• Lykilorð:
  • Gæsluvarðhaldsvist
  • Lögreglurannsókn
  • Skaðabætur
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 27. mars 2017 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 14. febrúar sl. Stefnandi er Einar Ingi Marteinsson […]. Stefndi er fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli við Lindargötu, Reykjavík.

 

            Endanleg krafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.874.413 krónur með 4,5% vöxtum frá 13. janúar 2012 til 28. desember 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 10.000.000 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. janúar 2012 til 28. desember 2013 og frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

            Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

 

            Í þinghaldi 6. nóvember 2017 féll stefndi frá kröfu sinni um frávísun málsins.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

 

            Í málinu er deilt um bætur til stefnanda samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna handtöku og gæsluvarðhalds hans frá 13. janúar 2012 til 20. júní þess árs, að frátöldum tveimur sólarhringum frá 6. til 8. júní, auk tengdra rannsóknaraðgerða lögreglu og útgáfu ákæru. Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus, en stefnandi var sýknaður af öllum ákæruefnum með dómi Hæstaréttar 31. janúar 2013. Stefnandi höfðaði áður mál gegn stefnda vegna sömu atvika og var stefna þess máls þingfest 28. nóvember 2013. Með úrskurði héraðsdóms 27. febrúar 2014 var því máli vísað frá dómi vegna vanreifunar.

 

            Stefnandi var handtekinn 13. janúar 2012 vegna gruns um aðild að sérstaklega hættulegri líkamsárás og kynferðisbroti og úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag til 19. sama mánaðar að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Samkvæmt úrskurðinum skyldi stefnandi sæta einangrun. Úrskurður héraðsdóms var staðfestur með dómi Hæstaréttar 17. sama mánaðar. Í forsendum dóms réttarins var vísað til þess að stefnandi lægi undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað gæti fangelsisrefsingu og að rannsóknarhagsmunir stæðu til þess að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með úrskurði héraðsdóms 19. sama mánaðar var gæsluvarðhald stefnanda framlengt til 16. febrúar 2012 án ákvæðis um einangrun. Kom fram í forsendum úrskurðarins að rannsókn málsins væri á lokastigi, en stefnandi lægi undir sterkum grun um aðild að hrottalegri líkamsárás. Væri því nauðsynlegt, með tilliti til almannahagsmuna, að hann sæti áfram í gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er ekki um það deilt í málinu að í framhaldi af uppkvaðningu úrskurðarins var stefnandi fluttur úr fangelsinu að Litla-Hrauni í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík, þar sem gæsla hans var án takmarkana. Með dómi Hæstaréttar 23. sama mánaðar var úrskurður héraðsdóms staðfestur. Hinn 30. janúar 2012 var gerð húsleit á heimili stefnanda. Hinn 15. febrúar 2012 var gæsluvarðhald stefnanda framlengt á ný til 14. mars 2012 á sambærilegum grundvelli og áður. Í forsendum úrskurðarins kom fram að rannsókn málsins væri lokið og biði ákvörðunar ríkissaksóknara um ákæru. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 17. sama mánaðar.

 

            Hinn 14. mars 2012 gaf ríkissaksóknari út ákæru vegna málsins á hendur fjórum mönnum auk stefnanda. Var stefnandi þar ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, rán, nauðgun og þátttöku í skipulegri brotastarfsemi. Sama dag var kveðinn upp úrskurður í héraðsdómi um framlengingu gæsluvarðhalds stefnanda til 11. apríl. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 16. sama mánaðar. Með úrskurði 14. mars 2012 var gæsluvarðhald stefnanda framlengt, og enn á ný með úrskurðum 11. apríl 2012 og 9. maí 2012, allt til 6. júní 2012. Þessa úrskurði kærði stefnandi til Hæstaréttar, sem staðfesti þá í öllum tilvikum með vísan til forsendna sinna. Hin 6. júní 2012 hafnaði héraðsdómur hins vegar kröfu ákæruvaldsins um frekari framlengingar gæsluvarðhalds og vísaði einkum til þess að aðalmeðferð málsins hefði lokið 9. maí 2012 en ljóst væri að dómsuppsaga gæti dregist a.m.k. til 18. júní þess árs. Kom fram í úrskurðinum að í ljósi þess hversu lengi stefnandi hefði sætt gæsluvarðhaldi og eins og aðstæðum væri háttað þætti ekki unnt að fallast á áframhaldandi gæsluvarðhald, en fyrir lægi að hann hefði ekki verið á brotavettvangi. Með dómi Hæstaréttar 8. júní 2012 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi með vísan til þess að enn væru fyrir hendi skilyrði samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og fallist á kröfu um gæsluvarðhald til 18. þess mánaðar. Stefnandi var enn á ný úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. sama mánaðar. Þann dag var dómur kveðinn upp í héraðsdómi í áðurgreindu sakamáli þar sem stefnandi var sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og var stefnanda sleppt úr haldi í framhaldi af uppkvaðningu dómsins. Með dómi Hæstaréttar 31. janúar 2013 var ákvæði héraðsdóms um sýknu stefnanda af kröfum ákæruvaldsins staðfest.

 

            Í málinu liggur fyrir matsgerð […] og […], frá 5. febrúar 2016 um afleiðingar ætlaðs áfalls er stefnandi varð fyrir í tengslum við fyrrgreinda handtöku og gæsluvarðhald sem hann sætti. Þá liggur fyrir um sama efni yfirmatsgerð […], […] og […] frá 20. ágúst 2018. Í yfirmatsgerðinni kemur fram að stefnandi hafi verið greindur með áfallastreitu og alvarlegt þunglyndi og telja yfirmatsmenn að rekja megi einkennin til gæsluvarðhaldsvistarinnar að miklu leyti, þó þannig að taka beri tillit til fyrri sögu stefnanda sem gæti verið orsök geðeinkenna. Niðurstöður yfirmatsmanna eru þær að tímabil þjáningabóta teljist frá 2. júlí 2012 til 15. desember þess árs, án rúmlegu; að varanlegur miski sé 15 stig; að stöðugleikapunktur sé 31. janúar 2013 og tímabil óvinnufærni sé frá 13. janúar 2012 til 20. júní þess árs vegna frelsissviptingar og frá 2. júlí 2012 til 15. desember þess árs vegna veikinda. Niðurstaða yfirmatsmanna var sú að varanleg örorka stefnanda vegna umræddra atvika væri engin. Við aðalmeðferð málsins lýstu lögmenn aðila því yfir að þeir væru samþykkir því að niðurstöður yfirmatsmanna yrðu lagðar til grundvallar niðurstöðu dómsins. Er því ekki ástæða til að rekja önnur læknisfræðileg gögn málsins um líkamstjón stefnanda vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar.

 

            Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni […], […], […] og […].

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

 

            Stefnandi vísar einkum til bótaábyrgðar stefnda samkvæmt 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og þess að maður sem borinn hafi verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Stefnandi mótmælir því að hann hafi með nokkrum hætti valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir verulegu tjóni vegna ákæru á hendur honum í málinu, þeirra rannsóknaraðgerða lögreglu sem hann var beittur, handtöku, húsleitar á heimili hans og gæsluvarðhalds um rúmlega fimm mánaða skeið. Eigi hann samkvæmt 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 rétt á að fá bæði fjártjón og miska bættan.

 

            Stefnandi vísar til þess að hann hafi sætt einangrunarvistun hluta tímans, allt fram til 19. janúar 2012. Fyrstu fjórar vikur gæsluvarðhaldsins hafi hann ekki fengið að hitta konu sína og börn. Þegar hann hafi síðan fengið að hitta þau hafi það eingöngu verið í 30 mínútur í senn undir eftirliti fangavarðar. Þá hafi frelsissviptingin valdið honum miklum kvíða, angist og vanlíðan. Það hafi verið stefnanda verulega þungbært þegar héraðsdómur leysti hann úr gæsluvarðhaldi 6. júní 2012 til þess eins að hneppa hann aftur í gæsluvarðhald tveimur dögum síðar, þegar endanlegur dómur Hæstaréttar um gæsluvarðhaldsvistina var kveðinn upp.

 

            Stefnandi gerir kröfu um bætur vegna tímabundinna og varanlegra afleiðinga þess líkamstjóns sem hann hlaut vegna umræddra rannsóknaraðgerða og vísar um það til fyrrgreindrar yfirmatsgerðar, svo og 2., 3. og 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þar að auki sé gerð krafa um miskabætur á grundvelli 5. mgr. 228. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Stefnandi telji þær bætur sem byggðar eru á stöðluðum ákvæðum skaðabótalaga ekki nægilegar þegar litið sé til alvarleika málsins og þess að hér sé ekki um að ræða slys sem ómögulegt hafi verið að koma í veg fyrir heldur aðgerðir lögreglu og ákæruvalds sem stefnandi telji að koma hefði mátt í veg fyrir. Einnig er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 

            Fyrri hluta aðalkröfu sinnar sundurliðaði stefnandi við aðalmeðferð málsins svo að varanlegur miski hans samkvæmt áðurgreindri yfirmatsgerð næmi 1.576.000 krónum og þjáningarbætur 307.000 krónum. Við þetta bættust bætur fyrir tímabundið atvinnutjón að fjárhæð 2.040.000 krónur og næmi þessi krafa stefnanda því alls 3.942.129 krónum. Að því er varðar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón vísar stefnandi til tekjuupplýsinga vegna starfa fyrir nafngreint fyrirtæki sem nánar er vikið að í niðurstöðum dómsins.

 

            Að því er varðar kröfu um miskabætur vísar stefnandi í fyrsta lagi til þess að hann hafi tvívegis verið handtekinn. Í annan stað hafi farið fram hjá honum húsleit. Í þriðja lagi gerir stefnandi kröfu um miskabætur vegna gæsluvarðhalds frá 13. janúar 2012 til 20. júní sama ár, að frátöldu tímabilinu frá 6.–8. júní. Stefnandi telur stærstan hluta miska vegna rannsóknaraðgerða stafa af gæsluvarðhaldi í svo langan tíma sem raun ber vitni. Hann telur miska sinn verulegan vegna aðgerða lögreglu og teljast til alvarlegrar meingerðar gagnvart, frelsi, friði og æru stefnanda, einnig í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Allan þann tíma sem stefnandi sætti gæsluvarðhaldi hafi hann búið við stöðugan kvíða og óvissu um framtíð sína, sambýliskonu sinnar og ungs sonar þeirra. Við þetta hafi bæst sú einangrunarvist sem áður greini. Stefnandi hafi svo orðið fyrir verulegu áfalli þegar honum var sleppt heim eftir tæplega fimm mánaða gæsluvarðhaldsvist, til þess eins að vera handtekinn aftur tæplega tveimur dögum síðar og færður í gæsluvarðhald. Þá telur stefnandi að blaðaumfjöllum og það fjölmiðlafár sem hann sætti hafi valdið honum enn meiri miska en rannsóknaraðgerðir hefðu annars gert.

 

            Stefnandi vísar einnig til þess að gæsluvarðhaldsvistin hafi að stærstum hluta farið fram í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þar sem aðbúnaður hafi verið ófullnægjandi fyrir svo langa vistun og falið í sér ómannúðlega og vanvirðandi meðferð skv. 1. mgr. 68. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 33/1944, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi hafi verið læstur inni 23 tíma á sólarhring, fengið að fara út í garð hálftíma fyrir hádegi og hálftíma eftir hádegi. Þá hafi stefnandi verið læstur inni í klefa frá kl. 22:00–08:00 að morgni.

 

            Þá vísar stefnandi til þess að hann hafi ávallt verið handjárnaður þegar hann var færður fyrir dómara í fylgd tveggja eða fleiri sérsveitarmanna. Auk þess hafi þeir lögreglumenn sem séð hafi um fangaflutninga beitt stefnanda miklu harðræði við flutningana. Til að mynda hafi tíðkast að hann væri dreginn eða jafnvel borinn út í bíl, handjárnaður, snúið upp á hendurnar á honum, hann klipinn í handakrikana o.fl. Í eitt skipti kveður stefnandi lögreglumenn hafa níðst á sér alla leið frá Skólavörðustíg að Héraðsdómi Reykjaness, stappað á tánum á honum, gefið honum olnbogaskot o.fl. Þegar komið var í Héraðsdóm Reykjaness hafi þeir hrint honum út úr bílnum, öskrað á hann og borið hann síðan inn í húsið. Telur stefnandi að þarna hafi lögregla reynt að espa stefnanda upp til þess að sýna myndavélum fjölmiðla og dómurum reiðan mann. Hafi stefnandi verið marinn eftir tilburði lögreglu í umrætt skipti.

 

            Þótt stefnandi telji það þýðingarlaust fyrir úrlausn málsins tekur hann fram að hann telji að aðgerðir lögreglu og ákæruvalds gagnvart honum hafa verið ólögmætar, brostið hafi skilyrði til þeirra, bæði handtöku og húsleitar, en þó aðallega til gæsluvarðhaldsins. Telur hann að þetta eigi að horfa til hækkunar miskabóta. Er nánar vikið að málsástæðum og lagarökum stefnanda þar að lútandi í niðurstöðum dómsins að því marki sem þýðingu þykir hafa fyrir niðurstöðu málsins.

 

            Krafa stefnanda um 4,5% almenna vexti byggist á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miðast við tímann frá því að stefnandi var handtekinn 13. janúar 2012 fram til 28. desember 2013 en dráttarvaxta er krafist skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi og fram til greiðsludags. Krafa um vexti af miskabótum byggist á 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 13. janúar 2012 þegar stefnandi var handtekinn fram til 28. desember 2013 og frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, fram til greiðsludags. Upphafsdagur dráttarvaxta er miðaður við 30 daga frá þingfestingu stefnu í fyrra máli sem stefnandi höfðaði gegn stefnda en var vísað frá dómi, þ.e. 28. desember 2013.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

 

            Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á og fella skuli niður bætur eða lækka þær í samræmi við 2. málslið 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og almennar reglur skaðabótaréttarins um eigin sök. Í þessu sambandi er einkum vísað til þess að stefnandi hafi ekki sýnt samvinnu við rannsókn málsins og ýmist kosið að svara ekki spurningum lögreglu eða veitt rangar upplýsingar. Þá er lögð á það áhersla að fullt tilefni hafi verið til handtöku og gæsluvarðhalds stefnanda sem grunaður hafi verið um alvarleg brot, svo og húsleitar. Útgáfa ákæru falli hins vegar utan bótareglu 228. gr. laga nr. 88/2008 og geti stefnandi ekki krafist bóta á þeim grundvelli, enda hafi útgáfa ákærunnar verið lögmæt, svo sem aðrar aðgerðir lögreglu og ákæruvalds. Stefndi telur þar af leiðandi engin efni til að ákveða stefnanda bætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og að bótaréttur stefnanda sé í öllu falli takmarkaður við 228. gr. laga nr. 88/2008.

 

            Því er mótmælt af hálfu stefnda að aðbúnaður stefnanda í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg hafi verið ófullnægjandi og auk þess bent á að ástæða þess að ekki var hægt að vista stefnanda áfram í fangelsinu á Litla-Hrauni hafi verið á hans eigin ábyrgð. Einnig er mótmælt fullyrðingum stefnanda um að hann hafi verið beittur harðræði við rannsókn málsins eða meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stóð. Því er einnig mótmælt að stefndi verði gerður bótaábyrgur fyrir umfjöllun fjölmiðla.

 

            Þótt stefndi hafi fallist á niðurstöður í framangreindri yfirmatsgerð mótmælir hann sem röngu og ósönnuðu tjóni stefnanda vegna tímabundins atvinnumissis. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna komi fram að tekjur á árinu 2012 samkvæmt skattframtölum hafi aðallega verið frá Velferðarsviði Reykjavíkur, en einnig 138.871 króna frá öðrum tilgreindum aðila. Engar tekjur hafi verið gefnar upp vegna greiðslna frá þeim aðila sem stefnandi tilgreini sem vinnuveitanda sinn árin 2010–2012 og miði tekjutap sitt við. Er reikningum sem stefnandi hefur lagt fram til stuðnings því að hann hafi unnið hjá viðkomandi vinnuveitanda sem sjálfstæður verktaki mótmælt. Því er einnig mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hefði verið í launaðri vinnu ef ekki hefði komið til áðurlýst gæsluvarðhald hans.

 

            Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er fjárhæð bótakröfunnar mótmælt sem allt of hárri, annars vegar með vísan til eigin sakar, hins vegar með vísan til dómaframkvæmdar í sambærilegum málum. Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda og telur að miða beri upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppsögu í samræmi við dómafordæmi.

 

Niðurstaða

 

            Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi var handtekinn 13. janúar 2012 og úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag til 19. sama mánaðar. Sat stefnandi óslitið í gæsluvarðhaldi til 6. júní 2012 á grundvelli úrskurða héraðsdóms, þegar honum var sleppt úr haldi eftir að héraðsdómur hafði hafnað kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald. Stefnandi var að nýju hnepptur í gæsluvarðhald 8. sama mánaðar á grundvelli dóms Hæstaréttar Íslands, sem felldi úr gildi þennan úrskurð héraðsdóms, og sat í varðhaldi til 20. sama mánaðar, en sama dag var kveðinn upp í héraðsdómi dómur þar sem hann var sýknaður af ákæru fyrir hættulega líkamsárás, rán, nauðgun og þátttöku í skipulegri brotastarfsemi. Ekki er heldur um það deilt að stefnandi var í einangrun frá 13. janúar til 19. sama mánaðar, þegar hann var fluttur frá fangelsinu að Litla-Hrauni í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík. Þá var gerð húsleit á heimili stefnanda 30. janúar 2012, svo sem áður greinir.

 

            Samkvæmt framangreindu á stefnandi rétt til bóta vegna þeirra þvingunarráðstafana sem hann var beittur samkvæmt þágildandi 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. nú 246. gr. laganna. Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar skal bæta stefnanda bæði fjártjón hans og miska. Eftir 2. mgr. 228. gr. má þó fella niður bætur eða lækka þær ef sýnt er fram á að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Hins vegar á stefnandi ekki rétt til bóta vegna útgáfu ákæru og reksturs sakamáls gegn honum samkvæmt téðum ákvæðum laga nr. 88/2008, sbr. dóma Hæstaréttar 1. mars 2001 í máli nr. 269/2000 og 6. mars 2019 í máli nr. 27/2018. Verður krafa stefnanda um miska vegna þessara aðgerða ákæruvaldsins því aðeins reist á 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 

A

 

Samkvæmt gögnum málsins mætti stefnandi sjálfviljugur á lögreglustöð morguninn 13. janúar 2012 til skýrslugjafar. Af skýrslu lögreglunnar, sem lögð hefur fram í málinu, verður ráðið að stefnanda hafi verið kynnt að hann hefði réttarstöðu grunaðs manns og er skýrslutaka þar sögð hefjast kl. 11.40. Í endurriti af skýrslu lögreglunnar kemur fram að stefnandi hafi alfarið neitað að svara spurningum lögreglu. Af endurriti skýrslutöku, sem sögð er hafa hafist kl. 13.20, verður hins vegar ráðið að stefnandi hafi þá svarað spurningum lögreglu, en við þá skýrslutöku var verjandi stefnanda viðstaddur. Er það þýðingarlaust fyrir úrlausn málsins þótt stefnandi hafi upphaflega ákveðið að nýta sér rétt sinn sem grunaður maður og tjá sig ekki við lögreglu án lögmanns.

 

            Af hálfu stefnda er bent á að svör stefnanda í síðari skýrslutökunni 13. janúar 2012 hafi í einhverjum atriðum verið röng eða ófullnægjandi. Hvað sem líður hugsanlegum missögnum í framburði stefnanda á þessu stigi málsins telur dómurinn ósannað að annar og ítarlegri framburður hans hefði nokkru breytt um þá gæsluvarðhaldskröfu lögreglu sem gerð var síðar um daginn. Þá telur dómurinn að umræddar missagnir, að því marki sem þeim var til að dreifa, hafi ekki lotið að slíkum atriðum að líta beri svo á að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að kröfu um gæsluvarðhald þann dag. Einnig telur dómurinn ljóst að framburður stefnanda hafi í reynd haft takmarkaða eða enga þýðingu við ákvarðanir um gæsluvarðhaldsvist stefnanda, svo sem áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist stefnanda bar vott um. Er því ósönnuð málsástæða stefnda þess efnis að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á þannig að fella beri niður eða lækka bætur á þeim grundvelli.

 

B

 

Svo sem áður greinir gerir stefnandi annars vegar kröfu um miskabætur vegna útgáfu ákæru, handtöku, húsleitar og gæsluvarðhaldsvistar. Hins vegar gerir hann kröfu um skaðabætur fyrir líkamstjón, þ.á m. vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem óumdeilt er að hlaust af gæsluvarðhaldsvistinni, sbr. áðurgreinda yfirmatsgerð 20. ágúst 2018. Í téðri yfirmatsgerð er líkamstjón stefnanda vegna áfallastreitu af völdum gæsluvarðhaldsvistarinnar metið til 15 miskastiga. Þá er því slegið föstu í yfirmatsgerðinni að tímabil þjáningabóta hafi verið frá 2. júlí 2012 til 15. desember þess árs. Er óumdeilt í málinu að bætur á þessum grundvelli nemi alls 1.902.129 krónum.

 

Leggja verður til grundvallar að yfirmatsgerðin lúti að afleiðingum umfram það ófjárhagslega tjón sem almennt er bætt með ákvörðun miskabóta fyrir gæsluvarðhald og aðrar þvingunarráðstafanir lögreglu. Gildir þá einu þótt gera megi ráð fyrir því að gæsluvarðhald hafi jafnan einhverjar eftirfarandi neikvæðar afleiðingar á líðan viðkomandi sem miskabótum er ætlað að koma til móts við. Kemur framangreind fjárhæð fyrir varanlegan miska og þjáningar samkvæmt 3. og 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 því til viðbótar miskabótum sem stefnandi á rétt til vegna gæsluvarðhaldsvistar sinnar og annarra þeirra þvingunarráðstafana sem áður greinir. Hins vegar telur dómurinn ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni vegna gæsluvarðhaldsins, en í málinu er óumdeilt að stefnandi var, samkvæmt skattframtölum sínum, nánast tekjulaus síðustu tvö ár áður en hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Ekki er lengur um það deilt að stefnandi hlaut ekki varanlega örorku vegna umræddra þvingunarráðstafana og tekur endanleg kröfugerð stefnanda mið af því.

 

C

 

Við mat á fjárhæð miskabóta verður að líta til þess að gæsluvarðhaldsvist stefnanda var óvenju löng, eða rúmlega fimm mánuðir, ef undan eru skildir tveir dagar í júní 2012. Var gæsluvarðhaldsvist stefnanda og lengstan hluta þess tíma á því reist að sterkur grunur léki á að hann hefði gerst sekur um mjög alvarleg afbrot, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður á það fallist með stefnanda að gæsluvarðhaldsvist á slíkum grundvelli hljóti almennt að teljast þungbærari en gæsluvarðhald sem orsakast af rannsóknarhagsmunum, ekki síst við þær aðstæður að um er ræða sakamál sem ítarlega er fjallað um í fjölmiðlum.

 

Sú staðreynd að stefnanda var sleppt úr haldi 6. júní 2012, eftir að aðalmeðferð sakamálsins var lokið, þykir ekki eiga að koma til lækkunar miska þegar litið er til þess að stefnandi var handtekinn tveimur dögum síðar og færður að nýju í gæsluvarðhald á grundvelli dóms Hæstaréttar sem taldi að áfram væri fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þrátt fyrir þær upplýsingar sem komið höfðu fram við aðalmeðferð málsins í héraði og tekið hafði verið tillit til í úrskurði héraðsdóms. Einnig verður að líta til þess að stefnandi sætti einangrun frá 13. janúar 2012 til 26. sama mánaðar, svo sem áður greinir.

 

            Ekki er um það deilt að stefnandi var frá 26. janúar 2012 vistaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Samkvæmt gögnum málsins var Hegningarhúsið fyrst og fremst notað sem móttökufangelsi og einungis ætlað til afplánunar fanga með mjög stutta dóma. Telur dómurinn með hliðsjón af þessu að vistun stefnanda í téðu fangelsi í svo langan tíma hafi verið óforsvaranleg og ber stefnandi ekki ábyrgð á því að fangelsisyfirvöld töldu ótækt að vista stefnanda áfram í fangelsinu að Litla-Hrauni. Hins vegar er því ekki haldið fram að stefnandi hafi verið beittur harðræði í vistun sinni að Skólavörðustíg. Þótt vistun stefnanda í Hegningarhúsinu hafi að mati dómsins ekki verið þess eðlis að fullnægt sé skilyrðum a- eða b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga horfir þetta allt að einu til hækkunar miskabóta.

 

            Dómurinn telur ósannað að stefnandi hafi verið beittur harðræði eða óhóflegri valdbeitingu af lögreglu við rannsókn eða flutning við þær aðstæður sem uppi voru við rannsókn og meðferð umrædds sakamáls. Þá telur dómurinn ekkert fram komið sem styður málsástæður stefnanda á þá leið að umræddar rannsóknaraðgerðir lögreglu, svo og úrskurðir dómstóla um gæsluvarðhald, hafi verið ólögmætir. Að lokum telur dómurinn einnig ósannað að útgáfa ákæru og reksturs áðurgreinds sakamáls gegn stefnanda hafi verið tilefnislaus eða ólögmæt af öðrum ástæðum. Samkvæmt þessu er því hafnað, þegar af þessari ástæðu, að í málinu hafi verið færðar sönnur á atvik sem færð verða undir a- eða b-lið 26. gr. skaðabótalaga þannig að efni séu til að dæma miskabætur einnig á þeim grundvelli.

 

            Að öllu virtu telur dómurinn bætur vegna framangreindra þvingunarráðstafana, einkum óvenju langrar gæsluvarðhaldsvistar stefnanda við óforsvaranlegar aðstæður, að viðbættum miska og þjáningabótum vegna þess varanlega líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir og áður greinir, hæfilega metnar 7.500.000 krónur. Með vísan til 16. gr. skaðabótalaga dæmast 4,5% vextir af bótum fyrir varanlegan miska og þjáningar, alls 1.902.129 krónur, frá lokum gæsluvarðahaldsvistar stefnanda 20. júní 2012. Með vísan til 2. mgr. 8. laga nr. 38/2001 verða vextir samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar ekki dæmdir. Með vísan til lokamálsliðar 9. gr. laga dæmast dráttarvextir frá málshöfðun, svo sem nánar greinir í dómsorði.

 

            Með hliðsjón af aðild íslenska ríkisins til varnar verður málskostnaður ekki dæmdur. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, hæfilega ákveðin 3.832.344 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

 

Af hálfu stefnanda flutti málið Oddgeir Einarsson lögmaður.

 

            Af hálfu stefnda flutti málið María Thejll lögmaður.

 

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan

 

DÓMSORÐ:

 

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Einari Inga Marteinssyni, 7.500.000 krónur, með 4,5% vöxtum af 1.902.129 krónum frá 20. júní 2012 til 27. mars 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 7.500.000 króna frá þeim degi til greiðsludags.

 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, að fjárhæð 3.832.344 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Skúli Magnússon