• Lykilorð:
  • Umboðssvik
  • Sýkna

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2018 í máli nr. S-408/2014:

 Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Hreiðari Má Sigurðssyni

(Hörður Felix Harðarson lögmaður)

Sigurði Einarssyni

(Gestur Jónsson lögmaður)

Magnúsi Guðmundssyni

(Kristín Edwald lögmaður)

 

            Með ákæru 22. apríl 2014 höfðaði sérstakur saksóknari sakamál á hendur ákærðu Hreiðari Má Sigurðssyni, kt. 000000-0000, Sigurði Einarssyni, kt. 000000-0000 og Magnúsi Guðmundssyni, kt. 000000-0000. Allir ákærðu eiga lögheimili erlendis.

            Ákærðu Hreiðari Má, sem var forstjóri Kaupþings, og Sigurði, sem var stjórnarformaður bankans, eru gefin að sök umboðssvik með því að hafa lánað sex tilgreindum félögum peninga á tímabilinu ágúst til október 2008. Ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína og stefnt fjármunum bankans í verulega hættu með lánveitingunum eins og nánar er lýst í fjórum köflum ákærunnar. Ákærða Magnúsi, sem var framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A., er gefin að sök hlutdeild í brotum meðákærðu.

            Dómur gekk í málinu í héraði 26. janúar 2016 og voru ákærðu allir sýknaðir.

            Með dómi Hæstaréttar 19. október 2017 var héraðsdómurinn ómerktur og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar. Var málinu vísað heim í hérað.

            Í dómi Hæstaréttar segir að eftir að héraðsdómur gekk hefðu komið fram upplýsingar „um samkomulag Deutsche Bank AG við Kaupþing ehf. og annað við Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group S.A. um greiðslur þýska bankans á samtals 425.000.000 evrum vegna viðskiptanna. Hvorki liggur fyrir af hvaða ástæðum bankinn féllst á að inna þessar greiðslur af hendi né með hvaða rökum eða á grundvelli hvaða gagna Kaupþing ehf. og félögin tvö reistu málsóknir sína á hendur Deutsche Bank AG  um greiðslu. Þá liggur heldur ekki fyrir hvers eðlis greiðslurnar voru, hvort um hafi verið að ræða samningsbundnar greiðslur eða hvort þær voru skaðabætur og ef svo var hvers eðlis þær skaðabætur voru. Rannsókn á þessum atriðum getur haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðum 249. gr. almennra hegningarlaga hafi verið fullnægt og við ákvörðun um refsihæð ef skilyrði sakfellingar yrðu talin fyrir hendi.

            Samkvæmt framansögðu er óhjákvæmilegt þegar af framangreindum ástæðum að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og málsmeðferðina í héraði frá upphafi aðalmeðferðar 7. desember 2015 og vísa málinu heim í hérað til löglegrar  meðferðar þar sem meðal annars gefst kostur á að afla rannsóknar lögreglu á framangreindum atriðum og leggja á nýjan leik mat á sakargiftir á hendur ákærðu með tilliti til þess hvort þeir annmarkar hafi verið á samningu héraðsdóms að ómerkingu eigi að varða, sbr. d., e. og f. liði 2. mgr. 183. gr. og 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.“

            Héraðssaksóknari ritaði Kaupþingi ehf. bréf 7. desember 2017 í tilefni af dómi Hæstaréttar og svaraði lögmaður bankans bréfinu 19. janúar 2018. Í bréfinu voru lagðar nokkrar spurningar fyrir bankann. Í fyrsta lagi var spurt hverjar hefðu verið ástæður þess að Deutsche Bank AG féllst á að greiða Kaupþingi ehf. 212,5 milljónir evra og í öðru lagi af hverju Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group S.A. hefði verið greidd sama fjárhæð. Kaupþing ehf. svaraði því til að það vissi ekki með vissu, eins og það er orðað, af hverju þýski bankinn hefði greitt þessar fjárhæðir. Þá spurði Héraðssaksóknari með hvaða rökum og á grundvelli hvaða gagna Kaupþing ehf. hefði reist málsóknir sínar á hendur þýska bankanum. Einnig var sama spurning lögð fyrir varðandi nefnd félög. Í svari Kaupþings ehf. er gerð grein fyrir þremur dómsmálum er bankinn rak en bent á að bankinn hafi ekki verið aðili að dómsmálum félaganna. Loks var Kaupþing ehf. spurt hvers eðlis greiðslurnar frá Deutsche Bank AG hefðu verið og spurt hvort þær hefðu verið samningsbundnar eða verið skaðabætur. Hefðu þær verið skaðabætur var spurt hvers eðlis þær hefðu verið. Í svari Kaupþings ehf. segir að greiðslurnar til bankans og félaganna hafi verið til fulls og endanlegs uppgjörs vegna allra þeirra krafna sem bankinn og félögin hefðu haft uppi á hendur Deutsche Bank AG í framangreindum dómsmálum. Nánar er sagt „að samkomulagsgreiðsla Deutsche Bank var innt af hendi til uppgjörs á öllum þeim riftunar-, auðgunar- og skaðabótakröfum sem hafðar voru uppi gegn Deutsche Bank vegna þess tjóns sem Kaupþing og skiptastjórar Chesterfield og Partridge töldu að hefði hlotist af CLN viðskiptunum.“ Tekin var skýrsla af lögmanninum 20. febrúar og var þar nánar spurt um það sem fram kom í bréfi hans.

            Þá var tekin skýrsla af íslenskum lögmanni Deutsche Bank sem kom fram fyrir hönd bankans gagnvart Kaupþingi ehf. og nefndum félögum. Hann kvað ástæðu þess að Deutsche Bank hefði gengið til samningaviðræðna við gagnaðilana hafa verið málshöfðanir þeirra á hendur þýska bankanum. Í þeim og greiðslunum hefði hins vegar ekki falist viðurkenning Deutsche Bank á ólögmætri háttsemi. Hann var spurður hvaða ástæður hefðu legið að baki því að bankinn greiddi nefndar fjárhæðir og svaraði hann að skiptingin á fjárhæðinni hefði verið eitthvað sem hefði komið frá Kaupþingi. Fjárhæðin hafi verið niðurstaða af samningaviðræðum. Um hafi einfaldlega verið að ræða sátt um allar kröfur og eins hefði upphæð íslenskra dráttarvaxta átt sinn þátt í samkomulaginu. Þá var hann spurður hvort einhverjar samningsskuldbindingar hefðu verið að baki því að samið var við Kaupþing og félögin og svaraði hann að sáttin hefði verið til að ljúka dómkröfum sem hefðu verið um riftun annars vegar og svo skaðabætur. „Og sem slíkar eru dómkröfurnar ekki samningsbundnar. En að sjálfsögðu er sáttin sem slík…., myndar samningsskyldu fyrir Deutsche Bank.“ Nánar spurður sagði hann að Deutsche Bank hefði verið að bregðast við dómkröfunum en ekki öðru. Loks var hann spurður hvort greiðslurnar hefðu verið skaðabætur og svaraði hann því neitandi.

            Gögn um framangreinda rannsókn voru lögð fram í þinghaldi 14. maí síðastliðinn. Í þinghaldi 12. júní lögðu ákærðu fram bókun þar sem fram kemur að þeir telja rannsóknina ekki svara þeim atriðum sem Hæstiréttur taldi að svara þyrfti til að dómur yrði lagður á málið. Skoruðu þeir á ákæruvaldið að upplýsa hvort leitað hefði verið skýringa „stjórnenda Deutsche Bank AG, sem tóku umræddar ákvarðanir, á því af hverju bankinn samþykkti að greiða 425 milljónir evra og hvers eðlis sú greiðsla hafi verið? Eru framlögð gögn tæmandi um afrakstur lögreglurannsóknarinnar?“

            Í sama þinghaldi var bókað eftir sækjanda málsins að ákæruvaldið teldi framangreind gögn tæmandi um afrakstur lögreglurannsóknarinnar.

            Í þinghaldi 28. júní kröfðust ákærðu að málinu yrði vísað frá dómi. Kröfu sína byggja þeir aðallega á því að ákæruvaldið hafi ekki orðið við fyrirmælum Hæstaréttar og látið rannsaka það sem hann taldi að rannsaka þyrfti. Þá byggja þeir og á því að meðferð málsins sé andstæð ákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð og benda á að um áratugur sé liðinn frá því atburðir þeir urðu sem ákært er fyrir. Í millitíðinni hafi ákærðu verið dæmdir í fangelsi og afplánað refsingar.

            Ákæruvaldið hafnar frávísunarkröfunni og telur rannsóknina að öllu leyti fullnægjandi og í samræmi við kröfur Hæstaréttar.

            Málið var flutt um frávísunarkröfuna 4. september síðastliðinn og tekið til úrskurðar.

 

            Í framangreindum dómi Hæstaréttar segir að ekki liggi fyrir af hvaða ástæðum Deutsche Bank AG féllst á að greiða umræddar greiðslur til Kaupþings ehf. og framangreindra félaga. Við rannsókn sína í framhaldi af dóminum leitaði ákæruvaldið ekki til hins þýska banka heldur til Kaupþings ehf. sem ekki gat upplýst um ástæður þess að hinn þýski banki greiddi þessa fjárhæð. Í svari bankans kom hins vegar fram á hvaða grundvelli bankinn rak dómsmál á hendur hinum þýska banka. Kaupþing ehf. benti hins vegar á að það var ekki aðili að dómsmálum félaganna tveggja. Þá segir í svarinu að samkomulagsgreiðslan hafi verið til uppgjörs á öllum kröfum sem hafðar höfðu verið uppi á hendur Deutsche Bank AG eins og rakið var hér að framan. Ekki verður séð að leitað hafi verið eftir upplýsingum frá skiptastjórum félaganna tveggja sem um getur í dómi Hæstaréttar. Þá var tekin skýrsla af lögmanni sem unnið hafði fyrir Deutsche Bank AG og var efni hennar rakið hér að framan. Hann kvað bankann hafa verið að bregðast við dómkröfum um riftun og skaðabætur. Síðar í yfirheyrslunni neitaði hann því hins vegar að greiðslurnar frá bankanum hefðu verið skaðabætur án þess að spurt væri nánar út í þetta ósamræmi.

            Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ákæruvaldið hafi ekki rannsakað sem skyldi þau atriði er Hæstiréttur taldi að rannsaka þyrfti. Málið er því í sama búningi fyrir dóminum og það var eftir ómerkingardóminn. Af þessu leiðir að það er ekki tækt til efnismeðferðar og er óhjákvæmilegt að vísa því frá dómi. Þóknanir verjenda ákærða skulu greiddar úr ríkissjóði en þær eru ákvarðaðar með virðisaukaskatti í úrskurðarorði.

 

            Úrskurðinn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður og Sigrún Guðmundsdóttir og Sigurbjörn Einarsson viðskiptafræðingur.

 

Úrskurðarorð.

            Málinu er vísað frá dómi og skulu þóknanir verjenda ákærðu greiddar úr ríkissjóði sem hér segir: Hörður Felix Harðarson lögmaður 1.491.410 krónur, Gestur Jónsson lögmaður 1.565.190 krónur og Kristín Edwald lögmaður 822.120 krónur.

           

                                                     Arngrímur Ísberg

                                                     Sigrún Guðmundsdóttir

                                                     Sigurbjörn Einarsson