• Lykilorð:
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2019 í máli nr. E-2000/2018:

Lánasjóður íslenskra námsmanna

(Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson lögmaður)

gegn Iðunni Eir Jónsdóttur

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

 

I.     Dómkröfur

Mál þetta var þingfest 19. júní 2018 en tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 5. desember 2018. Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.444.918 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. febrúar 2018 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað.

Stefnda krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda á hendur henni verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

II.  Málavextir

Af gögnum málsins verður ráðið að krafa stefnanda sé tilkomin vegna sjálfskuldarábyrgðar stefndu á námslánum Sigurvins Bjarnasonar, kt. 050169-3409, samkvæmt þremur skuldabréfum. Þessi skuldabréf eru auðkennd með númerinu T-167649, sem gefið var út 2. nóvember 1990, upphaflega að fjárhæð 145.867 kr., T-207975 sem gefið var út 1. október 1991, upphaflega að fjárhæð 337.700 kr. og T-227238, útgefið 14. apríl 1992, upphaflega að fjárhæð 58.839 kr. 

Þann 29. maí 1992, þegar Sigurvin var enn í námi, tóku gildi lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með gildistöku þeirra laga voru lög nr. 72/1982 felld úr gildi. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 skyldu námsmenn sem fengu lán úr stefnanda undirrita skuldabréf við lántöku. Í gögnum málsins kemur fram að Sigurvin hafi tekið annað lán hjá stefnanda á meðan námi hans stóð en til tryggingar því láni mun hann hafa gefið út skuldabréf 4. janúar 1993 sem auðkennt var með númerinu R-003610.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 var stjórn stefnanda falið að skilgreina hvað telja bæri námslok samkvæmt lögunum. Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 var að finna efnislega sambærilegt ákvæði en þar var auk þess mælt fyrir um að stjórnin úrskurðaði um vafatilvik. Námslok hjá Sigurvini voru skráð 3. ágúst 1994, en samkvæmt úthlutunarreglum stefnanda sem giltu á þessum tíma voru námslok þegar námsmaður hætti að sækja um lán, nema sýnt væri fram á annað.

Eftir námslok voru T-skuldabréf vegna námslána sem Sigurvin gaf út reiknuð til sameiginlegrar vísitölu undir sérstöku lánsnúmeri S-951059. Var það gert í samræmi við 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992, en þar var mælt fyrir um að reikna skyldi lánin til einnar skuldar. Fjárhæð T-skuldabréfanna var uppreiknuð miðað við grunnvísitölu skuldabréfanna til lánskjaravísitölu þess mánaðar sem lánin voru reiknuð til einnar skuldar í janúar 1995, en lánskjaravísitala í janúar 1995 var 3.385 stig. Sú vísitala myndaði grunnvísitölu við útreikning á T-skuldabréfum Sigurvins undir númerinu S-951059. Mun stefnandi þá hafa reiknað öll lán Sigurvins með eftirfarandi hætti miðað við númer láns og lánskjaravísitölu í janúar 1995:

 

T-152910      150.148                       2938                172.992

T-167649      136.793                       2972                155.802

T-207975      337.700                       3200                357.223

T-227238      58.839                         3208                62.085

                                                          Samtals            748.103

 

Stefnda Iðunn var í ábyrgð fyrir 76,88% þessarar skuldar (575.111/748.103*100). Annar einstaklingur var í ábyrgð fyrir 23,12% skuldarinnar (172.992/748.103*100). Sá einstaklingur greiddi upp ábyrgðarskuldbindingu sína samkvæmt skuldabréfi nr. T-152910 þann 5. apríl 2016.

Við námslok Sigurvins var mælt fyrir um í 18. gr. laga nr. 21/1992, að ef skuldari samkvæmt lögunum væri jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin væru samkvæmt lögum 21/1992. Greiðslur af eldri námsskuldum frestuðust þar til lán samkvæmt lögum 21/1992 væru að fullu greidd.

Með 6. gr. laga nr. 140/2004 var gerð breyting á ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 og það fært til núgildandi horfs. Ákvæðið hljóðar nú svo:

 

„Ef lánþegi samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn skal miða við að hann endurgreiði þau fyrst. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt eldri lögum lýkur eða á að vera lokið skal lánþegi hefja endurgreiðslu samkvæmt þessum lögum. Greiðslur samkvæmt þessum lögum frestast því þar til lán samkvæmt eldri lögum eiga að vera að fullu greidd.

 Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.“

 

Fyrsti gjalddagi af láni nr. R-003610 sem Sigurvin tók á grundvelli laga nr. 21/1992, var 1. mars 1997, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 602/1997. Lán nr. R-003610 var greitt upp með gjalddaga 1. mars 2015. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi miðaði við að gjalddagi af T-skuldabréfum Sigurvins vegna námslána, undir númerinu S-951059, væri 1. mars 2016.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 29. júní 2016 var bú Sigurvins Bjarnasonar tekið til gjaldþrotaskipta. Féll þá allt lánið samkvæmt skuldabréfum nr. T-167649, nr. T-207975 og nr. T-227238 undir lánsnúmerinu S-951059 í gjalddaga, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Skiptum er ekki lokið í þrotabúi Sigurvins, en skiptastjóri hefur lýst því yfir í tölvupósti að ekkert muni greiðast upp í lýstar almennar kröfur.

Með bréfi stefnanda, dags. 24. maí 2017, var stefndu send tilkynning og innheimtuviðvörun um kröfu stefnanda. Í bréfinu var stefndu tilkynnt að bú Sigurvins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 29. júní 2016 og um lögmælta gjaldfellingu lánsins samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991. Var stefndu sent afrit innheimtubréfs með tölvupósti þar sem vakin var athygli hennar á kröfunni og lagt fyrir hana að semja um kröfuna. Í kjölfarið hafði stefnda samband vegna innheimtu kröfunnar.

Með tölvupósti, dags. 22. janúar 2018, sendi stefnandi stefndu síðan annað innheimtubréf um kröfuna. Í bréfinu var tilkynnt um að það væri sent í samræmið við 24. gr. a laga nr. 77/1998 og það markaði upphaf löginnheimtu.

 

III.             Málsástæður aðila

Málsástæður stefnanda   

Stefnandi byggir á því að með áritun stefndu á skuldabréf nr. T-167649, nr. T-207975 og nr. T-227238 sem uppreiknuð voru til einnar skuldar, ásamt skuldabréfi nr. T-152910 sem greitt var upp af ábyrgðarmanni í janúar 1995 undir númerinu S-951059, hafi stefnda Iðunn gengist undir sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfanna yrði greiðslufall af hálfu útgefandans Sigurvins. Stefnda hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð til tryggingar skilvísri greiðslu á höfuðstól lánanna að viðbættum verðtryggingum þeirra svo og þeim kostnaði sem vanskil lántakanda kynnu að valda. 

Stefnandi byggir á því að hann hafi verið bundinn af 18. gr. laga 21/1992. Samkvæmt því lagaákvæði hafi honum verið skylt að innheimta fyrst námslán nr. R-003610. Meðan sú innheimta stóð yfir og greitt var af láni nr. R-003610 hafi krafa stefnanda samkvæmt láni nr. S-951059 ekki verið gjaldkræf gagnvart stefndu. Það hafi ekki verið fyrr en við gjaldþrot lántaka að krafa stefnanda á hendur stefndu á grundvelli ábyrgðarloforðs hennar varð gjaldkræf. Krafa stefnanda sé samkvæmt framansögðu sé ófyrnd og stefndu beri því að greiða stefnufjárhæðina.

Stefnandi útlistar stefnukröfu sína þannig að fjárhæð hinna sameinuðu T-skuldabréfa undir númerinu S-951059 á úrskurðardegi 29. júní 2016 hafi numið 1.444.918 kr., sem sé stefnufjárhæð málsins. Gjaldfellingarfjárhæðin reiknist svo: eftirstöðvar án verðbóta eftir gjalddaga 1. mars 2016 718.014 kr., að frádreginni innborgun inn á nafnverð þann 5. apríl 2016 146.830 kr., eða kr. 571.184 * lánskjaravísitala í júní 2016 (8.563) / grunnvísitölu (3.385), eða kr. 1.444.918. Dráttarvaxta er krafist frá 22. mars 2018.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi ábyrgðaryfirlýsingar. Þá vísar stefnandi til laga nr. 72/1982, laga nr. 21/1992, reglugerðar nr. 578/1982, úthlutunarreglna stefnanda sem í gildi voru á hverjum tíma, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, laga nr. 21/1991 og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Um varnarþing vísast til ákvæða skuldabréfanna og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og því nauðsyn að fá dæmdan virðisaukaskatt úr hendi stefndu.

 

Málsástæður stefnda

Stefnda byggir aðalkröfu sína á því að upprunalegir skilmálar T-skuldabréfanna gildi um þær skuldbindingar Sigurvins sem hún gekkst í ábyrgð fyrir. Stefnandi hafi ekki getað sameinað skuldbindingarnar í eitt lán, með einhliða aðgerð svo sem virðist vera gert ráð fyrir í stefnu. Ábyrgðarmenn, þar með talið stefnda, hafi ekki verið hafðir með í ráðum við þá aðgerð og hafi ekki undirritað nýja lánagerninga. Aðeins geti því verið um að ræða innheimtuaðferð sem stefnandi, sem lánveitandi, kjósi að flokka sem „S-lán“. Með hliðsjón af því gildi upprunalegir skilmálar um T-lánin, meðal annars um innheimtu og gildi ábyrgða. Að öðru leyti ráðist réttarstaða lánanna af ákvæðum laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, eins og þau voru, þegar til ábyrgðanna var stofnað.

Af hálfu stefndu er enn fremur vísað til þess að samkvæmt skilmálum T-skuldabréfanna og ákvæðum laga nr. 72/1982 skyldi endurgreiðsla lána til Sigurvins hefjast þremur árum eftir námslok. Skuldabréfin skyldu þar að auki endurgreidd með tveimur nánar tilgreindum afborgunum á ári uns þau yrðu að fullu greidd.

Samkvæmt skilmálunum hafi stjórn stefnanda að vísu verið heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar yrðu á högum lánþega á milli ára en hvorki skilmálar skuldabréfanna né lög nr. 72/1982 hafi haft að geyma neinn annan fyrirvara um frestun endurgreiðslna. Þá sé ekki byggt á því í stefnu að slíkar ástæður hafi valdið frestun innheimtu T-lánanna allt til ársins 2017. Miðað við námslok Sigurvins hafi fyrsti gjalddaginn af T-lánunum, sameinuð undir innheimtu sem S-lán, myndast árið 1995.

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi frestað innheimtu S-lánsins á árunum 1995-2017 með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992. Í ákvæðinu var kveðið á um að ef lánþegi skuldaði námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestuðust þá þar til R-lánið væri að fullu greitt.

Stefndi telur að hvað sem líður þessum fyrirmælum líður þá geti ákvörðun stefnanda, um að setja R-lán í innheimtu framar T-lánum, ekki haft þau áhrif að ábyrgð stefndu framlengist sjálfkrafa. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 séu engin ákvæði þess efnis að ábyrgðir fyrir eldri skuldbindingum haldist í fullu gildi og óbreyttar þrátt fyrir fyrrgreinda frestun á endurgreiðslu þeirra. Engar vísbendingar er heldur að finna um það í lögskýringargögnum að til þess hafi verið ætlast. Því eru fyrirmæli ákvæðisins óskuldbindandi fyrir ábyrgðarmenn, nema þá að fyrir hendi hafi legið samþykki þeirra fyrir framlengingu á ábyrgðum þeirra með frestun innheimtu eldri lána og samhliða forgangi á innheimtu yngri R-lána, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 622/2011.

Stefnda telur að skýra verði óljós atriði í þessum efnum stefndu í hag ekki síst í ljósi þess að stefnandi er opinber lánasjóður, stofnaður á grundvelli laga og á ábyrgð íslenska ríkisins. Þá hafi stefnandi samið einhliða skuldabréfin sem eru grundvöllur þessarar deilu stefnanda. Aðstöðumunur á aðilum geti vart orðið meiri, heldur en í þessu tilviki. Verður því að telja að greiðslufrestirnir hafi verið á ábyrgð og áhættu stefnanda sem kröfuhafa og eingöngu lotið að lánasamningum stefnanda við lántakanda.

Stefnda telur ljóst samkvæmt framansögðu að greiðslu frá lánþega verður ekki ráðstafað af hálfu kröfuhafa fyrst til greiðslu á yngra láni án skýrs samþykkis ábyrgðaraðila að eldra láni. Því brjóti fyrirmæli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 gegn þeirri grundvallarreglu fjármunaréttarins, að kröfuhafa beri að ráðstafa mótteknum greiðslum frá skuldara fyrst til greiðslu á elstu skuldinni. Slík ráðstöfun sé því háð samþykki ábyrgðarmanna eigi hún að hafa áhrif á áhættu þeirra.

Stefnda telur að þó svo að löggjafinn hafi kosið að leiða í lög ákvæði um frestun eldri lána og breytta greiðsluröð, án þess að víkja að samþykki ábyrgðarmanna, sé ljóst að setning 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 hafi ekki sjálfkrafa þau áhrif að efni ábyrgðarloforðs stefndu breyttist og áhætta hennar þannig verið aukin. Íþyngjandi breytingar á ábyrgð séu háðar samþykki ábyrgðarmanns. Slík regla hafi lengi verið ólögfest í íslenskum rétti en með lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn var þessi meginregla fest í lög. Hinir einhliða breyttu skilmálar um greiðslufrestun S-láns Sigurvins hafi því alfarið á áhættu og ábyrgð stefnanda, sbr. framangreindan dóm Hæstaréttar nr. 622/2011.

Stefnda bendir á að ekki liggi fyrir í gögnum málsins hversu háar afborganir Sigurvin hefði ella verið krafinn um af S-láninu á þessu tímabili. Að mati stefndu verður að ganga út frá því að Sigurvin hefði staðið í skilum með slíkar afborganir, en meta verður vafa þar um stefndu í hag. Hefði Sigurvin greitt umkrafðar afborganir S-lánsins á þessu tímabili hefði krafa stefnanda samkvæmt láninu lækkað og þar með sú krafa sem stefnda sé í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því hverjar raunverulegar eftirstöðvar kunni að vera af þeim lánum sem stefnda sé skráð í ábyrgð fyrir. Stefnandi búi yfir þeim upplýsingum sem þörf sé á til að reikna þær fjárhæðir út. Sönnunarbyrði fyrir því verður ekki varpað yfir á stefndu, enda hafi hún ekki aðgang að sömu gögnum og stefnandi.

Stefnda byggir á því að lögum verði ekki beitt afturvirkt með íþyngjandi hætti. Yrði litið svo á að ábyrgð hennar hefði haldist óbreytt væri um að ræða íþyngjandi skyldu, sem fæli í sér ólögmæt inngrip í fjárhagsréttindi hennar. Að mati stefndu fái ekki staðist enda fæli það í sér brot gegn réttindum sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2472/2016. Í þeim dómi hafi því verið slegið föstu að með lagasetningu 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 hafi verið gripið inn í fjárhagsleg réttindi sem njóta verndar samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sem ekki verði skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í málum nr. 549/2002 og 242/2010.

Stefnda hafnar því að hún hafi mátt eiga von á greiðslufresti á T-lánunum, í innheimtuflokkinum S-lán, á meðan nýrri R-lán Sigurvins voru greidd upp. Þegar stefnda gekkst í ábyrgð hafi lög nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, verið í gildi. Þau lög hafi ekki haft að geyma sams konar ákvæði og finna má í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992. Stefnda hafi þvert á móti getað gert ráð fyrir því að lögum yrði ekki breytt afturvirkt henni í óhag en til hagsbóta fyrir stefnanda, sem sé ríkisstofnun, stjórnvald og félagsleg lánastofnun. Enn fremur hafi stefnda mátt gera ráð fyrir því, að yrði ráðist í jafn íþyngjandi breytingar og gert var, hefði farið fram nýtt mat á greiðslufærni Sigurvins og henni svo tilkynnt um það, í ljósi þess hve íþyngjandi þessi ráðstöfun var gagnvart ábyrgðarmanni.

Stefnda byggir enn fremur á því að krafa stefnanda sé fyrnd og fallin niður fyrir áhrif tómlætis. Það ábyrgðartímabil sem vikið sé að í stefnu sé máli þessu óviðkomandi, enda hafi krafan verið tæk til innheimtu samkvæmt skilmálum skuldabréfanna þegar þann 1. mars 1997 eða þremur árum eftir námslok. Stefnandi hafi hins vegar kosið að innheimta heldur nýrri skuld samkvæmt R-láninu með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 uns það var uppgreitt árið 2015 og innheimta hófst að nýju á T-lánunum. Ábyrgð stefndu hafi fallið úr gildi á árinu 2001, sbr. 3. og 4. tl. 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda eða í síðasta lagi fjórum árum eftir frestun afborgana á S-láninu, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2472/2016.

Af hálfu stefndu er jafnframt byggt á því að gildistími ábyrgðaryfirlýsingar stefndu sé fallin niður, sbr. 4. mgr. 8. gr. þágildandi laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skyldu endurgreiðslur af veittum námslánum ,,standa yfir í 20 ár hið lengsta.“ Ábyrgðaryfirlýsing stefndu gæti því ekki staðið lengur en í 20 ár frá fyrsta gjalddaga lánsins sem hafi verið hinn 1. mars 1997. Ábyrgðaryfirlýsing stefndu hafi því fallið niður í síðasta lagi árið 2017, þ.e. áður en þetta mál er höfðað. Máli sínu til stuðnings vísar stefnda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 622/2011.

Stefnda byggir jafnframt á því að stefnandi hafi ekki viðhaft eðlilega starfshætti opinbers lánveitanda er stofnað var til ábyrgðarinnar málið lýtur að. Stefnandi hafi við þær aðstæður ekki gætt nægilega vel að greiðslugetu Sigurvins og vanrækt að upplýsa stefndu um lánshæfi hans sem og skyldur ábyrgðarmanna. Ákveðnar óskráðar starfsreglur hafi þá gilt um lánveitendur á borð við stefnanda. Meðal þeirra var sú skylda að skoða nægilega greiðslugetu lántakanda. Þá bar stefnanda að tryggja að ábyrgðarmenn skildu örugglega hvaða skyldur þeir væru mögulega að taka sér á herðar; að þeir geti vitað hvort lántakandinn væri talinn borgunarmaður fyrir skuldinni.

Stefnda byggir og á því að lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, hafi gilt um kröfu stefnanda á hendur henni frá gildistöku þeirra laga þann 2. apríl 2009. Lögin hafi lagt ákveðnar skyldur á herðar stefnanda sem hann hafi ekki axlað gagnvart stefndu. Þannig hafi stefnandi ekki sent stefndu eftir hver áramót upplýsingar um stöðu lánveitinga sem ábyrgð stefndu hafi staðið fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir, líkt og áskilið sé í d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Vanrækslan sé slík að hún teljist veruleg og skuli ábyrgðin því falla niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Varakrafa stefndu byggir á sömu málsástæðum og aðalkrafan.

Stefnda gerir athugasemd við vaxtakröfu stefnanda. Upphafsdagsetningin sé 22. febrúar „2918“ samkvæmt stefnu. Gjaldfelling lánsins hafi þó fyrst verið tilkynnt stefndu með bréfi, dags. 24. maí 2017. Er með öllu óljóst við hvaða dagsetningu stefnandi er að styðjast við en það er greinilegt að vaxtakrafan verði ekki tekin upp óbreytt sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu. Krafa stefnanda um dráttarvexti, eins og hún er sett fram í stefnu er því svo óljós að henni ber að vísa frá dómi af sjálfsdáðum.

Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísar stefnda til stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, einkum 72. gr., og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 1. gr. 1. samningsviðauka. Þá er vísað til meginreglna fjármuna-, kröfu- og samningaréttar. Enn fremur er vísað til laga nr. 72/1982, laga nr. 21/1992, laga nr. 32/2009, eldri laga nr. 14/1905, laga nr. 57/1976 og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan felur jafnframt í sér kröfu um virðisaukaskatt á grundvelli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

 

IV.             Niðurstaða

Eins og rakið er hér að framan gekkst stefnda í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu samkvæmt þremur skuldabréfum sem Sigurvin Bjarnason gaf út á árunum 1990 til 1992 vegna námslána sem hann tók hjá stefnanda. Skuldabréfin voru gefin út á grundvelli þágildandi laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, en samkvæmt skilmálum skuldabréfanna var fjárhæð þeirra bundin lánskjaravísitölu án þess að þau bæru vexti.

Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna átti endurgreiðsla lánanna átti að hefjast þremur árum eftir námslok og fara fram með árlegum greiðslum. Þær greiðslur voru ákveðnar í tvennu lagi, annars vegar sem föst greiðsla með tiltekinni fjárhæð sem skyldi innt af hendi 1. mars ár hvert og hins vegar sem svonefnd viðbótargreiðsla sem tæki á nánar tiltekinn hátt mið af útsvarsstofni lánþegans á næsta ári á undan, en standa átti skil á henni 1. september á hverju ári. Ljúka átti endurgreiðslu lánsins á 40 árum en dygðu ekki afborganir fyrir fullri greiðslu áttu eftirstöðvar skuldar að falla niður að þeim tíma liðnum. Í skuldabréfunum sagði að endurgreiðslur væru lögtakskræfar ef vanskil yrðu. Þá sagði enn fremur að stæði lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma væri lánið allt gjaldfallið án uppsagnar.

Í samræmi við þágildandi úthlutunarreglur stefnanda ákvað stefnandi að námslok Sigurvins væru 3. ágúst 1994. Við  námslokin voru lánin samkvæmt T-skuldabréfunum sameinuð í eitt lán sem fékk númerið S-951059. Verður ekki annað séð en að fjárhæð lánsins hafi í janúar 1995 numið 748.103 krónum að meðtöldum áföllnum verðbótum á fyrsta gjalddaga þess 1. mars 1994 en þar af hafi stefnda staðið í ábyrgð fyrir greiðslu á 575.111 krónum.

Hinn 29. maí 1992, þegar Sigurvin var enn í námi og áður en til námsloka hans kom tóku lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, hins vegar gildi. Með gildistöku þeirra laga voru lög nr. 72/1982 felld úr gildi.

Fyrir liggur að Sigurvin tók nýtt lán eftir gildistöku laga nr. 21/1991 og gaf 4. janúar 1993 út skuldabréf auðkennt með númerinu R-003610 af því tilefni. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992, skyldu námsmenn sem fengu lán úr stefnanda undirrita skuldabréf við lántöku og er ljóst að þau lög tóku því til nýja lánsins. 

Eins og áður er rakið var í 18. gr. laga nr. 21/1992 mælt fyrir um að væri skuldari samkvæmt þeim lögum jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum þá skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin hefðu verið eftir lögum nr. 21/1992 en greiðslur af eldri námsskuldum skyldu frestast þar til þau lán væru að fullu greidd.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi einungis krafið Sigurvin um afborganir af skuldabréfi R-003610 frá og með gjalddaga 1. mars 1997. Stefnandi krafðist hins vegar ekki afborgana af skuldabréfum T-167649, T-207975 og T-227238, sem síðar voru sameinuð undir lánsnúmerinu S-951059 fram til þess að Sigurvin greiddi upp lán R-003610 1. mars 2015. Miðaði stefnandi þá við að gjalddagi T-skuldabréfa Sigurvins undir lánsnúmerinu S-951059 væri 1. mars 2016, en eindagi 4. mars 2016. Eins og áður er fram komið var kveðið á um það í T-skuldabréfunum að greiðslur færu fram 1. mars og 1. september ár hvert.

Í gögnum málsins kemur ekki fram Sigurvin hafi innt af hendi greiðslu af T-skuldabréfunum fyrr en 5. apríl 2016. Var þá greidd 77.050 króna afborgun og önnur greiðsla sama dag að fjárhæð 369.309 kr. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvort Sigurvin hafi vanefnt skuldbindingar sínar í kjölfarið. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 29. júní 2016 var bú Sigurvins Bjarnasonar hins vegar tekið til gjaldþrotaskipta. Féll þá allt lánið samkvæmt skuldabréfum nr. T-167649, nr. T-207975 og nr. T-227238 undir lánsnúmerinu S-951059 í gjalddaga, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ljóst er að réttarsamband aðila þessa máls myndaðist með því að stefnda gekkst fyrir meira en hálfum þriðja áratug undir sjálfskuldarábyrgð gagnvart stefnanda á kröfum hans á hendur Sigurvini um endurgreiðslu námslána samkvæmt þremur skuldabréfum. Réttarsambandið réðist af ákvæðum skuldabréfanna og hafði tekið á sig fullnaðarmynd þegar þau höfðu verið gefin út. Gat stefnda þannig gengið út frá því að ábyrgð hennar tæki til greiðslu afborgana sem eftir nánari fyrirmælum í skuldabréfunum yrðu reiknaðar út tvívegis á ári á tímabili sem hæfist þremur árum eftir að Sigurvin lyki námi og staðið gæti síðan að hámarki í 40 ár, að gættu því að endurgreiðslum gæti lokið á skemmri tíma, vanskil á greiðslu afborgunar hefðu sjálfkrafa í för með sér að allar eftirstöðvar skuldarinnar féllu í gjalddaga og stefnandi gæti orðið við umsókn Sigurvins um að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu af sérstökum ástæðum sem greindi í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982.

Með 18. gr. laga nr. 21/1992 sem tók gildi 29. maí 1992 var þessu réttarsambandi hins vegar breytt með íhlutun löggjafans. Í þeirri breytingu fólst að upphafsmark endurgreiðslna aðalskuldarans Sigurvins af skuldabréfunum var fært aftur um óákveðinn tíma, þ.e. til þess að hann hefði lokið endurgreiðslu lánsins samkvæmt R-skuldabréfinu sem hann gaf út á grundvelli laga nr. 21/1992.

Það leiðir af meginreglum kröfuréttar að krafan á hendur stefndu sem ábyrgðarmanni gat ekki orðið gjaldkræf fyrr en aðalskuldarinn Sigurvin lét hjá líða að standa skil á greiðslu afborgunar á gjalddaga hennar. Í þessu samhengi hafði ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 sjálfkrafa þau áhrif að því var einnig slegið á frest hvenær krafa stefnanda á hendur stefndu gat orðið gjaldkræf.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið gengið út frá því að þar sem aðgerðir löggjafans í skjóli 18. gr. laga nr. 21/1992 sem handhafa ríkisvalds hafi lotið að réttarsambandi einstaklings við stefnanda, sem heyrir undir framkvæmdarvald ríkisins og er borinn uppi af fé þess, verði að skýra og beita ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 á þann hátt sem skuldara getur talist hagfelldastur, þar á meðal með tilliti til fyrningar kröfu stefnanda á hendur honum, sbr. dóma Hæstaréttar frá 1. nóvember 2018 í málum nr. 385/2017 og 492/2017.

Málatilbúnaður stefndu í málinu hefur í meginatriðum byggst á því að lánið sem hún var í ábyrgð fyrir hafi fallið í gjalddaga 1995 en í því efni hefur verið vísað til ákvæða T-skuldabréfanna um að lán falli í gjaldaga þremur árum eftir námslok. Af þeim sökum telur stefnda að krafan á hendur henni sé annaðhvort fyrnd eða fallin niður fyrir tómlæti.

Á þau sjónarmið getur dómurinn þó ekki fallist. Nægir þá að vísa til þess að samkvæmt skýru orðalagi 18. gr. gat gjalddagi þeirra lána sem stefnda var í ábyrgð fyrir ekki komið fyrr en skuld Sigurvins samkvæmt R-skuldabréfi sem laut ákvæðum laga nr. 21/1992 hefði fyrst endurgreidd að fullu. Ágreiningslaust er að R-skuldabréfið var ekki endurgreitt fyrr en 1. mars 2015 og gjalddagi T-skuldabréfanna gat því ekki runnið upp fyrr. Sjónarmið úr dómum Hæstaréttar sem vikið er að hér að framan um skýringu 18. gr. geta engu breytt um það atriði. Stefndu stoðar heldur ekki að bera fyrir sig að óheimilt hafi verið að sameina T-skuldabréfin undir einu lánsnúmeri. Verður þá að líta til þess að kveðið var á um slíka sameiningu í lögum.

Þá verður jafnframt að telja ljóst að fyrirmæli 18. gr. gangi framar ákvæðum upprunalegum skilmálum skuldabréfsins og meginreglum fjármunaréttarins sem stefnda hefur vísað til í málatilbúnaði sínum. Auk þess verður ekki séð að ábyrgðaryfirlýsing stefndu hafi vegna áðurgildandi ákvæðis 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 einungis getað staðið í 20 ár, enda var stefnandi ekki bundin af eldra ákvæði sem fellt hafði verið úr gildi þegar lánið var tekið og endurgreiðslur T-skuldabréfanna hófust. Í því sambandi en fremur rétt að benda á að þegar lánin samkvæmt T-skuldabréfunum var tekið var kveðið á um það í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982 að endurgreiðslum skyldi ekki ljúka síðar en 40 árum eftir að þær hæfust.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi miðaði við að gjalddagi af T-skuldabréfum Sigurvins vegna námslána væri 1. mars 2016. Ekki verður annað séð en að stefnandi hafi þar tekið mið af ákvæðum skuldabréfanna um árlegar greiðslur í tvennu lagi. Auk þess liggur fyrir að stefnandi taldi engin vanskil hafa orðið á greiðslu þessara lána áður en bú Sigurvins var tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar stefnandi höfðaði málið með útgáfu stefnu 19. júní 2018 var því ekki liðinn fjögurra ára fyrningartími kröfu hans á hendur Sigurvini samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér á við samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Af þeim sökum verður að hafna málsástæðu stefndu um að krafa stefnanda hafi verið fyrnd.

Að því er varðar málsástæður stefndu um að krafan sé fallin niður vegna tómlætis verður í ljósi sjónarmiða um réttarvissu almennt að leggja til grundvallar að brottfall kröfu vegna aðgerðaleysis fari að jafnaði eftir ákvæðum laga um fyrningu og eftir atvikum þá einnig eftir öðrum skráðum lagareglum um réttaráhrif tómlætis, enda eru slíkar reglur þess eðlis að jafnt kröfuhafar sem skuldarar geta tekið mið af þeim þegar þeir ákveða hvernig þeir ætla að haga lögskiptum sínum.

Af þessum ástæðum verður að gæta varfærni við að ljá meintu aðgerðaleysi kröfuhafa sem ekki fellur undir gildissvið skráðra réttarreglna að þessu leyti þau áhrif að kröfuhafi glati þar með kröfu sinni. Verður að telja að réttaráhrif á grundvelli aðgerðaleysis geti helst komið til greina á grundvelli óskráðra réttarreglna um tómlæti, þegar kröfuhafi hefur sjálfur með atferli sínu, til dæmis með afdráttarlausum yfirlýsingum, vakið þær væntingar hjá skuldara að hann muni ekki halda innheimtu kröfu sinnar til streitu.

Í gögnum þessa máls er ekki að finna nein merki um samskipti aðila sem gátu vakið þær væntingar stefndu í þessu máli að hún yrði ekki krafin um greiðslu ábyrgðar. Þá verður ekki séð að í málinu hafi verið fyrir að fara slíkri vanrækslu stefnanda á að fylgja ákvæðum laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, að hún geti leitt til þess að stefnandi glati réttarvernd kröfu sinnar á hendur stefndu. Þannig verður ekki annað séð af gögnum málsins en að stefnandi hafi að minnsta kosti frá og með 27. janúar 2012 sent stefndu árlega upplýsingar um stöðu lánsins sem ábyrgð hennar stóð fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir. Verður af þeim sökum ekki fallist á með stefndu að  til staðar hafi verið vanræksla stefnanda á  upplýsingaskyldu samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. sem leiði til þess að ábyrgðin hennar falli niður á grundvelli 2. mgr. 7. gr. Er því hafnað málsástæðum stefndu um að kröfur stefnanda séu fallnar niður vegna tómlætis.

Stefnandi hefur krafist þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.444.918 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 en í upphaflegri stefnu er miðað við dráttarvextir teljist frá „22. febrúar 2918“ til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað.

Við meðferð málsins fyrir dómi leiðrétti stefnandi dagsetningu í kröfu um dráttarvexti þannig að hún ætti að miðast við 22. febrúar 2018. Stefnda mótmælti þessari leiðréttingu og gerði athugasemd við upphaflega dagsetningu í kröfu stefnanda um dráttarvexti. Taldi stefnda með öllu óljóst við hvaða dagsetningu stefnandi væri að styðjast við og að greinilegt væri að vaxtakrafan yrði ekki tekin upp óbreytt sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu. Byggði stefnda á því að krafa stefnanda um dráttarvexti, eins og hún væri sett fram í stefnu væri svo óljós að henni ber að vísa frá dómi af sjálfdáðum.

Dómurinn tekur ekki undir málsástæðu stefndu hvað þetta varðar. Verður að telja að upphafleg dagsetning dráttarvaxta sem vísar til ársins 2918 feli í sér augljósa ritvillu af hálfu stefnanda sem hafi mátt vera öllum ljós. Leiðrétting hennar er ekki þess eðlis að hún bitni á möguleikum stefnanda að halda uppi vörnum. Þar sem fyrir liggur í málinu að stefnandi sendi stefndu innheimtubréf um kröfuna 22. janúar 2018 og að stefnda hefur ekki mótmælt því að hafa fengið bréfið, þykir verða að miða upphafsdag dráttarvaxta við 22. febrúar 2018, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Það leiðir af því sem að framan er rakið að fallist er á kröfu stefnanda um að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.444.918 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. febrúar 2018 til greiðsludags. Í samræmi við þessi málsúrslit verður stefndu gert að greiða stefnanda allan málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm. Við uppsögu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

  

Dómsorð:

Stefndi Iðunn Eir Jónsdóttir, greiði stefnanda Lánasjóði íslenskra námsmanna, 1.444.918 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. febrúar 2018 til greiðsludags.

Stefnda skal að greiða stefnanda allan málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 11. janúar 20148.

 

Gjald kr. 3,500.-          Greitt.