• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Loftferðaöryggi
  • Tilraun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 3. apríl 2019 í máli nr. S-600/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

X og

(Páll Bergþórsson lögmaður)

Y

(Auður Tinna Aðalbjarnardóttir lögmaður)

 

 

            Mál þetta sem dómtekið var 6. mars sl. var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 4. október 2018 á hendur X, kennitala [...], Sjafnargötu 10, Reykjavík, og Y, kennitala [...], [...], [...], fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um loftferðir að morgni fimmtudagsins 26. maí 2016, með því að hafa í félagi, um borð í flugvélinni [...], sem stóð tilbúin til flugtaks fyrir flug [...] til Stokkhólms, á stæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar staðið upp, hrópað og kallað yfir farþega og flugverja að lögregla væri að flytja mann sem var um borð í vélinni, A, ólöglega úr landi og hvatt aðra farþega til að standa upp og hlýða ekki fyrirmælum flugverja, í þeim tilgangi að tefja flugtak vélarinnar þannig að A yrði færður úr flugvélinni áður en til flugtaks kæmi. Ákærðu dreifðu skömmu áður, í sama tilgangi, einblöðungi sama efnis meðal farþega, fóru ekki að fyrirmælum flugverja um að láta af háttseminni og létu ekki af henni fyrr en þær voru handteknar af lögreglumönnum sem kallaðir höfðu verið til aðstoðar. Með háttsemi sinni reyndu ákærðu að tálma því að lögreglumennirnir B og C, sem höfðu þá skyldu að framfylgja ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun A, gætu gegnt starfanum, og röskuðu öryggi flugvélarinnar.

            Telst háttsemi ákærðu varða við 2. mgr. 106. gr., sbr. 20. gr., og 168. gr., til vara 176. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og 3. mgr. 42. gr., sbr. 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998.

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdar til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Verjendur ákærðu krefjast þess að ákærðu verði sýknaðar og allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

Málsatvik

            Þann 20. júní 2016 kærði Icelandair ehf. ákærðu til lögreglu fyrir háttsemi sína í loftfari félagsins í tengslum við flug nr. [...] þann 26. maí sama ár. Í kærunni er því lýst að ákærðu hafi sýnt af sér ósæmilega og ógnandi hegðun í tengslum við flugið sem hafi átt að fara frá Keflavík til Stokkhólms. Farþegi sem hafi átt að flytja til Stokkhólms í lögreglufylgd hafi komið í flugstöðina um kl. 6:50. Hann hafi verið með mikil læti og lögreglumennirnir sem hafi fylgt honum hafi þurft að yfirbuga hann. Síðan hafi birst hópur um tíu einstaklinga með stóran fána, svartan og hvítan. Hópurinn hafi haft meðferðis gjallarhorn og mótmælt flutningnum á manninum. Gjallarhornið hafi verið tekið af þeim, en hópurinn hafi áfram verið nálægt manninum og hrópað til hans. Starfsfólki kæranda hafi verið mjög brugðið við þetta atvik.

            Skömmu síðar hafi byrðingu í flugið lokið en ákærðu hafi þá farið að vera með hávaða um borð, grípa til áhafnarmeðlima og kallað til annara farþega. Til að mynda hafi þær haldið því fram að verið væri að flytja mann ólöglega úr landi og aðrir farþegar hafi verið hvattir til að standa upp í mótmælaskyni. Lögregla hafi verið kölluð til og ákærðu fjarlægðar úr loftfarinu. Ákærðu hafi barist gegn lögreglu þegar þær hafi verið bornar út og hafi reynt að grípa í aðra farþega og stólbök. Þá hafi þær fullyrt að fleiri farþegar væru um borð sem myndu hefja sambærileg mótmæli þegar vélin væri komin í loftið. Þetta virðist einungis hafa verið gert til þess að valda usla og vekja upp hræðslu hjá áhöfn og farþegum.

            Þennan morgun barst tilkynning á lögreglustöðina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að mikið ástand væri um borð í flugvélinni [...] á stæði 55, sem er utan byggingar flugstöðvarinnar. Samkvæmt skýrslu lögreglu bárust tilkynningar bæði frá flugstjóra og áhöfn flugvélarinnar, starfsfólki á flughlaði og lögreglumönnum um borð sem voru þar við skyldustörf. Aðdragandi atviksins var sá að mótmælendur mættu í flugstöðina kl. 6:42 og mótmæltu brottvísun manns að nafni A. Tilkynnt var að mótmælendur hefðu komið sér fyrir um borð í flugvélinni, sem var að verða tilbúin til brottfarar til Svíþjóðar, og var óskað tafarlausrar aðstoðar. Lögreglumönnum var vísað upp flugvélastigann að flugvélinni þar sem sjá mátti að mikið var í gangi. Öskur og læti bárust frá flugvélinni sem var full af farþegum. Flugfreyja benti lögreglu á ákærðu Y sem óskað var eftir að yrði fjarlægð tafarlaust. Lögregla skipaði henni að koma strax en hún streittist á móti og var lögreglutökum beitt til að fá hana út úr flugvélinni. Ákærða var færð á magann efst í flugvélarstiganum og færð í handjárn. Hún streittist mikið á móti lögreglu, bæði á leiðinni út úr flugvélinni, við handtökuna og þegar hún var flutt fyrir utan lögreglubifreiðina. Hún fór ekki að fyrirmælum lögreglu um að róa sig og að hætta að streitast á móti, meðal annars sparka. Samkvæmt skýrslu lögreglu var hún óviðræðuhæf og hafi verið látin sitja á malbikinu þar sem hún hafi verið vöktuð. Ekki var ljóst á þessari stundu hversu margir mótmælendur voru í flugvélinni og lögreglumaðurinn sem handtók ákærðu Y fór aftur inn í flugvélina. Þar voru nokkrir lögreglumenn með ákærðu X í tökum. Hún náði að bera fyrir sig hendurnar og var því færð í gólfið á flugvélarstiganum og sett í handjárn. Hún streittist mikið á móti og þurfti að beita hana töluverðu valdi til að ná höndunum fyrir aftan bak. Hún blóðgaðist lítillega við handtökuna en vegna ástandsins á henni var ekki hægt að kanna það nánar. Ákærðu var haldið í lögreglutökum um stund til að tryggja öryggi lögreglumanna, en ákærða sparkaði í átt að lögreglumönnum og gerði sig líklega til að skalla þá. Óskað var eftir frekari aðstoð lögreglu. Rætt var við flugáhöfnina til að tryggja að ekki væru fleiri mótmælendur um borð sem ógnuðu öryggi flugfarsins. Farið var yfir farþegalistann en að því loknu fékk flugvélin að halda áfram leiðar sinnar.

            Lögregla ræddi við yfirflugfreyju sem sagði ákærðu hafa verið með læti og skapað mikið óvissuástand í flugvélinni á meðal farþega. Þær hafi verið að kalla og dreifa áróðursmiðum til að koma í veg fyrir að A yrði fluttur á brott. Þær hafi hvatt aðra farþega til að óhlýðnast áhöfninni. Lögreglumenn frá alþjóðadeild og sérsveit ríkislögreglustjóra voru um borð í flugvélinni að flytja A. Bókað hafi verið hjá lögreglu að annar þeirra hafi hringt og sagt að tvær konur í flugvélinni væru staðnar upp með yfirlýsingar og hávaða. Þær hafi dreift miðum þar sem farþegar hafi verið hvattir til að hlýða ekki áhöfninni, vera ekki með sætisbelti o.s.frv. þannig að ekki væri mögulegt að taka á loft.

            Lögregla fékk afrit af áróðursmiðum ákærðu. Þær tilheyra hópi sem kallar sig No Borders sem er sami hópur og stóð að mótmælum í flugstöðinni fyrr um morguninn. Við skoðun á málinu kom í ljós að ákærðu voru með farmiða í flugið, sem grunur lék á að þær hefðu keypt kvöldið áður, og voru með vegabréf sín með sér.

            Í skýrslu lögreglumanna sem fluttu A umræddan dag, um atburði í flugvélinni, kemur fram að þeir hafi farið fyrstir um borð í flugvélina að aftan og sest í öftustu sætaröð. A hafi verið í flutningsbelti. Rætt hefði verið við flugstjórann og honum sagt frá atvikum í brottfararsal. Hann hafi verið upplýstur um að að A væri ósáttur en rólegur. Meðan beðið hafi verið eftir að farþegar settust hafi flugfreyja komið og greint frá því að margir farþegar væru með einblöðung með mynd af A sem á stæði að farþegar ættu að standa á fætur til að hindra að flugvélin kæmist á loft þar sem verið væri að flytja hann til Svíþjóðar og þaðan til M, þar sem hann ætti á hættu að vera drepinn. Óskað hafi verið eftir því við flugfreyjurnar að ná í þessa einblöðunga en margir farþegar hafi neitað að afhenda þá. Fram hafi komið hjá farþegunum að einblöðungarnir hafi verið afhentir áður en þau komu um borð í flugvélina. Þegar allir farþegar hafi verið sestir og búið að loka dyrum flugvélarinnar hafi þetta verið tilkynnt lögreglu í flugstöðinni. Um sama leyti hafi ákærðu staðið upp og byrjað að hrópa á enskri tungu á farþegana að standa á fætur til að hindra að flugvélin kæmist í loftið. Við þessi mótmæli hafi A spennst upp. Annar lögreglumaðurinn hafi því séð um hann en hinn farið til flugfreyjanna sem hafi verið hjá ákærðu að segja þeim að láta af hegðun sinni. Farþegarnir í kringum þær hafi verið orðnir mjög skelkaðir. Einn þeirra hafi staðið upp og farið að draga aðra ákærðu í burtu og segja henni að hætta. Flugfreyja hafi róað farþegann og sagt að lögregla væri um borð sem sæi um þetta. Einn af flugmönnunum hafi komið fram og sagt að flugstjórinn hafi sent út neyðarkall. Hann vildi fá ákærðu fjarlægðar úr flugvélinni. Lögregla hafi fært aðra ákærðu að dyrum flugvélarinnar og beðið þar eftir aðstoð. Tveir starfsmenn IGS hafi komið um borð í flugvélina og tekið sér stöðu hjá hinni ákærðu til að koma jafnvægi á ástandið. Ákærðu hafi þó haldið áfram að hrópa. Þegar lögreglan hafi komið hafi þær verið fjarlægðar úr flugvélinni en þær hafi streist mikið á móti. Þegar búið hafi verið að loka aftur dyrum flugvélarinnar hafi það tekið töluverðan tíma að róa farþegana. Flugferðin hafi svo gengið áfallalaust fyrir sig.

            Samkvæmt skýrslu Icelandair um atvikið kom í ljós að ákærðu hefðu keypt flugmiða kvöldið áður. Farþegalistinn hafi verið kannaður en enginn annar hefði keypt miða daginn áður. Atvikið hafi verið flokkað hjá öryggisdeild sem 3. stigs atvik þar sem skilja hefði mátt þetta sem dulbúna ógn. Hegðun áhafnarinnar hefði verið í samræmi við málsmeðferðarreglur.

            Meðal gagna málsins eru myndupptökur úr flugvélinni og flugstöðinni.

 

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi

            Ákærða X kvaðst telja að hún hefði ekki brotið nein lög með háttsemi sinni. Hún hefði fylgt lögum með því að standa vörð um líf annarra. Hún hefði ekki beitt neinn ofbeldi og ekki óhlýðnast fyrirmælum neins sem væri til þess bær að gefa henni þau. Hún greindi frá því að þær meðákærða hefðu farið um borð í flugvél þar sem þær hefðu vitað að A, flóttamaður frá M, yrði. Þær hefðu hins vegar ekki vitað að hann væri í lögreglufylgd. Eftir að hún hefði verið borin burt hefði hún séð lögreglumann sem hún hefði hitt daginn áður þegar hún hefði farið á lögreglustöðina og mótmælt og fundað með A. Hún hefði ekki þekkt verklag lögreglu um að fylgja mönnum úr landi. Daginn áður hefði ákærði verið handtekinn og efnt hefði verið til mótmæla fyrir utan innanríkisráðuneytið og lögreglustöðina. Þær meðákærða hefðu keypt sér flugmiða daginn áður. Þær hefðu trúað því að A væri í raunverulegri lífshættu yrði hann sendur til baka. Þær hefðu því staðið upp í flugvélinni og ávarpað farþega. Hún hefði talað háum rómi til að reyna að ná til sem flestra raða um borð. Þær hefðu beðið farþega um að sýna samstöðu með A í þeirri von að hann yrði færður frá borði. Hún hefði einnig verið með blað sem hún hefði dreift á meðal farþega í kringum sig. Þar hefði staðið það sama og þær meðákærða hefðu verið að segja. Fólk hefði verið beðið um að sýna samstöðu með því að spenna ekki beltin. Þær hefðu viljað ná til flugstjórans því hann hefði vald til að vísa fólki frá borði. Hún hefði verið aftar í flugvélinni en meðákærða framar. Hún mundi ekki eftir fyrirmælum flugverja og hefði ekki séð ástæðu til að láta af hegðun sinni og setjast niður. Flugfreyjur hefðu farið að toga í þær og ýta. Farþegi hefði líka togað í hana. Hún hefði dottið og gripið í sæti. Hún hefði svo verið borin niður ganginn. Hefði ekki ætlað sér að láta koma til handalögmála og gætt þess að setja hendur niður með síðum. Hún hefði ekki tekið þær upp nema til að verjast falli og halda sér. Hún hefði reynt að halda sér í til að vera ekki borin úr flugvélinni þar sem hún hefði ekki viljað fara út án A. Hún hefði krækt handlegg í járn á flugvélarsæti en lögreglumaður hefði losað hana og borið út. Á leiðinni út hefði hún náð að setja fót í hurðarfalsið. Hún hefði meitt sig í þessum átökum og æpt af kvölum. Hún hefði svo setið róleg á malbikinu í járnum. Lögreglan hefði beitt hana ofbeldi og ekki gert henni grein fyrir því fyrir hvað hún hefði verið handtekin. Hún kvaðst ekki hafa séð mikið af handtöku meðákærðu, en taldi að hún hefði verið mjög róleg og ekki veitt neina mótspyrnu. Ákærða staðfesti að það heyrðist í henni á myndbandi frá atvikinu í flugvélinni, sem er á meðal gagna málsins, og jafnframt bar hún kennsl á rödd meðákærðu.

            Ákærða Y lýsti því að allar aðgerðir þeirra meðákærðu hefðu verið friðsamlegar og engin lög brotin með þeim. Þær hefðu talið líf vinar síns í hættu og viljað vekja athygli á því. Brottvísun hans hefði að þeirra mati verið ólögmæt og þær hefðu talið réttmætt að vekja athygli á því. Þær hefðu því keypt miða í flug sem þær töldu hann verða í til að sýna honum samstöðu og vekja athygli á máli hans. Þær hefðu sammælst um að standa upp og greina frá málinu. Þær hefðu vitað að A væri um borð en ekki vitað hvernig staðið væri að brottvísun hans að öðru leyti en að hann færi í lögreglufylgd á flugvöllinn og að hann hefði verið handtekinn kvöldið áður. Þeim hefði þó ekki dottið í hug að tala við hann og athuga hvort hann gæti gengið með þeim frá borði. Þær hefðu útbúið miða til dreifingar með mynd af A og upplýsingum til farþega. Meðákærða hefði dreift miðunum rétt áður en hún hefði byrjað að tala og á meðan. Þær hefðu mætt snemma á flugvöllinn en seinkun hefði orðið á fluginu. Hún hefði sest í sætaröð 11 og beðið eftir því að farþegar kæmu sér fyrir. Þegar enn hefði verið að koma fyrir farangri og hurðin hefði verið opin hefði meðákærða staðið upp. Hún hefði sjálf staðið upp skömmu síðar. Hún hefði tekið upp á myndband það sem meðákærða hefði sagt en hún hefði verið tekin niður skömmu síðar af flugfreyju og einhverjum öðrum. Meðákærða hefði verið dregin eftir ganginum og reynt að halda sér í stólfót og haldið áfram að tala á meðan. Hún hefði þá sjálf farið að tala á ensku. Hún hefði sagt farþegum að þetta væri ólögmæt brottvísun og beðið þá um að standa upp. Þær hefðu talið að A myndi ganga frá borði ef fólk sýndi honum samstöðu. Hún taldi einhvern flugliða hafa ávarpað hana en hún hefði ekki hlustað þar sem hún hefði verið upptekin við að tala. Henni hefðu örugglega verið gefin fyrirmæli um að hætta eða setjast. Hún kannaðist ekki við að þær hefðu sagt að fleiri í vélinni myndu mótmæla. Lögreglumenn hefðu fljótlega komið um borð og gripið í hana báðum megin. Hún hefði verið færð í handjárn og flutt út. Þær meðákærða hefðu svo verið fluttar í fangaklefa á Suðurnesjum og svo færðar til skýrslutöku þar sem sakarefnið hefði verið annað en ákært væri fyrir.

            Vitnið B lögreglumaður var annar þeirra lögreglumanna sem flutti A til Svíþjóðar. Hann sagði A hafa verið neitað um hæli hér á landi og hafa verið fluttan til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þeir hefðu fengið það hlutverk að framfylgja ákvörðun Útlendingastofnunar. A hefði verið handtekinn daginn áður og vistaður yfir nóttina. Hann hefði fyrst fengið að fara og hitta vin sinn. Síðan hefði hann fengið lögmann sinn til sín og unnustu, ákærðu X. Lögmanni A hefði verið greint frá því með hvaða flugi hann færi. Hann hefði verið sóttur um morguninn og allt hefði verið eðlilegt. Þeir hefðu fengið fregnir af hugsanlegum mótmælum á leiðinni og þegar þeir hefðu komið með A í flugstöðina hefði verið þar hópur af fólki með borða með áletruninni No Border. A hefði reynt að stíga fram og þeir hefðu þurft að yfirbuga hann með aðstoð lögreglu á flugvellinum. Flugvélin hefði staðið úti á plani og þeir hefðu farið fyrstir um borð. Þeir hefðu rætt við flugstjórann og síðan sest aftast. A hefði verið í flutningsbelti. Flugfreyja hefði komið til þeirra með einblöðung sem dreift hefði verið til farþega. Þegar vélinni hefði verið lokað hefðu tvær konur staðið upp. Önnur hefði verið á ganginum en hin framar á milli tveggja farþega. Þær hefðu farið að hrópa og beðið farþega um að standa upp svo vélin færi ekki í loftið. Óróleiki hefði verið í fólkinu í kringum þær. A hefði æst upp en hinn lögreglumaðurinn hefði náð að róa hann. Flugfreyjurnar hefðu staðið sig vel og beðið ákærðu um að láta af háttsemi sinni. Hann hefði farið til flugfreyju sem hefði staðið hjá ákærðu X og þau hefðu beðið hana um að hætta. Flugmaður hefði svo komið úr flugstjórnarklefanum og óskað þess að ákærðu yrðu fjarlægðar úr vélinni. Aðrir farþegar hefðu verið órólegir og hræddir og einn hefði togað í ákærðu X og sagt henni að hætta. Hann hefði fært ákærðu að dyrunum og þurft að halda henni niðri meðan beðið var eftir aðstoð. Hún hefði haldið hrópum sínum áfram. Fyrst hefðu tveir starfsmenn Isavia komið um borð og farið til ákærðu Y. Svo hefði komið liðsauki frá lögreglunni á flugvellinum og ákærðu verið fjarlægðar. Eftir það hefði farþegalistinn verið yfirfarinn og kannað hvort fleiri hefðu keypt flug á síðustu stundu. Svo hefði þurft að róa farþegana, sérstaklega þá sem hefðu setið nálægt ákærðu Y, og fullvissa þá um að ekki væru fleiri mótmælendur um borð. Það hefði tekið þó nokkra stund. Ferðin hefði svo gengið vel og sænska lögreglan tekið við A. Vitnið taldi þó nokkra hættu hafa skapast vegna háttsemi ákærðu. Það fari misvel í fólk að fljúga og mikil hræðsla hefði skapast meðal farþega. Hann hefði haft áhyggjur af ákærðu X þar sem farþeginn sem hefði togað í hana hefði verið mjög hræddur. Hann taldi tafir á fluginu af þessum sökum gætu hafa verið um 30-45 mínútur.

            Vitnið C lögreglumaður flutti A ásamt B. Hann kvað þá hafa þurft að handjárna A vegna átakanna í brottfararsalnum. Þeir hefðu svo farið fyrstir um borð í flugvélina. Hann hefði setið við hlið A allan tímann og haft það hlutverk að tryggja öryggi hans. Flugfreyja hefði komið til þeirra og greint frá einblöðungi með mynd af A. Skömmu síðar hefðu ákærðu staðið upp og verið með öskur og læti. A hefði líka farið að öskra og hann hefði þurft að fylgjast með honum. Hann hefði þó staðið upp í sætinu og séð hvað var um að vera. Ákærðu hefðu beðið fólk um að standa upp til að stöðva för vélarinnar. Þær hefðu greint frá því að verið væri að senda mann í hættu. Lætin hefðu aukist þegar aðstoð lögreglumanna barst. Aðrir farþegar hefðu verið andsnúnir aðgerðum ákærðu. Mikil óvissa hefði myndast. Áhöfn flugvélarinnar hefði farið til ákærðu og reynt að fá þær til að hætta. Eftir að ákærðu hefðu verið fjarlægðar hefði verið rætt við alla farþega um öryggi og athugað hvort allir væru tilbúnir að fara í flug eftir þessa atburði. Vitnið taldi að búið hefði verið að loka flugvélinni en stiginn hefði enn verið við vélina.

            Vitnið D lögreglumaður kvaðst hafa verið á aukavakt í flugstöðinni. Hann hefði aðstoðað við að flytja A í flugstöðina. Síðan hefðu komið nokkrar tilkynningar um ástand í flugvélinni bæði frá áhöfninni og lögreglunni. Þeir hefðu ekið út að flugvél og hann hefði farið fyrstur inn. Það hefði verið fólk út um allt, hávaði og læti og flugfreyjur hefðu átt í basli með einhverja aðila. Þeir hefðu tekið aðra ákærðu í lögreglutök. Hún hefði barist um og engu hlýtt. Gæta hefði þurft öryggis annarra farþega. Margir þeirra hefðu verið í uppnámi. Ákærðu hefðu ekki verið viðræðuhæfar. Eftir að þær hefðu verið teknar hefði hann aðstoðað við að fara yfir farþegalistann til þess að leita að því hvort fleiri mótmælendur væru í vélinni. Hann hefði heyrt frá öðrum lögreglumönnum að ákærðu hefðu sagt fleiri mótmælendur vera í vélinni. Svo hefði ekki reynst vera.

            Vitnið E yfirflugfreyja greindi frá því að áhöfnin hefði verið að ganga frá öllu fyrir flugtak. Ekki væri hægt að loka fyrr en allir hefðu tekið sæti og hólfum væri lokað. Hún hefði verið við dyr við sætaröð 9. Önnur ákærðu, sem hefði verið rétt hjá henni, hefði ekki viljað taka sér sæti. Hún hefði látið vita af þessu í flugstjórnarklefanum. Ákærða hefði haldið ræðu á ensku og verið með mikil læti. Þetta hefði snúist um að koma í veg fyrir að farið væri með flóttamann sem væri í vélinni. Hún hefði sagt ákærðu að fá sér sæti þar sem henni yrði annars vísað úr vélinni. Hún hefði ekki hlýtt. Þetta hefði verið mjög erfið uppákoma. Hún hefði ekki talið hættu á ferð en óöryggi hefði myndast. Það hefði verið átakanlegt að horfa á handtöku ákærðu. Ákærða X hefði streist meira á móti og verið dregin úr vélinni. Farþegarnir hefðu margir verið að koma frá Bandaríkjunum. Þeir hefðu verið þreyttir, hissa og skelkaðir og ekki skilið hvað væri að gerast. Fólk hefði verið í uppnámi lengi á eftir. Hún taldi að einhverjar tafir hefðu orðið á fluginu, um einn til þrír tímar. Hún hefði komið seint heim þetta kvöld. Eftir komuna til baka frá Stokkhólmi hefði verið haldinn fundur með áhöfninni þar sem atvikið var rætt. Ef eitthvað þessu líkt kæmi upp aftur myndi áhöfnin ekki halda áfram. Hún myndi sjálf ekki vilja halda áfram enda væri það ákveðið áfall að lenda í þessu.

            Vitnið F flugfreyja kvaðst hafa orðið vör við dreifingu einblöðungs um borð í flugvélinni. Hún hefði stöðvað dreifinguna og farið með eintak til lögreglunnar aftast í vélinni. Það hefði verið langt liðið á byrðinguna þegar ákærðu hefðu staðið upp og talað um flóttamanninn um borð. Þær hefðu verið beðnar um að setjast niður en hefðu ekki hlýtt. Þær hefðu alveg orðið varar við fyrirmælin enda hefðu allar flugfreyjurnar verið búnar að fara upp að þeim. Engir farþegar hefðu staðið upp með þeim en þær hefðu þó haldið stanslaust áfram. Þriðji flugmaðurinn í vélinni hefði komið aftur í til að aðstoða. Eftir atvikið hefðu farþegar óttast að fleiri myndu standa upp þegar þau væru komin í loftið. Mikil hræðsla og óöryggi hefði gripið um sig, einkum hjá þeim sem hefðu verið nálægt ákærðu. Lögreglan hefði komist að því að einungis ákærðu hefðu keypt miða á síðustu stundu. Þetta hefði verið undarleg upplifun. Hún hefði ekki upplifað hættuástand en það hefðu verið læti og óróleiki. Hún myndi treysta sér til að halda áfram flugi eftir svona atvik ef búið væri að tryggja að ekki væru fleiri þátttakendur um borð. Einhverjar tafir hefðu orðið á fluginu vegna þessa.

            Vitnið G flugfreyja kvaðst hafa tekið eftir því að búið hefði verið að dreifa miðum í flugvélinni. Svo hefði önnur ákærðu staðið upp og farið með ræðu um að verið væri að flytja mann ólöglega úr landi. Hún hefði hrópað þetta og beðið alla um að taka þátt með sér. Hún hefði sagt það sama aftur og aftur. Hún hefði verið beðin um að setjast niður en ekki hlýtt því. Myndast hefði múgæsingur meðal farþeganna. Maður fyrir framan ákærðu X hefði viljað hjálpa flugfreyjunum og hefði tekið ákærðu niður. Ákærða hefði barist á móti og lent í gólfinu. Vitnið sagði að það hefði verið mjög erfitt að lenda í þessu en þetta hefði verið eitt af hennar fyrstu flugum í starfi. Viðbrögð áhafnarinnar hefðu verið rétt. Eftir þetta hefði þurft að spyrja farþegana hvort þeir væru tilbúnir til að halda áfram. Allir hefðu verið órólegir og það hefði þurft að tryggja að ekki væru fleiri mótmælendur í fluginu. Einhverra klukkustunda töf hefði orðið á fluginu. Flugið hefði svo gengið vel en verið óþægilegt. Eftir heimkomuna hefðu allir hist og rætt atburðinn og viðbrögð við honum.

            Vitnið H flugfreyja kvaðst hafa verið staðsett á Saga Class í fluginu. Hún hefði heyrt að eitthvað væri um að vera aftur í flugvélinni. Það hefðu borist köll og farþegar verið órólegir og farnir að snúa sér við. Einhver hefði ætlað að fara að taka upp myndband. Önnur flugfreyja hefði komið fram og sýnt þeim miða sem verið væri að dreifa um flugvélina. Hún hefði aðallega hugsað um að halda farþegum á sínu svæði rólegum en aðeins farið aftur fyrir. Hún hefði heyrt að ákærðu töluðu ensku. Sú sem hefði verið framar hefði talað um að bróðir flóttamannsins hefði verið myrtur og hefði beðið fólk um að standa upp í samstöðu. Flugfreyja hefði sagt ákærðu að setjast niður en hún hefði ekki gert það heldur haldið áfram að kalla. Flugfreyjurnar hefðu illa ráðið við aðstæður. Þriðji flugmaðurinn hefði því farið aftur í og lögregla verið kölluð til. Hleypt hefði verið inn í flugvélina bæði í miðju og aftast. Stundum væri aftari hurðinni lokað á undan þótt byrðingu væri ekki lokið og ennþá opið að framan. Það hefði tekið verulega á að lenda í þessu í upphafi dags. Farþegarnir hefðu verið mjög skelkaðir eftir þetta. Þurft hefði að tryggja öryggi þeirra eftir að ákærðu hefðu verið færðar frá borði. Einhverjar tafir hefðu orðið, hugsanlega um tveir til þrír tímar.

            Vitnið H flugstjóri kvaðst hafa fengið upplýsingar um að verið væri að flytja hælisleitanda í fluginu. Honum hefði verið greint frá því að ólæti hefðu verið í flugstöðinni en hann væri rólegur og yrði í járnum. Þetta flug hefði verið þjálfunarflug fyrir nýjan flugmann og því hefðu þeir verið þrír í flugstjórnarklefanum. Rétt fyrir flugtak hefði flugfreyja komið og sagt þeim frá mótmælum í flugvélinni. Þar sem þeir hefðu verið þrír hefði einn getað farið aftur í. Þeir hefðu kallað til lögreglu og hún hefði brugðist mjög skjótt við. Flugstjórnarklefanum hefði verið læst. Hann hefði einungis vitað að það væru mótmæli í vélinni, hávaði og fólk hefði neitað að setjast. Starfsfólki og farþegum hefði ekki liðið vel eftir að búið hefði verið að fjarlægja ákærðu. Þau hefðu þurft að komast að því hvort hætta væri á að eitthvað fleira gerðist. Farþegalistinn hefði verið grandskoðaður og komið hefði í ljós að einungis ákærðu hefðu keypt flugmiða kvöldið áður. Hann hefði tilkynnt farþegum í gegnum kallkerfið að búið væri að tryggja að þetta gerðist ekki aftur. Áhöfnin hefði verið sammála um að rétt væri að ganga á milli farþega og ræða við þá. Drjúgur tími hefði farið í þetta. Ákveðið hefði verið að klára ferðina án þess að kalla til nýja áhöfn. Flugfreyjunum hefði þó ekki liðið vel. Óvissuástand hefði skapast sem áhöfnin réð ekki við. Enginn hefði vitað hve margir mótmælendur væru í flugvélinni. Óöryggi hefði myndast og hann hefði því haft samband við öryggisfulltrúa.

            Vitnið I flugmaður kvað flugfreyju hafa komið og sagt eitthvað undarlegt í gangi í byrðingu. Einhverju hefði verið dreift meðal farþeganna. Þeir hefðu vitað að hælisleitandi væri um borð en ekki sett þetta í samhengi strax. Hann hefði svo farið aftur í. Ákærðu hefðu verið að hrópa til farþega og biðja þá um að standa eða setja borðin sín niður til að hindra að vélin færi af stað. Farþegi sem ekki hefði verið sáttur við þetta hefði skorist í leikinn og lögregluþjónn dregist inn í það. Það hefði tekið tíma og hörku að taka aftari konuna en gengið vel að taka hina. Hann hefði farið til flugstjórans og greint frá því að það þyrfti að kalla til lögreglu. Lögreglan hefði komið fljótt. Þar sem ákærðu hefðu ekki verið tilbúnar til að fylgja öryggisreglum hefði þurft að fjarlægja þær. Þær hefðu ítrekað verið beðnar um að fylgja reglum en ekki hlýtt því. Öryggi í vélinni hefði því verið raskað. Ekki hefði verið hægt að loka hurðinni og fara af stæði. Þær hefðu því komið í veg fyrir að fólk gæti sinnt starfinu sínu. Flugfreyjurnar hefðu greint honum frá því að ákærðu hefðu sagt að fleiri mótmælendur væru um borð. Því hefði ekki verið talið óhætt að fara nema tryggja að þetta gæti ekki gerst aftur þegar í loftið væri komið. Þau hefðu beðið meðan rannsakað var hvort fleiri gætu verið um borð. Þegar komið hefði í ljós að einungis ákærðu hefðu keypt miða kvöldið áður hefði verið tekin ákvörðun um að fara. Andrúmsloftið hefði ekki verið gott meðal farþega og áhafnar. Þau hefðu upplifað ótta og óþægindi. Aðstæður hefðu ekki verið góðar til að fljúga og hann hefði sjálfur ekki farið hefði ákvörðunin verið hans. Hann taldi að tafir á fluginu vegna þessa hefðu verið um tvær klukkustundir.

            Vitnið J flugmaður var í þjálfun í þessu flugi. Hann kvað allt hafa virkað eðlilega og þeir hefðu verið þrír í flugstjórnarklefanum. Síðan hefði verið tilkynnt um mótmæli í flugvélinni. Umræður hefðu átt sér stað um hvað skyldi gera og einn flugmaðurinn hefði farið aftur í og metið aðstæðurnar. Niðurstaðan hefði verið sú að rétt væri að kalla til lögreglu. Hún hefði komið fljótt og tekið hlutina í sínar hendur. Mótmælendurnir hefðu verið fjarlægðir. Flugið hefði svo haldið áfram. Fundur hefði verið haldinn eftir heimkomuna. Hann hefði upplifað þessar aðstæður sem ógnvekjandi. Þó nokkrar tafir hefðu orðið á fluginu.

 

Niðurstaða

            Ákærðu er gefið að sök að hafa brotið gegn almennum hegningarlögum og lögum um loftferðir með því að hafa í félagi staðið upp, hrópað og kallað yfir farþega og flugverja að lögregla væri að flytja A ólöglega úr landi og hvatt aðra farþega til að standa upp og hlýða ekki fyrirmælum flugverja, í þeim tilgangi að tefja flugtak vélarinnar þannig að A yrði færður úr flugvélinni áður en til flugtaks kæmi. Þá hafi þær skömmu áður dreift einblöðungi sama efnis meðal farþega, ekki farið að fyrirmælum flugverja um að láta af háttseminni og ekki látið af henni fyrr en þær hafi verið handteknar. Með þessu hafi þær reynt að tálma því að lögreglumenn um borð gætu gegnt starfi sínu og raskað öryggi flugvélarinnar. Þessi háttsemi er talin varða við 2. mgr. 106. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og 168. gr., en til vara 176. gr., sömu laga, og 3. mgr. 42. gr., sbr. 141. gr., laga um loftferðir nr. 60/1998.

            Ákærðu neita báðar sök. Þær hafa lýst háttsemi sinni að meginstefnu til með þeim hætti sem greinir í ákærunni, utan þess að einungis ákærða X hafi dreift einblöðungi meðal farþega flugvélarinnar. Þær telja hins vegar að ekki hafi falist nein lögbrot í háttsemi þeirra.

            Framburður vitna fyrir dóminum er í samræmi við það sem ákærðu hafa lýst og greinir í ákærunni. Atvik málsins liggja því ljós fyrir. Engin vitni hafa lýst því að ákærða Y hafi dreift umræddum einblöðungi. Hún kvaðst sjálf hafa útbúið hann ásamt ákærðu X en ekki dreift honum. Ákærða X kvaðst ekki vita hvort ákærða Y hefði tekið þátt í dreifingunni. Er því ekki sannað að ákærða Y hafi dreift einblöðungnum.

            Ákærðu hafa borið því við að háttsemi þeirra réttlætist af borgaralegri skyldu. Þær hafi verið að koma manni í lífsháska til hjálpar, svo sem skylt sé samkvæmt 221. gr. almennra hegningarlaga. Þá eigi sjónarmið neyðarréttar við í málinu, sbr. 13. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði er það verk refsilaust, sem nauðsyn bar til að unnið væri í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu, þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir, sem telja verði að miklum mun minni. Þá hafa ákærðu vísað til þess að réttindi þeirra til mótmæla séu vernduð með stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Ákærðu hafa ekki sýnt fram á að A hafi verið í svo bráðri hættu að aðgerðir þeirra hafi verið heimilar samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Þá sæta tjáningar- og fundafrelsi ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu.

            Ákærðu hafa jafnframt borið því við að ákvæði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um skýrleika og nákvæmni ákæru sé ekki uppfyllt. Dómurinn telur að lýsing á sakargiftum sé skýr og ekki sé vafi á því hvað ákærðu er gefið að sök. Þá er hlutur ákærðu samofinn og því hagræði að lýsa honum í einu lagi, en ekki verður séð að vörn ákærðu hafi verið áfátt af þeim sökum. Verður rökum ákærðu um þetta því hafnað. Þá skiptir engu máli þótt ákærðu hafi verið kynnt við skýrslutöku hjá lögreglu að háttsemi þeirra varðaði við önnur lagaákvæði en ákært er fyrir.

            Ákærðu er gefið að sök að hafa með háttsemi sinni m.a. reynt að tálma því að lögreglumennirnir um borð gætu gegnt starfi sínu við að framfylgja ákvörðun um brottvísun A. Ákærðu greindu báðar frá því að þær hefðu ekki vitað að A væri í för lögreglu um borð í flugvélinni. Verður að telja þennan framburð ótrúverðugan en fram hefur komið að ákærðu vissu báðar að A hefði verið handtekinn daginn áður í því skyni að senda hann af landi brott og ákærða X hitti hann á fundi kvöldið áður. Þá kváðust ákærðu ekki hafa nálgast hann um borð. Verður að telja að þeim hafi verið ljóst að ákærði var í för lögreglu þennan dag. Það var tilgangur ákærðu að koma í veg fyrir að A yrði fluttur á brott með flugvélinni. Ásetningur þeirra stóð því til þess að koma í veg fyrir að lögreglumennirnir gætu sinnt hlutverki sínu. Ákærðu tókst þó ekki að koma í veg fyrir brottflutninginn þar sem þær voru handteknar. Var brotið því ekki fullframið heldur var um tilraun að ræða. Framangreind háttsemi ákærðu varðar við 2. mgr. 106. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.

            Ákærðu eru í ákæru taldar hafa með truflun sinni raskað öryggi flugvélarinnar og brotið með því gegn 168. gr. almennra hegningarlaga, en til vara gegn 176. gr. sömu laga. Samkvæmt 168. gr. skal maður sæta fangelsi ef hann raskar öryggi járnbrautarvagna, skipa, loftfara, bifreiða eða annarra slíkra farar- eða flutningatækja, eða umferðaröryggi á alfaraleiðum, án þess að verknaður hans varði við 165. gr. laganna. Í greinargerð er nefnt sem dæmi um háttsemi sem falla myndi undir ákvæðið ef hættumerki á vegum væri eyðilagt eða tekið burtu, skemmdir á vitum o.s.frv.

            Af gögnum málsins og framburði fyrir dóminum er ljóst að nokkur óróleiki og ótti greip um sig meðal farþega og áhafnarinnar vegna háttsemi ákærðu. Ekki var hægt að ljúka undirbúningi fyrir flugtak og kalla þurfti til lögreglu. Ákærðu veittu nokkurn mótþróa við handtöku og kanna þurfti hvort þær ættu sér hugsanlega vitorðsmenn um borð í flugvélinni. Eftir mat á stöðunni var tekin ákvörðun um að halda flugferðinni áfram en sérstaklega var rætt við alla farþega til að kanna hvort þeir væru tilbúnir til að halda í flugið. Að áliti dómsins verður þó ekki fullyrt að hættuástand hafi skapast þannig að öryggi flugvélarinnar hafi verið raskað í skilningi ákvæðisins. Flugvélin var enn á jörðu niðri og svo virðist sem aftari dyrum hennar hafi verið lokað en ekki þeim fremri. Þá var lögregla skammt undan. Verður háttsemin því ekki heimfærð til 168. gr. almennra hegningarlaga.

            Til vara er háttsemi ákærðu talin varða við 176. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt því ákvæði er það refsivert ef maður veldur með ólögmætum verknaði verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja, opinberum póst-, síma- eða útvarpsrekstri eða rekstri stöðva eða virkjana, sem almenningur fær frá vatn, gas, rafmagn, hita eða aðrar nauðsynjar. Hér er ekki um að ræða almannahættubrot eins og í 168. gr. Lífi manna eða eignum þarf því ekki að vera hætta búin, en truflun sem hér um ræðir getur haft í för með sér ýmis óþægindi fyrir almenning.

            Ljóst er að háttsemi ákærðu var ólögmæt og truflun varð á fluginu af þeim sökum. Samkvæmt upplýsingum sem ákærðu öfluðu hjá Samgöngustofu var 2 klukkustunda og 18 mínútna seinkun á flugi [...] þennan dag. Ákærðu hafa borið að þegar hafi verið orðin einhver seinkun á fluginu af öðrum orsökum. Áhöfn flugvélarinnar og lögregla hafa borið um seinkun á fluginu vegna aðgerða ákærðu þótt af honum verði ekki ráðið hversu mikil seinkunin varð. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að bókað hafi verið að lögreglumaður í flugvélinni hafi hringt kl. 9:20 og greint frá því að ákærðu báðar hefðu staðið upp í flugvélinni og væru með yfirlýsingar og hávaða. Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu fór flugvélin hálftíma eftir það. Svo virðist því sem seinkunin hafi ekki verið mikil en hins vegar urðu augljóslega veruleg óþægindi af þessu. Farþegar og áhöfn voru slegin óhug. Kalla þurfti til aðstoð lögreglu og flugvallarstarfsmanna og ganga úr skugga um að öryggi væri tryggt fyrir áframhaldandi ferð. Verður því talið að með háttsemi sinni hafi ákærðu með ólögmætum verknaði valdið verulegri truflun á rekstri almenns samgöngutækis og varðar háttsemin við 176. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærðu er jafnframt gefið að sök að hafa brotið gegn 3. mgr. 42. gr., sbr. 141. gr., laga um loftferðir nr. 60/1998, með því að fara ekki að fyrirmælum flugstjóra eða annarra flugverja um góða hegðun og reglu í loftfari. Með framburði starfsfólks flugvélarinnar og lögreglumanna sem rakinn er að framan er sannað að ákærðu óhlýðnuðust fyrirmælum flugverja um að láta af háttsemi sinni og fá sér sæti. Það stoðar ákærðu ekki að hafa ekki hlustað á eða hafa hrópað yfir fyrirmælin. Verða ákærðu því sakfelldar í samræmi við framangreint.

            Ákærða X er fædd í [...] [...]og ákærða Y í [...] [...]. Þær hafa ekki áður gerst sekar um refsivert brot. Brot þau sem ákærðu eru sakfelldar fyrir voru unnin í félagi, en þær stóðu saman að undirbúningi og framkvæmd verknaðarins, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður litið til framangreinds en jafnframt til þess hve langt er um liðið frá brotunum. Þykir refsing hvorrar ákærðu um sig hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi þær almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Bergþórssonar lögmanns, 1.100.000 krónur, og ákærða Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Auðar Tinnu Aðalbjarnardóttur lögmanns, 1.100.000 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

            Ákærðu, X og Y, sæti hvor um sig fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærða, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Bergþórssonar lögmanns, 1.100.000 krónur.

            Ákærða, Y, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Auðar Tinnu Aðalbjarnardóttur lögmanns, 1.100.000 krónur.