjað nokkuð það sem fram fari og tjáð sig, en það séu algjörar lágmarksforsendur fyrir því að taka þátt í samfélagi manna. Í því umhverfi og regluverki sem stefndu hafa búið stefnanda þurfi hún að greiða fyrir þennan lágmarksrétt á tímagjaldi.

       Athafnaleysi stefndu, í bága við þær jákvæðu skyldur sem hvíli á þeim gagnvart stefnanda, hafi þannig leitt til þess að stefnandi upplifi sig félagslaga einangraða en það sé henni mjög þungbært. Stefnandi telur þannig ljóst að háttsemi stefndu beri að flokka sem ólögmæta meingerð gegn persónu sinni, frelsi og friði í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 5071993. Hún telur hæfilegar miskabætur vegna þessa nema 1.000.000 króna. Stefnandi geri jafnframt kröfu um dráttarvexti frá málshöfðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

       Samtals kveður stefnandi fjárkröfuna nema 1.050.670 krónum (50.670 + 1.000.000).

       Auk framangreindra lagaröksemda vísar stefnandi til þess að málskostnaðarkrafa hennar eigi stoð í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um aðild vísar stefnandi til 1. mgr. 18. gr. um samaðild stefndu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkisins, en til 2. mgr. 19. gr. sömu laga um aðild stefnda Reykjavíkurborgar til vara. Um fyrirsvar vísar stefnandi til 4. og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing er vísað til 3. mgr. 33. gr. sömu laga.

 

2. Málsástæður og lagarök aðalstefndu

       Ábendingar koma fram af hálfu aðalstefndu er lúta að dómkröfum stefnanda án þess þó að þess sé krafist að málinu verði vísað frá dómi. Telja aðalstefndu að kröfuliður 1 sé óskýr og of opinn til þess að hann geti endurspeglað dómsorð í málinu. Þá feli kröfuliður 2 í sér beiðni um álit dómstóla, en það sé andstætt 25. gr. laga nr. 91/1991. Í greinargerð aðalstefndu er því haldið fram að þessir ágallar á kröfugerð eigi að leiða til sjálfkrafa frávísunar málsins „ex officio“.

       Af hálfu aðalstefndu er vísað til lagareglna sem gilda um starfsemi stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, sbr. lög nr. 129/1990. Þá er af þeirra hálfu vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 1058/2003, sbr. breytingarreglugerð nr. 884/2004, þar sem fjallað sé um táknmálstúlkaþjónustu. Þar sé meðal annars kveðið á um að verkefni stofnunarinnar sé að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust samkvæmt nánari ákvæðum í gjaldskrá. Í gjaldskrá stofnunarinnar nr. 444/2013 komi síðan fram að stofnuninni sé heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert. Þar sé kveðið á um að við afgreiðslu beiðna á grundvelli þeirrar heimildar skuli gæta jafnræðis milli notenda þjónustunnar, með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar sé á hverjum tíma.

       Aðalstefndu upplýsa að á fjárlögum til stofnunarinnar árið 2014 hafi 18,6 milljónum króna verið veitt í endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs. Aukafjárveiting hafi verið veitt á fjáraukalögum að fjárhæð 4,5 milljónir króna.

       Aðalstefndu benda á að eftirspurn eftir endurgjaldslausri túlkaþjónustu hafi vaxið á undanförnum árum samhliða aukinni þátttöku einstaklinga, sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta, í samfélaginu. Notendur þjónustunnar séu um 150. Annars vegar sé um að ræða fólk sem reiði sig á íslenskt táknmál til samskipta og sé heyrnarlaust og hins vegar fólk með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu. Túlkunarverkefni sem taki lengri tíma en tvær klukkustundir kefjist þess að tveir túlkar vinni verkefnið. Þá sé túlkun fyrir fólk með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu alltaf innt af hendi af tveimur túlkum eða fleirum. Tveir túlkar veiti þjónustu í eina klukkustund en kostnaður sé tvöfaldur.

       Aðalstefndu taka fram að þegar ákvörðun hafi verið tekin um að veita fé á fjárlögum í þeim tilgangi að tryggja endurgjaldslausa túlkaþjónustu fyrir einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta hafi verið gert ráð fyrir því að sett yrði reglugerð um ráðstöfun fjárins og framtíðarskipan þessarar þjónustu. Af því hafi ekki orðið. Til bráðabirgða hafi Félagi heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðinni verið falið að búa til vinnureglur til að styðjast við þegar mat væri lagt á hvaða túlkaþjónustu mætti veita endurgjaldslaust. Á árunum 2004 til 2008 hafi stofnunin fundað með Félagi heyrnarlausra nokkrum sinnum til þess að móta vinnureglur og ramma utan um hvers konar verkefni væru túlkuð fyrir fjárveitinguna. Hafi Samskiptamiðstöðin gefið út sérstakar skýrslur um þjónustuna. Frá árinu 2009 hafi skýrsla um endurgjaldslausa túlkun í daglegu lífi verið hluti af ársskýrslu stofnunarinnar. Í vinnureglum sé ekki kveðið á um forgangsröðun aðra en þá að einungis fólk sem reiði sig á ÍTM til samskipta eigi rétt á að panta þjónustu sem greidd sé með þessu framlagi.

       Af hálfu aðalstefndu er lögð áhersla á það, að málefnaleg sjónarmið ráði útdeilingu Samskiptamiðstöðvarinnar á þessari þjónustu, og að mismuna ekki fólki sem nýti hana. Þar sem um svo takmörkuð gæði sé að ræða hafi það verið mat Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvarinnar að mest jafnræðis væri gætt með notendum ef allir hefðu aðgang að túlkaþjónustu meðan fé væri til, en enginn þegar það væri uppurið. Fólk þurfi mismikla þjónustu og sé mjög misjafnlega virkt í samfélaginu. Sömuleiðis hafi verið ákveðið á fundum þessara aðila að Samskiptamiðstöðin gæti ekki forgangsraðað verkefnum. Við forgangsröðun þyrfti að taka afstöðu til þess hvernig eigi að forgangsraða ef takmörkuð gæði eiga að endast. Hafi báðir aðilar verið sammála um að starfsfólk stofnunarinnar hefði ekki forsendur til þess að meta fyrir annað fólk hvaða erindi ættu að hafa forgang í lífi þeirra eða hverjir ættu að fá túlkun umfram aðra.

       Aðalstefndu byggja á því að útdeiling á umræddu fjármagni hafi byggst á löglegum og málefnalegum sjónarmiðum þeirra sem best hafi þekkt til. Þá byggja stefndu á því að synjun um gjaldfrjálsa túlkaþjónustu hafi verið lögmæt og sé öðru mótmælt sem röngu. Vísa aðalstefndu til rökstuðnings stofnunarinnar í því sambandi. Þá mótmæla aðalstefndu því að fjárskortur sé ómálefnalegt sjónarmið.

       Aðalstefndu mótmæla því að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 76. gr., 2. mgr. 73. gr., 65. gr. stjórnarskrár eða öðrum ákvæðum stjórnarskrár og 11. gr. stjórnsýslulaga og hafna sjónarmiðum stefnanda í stefnu. Þá mótmæla aðalstefndu því að mismunun hafi átt sér stað, eins og haldið sé fram í stefnu. Aðalatriðið sé að umfang starfsemi Samskiptamiðstöðvar og umræddar greiðslur hafi ráðist af fjárveitingum frá Alþingi. Með lögum hafi verið sett á fót kerfi til aðstoðar heyrnarskertum og daufblindum. Aðalstefndu byggja á því að fullnægt sé skilyrðum stjórnarskrár.

       Aðalstefndu mótmæla því enn fremur að brotið hafi verið gegn alþjóðasáttmálum. Ekki sé hægt að byggja á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, enda sé hann í fullgildingarferli. Auk þess hafi hvorki verið brotið gegn ákvæðum þess samnings né öðrum alþjóðasáttmálum sem stefnandi vísi til.

       Aðalstefndu hafna því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 129/1990, lögum nr. 61/2011, lögum nr. 59/1992 eða öðrum réttarheimildum. Um sjónarmið stefnanda þess efnis að hún eigi rétt á endurgjaldslausri þjónustu taka aðalstefndu fram að Alþingi ákveði fjárveitingar til endurgjaldslausrar þjónustu á þessu sviði. Ómögulegt hafi verið fyrir stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, að verða við beiðni stefnanda þar sem hún hafi verið bundin af fjárveitingu frá Alþingi. Fyrr sé að því vikið að framlag hafi verið uppurið þegar beiðnir stefnanda hafi verið teknar fyrir. Byggja aðalstefndu á því að synjun á því að verða við þeim hafi því verið lögmæt. Þá mótmæla aðalstefndu því að framsal á valdi ráðherra samkvæmt 6. gr. laga nr. 129/1990 hafi verið of víðtækt.

       Aðalstefndu mótmæla því einnig að umræddar ákvarðanir brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat, rannsóknarreglu og andmælarétt. Jafnframt mótmæla aðalstefndu því að ákvarðanirnar hafi ekki verið reistar á málefnalegum sjónarmiðum. Engin skilyrði séu til þess að dæma ákvarðanirnar ólögmætar eða að taka kröfur stefnanda samkvæmt liðum 1 til 3 í stefnu til greina. Sérstaklega er tekið fram að skýrsla félagsmálaráðherra sem vísað sé til í stefnu hafi verið innlegg í umræðu um málaflokkinn og að enginn réttur verði á henni reistur af hálfu stefnanda.

       Aðalstefndu byggja á því að ekki verði lagður sá skilningur í 6. gr. laga nr. 129/1990 og þeim ákvæðum öðrum sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á að þjónusta stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, skuli vera gjaldfrjáls.

       Af framangreindum ákvæðum telja aðalstefndu því að stefnandi eigi ekki rétt til endurgjaldlausrar táknmálstúlkaþjónustu, óháð því opinbera fjármagni sem ráðstafað sé í þann sjóð sem ætlaður sé til félagslegrar táknmálstúlkunar á hverjum tíma og stöðu sjóðsins hverju sinni. Löggjöf og fjárframlag sem Alþingi veiti til málaflokksins uppfylli þær kröfur sem 76. gr. stjórnarskrár setji, en fjárframlag þetta sé háð mati og vilja Alþingis. Aðalstefndu mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda að sú skylda hvíli á stefndu að tryggja stefnanda endurgjaldslausa táknmálstúlkun, enda eigi sá skilningur sér ekki stoð í gildandi landslögum. Að mati aðalstefndu verði slík krafa hvorki reist á stjórnarskrá/almennum lögum né þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Á því er byggt af hálfu aðalstefndu að íslensk lög, sem mál þetta varði, séu í fullu samræmi við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og alþjóðasáttmála og tryggi þau lágmarksréttindi sem felist í gildandi landslögum.

       Með vísan til framangreinds mótmæla aðalstefndu kröfu stefnanda um endurgreiðslu þess kostnaðar vegna túlkaþjónustu sem farið sé fram á. Þá mótmæla aðalstefndu því að lög nr. 29/1995 eigi við í þessu máli. Aðalstefndu mótmæla því einnig að hafa valdið stefnanda tjóni. Engri vanrækslu eða bótaskyldu sé fyrir að fara af hálfu aðalstefndu. Þá mótmæla aðalstefndu því alfarið að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé fullnægt og hafna öllum sjónarmiðum stefnanda til stuðnings þeirri kröfu. Er því sérstaklega mótmælt að synjun á þessari þjónustu eigi að flokka sem ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda, frelsi og friði.

       Auk framangreindra lagatilvitnana vísa aðalstefndu til 41. gr. stjórnarskrárinnar. Um málskostnaðarkröfu er af þeirra hálfu vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

       Varakrafa aðalstefndu er á því reist að lækka beri miskabótakröfu stefnanda verulega. Varðandi varakröfuna er vísað til allra málsástæðna og sjónarmiða sem vikið hafi verið að um aðalkröfu. Í tilefni af vaxtakröfu stefnanda taka aðalstefndu fram að ekki verði séð að krafa hafi verið gerð um endurgreiðslu fyrr en með stefnu. Fallist dómurinn á það að dæma dráttarvexti geti þeir fyrst komið til skoðunar mánuði eftir birtingu stefnu í málinu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

 

3. Málsástæður og lagarök varastefnda

       Varastefndi, Reykjavíkurborg, gerir þá athugasemd við kröfugerð stefnanda gagnvart sér, að þar sé krafist ógildingar á stjórnvaldsákvörðun frá 9. desember 2014 meðan gögn málsins beri glögglega með sér að varastefndi hafi enga slíka ákvörðun tekið. Því kunni að vera ástæða til þess að vísa málinu gegn honum frá dómi án kröfu, þar sem dómkröfur stefnanda í liðum 4 og 5 uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sökum vanreifunar.

       Varastefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því til stuðnings bendir varastefndi á að sú þjónusta sem stefnandi krefst að varastefndi veiti sér án endurgjalds, þ.e. túlkaþjónusta, sé lögum samkvæmt á forræði aðalstefndu, íslenska ríkisins og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Því sé það ekki í verkahring varastefnda að veita hana. Vísar varastefndi í því sambandi til laga nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, en í c-lið 1. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að það sé hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra að annast táknmálstúlkun og í d-lið að stofnuninni beri að veita aðra þjónustu. Um skipan þjónustunnar sé nánar fjallað í reglugerð nr. 1058/2003, með síðari breytingum, en í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að hlutverk stofnunarinnar sé meðal annars að annast táknmálsþjónustu. Samkvæmt ákvæðum framangreindra laga og reglugerða telur varastefndi að það sé óskoruð skylda aðalstefndu að veita túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga.

       Varastefndi tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 152/2010, skuli sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum nr. 59/1992, nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Varastefndi byggir á því að lög nr. 129/1990 séu sérlög gagnvart lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, og því beri aðalstefndu að sjá stefnanda fyrir táknmálsþjónustu, enda gangi sérlög framar almennum lögum. Hefði það verið ætlun löggjafans að fela sveitarfélögum að sinna táknmálsþjónustu hefði þurft að kveða skýrt á um það í lögum, sbr. ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 152/2010.

       Máli sínu til frekari stuðnings vísar varastefndi til 2. liðar 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 7/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í stjórnarráði Íslands, sem gerður hafi verið með vísan til 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga nr. 115/2011, um stjórnarráðið. Þar komi fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið fari með mál er varði fræðslumál, þ. á m. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

       Varastefndi telur jafnframt að 13. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls veiti stefnanda engan rétt á táknmálsþjónustu úr hendi varastefnda, hvort sem hún sé veitt gegn endurgjaldi eða án gjalds. Hvorki í lagaákvæðinu sjálfu né í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2011 sé kveðið á um að sveitarfélög skuli tryggja táknmálsþjónustu fyrir þá sem þess þurfa án endurgjalds, heldur sé þar einungis mælt fyrir um að tryggja eigi að þeir sem þurfa á því að halda eigi kost á þjónustu á íslensku táknmáli.

       Varastefndi byggir einnig á því að efni bréfs hans til stefnanda 9. desember 2014 hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun um að synja stefnanda um túlkaþjónustu. Engin slík ákvörðun hafi verið tekin af varastefnda, enda heyri sá málaflokkur samkvæmt lögum ekki undir hann heldur aðalstefndu. Þvert á móti beri umrætt bréf einvörðungu með sér að varastefndi hafi verið að leiðbeina stefnanda um hvert hann ætti að beina kröfu sinni um túlkaþjónustu án endurgjalds. Þegar stjórnvald sinni leiðbeiningarskyldu með þessum hætti beri því ekki að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins eins og skylt sé að gera við undirbúning og töku stjórnvaldsákvörðunar. Þegar af þeirri ástæðu, að ekki hafi verið um að ræða ákvörðun um réttindi og skyldu af hálfu varastefnda, komi umræddar reglur og aðrar formreglur stjórnsýsluréttarins ekki til skoðunar.

       Fallist dómurinn ekki á það að það heyri undir aðalstefndu að veita túlkaþjónustu gegn gjaldi eða án endurgjalds byggir varastefndi í annan stað sýknukröfu sína á því að þá geti umrædd skylda ekki verið altæk, þ.e. án takmarkana. Sú þjónusta sem varastefnda sé skylt að veita stefnanda sé annars vegar félagsleg heimaþjónusta samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, og hins vegar liðveisla og frekari liðveisla samkvæmt lögum nr. 59/1992. Á grundvelli þeirra skyldna sem ákvæði framangreindra laga leggi á herðar varastefnda hafi hann sett sér reglur annars vegar um félagslega heimaþjónustu og hins vegar um stuðningsþjónustu.

       Varastefndi byggir á því að lög nr. 40/1991, sbr. XI. kafli laganna, beri með sér að um almenna rammalöggjöf sé að ræða, sem veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til þess að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar sem þjónustuna veiti, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Sú skylda hvíli á sveitarfélögum að tryggja framkvæmd laganna, en þau veiti þeim jafnframt svigrúm til þess að setja sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna, þ. á m. um umfang og útfærslu þjónustu við fatlað fólk. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki að skilgreina réttinn. Það sé því verkefni sveitarfélags að útfæra nánar rétt hvers einstaklings, en það hafi verið gert í tilviki stefnanda. Einstaklingur geti þannig ekki gert kröfu um ákveðna þjónustu, heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi er unnt að veita þjónustuna. Ýmsar forsendur komi þar til álita m.a. fjárhagslegar forsendur. Ákvæði 44. gr. laga nr. 40/1991 feli þannig ekki í sér að skyldur sveitarfélaga séu svo afdráttarlausar að einstaklingur eigi skilyrðislausan og tafarlausan rétt á tiltekinni þjónustu eða aðstoð.

       Varastefndi tekur jafnframt fram að samkvæmt 7. gr. laga nr. 59/1992 skuli fatlað fólk eiga rétt á allri þjónustu ríkis og sveitarfélaga og skal ávallt leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skuli hinn fatlaði einstaklingur fá þjónustu samkvæmt lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Varastefndi bendir á að svonefnd liðveisla, sbr. 24. gr. laganna, sé dæmi um almenna þjónustu. Í því ákvæði sé kveðið á um að sveitarfélög skuli eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu en með henni sé átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun fatlaðra einstaklinga, t.d. aðstoð við að njóta menningar og félagslífs. Frekari liðveisla feli í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun, sbr. 25. gr. laga nr. 52/1992. Varastefndi telur að sú sértæka þjónusta sem felist í táknmálstúlkun falli ekki undir hina almennu þjónustu sem varastefnda sé skylt að veita samkvæmt 7. gr. laga nr. 59/1992. Hvergi í lögunum sé kveðið á um túlkaþjónustu enda hafi löggjafinn talið þörf á því að kveða á um slíka þjónustu í sérstökum lögum nr. 129/1990.

       Verði ekki fallist á framangreint byggir varastefndi sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að umfang slíkrar viðbótarþjónustu verði ávallt að byggjast á mati á þjónustuþörf, forgangsröðun og því fjármagni sem veitt sé til málaflokksins, svo framarlega sem það nægi til þess að sinna lögbundnum skyldum sveitarfélagsins í málaflokknum. Þá byggir varastefndi einnig á því að samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, ráði sveitarfélög sjálf málefnum sínum. Í því felist að þau hafi forræði á því hvernig tekjum sé varið innan þeirra marka sem lög setji. Sú sértæka þjónusta sem felist í táknmálstúlkun falli ekki skýrlega undir þær skyldur sem sveitarstjórnum sé lögum samkvæmt skylt að veita heyrnarlausum eða heyrnarskertum einstaklingum. Af því leiði að varastefnda sé í sjálfsvald sett hvort hann greiði kostnað vegna túlkaþjónustu fyrir umrædda einstaklinga.

       Varastefndi byggir því sýknukröfu sína á því að jafnvel þó að stefnandi yrði metinn og talinn vera í þörf fyrir túlkaþjónustu þá leiði ekki af því mati skilyrðislaus réttur hennar til þeirrar þjónustu án endurgjalds á grundvelli 25. gr. laga nr. 59/1992. Þar sem ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 leggi ekki ríkari eða víðtækari skyldur á herðar stefnda í þessum efnum en mælt sé fyrir um í fyrrnefndum lögum og varastefndi hafi þegar gengist undir í máli stefnanda, þ.e. að tryggja að ávallt sé til staðar túlkur frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra þegar stefnandi hafi komið í viðtöl hjá varastefnda á þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis til að miðla upplýsingum til stefnanda með snertitáknmáli, krefst varastefndi sýknu af þessari dómkröfu stefnanda. Varastefndi hafi greitt fyrir þá túlkaþjónustu á grundvelli leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á hinn bóginn nái skyldur varastefnda samkvæmt lögum ekki til þess að tryggja að fatlaður einstaklingur njóti ávallt aðstoðar túlks í daglegu lífi, hvort sem er gegn endurgjaldi eða án gjalds.

       Verði ekki fallist á framangreint byggir varastefndi sýknukröfu sína í fjórða lagi á því að hann hafi með gerð samnings um NPA við stefnanda þegar uppfyllt allar skyldur sem á honum hvíli gagnvart stefnanda samkvæmt lögum nr. 59/1992 og nr. 40/1991. Samningur stefnanda um NPA feli í sér sólarhringsþjónustu með sofandi næturvakt. Með gerð umrædds samnings um NPA til handa stefnanda hafi varastefndi uppfyllt skyldu sína um velferðarþjónustu til handa stefnanda á grundvelli framangreindra laga.

       Varastefndi hafnar kröfu stefnanda um endurgreiðslu kostnaðar af túlkaþjónustu með vísan til þess sem að framan greinir. Þá mótmælir varastefndi kröfu stefnanda um miskabætur alfarið sem ósannaðri og rangri. Á því er byggt af hálfu varastefnda að bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, þ.e. miskabætur í skilningi 26. gr. skaðabótalaga, séu fyrst og fremst til þess fallnar að veita tjónþola uppreist æru, en ekki liggi fyrir nein sönnun þess að málsmeðferð varastefnda á erindi stefnanda hafi verið meiðandi fyrir stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á neitt tjón í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

       Varastefndi vísar einnig til þess að í réttarframkvæmd hafi bætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga verið metnar að álitum. Engu að síður þurfi sá sem krefjist bóta ávallt að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og í hverju það tjón sé fólgið. Þannig þurfi tjónþoli að færa fram sönnun fyrir því að hann hafi orðið fyrir niðurlægingu eða tjóni af völdum tiltekinnar ólögmætrar meingerðar. Jafnvel þótt dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að annmarkar hafi verið á afgreiðslu og meðferð erindis stefnanda sé ljóst að í háttsemi varastefnda hafi ekki falist nein niðurlæging eða tjón fyrir stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að fallast á að ætluð brot varastefnda á meðferð á erindi stefnanda hafi getað falið í sér ólögmæta meingerð af hálfu varastefnda gegn friði, frelsi, æru eða persónu stefnanda, svo sem áskilið sé til þess að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga teljist uppfyllt. Engar þær hvatir eða ástæður hafi legið að baki meðferð og afgreiðslu erindis stefnanda af hálfu varastefnda að það geti hafa falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda. Fjárhæð miskabótakröfunnar sé enn fremur algerlega órökstudd að mati varastefnda og mótmælir hann henni einnig sem alltof hárri, einkum þegar tekið sé mið af íslenskri dómaframkvæmd. Meint tjón stefnanda sé með öllu ósannað og því hafnar varastefndi kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta.

       Þá mótmælir varastefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

       Um lagarök vísar varastefndi til framangreindra lagareglna sem og til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað vísar varastefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

                                                                     V

1. Kröfugerð stefnanda

       Í máli þessu hefur stefnandi aðallega uppi kröfur á hendur aðalstefndu, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkinu, en til vara á hendur varastefnda Reykjavíkurborg. Þessi háttur á aðild er í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda er fullnægt því skilyrði 1. mgr. sömu greinar að dómkröfurnar eigi rætur að rekja til sömu aðstöðu.

       Á hendur aðalstefndu er kröfugerð stefnanda í þremur liðum. Fyrstu tveir kröfuliðirnir fela í sér aðal- og varakröfu, þannig að ekki er ætlast til þess að annar kröfuliðurinn komi til álita nema að þeim fyrsta verði hafnað. Þriðji kröfuliðurinn, sem er fjárkrafa, er hins vegar sjálfstæð krafa sem dóminum er ætlað að taka til umfjöllunar óháð úrlausn hinna tveggja.

       Í fyrsta kröfuliðnum er farið fram á að viðurkennt verði að öðrum aðalstefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hafi frá 7. október 2014 verið óheimilt að synja stefnanda um að að veita henni endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Verði ekki á það fallist er þess krafist að ákvarðanir aðalstefnda 23. október og 10. nóvember 2014 „verði dæmdar ólögmætar“.

       Af svari aðalstefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, við beiðni stefnanda um þjónustu má ráða að frá þeim tíma sem vísað er til í kröfulið 1, eða 7. október 2014, hafi fjárframlag til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu á árinu 2014 verið uppurið. Í stefnu er ekki útskýrt hvaða lögvörðu hagsmuni stefnandi kunni að hafa af því að fá sérstaka viðurkenningu dómstóla á því að óheimilt hafi verið að synja henni um þá þjónustu frá þeim tíma sem vísað er til í fyrsta kröfulið. Í því sambandi verður að hafa í huga að ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi farið fram á slíka þjónustu fyrr en með þeim beiðnum sem svarað var 23. október og 10. nóvember 2014.

       Ef á varakröfuna yrði fallist myndi dómur þess efnis ekki fela í sér að þær tilgreindu ákvarðanir, sem þar er vísað til, yrðu felldar úr gildi, heldur yrði einungis staðfest að ákvarðanirnar hefðu ekki samrýmst lögum. Í dómaframkvæmd hefur verið talið að þessi háttur á kröfugerð þurfi út af fyrir sig ekki að stangast á við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í málin nr. 151/1999. Hins vegar gerir stefnandi einnig fjárkröfu sem reist er á því að umræddar ákvarðanir hafi verið ólögmætar þar sem óheimilt hafi verið hafna beiðni um endurgjaldslausa túlkaþjónustu eftir 7. október 2014. Þannig er sú afstaða til réttarstöðu aðila, sem stefnandi leitast við að fá staðfesta með tveimur fyrstu kröfuliðunum, jafnframt forsendur eða málsástæður fyrir fjárkröfunni í þriðja kröfulið. Því er óhjákvæmilegt að taka afstöðu til þessara atriða svo að unnt sé að leysa úr fjárkröfu stefnanda. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hún hafi sérstaka hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um þau atriði sem fyrstu tveir kröfuliðirnir lúta að. Með vísan til dómaframkvæmdar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 749/2012, verður því að vísa þessum kröfuliðum sjálfkrafa frá dómi.

       Kröfugerð stefnanda á hendur varastefnda er í tveimur liðum. Annars vegar er þess krafist að „stjórnvaldsákvörðun Reykjavíkurborgar“ 9. desember 2014, þess efnis að synja stefnanda um túlkaþjónustu, verði „dæmd ólögmæt“. Samhliða gerir stefnandi sömu fjárkröfu á hendur varastefnda og aðalstefnda. Sömu sjónarmið eiga við um þessa kröfugerð og að framan greinir um kröfugerð stefnanda á hendur aðalstefndu. Þannig er óhjákvæmilegt að taka afstöðu til lögmætis þeirrar niðurstöðu, sem fram kom í svarbréfi varastefnda 9. desember 2014, til þess að leysa úr fjárkröfu stefnanda. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi sérstaka hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um fyrri kröfuliðinn og verður því að vísa honum sjálfkrafa frá dómi.

 

2. Lagareglur og stjórnvaldsfyrirmæli um opinbera túlkaþjónustu

       Í lögum nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er kveðið á um markmið laganna í 1. gr. Þar segir að lögin eigi „að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra“. Síðar hafa verið sett lagafyrirmæli sem miða að því að styrkja stöðu táknmáls sem fyrsta máls þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í þeim lögum er aftur á móti ekki kveðið á um fyrirkomulag túlkaþjónustu af hálfu hins opinbera, að öðru leyti en því að sú skylda er lögð á stjórnvöld að „leitast við að tryggja að sá sem skilur ekki íslensku geti fengið úrlausn erinda sinna og tileinkað sér efni skjala og skilríkja sem skipta hann máli“, sbr. 9. gr. laga nr. 61/2011. Um opinbera túlkaþjónustu gilda því áfram fyrrgreind lög nr. 129/1990 með þeim síðari breytingum sem hafa verið gerðar á lögunum. Þær breytingar eru þó óverulegar og snerta ekki sakarefni máls þessa.

       Að markmiðsákvæði laga nr. 129/1990 slepptu er í lögunum fyrst og fremst lagður lagalegur grunnur að rekstri og stjórn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Í 2. gr. laganna er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar, sem skipt er í fjóra liði, þ.e. rannsóknir á íslensku táknmáli, kennslu táknmáls, táknmálstúlkun og aðra þjónustu. Að öðru leyti skal kveða á um skipan þjónustunnar í reglugerð, eins og í lagaákvæðinu segir. Þá eru fyrirmæli í 3. til 6. gr. laganna um stjórnun og rekstur stofnunarinnar. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að stofnunin geri fjárhags- og framkvæmdaáætlun til allt að fimm ára. Skal stjórn stofnunarinnar staðfesta áætlanir og fylgjast með framkvæmd þeirra. Síðan segir orðrétt í ákvæðinu: „Ráðherra getur, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir.“

       Ráðherra setti fyrst reglugerð um skipan þeirrar þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir með reglugerð nr. 1058/2003 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að starf stofnunarinnar skuli sérstaklega nýtast þeim sem noti táknmál til daglegra samskipta við aðra, svo sem heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum og fjölskyldum þeirra. Í 4. gr. reglugerðar þessarar var upphaflega kveðið á um að helstu verkefni samskiptamiðstöðvar við táknmálstúlkaþjónustu væru annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun samkvæmt sérstökum samningum við stofnanir sem annist menntun táknmálstúlka. Ári eftir setningu þessarar reglugerðar var 4. gr. hennar breytt með reglugerð nr. 884/2004. Eftir þá breytingu er ákvæðið svohljóðandi: „Helstu verkefni Samskiptamiðstöðvar við táknmálstúlkaþjónustu eru annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust skv. nánari ákvæðum í gjaldskrá sbr. 4. mgr. 5. gr. og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun samkvæmt sérstökum samningum við stofnanir sem annast menntun táknmálstúlka.“ Í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að menntamálaráðherra setji stofnuninni gjaldskrá að fengnum tillögum stjórnar.

       Samhliða setningu reglugerðar nr. 884/2004 var sett gjaldskrá nr. 882/2004. Þar sagði í 2. gr. að fyrir ráðgjöf og túlkun skyldi innheimta 4.550 krónur á klukkustund. Samskiptamiðstöðinni væri jafnframt heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs og greiða ferðakostnað táknmálstúlks utan Reykjavíkursvæðisins vegna þess, á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert og samkvæmt nánari reglum eða viðmiðunum sem stofnunin setur í samráði við Félag heyrnarlausra. Þá var þar kveðið á um að við setningu reglnanna skyldi gæta jafnræðis milli notenda þjónustunnar með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem veitt væri árlega á fjárlögum til táknmálstúlkunar í daglegu lífi. Þessi gjaldskrá féll niður við setningu nýrrar gjaldskrár nr. 647/2007, en með henni var gjald fyrir almenna ráðgjöf og túlkun hækkað í 5.460 krónur. Jafnframt var fellt brott ákvæði þess efnis að stofnuninni bæri að setja reglur eða viðmiðanir í samráði við Félag heyrnarlausra um veitingu endurgjaldslausrar túlkaþjónustu. Um þær ákvarðanir sagði einungis að við afgreiðslu beiðna á grundvelli þessarar heimildar skyldi „gætt jafnræðis milli notenda þjónustunnar með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma“.

       Gjaldskránni hefur tvisvar sinnum verið breytt eftir að gjaldskrá nr. 647/2007 var sett og gjald fyrir túlkaþjónustu hækkað. Samkvæmt núgildandi gjaldskrá nr. 444/2013 er gjaldið 10.134 krónur fyrir klukkustund. Ákvæðið um endurgjaldslausa túlkaþjónustu er hins vegar óbreytt frá gjaldskrá nr. 647/2007.

 

3. Lagaheimild til gjaldtöku samskiptamiðstöðvar fyrir túlkaþjónustu

       Samkvæmt fyrirmælum laga nr. 129/1990, sem áður er lýst, er opinberri stofnun, stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, meðal annars falið að veita þeim túlkaþjónustu sem þurfa að nýta sér slíka þjónustu til samskipta við þá sem ekki kunna táknmál. Það er grundvallarregla hér á landi að lögbundna, opinbera þjónustu af þessu tagi, beri að veita án þess að endurgjald komi fyrir, nema kveðið sé um annað í lögum. Eins og rakið hefur verið segir í 6. gr. laganna að ráðherra geti sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir. Ákvæði þetta felur í sér viðhlítandi lagaheimild til þess að taka gjald fyrir túlkaþjónustu sem stofnunin veitir.

       Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 129/1990 kemur skýrt fram að ráðgert hafi verið að heimildin til gjaldtöku yrði notuð í takmörkuðum mæli. Þannig segir í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins að eðlilegt þyki að „taka megi gjald fyrir þjónustu veitta öðrum aðilum en heyrnarlausum og heyrnarskertum“. Sömu viðhorf koma fram í framsöguræðu menntamálaráðherra, sem var flutningsmaður frumvarpsins. Þar sagði ráðherra eftirfarandi: „Gert er ráð fyrir því að menntamálaráðherra geti, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir einhvern hluta af þeirri þjónustu sem stofnunin veitir. Það yrði vafalaust mjög lítill hluti af starfsemi stofnunarinnar sem þyrfti á slíkri skrá að halda. Væntanlega yrði helst um það að ræða ef stofnanir eins og t.d. Alþingi óskuðu eftir því að njóta þjónustu stofnunarinnar við að túlka umræður á Alþingi fyrir heyrnarlausa eða heyrnarskerta með táknmáli, þá væri eðlilegt að ætlast til þess að stofnun, Alþingi, greiddi fyrir það.“

       Þrátt fyrir skýr áform um að gjaldtökuheimildin ætti aðeins að taka til hluta þeirrar þjónustu sem stofnunin veitti, og að ekki skyldi taka gjald af heyrnarlausum og heyrnarskertum, voru engin fyrirmæli í lögum nr. 129/1990 sem settu skorður við því að ráðherra gæti við setningu gjaldskrár vikið frá þeim áformum. Ummæli sem þessi í lögskýringargögnum standa ekki í vegi fyrir því að ráðherra ákveði á grundvelli almennrar gjaldtökuheimildar í 6. gr. laganna að krefjast endurgjalds fyrir túlkaþjónustu sem veitt er heyrnarlausum og heyrnarskertum. Í því efni er ráðherra einungis bundinn af þeirri almennu reglu að gjaldtakan sé ekki umfram kostnað stofnunarinnar af þeirri þjónustu sem gjaldtökuheimildin tekur til. Því er ekki borið við að takmarkanir reistar á þeirri reglu eigi við um þá gjaldtöku sem ágreiningur málsins snýst um.

       Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að stefndi, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hafi viðhlítandi heimild í lögum nr. 129/1990 fyrir því að heimta gjald í samræmi við gjaldskrá ráðherra fyrir þá túlkaþjónustu sem stofnunni er ætlað að veita.

 

4. Skuldbinding ríkisvaldsins samkvæmt stjórnarskrá til þess að veita túlkaþjónustu

       Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbyrgðar og sambærilegra atvika. Þeir sem eru með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu, líkt og stefnandi, þurfa aðstoð sérhæfðra túlka í snertitáknmáli til að eiga í samskiptum við þá sem ekki kunna þessa samskiptatækni og skynja það sem fram fer í kringum þá. Verður að leggja til grundvallar að einstaklingar sem búa við slíka fötlun eigi samkvæmt framansögðu stjórnarskrárvarinn rétt á því að í lögum sé þeim tryggð ákveðin lágmarksaðstoð af þessum toga án tillits til efnahags, sbr. jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu leiðir að við setningu reglna um slíka aðstoð ber að gæta að því að þeir, sem þurfa á þessari þjónustu að halda vegna fötlunar sinnar, geti fengið þá lágmarksaðstoð sem þeir eiga rétt á, án þess að það skapi þeim fjárhagslega byrði.

       Þegar hefur verið lýst efni laga nr. 129/1990. Þar er einungis kveðið á um að stefndi, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, skuli veita túlkaþjónustu án þess að mælt sé fyrir um það í hvaða tilvikum sú þjónusta skuli veitt. Í reglugerð nr. 1058/2003, sbr. reglugerð nr. 884/2004, er heldur ekki kveðið á um þetta atriði. Eins og rakið hefur verið er í 4. gr. reglugerðarinnar gert ráð fyrir því að hluti af verkefnum stofnunarinnar sé að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu, auk þess sem veita má slíka þjónustu gegn gjaldi. Engin ákvæði eru í reglugerðinni um hvenær veita skuli slíka þjónustu án þess að krefjast greiðslu fyrir. Þar er vísað til gjaldskrár um nánari fyrirmæli um endurgjaldslausa táknmálstúlkun. Í þeirri gjaldskrá, sem var í gildi þegar atvik máls þessa urðu, var heldur ekki fjallað um það í hvaða tilvikum væri unnt að fá endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Þar er einungis kveðið á um að gæta skuli jafnræðis við afgreiðslu beiðna frá notendum slíkrar þjónustu.

       Í máli þessu hefur bæði stefnandi og forstöðumaður stefnda, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, Valgerður Stefánsdóttir, lýst fyrirkomulagi við afgreiðslu beiðna um endurgjaldslausa túlkaþjónustu, auk þess sem því er lýst í greinargerð aðalstefndu. Liggur fyrir að notendur þessarar þjónustu voru samtals 193 á síðasta ári og að þeim hafi farið fjölgandi undanfarin ár. Þá liggur jafnframt fyrir að einstaklingar með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu þurfi að minnsta kosti tvo túlka þar sem samskipti með snertitáknmáli reynir töluvert á líkamann. Kostnaður þeirra við slíka þjónustu er því meiri en þeirra sem glíma einungis við heyrnaskerðingu.

       Fram kom í máli forstöðumannsins að síðastliðin ár hafi verið unnt að veita túlkaþjónustu í 1.800 til 2.300 klukkustundir fyrir það fjármagn sem ráðstafað hafi verið til þessa verkefnis. Af því verður ráðið að hver notandi hafi að jafnaði fengið endurgjaldslausa túlkaþjónustu í um 9 til 12 klukkustundir á ári. Bein eftirspurn eftir slíkri þjónustu hafi hins vegar að jafnaði verið um 2.900 klukkustundir á ári, og þörfin til muna meiri.

       Eins og fram hefur komið var veitt 18,6 milljónum á fjárlögum ársins 2014 í endurgjaldslausa túlkaþjónustu, auk þess sem 4,5 milljónum var ráðstafað til þessa verkefnis með aukafjárveitingu, eða samtals 23.100.000 krónum. Ef tekið er mið af gjaldskrá, og gengið út frá því að hún mæti að fullu kostnaði við þjónustuna, má ætla að fjárveitingin fyrir árið 2014 hafi náð að tryggja 2.280 klukkustundir í endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Sé þeim jafnað niður á notendur virðist hver þeirra hafa átt kost á endurgjaldslausri túlkaþjónustu í u.þ.b. 12 klukkustundum á árinu 2014.

       Forstöðumaðurinn lýsti því einnig í skýrslu sinni fyrir dómi með hvaða hætti beiðnir um endurgjaldslausa túlkaþjónustu væru afgreiddar auk þess sem þessu er lýst í greinargerð. Þar kemur fram að stofnunin leggi til grundvallar vinnuskjal sem hafi verið tekið saman í samráði við Félag heyrnarlausra, en viðmiðanir sem þar komi fram hafi átt að verða grunnur að reglugerð sem ætlunin hafi verið að setja um þjónustuna. Slík reglugerð hefur hins vegar ekki verið sett. Samkvæmt framburði forstöðumannsins eru í vinnuskjalinu talin upp tilvik sem gefa tilefni til að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Ætti það einkum við í tengslum við atvinnuþátttöku notenda þjónustunnar, en um helmingur beiðna lúti að slíkri þjónustu. Einnig væri þjónustan veitt t.d. vegna samskipta við banka, lögfræðinga, bíla- og fasteignasala, sem og vegna veislu- og hátíðahalda. Almennt kvað forstöðumaðurinn þjónustuna vera veitta vegna „viðskipta fólks í daglegu lífi“. Einungis heyrnarlausir og þeir sem glími við samsetta heyrnar- og sjónskerðingu geti óskað eftir þjónustunni, en ekki þeir sem þurfi að eiga í samskiptum við þá einstaklinga. Notendum sé ekki forgangsraðað auk þess sem stofnunin leggi ekki mat á hvað eigi að skipta máli í lífi þeirra þannig að það kalli á túlkaþjónustu. Í ljósi þess að um afar takmörkuð gæði sé að ræða hafi einnig verið talið réttlátast að notendur fengju þá þjónustu sem þeir teldu sig þurfa uns fjárveitinguna þryti. Eftir það fengi enginn endurgjaldslausa túlkaþjónustu.

       Af framburði stefnanda og foreldra hennar fyrir dómi verður ráðið að stefnandi stilli fjölda umsókna um endurgjaldslausa túlkaþjónustu í hóf í ljósi þeirrar staðreyndar að um verulega takmarkaða þjónustu er að ræða sem hætt er við að ekki bjóðist þegar líða tekur á árið. Þannig hafi hún oft sleppt viðburðum og fundum, sem hún hafi viljað sækja, þar sem hún hafi ekki viljað óska eftir túlkaþjónustu. Þá kom fram í máli stefnanda að hún væri á örorkubótum, sem næmu um 170.000 krónum á mánuði. Því hefði hún lítið fjárhagslegt bolmagn til þess að greiða sjálf fyrir þjónustuna.

       Samningi stefnanda við Reykjavíkurborg um notendastýrða þjónustu er ekki ætlað að mæta þörf hennar fyrir sérhæfða túlkaþjónustu, enda kemur hann einungis í stað félagslegrar heimaþjónustu samkvæmt VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, liðveislu og frekari liðveislu samkvæmt X. kafla laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, og ferðaþjónustu að nokkru marki, sbr. 35. gr. sömu laga. Verður því að leggja til grundvallar að henni standi ekki til boða önnur þjónusta sérhæfðra táknmálstúlka en sú sem stefndi, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, býður upp á. Tilfallandi táknmálstúlkun foreldra stefnanda leysir aðalstefndu ekki undan þeim skyldum sem á þeim hvíla í þessu efni samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

       Eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir hvílir stjórnarfarsleg skylda á ríkisvaldinu að tryggja þeim, sem glíma við heyrnarleysi eða samsetta sjón- og heyrnarskerðingu, ákveðna lágmarksaðstoð til að eiga í samskiptum við fólk sem ekki kann táknmál, án tillits til efnahags. Slík aðstoð er meðal annars nauðsynleg í tengslum við atvinnuþátttöku þeirra og svo að þeir geti gætt réttinda sinna í daglegu lífi. Sú leið hefur verið valin að setja á fót sérstaka stofnun, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem er ætlað það hlutverk að veita þeim sem við þessa fötlun stríða þá þjónustu sem hér um ræðir. Hvorki í lögum né í reglugerð, sem um þá starfsemi gildir, hefur þó verið skilgreint hver þessi lágmarksþjónusta eigi að vera. Það er því í raun lagt í hendur stofnunarinnar að afmarka þennan rétt við afgreiðslu beiðna um endurgjaldslausa túlkaþjónustu.

       Í máli þessu liggur fyrir að þær fjárheimildir, sem ætlaðar voru til þess að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu, náðu ekki að mæta beinni eftirspurn eftir henni árið 2014. Að mati forstöðumanns Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur fjárveiting undanfarinna ára jafnframt dugað skammt til að mæta raunverulegri þörf heyrnarlausra fyrir slíka þjónustu, m.a. í tengslum við atvinnuþátttöku þeirra. Þá liggur fyrir að þessi takmarkaða fjárveiting náði að jafnaði aðeins að greiða kostnað af um það bil einnar klukkustundar túlkaþjónustu á mánuði hjá hverjum notanda. Allar líkur eru á því að sú lágmarksaðstoð, sem notendur þessarar þjónustu áttu stjórnarskrárvarinn rétt til á árinu 2014, hafi verið meiri en þessi takmarkaða fjárveiting gat tryggt. Eins og reglur um þessa þjónustu eru úr garði gerðar lágu heldur ekki fyrir viðmiðanir um hver þessi lágmarksaðstoð ætti að vera. Brugðist hefur verið við því með því að samþykkja umsóknir sem berast, án sérstakrar forgangsröðunar, uns fjárveitingin hefur klárast. Þetta hefur ítrekað valdið því að þeir sem sækja um þessi takmörkuðu gæði fá endurgjaldslausa túlkaþjónustu framan af rekstrarári stofnunarinnar, en þeim sem eru í jafn mikilli eða meiri þörf fyrir síka þjónustu seint á árinu er hafnað. Átti það meðal annars við um árið 2014 eins og svör við beiðni stefnanda um aðstoð bera með sér.

       Sú tilhögun sem hér hefur verið lýst gerir það að verkum að mörk milli stjórnarskrárvarinnar lágmarksþjónustu til félagslegrar aðstoðar, sem rétt er að veita án endurgjalds og á jafnræðisgrundvelli, og annarrar þjónustu á þessu sviði, sem heimilt er að veita gegn gjaldi, eru ekki virt við afgreiðslu á beiðnum um endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Þá er hún til þess fallin að mismuna notendum eftir því hvenær þeir þurfa á þjónustu táknmálstúlks að halda á árinu, en það samrýmist ekki almennri jafnræðisreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Að teknu tilliti til skyldu stefnda, íslenska ríkisins, til þess að setja reglur, sem skilgreina rétt fatlaðs fólks, sem glíma meðal annars við samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, til viðhlítandi aðstoðar táknmálstúlka, verður stefndi að bera hallann af óvissu um það hvorum megin hryggjar þær beiðnir, sem liggja til grundvallar kröfugerð stefnanda, hefðu átt að lenda. Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið verður á það fallist að með því að hafna þeim hafi verið brotið á stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til lágmarksaðstoðar að þessu leyti samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Gengur þessi réttur framar fyrirmælum fjárlaga um greiðslu framlaga til endurgjaldslausrar táknmálstúlkunar.

 

4. Fjárkrafa stefnanda

       Stefnandi gerir þá kröfu að hún fái endurgreidd gjöld sem hún greiddi stefnda, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, í tvö skipti vegna táknmálstúlkunar, samtals 50.670 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda ber stjórnvöldum, sem innheimta skatta og gjöld, að endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. laganna. Í ljósi þess sem að framan greinir er á það fallist að stefnandi hafi ofgreitt fyrir þá þjónustu sem um ræðir í ljósi stjórnarskrárvarins réttar hennar til þess að njóta lágmarksaðstoðar að þessu leyti á jafnréttisgrundvelli og án tillits til efnahags.

       Ágreiningslaust er að krafa stefnanda um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 samrýmist fyrirmælum 1. mgr. 2. mgr. laga nr. 29/1995. Á þá kröfu er fallist eins og í dómsorði greinir. Stefnandi lagði fram kröfu um endurgreiðslu með málshöfðun þessari. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 ber að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma og verður á þá kröfu fallist.

       Stefnandi gerir einnig kröfu um miskabætur. Eins og sú krafa er rökstudd er hún ekki bundin við þau tvö tilvik sem að framan greinir. Vegna fötlunar stefnanda er aðstoð túlks nauðsynleg til þess að hún geti átt í samskiptum við fólk sem ekki kann snertitáknmál. Slík þjónusta stuðlar einnig að því að hún geti skynjað það sem fram fer í kringum hana og tekið virkan þátt í samfélagi manna. Með því að vanrækja að setja reglur og byggja upp kerfi, sem miðar að því að tryggja einstaklingum með þá fötlun, sem stefnandi glímir við, viðhlítandi aðstoð að þessu leyti á jafnræðisgrundvelli í samræmi við kröfur 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, er dregið úr lífsgæðum hennar og stuðlað að aukinni félagslegri einangrun. Það felur í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda sem bakar aðalstefndu skyldu til að greiða henni miskabætur á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Á hitt ber að líta að um almenna vanrækslu er að ræða sem beindist ekki að stefnanda sérstaklega. Jafnframt verður að taka tillit til þess að vanrækslan lýtur að því að tryggja ekki með viðhlítandi hætti lágmarksaðstoð á þessu sviði sem gengur skemur en þær kröfur sem stefnandi hefur haft uppi, m.a. gagnvart varastefnda. Í þessu ljósi þykja miskabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. niðurlag 4. mgr. 5. gr. sömu laga, ber þessi krafa dráttarvexti frá því mánuður var liðinn frá höfðun málsins, eða frá 28. febrúar 2015.

       Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins 3. mars 2015. Þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Páls Rúnars M. Kristjánssonar hdl., sem þykir í ljósi umfangs málsins og aðstæðna, m.a. þar sem samskipti við stefnanda hafa verið tímafrek vegna fötlunar hennar þar sem ekki túlkur var ekki viðstaddur, hæfilega ákveðin 2.480.000 krónur.

       Í ljósi framangreindrar niðurstöðu koma kröfur stefnanda á hendur varastefnda og röksemdir um réttmæti þeirra ekki til álita. Þykir rétt að málskostnaður milli þessara aðila falli niður.

       Af hálfu stefnanda flutti málið Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir hdl. v. Páls Rúnars M. Kristjánssonar hdl. Af hálfu aðalstefndu flutti málið Óskar Thorarensen hrl. og af hálfu varastefnda flutti málið Ebba Schram hdl.

       Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                      D Ó M S O R Ð :

       Kröfuliðum 1 og 2 á hendur aðalstefndu, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkinu, er vísað frá dómi. Kröfulið 1 á hendur varastefnda, Reykjavíkurborg, er einnig vísað frá dómi.

       Aðalstefndu greiði stefnanda, Snædísi Rán Hjartardóttur, 550.670 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 40.536 krónum frá 19. nóvember 2014 til 23. nóvember 2014, en af 50.670 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 550.670 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

       Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Páls Rúnars M. Kristjánssonar hdl., 2.480.000 krónur.

 

                                                     Ásmundur Helgason (sign.)