• Lykilorð:
  • Höfundarréttarmál

 

D Ó M U R

 

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2018 í máli nr. E-3554/2015:

Guðbjörg Jónsdóttir

Þórhildur Jónsdóttir

Kristjana Jónsdóttir

Sveinbjörn Jónsson

Kristinn Jónsson

Katrín Jónsdóttir

Þorsteinn Jónsson

Sigrún Jónsdóttir

Gunnar Rafn Jónsson

(Erla Svanhvít Árnadóttir hrl.)

gegn Familíunni ehf.

(Tómas Þorvaldsson hdl.)

Þorsteini Bachmann

(Tómas Þorvaldsson hdl.)

Hrefnu Bachmann

(Tómas Þorvaldsson hdl.)

Margréti Þorsteinsdóttur

(Tómas Þorvaldsson hdl.)

Fabrik ehf.

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

 

I. Dómkröfur

Mál þetta var höfðað með stefnu þingfestri 29. október 2015 en tekið til dóms 4. október 2017 og aftur 19. desember sl. að loknum endurflutningi. Af hálfu stefnanda er þess aðallega krafist að a) stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að afhenda stefnendum frumgerðir eftirtalinna 163 myndverka Jóns Kristinssonar:

 

 

Nr. myndverks

Nafn auglýsanda

Texti í myndverki

1

Alþýðubrauðgerðin

Jólakökur með jólabragði

2

Alþýðubrauðgerðin

Kraftur í hverri sneið

3

Alþýðubrauðgerðin

Alþýðubrauðgerðin

4

Alþýðubrauðgerðin

Kennið börnunum að borða meira brauð

5

Alþýðubrauðgerðin

Verði honum að góðu

6

Alþýðubrauðgerðin

Verði yður að góðu

7

Alþýðubrauðgerðin

Gleðileg jól - bakkelsið

8

Belgjagerðin

Víðsýnn ferðamaður fer útbúinn frá okkur

9

Belgjagerðin Skjólfatagerðin

Þeir græða mest sem verzla við okkur

10

Belgjagerðin

Gott sumarleyfi byrjar hjá okkur

11

Belgjagerðin

Syngjum dátt og dönsum Hin lífsglaða æska ..

12

Belgjagerðin

Víðsýnn ferðamaður verzlar við okkur

13

Belgjagerðin - Skjólfatagerðin

Það er skíðafæri á fjöllum

14

Belgjagerðin - Skjólfatagerðin

Útbúinn frá okkur

15

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

16

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

17

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

18

Flóra Akureyri

Þyngstur á metunum

19

Flóra

Flóra

20

Framtíðin - ullarverksmiðja

Jólagjöfin frá okkur

21

Framtíðin - ullarverksmiðja

Klæðið af yður kuldann

22

Framtíðin - ullarverksmiðja

Velklædd á skíðin

23

Fram - verksmiðjan

Verksmiðjan Fram hf

24

Glæsir

Viðskiptin vaxa frá ári til árs

25

Glæsir

Jólafötin þarf að hreinsa og pressa

26

Glæsir

Ábatann þekkir húsfreyjan Glæsir gerir sitt

27

Hekla

Við höfum sambönd um allan hnöttinn

28

Hekla vinnufataverksmiðja

Við leik og störf er vinnufata brýnust þörf

29

Hekla

Athygli hinna vandlátu beinast að Heklu peysum

30

Prjónastofan Hlín

Þær eru allar á okkar bandi

31

Prjónastofan Hlín

Dömurnar kíkja til okkar

32

Prjónastofan Hlín

Í spilunum sér hún nýja peysu

33

Prjónastofan Hlín

Vortízkan er að koma

34

Prjónastofan Hlín

Þær lenda allar í okkar peysum

35

Prjónastofan Hlín

Vortízkan á okkar bandi

36

Sápuverksmiðjan Hreinn

Hreins kristalssápa gerir allt sem nýtt

37

Sápuverksmiðjan Hreinn

Loksins allar sammála um vörugæðin

38

Hreins

Hreins veizlukerti

39

Sápuverksmiðjan Hreinn

Merpo þvær miklu betur

40

Hreins

Galdurinn er með í pakkanum

41

Hreins hvítt

Látið ekki happ úr hendi sleppa

42

Hreinn

Þeir bjarga sér best

43

Bókaverzlun Ísafoldar

Mennt er máttur

44

Bókaverzlun Ísafoldar

Góðar bækur gleðja börnin

45

Bókaverslun Ísafoldar

Mennt er máttur

46

Bókaverslun Ísafoldar

Í sumarleyfið með góða bók

47

Bókaverslun Ísafoldar

Blindur er bóklaus maður

48

Jón Símonarson

Jólabaksturinn skulum við annast

49

Jón Símonarson

Jólin eru byrjuð hjá okkur

50

Jón Símonarson Bræðraborgarstíg

Betri kökur betri brauð

51

Bakarí Jóns Símonarsonar

Reiði húsfreyjunnar bitnar aldrei á okkur

52

Kr. Kristjánsson - Ford umboðið

Skiptið og finnið kraftinn 1.2.3.

53

Lárus G Lúðvígsson

Skórnir auka á yndisþokkann

54

Lárus G Lúðvígsson

Úrval við allra hæfi

55

Lárus G Lúðvíksson

Athyglin beinist að skóm frá Lárusi

56

Lárus G Lúðvígsson

Úrvalið mest - varan best

57

Lárus G Lúðvígsson

Viðhafnarskórnir frá Lárusi LGL

58

Lárus G Lúðvígsson

Á skóm frá Lárusi

59

Lárus G Lúðvígsson

Við öll tækifæri á skóm frá Lárusi

60

Bókabúð Lárusar Blöndal

Tjaldið með bók

61

Bókabúð Lárusar Blöndal

Meira og meira vilja börnin heyra

62

Bókabúð Lárusar Blöndal

Í sumarleyfið með bækur og blöð

63

Lárus Blöndal

Tjáið okkur ósk yðar

64

Bókabúð Lárusar Blöndal

Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund

65

Lárus Blöndal

Valdar jólabækur

66

Lárus Blöndal

Góð bók er kærkomin jólagjöf

67

Lárus Blöndal

Góð bók er besta jólagjöfin

68

Litla blómabúðin

Hún heilsar yður við annan tón...

69

Litla blómabúðin

Færð´enni blóm

70

Málarinn

Hæsta trompið Spred

71

Málarinn

Verðandi listamaður í jólaskapi

72

Málarinn

Litirnir létta skapið

73

Málning og Járnvörur

Völundurinn

74

Mjólkursamsalan

Meiri mjólk skapar stærra fólk

75

Mjólkurbú Flóamanna

Ostur er gæðakostur

76

Mjólkursamsalan

Nýtt skyr daglega

77

Mjólkurbú Flóamanna

Ost alla daga vikunnar

78

Mjólkurbú Flóamanna

Bragðið er galdurinn

79

Mjólkurbú Flóamanna

Flóa ostur er kjarnakostur

80

Mjólkurbú Flóamanna

45% ostur er 100% gæðavara

81

Pensillinn

Hafir þú hugsað myndina höfum við litina

82

Ragnar Blöndal

Við höfum allt sem yður kynni að vanta

83

Ragnar Blöndal

Kynnið yður vortízkuna

84

Ragnar Blöndal

Með gjöf skal gjöf gjalda

85

Ragnar Blöndal

Jólagleðin er með í pakkanum

86

Ragnar Blöndal

Snyrtivörur í miklu úrvali

87

Ragnar Blöndal

Gagnrýni yðar er okkur í vil

88

Ragnar Blöndal

Viðskiptamenn okkar setja svip á bæinn

89

Ragnar Blöndal

Athyglin beinist að yndisþokkanum

90

Ragnar Blöndal

Þeir sem setja svip á bæinn versla við okkur

91

Olíuverzlun SHELL

Hafið ætíð í huga - hvað best má duga

92

Olíuverzlun SHELL

Í hríð og frosti hefur hún alla kosti vetrarolíur X-100

93

Olíuverzlun SHELL

Dropinn sem allir seilast eftir X-100

94

Olíuverzlun SHELL

Shell smyr betur líka um vetur

95

Olíuverzlun SHELL

Shell smurt er vel smurt

96

S.Í.S. - kjörbúð

Sjálfs er höndin hollust

97

S.Í.S Afurðasalan

Yðar er aðeins að velja

98

S.Í.F.

Opnið eina dós og gæðin koma í ljós

99

Niðursuðuverksmiðja S.Í.F.

Allt yðar líf eitthvað frá S.Í.F.

100

Síld og fiskur

Að lokinni góðri máltíð

101

Sjafnarkerti

Tendrið jólaljósin

102

Skipaútgerð ríkisins

Ferðist með yðar eigin skipum

103

Sparta

Það styttist til jóla

104

Sparta

Efni og snið sem best á við

105

Tíminn

Fylgist með tímanum

106

Tíminn

Fylgist með Tímanum

107

Sverrir Bernhöft

Heimsmarkaðurinn er okkar

108

Vátryggingafélagið

Fljótur tryggið eigur yðar í tæka tíð

109

Vátryggingafélagið

Ef upp kemur eldur ertu ofurseldur

110

Victor Kr Helgason veggfóðursverzlun

Á leið til yðar

111

Victor Kr Helgason veggfóðursverzlun

Veggfóður í öllum regnbogans litum

112

Þorlákur Jónsson Grettisgötu 3

Setjið yður í samband við okkur

113

Ölgerðin Egill Skallagrímsson

Öl er innri maður

114

Ölgerðin Egill Skallagrímsson

Egils svalandi jóladrykkir

115

Ölgerðin Egill Skallagrímsson

Egils jóladrykkir

116

Ölgerðin Egill Skallagrímsson

Egils - við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld

117

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið - sjálfur fiskarðu ekki í soðið

118

Blómabúðin Garður

Blóm ef orðin bresta

119

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

120

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

121

Blómabúðin Garður

Sendum blóm um allan bæinn

122

Jón Símonarson

Undirstaða daglega lífsins

123

Perlan ( S.Í.S)

Perlan sem allir sækjast eftir

124

Ponds snyrtivörur

Viðhaldið fegurðinni og yndisþokkanum ...

125

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

126

Gefjun

Sterkur má sér líkan finna. Grilon Merino

127

Pensillinn Laugavegi 4

Á leiðinni til yðar

128

Litla blómabúðin

Vorið er komið

129

Hampiðjan

Sterkur má sér líkan finna

130

Lárus G Lúðvíksson

LGL tískan 1955

131

Victor Kr Helgason veggfóðursverzlun

Veggfóðrið gerir allan muninn

132

Glæsir

Það slær okkur enginn af laginu

133

Victor Kr Helgason veggfóðursverzlun

Nýtt veggfóður

134

Prjónastofan Hlín

Tískan er á okkar bandi

135

Vigfús Guðbrandsson

Saumum föt eftir máli og yðar fyrirsögn

136

Ragnar Blöndal

Allt í tízku

137

Victor Kr Helgason veggfóðursverzlun

Fylgið tízkunni

138

Prjónastofan Hlín

Á stefnumótið fer hún í peysu frá okkur

139

Prjónastofan Hlín

Tískan er á okkar bandi 

140

Victor Kr Helgason veggfóðursverzlun

Það líður að hvítasunnu

141

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

142

Jón Símonarson

Hátíðabrigði

143

Vátryggingarfélagið

Tryggðu aleigu þína

144

Málarinn

Allir regnbogans litir

145

Lárus G Lúðvígsson

Leiðir tízkuna

146

Hreins

Spyrjið alltaf um

147

Framtíðin

Það er skíðafæri á fjöllum

148

Prjónastofan Hlín

Leggið vandann í okkar hendur

149

Vigfús Guðbrandsson

Vigfús Guðbrandsson

150

Hreinn

ær hafi allar séð hvers helst þarf með

151

Sparta

Opnið viðskipti við okkur

152

Regnboginn

Augnayndi eru fagrir litir

153

G.J. Fossberg vélaverslun

G.J. Fossberg

154

Hreinn

Þær eru allar eins velja aðeins Hreins

155

Almennar Tryggingar

Takið í okkar útréttu hönd

156

Prjónastofan Hlín

Æskan er á okkar bandi

157

Olíuverslun SHELL

Ný X-100 betri en nokkru sinni fyrr

158

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

159

Hótel Vík

Ljúffengur matur

160

Blómabúðin Garður

Blómabúðin Garður

161

Fiskhöllin

Borðið fisk og sparið

162

Ragnar Blöndal

Hjá okkur auka þær á yndisþokkann

163

Vátryggingarfélagið

Ef upp kemur eldur ertu ofurseldur

 

Jafnframt krefjast stefnendur þess b) að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að afhenda stefnendum frumgerðir eftirtalinna sex myndverka.

 

Nr.

Nafn auglýsanda

Texti á myndverki

myndverks

 

 

JK01

Bókabúð Lárusar Blöndal

Bókin á hug hans allan

JK02

Hans Petersen

Jólin byrja hjá okkur

JK03

Mjólkursamsalan

Skyrið og rjóminn er þjóðarsóminn

JK04

Morgunblaðið

Snemma á daginn fer blaðið um bæinn

JK09

OPAL sælgætisgerð

Hún gaf honum Opal

JK10

OPAL sælgætisgerð

Einn pakki á dag kemur öllu í lag

 

Verði þær aðalkröfur sem tilgreindar eru í liðum a) og b) ekki teknar til greina er þess krafist til vara að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði dæmd til að afhenda eftirgerðir af þeim verkum sem tilgreind eru í a- og b-liðum aðalkröfu, nánar tiltekið rafræn eintök af skönnuðum verkum eða litfilmur.

Stefnendur krefjast þess jafnframt að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að greiða þeim skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 5.131.067 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur þess að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum miskabætur að fjárhæð kr. 11.990.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnendur krefjast þess einnig að stefndi Fabrik ehf. verði dæmdur til að greiða stefnendum skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 1.089.573 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Enn fremur er þess krafist að stefndi Fabrik ehf. greiði stefnendum miskabætur að fjárhæð kr. 15.080.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefjast stefnendur þess að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 1.224.316 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er þess krafist að Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum miskabætur fyrir að fjárhæð kr. 470.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnendur krefjast þess einnig að stefndi Familían ehf. verði dæmdur til að fjarlægja kynningarmerkið RAFSKINNA af vef sem er vistaður á léninu rafskinna.net og að fjarlægja eftirfarandi færslur af samskiptavefnum facebook.com.

 

a)      ljósmynd með merkingu um að hafa verið sett inn á vefinn þann 29. október 2013, en ljósmyndin hefur að geyma mynd af boðskorti vegna sýningar svokallaðra Rafskinnumynda í Gallerí Fold í nóvember 2013,

b)      frétt með merkingu um að hafa verið sett inn á vefinn þann 1. nóvember 2013, þar sem fram kemur að Gunnar Bachmann hafi gert auglýsingamyndir á sínum tíma,

c)      ljósmynd með merkingu um að hafa verið sett inn á vefinn þann 11. nóvember 2013, en á ljósmyndinni birtist myndverk Jóns Kristinssonar, Hafið ætíð í huga hvað mest má duga,

d)     frétt með merkingu um að hafa verið sett inn á vefinn þann 14. nóvember 2013 en í fréttinni er að finna myndverk Jóns Kristinssonar, Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld.

e)      frétt með merkingu um að hafa verið sett inn á vefinn þann 21. nóvember 2013, en í fréttinni er að finna myndverk Jóns Kristinssonar, Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld. 

 

Loks er þess krafist að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði dæmd til að þola að öll eintök í birgðum af eftirprentunum af verkum Jóns Kristinssonar í formi boðskorts, póstkorta, límmiða, veggspjalda og auglýsingaspjalds verði afhent stefnendum til eyðingar og að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, og Margrét Þorsteinsdóttir verði dæmd til að fá birtan dóm í máli þessu í heild í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Loks er þess krafist að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði dæmd til að greiða stefnendum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttur krefjast þess í fyrsta lagi að máli þessu verði vísað frá dómi. Ef ekki verður fallist á frávísunarkröfu er þess aðallega krafist að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnenda verði stórlega lækkaðar og stefndu verði sýknuð af kröfu um afhendingu frumgerða myndverka samkvæmt kröfuliðum 1. a) og b). Til þrautavara krefjast stefndu þess að kröfur stefnenda um skaðabætur og miskabætur verði stórlega lækkaðar.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir krefjast þess einnig að í kröfuliðum II til og með IV verði jafnframt viðurkennt með dómi að Gunnar Bachmann hafi verið samhöfundur að þeim verkum sem mál þetta snýst um. Þá er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins í öllum ofangreindum tilvikum, eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi Fabrik ehf. krefst þess aðallega að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi en til vara að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnenda. Þá er þess krafist að stefnendur verði dæmdir í báðum tilvikum sameiginlega til að greiða stefnda málskostnað með álagi samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til þrautavara krefst stefndi Fabrik ehf. þess til vara að dómkröfur stefnenda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

 

II. Málavextir

Mál þetta snýst í meginatriðum um það hvort stefndu hafi brotið gegn höfundarréttindum Jóns Kristinssonar með sýningu sem var sett var upp í Gallerí Fold í Reykjavík í nóvember 2013 á myndverkum, sem Jón Kristinsson og annar maður gerðu og birtust upphaflega í rafknúinni flettiauglýsingagrind, sem bar heitið Rafskinna. Rafskinna var staðsett í glugga í Austurstræti í Reykjavík fyrir og um miðbik síðustu aldar og í henni voru sýndar auglýsingar frá ýmsum fyrirtækjum.

Samkvæmt gögnum málsins mun Gunnar Bachmann, sem fæddur var á árinu 1901, hafa komið Rafskinnu á fót árið 1935 en hann hafði kynnst sams konar fyrirbæri í París. Sýningum á myndum í Rafskinnu mun hafa verið hagað þannig að þær fóru fram tvisvar á ári, sú fyrsta að vori til en sú síðari fyrir jólin. Í hverri sýningu voru að jafnaði 64 auglýsingar.

Upphaflega mun Tryggvi Magnússon hafa annast teikningar fyrir Rafskinnu. Þegar Tryggvi þurfti að hætta þessum teikningum vegna veikinda árið 1943 leitaði Gunnar Bachmann til Jóns Kristinssonar, sem þá var við nám við Menntaskólann á Akureyri og teiknaði hann auglýsingar í Rafskinnu frá vori 1943 til jóla 1957 þegar starfsemin lagðist af í kjölfar sviplegs andláts Gunnars.

Stefnendur í máli þessu eru börn Jóns Kristinssonar en Jón lést árið 2009. Stefnda Margrét Bachmann, er ekkja Benedikts Bachmann, sem var eitt fjögurra barna Gunnars Bachmann en Benedikt lést árið 2012. Stefndu Hrefna og Þorsteinn eru börn Margrétar og Benedikts heitins, en árið 2013 stofnuðu þau félagið Familían ehf. sem síðan skráði lénið rafskinna.net og er meðal stefndu í máli þessu. Stefndi Fabrik ehf. annast rekstur Gallerí Foldar.

Auglýsingarnar sem mál þetta lýtur að og birtust í Rafskinnu voru málaðar teikningar á pappír með teiknuðum texta úr letri sem Jón hannaði. Þar voru jafnframt teikningar af merki eða vöru auglýsandans. Teikningarnar voru flestar eða allar verið merktar Rafskinnu og stundum líka með nafni Jóns. Verklagið mun hafa verið þannig að Jón afhenti Gunnari frummynd auglýsinga og ekkert afrit verið gert, en auglýsingarnar voru síðan til sýnis í auglýsingagrindinni í tvær til þrjár vikur.

Ekki verður séð af gögnum málsins að Jón hafi verið starfsmaður hjá Gunnari Bachmann á þeim tíma sem auglýsingarnar sem mál þetta lýtur að voru teiknaðar. Þá verður heldur ekki séð að Jón og Gunnar hafi gert með sér skriflega samninga um teiknun auglýsinga ef frá er talinn samningur frá 19. janúar 1949. Í þeim samningi er kveðið á um að Jón skuldbindi sig til að teikna 64 myndir í ,,venjulegri stærð gerð og svipuðum gæðum og hann hefur áður gert í sama skyni til afnota fyrir auglýsingabókina Rafskinnu“.

Í samningnum er jafnframt mælt fyrir um myndirnar skuli allar fullgerðar fyrir 1. maí 1949, enda skuldbindi Gunnar sig til að ,,sjá um að ekki verði töf á áframhaldandi starfi Jóns vegna skorts á efni eða nægilega nákvæmum fyrirmælum og fyrirsögnum um gerð myndanna“. Enn fremur segir í samningnum að Gunnar ,,leggi til allt efni og áhöld til framleiðslunnar“ þegar Jón óski þess. Þá skuli Gunnar gefa honum ,,áðurnefnd fyrirmæli“ þegar Jón óski þess. Þá skuldbatt Jón sig til að teikna 64 myndir í jólasýningu Rafskinnu sem skyldu vera tilbúnar eigi síðar en 16. nóvember 1949.

Samkvæmt því sem fram kom við meðferð málsins fyrir dómi mun Jón haft aðstöðu til vinnu sinnar á auglýsingateiknistofu frænda síns í 3-4 ár, en síðar á heimili sínu í Lambey í Fljótshlíð í Rangárvallasýslu og hafi hann allt frá byrjun sjálfur lagt til efni og áhöld. Kristjana Jónsdóttir, einn stefnanda í máli þessu, bar fyrir dómi að faðir hennar hefði teiknað myndir á heimili sínu í Lambey en myndirnar síðan verið sendar með rútu. Hefur þeirri staðhæfingu ekki verið mótmælt.

Gögn málsins geyma að öðru leyti takmarkaðar upplýsingar um samskipti Jóns Kristinssonar og Gunnars Bachmann ef frá eru talið bréf Jóns til Gunnars, dags. 28. mars 1954, og síðan svarbréf Gunnars til Jóns, dags. 1. apríl sama ár. Í bréfi Jóns til Gunnars segir annars svo:

 

                        „Ég hefi hugsað mér að skrifa þér nokkrar línur víðvíkjandi Rafskinnu.

            Vinnan við gerð teikninganna hefur gengið að óskum frá því er við skildum síðan og nú (28. mars) hefi ég fulllokið 40 myndum og á því eftir 3-4 hér heima.

                        Árangurinn er með besta móti enda ekkert til sparað. Auglýsingagildi yfirleitt gott og ég hugsa að þú verðir ánægður með beggja vinnu. En það er annað, sem ég vildi minnast á með þessu bréfi mínu.

Mér var sagt frá því síðast þegar ég var í bænum að Rafskinnuauglýsingin hefði verið hækkuð upp í kr. 750.00.

Ég trúði þessu ekki þá og gerði ekkert til að staðfesta það. Nú hefi ég svo komist að því að þetta er rétt og undrar mig að þú skulir ekki hafa látið mig neitt um þetta vita.

Þó að þú sért náttúrlega algerlega sjálfráður um það hversu mikið þú krefst fyrir þínar auglýsingar, þá er ekki hægt að vinna þetta verk, fyrir hvorugan aðila, nema með svo nánu samstarfi, að slík leynd getur og á ekki að eiga sér stað. Mér finnst það mjög vafasamur hagnaður hjá þér að láta mig ekki vita hvert sé peningagildi þeirrar vinnu, sem teiknarinn framkvæmir.

                        Hvorugur okkar, Gunnar, framkvæmir þetta verk að gamni sínu. Þetta er okkar atvinna sem langt sem hún nær og báðir vilja fá sitt fyrir sína vinnu. Rafskinna á mikið undir því komið að hún hafi á að skipa teiknara sem framkvæmir verk sitt með það í huga að það sé krafist meira af myndum hans heldur en það sem hann fær í sinn vasa. Rafskinna gengi ekki lengi ef teiknarinn hugsaði sem svo: „Ég fæ fyrir þetta kr. 160 og framkvæmi verkið náttúrlega eftir því.“

                        Nái auglýsing, sem á að seljast fyrir kr. 750 verður að gera meira fyrir bæði af teiknara og þér, heldur en þá sem á að seljast á kr. 550.

                        Þó að þú með þessari hækkun gefir mér óbeint mikið kompliment er ég ekki ánægður með minn hlut.

                        Þegar ég byrjaði að teikna Rafskinnu fyrir 7-8 árum, seldir þú auglýsinguna á kr. 225 og bauðst mér þá kr. 75 og vorum við báðir ánægðir með þá greiðslu. Þessu hlutfalli hefi ég viljað halda og er það mjög réttmæt krafa að hver aðili Rafskinnu, þú og teiknarinn fái jafnt.

                        Teiknarinn hefur þá áhættu að þú dæmir verk hans ónothæft og hann fer heim með sína mynd ógreidda. Þó að auglýsingin fáist ekki greidd og Rafskinnu leggi fram þá vinnu er í kringum bókina þarf. Með núverandi verðlagi fellur þá í hlut Rafskinnu og þá þín kr. 64 þúsund á ári, teiknarans 32.

            Auk þeirrar áhættu fyrir teiknarann að verk hans sé dæmt ónýtt fyndist mér ef til vill rétt að hann tæki að sér þann kostnað, sem til vinnu hans þarf, pappír, liti og margt fleira, sem Rafskinna hefur að nokkru leyti greitt fram að þessu og komi til greina að ég samþykkti þá breytingu.

                        Með þessum línum vildi ég taka skýrt fram hvaða álit ég hefi á þessu og hvað ég fer fram á. Með þetta til grundvallar skal ég gera samning við þig sem lengri eða skemmri tíma.

                        Hitt er svo annað mál að það eru til miklu fleiri teiknarar en ég. Hugsanlegt væri að þú dyttir niður á einhvern, sem hefði annað sjónarmið á þessu en ég og vildi vinna verkið fyrir lægra verð og væri þá ekkert eðlilegra en að þú gripir þann hagnað og skiptir um teiknara. Ég er ekki á neinu atvinnuhallæri og mín bíða nóg verkefni, en óánægður get ég aldrei teiknað Rafskinnu svo vel sé.

                        Ég valdi þann kostinn að skrifa þér um þetta frekar en koma suður og ræða um það við þig þar. Slíkt hefði aðeins orðið til tafar.

Nú er það í þínu valdi hvort ég á að halda áfram við þessa sýningu eða ekki. Eins og ég tók fram í upphafi er hér fulllokið 40 myndum og á þessum fjórum byrja ég svo. Þegar þú hefur látið mig vita hvort að samkomulagi geti orðið eða ekki. Þyrfti ég þá að vita um það sem fyrst vegna beiðni um annað starf, sem ég get ekki tekið að mér ef ég held áfram við Rafskinnu.“

 

            Gunnar svaraði bréfi Jóns sem fyrr segir 1. apríl 1954 en í því bréfi segir meðal annars:

 

                        „Þú talar um að ég hafi með leynd hækkað verð auglýsinga upp í kr. 750 pr mynd. Skil ég mætavel hlýleik þess hugarfars er liggur að baki þessa orðalags. Rétt er það, að auglýsingamyndir síðustu jólasýningar seldi ég af illri nauðsyn á kr. 750 pr mynd, en rangt er það, að nokkur leynd hafi hvílt yfir þeirri ákvörðun minni. Og hvernig það er kompliment fyrir þig, að vera í þjónustu þess tíðaranda, sem sífellt reisir dýrtíðarölduna hærra og hærra – það fæ ég ekki skilið. Hins vegar skal ég taka það fram, að ég tel þig maklegan góðra komplimenta fyrir margt, sem þú hefur vel gert, og tel ég mig aldrei hafa setið fyrir þeirri birtu sem til þín gat skilið.

                        Tilraun mína um breytt verð Rafskinnuauglýsinga tel ég þér algerlega óviðkomandi, líkt og um umbúnað sýninga og annað fyrirkomulag, sem verður eftir geðþótta mínum á hverjum tíma. Þar til þú hefir keypt hlutdeild í fyrirtækinu, sem þér hefir staðið til boða um árabil. Skal ég gjarnan gera frekari grein fyrir hækkun auglýsingamyndanna, sem eins og fyrr greinir, var gerð af illri nauðsyn, en jafnframt okkur báðum til framdráttar, eins og síðar mun koma fram í þessu bréfi – og þá ekki síður þér.

                        Eins og þig mun reka minni til, þá reyndi ég mjög að láta þig skilja á sínum tíma að fyrirtækið þyldi ekki hækkun þína á teiknikostnaði upp í 160 krónur pr mynd. Samþykkti ég það þó vegna þess, að mér fannst æskilegt að þinn hlutur gæti verið sem bestur. Reyndi ég vel eftir hækkun þína að viðhalda sama söluverði myndanna. Það var fyrst eftir síðustu jólasýningu að til athugunar kom um breytt og hækkað söluverð myndanna, m.ö.o. þegar sýnt var hve allur kostnaður við sýninguna hafði hækkað. Var þá tekin sú ákvörðun að senda út reikninga á kr 750 pr mynd, með meðfylgjandi munnlegum skýringum innheimtumanns á svo óeðlilegri aðferð að auglýsendum forspurðum. Enn er ekki útséð um hvort þessi tilraun um hækkað verð beri þann árangur, sem nauðsynlegur er til áframhalds auglýsingastarfseminni.

                        Þig mun reka minni til þess, hver margsinnis ég hefi rætt við þig nauðsyn þess að hækka auglýsingaverð mitt ef mögulegt væri, sökum síhækkandi reksturskostnaðar og vanhalda í innheimtu oft og tíðum. Og síðast er þú varst hér syðra, talaði ég um við þig að helst þyrfti ég að selja þessar auglýsingar í Rafskinnu á 1000 krónur pr stk, ef þetta ætti að vera nokkur business sem máli skipti fyrir okkur. Þessu tek ég fram, til að minna þig á, að hug minn veist þú allan í þessu hækkunarmáli, ætíð síðan þín síðasta hækkun fór fram.

                        Hefði þetta vanhugsaða bréf þitt, sem eins og áður segir, ég vildi óska að þú ekki hefðir freistast til að skrifa, komið eins og óvæntur sólmyrkvi rétt dögum nýrrar sýningar, þá var meining mín að geyma þér til nægilegrar vakningar um hug minn til þín, er fundum okkar næst bæri saman, þá gleðifregn að framvegis, þar til öðruvísi skipaðist til, myndi ég geta greitt þér krónur 200 pr auglýsingamynd inclusive þessa fyrirhugðu vorsýningu. Því sannarlega væri það mér ánægjuauki að geta farið stighækkandi í greiðslum til þín, eftir því sem mér tækist á hverjum tíma að pota upp söluveðri auglýsinganna, sem þó er mjög viðkvæmt mál.

                        Verst er þó að þú skyldir með bréfi þínu taka frá mér ánægjuna að tilkynna þér persónulega um hækkun þá, sem fyrr greinir í greiðslu til þín. Því vissulega hefði ég haft ánægju af að sjá glampa gleðinnar í augum þér við slíka fregn. Ákvörðun þín um að hætta þegar starfi, orsakar að ég verð að tjá þér þessa frétt nú strax.

                        Um dulbúnar hótanir í bréfi þínu nenni ég ekki að ræða, tel þær svo fjarstæðukenndar. Veit líka að „sjálfur“ ertu kominn á aðra skoðun. Hins vegar gleðst ég yfir bjartri framtíð þinni í atvinnumálum og væri fús til að leggja þér lið ef það væri á mínu valdi.“

           

Í gögnum málsins er ekki að finna frekari gögn um samskipti Gunnars og Jóns. Jón mun hins vegar hafa sinnt því áfram að teikna myndir fyrir Rafskinnu allt til ársins 1957 en það ár lést Gunnar. 

Um aðkomu þeirra Gunnars og Jóns að gerð Rafskinnu nýtur ekki við annarra gagna í málinu ef frá eru talin viðtöl sem tekin voru við Jón og birt í dagblöðum. Þannig segir í viðtali við Jón sem birtist í Þjóðviljanum 21. desember 1992 að þeir hafi haft þann háttinn á að Gunnar lagði til hugmyndir og texta en Jón hafi teiknað. Er haft eftir Jóni í viðtalinu að „Gunnar [hafi verið] mjög hugmyndaríkur en enginn teiknari“. Þá hafi Jón ekki oft neitað að „teikna hugmynd frá Gunnari en þó [hafi það komið] fyrir.“

Stefnendur öfluðu undir rekstri málsins matsgerðar Atla Hilmarssonar, grafísks hönnuðar og dómkvadds matsmanns í málinu. Í matsgerð hans sem dagsett er 13. febrúar 2017 kemur fram að Jón Kristinsson hafi útfært letur fyrir hvert verk, aðlagað þau að uppsetningu og samsetningu orða og breytt ýmsum stöfum til þess að þau féllu betur að verkum hans. Þá segir þar að letrin sem notuð eru í leturmerkinu Rafskinna séu öll teiknuð af Jóni. Þótt finna megi svipuð letur séu þessir bókstafir sköpun Jóns. Þá er þar lýst þeirri niðurstöðu að letrin sem Jón teiknaði og útfærði séu einstök og hans höfundarverk. Matsmaðurinn kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti þar niðurstöður sínar.

Stefnendur Kristjana, Þórhildur og Þorsteinn Jónsbörn gáfu öll skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í framburði Kristjönu og Þórhildar fyrir dómi kom meðal annars fram að Benedikt Bachmann heitinn, sonur Gunnars Bachmann, og stefnda Margrét hafi sótt Jón Kristinsson heim á árunum 2001 til 2005 og rætt við hann áform um að sýna myndir eftir hann opinberlega, en Jón hafi fram að því haldið að myndirnar væru glataðar. Stefnda Margrét Þorsteinsdóttir kom einnig fyrir dóminn og bar hún að hún hefði farið á fund Jóns Kristinssonar ásamt Benedikt a.m.k. tvisvar á tímabilinu 2001-2004 og að Jón hefði tekið vel í áform um sýningu myndanna.

Samkvæmt framburðum aðila fyrir dómi mun stefndi Þorsteinn hafa haft samband við stefnanda Kristjönu símleiðis í lok október 2013 og tjáð henni að afkomendur Gunnars Bachmann undirbyggju sýningu í Gallerí Fold í Reykjavík, sem stefndi Fabrik ehf. rekur, á myndverkum, sem Jón Kristinsson og Tryggvi Magnússon hefðu gert og birtust í Rafskinnu. Óumdeilt er að ekki var leitað samþykkis stefnenda fyrir opinberri sýningu á verkum Jóns.

Í framhaldi af þessu hafi stefnendum öllum verið boðið að vera viðstödd opnun sýningarinnar 1. nóvember 2013. Á boðskortum hafi verið mynd, sem skeytt var saman úr hlutum af teikningum Jóns, auk þess sem þar hafi verið orðið Rafskinna, sem hafi verið sett saman með bókstöfum sem hafi verið klipptir út úr texta á myndverkum hans.

Sýningin var í kjölfarið opnuð 1. nóvember 2013 í húsnæði Gallerí Foldar við Rauðarársstíg 12-14 í Reykjavík. Óumdeilt er að á sýningunni voru frummyndir af verkum Jóns verið til sölu. Að auki voru boðin til sölu myndverk sem voru fjölfölduð með gerð veggspjalda, póstkorta og límmiða, sem einnig hafi verið merkt með áletruninni „© familían ehf. | www.rafskinna.net“ en höfundar verkanna var þar ekki getið. Sýningunni lauk 24. nóvember 2013.

Stefnendur leituðu til Myndstefs í kjölfar þess að þeir fréttu af opnun sýningarinnar og áttu fund með lögfræðingi Myndstefs þriðjudaginn 5. nóvember 2013. Myndstef sendi bréf þann dag til stefnda Þorsteins Bachmann, stefndu, Hrefnu Bachmann, og stefnda, Fabrik ehf., er rekur Gallerí Fold, þar sem krafist var skýringa á heimildum til sýningarhaldsins. Átti lögfræðingur Myndstefs í kjölfarið fund með stefndu Þorsteini og Hrefnu. Stefnendur leituðu í kjölfarið til lögmanns. Eftir árangurslausar tilraunir aðilanna til að ná samkomulagi höfðuðu stefnendur mál 20. október 2015 á hendur stefndu.

 

III. Málsástæður aðila

 

Málsástæður stefnenda

Um höfundarétt Jóns Kristinssonar

Af hálfu stefnenda í málinu er byggt á því að Jón Kristinsson sé höfundur myndverka sem greind eru í stefnu og dómkrafa stefnenda lýtur að. Vísa stefnendur til þess að þegar Jón teiknaði myndverkin voru í gildi lög nr. 46/1905 um rithöfundarétt og prentrétt, með síðari breytingum, og hafi fyrstu verkin notið verndar sem myndir er höfðu listgildi samkvæmt þeim lögum, sbr. einnig um vernd verka er síðar urðu til lög nr. 49/1943 sem sömuleiðis breyttu lögum nr. 46/1905. Loks hafi 63. gr. höfundalaga nr. 73/1972 tekið af öll tvímæli um að verk sem orðið höfðu til fyrir gildistöku laganna nytu verndar þeirra. Verkin hafi þannig um áratuga skeið notið höfundaréttar sem myndlistarverk, sbr. 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

Eins og áður hafi komið fram lést Jón á árinu 2009 og því sé enn langt í að höfundaréttindin falli úr gildi, sbr. 1. mgr. 43. gr. höfundalaga.

Málatilbúnaður stefnenda byggist á því að höfundaréttur Jóns nái til teikninganna sem birtast í verkunum og leturs þess texta sem þar er að finna. Að svo miklu leyti sem höfundaréttindi ná til texta verkanna þá sé Jón höfundur textans. Stefnendur byggja jafnframt á því að engin höfundaréttindi tengd umræddum verkum hafi stofnast í öndverðu til handa Gunnari Bachmann.

Stefnendur kveða ljóst að Jón hafi unnið myndverkin sem verktaki og ekki framselt höfundarétt sinn að verkunum til neins aðila. Með hinum munnlega verktakasamningi sínum við Gunnar Bachmann hafi Jón veitt Gunnari heimild til að sýna frumverkin opinberlega í auglýsinga-flettigrindinni Rafskinnu. Engar aðrar heimildir höfundaréttar hafa af hálfu Jóns eða erfingja hans verið framseldar að verkum þessum utan heimildir til sýningar á sýningu í Norræna húsinu á árinu 1997. Einnig veittu stefnendur heimild til birtingar verka Jóns í bók er Mjólkursamsalan gaf út á árinu 2007. Þetta skýrist m.a. af því að Gunnar rak ekki neina aðra starfsemi er kynni að krefjast þess að verkin yrðu nýtt frekar á hans vegum en Gunnari var óheimilt að framselja öðrum þá heimild er hann öðlaðist til nýtingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. höfundalaga. Því sé fráleitt að telja að Jón hafi framselt heimild til gerðar eintaka af þeim verkum er unnin voru til sýningar í auglýsingaflettigrindinni.

Stefnendur benda á að samkvæmt óskráðum reglum höfundaréttar flytjist tilteknar heimildir höfundaréttar yfir til vinnuveitanda í krafti vinnusambands en slíkt gerist eingöngu í þeim mæli sem vinnuveitanda er nauðsynleg nýting verksins til að tilgangi með vinnusamningnum sé náð og að því marki sem starfsemi vinnuveitanda krefst. Þannig sé algild regla að starfsmenn er starfa við gerð hugverka, svo sem á fjölmiðlum, á auglýsingastofum, o.s.frv., framselja vinnuveitanda eingöngu þann rétt er nauðsynlegur til að nýta verkin með þeim hætti er starfsemin krefst hverju sinni. Öruggt er að Jón var aldrei fastráðinn starfsmaður Gunnars Bachmann.

Stefnendur taka fram að jafnvel þótt talið yrði að Jón hefði unnið myndverkin að einhverju leyti sem lausráðinn starfsmaður sé ljóst að Gunnar öðlaðist engan frekari rétt til nýtingar verkanna en réttinn til sýningar í Rafskinnu. Því sé ljóst að Gunnar Bachmann öðlaðist aldrei neinar heimildir til slíkrar afleiddrar notkunar verkanna sem stefndu hafa viðhaft.

Stefnendur taka fram að Jón vann myndverkin algerlega sjálfstætt og ekki eftir forskrift Gunnars, þó svo að Gunnar hafi í einhverjum tilvikum látið í té óskir um hvert myndefnið skyldi vera. Slíkt skapi Gunnari þó ekki höfundaréttindi. Þá benda stefnendur á að Jón aflaði yfirleitt sjálfur efnis og áhalda til gerðar verkanna og hann hafði ekki aðstöðu undir sama þaki og Gunnar. Því sé fráleitt að Gunnar sé að einhverju leyti höfundur verkanna.

Loks benda stefnendur á að opinber kynning myndlistarverks á listsýningum og með öðrum hliðstæðum hætti sé ætíð óheimil án samþykkis höfundar nema um sé að ræða opinbert listasafn sem ekki eigi við í þessu tilviki, sjá 1. mgr. 25. gr. höfundalaga.

Af þessum sökum er öll sú nýting er krafist er skaðabóta fyrir í málinu óheimil án samþykkis stefnenda.

 

Málsástæður til stuðnings aðalkröfu um afhendingu frumverka og/eða eftirgerða í kröfulið 1

 

Stefnendur telja að samkvæmt samningssambandi Jóns og Gunnars hafi Gunnari eingöngu verið heimilt að nýta myndverkin til birtingar í Rafskinnu. Sú heimild krafðist þess að Gunnar hefði í vörslu sinni verk sem notuð voru á hverri sýningu fyrir sig meðan viðkomandi sýning stóð yfir. Heimildin krafðist þess hins vegar ekki að Gunnar hefði verkin í vörslu sinni lengur en það. Í skattframtölum Jóns vegna tekjuáranna 1952 – 1957, komi fram að hann stóð sjálfur straum af kaupum á efni og áhöldum sem hann þurfti til gerðar verkanna. Jón framseldi Gunnari eingöngu afnotaheimild er fólst í birtingu verkanna í Rafskinnu enda var Gunnari ekki þörf á að nýta verkin í öðrum tilgangi, sbr. hér m.a. skilmála Félags íslenskra teiknara frá 1970.

Af þessum sökum framseldi Jón Gunnari ekki eignarrétt að frumgerðum verkanna og hefur því verið réttur eigandi þeirra allt frá því þau urðu til. Vegna 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð geti ekki komið til álita að Gunnar hafi unnið hefð gagnvart frumverkunum. Stefndu sé því skylt að afhenda stefnendum þær frumgerðir er þeir hafa yfir að ráða.

Til grundvallar aðalkröfu undir þessum kröfulið eru annars vegar skrá sem stefnendur hafa unnið eftir lista yfir frumverk verka úr Rafskinnu sem stefndi, Þorsteinn, Hrefna og Margrét, kváðust hafa yfir að ráða, og lögmaður stefndu, Familíunnar, Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, afhenti þáverandi lögmanni stefnenda í mars 2014. Stefnendur hafa unnið skrána með hliðsjón af verkbókhaldi Jóns frá þessum árum og með hliðsjón af áðurgreindum listum er stefndu afhentu. Stefnendur kveðast hafa staðreynt að einhver verk á þeim lista sem stefndu afhentu þeim séu ekki eftir föður þeirra og hafa því eingöngu tekið á lista sinn verk sem eru örugglega eftir hann. Þá hafa stefnendur einnig lagt fram lista yfir verk er notuð hafa verið við þau brot er greint er frá í stefnu þessari og stefndu, Þorsteinn, Hrefna og Margrét, hafa því haft yfir að ráða, en koma þó ekki fram á skrám er lögmaður þessara stefndu afhenti lögmanni stefnenda.

Stefnendur telja einnig vera ósamræmi í yfirlýsingum þessara stefndu hvað varðar fjölda þeirra frumverka er þau hafa haft yfir að ráða. Þannig hafi þau upplýst í sjónvarpsþættinum Djöflaeyjunni að þau ættu um 800 filmur. Í samstarfssamningi Listaháskóla Íslands og stefnda Familíunnar ehf. komi hins vegar fram að skólinn hygðist taka við 587 svart/hvítum negatívum til skönnunar og rafrænnar varðveislu. Listinn sem þau afhentu stefnendum taki þó aðeins til 163 verka. Miðað við að langflest af þeim verkum er nýtt voru af stefndu í tengslum við sýninguna séu eftir Jón hlýtur að telja stefnendur líklegt líklegt að stefndu hafi haft í fórum sínum talsvert fleiri myndverk en þau hafa gert grein fyrir. Stefnendur áskilja sér því rétt til að krefja um afhendingu fleiri verka, fáist um þau vitneskja undir rekstri málsins.

Verði dómstóllinn af einhverjum sökum ekki við kröfu stefndu um að stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, afhendi frumverkin, gera stefnendur varakröfu um að þessir stefndu afhendi sér eftirgerðir af verkunum, nánar tiltekið rafræn eintök af skönnuðum verkum eða litfilmur. Krafa þessi er sett fram með tilvísun til þess að stefnendur séu höfundaréttarhafar að verkunum og eigi því rétt á að fá eintök af þeim en slík eintök má útbúa með litlum tilkostnaði og fyrirhöfn.

 

Málsástæður til stuðnings kröfu um skaðabætur

Stefnendur telja sig sem höfundaréttarhafa hafa einkarétt á að gera eintök af myndverkunum sem um ræðir, til að birta þau og sýna opinberlega, hvort sem um ræðir í óbreyttri eða í breyttri mynd, sbr. 3. gr. höfundalaga.

Stefnendur benda á að hvorki Jón sjálfur né stefnendur hafa með neinum hætti heimilað stefndu nýtingu myndverkanna. Stefnendur telja því að með þeim aðgerðum sem nú verður lýst verið framin stórfelld brot á höfundarétti Jóns til fjölmargra myndverka hans, sbr. 3. gr. höfundalaga um einkarétt til eintakagerðar og opinberrar birtingar.

Jafnframt telja stefnendur að þessar aðgerðir feli í sér brot gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga. Brotin felist þá bæði í því að ekki var getið nafns Jóns við notkun verkanna og í breytingu á höfundarverkum hans, eftir því sem nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir.

 

Málsástæður til stuðnings málsaðild

 

Stefnendur eru í sameiningu rétthafar höfundaréttinda Jóns Kristinssonar.

Stefnendur telja að stefndi Þorsteinn Bachmann og stefnda Hrefna Bachmann beri, auk móður þeirra, Margrétar Þorsteinsdóttur, ábyrgð á brotunum þar sem þau komu fram sem gerendur brotanna bæði gagnvart stefnendum og í fjölmiðlum auk þess sem gert var ráð fyrir því í samningsdrögum frá lögmanni þessara stefndu að Margrét væri eigandi höfundaréttindanna. Í kynningu sýningarinnar sem málið lýtur að hafi enn fremur komið berlega fram að þessir þrír fjölskyldumeðlimir stæðu að sýningunni og annarri nýtingu. Stefnendur telja að engu máli skipti þótt Familían ehf. kunni að hafa greitt kostnað, gefið út reikninga og bókfært tekjur vegna nýtingarinnar.

Í stefnu málsins kemur þó fram að félagi þessara stefndu, Familíunni ehf., sé stefnt þar sem félagið muni hafa bókfært tekjur vegna hinnar þeirrar starfsemi sem stefnendur telja ólögmæta. Þeir þættir stefnukröfu er félaginu er stefnt fyrir eru kröfur vegna gerðar boðskorts, auglýsingaspjalds, póstkorta og límmiða, auglýsingaspjalda til birtingar á biðstöðvum Strætó, auk þátta sem unnir voru í samstarfi við Fabrik ehf., sem rekur Gallerí Fold. Þessum stefndu er ekki stefnt til greiðslu skaðabóta fyrir birtingar auglýsinga um sýninguna .

Félaginu Fabrik ehf. er stefnt til greiðslu skaðabóta fyrir tjón er varð vegna sýningar verkanna í sýningarsal Gallerís Foldar er félagið hefur yfir að ráða og kynningu sýningarinnar í miðlum er félagið hafði yfir að ráða eða óskaði birtingar í, þ.e. Facebook síðu gallerísins, vefnum www.listaposturinn.is, Fréttablaðinu, auk sendingar á póstlista félagsins.

 

Greinargerð um brot stefndu á höfundaréttindum Jóns Kristinssonar

Stefnendur telja að brot stefndu felist í þeim aðgerðum sem lýst hér að neðan.

 

1.         Sýning í Gallerí Fold 1. – 24. nóvember 2013 og kynning á henni

Stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, stóðu fyrir sýningu verka Jóns Kristinssonar á opinberri sýningu í Gallerí Fold, Rauðarárstíg 12 – 14, Reykjavík, dagana 1. – 24. nóvember 2013. Stefndi Þorsteinn opnaði sýninguna.

Stefnendur telja að sýning verkanna hafi falið í sér opinbera birtingu í skilningi höfundaréttar, nánar tiltekið opinbera sýningu eintaks af verkunum og var brot á einkarétti höfundar, samkvæmt 3., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga. Telja stefnendur að margvísleg brot gegn höfundaréttindum Jóns hafi verið framin í tengslum við sýninguna, samkvæmt því sem gerð er grein fyrir að neðan. Við tilgreiningu verka er í öllum tilfellum vísað til lista sem stefnendur hafa útbúið og sýnir yfirlit yfir hin fjölmörgu meintu brot gegn verkunum.

Að því er varðar bótakröfur stefnenda vegna sýningarinnar er í fyrsta lagi gerð krafa á hendur stefndu Familíunni ehf., Þorsteini Bachmann, Hrefnu Bachmann og Margréti Þorsteinsdóttur vegna framleiðslu boðskorts á sýninguna, sbr. a-lið bótakröfu stefnenda vegna þessa þáttar málsins. Að því er varðar birtingu og sendingu boðskorta fyrir sýninguna á verkum Jóns í Gallerí Fold, sem og birtingu auglýsinga fyrir hana, sem lýst er í b- til j-lið hér að neðan og eru hins vegar aðeins gerðar kröfur á hendur rekstraraðila Gallerí Foldar, Fabrik ehf., enda kveðast stefnendur ekki vita til þess að stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, hafi haft neina aðkomu að þessum athöfunum.

Að að því er snertir sjálfa sýninguna á verkum Jóns í Gallerí Fold 1. – 24. nóvember 2013 gera stefnendur kröfur á hendur öllum stefndu í málinu vegna þeirra þátta sem lýst er í liðum 1(k) til 1(p) hér á eftir. Er þá vísað til þess að stefndu, Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir, hafi haft frumkvæði að sýningunni og undirbúið hana ásamt stefnda, Fabrik ehf. sem lánaði sýningarsal undir hana. Stefndi, Þorsteinn, hafi opnað sýninguna.

 

Kröfur stefnenda á hendur Þorsteini Bachmann, Hrefnu Bachmann, Margréti Þorsteinsdóttur og Familíunni ehf.

a)         Framleiðsla boðskorts

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, létu framleiða boðskort sem sýnir brot úr fjölmörgum verkum Jóns. Kortið er í stærðinni 14,8 x 19 cm, prentað í lit á 300 g pappír.

Efst á kortinu er að finna níu bókstafi. Hver og einn bókstafanna er klipptur út úr myndverkum Jóns en saman mynda þeir á kortinu nýtt heildstætt myndverk sem hefur að geyma fyrirsögnina RAFSKINNA. Myndverk Jóns sem notuð eru í fyrirsögnina eru eftirfarandi, en vísað er til fyrirsagna í myndunum til auðkenningar:

 

89                    Athyglin beinist að yndisþokkanum 

2                      Kraftur í hverri sneið (notað tvisvar)

47                    Blindur er bóklaus maður

JK01                Bókin á hug hans allan

21                    Klæðið af yður kuldann (notað þrisvar)

37                    Loksins allar sammála um vörugæðin.

 

Stefnendur telja að myndverkið, sem þannig var búið til sem eins konar klippimynd úr verkum Jóns, þjóni þeim tilgangi í verkefninu að vera kynningarmerki fyrir sýninguna og þá markaðssetningu sem henni fylgdi.

Stefnendur telja að í meginhluta kortsins sé einnig að finna brot úr 11 verkum Jóns. Öll myndverkin sem sýnd eru á þessum hluta kortsins eru verk Jóns, að undanskildu einu verki, Á landi, á sjó, sem er eftir Tryggva Magnússon. Þau verk Jóns er notuð voru með framangreindum hætti séu eftirfarandi, sjá einnig greiningu á gerð meginhluta boðskortsins:

 

32                    Í spilunum sér hún nýja peysu

47                    Blindur er bóklaus maður (notað tvisvar)

21                    Klæðið af yður kuldann (notað tvisvar)

102                  Ferðist með yðar eigin skipum

89                    Athyglin beinist að yndisþokkanum

45                    Mennt er máttur

87                    Gagnrýni yðar er okkur í vil

2                      Kraftur í hverri sneið

37                    Loksins allar sammála um vörugæðin

35                    Vortízkan á okkar bandi

JK01                Bókin á hug hans allan.

 

Stefnendur telja að þessi hluti kortsins hafi verið gerður af bútum úr 13 myndverkum. Stefnendur lýsa notkun myndverkanna með þeim hætti að úr þeim hafi verið klipptir 13 myndbútar sem saman, ásamt texta í tveim römmum milli myndbútanna, mynda klippimynd sem strax fangar auga þess sem skoðar. Textinn feli í sér boð á sýninguna og tilgreinir að á henni verði til sýnis auglýsingar úr sjálfvirkri töfrabók Gunnars Bachmann. Jóns Kristinssonar sé hins vegar hvergi getið á boðskortinu. Þá sé þess í engu getið hver hafi sett upp boðskortið eða prentað það.

Lögmaður stefnenda sendi lögmanni stefndu, Familíunnar ehf., Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, bréf þann 8. desember 2014, og óskaði upplýsinga um upplag boðskortsins og fjölda póstlagðra eintaka. Í svarbréfi lögmanns þessara stefndu, dags. 24. febrúar 2015, kemur fram að prentuð hafi verið 50 boðskort, engin boðskort hafi verið póstlögð en kortunum hafi verið dreift á sýningunni í Gallerí Fold.

Með tölvupósti lögmanns stefnenda 27. mars 2015, var óskað staðfestingar prentsmiðju á fjölda framleiddra eintaka. Svar við því erindi barst ekki. Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 10. júlí 2015, var erindið enn ítrekað og í svarbréfi lögmanns stefndu, dags. 24. júlí 2015, var upplýst að upplag boðskortsins hefði verið 300 stykki.

Stefnendur telja að framleiðsla og dreifing boðskortsins hafi falið í sér brot á einkarétti höfundarétthafa til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, á nafngreiningarrétti höfundar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna og á rétti til að banna breytingar á verki samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna.

Stefnendur krefja stefndu, Familíuna ehf., Þorstein, Hrefnu og Margréti, um skaðabætur vegna þessa brots. Krafa stefnenda vegna framleiðslu boðskortsins er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir póstkort, kveðjukort. Við gerð kortsins hafa verið notuð níu brot úr myndverkum Jóns í fyrirsögnina og 13 brot í meginhluta kortsins, samtals 22 myndverksbrot. Sé miðað við að upplag kortsins hafi í hæsta lagi verið 500 kveður gjaldskráin um að vegna korta sem eru stærri en 13 x 18 cm skuli gjaldið nema kr. 23.272 fyrir notkun hvers myndverksbrots eða samtals kr. 511.984.

Stefnendur telur að vöntun á tilgreiningu nafns höfundar á boðskortinu hafi valdið þeim miska. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna útgáfu boðskortsins sé kr. 1.000.000. Stefnendur vita ekki til þess að stefndi, Fabrik ehf., hafi haft neina aðkomu að gerð boðskortsins og er því ekki gerð krafa á hendur því félagi vegna þessa liðar.

 

Kröfur stefnenda á hendur Fabrik ehf. (liðir 1(b) til 1(j))

 

b)         Birting boðskorts á Facebook síðu Gallerís Foldar

Þann 29. október 2015 stofnaði Gallerí Fold svokallaðan „viðburð“ á samskiptamiðlinum Facebook. Þann dag var boðskortið birt á viðburðinum og þegar stefna þessi er gefin út var það enn að finna þar, þrátt fyrir að lögmaður stefnenda, hefði með bréfi til stefnda Fabrik ehf., dags. 31. mars 2015, krafist þess að verk Jóns yrðu þegar í stað fjarlægð af netsíðum sem fyrirtækið hefði yfir að ráða. Með birtingu boðskortsins á Facebook í 21 mánuð var framið brot á einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga. Með birtingunni var einnig framið brot á sæmdarrétti Jóns Kristinssonar, nánar tiltekið nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna þar sem hans sé að engu getið í tengslum við birtinguna.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf., um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu verka á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti í 21 mánuði. Eins og greinir undir lið a) voru notuð 22 myndverksbrot við gerð boðskortsins og ber því að miða við taxta fyrir birtingu 21 – 30 verka, kr. 16.423 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 344.883.

Skortur á tilgreiningu nafns höfundar á boðskortinu hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna birtingar boðskortsins með framangreindum hætti sé kr. 4.620.000.

 

c)         Sending boðskorts í tölvupósti til áskrifenda hjá Gallerí Fold

Gallerí Fold sendi boðskortið á rafrænu formi í tölvupósti 31. október 2013 til áskrifenda að fréttum um viðburði á vegum fyrirtækisins. Tölvuskeytið bar yfirskriftina Rafskinna – yfirlitssýning á gömlum auglýsingum.

Stefnendur telja að sending boðskortsins með þessum hætti hafi falið í sér óheimila eintakagerð, þ.e. gerð fjölmargra eintaka sem hvert um sig voru send með tölvuskeytum til jafn margra viðtakenda. Gera stefnendur ráð fyrir að fjöldi tölvuskeytanna hafi numið hundruðum eða þúsundum en slík eintakagerð er brot á einkarétti höfundarétthafa til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga og jafnframt brot á nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. gr. höfundalaga. Stefnendur skora á stefnda, Fabrik ehf., að upplýsa um fjölda tölvuskeytanna.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf., um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir tölvuvinnslu, viðhengi við fjölpóst í viðskiptatilgangi. Í samræmi við gjaldskrána er gerð krafa um kr. 3.026 vegna notkunar hvers myndverksbrots er notað var í boðskortið, sbr. umfjöllun í lið b) að framan. Um var að ræða 22 myndverksbrot. Samtals nemur krafa stefnenda um skaðabætur kr. 66.572 vegna sendingar boðskortsins.

Stefnendur telja enn fremur að vöntun á tilgreiningu nafns höfundar á boðskortinu eins og það birtist í tölvuskeytunum hafi valdið þeim miska. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna útgáfu boðskortsins sé kr. 130.000.

 

d)         Birting auglýsingar um opnun sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar, 1. nóvember 2013

Þann 1. nóvember 2013 birti Gallerí Fold auglýsingu á Facebook síðu sinni, þar sem var auglýst sýning á auglýsingamyndum (Rafskinnu). Í auglýsingunni kom fram að Gunnar Bachmann hefði gert myndirnar á sínum tíma og að stefndi, Þorsteinn, og fjölskylda, hefði opnað sýninguna. Auglýsingunni fylgdi einnig myndaalbúm.

Stefnendur telja að þessi auglýsing, sem var enn á síðunni við útgáfu stefnu þessarar, hafi falið í sér brot á sæmdarrétti Jóns Kristinssonar að öllum þeim myndverkum hans sem sýnd voru á sýningunni en þau voru 44 talsins, samkvæmt upplýsingum úr sýningarskrá. Stefnendur telja að hér sé um að ræða brot gegn nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. höfundalaga þar sem höfundur myndanna sé ranglega tilgreindur sem Gunnar Bachmann en þess að engu getið að Jón hafi verið höfundur myndverkanna ásamt Tryggva Magnússyni.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf., um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots en röng tilgreining höfundar hafi valdið stefnendum miskatjóni. Fréttin hefur verið á síðunni í 21 mánuð. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 9.240.000.

 

e)         Birting auglýsingar um opnun sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar, 3. nóvember 2013

Þann 3. nóvember 2013 birti Gallerí Fold auglýsingu á Facebook síðu sinni þar sem vakin var athygli á sýningunni. Fréttin hefur m.a. að geyma hlekk á frétt er var að finna á heimasíðu Ríkisútvarpsins en í henni er birt mynd af myndverkum Jóns Kristinssonar, Ostur er gæðakostur nr. 75, og Góðar bækur gleðja börnin nr. 44. Stefnendur telja að Fabrik ehf. hafi með því að tengja þannig frétt Ríkisútvarpsins inn á Facebook síðu framið brot á einkarétti höfundarétthafa til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga. Með birtingu hennar á Facebook samskiptamiðlinum hafi enn fremur verið framið brot á einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings, sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga. Þá hafi birtingin falið í sér brot á sæmdarrétti Jóns Kristinssonar, nánar tiltekið á nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. höfundalaga, þar sem hans er að engu getið í tengslum við birtinguna.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf., um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti, tvö verk notuð, en hann er kr. 6.672 fyrir hvern mánuð. Myndin var á síðunni í að minnsta kosti 13 mánuði, frá 3. nóvember 2013 til 8. desember 2014. Nemur krafan því kr. 86.736.

Stefnendur telja einnig að vöntun á tilgreiningu höfundar verkanna tveggja hafi valdið þeim miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 130.000.

 

f)         Birting auglýsingar um Rafskinnu á Facebook síðu Gallerís Foldar, 11. nóvember 2013

Þann 11. nóvember 2013 birti Gallerí Fold auglýsingu á Facebook síðu sinni þar sem vakin var athygli á sýningunni. Auglýsingin var enn á síðunni við útgáfu stefnu þessarar. Auglýsingin hefur að geyma myndverk Jóns Kristinssonar, Hafið ætíð í huga hvað best má duga. Stefnendur telja að með birtingu auglýsingarinnar á Facebook samskiptamiðlinum hafi verið framin brot á 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga, sem og 1. mgr. 4. gr. laganna, þar sem Jóns var að engu getið í tengslum við birtinguna.

Stefnendur krefja stefnda Fabrik ehf., um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti sem er kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern mánuð. Myndin hefur verið á á síðunni í 21 mánuð og nemur því krafan kr. 107.772.

Skortur á tilgreiningu höfundar verksins hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 210.000.

 

g)         Birting auglýsingar um lok sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar 21. nóvember 2013

Þann 21. nóvember 2013 birti Gallerí Fold auglýsingu á Facebook síðu sinni þar sem vakin var athygli á síðustu sýningarhelgi sýningarinnar. Auglýsingin var enn á síðunni við útgáfu stefnu í máli þessu. Auglýsingin hefur að geyma myndverk Jóns Kristinssonar, Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld nr. 116

Stefnendur telja birtingu auglýsingarinnar fela í sér brot á þágildandi 3. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. og 4. gr. höfundalaga með sama hætti og fyrr er rakið.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf. um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti sem er kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern mánuð. Myndin hefur verið á á síðunni í 21 mánuð og nemur því krafan kr. 107.772.

Skortur á tilgreiningu nafns höfundar verksins hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 210.000.

 

h)         Birting auglýsingar um framlengingu sýningar á vefsíðu Gallerís Foldar, nóvember 2013

Einhvern tímann um miðjan nóvember 2013 birti Gallerí Fold auglýsingu á vefsíðu sinni, www.myndlist.is, þar sem auglýst var að vegna mikillar aðsóknar yrði sýningin framlengd til 24. nóvember. Auglýsingin hefur að geyma myndverk Jóns Kristinssonar, Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld nr. 116. Stefnendur telja birtingu auglýsingarinnar fela í sér brot á þágildandi 3. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. og 4. gr. höfundalaga með sama hætti og fyrr er rakið.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf., um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti sem er kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern mánuð. Myndin hefur verið á á síðunni í 21 mánuð og nemur því krafan kr. 107.772.

Stefnendur telja að skortur á tilgreiningu nafns höfundar verksins hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 210.000.

 

i)          Birting auglýsingar um lok sýningar á heimasíðu Gallerís Foldar/Listapóstsins 21. nóvember 2013

Þann 21. nóvember 2013 birti Gallerí Fold auglýsingu á heimasíðu sinni, www.listaposturinn.is, þar sem auglýst var sýningunni lyki næsta sunnudag. Auglýsingin hefur að geyma mynd myndverk Jóns Kristinssonar, Reiði húsfreyjunnar - bitnar aldrei á okkur nr. 51. Stefnendur telja birtingu auglýsingarinnar fela í sér brot á 3. og 4. gr. höfundalaga með sama hætti og fyrr er rakið.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf., um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti sem er kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern mánuð. Myndin hefur verið á á síðunni í 21 mánuð og nemur því krafan kr. 107.772.

Stefnendur telja að skortur á tilgreiningu nafns höfundar verksins hafi valdið þeim miska.Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 210.000.

 

j)          Birting auglýsingar um framlengingu sýningar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 16. nóvember 2013

Þann 16. nóvember 2013 birti Gallerí Fold auglýsingu í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem auglýst var að vegna mikillar aðsóknar yrði sýningin framlengd til 24. nóvember.

Stefnendur telja að auglýsingin hafi að geyma myndverk Jóns Kristinssonar, Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld nr. 116. Um er að ræða sömu auglýsingu og tilgreind er undir lið h) að framan. Stefnendur telja birtingu auglýsingarinnar fela í sér brot á 3. og 4. gr. höfundalaga með sama hætti og fyrr er rakið.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir prentun í dagblöðum, upp að ¼ af síðu, upplag 90.000, sem er kr. 23.773 og nemur krafan þeirri fjárhæð. Stefnendur telja að skortur á tilgreiningu nafns höfundar hafi valdið þeim miska. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 50.000.

 

Kröfur stefnenda á hendur öllum stefndu.

Í eftirfarandi liðum 1(k) til 1(p) gera stefnendur kröfur á hendur öllum stefndu í málinu. Vísa stefnendur þá til þess að stefndu, Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir, hafi haft frumkvæði að sýningunni og undirbúið hana ásamt stefnda, Fabrik ehf. sem lánaði sýningarsal undir hana en stefndi, Þorsteinn, hafi opnað sýninguna.

 

k)         Sýning frummynda, 44 myndir á vegg

Á sýningunni voru til sýnis á vegg 44 innrammaðar frummyndir Jóns Kristinssonar. Um var að ræða eftirtalin verk, sbr. sýningarskrá á (tilvísanir í sviga til hennar), lista sem stefnendur hafa tekið saman, og ljósmyndir frá sýningu :

 

16                    Borðið fisk og sparið (1)

74                    Meiri mjólk skapar stærra fólk (2)

4                      Kennið börnunum að borða meira brauð(3)

51                    Reiði húsfreyjunnar bitnar aldrei á okkur (4)

116                  Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld (5)

JK11                Tómhentur stendur ótryggður maður ef óhapp hendir (6)

JK12                Brunahættan er augljós (7)

33                    Vortízkan er að koma (8)

31                    Dömurnar kíkja til okkar (9)

32                    Í spilunum sér hún nýja peysu (10)

35                    Vortízkan á okkar bandi (11)

68                    Hún heilsar yður við annan tón (12)

36                    Hreins kristalssápa gerir allt sem nýtt (13)

39                    Merpo þvær miklu betur (14)

1                      Jólakökur með jólabragði (15)

6                      Verði yður að góðu (16)

5                      Verði honum að góðu (17)

89                    Athyglin beinist að yndisþokkanum (18)

88                    Viðskiptamenn okkar setja svip á bæinn (19)

83                    Kynnið yður vortízkuna (20)

87                    Gagnrýni yðar er okkur í vil (21)

JK01                Bókin á hug hans allan (22)

64                    Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund (31)

61                    Meira og meira vilja börnin heyra (45)

71                    Verðandi listamaður í jólaskapi (46)

72                    Litirnir létta skapið (47)

13                    Það er skíðafæri á fjöllum (48)

14                    Útbúinn frá okkur (49)

100                  Að lokinni góðri máltíð (50)

45                    Mennt er máttur (51)

47                    Blindur er bóklaus maður (52)

59                    Við öll tækifæri á skóm frá Lárusi (53)

54                    Úrval við allra hæfi (54)

20                    Jólagjöfin frá okkur (55)

JK09                Hún gaf honum Opal (56)

21                    Klæðið af yður kuldann (57)

JK10                Einn pakki á dag kemur öllu í lag (58)

91                    Hafið ætíð í huga hvað best má duga (59)

JK06                Á öllum tímum dagsins (60)

JK07                Alltaf sama góða bragðið (61)

28                    Við leik og störf er vinnufata brýnust þörf (62)

99                    Allt yðar líf eitthvað frá S.Í.F. (63)

37                    Loksins allar sammála um vörugæðin (64)

60                    Tjaldið með bók (65).

 

Sýningin fól í sér opinbera sýningu eintaka og með henni var brotið gegn einkarétti höfundar til sýningar eintaka af verki sem lögmæltur er í 3. gr. höfundalaga.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Gjaldskrá Myndstefs hefur ekki að geyma sérstakan taxta fyrir slíka birtingu sem um ræðir en stefnendur styðjast við taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti þar sem hverjum sem er var frjálst að skoða myndirnar. Stefnendur leggja áherslu á að fjöldi manns sótti sýninguna og var hún framlengd vegna mikillar aðsóknar eins og áður greinir. Er því miðað við kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern byrjaðan mánuð. Nemur krafan því kr. 225.808.

Eitt verka Jóns á sýningunni, verkið Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund, merkt nr. 31 í sýningarskrá, og merkt nr. 64 á lista stefnenda, var við upphaf sýningar ranglega merkt Tryggva Magnússyni. Stefnendur gera kröfu um miskabætur vegna þessa brots og telja hæfilega fjárhæð miskabóta kr. 20.000.

Stefnendur taka fram að flest þeirra verka er sýnd voru með þessum hætti á sýningunni voru síðar boðin til sölu á vefsíðum stefndu og Gallerís Foldar. Það gilti þó ekki um öll verkin. Stefnendur hafa ekki orðið varir við að verkin Jólakökur með jólabragði, nr. 1; Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld, nr. 116; Mennt er máttur nr. 43; Blindur er bóklaus maður nr. 47; Hún gaf honum Opal, nr. JK09; Einn pakki á dag kemur öllu í lag nr. JK10; Athyglin beinist að yndisþokkanum, nr. 89 og Við leik og störf er vinnufata brýnust þörf, nr. 28 tilvísanir til listans sem stefnendur hafa unnið, hafi verið boðin til sölu á netinu.

Stefnendur hafa skorað á stefndu að upplýsa hvar þessi frumverk eru nú niður komin. Sé raunin að þau hafi verið seld er áskilinn réttur til að hafa uppi kröfu um fylgiréttargjald vegna sölunnar eða eftir atvikum að gera kröfu um skaðabætur vegna vanheimildar.

 

l)          Sýning frummynda, 30 myndir, í sölurekka

Á sýningunni voru til sýnis í sölurekka óinnrammaðar frummyndir Jóns Kristinssonar. Frummyndirnar voru til sölu á kr. 90.000, hver mynd. Í bréfi lögmanns stefndu, dags. 24. febrúar 2014, segir að fjöldi verkanna sem þannig hafi verið sýnd hafi verið 30. Höfundaréttarhafar hafi ekki heimilað sýningu verkanna. Þann 19. nóvember 2014 staðreyndi stefnandi, Kristjana Jónsdóttir, að 25 innrammaðar frummyndir var að finna í rekkanum en þar var um að ræða verk með eftirtöldum áletrunum:

 

44                    Góðar bækur gleðja börnin

9                      Þeir græða mest sem verzla við okkur

105                  Fylgist með tímanum

143                  Tryggðu aleigu þína

85                    Jólagleðin er með í pakkanum

109                  Ef upp kemur eldur ertu ofurseldur

29                    Athygli hinna vandlátu beinist að Heklu peysum

96                    Sjálfs er höndin hollust

17                    Borðið fisk og sparið

10                    Gott sumarleyfi byrjar hjá okkur

98                    Opnið eina dós og gæðin koma í ljós

53                    Skórnir auka á yndisþokkann

24                    Viðskiptin vaxa frá ári til árs

84                    Með gjöf skal gjöf gjalda

56                    Úrvalið mest – varan best

163                  Ef upp kemur eldur ertu ofurseldur

63                    Tjáið okkur ósk yðar

66                    Góð bók er kærkomin jólagjöf

106                  Fylgist með Tímanum

126                  Sterkur má sér líkan finna

15                    Borðið fisk og sparið

48                    Jólabaksturinn skulum við annast

125                  Borðið fisk og sparið

43                    Mennt er máttur

145                  Leiðir tízkuna.

 

Stefnendur telja að sýningin hafi falið í sér opinbera sýningu eintaka og með henni hafi verið brotið gegn einkarétti höfundar til sýningar eintaka af verki sem lögmæltur er í 3. gr. höfundalaga.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Gjaldskrá Myndstefs hefur ekki að geyma sérstakan taxta fyrir birtingu slíka sem um ræðir en stefnendur styðjast við taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti þar sem hverjum sem er var frjálst að skoða myndirnar. Er því miðað við kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern byrjaðan mánuð en rétt er að krefja um bætur fyrir notkun hvers verks fyrir sig þar sem hvert verk var sýnt sérstaklega í rekkanum. Vísað er til sjónarmiða um mikla aðsókn að sýningunni, sbr. umfjöllun að framan. Miðað við að verkin hafi verið 30 eins og stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, hafa tilgreint, nemur krafan kr. 153.980.

Eins og fram kemur að framan var fjöldi verka sem var að finna í rekkanum þann 19. nóvember 25 en ekki 30. Samkvæmt upplýsingum lögmanns stefndu, Familíunnar ehf., Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, í bréfi, dags. 24. febrúar 2015, voru tvö frumverk Jóns seld á sýningunni. Framkomnar upplýsingar benda því til þess að ekki hafi verið gerð grein fyrir sölu einhverra verka sem var að finna í rekkanum.

 

m)        Sýning frummynda, sjö myndir í sýningarkassa

Á sýningunni voru til sýnis í sýningarkassa óinnrammaðar frummyndir Jóns Kristinssonar, sbr. mynd sem stefnendur tóku á sýningunni 1. nóvember 2013. Í bréfi lögmanns stefndu, dags. 24. febrúar 2014, segir að fjöldi verkanna sem þannig hafi verið sýnd hafi verið þrjú eða fjögur. Af annarri ljósmynd sem stefnendur tóku á sýningunni, telja stefnendur að um hafi verið að ræða 7 verk á lista þau sem þau hafa tekið saman og áður er vitnað til:

 

27                    Við höfum sambönd um allan hnöttinn

57                    Viðhafnarskórnir frá Lárusi LGL

75                    Ostur er gæðakostur

76                    Nýtt skyr daglega

92                    Í hríð og frosti hefur hún alla kosti vetrarolíur X-100

81                    Hafir þú hugsað myndina höfum við litina

115                  Egils jóladrykkir.

 

Þar sem stefnendur höfðu ekki heimilað sýningu verkanna telja þau að sýningin hafi falið í sér opinbera sýningu eintaka og með henni hafi verið brotið gegn einkarétti höfundar til sýningar eintaka af verki.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Gjaldskrá Myndstefs hefur ekki að geyma sérstakan taxta fyrir birtingu slíka sem um ræðir en stefnendur styðjast við taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti þar sem hverjum sem er var frjálst að skoða myndirnar. Er því miðað við kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern byrjaðan mánuð en rétt er að krefja um bætur fyrir notkun hvers verks fyrir sig þar sem hvert verk var sýnt sérstaklega í sýningarkassanum. Vísað er til sjónarmiða um mikla aðsókn að sýningunni, sbr. umfjöllun að framan. Miðað við að verkin hafi verið sjö nemur krafan kr. 35.924.

 

n)         Sýning myndverka á skjá á sýningu

Á sýningunni var varpað upp á skjá glærusýningu sem hafði að geyma fjölmörg verk eftir Jón Kristinsson og Tryggva Magnússon. Með bréfi lögmanns stefnenda til lögmanns stefndu, Familíunnar ehf., Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, var þess óskað að þeir létu í té eintak af glærusýningunni.

Í svarbréfi lögmanns stefndu, dags. 24. febrúar 2014, kemur fram að ekki sé til eintak af sýningunni. Stefnendur telja að fjöldi þeirra myndverka eftir Jón Kristinsson, sem birtust í sýningunni hafi verið að minnsta kosti 50.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir tölvuvinnslu, powerpoint sem er kr. 9.854 fyrir hvert verk í viðskiptatilgangi. Nemur því krafan kr. 492.700.

 

o)         Framleiðsla auglýsingaspjalds sem stillt var út í glugga Gallerís Foldar

Meðan sýningin stóð yfir var auglýsingaskilti um sýninguna stillt út í glugga Gallerís Foldar, við hlið inngangs. Skiltið samanstendur af tveim hlutum. Í efri hluta er að finna tilgreiningu á sýningunni og merki SÍA með sama hætti og í auglýsingaspjöldum er birtust á biðstöðvum Strætó. Í meginhluta skiltisins er að finna klippimynd er gerð er með svipuðum hætti og boðskort sem fyrr er getið og límmiðar á póstkortaöskjur sem fjallað er um síðar í stefnu þessari. Myndverkin er notuð voru við gerð klippimyndarinnar eru, að undanskildu einu, eftir Jón, en þau séu eftirfarandi, sjá einnig ljósmynd ljósmynd er birtist á vefnum www.pressphotos.biz og greiningu stefnenda á gerð skiltisins.

 

JK08    Glöggt er gests augað – Egils jóladrykkur

JK11    Tómhentur stendur ótryggður maður – ef óhapp hendir –

2          Kraftur í hverri sneið

87        Gagnrýni yðar er okkur í vil

JK07    Alltaf sama góða bragðið

39        Merpo – þvær miklu betur

45        Mennt er máttur

JK03    Skyrið og rjóminn er þjóðarsóminn

117      Borðið fisk og sparið – sjálfur fiskarðu ekki í soðið.

 

Nafns Jóns er hvergi getið á auglýsingaskiltinu. Með bréfi, dags. 8. desember 2014 til lögmanns stefndu, Familíunnar ehf., Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, óskaði lögmaður stefnenda eftir eintaki af auglýsingaskiltinu. Í svarbréfi, dags. 24. febrúar 2014 upplýsti lögmaður þessara stefndu að skiltinu hefði verið fargað.

Stefnendur telja að með framleiðslu skiltisins var brotið gegn lögmæltum einkarétti höfundar til eintakagerðar. Útstilling skiltisins hafi falið í sér opinbera sýningu eintaka af verkunum samkvæmt sama ákvæði. Skortur á tilgreiningu Jóns sem höfundar verkanna fól í sér brot gegn 1. mgr. 4. gr. höfundalaga um nafngreiningarrétt og gegn 2. mgr. 4. gr. um rétt til að banna breytingar á verki.

Krafa stefnenda vegna framleiðslu auglýsingaspjaldsins er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir veggspjöld, veggskilti, veltiskilti og spjöld í strætisvagnaskýlum, en auglýsingaspjaldinu svipar mjög til slíkra skilta, bæði að stærð og hvað tilgang varðar. Við gerð meginhluta spjaldsins hafa verið notuð níu myndverk Jóns. Gjaldskráin kveður á um gjald að fjárhæð kr. 35.100 fyrir notkun hvers myndverks stærri en 80 x 120 cm og nemur því krafa vegna þessa liðar samtals kr. 315.900. Við ákvörðun fjárhæðar vegna þessara brota ber að hafa í huga að þrátt fyrir að kröfugerð miði eingöngu við lið fyrir framleiðslu skiltisins fólst brotið einnig í opinberri sýningu þess eins og að framan segir og felur krafan einnig í sér bætur vegna þess.

Skortur á tilgreiningu nafns höfundar á auglýsingaspjaldinu hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna útgáfu auglýsingaspjaldsins sé kr. 450.000.

 

p)         Sýning auglýsingaskiltis fyrir utan inngang Gallerís Foldar

Meðan sýningin stóð yfir var stillt út auglýsingaskilti á gangstétt fyrir utan inngang í Gallerí Fold. Útstilling skiltisins fól í sér opinbera sýningu eintaka af verkunum en höfundaréttarhafar höfðu ekki heimilað sýningu verkanna. Með bréfi, dags. 8. desember 2014 til lögmanns stefndu,, Familíunnar ehf., Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, óskaði lögmaður stefnenda eftir eintaki af auglýsingaskiltinu. Í svarbréfi, dags. 24. febrúar 2014 upplýsti lögmaður stefndu að skiltinu hefði verið fargað. Þar sem stefnendur hafa ekki undir höndum eintak af skiltinu er ekki gerð krafa vegna þess að svo stöddu en áskilinn réttur til að hafa uppi kröfu vegna þessa brots síðar, m.a. með framhaldsstefnu.

 

Krafa stefnanda á hendur Fabrik ehf.

 

q)         Birting stefnda, Fabrik ehf., á 32 myndverkum á heimasíðu Gallerís Foldar, www.myndlist.is

Frá því sýningin hófst og þar til einhvern tímann á tímabilinu 16. – 20. maí 2014 birti stefndi, Fabrik ehf., á heimasíðu sinni, www.myndlist.is, að minnsta kosti 32 myndverk eftir Jón Kristinsson og voru verkin boðin þar til sölu:

 

4          Kennið börnunum að borða meira brauð

5          Verði honum að góðu

6          Verði yður að góðu

13        Það er skíðafæri á fjöllum

14        Útbúinn frá okkur

16        Borðið fisk og sparið

20        Jólagjöfin frá okkur

21        Klæðið af yður kuldann

31        Dömurnar kíkja til okkar

32        Í spilunum sér hún nýja peysu

33        Vortízkan er að koma

35        Vortízkan á okkar bandi

36        Hreins kristalssápa gerir allt sem nýtt

37        Loksins allar sammála um vörugæðin

39        Merpo þvær miklu betur

51        Reiði húsfreyjunnar bitnar aldrei á okkur

54        Úrval við allra hæfi

59        Við öll tækifæri á skóm frá Lárusi

60        Tjaldið með bók

61        Meira og meira vilja börnin heyra

64        Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund

68        Hún heilsar yður við annan tón…

71        Verðandi listamaður í jólaskapi

72        Litirnir létta skapið

74        Meiri mjólk skapar stærra fólk

83        Kynnið yður vortízkuna

87        Gagnrýni yðar er okkur í vil

88        Viðskiptamenn okkar setja svip á bæinn

91        Hafið ætíð í huga – hvað best má duga

99        Allt yðar líf eitthvað frá S.Í.F.

100      Að lokinni góðri máltíð

JK06    Á öllum tímum dagsins.         

 

Eitt verkanna, Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund, nr. 64, var ranglega tilgreint eftir Tryggva Magnússon. Með birtingu verkanna á framangreindu vefsvæði var framið brot á einkarétti höfundar til birtingar og brot á nafngreiningarrétti Jóns Kristinssonar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessara brota. Kröfur eru byggðar á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti sem, þegar um er að ræða birtingu á 31 – 40 verkum nemur kr. 19.503 fyrir hvern mánuð á hvorri vefsíðu. Myndverkin voru á vefsvæðinu í sex og hálfan mánuð en samkvæmt gjaldskránni ber að greiða fyrir hvern byrjaðan mánuð, þ.e. sjö mánuði. Nemur krafan því kr. 136.521.

Röng á tilgreiningu nafns höfundar verksins Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund á framangreindu vefsvæði hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna þessa sé kr. 70.000.

Framangreint brot var framið af stefnda Fabrik ehf. og er því gerð krafa á honum vegna þessa liðar.

 

Kröfur stefnenda á hendur Þorsteini Bachmann, Hrefnu Bachmann, Margréti Þorsteinsdóttur og Familíunni ehf.

 

r)          Birting 9 myndverka á heimasíðu stefnda Familíunnar ehf., www.rafskinna.net

Frá því sýningin hófst og þar til einhvern tímann á tímabilinu 16. – 20. maí birti stefndi, Familían ehf. á heimasíðu sinni, www.rafskinna.net,, að minnsta kosti eftirtalin níu myndverk eftir Jón Kristinsson, sem boðin voru þar til sölu í formi eftirprentana:

 

45        Mennt er máttur

89        Athyglin beinist að yndisþokkanum

21        Klæðið af yður kuldann

2          Kraftur í hverri sneið

87        Gagnrýni yðar er okkur í vil

32        Í spilunum sér hún nýja peysu

37        Loksins allar sammála um vörugæðin

35        Vortízkan á okkar bandi

102      Ferðist með yðar eigin skipum.

 

Stefnendur telja að með birtingu verkanna á framangreindum vefsvæðum hafi verið framið brot á einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings, sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga.

Auk framangreindra verka var að finna á vefsíðunni ljósmynd af póstkortaöskju með límmiðum á loki og botni, en límmiðunum er lýst í umfjöllum um útgáfu póstkorta og límmiða til nota á póstkortaöskjur í liðum 2 b) iii) og iv) að neðan. Vísast til lýsingar á límmiðum þar. Birting ljósmyndar af póstkortaöskju þar sem límmiðarnir sjást felur sömuleiðis í sér brot á einkarétti höfundar til birtingar myndverkanna.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessara brota. Myndverkin og ljósmyndin voru á vefsvæðunum í sex og hálfan mánuð. Kröfur eru byggðar á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti. Skaðabótakrafa fyrir brot er framið var með birtingu myndverkanna níu er byggð á taxta sem notaður er við birtingu á 7 – 10 verkum, þ.e. kr. 8.725 fyrir hvern mánuð, samtals vegna notkunar níu verka í sjö mánuði kr. 61.076. Skaðabótakrafa fyrir brot er framið var með birtingu ljósmyndarinnar af póstkortaöskjunni er byggð á taxta sem notaður er við birtingu á 11 – 20 verkum, kr. 12.831 fyrir hvern mánuð. Krafa vegna notkunar 14 myndverksbrota er notuð voru við gerð límmiða til notkunar á lok nemur kr. 81.817 og krafa vegna notkunar 14 myndverksbrota er notuð voru við gerð límmiða til notkunar á botn nemur sömuleiðis kr. 81.817. 

Nemur samanlögð krafa vegna brota á fjárhagslegum réttindum höfundar samkvæmt framansögðu kr. 224.710.

Skortur á tilgreiningu nafns höfundar í tengslum við birtingu ljósmyndarinnar af póstkortaöskjunum hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna notkunar á þeim 28 myndverkbrotum sem notuð voru við umrædda birtingu á neti í sex og hálfan mánuð sé kr. 1.960.000.

 

s)         Birting kynningarmerkis á heimasíðu stefnda Familíunnar ehf., www.rafskinna.net

Samhliða birtingu níu verka Jóns Kristinssonar og ljósmyndar af póstkortaöskju á vef stefnda, Familíunnar ehf., var að finna borða efst á síðu á vefnum. Borðinn hafði að geyma orðin „UM RAFSKINNU“ og „HAFA SAMBAND“en milli þessara orða var að finna kynningarmerki sýningarinnar, Rafskinna, sem lýst er í lið 1 a) að framan. Eftir að stefndu, Þorsteinn, Hrefna og Margrét, lýstu því yfir í maí mánuði 2014 að þau myndu taka verkin og eftirprentanirnar úr sölu hurfu myndirnar af verkunum af vefnum en eftir stendur kynningarmerkið ásamt eftirfarandi áletrunum: „EKKERT HÉR EINS OG STENDUR“ og „HAFA SAMBAND sendið okkur póst á rafskinna@rafskinna.net“. Þannig er ljóst að þessir þrír stefndu ásamt stefnda, Familíunni ehf., eru enn að fremja brot á höfundarétti Jóns Kristinssonar. Kynningarmerkinu er lýst í lið 1 a) að framan eins og áður greinir en birting þess á vefsíðunni felur í sér brot á lögmæltum einkarétti höfundar til miðlunar til almennings en skortur á tilgreiningu höfundar í tengslum við birtingu þessa felur í sér brot gegn nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. höfundalaga og rétti til að koma í veg fyrir breytingu verks samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga.

Stefnendur gera kröfu um skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón vegna birtingar kynningarmerkisins. Við útgáfu stefnu þessarar hafði merkið verið á vefnum í 21 mánuð en við gerð þess voru notuð níu myndverksbrot. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti, 7 – 10 verk, sem er kr. 8.725 fyrir hvern mánuð. Nemur krafan þannig kr. 183.225.

Stefnendur gera kröfu til miskabóta vegna brots á sæmdarrétti og telja að hæfileg fjárhæð þeirra sé kr. 1.890.000.

Stefnendur telja að stefndu, Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir, hafi staðið fyrir brotum þeim er lýst var í þessum lið. Er því gerð krafa á hendur þeim vegna þessa liðar.

 

2.         Útgáfa á veggspjöldum og póstkortum

Í verkefni stefndu, Familíunnar ehf., Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, fólst útgáfa á eftirgerðum af frummyndum Jóns Kristinssonar í formi veggspjalda og póstkorta og dreifing eftirgerðanna til sölu. Stefnendur telja að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefnu Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir, hafi öll framið höfundaréttarbrot með þeim hætti sem hér er lýst.

 

a)         Útgáfa veggspjalda

Stefndu létu framleiða veggspjöld með myndverkum Jóns. Í fyrra svarbréfi lögmanns stefndu til lögmanns stefnanda er tiltekið að 11 verk hafi verið notuð til að gera eftir þeim veggspjöld en í síðara bréfi lögmannsins var þetta leiðrétt og tiltekið að verkin hafi verið 14, eitt verk hafi ekki farið í dreifingu, eitt verk hafi verið eftir Tryggva Magnússon og því hafi 12 verk sem dreift hafi verið á veggspjöldum verið eftir Jón. Stefnendur hafa staðreynt með eftirgrennslan í verslunum að í það minnsta var um sé að ræða eftirtalin verk samkvæmt þeim lista sem stefnendur hafa tekið saman í málinu:

 

5          Verði honum að góðu

1          Jólakökur með jólabragði

11        Syngjum dátt og dönsum – Hin lífsglaða æska ..

60        Tjaldið með bók

61        Meira og meira vilja börnin heyra

117      Borðið fisk og sparið - sjálfur fiskarðu ekki í soðið

29        Athygli hinna vandlátu beinast að Heklu peysum

36        Hreins kristalssápa gerir allt sem nýtt

47        Blindur er bóklaus maður

72        Litirnir létta skapið

71        Verðandi listamaður í jólaskapi

39        Merpo þvær miklu betur,

 

Stefnendur byggja á að eftirprentanir af þessum verkum hafi verið til sölu í Gallerí Fold þann 4. apríl 2014.

Stærð veggspjaldanna er 30 x 40 cm. Á þeim er að finna merkinguna “© familían ehf. www.rafskinna.net” en Jóns Kristinssonar er að engu getið. Samkvæmt upplýsingum í bréfi lögmanns stefndu, dags. 24. febrúar 2014, voru framleidd 25 eintök af hverju veggspjaldi og seld 73 eintök. Framleiddur eintakafjöldi samrýmist því er kemur fram í reikningi Pixel en gögn er fylgdu bréfi lögmannsins sýna hins vegar að stefndi, Familían ehf., bókfærði sölu á 120 eintökum. Veggspjöldin voru til sölu í Gallerí Fold og gegnum vefsíðurnar www.myndlist.is og www.rafskinna.net. Telja stefnendur að framleiðsla og dreifing veggspjaldanna fól í sér brot á einkarétti höfundarétthafa til eintakagerðar og dreifingar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, brot á nafngreiningarrétti höfundar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna og brot á réttinum til að hindra breytingar á verki samkvæmt. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Dreifing veggspjaldanna tók yfir langt tímabil en stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, féllust ekki á að taka veggspjöldin úr sölu fyrr en að liðnum 200 dögum frá því þau voru sett á markað, þrátt fyrir eftirgangsmuni af hálfu stefnenda. Er því í þessum tilvikum krafið um tvöfalda þá fjárhæð sem gjaldskrá Myndstefs gerir ráð fyrir í þeim tilvikum sem greitt er fyrir leyfi til notkunar.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessara brota. Kröfur eru byggðar á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir framleiðslu veggspjalda í stærðinni 29,7 x 42 cm, kr. 61.578 vegna upplags 11 – 500. Nemur krafa vegna 12 myndverka kr. 1.477.872 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. rökstuðning að framan.

Skortur á tilgreiningu nafns höfundar hefur valdið höfundaréttarhöfum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 2.800.000.

 

b)         Útgáfa póstkorta og límmiða til sölu í öskjum

Stefndu létu framleiða póstkort í stærðinni 10,5 x 15 cm. Kortin voru framleidd í 12 gerðum en hver gerð hafði að geyma eitt verk. Ein gerðin hafði að geyma verk eftir Tryggva Magnússon og því voru 11 gerðir framleiddar með myndverkum Jóns. Á bakhlið póstkortanna er að finna áletrunina: “© familían ehf. www.rafskinna.net” en nafns Jóns er hvergi getið á kortunum.

Eftirtalin myndverk Jóns voru framleidd í formi póstkorta samkvæmt þeim lista sem stefnendur hafa lagt fram í málinu:

 

37        Loksins allar sammála um vörugæðin

87        Gagnrýni yðar er okkur í vil

35        Vortízkan á okkar bandi

45        Mennt er máttur

2          Kraftur í hverri sneið

JK01    Bókin á hug hans allan

89        Athyglin beinist að yndisþokkanum (notuð tvisvar)

47        Blindur er bóklaus maður (notuð tvisvar)

21        Klæðið af yður kuldann (notuð fjórum sinnum)

32        Í spilunum sér hún nýja peysu

102      Ferðist með yðar eigin skipum.

 

Lögmaður stefnenda óskaði með bréfi, dags. 8. desember 2014, eftir upplýsingum um framleiðslu póstkortanna, m.a. um upplag þeirra.

Í svarbréfi lögmanns stefndu, dags. 24. febrúar 2015, er ekki getið um upplag kortanna, en í bréfi lögmannsins, dags. 24. júlí 2015, kemur fram að upplagið af hverri gerð korts hafi verið 400. Samkvæmt því hafa verk Jóns verið notuð á alls 4.400 póstkort. Reikningur Pixel ehf., er fylgdi síðarnefndu bréfi, en Pixel prentaði póstkortin, staðfestir þetta. Kortin prentuð á 400g pappír.

Kortin voru seld í öskjum sem merkar voru með límmiðum er prentaðir voru af Pixel ehf. í stærðinni 14,3 x 9,9 cm. Af límmiðum voru framleiddar tvær gerðir til álímingar á framhlið og tvær gerðar til álímingar á bakhlið askjanna en sex gerðir korta voru í hvorri öskju. Samkvæmt reikningi Pixel voru prentaðir fjórar gerðir af límmiðum, tvær til nota á framhlið og tvær til að nota á bakhlið. Í bréfi lögmanns stefndu, Familíunnar, Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, dags. 24. febrúar 2015, segir að framleiddar hafi verið 200 öskjur. Það samrýmist ekki framangreindum upplýsingum og telja stefnendur að framleiddar öskjur hafi verið alls 400.

Límmiðarnir hafa að geyma klippimynd með svipuðu sniðmáti og boðskortið sem fjallað er um í lið 1a) í stefnu þessari.

 

i)          Límmiði, ætlaður til nota á framhlið öskju

Á efri hluta límmiðans er að finna fyrirsögnina RAFSKINNA sem lýst er í lið 1a) að framan en í hann voru notuð níu myndverksbrot eins og fyrr segir.

Neðri hluti límmiðans, sem er meginhluti hans, hefur að geyma klippimynd þar sem beitt er sömu aðferð og greinir í umfjöllun um boðskort í lið 1 a) að framan. Myndverkin sem notuð eru í meginhluta límmiðans eru þau sömu og er að finna á póstkortunum sem seld voru í öskjunni er miðinn var ætlaður til álímingar á. Myndverkin sem notuð eru á þessum hluta límmiðans eru þannig sex en þau eru:

 

37        Loksins allar sammála um vörugæðin (notað fjórum sinnum)

87        Gagnrýni yðar er okkur í vil

35        Vortízkan á okkar bandi

45        Mennt er máttur (notað tvisvar)

2          Kraftur í hverri sneið

JK01 Bókin á hug hans allan.

 

Myndverksbrotin í meginhluta límmiðans séu þannig tíu. Í þennan límmiða hafi þannig verið notuð samtals 19 myndverksbrot.

 

ii)         Límmiði, ætlaður til nota á bakhlið öskju

Í efri hluta límmiðans er að finna fyrirsögnina RAFSKINNA sem lýst er í lið 1a) að framan en í hann voru notuð níu myndverksbrot eins og fyrr segir.

Meginhluti límmiðans samanstendur af myndum af þeim sex verkum er tilgreind eru í lýsingu á miða í lið i) hér að framan auk upplýsinga um Rafskinnu, teiknarar eru tilgreindir Tryggvi Magnússon og Jón Kristinsson þrátt fyrir að Jón Kristinsson sé höfundur allra sex verkanna. Á miðanum er einnig að finna merkinguna “© familían ehf. www.rafskinna.net”.

Í þennan límmiða voru þannig notuð samtals 15 myndverksbrot.

 

iii)        Límmiði, ætlaður til nota á framhlið öskju

Í efri hluta þessa límmiða er einnig að finna fyrirsögnina RAFSKINNA sem lýst er í lið 1a) að framan en í hann voru notuð níu myndverksbrot eins og fyrr segir.

Meginhluti límmiðans hefur að geyma klippimynd sem unnin er með sama hætti og greinir í lið i). Fimm þeirra myndverka sem notuð eru í meginhluta límmiðans eru eftir Jón Kristinsson en það sjötta er eftir Tryggva Magnússon. Verk Jóns eru þau sömu og er að finna á póstkortunum sem seld voru í öskjunni er miðinn var ætlaður fyrir. Þau eru þessi:

 

89        Athyglin beinist að yndisþokkanum (notuð tvisvar)

47        Blindur er bóklaus maður (notuð tvisvar)

21        Klæðið af yður kuldann (notuð fjórum sinnum)

32        Í spilunum sér hún nýja peysu

102      Ferðist með yðar eigin skipum.

 

Stefnendur telja að myndverksbrotin í meginhluta límmiðans hafi þannig verið tíu. Í þennan límmiða hafi þannig verið notuð samtals 19 myndverksbrot.

 

iv)        Límmiði, ætlaður til nota á bakhlið öskju

Í efri hluta límmiðans er að einnig finna fyrirsögnina RAFSKINNA sem lýst er í lið 1a) að framan en í hann voru notuð níu myndverksbrot eins og fyrr segir.

Meginhluti límmiðans samanstendur af af myndum af þeim fimm verkum er tilgreind eru í lýsingu á miða í lið iii) hér að framan auk upplýsinga um Rafskinnu, teiknarar eru tilgreindir Tryggvi Magnússon og Jón Kristinsson. Á miðanum er einnig að finna merkinguna “© familían ehf. www.rafskinna.net”.

Í þennan límmiða voru þannig notuð samtals 14 myndverksbrot.

Samkvæmt reikningi Pixel ehf. er fylgdi bréfi lögmanns stefndu, dags. 24. júlí 2015, var upplag hverrar gerðar límmiðanna 200 stk.

Stefnendur hafa staðreynt að stefndu settu í dreifingu þrjár mismunandi gerðir af öskjum í ýmsum verslunum, en þær voru, auk Gallerís Foldar, að minnsta kosti Rammagerðin, Hrím og Borð fyrir tvo:

 

           Askja, merkt á loki með límmiða sem lýst er í lið i) að framan og á botni með límmiða sem lýst er í lið ii) að framan

           Askja, merkt á loki með límmiða sem lýst er í lið iii) að framan og á botni með límmiða sem lýst er í lið iv) að framan

           Askja, merkt á loki með límmiða á loki sem lýst er í lið iii) að framan en án límmiða á botni.

 

Með gerð póstkortanna og límmiðanna og dreifingu þeirra í öskjum sem að framan er getið hafa stefndu framið nokkur brot. Verður gerð grein fyrir þeim hér á eftir ásamt því að skýrt er hvernig skaðabótakröfur þeirra eru rökstuddar. Þessi brot tóku yfir langt tímabil en stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, féllust ekki á að taka kortin og öskjurnar úr sölu fyrr en að liðnum 200 dögum frá því þau voru sett á markað, þrátt fyrir eftirgangsmuni af hálfu stefnenda. Er því í þessum tilvikum krafið um tvöfalda þá fjárhæð sem gjaldskrá Myndstefs gerir ráð fyrir í þeim tilvikum sem greitt er fyrir leyfi til notkunar.

 

           með framleiðslu og dreifingu póstkortanna hafa verið framin brot gegn 11 myndverkum Jóns. Um er að ræða brot gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, gegn nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. sömu laga og gegn rétti til að banna breytingar á verki samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafa um skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir notkun á póstkorti í stærð upp að 12 x 15 cm í 1 – 500 eintökum eða kr. 9.871 vegna hvers verks, samtals kr. 217.162 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. rökstuðning að framan. Krafa um miskabætur vegna miska er stefnendur hafa orðið fyrir, einkum vegna brota á sæmdarrétti, nemur kr. 440.000.

 

           með framleiðslu límmiða sem tilgreindur er undir lið i) og ætlaður var til álímingar á öskjulok hafa verið framin 19 brot gegn níu myndverkum Jóns (notuð 19 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og tíu í meginhluta). Um er að ræða brot gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, gegn nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna og gegn rétti til að banna breytingar á verki samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafa um bætur fyrir fjárhagslegt tjón er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir notkun á póstkorti í stærð upp að 12 x 15 cm í 1 – 500 eintökum eða kr. 9.871 vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 375.098 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. rökstuðning að framan. Krafa um miskabætur vegna miska er stefnendur hafa orðið fyrir, einkum vegna brota á nafngreiningarrétti og rétti til að banna breytingar á verki, nemur kr. 750.000.

 

           með framleiðslu límmiða sem tilgreindur er undir lið ii) og ætlaður var til álímingar á öskjubotn hafa í öðru lagi verið framin 15 brot gegn níu myndverkum Jóns (notuð 15 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og sex í meginhluta). Um er að ræða brot gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, gegn nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna og gegn rétti til að banna breytingar á verki samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir notkun á póstkorti í stærð upp að 12 x 15 cm í 1 – 500 eintökum eða kr. 9.871 vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 296.130 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. rökstuðning að framan.

 

           með framleiðslu límmiða sem tilgreindur er undir lið iii) og ætlaður var til álímingar á öskjulok hafa verið framin 19 brot gegn níu myndverkum Jóns (notuð 19 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og tíu í meginhluta). Um er að ræða brot gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, gegn nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. höfundalaga og gegn rétti til að banna breytingar á verki samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafa um bætur fyrir fjárhagslegt tjón er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir notkun á póstkorti í stærð upp að 12 x 15 cm í 1 – 500 eintökum eða kr. 9.871 vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 375.098 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. rökstuðning að frama. Krafa um miskabætur vegna miska er stefnendur hafa orðið fyrir, einkum vegna brota á nafngreiningarrétti og rétti til að banna breytingar á verki, nemur kr. 750.000.

 

           með framleiðslu límmiða sem tilgreindur er undir lið iv) og ætlaður var til álímingar á öskjubotn hafa verið framin 14 brot gegn níu myndverkum Jóns (notuð 14 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og fimm í meginhluta). Um er að ræða brot gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga. Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir notkun á póstkorti í stærð upp að 12 x 15 cm í 1 – 500 eintökum eða kr. 9.871 vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 276.388.

 

Birting auglýsinga á biðstöðvum Strætó

Stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, létu framleiða og setja upp auglýsingar um sýninguna á biðstöðvum Strætó. Skaðabótakrafa vegna þessa er eingöngu gerð á hendur þeim.

Með bréfi, dags. 8. desember 2014, til lögmanns stefndu óskaði lögmaður stefnenda eftir afritum af samningum um heimildir til birtingar auglýsinga á biðstöðvunum, afritum af öllum auglýsingaspjöldunum o.fl. Í svarbréfi lögmanns stefnda, dags. 24. febrúar 2015, segir að enginn skriflegur samningur hafi verið gerður við Strætó en að stefndi, Familían ehf., hafi greitt fyrir birtinguna. Með bréfinu fylgdu eintök af fimm auglýsingaspjöldum. Efst á hverju spjaldi er að finna áletrunina “AUGLÝSINGAR 1933 – 1957 sía 35 ára – RAFSKINNA Í GALLERÍ FOLD 1. – 17. NÓV” en meginhluti spjaldanna hefur að geyma myndverk eftir Jón. Í neðra horni hvers spjalds, hægra megin, var að finna merki auglýsingastofunnar Áberandi.

Stefndu höfðu áður upplýst að fjöldi þeirra verka er notuð voru á auglýsingaspjöldunum hefði verið 25. Því hófust stefnendur handa um að afla upplýsinga um hvort fleiri prentstofur hefðu prentað auglýsingaspjöld.

Í bréfi lögmanns stefndu, dags. 24. júlí 2015, sem er svar við bréfi lögmanns stefndu til hans, dags. 10. júlí 2015, var upplýst að verkin er notuð hefðu verið hefðu verið 20. Hefðu verið framleidd fimm eintök af hverju þeirra og að prentun hefði farið fram hjá fjórum prentstofum, auk Áberandi, sem fyrr var getið, hefðu prentstofurnar Velmerkt, Ferró og Merking prentað spjöldin. Tvö umræddra verka eru eftir Tryggva Magnússon og óvíst er um höfund eins verks. Þau 17 verk sem ótvírætt eru eftir Jón eru þessi, miðað við þann lista sem stefnendur hafa tekið saman og lagt fram í málinu og áður er vísað til:

 

91        Hafið ætíð í huga hvað best má duga

JK11    Tómhentur stendur ótryggður maður ef óhapp hendir

JK07    Alltaf sama góða bragðið

JK03    Skyrið og rjóminn er þjóðarsóminn

JK05    Þjóðfræg gæðavara

29        Athygli hinna vandlátu beinast að Heklu peysum

1          Jólakökur með jólabragði

2          Kraftur í hverri sneið

39        Merpo þvottaefni þvær miklu betur

45        Mennt er máttur

JK04    Snemma á daginn – fer blaðið um bæinn

JK02    Jólin byrja hjá okkur

JK08    Glöggt er gests augað – Egils jóladrykkur

87        Gagnrýni yðar er okkur í vil

71        Verðandi listamaður í jólaskapi

36        Hreins kristalssápa gerir allt sem nýtt

47        Blindur er bóklaus maður.

 

Samtals voru því að minnsta kosti 17 verka Jóns notuð í auglýsingaspjöld á biðstöðvum Strætó.

Stærð hvers auglýsingaskiltis var 118 x 175 cm. Myndverkum Jóns var breytt við gerð auglýsingaspjaldanna með því móti að merkjum prentaðilanna var skeytt inn á neðra horn myndverksins hægra megin auk þess sem merki Ferró skiltagerðar er að finna á miðju eins verksins, Athygli hinna vandlátu beinast að Heklu peysum nr. 29.

Lögmaður stefnenda sendi erindi til Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA), dags. 7. apríl 2015, þar sem spurst var fyrir um aðkomu sambandsins að nýtingu myndverka Jóns í tengslum við sýninguna í Gallerí Fold. Erindinu var svarað með bréfi Félags atvinnurekenda, dags. 21. apríl 2015, þar sem tiltekið var að SÍA hefði útvegað ókeypis auglýsingapláss á biðstöðvum Strætó og nýtt viðskiptasambönd sín við prentstofur til að sjá um prentun. SÍA hafi ekki reitt neina fjármuni af hendi í tengslum við verkefnið en fengið merki sitt og tilgreiningu um afmælisár birt á auglýsingum og boðskorti, prentstofurnar hafi fengið merki sitt birt á auglýsingum sem endurgjald fyrir prentun. Hefur verið staðfest af hálfu AFA JCDecaux Ísland ehf., sem rekur birtingarstanda á biðstöðvum Strætó, að félagið hafi veitt styrk til verkefnisins í formi endurgjaldslausrar birtingar. Af þessu sést að stefnendur höfðu engan kostnað af gerð eða birtingu auglýsingaskiltanna, gagnstætt því er kemur fram í bréfi lögmanns þeirra, dags. 24. febrúar 2015.

Með framangreindri háttsemi frömdu stefndu brot gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga.

Auglýsingaspjöld er birt var á biðstöðvum Strætó fólu í sér breytta gerð verka Jóns eins og rakið er að framan. Með því að gefa fyrirmæli um slíka útfærslu frömdu stefndu brot gegn sæmdarrétti Jóns sem lögmæltur er í 2. mgr. 4. gr. höfundalaga, en með því að geta í engu nafns Jóns á skiltunum var framið brot á nafngreiningarrétti höfundar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón vegna prentunar og birtingar auglýsingaspjaldanna á biðstöðvum Strætó. Kröfur eru byggðar á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir prentun á spjöldum í strætisvagnaskýlum miðað við upplag 1 – 10 af hverri gerð spjalds sem hvert um sig var stærra en 80 x 120 cm en krafa fyrir hvert verk samkvæmt gjaldskránni nemur þannig kr. 35.100. Auglýsingaspjöldin eru gríðarstór og var stillt út á stöðum þar sem fjöldi fólks á leið um, akandi, hjólandi og gangandi. Í þessu tilviki er því krafið um tvöfalda þá fjárhæð sem gjaldskrá Myndstefs gerir ráð fyrir í þeim tilvikum sem greitt er fyrir leyfi til notkunar. Um er að ræða 17 verk. Nemur krafan því kr. 1.193.400 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. rökstuðning að framan.

Prentun og birting eintaka af myndverkum Jóns án tilgreiningar hans sem höfundar verkanna og með þeirri breytingu á verkunum sem fyrr en getið hefur valdið stefnendum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna þessa sé kr. 2.400.000.

Þegar brot þessi eru virt í heild sést að með því að auglýsa sýningu á verkum Jóns Kristinssonar án tilskilinnar heimildar, kynna hana ítrekað á heimasíðu og Facebook síðu Gallerís Foldar og í helstu fjölmiðlum landsins og birta stórar, áberandi auglýsingar á biðstöðvum Strætó, hafa stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, nýtt sér verkin með þeim hætti að varði, jafnframt því sem að framan greinir, við ákvæði um auglýsingar í 6. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og markaðssetningu auk ákvæða um óréttmæta viðskiptahætti í 8., 13, 14. og 15. gr. a. þeirra laga.

Stefnendur telja að stefndu beri skaðabótaábyrgð gagnvart þeim á grundvelli 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 vegna þeirra brota er að framan eru greind og samkvæmt því er nánar er þar greint um aðild hvers og eins að hverju broti fyrir sig. Stefnandi, Familían ehf., ber ábyrgð þar sem félagið hefur bókfært tekjur og gjöld vegna þeirrar starfsemi er brotin fólu í sér. Stefndu, Þorsteinn, Hrefna og Margrét, bera ábyrgð þar sem þau komu fram sem gerendur brotanna bæði gagnvart stefnendum og í fjölmiðlum. Telja stefnendur að brotin hafi verið framin með ásetningi þessara stefndu, enda höfðu þau vitneskju um að Jón Kristinsson var höfundur þeirra og hverjir væru erfingjar hans. Um stefnda, Fabrik ehf., gilti sama máli hvað huglæga afstöðu varðar en hann hafði sömu vitneskju og aðrir stefndu um Jón sem höfund verkanna og hverjir væru erfingjar hans.

Stefnendur telja að brotin geti með engu móti talist hafa verið framin í góðri trú en jafnvel þótt svo væri er bótaskylda allt að einu fyrir hendi, sbr. lokamálslið 1. mgr. 56. gr. laganna.

 

Um skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón.

Stefnendur hafa, eins og að framan er rakið reiknað skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón sitt í samræmi við gjaldskrá Myndstefs sem sett er með heimild í 2. mgr. 25. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og var í gildi var á þeim tíma er brotin voru framin. Stefnendur telja að gjaldskráin, sem samkvæmt dómaframkvæmd er hin venjulega viðmiðun um fjárhæð skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón vegna brota á höfundarétti að myndlistarverkum, kveði skýrlega á um fjárhæð bóta í hverju tilviki sem tiltekið er að framan með þeim skýringum sem þar eru greindar.

Stefnendur taka fram að brot stefndu voru stórfelld. Þau voru fjölmörg, samtals 359 talsins, og tóku til 85 myndverka, miðað við þann lista sem stefnendur hafa tekið saman og lagt fram í málinu. Þá hafi stefndu Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, ekki hætt sölu eftirprentana, þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni af hálfu stefnenda, fyrr en eftir að þær höfðu verið í sölu í um það bil 200 daga. Stefndi, Fabrik ehf. hefur við útgáfu stefnu þessarar ekki enn látið af þeirri háttsemi að sýna verkin í auglýsingum á Facebook síðu sinni.

Þessu til viðbótar leggja stefnendur áherslu á að stefndi, Familían ehf., sem mun að öllu leyti vera í eigu stefndu, Þorsteins, Hrefnu og Margrétar, hefur að því er best verður séð haft talsverðan fjárhagslegan ávinning af brotunum. Vísa stefnendur þá til þess að í ársreikningi Familíunnar ehf. vegna ársins 2013, eru bókfærðar tekjur vegna vörusölu að fjárhæð kr. 2.992.201 en rekstrargjöld samkvæmt rekstrarreikningi ársins eru kr. 1.020.796. Bókfærður hagnaður ársins nemur kr. 1.578.258. Bókfærðar tekjur vegna ársins 2014 nemi hins vegar kr. 255.498 og rekstrarkostnaður kr. 1.008.723. Jafnvel þótt hagnaður kunni að einhverju leyti að vera tilkominn vegna styrkja eða hugsanlega vegna annarrar starfsemi en þeirrar er brotin fólu í sér breyti það engu um að fjárhagslegur ávinningur var af brotunum.

Stefnendur benda enn fremur á að stefndu Þorsteinn, Hrefna og Margrét, leituðu eftir styrkjum hjá fjölmörgum fyrirtækjum í formi endurgjaldslausrar vinnu eða vöruúttekta. Þannig þáðu stefndu veitingar frá Mjólkursamsölunni og Ölgerðinni, prentstofur er prentuðu auglýsingaspjöld til birtingar á biðstöðvum Strætó virðast hafa gert það án endurgjalds og birtingaraðilinn sömuleiðis hafa birt spjöldin endurgjaldslaust. Jafnframt buðu stefndu fyrrum auglýsendum Rafskinnu í tengslum við sýninguna að kaupa frumverk Jóns og einhverjir þeirra keyptu verk, í það minnsta Ölgerðin. Stefndu kynntu sýninguna rækilega í helstu fjölmiðlum landsins. Þannig notfærðu stefndu sér nafn Jóns og verk hans félaginu til ávinnings í tengslum við hin tilgreindu brot. Þetta, ásamt umleitunum þeirra til samstarfs við Listaháskólann og hugsanlega fleiri aðila urðu til að vekja athygli enn fleiri aðila á óheimilli nýtingu verkanna.

Ber af þessum sökum að beita ákvæði 2. mgr. 56. gr. höfundalaga um að við ákvörðun bóta beri að líta til fjárhagslegs ávinnings hins bótaskylda. Jafnframt ber að líta til þess að brotin voru fjölmörg, fjöldi þeirra verka er brotið var gegn var mikill og kynning á þeim umfangsmikil.

Stefnendur taka fram að yrði talið að gjaldskrá Myndstefs yrði beitt með öðrum hætti í þeim tilvikum þegar notendur kaupa afnot myndefnis undir þeim kringumstæðum að aflað er heimildar rétthafa, ber þrátt fyrir það að beita henni í málinu með þeim hætti sem dómkröfur byggja á. Jafnframt sé eðlilegt að þegar um réttarbrot er að ræða sé ekki tekið tillit til lækkunar er Myndstef myndi hugsanlega beita í þeim tilvikum að heimildar er aflað.

Krafa um skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón er sett fram á grundvelli 1. mgr. 56. gr. höfundalaga.

 

Miskabætur

Krafa um miskabætur vegna brots gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar er sett fram með heimild í 3. mgr. 56. gr. höfundalaga. Við brot þau er fyrr er lýst urðu stefnendur fyrir miskatjóni sem er umtalsvert. Því til stuðnings er bent á eftirfarandi: 

Stefnendur höfðu nýlega tekið við handhöfn þeirra réttinda er um ræðir eða á árinu 2009. Þau hafi haft til skoðunar nýtingu á verkum Jóns í einhverju formi. Stefnendur telja að notkun verkanna sem ekki stendur í tengslum við notkun þeirra í Rafskinnu á sínum tíma og felur í sér notkun á verkunum sem myndlistarverkum, óháð þeim tilgangi sem þau voru í öndverðu unnin fyrir. Því gildi sömu sjónarmið um ákvörðun miskabóta vegna brota gegn verkunum og gilda annars um myndlistarverk.

Stefnendur vísa einnig til þess að gríðarleg kynning hafi farið fram á verkunum sem slíkum án þess að nafns Jóns væri að neinu getið nema á sýningunni í Gallerí Fold. Þannig komu verkin fyrir augu fjölda fólks sem átti leið um götur Reykjavíkur þá viku sem birting á 100 biðstöðvum Strætó stóð yfir en vart sé hægt að komast hjá því að auglýsingaspjöldin, fangi auga þess sem fram hjá þeim fer. Auk þessa voru eftirprentanir til sölu í formi veggspjalda og póstkorta í allnokkrum verslunum um rúmlega sex mánaða skeið.

Stefnendur telja einnig að brot stefndu hafi falist í broti gegn þeim þætti sæmdarréttar er felst í réttinum til að hindra að verki sé breytt, sjá umfjöllun um breytingu á verkum Jóns í köflum um vinnslu boðskorts, auglýsingaspjalds í glugga, límmiða, veggspjöld og auglýsingaspjöld á biðstöðvum Strætó. Brot þetta leiddi einnig til miskatjóns er fólst í því að þurfa að þola að verkin birtust með margvíslegum hætti í breyttu formi.

Í samræmi við dómaframkvæmd hafa stefnendur miðað að við miski vegna óheimillar birtingar eins verks í dagblaði með víðtæka útbreiðslu sé bættur með kr. 100.000 og við að miski vegna birtingar eða rangrar nafngreiningar eins verks á netinu í einn mánuð sé bættur með kr. 10.000.

 

Kröfur um að efni verði fjarlægt af vefsíðum stefndu

Krafa samkvæmt tölulið 8 er byggð á 55. grein höfundalaga þar sem segir að hafi eintök af verkum verið gerð í bága við ákvæði laganna megi ákveða í dómi að eintökin séu eyðilögð eða fjarlægð af markaði. Er þess krafist hér að kynningarmerkið sem birt er á vefsíðu stefnda, Familíunnar ehf., verði fjarlægt af vefsíðunni. 

Krafa samkvæmt tölulið 9 er einnig byggð á 55. grein höfundalaga þar sem segir að hafi eintök af verkum verið gerð í bága við ákvæði laganna megi ákveða í dómi að eintökin séu afhent brotaþola eða eyðilögð. Eintök þau er þessi liður tekur til eru auglýsingar og ljósmyndir samkvæmt nánari lýsingu í 9. tölulið, sem hafa að geyma verk Jóns Kristinssonar eða ranga tilgreiningu á höfundi verka hans. Er þess krafist hér að eintökin verði fjarlægð af vefsíðu stefnda, Fabrik ehf.

 

Krafa um eyðingu óseldra birgða

Krafa samkvæmt tölulið 10 er byggð á 55. grein höfundalaga þar sem segir að hafi eintök af verkum verið gerð í bága við ákvæði laganna megi ákveða í dómi að eintökin séu afhent brotaþola eða eyðilögð. Er þess krafist hér að eintök í birgðum af eftirprentunum af verkum Jóns Kristinssonar í formi boðskorts, póstkorta, límmiða og veggspjalda verði afhent stefnendum til eyðingar með viðeigandi hætti.

 

Krafa um birtingu dóms

Krafa samkvæmt kröfulið 11 um birtingu dóms er byggð á 59. grein c höfundalaga þar sem kveðið er á um að í dómi þar sem kveðið sé á um brot á lögunum eða um ráðstafanir samkvæmt 55. grein megi að beiðni brotaþola mæla fyrir um birtingu dómsins að hluta eða í heild. Stefnendur telja að brot stefndu hafi verið stórfelld, þau hafi tekið til fjölmargra verka og verið framin með margvíslegri nýtingu, bæði opinberri sýningu, eintakagerð og dreifingu auk þess sem háttsemin var rækilega kynnt í fjölmiðlum eins og áður er komið fram. Er því eðlilegt að dómurinn taki þessa kröfu stefnenda til greina. Fjölmiðlakynning á þeirri starfsemi er brotin fólu í sér fór að miklu leyti fram með nokkrum fréttum í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu og er því rétt að dómurinn verði birtur í prentaðri útgáfu þessara miðla.

 

Málsástæður stefndu Þorsteins Bachmann, Hrefnu Bachmann, Margrétar Þorsteinsdóttur og Familíunnar ehf.

 

Um frávísunarkröfu

Stefndu krefjast aðallega frávísunar málsins vegna alvarlegra annmarka á málatilbúnaði stefnenda. Af hálfu stefndu er því haldið fram að kröfugerð stefnenda sé afar flókin, óljós, ruglingsleg og sett fram í mjög óskýru sambandi við málsástæður og frekari útlistun á dómkröfum og því verði ekki séð hvernig dómur yrði á þær lagður.

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að kröfugerð stefnenda sé ódómtæk. Málatilbúnaður sé í veigamiklum atriðum vanreifaður þrátt fyrir óhóflega lengd stefnu, grundvöllur kröfugerðar óljós og því sé nánast óvinnandi vegur fyrir stefndu að taka til varna með skipulegum hætti. Sérstaklega er vísað til þess að samband og samhengi milli, annars vegar útlistunar stefnenda á málsástæðum (meintum brotum) og dómkrafna þeirra hins vegar, er afar óljóst og óskýrt. Byggt er á því að kröfugerð og málsástæður stefnenda uppfylli m.a. ekki skilyrði d., e. og g. liða í 80 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Um upphaflegan höfundarétt Gunnars Bachmann og Jóns Kristinssonar

 

Stefndu vísa til þess sem haldið fram í stefnu um að Jón hafi einn verið höfundur auglýsingamyndanna. Þá komi þar fram að höfundaréttur hans nái til teikninganna sem birtast í auglýsingamyndunum og leturs þess texta sem þar er að finna, sem og að Jón sé höfundur textans, að svo miklu leyti sem höfundaréttindi nái til texta verkanna.

Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu í stefnu að engin höfundaréttindi tengd umræddum verkum hafi stofnast í öndverðu til handa Gunnari Bachmann. Af hálfu stefndu er því enn fremur mótmælt að Jón sé höfundur textans og jafnframt telja stefndu að ósannað sé að letur sem notað var á auglýsingamyndum þeim sem hér um ræðir, séu höfundavarin verk Jóns.

Af hálfu stefndu er ekki deilt um að Jón Kristinsson teiknaði myndirnar sem mál þetta snýst um. Eins og við eigi um öll verk sem gætu fallið undir höfundaréttarvernd samkvæmt höfundalögum verður að meta hvort slík verk uppfylli skilyrði þeirra laga, þ.e. hvort verkin nái tiltekinni verkshæð, þ.e. geti talist andleg sköpun sem ber þess merki að vera ný og sjálfstæð. Hér er um að ræða auglýsingamyndir tiltölulega einfaldar að gerð og verður dómstóllinn að meta hvort að verk þessi geti talist verk sem njóti verndar samkvæmt höfundalögum.

Stefndu halda því fram að Gunnar Bachmann hafi átt ríkan þátt í sköpun auglýsingamyndanna sem hér er fjallað um. Framlög hans til myndanna hafi m.a. falist í hugmyndavinnu, þ.e.a.s. hann gaf teiknaranum skýr og nákvæm fyrirmæli um efni og gerð auglýsinganna og jafnframt lagt til texta sem fram kom í auglýsingunum. Í því sambandi geta stefndu þess að mörg þessara slagorða urðu mjög þekkt og eru enn þann dag í dag notuð af viðkomandi auglýsendum.

Stefndu kveða einnig augljóst að við gerð auglýsinga skipti höfuðmáli að skýr hugmynd sé til um hvert efni hennar eigi að vera og slagorð og/eða texti. Hugmynd að auglýsingu og slagorð hafi afgerandi áhrif á útlit og framsetningu viðkomandi auglýsinga. Framangreind framlög Gunnars til verkanna eru ótvíræð í máli þessu. Í því sambandi vísa stefndu til samnings milli Gunnars Bachmanns og Jóns Kristinssonar frá 19. janúar 1949 en þar er m.a. sagt í fyrstu málsgrein „...eða nægilega nákvæmum fyrirmælum og fyrirsögnum um gerð myndanna.“ Í fjórðu málsgrein sama samnings er enn fremur komist svo að orði „...vegna efnisskorts á handritum eða nægilega nákvæmum fyrirmælum...“. En samkvæmt samningnum var það hlutverk Gunnars að setja fram fyrirmæli þessi og handrit. Stefndu telja þessi ákvæði samningsins taka því af öll tvímæli um það að verklag við auglýsingagerðina hafi verið með þeim hætti að Jón hafi teiknað myndirnar algjörlega eftir hugmyndum, fyrirmælum og handriti Gunnars.

Stefndu telja því er engum vafa undirorpið að framlög Gunnars hafa verið afar veigamikil og hann átt stóran hluta í sköpun auglýsingamyndanna. Þessum skilningi til frekari stuðnings skal vísa til viðtals við Jón í Morgunblaðinu frá 20. desember 1996 á þar sem meðal annars sé haft eftir Jóni, að Gunnar hafi hannað auglýsingarnar og reyndar kemur þar einnig fram að Gunnar hafi samið auglýsingarnar. Í viðtali þessu er haft beint eftir Jóni sjálfum: „Gunnar var ansi hugmyndaríkur þegar átti að fara að hanna auglýsingar og stundum fannst mér hann ganga það langt að ég neitaði að teikna það sem hann bað mig um“.

Stefndu benda enn fremur á að Gunnar framleiddi eða lét framleiða auglýsingamyndirnar fyrir viðskiptavini sína og sá um sölu, birtingu og útgáfu á þeim og tók alla fjárhagslega áhættu af þessari starfsemi. Þeir Gunnar og Jón hafi þannig báðir verið höfundar að öllum viðkomandi auglýsingamyndum og enn fremur sé ljóst að framlög þeirra verða ekki aðgreind hvert frá öðru sem sjálfstæð verk. Af þessum sökum verði þeir að teljast samhöfundar að auglýsingamyndunum samkvæmt 7. gr. höfundalaga. Stefndu vísa í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar frá 18. janúar 2001 í máli nr. 315/2000, þar sem að dæmt var að stefnandi málsins væri samhöfundur að þeim verkum sem um ræddi, enda hafði hann „...lagt hugmyndir, handrit og vinnu til...“ viðkomandi verks.

Stefndu telja enn fremur algjörlega ljóst að þeir Gunnar og Jón hafi sjálfir litið svo á að þeir væru samhöfundar að verkunum. Í bréfi Jóns til Gunnars, dags. 28. mars 1954 segir Jón m.a. „...auglýsingagildi yfirleitt gott og ég hugsa að þú verðir ánægður með beggja vinnu.“ Þá telja stefndu að sami skilningur komi fram í fjölda blaðagreina sem fjölluðu um Rafskinnu.

Stefndu telja að þessi mikla umfjöllun á sínum tíma og tilvitnað viðtal við Jón frá 20. desember 1996, sem var löngu síðar, þ.e. árið 1996, ásamt þeirri staðreynd að Jón hafði aldrei uppi andmæli eða neinar aðrar athugasemdir við þennan skilning, hvorki fyrr né síðar, renni enn frekari stoðum undir málatilbúnað þeirra að þessu leyti. Stefndu telja að Jóni hefði þó verið hægur vandi að geta annars í tilvitnuðu viðtali við Morgunblaðið eða t.d. í viðtali við hann í Jólablaði Þjóðviljans, dags. 21. desember 1991. Jón leggi hins vegar mikla áherslu á framlög Gunnars til verkanna í þessum viðtölum. Því verði aldrei fallist á að Jón hafi verið einn höfundur þessara auglýsinga enda eru séu orð hans sjálf höfð fyrir því að svo var ekki. Er þess því krafist að viðurkennt verði með dómi að Gunnar sé samhöfundur að auglýsingamyndunum.

Stefndu mótmæla einnig þeirri málsástæðu stefnenda að Jón hafi átt höfundarétt að leturgerðum (d. typografi) þeim sem notaðar voru í auglýsingunum. Vísa stefndu til þess að í 1. gr. höfundalaga sé leturgerð ekki talin sérstaklega til verka sem varin eru af lögunum. Ljóst sé að leturgerð verði seint talin til verka sem varin eru af höfundarétti, enda vandséð hvernig leturgerð, nema þá helst í algjörum undantekningatilfellum, getur talist uppfylla skilyrði um að vera ný og sjálfstæð andleg sköpun. Leturgerðir þær sem hér um ræðir virðast margar hverjar vera byggðar á algengum leturgerðum þess tíma. Þá sé þess enn fremur að geta að ótölulegur fjöldi leturgerða hafa verið notaðar í gegnum tíðina og því erfitt um að vik þegar meta á hvort ákveðin leturgerð uppfyllir skilyrðin um að vera ný og sjálfstæð. Sönnunarbyrði fyrir því að svo sé hlýtur að hvíla á stefnendum eins og þessu máli er háttað. Í stefnu er hins vegar ekki að finna neinar röksemdir fyrir því að viðkomandi leturgerðir séu varðar af höfundarétti.

 

Um framsal upphafslegs höfundaréttar Jóns Kristinssonar

Stefndu mótmæla því að ekki hafi átt sér stað framsal á höfundarétti Jóns til Gunnars að auglýsingamyndunum. Vísa stefndu að því leyti til samnings Jóns og Gunnars frá 19. janúar 1949 en stefndu telja að þessi samningur taki af öll tvímæli um að Gunnar hafi haft Jón í vinnu sem auglýsingateiknara. Stefndu vísa í því samhengi til þess að Gunnar greiddi Jóni ákveðin laun fyrir þessi störf og eignaðist því afrakstur vinnu hans, þ.e. viðkomandi auglýsingamyndir.

Stefndu mótmæla einnig fullyrðingum í stefnu um að framsal Jóns til Gunnars hafi einungis náð til notkunar verkanna í auglýsingaflettibókinni Rafskinnu. Vísa stefndu að því leyti til þess að auk notkunar auglýsinganna í Rafskinnu voru auglýsingarnar notaðar í dagblöðum, tímaritum og sem auglýsingar á kvikmyndasýningum. Þannig sé ljóst að auglýsingarnar voru notaðar í öllum tiltækum miðlum þess tíma. Stefndu telja jafnframt að Jóni hafi verið þetta fullkomlega ljóst þegar hann hóf störf sín hjá Gunnari að svo væri málum háttað, enda höfðu auglýsingarnar birst í blöðum, tímaritum og kvikmyndahúsum á meðan Tryggvi Magnússon starfaði fyrir Gunnar og allan þann tíma sem Jón var við þessi störf og raunar mun lengur og enn þann dag í dag, sbr. auglýsingar Mjólkursamsölunnar á útveggjum/gluggum Pétursbúðar.

Samkvæmt framangreindu telja stefndu að framsal Jóns til Gunnars á sínum tíma hafi byggst á því að allar notkunarheimildir væru framseldar, hverju nafni sem nefnast. Því hafi verið um að ræða algjört framsal Jóns á öllum upphaflegum fjárhagslegum höfundarétti hans að auglýsingamyndunum til Gunnars.

Af þessum sökum er því harðlega mótmælt sem fram kemur í stefnu að Gunnar hafi ekki rekið neina aðra starfsemi sem kynni að krefjast þess að auglýsingamyndirnar yrðu nýttar frekar á hans vegum og jafnframt að Gunnari hafi verið að óheimilt að framselja öðrum þá heimild sem hann öðlaðist til nýtingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. höfundalaga. Í þessu sambandi árétta stefndu að Jón hreyfði aldrei neinum andmælum eða athugasemdum við að auglýsingarnar birtust í dagblöðum, tímaritum og kvikmyndahúsum.

Stefndu leggja enn fremur ríka áherslu á að 71 ár eru liðin síðan fyrstu auglýsingar sem Jón teiknaði fyrir Gunnar birtust. Það sé því fullkomlega ljóst að tómlætisáhrif eru hér löngu fram komin, enda hafa hvorki Jón né erfingjar hans, stefnendur, haft uppi neina tilburði til að sækja meintan rétt sinn til stefndu, fyrr en með þessum málatilbúnaði. Þá feli tómlæti Jóns og síðar erfingja hans og atferli þeirra í sér þegjandi samþykki af þeirra hálfu og staðfestingu á því að allar fjárhagslegar höfundaréttarheimildir Jóns vegna auglýsingamyndanna hafi verið framseldar til Gunnars.

Í stefnu er því haldið fram að Jón hafi unnið sem verktaki hjá Gunnari á grundvelli einhvers konar munnlegs verktakasamnings. Stefndu telja stefnendur hins vegar ekki hafa fært neinar sönnur fyrir því að nokkur munnlegur verktakasamningur hafi verið fyrir hendi og er þeirri fullyrðingu mótmælt sem rangri og ósannaðri. Því er ennfremur mótmælt að um verktakasamning hafi verið að ræða af neðangreindum ástæðum, enda var Gunnar atvinnuveitandi Jóns á þeim tíma sem auglýsingarnar verða til.

Stefndu árétta að samningur Jóns og Gunnars frá 19. janúar 1949, svo og önnur atvik málsins, feli í sér staðfestingu að um vinnuréttarsamband var að ræða milli aðilanna, sbr. orðalag í samningnum sem kveður á um að Gunnar sjái um allan efniskostnað, myndirnar verði gerðar eftir nákvæmum fyrirmælum og fyrirsögnum um gerð þeirra. Stefndu vísa einnig til þess að skattayfirvöld hafi gert Gunnar ábyrgan fyrir sköttum Jóns á grundvelli stöðu hans sem atvinnuveitanda hans. Auk þess hafi Gunnar talið efniskostnað við gerð auglýsinga fram sem kostnað á skattframtölum sínum.

Stefndu telja jafnframt að Jón hafi verið í föstu starfi óslitið hjá Gunnari a.m.k. árin 1945-1957, þ.e. 12 ár. Samkvæmt skattframtölum Jóns að voru tekjur frá Gunnari langstærsti hluti heildartekna hans. Þá verði jafnframt ráðið af framtölum að Jón ekki unnið fyrir neina aðra aðila nema fyrir sjálfan sig, aðallega sem bóndi. Er í því sambandi vísað sérstaklega til skattframtals Jóns vegna ársins 1954, en með því fylgi launamiði fyrir Jón, þar sem fram komi að Gunnar Bachmann sé atvinnurekandi Jóns og enn fremur að laun greidd af Gunnari til Jóns það ár, hafi verið kr. 24.000, en heildartekjur Jóns það ár vegna teikninga voru kr. 25.000. Með sama hætti færir Gunnar á skattframtölum sínum greiðslur til Jóns sem kaupgreiðslur.

Stefndu telja að framangreind atriði sýni með ótvíræðum hætti að um vinnuréttarsamband var að ræða. Þá er því enn fremur mótmælt að samningurinn frá 19. janúar 1949 hafi verið einhvers konar undantekning frá venjubundnu samningssambandi aðilanna. Stefndu telja greinilegt samkvæmt samningnum, sem gerður er 19. janúar 1949, en þá hafði vinnusambandið staðið yfir í a.m.k. 4 ár, að samningurinn felur í sér staðfestingu á fyrirkomulagi því sem aðilarnir vildu hafa með sér og enn fremur að ekkert gerðist í framhaldinu sem breytti þessu fyrirkomulagi, sbr. ofangreind skattframtöl beggja aðila.

Stefndu telja enn fremur að líta verði til þess að Gunnar leit ávallt á sig sem atvinnurekanda gagnvart Jóni og haft fullt boðvald yfir honum í störfum hans vegna Rafskinnuverkefnanna, sbr. bréf Gunnars til Jóns, dags. 1. apríl 1954. En þar kemur m.a. fram að Gunnar telur að Jóni sé algjörlega óviðkomandi umbúnaður sýninga og annað fyrirkomulag, sem verði eftir geðþótta Gunnars á hverjum tíma. Af þessum sökum verður því þannig slegið föstu að Jón hafi verið í vinnu hjá Gunnari, með svipuðum hætti og tíðkast hjá auglýsingastofum nú á tímum.

Fari svo ólíklega að stefndu verði ekki sýknuð á grundvelli ofangreindra raka og málsástæðna, er enn fremur byggt á því að grundvallarreglur um hefð eigi við í þessu sambandi. Vísa stefndu í því sambandi til þess að lausafé verður unnið fyrir hefð samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, á tíu árum, en höfundaréttur hefur verið talinn til eignarréttar. Ýmsir fræðimenn hafa talið að höfundaréttur sem slíkur hefðist almennt ekki. Í þessu máli eru hins vegar uppi þær sérstöku aðstæður að sjöfaldur hefðartími er liðinn frá því að fyrstu verkin komu fram. Telja stefndu að í þessu máli sé svo sérstakar aðstæður og hagsmunir uppi að stefndu telja að rétt sé að víkja frá almennu reglunni og dæma skuli að upphaflegur höfundaréttur Jóns hafi unnist fyrir hefð í þessu tilfelli.

Komist dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að hefð hafi ekki unnist vegna verkanna telja stefndu rétt sé að líta til meginreglna hefðar og sjónarmiðanna þar að baki við túlkun samninga Jóns og Gunnars þannig að talið verði að um fullgilt framsal höfundaréttar hafi verið að ræða á grundvelli samninganna

Stefndu telja að jafnvel þótt litið yrði svo á að um verktakasamning hafi verið að ræða, leiði þau sjónarmið, sem að ofan hafa verið rakin, um tómlæti, þegjandi samþykki og hefð til þess að um fullgilt og að um algjört framsal allra fjárhagslegra upphaflegra höfundaréttinda Jóns hafi verið að ræða til Gunnars.

Því er mótmælt að hálfu stefndu að þeim hafi verið óheimilt að sýna auglýsingamyndirnar eins og gert var á sýningunni í Gallerí Fold. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. höfundalaga er eiganda myndlistarverks heimilt, nema annað sé áskilið, að sýna það almenningi. Í því tilviki sem hér um ræðir var um að ræða sýningu á auglýsingamyndum, m.a. í söluskyni. Slíkar sýningar hafa ekki verið taldar leyfisskyldar af Myndstef, sbr. t.d. vottorð Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur, fyrir hönd Myndstefs, dags. 8. janúar 2015. Enn fremur liggi fyrir að Myndstef hafi ekki krafist þess að samþykki Myndstefs eða viðkomandi listamanna sé aflað fyrir sýningum af þessum toga og jafnframt er ekkert að finna á vefsíðu Myndstefs eða í gjaldskrá þess sem að þessu lýtur. Af þessum sökum er á því byggt af hálfu stefndu að þeim hafi verið fullkomlega heimilt að standa að ofangreindri sýningu í Gallerí Fold.

Loks skal árétta að sýknu er krafist af öllum kröfum stefnenda af þeim ástæðum sem raktar hafa verið í kafla þessum.

 

Málsástæður sem leiða til sýknu af kröfu um afhendingu myndverka og/eða eftirgerða

 

Því er hafnað af hálfu stefndu að Jón hafi eingöngu framselt Gunnari afnotaheimild til birtingar verkanna í Rafskinnu, enda hafi verkin ekki eingöngu verið birt í Rafskinnu, heldur einnig sem auglýsingar í dagblöðum og kvikmyndahúsum. Þá árétta stefndu fyrri sjónarmið um að í framsali Jóns til Gunnars hafi allsherjarframsal á öllum fjárhagslegum höfundaréttindum Jóns að myndunum. Stefndu vísa til þess að sá háttur virðist hafa vera hafður á að fyrirtækin, auglýsendurnir sjálfir, fengu frumverkin til vörslu eftir að hafa keypt auglýsingu í Rafskinnu. Frumverkin prýddu oft veggi skrifstofuhúsnæðis og gera enn þann dag í dag. Jafnframt er bent á að frumverkin voru sjálf notuð við starfsemi Gunnars og urðu þar með eðli málsins samkvæmt eign hans.

Stefndu telja þó mestu varða um þennan lið kröfunnar að Gunnar keypti einfaldlega frumverkin af Jóni til fullrar eignar. Þannig verði samningur Jóns og Gunnars frá 19. janúar 1949 ekki skilinn svo að Jón hafi haldið eftir eignarétti að frumverkum auglýsinganna, enda sé ekkert fjallað um það í samningnum. Hins vegar sé í samningnum sérstaklega kveðið á um að greidd sé ákveðin fjárhæð fyrir auglýsingamyndirnar. Enn fremur sé ekki tekið á því í tilvitnuðum samningi að Gunnar hafi átt að afhenda auglýsingamyndirnar til Jóns. Þannig sé fullkomlega ljóst að eignarrétturinn hafi færst til Gunnars í þessum viðskiptum, í samræmi við tilgang og eðli þessara viðskipta.

Öll sömu sjónarmið og að framan eru rakin um tómlæti, þegjandi samþykki og hefð eiga hér fullkomlega við, enda hafa stefnendur ekki geta sýnt fram á eða sannað að þeir eða Jón hafi nokkru sinni á 70 ára tímabili krafist afhendingar frumverkanna úr hendi Gunnars, ekkju hans, Benedikts eða stefndu. Sérstaklega skuli áréttað að frumverkin sem slík teljast til lausafjár samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð, en hefðartími lausafjár er 10 ár samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra laga.

Í stefnu er því haldið fram að stefndu hafi ekki unnið hefð á frumverkunum þar sem 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð eigi hér við. Því er harðlega mótmælt af hálfu stefndu að ákvæði tilvitnaðrar málsgreinar komi hér til álita, þar sem ekkert þeirra tilvika sem þar eru upptalin eiga við í tilviki stefndu. Stefndu telja reyndar að þessi málsástæða sé vanreifuð í stefnu þar sem engin tilraun er gerð til þess að rökstyðja heimfærslu undir þetta tilvitnaða lagaákvæði, þ.e. ekki er tiltekið hvort byggt sé á því að stefndu hafi upphaflega náð umráðum frumverkanna með glæp eða óráðvandlegu atferli eða hvort stefndu hefðu fengið vitneskju um, áður en hefðin var fullnuð, að eignarhaldið væri þannig til komið. Þess utan sé öldungis fráleitt og frámunalega ósvífið af stefnendum að halda þessari málsástæðu fram. Þessari málsástæðu stefnenda er harðlega mótmælt sem fjarstæðu, enda liggur engin sönnunarfærsla fyrir þessari fullyrðingu af hálfu stefnenda eða tilburðir í þá átt í málatilbúnaði stefnenda.

Stefndu telja að Jón og erfingjar hans á eftir honum hafi haft fulla vitneskju um að fjöldi frumverka væri í eign og vörslum Gunnars og erfingja hans og höfðu aldrei hreyft við því andmælum eða athugasemdum, né heldur hafa þau krafist þess að fá frumverkin í sína vörslu, fyrr en með málatilbúnaði þessum. Bent skal á að stefnendur bera einungis fram þessa einu málsástæðu eða öllu heldur lagarök fyrir því að hefð hafi ekki unnist, þ.e. að 2. mgr. 2. gr. laga um hefð eigi hér við. Þar sem ljóst er að tilvitnað lagaákvæði á ekki hér við standi því eftir að hefð hefur unnist samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um hefð. Af tilefni þessara fráleitu málsástæðu stefnenda áskilja stefndu sér rétt til þess að höfða meiðyrðamál á hendur stefnendum. Af ofangreindum ástæðum hafna stefndu að þeim beri skylda til að afhenda umrædd frumverk sem krafist er í stefnu í kröfulið 1. a) og krefjast sýknu af þessum kröfulið.

Stefndu mótmæla því sérstaklega að skilmálar Félags íslenskra teiknara frá 1970 hafi nokkra þýðingu í þessu máli. Skilmálar þessir hafa að sjálfsögðu ekki lagagildi eða gildi sem nokkur önnur réttarheimild. Þá sé um að ræða einhliða skilmálar þessa tiltekna félags, sem hefur enga lögsögu í því máli sem hér um ræðir, enda hvorugur aðilanna með nokkrum hætti bundnir af þessum skilmálum.

Vegna b-liðar fyrstu kröfu stefnenda um afhendingu tilgreindra sex myndverka skal upplýst að verkin sem þar er vísað til eru öll í einkaeign annarra en stefndu og voru þau fengin að láni fyrir sýninguna, fyrir utan tvö verk sem stefndu eiga aðeins til negatívur af. Þar sem þessi verk eru ekki í umráðum eða eign stefndu voru þau ekki sett á lista stefnda yfir verk í þeirra eign og vörslu, sem þau útbjuggu að beiðni stefnenda. Sérstaklega skal tekið hér fram að stefndu vita ekki hvar frumverk auglýsinganna, „Jólin byrja hjá okkur, JK02“ og „Snemma á daginn fer blaðið um bæinn, JK04“ eru niðurkomin. Hins vegar eigi stefndu negatívur af þessum verkum, eins og áður greinir. Pixel prentþjónusta litaði þessar tilteknu negatívur og birtust þessi tvö verk í auglýsingum á strætóskýlum vegna sýningarinnar í Gallerí Fold. Stefndu krefjast sýknu af þessum kröfulið vegna aðildarskorts, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Stefndi, Þorsteinn, sagði í sjónvarpsþættinum Djöflaeyjunni að fjölskyldan ætti um 800 filmur. Stefndu skýra tilurð á þessum filmum eða réttara sagt negatívum að Gunnar fékk ljósmyndarann Sigurhans Vigni, í að a.m.k. sumum tilvikum til þess að taka ljósmyndir af auglýsingamyndunum og hafði hann þann háttinn á að þær voru látnar fylgja reikningnum til auglýsenda. Eftir að Sigurhans Vignir féll frá afhentu börn hans Benedikt u.þ.b. 990 negatívur af myndum sem hann tók fyrir Gunnar. Samkvæmt lista sem Benedikt gerði á sínum tíma, eiga stefndu 837 svarthvítar ljósmyndir af auglýsingum, sem hafa fylgt reikningum.

Stefnda kveða samninginn við Listaháskóla Íslands hafa verið gerðan í þeim tilgangi að varðveita og flokka þessar negatívur (þ.e. hluta þeirra negatíva sem hér að ofan er greint frá), en aldrei hafi komið til þess að Listaháskólinn skannaði negatívurnar af auglýsingamyndum sem Jón teiknaði. Stefndu árétta í þessu sambandi allar upplýsingar sem veittar hafa verið af hálfu stefndu vegna dómsmáls þessa og í aðdraganda þess eru veittar án skyldu og fela ekki í sér með nokkrum hætti að stefndu viðurkenni kröfugerð stefnenda. Upplýsingagjöf þessi er afrakstur gríðarlegrar fyrirhafnar og vinnu stefndu sem þau tóku að sér fyrir kurteisissakir og af virðingu við minningu Jóns Kristinssonar. Stefndu hafa hins vegar ekki mætt neinu öðru en vanþakklæti og dylgjum af hálfu stefnenda í þessu sambandi. Þeim dylgjum stefnenda um að líklegt séu að fleiri frumverk séu í vörslum stefnenda en þau hafa veitt upplýsingar um, er vísað á bug og mótmælt.

Stefndu krefjast enn fremur sýknu af varakröfu stefnenda í kröfulið 1. c) í stefnu um afhendingu eftirgerða af þeim verkum er tilgreind eru í kröfuliðum 1. a) og b). Um varakröfu þessa gildir 1. mgr. 25. gr. a höfundalaga, þar sem kveðið er á um að vörslumanni myndlistaverks sé skylt að veita höfundi aðgang að verkinu til fjölföldunar þess eða útgáfu. Af hálfu stefndu er hins vegar á því byggt að framangreindur réttur höfundar sé persónulegur og erfist ekki, sbr. síðasta málslið tilvitnaðs lagaákvæðis. Dómur Hæstaréttar nr. 315/2000 frá 18. janúar 2001 sem stefnendur vísa til, varakröfu sinni til stuðnings, eigi ekki við í þessu tilfelli þar sem sá dómur hafi varðað höfund í lifanda lífi og í stað frumverks nær dómurinn til ljósmynda sem aðilar málsins voru taldir samhöfundar að.

 

Málsástæður sem leiða til sýknu af kröfu um skaðabætur og miskabætur (kröfuliðir 2, 3, 6 og 7 í stefnu).

 

Stefndu telja að stefnendur séu ekki handhafar að höfundarétti þeirra auglýsingamynda sem mál þetta snýst um, enda var handhöfn höfundaréttarins framseld til Gunnars eins og áður er rakið. Öllum kröfum stefndu á grundvelli 3. gr. höfundalaga er því hafnað og krafist sýknu af þeim. Því er ennfremur hafnað af sömu ástæðum að framin hafi verið stórfelld brot á höfundarétti Jóns.

Í stefnu er því ennfremur haldið fram að brotið hafi verið gegn sæmdarrétti Jóns, samkvæmt 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga. Tilvitnuð 1. mgr. 4. gr. laganna kveður á um nafnbirtingarrétt höfundar. Um nafnbirtingarþáttinn er það að segja að allar myndir sem teiknaðar hafa verið af Jóni og birtar af stefndu hafa verið birtar óbreyttar, þ.e. allar myndir sem Jón hefur merkt sér hafa verið látnar halda sér þannig að nafn hans hafi komið fram.

Undantekningar á þessu komi þó fram á þeim myndverkum sem í stefnu eru kallaðar klippimyndir og notaðar voru við útgáfu á límmiðum, boðskortum og auglýsingaspjaldi. Þó að nafn Jóns hafi ekki komið fram á þeim hlutum mynda hans sem notaðar voru við gerð hinna svokölluðu klippimynda er þess að geta að sumar þessara mynda voru ekki merktar af Jóni og hins vegar að nafni Jóns var mjög haldið á lofti við kynningu á sýningunni og á sýningunni sjálfri. Einnig hafi þess verið getið sérstaklega á límmiðum á öskjunum að Jón sé annar höfunda myndanna sem askjan hefur að geyma.

Stefndu vísa til þess að í þeim tilvikum þar sem Jón hefur ekki merkt myndir með nafni sínu, hafa stefndu ekki skeytt nafni hans inn á myndirnar enda væri það óheimilt þar sem það fæli í sér óheimila breytingu á verki og fæli í sér brot á sæmdarrétti Jóns. Það sé hverjum höfundi í sjálfsvald sett hvort hann merki verk sín með nafni sínu eða ekki og hann einn hefur vald til þess að ákveða slíka merkingu, sbr. 1. mgr. 52. gr. höfundalaga. Kjósi höfundur að merkja ekki verk sitt eins og tilfellið er í þeim tilvikum sem hér um ræðir er öðrum aðilum óheimilt, nema fyrir liggi skýr og nákvæm fyrirmæli höfundarins sjálfs um að svo skuli gera, sbr. 3. mgr. 4. gr. höfundalaga. Stefnendur hafa ekki haldið því fram eða sýnt fram á að nokkrum slíkum fyrirmælum Jóns sé til að dreifa í tilvikum þeim sem hér um ræðir. Verkum Jóns verður því ekki breytt meðan svo er. Enn fremur skal hér aftur vísað til 1. mgr. 52. gr. höfundalaga, þar sem lagt er bann við því að setja nafn höfundar á verk án samþykkis hans en þetta ákvæði gildir einnig ef höfundur hefur fallið frá, (sbr. umfjöllun um ákvæði þetta í greinargerð með frumvarpi að höfundalögum). Enn fremur er á því byggt af hálfu stefndu að réttarvenja hafi fyrir löngu skapast fyrir því að nafn auglýsingateiknara séu ekki birt á auglýsingum sem þeir hafa teiknað eða skapað.

Stefndu hafna því einnig að brotinn hafi verið á Jóni sæmdarréttur hans samkvæmt 2. mgr. 4. gr. höfundalaga. Stefndu telja ekki um brot að ræða samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði, nema að breyting á verki höfundar eða birting sé með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans höfundarsérkenni. Því fer fjarri að stefndu hafi með nokkrum hætti skert höfundarheiður eða höfundarsérkenni með breytingum þeim sem leiddu af gerð svokallaðra klippimynda, sem áður var vikið að, enda var þar vel og smekklega vandað til verka. Stefnendur hafa með engum hætti fært rök fyrir því að höfundaheiður eða höfundasérkenni Jóns hafi verið skert samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði, enda engin rök fyrir hendi að því svo sé háttað. Af ofangreindum ástæðum hafna stefndu því alfarið að brotið hafi verið gegn sæmdarrétti Jóns og því er krafist sýknu af öllum kröfum vegna meintra brota gegn sæmdarrétti hans og þar með skaðabótakröfum á þeim grunni.

 

Meint höfundaréttarbrot stefndu á höfundaréttindum Jóns Kristinssonar

 

Aðkoma stefndu að sýningunni í Gallerí Fold og kynningu á henni (liður a í kröfugerð stefnenda)

Stefndu hafna öllum málatilbúnaði stefnenda um að þau hafi brotið gegn höfundaréttindum Jóns Kristinssonar. Með vísan til þess sem að framan er rakið telja stefndu að þeim hafi verið fullkomlega heimilt að standa að sýningunni í Gallerí Fold 1.-24. nóvember 2013 og kynningu á henni. Þá telja stefndu að sama máli gegni um framleiðslu boðskorts vegna sýningarinnar, enda hafi boðskortinu verið ætlað að vekja áhuga fólks fyrir sýningunni, þótt því hafi verið dreift í mjög takmörkuðu upplagi og þá aðeins til nokkurra styrktaraðila sýningarinnar, vina og ættingja, sem allir þekktu gjörla til höfunda verkanna.

Stefndu vísa enn fremur til þess að boðskortin hafi að stærstum hluta verið látin liggja frammi á sýningunni sjálfri í Gallerí Fold, þ.a.l. skiptir mestu máli að á sýningunni sjálfri voru nöfn teiknara auglýsingamyndanna sett skilmerkilega fram eins og áður hefur verið vikið að. Því er ærið langsótt að telja boðskort þetta brjóta á nafnbirtingarétti Jóns Kristinssonar, sem eins og áður er fram komið, merkti oft og einatt ekki myndir sínar sjálfur.

Hvað varðar meint brot á sæmdarrétti Jóns að öðru leyti vísast til málsástæðna stefndu sem fjallað er um hér að framan. Til að taka af allan vafa er rétt sem kemur fram í stefnu að prentuð voru 300 boðskort, en engin þeirra voru póstlögð, heldur voru þau notuð með þeim hætti sem ofan greinir.

Hvað varðar boðskortið og þar með þá níu bókstafi sem fyrirsögnin RAFSKINNA er sett saman úr og klippimynd þá sem getið er um í þessum kröfulið vísast til þegar framkominna mótmæla og umfjöllunar hér að framan sem leiða til sýknu af þessum kröfulið. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum samkvæmt þessum lið kröfunnar grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan.

 

Sýning frummynda, 44 myndir á vegg (liður k í kröfugerð stefnenda)

Stefndu telja sem fyrr verið fullkomlega heimilt að standa að sýningu á þessum frummyndum í Gallerí Fold og vísa um það til fyrri umfjöllunar.

Hvað varðar verkið „Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund“, sem var fyrir mistök merkt Tryggva Magnússyni í sýningarskrá, er það eitt að segja að Jón Kristinsson hafði merkt verkið sjálfur Rafskinna/Jóndi, þannig ekki verður séð að þessi mannlegu mistök hafi komið að sök.

Þau frumverk sem ekki voru boðin til sölu á vefsíðu Gallerí Foldar og vefsíðu stefndu, eru sum í eign stefndu og önnur eru í einkaeign annarra og voru fengin að láni vegna sýningarinnar. Tilviljun ein hafi ráðið því hvort verkin á sýningunni voru boðin til sölu á vefsíðum Gallerí Foldar og vefsíðu stefndu. Þau verk sem fengin voru að láni voru augljóslega ekki til sölu. Aðeins eitt verk, „Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld“, var selt eftir að sýningunni lauk, nánar tiltekið þann 16. desember 2013. Fabrik ehf. hafi ekki komi að þeirri sölu og því sé ekki um fylgiréttargjald samkvæmt 25. gr. b. höfundalaga að ræða.

Stefndu fengu auk þess tvö verk að láni frá Nóa Siríus: „Hún gaf honum Ópal, nr. JK09“ og „Einn pakki á dag kemur öllu í lag nr. JK10“. Eftirfarandi verk eru í vörslu stefndu og hafa ekki verið seld: „Jólakökur með jólabragði, nr. 1; Mennt er máttur, nr. 43; Blindur er bóklaus maður, nr. 47; Athyglin beinist að yndisþokkanum, nr. 89 og Við leik og störf er vinnufata brýnust þörf, nr. 28“.

Tilburðum stefnenda til þess að færa rök fyrir því að einhver taxti samkvæmt gjaldskrá Myndstefs eigi yfirleitt við um sýninguna er mótmælt harðlega á grundvelli sömu raka og áður hefur verið fjallað um. Stefndu vekja athygli á því að í stefnunni komi skýrt fram að gjaldskrá Myndstefs hafi ekki að geyma neinn taxta sem nái yfir sýningar af þessu tagi, enda, eins og áður er fram komið, telur Myndstef sér ekki heimilt að leggja gjöld á slíkar sýningar. Það sé því fullkomlega fráleitt að reyna að teygja aðra hluta gjaldskrárinnar yfir þessa sýningu, sem er auðvitað þvert gegn hlutverki Myndstefs og lagaheimildum fyrir taxta af þessu tagi.

Krafist er sýknu á öllum brotum samkvæmt þessum kröfulið á grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan.

 

Sýning frummynda, 30 myndir, í sölurekka (liður l í kröfu stefnenda)

Stefndu telja sig hafa sýnt fram á með sama hætti og rakinn er að framan að þeim hafi verið fullkomlega heimilt að standa að sýningu á þessum frummyndum í Gallerí Fold

Stefndu mótmæla því einnig að stefnandi, Kristjana Jónsdóttir, hafi staðreynt fjölda verkanna en sú fullyrðing er algjörlega ósönnuð. Ekki liggi fyrir hvað margar myndir voru í rekkanum, stefndu töldu að þær væru í kringum 30, þegar lögmaður stefndu ritaði bréf til stefnenda 24. febrúar 2015. Engar myndir úr þessum rekka seldust á sýningunni. Einu frumverkin sem seldust á sýningunni, voru tvö innrömmuð frumverk teiknuð af Jóni Kristinssyni: „Fiskihöllin, Borðið fisk og sparið“ og „Sápuverksmiðjan Hreinn, „Hreins kristalssápa gerir allt sem nýtt“. Hins vegar seldust tvær myndir úr rekkanum eftir sýninguna. Þessar myndir eru ekki á listanum sem stefnendur settu saman en þessar tvær myndir voru seldar Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni, þann 16. desember 2013 og Svalandi jóladrykkir. Eins og áður hefur verið fjallað um keypti Ölgerðin Egill Skallagrímsson fjórar myndir eftir sýninguna, ofangreindar tvær myndir úr rekkanum, eina mynd úr sýningarkassa, Egils jóladrykkir og eitt innrammað frumverk, Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld. Stefndu segja Fabrik ehf. ekki hafa komið að sölunni á þessum verkum og því sé ekki um fylgiréttargjald að ræða.

Stefndu segja engar aðrar myndir hafa verið í rekkanum en helst verði talið að 27 myndir hafi verið í rekkanum á sýningunni, en ekki 30 myndir eins og stefndu töldu að hefðu verið.

Til þess að taka af allan vafa taka stefndu fram að í eign og vörslum stefndu séu nú 157 frumverk teiknuð af Jóni Kristinssyni. Listinn sem stefnendur hafa unnið eigi því við, að undanskildum sex verkum sem stefndu seldu eins og að ofan greinir (þ.e. verk nr. 16, 36, 113, 114, 115 og 116 á þeim lista sem stefnendur hafa lagt fram).

Varðandi skaðabótakröfu og tilraun stefnenda til þess að „búa til“ Myndstefstaxta sem gilda ætti um þessa sýningu vísast til mótmæla stefndu þar um. Stefndu krefjast sýknu á öllum brotum samkvæmt þessum kröfulið á grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan.

 

m)        Sýning frummynda, sjö myndir í sýningarkassa

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum samkvæmt þessum kröfulið og vísa um það til fyrri umfjöllunar um að þeim hafi verið fullkomlega heimilt að standa að sýningu á þessum frummyndum í Gallerí Fold. Stefndu rekur hins vegar ekki minni til þess hvort þessar myndir hafi verið til sölu á sýningunni eða ekki, þótt þeim þyki það þó harla ólíklegt. Rétt er að þær voru til sýnis á sýningunni og jafnframt ljóst að engin þeirra seldist á sýningunni. Ein mynd sem var í sýningarkassanum seldist þó eftir sýninguna, eins og komið hefur fram. Sú mynd sem seld var Ölgerðinni eftir sýninguna var myndin „Egils jóladrykkir“. 

 

n)         Sýning myndverka á skjá á sýningu

 

Eins og fram kom í bréfi lögmanns stefndu til lögmanns stefnenda, dags. 24. febrúar 2015 er ekki til eintak af glærusýningunni, sem varpað var upp á skjá á sýningunni. Jóhann Ágúst Hansen hjá Gallerí Fold setti saman þessa glærusýningu og samkvæmt honum vistaði hann ekki eintak af sýningunni. Stefndu kveða algjörlega ósannað hversu margar auglýsingamyndir teiknaðar af Jóni Kristinssyni birtust í þessari glærusýningu. Krefjast stefndu sýknu af þessum kröfulið með sömu rökum og áður hafa komið fram af hálfu stefndu.

Stefndu kveða glærusýningunni auk þess einungis hafa verið ætlað að kynna teiknarana, Jón og Tryggva, sem heimilt sé samkvæmt 1. mgr. 25. gr. höfundalaga, sbr. fyrri umfjöllun. Þá mótmæla stefndu að tilgreindur taxti úr gjaldskrá Myndstefs eigi við um glærusýninguna, enda var sýningin ekki leyfisskyld, eins og áður er fram komið.

 

o)         Framleiðsla auglýsingaspjalds sem stillt var út í glugga Gallerís Foldar

 

Stefndu kveða þessu spjaldi hafa verið fargað eftir sýninguna. Rétt er að auglýsingaskiltið var sett saman úr tíu auglýsingamyndum úr Rafskinnu, níu þeirra voru teiknaðar af Jóni og ein þeirra var teiknuð af Tryggva Magnússyni. Enn fremur byggja stefndu á því að það sé löng hefð og alþekkt réttarvenja fyrir því að auglýsingar séu ekki merktar höfundum sínum. Í þessu sambandi er látið nægja að vísa til þeirra auglýsinga sem nú birtast í dagblöðum og öðrum auglýsingamiðlum. Því er því mótmælt að skortur á tilgreiningu nafns Jóns geti valdið stefnendum miskatjóni, enda gátu þau ekki búist við nafnbirtingu í tilfelli þessu.

Krafist er sýknu á öllum brotum samkvæmt þessum kröfulið bæði af ofangreindum ástæðum og enn fremur á grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan. Í því sambandi er sérstaklega vísað til umfjöllunar um svokallaðar klippimyndir og sæmdarrétt Jóns.

 

p)         Sýning auglýsingaskiltis fyrir utan inngang Gallerís Foldar

 

Stefndu telja algerlega óljóst hver ætlan stefnenda er með þessum kröfulið. Í annarri málsgrein þessa kröfuliðar segja stefnendur að ekki verði gerðar kröfur að svo stöddu. En í þriðju málsgrein segja stefnendur að verið sé að gera kröfu á hendur öllum stefndu. Hér er því að finna enn eitt dæmið um óskýrleik í kröfugerð stefnenda, sem augljóslega varðar frávísun. Þrátt fyrir að óljóst sé hvort að stefnendur séu að gera einhverjar kröfur undir þessum kröfulið er til öryggis krafist sýknu með þeim rökum og málsástæðum stefndu sem þegar eru fram komnar.

 

r)          Birting 9 myndverka á heimasíðu stefnda Familíunnar ehf., www.rafskinna.net

Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. höfundalaga var stefndu heimilt að birta myndir af þessum 9 auglýsingamyndum, sem til sölu voru á vefsíðunni í formi eftirprentana. Engu skiptir í þessu sambandi með hvaða hætti slík birting er gerð eða á hvaða miðlum hún fer fram. Í þessu skyni er vísað til bréfs frá lögfræðingi Myndstefs 8. janúar 2015, þar lýst sé skilningi Myndstefs hvað þetta varðar. Eins áður greinir er ekki venja að birta nafn höfundar á auglýsingum og ljósmynd þessi verður að teljast auglýsing. Því var ekki framið brot með því að birta ljósmyndir af límmiðaöskjunni á vefsíðu stefndu. Lokað var fyrir alla virkni vefsíðunnar www.rafskinna.net og þar með sölu, þann 15. maí 2014.

Stefndu mótmæla að taxti Myndstefs geti átt hér við og enn fremur er miskabótakröfu mótmælt sem algjörlega fráleitri. Krafist er sýknu á öllum brotum samkvæmt þessum kröfulið bæði af ofangreindum ástæðum og enn fremur á grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan. Í því sambandi er sérstaklega vísað til umfjöllunar um svokallaðar klippimyndir og sæmdarrétt Jóns.

 

s)         Birting kynningarmerkis á heimasíðu stefnda Familíunnar ehf., www.rafskinna.net

 

Stefndu mótmæla að stefnendur geti byggt nokkurn rétt á hinu svokallaða „kynningarmerki“ enda er það samsett úr bókstöfum og leturgerðum, sem eru ekki varin af höfundarétti eins og áður er vikið að í umfjöllun stefndu um upphaflegan höfundarétt Gunnars Bachmann og Jóns Kristinssonar.

Eins og áður greinir var lokað fyrir alla virkni vefsíðunnar www.rafskinna.net þann 15. maí 2014. Rétt er að „kynningarmerki“ Rafskinnu var enn inn á vefsíðunni eins og lýst er í stefnu. Hýsingu síðunnar var hætt 30. september 2015, ekki er því rétt að merkið hafi verið enn í birtingu á síðunni við útgáfu stefnunnar. Því sé mótmælt að taxti Myndstefs geti átt hér við og enn fremur er miskabótakröfu mótmælt sem algjörlega fráleitri, enda engin haldbær rök færð fyrir henni.

Krafist er sýknu á öllum brotum samkvæmt þessum kröfulið bæði af ofangreindum ástæðum og enn fremur á grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan.

 

2.         Útgáfa á veggspjöldum og póstkortum

a)         Útgáfa veggspjalda

Stefndu segja að framleidd hafi verið 25 eintök af hverju veggspjaldi. Familían ehf. hafi bókfært sölu á 120 eintökum af veggspjöldum, þar af voru 73 veggspjöld eftir auglýsingamyndum Jóns Kristinssonar og 47 veggspjöld eftir auglýsingamyndum Tryggva Magnússonar. Þann 20. maí 2014 voru öll veggspjöld og póstkortaöskjur tekin úr sölu, án skyldu stefndu.

Stefndu mótmæla öllum skaðabótakröfum á sömu forsendum og að framan er fjallað um, enda hafi stefndu verið fullkomlega heimilt að láta framleiða og veggspjöld þau sem hér um ræðir. Eftirprentanirnar hafi verið gerðar nákvæmlega eftir frumverkunum, þannig að þau voru eins og Jón merkti þau, annaðhvort merkt Rafskinna eða Rafskinna/Jóndi eða ómerkt. Þegar af þessari ástæðu sé fráleitt að halda því fram að nafnbirtingarréttur Jóns hafi ekki verið virtur.

Stefndu kveða rétt að veggspjöldin hafi verið merkt © Familían ehf. / www.rafskinna.net. Af hálfu stefndu er tilganginum með þessari merkingu lýst með því að einungis hafi átt að kynna neytendum hver væri útgefandi verka þessara, svo sem skylda þeirra stendur til samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, sbr. 1. mgr. 1. gr. sömu laga. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum samkvæmt þessum kröfulið bæði af ofangreindum ástæðum og enn fremur á grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan.

 

b)         Útgáfa póstkorta og límmiða til sölu í öskjum

Stefndu mótmæla staðhæfingu stefnenda að framleiddar hafi verið 400 öskjur, þar sem upplag af hverri gerð korts hafi verið 400 stk., sem rangri. Stefndu hafi ekki framleitt neinar öskjur, heldur voru þær keyptar tilbúnar og stefndu síðan sett límmiðana á þær eftir hendinni miðað við vænta sölu, sem voru 200 öskjur. Stefndu hafi látið prenta 400 stk. af hverri gerð póstkorta, þar sem það reyndist hagstæðara fyrir þau. Póstkortaöskjur hafi eingöngu verið seldar í Gallerí Fold og í verslununum Rammagerðinni, Hrím og Borð fyrir tvo. Samtals hafi selst 68 póstkortaöskjur, sbr. sölureikninga.

Stefndu mótmæla sérstaklega að brotið hafi verið á nafnbirtingarrétti Jóns Kristinssonar, enda hafi póstkortin sýnt óbreytta mynd af viðkomandi frumverkum auglýsingamynda eftir Jón. Eins og áður er fram komið var undir hælinn lagt hvort Jón merkti sér myndir eða ekki.

Enn fremur er byggt á því að límmiðar þeir sem um ræðir voru notaðir á lok og botn hverrar öskju sem um ræðir, en askja þessi myndaði því eina heild sem sjálfstæð vara og á límmiða sem var á botni askjanna var skilmerkilega getið um hverjir hefðu teiknað auglýsingamyndir Rafskinnu. Öskjurnar hafi einungis haft að geyma póstkort eftir frumverkum úr Rafskinnu.

Því er mótmælt að taxti Myndstefs geti átt hér við. Enn fremur er miskabótakröfu mótmælt sem algjörlega fráleitri.

 

3.         Birting auglýsinga á biðstöðvum Strætó

Skaðabótakröfu stefnenda undir þessum lið er mótmælt sérstaklega með þeim rökum að augljóst ætti að vera að notkun auglýsingamyndanna í auglýsingaskyni samræmist fyllilega upphaflegum tilgangi með gerð auglýsingamyndanna. Þá telja stefndu að heimild 4. mgr. 25. gr. höfundalaga að birta myndir af listaverkum þegar þau eru boðin til sölu nái til þess þegar um auglýsingu á sölusýningu fjölda listaverka er að ræða, þó ekki sé í öllum tilvikum um að ræða sömu myndir og til sölu voru boðnar.

Stefndu mótmæla einnig öllum miskabótakröfum á grundvelli meintra brota á nafnbirtingarrétti Jóns Kristinssonar undir þessum kröfulið á sömu forsendum og áður greinir, enda voru viðkomandi auglýsingar á biðstöðvum Strætó óbreyttar eftirprentanir af frumverkum. Þá er því hafnað hafnað að meint samþykki fyrir nafnbirtingu prentaðila auglýsingaskiltanna feli í sér brot á sæmdarrétti Jóns, enda er það löngu viðtekin hefð og venja að prentaðilar merki auglýsingar af þessu tagi með þessum hætti. Enn fremur telja stefndu að um svo óverulegar breytingar á verkunum sé ræða að aldrei verður talið að skertur hafi verið höfundarheiður eða höfundarsérkenni Jóns, sbr. 2. mgr. 4. gr. höfundalaga. Því er mótmælt að taxti Myndstefs geti átt hér við og enn fremur er miskabótakröfu mótmælt sem algjörlega fráleitri, enda séu engin haldbær rök færð fyrir henni.

Krafist er sýknu á öllum brotum samkvæmt þessum kröfulið bæði af ofangreindum ástæðum og enn fremur á grundvelli þeirra mótmæla og málsástæðna sem stefndu hafa rakið hér að framan.

Stefndu telja að fullyrðingar í stefnu um að meint brot varði enn fremur við tiltekin ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, fær ekki staðist, enda sé engin tilraun gerð til þess að rökstyðja heimfærslu þessara meintu brota undir þau ákvæði laganna sem þar eru tilgreind. Enn fremur er með engum hætti tilgreint af stefnendum hverju þessu meintu brot á tilvitnuðum lagaákvæðum varði.. Hafa beri í huga að tilvitnuð lög og lagaákvæði eru sett til þess að gæta hagsmuna neytenda og fyrirtækja í samkeppnisrekstri og ekki verður séð að hin meintu brot skaði með nokkrum hætti hagsmuni neytenda eða fyrirtækja og þess þá heldur hagsmuni stefnenda. Stefndu líta því svo á að þessi þáttur kröfugerðar og „málsástæðna“ stefnenda sé ekki dómtækur vegna vanreifunar og óskýrleika og ætti því sem slíkur að varða frávísun samkvæmt d. og e. liðum í 80 gr. laga nr. 91/1991.

Í stefnu kemur fram að hin meintu brot stefndu hafi verið framin af ásetningi, þar sem þau hafi haft vitneskju um hver hafi verið höfundur verkanna og hverjir væru erfingjar höfundar. Þessari málsástæðu er mótmælt sérstaklega, þar sem stefndu telja sig lögmæta rétthafa höfundaréttar að verkunum með fulla heimild til ráðstöfunar þeirra og er á það lögð áhersla að þau hafi ávallt verið í góðri trú um þennan rétt og hafi enda haft fulla ástæðu til þess eins og nánar er rakið hér að framan.

 

Um skaðabótakröfur stefnenda fyrir fjárhagslegt tjón

Stefndu telja engan grundvöll í máli þessu til þess að dæma stefnendum skaðabætur, enda voru stefndu fullkomlega heimilar allar þær aðgerðir sem í stefnu er fjallað um. Stefndu mótmæla enn fremur sérstaklega að gjaldskrá Myndstefs geti með nokkrum hætti átt við sem viðmið skaðabótakröfu, þar sem stefnendur eru ekki aðilar að Myndstefi og eru auk þess ekki höfundar umræddra auglýsingamynda. Á það er bent að 2. mgr. 25. gr. höfundalaga, sem stefnendur virðast byggja á í þessu tilliti nær einungis til félagsmanna í Myndstef og þeirra myndhöfunda sem standa utan samtakanna.

Ef stefndu verða ekki sýknuð af skaðabótakröfum stefnenda, telja stefndu að verði til þess að allar aðgerðir stefndu sem lýst er í stefnu eru framkvæmdar í góðri trú stefndu um rétt sinn, enda höfðu hvorki Jón Kristinsson né erfingjar hans á 70 ára tímabili gert athugasemdir eða sett fram andmæli á eignarhaldi þeirra og vörslu á auglýsingamyndum þeim sem hér um ræðir. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður ekki séð að nokkrar forsendur séu til þess að dæma stefnendum skaðabætur úr höndum stefndu, en ef svo ólíklega færi hlytu slíkar skaðabætur að verða að miklum mun lægri en krafist er í máli þessu. Komi til ákvörðunar skaðabóta, telja stefndu að líta verði til þess að Gunnar Bachmann var samhöfundur að auglýsingamyndum þeim sem hér er um vélað, sem þegar eigi að leiða til helmings lækkunar á öllum skaðabótakröfum.

Því er enn fremur mótmælt að stefndu hafi haft nokkurn fjárhagslegan ávinning af hinum meintu brotum. Eins og ársreikningar stefnda Familíunnar ehf., sem fram eru lagðir í málinu beri glöggt með sér hafa hluthafar félagsins ekki greitt sér nein laun vegna starfsemi þess, enda félagið ekki til þess í stakk búið. Stór hluti tekna félagsins var í formi styrkja og vöruskipta. Því sé ljóst að enginn raunverulegur hagnaður varð af þeirri starfsemi sem stefnt er fyrir, heldur þvert á móti verða færð rök fyrir því að í raun varð tap á þessum rekstri.

 

Miskabótakröfur stefnenda

Stefndu telja engan grundvöll í málatilbúnaði stefnenda til að sækja miskabætur úr höndum stefndu. Í þessu sambandi skal enn áréttað að Gunnar Bachmann hafði á sínum tíma fengið fullkomið framsal fjárhagslegra höfundaréttinda Jóns Kristinssonar og hafði því fullar heimildir til þess að ráðstafa auglýsingamyndunum með þeim hætti sem gert var. Hvað varðar meint brot gegn sæmdarrétti Jóns er vísað til fyrri umfjöllunar um viðkomandi málsástæður stefndu hér að ofan.

Því er mótmælt sérstaklega að nafni Jóns hafi ekki verið haldið á lofti í tengslum við sýninguna, kynningar og auglýsingum á henni. Eins og áður er fram komið voru allar eftirprentanir óbreyttar með nafni Jóns, þar sem hann hafði merkt sér auglýsingamyndirnar. Aðalatriði sé þó að á sýningunni í Gallerí Fold og í sýningarskrá var Jóns getið vegna allra auglýsingamynda sem taldar voru teiknaðar af honum.

Þess skal enn fremur getið að stefnendur hafa með engum hætti sýnt fram á að fyrir hendi sé dómaframkvæmd sem segi fyrir um ákvörðun miskabóta og miða ætti við í þessu máli. Hér er því enn og aftur komin fram vanreifun af hálfu stefnenda í máli þessu sem leiðir það auðvitað af sér að vonlaust er fyrir stefndu að taka afstöðu til miskabótakrafna stefnenda, hvað þá heldur fyrir dómara að leggja mat á viðkomandi miskabótakröfuliði.

Fari svo ólíklega að dómstóllinn ákvarði miskabætur í þessu máli er þess krafist að þær verði lækkaðar mjög verulega enda ber hér að líta til þess að stefndu hafa ávallt verið í góðri trú um rétt sinn, kröfugerð stefnenda byggir ekki á neinum haldbærum rökum og Gunnar Bachmann var samhöfundur að auglýsingamyndum þeim sem hér er um að tefla sem leiðir þegar til helmings lækkunar allra miskabótakrafna. Er um þetta vísað til umfjöllunar um málsástæður stefndu.

Miskabótakröfur stefnenda í máli þessu sem beinast að stefndu samkvæmt kröfulið 3 í stefnu nema kr. 11.990.000 ásamt vöxtum og til viðbótar beinist miskabótakrafa að sameiginlega að stefndu með stefnda, Fabrik ehf., samkvæmt kröfulið 7, sem nemur kr. 470.000 ásamt vöxtum. Stefndu telja að þessar kröfur og fjárhæðir vera öldungis fráleitar. Framsetning slíkrar kröfugerðar er því með miklum ólíkindum sérstaklega þegar litið er til þess að heildaráhrif sýningarinnar í Gallerí Fold og auglýsingar og kynning á verkum Jóns Kristinssonar voru augljóslega þau að nafni hans var haldið hátt á lofti og vakin var gríðarlega mikil eftirtekt á verkum hans, sem legið höfðu í láginni um langa hríð.

 

Kröfur að efni af vefsíðum stefndu verið fjarlægt

Stefndu benda á að allt efni, og þar með kynningarmerkið RAFSKINNA, hafi verið fjarlægt af vefsíðu stefndu. En eins og ítrekað hefur komið fram, var hýsingu vefsíðunnar, www.rafskinna.net, lokað 30. september 2015. Þegar af þeirri ástæðu er krafist sýknu af þessum lið. Jafnframt er áréttað að stefndu var fullkomlega heimilt að birta efni þetta á vefsíðu sinni og engin brot hafa verið framin af hálfu stefndu og því ákvæði 55. gr. höfundalaga engan veginn við.

 

Krafa um eyðingu óseldra birgða

Stefndu krefjast sýknu af kröfu um eyðingu óseldra birgða samkvæmt kröfulið 10 í stefnu á sömu forsendum og áður hafa verið raktar, enda eru engin höfundaréttarbrot fyrir hendi í máli þessu. 

 

Krafa um birtingu dóms

Stefndu krefjast sýknu af þessum kröfulið 11 í stefnu, enda hafa engin brot verið framin gegn stefnendum í máli þessu.

 

Áskorun stefnenda um framlagningu gagna af hálfu stefndu

Eins og að ofan hefur fram komið hafa stefndu, án skyldu, afhent stefndu ýmis gögn og upplýsingar er varða mál þetta. Stefndu munu ekki leggja fram frekari gögn af kröfu stefnenda en orðið er, enda málið löngu orðið nægilega vel upplýst af þeirra hálfu.

 

Um málskostnaðarkröfur stefndu

Þess er krafist að stefnendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar stefndu, skv. 130. gr. sbr. 129 gr. laga um meðferð einkamála 91/1991. Auk þess krefjast stefndu þess að stefnendur verði sameiginlega dæmd til þess að greiða þeim málskostnað hvernig sem úrslit máls verða, sbr. a- og c-liði 1. mgr. 131 gr. laga um meðferð einkamála 91/1991 og 3. mgr. 131. gr. sömu laga. Enn fremur er þess krafist að sérstakt álag verði lagt á málskostnað, sbr. 2. mgr. 131. gr. sömu laga. Vísa stefndu þá til þess að málatilbúnaður stefnenda hafi verið með ólíkindum umfangsmikill og flókinn og að varnir stefndu hafi af þeim sökum krafist miklu meiri vinnu og fyrirhafnar en með nokkrum hætti geti talist eðlilegt vegna máls af þessum toga.

Kröfur stefndu um sýknu á kröfu stefnenda um afhendingu frumverka byggja þau m.a. á meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, á 1. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905, meginreglum eignarréttar um tómlætisáhrif og meginreglum samningaréttar um þegjandi samþykki og einnig er byggt á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna aðildarskorts. Um kröfu stefndu um sýknu af varakröfu stefnenda um afhendingu eftirgerða er byggt á 1. mgr. 25. gr. a höfundalaga nr. 73/1972

 

Málsástæður stefnda Fabrik ehf.

 

Krafa um frávísun.

Stefndi Fabrik ehf. telur að aðild stefnanda sé með öllu órökstudd og óskýrð í máli þessu. Aðildarskortur leiðir til sýknu. Gera verður þá kröfu aðild sé reifuð eins og önnur efnisatriði í stefnu. Stefnandi geri enga tilraun til þess að útskýra aðild stefnda, þ.e. Fabrik ehf. í þessu máli. Þá er gerð sú krafa að málsástæður eða önnur atvik skuli vera skýr og gagnorð svo samhengi málsástæðna verði ljóst eins og kveðið sé á um að gera skuli í e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi Fabrik ehf. telur málatilbúnað stefnenda hafa verið með þeim hætti að stefndi hafi ekki getað varist efnislega og telur stefndi það varða eitt og sér frávísun málsins.

 

Sýknukrafa

Sýknukröfu sína byggir stefndi, Fabrik ehf. á því að stefnendur eigi enga beina fjárkröfu á hendur félaginu. Ljóst er af málsatvikum að stefndi geti ekki borið ábyrgð á þeim meintu brotum sem mál þetta varði. Aðkoma Fabrik ehf. sé afar takmörkuð og fólst í því einu að vera umboðsaðili fyrir sýningu og sölu á verkum sem deilt er um höfundarétt í þessu máli og því er kröfum ranglega beint að félaginu. Því er um aðildarskort að ræða sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefndi Fabrik ehf. telur að kröfur stefnanda um bótaskyldu og miskabótakröfu byggi fyrst og fremst á atvikum sem varði ekki stefnda og eigi sér langa sögu áður en erfingjar Rafskinnu héldu sýningu í Gallerí Fold sem atvik þessa máls varðar. Er þá vísað til þess að um árabil hafi myndverk þau er birtust í Rafskinnu verið birt í fjölmiðlum og víðar óátalið af hálfu stefnenda. Eðli máls samkvæmt beri stefndi ekki bótaábyrgð vegna þessa máls en telja verður að snertiflötur Gallerís Foldar við málavexti sem raktir eru í stefnu, sem er að lána sýningarsal sinn undir sýningu Rafskinnu í húsakynnum sínum að Rauðarárstíg og kynningu sýningarinnar í fjölmiðlum, geti ekki falið í sér brot gegn höfundalögum. Þá er einnig byggt á því að myndverkin hafi verið notuð í góðri trú og því sé bótaskyldu hafnað.

Þá telur stefndi ekki verða ráðið af málatilbúnaði stefnanda hvers vegna hann telur sig réttan aðila til þess að fara með kröfu er varðar brot á höfundalögum er varðar Rafskinnu, enda vanti viðhlítandi sannanir fyrir því að stefnandi fari með þann höfundarétt sem stefnandi byggir á í þessu máli.

Stefndi telur að aðkoma sín að lána sýningarsal sinn undir sýningu Rafskinnu og kynna myndverk sem söluaðili hefur til sölumeðferðar í auglýsingum, geti ekki að neinu leyti brotið gegn höfundarrétti er varðar myndverk þau sem sýnd voru í Rafskinnu, enda sé þess hvergi getið í stefnu að framsal á höfundarétti hafi átt sér stað til stefnenda. Fyrir liggi í málsgögnum að erfingjar Gunnars Bachmann hafi haft verk þau sem sýnd voru í Gallerí Fold í vörslum sínum í yfir hálfa öld. Þá vísar stefndi til 1. mgr. 25. gr. höfundalaga nr. 73/1972 þar sem fram komi að eiganda myndlistarverks sé heimilt að selja eintak sitt og sýna það almenningi. Því sé með öllu óskiljanlegt í ljósi eignarréttar að þeim myndverkum sem um er rætt í þessu máli að sýningin í Gallerí Fold geti talist vera óheimil og þar með birting verkanna á umræddri sýningu.

Stefndi vísar til þess að hann sé miðlari á myndverkum og geti í ljósi stöðu sinnar ekki annað en treyst þeim aðila sem fer með vörslur höfundarverndaðra verka, enda er um lausafé að ræða sem ekki er skráningarskylt. Vísar stefndi um það til 1. málsliðar 1. mgr. 8. gr. höfundalaga nr. 73/1972 en þar kemur fram að „höfundur verks telst sá, uns annað reynist, sem nafngreindur er á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk er birt.“

Stefndi telur að það leiði af ákvæðinu að ákveðið traust verði að ríkja á markaði þar sem farið er með myndlistarverk og andlag höfundaréttarins birtist í ákvæðinu, enda sé um huglæg réttindi að ræða sem getur birst í endalaust mörgum eintökum og aðilar á listmarkaði verða að geta treyst því að geta samið við aðila í því trausti að sá aðili fari réttilega með höfundarétt á því verki sem hann hefur í vörslum sínum.

Að mati stefnda bendir ekkert til annars en að erfingjar Gunnars Bachmann hafi gætt ákvæða höfundalaga í einu og öllu eins og þeim hafi borið. Vísar stefndi enn fremur til þess að í greinargerð með ákvæði 8. gr. í frumvarpi því er varð að höfundalögum nr. 73/1972 komi fram að 1. mgr. 8. gr. höfundalaga feli í sér hagræði til handa viðsemjanda höfundar, sem eigi að geta treyst því að hann semji við réttan umráðamann, ef engin sérstök atvik gera það tortryggilegt. Í því sambandi verði að benda á að samkvæmt gögnum málsins eru flest öll verkin eru merkt Rafskinnu og því séu allar löglíkur með því að aðstandendur sýningarinnar hafi farið með höfundaréttinn að myndverkunum eins og áður segir.

Af þessum sökum telur stefndi Fabrik ehf. að hafna verði sjónarmiðum stefnanda um að opinber kynning myndlistarverks á listsýningu sé óheimil án samþykkis höfundar nema um sé að ræða opinbert listasafn sbr. 25. gr. höfundalaga, enda var ekki annars að vænta en að þeir aðilar sem stóðu að sýningunni og höfðu frumkvæði að henni hafi farið með höfundarréttinn að þeim verkum sem sýnd voru. Þá megi sjá af tölvupósti Jóhanns Ágústs Hansen til lögfræðings Myndstefs 8. nóvember 2013 þar sem staðfest sé að skráning og innheimta höfundaréttargjalda við sölu á frummyndum á sýningunni í Gallerí Fold fór að fullu fram samkvæmt lögum um höfundarétt nr. 73/1972.

Stefndi Fabrik ehf. telur að hafna verði þeirri málsástæðu að hann hafi brotið gegn einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings, sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga, með birtingu boðskorts á Facebook á sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold. Vísar stefndi þá til þess að honum sé ekki kunnugt um hvort stefnendur fari með höfundarrétt að þeim myndverkum sem greinir í stefnu og þar með einkarétt til eintakagerðar. Þó svo væri hafnar stefndi Fabrik ehf. því að birting auglýsingar hafi falið í sér brot gegn 3. gr. höfundalaga. Vísar stefndi þá sem fyrr til 4. mgr. 25. gr. höfundalaga. Sú grein takmarki höfundarétt að því er varðar söluaðila myndlistar, með því að veita kvaðalaus not viðkomandi efnis, en í því felist að söluaðili þurfi ekki að fá samþykki höfundar fyrir birtingu. Þá verði söluaðili heldur ekki krafinn um endurgjald fyrir birtingu auglýsingar á myndverkum sem söluaðili hefur til sölu.

Af þeim sökum sé ekki hægt að telja myndbirtingar stefnda af verkum sem voru sýnd á sýningu Rafskinnu, í aðdraganda sýningarinnar til kynningar og auglýsinga, brot gegn höfundalögum. Þrátt fyrir að Fabrik ehf. starfi eftir heimildum höfundalaga sem takmarkar höfundarrétt nái þær lögheimiluðu takmarkanir almennt ekki til sæmdarréttar 4. gr. laganna, þ.e. m.a. nafngreiningarréttar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna. Mikilvægur fyrirvari réttarins til nafngreiningar sé þó að rétturinn sé metinn eftir því sem við geti átt. Með þeim víðtæka fyrirvara greinarinnar komi því fram að meta þurfi hvort auðkenningarskylda eigi við hverju sinni. Megi í því mati m.a. líta til venju sem kunn að hafa myndast á tilteknum birtingarsviðum og einnig, eftir atvikum, til eðlis máls og allra aðstæðna með mið af sanngjörnum hagsmunum allra aðila.

Stefndi telur að fullyrða megi að ekki séu auðkennd öll listaverk sem birtast í fjölmiðlum. Segja megi að viðmið hafi skapast um að ef listaverk sé aðalefni myndar og/eða umfjöllunar sé verkið auðkennt. Ef listaverk sé hins vegar einhvers konar aukaefni myndar og/eða umfjöllunar sé það verk alla jafna ekki auðkennt. Því hafi stefndi ekki þurft að gæta að nafngreiningarrétti höfundar myndverkanna sem notuð var í auglýsingunni þar sem umfjöllunarefni auglýsingarinnar var auglýsingabókin Rafskinna og saga hennar og myndverkin algjört aukaefni.

Því er enn fremur mótmælt að Fabrik ehf., hafi brotið gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að geta ekki nafns Jóns Kristinssonar á boðskort í tengslum við sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold. Þess megi geta að í umræddu tilviki taki Gallerí Fold fram í texta umfjöllunarinnar hver hafi verið upphafsmaður Rafskinnu og nafngreinir þann aðila sérstaklega. Þá hafi stefndi Fabrik ehf. verið algjörlega grandlaus um að einhver möguleiki væri á því að stefnandi kynni að eiga rétt yfir þeim myndum sem hér ræðir.

Stefndi Fabrik ehf. mótmælir einnig málsástæðu 1(c) um að hann hafi með sendingu boðskorts til áskrifenda hjá Gallerí Fold, brotið gegn 3. gr. höfundalaga þar sem um ólögmæta eintakagerð hafi verið að ræða og brot á nafngreiningarrétti stefnanda sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundalaga. Telur stefndi að samkvæmt 4. mgr. 25. gr. höfundalaga sé söluaðilum myndlistar heimilt að birta myndir af myndverkum sem viðkomandi hefur til sölumeðferðar í auglýsingum og skrám til kynningar í tengslum við tilfallandi sölu eða sýningu. Því sé ekki hægt að telja myndbirtingar Gallerís Foldar af verkum sem sýna átti á sýningunni í Gallerí Fold í tilefni af afmæli auglýsingafyrirtækisins Rafskinnu síðla árs 2013 brot gegn einkarétti höfundarétthafa til eintakagerðar sbr. 3. gr. höfundalaga.

Á sama hátt er því mótmælt að Fabrik ehf., hafi brotið gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að geta ekki nafns hans á boðskortið í tengslum við sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold. Þar sem ekki var um birtingu á eintaki að ræða í skilningi 3. og 4. gr. höfundalaga eða nýtingu verks, heldur myndbirtingu gallerísins af myndverki sem Gallerí Fold hafði til kynningar vegna sýningar og sölu sem er heimil samkvæmt áðurnefndri 4. mgr. 25. gr. höfundalaga. Þá vísar stefndi til þeirra málsástæðna sinna sem áður greinir um fyrirvara við nafngreiningu höfundar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. höfundalaga. Vísar stefndi til þess að í boðskortinu sem um ræðir er ekki vikið að því hver höfundur myndverkanna er, né heldur vikið að því hver er upphafsmaður auglýsingabókarinnar Rafskinnu. Því eigi nafngreiningarréttur 4. gr. höfundalaga ekki við í þessu tilviki. 

Þá er einnig mótmælt málsástæðu 1(d) um að Fabrik ehf., hafi brotið gegn nafngreiningarrétti stefnanda sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að hafa birt auglýsingu um opnun sýningar Rafskinnu á Facebook síðu Gallerís Foldar þann 1. nóvember 2013 og tilgreint Gunnar Bachmann sem höfund myndanna. Fyrir liggur að flest myndverkin séu merkt Rafskinnu en þó séu einhver verk merkt Rafskinna, Jóndi. Því er hafnað að geta hafi þurft nafns Jóns Kristinssonar sérstaklega við birtingu auglýsingarinnar og vísað til fyrri málsástæðna um fyrirvara við nafngreiningu í 1. mgr. 4. gr.

Þá er mótmælt málsástæðu 1(e) að Fabrik ehf., hafi brotið gegn einkarétti höfundarétthafa til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga með því að tengja frétt Ríkisútvarpsins inn á Facebook síðu sína og að hafa brotið gegn einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga, með því að hafa birt auglýsingu um opnun sýningar á Facebook síðu Gallerí Foldar þann 3. nóvember 2013 en um það vísar stefndi til fyrri málsástæðna í tengslum við 4. mgr. 25. gr. höfundalaga. Á sama hátt er því hafnað að Fabrik ehf., hafi brotið gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar, sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að geta ekki nafns hans á boðskorti í tengslum við sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold. Er um þetta atriði sem fyrr vísað til 4. mgr. 25. gr. sem og málsástæðna að baki 1. mgr. 4. gr. um fyrirvara við nafngreiningu. Bendir stefndi á að í auglýsingunni sem málsástæða 1(e) í stefnu lýtur að sé ekki vikið að því hver höfundur myndverkanna er, heldur vikið að því hver er upphafsmaður auglýsingabókarinnar Rafskinnu. Því eigi nafngreiningarréttur 4. gr. höfundalaga ekki við í þessu tilviki. 

Þá er einnig hafnað málsástæðu 1(f) að Fabrik ehf. hafi brotið gegn einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2 .gr. höfundalaga og nafngreiningarrétti Jóns Kristinssonar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að hafa birt auglýsingu um Rafskinnu á Facebook síðu Gallerís Foldar 11. nóvember 2013 en auglýsingin hafði að geyma myndverk. Um þetta er sem fyrr vísað til 4. mgr. 25. gr. höfundalag.

Á sama hátt er því hafnað að Fabrik ehf., hafi brotið gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að geta Jóns ekki á boðskortinu í tengslum við sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold, þar sem ekki var um birtingu á eintaki að ræða í skilningi 3. og 4. gr. höfundalaga eða nýtingu verks, heldur myndbirtingu gallerísins af myndverki sem Gallerí Fold hafði til kynningar vegna sýningar eða sölu sem heimil er samkvæmt áðurnefndri 4. mgr. 25. gr. höfundalaga.

Þá er einnig mótmælt málsástæðu 1(g) að Fabrik ehf. hafi brotið gegn einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2 .gr. höfundlaga og nafngreiningarrétti Jóns Kristinssonar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að hafa birt auglýsingu um lok sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar 21. nóvember 2013 en auglýsingin hafði að geyma myndverk. Að því leyti vísar stefndi sem fyrr til ákvæðis 4. mgr. 25. gr. höfundalaga og þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan.

Með vísan til sömu sjónarmiða mótmælir stefndi einnig málsástæðu 1(h) um að Fabrik ehf. hafi brotið gegn í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2 .gr. og 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að hafa birt auglýsingar sem höfðu að geyma myndverk um framlengingu sýningar á vefsíðu Gallerís Foldar um miðjan nóvember 2013, málsástæðu 1(i) um auglýsingu á lokum sýningar Rafskinnu á heimasíðu Gallerís Foldar/Listapóstsins 21. nóvember 2013 og málsástæðu 1(j) sem lýtur að auglýsingu um framlengingu sýningar Rafskinnu, í viðskiptablaði Morgunblaðsins 16. nóvember 2013 .

Þá mótmælir stefndi því að hann hafi brotið gegn einkarétti höfundar til sýningar eintaka, sbr. 3. gr. höfundalaga, með því að hafa á sýningunni í Gallerí Fold til sýnis 44 innrammaðar frummyndir Rafskinnu. Vísar stefndi þá til þess að Gallerí Fold sé miðlari á myndverkum og getur í ljósi stöðu sinnar ekki annað en treyst þeim aðila sem fer með vörslur höfundarverndaðra verka, enda er um lausafé að ræða sem ekki er skráningarskylt. Í þessu sambandi vísar stefndi til 1. málsliðar 1. mgr. 8. gr. höfundalaga nr. 73/1972 um að „höfundur verks telst sá, uns annað reynist, sem nafngreindur er á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk er birt.” Stefndi mótmælir einnig sjónarmiðum stefnanda þess efnis að opinber kynning myndlistarverks á listsýningu sé óheimil án samþykkis höfundar nema um sé að ræða opinbert listasafn sbr. 25. gr. höfundalaga, enda var ekki annars að vænta en að þeir aðilar sem stóðu að sýningunni og höfðu frumkvæði að henni fóru með höfundarréttinn að þeim verkum sem sýnd voru.

Með vísan til sömu sjónarmiða mótmælir stefndi málsástæðum 1(l) og 1(m) um að Fabrik ehf. hafi brotið gegn einkarétti höfundar til sýningar eintaka af verki sem lögmæltur er í 3. gr. höfundalaga með því að hafa á sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold haft til sýnis í sölurekka óinnrammaðar frummyndir Rafskinnu og með því að hafa á sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold haft til sýnis í sýningarkassa sjö óinnrammaðar frummyndir Rafskinnu.

Stefndi mótmælir einnig málsástæðu (1n) að Fabrik ehf. hafi brotið gegn höfundalögum með sýningu myndverka á Powerpoint kynningu á skjá á sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold. Eru fullyrðingar þær sem raktar eru í greinargerð stefnanda ósannaðar.

Stefndi mótmælir einnig málsástæðu málsástæðu 1(o) um að hann hafi brotið gegn 3. gr. og 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að stilla út auglýsingaspjaldi í glugga Gallerís Foldar, og gegn 4. gr. höfundalaga með því að geta ekki nafns Jóns á boðskorti í tengslum við sýningu Rafskinnu í Gallerí Fold. Vísar stefndi í því sambandi til ákvæðis 4. mgr. 25. gr. höfundalaga og þeirra sjónarmiða sem leidd verða af því ákvæði og stefndi hefur rakið hér að framan. Þá mótmælir stefndi að brotið hafi verið gegn 2. mgr. 4. gr. höfundalaga um rétt til að banna breytingar á verki þar sem aðkoma Fabrik ehf. var eingöngu að lána sýningarsal undir sýningu Rafskinnu.

Þá er einnig mótmælt málsástæðu 1(p) er varðar sýningu auglýsingaskiltis fyrir utan inngang Gallerís Foldar en þar áskilur stefnandi sér rétt til að hafa uppi kröfu vegna þessa liðar síðar, m.a. með framhaldsstefnu. Þessu er hafnað sem ósönnuðu.

Með vísan til sjónarmiða sem leidd verða af 4. mgr. 25. gr. höfundlaga mótmælir stefndi Fabrik ehf. því einnig að hann hafi brotið gegn 3. gr. og 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að birta myndirnar sem um er deilt í þessu máli á heimasíðu sinni, www.myndlist.is og boðið til sölu. Á sama hátt er því hafnað að Fabrik ehf., hafi brotið gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundalaga með því að geta nafns Tryggva Magnússonar við eitt verkanna. Telur stefndi að þarna hafi ekki verið um birtingu á eintaki eða nýtingu verks að ræða í skilningi 3. og 4. gr. höfundlaga heldur myndbirtingu gallerísins af myndverki sem Gallerí Fold hafði til kynningar vegna sýningar eða sölu sem heimil er samkvæmt áðurnefndri 4. mgr. 25. gr. höfundalaga. 

Stefndi Fabrik ehf. mótmælir því harðlega að hann framið brotin með ásetningi og haft sömu vitneskju og aðrir stefndu um hver ætti höfundarrétt að þeim myndum er birtust í Rafskinnu og hverjir væru erfingjar höfundarréttarins. Fabrik ehf. hafi verið í góðri trú um að myndverk þau sem stefndu hafi látið til sýningarinnar væru myndverk sem heimild væri fyrir að birta samkvæmt heimildum höfundalaga. Stefndi Fabrik ehf. hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum höfundalaga og því eigi ákvæði 56. gr. laganna ekki við.

Stefndi Fabrik ehf. mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um miskabætur, enda verði ekki séð að lagaskilyrði séu til að dæma stefnanda miskabætur og allra síst þá fjárhæð sem farið sé fram á.

Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefndi einkum til 4. mgr. 25. gr. höfundlaga sem og 4. gr. höfundalaga og þeirrar reglu að nafngreiningarréttur höfundar sé matskenndur. Stefndi vísi um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu sína um aukið álag á málflutningslaun gagnvart stefnendum byggir stefndi Fabrik ehf. á þeirri staðreynd að stefna málsins sé með öllu tilhæfulaus og án þess að nokkur lagagrundvöllur sé til staðar til sóknar í málinu af þeirra hálfu gagnvart stefnda Fabrik ehf. Um þessa kröfu vísar stefndi annars til 2. mgr. 131 gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafan um málskostnað byggist að öðru leyti á 129. og 130. gr. sbr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV. Niðurstaða

  1. Sjónarmið stefndu um frávísun málsins.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttur, sem og stefndi Fabrik ehf., hafa krafist þess að máli þessu verði vísað frá dómi. Í því sambandi hefur af hálfu stefndu verið byggt á því að málatilbúnaður stefnanda fullnægi ekki þeim kröfum sem leiddar verði af e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um að málsástæður eða önnur atvik skuli vera skýr og gagnorð þannig að samhengi málsástæðna verði ljóst. Þá hafa stefndu jafnframt vísað til þess að kröfugerð stefnenda sé afar flókin, óljós, ruglingsleg og sett fram í mjög óskýru sambandi við málsástæður og frekari útlistun á dómkröfum og því verði ekki séð hvernig dómur yrði á þær lagður, auk þess sem stefnandi hafi hagað málatilbúnaði sínum þannig að erfitt hafi verið fyrir stefndu að taka til varna.

 Um málatilbúnað aðila í málum af því tagi sem hér er til meðferðar gilda eins og áður segir ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en í þeim felst meðal annars að kröfugerð skal vera skýr sem og röksemdir fyrir henni. Þá skal hafa uppi helstu málsástæður í stefnu. Verði misbrestur á því að málatilbúnaður sé reifaður með fullnægjandi hætti verður ekki úr bætt við munnlegan flutning málsins án samþykkis gagnaðila.

Málatilbúnaður stefnenda, eins og hann birtist í stefnu, er ítarlega rakinn hér að framan. Er þar greint skilmerkilega frá atvikum málsins og þeim málsástæðum sem stefnendur byggja málsókn sína á þannig að ekki fer á milli mála hvert sakarefnið er. Að mati dómsins eru engir slíkir annmarkar á reifun málsins að það geti varðað frávísun þess í heild. Þá verður ekki séð að málatilbúnaður stefnenda hafi verið settur fram með þeim hætti að stefndu hafi verið gert örðugt um vik að taka til varna. Verður því að hafna kröfu stefndu um að málinu verði vísað frá í heild.

 

  1. Ágreiningur aðila um hvort myndirnar

sem málið snýst um njóti verndar samkvæmt höfundalögum

Aðilar málsins eru sammála um að Jón Kristinsson hafi teiknað myndirnar sem kröfur stefnenda í málinu lúta að. Af hálfu stefndu hefur hins vegar verið byggt á því að myndirnar sem um ræðir og letrið sem notað er á þeim sé feli ekki í sér nægilega frumlegt og sjálfstætt framlag af hálfu Jóns til að geta notið verndar höfundarréttar samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir hafa enn fremur byggt á því að Gunnar Bachmann hafi verið meðhöfundur að umræddum myndum. Hafa stefndu í því sambandi vísað til ummæla Jóns í blaðaviðtölum um aðkomu Gunnars að gerð myndanna. Af hálfu stefndu er því enn fremur haldið fram að Jón hafi á sínum tíma framselt Gunnari allan nýtingarrétt á myndunum sem um ræðir. Því sé ekki um að ræða að erfingjar hans hafi brotið gegn einkarétti erfingja Jóns til sýningar myndanna og eftirgerðar þeirra.

Ljóst er að þegar myndirnar sem um ræðir í málinu voru teiknaðar á árunum 1943 til 1957 voru í gildi lög nr. 13/1905, um rithöfundarétt og prentrétt, með síðari breytingum. Í a-lið 1. gr. þeirra laga var kveðið á um að hver höfundur hefði eignarrétt á því sem hann hefði samið og gert. Hann hefði því, innan þeirra marka sem lögin settu meðal annars einkarétt á að birta þau prentuð eða margfölduð á hvern hátt sem væri, eða hagnýta þau eða koma á framfæri með öðrum hætti.

Samkvæmt b-lið 1. gr. sömu laga náði þessi einkaréttur höfundar einnig til að gera eftirlíkingar, ljósmyndir eða aðrar eftirmyndir af verkum sínum, svo sem höggmyndum, skurðmyndum, málverkum, teikningum og hvers konar uppdráttum, ljósmyndum, listsmíði, fyrirmyndum og hverju því verki sem höfundarréttur gæti fylgt, svo og að margfalda slíkar eftirmyndir til sölu, auglýsinga eða hagnaðar á nokkurn hátt. Enn fremur var í c-lið 1. gr. laganna kveðið á um að einkarétturinn tæki til þess að sýna sömu verk opinberlega í hvaða skyni sem er, væru þau í einkaeign, en þetta gilti þó ekki um einkasöfn sem opin væru almenningi samkvæmt staðfestri reglugerð.

Lög nr. 13/1905 voru síðan felld brott með setningu höfundalaga nr. 73/1972 sem komu í þeirra stað og hafa verið í gildi síðan. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. núgildandi höfundalaga á höfundur að listaverki eignarrétt á því með þeim takmörkunum sem leiðir af lögunum.

Í athugasemdum við ákvæði 1. gr. í frumvarpi því er varð að lögum 73/1972 var tekið fram að ákvæðið fæli ekki sér breytingar frá þeim rétti sem gilti samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1905. Verður því að leggja til grundvallar að sú réttarvernd sem veitt er með 1. gr. núgildandi höfundalaga svari því efnislega til þeirrar verndar sem kveðið var á um í 1. gr. laga nr. 13/1905 sem var í gildi þegar myndirnar sem deilt er um í þessu máli urðu til.

Þótt ekki sé mælt með beinum hætti fyrir um það í 1. gr. höfundalaga, þá hefur um langan aldur verið gengið út frá því að sé skilyrði þess að verk njóti verndar samkvæmt höfundalögum að það verði talið afrakstur andlegrar sköpunar höfundarins. Í því felst almennt krafa um verkið hafi til að bera vissan frumleika og sjálfstæði sem veitir því ákveðin sérkenni. Við mat á því hvort verk fullnægi þessari kröfu reynir í senn á almenna þekkingu og menntun auk lagaþekkingar, en á þetta hefur dómurinn lagt sjálfstætt mat, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.

Myndirnar sem um er deilt í máli þessu eru vel á annað hundrað talsins. Telur dómurinn að þegar lagt er heildstætt mat á þessar myndir og horft er til þeirra aðferða sem beitt er við gerð þeirra og hvernig viðfangsefnin á þeim eru sett fram að öðru leyti þá leiki enginn vafi á því að þær fullnægi þeim kröfum sem almennt eru gerðar gerðar í höfundarrétti um frumleika til að þær geti talist sjálfstæð höfundarverk sem njóti verndar samkvæmt höfundalögum. Þá tekur dómurinn undir þau sjónarmið sem fram koma í matsgerð dómkvadds matsmanns um að letrið sem Jón Kristinsson teiknaði og útfærði sé einstakt og hans höfundarverk. Verður því að miða við að letrið sem um ræðir njóti einnig höfundarréttarverndar samkvæmt 1. gr. höfundalaga. Af þeim sökum hafnar dómurinn öllum málsástæðum stefndu sem lúta að því að myndirnar og letrið sem um ræðir í málinu njóti ekki höfundarréttarverndar

 

3.      Málsástæður stefndu um að Gunnar Bachmann

sé meðhöfundur að myndum sem birtust í Rafskinnu

Aðila málsins greinir einnig í verulegum atriðum á um með hvaða hætti viðskiptasamband Jóns Kristinssonar og Gunnars Bachmann hafi verið og hvaða áhrif það hafi haft á réttindi aðila málsins. Þannig eru aðilar í fyrsta lagi ósammála um hvort Gunnar hafi komið að gerð myndanna með þeim hætti að stofnast hafi til höfundaréttar hans með Jóni og hann sé þar með meðhöfundur þeirra. Þá lýtur ágreiningur aðila jafnframt að því hvort og þá að hvaða marki Jón hafi framselt Gunnari nýtingarrétt að umræddum verkum.

Stefndu Þorsteinn og Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Familían ehf. settu fram þá kröfu samhliða aðal-, vara- og þrautavarakröfum sínum í greinargerð sem lögð var fyrir dóminn 11. febrúar 2016 að jafnframt yrði viðurkennt með dómi að Gunnar Bachmann hafi verið samhöfundur að þeim verkum sem mál þetta snýst um.

Hvað þessa kröfu varðar telur dómurinn rétt að taka fram að samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er varnaraðila heimilt með gagnstefnu að hafa uppi gagnkröfu í máli til sjálfstæðs dóms og eftir atvikum skuldajafnaðar ef gagnkrafan er samkynja aðalkröfunni eða þær eiga báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings eða samið hefur verið um að sækja mætti gagnkröfuna í máli um aðalkröfuna. Í þessu ákvæði er það hins vegar gert að skilyrði að gagnsök sé höfðuð innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar.

Ljóst er að stefndu í þessu máli hafa ekki höfðað sjálfstæða gagnsök í þessu máli með útgáfu gagnstefnu. Brestur þegar af þeirri ástæðu skilyrði til þess að dómurinn fjalli um þá kröfu þeirra um að viðurkennt að Gunnar sé samhöfundur að verkunum. Þrátt fyrir þetta telur dómurinn engu að síður að fjalla um málsástæður aðila um þátt Jóns og Gunnars í gerð myndverkanna sem hér er deilt um, enda kann það að hafa þýðingu þegar tekin er afstaða til hugsanlegrar bótaskyldu samkvæmt 56. gr. höfundalaga.

Sönnunarfærsla aðila hefur óneitanlega borið þess merki að mjög langt er um liðið frá því að viðskipti Jóns og Gunnars áttu sér stað. Til marks um það hafa engin vitni komið fyrir dóm í málinu sem geta borið af eigin raun um málsatvik sem lúta að viðskiptunum. Stefnendur í málinu hafa hins vegar lagt fram samning milli þeirra Jóns og Gunnars frá 19. janúar 1949, en í þeim samningi er kveðið á um að Jón skuldbindi sig til að teikna 64 myndir í ,,venjulegri stærð gerð og svipuðum gæðum og hann hefur áður gert í sama skyni til afnota fyrir auglýsingabókina Rafskinnu“. Í samningnum er jafnframt mælt fyrir um myndirnar skuli allar fullgerðar fyrir 1. maí 1949, enda skuldbindi Gunnar sig til að ,,sjá um að ekki verði töf á áframhaldandi starfi Jóns vegna skorts á efni eða nægilega nákvæmum fyrirmælum og fyrirsögnum um gerð myndanna“. Enn fremur segir í samningnum að Gunnar ,,leggi til allt efni og áhöld til framleiðslunnar“ þegar Jón óski þess. Þá skuli Gunnar gefa honum ,,áðurnefnd fyrirmæli“ þegar Jón óski þess. Þá skuldbatt Jón sig til að teikna 64 myndir í jólasýningu Rafskinnu sem skyldu vera tilbúnar eigi síðar en 16. nóvember 1949.

Af framangreindum samningi þeirra Jóns og Gunnars, bréfaskiptum þeirra sem vitnað er til í kafla II hér að framan sem og öðrum gögnum málsins sem þar er vitnað til, m.a. blaðaviðtölum við Jón, verður að mati dómsins ekki annað ráðið en að Jón hafi alfarið séð um teikna myndirnar sem birtust í Rafskinnu og hann hafi ýmist gert það á teiknistofu í Reykjavík eða heima hjá sér í Lambey. Framlag Gunnars til gerðar myndanna hafi hins vegar falist í því að Gunnar kom með hugmyndir að gerð og viðfangsefni auglýsinganna, eins og hvað ætti að vera á myndinni.

Í þessu sambandi telur dómurinn rétt að taka fram að samkvæmt meginreglum höfundaréttar njóta hugmyndir um hvert skuli vera viðfangsefni verks, t.d. af hverju skuli gerð mynd eða um hvað verk á að fjalla, almennt ekki verndar samkvæmt 1. gr. höfundalaga. Öðru máli gegnir hins vegar um hvernig slík hugmynd er síðan endanlega útfærð í mynd eða texta. Með vísan til þess sem fram er komið í málinu um framlag Gunnars Bachmanns til gerðar Rafskinnu verður að hafna málsástæðum stefndu um að Gunnar sé meðhöfundur þeirra verka sem ágreiningur málsins lýtur að á þeim forsendum að hann hafi gefið fyrirmæli um innihald verkanna. Að mati dómsins verður enn fremur ekki séð að þau orðasambönd sem sett eru fram í umræddum myndum uppfylli þær kröfur um sjálfstæði og frumleika til að þau geti notið höfundarréttar. Af þeim sökum verður ekki talið að Gunnar hafi átt höfundarétt að textum á umræddum myndum.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telur dómurinn ekkert liggja fyrir í málinu sem bendi til þess að Gunnar Bachmann hafi átt upphaflegan höfundarétt að myndunum sem birtust í Rafskinnu vegna skapandi framlags síns til gerðar verkanna. Af þeim sökum kemur einungis til greina að Gunnar hafi eignast höfundarétt að verkunum á grundvelli þess að Jón hafi framselt honum rétt sinn til birtingar sem og annarrar nýtingar á verkunum.

 

  1. Málsástæður stefndu um að

Jón Kristinsson hafi framselt Gunnari Bachmann allan

afnotarétt að auglýsingamyndum sem birtar voru í Rafskinnu

Stefndu Þorsteinn, Hrefna og Margrét, svo og félag þeirra Familían ehf. hafa haldið því fram að þau hafi sem erfingjar Gunnars Bachmann verið í fullum rétti til þess að sýna verk úr Rafskinnu í Gallerí Fold og gera kynningarefni fyrir þá sýningu þar sem Jón Kristinsson hafi framselt Gunnari öll réttindi til fjárhagslegrar nýtingar myndanna þegar þær voru afhentar honum til notkunar í Rafskinnu á sínum tíma.

            Eins og áður er rakið giltu ákvæði laga nr. 13/1905, um rithöfundarétt og prentrétt þegar viðskipti þeirra Gunnars og Jóns áttu sér stað á árunum 1943 til 1957. Í ákvæði 9. gr. þeirra laga var fjallað sérstaklega um framsal höfundar á ritum sínum. Þótt einungis hafi verið rætt um textahöfunda í ákvæði 9. gr. verður að ganga út frá því að ákvæðið hafi einnig tekið til myndhöfunda, enda var í 2. gr. laganna kveðið sérstaklega á um að höfundar á myndum hefðu sama rétt á „alls konar myndum og uppdráttum“ og höfundar hefðu á ritum.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1905 átti höfundur rétt á því fá „öðrum í hendur, að nokkru eða öllu leyti, rétt að riti sínu“. Þá sagði í 2. mgr. 9. gr. að ef höfundur hefði veitt öðrum rétt til að birta rit á ákveðinn hátt (t.d. á prenti eða leiksviði“ þá væri rétthafa eigi heimilt að birta ritið á annan hátt en ákveðið var, né láta þýða. Í 3. mgr. 9. gr. laganna var enn fremur kveðið á um það að rétthafi mætti ekki án leyfis höfundar gera breytingar á riti og birta það þannig.

Af framangreindum ákvæðum verður ráðið að þegar viðskipti þeirra Gunnars og Jóns áttu sér stað hafi gilt sú regla um framsal höfundarréttar að framsalshafi slíks réttar öðlaðist einungis rétt til þeirra afnota af verki sem beinlínis var áskilið í samningi um framsal eða telja yrði fólgið í samningnum. Sambærileg regla verður leidd af ákvæðum III. kafla núgildandi höfundalaga, sbr. einkum 27. og 28. gr. laganna, sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 24. maí 2007 í máli nr. 598/2006.

Dómurinn telur ekki unnt að draga aðra ályktun af framangreindum lagareglum en að óskýr vafaatriði í tengslum við gerð samninga um framsal höfundaréttar beri almennt að túlka þeim í hag þeim sem framselur slík réttindi. Af þeim sökum verður að telja að stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. beri sönnunarbyrði fyrir þeim staðhæfingum sínum í greinargerð að Jón Kristinsson hafi framselt Gunnari allar notkunarheimildir, hverju nafni sem þær nefndust, á auglýsingamyndum sínum og þar með allan fjárhagslegan nýtingarrétt sinn á myndunum.

            Stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. hafa til stuðnings málsástæðum sínum um algert framsal höfundarréttarins vísað til þess að myndirnar sem um ræðir hafi ekki einungis verið birtar í Rafskinnu heldur hafi þær einnig verið notaðar í dagblöðum, tímaritum og sem auglýsingar á kvikmyndasýningum og þær hafi þar með verið notaðar í öllum tiltækum miðlum síns tíma. Stefndu telja jafnframt að Jóni hafi verið þetta fullkomlega ljóst þegar hann hóf störf sín hjá Gunnari að svo væri málum háttað, enda hefðu auglýsingarnar birst í blöðum, tímaritum og kvikmyndahúsum á meðan Tryggvi Magnússon starfaði fyrir Gunnar og allan þann tíma sem Jón var við þessi störf og raunar mun lengur og enn þann dag í dag, sbr. auglýsingar Mjólkursamsölunnar á útveggjum/gluggum Pétursbúðar .

Á þessi sjónarmið getur dómurinn ekki fallist. Í því sambandi verður að horfa til þess að samningi þeirra Jóns og Gunnars frá 19. janúar 1949 er einungis fjallað um gerð myndanna til afnota fyrir auglýsingabókina Rafskinnu. Ekki er þar getið um nein önnur afnot af verkinu. Í bréfaskiptum þeirra Jóns og Gunnars frá í lok mars og byrjun apríl 1954 er enn fremur ekki vikið að neinni annarri notkun myndanna en til birtingar í Rafskinnu.

Ljóst er að umrædd gögn, sem eru einu samtímagögnin sem lýsa samningssambandi þeirra Jóns og Gunnars, hafa verulegt vægi við úrlausn þess hvaða atvik verði lögð til grundvallar um samninga þeirra sín á milli. Með vísan til þess sem þar kemur fram og að stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. hafa ekki lagt fram nein sambærileg samtímagögn sem sýna fram á hið gagnstæða verður að hafna málsástæðum þeirra um að Jón hafi framselt Gunnari allan fjárhagslegan nýtingarrétt, sbr. 3. gr. núgildandi höfundalaga, að myndunum sem mál þetta fjallar um. Í þessu sambandi telur dómurinn rétt að taka fram að þótt hluti þeirra mynda sem málið snertir hafi verið birtar sem auglýsingar í dagblöðum, tímaritum og á kvikmyndasýningum, liggur ekkert fyrir í málinu um að Jón hafi heimilað slík afnot né að honum hafi verið kunnugt um þau.

Í samræmi við það sem að framan er rakið er öllum málsástæðum um framsal á höfundarrétti Jóns Kristinssonar til Gunnars Bachmann, umfram það sem tengist beinlínis sýningu myndanna í flettiauglýsingargrindinni Rafskinnu, hafnað. Í ljósi þessarar niðurstöðu verður enn fremur að leggja til grundvallar að stefnendur séu sem skylduerfingjar Jóns lögmætir rétthafar höfundarréttar hans að umræddum myndverkum og hafi þar með forræði á þeim hagsmunum sem kröfur þeirra í málinu lúta að, enda hefur aðild þeirra að málinu ekki verið mótmælt af hálfu stefndu.

 

  1. Kröfur stefnanda um afhendingu myndverka

Stefnendur í málinu þessu hafa krafist þess að stefndu Familíunni ehf., Þorsteini og Hrefnu Bachmann, svo og Margréti Þorsteinsdóttur, verði gert að afhenda þeim frumgerðir alls 169 myndverka sem tilgreind eru í stefnu. Sú krafa byggist á málsástæðu stefnenda um að Jón hafi einungis framselt Gunnari þá afnotaheimild sem fólst í birtingu verkanna í Rafskinnu, enda hafi Gunnari ekki verið þörf á að nýta verkin í öðrum tilgangi. Telja stefnendur að Jón hafi af þessum sökum ekki framselt Gunnari neinn eignarrétt að frumgerðum verkanna og Jón hafi þar af leiðandi verið réttur eigandi þeirra frá því að verkin urðu til. Í því sambandi telja stefnendur að ákvæði laga nr. 46/1905, um hefð, geti ekki komið til álita, enda sé kveðið á um það í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga að hefð vinnist ekki þegar maður hafi náð umráðum „með glæp eða óráðvandlegu atferli“. Stefndu Familíunni og erfingjum Gunnars Bachmanns sé því skylt að afhenda stefnendum þær frumgerðir er þeir hafa yfir að ráða.

Í vörnum stefndu er hins vegar byggt á því að Gunnar hafi keypt frumverkin af Jóni til fullrar eignar. Þannig verði samningur Jóns og Gunnars frá 19. janúar 1949 ekki skilinn svo að Jón hafi haldið eftir eignarétti að frumverkum auglýsinganna, enda sé ekkert fjallað um það í samningnum. Hins vegar sé í samningnum sérstaklega kveðið á um að greidd sé ákveðin fjárhæð fyrir auglýsingamyndirnar. Enn fremur sé ekki tekið á því í tilvitnuðum samningi að Gunnar hafi átt að afhenda auglýsingamyndirnar til Jóns. Þannig sé fullkomlega ljóst að eignarrétturinn hafi færst til Gunnars í þessum viðskiptum, í samræmi við tilgang og eðli þessara viðskipta.

Stefndu hafa enn fremur vísað til sjónarmiða um tómlæti, þegjandi samþykki og hefð, enda hafi stefnendur ekki geta sýnt fram á eða sannað að þeir eða Jón hafi nokkru sinni á 70 ára tímabili krafist afhendingar frumverkanna úr hendi Gunnars, ekkju hans, Benedikts eða stefndu. Af hálfu stefndu er sérstaklega áréttað að frumverkin teljist sem slík til lausafjár samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð, en hefðartími lausafjár sé 10 ár samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra laga.

Af hálfu stefnenda er fullyrt í stefnu að Jón hafi stundum tekið með sér frumverk til baka þegar hann átti leið til Reykjavíkur og eftir andlát hans hafi stefnendur fundið 86 myndverk í gögnum hans. Stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. hafa hins vegar mótmælt þessu sem röngu og ósönnuðu.

Við úrlausn þess hvort Jón Kristinsson hafi framselt Gunnari Bachmann eignarrétt að frumgerðum mynda sinna í samstarfi þessara aðila á árunum 1943 til 1957, verður að mati dómsins að horfa til þess hvaða ályktanir verða dregnar af gögnum málsins um samningsgerð þessara manna, samskipti þeirra og þær venjur mynduðust í viðskiptasambandi þeirra.

Ekki verður séð að fjallað hafi verið sérstaklega um framsal eignaréttinda að frumgerðum verka í lögum nr. 13/1905 eða öðrum lögum sem í gildi voru á meðan viðskiptum þeirra stóð árin 1943 til 1957. Við setningu höfundalaga nr. 73/1972 var hins vegar sett sú regla í 2. mgr. 28. gr. laganna, sem enn er í gildi, ef eintak af verki væri afhent til eignar þá fælist ekki í þeim gerningi framsal á höfundarétti að verkinu, nema þess væri getið sérstaklega. 

Í athugasemdum við ákvæði 28. gr. í frumvarpi því er varð að höfundalögum nr. 73/1972 er vísað sérstaklega til athugasemda við ákvæði 25. gr. frumvarpsins í tengslum við skýringar á 2. mgr. 28. gr. laganna. Í þeim athugasemdum segir meðal annars:

„Reglur um eignarumráð á eintökum listaverka, t.d. málverka og höggmynda, hljóta að sumu leyti að verða með öðrum hætti en á eintökum bókmenntaverka og tónverka, sbr. 24. gr. Um listaverk er títt, að af þeim er gert aðeins eitt eintak, og jafnvel þó að eintök séu fleiri hafa eftirmyndanir oft ekki sama gildi og frumverkið. Sá, sem eignast eintak af listaverki, öðlast ekki þar með höfundarétt að því. Hins vegar fær hann venjuleg eigendaumráð yfir eintakinu, sem eru þó háð tilteknum takmörkunum vegna höfundaréttar í höndum annars aðilja. Svo getur einnig verið, að eigenda listaverks séu veittar rýmri heimildir en öðrum mönnum til eftirmyndunar af því, sbr. 2.-4. málsgr. Þegar um þetta eru settar reglur, verður að taka tillit til hagsmuna beggja, höfundar og eigenda eintaksins, og láta ríkari hagsmuni ganga fyrir þeim sem veigaminni eru, eins og venja er til. En við slíkan samjöfnuð verða menn ekki alltaf á einu máli, enda er leyst úr þessu með mismunandi hætti í höfundalögum.

Um 1. málsgr. Hér eru aðalákvæði um ráðstöfunarrétt á listaverkum. Tekið er fram að eiganda eintaks af listaverki sé heimilt að láta það af hendi. Honum er því frjáls sala þess, lán eða leiga nema annað hafi verið áskilið, er hann eignaðist það, eða hömlur á afhendingu séu ákveðnar í lögum, sbr. 9. og 10. gr. í lögum um Listasafn Íslands nr. 53 frá 1961.“

 

Samkvæmt þeim lagaákvæðum og lögskýringargögnum sem rakin hafa verið hér að framan er ljóst að framsal höfundarréttar og frumgerðar myndverks fara ekki að öllu leyti saman. Í ákvæði 28. gr. höfundalaga er sérstaklega áréttað að framsal að frumeintaki feli ekki í sér framsal að höfundarétti. Hins vegar verður ekki annað séð en að aðilaskipti að frumgerð myndverks lúti að öðru leyti sömu reglum og aðilaskipti að lausafé almennt, að teknu tilliti til ákveðinna takmarkana sem leiða af réttindum höfundar.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Þorsteinn Jónsson, einn stefnenda, að hann hefði rætt við föður sinn um myndirnar sem hann hefði gert fyrir Rafskinnu og kvað hann föður sinn hafa sagt honum að hann hefði teiknað um 2000 myndir en þeim hefði flestum verið hent. Í skýrslu Þorsteins kom fram að faðir hans hafi sagt honum að hann hefði reynt að nálgast myndirnar í kjölfar sviplegs fráfalls Gunnars en honum hafi þá verið tjáð að það væri búið væri að taka niður vinnustofu Gunnars og myndirnar væru ekki lengur til staðar.

Í framburði Kristjönu Jónsdóttur, annars stefnenda, fyrir dómi kom fram að stefnda Margrét Þorsteinsdóttir hefði sótt Jón Kristinsson heim ásamt eiginmanni sínum heitnum, Benedikt Bachmann, syni Gunnars Bachmann, að minnsta kosti tvisvar sinnum árin 2001-2005. Ber framburði þeirrar Kristjönu og Margrétar saman um það að á þessum fundum hafi komið fram að stefnda Margrét og Gunnar hefðu haft myndir sem Jón teiknaði í sínum vörslum. Þannig sagði í skýrslu Kristjönu að Jón faðir hennar hefði kynnt hana fyrir stefndu Margréti og Gunnari í beinu framhaldi af einum þessara funda og sagt henni að þau „væru með einhverjar myndir sem hann hafði teiknað í Rafskinnu á sínum tíma“ og Jón hefði beðið hana um annast samskipti við Benedikt um Rafskinnu ef til þess kæmi.

Eins og hefur verið hér að framan er ekki deilt um það í málinu að Jón hafði teiknað myndir að beiðni Gunnars til birtingar í Rafskinnu og að Jón hafi í því skyni afhent Gunnari frumgerðir mynda til birtingar. Fyrir liggur að þetta viðskiptasamband Jóns og Gunnars stóð óslitið frá árinu 1943 til 1957, eða þar til Gunnar féll frá með sviplegum hætti.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort Jón hafi þessum tíma afhent Gunnari frumgerðir myndverkanna sem um ræðir í máli þessu til eignar verður ekki horft framhjá því að gögn málsins bera þess engin merki Jón hafi nokkurn tíma á því 14 ára tímabili sem hann teiknaði myndir í Rafskinnu farið fram á það við Gunnar að hann afhenti honum myndirnar aftur eða gert nokkurn fyrirvara að öðru leyti um eignarrétt sinn að frumgerðunum.

Gegn mótmælum stefndu er enn fremur ekki unnt að leggja til grundvallar framburð Þorsteins Jónssonar um faðir hans hafi reynt að nálgast frumgerðir mynda sinna í kjölfar andláts Gunnars, enda er Þorsteinn einn aðila málsins og skýrsla hans hefur að því leyti takmarkað sönnunargildi nema að því leyti að þar komi fram viðurkenning á atviki sem aðila er óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991. Að því er síðastefnda atriðið varðar þá kom hins vegar fram í skýrslu Kristjönu Jónsdóttur að faðir hennar hafi á fundi sínum með stefndu Margréti og eiginmanni hennar heitnum öðlast vitneskju um að þau hefðu með höndum frumgerðir verka hans, án þess þó að hann hafi í kjölfarið gert tilkall til þess að þessi verk yrðu afhent honum.

Þegar framangreind atriði eru virt telur dómurinn ekki unnt að draga aðra ályktun af þeim takmörkuðu sönnunargögnum sem fyrir liggja, og þá einkum því að ósannað er að Jón hafi nokkru sinni hlutast til um að fá frumgerðir verka sinna afhentar frá Gunnari, en að þeir Jón og Gunnar hafi gengið út frá því í samskiptum sínum að Gunnar ætti frumgerðir myndverkanna sem teiknuð voru til birtingar í Rafskinnu. Í því sambandi verður jafnframt að leggja áherslu á að ekki verður séð að Jón hafi aðhafst sérstaklega þegar honum barst árin 2001-2004 vitneskja um að frumgerðir verkanna væru í vörslum stefndu Margrétar og eiginmanns hennar.

            Í ljósi þess sem að framan er rakið verða stefndu Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét sýknuð af kröfu stefnenda um að þeim verði afhentar frumgerðir þeirra 163 myndverka sem tilgreind eru í a-lið aðalkröfu stefnenda.

            Stefnendur hafa auk þess krafist þess í b-lið aðalkröfu sinnar að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að afhenda stefnendum frumgerðir sex myndverka sem þar eru nánar tilgreind.

Stefndu hafa vegna þessa liðar kröfunnar upplýst að verkin sem þar er vísað til séu öll í einkaeign annarra en stefndu og að þau hafi verið fengin að láni fyrir sýninguna, fyrir utan tvö verk sem stefndu eigi aðeins til negatívur af. Í málatilbúnaði stefndu er greint frá því að þar sem umrædd verk séu hvorki í umráðum né eign stefndu hafi þau ekki verið sett á lista stefnda yfir verk í þeirra eign og vörslu, sem þau útbjuggu að beiðni stefnenda.

Í ljósi þess að stefnendur hafa í engu hrakið fullyrðingar stefndu um að umrædd verk séu í eigu annarra en stefndu verður að leggja til grundvallar að stefndu fari hvorki með eignarhald né umráð þeirra verka sem b-liður aðalkröfu stefnanda tekur til. Með vísan til þessa eru stefndu Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét sýknuð af kröfum stefnenda í b-lið aðalkröfu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Stefnendur í málinu hafa sett fram þá kröfu til vara, verði aðalkröfur þeirra í liðum a) og b) ekki teknar til greina, að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði dæmd til að afhenda eftirgerðir af þeim verkum sem tilgreind eru í a- og b-liðum aðalkröfu, nánar tiltekið rafræn eintök af skönnuðum verkum eða litfilmur. Til stuðnings þessari kröfu vísa stefndu til þess að þau séu höfundaréttarhafar að verkunum og eigi því rétt á að fá eintök af þeim en slík eintök megi útbúa með litlum tilkostnaði og fyrirhöfn.

Stefndu hafa krafist sýknu af þessari kröfu. Hafa stefndu um það vísað til 1. mgr. 25. gr. a höfundalaga, þar sem kveðið er á um að vörslumanni myndlistaverks sé skylt að veita höfundi aðgang að verkinu til fjölföldunar þess eða útgáfu. Af hálfu stefndu er hins vegar á því byggt að framangreindur réttur höfundar sé persónulegur og erfist ekki, sbr. síðasta málslið tilvitnaðs lagaákvæðis.

Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 25.gr. a er vörslumanni myndlistarverks skylt að veita „höfundi“ aðgang að verkinu til fjölföldunar þess eða útgáfu eða annarrar hliðstæðrar notkunar, „enda sé hún höfundi mikilvæg“. Þá segir í 2. málslið 1. mgr. 25. gr. a að réttur höfundar samkvæmt ákvæðinu sé „persónulegur, óframseljanlegur og erfist ekki.“ Í ljósi þess skýra orðalags ákvæðisins sem hér er rakið eru ekki efni til annars en að fallast á málsástæður stefndu að þessu leyti og eru þau því sýknuð af þessari varakröfu.

 

6.      Skilyrði höfundalaga fyrir greiðslu skaðabóta og sjónarmið sem

byggt verður á við ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögunum

Stefnendur í máli þessu hafa krafist þess að stefndu greiði þeim skaðabætur vegna brota á höfundarétti. Telja þau að stefndu beri skyldu til að greiða þeim sem handhöfum höfundaréttar Jóns Kristinssonar heitins skaðabætur á grundvelli 1. mgr. 56. gr. höfundalaga, sbr. 12. gr. laga nr. 53/2010. Samkvæmt því ákvæði skal sá sem brotið hefur gegn höfundalögum af ásetningi eða gáleysi greiða bætur vegna brotsins. Í ákvæðinu segir jafnframt að þótt brotið sé framið í góðri trú sé heimilt að ákveða þeim sem orðið hefur fyrir tjóni bætur úr hendi hins brotlega.

Það leiðir af orðalagi 1. mgr. 56. gr. að það er grundvallarskilyrði bótaábyrgðar að brot á höfundarétti liggi fyrir. Ljóst er að stefnendur telja að stefndu hafi gerst sek um slík brot með því að sýna verk föður þeirra opinberlega og gera eftirgerðir af þeim í tengslum við sýninguna í Gallerí Fold 1. – 24. nóvember 2013, og einnig með útgáfu á veggspjöldum, póstkortum og sambærilegu efni, sem og birtingu auglýsinga. Að mati stefnenda hafa stefndu með þessum athöfnum brotið gegn þágildandi ákvæði 3. gr. höfundalaga, sem fjallar um einkarétt höfundar til eintakagerðar og til að gera verkin aðgengileg almenningi, sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga

Þá telja stefnendur að stefndu hafi á ýmsan hátt brotið gegn ákvæðum 4. gr. höfundalaga og að stefnendur eigi rétt til greiðslu miskabóta af þeim sökum. Vísa stefndu í því sambandi til ákvæðis 1. mgr. 4. gr. laganna, um að skylt sé, eftir því sem við getur átt, að geta nafns höfundar bæði á eintökum verks og þegar það er birt. Stefnendur hafa einnig vísað til 2. mgr. 4. gr. laganna, en þar segir að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Í ljósi umfangs málsins verður gerð grein fyrir hverju þeim brotum sem stefnendur hafa vísað til sérstaklega og niðurstöðu dómsins að því leyti.

Aðila málsins greinir ekki aðeins á um hvort atvik málsins eigi að leiða til bótaskyldu stefndu heldur er jafnframt tekist á um fjárhæð bótanna, ef bótaskylda er talin vera fyrir hendi. Af hálfu stefndu er í meginatriðum byggt á því að þær fjárhæðir sem stefnendur hafa gert kröfu um séu óhæfilega háar. Stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. telja raunar framsetningu kröfugerðar stefnenda vera með ólíkindum þegar litið sé til þess að heildaráhrif sýningarinnar í Gallerí Fold og auglýsingar og kynning á verkum Jóns Kristinssonar hafi augljóslega verið þau að nafni hans Jóns haldið hátt á lofti og vakin var gríðarlega mikil eftirtekt á verkum hans, sem legið höfðu í láginni um langa hríð. Þá telja stefndu að einnig að ekki sé unnt að leggja gjaldskrá Myndstefs til grundvallar við ákvörðun bóta, þar sem hún geti einungis tekið til félagsmanna Myndstefs.

Í ákvæði 2. mgr. 56. gr. höfundalaga er fjallað um sjónarmið við ákvörðun bóta samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna. Segir í 2. mgr. 56. gr. að við ákvörðun bóta skuli ekki eingöngu miða við það beina fjárhagstjón sem höfundur eða annar rétthafi hefur orðið fyrir, heldur beri auk þess að líta til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hafi haft af brotinu. Verði ekki færðar sönnur á tjón brotaþola eða hagnað hins brotlega skuli ákveða bætur að álitum hverju sinni.

Ákvæði 2. mgr. 56. gr. var leitt í lög með 12. gr. laga nr. 53/2010, um breyting á höfundalögum nr. 73/1972, með áorðnum breytingum. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 53/2010 kemur fram að í 2. mgr. sé gerð tillaga um að við ákvörðun bóta verði ekki eingöngu miðað við það beina fjárhagstjón, sem höfundur eða annar rétthafi hafi orðið fyrir, þar á meðal vegna fjárútláta við að hafa uppi á þeim er brotið hefur gegn lögvörðum rétti hans, enda getur verið erfitt að færa sönnur á það, heldur verði einnig litið til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hefur haft af brotinu. Sé sú fjárhæð hærri en hið beina fjárhagstjón bæri þar af leiðandi að leggja hana til grundvallar þegar bætur eru ákveðnar. Um sé að ræða bætur fyrir ólögmæta auðgun sem verði að telja sanngjarnt að sá brotlegi inni af hendi til rétthafans. Síðan segir í athugasemdunum:

 

„Ef ekki verða færðar sönnur á tjónið eða hagnaðinn, sem oft getur orðið raunin, er gert ráð fyrir því í 2. málsl. 2. mgr. að bætur skuli dæmdar að álitum, eftir mati dómara hverju sinni. Styðst sú regla að nokkru leyti við dómaframkvæmd. Ekki þykir fært að lögfesta nánari viðmiðunarreglur um ákvörðun bótafjárhæðar vegna brots skv. 1. mgr. Þó væri eðlilegt að í framkvæmd yrði miðað við hæfilegt endurgjald, eins og samið hefði verið fyrir fram um not höfundarverks eða annarra þeirra framlaga sem njóta höfundaréttarverndar, að viðbættu álagi vegna frekara tjóns brotaþola eða hagnaðar hins brotlega. Ef ekki reyndist unnt að færa sönnur á það um hve háar fjárhæðir væri þar að ræða gæti þrautalendingin orðið sú að bæta við endurgjaldið jafnháu álagi þannig að bæturnar næmu alls tvöföldu endurgjaldi fyrir lögmæt not. Hér að baki býr sú hugsun að þeim sem hyggur á hagnýtingu verndaðra höfundarverka eða annars efnis með t.d. opinberum tónlistarflutningi er að fyrra bragði skylt að afla leyfis til þess frá rétthöfum. Sá háttur hefur tíðkast í dómaframkvæmd í sumum nágrannalöndum Íslands, t.d. í Danmörku. Í slíkri bótaákvörðun felast ekki refsikenndar bætur (e. punitive damages), heldur er ákvörðun um bætur byggð á hlutlægu mati þar sem m.a. er tekið tillit til útgjalda rétthafa við hagsmunagæsluna, svo sem vegna kostnaðar við að bera kennsl á meintan brotamann og kostnað við rannsóknir á hinu ætlaða broti, sbr. 26. skýringargrein við tilskipun 2004/48/EB.“

 

Í 3. mgr. 56. gr. höfundalaga er síðan kveðið á um að dæma megi höfundi eða öðrum rétthafa bætur fyrir miska vegna brots á lögum þessum. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 53/2010 kemur fram að ákvæðið hafi verið sett að fyrirmynd 3. mgr. 83. gr. dönsku höfundalaganna um að ekki yrði framvegis skylt heldur aðeins heimilt að dæma bætur fyrir miska vegna brots á lögunum. Sú regla væri samræmi við 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Þá væri sömuleiðis, eins og í umræddu ákvæði dönsku höfundalaganna, gert ráð fyrir að miskabætur yrðu ekki einvörðungu dæmdar höfundi eða listflytjanda, eins og áður var kveðið á um í 2. mgr. 56. gr. gildandi laga, heldur gætu aðrir rétthafar átt kröfu til slíkra bóta fyrir ófjárhagslegt tjón, svo sem þeir sem eignast hafa höfundarétt að erfðum eða með framsali höfundar á rétti sínum.

 

7.      Kröfur stefnenda á hendur stefndu

Þorsteini, Hrefnu, Margréti og Familíunni ehf. um

greiðslu skaða- og miskabóta vegna gerðar boðskorta (liður 1(a))

Að því er varðar bótakröfur stefnenda vegna sýningarinnar er í fyrsta lagi gerð krafa á hendur stefndu Familíunni ehf., Þorsteini Bachmann, Hrefnu Bachmann og Margréti Þorsteinsdóttur vegna framleiðslu boðskorts á sýninguna, sbr. a-lið bótakröfu stefnenda vegna þessa þáttar málsins. Eins og rakið er hér að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að Jón Kristinsson hafi verið höfundur þeirra myndverka sem mál þetta lýtur að, þar á meðal þeirra verka sem birt eru á boðskorti og lýst er í lið 1(a) í kröfum stefnenda. Þá hefur dómurinn og komist að þeirri niðurstöðu að Jón hafi ekki framselt nýtingarrétt til verkanna til Gunnars Bachmann umfram það sem laut að birtingu þeirra í Rafskinnu á sínum tíma og að stefnendur séu sem skylduerfingjar Jóns lögmætir rétthafar höfundarréttar hans að myndunum.

Samkvæmt 3. gr. höfundalaga sem í gildi var þegar atvik þessa máls áttu sér stað hafði höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Telja verður að með því að láta framleiða og dreifa umræddu boðskorti hafi stefndu Þorsteinn, Hrefna og Margrét, svo og Familían ehf., brotið gegn einkarétti höfundar til gera eintak af verki samkvæmt umræddu ákvæði 3. gr. höfundalaga. Þá er það jafnframt niðurstaða dómsins að með því að skeyta 9 brotum úr myndverkum Jóns, þ.e. letri, svo og 13 brotum úr myndum í meginhluta kortsins hafi stefnendur breytt verkum Jóns. Að mati dómsins felur þessi háttsemi stefndu í sér brot á 2. mgr. 4. gr. höfundalaga en samkvæmt því ákvæði er óheimilt að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.     

Stefnendur gera í þessum þætti málsins kröfu um að stefndu Þorsteini, Hrefnu, Margréti og Familíunni ehf., verði gert að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 511.984 krónur vegna framleiðslu póstkortsins. Krafa stefnanda er að þessu leyti byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir póstkort, kveðjukort.

Eins og rakið er í kafla IV.6 hér að framan var það lagt til grundvallar við setningu núgildandi ákvæðis 2. mgr. 56. gr. höfundalaga um ákvörðun skaðabóta að ef ekki yrðu færðar sönnur á tjónið eða hagnaðinn, væri ráð fyrir því í 2. málsl. 2. mgr. að bætur skuli dæmdar að álitum, eftir mati dómara hverju sinni. Þá kom þar fram að í þessu sambandi væri eðlilegt að í framkvæmd yrði miðað við hæfilegt endurgjald, eins og samið hefði verið fyrir fram um not höfundarverks eða annarra þeirra framlaga sem njóta höfundaréttarverndar, að viðbættu álagi vegna frekara tjóns brotaþola eða hagnaðar hins brotlega.

Með vísan verður að fallast á þau sjónarmið stefnanda að gjaldskrá Myndstefs fyrir gerð póstkorta feli í sér eðlilegt viðmið fyrir greiðslu skaðabóta vegna þessa þáttar málsins. Af þeim sökum þykja skaðabætur vegna þessara brota hæfilega ákveðnar 511.984 krónur. Í samræmi við framangreint eru stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. því dæmd til að greiða skaðabætur til stefnenda að fjárhæð 511.984 króna.

Stefnendur hafa enn fremur byggt á því að vöntun á því að Jón Kristinsson væri nafngreindur á póstkortinu í samræmi við 1. mgr. 4. gr. höfundalaga hafi valdið þeim miska og gera af þeim sökum kröfum um að stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían greiði þeim 1.000.000 króna í miskabætur. Stefnendur hafa ekki gert kröfu um greiðslu miskabóta í þessum lið málsins vegna breytinga á verkum Jóns.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 4. gr. höfundalaga er „skylt, eftir því sem við getur átt, að geta nafns höfundar bæði á eintökum verks og þegar það er birt“. Þá er í 3. mgr. 4. gr. sett sú regla að afsal höfundar á rétti sínum samkvæmt 4. gr. sé ógilt nema um nema um einstök tilvik sé að ræða, sem skýrt eru tilgreind bæði um tegund og efni.

            Ljóst er að ákvæði 1. mgr. 4. gr. kveður ekki á um fortaklausa skyldu til að geta nafns höfundar í tengslum við birtingu verks heldur segir í ákvæðinu að skuli aðeins gert „eftir því sem við getur átt“.

Ákvæði 4. gr. hefur staðið efnislega óbreytt í höfundalögum frá því að þau lög voru sett 1972. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að höfundalögum kemur fram að ákvæði 4. gr. lúti að persónuréttindum sem varði álit höfundar og heiður í sambandi við kynningu verka hans. Þá segir þar að ákvæðunum sé ætlað að veita „höfundum tryggingu fyrir því að verk þeirra komist óbrjáluð í hendur almenningi og ekki sé um villt frá hverjum þau stafa“.

            Í framhaldinu er síðan fjallað sérstaklega um rétt höfundar til að fá nafns síns getið þegar verk hans er birt almenningi. Kemur þar fram að lagt sé til grundvallar að höfundum sé almennt annt um að koma orði á sig og verk sín og fá að njóta heiðurs af þeim. Nafngreiningin geti orðið með þeim hætti að hún sé prentuð eða hennar getið á annan veg á eintökum sem af verkinu eru gerð, svo sem af bókum eða hljómplötum og sé þá útgefanda skylt að geta þess, en „þó með þeim undantekningum sem síðar greinir“. Síðan segir í athugasemdunum:

 

„Í öðru lagi skal nafngreining fara fram, þegar verk er flutt eða sýnt opinberlega. Sem dæmi má nefna, að á hljómleikum eiga höfundar bæði lags og texta rétt til að fá nafns síns getið, á málverkasýningu ber að greina nöfn málara, þegar tónlist er flutt í útvarpi, skal geta um nöfn höfunda lags og texta og einnig greina nafn listflytjanda, sbr. 2. málsgr. 45. gr. o.s.frv.

Í 1. málsgr. segir að nafngreining skuli fara fram, eftir því sem við getur átt. Þegar höfundur kynnir verk sín undir gervinafni, skal greina það, og er óheimilt að kynna nafn höfundar nema með samþykki hans. Ef höfundur hefur birt verk sitt nafnlaust, verður ekki um nafngreiningu að ræða, jafnvel þó að um höfund sé vitað, enda nafnbirting þá óheimil, nema hann samþykki hana. Við sum tækifæri verður nafngreiningu ekki komið við, svo vel fari á því, t.d. við söng eða annan hljómlistarflutning í kirkjum, tilvitnanir í tækifærisræður o.fl. Verður að meta þetta eftir ástæðum hverju sinni.“

             

Af framangreindum ummælum verður ráðið að þótt höfundar eigi almennt tilkall til þess að nafna þeirra sé getið í tengslum við birtingu verks, þá geti aðstæður engu að síður verið með þeim hætti að nafngreiningu verði ekki komið við. Ljóst er að við setningu höfundalaga var gert ráð fyrir að þetta yrði metið eftir aðstæðum hverju sinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómurinn að líta þurfi til allra atvika þessa máls þegar afstaða er tekin til þess hvort stefndu hafi brotið gegn sæmdarrétti Jóns Kristinssonar með þeim athöfnum sem lýst er í stefnu málsins. Í því sambandi er að mati dómsins ekki unnt að horfa framhjá því að þrátt fyrir myndverkin sem um ræðir hafi ótvírætt listrænt gildi og njóti sem slík höfundaréttar samkvæmt 1. gr. höfundalaga þá voru þau upphaflega gerð í því skyni að auglýsa þær vörur sem þar koma fram. Jafnframt liggur fyrir að Jóns Kristinssonar var að jafnaði ekki getið sem höfundar þegar myndirnar voru upphaflega birtar sem auglýsingar í Rafskinnu. Sú framsetning er enn fremur í samræmi við alkunna starfshætti við gerð og birtingu auglýsinga sem tíðkast hafa hér á landi um áratugaskeið.

Í ljósi þessara atvika er það niðurstaða dómsins að þeir misbrestir sem urðu á því að stefndu nafngreindu Jón í boðskortunum séu ekki af því tagi að þeir feli í sér brot á 1. mgr. 4. gr. höfundalaga um rétt höfundar til nafngreiningar sem leiði til þess að stefndu sé skylt að greiða miskabætur samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga. Eru stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. því sýknuð af kröfu stefnenda um greiðslu miskabóta vegna þessa þáttar málsins.

 

8.      Kröfur stefnenda á hendur Fabrik ehf.

vegna birtingar og sendingar boðskorta fyrir sýninguna í Gallerí Fold

og birtingar auglýsinga um sýninguna á heimasíðum og samfélagsmiðlum (liðir 1(b) til 1(j)

 

Í öðru lagi gera stefnendur bótakröfur á hendur Fabrik ehf. sem rekstraraðila Gallerís Foldar vegna birtingar og sendingar boðskorta fyrir sýninguna á verkum Jóns í Gallerí Fold, sem og birtingu auglýsinga fyrir hana með þeim hætti sem líst er í liðum 1(b)- til 1(j) í stefnu málsins. Í þessum þætti málsins eru aðeins gerðar kröfur á hendur Fabrik ehf., enda kveðast stefnendur ekki vita til þess að stefndu, Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét, hafi haft neina aðkomu að þessum athöfnum.

            Stefndi Fabrik ehf. hefur rökstutt sýknukröfu sína með vísan til þess að stefnendur eigi enga beina fjárkröfu á hendur félaginu. Af hálfu Fabrik ehf. er að þessu leyti byggt á að aðkoma félagsins að málinu hafi verið afar takmörkuð og falist í því einu að vera umboðsaðili fyrir sýningu og sölu á verkum sem deilt er um höfundarétt að. Telur Fabrik ehf. að stefnendur beini því kröfum sínum ranglega að félaginu og af þeim sökum beri að sýkna félagið vegna aðildarskorts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

            Dómurinn getur ekki fallist á þessi sjónarmið Fabrik ehf. um að félagið sé ekki réttur aðili málsins. Í því sambandi nægir að benda á að kröfur stefnanda í liðum 1(b) til 1(j) lúta greiðslu skaðabóta vegna birtingar myndverka Jóns Kristinssonar sem fór ýmist fram á Facebook-síðum eða heimasíðum Gallerís Foldar sem stefnandi rekur eða sendingu boðskorta með myndum af verkunum í tölvupósti sem óumdeilt er að fór fram á vegum félagsins. Vegna þessa verður að hafna málsástæðum Fabrik ehf. um sýknu vegna aðildarskorts.

Stefndi Fabrik ehf. hefur einnig vísað til þeirrar málsástæðu til stuðnings sýknukröfu sinni að hann sé miðlari á myndverkum og geti í ljósi stöðu sinnar ekki annað en treyst þeim aðila sem fer með vörslur höfundarverndaðra verka, enda er um lausafé að ræða sem ekki er skráningarskylt. Vísar stefndi um það til 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga nr. 73/1972 en þar kemur fram að „höfundur verks telst sá, uns annað reynist, sem nafngreindur er á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk er birt.“ Hefur stefndi þá byggt á því að 8. gr. höfundalaga feli í sér hagræði til handa viðsemjanda höfundar, sem eigi að geta treyst því að hann semji við réttan umráðamann, ef engin sérstök atvik gera það tortryggilegt. Í því sambandi bendir stefndi Fabrik ehf. á að samkvæmt gögnum málsins séu flest öll verkin merkt Rafskinnu og því séu allar löglíkur með því að aðstandendur sýningarinnar hafi farið með höfundarréttinn að myndverkunum eins og áður segir.

Að mati dómsins er ekki hægt að fallast á þessar málsástæður stefnda Fabrik ehf. um að hann geti í reynd borið fyrir sig grandleysi um að Jón hafi verið höfundur myndverkanna sem ágreiningur þessa máls lýtur að. Í því sambandi verður að leggja áherslu á að stefndi Fabrik ehf. rekur atvinnustarfsemi sem lýtur í meginatriðum að því að selja og sýna verk sem njóta höfundarréttarverndar. Til slíkra aðila verður almennt að gera þá kröfu að þeir geri ráðstafanir til að kanna hver sé réttmætur handhafi höfundarréttar að þeim verkum sem þeir sýsla með í atvinnustarfsemi sinni, einkum þegar sérstakt tilefni gefst til þess.

Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um að starfsmenn eða fyrirsvarsmenn Fabrik ehf. hafi á nokkru stigi málsins leitað frekari upplýsinga eða skýringa um hverjir væru handhafar höfundarréttarins að þeim verkum sem efnt var sýningar á í Gallerí Fold í nóvember 2013. Atvik málsins benda hins vegar eindregið til þess að stefndi Fabrik ehf. hafi engu að síður haft ærið tilefni til frekari athugunar á þessu atriði, enda voru myndir af bæði Jóni Kristinssyni sem og Tryggva Magnússyni, teiknurum Rafskinnu, hengdar upp á sýningunni, auk þess sem nokkrar myndanna voru merktar „Jóndi“ sem óumdeilt er að er höfundarnafn Jóns. Þá liggur einnig fyrir að stefnda Fabrik ehf. var strax í kjölfar opnunar sýningarinnar gert viðvart um að erfingjar Jóns Kristinssonar og stefnendur í máli þessu hefðu athugasemdir við sýninguna.

            Stefndi Fabrik ehf. hafnar því enn fremur að birting auglýsingar hafi falið í sér brot gegn 3. gr. höfundalaga. Stefndi vísar í því sambandi til þess að hann starfi sem söluaðili m.a. í samræmi við 4. mgr. 25. gr. höfundalaga. Telur stefnandi það ákvæði takmarki höfundarétt að því er varðar söluaðila myndlistar. Því veiti greinin kvaðalaus not viðkomandi efnis, sem felist í því að söluaðili þurfi ekki að fá samþykki höfundar fyrir birtingu og að söluaðili verði ekki krafinn um endurgjald fyrir birtingu auglýsingar á myndverkum sem söluaðili hefur til sölu.

            Að því er snertir ákvæði 4. mgr. 25. gr. höfundalaga, sem stefndi Fabrik ehf. hefur byggt á til stuðnings sýknukröfu sinni, þá er þar kveðið á um að heimilt sé að birta myndir af listaverki í tilkynningu um sölutilboð þegar listaverk er boðið til sölu. Ákvæði 4. mgr. 25. gr. felur að þessu leyti í sér undantekningu frá meginreglu þágildandi 3. gr. höfundalaga um einkarétt höfundar til birtingar á verkum sínum. Það leiðir hins vegar af eðli 4. mgr. 25. gr. sem undantekningarreglu að ákvæðið verður ekki skýrt rúmt.

            Í samræmi við framangreint verður leggja til grundvallar að skírskotun ákvæðis 4. mgr. 25. gr. til hugtaksins „sölutilboð“ feli í sér að ákvæðið taki einungis til þeirra tilvika þar sem gefinn er kostur á að kaupa listaverk sem birt er mynd af í auglýsingunni. Að mati dómsins verður ákvæði 4. mgr. 25. gr. því ekki túlkað með þeim hætti að það veiti heimild til að birta án endurgjalds listaverk sem ekki eru boðin til sölu, þótt þau listaverk kunni að vera sýnd samhliða öðrum verkum sem vissulega eru falboðin til kaups. Í ljósi stöðu ákvæðisins sem undantekningarreglu verður einnig að ganga út frá því að sá þeim sem ber ákvæðið fyrir sig standi það að jafnaði nær að sýna fram á að þau listaverk sem hann hefur birt myndir af hafi verið boðin til sölu.  

 

Birting boðskorts á Facebook-síðu Gallerís Foldar (liður 1(b)) og sending sama boðskorts í tölvubréfi til áskrifenda (liður 1(c))

            Stefnendur hafa sem fyrr segir byggt á því í málatilbúnaði sínum að Fabrik ehf. hafi brotið gegn einkarétti höfunda til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings sem lögmæltur var í þágildandi ákvæði 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga. Telja stefnendur að brot Fabrik ehf. hafi enn fremur verið fólgið í því að birta boðskortið sem um ræðir í lið 1(a) í stefnu á Facebook-síðu Gallerí Foldar í 21 mánuð, sbr. lið 1(b) í stefnu, án þess að geta nafns höfundar eins og áskilið sé í 1. mgr. 4. gr. höfundalaga. Þá hafa stefnendur krafist skaðabóta vegna þess að umrætt boðskort var sent í tölvupósti til áskrifenda, sbr. lið 1(c) í stefnu.

Hvað þennan þátt málsins varðar þá verður ekkert ráðið af boðskortinu að umræddar myndir hafi verið til sölu á sýningunni. Í ljósi þessa og með vísan til fyrri sjónarmiða um sönnunarbyrði stefnda um að undantekningarheimild 2. mgr. 25. gr. höfundalaga eigi við verður því að leggja til grundvallar að með því að senda póstkortið hafi stefndi Fabrik ehf. brotið gegn einkarétti stefnenda samkvæmt þágildandi 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga með því að senda boðskortið í tölvupósti til áskrifenda hjá Gallerí Fold 31. október 2013.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í kafla IV.6 hér að framan og ítrekuð eru í kafla IV.7 verður að fallast á þau sjónarmið stefnanda að gjaldskrá Myndstefs fyrir gerð póstkorta feli í sér eðlilegt viðmið um ákvörðun skaðabóta. Af þeim sökum er fallist á þá kröfu stefnenda skaðabætur vegna birtingar Fabrik ehf. á boðskortinu á Facebook-síðu Gallerí Foldar, sbr. lið 1(b) í stefnu, séu hæfilega ákveðnar 344.883 krónur. Í samræmi við framangreint er stefndi Fabrik því dæmdur til að greiða skaðabætur til stefnenda að fjárhæð 344.883 króna.

Á grundvelli sömu sjónarmiða og rakin hafa verið hér að framan um ákvæði 3. gr. höfundalaga, sbr. 3. mgr. 2. gr. sömu laga, og ákvæði 4. mgr. 25. gr. er enn fremur fallist á bótakröfu stefnenda á hendur Fabrik ehf. vegna þess að sama boðskort var sent í tölvubréfi, sbr. lið 1(c) í stefnu. Með vísan til sjónarmiða um ákvörðun á fjárhæð skaðabóta sem áður lýst er enn fremur fallist á sjónarmið stefnanda um að ákvæði gjaldskrár Myndstefs um taxta fyrir tölvuvinnslu, viðhengi við fjölpóst í viðskiptatilgangi, skuli lögð til grundvallar sem viðmið við ákvörðun skaðabóta. Samkvæmt því verður stefnda Fabrik ehf. gert að greiða stefnendum 66.572 krónur í skaðabætur vegna liðar 1(c). Í samræmi við framangreint verður stefnda Fabrik ehf. gert að greiða alls 411.455 krónur í skaðabætur vegna þessa þáttar málsins.

            Með vísan til atvika málsins og þeirra sjónarmiða um miskabætur sem rakin eru í kafla IV.7. hér að framan hafnar dómurinn hins vegar kröfu stefnenda um að Fabrik ehf. verði gert að greiða þeim 4.620.000 krónur í miskabætur vegna liðar 1(b) í stefnu og 130.000 krónur í miskabætur vegna liðar 1(c) í kröfugerð stefnenda.

                       

Birting auglýsingar um opnun sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar, 1. nóvember 2013 ((liður 1(d).

Stefnendur hafa einnig gert kröfu um skaða- og miskabætur vegna ýmissa auglýsinga sem stefndi Fabrik ehf. birti um sýninguna. Þannig krefjast stefnendur í fyrsta lagi miskabóta vegna birtingar auglýsingar um opnun sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar, 1. nóvember 2013 (liður 1(d) í stefnu). Telja stefnendur að auglýsingin, sem hafi enn verið á síðunni við útgáfu stefnu þessarar, hafi falið í sér brot á sæmdarrétti Jóns Kristinssonar að öllum þeim 44 myndverkum hans sem sýnd voru á sýningunni þar sem í auglýsingunni hafi Gunnar Bachmann ranglega verið tilgreindur sem höfundur myndanna en þess að engu getið að Jón hafi verið höfundur myndverkanna ásamt Tryggva Magnússyni.

Í kafla IV.7 hér að framan komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að þótt Jóns Kristinssonar hafi ekki verið getið sem höfundar að myndverkum sem sett voru í boðskort sem aðrir stefndu í málinu gerðu þá væri slíkur misbrestur á nafngreiningu ekki af þeim toga að hann fæli í sér brot á 1. mgr. 4. gr. höfundalaga um rétt höfundar til nafngreiningar sem bakaði stefndu bótaskyldu samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laganna. Var þá m.a. vísað til hlutverks myndanna sem auglýsinga og þess að Jóns var að jafnaði ekki getið sem höfundar þegar myndverkin sem mál þetta snýst um voru upphaflega birt sem auglýsingar í Rafskinnu.

            Að mati dómsins geta þau sjónarmið sem lýst var í kafla IV.7 að þessu leyti þó ekki átt alls kostar við þegar annar maður er ranglega tilgreindur sem höfundur að verki sem dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu um að hafi verið höfundarverk Jóns Kristinssonar. Af þeim sökum telur dómurinn að með því að tilgreina Gunnar Bachmann í auglýsingu hafi verið vegið að sæmdarrétti Jóns sem höfundar.

Stefnendur hafa krafið stefnda, Fabrik ehf., um greiðslu miskabóta vegna þessa brots og telja í því sambandi að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 9.240.000. Þrátt fyrir að dómurinn telji að stefndi Fabrik ehf. hafi gerst sekur um brot á höfundalögum með þeim hætti sem að framan er lýst telur dómurinn ekki efni til að dæma stefnendum svo háar miskabætur úr hendi stefnda vegna þessa þáttar málsins. Telur dómurinn þess í stað að miskabætur stefnenda séu hæfilega ákvarðaðar 100.000 krónur vegna þessa þáttar.

 

Birting auglýsingar um opnun sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar, 3. nóvember 2013 (liður 1(e))

Stefnendur hafa í öðru lagi krafist skaða- og miskabóta úr hendi Fabrik ehf. vegna birtingar auglýsingar um opnun sýningar á Facebook síðu Gallerís Foldar, 3. nóvember 2013. Vísa stefnendur þá til þess að tilkynningin sem sett var inn á síðuna hafi m.a. haft að geyma hlekk á frétt er var að finna á heimasíðu Ríkisútvarpsins en í henni sé birt mynd af myndverkum Jóns Kristinssonar, Ostur er gæðakostur nr. 75, og Góðar bækur gleðja börnin nr. 44.

Stefnendur telja að með því að tengja þannig frétt Ríkisútvarpsins inn á Facebook síðu sína hafi Fabrik ehf. brotið gegn einkarétti höfundarétthafa til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga og með birtingu hennar á Facebook samskiptamiðlinum brot á einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings, sem lögmæltur er í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga. Einnig telja stefnendur að með birtingunni hafi verið framið brot á sæmdarrétti Jóns Kristinssonar, nánar tiltekið á nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna, þar sem hans sé að engu getið í tengslum við birtinguna. Málsástæðum stefnenda er að öðru leyti lýst í lið 1(e) í stefnu málsins.

            Stefnendur hafa um þá kröfu sem þau hafa gert í þessum lið málsins einungis vísað til þeirrar fréttar og myndbirtingar sem sett var inn á heimasíðu Ríkisútvarpsins en tilkynningin á Facebook síðu stefnda Fabrik ehf. hafði að geyma hlekk á umrædda frétt.

Að mati dómsins er ekki útilokað að sá sem setur inn á heimasíðu eða samfélagsmiðli hlekk á aðra heimasíðu þar sem höfundaréttarvarið efni er birt án heimildar geti bakað sér bótaábyrgð samkvæmt ákvæðum höfundalaga. Slík ábyrgð hlýtur þó að jafnaði að vera háð þeirri forsendu að birting efnisins á upphaflegu síðunni sem hlekkurinn er tengdur við, í þessu tilviki heimasíðu Ríkisútvarpsins, sé í andstöðu við ákvæði höfundalaga.

            Í 1. mgr. 13. gr. höfundalaga er kveðið á um að heimilt sé að vitna til birtra bókmenntaverka sem og fleiri verka, ef slík tilvitnun er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið. Þá segir í 2. mgr. 13. gr. að með sömu skilyrðum sé heimilt að birta myndir og teikningar af birtum listaverkum og gögnum, sem getið er í 3. mgr. 1. gr., höfundalaga, enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða.

            Með vísan ákvæðis 13. gr. höfundalaga verður ekki séð af málatilbúnaði stefnanda með hvaða hætti sú umfjöllun Ríkisútvarpsins sem stefndi Fabrik ehf. tengdi við með hlekki á Facebook-síðu sinni 3. nóvember 2013 hafi verið í andstöðu við ákvæði höfundalaga. Af þeim sökum verður stefndi Fabrik ehf. sýknaður af kröfu stefnenda um greiðslu skaða- og miskabóta vegna þeirra atvika sem greind eru í lið 1(e) í stefnu.

 

Birting auglýsingar um Rafskinnu á Facebook síðu Gallerís Foldar 11. nóvember 2013 (liður 1(f))

Stefnendur vísa til þess að auglýsingin sem um ræðir hafi að geyma myndverk Jóns Kristinssonar, „Hafið ætíð í huga hvað best má duga.“ Telja stefnendur með birtingu þessarar auglýsingar á Facebook hafi verið framið brot á einkarétti höfundar til birtingar, nánar tiltekið réttinum til miðlunar til almennings, sbr. 3. gr. og 3. mgr. 2. gr. höfundalaga. Jafnframt telja stefnendur að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 4. gr. laganna, þar sem Jóns sé að engu getið í tengslum við birtinguna. Málatilbúnaði stefnenda um þetta atriði er lýst nánar í lið 1(f) í stefnu en málsástæðum aðila er lýst í kafla III hér að framan.

            Með vísan til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið hér að framan í kafla IV.7 um ákvæði 3. gr. höfundalaga, sbr. 3. mgr. 2. gr. sömu laga, og ákvæði 4. mgr. 25. gr. höfundalaga er fallist á bótakröfu stefnenda á hendur Fabrik ehf. vegna birtingar auglýsingarinnar sem hér um ræðir. Þótt gögn málsins gefi til kynna að myndin sem um ræðir hafi verið til sölu á sýningunni og þá er engu að síður ljóst auglýsingin sem liður 1(f) lýtur að fól ekki í sér „sölutilboð“ þannig að auglýsingin sem slík falli undir 4. mgr. 25. gr. höfundalaga. Á grundvelli þeirra sjónarmiða um fjárhæð skaðabóta sem lýst er í sama kafla er enn fremur fallist á sjónarmið stefnanda um að ákvæði gjaldskrár Myndstefs um taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti, skuli lögð til grundvallar sem viðmið við ákvörðun skaðabóta. Samkvæmt því verður stefnda Fabrik ehf. gert að greiða stefnendum 107.772 krónur í skaðabætur.

            Dómurinn hafnar hins vegar kröfu stefnenda um að Fabrik ehf. verði gert að greiða þeim 210.000 krónur í miskabætur vegna þessa kröfuliðar og er þá byggt á sömu sjónarmiðum um túlkun 1. mgr. 4. gr. höfundalaga og ákvörðun miskabóta og rakin voru í kafla IV.7.

 

Birting auglýsingar um lok sýningar á Facebook-síðu Gallerís Foldar 21. nóvember 2013 (liður 1(g))

Stefnendur telja enn fremur að auglýsing sem birt var á Facebook-síðu Gallerí Foldar 21. nóvember 2013 þar sem vakin var athygli á síðustu sýningarhelgi sýningarinnar hafi brotið gegn ákvæðum 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga. Vísa stefnendur þá til þess að auglýsingin hafi að geyma myndverk Jóns Kristinssonar, „Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld.“ Þá hafi stefndi jafnframt framið brot gegn 1. mgr. 4. gr. höfundalaga, þar sem Jóns hafi að engu verið getið í tengslum við birtinguna.

Stefnendur krefja stefnda, Fabrik ehf. um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots í samræmi við gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir birtingu á heimasíðum fyrir verslun og viðskipti sem er kr. 5.132 fyrir hvert verk fyrir hvern mánuð. Vísa stefnendur þá til þess að myndin hafi verið á á síðunni í 21 mánuð og krafan nemi því kr. 107.772. Þá telja stefnendur að skortur á tilgreiningu höfundar verksins hafi valdið þeim miska og að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 210.000. Málsástæður stefnenda eru að öðru leyti raktar í lið 1(g) í stefnu sem gerð er grein fyrir hér að framan.

Að mati dómsins eiga sömu sjónarmið við um úrlausn þessarar kröfu stefnenda og lögð voru til grundvallar við úrlausn um kröfu stefnenda samkvæmt lið 1(f) í stefnu, en óumdeilt er að myndverkið sem vísað er til í þessum lið var ekki til sölu á sýningunni. Af því leiðir að fallist er á kröfu stefnenda um skaðabætur vegna birtingar auglýsingarinnar „Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld“ að fjárhæð 107.772 króna í samræmi við gjaldskrá Myndstefs en hafnað kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta að fjárhæð 210.000 króna.

 

Birting auglýsingar um framlengingu sýningar á vefsíðu Gallerís Foldar, nóvember 2013 (liður 1(h))

Stefnendur telja að birting auglýsingar með myndverki Jóns Kristinssonar, „Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld“ einhvern tíma um miðjan nóvember 2013 á vefsíðunni, www.myndlist.is, hafi brotið gegn einkarétti höfundar til birtingar, sbr. 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundlaga og sæmdarrétti Jóns Kristinssonar, nánar tiltekið á nafngreiningarrétti samkvæmt 4. gr. laganna. Í auglýsingunni hafi komið fram að

vegna mikillar aðsóknar yrði sýningin framlengd til 24. nóvember. Um málsástæður stefnenda er fjallað í lið 1(h) í stefnu.

Að mati dómsins eiga sömu sjónarmið við um úrlausn þessarar kröfu stefnenda og lögð voru til grundvallar við úrlausn um kröfu stefnenda samkvæmt lið 1(g) hér að framan. Af því leiðir að fallist er á kröfu stefnenda um að Fabrik ehf. greiði þeim skaðabætur vegna birtingar auglýsingarinnar „Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld“ að fjárhæð 107.772 króna í samræmi við gjaldskrá Myndstefs en hafnað kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta að fjárhæð 210.000 króna.

 

Birting auglýsingar um lok sýningar á heimasíðu Gallerís Foldar/Listapóstsins 21. nóvember 2013 (liður 1(i))

Stefnendur vísa til þess í lið 1(i) í stefnu að 21. nóvember 2013 hafi Gallerí Fold birt auglýsingu á heimasíðu sinni, www.listaposturinn.is, þar sem auglýst var sýningunni lyki næsta sunnudag. Auglýsingin hafi haft að geyma mynd myndverk Jóns Kristinssonar, „Reiði húsfreyjunnar - bitnar aldrei á okkur“. Stefnendur telja að með birtingu auglýsingarinnar á heimasíðu Gallerís Foldar hafi verið framið brot á einkarétti höfundar til birtingar, sbr. 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga og sæmdarrétti Jóns Kristinssonar samkvæmt 4. gr. laganna, þar sem hans sé að engu getið í tengslum við birtinguna.

Stefnendur gera sömu kröfur á hendur stefnda, Fabrik ehf., og í liðum 1(f) til 1(h) í stefnu. Þótt gögn málsins gefi til kynna að myndin sem um ræðir hafi verið til sölu á sýningunni og þá er engu að síður ljóst auglýsingin sem liður 1(i) lýtur að fól ekki í sér „sölutilboð“ þannig að auglýsingin sem slík falli undir 4. mgr. 25. gr. höfundalaga

Að mati dómsins eiga sömu sjónarmið við um úrlausn þessarar kröfu stefnenda og lögð voru til grundvallar við úrlausn um kröfu stefnenda í lið 1(f). Í samræmi við þá niðurstöðu er fallist á kröfu stefnenda um skaðabætur vegna birtingar myndverksinsReiði húsfreyjunnar - bitnar aldrei á okkur“ að fjárhæð 107.772 króna í samræmi við gjaldskrá Myndstefs en hafnað kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta að fjárhæð 210.000 króna.

 

Birting auglýsingar um framlengingu sýningar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 16. nóvember 2013 (liður 1(j))

Stefnendur vísa til þess í lið 1(j) í stefnu að 16. nóvember 2013 hafi Gallerí Fold birt auglýsingu í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem auglýst var að vegna mikillar aðsóknar yrði sýningin framlengd til 24. nóvember. Stefnendur vísa til þess að auglýsingin hafi haft að geyma myndverk Jóns Kristinssonar, Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld nr. 116 en um sé að ræða sömu auglýsingu og tilgreind er í lið 1(h) í stefnu.

            Stefnendur krefja stefndu um greiðslu skaðabóta vegna þessa brots. Krafan er byggð á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir prentun í dagblöðum, upp að ¼ af síðu, upplag 90.000, sem er kr. 23.773 og nemur krafan þeirri fjárhæð. Þá telja stefnendur að skortur á tilgreiningu nafns höfundar hafi valdið þeim miska og að hæfileg fjárhæð miskabóta sé kr. 50.000.

            Málsástæðurnar sem stefnendur hafa teflt fram til stuðnings kröfum sínum eru að öðru leyti þær sömu og í liðum 1(f) til 1(h) í stefnu. Með vísan til þeirra málsástæðna og þeirrar niðurstöðu sem dómurinn hefur komist að um þá liði er fallist á kröfu stefnenda um að stefndi Fabrik ehf. greiði þeim skaðabætur að fjárhæð kr. 23.773 vegna þessa þáttar málsins en miskabótakröfu stefnenda hafnað.

            Með vísan til þess sem að framan er rakið verður stefnda Fabrik ehf. gert að greiða stefnendum alls kr. 866.316 í skaðabætur og kr. 100.000 í miskabætur vegna krafna stefnanda í þessum þætti málsins.

 

9.      Kröfur stefnenda á hendur öllum stefndu

vegna sýninga á frumgerðum Jóns Kristinssonar

í Gallerí Fold í nóvember 2013 (liðir 1(k) til 1(m) í stefnu)

Stefnendur gera í máli þessu kröfu til skaðabóta á hendur öllum stefndu í málinu vegna opinberrar sýningar á frumgerðum verka Jóns Kristinssonar í Gallerí Fold 1. – 24. nóvember 2013. Vísa stefnendur þá til þess að stefndu, Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir hafi haft frumkvæði að sýningunni og undirbúið hana ásamt stefnda, Fabrik ehf. sem lánaði sýningarsal undir hana. Þá hafi stefndi Þorsteinn, opnað sýninguna. 

Stefnendur telja að sýning verkanna hafi fali í sér brot á 3. gr. höfundalaga eftir því sem greinir í liðum 1(k) til 1(m) í stefnu. Þá gera stefnendur kröfu um miskabætur á hendur stefndu vegna þess að eitt verka Jóns, „Þegar húsbóndinn fær sér hvíldarstund“ hafi verið ranglega merkt Tryggva Magnússyni. Eru málsástæðum stefnenda að öðru leyti gerð skil í kafla III þar sem málatilbúnaði aðila er lýst.

Stefndu mótmæla því að þeim hafi verið óheimilt að sýna myndverkin sem um ræðir á sýningunni í Gallerí Fold. Vísa stefndu í því sambandi til 1. mgr. 25. gr. höfundalaga en samkvæmt því ákvæði er eiganda myndlistarverks heimilt, nema annað sé áskilið, að sýna það almenningi.

Stefndu vísa enn fremur til þess að sýningin sem um ræðir í máli þessu hafi verið af auglýsingamyndum, m.a. í söluskyni. Slíkar sýningar hafi ekki verið taldar leyfisskyldar af Myndstef og vísa stefndu um það atriði til Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur bréfs lögfræðings Myndstefs fyrir hönd samtakanna, dags. 8. janúar 2015 og vitnisburðar hennar fyrir dóminum. Enn fremur liggi fyrir að Myndstef hafi ekki krafist þess að samþykkis Myndstefs eða viðkomandi listamanna sé aflað fyrir sýningum af þessum toga og jafnframt sé ekkert að finna á vefsíðu Myndstefs eða í gjaldskrá þess sem að þessu lýtur. Telja stefndu því að þeim hafi verið fullkomlega heimilt að standa að ofangreindri sýningu í Gallerí Fold.

Eins og áður er rakið hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu í kafla IV.5 hér að framan að líta verði svo á að Jón Kristinsson hafi afhent Gunnari Bachmann frumgerðir verka sinna til eignar í tengslum við viðskiptasamband þeirra þar sem Jón teiknaði myndir til birtingar í flettiauglýsingagrindinni Rafskinnu. Í samræmi við þá niðurstöðu verður að leggja til grundvallar að stefndu Þorsteinn og Hrefna Bachmann, sem og Margrét Þorsteinsdóttir, hafi sem erfingjar Gunnars farið með eignarhald að frumgerðum verkanna.

Í 1. mgr. 25. gr. höfundalaga er kveðið á um það þeim sem hefur verið afhent eintak af myndlistarverki til eignar sé heimilt, nema annað sé áskilið, að láta eintakið af hendi og sýna það almenningi. Í sama ákvæði segir þó jafnframt að „opinber kynning þess á listsýningum og með öðrum hliðstæðum hætti“ sé þó „óheimil án samþykkis höfundar, nema á opinberum listasöfnum sem almenningur hefur aðgang að.“ Í niðurlagi 1. mgr. 25. gr. segir enn fremur að ákvæði þessarar málsgreinar gildi einnig um eintök sem gerð hafa verið eftir listaverki og gefin út.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að höfundalögum nr. 72/1973 segir svo:

 

„Í 3. gr. er höfundi veittur einkaréttur til að sýna verk sín opinberlega. Er þá spurning um, hvort eða að hverju leyti þessi réttur hans á að sæta takmörkunum vegna afhendingar listaverks í hendur annars aðilja. Í flestum höfundalögum, þar á meðal hinum norrænu, er eiganda listaverks veittur ótakmarkaður réttur til að sýna það opinberlega, m. a. á listsýningum. Í e-lið 1. gr. laga nr. 49 frá 1943 er gagnstæð regla. Höfundur er þar látinn halda óskertum rétti til að sýna listaverk opinberlega, í hvaða skyni sem það er, þó að það sé í einkaeign. Undantekning er aðeins gerð um einkasöfn, sem opin eru almenningi samkvæmt staðfestri reglugerð. Auðsætt er, að þessi regla gildandi laga er of víðtæk. Ekki er ástæða til að meina eiganda að sýna listaverkið hverjum þeim, sem þess óskar, enda væri bann við því yfirleitt ekki höfundum í hag. Af söluheimild eiganda leiðir einnig, að hann verður að hafa rétt til að auglýsa það og kynna í söluskyni. m. a. með því að hafa það til sölu í listmunaverzlunum eða á listmunauppboðum. Um kynningu listaverka á listsýningum koma þó sérstök sjónarmið til greina. Um það hefur eigandi venjulega lítilla eða engra hagsmuna að gæta. Hins vegar skiptir höfund mjög miklu máli, hvernig fer um val verka hans á opinberar listsýningar, innanlands eða utan, þar sem listrænt gildi verka hans er metið og samanburður gerður á þeim og verkum annarra listamanna. Höfundur á ekki að þurfa að hlíta því, að slíkt val sé í höndum óviðkomandi aðilja, e.t.v. lítt vinveittra og með ólíkar listskoðanir. Ákvæði 4. gr. veita honum hér engan veginn næga vernd, þar sem breitt bil er á milli þess, hvort höfundur telur heppilegt að setja tiltekið verk á listsýningu og hvort sýning þess yrði talin honum til vansæmdar.

Samkvæmt því sem að framan segir, er í 1. málsgr. gert að aðalreglu, að eigandi listaverks hafi rétt til að kynna það almenningi, en einkaréttur höfundar látinn haldast um listsýningar. Sá einkaréttur er þó ekki látinn ná til listasafna, sem opin eru almenningi samkvæmt staðfestri reglugerð. Er eiganda þá einnig heimilt að afhenda slíkum söfnum listaverkið. Það skal tekið fram, að þó að höfundur hafi einkarétt til að kynna verk sín á listsýningum, þá leiðir ekki af því, að eiganda sé skylt að láta listaverk af hendi í því skyni, nema svo hafi verið um samið. Sama er að segja um afhendingu þess til að gera eftirmyndir af því.“

 

            Af framangreindu verður ráðið að gengið sé út frá því í 1. mgr. 25. gr. höfundalaga að eigandi myndlistarverks hafi á grundvelli eignarréttar síns fulla heimild til að sýna það almenningi, m.a. auglýsa verkið og kynna í söluskyni með því að hafa það til sölu í listmunaverzlunum eða á listmunauppboðum. Þótt í ákvæðinu sé sérstakur fyrirvari í ákvæðinu við opinbera kynningu verks á listsýningum og með öðrum hliðstæðum hætti vegna sjónarmiða sem tengjast sæmd höfundar, þá verður ekki séð af tilvitnuðum ummælum í lögskýringargögnum að þeim fyrirvara hafi verið ætlað að takmarka heimildir eiganda til að sýna verk í söluskyni. 

            Að mati dómsins er ljóst að Gallerí Fold, sem stefndi Fabrik ehf. annast rekstur á, getur ekki talist opinbert listasafn sem almenningur hefur aðgang að í skilningi 1. mgr. 25. gr. höfundalaga, enda verður ekki annað séð af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum en að þar sé átt við listasöfn sem unnt er að setja reglur í stjórnvaldsfyrirmælum, sbr. ummæli í tilvitnuðum athugasemdum um að einkaréttur höfundar um listsýningar nái ekki til „listasafna, sem opin eru almenningi samkvæmt staðfestri reglugerð“.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort stefndu hafi á grundvelli 1. mgr. 25. gr. höfundalaga verið heimilt að sýna myndlistarverkin sem ágreiningur málsins stendur um telur dómurinn að horfa verði til þess málatilbúnaður stefnenda byggir á því að stefndu hafi alfarið verið alfarið óheimilt að sýna verkin og að stefnendum beri því sem höfundarrétthöfum endurgjald fyrir sýningu hvers og eins verks. Ekki verður hins vegar séð að stefnendur hafi í þessum lið málatilbúnaðar síns byggt á því að sæmdarréttur Jóns Kristinssonar hafi verið skertur vegna þess hvernig sýningin á verkum hans var sett upp eða samsett.

Við úrlausn þessa þáttar málsins verður að mati dómsins að horfa til þess að flest verkin, þ.e. frumeintökin, sem til sýnis voru á sýningunni voru í eigu stefndu, sbr. þá niðurstöðu dómsins sem rakin er í kafla IV.5 hér að framan. Þá er enn fremur ágreiningslaust í málinu að verkin sem um ræðir voru boðin til sölu á sýningunni, ef frá eru talin verk sem tilgreind eru í stefnu og auðkennd sem „Egils við öll tækifæri, það var ánægjulegt kvöld“, „Mennt er máttur“, „Blindur er bóklaus maður“, „Hún gaf honum Opal“, „Einn pakki á dag kemur öllu í lag“, „Athyglin beinist að yndisþokkanum“ og „Við leik og störf er vinnufata brýnust þörf“.

Í ljósi niðurstöðu dómsins um eignarrétt stefndu Þorsteins, Hrefnu og Margrétar að frumgerðum verkanna er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi haft fulla heimild samkvæmt 1. mgr. 25. gr. höfundalaga til sýna þau verk sem tilgreind eru í lið 1(k) í stefnu á vegg og þau verk sem tilgreind eru í lið 1(l) í sölurekka, enda hafi þau verið boðin til sölu á sýningunni eða samhliða henni. Að því er varðar þau sjö verk sem stefnendur hafa tilgreint í lið 1(k) sem verk sem ekki hafi verið boðin til sölu þá hafa stefndu ekki mótmælt fullyrðingum stefnanda að þessu leyti. Verða fullyrðingar stefnenda því lagðar til grundvallar um þetta atriði.

Af því leiðir að stefndu sýndu alls sjö myndir opinberlega á vegg sem ekki voru boðnar til sölu, eins og byggt er á í lið 1(m) í kröfum stefnenda. Telja verður að stefndu hafi með þessu brotið gegn einkaréttinum til opinberrar sýningar á þessum tilteknu verkum, sbr. þágildandi 3. gr. höfundalaga og þann sérstaka fyrirvara sem gerður er um slíkar sýningar í 1. mgr. 25. gr. sömu laga.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem áður eru rakin í dóminum um ákvörðun skaðabóta er fallist á með stefnendum að gjaldskrá Myndstefs verði lögð til grundvallar að því leyti, um 5.132 krónur fyrir hvert verk fyrir hvern byrjaðan mánuð. Þar sem um sjö verk er að ræða nemur fjárhæð þeirra skaðabóta sem stefndu Familíunni ehf., Þorsteini, Hrefnu og Margréti, svo og Fabrik ehf. verður gert að greiða sameiginlega fyrir þennan lið alls 35.924 krónum. Að virtum þeim sjónarmiðum sem fyrr eru rakin um ákvæði 4. gr. og ákvörðun miskabóta vegna rangrar tilgreiningar höfundar er enn fremur fallist á kröfu stefnenda um að stefndu greiði þeim 20.000 í miskabætur sökum þess að ein mynda Jóns Kristinssonar var ranglega merkt Tryggva Magnússyni.

Að því er varðar kröfu stefnenda í lið 1(m) um að stefndu greiði þeim skaðabætur vegna sýningar sjö frumverka Jóns Kristinssonar í sýningarkassa þá verður hvorki ráðið af stefnu né öðrum gögnum málsins hvort umrædd verk hafi verið til sölu á sýningunni eða samhliða henni. Í greinargerð stefndu kemur fram að þau reki ekki minni til þess hvort myndirnar hafi verið til sölu á sýningunni. Engin þeirra hafi selst á sýningunni en ein þeirra hafi síðan selst eftir sýninguna.

 Í ljósi þess að gögn málsins benda eindregið til þess að stærstur hluti þeirra frumverka sem voru í eigu stefnenda hafi einnig verið til sölu á sýningunni í Gallerí Fold ekkert verður ráðið af gögnum málsins um hvort myndirnar í sýningarrekkanum hafi verið undanskildar sölu verður að álykta sem svo að sýning myndanna hafi fallið undir heimild 1. mgr. 25. gr. Er þá jafnframt horft til þess að staðhæfingu stefndu um að ein myndanna hafi selst eftir lok sýningarinnar hefur ekki verið mótmælt en að mati dómsins verður sú ályktun dregin af þessu atriði að myndirnar hafi verið falar til kaups. Verða stefndu því sýknuð af kröfum stefnenda í þessum lið málsins.

 

10.  Kröfur stefnenda vegna sýninga myndverka Jóns Kristinssonar í Gallerí Fold í nóvember 2013 (liðir 1(n) til 1(m) í stefnu).

n)         Sýning myndverka á skjá á sýningu

Stefnendur hafa undir þessum lið málsins krafið alla stefndu um greiðslu skaðabóta vegna glærusýningar myndverka á skjá á sýningunni í Gallerí Fold. Telja stefnendur að í glærusýningunni hafi a.m.k. birst 50 myndir eftir Jón Kristinsson.

Af hálfu stefndu Þorsteins, Hrefnu, Margrétar og Familíunnar ehf. er byggt á því að Jóhann Ágúst Hansen, fyrirsvarsmaður Fabrik ehf., hafi sett saman sýninguna og að hann hafi ekki vistað eintak af sýningunni. Þá telja kveða stefndu ósannað hversu margar myndir voru sýndar á glærunum, en auk þess hafi sýningin verið heimil samkvæmt 1. mgr. 25. gr. höfundalaga.

Stefndi Fabrik ehf. mótmælti atvikalýsingu stefnenda í greinargerð sinni. Í framburði Jóhanns Ágústs Hansen fyrir dómi kvaðst hann hins vegar, „ef hann [myndi] rétt“ hafa fengið glærusýninguna senda frá Hrefnu Bachmann en henni hefði verið eytt að tilmælum stefnenda. Stefndu hafa enn fremur borið því við að þau hafi haft fulla heimild til að sýna myndirnar samkvæmt 1. mgr. 25. gr. höfundalaga.

Ljóst er að dómurinn hefur ekki undir höndum nein gögn um hvaða myndir voru sýndar á skjá í umræddri glærusýningu. Dómurinn hefur þar með ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort þarna hafi einungis verið sýndar myndir sem stefndu höfðu til sölu og var heimild að sýna samkvæmt 1. mgr. 25. gr. höfundalaga, eða hvort þar hafi einnig verið sýndar myndir sem ekki voru falar til kaups og stefndu var því ekki heimilt að sýna samkvæmt sama ákvæði. Í ljósi þessa og að ekki verður heldur ráðið af gögnum málsins hver hafi gert þessa sýningu telur dómurinn óhjákvæmilegt að sýkna stefndu af þessum lið í kröfu stefndu. Hefur dómurinn þá einnig horft til þess að ekki verður leitt af lögum að stefndu hafi borið skyldu til varðveislu sýningarinnar, að því marki sem þar voru myndir sem þeim var heimilt að sýna á grundvelli 1. mgr. 25. gr. höfundalaga.

 

o)         Framleiðsla auglýsingaspjalds sem stillt var út í glugga Gallerís Foldar

Stefnendur gera í þessum lið kröfu um að stefndu Þorsteinn, Hrefna, Margrét og Familían ehf. greiði þeim 315.900 króna í skaðabætur vegna notkunar alls níu myndverka að kr. 35.100 fyrir notkun hvers myndverks stærri en 80 x 120 cm samkvæmt gjaldskrá Myndstefs. Þá gera stefnendur kröfu um greiðslu 450.000 króna í miskabætur vegna þess að Jón Kristinsson hafi ekki verið tilgreindur á auglýsingaspjaldinu.

            Stefndu hafa ekki mótmælt því að þær myndir sem stefnendur tilgreina í stefnu hafi verið á auglýsingaspjaldinu, sem nú hefur verið fargað. Stefndu vísa að öðru leyti til fyrri málsástæðna til stuðnings kröfum sínum um sýknu.

            Með vísan til þeirra forsendna sem gerð er grein fyrir í kafla IV.8 í tengslum við niðurstöður dómsins um bótaskyldu stefnda Fabrik ehf. um birtingu auglýsinga, sbr. liði 1(b) til 1(j) í stefnu, er fallist á kröfur stefnenda um að stefndu Þorsteini, Hrefnu, Margréti og Familíunni ehf. verði sameiginlega gert að greiða þeim 315.900 krónur í skaðabætur í samræmi við gjaldskrá Myndstefs. Með vísan til sömu sjónarmiða og þar eru greind um miskabætur er miskabótakröfu stefnenda í þessum lið hins vegar hafnað.

Að því er varðar lið 1(p) í stefnu sem lýtur að sýningu auglýsingaskiltis fyrir utan inngang Gallerís Foldar hafa stefnendur ekki gert sérstaka dómkröfu og verður því ekki fjallað um þann lið frekar.

 

11.  Kröfur stefnenda á hendur Fabrik ehf. og stefndu Þorsteini, Hrefnu, Margréti og Familíunni ehf. vegna birtingar myndverka Jóns Kristinssonar á tilteknum heimasíðum (liðir 1(q) til 1(s) í stefnu)

 

q)         Birting stefnda, Fabrik ehf., á 32 myndverkum á heimasíðu Gallerís Foldar, www.myndlist.is

Stefnendur gera í þessum lið kröfu um greiðslu kr. 136.521 í skaðabætur vegna birtingar á á 31 – 40 verkum í sex og hálfan mánuð. Er þá miðað við skaðabætur að fjárhæð kr. 19.503 fyrir hvern mánuð á hvorri vefsíðu en samkvæmt gjaldskránni beri að greiða fyrir hvern byrjaðan mánuð, þ.e. sjö mánuði. Þá gera stefnendur enn fremur kröfu um greiðslu miskabóta að fjárhæð 70.000 kr. vegna þess að eitt verka Jóns hafi ranglega verið eignað Tryggva Magnússyni. 

            Með vísan til þeirra forsendna sem gerð er grein fyrir í kafla IV.8 í tengslum um bótaskyldu stefnda Fabrik ehf. um birtingu auglýsinga, sbr. liði 1(b) til 1(j) í stefnu, er fallist á kröfur stefnenda um að stefnda Fabrik ehf. verði gert að greiða þeim 136.521 krónu í skaðabætur í samræmi við gjaldskrá Myndstefs.

Að virtum þeim sjónarmiðum sem fyrr eru rakin um ákvæði 4. gr. og ákvörðun miskabóta vegna rangrar tilgreiningar höfundar, sbr. umfjöllun dómsins um lið 1(d) í stefnu í kafla IV.8 hér að framan er enn fremur fallist á kröfu stefnenda um að stefndi greiði þeim miskabætur sökum þess að ein mynda Jóns Kristinssonar var ranglega merkt Tryggva Magnússyni. Þykja þær hæfilega ákvarðaðar 100.000 krónur.

 

Kröfur stefnenda á hendur Þorsteini Bachmann, Hrefnu Bachmann, Margréti Þorsteinsdóttur og Familíunni ehf.

 

r)          Birting 9 myndverka á heimasíðu stefnda Familíunnar ehf., www.rafskinna.net

Stefnendur gera einnig kröfu um að stefndu greiði þeim kr. 224.710 í skaðabætur vegna birtingar Familíunnar ehf. á níu tilgreindum verkum heimasíðu sinni www.rafskinna.net, sem þar hafi verið boðnar til sölu í formi eftirprentana, og birtingu ljósmyndar af póstkortaöskju með límmiðum á loki og botni, sem lýst er í stefnu. Telja stefnendur að birting ljósmyndar af póstkortaöskju þar sem límmiðarnir sjást feli einnig í sér brot á einkarétti höfundar til birtingar myndverkanna.

            Stefndu hafa til stuðnings sýknukröfu sinni um þennan lið vísað til 4. mgr. 25. gr. um að heimilt sé að birta myndir af listaverki í tilkynningu um sölutilboð þegar það er boðið til sölu.

Myndverkin sem um ræðir í þessum lið eru hins vegar eftirprentanir af verkum Jóns Kristinssonar. Telja verður ljóst að gerð eintaka í formi eftirprentana er bundin einkarétti handhafa höfundaréttar, sbr. þágildandi 3. gr. höfundalaga. Í ljósi niðurstöðu dómsins hér að framan um að Jón Kristinsson hafi verið höfundur umræddra verka og hann hafi ekki framselt nýtingarrétt sinn að verkunum umfram það sem sýning þeirra í Rafskinnu gerði ráð fyrir, verður ekki séð hvaða heimildir stefndu hafi haft til þess að gera eftirprentanir af verkunum. Að mati dómsins verður ekki talið að undantekningarákvæði 4. mgr. 25. gr. höfundalaga nái til annarra verka en þeirra sem gerð hafa verið með lögmætum hætti á grundvelli höfundaréttar. Verður af þeim sökum að hafna málsástæðum stefndu til stuðnings sýknukröfu sem byggjast á þessu ákvæði.

            Með vísan þeirra forsendna og sjónarmiða sem áður eru rakin í kafla IV.8 í tengslum um bótaskyldu stefnda Fabrik ehf. um birtingu auglýsinga, sbr. liði 1(b) til 1(j) í stefnu, er að öðru leyti fallist á kröfur stefnenda um að stefndu Þorsteini, Hrefnu, Margréti og Familíunni ehf. verði gert að greiða þeim 224.710 krónur í skaðabætur í samræmi við gjaldskrá Myndstefs. Af sömu ástæðum og þar eru raktar er hins vegar hafnað kröfu stefnanda um miskabætur vegna skorts á því að höfundur hafi verið tilgreindur.

 

s)         Birting kynningarmerkis á heimasíðu stefnda Familíunnar ehf., www.rafskinna.net

Stefnendur gera einnig kröfu um skaðabætur að fjárhæð 183.225 á hendur Familíunni ehf. vegna borða sem hafi verið notaður á heimasíðu félagsins www.rafskinna.net vegna brota á einkarétti stefnenda samkvæmt þágildandi ákvæði 3. gr. höfundalaga. Vísa stefnendur þá til þess að kynningarmerkin „Ekkert hér eins og stendur“ og „Hafa samband“ standi enn á síðunni en kynningarmerkin séu sett saman úr bókstöfum og letri sem Jón hafi hannað. 

Eins og rakið er í kafla IV.2 hér að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að letrið sem um ræðir sé sjálfstætt höfundarverk og falli því undir vernd höfundalaga. Með vísan til þeirrar niðurstöðu verður að telja að stefndu hafi með notkun bókstafana og letursins brotið gegn einkarétti stefnenda samkvæmt 3. gr. höfundalaga. Þá verður ekki séð að þær málsástæður sem stefndu hafa fært fram til stuðnings þeim málatilbúnaði sínum að þeim hafi verið heimilt að nota umrædd verk eigi við um þetta letur og notkun þess á heimasíðunni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þeirra sjónarmiða sem rakin eru í köflum IV.6 og IV.7 er fallist á málsástæður stefnenda að öðru leyti en varðar fjárhæð skaðabóta. Í því sambandi telur dómurinn að líta verði til þess að þótt það letur sem um ræðir í málinu sé vissulega verk sem njóti höfundaréttar þá verður notkun þess ekki að öllu leyti jafnað til notkunar annarra myndverka sem dómurinn hefur tekið afstöðu til við ákvörðun bóta. Að mati dómsins er því ekki unnt að líta svo á að þeir liðir í gjaldskrá Myndstefs sem stefnendur hafa byggt kröfur sínar á eigi alls kostar við þegar bætur fyrir brot stefndu á einkarétti stefnenda í þessum lið málsins eru ákveðnar. Verður því að ákveða bætur til handa stefnendum að álitum og telur dómurinn að þær séu hæfilega ákveðnar 50.000 kr.

 

12.  Kröfur stefnenda á stefndu Þorsteini, Hrefnu, Margréti

og Familíunni ehf. vegna útgáfu á veggspjöldum, póstkortum

og límmiðum til sölu og birtingar auglýsinga á biðstöðvum Strætó

 

Stefnendur gera enn fremur kröfur sérstaklega á hendur stefndu Þorstein, Hrefnu og Margréti, svo og félaginu Familíunni ehf. um greiðslu skaðabóta vegna útgáfu á veggspjöldum, póstkortum, límmiðum til sölu með verkum Jóns Kristinssonar. Þá er einnig gerð skaðabótakrafa vegna birtingar auglýsinga á biðstöðvum Strætó sem hafi haft að geyma verk Jóns Kristinssonar. 

 

2( a)     Útgáfa veggspjalda

Stefnendur gera í þessum lið kröfu um skaðabætur vegna framleiðslu alls 12 veggspjalda með eftirprentunum af verkum Jóns Kristinssonar sem tilgreind eru í stefnu.

Kröfur stefnenda eru byggðar á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir framleiðslu veggspjalda í stærðinni 29,7 x 42 cm, kr. 61.578 vegna upplags 11 – 500. Nemur krafa vegna 12 myndverka kr. 1.477.872 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð. Rökstyðja stefnendur kröfu sína með þeim hætti að fjárhæð sú sem gert er ráð fyrir í gjaldskrá Myndstefs hafi verið tvöfölduð þar sem stefndu hafi ekki fallist á að taka veggspjöldin úr sölu fyrr en 200 dögum frá því að þau voru sett á markað, þrátt fyrir eftirgangsmuni stefnenda. Einnig gera stefnendur kröfu um greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.800.000 króna vegna skorts á tilgreiningu höfundar.

Efnislegar varnir stefndu í þessum lið hafa byggst á þeim málsástæðum að þeim hafi verið fullkomlega heimilt að framleiða þau veggspjöld sem hér um ræðir. Þar sem eftirprentanir hafi verið gerðar nákvæmlega eftir frumverkunum, þannig að þær voru með sama hætti og Jón Kristinsson merkti þær, telja stefndu einnig fráleitt að nafnbirtingarréttur Jóns hafi ekki verið virtur.

Með vísan til niðurstöðu dómsins sem rakin er hér að framan um að Jón Kristinsson hafi verið höfundur að þeim verkum sem ágreiningur málsins tekur til og að ekki þyki sýnt að hann hafi framselt nýtingarrétt að myndverkunum umfram það sem laut að sýningu þeirra í Rafskinnu, sbr. kafla IV.2 og IV.4 hér að framan, er fallist á málsástæður stefnenda um að útgáfa veggspjaldanna hafi falið í sér brot á einkarétti höfundar til eintakagerðar, sbr. 3. gr. þágildandi höfundalaga. Að virtu því sem áður er komið fram í kafla IV.6 og IV.7 er enn fremur fallist á að gjaldskrá Myndstefs feli í sér eðlilegt viðmið fyrir ákvörðun skaðabóta.

Með vísan til þess sem rakið er í kafla IV.6 um skilyrði fyrir beitingu álags á skaðabætur verður hins vegar að hafna kröfu stefnenda um að sú fjárhæð sem gert er ráð fyrir í gjaldskrá Myndstefs verði tvöfölduð. Verður þá að vísa til þess að í lögskýringargögnum með ákvæðum höfundalaga um skaðabætur er gert ráð fyrir því að álagi á skaðabætur verði beitt vegna frekara tjóns brotaþola eða hagnaðar brotaþola. Að mati dómsins hafa stefnendur ekki sýnt fram á það í þessu máli með hvaða hætti þeir hafa beðið frekara tjón eða stefndu hafi haft frekari hagnað vegna þeirra brota sem hér hefur verið fallist á að framin voru.

Í samræmi við framangreint er það niðurstaða dómsins að stefndu Þorsteini, Hrefnu og Margréti, sem og Familíunni ehf. verði sameiginlega gert að greiða stefnendum alls 738.936 kr. í skaðabætur. Í ljósi þeirra sjónarmiða um miskabætur sem rakin eru í kafla IV.8 er kröfu stefnenda um miskabætur vegna skorts á tilgreiningu höfundar hafnað.

 

b)         Útgáfa póstkorta og límmiða til sölu í öskjum

Stefnendur gera í þessum lið kröfu um skaðabætur vegna framleiðslu alls 12 póstkorta með eftirprentunum af myndverkum Jóns Kristinssonar sem tilgreind eru í stefnu. Byggja stefnendur á því að alls hafi verið framleidd 400 kort. Þá vísa stefnendur til þess að stefnendur hafi framið brot á einkarétti höfundar til eintakagerðar með því að nota 19 brot af myndverkum Jóns í framleiðslu límmiða til álímingar á framhlið öskju, sbr. lið 2(b)(i) í stefnu, 15 brot af myndverkum, Jóns til framleiðslu límmiða til álímingar á bakhlið öskju, sbr. lið 2(b)(ii) í stefnu. Þá telja stefnendur að stefndu hafi framið sams konar brot með framleiðslu annarra límmiða til álímingar á framhlið og bakhlið öskju, en 19 myndverksbrot hafi verið notuð í límmiðanna sem ætlaðir voru til nota á framhliðina en 14 myndverksbrot til nota á bakhliðina, sbr. liði 2(b)(iii-iv) í stefnu.

            Stefnendur telja að með framleiðslu og dreifingu póstkortanna, sem og límmiðanna hafi verið brotið gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, svo og nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna, og rétti til að banna breytingar á verki samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í stefnu er byggt á því að þessi brot hafi tekið til alls 11 myndverka vegna póstkortanna. Krafa stefnenda um skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón í þessum lið er byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir notkun á póstkorti í stærð upp að 12 x 15 cm í 1 – 500 eintökum eða kr. 9.871 vegna hvers verks, samtals kr. 217.162 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð með vísan til tregðu stefndu til að taka póstkortin úr sölu. Krafa um miskabætur vegna miska er stefnendur hafa orðið fyrir, einkum vegna brota á sæmdarrétti, nemur kr. 440.000.

Í ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin eru í a-lið þessa kafla er fallist á rétt stefnenda til skaðabóta vegna útgáfu póstkortanna en hafnað málsástæðum þeirra um tvöföldun fjárhæðarinnar. Þykir fjárhæð skaðabóta vegna þessa þáttar málsins því hæfilega ákveðin 108.581 kr.

Með vísan til þeirra sjónarmiða um miskabætur sem gerð er grein fyrir hér að framan er kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta vegna skorts á tilgreiningu höfundar hafnað. Hins vegar er fallist á kröfu stefnenda um greiðslu miskabóta vegna breytinga á myndverkum Jóns Kristinssonar og þykir fjárhæð þeirra hæfilega ákveðin 100.000 kr.

Bótakrafa stefnenda vegna framleiðslu límmiða sem tilgreindir er undir lið 2(i)(b) byggist á því að framin hafi verið 19 brot gegn níu myndverkum Jóns. Vísa stefnendur til þess að stefndu hafi alls notað 19 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og tíu í meginhluta. Krafa um bætur fyrir fjárhagslegt tjón í þessum lið byggð á gjaldskrá Myndstefs, lið fyrir notkun á póstkorti í stærð upp að 12 x 15 cm í 1 – 500 eintökum eða kr. 9.871 vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 375.098 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. rökstuðning að framan. Þá er gerð krafa um bætur vegna miska er stefnendur hafi orðið fyrir, einkum vegna brota á nafngreiningarrétti og rétti til að banna breytingar á verki, nemur kr. 750.000.

Dómurinn fellst á þennan lið í kröfum stefnenda. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem fyrr eru rakin um fjárhæð skaðabótakröfu er það niðurstaða dómsins að hæfileg fjárhæð skaðabóta vegna liðar 2(b)(i) sé 187.549 kr. Sem fyrr og með vísan til þeirra sjónamiða sem áður eru komin fram hafnar dómurinn kröfu stefnenda um að stefndu greiði miskabætur vegna skorts á nafngreiningu. Dómurinn fellst hins vegar kröfu stefnenda um að stefndu greiði miskabætur vegna breytinga á myndverkum Jóns Kristinssonar. Telur dómurinn að fjárhæð miskabóta vegna breytinga á verkum sé hæfilega ákveðin 100.000 kr.

Vegna framleiðslu framleiðslu límmiða undir lið 2(b)(ii) telja stefnendur að framin hafi verið 15 brot gegn níu myndverkum Jóns (notuð 15 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og sex í meginhluta). Skaðabótakrafa stefnenda byggir á sama lið gjaldskrár og rakið er að framan og nemur kr. 9.871 vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 296.130 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð, sbr. fyrri rökstuðning. Hvað þennan lið varðar fellst dómurinn á sjónarmið stefnenda um að stefndu greiði skaðabætur. Dómurinn hafnar hins vegar sem fyrr sjónarmiðum stefnenda um tvöföldun fjárhæðarinnar og telur að fjárhæð skaðabóta sé hæfilega ákveðin 148.065 krónur.

Stefnendur telja enn fremur að með framleiðsla límmiða undir lið 2(b)(iii) hafi verið framin 19 brot gegn níu myndverkum Jóns (notuð 19 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og tíu í meginhluta). Nemur krafa stefnenda um bætur vegna fjártjóns 9.871 kr. vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 375.098 eftir að sú fjárhæð er gjaldskrá gerir ráð fyrir hefur verið tvöfölduð. Þá gera stefnendur jafnframt kröfu um miskabætur í þessum lið, einkum vegna brota á nafngreiningarrétti og rétti til að banna breytingar á verki og nemur sú krafa kr. 750.000.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem fyrr eru rakin um fjárhæð skaðabótakröfu telur dómurinn að hæfileg fjárhæð skaðabóta vegna þessa liðar sé 187.549 kr. Sem fyrr hafnar dómurinn kröfu stefnenda um að stefndu greiði miskabætur vegna brota á nafngreiningarrétti en fellst á kröfu þeirra um greiðslu miskabóta vegna breytinga á myndverkum Jóns Kristinssonar. Telur dómurinn að fjárhæð bóta vegna miska af þessum sökum sé hæfilega ákveðin 100.000 kr.

Þá telja stefnendur að með framleiðslu þeirra límmiða sem lýst er undir lið 2(b)(iv) hafi verið framin 14 brot gegn níu myndverkum Jóns (notuð 14 myndverksbrot, níu í fyrirsögn og fimm í meginhluta). eða kr. 9.871 vegna hvers myndverksbrots, samtals kr. 276.388, en af heildarfjárhæðinni verður ráðið að þarna sé jafnframt gerð krafa um tvöfalda fjárhæð miðað við gjaldskrá Myndstefs. Með vísan til þess sem fyrr er rakið er fellst dómurinn á málsástæður stefnenda vegna þessa liðar ef frá eru talin sjónarmið stefndu um tvöföldun bótafjárhæðar. Telur dómurinn að fjárhæð skaðabóta vegna þessa þáttar sé hæfilega ákveðin 138.194 kr.

 

Birting auglýsinga á biðstöðvum Strætó

Stefnendur telja einnig að stefndu hafi brotið gegn 3. gr. höfundalaga með því að nota samtals a.m.k. 17 verka Jóns Kristinssonar í auglýsingaspjöld á biðstöðvum Strætó. Af hálfu stefnenda er byggt á því auglýsingaspjöldin sem birt voru á biðstöðvum Strætó hafi falið í sér breytta gerð verka Jóns. Vísa stefnendur þá til þess að myndverkum Jóns hafi verið breytt við gerð auglýsingaspjaldanna með því móti að merkjum prentaðilanna var skeytt inn á neðra horn myndverksins hægra megin auk þess sem merki Ferró skiltagerðar er að finna á miðju eins verksins, „Athygli hinna vandlátu beinast að Heklu peysum“. Telja stefnendur að með því að gefa fyrirmæli um slíka útfærslu hafi stefndu framið brot gegn sæmdarrétti Jóns sem lögmæltur er í 2. mgr. 4. gr. höfundalaga, auk þess sem framið hafi verið brot á nafngreiningarrétti höfundar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna með því að geta í engu nafns Jóns á skiltunum.

Skaðabótakröfur stefnenda fyrir fjárhagslegt tjón vegna prentunar og birtingar auglýsingaspjaldanna á biðstöðvum Strætó eru byggðar á gjaldskrá Myndstefs, taxta fyrir prentun á spjöldum í strætisvagnaskýlum miðað við upplag 1 – 10 af hverri gerð spjalds sem hvert um sig var stærra en 80 x 120 cm en krafa fyrir hvert verk samkvæmt gjaldskránni nemur þannig kr. 35.100. Gera stefnendur kröfu um tvöfalda þá fjárhæð sem gjaldskrá Myndstefs gerir ráð fyrir í þeim tilvikum sem greitt er fyrir leyfi til notkunar, og vísa þá til þess að auglýsingaspjöldin hafi verið gríðarstór og verið stillt út á stöðum þar sem fjöldi fólks á leið um, akandi, hjólandi og gangandi Nemur heildafjárhæð skaðabótakröfunnar í þessum lið því kr. 1.193.400.

Stefnendur telja enn fremur að prentun og birting eintaka af myndverkum Jóns án tilgreiningar hans sem höfundar verkanna og með þeirri breytingu á verkunum sem fyrr er getið hafi valdið stefnendum miskatjóni. Telja stefnendur að hæfileg fjárhæð miskabóta vegna þessa sé kr. 2.400.000.

Dómurinn fellst á sjónarmið stefnenda um að stefndu hafi með framangreindri háttsemi brotið gegn ákvæðum 3., sem og 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga. Dómurinn hafnar hins vegar málsástæðum stefnenda um tvöföldun fjárhæðarinnar með vísan til þeirra sjónarmiða sem fyrr eru rakin og telur að fjárhæð skaðabóta sé hæfilega ákveðin 596.700 kr. Þá hafnar dómurinn sem fyrr málsástæðum stefnenda um greiðslu miskabóta vegna brota á nafngreiningarrétti á grundvelli þeirra sjónarmiða sem áður er lýst. Dómurinn telur hins vegar að stefnendum beri réttur til miskabóta vegna breytinga á myndverkum Jóns Kristinssonar. Telur dómurinn að fjárhæð þeirra sé hæfilega ákveðin 200.000 krónur. Hefur dómurinn horft til þess hversu víða myndverkin voru sýnd í þessari breyttu mynd. 

            Þegar tekin hefur verið afstaða til allra krafna stefnenda um skaða- og miskabætur á hendur stefndu Þorsteini, Hrefnu, Margréti og Familíunni ehf. er það niðurstaða dómsins að þeim skuli sameiginlega gert að greiða stefnendum alls 3.208.168 krónur í skaðabætur vegna fjártjóns. Þá verður sömu stefndu sameiginlega gert að greiða stefnendum alls 500.000 í bætur vegna miska.

 

13.  Málsástæður stefnenda um brot gegn lögum nr. 57/2005,

um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og markaðssetningu

Málatilbúnaður stefnenda á hendur stefndu hefur ekki einskorðast við ákvæði höfundalaga nr. 72/1973 heldur hafa stefnendur einnig vísað til ákvæða laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og markaðssetningu. Hafa stefnendur þá byggt á því að með því að auglýsa sýningu á verkum Jóns Kristinssonar án tilskilinnar heimildar, kynna hana ítrekað á heimasíðu og Facebook síðu Gallerís Foldar og í helstu fjölmiðlum landsins, auk þess að birta auglýsingar á biðstöðvum Strætó, hafi stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir, nýtt sér verkin með þeim að það varði við auglýsingar í 6. gr. laga nr. 57/2005, auk ákvæða um óréttmæta viðskiptahætti í 8., 13, 14. og 15. gr. a. laganna.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/2005 skulu auglýsingar vera þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla. Þá segir í 2. mgr. 6. gr. að auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir skuli ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála. Í 4. mgr. 6. gr. segir síðan að fullyrðingar sem fram koma í auglýsingum eða með öðrum hætti þarf fyrirtæki að geta fært sönnur á.

Í 1. mgr. 8. gr., sem stefnendur hafa einnig vísað til í málatilbúnaði sínum, segir að viðskiptahættir séu óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og raska verulega eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Þá segir í ákvæðinu að viðskiptahættir sem brjóta í bága við ákvæði þessa kafla laganna séu alltaf óréttmætir. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. kveður ráðherra í reglugerð á um þá viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 57/2005 segir síðan að óheimilt sé að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda. Þá segir í 14. gr. sömu laga að óheimilt sé að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti, eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar gagnvart keppinautum, enda séu upplýsingar þær og viðskiptaaðferðir til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi sem lögin ná til.

Í 15. gr. a í lögunum er enn fremur kveðið á um að óheimilt sé að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur ekki rétt til er notar, eða reka atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti. Svo sem nánar er rakið í dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 538/2012 er markmið þessarar lagagreinar ekki aðeins að veita fyrirtækjum vernd í innbyrðis samkeppni þeirra, heldur ekki síður að koma í veg fyrir að villt verði um fyrir neytendum sem aftur gæti dregið úr virkri samkeppni í viðskiptum, sbr. 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Að mati dómsins er tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 57/2005 ætlað að veita auðkennum, sem notuð kunna að vera atvinnurekstri til framdráttar, kynningar eða markaðssetningar, vernd til viðbótar við þá vernd sem lög um vörumerki veita. Þar sem dómurinn fær ekki séð að stefnendur hafi gert grein fyrir því með hvaða hætti stefndu hafa skert hagsmuni þeirra sem njóti verndar samkvæmt lögum nr. 57/2005 brestur skilyrði fyrir því að dómurinn geti fjallað efnislega um þessar málsástæður þeirra vegna vanreifunar.

 

14.  Krafa stefnanda um að stefndi Familían ehf. fjarlægi efni af vefsíðum

Stefnendur í máli þessu hafa gert kröfu um að tiltekið stefndi Familían ehf. fjarlægi tiltekið efni af vefsíðum sínum. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram í málinu að allt efni, þar með talið kynningarmerkið „Rafskinna“ hafið verið fjarlægt af vefsíðu stefndu. Þar sem stefnendur hafa ekki mótmælt þessari fullyrðingu er stefndi Familían ehf. sýknaður af þessari kröfu.

 

15.  Krafa stefnanda um að stefndu Familíunni ehf., Þorsteini,

Hrefnu, Margréti og Fabrik ehf., verði gert að afhenda stefnendum öll eintök af eftirprentunum til eyðingar og fá birtan dóm málsins í heild

Stefnendur hafa einnig krafist þess að stefnda Familían ehf., Þorsteinn, Hrefna og Margrét verði dæmd á grundvelli 55. gr. höfundalaga til að þola að „öll eintök í birgðum af eftirprentunum af verkum Jóns Kristinssonar í formi boðskorts, póstkorta, límmiða, veggspjalda og auglýsingaspjalds verði afhent stefnendum til eyðingar.“

Í greinargerð stefndu kemur fram að þau hafi eytt boðskortum og ónýttum límmiðum sem límdir voru á póstkortaöskjur. Þá hafi auglýsingaspjaldi sem vísað er til lið 1(o) í stefnu verið fargað eftir sýninguna. Ekki verður séð að stefnendur hafi mótmælt þessum fullyrðingum. Af hálfu stefndu er hins vegar ekki komið fram að þau hafi eytt póstkortum og veggspjöldum sem vikið er að í kröfu stefnenda.

Að mati dómsins er dómkrafa stefnenda ekki svo skýr og ákveðin um hvaða eintök stefndu er gert að afhenda stefnendum þannig að hún geti leitt til afgerandi dómsniðurstöðu um það atriði, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þegar litið er til málatilbúnaðar stefnenda að öðru leyti sem og fjölda þeirra verka sem málið lýtur að telur dómurinn að stefnendum hafi verið rétt að tilgreina skýrar í kröfum sínum hvaða eftirprentana var krafist afhendingar, enda kunna brestir á kröfugerð stefnda að þessu leyti að hafa áhrif á það hvernig stefndu hafa hagað vörnum sínum. Í ljósi þessa verður þessari kröfu stefnenda vísað frá dómi.

Stefnendur hafa einnig krafist þess að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, og Margrét Þorsteinsdóttir verði dæmd til að fá birtan dóm í máli þessu í heild í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. c höfundalaga nr. 73/1972 má í dómi þar sem kveðið er á um brot á lögum þessum eða ráðstafanir skv. 55. gr. að beiðni brotaþola mæla fyrir um birtingu dómsins að hluta eða í heild. Í ákvæðinu segir jafnframt að birtingin skuli fara fram með þeim hætti og í þeim mæli sem sanngjarnt má teljast. Þá segir í 2. mgr. 59. gr. c að hinn brotlegi skuli annast og kosta birtinguna.

Ákvæði 59. gr. c var leitt í lög með 13. gr. laga nr. 93/2010, um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 93/2010 kemur fram að ákvæði 1. mgr. taki mið af 15 gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB, þar sem sé að finna heimild til að mæla fyrir um birtingu ákvarðana á því réttarsviði. Í athugasemdunum kemur fram að birting ákvarðana sé talin hafa forvarnagildi gagnvart öðrum hugsanlegum brotamönnum og gegnir hlutverki í vitundarvakningu almennings um virðingu fyrir hugverkaréttindum. Lagt er til að ákvæðið nái jafnt til áfellisdóma í einkamálum sem sakamálum, svo og til dóma þar sem kveðið er á um ráðstafanir samkvæmt 55. gr. höfundalaga. 

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin verður að fallast á að tilefni sé til að beita ákvæði 59. gr. c til að mæla fyrir um birtingu hluta af niðurstöðu dómsins í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Verður þá að hafa í huga að stefndu stóðu fyrir kynningu á sýningunni í fjölmiðlum og víðar þar sem mjög á skorti að höfundarréttur stefnenda væri virtur. Þegar horft er til umfangs þessa dóms verður hins vegar ekki talið sanngjarnt að stefndu sé gert að birta dóminn í heild á sinn kostnað, enda væri slík niðurstaða verulega íþyngjandi í garð stefndu með tilliti til málsúrslita að öðru leyti. Þykir dóminum hæfilegt að stefndu Familíunni ehf., Þorsteini, Hrefnu og Margréti verði sameiginlega einungis gert að birta dómsorð dómsins í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu á sinn kostnað.

Stefnendur hafa í máli þessu gert kröfu um að stefndu verði dæmdir til að greiða þeim vexti af skaðabótum og miskabótum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu 20. október 2015 en með dráttarvöxtum af miskabótum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi. Þessum vaxtakröfum er ekki mótmælt af hálfu stefndu og verða þær því lagðar til grundvallar niðurstöðu dómsins.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm, ásamt meðdómendunum Ámunda Sigurðssyni, grafískum hönnuði og Jóni Proppé, listfræðingi. Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Meðferð málsins hefur dregist vegna leyfis héraðsdómara á grundvelli laga nr. 168/2011, um rannsóknarnefndir.

 

Dómsorð:

Kröfum stefndu Familíunnar ehf., Þorsteins Bachmann, Hrefnu Bachmann og Margrétar Þorsteinsdóttur og Fabrik ehf. um frávísun málsins er hafnað.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir eru sýknuð af aðalkröfu stefnenda um að þau afhendi stefnendum frumgerðir þeirra 169 myndverka sem tilgreind eru í lið a) í dómkröfum stefnenda. Þá eru stefndu jafnframt sýknuð af kröfu stefnenda um að þau afhendi þeim frumgerðir þeirra sex myndverka sem tilgreind eru í lið b) í dómkröfum stefnenda.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir eru enn fremur sýknuð af varakröfu stefnenda um að þeim verði gert að afhenda þeim eftirgerðir af þeim myndverkum sem tilgreind eru í a- og b-liðum aðalkröfu stefndu.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir skulu sameiginlega greiða stefnendum kr. 3.208.168 í skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón og kr. 500.000 í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til 20. október 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi Fabrik ehf. er dæmdur til að greiða stefnendum kr. 894.686 í skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns en kr. 200.000 í bætur vegna miska ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til 20. október 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. eru sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 35.924 og kr. 20.000 í bætur vegna miska ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til 20. október 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

 Kröfu stefnenda um að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði dæmd til að þola að öll eintök í birgðum af eftirprentunum af verkum Jóns Kristinssonar í formi boðskorts, póstkorta, límmiða, veggspjalda og auglýsingaspjalds verði afhent stefnendum til eyðingar er vísað frá dómi.

Stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir skulu láta birta dómsorð þessa dóms í heild í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins á sinn kostnað.

Málskostnaður aðila fellur niður.

 

                                    Kjartan Bjarni Björgvinsson

                                    Ámundi Sigurðsson

                                    Jón Proppé

 

------------ ------------- -----------

            Rétt endurrit staðfestir:

            Héraðsdómur Reykjavíkur 12. febrúar 2018