• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2019 í máli nr. S-83/2019:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Jónas Jóhannsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 25. febrúar sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 5. febrúar 2019 á hendur ákærða; „X, kt. […], […], […], fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot:

 

I.

Líkamsárás með því að hafa, á tímabilinu frá laugardeginum 10. júní til sunnudagsins 11. júní 2017, á sameiginlegu heimili að […] í […], veist með ofbeldi í þremur atlögum að þáverandi sambýliskonu sinni, A, slegið hana ítrekað í höfuð með opnum lófa, ýtt henni í gólfið og slegið hana í lærið, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á hægra auga, yfirborðsáverka á hálsi og mjóbaksverk.

[…]

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 217. gr. sömu laga.

II.

Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 1. júlí 2017, ekið bifreiðinni […] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 0,5‰) um Hverfisgötu í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Frakkastíg.

[…]

 

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

Í málinu gerir A, kt. […], kröfu um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. júní 2017 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt ákærða en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða þóknunar sér til handa.

 

II

Við þingfestingu málsins var af hálfu ákæruvalds fallið frá þeim hluta ákærunnar að ákærði hafi slegið brotaþola í lærið. Játaði ákærði þá háttsemi sem lýst er í ákærunni þannig breyttri. Farið var með mál þetta samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu en ákæranda og verjanda ákærða var gefinn kostur á að tjá sig sérstaklega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Játning hans er í samræmi við önnur gögn málsins. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

III

Ákærði er er fæddur árið […]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki áður verið dæmdur til refsingar. Brot gegn 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar fangelsi allt að 6 árum. Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til skýlausrar játningar hans. Einnig er, til refsiþyngingar, litið til alvarleika brotsins, afleiðinga og þess að ákærði veittist þrisvar að brotaþola, sem þá var sambýliskona hans, á innan við sólarhring. Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvo mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Í málinu hefur verið lögð fram bótakrafa af hálfu brotaþola. Ákærði féllst á bótaskyldu en krafðist þess að krafan yrði lækkuð. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir líkamsárásir og á brotaþoli í samræmi við það rétt á miskabótum, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja þær hæfilega ákveðnar, með hliðsjón af atvikum og afleiðingum brotsins, 250.000 krónur. Miskabótakrafan ber vexti eins og í dómsorði greinir. Ákærða var fyrst birt bótakrafan við þingfestingu málsins 25. febrúar sl. Í ljósi þess þykir rétt að dæmdar miskabætur beri fyrst dráttarvexti frá 25. mars 2019, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Þá ber ákærða, með vísan til 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Jónasar Jóhannssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 130.000 krónur. Einnig greiði ákærði þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns 200.000 krónur. Hefur í báðum tilvikum verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts. Loks greiði ákærði annan sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti ákæruvalds, 24.255 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvo mánuði frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði A 250.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júní 2017 til 25. mars 2019 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins 354.255 krónur þar með talin þóknun skipaðs verjanda síns, Jónasar Jóhannssonar lögmanns, 130.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns 200.000 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir