• Lykilorð:
  • Hraðakstur
  • Svipting ökuréttar
  • Ölvunarakstur

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. desember 2018 í máli nr. S-119/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Lúðvík Helga Sigurðarsyni

(enginn)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra útgefinni 7. nóvember 2018, á hendur Lúðvík Helga Sigurðarsyni, fæddum […], til heimils að […], […], með dvalarstað að […],[…] , „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 18. september 2018, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti ævilangt vestur Norðurlandsveg við Skeljungshöfða í Akrahreppi með 113 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klst. óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls.

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

II

       Ákærði sótti ekki þing þegar málið var þingfest 11. þessa mánaðar. Málið er því dæmt með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda er þess getið í fyrirkalli sem birt var á lögmætan hátt 5. desember sl. að svo mætti fara með málið.

       Þar sem ákærði hefur ekki látið málið til sín taka verður með vísan til þess sem að framan er rakið að líta svo á að hann viðurkenni háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök og telst sekt hans nægilega sönnuð enda er ákæran í samræmi við gögn málsins og brot hans þar réttilega fært til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í ágúst árið […]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði á hann nokkurn sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2004, í flestum tilvikum vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni. Þar af hafa fjórir dómar og ein sátt hjá lögreglustjóra áhrif við ákvörðun refsingar í þessu máli. Ákærði var með dómi 10. júní 2008 dæmdur til greiðslu 160.000 króna sektar og sviptur ökurétti í tólf mánuði vegna fíkniefnaaksturs og brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hann gekkst undir 200.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 24 mánuði vegna fíkniefnaaksturs með sátt hjá lögreglustjóra 6. ágúst 2011. Hann var með dómi 21. mars 2012 dæmdur til greiðslu 160.000 króna sektar og sviptur ökurétti í tólf mánuði vegna ölvunaraksturs, aksturs án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt og fíkniefnaaksturs, en um var að ræða hegningarauka. Þá var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt með dómi 18. desember 2012, fyrir að hafa í tvígang ekið undir áhrifum fíkniefna, í bæði skiptin sviptur ökurétti og að hafa í annað þeirra skipta neitað að veita lögreglu atbeina sinn við rannsókn máls eftir að hafa verið handtekinn og haft í vörslum sínum fíkniefni. Hluta þeirra brota sem ákærði var sakfelldur fyrir með þeim dómi framdi hann 1. janúar það ár, eða fyrir uppkvaðningu dómsins 21. mars sama ár og var ákærða að því leyti gerður hegningarauki. Önnur brot ákærða sem hann var sakfelldur með dóminum 18. desember 2012 framdi hann 1. júní það ár, en meðal þeirra brota voru akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur sviptur ökurétti. Loks var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi 23. október 2014 fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökurétti.

Samkvæmt framanrituðu er ákærði nú sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti þriðja sinni og fyrir ölvunar eða fíkniefnaakstur í sjötta sinn þannig að ítrekunaráhrifa gæti milli brota hans. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða í ákæru er ítrekuð ævilöng ökuréttarsvipting ákærða. 

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt framlögðu yfirliti nam sakarkostnaður vegna rannsóknar málsins 161.641 krónum en annar kostnaður féll ekki á málið.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Lúðvík Helgi Sigurðsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ævilöng ökuréttarsvipting ákæra er ítrekuð.

Ákærði greiði 161.641 krónur í sakarkostnað

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson