• Lykilorð:
  • Prókúra
  • Samningur
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 12. október 2018 í máli nr. E-2416/2017:

Virgo 2 ehf.

(Einar Hugi Bjarnason lögmaður)

gegn

Senu ehf.

(Sigurður Valgeir Guðjónsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 19. september 2018, höfðaði Virgo 2 ehf., [...], hinn 9. ágúst 2017, á hendur Senu ehf., [...].

            Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda aðallega 12.648.000 krónur, en til vara 7.688.000 krónur og til þrautavara 3.658.000 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

            Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda á hendur stefnda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

            Með úrskurði, uppkveðnum 6. mars 2018, var frávísunarkröfu stefnda, sem höfð var uppi sem aðalkrafa í greinargerð hans, hafnað.

           

I

Helstu málsatvik og ágreiningsefni

            Í máli þessu er deilt um það hvort stefndi, sem er fyrirtæki í afþreyingariðnaði, hafi réttilega innt af hendi greiðslur til stefnanda, sem er kvikmyndaframleiðandi, samkvæmt dreifingarsamningi aðila um kvikmyndina Grimmd.

            Aðilar gerðu með sér samning 1. mars 2016 þar sem stefnda var veittur einkaréttur á dreifingu kvikmyndarinnar til kvikmyndahúsa á Íslandi, gegn því að fá í sinn hlut prósentuhlutfall af nettóverði aðgöngumiða. Í samningnum er kveðið á um ýmsar skyldur dreifingaraðila, m.a. til þess að greiða framleiðanda 4.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, sem „sölutryggingu“ þann 15. maí 2016. Skyldi sölutryggingin dragast frá hlut framleiðanda. Samninginn undirrituðu Anton Ingi Sigurðsson af hálfu stefnanda og Konstantín Mikhaelsson af hálfu stefnda.

            Af hálfu stefnda var gefin út skrifleg yfirlýsing vegna kvikmyndarinnar 14. mars 2016 sem ber yfirskriftina „vilyrði“. Þar segir: „Það staðfestist hér með að Sena ehf., kt. [...], hefur kynnt sér ofangreinda mynd sem er framleidd af Virgo 2 kt. [...], og hefur áhuga á að taka hana til sýninga í kvikmyndahúsum sínum og jafnframt að gefa hana út á DVD og VOD á Íslandi. Sena mun greiða sem nemur 13.000.000 IKR fyrir ofangreinda rétti og greiðist eigi síðar en 16. desember 2016.“

            Degi síðar, 15. mars 2016, undirrituðu sömu menn af hálfu málsaðila yfirlýsingu, sem stefnandi kveður hafa verið útbúna af Íslandsbanka hf. og hafa verið ætlað að tryggja að greiðslur frá stefnda til stefnanda færu inn á tiltekinn tékkareikning þess síðarnefnda hjá bankanum (nr. [...-]). Í yfirlýsingunni er vísað til þess að stefndi hafi skriflega lýst yfir þeirri fyrirætlan sinni að kaupa dreifingarrétt að umræddri kvikmynd og greiða fyrir hann 13 milljónir króna eigi síðar en 16. desember 2016. Af hálfu stefnanda er því lýst yfir að öllum greiðslum sem félaginu kunni að berast frá stefnda, tilkomnum vegna dreifingarréttar að kvikmyndinni, verði ráðstafað inn á viðkomandi tékkareikning félagsins hjá Íslandsbanka hf. Innstæða reikningsins eins og hún væri á hverjum tíma, auk áfallinna vaxta, væri jafnframt veðsett bankanum með sérstakri yfirlýsingu þess efnis. Af hálfu stefnda er staðfest að allar greiðslur sem félagið muni greiða til stefnanda vegna dreifingarréttarins verði greiddar inn á umræddan reikning stefnanda hjá Íslandsbanka hf. Í niðurlagi yfirlýsingarinnar er feitletrað að undirritaðir staðfesti „að framangreindu greiðslufyrirkomulagi verði ekki breytt nema að áður fengnu samþykki Íslandsbanka hf. þar að lútandi“. Ástæðu þess að þessi yfirlýsing var gerð kveður stefnandi vera þá að fyrirsvarsmaður hans, Ragnar Þór Jónsson, hafi 11. janúar 2016 gengist í sjálfsábyrgð vegna yfirdráttar á umræddum tékkareikningi stefnanda, allt að 7.500.000 krónur.

            Í aðdraganda framangreindra gerninga gerðu eigendur að öllu hlutafé í stefnanda, þeir Anton Ingi Sigurðsson og Ragnar Þór Jónsson, með sér hluthafasamkomulag. Liggur það samkomulag fyrir, undirritað og vottað, dagsett 20. janúar 2016. Í 1. gr. þess segir að félag þeirra, stefnandi, eigi allan höfundarrétt að umræddri kvikmynd, „Grimmd“. Allar tekjur, styrkir og kostnaður við gerð kvikmyndarinnar muni fara í gegnum þar tilgreindan bankareikning félagsins í Íslandsbanka. Í 2. gr. kemur fram að þeir Ragnar Þór og Anton Ingi séu eigendur að jöfnu (50/50) að öllu hlutafé í stefnanda. Þá segir þar að Ragnar hafi einn lagt fram 7,5 milljóna króna ábyrgð fyrir yfirdrætti á bankareikningi félagsins til að geta hafið vinnu við gerð kvikmyndarinnar. Fyrstu greiðslur sem komi til félagsins fari í að greiða þennan yfirdrátt niður og aflétta í leiðinni ábyrgð Ragnars Þórs. Í 3. gr. segir síðan að á meðan yfirdrátturinn vari og ábyrgð Ragnars sé í gildi fallist Anton á að „allt hlutafé félagsins sé í eigu Ragnars Þórs“.

            Stefnandi gaf út tvo reikninga 3. maí 2016 á hendur stefnda vegna dreifingarréttar að „Grimmd“, samtals að fjárhæð 4.000.000 króna, auk virðisaukaskatts. Á reikningunum er greiðslustaður tilgreindur annar bankareikningur á kennitölu stefnanda en téður reikningur hans í Íslandsbanka hf.. Af stefnu verður ráðið að óumdeilt sé að umræddir reikningar hafi verið greiddir í samræmi við greiðslufyrirmæli á þeim og var það staðfest við aðalmeðferð málsins.

            Þá liggur fyrir ódagsett yfirlýsing Antons Inga Sigurðssonar fyrir hönd stefnanda, sem jafnframt er árituð af Konstantín Mikaelssyni fyrir hönd stefnda, þar sem því er lýst yfir að greiðslufyrirkomulagið og önnur ákvæði yfirlýsingar aðila frá 15. mars 2016 séu niður fallin og að stefnandi hafi óskað eftir því á útgefnum reikningum að greitt verði inn á annan bankareikning en fram komi í yfirlýsingunni.

            Með bréfi til stefnda, dags. 17. febrúar 2017, benti lögmaður Ragnars Þórs Jónssonar á að engar greiðslur hefðu borist inn á umræddan bankareikning stefnanda í Íslandsbanka og vísaði til yfirlýsingarinnar frá 15. mars 2016. Óskaði hann þess að upplýst yrði inn á hvaða bankareikninga greiðslur hefðu verið inntar af hendi og um ástæður þess að greiðslur hefðu ekki borist inn á reikning stefnanda í Íslandsbanka hf. Þá var óskað upplýsinga um það hvort aflað hefði verið samþykkis Íslandsbanka hf. fyrir breyttu greiðslufyrirkomulagi. Um leið var óskað eftir afstöðu stefnda til bótaskyldu félagsins gagnvart Ragnari Þór ef í ljós kæmi að greiðslur hefðu verið inntar af hendi inn á annan reikning en reikning stefnanda hjá Íslandsbanka hf. og bent á að Ragnar Þór sætti nú harkalegum innheimtuaðgerðum af hálfu bankans vegna sjálfskuldarábyrgðar á yfirdrætti á téðum bankareikningi stefnanda. Erindið ítrekaði lögmaðurinn með tölvupósti 22. s.m.

            Með tölvupósti 9. mars s.á. upplýsti lögmaðurinn að greiðsla að fjárhæð 4.030.000 krónur hefði borist inn á téðan bankareikning stefnanda í Íslandsbanka en þess var óskað að stefndi upplýsti án tafar hvenær eftirstöðvarnar, 8.970.000 krónur, yrði inntar af hendi til stefnanda. Þeim tölvupósti svaraði Konstantín Mikhaelsson af hálfu stefnda 14. mars og áréttaði að stefndi hefði „staðið í einu og öllu við gerða samninga“ við stefnanda. Vísaði hann til þess að greiðslufyrirkomulagi hefði verið breytt í samkomulagi við Anton Inga Sigurðsson, sem væri sá eini sem komið hefði fram af hálfu stefnanda í viðskiptum við stefnda. Nokkur tölvupóstsamskipti urðu milli aðila í framhaldinu sem ekki er þörf á að rekja.

            Í greinargerð stefnda er rakið að eftir sýningu kvikmyndarinnar hafi legið fyrir að einu tekjur af henni á grundvelli dreifingarsamningsins væru fyrir söluandvirði sýningarmiða, sem ekki hafi verið umfram fjögurra milljóna króna sölutrygginguna, auk virðisaukaskatts. Því hafi ekki komið til frekari greiðslna frá stefnda til stefnanda á grundvelli dreifingarsamningsins. Til að auka sölu á aðgöngumiðum á kvikmyndina hafi Anton Ingi Sigurðsson fengið félag í eigu föður síns, Sólóraf ehf., til að kaupa aðgöngumiða á kvikmyndina beint af stefnda fyrir 10.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, eigi síðar en 16. desember 2016. Sólóraf ehf. hafi samþykkt snemma árs 2016 að kaupa umrædda miða fyrir 16. desember 2016 beint af stefnda gegn því að stefnandi og stefndi samþykktu að greiðslur sem inntar yrðu af hendi, sambærilegar og hlutdeild sem stefnandi átti að fá samkvæmt dreifingarsamningi, myndu renna beint til félags í eigu Antons Inga Sigurðssonar, Virgo Films ehf., en ekki til stefnanda. Stefndi geri ráð fyrir því að ástæðan hafi verið sú að Sólóraf ehf. vildi gera Antoni Inga greiða með kaupum á miðum, en ekki láta stefnanda, sem Anton Ingi eigi einungis 50% hlut í, fá hlutdeild í sölu aðgöngumiðanna. Samkomulag hafi tekist milli stefnda, stefnanda og Sólórafs ehf. um það fyrirkomulag og því sé ekki um að ræða sölu á aðgöngumiðum með hefðbundnum hætti.

            Samkvæmt reikningi útgefnum af stefnda 10. október 2016 keypti Sólóraf ehf. 20.000 aðgöngumiða á kvikmyndina fyrir 10.000.000 króna, auk virðisaukaskatts. Sama dag gaf Virgo Films ehf. út reikning á hendur Senu heildsölu ehf. að fjárhæð 8.500.000 krónur, auk virðisaukaskatts, fyrir hlutdeild í miðasölu og var hann greiddur af stefnda. Heldur stefndi því fram að með þessu fyrirkomulagi hafi réttindi stefnanda samkvæmt dreifingarsamningi með engum hætti verið skert þar sem ekki hefði komið til aukinna greiðslna til stefnanda ef Sólóraf ehf. hefði ekki keypt miða með áðurgreindum hætti. Þá er staðhæft í greinargerð að Anton Ingi Sigurðsson, eigandi Virgo Films ehf., hafi látið andvirði umræddrar greiðslu til Virgo Films ehf. renna til stefnanda með þeim hætti að ógreidd laun starfsmanna stefnanda hafi verið greidd.

            Samkvæmt reikningsyfirliti var það Sena heildsala ehf., en ekki stefndi, sem greiddi 4.030.000 krónur inn á reikning stefnanda í Íslandsbanka hf. 24. febrúar 2017. Í greinargerð stefnda er þó ekki á því byggt að greiðslan sé stefnda óviðkomandi, en aftur á móti er þar staðhæft að greiðslan sé ótengd kvikmyndinni Grimmd og dreifingarsamningi um hana. Greiðslan sé vegna annarrar kvikmyndar og hefði með réttu átt að renna til Virgo Films ehf., en að ósk Antons Inga hafi greiðslunni verið beint til stefnanda.

            Samkvæmt vottorði um skráningu í hlutafélagaskrá, sóttu 24. mars 2017, er stjórn stefnanda skipuð tveimur mönnum, þeim Ragnari Þór Jónssyni sem stjórnarformanni og Antoni Inga Sigurðssyni sem meðstjórnanda, báðum með prókúruumboð. Samkvæmt vottorðinu er enginn framkvæmdastjóri skráður í félaginu. Þótt þess sé ekki getið í stefnu er upplýst að Ragnar Þór er í fyrirsvari fyrir stefnanda í máli þessu og gaf hann aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá gáfu skýrslu sem vitni nefndur Anton Ingi og Konstantín Mikael Mikaelsson, framkvæmdastjóri kvikmyndasviðs stefnda.

 

II

Málsástæður stefnanda

            Stefnandi kveðst byggja á því í þessu máli að stefndi hafi ekki efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningi aðila réttilega. Greiðslur stefnda fyrir dreifingarrétt kvikmyndarinnar Grimmd hafi numið 12.500.000 krónum, að viðbættum virðisaukaskatti. Krafan hafi ekki verið réttilega efnd þar sem greiðslur stefnda hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli yfirlýsingarinnar, dags. 15. mars 2016, og hafi að stærstum hluta verið inntar af hendi til annars aðila en stefnanda. Tilvist kröfunnar sé því ekki lokið, enda augljóst að stefndi hafi ekki efnt greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum með greiðslum í ósamræmi við yfirlýsinguna og að stærstum hluta til þriðja manns sem ekki átti aðild að samningnum.

            Stefndi hafi ekki verið í góðri trú þegar hann innti greiðslur sínar af hendi, það sýni gögn málsins. Vísar stefnandi í því efni í fyrsta lagi til vilyrðis stefnda, dags. 14. mars 2016, þar sem segi að stefndi muni greiða stefnanda, ekki öðrum, 13 milljónir króna fyrir dreifingarrétt að kvikmyndinni. Í öðru lagi vísist til samnings málsaðila, dags. 1. mars 2016, þar sem fram komi í aðfaraorðum samningsins að viðsemjandi stefnda sé stefnandi, auk þess sem fyrirsvarsmenn málsaðila riti undir samninginn. Í grein 1.5 í samningnum komi skýrt fram að stefndi greiði stefnanda tiltekna fjárhæð sem sölutryggingu vegna samningsins og sé greiðslutilhögun tryggingarinnar sundurliðuð í samningsákvæðinu. Í þriðja lagi vísist til yfirlýsingarinnar, dags. 15. mars 2016. Í yfirlýsingunni staðfesti Konstantín Mikhaelsson fyrir hönd stefnda að allar greiðslur sem stefndi muni greiða til stefnanda vegna dreifingarréttarins verði greiddar inn á tékkareikning stefnanda hjá Íslandsbanka hf. Þá komi fram feitletrað í lokamálsgrein yfirlýsingarinnar að báðir aðilar staðfesti að framangreindu greiðslufyrirkomulagi verði ekki breytt nema að áður fengnu samþykki Íslandsbanka hf. þar að lútandi.

            Stefnandi byggi á því að ódagsett yfirlýsing Antons Inga Sigurðssonar sé að engu hafandi í málinu og óskuldbindandi fyrir stefnanda. Í fyrsta lagi liggi fyrir að ekki hafi verið aflað samþykkis Íslandsbanka hf. fyrir breyttu greiðslufyrirkomulagi, eins og fyrri yfirlýsingin hafi kveðið skýrlega á um. Í öðru lagi þurfi samþykki beggja stjórnarmanna til að skuldbinda félagið, samkvæmt grein 4.1 í samþykktum stefnanda. Þar sem meðstjórnandinn Anton Ingi riti einn undir yfirlýsinguna sé hún ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Í þriðja lagi vísist til tölvuskeytis Konstantíns frá 16. mars sl. þar sem hann staðfesti að hafa neitað að skrifa undir ódagsettu yfirlýsinguna frá Antoni.

            Einnig byggi stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt tilvist kröfunnar á hendur sér með fyrirvaralausri innborgun á skuldina inn á tékkareikning stefnanda hjá Íslandsbanka að fjárhæð 4.030.000 krónur þann 24. febrúar 2017. Augljóst sé að greiðslan hafi ekki verið innt af hendi af öðru tilefni en sem innborgun á skuldina enda ekki öðrum viðskiptum til að dreifa milli stefnanda og stefnda en um kaup þess síðarnefnda á dreifingarrétti að umræddri kvikmynd. Hefði tilefni þessarar greiðslu verið annað en innborgun inn á skuld stefnda við stefnanda vegna kaupa stefnda á dreifingarréttinum sé ljóst að gera verði þá lágmarkskröfu að stefndi léti þess getið með skýrum hætti þegar greiðslan var innt af hendi. Þetta hafi stefndi ekki gert heldur hafi greiðslan þvert á móti verið innt af hendi án nokkurra fyrirvara. Af þeim sökum hafi stefndi án nokkurs vafa viðurkennt tilvist kröfu stefnanda.

            Aðalkrafa stefnanda sé reist á því að efndir stefnda á grundvelli samkomulagsins hafi verið ófullnægjandi með öllu og í andstöðu við yfirlýsinguna, enda hafi engir fjármunir verið greiddir inn á tékkareikninginn í Íslandsbanka. Greiðsla skuldara til kröfuhafa leiði því aðeins til brottfalls skyldu skuldara, og þar með til loka kröfuréttinda, að greitt sé í samræmi við ákvæði samnings. Til réttra efnda af hálfu skuldara heyri m.a. að hann inni greiðslu sína af hendi á réttum stað og á réttum tíma.

            Í þessu máli hátti þannig til að Anton Ingi og Konstantín hafi ritað undir samning aðila um kaup stefnda á dreifingarrétti að kvikmyndinni. Tveimur vikum síðar hafi þessir sömu menn ritað undir yfirlýsingu þess efnis að greiðslur fyrir dreifingarréttinn færu inn á tékkareikning stefnanda hjá Íslandsbanka og að því greiðslufyrirkomulagi yrði ekki breytt nema að fengnu samþykki bankans. Augljóst sé því að greiðslur stefnda hafi ekki verið í samræmi við það sem um var samið í kröfuréttarsambandi málsaðila. Af þeim sökum sé um vanefnd af hálfu stefnda að ræða sem réttlæti það að stefnandi geti krafist efnda in natura líkt og hann geri með kröfugerð sinni í þessu máli. Af þessum sökum líti stefnandi svo á að umsamið kaupverð fyrir dreifingarrétt að kvikmyndinni Grimmd, 15.500.000 krónur [12.500.000 krónur, auk virðisaukaskatts; innsk. dómara], sé ógreitt að öllu leyti og krefjist greiðslu þess.

            Varakrafa um greiðslu á 10.540.000 krónum byggi á sömu röksemdum og málsástæðum og aðalkrafan, að breyttu breytanda, en munur á aðal- og varakröfu skýrist af því að í varakröfu hafi verið dregnar frá greiðslur að fjárhæð 4.960.000 krónur sem greiddar hafi verið inn á reikning stefnanda í Arion banka hf. á grundvelli tveggja reikninga frá stefnanda, dags. 3. maí 2016.

            Fyrir liggi að stefndi hafi greitt 10.540.000 krónur til Virgo Films ehf. á grundvelli reiknings frá þeim síðarnefnda útgefnum 10. október 2016. Það sé viðurkennd meginregla í kröfurétti að efndastaður peningakröfu sé hjá kröfuhafa. Krafa teljist því ekki greidd fyrr en greiðslan sé komin til kröfuhafa en í því felist að hann hafi aðgang að henni og geti ráðstafað henni. Stefnda hafi vitaskuld verið fullkomlega ljóst að félagið Virgo Films ehf. væri ekki aðili að kröfuréttarsambandi aðila og hafi því ekki með nokkru móti getað gengið út frá því að hann væri laus undan greiðsluskyldu sinni með greiðslu til þess félags, sér í lagi í ljósi yfirlýsingarinnar.

            Í þessu sambandi vísi stefnandi einnig til þeirrar meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi eigi rétt til þess að fá efndir kröfu sinnar í samræmi við aðalefni samnings. Í samningi málsaðila um kaup á dreifingarréttinum hafi verið gert ráð fyrir því að greiðslur yrði inntar af hendi til stefnanda, sem sé eðlilegt í ljósi þess að ekki hafi verið öðrum samningsaðila til að dreifa. Þar sem stefndi hafi ekki greitt í samræmi við efni samningsins sé um vanefnd af hálfu stefnda að ræða og af þeim sökum krefji stefnandi hann um greiðslu þess sem eftir standi af kaupverðinu, þ.e. þess hluta sem stefndi hafi innt af hendi til Virgo films ehf. 

            Verði ekki á það fallist að um vanefnd sé að ræða byggi stefnandi á því að hann eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda sem nemi sömu fjárhæð og varakrafan. Stefndi hafi augljóslega sýnt af sér saknæma háttsemi er hann greiddi hluta kaupverðsins til þriðja manns, Virgo Films ehf., í trássi við ákvæði samningsins og yfirlýsingarinnar. Tjónið nemi þeim hluta kaupverðs dreifingarréttarins sem inntur hafi verið af hendi til Virgo Films ehf. en skilaði sér ekki til stefnanda.

            Þrautavarakrafan um greiðslu 6.510.000 króna byggi á sömu málsástæðum og röksemdum og aðal- og varakrafan, að breyttu breytanda, en sá munur sé á vara- og þrautavarakröfu að í þeirri síðarnefndu sé dregin frá innborgun stefnda til stefnanda þann 24. febrúar 2017 að fjárhæð 4.030.000 krónur inn á tékkareikning stefnanda hjá Íslandsbanka.

            Verði ekki fallist á að vanefnd sé fyrir hendi sé með sama hætti og varðandi varakröfuna byggt á því að stefnandi eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda sem nemi þeirri greiðslu sem innt hafi verið af hendi til Virgo Films ehf. að frádreginni innborguninni frá stefnda þann 24. febrúar 2017.

            Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna kröfu- og samningaréttar, m.a. um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfu, og til almennra reglna skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglunnar. Þá sé vísað til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnanda sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Við munnlegan málflutning lækkaði stefnandi fjárkröfur sínar, stefnda til hagsbóta, og er endanleg kröfugerð hans eins og greinir í upphafi dóms þessa. Um þessar breytingar á kröfugerð verður nánar fjallað í niðurstöðukafla.

 

III

Málsástæður stefnda

            Stefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu á því að krafa stefnanda vegna dreifingarsamnings við stefnda sé að fullu greidd. Reikningar sem stefnandi byggi á að séu ógreiddir hafi allir verið greiddir í samræmi við fyrirmæli stefnanda. Þar sem reikningar hafi verið með annað reikningsnúmer en fram komi í yfirlýsingu aðila, dags. 15. mars 2016, hafi stefnandi ákveðið að undirrituð yrði ný yfirlýsing þar sem stefnandi og stefndi samþykktu að fella fyrrnefndu yfirlýsinguna úr gildi. Í síðarnefndu yfirlýsingunni komi jafnframt fram að greiðslur fyrir dreifingarrétt hafi verið inntar af hendi með fullnægjandi hætti. Fyrri yfirlýsingin hafi verið undirrituð af Antoni Inga Sigurðssyni, prókúruhafa stefnanda, og því hafi stefndi getað treyst því að Anton Ingi, sem prókúruhafi félagsins, hefði heimild til að undirrita yfirlýsingu um að skuldbinding frá 15. mars 2016 væri fallin niður. Þar sem Íslandsbanki hafi aldrei verið aðili að umræddri yfirlýsingu hafi bankinn ekkert haft um það að segja hvort aðilar sem stóðu að henni breyttu samningsskuldbindingu sinni. Því til viðbótar hafi Ragnari Þór, stjórnarformanni stefnanda, verið fullkunnugt um umrætt greiðslufyrirkomulag enda hafi Ragnar Þór verið sá eini á vegum stefnanda sem hafði aðgang að heimabanka stefnanda.

            Stefndi byggi á því að Anton Ingi Sigurðsson hafi haft fullnægjandi umboð til að breyta umræddu greiðslufyrirkomulagi, eins og hann hafi haft prókúruumboð til að undirrita fyrri yfirlýsinguna um að greiðslur ætti að inna af hendi inn á reikning í Íslandsbanka. Einkennilegt sé að stefnandi haldi því fram að yfirlýsingin frá 15. mars 2016 sé gild með undirritun Antons Inga en haldi því fram að síðari yfirlýsing hans, ódagsett, sé ekki gild þar sem Anton Inga hafi skort umboð. Með þessu haldi stefnandi því fram að prókúruumboð gildi þegar það henti stefnanda en annars ekki.

            Stefndi bendir á að í 25. til 32. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð sé fjallað um það hvað felist í prókúruumboði. Í 25. gr. komi fram að í prókúru felist umboð til prókúruhafa til að undirrita allt sem snerti rekstur þess félags sem prókúran sé veitt fyrir, að undanskildum ráðstöfunum sem varði sölu eða veðsetningu á fasteignum. Prókúra feli í sér umboð til að annast allt það sem snerti rekstur og atvinnu prókúruhafa. Umboðið sé vítt og í því felist heimild til að undirrita fyrir hönd félagsins allt sem snerti rekstur þess. Þess beri einnig að geta að Anton Ingi sé framkvæmdastjóri félagsins [sic] og allar ráðstafanir eins og þær að senda reikninga, taka við greiðslum, undirrita samninga og annað þess háttar feli í sér fullnægjandi skuldbindingu ef prókúruhafi undirritar fyrir hönd félagsins. Stefndi hafi aldrei átt samskipti við neinn annan en Anton Inga í viðskiptum sínum við stefnanda og hafi ekki verið kunnugt um það þegar reikningar voru gefnir út eða samningar gerðir að Ragnar Þór væri í stjórn stefnanda og ætti hlut í stefnanda, hvað þá að hann hefði undirgengist sjálfsskuldarábyrgð fyrir hönd stefnanda.

            Ragnar Þór hafi verið annar prókúruhafi stefnanda. Hann hafi einn haft aðgang að heimabanka stefnanda og því getað séð hvaða greiðslur bárust til stefnanda og hvaðan. Anton Ingi hafi ekki haft aðgang að heimabanka stefnanda. Ragnar Þór hafi því haft meiri yfirsýn yfir fjármál stefnanda en Anton Ingi. Ragnar Þór hafi engar athugsemdir gert þegar greiðslur bárust inn á annan reikning stefnanda en þann tiltekna reikning sem vísað hafi verið til í yfirlýsingu frá 15. mars 2016. Engar athugsemdir hafi verið gerðar við fyrirkomulag greiðslna fyrr en faðir Ragnars Þórs hafi farið að skipta sér af málefnum félagsins.

            Í ljósi þess sem hér hafi verið rakið telji stefndi að sýkna eigi stefnda af kröfum stefnanda.

            Varakrafa um lækkun

            Verði ekki fallist á kröfu stefnda um frávísun eða sýknu sé krafist verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þar sem stefndi hafi greitt til stefnanda 4.030.000 krónur vegna kvikmyndarinnar Meyjan, sem ekki sé í eigu stefnanda, sé augljóst að Anton Ingi hafi ekki getað krafist þess að sú greiðsla yrði innt af hendi til stefnanda. Þrautavarakrafa stefnda sé því um að greiðslan komi til frádráttar dómkröfum stefnanda.

            Stefndi kveðst byggja kröfur sínar á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903, lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 og meginreglum samninga- og kröfuréttar. Krafa stefnda um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV

Niðurstaða

            Við munnlegan málflutning gerði stefnandi breytingu á dómkröfum sínum, stefnda til hagsbóta, í tilefni af ábendingu dómara um að vanreifað væri á hvaða grundvelli stefnandi ætti rétt á 85% hlutfalli af sölu bíómiða til Sólórafs ehf., í andstöðu við ákvæði dreifingarsamnings þar sem gert er ráð fyrir lægra hlutfalli. Var þeirri breytingu ekki sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda og verður að telja hana rúmast innan kröfugerðar stefnanda. Hafa ekki orðið slíkar breytingar á málsgrundvelli af þessum sökum að frávísun varði án kröfu.

            Við munnlegan málflutning benti dómari enn fremur á að kröfugerð stefnanda miðaðist við það að hann ætti rétt á fullri sölutryggingu, auk hlutdeildar í miðasölu til Sólórafs ehf., en samkvæmt dreifingarsamningi aðila ætti sölutryggingin að dragast frá hlut framleiðanda í tekjum af miðasölu. Benti dómari á að ekki væri upplýst í stefnu, né lögð fram nein gögn, um heildartekjur af sölu aðgöngumiða á kvikmyndina. Bauð dómari málsaðilum að fjalla um það hvort dómkröfur stefnanda væru vanreifaðar í ljósi þessa. Hafnaði lögmaður stefnanda því að málið væri vanreifað af þessum sökum og kvaðst telja óumdeilt að stefnandi ætti rétt á fullri greiðslu sölutryggingar, enda hefði stefndi engum athugasemdum hreyft við framsetningu kröfugerðar hans að þessu leyti. Lögmaður stefnda tjáði sig ekki um þetta atriði í málflutningi og í greinargerð stefnda eru ekki höfð uppi nein mótmæli eða varnir í tilefni af þessari framsetningu kröfugerðar stefnanda. Verður því lagt til grundvallar að ágreiningslaust sé að tekjur af sölu aðgöngumiða hafi staðið undir sölutryggingunni. Eru þá ekki efni til að vísa málinu frá dómi, án kröfu, af framangreindum sökum.

            Í fyrsta lagi er deilt um það í málinu hvort greiðsla á svokallaðri sölutryggingu samkvæmt grein 1.5 í dreifingarsamningi aðila frá 1. mars 2016, samtals að fjárhæð 4.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, hafi verið greidd réttilega til stefnanda. Óumdeilt er að tveir reikningar sem gefnir vour út í nafni stefnanda 3. maí 2016, samtals að framangreindri fjárhæð, voru báðir greiddir í samræmi við greiðslufyrirmæli á þeim, en þar var mælt fyrir um að greiðslu skyldi leggja inn á tilgreindan reikning stefnanda í Arion banka. Voru þau greiðslufyrirmæli í andstöðu við yfirlýsingu sem aðilar höfðu undirritað 15. mars 2016, þar sem kveðið var á um að allar greiðslur frá stefnda vegna kvikmyndarinnar skyldu lagðar inn á tilgreindan reikning stefnanda í Íslandsbanka. Fyrir liggur ódagsett yfirlýsing, sem Anton Ingi og Konstantín staðfestu fyrir dómi undirritanir sínar á, þar sem því er lýst yfir að greiðslufyrirkomulagið og önnur ákvæði yfirlýsingar aðila frá 15. mars 2016 séu niður fallin og vísað til þess að stefnandi hafi óskað eftir því á útgefnum reikningum að greitt yrði inn á annan bankareikning en tilgreindur sé í yfirlýsingunni. Er deilt um það hvort Anton Ingi hafi verið til þess bær af hálfu stefnanda að breyta áður gerðri yfirlýsingu, og það án aðkomu Íslandsbanka.

            Þótt aðilar hafi skuldbundið sig til þess í yfirlýsingunni 15. mars 2016 að breyta ekki greiðslufyrirkomulagi samkvæmt henni „nema að áður fengnu samþykki Íslandsbanka“, þá var Íslandsbanki ekki aðili að því samkomulagi sem fólst í yfirlýsingunni. Var bankinn því ekki þess umkominn að koma í veg fyrir breytingar á því, ef um annað greiðslufyrirkomulag semdist síðar milli aðila. Veltur svarið við því hvort Anton Ingi hafi verið þess umkominn að breyta greiðslufyrirkomulaginu gagnvart stefnda því ekki á samþykki Íslandsbanka heldur því hvort hann hafði umboð af hálfu stefnanda til þess að breyta greiðslufyrirkomulaginu. Byggir stefndi á því að vald til þess hafi falist í prókúruumboði Antons Inga fyrir stefnanda, en að því verður vikið hér rétt á eftir.

            Í öðru lagi er deilt um það hvort stefndi hafi verið skuldbundinn til að láta greiðslu vegna hlutar framleiðanda í sölu aðgöngumiða til Sólórafs ehf., fyrirtækis föður Antons Inga, renna til stefnanda í samræmi við ákvæði dreifingarsamnings aðila frá 1. mars 2016, þar sem gert er ráð fyrir að nettótekjur af sölu bíómiða skiptist í ákveðnu hlutfalli milli aðila. Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi því sem of seint fram kominni málsástæðu að munnlegt samkomulag hefði tekist með aðilum um að hlutdeild framleiðanda í miðasölu til Sólórafs ehf. skyldi renna til einkahlutafélags Antons Inga, Virgo Films ehf., í stað þess að renna til stefnanda. Málsástæðu þessarar, sem byggt var á við munnlegan málflutning af hálfu stefnda, sér greinilega stað í málsatvikalýsingu í greinargerð stefnda þótt hún komi ekki jafn skýrt fram í kafla um málsástæður og lagarök. Telst hún því ekki of seint fram komin. Fyrir dómi staðfestu Anton Ingi og Konstantín að munnlegt samkomulag hefði tekist með aðilum framangreinds efnis. Að meginstefnu til eru munnlegir samningar jafngildir skriflegum samningum í íslenskum rétti og hefur framburði framangreindra vitna ekki verið hnekkt. Verður því lagt til grundvallar að til munnlegs samkomulags hafi stofnast þess efnis sem vitnin báru. Álitaefnið er því sem fyrr hvort Anton Ingi hafi, sem prókúruhafi stefnanda, verið bær til að standa að því samkomulagi með gildum hætti fyrir hönd stefnanda en um það stendur ágreiningur aðila.

            Í prókúruumboði felst, skv. 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð, „vald til fyrir umbjóðanda að annast allt það, er snertir rekstur atvinnu hans, og rita firmað“. Í prókúruumboði felst þannig víðtækt umboð til að standa að löggerningum í nafni umbjóðanda, en það takmarkast þó við löggerninga sem snerta rekstur atvinnu umbjóðandans, eins og að framan greinir, auk þess sem í lokamálslið greinarinnar er tekið fram að prókúruhafi megi ekki selja né veðsetja fasteignir umbjóðanda síns, nema hann hafi til þess beint umboð. Samkvæmt 26. gr. sömu laga má veita prókúru fleiri mönnum en einum, þannig að þeir geti aðeins notað hana í sameiningu (sameiginleg prókúra). 

            Ekki er að sjá af gögnum málsins að ritunarréttur prókúruhafa stefnanda hafi verið takmarkaður við það að fleiri en einn færu með hann í sameiningu, svo sem heimilt hefði verið að ákveða, sbr. 49. gr. laga nr. 138/1994 og 26. gr. laga nr. 42/1903. Í því sambandi verður hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að það leiði af grein 4.1 í samþykktum félagsins að Anton Ingi hafi ekki einn getað skuldbundið félagið á grundvelli prókúru. Samkvæmt nefndri grein samþykktanna þarf samþykki beggja stjórnarmanna til að skuldbinda félagið þegar tveir sitja í stjórn þess, en sú grein verður ekki skilin svo að hún fjalli um prókúruumboð eða takmörkun á því.

            Samkvæmt samþykktum stefnanda er tilgangur félagsins kvikmyndagerð og skyldur rekstur. Á fyrirliggjandi vottorði úr hlutafélagaskrá er starfsemi stefnanda sögð á sviði framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni. Verður ekki annað séð en að gerð dreifingarsamninga um kvikmyndir geti almennt rúmast innan valds prókúruhafa félagsins. Ritaði Anton Ingi einn undir dreifingarsamninginn 1. mars 2016 og er ekki um það deilt að til þess hafi hann haft heimild. Sama á við um yfirlýsingu þá sem Anton Ingi ritaði einn undir fyrir hönd stefnanda, dags. 15. mars 2016, þar sem vísað var til vilyrðis stefnda og kveðið á um að greiðslum sem félaginu kynnu að berast frá stefnda vegna dreifingarréttar að umræddri kvikmynd yrði ráðstafað inn á tiltekinn tékkareikning félagsins í Íslandsbanka.

            Telja verður að það hafi ótvírætt snert nægilega atvinnurekstur stefnanda og rúmast innan prókúruumboðs Antons Inga að breyta tilgreindum greiðslustað og gefa stefnda fyrirmæli, við útgáfu reikninga 3. maí 2016, um að leggja greiðslur vegna sölutryggingar inn á annan bankareikning í eigu stefnanda en tilgreindur var í nefndri yfirlýsingu, dags. 15. mars 2016. Samkvæmt framanrituðu verður að fallast á það með stefnda að hann hafi réttilega innt af hendi greiðslu til stefnanda á 4.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, samkvæmt grein 1.5 í dreifingarsamningnum. Af framangreindu leiðir einnig að hafna verður fjárkröfu stefnanda að því leyti sem hún er byggð á réttarreglum skaðabótaréttar og varðar sömu fjárhæð, enda er ósannað að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við greiðslu þessara reikninga. Í því sambandi skal tekið fram að ekkert kemur fram í yfirlýsingunni, dags. 15. mars 2016, um ástæðu þess greiðslufyrirkomulags sem þar var kveðið á um. Er ósannað að stefndi hafi vitað eða mátt vita að ástæða þess væri sú að stjórnarformaður stefnda hefði gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarskuldar á þar tilgreindum bankareikningi stefnanda. 

            Af framangreindu leiðir að ekki verður fallist á aðalkröfu stefnanda.

            Víkur þá að þeim þætti fjárkröfu stefnanda sem byggður er á miðasölu til Sólórafs ehf. Fyrir dómi greindu vitnin Anton Ingi og Konstantín frá því að faðir Antons Inga hefði viljað styrkja kvikmyndina þar sem styrkur fékkst ekki frá Kvikmyndasjóði Íslands til eftirvinnslu hennar. Ástæða þess að styrkveitingin fór fram í formi miðakaupa félags föðurins, Sólóraf ehf., hafi öðrum þræði verið sú að láta líta út fyrir að meiri aðsókn hefði verið á kvikmyndina til að auðveldara yrði að koma henni á markað erlendis. Báru vitnin um að munnlegt samkomulag hefði tekist milli þeirra af hálfu aðila um að vikið yrði frá gildandi dreifingarsamningi vegna þessarar miðasölu, þannig að hlutur framleiðanda af miðasölunni greiddist til Virgo Films ehf., félags Antons Inga, í stað stefnanda og yrði 85% í stað lægra hlutfalls samkvæmt gildandi dreifingarsamningi. Kvaðst Konstantín hafa talið Anton Inga hafa fulla heimild fyrir hönd stefnanda til að víkja frá dreifingarsamningnum með þessum hætti.

            Ekki er byggt á öðru af hálfu stefnda en að sala 20.000.000 aðgöngumiða til Sólórafs ehf. fyrir 10.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, hafi raunverulega farið fram og verðmæti þannig skipt um hendur. Um var að ræða sölu á aðgangi að höfundaréttarvörðu efni. Samkvæmt gögnum málsins og því sem fram kom við skýrslutökur fyrir dómi var 85% hlutur framleiðanda látinn renna til félags Antons Inga, Virgo Film ehf., en 15% til stefnda. Stefnandi fékk aftur á móti enga greiðslu í sinn hlut vegna viðskiptanna. Því hefur þó ekki verið mótmælt sem fram kemur í stefnu og í samkomulagi milli Antons Inga Sigurðssonar og Ragnars Þórs Jónssonar, dags. 20. janúar 2016, sem þeir staðfestu báðir fyrir dómi, að allur höfundaréttur að kvikmyndinni tilheyrði stefnanda. Í dreifingarsamningi aðila frá 1. mars 2016 kemur jafnframt fram að stefnandi sé framleiðandi kvikmyndarinnar. Hlutlægt séð féll sala aðgöngumiðanna til Sólórafs ehf. undir dreifingarsamninginn og átti stefnandi þar með rétt til hlutdeildar í nettó tekjum af sölunni, í samræmi við ákvæði samningsins, nema honum væri breytt með gildum hætti.

            Í umboði prókúruhafa felst, eins og fyrr sagði, víðtæk heimild til að standa að löggerningum í nafni umbjóðanda, þó þannig að ráðstafanir þurfa að snerta rekstur atvinnu umbjóðandans. Málsvörn stefnda er á því byggð að réttindi stefnanda hafi ekki verið skert þar sem kaup Sólórafs ehf. hefðu ekki átt sér stað nema á þeirri forsendu að hlutur framleiðanda yrði látinn renna til félags Antons Inga í stað stefnanda. Forsvarsmaður Sólórafs ehf., faðir Antons Inga, var að vísu ekki leiddur fyrir dóminn sem vitni, en jafnvel þótt framangreind staðhæfing stefnda yrði lögð til grundvallar haggar það ekki því að hlutlægt séð fólust viðskiptin við Sólóraf ehf. í sölu aðgöngumiða að kvikmynd sem stefnandi var framleiðandi að og átti allan höfundarétt að. Verður ekki séð að það geti með réttu talist hafa rúmast innan prókúruumboðs Antons Inga að ráðstafa fjárhagslegum hagsmunum stefnanda af sölu höfundaréttarvarins efnis til félags í sinni eigu, jafnvel þótt tilgangurinn hafi öðrum þræði verið sá að auka möguleika á markaðssetningu kvikmyndarinnar á erlendum markaði.

            Stefnda var fullkunnugt um að stefnandi var framleiðandi kvikmyndarinnar, enda samdi stefndi við stefnanda um dreifingarrétt að henni fyrr sama ár. Að framanrituðu virtu þykir stefndi verða að bera hallann af því að ósannað er að framangreind ráðstöfun hafi rúmast innan prókúruumboðs Antons Inga. Verður því að hafna sýknukröfu stefnda.

            Varakrafa stefnda um lækkun á kröfu stefnanda er byggð á því að virða beri sem innborgun greiðslu hans á 4.030.000 krónum inn á bankareikning stefnanda 24. febrúar 2017. Stefnandi hefur ekki mótmælt því, heldur þvert á móti byggt á því að sú greiðsla hafi falið í sér innborgun stefnda inn á skuld vegna dreifingarsamnings aðila og tekur þrautavarakrafa stefnanda mið af þessari innborgun. Virðist þannig ágreiningslaust að virða megi téða millifærslu sem greiðslu stefnda, enda þótt hún hafi að vísu borist stefnanda frá öðru félagi, Senu heildverslun ehf., eins og fram kemur á reikningsyfirliti. Af öllu framanrituðu leiðir að þrautavarakrafa stefnanda verður tekin til greina og verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 3.658.000 krónur, með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi eins og krafist er, en dráttarvaxtakröfu hefur ekki verið sérstaklega mótmælt. 

            Eftir úrslitum málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að gera stefnda að greiða hluta málskostnaðar stefnanda með fjárhæð sem þykir hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

            Stefndi, Sena ehf., greiði stefnanda, Virgo 2 ehf., 3.658.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. september 2017 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                 Hildur Briem