• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Mál þetta var höfðað með stefnu 17. október 2018 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 29. apríl sl. Stefnandi er Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi. Stefndi er Frjáls fjölmiðlun ehf., Suðurlandsbraut 14, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 15.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2018 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

            Í málinu deila aðilar um ætlaða skuld stefnda við stefnanda á grundvelli samnings frá 6. september 2017 um kaup þess síðarnefnda á kröfu þess fyrrnefnda gegn Pressunni ehf. að fjárhæð 45.000.000 króna. Með aðilum er verulegur ágreiningur um atvik málsins, einkum hvort og að hvaða marki Pressan ehf. hafi í reynd staðið í skuld við stefnanda við undirritun samningsins þannig að eiginlegt framsal kröfu hafi átt sér stað.

Samkvæmt téðum samningi, sem gerður var í tengslum við kaup stefnda á útgáfuréttindum Pressunar ehf. 5. sama mánaðar, skuldbatt stefndi sig til þess að kaupa kröfu stefnanda gegn umræddu félagi. Greiða skyldi stefnanda fyrir kröfuna með 30.000.000 króna í peningum í tveimur greiðslum, þeirri fyrri 1. september 2018 og þeirri síðari 1. september 2019, og jafnvirði 15.000.000 króna í auglýsingainneign hjá miðlum sem Pressan ehf. og DV rækju. Með undirritun samningsins skuldbatt stefndi sig til þess að selja ekki nánar tilteknar eignir sem hann hafði keypt af Pressunni ehf. degi áður fyrr en krafa stefnanda hefði verið greidd að fullu, en þar var einkum um að ræða ýmis firmanöfn, vörumerki og útgáfuréttindi auk hlutabréfa í tilteknu einkahlutafélagi. Þá kom fram að við undirritun samningsins væru framseld til stefnda tryggingarbréf í eigu stefnanda, útgefin af DV ehf. og Vefpressunni ehf., til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu kröfunnar, en þau félög munu hafa heyrt til sömu samstæðu og Pressan ehf. Samkvæmt því sem fram kom við aðalmeðferð málsins var þar um að ræða veðtryggð bréf sem þinglýst hafði verið á ýmsar þær eignir sem kaupsamningur stefnda við Pressuna ehf. 5. september 2017 laut að. Ekki er um það ágreiningur að stefndi innti ekki af hendi greiðslu til stefnanda 1. september 2018 samkvæmt samningnum 6. september 2017 um kaup á kröfu. Byggist kröfugerð stefnanda á því að með því að hafi stefndi vanefnt téðan samning aðila.

Ekki er um það deilt að þegar kaupsamningur stefnda við Pressuna ehf. var gerður 5. september 2017 var félagið, og félög því tengd, í verulegum fjárhagserfiðleikum. Kom fram í skýrslum við aðalmeðferð málsins að krafa um gjaldþrotaskipti félagsins hefði þá verið komin fram og tekin til meðferðar í héraðsdómi. Svo sem áður greinir er einnig ágreiningslaust að stefnandi átti á þessum tíma tvö tryggingarbréf sem þinglýst hafði verið á mikilvægustu rekstrareignir Pressunnar ehf. og tengdra félaga, alls að fjárhæð 200.000.000 króna, en þau bréf, eða afrit þeirra, liggja ekki fyrir í málinu. Hins vegar greinir aðila á um hvort og þá hvaða skuld hafi legið að baki tryggingarbréfunum. Vísar stefndi til þess að tryggingarbréfin hafi verið þannig komin til að staðið hafi til í apríl 2017 að stefnandi tæki þátt í hlutafjáraukningu Pressunnar ehf. og legði félaginu til 155.000.000 króna sem hefði meðal annars átt að ráðstafa til greiðslu vörsluskatta. Stefnandi hafi hins vegar ekki staðið við loforð sitt og því hafi hlutafjáraukningin ekki komið til framkvæmda. Bera gögn málsins með sér að deilur hafi verið um hlutafjáreign Pressunnar ehf. í framhaldi af þessu. Af hálfu stefnanda var hins vegar vísað til þess við aðalmeðferð málsins að hann hefði greitt verulegar fjárhæðir vegna skulda Pressunnar ehf., meðal annars til Tollstjóra, án þess að fyrir þessar greiðslur kæmi endurgjald í formi hlutabréfa. Þá var vísað til þess að stefnandi hefði lánað Pressunni ehf. peninga sem hefðu runnið beint til félagsins. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda var Pressan ehf. tekin til gjaldþrotaskipta í byrjun desember 2017.

Við aðalmeðferð málsins gaf Árni Harðarson, stjórnarmaður stefnanda, aðilaskýrslu auk þess sem Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi stjórnarformaður Pressunnar ehf., gaf skýrslu sem vitni. Er vikið að þessum skýrslum í niðurstöðum dómsins að því marki sem þýðingu hefur fyrir úrlausn málsins.

 

Helstu málsástæður og lagarök málsaðila

            Stefnandi vísar til fyrirliggjandi samnings og þess að stefndi hafi ekki greitt umsamdar 15.000.000 króna á gjalddaga 1. september 2018 þrátt fyrir áskoranir stefnanda. Byggir hann kröfu sína á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Hann mótmælir fullyrðingum stefnda um að hann hafi ekki átt kröfu gegn Pressunni ehf. við gerð samningsins við stefnda 6. september 2017 og vísar til ýmissa gagna sem hann telur fela í sér nægilega sönnun fyrir tilvist slíkrar kröfu. Er vikið að þessum gögnum í niðurstöðum dómsins.

            Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki átt kröfu að fjárhæð 45.000.000 króna á hendur Pressunni ehf., sem hann gat selt, og tryggð hafi átt að vera í hinum seldu eignum Pressunnar ehf. eða DV ehf., eins og haldið hafi verið fram þegar samningurinn 6. september 2019 var undirritaður. Stefnandi hafi því aldrei getað efnt samninginn af sinni hálfu þótt hann hafi framselt stefnda tvö tryggingarbréf, sem DV ehf. annars vegar og Vefpressan ehf. hins vegar höfðu gefið út til handa stefnanda 10. maí 2017 með veði í hluta hinna seldu eigna. Þegar uppi var staðið hafi engar kröfur reynst að baki tryggingarbréfunum tveimur. Stefndi sé því með öllu óbundinn af samningi þeim sem meint dómkrafa byggist á þar sem hann hafi verið tilkominn vegna svika, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi byggir einnig á því að víkja beri samningnum til hliðar á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, þar sem stefnandi hafi vitað, þegar samningurinn var gerður, að fyrir lægju atvik sem gerðu það að verkum að óheiðarlegt væri að bera hann fyrir sig. Þá vísar stefndi til þess að víkja beri samningnum til hliðar í heild sinni á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, þar sem það sé ósanngjarnt og andstætt góðum viðskiptaháttum af hálfu stefnanda að bera hann fyrir sig, í ljósi stöðu samningsaðilanna við gerð samningsins, atvika við gerð samningsins og eins þeirra atvika sem síðar komu til. Stefndi vísar í þessu sambandi til ýmissa atvika fyrir og eftir gerð samningsins sem ekki er ástæða til að reifa í ljósi úrlausnar málsins. Hið sama á við um málsástæður stefnda byggðar á reglum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

 

Niðurstaða

            Svo sem áður greinir hvíla varnir stefnda einkum á þeirri málsástæðu að við gerð áðurlýsts samnings 6. september 2017 hafi stefnandi í reynd ekki átt kröfu gegn Pressunni ehf. að fjárhæð 45.000.000 króna, svo sem samningur málsaðila gerði ráð fyrir, eða a.m.k. hafi sú krafa numið mun lægri fjárhæð. Af hálfu stefnanda er þessari staðhæfingu mótmælt og því haldið fram að kröfur stefnanda gegn Pressunni ehf. hafi numið mun hærri fjárhæð en samið var um 6. september 2017. Þá var því hreyft við munnlegan flutning málsins að umræddum samningi hefði ekki aðeins verið ætlað að taka til kröfu stefnanda gegn Pressunni ehf. heldur hafi hann einnig vísað til krafna stefnanda gegn öðrum félögum í sömu félagasamstæðu. Um þetta nýtur þó engra gagna í málinu og skýrslur fyrir dómi renna ekki stoðum undir þessa málsástæðu stefnanda, sem fyrst kom fram við munnlegan flutning málsins. Gegn orðalagi samningsins telur dómurinn þar af leiðandi að stefnandi hafi engar haldbærar sannanir fært fyrir því að þetta hafi verið vilji aðila og þar með efni samningsins. Verður því að leggja til grundvallar að með téðum samningi aðila hafi einungis verið samið um framsal kröfu stefnanda gegn Pressunni ehf.

Í stefnu er ekki að finna nánari lýsingu eða sundurliðun á þeim kröfum sem stefnandi telur sig hafa átt gegn Pressunni ehf. og framselt stefnda með téðum samningi. Undir meðferð málsins hefur stefnandi lagt fram kvittanir fyrir millifærslum nafngreinds félags, sem hann kveður tengt stefnanda, og nemur heildarfjárhæð þeirra millifærslna alls 255.500.000 krónum. Í öllum tilvikum er þar um að ræða greiðslur til annarra félaga en Pressunnar ehf. og hefur stefnandi enga viðhlítandi grein gert fyrir því hvernig téðar greiðslur urðu að skuld félagsins við hann eða þá hver staða hinnar ætluðu kröfu á að hafa verið 6. september 2017. Eins og atvik málsins liggja fyrir þykja tryggingarbréf stefnanda, sem ágreiningslaust er að þinglýst hafði verið á ýmsar eignir Pressunnar ehf. og tengdra félaga, ekki fela í sér fullnægjandi sönnun þess að stefnandi hafi í reynd átt kröfuréttindi gegn félaginu. Í málinu er því ekki öðrum gögnum til að dreifa um ætluð kröfuréttindi stefnanda gegn Pressunni ehf. en tölvuskeyti fyrirsvarsmanns stefnanda sem var svar við tölvuskeyti stjórnarformanns Pressunnar ehf. 5. september 2017, þar sem spurst var fyrir um hvað lægi á bak við „skjal ykkar um skuld DV við Dalinn“. Af svari fyrirsvarsmanns stefnanda, sem gera verður ráð fyrir að veitt hafi verið samdægurs, verður helst ráðið að hann telji skuldina til komna af þremur greiðslum sem stefnandi hafi innt af hendi til þriðja aðila: einni vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 5,5 milljónir króna, annarri vegna staðgreiðslu að fjárhæð 6 milljónir króna og þeirri þriðju að fjárhæð 27,9 milljónir króna vegna „eldri skuldar við tollstjóra“. Alls er skuldin því í skeytinu talin nema 39,4 milljónum króna. Þessi fjárhæð er ekki í samræmi við þá fjárhæð, þ.e. 45 milljónir króna, sem samið var um degi síðar í áðurlýstum samningi málsaðila um framsal kröfu, auk þess sem sundurliðun kröfunnar er ekki í fullu samræmi við þær skýringar á kröfunni sem fram komu í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi. Þá verður ekki ráðið með vissu af fyrrgreindum samskiptum að þar hafi verið rætt um skuld Pressunar ehf. við stefnanda. Að þessu frátöldu liggja engin skrifleg gögn fyrir í málinu sem styðja fullyrðingu stefnanda um skuld Pressunnar ehf. við stefnanda að áðurgreindri fjárhæð hinn 6. september 2017.

Horfa verður til þess að stefnandi er lögaðili sem var meðal hlutahafa í Pressunni ehf. og byggir málatilbúnað sinn á því að hafa aðstoðað við rekstur félagsins með greiðslu skulda við Tollstjóra og veitingu lána og með því eignast kröfu gegn félaginu sem framseld hafi verið stefnda með áðurgreindum samningi. Að mati dómsins verður að gera ráð fyrir því að lánardrottinn í þeirri aðstöðu sem hér um ræðir hafi yfir að ráða einhvers konar gögnum til sönnunar fyrir þeim kröfum sem hann telur sig eiga gegn skuldara og geti vísað til slíkra gagna ef fram koma andmæli skuldara. Þrátt fyrir áðurlýst mótmæli stefnda og fullyrðingar um að Pressan ehf. hafi í reynd ekki staðið í skuld við stefnanda við gerð samningsins 6. september 2017 hefur stefnandi engin slík gögn lagt fram eða með öðrum hætti gert viðhlítandi grein fyrir þeirri kröfu sem hann telur sig hafa framselt stefnda með téðum samningi.

Ljóst er að umræddur samningur var gerður í tímaþröng, í þágu kaupa stefnda á helstu rekstrareignum Pressunnar ehf., og fólust mikilvægir hagsmunir stefnda í því að stefnandi létti veðböndum af þessum eignum. Jafnframt liggur fyrir að Pressan ehf. var tekin til gjaldþrotaskipta í byrjun desember 2017 og leið því tiltölulega skammur tími frá hinu ætlaða kröfuframsali þar til félagið varð að fullu ófært um greiðslu hugsanlegra krafna sem framseldar höfðu verið stefnda. Í ljósi þessara atvika þykir það ekki geta ráðið úrslitum í málinu að stefndi virðist engan reka hafa gert að því að kanna nánar hvaða raunverulega krafa stæði að baki umræddum samningi eða neytt heimilda til beitingar vanefndaúrræða, svo sem með yfirlýsingu um riftun. Þótt almennt gildi sú regla fjármunaréttar að sá sem heldur fram vanefnd gagnkvæms samnings, eða ógildi hans, beri sönnunarbyrðina fyrir slíkri staðhæfingu telur dómurinn að við þær aðstæður sem uppi eru í málinu verði stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun fyrir þeirri kröfu gegn Pressunni ehf. sem hann telur sig hafa framselt stefnda með téðum samningi. Eins og aðilar hafa lagt málið fyrir dóminn verður því að leggja til grundvallar að sú forsenda samningsins að stefnandi væri í reynd eigandi kröfu að fjárhæð a.m.k. 45.000.000 króna hafi brostið og væri það þar af leiðandi ósanngjarnt gagnvart stefnda að heimila stefnanda að bera samninginn fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eins og lögunum hefur síðar verið breytt. Verður fallist á kröfu stefnda um sýknu af þessum ástæðum.

Í ljósi atvika málsins og vafaatriða þess þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan

DÓMSORÐ

Stefndi, Frjáls fjölmiðlun ehf., er sýkn af kröfu stefnanda, Fjárfestingafélagsins Dalsins ehf.

            Málskostnaður fellur niður.

 

Skúli Magnússon