• Lykilorð:
  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 5. júlí 2018 í máli nr. S-121/2018:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní sl., var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 8. mars 2018 „á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir kynferðislega áreitni og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 9. apríl 2016 inni á skemmtistaðnum [...] við [...] í [...], ítrekað káfað og klipið í rass A, í eitt skipti káfað á beru baki hennar og fært hendurnar inn á maga hennar innanklæða og viðhaft kynferðisleg ummæli um útlit hennar.

 

            Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.500.000.- kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. apríl 2016 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

 

            Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa sem öll verði skilorðsbundin. Jafnframt krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Málsatvik

            Miðvikudaginn 15. júní 2016 kom móðir brotaþola á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna kynferðislegrar áreitni gagnvart dóttur hennar. Hún skýrði frá því að brotaþoli hefði farið á árshátíð með vinnustað sínum, en daginn eftir hefði hún fengið smáskilaboð frá henni um það sem hefði gerst á árshátíðinni, þar sem brotaþoli hefði ekki treyst sér til að segja henni það. Hún hefði sagt frá því að ákærði, sem væri yfirmaður hennar og rekstrarstjóri á vinnustaðnum, hefði allt kvöldið verið að koma til hennar og slá og klípa í rassinn á henni. Þá hefði hann kallað yfir alla hvað hún væri „ógeðslega hot“ og síðar um kvöldið farið inn undir kjólinn hennar, sem hefði verið opinn í bakið, og niður á rassinn. Brotaþoli hefði hringt í kærastann sinn og beðið hann að sækja sig. Þegar kærastinn hefði komið hefði ákærði komið til hans og spurt hann hvort hann væri kærasti brotaþola. Svo hefði hann sagt honum að hann væri „ógeðslega heppinn“ því hún væri „geðveikt hot“ eða eitthvað í þá veruna. Hún hefði rætt þetta við vinnuveitendur brotaþola sem hefðu lofað að skoða málið. Brotaþoli hefði verið færð til og svo hefði hún hætt störfum þarna. Hún hefði átt erfitt með þessa reynslu og rætt hana við sálfræðing, en hún hefði verið hjá sálfræðingi áður vegna þunglyndis og kvíða og þetta hefði aukið það.

            Sama dag gaf brotaþoli skýrslu hjá lögreglu. Þar greindi hún frá því að þann 9. apríl 2015 hefði hún farið á árshátíð með vinnustaðnum. Hún hefði tekið sig til fyrir kvöldið með vinkonum sínum. Ein vinkvenna hennar hefði þá sagt að ákærði hefði hringt á vinnustaðinn daginn áður og spurt hvernig gengi. Síðan hefði hann farið að spyrja um fötin sem hún ætlaði að klæðast á árshátíðinni og hvort hún ætlaði að vera í einhverju sexý og svo sagt að hún væri alltaf svo sexý. Hún hefði átt erfitt með að trúa þessu því henni hefði alltaf fundist ákærði vera svo góður yfirmaður. Hann hefði oft hrósað henni en hún hefði aldrei tekið því sem einhverju kynferðislegu. Hún hefði síðar frétt að hann ætti við áfengisvandamál að stríða og þetta gerðist þegar hann væri undir áhrifum áfengis. Hún hefði sjálf verið lítillega undir áhrifum áfengis þetta kvöld en ákærði hefði verið mjög drukkinn. Hún hefði lítið séð ákærða á árshátíðinni sjálfri, en á eftir hefði verið farið á skemmtistað. Þar hefði hann strax farið að fikta í rassinum á henni, vera fyrir aftan hana, slá hana og klípa fast. Þetta hefði gerst í fimm til tíu skipti. Henni hefði fundist þetta óþægilegt og ekki skilið þetta. Þegar hefði farið að líða á kvöldið hefði hún tekið eftir því að fleiri stelpur voru að ræða það að ákærði væri utan í þeim. Síðan hefði það gerst, þar sem hún hefði staðið úti á svölum, að hann hefði farið með hendurnar inn á bakið á henni og snert á henni magann. Hún hefði verið í kjól sem væri opinn í bakið og hann hefði sagt eitthvað eins og „o þú ert svo ber“. Ákærði hefði sagt, þegar hann hefði verið spurður um þetta, að hann hefði verið að kitla hana en það hefði ekki verið svo enda þyrfti ekki að fara inn á kjólinn til þess. Í annað skipti hefði hún verið að spjalla við vini sína þegar einhver hefði sagt að hún væri svo flott. Þá hefði hann komið utan í hana og öskrað að hún væri svo „ógeðslega hot“ og klipið hana með báðum höndum í rassinn. Hann hefði komið mjög nálægt henni og hún hefði næstum því farið að gráta. Vinnuveitendur þeirra hefðu verið viðstaddir þetta. Hún hefði reynt að halda sig frá ákærða, en hann hefði alltaf verið í nágrenni við hana. Hann hefði líka ítrekað komið að henni og sagt að hún væri svo heit og sexý eða eitthvað þannig. Henni hefði liðið mjög illa meðan á þessu hefði staðið en ekki sagt neitt. Síðan hefði kærastinn hennar komið. Hún hefði sagt honum frá atvikum kvöldsins. Hann hefði svo spurt hana hvort þetta hefði verið ákærði og sagt að hann hefði gengið til sín og spurt hvort hún væri kærastan hans og sagt að hann væri svo heppinn því hún væri „ógeðslega sæt“ og fleira í þeim dúr. Hún hefði þá ákveðið að fara af staðnum. Hún hefði rætt við vinnuveitendur sína og fengið að mæta á hina starfsstöðina vegna þess að hún hefði ekki viljað mæta á staðinn þar sem ákærði var rekstrarstjóri. Ákærði hefði sent henni smáskilaboð með afsökunarbeiðni tveimur dögum síðar. Henni hefði liðið mjög illa frá því að þetta hefði átt sér stað.

            Meðal gagna málsins er að finna smáskilaboð sem ákærði sendi brotaþola 11. apríl 2016 þar sem hann biðst afsökunar á því sem kom fyrir. Þá segir: „Þetta átti að vera smá grín en sé núna að það var viðbjóður af minni hálfu vona að þú finnir það í þér að fyrirgefa mér.“

            Í málinu liggur fyrir vottorð B sálfræðings, frá 26. september 2016, vegna fjögurra viðtala við brotaþola á tímabilinu 12. maí til 15. september 2016. Brotaþola hefði verið mjög brugðið og hún hefði tárast þegar hún hefði greint frá atvikum. Hún hefði lýst kvíða, því að hún væri mjög vör um sig og hræddist að verða á vegi ákærða. Hún ætti í erfiðleikum með að treysta öðrum eftir þetta. Brotaþoli hefði lagt verulega af en það væri þekkt einkenni kvíða og slakrar sjálfsmyndar hjá ungum stúlkum eftir áföll.

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

            Ákærði neitar sök. Hann kvaðst ekki hafa rætt við brotaþola fyrri hluta kvöldsins en eftir að þau hefðu komið á skemmtistaðinn hefðu starfsmennirnir farið í ratleik og þau hefðu verið saman í liði. Rétt eftir það hefði hann farið aftan að henni, þar sem hún hefði staðið með vinkonum sínum inni í vip-herbergi, og kitlað hana á hliðunum, en þar hefði kjóllinn hennar verið opinn. Brotaþoli hefði tekið því illa og þau hefðu engin samskipti átt eftir það. Þetta hefði verið gert í gríni en hann hefði einfaldlega ætlað að fá hana til að tala við sig. Engar kynferðislegar hvatir hefðu verið á bak við þetta. Ákærði kvaðst hafa verið vel í glasi en hann muni vel eftir öllum atvikum. Hann kvaðst ekki vera „þreifinn“ en hann hefði slegið í rassinn á fólki og það hefði gerst þetta kvöld. Það hefði þó ekki átt við um brotaþola. Hann kvaðst hafa hitt kærasta brotaþola og sagt við hann að hann skyldi passa kærustuna sína því hún væri svo drukkin. Hann hefði ekkert talað um að hún væri sæt. Daginn eftir þetta hefði verið hringt í hann og haft í hótunum við hann. Þess hefði verið krafist að hann skrifaði á facebook að hann væri pervert. Einnig hefði verið hringt í fjölskyldumeðlimi hans. Hann hefði orðið skelkaður og talið það málamiðlun að senda smáskilaboð til brotaþola með afsökunarbeiðni. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því af hverju brotaþoli segði hann hafa gert þetta. Ekki hefðu verið illindi á milli þeirra, en hún hefði hugsanlega frétt af fyrirætlunum um uppsögn hennar. Þau hefðu einungis unnið saman í stuttan tíma en hún hefði einkum unnið á hinni starfsstöðinni. Eftir þetta atvik hefði honum liðið illa í vinnunni og hann hefði á endanum látið af störfum.

            Brotaþoli greindi frá því að um leið og starfsmennirnir hefðu komið á skemmtistaðinn, eftir að hafa verið úti að borða, hefði ákærði farið að vera utan í henni. Hann hefði rassskellt hana, klipið í rassinn á henni og sagt óviðeigandi hluti um útlit hennar eins og að hún væri „sexý“ eða „heit“. Hún hefði verið í kjól með opið bak. Þar sem hún hefði staðið úti á svölum hefði ákærði farið með hendur inn á bakið og þaðan inn á magann. Í annað skipti, þegar kærastinn hennar hefði verið nýkominn, hefði hún verið að tala við vinnuveitendur sína þegar ákærði hefði komið aftan að henni og klipið hana í rassinn með báðum höndum. Hún hefði ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við. Hún hefði því ýmist staðið kyrr eða gengið burt. Þetta hefði gerst í u.þ.b. tíu skipti. Hún hefði jafnframt heyrt fleiri stelpur tala um að hafa lent í honum. Þá hefðu stelpurnar talað um það fyrir kvöldið að þær gætu búist við að lenda í svona. Hún hefði farið fyrr heim með kærastanum vegna þessara atvika. Tveimur dögum síðar hefði hún fengið smáskilaboð frá ákærða. Hún hefði heyrt af hótunum í hans garð og vissi hver hefði staðið að þeim, en það væri ekki á hennar vegum. Henni hefði liðið illa eftir þessi atvik og ekki viljað mæta í vinnuna. Hún hefði rætt þetta við sálfræðinginn sinn og liði mun betur í dag.

            Móðir brotaþola greindi frá því að hún hefði fengið smáskilaboð frá brotaþola eftir árshátíðina, en brotaþoli hefði ekki treyst sér til að tala við hana. Þar hefði hún greint frá því að yfirmaður hennar hefði káfað á henni, sagt kynferðislega hluti við hana og einu sinni farið inn á hana. Brotaþoli hefði verið miður sín og liðið illa. Hún hefði átt bágt með að ræða um atvikin. Hún hefði þó að mestu náð sér í dag.

            Vitnið C er frænka brotaþola og starfaði á sama stað. Hún kvaðst hafa verið á árshátíðinni þetta kvöld. Hún hefði verið ófrísk á þessum tíma og því ekki neytt áfengis. Allt hefði gengið vel fyrir sig á veitingastaðnum og síðan hefði verið farið á skemmtistaðinn. Hún hefði mest setið í sófa og rætt við vini sína. Ákærði hefði verið nokkuð drukkinn. Hún hefði ekki orðið vör við óviðeigandi hegðun hans gagnvart brotaþola, en hefði heyrt frá nokkrum stelpum að hann hefði slegið þær í rassinn. Hann hefði aðeins klipið í hana sjálfa en hætt þegar hún hefði beðið um það. Þegar hún hefði séð brotaþola þetta kvöld hefði hún verið með kærastanum sínum. Hún staðfesti að hafa rætt við brotaþola á facebook um málið. Þá hefði hún rætt það við yfirmann á vinnustaðnum og minnti að hann hefði sagt að rætt hefði verið við ákærða. Hún kvaðst ekki vita hvort fyrrum kærasti hennar hefði hótað ákærða en sagði að það myndi ekki koma sér á óvart.

            Kærasti brotaþola greindi frá því að hann hefði komið á skemmtistaðinn umrætt kvöld eftir að brotaþoli hefði hringt í hann. Þegar hann hefði farið með brotaþola á neðri hæð staðarins hefði hann séð ákærða klípa með báðum höndum í rassinn á henni eða mjaðmir þar sem hún hefði staðið hjá vinnuveitendum sínum. Viðbrögð annarra á staðnum hefðu verið að hlæja en brotaþoli hefði ekkert sagt. Ákærði hefði komið til hans seinna um kvöldið og spurt hann hvort hann væri kærasti brotaþola. Hann hefði svo sagt eitthvað fleira með kynferðislegum undirtón. Brotaþola hefði ekki liðið vel þarna. Henni hefði liðið mjög illa daginn eftir þetta og fundist óþægilegt að fara aftur á vinnustaðinn.

            Vitnið D kvaðst hafa verið á árshátíðinni þetta kvöld. Hún myndi ekki vel eftir kvöldinu þar sem langt væri síðan, en hún myndi eftir að hafa séð ákærða standa fyrir aftan brotaþola. Hún hefði séð hann sýna óviðeigandi hegðun í garð stúlkna þarna með því að slá í rass þeirra. Hún mundi ekki hvort hún hefði séð hann slá í rass brotaþola. Allir hefðu verið mjög drukknir þetta kvöld. Hún hefði rætt um þetta við brotaþola en mundi ekki hvað hefði farið þeim á milli. Vitnið var spurð um skýrslu hennar hjá lögreglu þar sem fram kemur að hún hafi séð ákærða koma aftan að brotaþola, setja hendur sína inn á opið bak hennar og á mjaðmirnar. Hún hefði ekki betur séð en hann hefði fært hendurnar í átt að klofi hennar. Hún kvaðst muna eftir að hafa sagt þetta og hún hefði væntanlega munað atvikið betur við skýrslugjöfina. Spurð hvort ákærði gæti hafa verið að kitla brotaþola kvaðst hún ekki vita það en hún myndi ekki eftir atvikinu í dag.

            Vitnið E, vinnuveitandi ákærða og brotaþola, kvaðst hafa komið seint á árshátíðina og mætt beint á skemmtistaðinn. Hann hefði ekki drukkið mikið áfengi. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neina kynferðislega tilburði gagnvart brotaþola og ekki hafa séð ákærða klípa í rassinn á henni. Hann kvaðst hafa rætt við foreldra hennar en ekki við hana eða ákærða. Hann og ákærði hefðu ákveðið í sameiningu að hann myndi hætta störfum, einkum þar sem ákærði hefði ekki treyst sér til að vinna þarna áfram eftir þetta vegna vanlíðunar.

            Vitnið F, vinnuveitandi ákærða og brotaþola, kvaðst hafa verið á árshátíðinni en hann hefði komið seint. Hann hefði hitt bæði ákærða og brotaþola á sama tíma ásamt fleiri starfsmönnum. Ákærði hefði verið orðinn drukkinn en hann myndi ekki ástand brotaþola. Hann hefði ekki orðið var við samskipti á milli þeirra eða einhverja óviðeigandi háttsemi. Hann kannaðist ekki við að hafa heyrt ákærða segja eitthvað kynferðislegt um brotaþola eða séð hann klípa hana í rassinn. Eftir þetta hefði verið rætt á vinnustaðnum að ákærði hefði drukkið of mikið. Hann hefði rætt við ákærða, sem hefði verið miður sín yfir ásökununum, en samtalið væri ekki minnisstætt. Starfslok ákærða hefðu ekki endilega tengst þessu máli. Það hefðu verið gerðar breytingar innan vinnustaðarins, ákærða hefði ekki liðið vel og kosið að hætta.

            Vitnið G, yfirmaður á vinnustaðnum, kvaðst vera besti vinur og æskufélagi ákærða. Hann kvaðst hafa farið snemma heim þetta kvöld og því ekki hafa verið vitni að atburðum. Hann hefði heyrt ýmsar mismunandi sögur af því sem hefði gerst. Hann hefði ekki rætt við brotaþola sjálfa, bara foreldra hennar, en eitthvað virtist hafa gerst sem henni hefði þótt óþægilegt. Ákærði virtist ekki muna hvað hefði gerst. Vitnið mundi ekki til þess að hafa rætt málið við C en hann hefði gætt þess að ræða þetta ekki mikið við starfsfólkið. Það hefði verið erfitt að taka á málinu þar sem engin vitni hefðu verið að atvikum. Ákærði hefði verið þunglyndur eftir þetta og hætt störfum.

            Vitnið B sálfræðingur staðfesti vottorð sitt vegna brotaþola. Hún kvaðst hafa rætt við hana í nokkur skipti og atvik málsins hefðu u.þ.b. alltaf verið rædd. Þau hefðu fengið mjög á hana. Hún hefði verið kvíðin og hrædd og hefði grátið þegar hún hefði sagt frá þessu. Þetta hefði verið breyting frá því sem áður hefði verið hjá henni. Brotaþoli hefði verið áfram í viðtölum eftir útgáfu vottorðsins og hefði enn þá haft einkenni vegna þessa í síðasta viðtali.

 

Niðurstaða

            Ákærða er gefin að sök kynferðislega áreitni og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa ítrekað káfað og klipið í rass brotaþola, í eitt skipti káfað á beru baki hennar og fært hendurnar inn á maga hennar innanklæða og viðhaft kynferðisleg ummæli um útlit hennar.

            Ákærði neitar sök. Hann kveðst ekki hafa viðhaft framangreinda háttsemi, en hann hafi hins vegar í eitt skipti kitlað brotaþola á hliðunum í gríni. Hann hafi strax hætt þegar hann hafi orðið þess var að henni líkaði þetta ekki. Hann hefur hins vegar viðurkennt að hafa slegið í rassinn á fólki, öðru en brotaþola.

            Brotaþoli greindi hins vegar frá því að ákærði hefði verið utan í henni allt kvöldið, rassskellt hana og klipið í rassinn á henni og sagt óviðeigandi kynferðislega hluti. Þá hefði ákærði einu sinni farið með hendur inn á bakið á henni og þaðan inn á magann.

            Framangreind atvik gerðust á skemmtistað á árshátíð vinnustaðar ákærða og brotaþola. Flestir á staðnum voru undir áhrifum áfengis og svo virðist sem ekki hafi margir orðið varir við samskipti ákærða og brotaþola. Framburður vitna bendir til þess að ákærði hafi verið undir töluverðum áfengisáhrifum en brotaþoli eitthvað minni. Vitnið D greindi frá því að hafa séð ákærða standa aftan við brotaþola og staðfesti að hafa greint rétt frá þegar hún sagði lögreglu að hún hefði séð ákærða setja hendur sínar undir klæði brotaþola. Þá kvaðst kærasti brotaþola hafa séð ákærða klípa hana að aftan með báðum höndum. Hann taldi hana hafa staðið hjá vinnuveitendum sínum, sem hafa staðfest að hafa hitt ákærða og brotaþola á sama tíma þótt þeir hefðu ekki orðið varir við þessa háttsemi.

            Framburður brotaþola hefur verið stöðugur og trúverðugur. Hann fær nokkra stoð í framburði framangreindra vitna. Þá fær hann einnig nokkra stoð í gögnum málsins. Tveimur dögum eftir atvikin sendi ákærði brotaþola smáskilaboð þar sem hann baðst afsökunar og lýsti því að þetta hefði verið „viðbjóður“ af hans hálfu. Framangreind skilaboð benda til þess að hegðun ákærða hafi verið óviðeigandi en hann hefur ekki gefið fullnægjandi skýringar á þessu orðalagi. Þótt ákærði virðist hafa mátt sæta hótunum vegna málsins hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann hafi sjálfur valið þetta orðalag. Jafnframt liggja frammi skilaboð brotaþola til móður hennar og samtal við frænku hennar á facebook sem styðja framburð hennar. Þá hafa vitni borið um slæma líðan brotaþola í kjölfar atvika.

            Með hliðsjón af framangreindu þykir verða að leggja trúverðugan framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu þannig að sannað er að ákærði hafi káfað og klipið í rass brotaþola og í eitt skipti káfað á beru baki hennar og fært hendurnar inn á maga hennar innanklæða. Ekki voru vitni að því að ákærði hefði viðhaft kynferðisleg ummæli um útlit brotaþola við hana og verður hann sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Brotaþoli var [...] ára að aldri þegar brotin voru framin og varða brot ákærða því við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

            Ákærði er fæddur í [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði var í yfirburðastöðu gagnvart brotaþola sem yfirmaður hennar auk þess sem mikill aldursmunur var á þeim. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Fyrir hönd brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur. Brotaþoli á rétt á miskabótum með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot ákærða voru til þess fallin að valda brotaþola andlegri vanlíðan. Fyrir liggja sálfræðigögn og framburður vitna um áhrif brotsins á brotaþola. Með hliðsjón af þessu þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 1.054.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 420.050 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ákærði 15.000 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði A 500.000 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. apríl 2016 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá 22. september 2016 til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 1.054.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 420.050 krónur, og 15.000 krónur í annan sakarkostnað.