• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Nytjastuldur
  • Fangelsi og sekt
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. febrúar 2019 í máli nr. S-208/2018:

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

Þorvaldi Snæ Péturssyni

(Ingvar Þóroddsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. janúar sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 14. desember 2018, á hendur Þorvaldi Snæ Péturssyni […],

 

„fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot:

 

I.

Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfararnótt miðvikudagsins 5. september 2018, tekið bifreiðina […] í heimildarleysi, þar sem bifreiðinni hafði verið lagt fyrir utan […] og ekið aftan á bifreiðina […], þar sem henni hafði verið lagt fyrir utan […] og valdið þar með tjóni á báðum bifreiðunum, og strax eftir óhappið ekið af vettvangi án þess að tilkynna tjónið til lögreglu eða eigenda bifreiðanna, og ekið án þess að hafa öðlast ökurétt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í blóðsýni sem tekið var í þágu rannsóknar málsins mældist amfetamín 35 ng/ml og MDMA 45 ng/ml), um götur Akureyrar uns lögregla hafði afskipti af honum við enda Borgarhlíðar.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum og 2. mgr. 10. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

 

II.

Fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot, framin aðfararnótt miðvikudagsins 5. september 2018:

a.        

Með því að hafa brotist inn í verslunina […] og stolið þaðan plastkrukku með rafhlöðum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

b.       

Með því að hafa, stolið úr bifreiðinni […] sem stóð við […], plastkassa með loftslöngu, dráttartógi, fjarstýringu fyrir dráttarspil, talstöð, tappasetti og fleiri smámunum.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

 

c.        

Með því að hafa, stolið úr bílskúr við […], eldsneytistanki, verkfæratösku með veiðidóti, borðsög, ferðatösku með verkfærum, leikfangakíki o.fl.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

III.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar til handa skipuðum verjanda.

 

Ákærði hefur skýlaust játað sakargiftir fyrir dómi. Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

 

Af sakaferli ákærða skiptir það hér máli að þann 7. október 2013 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað. Hann var að nýju dæmdur fyrir þjófnað 12. október 2016. Dómurinn frá 7. október 2013 var þá tekinn upp og ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 60 daga, skilorðsbundið í tvö ár. Þann 9. mars 2017 var ákærði enn dæmdur fyrir þjófnað, en einnig fyrir nytjastuld, akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttar. Skilorðsdómurinn frá 12. október 2016 var tekinn upp og ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi og sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Hinn 26. nóvember 2018 var ákærði dæmdur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttar. Honum var gert að greiða 200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og var sviptur ökurétti í tvö ár, frá 27. nóvember 2018.

Þau brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir framdi hann áður en hann hlaut síðastgreindan dóm. Ber því nú að dæma hegningarauka sem svari til þeirrar þyngingar hegningar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann er nú í fjórða sinn dæmdur fyrir þjófnað og hefur ítrekað brot gegn 45. gr. a umferðarlaga. Refsing hans er ákveðin fangelsi í sex mánuði og verður hann jafnframt dæmdur til greiðslu 190.000 króna í sekt fyrir umferðarlagabrotin, sbr. 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en einnig þess að nú er honum ákveðinn hegningarauki við dóminn frá 26. nóvember 2018, er ákærði sviptur ökurétti í eitt ár frá 27. nóvember 2020.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar sem er 339.020 krónur, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem þykir hæfilega ákveðin 159.998 krónur, að virðisauka­skatti meðtöldum.

Af hálfu ákæruvalds fór Agnes Björk Blöndal fulltrúi með málið en verjandi ákærða var Ingvar Þóroddsson lögmaður.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Þorvaldur Snær Pétursson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði 190.000 króna sekt í ríkissjóð en 14 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 27. nóvember 2020.

Ákærði greiði 339.020 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 159.998 krónur.