• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. desember 2018 í máli nr. S-120/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Grétari S. Hallbjörnssyni

(sjálfur)

 

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 11. desember sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra, 7. nóvember 2018, með ákæru á hendur Grétari S. Hallbjörnssyni, fæddum […], til heimilis að […], […],  ,,fyrir umferðarlagarbrot með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 30. október 2018, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti, um […] við […].

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

II

Ákærði sótti þing þegar málið var þingfest 13. nóvember sl. og játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök. Að framkominni játningu ákærða var farið með málið eftir ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Með skýlausri játningu ákærða sem er í samræmi við gögn málsins telst sannað að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og þar er réttilega færð til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði fjórum sinnum áður sætt refsingu. Í maímánuði 2015 gekkst ákærði undir greiðslu sektar hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra vegna brots gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá var hann jafnframt sviptur ökurétti í 18 mánuði. Ákærði var með dómi 5. nóvember 2015 sviptur ökurétti í tvö ár og gert að greiða sekt fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Í desember 2015 var ákærða gert að greiða sekt fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og sviptur ökurétti í níu mánuði frá 3. ágúst 2018. Síðastgreindi dómurinn var hegningarauki við dóminn frá 5. nóvember 2015. Loks var ákærða hinn 15. mars 2016 gert að sæta fangelsi í 30 daga fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.

Ákærði er samkvæmt framanrituðu nú sakfelldur fyrir að aka þriðja sinni sviptur ökurétti þannig að ítrekunaráhrifa gæti á milli brota hans. Þykir refsing hans því, að teknu tilliti til dómvenju, hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Sakarkostnaður hefur ekki fallið til við meðferð málsins.

Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson  fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði Grétar S. Hallbjörnsson, sæti fangelsi í 30 daga.

 

                                                                             Halldór Halldórsson.