• Lykilorð:
  • Vátryggingarsamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2019 í máli nr. E-994/2018:

Viðar Kristinsson

(Styrmir Gunnarsson lögmaður)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Guðjón Ármannsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið 8. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 27. mars 2018 af Viðari Kristinssyni, Suðurtanga 2, 400 Ísafirði, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, 103 Reykjavík.

 

I.

        Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu bóta úr hendi stefnda á grundvelli slysatryggingar í frítíma og innbústryggingar fjölskylduverndar 2, skírteinisnúmer 1820211, vegna líkama- og munatjóns af völdum slyss stefnanda þann 18. janúar 2015.

        Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

        Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

 

II.

Málsatvik

     Þann 18. janúar 2015 var stefnandi ásamt félaga sínum, Hauki Sigurðssyni, á fjallaskíðum í hlíðum Eyrarfjalls fyrir ofan Ísafjörð í Skutulsfirði. Til stóð að ganga upp fjallið að stað sem nefnist Gleiðarhjalli. Áætlunin var að renna sér þaðan niður fjallshlíðina. Þegar stefnandi og Haukur voru komnir langleiðina upp hlíðina fór af stað snjóflóð. Því hefur ekki verið mótmælt að ástæðan fyrir því að snjóflóðið fór af stað hafi verið af þeirra völdum, snjóalag sem þeir fóru yfir, hafi brostið og við það farið af stað flekaflóð. Stefnandi lenti í flóðinu og barst með því 200 – 300 metra niður fjallshlíðina. Við þetta hlaut hann alvarlega áverka, þar á meðal hálsbrot, beinbrot og taugaskaða á hægri handlegg ásamt öðrum áverkum. Auk þess skemmdist fjallaskíðabúnaður og önnur verðmæti, sem stefnandi hafði á sér. Samferðamaður stefnanda lenti ekki í flóðinu. Stefnandi var inniliggjandi á Landspítala-háskólasjúkrahúsi í tvær vikur frá slysdegi og í kjölfarið í endurhæfingu á Grensásdeild Landspítalans til loka febrúar 2015.

       Þann 3. febrúar 2015 tilkynnti stefnandi stefnda um slysið með tjónstilkynningu á formi stefnda vegna líkamstjóns og þann 4. febrúar 2015 vegna munatjóns. Með bréfi, sem dagsettu 25. febrúar 2015, hafnaði Sjóvá rétti stefnanda til bóta úr fjölskylduvernd 2 með vísan til 69. gr. skilmála tryggingarinnar. Samkvæmt ákvæðinu bætir félagið ekki tjón „sökum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara.“ Félagið vísaði til þess að tjón vegna náttúruhamfara séu bætt af Viðlagatryggingu Íslands („VTÍ“).

        Með tölvupósti þann 3. mars 2015 krafðist lögmaður stefnanda þess að stefndi félli frá fyrri afstöðu sinni og viðurkenndi rétti stefnanda til fullra bóta þar sem undanþáguákvæðið í 69. gr. skilmálanna ætti ekki við í málinu enda hafi ekki verið um náttúruhamfarir að ræða. Stefndi svaraði með tölvupósti þann 6. mars 2015 þar sem tilkynnt var að afstaða félagsins stæði óbreytt.

         Þar sem stefnandi sætti sig ekki við afstöðu stefnda var ágreiningi aðila skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Niðurstaða nefndarinnar var sú að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr fjölskyldutryggingu sinni hjá stefnda.

          Með bréfi lögmanns stefnanda til VTÍ, dags. 12. apríl 2016, var þess krafist að VTÍ tæki afstöðu til kröfu stefnanda um bætur fyrir munatjón hans, en stefnandi hafði sent kröfu þann 18. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 26. apríl 2016, hafnaði VTÍ kröfu stefnanda með þeim rökum að snjóflóðið sem hann varð fyrir hafi orðið af mannavöldum og ekki væri um náttúruhamfarir að ræða.

        Með tölvupósti 4. júlí 2016 kynnti lögmaður stefnanda niðurstöðu VTÍ fyrir stefnda enda styðja þær þann málatilbúnað stefnanda að líkams- og munatjón hans sé greiðsluskylt úr tryggingu hans hjá stefnda. Þá var jafnframt óskað eftir afstöðu stefnda til þeirrar ákvörðunar stefnanda að kæra ekki niðurstöðu VTÍ. Stefndi svaraði með tölvupósti þann 24. ágúst 2016 þar sem segir að félagið haldi sig við fyrri afstöðu í málinu.

Stefnandi sætti sig ekki við afstöðu stefnda og höfðaði mál þetta á hendur félaginu til viðurkenningar á greiðsluskyldu á því tjóni sem því sem hann hafi orðið í framangreindu slysi.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Málsókn á hendur stefnda reisi stefnanda á vátryggingarsamningi stefnanda og stefnda, sbr. skilmálar nr. 203 fyrir fjölskylduvernd 2, einkum 1., 4., og 9. kafla skilmálanna, og vátryggingarskírteini nr. 1820211. Þá reisi stefnandi málsókn sína á hendur stefnda á lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, meginreglum samnings- og kröfuréttar og almennum túlkunarreglum samninga- og vátryggingaréttar, þ.á m. andskýringarreglunni, lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. a-d., og lögum nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands.

        Um heimild stefnanda til að höfða viðurkenningarmál er vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hefði orðið fyrir verulegu líkamstjóni sem og munatjóni og hafi því mikla og augljósa lögvarða hagsmuni af því að viðurkenndan rétt sinn til greiðslu vátryggingarbóta.

        Ágreiningur aðila varði fyrst og fremst hvernig beri að túlka eftirfarandi orðalag 69. gr. skilmála fjölskylduverndar 2: „Félagið bætir ekki tjón sökum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara. Tjón vegna náttúruhamfara eru bætt af Viðlagatryggingu Íslands“.

        Stefnandi byggi á því að samkvæmt orðalagi 69. gr. skilmála tryggingarinnar undanskilji stefndi sig eingöngu greiðskyldu á tjóni, sem verður af völdum snjóflóða, sem teljist til náttúruhamfara, sbr. „snjóflóða … og annarra náttúruhamfara“. Stefnandi telji að flekaflóðið, sem hann lenti í, flokkist ekki undir náttúruhamfarir í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt orðabók teljast náttúruhamfarir vera hamfarir af völdum náttúruafla. Stefnandi byggi á því að náttúruhamfarir eigi sér stað þegar náttúran leysi úr ójafnvægi sem hafi myndast af náttúrulegum orsökum. Þegar náttúran leysi síðan úr ójafnvæginu, þ.e. leiti aftur að jafnvægi, sé um náttúruhamfarir að ræða. Þessi atvik eigi sér stað vegna náttúrulögmála. Ef ójafnvægið sé aftur á móti leyst fyrir tilstuðlan manna sé ekki um náttúruhamfarir að ræða. Í þessu samhengi vísi stefnandi til þess að snjóflóð séu iðulega og vísvitandi sett af stað á skíðasvæðum án þess að slík flóð teljist til náttúruhamfara. Ástæðan sé sú að flóðið sé sett af stað af mannavöldum. Sama eigi við um flóðið, sem stefnandi lenti í, enda hafi það farið af stað vegna þess að hann og samferðarmaður hans, Haukur Sigurðsson, voru á ferð um svæðið, annars hefði flóðið ekki farið af stað.

        Í niðurlagi 69. gr. sé vísað til þess að tjón vegna náttúruhamfara sé bætt af VTÍ. Að mati stefnanda verði að túlka orðalag skilmálanna þannig að stefndi geti ekki hafnað greiðsluskyldu vegna tjóns af völdum náttúruhamfara nema tjónið verði bætt af VTÍ samkvæmt þeim reglum, sem um það gilda. Líkamstjón fæst þó ekki bætt af VTÍ.

Eins og áður er rakið hefur stefnandi krafist þess að fá tjón sitt bætt frá VTÍ. Kröfu hans var hafnað þar sem tjón hans er ekki að rekja til náttúruhamfara, enda sé atvikið rakið til athafna manna. Þessi niðurstaða VTÍ sé í samræmi við 4. gr. laga nr. 55/1992. Samkvæmt ákvæðinu sé það hlutverk VTÍ að veita vátryggingu gegn beinu tjóni af völdum tiltekinna náttúruhamfara, þ.á m. snjóflóða. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps sem víðar varð að lögum nr. 55/1992 kemur m.a. fram að „reynslan [hafi] sýnt að nánari skilgreiningar eru nauðsynlegar, t.d. hefur stundum orðið ágreiningur um merkingu orðanna vatnsflóð og snjóflóð“. Vegna þessa sé merking orðsins snjóflóð nánar útskýrt í reglugerð nr. 83/1993 um Viðlagatryggingu Íslands. Í 4. tölulið 1. gr. segi: „Snjóflóð merkir snjóskriðu, sem fellur skyndilega úr fjalli eða hlíð á vátryggða muni … „ Að mati stefnanda verði að skýra „skyndilega“ þannig að flóðið fari af stað af náttúrulegum völdum (t.d. snjókomu, rigningu, hita, kulda) og án aðkomu manna.

        Ákvörðun VTÍ í máli stefnanda sé í samræmi við afstöðu stofnunarinnar til atvika sem gætu talist til náttúrhamfara ef annað kæmi ekki til. Um þetta vísist m.a. til fréttar á heimasíður Ríkisútvarpsins frá 18. október 2011 og hafi varðað tjón sem varð á fasteign í kjölfar jarðskjálfta í kjölfar þess að Orkuveita Reykjavíkur dældi affalsvatni ofan í jörðina. Í fréttinni sé haft eftir framkvæmdastjóra VTÍ að það sé skilgreining VTÍ og lögmanna þeirra að náttúruhamfarir sem verði þurfi að verða af völdum náttúrunnar sjálfrar en ekki manna.

          Stefnandi byggi á því að hið umdeilda ákvæði 69. gr. skilmálanna sé hvort tveggja óljóst og umdeilanlegt og komi þar ýmislegt til. Í frumvarpi, sem síðar varð að lögum nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands, segi m.a. að stundum hafi orðið ágreiningur um merkingu orðsins snjóflóð. Til að leysa það hafi verið sett í reglugerð sú skýring að um sé að ræða snjóskriðu, sem falli skyndilega úr fjalli eða hlíð á vátryggða muni. Orðið „skyndilega“ sé ekki frekar skýrt, en gera verði ráð fyrir því að hér sé átt við atburðarrás án aðkomu manna. Merking orðsins náttúruhamfarir sé enn óljósara. Að áliti sérfræðings Veðurstofu Íslands í ofanflóðavá uppfylli snjóflóðið, sem stefnandi lenti í, ekki kröfur til þess að geta kallast náttúruhamfarir. Sami skilningur sé lagður í hugtakið í ákvörðun VTÍ þar sem kröfu stefnanda um bætur fyrir munatjón hans sé hafnað af þeim sökum að snjóflóðið fór af stað af mannavöldum. Í rökstuðningi sé m.a. vísað til annarrar ákvörðunar stofnunarinnar vegna tjóns á fasteignum, sem rekja mátti til þess að Orkuveita Íslands dældi vatni ofan í jörðina, sem framkallaði jarðskjálfta. Á vísindavef Háskóla Íslands svari Páll Imsland jarðfræðingur spurningunni „Hvaða munur er á hugtökunum náttúruhamfarir og náttúruvá?“. Í svari hans er m.a. að finna eftirfarandi: En hvað eru þá náttúruhamfarir? Þetta hugtak er nokkuð loðið og skilgreining þess alls ekki einföld.“ Að auki verði að teljast mjög óljóst og umdeilt hvaða þýðingu tilvísun 69. gr. skilmálanna til bótaréttar hjá VTÍ eigi að hafa. Það leiði af andskýringarreglu samninga- og kröfuréttar  að óljós og umdeilanleg ákvæði í samningum eigi að skýra þeim aðila í óhag, sem samdi einhliða samninginn. Í andskýringarreglunni felist jafnframt að sá, sem hefði átt að tjá sig skýrar, verði að bera hallann af því að hafa ekki gert það. Stefnandi vísi jafnframt til 36. gr. b laga nr. 7/1936 vegna þessa.

         Við rekstur máls þessa, þ.á m. fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum, hafi stefndi m.a. byggt á því að skýra skuli  69. gr. skilmálanna þannig að tryggingin bæti ekki tjón af völdum snjóflóðs, óháð því hver raunveruleg orsök snjóflóðs er hverju sinni. Þetta sé hrein viðbót við ákvæði 69. gr. skilmálanna og ef ætlun félagsins hafi verið sú að undanskilja sig greiðsluskyldu óháð orsök þá hefði slíkt þurft að standa í ákvæðinu.

        Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Málskostnaður stefnanda beri virðisaukaskatt skv. lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

        Um heimild stefnanda til að höfða mál til viðurkenningar á greiðsluskyldu stefnda vísist til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Stefnandi hafi augljósa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, enda hafi hann orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyssins og munatjóni, sem honum beri að fá bætt úr vátryggingu þeirri, sem hann hafði í gildi á slysdegi hjá stefnda.

 

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi hafni dómkröfum stefnanda og mótmæli öllum málsástæðum stefnanda. Stefndi vísi til rökstuðnings úrskurðarnefndar í vátryggingum og geri hann að sínum í þessu máli. Óumdeilt sé að tjón stefnanda sé að rekja til snjóflóðs í Eyrarfjalli á Ísafirði. Í 69 gr. vátryggingarskilmála fjölskyldutryggingar segir m.a. „Félagið bætir ekki tjón sökum eldgos jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða vatnsflóða og annarra náttúruhamfara. Tjón vegna náttúruhamfara er bætt af Viðlagatryggingu Íslands“. Undanþáguákvæði 69. gr. taki því samkvæmt orðanna hljóðan til snjóflóða án frekari skilgreiningar. Ekki sé gerður greinarmunur á því hvað valdi snjóflóðinu, hvort því sé komið af stað vegna aðgerða manna eða af öðrum ástæðum. Í ákvæðinu sé vísað til annarra náttúruhamfara, þannig að vátryggingarskilmálarnir vísi til þess að þau sérgreindu atvik sem nefnd séu í 69. gr. vátryggingarskilmálanna séu náttúruhamfarir. Ekki verði séð að tenging við náttúruhamfarir síðar í orðan 69. gr. vátryggingarskilmálanna breyti því að snjóflóð sem slík séu undanskilin áhætta samkvæmt ákvæðinu án takmörkunar miðað við eðli snjóflóðsins eða annað sem því viðkomi. Byggt sé á því að skilmálar fjölskylduverndar 2 séu skýrir um að tryggingin taki ekki til snjóflóða. Verði því að sýkna stefnda. Það sé alþekkt staðreynd að snjóflóð geti í sumum tilvikum farið af stað vegna umferðar fólks í fjöllum. Ákveðin veðurfarsleg skilyrði þurfa þó eðli málsins samkvæmt alltaf að vera til staðar svo snjóflóð fari af stað. Í málinu hafi því ekki þýðingu hvort eingöngu veðurfarsskilyrði hafi komið flóðinu af stað eða hvort flóðið verði einnig að rakið til umferðar einstaklinga í viðkomandi fjalli. Bein textaskýring styðji því sýknukröfu stefnda. Hugtakið snjóflóð sé jöfnum höndum notað um manngerð snjóflóð og þau sem eingöngu eiga sér stað vegna veðurfarslegra skilyrða. Á sama hátt geti náttúruhamfarir einnig átt sér stað vegna tilverknaðar manna. Jarðskjálftar geti átt sér stað vegna framkvæmda manna. Náttúruhamfarir af mannavöldum séu þannig staðreynd.

        Stefndi mótmæli öllum sjónarmiðum stefnda er lúta að túlkun á hugtökunum snjóflóð og náttúruhamfarir. Þá sé mótmælt að framlögð gögn um hugtökin eða gögn frá Veðurstofu hafi nokkra þýðingu fyrir sakarefni þess máls.

         Um lagarök vísar stefndi til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og fyrirliggjandi skilmála fjölskylduverndar 2. Þá sé vísað til laga um vexti og verðtryggingu nr. 26/2001.     Málskostnaðarkrafa stefndu sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV.

Niðurstaða

          Því er ekki mótmælt af stefnda að snjóflóðið hafi farið af stað vegna umferðar stefnanda og félaga hans í fjallinu. Stefndi byggir hins vegar á því að ákvæði 69. gr. skilmála fjölskylduverndar sé fortakslaust um að snjóflóð séu undanþegin án tillits til þess af hvaða orsökum þau hafi farið af stað. Í máli þessu snýst ágreiningur aðila um það hvort það hafi þýðingu hvort snjóflóðið hafi farið af stað af mannavöldum eða teljist náttúruhamfarir.

        Í málinu liggur fyrir bréf snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands, dags. 29. maí 2015, sem var svar við fyrirspurn lögmanns stefnanda varðandi umrætt snjóflóð, hvort það teldist til náttúruhamfara eða væri af mannavöldum. Í bréfinu er snjóflóðinu lýst ítarlega og tilgreint að um flekaflóð hafi verið að ræða, sem hafi að öllum líkindum farið af stað af mannavöldum en ekki af náttúrulegum orsökum. Almennt eru náttúruhamfarir taldar vera hamfarir af völdum náttúruafla. Í niðurlagi framangreindrar 69. gr. segir að tjón vegna náttúruhamfara séu bætt af Viðlagatryggingu Íslands.

        Fyrir liggur að stefnandi gerði kröfu um að fá tjón sitt bætt frá Viðlagatryggingu Íslands en kröfu hans var hafnað þar sem tjón hans yrði ekki rakið til náttúruhamfara, sbr. 4. gr. laga nr. 55/1992. Samkvæmt ákvæðinu tekur það til beins tjóns af völdum tiltekinna náttúruhamfara. Í reglugerð nr. 83/1993 um Viðlagatryggingu Íslands segir í 4. töluð 1. gr. „Snjóflóð merki snjóskriðu sem fellur skyndilega úr fjalli eða hlíð á vátryggðamuni .....“ Telja verðu að þetta orðalag beri að orðið „skyndilega“ þannig að flóðið fari af stað af náttúrulegum völdum og án aðkomu manna. Af dómum Hæstaréttar í málum nr. 300/1992 og nr. 223/1994 verður ráðið að máli geti skipt hvort snjóflóð fari af stað af mannavöldum eða falli undir náttúruhamfarir.

        Ákvæði 69. gr. skilmála fjölskylduverndar 2 um það að félagið bæti ekki tjón sökum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara er óskýrt. Telja verður að samkvæmt orðalaginu taki undantekning bótaskyldu vegna snjóflóða aðeins til þess þegar snjóflóð verður vegna náttúruhamfara. Skilmálar fjölskylduverndar 2  eru staðlaðir og samdir einhliða af stefnda. Viðurkennt er að andskýringarreglan samninga- og kröfuréttar hefur mikla þýðingu í vátryggingarétti. Andskýringarreglan felur það í sér að óljós og umdeilanleg ákvæði eigi að skýra þeim aðila í óhag, sem samdi einhliða samning eða það ákvæði sem um ræðir. Í reglunni felst einnig að sá sem hefði átt að tjá sig skýrar verður að bera hallann af því að hafa ekki gert það. Þessi regla hefur í dómaframkvæmd verið talin hafa sérstaklega mikið vægi þegar óljós ákvæði í vátryggingarskilmálum, sem fela í sér undanþágu frá ábyrgð félagsins, eru túlkuð.

        Telja verður umrædda 69. gr. óskýra og að stefnda hafi borið að taka sérstaklega fram ef undanskilja átti önnur snjóflóð en þau sem yrðu vegna náttúruhamfara, svo sem þau, sem verða af mannavöldum, eins og telja verður að hér sé um að ræða. Ekki verður því fallist á að það, sem stefndi byggir á, að umrædda grein bera að skýra þannig að tryggingin bæti ekki tjón af völdum snjóflóðs, óháð því hver raunverulega orsök snjóflóðs er hverju sinni. Slík hefði þurft að taka sérstaklega fram í ákvæðinu, sbr. og 36. gr. b laga nr. 7/1936.

        Telja verður að stefnandi hafi augljósa lögvarða hagsmuni af því  að fá viðurkennda bótaskyldu stefnda, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en fyrir liggur að hann varð fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyssins og munatjóni, sem honum ber að fá bætt úr vátryggingu sem í gildi var á slysdegi.

        Með vísan til þess sem rakið hefur verið er fallist dómkröfu stefnanda um að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu bóta á grundvelli slysatryggingar í frítíma- og innbústryggingu fjölskylduverndar 2 vegna framangreinds slyss þann 18. janúar 2015.

        Að fenginni þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað 1.400.000 krónur sem renni í ríkissjóð.

       Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talinn málflutningsþóknun lögmanns hans, Styrmis Gunnarsson, sem telst hæfilega ákveðinn með hliðsjón af umfangi og efnis málsins eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði. 

        Gætt hefur verið ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála  nr. 91/1991.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

 

 

 

 

Dómsorð:

       

        Viðurkenndur er réttur stefnanda, Viðars Kristinssonar, til greiðslu bóta úr hendi stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf. á grundvelli slysatryggingar í frítíma og innbústryggingar fjölskylduverndar 2, skírteinisnúmer 1820211, vegna líkama- og munatjóns af völdum slyss stefnanda þann 18. janúar 2015.

        Stefndi greiði 1.600.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.

        Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talinn málflutningsþóknun lögmanns hans, Styrmis Gunnarssonar, krónur 1.800.000, greiðist úr ríkissjóð.

 

Þórður Clausen Þórðarson