• Lykilorð:
  • Aðild
  • Samningur
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 15. febrúar 2018 í máli nr. E-1143/2016:

Hjalti Gunnarsson

(Guðmundur B. Ólafsson lögmaður)

gegn

Íshestum ehf.

(Erlendur Halldór Durante lögmaður)

 

            Mál þetta var þingfest 14. desember 2016 og tekið til dóms 1. febrúar sl. Stefnandi er Hjalti Gunnarsson, kt. [...], Kjóastöðum II, Bláskógabyggð, en stefndi er Íshestar ehf., kt. [...], Sörlaskeiði 26, Hafnarfirði.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 14.884.650 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 13.736.250 krónum frá 1. september 2016 til 1. október 2016 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

            Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                                                                        I                                              

            Stefnandi rekur hestaferðaþjónustu að Kjóastöðum II í Bláskógabyggð og í samvinnu við Íshesta ehf. fór stefnandi um 24 ára skeið með ferðamenn í hestaferðir yfir Kjöl og í styttri hestaferðir. Samningur var gerður ár hvert þar sem m.a. var ákveðið hvaða gjald skyldi greiða fyrir hvern ferðamann. Íshestar ehf. seldu ferðirnar, tóku við greiðslu og fluttu fólkið til stefnanda og sóttu það að lokinni ferð. Stefnandi aftur á móti sá um mat, gistingu og hestakost. Viku fyrir ferð fékk stefnandi sendan nafnalista frá Íshestum ehf. og í lok ferðar sendi stefnandi Íshestum ehf. reikning. Að sögn stefnanda gekk samstarfið ávallt hnökralaust þar til nýir eigendur komu að Íshestum ehf. en þá hafi farið að bera á greiðsludrætti. Þann 1. desember 2015 hafi stefnandi og Íshestar ehf. gert samstarfssamning um hestaferðir sumarið 2016 og hvaða gjald skyldi greiða fyrir hvern farþega.

            Reikningar fyrir ferðina voru gefnir út í júlí, ágúst og september 2016 og voru stílaðir á stefnda sem þá var kominn með nýja kennitölu. Stefndi greiddi tvo reikninga 19. september 2016 en fjórir reikningar, sem nema stefnufjárhæð, voru ekki greiddir. Stefndi svaraði ekki innheimtubréfum 25. október 2016 og 14. nóvember 2016.

             Stefndi byggir aðallega á því að sýkna beri hann vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Hið stefnda félag, með sama nafni en nýja kennitölu, [...], sé ekki aðili að þeim samningi sem stefnandi hafi gert við hið eldra félag sem hafi haft kennitöluna [...].

            Samkvæmt gögnum málsins var ákveðið 30. júní 2016 á hluthafafundi í Íshestum ehf., kt. [...], að breyta nafni félagsins í ÍH ehf. Á hluthafafundi í AB 510 ehf., kt. [...], þann 20. júní 2016, var ákveðið að breyta nafni þess félags í Íshesta ehf. og jafnframt var tilgangi félagsins breytt. Loks gerðist það 20. júní 2016 að með kaupsamningi keyptu hinir nýju Íshestar ehf. með kennitöluna [...] félagið ÍH ehf., kt. [...], (áður Íshestar ehf.). Samkvæmt framansögðu breyttu Íshestar ehf. um kennitölu 20. júní 2016 og starfa nú undir kennitölunni [...]. Í málinu er þeim lögaðila stefnt.

            Í kaupsamningi Íshesta ehf., kt. [...], og ÍH ehf., kt. [...], kemur m.a. fram að öll hross í eigu seljanda fylgi kaupunum og allt lausafé og allar birgðir í eigu seljanda. Í grein 2.2.3 í kaupsamningi segir að einnig fylgi: „Allar ferðir og öll seld þjónusta sem seljandi vinnur að hér á landi og tilheyra rekstri seljanda og þær pantanir sem seljandi hefur móttekið um ferðir fyrir afhendingardag sem verða inntar af hendi eftir afhendingardag (hér eftir „framseld verk“). Lista yfir helstu framseld verk er að finna í viðauka 3 við samning þennan, en ekki er endilega um tæmandi talningu að ræða. Þá sammælast aðilar um að framseld verk séu yfirtekin miðað við stöðu á afhendingardegi. Af þessu leiðir að allar tekjur og allur kostnaður vegna framseldra verka sem fellur til eftir afhendingardag tilheyrir kaupanda. Á afhendingardegi fer fram uppgjör vegna framseldra verka og skal seljandi þá láta kaupanda í té staðfest yfirlit ásamt upplýsingum úr fjárhagsbókhaldi um tekjur og kostnað vegna framseldra verka sem tilheyra rekstri seljanda.“

            Rétt er að taka fram að viðauki 3 hefur ekki verið lagður fram í málinu og hann er heldur ekki að finna í kaupsamningi þeim sem stefndi afhenti dómara í trúnaði samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991.

            Aðilar kaupsamningsins gerðu með sér viðauka 10 þann 7. nóvember 2016. Í honum segir m.a. að aðilar staðfesti með undirritun sinni á viðaukann að afhending hins selda hafi ekki farið fram að öllu leyti á afhendingardegi samkvæmt kaupsamningnum vegna hindrana, sem leiði m.a. af eðli hins selda, og erfiðleika seljanda við að afhenda hið selda. Af þeim sökum hafi seljandi haldið áfram rekstri sem tengist hinu selda frá afhendingardegi kaupsamningsins og reksturinn verið í nafni seljanda. Frá undirritun kaupsamningsins hafi hins vegar staðið yfir stöðug vinna við að reyna að afhenda hið selda til kaupanda í samræmi við skilmála kaupsamningsins. Framsal hins selda hafi loksins tekist og hafi kaupandi tekið við rekstrinum að öllu leyti.

            Meðal gagna málsins eru ennfremur tölvubréfasamskipti stefnanda og Skarphéðins Bergs Steinarssonar, framkvæmdastjóra stefnda, sem fram fóru í september og október 2016. Þann 15. september 2016 tilkynnti stefnandi Skarphéðni uppsögn stefnanda á samningi aðila vegna þess að gestum hefði fækkað ár frá ári. Skarphéðinn svaraði samdægurs og kvaðst skilja afstöðu stefnanda en minnti á að nokkrar ferðir væru ráðgerðar um haustið. Stefnandi svaraði 19. september 2016 og sagði að að sjálfsögðu yrði staðið við gerða samninga út starfsárið svo fremi sem þrír reikningar, sem komnir væru á eindaga 30. ágúst 2016, yrðu greiddir. Skarphéðinn svaraði samdægurs að hér hlyti að vera einhver misskilningur á ferðinni því að stefnda hefðu ekki borist reikningar frá stefnanda með eindaga 30. ágúst. Stefnda hafi borist tveir reikningar frá stefnanda með eindaga 16. ágúst og hafi þeir verið greiddir. Með tölvubréfi 4. október 2016 svaraði stefnandi að ekki hafi borist greiðsla vegna ferða í júlí og byrjun ágúst. Stofnuð hafi verið krafa í heimabanka 16. ágúst 2016 með eindaga 30. ágúst 2016. Skarphéðinn svaraði daginn eftir og sagði að um þessar mundir ætti sér stað heildarendurskoðun á stöðu stefnda. Á meðan þessi endurskoðun stæði yfir gæti félagið ekki greitt fyrirliggjandi reikninga.

            Framangreind tölvubréfasamskipti stefnanda og framkvæmdastjóra stefnda voru lögð fram við aðalmeðferð málsins en send lögmanni stefnda og dómara daginn áður. Við aðalmeðferð var bókað eftir lögmanni stefnda að framlagningin væri of seint fram komin og að það sem fram kæmi í gagninu væri rangt og óstaðfest. Dómari leyfði framlagninguna og stefnandi gaf skýrslu fyrir dómnum, þ. á m. um efni skjalsins.

            Þá er einnig meðal gagna málsins tölvubréfi stefnda til stefnanda 27. júní 2016 þar sem stefndi sendir stefnanda lista með nöfnum gesta í ferð á Kjöl 2. og 9. júlí 2016.

II

Kröfu sína um greiðslu framlagðra reikninga styður stefnandi við meginreglu kröfuréttar, samningalög nr. 7/1936 og lög um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfu sína um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir á því að krafa stefnanda grundvallist á reikningum sem gefnir hafi verið út á félagið ÍH ehf. á grundvelli samningssambands þess félags og stefnanda samkvæmt samningi þeirra og áralöngu samstarfi þeirra á milli samkvæmt frásögn stefnanda. Þegar til þessa samningssambands var stofnað hafi hið stefnda félag ekki verið til að lögum. Það sé í raun augljóst með hliðsjón af þessari málflutningsyfirlýsingu stefnanda að hann hafi beint kröfum sínum að röngum lögaðila og sé hann bundinn af þeirri yfirlýsingu, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Hið stefnda félag hafi ekki staðið að hestaferðum í samstarfi við stefnanda, hvað þá á grundvelli samnings sem undirritaður var af hálfu þriðja aðila mánuðum áður en stefndi varð félag að lögum. Fullyrðingar þess efnis að slíkt samstarf hafi staðið milli þeirra um árabil sæti því nokkurri furðu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á með neinum hætti að stofnast hafi réttarsamband milli hans og hins stefnda félags vegna þeirrar kröfu sem stefnandi hafi uppi í málinu. Fullyrðing stefnanda um að hið stefnda félag sé viðsemjandi hans sé engum haldbærum gögnum studd.

Efnislega feli kröfugerð stefnanda í sér meiriháttar frávik frá meginreglum íslensks kröfuréttar þar sem þess er krafist af dómstóli að samþykkja einhliða skuldaraskipti meints kröfuhafa að frjálsu vali hins síðarnefnda. Sé þetta í ofanálag gert án þess að stefnandi geri grein fyrir réttargrundvelli slíkrar kröfugerðar.

Þessu öllu til viðbótar sé ljóst að kröfur stefnanda byggist ekki á haldbærum gögnum. Nánar tiltekið séu lagðir fram óskýrir og óljósir reikningar sem ekki séu studdir neinum undirgögnum. Þannig sé ekki nokkur leið fyrir hið stefnda félag, sem ekki hafi átt í nokkrum samskiptum eða samstarfi við stefnanda vegna meintra hestaferða, að staðreyna að farið hafi verið í umræddar ferðir og að umræddir reikningar endurspegli meint gjald sem eigi að inna af hendi í því sambandi.

Þegar framanritað sé virt sé hvorki unnt að líta svo á að stefnandi hafi sannað aðild stefnda að meintri kröfu sinni, né tilvist hennar. Verði því þegar af þessari ástæðu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Verði einhverra hluta vegna fallist á að stefnandi hafi farið í ferð á vegum stefnda og að stefnda beri að standa honum skil á greiðslu vegna slíkra ferða, gerir stefndi kröfu um að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í því sambandi áréttar stefndi að engin undirgögn liggi fyrir framlögðum reikningum til fyllingar. Þá sé með öllu óljóst hvaða þjónustu stefnandi hafi innt af hendi og hvernig verð fyrir hana sé ákvarðað. Í raun geti stefndi ekki ráðið af gögnum málsins hvenær umræddar ferðir hafi verið farnar, hvers eðlis þær voru, hversu margir þátttakendur voru í hverri ferð, hvað þær stóðu í langan tíma, né heldur hvaða kost þurfti til í hverju tilviki. Þótt stefndi hafi ekki átt nokkra aðkomu að meintum hestaferðum og því þannig óhægt um vik að benda á ágalla reikninganna sé með hliðsjón af öllu framangreindu farið fram á stórfellda lækkun krafnanna sem virðast ekki eiga aðra stoð en í ólæsilegum reikningum útgefnum og útfylltum af stefnanda.

Stefndi reistir kröfur sínar meðal annars á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 16. gr., 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laganna. Þá byggir stefndi kröfur sínar á ákvæðum laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 eftir því sem við á.

Stefndi byggir einnig á meginreglum samningaréttar, kröfuréttar og félagaréttar.

                                                                        III

Stefnandi rekur hestaleigu og ferðaþjónustu tengda henni og um 24 ára skeið fór stefnandi með ferðamenn á vegum Íshesta ehf., sem þá höfðu kennitöluna [...], í hestaferðir. Árlega var gerður samningur um ferðirnar. Samstarf aðila gekk þannig fyrir sig að farþegar pöntuðu og greiddu fyrir ferðirnar hjá Íshestum ehf. sem fluttu farþegana til stefnanda að Kjóastöðum II í Bláskógarbyggð og sóttu þá að lokinni ferð. Stefnandi sá aftur á móti um fæði, gistingu, fararstjórn og hestakost. Í lok ferðar sendi stefnandi Íshestum ehf. reikning samkvæmt samstarfssamningi aðila þar sem kveðið var á um hvað Íshestar ehf. skyldu greiða fyrir hvern farþega. Stefnandi segir að þetta samstarf hafi alla tíð gengið hnökralaust fyrir sig þar til nýir eigendur komu að fyrirtækinu.

Atvik að baki því að Íshestar ehf., kt, [...], tóku upp nýja kennitölu eru rakin hér að framan. Niðurstaða þeirra breytinga á nafni, skráningu og breyttri kennitölu félagsins (með aðkomu AB 510 ehf. og ÍH ehf.)  er sú að gamla félagið Íshestar ehf., kt. [...], var rekið allar götur til 20. júní 2016 en þá tók stefndi, Íshestar ehf., með nýja kennitölu,  [...], við rekstrinum sem nýr lögaðili með kaupum á hinu gamla félagi.

Reikningar stefnanda eru stílaðir á hið nýja félag, stefnda Íshesta ehf., kt. [...]. Á því er byggt af hálfu stefnda að honum sé ranglega stefnt þar sem stefnandi hafi átt viðskipti við hið eldra félag, Íshesta ehf., kt. [...], og því beri að sýkna stefnda á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt samningi Íshesta ehf., kt. [...], um kaup á félaginu ÍH ehf., kt. [...], var allur rekstur hins gamla félags, Íshesta ehf., seldur til hins nýja félags, stefnda í málinu, þann 20. júní 2016. Tekið er fram í kaupsamningi, gr. 2.2.3, að meðfylgjandi sölunni séu allar ferðir og öll seld þjónusta sem stefndi vinni að hér á landi og einnig þær ferðir sem hafi verið pantaðar fyrir afhendingu en verði inntar af hendi eftir afhendingardag. Þá segir ennfremur í gr. 2.2.3 að allar tekjur og allur kostnaður vegna framseldra verka, sem falli til eftir afhendingardag, tilheyri kaupanda. Þetta ákvæði kaupsamningsins verður ekki skilið á annan hátt en þann að stefndi hafi yfirtekið kostnað vegna umdeildra hestaferða, hvort sem þær voru pantaðar eða farnar fyrir eða eftir afhendingardag 20. júní 2017. Líta verður svo á að með þessum ákvæðum kaupsamningsins hafi stefndi orðið skuldbundinn gagnvart stefnanda.

Önnur gögn málsins styðja einnig þessa niðurstöðu því að starfsmenn stefnda virðast hafa litið svo á að túlka bæri kaupsamninginn með þessum hætti. Þannig greiddi stefndi tvo reikninga stefnanda í september 2016, stefndi sendi nafnalista til stefnanda 27. júní 2016 vegna ferða sem farnar voru 2. og 9. júlí 2016 og tölvubréfasamskipti framkvæmdastjóra stefnda og stefnanda, sem rakin eru hér að framan, benda einnig til þess að framkvæmdastjórinn hafi litið svo á að stefndi væri skuldbundinn stefnanda vegna umræddra hestaferða sumarið og haustið 2016. Afturvirkur viðaukasamningur við kaupsamning stefnda og ÍH ehf., sem gerður var 7. nóvember 2016 og stefndi byggir á, hefur ekki þýðingu gagnvart stefnanda sem leysti sína þjónustu af hendi fyrir þann tíma.

Þegar allt framangreint er virt verður stefndi talinn réttur aðili málsins.

Íshestar ehf., kt. [...], og stefnandi gerðu árlega með sér samstarfssamning og í samningi 1. desember 2015, sem gilda átti fyrir sumarið 2016, kemur fram að Íshestar ehf., kt. [...], skuli greiða stefnanda 166.500 krónur fyrir hvern farþega í sex daga Kjalarferðir, 83.250 krónur fyrir þriggja daga sveitarævintýri og 52.200 krónur fyrir Norðurljósaferðir. Reikningar stefnanda eru samkvæmt þessari verðskrá og jafnframt tilgreindur fjöldi farþega. Krafa stefnanda er því skýr og ekki þörf fyrir undirgögn til stuðnings kröfunni. Krafa stefnda um lækkum á kröfu stefnanda verður því ekki tekin til greina.

Niðurstaða málsins er því sú að kröfur stefnanda verða að öllu leyti teknar til greina. Eftir þeirri niðurstöðu verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um greiðslu virðisaukaskatts.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð

            Stefndi, Íshestar ehf., greiði stefnanda, Hjalta Gunnarssyni, 14.884.650 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 13.736.250 krónum frá 1. september 2016 til 1. október 2016 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags og 850.000 krónur í málskostnað.

 

Gunnar Aðalsteinsson