• Lykilorð:
  • Fésekt
  • Ítrekun
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Svipting ökuréttar
  • Skilorð

            Ár 2019, fimmtudaginn 10. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-55/2018:

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Elimar Hauksson fulltrúi)

                                                gegn

                                                Jóni Einari R. Christensen

                                                (Ómar R. Valdimarsson lögmaður) og

                                                Vilhjálmi Sigdórssyni

                                                (Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

kveðinn upp svohljóðandi

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var þann 26. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 26. febrúar 2018 á hendur ákærðu, Jóni Einari R. Christensen og Vilhjálmi Sigdórssyni,

 

I.        gegn ákærðu Jóni Einari og Vilhjálmi fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 23. september 2017, utandyra fyrir framan skemmtistaðinn […] á Selfossi, í sameiningu veist að A, ákærði Jón Einar með því að slá hann hnefahögg í andlit þannig að A féll í jörðina og ákærði Vilhjálmur með því að hafa örskömmu síðar slegið A, sem þá hafði staðið upp og gengið nokkur skref og stóð þá utandyra fyrir framan […] Selfossi, hnefahögg í andlit þannig að A féll í jörðina; allt framangreint með þeim afleiðingum að A hlaut eymsli í andliti, höfuðverk, skrámur aftan á höfði og á hægri olnboga og brot á fimm tönnum. (318-2017-10971)

 

Telst brot ákærðu varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

II.         gegn ákærða Jóni Einari fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 12. nóvember 2017, ekið bifreiðinni […] suður Hrísmýri á Selfossi,  undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,04‰) og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns, kókaíns og tetrahýdrókannabínólsýru. (318-2017-12652)

 

            Teljast (svo) brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

III.       gegn ákærða Jóni Einari fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að morgni mánudagsins 15. janúar 2018, ekið bifreiðinni […] um Kirkjuveg og Þóristún á Selfossi,  óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru. (318-2018-463)

 

            Telst brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærða Jóni Einari R. Christensen verði gert að sæta sviptingu ökuréttar frá 15.01.2018 að telja, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum.

 

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir Óskar Sigurðsson hrl. kröfu vegna ákæruliðar I. fyrir hönd brotaþola A, um að ákærðu verði með dómi gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 1.341.400,- auk vaxta af kr. 800.000 skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 23. september 2017 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var kynnt sakborningum, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, af kr. 1.241.400 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar fyrir héraðsdómi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun komi til flutnings málsins þar.“

           

 

            Við þingfestingu málsins neituðu ákærðu báðir sök í ákærulið I og höfnuðu framkominni bótakröfu. Ákærði Jón Einar játaði sök í ákæruliðum II og III og vísast um málavexti til ákæru að því er þá ákæruliði varðar.

            Ákærðu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákærulið I en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefjast þeir þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að þeir verði sýknaður af henni og til þrautavara að hún verði lækkuð verulega. Ákærði Jón Einar krefst vægustu refsingar sem lög leyfa vegna ákæruliða II og III.

 

Málavextir.

 

 Laugardaginn 23. september 2017 kl. 02:40 barst lögreglu tilkynning um slagsmál við skemmtistaðinn […] Selfossi. Er lögregla kom á vettvang var A, brotaþoli í máli þessu, liggjandi rænulítill við innganginn að […], sunnan við skemmtistaðinn. Í samtali við lögreglu á vettvangi skýrði dyravörðurinn B svo frá að brotaþoli hafi slegið til ákærða Vilhjálms innandyra við barinn. Hafi brotaþola verið vísað út af staðnum í kjölfarið. Hafi ákærði Jón Einar slegið til brotaþola fyrir utan […] með þeim afleiðingum að brotaþoli féll í götuna. Hafi ákærði Jón Einar gengið í burtu og brotaþoli staðið upp og gengið að innganginum að […] og lagst þar niður. Að sögn B hafi ákærði Vilhjálmur strunsað að brotaþola og sparkað í höfuð hans. Lögreglan ræddi einnig við starfsmann á barnum, C og kvað hún brotaþola og ákærða Vilhjálm hafa staðið við enda barsins og hafi brotaþoli keypt einn bjór en ákærði Vilhjálmur fimm. Hafi brotaþoli slegið til ákærða Vilhjálms sem hafi dottið á gólfið. Hafi þeim verið vísað út í kjölfarið.

Brotaþoli var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til skoðunar og í vottorði D læknanema, dags. 7. nóvember 2017, segir að hann hafi verið með skrámur aftan á höfði og á hægri olnboga. Brotið hafi verið upp úr báðum framtönnum, þær hafi þó ekki verið lausar. Fram kemur í vottorði E tannlæknis dags. 19. október 2017 að glerungs- eða tannbeinsbrot hefðu fundist í fimm tönnum brotaþola, eða tönnum nr. 11, 21, 22, 32 og 31. Hafi tennur verið viðgerðar með plastfyllingarefni en eftir eigi að koma í ljós hvort þurfi að rótfylla vegna tanntaugadauða. Engar brotlínur hafi verið að sjá, allar tennur liggi á sínum stað.

                       

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             

            Ákærði Jón Einar skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið inni á skemmtistaðnum og heyrt að búið væri að kýla meðákærða Vilhjálm. Hann kvaðst hafa farið út og rætt við brotaþola rétt fyrir utan skemmtistaðinn. Brotaþoli hafi slegið til ákærða og hafi ákærði þá slegið til baka. Hann hafi ekki slegið með krepptum hnefa, heldur gefið honum harðan löðrung með opnum lófa og hafi höggið lent á kinn brotaþola sem hafi fallið í jörðina og kvaðst ákærði hafa hjálpað honum upp. Ákærði kvaðst hafa farið inn, sótt jakkann sinn og síðan farið heim til vinar síns í þann mund er lögreglan hafi komið á vettvang. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við að meðákærði hefði slegið brotaþola. Ákærði kvaðst ekki hafa verið teljandi ölvaður, hann hafi verið búinn að drekka þrjá til fjóra bjóra á fjórum til fimm tímum. Hann kvað brotaþola hafa verið ógnandi þarna á staðnum og hefði ástand hans verið hræðilegt.

            Ákærði Vilhjálmur skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi staðið við barinn þegar brotaþoli hafi komið að með leiðindi og hafi hann slegið ákærða í höfuðið og ráðist á hann. Ákærði kvaðst hafa dottið og hafi þeim verið stíað í sundur og brotaþoli leiddur út. Hann kvaðst eftir smá tíma hafa farið út, gengið að brotaþola og byrja að hreyta í hann, öskra á hann og spyrja af hverju hann hafi verið að þessu. Hann kvaðst hafa ýtt með báðum höndum í bringuna á brotaþola sem hafi stigið aftur á bak en hann hafi ekki dottið. Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á brotaþola. Lögreglan hafi skömmu síðar komið og sett ákærða inn í lögreglubifreið.  Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis en hann kvaðst muna vel eftir atvikum. Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða slá brotaþola. Ákærði kvaðst hvorki hafa sparkað í brotaþola sé slegið hann.

            Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að hann myndi ekkert eftir atvikum. Hann kvaðst muna eftir því að hafa komið inn á staðinn með vinum sínum en ekkert muna eftir kvöldinu. Hann kvaðst hafa verið ölvaður og næst muna eftir sér á sjúkrahúsinu og hafi hann þá verið með brotnar tennur og höfuðverk.

            Vitnið F skýrði svo frá fyrir dómi að hann brotaþoli og fleiri hefðu verið að spjalla saman á barnum á skemmtistaðnum þegar brotaþoli og ákærði Vilhjálmur hafi byrjað að rífast og hafi það endað með því að þeir hafi allir farið út. Hann kvaðst engin högg hafa séð inni á skemmtistaðnum. Vitnið hafi farið út og séð brotaþola liggja á götunni og hafi hann virkað vankaður. Hann kvaðst hafa tekið hann upp og hafi ákærði Vilhjálmur komið aftur út nokkru síðar, vaðið að brotaþola og slegið hann hnefahögg undir kjálkann og hafi brotaþoli steinlegið og vankast við það og dottið utan í vegg. Vitnið kvaðst hafa hringt á neyðarlínuna og beðið um sjúkrabíl. Vitnið kvað alveg öruggt að ákærði Vilhjálmur hefði verið þarna að verki. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða Jón Einar gera neitt en hann hafi heyrt nafnið Jón nefnt sem geranda en hann gat ekki fullyrt að átt hefði verið við ákærða Jón Einar.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð neinn sparka í höfuð brotaþola. Vitnið kvað ekki hafa blætt úr andliti brotaþola. Vitnið kvað brotaþola ekki hafa verið að ónáða fólk á skemmtistaðnum en hann hafi verið undir áhrifum áfengis. Hann kvað brotaþola eiga það til að gleyma hlutum þegar hann hefur drukkið of mikið.

            Vitnið B skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi veist að strákum á barnum en hann hafi verið mjög drukkinn og hafi honum verið vísað út. Hafi ákærði Jón Einar farið út ásamt G félaga sínum og kvaðst hann hafa séð ákærða Jón Einar kýla brotaþola í andlitið með krepptum hnefa og hafi hann dottið aftur fyrir sig. Hann útilokaði þó ekki að höggið hefði verið veitt með flötum lófa. Þeir hafi síðan farið aftur inn. Ákærði Vilhjálmur og annar strákur hafi nokkru síðar gengið að brotaþola sem hafi setið upp við rennihurð fyrir utan […] og hafi honum sýnst ákærði Vilhjálmur annað hvort kýla eða sparka í andlit brotaþola. Hann kvaðst hafa séð högg lenda á brotaþola en ekki átta sig á því hvort það hafi verið gefið með fæti eða hendi.

            Vitnið G skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði séð slagsmál byrja við barinn og hefði hann séð bjór sullast yfir ákærða Vilhjálm. Vitnið kvaðst ásamt ákærða Jóni vini sínum hafa elt brotaþola út, hann hafi verið blindfullur og hafi ákærði Jón gengið hratt að honum, slegið hann niður og hafi hann legið eftir það. Vitnið kvaðst ekki geta lýst högginu, en vitnið taldi að ákærði Jón hefði ekki kýlt brotaþola, hugsanlega hefði hann slegið hann með opnum lófa. Hafi verið um að ræða eitt högg en vitnið kvaðst ekki hafa séð áverka á brotaþola. Þeir hafi þá farið inn eftir þetta. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða Vilhjálm slá brotaþola. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis.

            Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði séð einhverja tvo aðila berja brotaþola fyrir utan […]. Hann kvaðst ekki átta sig á því hverjir þetta voru, hann væri ómannglöggur. Hann kvaðst hafa orðið hræddur og ákveðið að forða sér.

            Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið að afgreiða á barnum þegar hún hafi séð brotaþola kýla ákærða Vilhjálm. Hún kvað þetta hafa endað úti en hún kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist þar. Hún varð ekki vör við að ákærði Vilhjálmur hefði farið út.

            Vitnið I, […] ákærða Jóns Einars, skoraðist ekki undan vitnisburði og skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði verið inni á skemmtistaðnum og séð hvernig allt byrjaði. Hún kvað brotaþola hafa komið og spjallað við sig og sagðist hann vera að leita sér að slagsmálum. Hann hafi farið á barinn og þar hafi hann kýlt ákærða Vilhjálm einu höggi. Hafi átökin borist út en hún hafi ákveðið að fara ekki út. Hún kvaðst hafa látið ákærða Jón Einar vita að ákærði Vilhjálmur hefði verið laminn. Hún kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist fyrir utan skemmtistaðinn. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis.

            Vitnin J og K lögreglumenn komu fyrir dóm og skýrðu frá afskiptum sínum af máli þessu. Vitnið K kvaðst hafa tekið myndir af brotaþola og staðfesti að ekkert blóð hefði verið sjáanlegt á honum.

            Vitnið D læknanemi staðfesti vottorð sitt í símaskýrslu fyrir dómi.

            Vitnið E tannlæknir staðfesti vottorð sitt í símaskýrslu fyrir dómi. Hann taldi tannbrotin hafa verið ansi fersk þegar hann skoðaði brotaþola, brúnirnar hafi verið skarpar en þær séu fljótar að slípast til. Hann kvað blæðingar ekki endilega fylgja slíkum tannbrotum.  

 

Niðurstaða.   

 

 Ákærðu er í máli þessu gefið að sök að hafa slegið brotaþola hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum er nánar greinir í ákæru. Ákærði Jón Einar hefur viðurkennt að  hafa gefið brotaþola harðan löðrung með opnum lófa og hafi höggið lent á kinn brotaþola sem hafi fallið í jörðina. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að meðákærði hefði slegið brotaþola. Ákærði Vilhjálmur kvað brotaþola hafa slegið sig í höfuðið og ráðist á sig. Hafi ákærði þá ýtt með báðum höndum í bringuna á brotaþola sem hafi stigið aftur á bak en hann hafi ekki dottið. Brotaþoli mundi ekki eftir atvikum en vitnið F kvað ákærða Vilhjálm hafa vaðið að brotaþola og slegið hann hnefahögg undir kjálkann og hafi brotaþoli steinlegið og vankast við það og dottið utan í vegg. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða Jón Einar gera neitt. Vitnið B kvaðst hafa séð ákærða Jón Einar kýla brotaþola í andlitið með krepptum hnefa og hafi hann dottið aftur fyrir sig. Vitnið útilokaði þó ekki að höggið hefði verið veitt með flötum lófa. Vitnið kvað sér hafa sýnst ákærði Vilhjálmur annað hvort kýla eða sparka í andlit brotaþola. Vitnið G kvað ákærða Jón Einar hafa gengið hratt að brotaþola, slegið hann niður, hugsanlega með opnum lófa og hafi hann legið eftir það. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða Vilhjálm slá brotaþola. Vitnið H kvaðst hafa séð einhverja tvo aðila berja brotaþola fyrir utan […] en hann kvaðst ekki átta sig á því hverjir þetta voru. Vitnin C og I kváðust hafa séð brotaþola kýla ákærða Vilhjálm.

Þegar framburður ofangreindra vitna er metinn er ekki varhugavert að telja nægilega sannað að ákærðu hafi báðir veist að brotaþola með höggum í andlit hans og hafi afleiðingar árásarinnar verið þær er í ákæru greinir. Ekki verður greint á milli þáttar hvors ákærðu fyrir sig og verða þeir báðir taldir bera ábyrgð á afleiðingunum. Hins vegar er einnig ljóst að brotaþoli átti upptökin að átökunum með því að veitast að ákærða Vilhjálmi og kýla hann.  Með þessari háttsemi sinni hafa ákærðu gerst sekir um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt sakavottorði ákærða Jóns Einars sættist hann á greiðslu 225.000 króna sektar þann 20. ágúst 2015 fyrir brot gegn 1. mgr. 5. gr., 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. og 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði. Að öðru leyti skiptir sakaferill ákærða ekki máli við ákvörðun refsingar í máli þessu. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði en fullnustu hennar þykir mega fresta og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði verður einnig dæmdur til að greiða 410.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæta ella fangelsi í 24 daga. Þá ber með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir ber að svipta ákærða ökurétti í 5 ár frá 15. janúar 2018 að telja, en þann dag var ákærði sviptur ökurétti til bráðabirgða.

Refsing ákærða Vilhjálms, sem samkvæmt sakavottorði hefur ekki áður sætt refsingu, verður ákveðin með hliðsjón af því að brotaþoli átti upptökin að átökunum með því að kýla þennan brotaþola. Rétt þykir að fresta ákvörðun um refsingu ákærða Vilhjálms og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 Brotaþoli hefur við meðferð málsins breytt kröfugerð sinni og krefst þess nú að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.233.575 krónur auk vaxta af 800.000 krónum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. september 2017 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt sakborningum, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.233.575 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir héraðsdómi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Krafan er þannig sundurliðuð að krafist er miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, útlagðs kostnaðar, 142.175 krónur og lögmannskostnaðar, samtals 291.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Byggt er á því að sakborningar beri in solidum skaðabótaábyrgð á þeim miska sem þeir hafi valdið brotaþola. Hafi afleiðingarnar verið alvarlegar þar sem brotaþoli hafi hlotið tannbrot á fimm tönnum og skrámur um líkamann. Að mati dómsins var atlaga ákærðu gagnvart brotaþola til þess fallin að valda honum miska í skilningi 26. gr. skaðabótalaga og þykja miskabætur til hans hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir. Krafa brotaþola um greiðslu útlagðs kostnaðar er nægum gögnum studd og verður hún tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað vegna læknisvottorðs, 17.616 krónur og ferðakostnað vitnis, 15.400 krónur. Ákærði Jón Einar greiði einn kostnað vegna blóðrannsóknar, 386.173 krónur. Ákærði Jón Einar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 1.032.920 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 24.400 krónur. Ákærði Vilhjálmur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 548.080 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 36.300 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

 

Dómsorð:

 

Ákærði, Jón Einar R. Christensen, sæti fangelsi í 3 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði einnig 410.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 24 daga. Ákærði Jón Einar skal sviptur ökurétti í 5 ár frá 15. janúar 2018 að telja,

Ákvörðun um refsingu ákærða, Vilhjálms Sigdórssonar, er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði brotaþola, A, skaðabætur in solidum að fjárhæð 833.575 krónur auk vaxta af 400.000 krónum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. september 2017 til 22. apríl 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 833.575 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

 Ákærðu greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað vegna læknisvottorðs, 17.616 krónur og ferðakostnað vitnis, 15.400 krónur. Ákærði Jón Einar greiði einn kostnað vegna blóðrannsóknar, 386.173 krónur. Ákærði Jón Einar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 1.032.920 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 24.400 krónur. Ákærði Vilhjálmur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 548.080 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 36.300 krónur.

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson