• Lykilorð:
  • Evrópska efnahagssvæðið
  • Lánssamningur
  • Skaðabætur
  • Ráðgefandi álit
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur, miðvikudaginn 27. febrúar 2019 í máli nr. E-514/2018:

Theodór Magnússon og

Helga Margrét Guðmundsdóttir

(Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 19. febrúar 2018, var dómtekið 30. janúar sl. Stefnendur eru Theodór Magnússon og Helga Margrét Guðmundsdóttir, Kríuási 37 í Hafnarfirði. Stefndi er íslenska ríkið.

 

Stefnendur krefjast þess að stefndi greiði þeim 7.667.597 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. nóvember 2017 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. VI. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk greiðslu alls málskostnaðar.

 

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda og greiðslu málskostnaðar úr hendi þeirra.

 

I.

Þann 11. febrúar 2003 gáfu stefnendur út skuldabréf, svokallað fasteignaveðbréf, sem var skiptanlegt fyrir húsbréf sem Íbúðalánasjóður gaf út skv. lögum um húsnæðismál nr. 44/1998. Skuldabréfið var að fjárhæð 6.034.066 krónur, bar 5,10% vexti og var verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs. Lán samkvæmt skuldabréfinu var tekið til að standa straum af kostnaði við byggingu fasteignarinnar að Kríuási 37 í Hafnarfirði og tryggt með veði í þeirri fasteign. Það skyldi endurgreiða með 478 jöfnum afborgunum á 40 árum.

 

Stefnendur greiddu lánið upp 3. nóvember 2017.

 

Í greiðslumati dagsettu 31. janúar 2003, sem gert var í tengslum við útgáfu skuldabréfsins, kom fram að greiðslubyrði afborgana lána af framangreindu tagi væri 44.000 krónur á mánuði. Við útreikning á þeirri fjárhæð var ekki tekið tillit til mögulegra breytinga á vísitölu sem lánsfjárhæðin var bundin við, þ.e. við útreikninginn var miðað við 0% verðbólgu.

 

Stefnendur höfðuðu mál gegn Íbúðalánasjóði og kröfðust viðurkenningar á því að honum hefði verið óheimilt að krefjast verðbóta af láninu. Reistu stefnendur kröfu sína í málinu m.a. á því að þeim hefðu við lántökuna verið veittar ófullnægjandi upplýsingar um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar þar sem í fyrirliggjandi upplýsingum um þessi atriði hefði ekki verið gert ráð fyrir neinum verðlagsbreytingum vegna vísitöluhækkunar á lánstímanum. Vísuðu þau í því efni til neytendaverndar sem þau skyldu njóta samkvæmt tilskipun 87/102/EBE með þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á henni á útgáfudegi skuldabréfsins. Efni tilskipunarinnar, sem var að finna í XIX. viðauka við EES-samninginn, varð hluti af samningsskuldbindingum Íslands við gildistöku hans hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 og b-lið 7. gr. samningsins. Efni tilskipunarinnar var upphaflega innleitt með lögum nr. 30/1993 um neytendalán, sem tóku gildi 13. apríl sama ár, og urðu síðar lög nr. 121/1994, sbr. 15. gr. laga nr. 101/1994.

 

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 var svofellt ákvæði „Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.“

 

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 243/2015, kveðnum upp 26. nóvember 2015, var Íbúðalánasjóður sýknaður af kröfum stefnenda. Í forsendum dómsins kemur fram að 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 verði að skýra eftir orðanna hljóðan á þann veg að miða skuli útreikninga við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrðu óbreytt til loka lánstímans. Var því ekki talið að Íbúðalánasjóði hefði verið skylt að láta stefnendum í té við lánveitinguna greiðsluáætlun sem gerði ráð fyrir tiltekinni hækkun vísitölu neysluverðs.

 

Framangreint ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 svarar í meginatriðum efnislega til 6. mgr. 1. gr. a í tilskipun 87/102/EBE, eins og henni var breytt með 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE, sem er svohljóðandi: „Þegar um er að ræða lánssamninga, sem í eru ákvæði er heimila breytingar á vaxtagjöldum og upphæð eða stigi annars kostnaðar er fellur undir árlega hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreytanlegur og gildi fram til loka lánssamnings.“

 

 

Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins 24. nóvember 2014 í máli nr. 27/13 kemst dómurinn að eftirfarandi niðurstöðu að því er varðar þá neytendavernd sem felst í framangreindu ákvæði tilskipunarinnar: „… þegar lánssamningur er bundinn vísitölu neysluverðs og lántökukostnaðurinn tekur þar af leiðandi breytingum í samræmi við verðbólgu samrýmist það ekki neytendalánatilskipuninni að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%.“

 

Í VII. lið í áðurnefndum dómi Hæstaréttar segir um áhrif þessa á niðurstöðu máls stefnenda gegn Íbúðalánasjóði: „Sé fyrrgreind skýring EFTA-dómstólsins á ákvæðum tilskipunar 87/102/EBE lögð til grundvallar er, eins og segir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 160/2015, ljóst að orðalag 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Við mat á afleiðingum slíks ósamræmis er þess að gæta að tilskipunin hafði ekki lagagildi hér á landi. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 er mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Slík lögskýring tekur eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði, svo sem framast er unnt, gefin merking sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu. Lögskýring samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 getur á hinn bóginn ekki leitt til þess að orðum íslenskra laga verði gefin önnur merking en leidd verður af hljóðan þeirra …“.

 

Tilskipun 2008/48/EBE hefur nú leyst af hólmi eldri tilskipun um neytendalán og núgildandi lög um neytendalán eru nr. 33/2013. Í 21. gr. laganna er fjallað um útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Í fyrri málslið 3. mgr. greinarinnar er að finna ákvæði sama efnis og var í 1. mgr. 12. gr. eldri laga en í síðari málslið 3. mgr. greinarinnar segir nú að ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skuli útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.

 

II.

Í máli þessu krefja stefnendur stefnda um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 7.667.597 krónur. Fjárhæð þessi samsvarar þeim verðbótum sem stefnendur greiddu af höfuðstól og vöxtum af láni Íbúðalánasjóðs á lánstímanum.

 

Stefnendur reisa málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að tilskipun 87/102/EBE, svo sem henni var breytt með tilskipun 90/88/EBE, hafi ekki verið réttilega innleidd í innlenda löggjöf. Afleiðing þessa hafi verið sú að Íbúðalánasjóði, sem lánveitanda, hafi ekki verið skylt að upplýsa þau við lántöku hjá sjóðnum um áhrif áætlaðrar verðlagsþróunar á lántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Vísa stefnendur til þess að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 243/2015 hafi því verið slegið föstu að 1. mgr. 12. gr. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 hafi ekki verið í samræmi við 6. mgr. 1. gr. a í tilskipun 87/102/EBE, en henni var breytt með 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE.

 

Í öðru lagi, eða til vara, byggja stefnendur á því að niðurstaða Hæstaréttar í áðurnefndum dómi byggist á misskilningi eða rangri lagatúlkun. Túlkun réttarins á ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994, svo sem það ákvæði hljóðaði á lántökudegi, fái ekki staðist. Með hliðsjón af lögskýringargögnum, tilgangi lagaákvæðisins og öðrum ákvæðum II. kafla laganna um upplýsingaskyldu lánveitanda hafi Hæstarétti borið að leggja sama skilning í skyldur lánveitanda samkvæmt þessari grein og fólust í tilskipun 87/102/EBE með hliðsjón af niðurstöðu EFTA-dómstólsins í máli nr. 27/13 í því efni. Þá veiti orðalag 3. mgr. 21. gr. núgildandi laga um neytendalán nr. 33/2013 vísbendingu um að túlkun réttarins hafi verið röng.

 

Hvora málsástæðuna, sem lögð verði til grundvallar, sé afleiðingin sú að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Tjónið felist í því að þau hafi ranglega verið krafin um greiðslu verðbóta án þess að fullnægjandi skilyrði væru fyrir þeirri kröfu. Fjárhæð bótakröfu stefnenda er byggð á mismun á raunverulegum greiðslum þeirra til Íbúðalánasjóðs og réttmætri kröfu sjóðsins til endurgreiðslu. Með margnefndum dómi Hæstaréttar er útséð um að stefnendur geti krafið lánveitanda um leiðréttingu þeirrar greiðslu. Því leita þau dóms um skaðabætur úr hendi stefnda sömu fjárhæðar. Um skaðabótaskyldu stefnda vísa stefnendur til almennu skaðabótareglunnar og þeirra ákvæða um neytendalán sem er að finna í lögum nr. 121/1994, og þeirra tilskipana sem vísað er til hér að framan.

 

Stefnendur byggja málatilbúnað sinn á því að öll skilyrði skaðabótaskyldu stefnda séu til staðar, hvort sem fallist verður á að um ranga innleiðingu tilskipunarinnar eða mistök Hæstaréttar hafi verið að ræða. Í fyrsta lagi hafi þau á grundvelli tilskipunarinnar öðlast tiltekin réttindi og ákvæði tilskipunarinnar hafi borið með sér hver þau réttindi væru. Í öðru lagi hafi skortur á fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar falið í sér alvarlega vanrækslu stefnda á skuldbindingum ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Hvað varðar þann málsgrundvöll að Hæstiréttur hafi ranglega túlkað löggjöf við úrlausn málsins gagnvart Íbúðalánasjóði, þá vísa stefnendur til þess að ákvörðun réttarins hafi augljóslega verið í andstöðu við dómafordæmi EFTA-dómstólsins. Loks byggja stefnendur á því að orsakasamband sé á milli rangrar innleiðingar, eða eftir atvikum rangrar túlkunar Hæstaréttar, og þess tjóns sem þau hafi orðið fyrir. Leiði það af ákvæðum 1. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, þar sem kveðið hafi verið á um að ekki væri heimilt að krefja neytanda um greiðslu vaxta eða annars lántökukostnaðar sem ekki hefði verið tilgreindur í lánssamningi. Áhrif verðbóta hafi ekki verið tilgreind í lánssamningi stefnenda við Íbúðalánasjóð. Upplýsingarnar sem stefnendum voru veittar hafi verið ófullnægjandi og starfshættir sjóðsins ólögmætir að þessu leyti. Ástæða þess að stefnendum reynist ókleift að ná fram kröfu sinni á hendur lánveitanda sé annaðhvort sú að reglur sem kváðu á um upplýsingaskyldu sjóðsins voru innleiddar með röngum hætti eða innleiðingarákvæði laga túlkuð með röngum hætti af Hæstarétti.

 

Ekki er þörf á að lýsa málsástæðum stefnenda með ítarlegri hætti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, en í stefnu, sem er 24 bls., er að finna ítarlegan skriflegan málflutning sem á köflum er erfitt að henda reiður á. Framangreind lýsing á málsástæðum stefnenda er að verulegu leyti byggð á skriflegri upptalningu málsástæðna sem dómari óskaði eftir að lögð yrði fram við upphaf aðalmeðferðar, sbr. síðari málslið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991.

 

III.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að skilyrði skaðabóta í því tilfelli þegar landsréttur er ekki réttilega lagaður að tilskipun, sem ber að innleiða í innlendan rétt, séu ekki fyrir hendi. Þá andmælir hann þeirri málsástæðu stefnenda að Hæstiréttur hafi rangtúlkað eða misskilið ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 og vísar til þess að af 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, leiði að það sé hlutverk EFTA-dómstólsins að skýra EES-samninginn en íslenskra dómstóla að fara með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu samningsins að íslenskum lögum.

 

Stefndi byggir á því í fyrsta lagi að þau réttindi, sem stefnendur bera fyrir sig að hafa átt, hafi ekki falist í tilskipun 87/102/EBE. Lán stefnenda hafi verið tekið til íbúðarkaupa. Slík lán féllu utan gildissviðs tilskipunarinnar. Af því leiði að ákvæði laga nr. 179/2000, þar sem fasteignalán voru felld undir gildissvið laga nr. 121/1994, séu ekki leidd af ákvæðum tilskipunarinnar. Breytingin hafi ekki falið í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunarinnar og geti því heldur ekki verið um ranga innleiðingu hennar að ræða.

 

Jafnvel þótt fallist yrði á að um ranga innleiðingu tilskipunar hafi verið að ræða sem varðaði lán stefnenda, byggir stefndi í öðru lagi á því að hvorki hafi verið um að ræða bersýnilega né alvarlega vanrækslu á skuldbindingum stefnda samkvæmt EES-samningnum en það sé skilyrði skaðabótaábyrgðar stefnda við þessar aðstæður. Vísar stefndi í því efni til leiðbeiningarsjónarmiða sem sett hafa verið fram í dómum EFTA-dómstólsins og þýðingu hafi við mat á bótaskyldu ríkja sem ekki virði takmarkanir á valdheimildum sem leiði af skuldbindingum.

 

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að ekki séu orsakatengsl á milli vanrækslu á réttilegri innleiðingu tilskipunarinnar og þess tjóns sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrir. Í tilskipun 87/102/EBE sé ekki mælt fyrir um áhrif þess á skuldbindingargildi samninga að lánveitandi veiti ekki tilskildar upplýsingar um heildarlántökukostnað við samningsgerð. Mat á þessu sé atviksbundið og í höndum landsdómstóls á grundvelli innlendra reglna, svo fremi sem sú vernd sem tilskipunin veiti teljist tryggð. Ákvæði tilskipunarinnar komi ekki í veg fyrir að aðilar semji um að vaxtagjöld og annar kostnaður taki breytingum á samningstímanum. Jafnframt hafi EFTA-dómstóllinn talið að við matið yrði að hafa hliðsjón af því hvort viðkomandi neytandi gæti talist vera upplýstur, athugull og forsjáll. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 243/2015 hafi því verið slegið föstu að stefnendum hefði mátt vera ljóst að vísitala neysluverðs myndi hækka á lánstímanum á grundvelli hlutlægra og opinberra viðmiða sem lánveitandi hefði ekki áhrif á. Stefnendum hefði verið veitt fjármálaráðgjöf þar sem þeim hefði verið gerð grein fyrir áhrifum verðtryggingarinnar. Ekki hafi verið sýnt fram á að frekari upplýsingar hefðu neinu breytt um lántöku stefnenda. Stefndi hafni því að ætlað tjón stefnenda verði rakið til rangrar innleiðingar og vísar jafnframt til þess að 14. gr. laga nr. 121/1994, sem girðir fyrir að lánveitandi geti krafið neytanda um vexti eða annan lántökukostnað sem ekki sé getið um í lánssamningi, eigi við um lán með fastri fjárhæð en ekki breytilegan kostnað eins og verðbætur.

 

IV.

Í mál þessu krefja stefnendur stefnda um skaðabætur vegna tjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir sökum rangrar innleiðingar EES-réttar í innlendan rétt.

 

Þessa málsástæðu rökstyðja stefnendur nánar þannig að ákvæði II. kafla laga nr. 121/1994 um neytendalán hafi ekki lagt þá skyldu á herðar lánveitanda að taka tillit til verðlagsþróunar, þ.e. breytinga á vísitölu sem fasteignaveðlán þeirra var bundið við, þegar hann veitti þeim upplýsingar um heildarlántökukostnað og um árlega hlutfallstölu kostnaðar þegar þau tóku fasteignaveðlán hjá Íbúðalánasjóði í febrúar 2003.

 

Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsins var í greiðslumati stefnenda, sem gert var í tengslum við útgáfu fasteignaveðbréfs þeirra til Íbúðalánasjóðs, ekki gert ráð fyrir áhrifum verðlagsbreytinga á heildarlántökukostnað. Í skuldabréfinu sjálfu var tilgreint að lánið bæri tiltekna vexti og jafnframt að það væri bundið vísitölu neysluverðs og tilgreint vísitölustig hennar á lántökudegi. Í 1. mgr. 12. gr. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 var ákvæði um árlega hlutfallstölu kostnaðar þess efnis að ef lánssamningur heimilaði verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum, sem teldust hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki væri hægt að meta hverju næmi á þeim tíma sem útreikningurinn væri gerður, skyldi reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrðu óbreytt til loka lánstímans.

 

Í dómi Hæstaréttar nr. 243/2015, kveðnum upp 26. nóvember 2015, í máli stefnenda gegn Íbúðalánasjóði, var því slegið föstu að Íbúðalánasjóði hefði ekki verið skylt á grundvelli framangreinds ákvæðis neytendalánalaganna að láta stefnendum í té sérstaka greiðsluáætlun sem gerði ráð fyrir tiltekinni hækkun vísitölu neysluverðs. Segir í dóminum að samkvæmt orðanna hljóðan felist í 1. mgr. 12. gr. að miða beri við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrðu óbreytt til loka lánstímans, þegar heildarlántökukostnaður sé háður breytingum vegna verðtryggingar, breytilegra vaxta eða kostnaðar sem ekki sé unnt að meta á þeim tíma þegar útreikningur er gerður. Vísaði Hæstiréttur í þessu efni einnig til fyrri fordæma sinna, einkum dóms réttarins í máli nr. 160/2015 frá 13. maí 2015.

 

Í framangreindum dómi Hæstaréttar kemur jafnframt fram að orðalag 1. mgr. 12. gr. laga um neytendalán hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við ákvæði tilskipunar 87/102/EBE með áorðnum breytingum, svo sem EFTA-dómstólinn hafði skýrt ákvæði tilskipunarinnar í ráðgefandi áliti sínu í máli nr. 27/13. Á hinn bóginn taldi rétturinn, þrátt fyrir framangreint misræmi, ekki unnt að skýra ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 til samræmis við niðurstöðu EFTA-dómstólsins, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 og vísaði í því efni til þess að lögskýring samkvæmt nefndu ákvæði gæti ekki leitt til þess að orðum íslenskra laga yrði gefin önnur merking en leidd verði af hljóðan þeirra.

 

Af framangreindum dómi Hæstaréttar verður ekki önnur ályktun dregin en að tilskipun ráðsins 87/102/EBE, með síðari breytingum, hafi ekki verið réttilega innleidd í innlenda löggjöf, að því er varðar skyldu lánveitanda til að veita upplýsingar um áhrif verðlagsþróunar á lántökukostnað af vísitölutengdum lánssamningum. Spurningin sem hér þarf að leysa úr er sú hvort þessi aðstaða baki stefnda bótaábyrgð gagnvart stefnendum.

 

Vanræksla stefnda á skyldum sínum til að innleiða nefnda tilskipun með réttum hætti í innlendan rétt getur, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, bakað stefnda bótaábyrgð gagnvart þeim einstaklingum eða lögaðilum sem verða fyrir tjóni af þeim sökum. Þrjú skilyrði þurfa að meginstefnu að vera fyrir hendi til að bótaskylda komi til álita. Í fyrsta lagi verður að felast í tilskipuninni, sem var innleidd með ófullnægjandi hætti, að einstaklingur öðlist tiltekin réttindi og ákvæði hennar verða að bera með sér hver þau réttindi eru. Í öðru lagi verður vanræksla ríkisins á skuldbindingum sínum að vera nægilega alvarleg og í þriðja og síðasta lagi þarf að vera beint orsakasamband á milli þeirrar vanrækslu og tjóns sem viðkomandi varð fyrir.

 

Hvað fyrsta skilyrðið varðar, um að tilskipunin veiti tiltekin réttindi sem hún sjálf beri með sér hver séu, er þess fyrst að geta að í tilskipun þeirri sem hér um ræðir, þ.e. tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986, svo sem henni var breytt með tilskipun 90/88/EBE 22. febrúar 1990, er neytendum tryggð tiltekin vernd við gerð lánssamninga. Sú vernd sem hér er deilt um er réttur neytenda til glöggra upplýsinga um heildarkostnað af lántökunni. Ákvæði tilskipunarinnar fólu í sér lágmarksvernd og komu ekki í veg fyrir að einstök ríki veittu neytendum frekari vernd. Ákvæðin voru innleidd í innlenda löggjöf með setningu laga nr. 121/1994. Með 1. gr. laga nr. 179/2000, um breytingu á þeim lögum, var fellt brott það ákvæði í f-lið 1. mgr. 2. gr. þeirra að lánssamningar með veði í fasteign væru undanþegnir ákvæðum laganna. Upp frá því töldust fasteignaveðlán til neytendalána samkvæmt ákvæðum laganna.

 

Gildissvið tilskipunar 87/102/EBE er afmarkað í 1. og 2. gr. hennar. Í 1. gr. kemur m.a. fram að tilskipunin gildi um lánssamninga. Í a-lið 1. mgr. 2. gr. segir að tilskipunin eigi ekki við um lánssamning eða -samninga sem heita lánsfyrirgreiðslu sem ætlað er fyrst og fremst að afla eða viðhalda eignarrétti á landi eða byggingu sem reist hefur verið eða áformað er að reisa eða sem ætlað er til þess að endurnýja eða bæta byggingu sem slíka. Af 15. gr. tilskipunarinnar leiðir að aðildarríkjum er heimilt að viðhalda eða taka upp strangari ákvæði til verndar neytendum.

 

Af framangreindri afmörkun á gildissviði tilskipunarinnar leiðir að sú lágmarksvernd sem ríkjum er skylt að tryggja að neytendur búi við tekur ekki til lána til fasteignakaupa eða nýbygginga. Í máli þessu er óumdeilt að lánið sem stefnendur tóku var lán til byggingar fasteignar og var með veði í þeirri eign. Eru því ekki fyrir hendi þær aðstæður að til álita komi að stefndi hafi bakað sér bótaábyrgð vegna ófullnægjandi innleiðingar tilskipunarinnar, þegar af þeirri ástæðu að slík lán eru með berum orðum undanþegin gildissviði tilskipunarinnar. Er því ekki unnt að líta svo á að sá réttur, sem stefnendur byggja á að hafi verið brotinn á þeim, felist með berum orðum í margumræddri tilskipun 87/102/EBE. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt löggjafinn hafi ákveðið að gildissvið neytendaverndar á grundvelli laga nr. 121/1994 hafi verið víðtækara en sú lágmarksvernd sem fólst í tilskipuninni sem innleidd var með lögunum.

 

Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki þörf á að fjalla nánar um önnur skilyrði ætlaðrar bótaábyrgðar stefnda.

 

Þá er jafnframt hafnað sjónarmiðum stefnenda sem lúta að bótaskyldu stefnda vegna mögulegra mistaka eða rangtúlkunar Hæstaréttar á ákvæðum laga nr. 121/1994 í máli stefnenda gegn Íbúðalánasjóði nr. 243/2015. Með nefndum dómi Hæstaréttar var sakarefni þess máls endanlega til lykta leitt og stendur gildi þess dóms óhaggað, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Efnisleg niðurstaða þess dóms, eða þær forsendur fyrir túlkun laga sem dómurinn hvílir á, sætir ekki endurskoðun héraðsdóms. Þá hefur dómurinn auk þess þegar komist að þeirri niðurstöðu að sá réttur, sem stefnendur telja að hafi verið brotinn á þeim, hafi ekki byggst á vernd samkvæmt EES-rétti. Er því ekki þörf á að taka afstöðu til sjónarmiða sem lúta að mögulegri bótaskyldu stefnda vegna brota á þeim samningi sem rekja má til niðurstöðu æðstu dómstóla, svo sem stefnendur byggja þessa málsástæðu á.

 

Með framangreindum rökstuðningi verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda. Rétt er, með hliðsjón af efni og málavöxtum, að hvor aðili beri sinn málskostnað.

 

Mál þetta flutti Þórður Heimir Sveinsson lögmaður fyrir stefnendur og Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður fyrir stefnda. Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnenda, Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur. Málskostnaður milli aðila fellur niður.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir