• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Sekt dæmd og fangelsi sem vararefsing
  • Skilorð
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 11. apríl 2019 í máli nr. S-107/2019:

Ákæruvaldið

(Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Guðmundi Spartakusi Ómarssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 5. apríl 2019, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 21. febrúar 2019 á hendur Guðmundi Spartakusi Ómarssyni, kt. 000000-0000, [...], fyrir eftirfarandi brot framin í Reykjavík aðfaranótt þriðjudagsins 25. september 2018:

 

1.      „Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,79) vestur Fjallkonuveg og suður Gullinbrú þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987

 

2.      Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, er lögregla hafði afskipti af ákærða í framangreint skipti, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hótað lögreglumanninum A lífláti.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“

 

II

Ákærði kom fyrir dóminn, játaði skýlaust sök og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa. Skipaður verjandi hans krafðist hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Játning ákærða fær stoð í gögnum málsins og er ekki ástæða til að draga í efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Með vísan til 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, verður dómur lagður á málið án frekari sönnunarfærslu.

Ákærði er fæddur í [...]. Sakavottorð, sem liggur frammi í málinu, hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans í máli þessu. Við ákvörðun refsingar hans nú þykir rétt að taka tillit til þess að ákærða var ekki gefinn kostur á að ljúka máli samkvæmt 1. tölulið ákærunnar með sektargerð. Í því ljósi ákveðst refsing hans vegna þess brots sekt að fjárhæð 90.000 krónur, og komi átta daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja. Jafnframt verður ákærði sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins að telja. Að því er varðar brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákærunnar ákveðst refsing hans fangelsi í 30 daga, sem bundin skal skilorði svo sem nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er þar um að ræða sakarkostnað lögreglu, 85.984 krónur, og þóknun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, sem ákveðst hæfileg 126.480 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Guðmundur Spartakus Ómarsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 90.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi átta daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún eigi innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, samtals 212.464 krónur, þar af 126.480 krónur í þóknun til skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns. 

 

Ingimundur Einarsson