• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 28. febrúar 2019 í máli nr. S-669/2018:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

X

(Leifur Runólfsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 31. janúar sl., var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara þann 8. nóvember 2018, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir nauðgun, með því að hafa að morgni sunnudagsins 28. maí 2017 að [...] í [...] haft samræði við A, kennitala [...], án hennar samþykkis með því að notfæra sér að þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum, en A var ölvuð og sofandi á meðan ákærði hafði við hana samræði.

            Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu A, kt. [...], er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. maí 2017 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var kynnt fyrir ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

 

            Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður og bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa og sýknu af bótakröfu eða verulegrar lækkunar. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.

 

Málsatvik

            Þann 6. júní 2017 kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina [...] til þess að kæra kynferðisbrot af hálfu ákærða. Hún kvaðst hafa verið að fagna útskrift sinni úr menntaskóla og hafa farið í bæinn. Hún hefði fengið sér að drekka með vinum og farið á M þar sem vinkona hennar hefði verið að vinna og hefði gefið henni drykki. Hún hafi drukkið marga kokteila og hugsanlega líka skot. Hún hefði hitt ákærða og vini hans á M, en þeir væru allir vinir fyrrverandi kærasta hennar. Hún hefði líka hitt þarna annan strák sem hún þekkti úr skólanum og hefði kysst hann.

            Undir lokin, um klukkan fimm um morguninn, hefðu hún, vinkona hennar og ákærði ákveðið að taka „skutlarabíl“ saman. Fyrst hefðu þau komið við í [...] og fengið sér að borða. Hún hefði verið mjög drukkin og dáið áfengisdauða í bifreiðinni og muni ekkert eftir bílferðinni, en vinkona hennar hefði tekið mynd af henni með greiðslukort í munninum. Hún hefði farið fyrst úr bifreiðinni, væntanlega vegna ástands hennar. Vinkona hennar hefði sagt henni að það hefði tekið langan tíma að vekja hana og hún hefði beðið ákærða að fylgja henni inn þar sem hún hefði varla staðið í fæturna. Hún hefði stungið upp á því við ákærða að hann gisti hjá henni svo hann þyrfti ekki að fara alla leið heim. Hún hefði haft tvær sængur en bara einbreitt rúm. Henni hefði fundist hún vera góð við hann, en ekki ætlað sér að gera neitt með ákærða, enda hefði hún enn verið að hitta fyrrverandi kærasta sinn og bæri tilfinningar til hans.

            Hún hefði farið á klósettið, en ekki munað eftir því heldur hefði pabbi hennar sagt henni frá því daginn eftir. Hún hefði svo farið inn í herbergi og farið úr kjólnum og sokkabuxunum. Svo hefði hún farið á undirfötunum undir sæng, snúið sér að veggnum og reynt að taka sem minnst pláss svo ákærði gæti líka farið að sofa. Hún hefði verið að „deyja“ aftur en ákærði hefði tekið undir höfuð hennar og slegið hana létt í andlitið til að reyna að vekja hana. Hann hefði spurt hvort hún væri vakandi og hún hefði umlað eitthvað. Hún hefði aftur „dáið“ og það hefði liðið einhver tími sem hún muni ekki eftir. Svo hefði hún rankað við sér þar sem ákærði hefði verið að hafa samfarir við hana, en hún hefði enn legið í sömu stellingunni. Hún hefði í fyrstu ekki skilið hvað væri að gerast en þegar hún hefði áttað sig á því, nokkrum sekúndum seinna, hefði hún ýtt honum frá og spurt hann hvað hann væri að gera. Hún kvaðst hafa fengið ógeðstilfinningu um allan líkamann. Henni hefði fundist hún notuð og liðið mjög illa. Hann hefði beðist fyrirgefningar en hún hefði sagt honum að koma sér út og ekki viljað tala við hann. Hann hefði hringt á leigubíl og farið.

            Þegar hann hefði verið farinn hefði hún farið að gráta og síðan tekið mynd af sér, hugsanlega til að sýna tímann. Henni hefði liðið illa þarna inni og fundist hún verða að fá ferskt loft. Hún hefði því klætt sig, farið út og sest á bekk nálægt húsinu. Þar hefði hún hágrátið og sent fyrrverandi kærasta sínum skilaboð þar sem hún hefði viljað segja honum sína hlið áður en ákærði gerði það. Hún hefði beðið hann að sækja sig. Hún hefði einnig fengið skilaboð frá ákærða um að hringja í hann. Hún hefði gert það en myndi ekkert hvað þar hefði verið rætt. Hún hefði síðan farið að strætóskýli þar sem fyrrverandi kærastinn hefði ætlað að sækja hana. Hún hefði þá séð tvær vinkonur sínar sem hefðu verið á leiðinni í vinnuna. Þær hefðu séð að hún var grátandi og að tala í símann. Hún hefði sagt þeim frá því sem hefði gerst. Fyrrverandi kærastinn hefði þá komið og fengið að heyra hvað hefði gerst. Hann hefði brugðist illa við í fyrstu en síðan ekið henni heim til vinkonu hennar. Vinkonan hefði ekki verið heima svo hún hefði hringt í hana. Hún hefði verið hjá annarri vinkonu sinni og spurt hvað væri að því brotaþoli hefði grátið mikið. Hún hefði sagst ætla að koma heim. Fyrrverandi kærasti hennar hefði svo hringt í hana og beðist afsökunar á hegðun sinni. Hann hefði þá verið búinn að tala við vin sinn og róast. Hann hefði sagst ætla að veita henni stuðning. Síðan hefði hann komið til hennar eftir að vinkona hennar hefði komið og þau farið út og rætt saman. Þegar hún hefði komið aftur inn hefði móðir vinkonu hennar komið til hennar og sagt að þær ættu að fara á neyðarmóttökuna. Eftir þetta hafi henni fundist hún vera tóm, með óraunveruleikatilfinningu og liðið mjög illa.

            Við skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu, 21. júní 2017, neitaði hann sök og kvaðst hafa haft samfarir við brotaþola með hennar samþykki.

            Í skýrslu neyðarmóttöku vegna komu brotaþola, 28. maí 2017 kl. 10:30, er greint frá því að brotaþoli hafi lýst talsverðri áfengisdrykkju. Hún hefði hitt ákærða á M og tekið „skutlara“ með honum og vinkonu hennar. Hún myndi lítið eftir ferðinni heim og hefði verið nálægt áfengisdauða. Ákærði hefði aðstoðað hana við að fara inn, en hann væri besti vinur fyrrverandi kærasta hennar. Hún hefði boðið honum að gista þar sem hún hefði verið þakklát fyrir aðstoðina. Hún hefði klætt sig úr kjólnum og sofnað áfengisdauða. Ákærði hefði reynt að vekja hana og hún svo vaknað með hann inni í sér. Hún hefði reiðst og sagt honum að koma sér út og hann hefði farið. Hún hefði þá ekki getað hugsað sér að vera þarna lengur heldur skipt um föt og farið út. Fram kemur í skýrslunni að brotaþoli hafi verið töluvert drukkin og ringluð við komu á neyðarmóttöku. Hún hafi verið slegin, í mikilli vanlíðan og grátið mikið. Hún hafi verið þreytt og ekki munað allt en hafi sagt skýrt frá og verið trúverðug. Áverkar hafi ekki verið sjáanlegir á brotaþola.

            Blóðsýni úr brotaþola voru send í alkóhólrannsókn. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, frá 19. júní 2017, mældist alkóhól í blóði 0,84‰ kl. 12:30, 0,62‰ kl. 13:40 og 1,78 í þvagi kl. 11:30. Brotaþoli hefði því verið undir áhrifum áfengis þegar sýnin voru tekin. Brotthvarfshraði úr blóðinu væri 0,19‰ á klst. Etanólstyrkur í þvagi, þ.e. 1,78‰, segi til um meðalstyrk etanóls í blóðinu einhvern tíma á undan. Sambærilegur etanólstyrkur í blóðinu hafi því verið a.m.k. 1,4 fyrir kl. 11:30. Ef reiknað er til baka með brotthvarfshraðanum hafi etanólstyrkur verið 1,4 um þremur klukkustundum fyrir blóðsýnistöku, eða um kl. 09:30.

            Í vottorði G sálfræðings kemur fram að brotaþola hafi verið vísað til hennar af neyðarmóttöku í sálfræðilegt mat og áfallahjálp. Hún hafi fyrst rætt við brotaþola í síma 29. maí 2017 til að veita fyrstu áfallahjálp og bóka tíma. Hún hafi svo hitt hana þrisvar sinnum í viðtölum á tímabilinu 1. til 28. júní 2017. Hún hafi jafnframt átt bókaðan tíma 2. ágúst 2017 en ekki getað nýtt sér hann þar sem hún hafi [...]. Brotaþoli hafi greint frá mikilli vanlíðan eftir kynferðisbrot, svefnerfiðleikum og skertri matarlyst. Hún hefði upplifað sig skítuga, verið reið út í ákærða og fundist óþægilegt ef karlmenn horfðu á hana. Brotaþoli hefði verið opinská og trúverðug og sjálfri sér samkvæm. Geðslag hennar hefði verið lækkað og tilfinningaleg ásýnd í samræmi við umræðuefnið. Hún hefði greint frá bjargarleysi, viðbjóði og hrolli meðan á brotinu hefði staðið. Henni hefði fundist hún vera notuð, völdin tekin af henni og ekki litið á hana sem manneskju. Hún hefði upplifað dofa og óraunveruleikatilfinningu eftir brotið en síðan komist í uppnám og grátið. Hún hefði greint frá einkennum sem samsvari áfallastreituröskun í viðtölunum. Hún hefði greint frá endurupplifunareinkennum, forðunareinkennum og neikvæðum viðhorfum til sjálfrar sín, annarra og umheimsins, sjálfsásakandi hugsunum og neikvæðum tilfinningum. Þá hefði hún upplifað áhugaleysi, fjarlægð frá öðru fólki og ofurárveknieinkenni. Þessi einkenni hafi valdið henni uppnámi og truflun í daglegu lífi. Ekki sé ljóst hver þróun þessara einkenna hafi verið eftir viðtölin, en ekki hafi gefist tími til formlegs greiningarviðtals.

            Það er álit sálfræðingsins að sálræn einkenni brotaþola í kjölfar áfallsins hafi samsvarað einkennum sem þekkt séu hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll. Niðurstöður sjálfsmatskvarða hafi vel samsvarað frásögn brotaþola. Hún hefði virst trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Áfallastreitueinkenni brotaþola hefðu enn verið alvarleg í síðasta viðtalinu, um mánuði eftir atvikið. Ekki væri hægt að segja til um meðferðarþarfir í framtíðinni eða hver áhrifin yrðu til lengri tíma en ljóst væri að atburðinn hefði haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola.

            Í málinu liggja fyrir skjáskot úr síma brotaþola með smáskilaboðum frá ákærða. Samkvæmt þeim sendi hann brotaþola skilaboð kl. 7:26 að morgni sunnudagsins 28. maí 2017 þar sem hann bað hana að hringja í sig. Það sama kvöld kl. 22:35 sendi hann henni önnur skilaboð þar sem hann baðst afsökunar og sagði að sér liði „hræðilega með hvað gerðist í gær, getum við ekki talað um þetta?“

            Einnig liggja fyrir skjáskot af skilaboðum milli brotaþola og fyrrverandi kærasta hennar, B, þennan sama dag. Kl. 7:11 sendi brotaþoli honum skilaboð og bað hann að sækja sig. Hann segist munu sækja hana stuttu síðar er hann ljúki vinnu. Fram kemur hjá brotaþola að hún sé „smá viðkvæm“ og henni líði mjög illa. Þegar B spyr af hverju segist hún segja honum frá því á eftir. Svo segist hún vera svolítið full og ekki muna alveg. Hann spyr þá hvort hún hafi sofið hjá einhverjum og hún svarar: „Neei ekki beint vil helst segja þér þetta face 2 face“ og „Ég vildi þetta ekki btw“. B spyr hver þetta hafi verið og hún segist ekki vilja segja það í síma.

            Þá liggja fyrir tvær ljósmyndir af brotaþola. Annars vegar er um að ræða mynd sem tekin er í bifreið á leið heim til hennar og er tímasetning myndarinnar kl. 5:19. Virðist sem brotaþoli sé sofandi og hún er með greiðslukort í munninum. Hins vegar er svo dökk mynd af henni sem fram kemur að sé tekin í [...] 28. maí 2017 kl. 7:13 fyrir hádegi.

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

            Ákærði kvaðst hafa verið í útskriftarveislu þetta kvöld. Hann hefði svo farið í bæinn með vinum sínum. Hann hefði séð á Snapchat að brotaþoli væri að útskrifast og beðið hana að koma á M. Þau þekktust þar sem hún hefði verið kærasta vinar hans, B. Þau hefðu verið hætt saman en þó haldið áfram að hittast eitthvað. Brotaþoli hefði stokkið á hann og knúsað þegar þau hefðu hist. Hún hefði spurt hann hvort hún væri „heit“ og hvort hann myndi sofa hjá henni ef hún væri enn með kærastanum sínum. Hann hefði hikað en sagt „kannski ef þú værir stjarna“. Þau hefðu fengið sér drykk á barnum þar sem vinkona brotaþola hefði gefið honum skot. Aðspurður kvaðst hann minnast þess að hafa séð brotaþola kyssa annan strák í upphafi kvöldsins.

            Við lokun staðarins hefðu vinir hans farið heim en hann hefði viljað vera lengur. Hann hefði sagt þeim að hann ætlaði að reyna við vinkonu brotaþola, en það hefði ekki komið til þess þar sem það hefði verið vandræðalegt að reyna við hana fyrir framan brotaþola. Brotaþoli hefði sagt að hún væri í miklu stuði og hana langaði til að fara með einhverjum heim. Hann hefði farið með brotaþola og vinkonu hennar í [...] þar sem þau hefðu fengið sér samloku. Þegar þau hefðu farið þaðan hefði brotaþoli spurt hann hvort þau gætu sagt vinkonu hennar að hún færi heim með honum þar sem hún vildi ekki fara heim með vinkonu sinni. Hann hefði játað því og þess vegna hefðu þau sagt skutlaranum, sem hefði keyrt þau heim, að fara fyrst í [...] og svo [...]. Þau hefðu keyrt vinkonuna fyrst heim. Brotaþoli hefði viljað fara heim til hans, en hann hefði neitað því. Þegar þau hefðu komið heim til hennar hefði hún beðið hann að koma inn. Hún hefði ekki lengur verið full og skemmtileg en svo hefði virst sem hún vildi ekki vera ein. Spurður um ólíkan framburð að þessu leyti hjá lögreglu kvaðst hann ekki hafa munað þetta nógu vel þá. Brotaþoli hefði ekki átt í erfiðleikum með að ganga inn og hann minnti að hún hefði tekið utan um hann en hann hefði talið að þetta væri vinalega meint.

            Hann hefði farið inn með henni og hefði beðið í svefnherbergi hennar á meðan hún hefði farið á klósettið. Þegar hún hefði komið inn í herbergið hefði hún afklæðst öllu nema nærfötunum. Hann hefði farið úr buxunum og verið í nærbuxum og skyrtu. Þau hefðu fyrst legið þögul í rúminu en svo farið að ræða um [...]. Hún hefði verið vakandi og með fulla meðvitund. Hún hefði fyrst legið upp við vegginn en svo snúið sér við og legið á bakinu. Hún hefði síðan farið að nudda læri og rassi upp við hann og tónninn í rödd hennar hefði breyst. Hann hefði æst við það og sett hönd sína á lærið á henni. Hann hefði svo farið að strjúka henni til að sjá hvort hún neitaði. Hún hefði ekki gert það heldur stunið og hreyft sig eins og hún vildi þetta. Hann hefði því talið að hún væri samþykk þessu og farið að nudda hana. Þau hefðu kysst og hann hefði tekið hana úr nærbuxunum og „fingrað“ hana. Hann hefði farið ofan á hana og hún haldið utan um axlir hans. Hann hefði svo verið „tæpur“ og hefði þá stoppað. Hún hefði ýtt honum af eftir um hálfa til eina mínútu og svo farið að gráta og beðið hann að fara þar sem þetta væru mistök. Hann hefði ekki skilið af hverju, en teldi að það tengdist B. Hann hefði hringt á leigubíl og farið heim.

            Hann hefði svo sent henni skilaboð um hálftíma eftir að hann hefði farið og aftur um kvöldið. Spurður um skilaboð sín þar sem hann bað brotaþola afsökunar og sagðist líða hræðilega með hvað hefði gerst kvaðst hann hafa átt við að hann væri leiður vegna vinar sín sem hefði verið kærasti brotaþola. Hann mundi hins vegar ekkert eftir því hvað hefði komið fram í símtali við brotaþola um morguninn. Ákærði kvaðst hafa verið nokkuð drukkinn þetta kvöld, eða um 7 af kvarðanum upp í 10. Vegna þessa myndi hann ekki öll samtöl nákvæmlega. Brotaþoli hefði verið aðeins drukknari. Hún hefði verið um 8 til 9 af 10 þegar þau hefðu farið af M en það hefði verið nokkuð runnið af henni þegar þau hefðu komið heim til hennar. Hún hefði verið hlæjandi í bílnum á leiðinni heim, en svo látið eins og hún væri að dotta. Hann hefði upplifað þetta eins og athyglissýki. Hann mundi ekki til þess að mynd hefði verið tekin af brotaþola í bifreiðinni en tímasetningin á myndinni gæti passað við ferðina heim. Hann gæti hafa verið heima hjá brotaþola í um eina og hálfa klukkustund. Ákærði kvaðst telja hugsanlegt að brotaþoli ásakaði hann um kynferðisbrot þar sem hún hefði ekki viljað líta illa út í augum fyrrverandi kærasta síns. Ákærði kvaðst í dag búa í [...] með kærustu sinni. Hann væri í [...].

            Brotaþoli kvaðst þekkja ákærða í gegnum fyrrverandi kærasta sinn, B. Þetta kvöld hefði hún verið að fagna útskrift sinni úr menntaskóla. Hún hefði drukkið nokkra kokteila og mörg skot og orðið mjög drukkin. Vinkona hennar hefði verið að vinna á barnum á M og hún hefði gefið henni mikið og blandað sterkt. Hún hefði aldrei áður orðið svona drukkin. Hún hefði hitt ákærða á M og orðið glöð yfir því að sjá hann en ekkert hefði verið á milli þeirra. Hún hefði enn haft tilfinningar til B og þau hefðu enn verið að hittast. Ákærði hefði vitað það. Hún hefði verið hress og dansað við alla. Hún hefði kysst annan strák sem hún hefði kannast við á staðnum. Þau hefðu verið á staðnum fram að lokun um klukkan fimm en þá farið í [...] með vinkonu hennar og ákærða. Hún hefði þá átt erfitt með að standa vegna áfengisáhrifa. Þau hefðu ákveðið að taka saman „skutlara“. Hún hefði verið mjög drukkin og „dáið“ um leið og hún hefði komið í bifreiðina. Vinkona hennar hefði tekið mynd af henni í bifreiðinni, sofandi með greiðslukort í munninum. Hún hefði í upphafi talið að hún hefði farið fyrst úr bifreiðinni en vinkona hennar hefði sagt henni að hún hefði farið á undan og beðið ákærða að hjálpa henni að komast inn. Hana minnti að ákærði hefði boðið henni að gista hjá sér en mundi ekki til þess að hafa ætlað að gista hjá vinkonu sinni. Faðir hennar hefði viljað að hún kæmi heim og hún hefði sagt henni það ef það hefði verið rætt. Hún vissi ekki af hverju bifreiðin hefði fyrst farið í [...]. Ákærði hefði hjálpað henni inn í húsið og hún hefði boðið honum gistingu.

            Hún hefði farið á klósettið en myndi ekki eftir því. Því næst hefði hún farið inn í svefnherbergi, farið úr kjólnum og sokkabuxunum og lagst upp í rúm. Það hefðu verið tvær sængur í rúminu. Hún hefði lagst með andlitið upp að vegg með aðra sængina svo ákærði hefði nóg pláss. Hún hefði svo „dáið“ uppi í rúmi. Hann hefði slegið í kinnina á henni og spurt hana hvort hún væri vakandi. Hún hefði sagt að hún vildi fara að sofa og hefði svo „dáið“ aftur. Ákærða hefði ekki getað dulist að hún væri sofandi. Hún hefði ekki talað við ákærða og ekki kysst hann. Hún hefði verið í sömu stellingu allan tímann. Þegar hún hefði vaknað aftur hefði hann verið að hafa kynmök við hana. Hún hefði enn verið í brjóstahaldaranum en mundi ekki eftir nærbuxunum. Hún hefði ýtt honum frá og spurt hvað hann væri að gera. Hann hefði beðið hana afsökunar og farið skömmu síðar með leigubíl. Hún hefði síðan tekið símann sinn upp og tekið mynd af sér um tíu mínútum eftir að hann hefði farið.

            Henni hefði síðan fundist að hún gæti ekki verið þarna lengur, farið í einhver föt og farið út. Hún hefði sest á bekk og sent B skilaboð þar sem hún hefði ekki viljað að hann heyrði sögu af þessu frá öðrum. Hún hefði ekki hugsað rökrétt og átt von á því að ákærði segði honum frá atvikum á annan hátt. B hefði í fyrstu brugðist illa við. Ákærði hefði síðan sent henni skilaboð. Hún hefði hringt í hann en mundi ekki hvað þau hefðu rætt um. Hún hefði setið hágrátandi á bekknum. B hefði þá hringt og ætlað að sækja hana í strætóskýli. Þar hefði hún hitt vinkonur sínar sem hefðu verið að keyra fram hjá en stansað til að tala við hana. B hefði komið og sótt hana og keyrt hana heim til vinkonu hennar. Hann hefði farið til að tala við vin sinn sem hefði verið með ákærða um kvöldið. Vinkona hennar hefði ekki verið heima, en hún hefði hringt í hana og fengið hana til að koma. Hún hefði svo farið með vinkonu sinni og móður hennar á neyðarmóttökuna. Brotaþoli lýsti því að henni hefði liðið ömurlega eftir þennan atburð. Hún hefði fundið að brotið hefði verið á sér og fundist hún vera skítug. Hún hefði grátið og liðið mjög illa í upphafi. Hún hefði þolað snertingu mjög illa, hefði óttast að sjá ákærða og hefði forðast ýmsa staði. Hún hefði farið mikið í bað og sturtu og átt erfitt með að tala um þetta.

            Vitnið C, vinkona brotaþola, kvaðst hafa verið að skemmta sér með henni þetta kvöld og þær hefðu drukkið mjög mikið. Brotaþoli hefði meðal annars kysst strák sem hún hefði þekkt úr skólanum. Þær hefðu verið á M fram að lokun. Það hefði verið orðið kalt og ákærði hefði boðist til að taka skutlara með þeim. Ekkert hefði verið í gangi milli ákærða og brotaþola og heldur ekki hennar og ákærða. Brotaþoli hefði verið í slæmu ástandi vegna áfengisáhrifa. Hún hefði sofnað í bifreiðinni á leiðinni. Brotaþoli hefði ætlað að greiða fyrir aksturinn en erfitt hefði reynst að vekja hana til að fá greiðslukortið hennar og pin-númerið. Þau hefðu komið við á bensínstöð og greitt fyrir bensínið. Hún hefði tekið mynd af brotaþola með kortið í munninum. Brotaþoli hefði sofið alla leiðina í [...]. Henni hefði fundist skrítið að ákærði færi með þeim alla leið þangað enda hefði hún búist við því að hann færi út í [...]. Hún taldi að brotaþoli hefði ekki talað um að gista hjá ákærða, en ef svo hefði verið hefði það verið til að gista á sófanum. Hún mundi heldur ekki eftir umræðu um að brotaþoli gisti hjá henni. Þau hefðu fyrst stoppað heima hjá henni. Hún hefði setið í miðjunni og ákærði hefði því þurft að fara út til þess að hleypa henni út. Hún hefði beðið ákærða að sjá til þess að brotaþoli kæmist heim til sín en hún hefði séð að brotaþoli treysti honum. Hann hefði samþykkt það. Vitnið kvaðst hafa heyrt af atvikum daginn eftir. Brotaþoli hefði hringt í hana algerlega miður sín og hún hefði sjálf farið að gráta. Hún hefði aldrei áður heyrt hana svona sorgmædda og leiða. Það hefði tekið brotaþola langan tíma að jafna sig og treysta öðrum.

            Vitnið B, fyrrverandi kærasti brotaþola, kvað þau hafa verið nýlega hætt saman á þessum tíma en ennþá hafa verið að hittast. Hann hefði þekkt ákærða í áratug og þeir hefðu verið bestu vinir í sjö ár. Ákærði hefði vitað betur en allir aðrir hvernig sambandi hans við brotaþola hefði verið háttað. Nóttina sem um ræddi hefði hann verið að vinna í [...]. Brotaþoli hefði hringt í hann milli kl. 7 og 8 um morguninn, hágrátandi. Hún hefði greinilega verið í miklu uppnámi en hann hefði bara einu sinni áður séð hana gráta. Hún hefði sagt að einhver sem hann þekkti hefði misnotað sig en hún hefði í fyrstu ekki viljað segja hver það hefði verið. Hann hefði séð hana úti á götu þar sem hún hefði verið að tala við vinkonur sínar þegar hann hefði komið til að sækja hana. Hún hefði verið illa klædd og enn ölvuð. Hún hefði virst vera hrædd og í áfalli. Þegar hún hefði komið upp í bifreið hans hefði hún sagt honum um hvern væri að ræða. Hann hefði fengið áfall og orðið reiður. Hann hefði ekið henni heim til vinkonu hennar og síðan sjálfur hringt í vin sinn sem hefði ekið strákahópnum kvöldið áður. Vinurinn hefði greint honum frá því sem hann vissi og róað hann. Hann hefði jafnframt hringt í móður ákærða og spurt hvort ákærði væri heima. Hann hefði greint henni frá því sem hefði gerst. Hann hefði svo farið aftur að hitta brotaþola og hún þá sagt honum nánar frá atvikum. Hún hefði sagt að hún hefði vaknað með ákærða ofan á sér að hafa við sig samfarir. Hún hefði ýtt honum af sér og rekið hann út. Vitnið kvaðst hafa hringt í ákærða um kvöldið. Tveir félagar hans hefðu verið viðstaddir og hann hefði tekið símtalið upp. Hann hefði leyft ákærða að útskýra hvað hefði gerst. Atvikið hefði haft verulega áhrif á brotaþola. Hún hefði ekki verið söm eftir þetta. Hann hefði veitt henni mikinn stuðning þar til hún hefði farið til [...].

            Vitnið D, vinkona brotaþola, kvaðst hafa séð hana við strætóskýli að morgni dags þegar hún var á leið í vinnu ásamt vinkonu sinni. Þær hefðu stansað og talað við hana. Hún hefði enn verið undir áhrifum áfengis og sjúskuð um hárið. Hún hefði grátið og verið í uppnámi og þær hefðu reynt að hugga hana og bíða með henni. Hún hefði greint frá því að henni hefði verið nauðgað en ekki sagt hver hefði gert það. Fyrrverandi kærasti hennar hefði svo komið og sótt hana. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir breytingum á brotaþola eftir þetta.

            Vitnið E, vinkona brotaþola, kvað brotaþola hafa farið heim til hennar þennan morgun og hringt í sig þaðan. Hún hefði verið grátandi og í áfalli og greint sér frá því að henni hefði verið nauðgað. Hún hefði svo sagt henni seinna um morguninn hver hefði gert það. Vitnið kvaðst hafa farið heim og vakið móður sína. Þær hefðu fylgt brotaþola á neyðarmóttöku. Vitnið lýsti því að hún hefði orðið vör við breytingar á brotaþola eftir þetta atvik.

            Vitnið F, móðir vitnanna E og D, kvað brotaþola hafa komið á heimili hennar snemma morguns. Hún hefði verið útgrátin og miður sín og greint frá því að vinur hennar hefði nauðgað henni. Hún hefði greinilega verið undir áhrifum áfengis. Hún hefði sagt brotaþola að fara ekki í sturtu, eins og hún hefði viljað, heldur fara á neyðarmóttöku. Hún hefði þekkt brotaþola vel í nokkur ár og hefði orðið vör við miklar breytingar á henni eftir þetta. Hún hefði átt erfitt andlega og ekki treyst fólki.

            Vitnið H kvaðst hafa verið á leið til vinnu, rétt fyrir klukkan átta um morgun, ásamt D, þegar þær hefðu séð brotaþola í strætóskýli. Þær hefðu stansað og brotaþoli hefði greint þeim frá því að henni hefði verið nauðgað. Þær hefðu séð að hún var undir áhrifum áfengis og illa klædd. Hún hefði verið niðurbrotin og grátandi. Hún hefði tekið eftir því að brotaþoli hefði átt erfitt fyrst eftir þetta atvik.

            Vitnið I kvaðst hafa verið vinur ákærða. Hann þekkti brotaþola einnig þar sem hún hefði verið kærasta vinar hans. Umrætt kvöld hefði hann verið allsgáður úti með vinum sínum. Þeir hefðu hitt brotaþola á M þar sem hún hefði verið með vinkonu sinni. Þegar staðnum hefði verið lokað hefði hann safnað saman þeim sem hann hefði ætlað að keyra heim. Ákærði hefði þá viljað vera eftir. Hann hefði talið að það tæki því ekki þar sem allir staðir væru að loka. J, vinur hans, hefði farið á eftir ákærða til að ræða þetta við hann, en hann hefði ekki viljað fara með þeim og sagt að hann ætlað að sjá hvert hann kæmist með vinkonu brotaþola. Hann hefði þó ekki séð neitt í gangi milli ákærða og hennar. Hann hefði séð hann dansa við brotaþola, en honum hefði fundist það á vinalegum nótum. Brotaþoli hefði verið mjög drukkin og varla staðið í fæturna. Hann hefði talið að hún myndi ekki þrauka bílferð heim. Næsta morgun hefði hann vaknað við símtal frá B sem hefði verið í uppnámi og viljað hitta hann. B hefði greint honum frá því sem hefði gerst. Hann hefði róað hann og sagt honum hvernig hann gæti veitt brotaþola stuðning.

            Vitnið J kvað ákærða hafa verið einn af bestu vinum sínum og brotaþoli hefði verið kærasta vinar hans. Umrætt kvöld hefði hann verið með félögum sínum í bænum og þeir hefðu verið saman á bíl. Þeir hefðu hitt brotaþola á M. Þegar þeir hefðu ætlað heim hefði ákærði ekki viljað fara með. Hann hefði farið á eftir honum til að ræða það við hann. Ákærði hefði þá sagt að hann ætlaði að kanna möguleikana með vinkonu brotaþola. Hann hefði sjálfur ekki orðið var við neitt á milli þeirra og ekki heldur á milli ákærða og brotþola. Hann taldi að bæði ákærði og brotaþoli hefðu verið talsvert drukkin. Hann kvaðst hafa heyrt af atvikum daginn eftir, þegar ákærði hefði haft samband við hann og sagt að eitthvað hefði gerst milli sín og brotaþola. Ákærði hefði beðið hann að tala við B þar sem hann svaraði ekki símtölum hans. Hann hefði virst hræddur og í áfalli. B hefði svo sagt honum hvað hefði raunverulega gerst. Hann hefði rætt þetta frekar við ákærða sem hefði sagt að hann hefði farið heim með brotaþola en hætt um leið og hún hefði beðið um það.

            Vitnið K, móðir ákærða, kvað B hafa hringt í sig snemma morguns og spurt hvort ákærði væri heima. Hún hefði kannað það og séð að hann var kominn heim. B hefði þá sagt henni að ákærði hefði þvingað sig inn á heimili brotaþola, sem hefði verið mjög ölvuð. Hún hefði reynt að tala við ákærða en hann hefði verið mjög drukkinn og ekki viðræðuhæfur fyrr en eftir hádegi. Hann hefði strax sagt að þetta væri ekki það sem hefði gerst heldur hefðu þau verið saman með hennar samþykki. Henni hefði fundist hann mjög trúverðugur.

            Vitnið L, vinkona brotaþola, kvaðst hafa unnið sem barþjónn á M. Hún hefði gefið brotaþola að drekka þetta kvöld. Brotaþoli hefði verið orðin mjög drukkin og ekki staðið í fæturna. Hún hefði ekki hleypt henni út ef hún hefði verið ein, en vinkona hennar hefði verið með henni. Staðnum væri alltaf lokað um hálffimm og það tæki jafnvel um klukkustund að koma fólki út, en flestir væru farnir um fimm.

            Vitnið P, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, kvaðst hafa verið kölluð út að morgni dags vegna brotaþola. Hún hefði komið á neyðarmóttökuna um 10:30 en brotaþoli hefði þá verið komin nokkru áður. Brotaþoli hefði enn verið undir áfengisáhrifum og greinilega í áfalli. Hún hefði grátið mikið og skolfið. Hún hefði annað slagið verið fjarræn og dottið út. Á köflum hefði hún vaðið úr einu í annað og verið samhengislaus í byrjun. Þá hefði hún verið ringluð og bjargarlaus og sýnt einkenni þess að hafa orðið fyrir áfalli.

            Vitnið Q, gæða- og sviðsstjóri hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, greindi frá blóð- og þvagrannsókn á brotaþola til greiningar á alkóhólmagni. Hún kvað hægt að greina að alkóhólmagn hefði náð hámarki og væri á niðurleið. Miðað við brotthvarfshraða væru nokkrar klukkustundir frá því að hámarkinu hefði verið náð. Fullvíst væri að etanólstyrkur hefði verið a.m.k. 1,4‰ um þremur klst. fyrir blóðsýnatökuna. Miðað við að brotaþoli hefði ekki drukkið áfengi frá klukkan fimm um morguninn hefði allt átt að vera komið í blóðið og hafa náð hámarki um kl. sjö. Etanólstyrkurinn gæti hafa verið um 1,8 til 1,9‰. Ekki sé þó hægt að segja nákvæmlega fyrir um hvernig ástandið hafi verið um klukkan sjö. Almennt ástand þess sem slíkur styrkur mælist hjá sé talsverð ölvun. Það sé einstaklingsbundið hversu mikið þurfi til þess að fólk deyi áfengisdauða.

            Vitnið G sálfræðingur greindi frá viðtölum sínum við brotaþola. Hún hefði hitt hana þrisvar sinnum áður en hún fluttist til [...] og einu sinni eftir það. Hún hefði haft einkenni sem samræmdust því að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Hún hefði greint frá bjargarleysi, viðbjóði og hrolli. Völdin hefðu verið tekin af henni eins og hún væri hlutur. Hún hefði haft einkenni áfallastreitu en ekki verið greind þar sem hún hefði verið að flytja af landinu. Einkennin hefðu verið alvarleg, svo sem kvíði, þunglyndi og streita. Þegar hún hefði komið aftur í viðtal 30. ágúst 2018 hefði hún enn haft slík einkenni en þau hefðu verið vægari.

 

Niðurstaða

            Ákærði neitar sök. Hann kveðst hafa haft samræði við brotaþola á heimili hennar með hennar samþykki. Brotaþoli lýsti því hins vegar að ákærði hefði nýtt sér það að hún væri ofurölvi til þess að hafa við hana samræði.

            Ákærði og brotaþoli hittust á skemmtistaðnum M aðfaranótt 28. maí 2017, en þau þekktust í gegnum fyrrverandi kærasta brotaþola, sem var vinur ákærða. Þau voru bæði undir talsverðum áfengisáhrifum. Ekki virðist hafa verið nokkur samdráttur á milli þeirra. Brotaþoli kyssti annan mann á staðnum og ákærði hefur borið að hafa orðið var við það. Við lokun staðarins vildi ákærði ekki fara heim með vinum sínum en fór þess í stað með brotaþola og vinkonu hennar. Hann greindi vinum sínum frá því að hann hefði áhuga á vinkonu brotaþola. Ekkert bendir þó til þess að hann hafi gert nokkra tilraun til þess að nálgast hana.

            Brotaþoli greindi frá því að hafa drukkið mikið áfengi þetta kvöld frá því um kl. 18 og þar til [...] var lokað um kl. fimm um morguninn. Hún lýsti því að hafa varla staðið í fæturna og fær sá framburður stuðning í framburði vitna sem lýstu slæmu ástandi hennar við lokun staðarins. Vitni sem hittu brotaþola síðar um morguninn lýstu því jafnframt að hún hefði þá enn verið undir áhrifum. Þá liggur fyrir matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands sem staðfestir að brotaþoli hafi verið undir talsvert miklum áfengisáhrifum.

            Brotaþoli kveðst hafa sofnað ölvunarsvefni um leið og hún kom inn í bifreiðina sem ók þeim vinkonu hennar og ákærða heim. Vinkona hennar staðfesti að hún hefði sofið nær alla leiðina og mjög erfitt hefði verið að vekja hana til að fá greiðslukort frá henni. Þá hafi ákærði þurft að hleypa henni úr miðjusætinu þegar heim til hennar hafi komið þar sem brotaþoli hafi sofið. Í málinu liggur fyrir mynd sem tímasett er kl. 5:19 af brotaþola sofandi í bifreiðinni. Ákærði greindi jafnframt frá því að hafa séð brotaþola dotta í bifreiðinni en taldi hana hafa verið að látast. Hann lýsti því þó að áfengisástand hennar hefði verið um 8 til 9 á kvarðanum 1 til 10 þegar þau hefðu farið af skemmtistaðnum. Brotaþoli kveðst ekki muna mikið eftir bílferðinni og af þeim sökum hafa talið að hún hefði farið út á undan vinkonu sinni þegar raunin hafi verið önnur.

            Ákærði fylgdi brotaþola inn á heimili hennar. Ákærði og brotaþoli eru sammála um að brotaþoli hafi boðið honum að gista hjá sér. Brotaþoli kveðst hafa ætlað sér að vera almennileg við ákærða svo hann þyrfti ekki að fara aftur í bifreiðina. Ákærða og brotaþola ber saman um að hún hafi farið á baðherbergið, þótt hún virðist ekki muna eftir því, og síðan hafi hún afklæðst og farið á nærklæðunum upp í rúmið og undir sæng þar sem hún sneri upp að vegg. Þau greinir hins vegar á um hvað gerðist eftir það. Brotaþoli lýsti því að hún hefði sofnað eða dáið áfengisdauða um leið, en rumskað við að ákærði hefði verið að reyna að vekja hana. Hún hafi svo lognast út af aftur en vaknað við það að ákærði var að hafa við hana samfarir. Þegar hún hafi áttað sig á hvað væri að gerast hafi hún ýtt honum frá og spurt hvað hann væri að gera. Ákærði lýsir þessu hins vegar svo að þau hafi fyrst legið þögul í rúminu en svo farið að ræða saman. Brotaþoli hefði skipt um stellingu og farið á bakið. Hún hefði farið að nudda sér upp við hann og tónninn í rödd hennar breyst. Hann hefði þá snert hana og hún hefði stunið og hreyft sig eins og hún vildi þetta. Hann hefði svo farið ofan á hana og haft samfarir við hana. Hann kveðst hafa stoppað stuttu áður en brotaþoli hafi ýtt honum af sér. Hann kvaðst telja ástæðuna þá að hún hefði séð eftir þessu vegna þess að fyrrverandi kærasti hennar væri vinur hans.

            Ákærði pantaði leigubíl og fór heim skömmu síðar. Brotaþoli virðist hins vegar hafa byrjað á að senda skilaboð til fyrrverandi kærasta síns og biðja hann að sækja sig. Þá tók hún ljósmynd af sér í herberginu, að því er virðist til þess að tímasetja atvikið. Í framhaldinu fór hún út og settist á bekk. Þar hélt hún áfram samskiptum við fyrrverandi kærasta sinn. Honum og tveimur vinkonum brotaþola, sem öll hittu hana úti á götu snemma morguns, ber saman um að hún hafi verið illa klædd og sjúskuð og enn undir áhrifum áfengis. Hún hafi verið í uppnámi og grátið og greint frá því að sér hefði verið nauðgað.

            Í framhaldi fór brotaþoli til vinkonu sinnar og greindi henni og móður hennar frá því sama. Þær fóru svo stuttu síðar á neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota. Samkvæmt skýrslu neyðarmóttöku var lýsing brotaþola á atvikum með sama hætti og lýst hefur verið hér að framan. Þar kemur fram að hún hafi verið drukkin og ringluð en sagt skýrt frá með trúverðugum hætti. Nokkrum dögum síðar kærði brotaþoli ákærða til lögreglu.

            Ákærði sendi brotaþola skilaboð að kvöldi 28. maí 2017 með afsökunarbeiðni þar sem fram kom að honum liði hræðilega. Hann gaf þær skýringar á þessu að þetta tengdist vini hans sem væri fyrrverandi kærasti brotaþola.

            Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem gerðist í svefnherbergi hennar þessa nótt. Eins og að framan greinir lýsa þau atvikum eftir að þau fóru upp í rúm með mjög ólíkum hætti. Framburður brotaþola hefur verið stöðugur um alla atburði að því undanskildu að hún virðist ekki hafa munað öll atvik er tengdust heimferðinni úr bænum. Ákærði hefur jafnframt verið stöðugur í framburði sínum um að samræðið hafi verið með vilja brotaþola. Hann gaf þó ólíkar skýringar á því að hafa farið með brotaþola heim í stað þess að stoppa fyrst við heimili hans sem var nær miðbænum.

            Skýr og stöðugur framburður brotaþola er í fullu samræmi við framburð vitna og gögn í málinu og þykir trúverðugur. Hegðun hennar eftir að ákærði fór frá henni, sem hefur verið staðfest með framburði vitna og gögnum, bendir sterklega til þess að hún hafi ekki verið samþykk því sem gerðist. Skýringar ákærða í þá veru að brotaþoli hafi hugsanlega séð eftir því að hafa verið með honum vegna fyrrverandi kærasta síns þykja fráleitar í ljósi þess sem á eftir kom. Þá hafa vitni borið um breytingar á brotaþola og líðan hennar eftir atvikið og sálfræðingur greint frá því að hún hafi haft einkenni áfallastreituröskunar.

            Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands sýna niðurstöður rannsóknar á blóð- og þvagsýnum brotaþola að hún var undir áhrifum áfengis þegar sýnin voru tekin. Samkvæmt framburði sviðsstjóra Rannsóknarstofu gæti etanólstyrkur í blóði brotaþola hafa verið um 1,8 til 1,9‰ um klukkan sjö að morgni, þegar atvik áttu sér stað, að því gefnu að hún hafi hætt neyslu áfengis um klukkan fimm, eins og hún bar um. Þessar niðurstöður benda til þess að hún hafi verið talsvert ölvuð þegar atvikin áttu sér stað. Þá greindi hún frá því að hafa drukkið í u.þ.b. 11 klukkustundir en hún var þennan dag að fagna útskrift sinni úr menntaskóla. Með hliðsjón af því, framburði vitna og mynd sem tekin var af brotaþola á leiðinni heim þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að brotaþoli hafi ekki, sökum ölvunar og þreytu, getað spornað við samræðinu við ákærða. Þá gat þetta ástand hennar ekki dulist ákærða, en eins og að framan greinir lýsti hann því að hún hefði verið mjög ölvuð skömmu áður.

            Með hliðsjón af öllu framangreindu er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi haft samræði við brotaþola án hennar samþykkis þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu og notfært sér að þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum vegna ölvunar og svefndrunga. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og hefur hann með háttsemi sinn gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði er fæddur í [...] [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Með hliðsjón af framangreindu og alvarleika brotsins þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

            Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur. Brot hans var til þess fallið að valda brotaþola andlegri vanlíðan. Af vottorði og framburði sálfræðings fyrir dómi, auk framburðar vitna, verður ráðið að afleiðingar brotsins voru alvarlegar. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur, með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Leifs Runólfssonar lögmanns, 1.112.429 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur lögmanns, 664.020 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ákærði 152.878 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

            Dóm þennan kveður upp Barbara Björnsdóttir héraðsdómari.

 

                                                            D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.

            Ákærði greiði A 1.500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2017 til 18. október 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Leifs Runólfssonar lögmanns, 1.112.429 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur lögmanns, 664.020 krónur, og 152.878 krónur í annan sakarkostnað.