• Lykilorð:
  • Lögreglurannsókn
  • Miskabætur
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2018 í máli nr. E-3473/2016:

Hreiðar Már Sigurðsson

(Ólafur Eiríksson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar K. Hallvarðsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. apríl 2018, var höfðað 9. nóvember 2016 af hálfu Hreiðars Más Sigurðssonar, 101 b rue des Pommiers, L-2343 Luxembourg, Lúxemborg, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík til greiðslu miskabóta.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 10.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 9. nóvember 2016 til greiðsludags. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnukröfum og að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi var forstjóri Kaupþings banka hf. frá ársbyrjun 2003 til 9. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið setti skilanefnd yfir bankann. Embætti sérstaks saksóknara var stofnað með lögum nr. 135/2008 og var starfrækt frá 1. janúar 2009 til ársloka 2015. Hlutverk embættisins var m.a. að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði sem leiddu til fjármálahrunsins hér á landi árið 2008.

Stefnandi var fyrst yfirheyrður vegna rannsókna sérstaks saksóknara 11. júní 2009 og var þá upplýstur um að hann væri grunaður um að hafa í störfum sínum sem forstjóri Kaupþings banka hf. gerst brotlegur við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um umboðssvik, og við 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, um markaðsmisnotkun. Stefnanda var kynnt að hann hefði réttarstöðu sakbornings og að honum væri óskylt að svara spurningum um ætlaða refsiverða háttsemi, en brýnt fyrir honum að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kynni að skipta kysi hann að tjá sig. Stefnandi kaus að tjá sig og var honum tilnefndur verjandi sem viðstaddur var yfirheyrsluna.

Embætti sérstaks saksóknara fór fram á úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um heimild til að hlusta á síma stefnanda 9. mars 2010. Í kröfu sérstaks saksóknara var vísað til 155. gr., 158. gr., 248. gr. 249. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ákvæða laga um hlutafélög nr. 2/1995 og 117. gr., sbr. 1. mgr. 146. gr., laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Þær málsástæður voru m.a. færðar til stuðnings kröfu sérstaks saksóknara að hann hefði í hyggju að taka skýrslur af stefnanda og öðrum sakborningum og að líkur væru taldar standa til þess að hlutaðeigandi myndu leitast við að samræma framburð sinn. Þá mætti ætla að upplýsingar um símtöl gætu skilað mikilvægum upplýsingum sem veruleg áhrif gætu haft á framhald málsins og árangur rannsóknarinnar. Var krafan studd við 81. gr., sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara. Í forsendum úrskurðar Héraðsdóms Vesturlands sama dag, í máli nr. R-3/2010, þar sem fallist var á beiðni sérstaks saksóknara, kom fram að krafan byggði á því að rökstuddur grunur væri um að framin hefðu verið auðgunarbrot og eftir atvikum skjalafals í starfsemi Kaupþings banka hf. í aðdraganda og kjölfar þess að bankinn féll í október 2008. Slík brot gætu varðað allt að átta ára fangelsi. Jafnframt beindist rannsóknin að brotum sem vörðuðu ríka almanna- og einkahagsmuni og væri um að ræða gríðarlegar fjárhæðir í starfsemi stærsta fjármálafyrirtækis þjóðarinnar. Með beiðninni sé óskað upplýsinga sem ástæða sé til að ætla að geti skipt miklu fyrir rannsókn málsins. Samkvæmt þessu væri fullnægt skilyrðum 83. gr., sbr. 81. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og yrði beiðni embættis sérstaks saksóknara tekin til greina. Heimildin tók til tímabilsins frá 9. mars 2010 til 30. mars 2010. Úrskurðurinn var, samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Vesturlands, kveðinn upp í Borgarnesi að fulltrúa ákæruvalds viðstöddum, en fyrir hönd sérstaks saksóknara sótti þing Halla Bergþóra Björnsdóttir, settur sýslumaður.

Embætti sérstaks saksóknara fór öðru sinni fram á úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um heimild til að hlusta á síma stefnanda 29. mars 2010. Í beiðninni var útskýrt að um væri að ræða beiðni um framlengingu á þeirri rannsóknaraðgerð sem hófst í kjölfar úrskurðar sama dómstóls 9. mars 2010 í máli nr. R-3/2010. Beiðnin 29. mars 2010 var að öðru leyti efnislega samhljóða þeirri sem lögð var fyrir dóminn 9. mars 2010. Fallist var á beiðnina með úrskurði samdægurs í máli nr. R-28/2010 og tók heimildin samkvæmt honum til tímabilsins 31. mars til 21. apríl 2010. Forsendur fyrir niðurstöðu þessa úrskurðar voru þær sömu og fyrir niðurstöðu í máli nr. R-3/2010. Úrskurðurinn var samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Vesturlands kveðinn upp í Dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík að viðstöddum sérstökum saksóknara.

Embætti sérstaks saksóknara fór þriðja sinni fram á úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um heimild til að hlusta á síma stefnanda 21. apríl 2010. Í beiðninni kom fram að um væri að ræða framlengingu á rannsóknaraðgerðinni sem hófst í kjölfar úrskurðar sama dómstóls 9. mars 2010, í máli nr. 3/2010, og framlengd var með úrskurði 29. mars 2010, í máli nr. 28/2010. Fallist var á beiðnina, sem líkt og áður var byggð á sömu málsástæðum og upphafleg beiðni 9. mars 2010, með úrskurði samdægurs í máli nr. R-38/2010 og tók heimildin til tímabilsins 22. apríl til 13. maí 2010. Forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðar Héraðsdóms Vesturlands voru á sama veg og fyrir niðurstöðum í málum R-3/2010 og R-28/2010. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Vesturlands var úrskurðurinn kveðinn upp í Dómhúsinu við Lækjartorg að viðstöddum sérstökum saksóknara.

Stefnandi kom að nýju til yfirheyrslu á embætti sérstaks saksóknara 6. maí 2010. Var honum kynnt að hann hefði réttarstöðu sakbornings, grunaður um auðgunarbrot og markaðsmisnotkun, og að hann mætti neita að tjá sig um meinta refsiverða háttsemi, en brýnt fyrir honum að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kynni að skipta kysi hann að tjá sig. Stefnandi kaus að tjá sig og var tilnefndur verjandi hans viðstaddur yfirheyrsluna. Samdægurs fór sérstakur saksóknari fram á að stefnanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi og var honum með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2010 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 18. maí 2010 vegna rannsóknarhagsmuna. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð 10. maí 2010 með dómi í máli nr. 287/2010. Á grundvelli úrskurðarins sat stefnandi í gæsluvarðhaldi til 17. maí 2010.

Meðan á gæsluvarðhaldi stefnanda stóð var hann tvívegis yfirheyrður um sakarefni, dagana 15. maí og 17. maí 2010. Í báðum tilvikum var stefnanda kynnt að hann nyti réttarstöðu sakbornings, grunaður um umboðssvik og markaðsmisnotkun, og að honum væri óskylt að svara spurningum um ætlaða refsiverða hegðun. Í kjölfar síðari yfirheyrslunnar 17. maí 2010 var stefnandi látinn laus úr gæsluvarðhaldi.

Embætti sérstaks saksóknara fór í fjórða sinn fram á úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um heimild til að hlusta á síma stefnanda 17. maí 2010. Í kröfu sérstaks saksóknara var tekið fram að stefnandi yrði leystur úr gæsluvarðhaldi síðar sama dag og var krafan í meginatriðum studd sömu málsástæðum og þær kröfur sem hann hafði áður gert. Í upplýsingaskýrslu embættisins um símahleranir í rannsóknum tengdum Kaupþingi, sem lögð var fram með kröfunni, kemur meðal annars fram að þær hefðu veitt lögreglu mikilvæga innsýn í þau sakarefni sem til rannsóknar væru. Lögregla hefði hlerað símtöl nokkurra sakborninga sem rætt hefðu ítarlega um það sem til rannsóknar væri í Kaupþingsmálum. Teldi lögregla nauðsynlegt að halda áfram öflun sönnunargagna í þágu rannsóknarinnar með því að hlusta símtöl stefnanda eftir að honum yrði sleppt úr gæsluvarðhaldi. Fallist var á beiðni sérstaks saksóknara með úrskurði samdægurs í máli nr. R-60/2010 og gilti heimildin til 27. maí 2010. Forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðarins voru þær að rökstuddur grunur léki á að viðskipti Kaupþings banka hf. með hlutabréf í bankanum hefðu falið í sér markaðsmisnotkun í skilningi laga nr. 108/2007. Einnig væri fyrir hendi rökstuddur grunur um auðgunarbrot í tengslum við þau viðskipti. Rannsóknin beindist að meintum brotum sem vörðuðu ríka almanna- og einkahagsmuni, en um væri að ræða gríðarlegar fjárhæðir í starfsemi stærsta fjármálafyrirtækis hér á landi fyrir fall bankanna haustið 2008. Þá væri með beiðninni óskað upplýsinga sem ástæða væri til að ætla að gætu skipt miklu fyrir rannsókn málsins, en fyrir lægi upplýsingaskýrsla um símtöl sakborninga þar sem greint væri frá efnisatriðum úr samtölum sem vörpuðu ljósi á þátt sakborninga í ætluðum brotum. Samkvæmt þessu væri fullnægt skilyrðum 81. gr., sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Í staðfestu endurriti úrskurðarins kemur fram að dómþing Héraðsdóms Vesturlands hafi verið sett mánudaginn 17. maí 2010 í Dómhúsinu við Lækjartorg og verið háð af Benedikt Bogasyni héraðsdómara. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hafi sótt þing. Hann hafi gert grein fyrir kröfunni, sem hann hafi lagt fram ásamt upplýsingaskýrslu lögreglu, og hafi hann verið viðstaddur uppkvaðningu úrskurðarins.

Með bréfi lögreglufulltrúa á embætti sérstaks saksóknara 28. desember 2011 til verjanda stefnanda voru afhent úrskurðarorð í átta rannsóknarúrskurðum Héraðsdóms Vesturlands, þar á meðal í fyrrgreindum málum nr. R-3/2010, R-28/2010, R-38/2010 og R-60/2010. Greint var frá því að úrskurðarorðin tengdust hlustun og hljóðritun fjarskipta samkvæmt 81. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 83. gr., laga nr. 88/2008 og væru afhent í samræmi við 2. mgr. 85. gr. sömu laga. Þá var og tilkynnt að hlustun og hljóðritun hefði farið fram í samræmi við úrskurðarorðin sem afhent væru og tekið fram að fylgt yrði ákvæðum 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008 um eyðingu umræddra gagna.

Í bréfi verjanda stefnanda til sérstaks saksóknara 11. mars 2013 voru gerðar athugasemdir við framkvæmd símahlustunar hjá stefnanda frá því í mars og fram í maí 2010. Við yfirferð þeirra símtala sem hefðu verið hlustuð og varðveitt á umræddu tímabili hjá sérstökum saksóknara væri að finna fjögur samtöl stefnanda við verjanda sinn. Áréttað var að á milli sakbornings og verjanda ríkti trúnaðarsamband sem varið væri af lögum og áskildi stefnandi sér allan rétt í þessu tilliti. Krafist var svara við því hvers vegna svo langur tími hefði liðið frá því að símahlustunum lauk og þar til honum hefði verið tilkynnt um rannsóknaraðgerðirnar.

Í svarbréfi sérstaks saksóknara 20. mars 2013 til verjanda stefnanda kom fram að þau mistök hefðu verið gerð af hálfu embættisins að fjórum símtölum stefnanda við verjandann, sem tekin voru upp á grundvelli úrskurðanna, hefði ekki verið eytt þegar í stað, svo sem skylt væri samkvæmt 85. gr. laga nr. 88/2008. Símtölunum hefði hins vegar verið eytt þegar bréfið var ritað. Jafnframt kom þar fram að aldrei hefði verið hlustað á umrædd símtöl við rannsókn málsins og hefði trúnaður verið virtur. Sá tími sem liðið hefði frá því að símahlustunum hefði lokið og þar til tilkynning þar um var send stefnanda 28. desember 2011 yrði skýrður með vísan til undanþágu þágildandi 2. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008 um að tilkynna skyldi um lok símahlustunar svo fljótt sem verða mætti, þó þannig að ekki skaðaði frekari rannsókn málsins. 

Framkvæmd starfsmanna sérstaks saksóknara við hlustun á símum stefnanda var kærð til ríkissaksóknara með bréfi frá verjanda stefnanda 11. mars 2013. Ríkissaksóknari tilkynnti verjandanum og sérstökum saksóknara með bréfi 24. apríl 2013 að ekki þættu efni til frekari rannsóknar á ætluðum brotum starfsmanna sérstaks saksóknara. Mæti ríkissaksóknari skýringar sérstaks saksóknara í bréfi frá 20. mars 2013 fullnægjandi, en óskað væri skýringa hans á því hvernig frekari rannsókn hefði skaðast með því að stefnanda hefði verið tilkynnt um hlustanir innan árs frá því að þær voru heimilaðar.

Með kæru stefnanda til ríkissaksóknara 11. október 2013 var þess krafist að hafin yrði rannsókn á hendur Benedikt Bogasyni, fyrrum dómstjóra við Héraðsdóm Vesturlands, og Ólafi Þór Haukssyni, þáverandi sérstökum saksóknara, fyrir brot í opinberu starfi og fyrir skjalafals vegna úrskurða Héraðsdóms Vesturlands frá 17. maí 2010 í málum nr. 60/2010 og 61/2010. Kærunni var vísað frá með bréfi ríkissaksóknara 27. janúar 2014. Talið var að umræddir úrskurðir Héraðsdóms Vesturlands væru í samræmi við framlögð dómskjöl og að með engu móti væri unnt að leggja til grundvallar að skjalafölsun hefði átt sér stað. Úrskurðirnir hefðu verið kveðnir upp af þar til bærum handhafa dómsvalds, væru reistir á viðhlítandi lagaheimild og ætlaðir í lögmætum tilgangi vegna rannsóknar sakamáls.

Á grundvelli ákæru útgefinnar 16. febrúar 2012 var stefnandi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2013, sem staðfestur var hvað refsingu varðaði í Hæstarétti 12. febrúar 2015, dæmdur í fimm ára og sex mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti. Samkvæmt ákæru 15. mars 2013 var stefnandi með dómi Hæstaréttar 6. október 2016 dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti og var þar um hegningarauka að ræða við fyrri dóm. Áfrýjað hafði verið dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. júní 2015. Á grundvelli ákæru frá 26. júní 2014 var stefnandi í Héraðsdómi Reykjavíkur sakfelldur 4. júlí 2017 fyrir fjárdrátt og umboðssvik og dæmdur til 12 mánaða fangelsisrefsingar til viðbótar, um hegningarauka var að ræða og var refsing dæmd umfram hið almenna sex ára refsihámark. Þessum dómi hefur verið áfrýjað til æðri dóms. Samkvæmt því sem fram kom hér fyrir dómi mun tveimur sakamálum á hendur stefnanda til viðbótar enn vera ólokið fyrir héraðsdómi. Stefnandi kveðst í stefnu enn hafa réttarstöðu sakbornings í nokkrum málum þar sem rannsóknum sé ólokið. Samkvæmt bréfi sérstaks saksóknara til verjanda stefnanda 20. ágúst 2015 voru ólokin mál á embættinu þá fjögur talsins.

Stefnandi telur að úrskurðir Héraðsdóms Vesturlands í málum nr. R-3/2010, R-28/2010, R-38/2010 og R-60/2010 hafi verið ólögmætir, með einum eða öðrum hætti, og þar af leiðandi einnig símahleranir á vegum embættis sérstaks saksóknara á grundvelli niðurstaðna þeirra. Hafi þetta valdið stefnanda miska og er það tilgangur málshöfðunar hans að krefjast bóta fyrir miskann. Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur vitnin Jón Óttar Ólafsson, Benedikt Bogason, Ólafur Þór Hauksson, Bjarni Ólafur Ólafsson og Björn Þorvaldsson.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi á því að símahlustanir embættis sérstaks saksóknara hafi falið í sér ólögmæta skerðingu á friðhelgi einkalífs hans. Símahlustun sé þvingunaraðgerð sem takmarki friðhelgi einkalífs, enda njóti símtöl og hvers konar önnur sambærileg fjarskipti manna á milli víðtækrar verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi byggi á því að símahlustanir þær sem hann hafi sætt hafi af margvíslegum ástæðum ekki verið í samræmi við lög og skilyrði fyrir skerðingu á friðhelgi einkalífs hans. Setja megi friðhelginni takmarkanir, að ströngum skilyrðum uppfylltum, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Skerðingar verði að meginreglu að byggjast á dómsúrskurði, eiga sér skýra og fyrirsjáanlega stoð í lögum, stefna að tilteknum lögmætum og málefnalegum markmiðum og gæta verði meðalhófs við skerðinguna. Þessa hafi ekki verið gætt í tengslum við umrædda úrskurði Héraðsdóms Vesturlands og eftirfarandi hlustanir á símum stefnanda vegna rannsókna þeirra mála þar sem hann hafi haft réttarstöðu sakbornings.

Um grundvöll og fjárhæð miskabótakröfu sé á því byggt að með hlustunum sérstaks saksóknara hafi með ólögmætum og saknæmum hætti verið brotið gegn friði stefnanda og persónu. Stefnda beri að bæta stefnanda hið ólögmæta inngrip í einkalífshagsmuni hans með greiðslu miskabóta, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Ólögmæt meingerð hafi falist í brotum gegn ákvæðum sakamálalaga, stjórnarskrá og mann­réttinda­sáttmála Evrópu við veitingu heimilda til símahlustana hjá stefnanda og eftirfarandi hlustanir. Brotin hafi beinst gegn frelsi stefnanda, friði og persónu. Á því beri stefndi vinnuveitendaábyrgð. Um fjárhæð miskabótakröfunnar vísi stefnandi til þess hann hafi orðið fyrir alvarlegum brotum, sem framin hafi verið í skjóli opinbers valds og án þess að stefnandi hafi haft tækifæri til að verjast þeim. Brotin hafi verið ítrekuð og alvarleg og brotavilji þeirra sem á þeim beri ábyrgð verið einbeittur. Þá mæli varnaðar­sjónarmið með því að stefnanda verði dæmdar miskabætur í samræmi við kröfugerð, enda verði aðilum sem fari með vald til að krefjast og úrskurða um þungbæra skerðingu á friðhelgi einkalífs manna að vera ljós alvarleiki brota gegn reglum þar að lútandi.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. maí 2010, í máli nr. R-60/2010, hafi verið ólögmætur og þar af leiðandi einnig eftirfarandi hlustanir sérstaks saksóknara á síma stefnanda á grundvelli úrskurðarins. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 88/2008 skuli dómþing haldið á föstum þingstöðum og samkvæmt 2. mgr. 8. gr. sömu laga skuli þingvottur að jafnaði vera viðstaddur málsmeðferð fyrir héraðsdómi. Þinghaldið hafi ekki farið fram í Dómhúsinu við Lækjartorg og hafi ekki verið sótt af sérstökum saksóknara, svo sem fram komi í úrskurðinum. Úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp og stimplaður á heimili þess dómara sem úrskurðinn kvað upp, sem ekki sé fastur þingstaður, sbr. lög nr. 15/1998 um dómstóla, og enginn þingvottur hafi verið viðstaddur uppkvaðningu úrskurðarins. Skriflegar beiðnir um þvingunarráðstafanir skuli lagðar fyrir héraðsdóm áður en úrskurður um aðgerð á rannsóknarstigi sé kveðinn upp, sbr. 102. og 103. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurðurinn 17. maí 2010 hafi verið kveðinn upp án þess að skrifleg beiðni um símahlustun hefði borist dóminum frá embætti sérstaks saksóknara og hafi dómarinn tjáð lögreglumönnum frá embætti sérstaks saksóknara við afhendingu úrskurðarins að skrifleg beiðni yrði að berast honum síðar. Ástæðan muni vera sú að sama dag hafi átt að láta stefnanda lausan úr gæsluvarðhaldi. Starfsmenn sérstaks saksóknara hafi áttað sig á því að ekki lægi fyrir gild símahlustunarheimild og því hafi heimildar verið aflað í snatri. Héraðsdómur Vesturlands hafi synjað stefnanda um afrit af færslum í málaskráningarkerfi réttarins, er varpað gætu ljósi á meðferð og veitingu símahlustunarheimildar 17. maí 2010. Skorað sé á stefnda að afhenda þau gögn.

Allir símahlustunarúrskurðirnir hafi auk þess verið ólögmætir þar sem þeir hafi verið kveðnir upp af dómstól í röngu varnarþingi. Með þeim og eftirfarandi hlustunum hafi því verið brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda með ólögmætum hætti. Embætti sérstaks saksóknara hafi haft það hlutverk að rannsaka tiltekin brot án tillits til staðbundinna vald­marka og hafi því aðeins haft efnisleg valdmörk. Engin sérákvæði um varnarþing embættisins hafi verið í lögum lögum nr. 135/2008 og því hafi farið um það samkvæmt almennum reglum laga nr. 88/2008. Í 1. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008 komi fram að beina skuli kröfu um rannsóknaraðgerð að jafnaði til héraðsdóms í umdæmi þess lögreglustjóra sem stýri rannsókn brots, eða, fari héraðssaksóknari eða ríkislögreglustjóri með rannsókn máls, að jafnaði til Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. einnig 9. gr. laga nr. 47/2015. Sérstökum saksóknara hafi því borið að beina kröfu um rannsóknar­aðgerð til Héraðsdóms Reykjavíkur, enda hafi höfuð­stöðvar embættisins verið í umdæmi þess dómstóls. Sú niðurstaða sé í bestu samræmi við 1. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008 um að varnarþing í rannsóknarmálum skuli vera þar sem rannsókn fari fram, og þá staðreynd að að héraðssaksóknari, sem tók við verkefnum sérstaks saksóknara, lúti umræddri reglu að núgildandi lögum. Undantekningarregla 2. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008 eigi ekki við í málinu, enda segi þar að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. megi beina kröfu um rannsóknaraðgerð til héraðsdóms í öðru umdæmi horfi það til flýtis eða hagræðis. Engin umdæmisleg tengsl hafi verið á milli rannsókna sérstaks saksóknara á máli stefnanda og þess dómstóls sem hafi orðið fyrir valinu þegar farið hafi verið fram á dómsúrskurði um heimildir til rannsóknaraðgerða. Rannsóknin hafi beinst að stefnanda sem sakborningi sem hafi verið búsettur erlendis þegar hlustun fór fram og tilefni hennar hafi verið viðskiptagjörningar sem farið hafi fram í starfsemi fjármálafyrirtækis með höfuðstöðvar í Reykjavík. Þá hafi ekkert komið fram í beiðnum sérstaks saksóknara eða úrskurðunum sjálfum um ástæður þess að leitað hafi verið til Héraðsdóms Vesturlands, fremur en til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við meginreglu 1. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafi hluti úrskurðanna verið kveðinn upp á dómþingi Héraðsdóms Vesturlands, sem háð hafi verið í Dómhúsinu við Lækjartorg, af eina dómaranum sem þá hafi verið skipaður við Héraðsdóm Vesturlands. Því verði ekki séð hvaða málefnalegu sjónarmið hafi legið að baki ákvörðun um að beina rannsóknarbeiðnum til þess dómstóls sem geti verið heimfærð undir undantekningarákvæði 2. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008. Því hafi borið að beina þeim til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við meginreglu 1. mgr. sama lagaákvæðis.

Þá hafi efnisleg skilyrði fyrir símahlustunum ekki verið uppfyllt þegar heimildir hafi verið veittar til að hlusta á síma stefnanda með úrskurðum Héraðsdóms Vesturlands, enda hafi tvíþættur áskilnaður 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 ekki verið uppfylltur. Í fyrsta lagi hafi skilyrði 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 ekki verið uppfyllt þar sem ekki dugi að færa almenn rök eða líkur fyrir því að framið hafi verið brot sem varðað geti átta ára fangelsi, heldur þurfi rökstuddur grunur að koma til. Af hlustunarbeiðnum sem lagðar hafi verið fram við meðferð rannsóknarmálanna fyrir Héraðsdómi Vesturlands verði ekki séð að raunverulegur rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi um skjalabrot samkvæmt 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem vísað hafi verið til í rökstuðningi fyrir niðurstöðu allra úrskurða dómstólsins. Í hlustunarbeiðnum til dómstólsins sem lagðar hafi verið fram í tveimur málanna, þeim sem lauk með úrskurðum í máli nr. R-38/2010 21. apríl 2010 og í máli nr. R-60/2010 17. maí 2010, hafi aðeins verið vísað almennum orðum til skjalabrota vegna rannsóknar. Þá hafi stefnandi ekki verið ákærður fyrir skjalabrot í kjölfar rannsókna sérstaks saksóknara. Stefnandi hafi hins vegar verið sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í samræmi við ákæru sem gefin hafi verið út á grundvelli rannsókna embættisins. Í öðru lagi hafi aðeins verið færð almenn rök fyrir því í hlustunarbeiðnum og úrskurðum að ríkir almanna- eða einkahagsmunir hafi verið fyrir hendi, í skilningi lokamálsliðar 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Það skilyrði sé matskennt og ekki nægilega skýrt og fyrirsjáanlegt til þess að réttmætt hafi verið að byggja á því til skerðingar á friðhelgi einkalífs stefnanda. Engar leiðbeiningar sé að finna um hvaða hagsmunir séu svo ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir að réttlætt geti símahlustun. Af kröfum 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu til skýrleika og fyrirsjáanleika lagaheimilda leiði að skerðing á friðhelgi einkalífs verði ekki réttlætt á grundvelli svo óskýrrar og ófyrirsjáanlegrar lagaheimildar. Með lögum nr. 103/2016 hafi skilyrðum 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 verið breytt og megi líta svo á að með lagabreytingunni hafi löggjafinn viðurkennt að skilyrðin, eins og þau stóðu í lögum þegar hlustað var á síma stefnanda, hafi ekki verið nægilega skýr og fyrirsjáanleg.

Með hlustunarúrskurðum Héraðsdóms Vesturlands og eftirfarandi hlustunum hafi einnig verið brotið gegn rétti stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Allar heimildir til að hlusta á síma stefnanda hafi verið veittar eftir að stefnandi hafi upphaflega gefið skýrslu hjá sérstökum saksóknara. Þar hafi honum verið kynnt að hann hefði réttarstöðu sakbornings, þ.e. að honum sem sakborningi væri óskylt að svara spurningum um refsiverða hegðun sem honum væri gefin að sök, sbr. 2. mgr. 64. gr. og 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð sakamála. Mislangur tími hafi liðið frá skýrslutökum fram að veitingu hlustunarheimilda, en alvarlegasta brotið hafi verið fólgið í veitingu hlustunarheimildar sama dag og stefnandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 17. maí 2010. Hann hafi verið yfirheyrður þann dag og tveimur dögum áður og þá kynnt umrædd réttindi sakborninga. Aðstæður hafi verið sambærilegar við þær sem verið hafi uppi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014, þar sem hlustun þótti fara gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ákæruvaldið hafi í raun viðurkennt ólögmæti þeirra gagna sem aflað hafi verið með þessum símahlustunum með því að fjarlægja þau úr gögnum þeirra mála sem ratað hafi til Hæstaréttar eftir að dómur í máli nr. 842/2014 gekk 4. febrúar 2016. Sá dómur hafi ásamt öðru orðið tilefni þess að sakamálalögum hafi verið breytt með lögum nr. 103/2016. Í frumvarpi til laganna komi fram að það hafi gerst að hlustað hafi verið á símtöl sakborninga rétt eftir að þeir hafi gefið skýrslu hjá lögreglu um sakir sem þeir hafi verið bornir og til rannsóknar hafi verið. Þar komi fram að með slíku kunni að vera vegið að grundvallarréttindum sakbornings og því ætti ekki að beita símahlustun og skyldum úrræðum eingöngu í því skyni að hlera símtöl eða taka upp fjarskipti sakaðra manna þegar svo standi á. Í öllum tilvikum þegar farið hafi verið fram á heimildir til að hlusta á síma stefnanda hafi verið færð þau rök að fyrirhugað væri að halda áfram skýrslutökum af sakborningum og líkur taldar á að sakborningar myndu bera saman bækur sínar um sakarefni símleiðis. Í upplýsingaskýrslu vegna úrskurðar 17. maí 2010 komi fram að lögregla telji nauðsynlegt að halda áfram öflun sönnunargagna í þágu rannsóknarinnar með því að hlusta símtöl stefnanda eftir að hann sleppi úr gæsluvarðhaldinu. Verði ekki annað séð en það hafi beinlínis verið tilgangur símahlustana hjá stefnanda að hafa að engu rétt hans til að neita að tjá sig um sakarefni eftir að hann hefði svarað spurningum hjá lögreglu með réttarstöðu sakbornings. Með því að hlusta á símtöl stefnanda við þessar aðstæður hafi verið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar og að engu hafður réttur hans til að neita að tjá sig um sakarefni og fella ekki á sig sök. Því hafi hlustanirnar jafnframt verið ólögmætar og hafi brotið gegn friði stefnanda og æru sem varin sé af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda hafi meðalhófs ekki verið gætt.

Ennfremur hafi verið brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi með því að embætti sérstaks saksóknara hafi hlustað á en ekki eytt þegar í stað samtölum sem stefnandi hafi átt við verjanda sinn. Ekki hafi heldur verið gætt meðalhófs við skerðingu á friðhelgi einkalífs stefnanda og áðurgreind skilyrði þeirrar skerðingar hafi þar með ekki verið uppfyllt. Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu feli í sér rétt sakborninga til að undirbúa vörn sína og til að njóta aðstoðar verjanda, auk þess að fella ekki á sig sök. Hafi það í för með sér að þeir skuli fá að njóta fyllsta trúnaðar í öllum samskiptum sínum við verjendur. Því sé lögreglu almennt óheimilt að hlusta á símtöl eða önnur fjarskipti á milli sakbornings og verjanda hans. Í lokamálslið 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008 sé áréttað að ef gögn, sem aflað hafi verið með símahlustun, hafa að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn skuli eyða þeim þegar í stað. Af framangreindu leiði að lögregla megi ekki hlusta á samskipti sakbornings og verjanda og að slík gögn megi ekki verða hluti af gögnum máls. Eftir sem áður hafi, við yfirferð verjanda stefnanda á gögnum sem hafi legið fyrir við rannsókn eins þeirra mála þar sem stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings, komið í ljós símtöl þar sem stefnandi hafi rætt við verjanda sinn. Þau símtöl hafi verið hlustuð og varðveitt. Þessi ólögmætu brot hafi embætti sérstaks saksóknara viðurkennt í bréfi til verjanda stefnanda 20. mars 2013.

Reglur sakamálalaga, þar sem áskilið sé í lokamálslið 1. mgr. 85. gr. að eyða skuli þegar í stað upptökum sem hafi að geyma samskipti sakbornings og verjanda, tryggi almennt ekki nægilega rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar né til friðhelgi einkalífs. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um rétt sakborninga til að njóta aðstoðar verjanda, sbr. c-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, hafi verið lögð á það áhersla að rétturinn sé aðeins raunhæfur fái sakborningur tækifæri til að ráðfæra sig frjálslega við verjanda sinn, án þess að eiga á hættu að lögregla fylgist með slíkum samskiptum. Sá réttur sakborninga verði ekki nægilega tryggður nema reglur um framkvæmd símahlustana séu með þeim hætti að ekki sé hætta á að lögregla freistist til að hlusta á það sem hún eigi ekki og megi ekki hlusta á. Eins hafi Mannréttindadómstóll Evrópu áréttað að meðal skilyrða þess að skerðing á friðhelgi einkalífs teljist lögmæt sé að í lögum skuli mælt fyrir um með nægilega skýrum og afdráttarlausum hætti hvernig skuli komið í veg fyrir að skerðing gangi óhóflega inn á önnur mikilsverð réttindi þess sem fyrir verði. Það sé jafnan talið brjóta gegn meðalhófsreglu þegar hlustað sé á samskipti sakbornings og verjanda. Af þessu leiði einnig að hlustanir embættis sérstaks saksóknara á símtöl milli stefnanda og verjanda hans hafi brotið með ólögmætum hætti gegn friði og persónu stefnanda, sem séu stjórnarskrárvarðir einkalífshagsmunir hans.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til 70. gr. og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, einkum ákvæða 49. gr. og XI. kafla, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þágildandi laga nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara. Um dráttarvaxtakröfur sé vísað til III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. Málskostnaðarkrafa byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmæli málatilbúnaði stefnanda í heild sinni og kröfum á honum reistum. Í 245. gr., sbr. áður 228. gr., laga nr. 88/2008 sé mælt fyrir um bótarétt vegna aðgerða samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna, en í XI. kafla sé fjallað um símahlustun og sambærileg úrræði. Bótaskilyrði 245. gr. laganna séu ekki uppfyllt, enda hafi stefnandi verið sakfelldur í þeim málum, þar sem umræddar símahlustanir hafi verið hluti af rannsókn og meðferð máls. Stefnandi byggi því ekki á ákvæði laganna um bótarétt til handa sökuðum mönnum en reisi þess í stað kröfur sínar á ákvæðum 70. gr. og 71. gr. stjórnarskrár, auk 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir fyrningu. Málið hafi verið höfðað 9. nóvember 2016, en ljóst sé að stefnanda hafi verið kunnugt um þessar rannsóknaraðgerðir fyrir 9. nóvember 2012, eða í síðasta lagi 28. desember 2011, svo sem fram komi í bréfi verjanda stefnanda til ríkissaksóknara 11. mars 2013. Miskabótakröfur fyrnist á fjórum árum eftir meginreglu 3. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki þegar sýknað af þeirri ástæðu sé byggt á því að umræddir úrskurðir og eftirfarandi hlustanir hafi ekki stofnað til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda, engin skilyrði miskabóta séu fyrir hendi í málinu. Ekki sé um það deilt að símahlustun sé þvingunaraðgerð sem takmarki frelsi einstaklings, sem varið sé með 71. gr. stjórnarskrárinnar. Á hinn bóginn séu þau úrræði réttlætanleg og lögmæt eftir 2. mgr. greinarinnar, þ.e. samkvæmt dómsúrskurði á grundvelli lagaheimildar. Í öllum þeim fjórum tilvikum sem kröfur stefnanda spretti af hafi verið kveðnir upp úrskurðir á grundvelli laga, þar sem dómari hafi metið hvort skilyrði væru til þess að símahlustun yrði beitt. Engin efni séu til þess að þeir sæti endurskoðun í máli þessu. Það fari að lögum um meðferð sakamála og eigi eftir atvikum undir dómstóla í viðkomandi sakamáli að taka afstöðu til þeirra atriða.

Stefndi hafi aflað upplýsinga og gagna hjá héraðssaksóknara og Benedikt Bogasyni, sem kveðið hafi úrskurðina upp. Staðhæfingar í stefnu um að mál hafi verið tekin fyrir á heimili dómara og úrskurðað þar, að sérstökum saksóknara fjarstöddum eða án þess að skriflegar beiðnir hafi borist áður, séu rangar. Halla Bergþóra Björnsdóttir, sýslumaður á Akranesi, hafi sótt þing vegna úrskurðar 9. mars 2010, en Ólafur Þór Hauksson, þáverandi sérstakur saksóknari, þegar kröfur embættisins hafi verið teknar fyrir 29. mars, 21. apríl og 17. maí sama ár.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands frá 17. maí 2010 hafi ekki verið kveðinn upp á heimili dómarans. Málið hafi verið tekið fyrir í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur og úrskurður kveðinn þar upp, auk úrskurðar í máli varðandi símagögn. Hann hafi verið kveðinn upp á grundvelli beiðni frá sérstökum saksóknara sem borist hafi héraðsdómara áður en málið hafi verið tekið fyrir í samræmi við ákvæði réttarfarslaga. Í staðfestu endurriti af úrskurðinum komi fram að dómþing hafi verið sett mánudaginn 17. maí 2010 í Dómhúsinu við Lækjartorg og háð af Benedikt Bogasyni að viðstöddum Ólafi Þór Haukssyni. Mál nr. 60/2010 og mál nr. 61/2010 hafi verið tekin þar fyrir. Tvö skjöl hafi verið lögð fram, beiðni og upplýsingaskýrsla. Málið hafi verið lagt í úrskurð sem kveðinn hafi verið upp í þinghaldinu.

Endurritið sé opinbert skjal sem teljist rétt þar til annað sannist, sbr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi enga sönnun fært fram sem hnekkt gæti skjalinu. Breyti engu í því efni þó að skjalið sé ekki vottað, enda sé ekki fortakslaus skylda til þess eftir 2. mgr. 8. gr. laga nr. 88/2008. Stefndi muni kalla dómarann til skýrslugjafar í málinu. Hann muni það glöggt að hann hafi verið að störfum í Héraðsdómi Reykjavíkur þennan dag. Vitað sé að dómarinn hafi einnig tekið fyrir annað óskylt sakamál eftir hádegi sama dag í Héraðsdómi Reykjavíkur (málið nr. S-121/2010), sem lokið hafi með viðurlagaákvörðun. Krafa sérstaks saksóknara vegna rannsóknar í máli stefnanda hafi verið tekið fyrir að loknu þinghaldi í því máli.

Sá háttur hafi verið hafður á að sérstakur saksóknari hafi sent dómara beiðni um símahleranir með tölvupósti áður en mál væri tekið fyrir á dómþingi. Í formlegu þinghaldi hafi beiðni sérstaks saksóknara verið tekin fyrir og upplýsingaskýrsla um gang rannsóknarinnar. Í þessu máli, eins og öðrum af sama toga, hafi beiðni verið fylgt eftir munnlega af saksóknara sem hafi gert grein fyrir kröfu sóknaraðila og svarað fyrirspurnum dómara. Þetta komi fram í endurriti úr þingbók af umræddu þinghaldi. Af samanburði úrskurðarins og beiðninnar sé augljóst að úrskurðurinn sé reistur á beiðninni og auk þess sé vísað til upplýsingaskýrslu sem lögð hafi verið fram.

Ekkert í málinu styðji fullyrðingar stefnanda um að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp á heimili dómara og án þess að beiðni kæmi fram af hálfu sóknaraðila. Á hinn bóginn hafi saksóknari og dómari sammælst um að endurrit úrskurðarins yrði sótt á heimili dómara þegar það væri tilbúið. Síðar þennan dag hafi því tveir lögreglumenn, Bjarni Ólafur Ólafsson og Jón Óttar Ólafsson, komið á heimili dómara og sótt umslag með endurritum af umræddum úrskurði og öðrum sem laut að afhendingu símagagna. Í umslaginu hafi verið þessir tveir úrskurðir og endurrit af þeim sem aðeins geymdi frásögn af þinghaldinu og úrskurðarorð, eins og tíðkað sé, enda séu þau endurrit ætluð til afhendingar til annarra. Ekkert þinghald eða uppkvaðning úrskurðar hafi farið fram á heimili dómara og sé fullyrðingum um það í stefnu mótmælt. Þeim málatilbúnaði að dómari hafi beðið lögreglumenn að senda sér beiðni síðar sé mótmælt sem röngum og fái hann ekki staðist. Ítrekað hafi komið fram á opinberum vettvangi að Jón Óttar beri þungan hug til embættis sérstaks saksóknara og sé ekki á framburði hans byggjandi.

Í 1. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008 komi fram að kröfu um rannsóknaraðgerð sem atbeina dómara þurfi til skuli að öðru jöfnu beint til héraðsdóms í umdæmi þess lögreglustjóra sem stýri rannsókn brots. Ekki sé vikið sérstaklega að embætti sérstaks saksóknara, en mælt fyrir um að fari ríkislögreglustjóri með rannsókn skuli kröfu að öðru jöfnu beint til Héraðsdóms í Reykjavík. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um meginreglu sem eftir orðalagi sínu sæti undantekningum og sé ekki fortakslaus, enda í tvígang vísað til þess að kröfu skuli að öðru jöfnu beint á tiltekið varnarþing. Þá sé í 2. mgr. undantekning þess efnis að beina megi kröfu um rannsóknaraðgerðir til héraðsdóms í öðru umdæmi horfi það til flýtis eða hagræðis. Sérstakur saksóknari hafi beint umræddum kröfum um símahlustun til Héraðsdóms Vesturlands, enda hafi legið fyrir tengsl á skrifstofu Héraðsdóms Reykjavíkur við fyrrum samstarfsmann stefnanda hjá Kaupþingi banka hf. Sérstakur saksóknari hafi gætt þess í hvívetna, þegar sendar hafi verið svo viðkvæmar upplýsingar, að engin hætta yrði á því að út spyrðist. Til að útiloka alla möguleika í þessum efnum hafi saksóknari metið rétt og eðlilegt að beina kröfunni til Héraðsdóms Vesturlands þar sem aðeins þrír starfsmenn hafi unnið. Fyrrum dómstjóri þar, Benedikt Bogason, hafi fallist á þessi sjónarmið og tekið málið fyrir og til úrskurðar réttilega að lögum.

Þau tilvik sem 2. mgr. 49. gr. sakamálalaga nefni rúmi margs konar aðstæður og sé það undir viðkomandi lögregluembætti eða saksóknara og dómara komið að vega þær og meta. Varnarþingsreglur réttarfarslaga séu almennt frávíkjanlegar og svigrúm 49. gr. laganna mikið. Dómsvaldið í landinu sé heldur ekki í eðli sínu staðbundið eða skipt milli umdæma þegar komi að úrlausn krafna og niðurstöðu dómstóla. Að baki umræddri ákvörðun sérstaks saksóknara hafi legið frambærilegar og málefnalegar ástæður, jafnt í ljósi 1. mgr. og 2. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008. Séu því engin efni til að fallast á að úrskurðirnir hafi verið ólögmætir. Enn síður sé efni til að játa stefnanda miskabótum af þessum sökum og beri að sýkna stefnda.

Ásakanir í kæru stefnanda 11. október 2013 til ríkissaksóknara vegna úrskurðarins 17. maí 2010 hafi enga stoð átt, hvorki gagnvart dómaranum né sérstökum saksóknara. Ranglega sé staðhæft í stefnu að kærum hafi verið vísað frá þar sem ætluð brot hafi verið fyrnd. Ríkissaksóknari hafi vísað þeim frá 27. janúar 2014 þar sem úrskurðirnir væru í samræmi við framlögð skjöl og með engu móti unnt að leggja til grundvallar að fölsun hefði átt sér stað. Úrskurðirnir hefðu verið kveðnir upp af þar til bærum handhafa dómsvalds, reistir á viðhlítandi lagaheimild og ætlaðir í lögmætum tilgangi vegna rannsóknar sakamáls.

Eðlilegar ástæður hafi búið að baki því vinnulagi að gögn vegna úrskurðarins 17. maí 2010 hafi verið færð í málaskrá Héraðsdóms Vesturlands daginn eftir uppkvaðningu hans. Mál séu færð í málaskrá samdægurs nema annað komi til, eins og þegar þing séu haldin og úrskurðir kveðnir upp við aðra héraðsdómstóla eins og raunin hafi verið 17. maí 2010. Málið hafi verið fært í málaskrá Héraðsdóms Vesturlands daginn eftir enda hafi dómarinn ekki komið á vinnustað sinn í Borgarnesi fyrr en daginn eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp í Reykjavík.

Efnisleg skilyrði fyrir símahlustunum hafi verið fyrir hendi vegna allra þeirra úrskurða Héraðsdóms Vesturlands sem stefnandi byggi dómkröfur sínar á. Úrskurðirnir hafi allir uppfyllt kröfur laga nr. 88/2008, ekki síst um ríka almanna- og einkahagsmuni í skilningi 83. gr., sbr. 81. gr. laganna, sem og skilyrði 71. gr. stjórnarskrár og ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu sem stefnandi vísi til málatilbúnaði sínum til stuðnings.

Fram komi í forsendum allra úrskurðanna að fyrir hendi hafi verið rökstuddur grunur um auðgunarbrot og eftir atvikum skjalafals í starfsemi Kaupþings banka hf. í aðdraganda þess að bankinn féll í október 2008. Réttilega hafi verið lagt til grundvallar í þremur fyrstu úrskurðunum, nr. R-3/2010, R-28/2010 og R-38/2010, að slík brot gætu varðað allt að átta ára fangelsi. Þá hafi héraðsdómur jafnframt fallist á að rannsóknin beindist að brotum sem vörðuðu ríka almanna- og einkahagsmuni, enda um að ræða gríðarlegar fjárhæðir í starfsemi stærsta fjármálafyrirtækis þjóðarinnar. Með vísan til þessa og að ætla mætti að óskað væri eftir upplýsingum sem skipt gætu miklu máli fyrir rannsóknina hafi héraðsdómur fallist á að fullnægt væri skilyrðum 83. gr., sbr. 81. gr., laga nr. 88/2008. Í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands frá 17. maí 2010, í máli nr. R-60/2010, hafi einnig verið byggt á því að rökstuddur grunur væri á að viðskipti Kaupþings banka hf. með hlutabréf í bankanum hefðu falið í sér markaðsmisnotkun í skilningi laga nr. 108/2007 og að fyrir hendi væri grunur um auðgunarbrot í tengslum við þau viðskipti. Héraðsdómur hafi á ný slegið því föstu að um væri að ræða ríka almanna- og einkahagsmuni með því að um gríðarlegar fjárhæðir væri að ræða í stærstu fjármálastofnun landsins og talið að upplýsingar gætu skipt miklu fyrir rannsókn málsins. Fyrir lægi upplýsingaskýrsla þar sem greint væri frá efnisatriðum úr samtölum sem vörpuðu ljósi á þátt sakborninga í ætluðum brotum. Í beiðni hafi einnig verið vísað til þess að rannsókn tæki til brota gegn 155. gr. og 158. gr. almennra hegningarlaga. Leggja verði til grundvallar hið augljósa, ekki síst í ljósi sakfellinga, að dómurinn hafi á þessum tíma lagt hlutlaust mat á og komist réttilega að niðurstöðu um að rökstuddur grunur um brot væri fyrir hendi. Skilyrðum 83. gr., sbr. 81. gr., laga nr. 88/2008 hafi verið fullnægt.

Augljóslega hafi efnisleg skilyrði verið uppfyllt til að úrskurða um þessar aðgerðir og engin tilefni séu til endurskoðunar á því, auk þess hafi verið dæmt um háttsemina. Engu breyti í þessu sambandi þótt gerðar hafi verið breytingar á lögum nr. 88/2008, með lögum nr. 103/2016, enda hafi þau lög ekki hróflað við því að það sé dómstóla að meta hvort ríkir almanna- eða einkahagsmunir séu fyrir hendi. Leggja verði til grundvallar að mat héraðsdómara á þessu skilyrði 83. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið rétt og í samræmi við lög, meðal annars með hliðsjón af rökstuðningi í dómi Hæstaréttar frá 12. febrúar 2015 í málinu nr. 145/2014. Þar hafi því verið slegið föstu að brot, sem meðal annars stefnanda hafi verið gefið að sök, hafi í senn beinst að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og yrði tjónið sem af þeim hafi leitt, beint og óbeint, ekki metið til fjár. Brotin hafi verið stórum alvarlegri en nokkur dæmi yrðu fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot. Kjarninn í háttsemi þeirra aðila sem ákærðir hafi verið í málinu, þ.m.t. stefnanda, hafi falist í markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í september 2008, en þau brot hafi verið þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll hafi brotin verið framin í samverknaði ákærðu í málinu og beinst að mikilvægum hagsmunum. Í dómsmálum, þar sem tekin hafi verið afstaða til ákæruefna á hendur stefnanda, hafi eftir atvikum verið tekin afstaða til þýðingar einstakra sönnunargagna og hvort stefnandi hefði notið málsmeðferðar í samræmi við lög. Þar hafi engar aðfinnslur verið gerðar eða athugasemdir við þessa úrskurði. Í engu séu uppfyllt skilyrði 26. gr. skaðabótalaga vegna þessara úrskurða eða hlustana.

Engri ólögmætri meingerð sé til að dreifa varðandi þá heimild sem veitt hafi verið til hlustunar eftir að stefnandi gæfi skýrslu hjá sérstökum saksóknara, þar sem honum hefði verið kynnt að hann hefði réttarstöðu sakbornings og að hann mætti neita að tjá sig um sakarefni. Framkvæmdin hafi verið í samræmi við þær rannsóknaraðferðir og úrskurði sem tíðkast hafi þegar svo alvarleg brot væru til rannsóknar. Merkja megi stefnubreytingu í dómaframkvæmd og komið hafi fram í síðari dómum Hæstaréttar að sams konar framkvæmd brjóti gegn réttindum sakbornings til að tjá sig ekki um refsiverða hegðun sem þeim sé gefin að sök. Athugasemd hafi þó ekki verið gerð við umrædda framkvæmd við rannsókn á háttsemi stefnanda í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014, þar sem stefnandi hafi verið meðal sakfelldu.

Þessi framkvæmd gefi ekki tilefni til greiðslu miskabóta, enda séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga ekki uppfyllt. Dómstólar eigi mat um hvort sönnunargögn af þessu tagi verði virt að vettugi við mat á sönnun, auk þess sem þeir kunni að finna að slíkum ráðstöfunum þegar dæmt sé um hvort sakfellt verði og refsing ákveðin. Í dómi Hæstaréttar frá 6. október 2016 í máli nr. 498/2015 hafi það verið niðurstaðan. Í þeim hluta dómsins hafi falist sú viðurkenning á réttarbroti sem verðskulduð hafi verið. Engin efni séu til að dæma miskabætur að auki, ekki síst í ljósi annarra úrræða sem grípa hafi þurft til, rannsókna og þeirra stórfelldu brota sem stefnandi hafi verið ákærður og dæmdur fyrir. Hafi ekki við þessar aðstæður getað verið um ólögmæta meingerð að ræða í skilningi 26. gr. skaðabótalaga, enda ekki á þessum tíma ljóst um breytt viðhorf Hæstaréttar til þessara álitaefna. Engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi hafi því verið til að dreifa sem fyrirsjáanleg hafi verið. Framkvæmd sem þessi hafi einnig verið viðhöfð í nágrannalöndunum.

Allir fjórir úrskurðirnir og tilheyrandi aðgerðir hafi tengst rannsóknum í málum þar sem stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir refsiverð brot í dómum Hæstaréttar og í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli nr. S-591/2014, sem sæti áfrýjun. Tengsl allra þeirra mála sjáist við samanburð lögreglumálsnúmera og efnis dóma og í bréfi sérstaks saksóknara frá 20. ágúst 2015. Þar sjáist að ekki sé einboðið að hlustun hafi í öllum tilvikum farið fram eftir að réttarstaða sakbornings hafi verið kynnt stefnanda. Því sé hafnað að hér sé tilefni til greiðslu miskabóta.

Þá sé það ekki rétt að að hlustað hafi verið á símtöl milli stefnanda sem sakbornings og verjanda hans. Fjórum slíkum hafi ekki verið eytt þegar í stað, svo sem skylt hafi verið eftir 85. gr. laga nr. 88/2008. Ekki hafi verið hlustað á þetta efni í rannsókn málsins og fullyrðingum um annað mótmæli stefndi sem röngum. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir öðru og hafi ekki tekist slík sönnun.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 498/2015 komi fram að ekki hafi legið fyrir í því máli endurrit af hljóðrituðum símtölum milli stefnanda og verjanda hans, útdrættir úr slíkum símtölum eða skýrslur um efni þeirra. Hafi Hæstiréttur því talið ljóst að slík gögn hefðu á engan hátt verið nýtt til sönnunar fyrir dómi. Þá segi í dóminum að ekki yrði séð hvernig lögregla gæti almennt hagað aðgerðum við hlustun síma sakbornings á annan hátt en gert hafi verið í tilviki stefnanda, samkvæmt bréfi sérstaks saksóknara, enda yrði hvorki séð fyrir hvort símtal sakbornings kynni að vera við verjanda fremur en annan, né hafi lögregla heimild í XI. kafla laga nr. 88/2008 til að fela öðrum framkvæmd þess inngrips í friðhelgi einkalífs manna að hlusta á símtöl þeirra. Í málinu hafi engin rök verið færð fyrir því að upptökur, sem viðurkennt sé að hafi orðið til af símtölum ákærða við verjanda, hafi í reynd haft áhrif á rannsókn málsins eða að raunhæf hætta geti hafa verið á því.

Í bréfi sérstaks saksóknara 20. mars 2013, sem vísað sé til í rökstuðningi Hæstaréttar, komi skýrt fram að brýnt hafi verið fyrir rannsakendum að hlusta ekki á samtöl við verjendur ef þau kæmu upp og fullyrt að aldrei hafi verið hlustað á þessi símtöl við rannsókn málsins og trúnaður þannig verið virtur. Fullyrðingar stefnanda um annað séu ekki réttar. Krafa um miskabætur eigi sér hér enga stoð, enda hafi ekki verið hlustað á símtöl milli stefnanda og verjanda hans.

Engin rök standi til þess að hliðsettur dómstóll endurskoði úrskurði þá sem málið varði að efni til eða hvort þeirra hafi verið aflað með réttmætum hætti á grundvelli þeirra málsástæðna sem stefnandi byggi á. Það sé viðfangsefni dómstóla í sakamáli þar sem metin séu sönnunargögn á borð við símahlustanir og hvort réttra aðferða hafi verið gætt við rannsókn máls. Í þeim málum hafi verið og muni verða tekin afstaða til þess hvort stefnandi hafi notið eða muni njóta réttlátrar málsmeðferðar í sakamáli í skilningi 70. gr. stjórnarskrár. Það hafi verið gert í þeim málum sem dómar hafi gengið í og þar sem stefnandi hafi hlotið þunga refsidóma. Ekkert í málinu gefi tilefni til greiðslu miskabóta eftir ákvæðum 26. gr. skaðabótalaga, enda í engu tilviki um ólögmæta meingerð að ræða og öll skilyrði 71. gr. stjórnarskrár fyrir hendi. Háttsemi sú sem stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir sé þess eðlis að hann hafi stuðlað að aðgerðum gegn sér. Augljóst sé að hann hafi ekki orðið fyrir miska í ljósi þeirrar háttsemi sem hann hafi verið sakfelldur fyrir og þungir refsidómar séu til vitnis um. Hvergi sé til að dreifa saknæmri háttsemi af hálfu dómara eða annarra starfsmanna stefnda.

Varakrafa um verulega lækkun sé studd sömu málsástæðum og sjónarmiðum og aðalkrafan. Stefnukrafan sé allt of há og ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd.

Upphafstíma dráttarvaxtakröfu sé mótmælt, ekkert kröfubréf hafi verið sent, en stefnandi krefjist dráttarvaxta frá stefnubirtingardegi. Krafa eigi í fyrsta lagi að bera dráttarvexti frá dómsuppsögudegi, en ella frá því að mánuður sé liðinn frá stefnubirtingardegi, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi krefst í máli þessu greiðslu miskabóta að fjárhæð tíu milljónir króna, auk dráttarvaxta, sem hann telur að stefnda beri að greiða honum á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Byggir stefnandi á því að með símahlustunum sérstaks saksóknara hafi með ólögmætum og saknæmum hætti verið brotið gegn friði stefnanda og persónu og beri stefnda að bæta honum hið ólögmæta inngrip í einkalífshagsmuni hans með greiðslu miskabóta. Ólögmæt meingerð hafi falist í réttarbrotum við veitingu heimilda til símahlustana hjá stefnanda og eftirfarandi hlustanir og vísar stefnandi í því sambandi til fjögurra úrskurða um símahlustun, sem giltu um tiltekinn tíma. Þeim úrskurðum og málsatvikum er lýst í sérstökum kafla hér að framan og vísast til þess sem þar kemur fram. Gildi úrskurða hliðsetts dómstóls er ekki til endurskoðunar í málinu heldur er hér til úrlausnar miskabótakrafa stefnanda sem á þeim og málsatvikum er reist.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Byggir stefndi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að meint krafa stefnanda til miskabóta sé fyrnd, enda hafi við höfðun málsins verið liðinn almennur fjögurra ára fyrningarfrestur kröfuréttinda samkvæmt meginreglu 3. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum, en krafa um skaðabætur vegna líkamstjóns, þ.m.t. fyrir ófjárhagslegt tjón, fyrnist þó á tíu árum samkvæmt síðari málslið málsgreinarinnar. Miski er ófjárhagslegt tjón og er í lögskýringargögnum með þessu ákvæði fyrningarlaga sérstaklega tekið fram í nefndaráliti að tíu ára fyrningarfrestinum sé ætlað að ná til alls ófjárhagslegs tjóns sem fjallað sé um í 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, þ.m.t. séu miskabætur fyrir ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns. Krafa stefnanda um miskabætur, sem reist er á þessu ákvæði skaðabótalaga, fyrnist samkvæmt þessu á tíu árum. Krafan var því ekki fyrnd þegar málið var höfðað og er þessari málsástæðu stefnda fyrir sýknukröfu því hafnað.

Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á nokkrum málsástæðum. Í fyrsta lagi á því að úrskurðirnir hafi verið kveðnir upp á röngu varnarþingi. Í öðru lagi á því að úrskurður frá 17. maí 2010 hafi verið kveðinn upp á heimili dómara og án þess að skrifleg beiðni lægi fyrir. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að efnisleg skilyrði símahlustunar hafi ekki verið uppfyllt þegar heimildir hafi verið veittar á grundvelli óskýrra lagaheimilda. Í fjórða lagi er byggt á því að með úrskurðunum og eftirfarandi hlustunum hafi að engu verið hafður réttur stefnanda sem sakbornings til að neita að tjá sig um sakarefni. Loks byggir stefnandi í fimmta lagi á því að hlustað hafi verið á og ekki eytt jafnharðan samtölum sem hann hafi átt við verjanda sinn.

Um varnarþing er til þess að líta að kröfu um rannsóknaraðgerð sem atbeina dómara þarf til skal að öðru jöfnu beint til Héraðsdóms Reykjavíkur fari héraðssaksóknari eða ríkislögreglustjóri með rannsókn brots samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008. Ágreiningslaust er að sama regla hafi gilt um rannsóknir sem sérstakur saksóknari stýrði meðan það embætti var til. Auk þess sem orðalag meginreglunnar ber með sér að hún sé ekki algild er í 2. mgr. sömu lagagreinar sérstaklega heimilað að beina kröfu um rannsóknaraðgerð til héraðsdóms í öðru umdæmi horfi það til flýtis eða hagræðis. Til þess að þær rannsóknaraðgerðir sem hér eru til skoðunar næðu tilgangi sínum þurftu þær að fara leynt og mikilvægt var að sem fæstir hefðu upplýsingar um þær heimildir sem veittar voru. Við þessar aðstæður var það eðlileg varúðarráðstöfun, sem horfði til hagræðis, að sérstakur saksóknari leitaði til dómstóls í nágrenni borgarinnar þar sem aðeins störfuðu þrír starfsmenn, fremur en til Héraðsdóms Reykjavíkur sem er fjölmennur vinnustaður þar sem allir starfsmenn hafa aðgang að málaskrárkerfi dómstólsins. Þetta val á varnarþingi var málefnalegt og stutt heimildum sakamálalaga, það var ekki ólögmæt meingerð gagnvart stefnanda og skapar honum engan bótarétt.

Stefnandi byggir á því að úrskurður um símahlustun 17. maí 2010 hafi verið kveðinn upp á heimili dómara, án þess að skrifleg beiðni lægi fyrir, og sé aðstæðum við uppkvaðningu ranglega lýst. Samkvæmt gögnum málsins var úrskurðurinn kveðinn upp í þinghaldi í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2010 og er þess getið í endurriti úrskurðarins að það hafi verið gert að viðstöddum sérstökum saksóknara sem lagt hafi fram við þinghaldið kröfu sína ásamt upplýsingaskýrslu. Bæði dómarinn og saksóknarinn hafa staðfest fyrir dóminum það sem fram fór í þinghaldinu. Framburður þeirra beggja er í fullu samræmi við það sem greinir í endurriti af þinghaldinu, sem er opinbert skjal sem ekki hefur verið hnekkt. Þó að dómarinn myndi ekki lengur hvort hann hefði lesið úrskurðarorðið upp frá orði til orðs að meðtöldum þeim númeraröðum sem þar greinir gat hann með fullri vissu upplýst að uppkvaðning úrskurðarins hefði falið í sér greinilega tilkynningu um að dómurinn féllist á kröfuna sem lögð var fyrir hann. Kvaðst dómarinn hafa kveðið upp úrskurðinn eftir að hafa kynnt sér þau gögn sem þar voru lögð fram. Gögn þessi eru meðal málsgagna, árituð og kvittuð um framlagningu í þinghaldi þennan dag. Framburði dómarans og saksóknarans um þetta hefur ekki verið hnekkt, en þeir tveir voru einir viðstaddir þinghaldið. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 88/2008 segir að þegar einn maður sitji í dómi skuli að jafnaði vera einn þingvottur. Það hefur engin áhrif á lögmæti þinghalds eða úrskurðar sem upp er kveðinn í þinghaldi að enginn vottur sé viðstaddur, enda er reglan frávíkjanleg, sbr. orðin „að jafnaði“, og skapar það stefnanda engan bótarétt þótt þingvottur hafi ekki verið viðstaddur umrætt þinghald.

Til stuðnings fullyrðingu sinni um að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp á heimili dómarans hefur stefnandi leitt fyrir dóminn vitni sem kom á heimili dómarans síðar sama dag í fylgd lögreglumanns sem sérstakur saksóknari hafði falið að sækja þangað endurrit úrskurðanna. Í framburði vitnisins, sem lýst hefur þeim atvikum áður fyrir dómi, fólst engin lýsing á uppkvaðningu úrskurða á heimili dómarans. Vitnið lýsti því að dómarinn hefði unnið við tölvu og síðan prentað út og stimplað endurrit úrskurða sem hann hefði afhent lögreglumönnum. Ber framburði vitnisins um atvik á heimili dómarans ekki að öllu leyti saman við framburð lögreglumannsins sem hann fylgdi þangað, en sá kvað dómarann hafa vikið frá og komið til baka með endurrit úrskurðanna sem hann hefði afhent sér, þar sem hann og umrætt vitni biðu í anddyri hússins. Sá lögreglumaður minntist þess ekki að dómarinn hefði minnst á að hann ætti eftir að fá eitthvað frá saksóknaranum, en fyrrnefnt vitni bar um að dómarinn hefði látið orð falla í þá veru þegar hann kvaddi þá. Tildrög að sendingu tölvuskeytis sem stefndi lagði fram við meðferð málsins og hafði að geyma ófullbúin drög að kröfu um símahlustun, og sem gekk frá saksóknara á embætti sérstaks saksóknara til hans og frá honum til dómarans um líkt leyti og endurritin voru afhent, eru ekki að fullu skýrð. Saksóknarinn sem sendi skeytið upplýsti fyrir dóminum að hann og aðrir lögfræðingar á embættinu hefðu komið að samningu slíkra draga og sent á milli sín. Kvaðst hann hafa unnið að farbannskröfu varðandi stefnanda sem hann hefði lagt fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag og gæti hann ekki skýrt hina síðbúnu sendingu til yfirmanns síns á drögum að kröfu um símahlustun. Tilgátur dómarans um mögulega gagnsemi slíkra draga við vinnslu máls í fyrra bréfi sínu til ríkislögmanns, sem stefndi lagði fram í sama þinghaldi og tölvuskeytið, hafa enga þýðingu í þessu sambandi, enda fær það ekki staðist að drögin hafi komið að gagni við samningu forsendna úrskurðarins. Sést af gögnum sem stefndi lagði síðar fram við meðferð málsins að krafan sem sérstakur saksóknari lagði fyrir dómara í þinghaldinu fyrr um daginn byggði á drögum sem annar lögfræðingur á embættinu hafði sent honum fáum dögum áður, en ekki á síðbúnum drögum saksóknarans. Þá er upplýst í gögnum máls þessa að úrskurðirnir og upplýsingar um gögn umræddra mála, eins og þau lágu fyrir við uppkvaðningu úrskurðanna og síðar sama dag við afhendingu endurrita þeirra, voru færð inn í málaskrá Héraðsdóms Vesturlands daginn eftir. Einnig er ljóst að byggt var á því endurriti úrskurðar um símahlustun sem afhent var á heimili dómarans í beiðnum sem sendar voru fjarskiptafyrirtækjum um að hefja símahlustun í beinu framhaldi af afhendingu endurritsins. Frágangur endurrita, undirritun og stimplun þeirra felur ekki í sér uppkvaðningu úrskurða og hefur það enga þýðingu í málinu þótt vitnum beri ekki nú, tæpum átta árum síðar, saman um það í öllum atriðum hvað fór fram á heimili dómarans í greint sinn. Öllum viðstöddum bar saman um það sem máli skiptir, að erindi lögreglumannanna á heimili dómarans var að sækja endurrit úrskurða og að þau hafi þeir fengið afhent. Í atvikum þessum felst ekki ólögmæt meingerð gagnvart stefnanda og skapa þau honum engan bótarétt.

Stefnandi styður bótakröfu sína m.a. því að efnisleg skilyrði til að fallist yrði á kröfu sérstaks saksóknara hafi ekki verið fyrir hendi þegar heimildir til símahlustunar voru veittar og á því að þau lagaákvæði sem þær byggðust á hefðu ekki verið nægilega skýr og fyrirsjáanleg til að á þeim megi byggja slíka skerðingu á friðhelgi einkalífs. Til marks um viðurkenningu löggjafans á því síðarnefnda, sé sú breyting á skilyrðum 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008, eins og þau stóðu þegar hlustað var á síma stefnanda, sem gerð var með lögum nr. 103/2016. Skilyrði þágildandi ákvæða sakamálalaga fyrir símahlustun voru, auk þess að ástæða væri til að ætla að upplýsingar sem skipt gætu miklu fyrir rannsókn máls fengjust þannig, að rannsókn beindist að broti, sem varðað gæti að lögum átta ára fangelsi, ellegar að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefðust þess. Stefnandi bendir á að hann hefur ekki verið sakfelldur fyrir brot sem varðað gætu átta ára fangelsi og hefði grunur um slík brot ekki verið nægilega rökstuddur. Til þess er að líta að samkvæmt ákvæðinu var nægilegt að annað hvort þessara skilyrða væri fyrir hendi. Með þeirri lagabreytingu sem stefnandi vísar til var, að því er varðar sakarefni í málum stefnanda, þessum skilyrðum breytt á þann veg að rannsókn beindist að broti sem varðað gæti að lögum sex ára fangelsi, en einnig þyrftu ríkir almanna- eða einkahagsmunir að krefjast þess að gripið yrði til símahlustunar. Stefnandi hefur ítrekað verið sakfelldur fyrir brot sem varða sex ára fangelsi á grundvelli umræddra rannsókna. Í málatilbúnaði stefnanda er það einkum skilyrðið um ríka almanna- eða einkahagsmuni sem hann telur of ófyrirsjáanlegt og óskýrt til að byggja megi á því ákvörðun um að veita hlustunarheimild.

Stefnandi var sakfelldur fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í dómi héraðsdóms sem staðfestur var í Hæstarétti 12. febrúar 2015. Refsing var ákveðin fangelsi í fimm ár og sex mánuði, en refsihámark fyrir umboðssvik er sex ára fangelsi. Brotum stefnanda, sem talin voru alvarleg, var lýst þannig í dómi Hæstaréttar að umboðssvikin snérust um gífurlegar fjárhæðir, alvarlegri en nokkur dæmi yrðu fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot, þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Um væri að ræða samverknaði sem beindust að mikilvægum hagsmunum. Stefnandi var á ný sakfelldur fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun og var í Hæstarétti 6. október 2016 gert að sæta fangelsi í sex mánuði til viðbótar. Var í því tilviki einnig um mjög alvarleg brot að ræða og var þeim lýst þannig í dómi Hæstaréttar að þau væru umfangsmikil, þaulskipulögð og drýgð í samverknaði og af einbeittum ásetningi. Beindust þau í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í heild og yrði tjónið sem leiddi af þeim beint og óbeint ekki metið til fjár. Voru brotin talin með þeim alvarlegustu sem dæmi væru um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot. Stefnandi hefur að auki verið sakfelldur fyrir fjárdrátt og umboðssvik með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2017, en dóminum hefur verið áfrýjað. Sem fyrr var um að ræða alvarleg trúnaðarbrot sem leiddu til stórfellds fjártjóns almenningshlutafélags. Refsihámark fjárdráttar er hið sama og umboðssvika, eða sex ára fangelsi. Horft var til fyrri sakfellinga fyrir efnahagsbrot og þótti, með hliðsjón af refsiákvörðunarástæðum í fyrri dómum og ákvæðum um hegningarauka, rétt að þyngja refsingu hans umfram hin almennu refsimörk og var hún ákveðin fangelsi í 12 mánuði til viðbótar. Að þessu virtu, og án tillits til þess að enn er ólokið málum samkvæmt tveimur ákærum til viðbótar, sem af rannsókn málsins hlutust, er hafið yfir vafa að rökstuðningur í kröfum sérstaks saksóknara, um að upplýsingar sem fengjust með hlustunum gætu skipt miklu fyrir rannsókn máls sem varði hvoru tveggja ríka almanna- og einkahagsmuni, var fullnægjandi. Því er hafnað að það hafi getað verið ófyrirsjáanlegt eða óskýrt að slíkir hagsmunir, sem framangreindir dómar greina frá og til rannsóknarinnar heyrðu, féllu undir umrætt lagaskilyrði um ríka almannahagsmuni eða einkahagsmuni. Á því gat ekki leikið vafi og skorti ekkert á skýrleika lagaskilyrðisins í þessu efni. Úrskurðirnir voru kveðnir upp á grundvelli gildra lagaheimilda, en um þá hefur áður verið fjallað af hliðsettum dómstól og í æðri dómi í sakamálum, án þess að tilefni þætti til athugasemda um lagagrundvöll þeirra að þessu leyti. Á stefnandi engan bótarétt á þessum grundvelli.

Þá styður stefnandi kröfur sínar við það að með úrskurðunum og eftirfarandi hlustunum hafi að engu verið hafður réttur hans sem sakbornings til að neita að tjá sig um sakarefni. Stefnandi vísar til dóms Hæstaréttar frá 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014, sem er sakamál sem varðar aðra sakborninga. Þar kemur fram að meðal málsgagna séu upptökur af símtölum og öðrum samskiptum ákærðu við aðra en verjendur sína skömmu eftir að þeir höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem þeir höfðu réttarstöðu sakborninga og var því óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun, sem þeim var gefin að sök, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Segir í dómi Hæstaréttar að með því að hlusta á símtöl ákærðu við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Hefði þessi framkvæmd þær afleiðingar að horft yrði fram hjá upptökunum við úrlausn málsins.

Var til þessa dóms vísað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 498/2015 frá 6. október 2016, sem var sakamál á hendur stefnanda og fleiri aðilum, þar sem þær símahlustanir sem þetta mál snýst um fóru fram við rannsókn málsins. Tilvísun réttarins til eigin fordæmis í málinu var sett fram í tilefni af frávísunarkröfu annars sakbornings í málinu en stefnanda. Sagði þar að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði verið byggt á því að brotið væri gegn rétti sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar með því að hlustað væri á símtöl hans í framhaldi af því að hann gæfi skýrslu hjá lögreglu, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurðar. Fram kom að rannsóknaraðgerðir lögreglu af þessum toga gætu ekki leitt til þess að lögum að máli yrði vísað frá dómi, heldur yrði horft til atvika sem þessara við mat á sönnun, auk þess sem virt yrðu að vettugi gögn sem hefði verið aflað þannig eða í tilefni af þeim atvikum. Stefnandi vakti sjálfur í sama máli athygli á því, til stuðnings kröfu sinni um frávísun, að uppvíst hefði orðið þegar liðið hefði á rannsókn málsins að lögregla hefði á fyrri hluta ársins 2010 tekið upp símtöl hans, bæði fyrir og eftir skýrslugjöf hjá lögreglu, og eftir að gæsluvarðhaldsvist hans lauk. Dómurinn endurtók ekki í umfjöllun sinni um frávísunarkröfu stefnanda afstöðu sína til þeirrar málsástæðu hans, enda var hún þegar komin fram í dóminum.

Fyrir liggur að stefnandi var yfirheyrður og honum kynnt réttarstaða sakbornings 11. júní 2009. Símahlustun hjá stefnanda var fyrst heimiluð 9. mars 2010 og eftir það óslitið til 13. maí 2010 með úrskurðum 9. mars, 31. mars, og 22. apríl sama ár. Í kröfum sem heimildirnar byggjast á kemur fram að þær styðjist m.a við rannsóknir á kærum sem borist höfðu frá Fjármálaeftirlitinu eftir að stefnandi var yfirheyrður 11. júní 2009. Stefnandi var yfirheyrður öðru sinni með réttarstöðu sakbornings 6. maí 2010. Hann sætti í framhaldi af því gæsluvarðhaldi frá 7. maí 2010 til 17. maí 2010. Því er ekki haldið fram að hlustunum hafi verið beitt á því tímabili en hlerunarheimildin rann út 13. maí s.á. Stefnandi var yfirheyrður með réttarstöðu sakbornings í gæsluvarðhaldi dagana 15. maí 2010 og 17. maí s.á., rétt áður en hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldinu. Var ný heimild til símahlustunar veitt sama dag, svo sem lýst hefur verið, og bera gögn frá tæknideild lögreglu með sér að tenging hafi verið virkjuð til hlerunar á tímabilinu frá klukkan 16.13 til klukkan 17.02 þann dag.

Stefnandi byggir á því að allir fyrrgreindir úrskurðir og hlustanir á þeim byggðar hafi falið í sér brot gegn réttindum stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014, og með sama hætti í dómi réttarins frá 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015, er tekið svo til orða að það brjóti gegn rétti sakborninga til réttlátrar málsmeðferðar að hlustað sé á símtöl sem þeir eigi skömmu eftir að þeir hafi gefið skýrslu hjá lögreglu með réttarstöðu sakaðs manns og að horft verði í sakamálunum fram hjá upptökum af símtölum sem gerðar hafi verið við þær aðstæður. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 103/2016 til breytinga á sakamálalögum, sem stefnandi vísar til í þessu sambandi, kemur fram að það hafi gerst að hlustað hafi verið á símtöl sakborninga rétt eftir að þeir gáfu skýrslu hjá lögreglu og að þar sem ekki megi skylda sakborning til að játa á sig sök ætti ekki að beita símahlustun þegar svo standi á.

Að þessu virtu, og því að fleiri sakarefni bættust við rannsókn málsins, svo sem lýst er í kröfum sérstaks saksóknara, verður ekki á það fallist að símahlustun hjá stefnanda frá 9. mars 2010 og óslitið fram að gæsluvarðhaldi hans brjóti gegn þeim réttindum sakbornings sem honum höfðu verið kynnt að hann nyti við yfirheyrslu 11. júní 2009. Á hinn bóginn var með símahlustun sem hófst síðdegis 17. maí 2010, skömmu eftir að stefnanda hafði verið kynnt réttarstaða sakbornings við yfirheyrslu vegna rannsókna þeirra brota sem lágu símahlustun til grundvallar, brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefndi vísar til þess að réttarvenja hafi verið fyrir þeirri framkvæmd sem sækjandi og dómari studdust við þegar heimild var veitt 17. maí 2010 til að hlusta síma stefnanda. Í framburði fyrrum sérstaks saksóknara fyrir dómi kom fram að á embætti hans hefði það verið rætt hvort það samrýmdist réttindum sakbornings að hlustað væri á símtöl stefnanda í framhaldi af því að hann gæfi skýrslu hjá lögreglu. Það hafi verið niðurstaðan að svo væri þar sem Hæstiréttur hefði ekki gert athugasemdir við slíka framkvæmd, auk þess sem sú réttarframkvæmd viðgengist annars staðar á Norðurlöndum. Var í kröfu þeirri sem lá til grundvallar úrskurði dómara 17. maí 2010 á því byggt að nauðsyn bæri til í þágu rannsóknar málsins að hlera síma stefnanda jafnskjótt og hann yrði látinn laus úr gæsluvarðhaldinu. Í framburði þeirra manna sem sóttu úrskurðinn á heimili dómarans kom fram að allt kapp var lagt á að hlustun gæti hafist sem fyrst eftir að stefnandi yrði látinn laus að lokinni yfirheyrslu. Var því lýst hvernig fyrrum lögreglumaðurinn, sem hafði vegna fyrri starfa aðgang að tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefði verið með í för að heimili dómarans beinlínis til þess að fara rakleiðis með úrskurðinn í tæknideildina. Hann kvaðst hafa staldrað þar við þar til svör höfðu borist frá fjarskiptafyrirtækjum sem staðfestu að tenging væri komin á. Með heimildinni og eftirfarandi hlustun á síma stefnanda var þannig beinlínis stefnt að því að hlusta á samtöl hans í beinu framhaldi af yfirheyrslu hans sem sakbornings.

Stefnandi kveður ákæruvaldið í raun hafa viðurkennt ólögmæti þeirra gagna sem aflað var með þessum símahlustunum með því að fjarlægja þau úr málsgögnum þeirra mála sem gengið hafi til Hæstaréttar eftir að dómur réttarins í máli nr. 842/2014 gekk. Stefndi vísar til þess að dómstólar eigi mat um hvort sönnunargögn af þessu tagi verði virt að vettugi við mat á sönnun og geti fundið að slíkum ráðstöfunum eins og niðurstaðan hafi orðið í máli Hæstaréttar nr. 498/2015. Telji stefndi að í þeim hluta dómsins felist sú viðurkenning sem verðskulduð var og engin efni séu til að dæma miskabætur að auki.

Krafa stefnanda um miskabætur byggist á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Var lagaákvæðinu frá upphafi ætlað að veita aukna réttarvernd gegn brotum vegna meingerðar gegn persónu, friði eða æru, t.d. brotum gegn friðhelgi einkalífs. Skilyrði er að meingerðin sé ólögmæt. Niðurstöðu sérstaks saksóknara og héraðsdómarans um lögmæti símahlustunar skömmu eftir yfirheyrslu sakbornings var síðar hnekkt í æðra dómi og munu gögn sem aflað kann að hafa verið með þessum hætti hafa verið virt að vettugi við mat á sönnun í sakamálum á hendur stefnanda. Þó að ekki sé sýnt fram á að aðgerðum hafi verið hagað með umræddum hætti sérstaklega til að beina meingerð að stefnanda fól símahlustun við þessar aðstæður, í trássi við rétt stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt framansögðu, í sér ólögmæta skerðingu á friðhelgi einkalífs hans, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Skerðing á slíkum réttindum felur í sér miska og þarf stefnandi ekki að færa með sjálfstæðum hætti sönnur á ófjárhagslegt tjón sitt. Ekki liggja fyrir upplýsingar í máli þessu um það hvort stefnandi notaði síma skömmu eftir að hann var yfirheyrður eða ekki. Réttarbrotið felst í því að ráðist var í aðgerðir sem tryggðu lögreglu möguleika á að hlusta á símtöl stefnanda á þeim tíma og ber stefndi bótaábyrgð á þeim ákvörðunum. Í ljósi þess hversu mikilvæg réttindi um er að tefla og í ljósi stöðu aðilanna og skyldu til að gæta meðalhófs verður ströngum saknæmisskilyrðum ekki beitt um þær ákvarðanir. Verður því fallist á að stefnandi eigi rétt til miskabóta úr hendi stefnda vegna heimildar til símahlustana í beinu framhaldi af því að hann gaf skýrslu með réttarstöðu sakbornings þann 17. maí 2010.

Stefnandi byggir bótakröfu sína einnig á því að hlustað hafi verið á og ekki eytt jafnharðan samtölum sem hann hafi átt við verjanda sinn. Tekið er undir það með stefnanda að lögreglu sé óheimilt að hlusta á samskipti sakbornings og verjanda og að slík gögn megi ekki verða hluti af gögnum máls. Um þau atvik sem þessi málsástæða stefnanda styðst við hefur m.a. verið fjallað í þeim tveimur sakfellingardómum sem gengið hafa í Hæstarétti á hendur stefnanda. Í dómi Hæstaréttar 6. október 2016 í máli nr. 498/2015 var tekin afstaða til meðferðar á upptökum af símtölum stefnanda við verjanda sinn með sambærilegum hætti og dómurinn gerði 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014, með því að upptökur af samtölum við verjandann hefðu ekki verið lagðar fyrir dóminn og ljóst væri að slík gögn hefðu á engan hátt verið nýtt til sönnunar fyrir dómi. Í dómunum er vísað til upplýsinga í bréfi sérstaks saksóknara frá 20. mars 2013 til verjanda stefnanda, sem einnig hefur verið lagt fram í máli þessu. Þar er greint frá því að upptökum af fjórum samtölum milli þeirra tveggja hafi vegna mistaka ekki verið eytt þegar í stað, en á þær hafi ekki verið hlustað. Gildi það síðarnefnda um allar aðrar upptökur af símtölum, sem þessu marki hafi verið brenndar. Segir í dómunum að ekki fáist séð hvernig lögregla gæti almennt hagað aðgerðum við hlustun síma sakbornings á annan hátt en gert hafi verið, enda verði hvorki séð fyrir hvort símtal sakbornings kunni að vera við verjanda fremur en annan, né hafi lögregla lagaheimild til að fela öðrum framkvæmd þess inngrips í friðhelgi einkalífs manna að hlusta á símtöl þeirra. Engin rök hafi verið færð fyrir því að upptökur sem viðurkennt sé að hafi orðið til af símtölum við verjanda hafi í reynd haft áhrif á rannsókn málsins eða raunhæf hætta geti hafa verið á því.

Í framburði fyrrum sérstaks saksóknara fyrir dóminum var staðfest efni bréfs hans til ríkissaksóknara sem lýst er í framangreindum dómum Hæstaréttar og að mistök hefðu í upphafi verið gerð um tafarlausa eyðingu þeirra fjögurra símtala sem þar væri getið um, en úr því hefði verið bætt þegar í stað þegar mistökin komu í ljós. Hvorki hefði verið hlustað á þau símtöl né önnur sem stefnandi hefði átt við verjanda sinn eftir að í ljós var komið hver viðmælandinn væri. Fyrir starfsmönnum embættisins hefði verið brýnt að símtölum sakborninga við verjendur skyldi eytt og að ekki skyldi á þau hlustað. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að hlustað hafi verið á símtöl stefnanda við verjanda sinn, umfram það sem óhjákvæmilegt var til að greina hver viðmælandi stefnanda væri. Sú framkvæmd verður ekki talin ólögmæt meingerð í garð stefnanda sem geti skapað honum bótarétt á hendur stefnda.

Samkvæmt framangreindu er fallist á að stefnda beri að greiða stefnanda miskabætur vegna heimildar til símahlustana í kjölfar yfirheyrslu 17. maí 2010, en bótakröfum stefnanda á öðrum grundvelli er hafnað.

Stefnandi krefst tíu milljóna króna í miskabætur. Sú fjárhæð er ekki í samræmi við dómaframkvæmd um bætur vegna slíkra rannsóknaraðgerða lögreglu. Fallist verður á varakröfu stefnda um verulega lækkun kröfunnar og verða stefnanda dæmdar 300.000 krónur í miskabætur. Ber sú fjárhæð dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá málshöfðun, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt þessum málsúrslitum og með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er fallist á varakröfu stefnda um málskostnað og verður hann felldur niður.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Hreiðari Má Sigurðssyni, 300.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 9. desember 2016 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

                                                            Kristrún Kristinsdóttir