Stefna

Í maí 2012 samþykkti dómstólaráð stefnu ráðsins og héraðsdómstólanna fyrir árin 2012 – 2015 í kjölfar umfangsmikillar stefnumótunarvinnu með aðkomu fulltrúa allra starfshópa héraðsdómstólanna auk fulltrúa utanaðkomandi aðila, LMFÍ og ákærendafélagsins. Með stefnunni var dómstólaráði og héraðsdómstólunum mörkuð framtíðarsýn með gildum, áherslum og markmiðum. 

Stefnunni fylgdi aðgerðaráætlun þar sem aðgerðir til þess að ná settum markmiðum voru skilgreindar og tilgreint hver bæri ábyrgð á hverri aðgerð fyrir sig. Þá voru settir mælikvarðar með hverri aðgerð þannig að mögulegt væri að mæla árangurinn. Á árinu 2015 var stefna og aðgerðaráætlun tekin til endurskoðunar og leitað eftir rýni aðila utan dómstólanna. Niðurstaða dómstólaráðs var í kjölfarið að halda stefnunni óbreyttri en vinna nýjar aðgerðaráætlanir þar sem við átti.

Stefna héraðsdómstólanna og dómstólaráðs 2016-2019 (pdf)


GILDI HÉRAÐSDÓMSTÓLANNA OG DÓMSTÓLARÁÐS:

Sjálfstæði
Dómstólarnir skulu vera sjálfstæðir.

Traust
Starfsmenn dómstólanna skulu vinna störf sín af heilindum, virðingu og heiðarleika og gæta fyllsta trúnaðar.

Dómstólarnir leggja áherslu á að starfsmenn þeirra hafi þá hæfni sem þarf til þess að dómstólarnir geti gegnt hlutverki sínu.

Skilvirkni
Dómstólarnir skulu tryggja rétta og skilvirka málsmeðferð.

Dómar skulu kveðnir upp innan lögmælts frests í kjölfar réttlátrar og óvilhallrar málsmeðferðar. Dómar skulu vera vel rökstuddir og skiljanlegir.

Starfsmenn fylgi ákveðnum verkferlum og formskjölum sem er ætlað að tryggja hagkvæma og skilvirka starfsemi dómstólanna.

Gagnsæi
Dómstólarnir skulu vera aðgengilegir öllum. Þeir skulu beita sér fyrir aukinni þekkingu á réttarríkinu og stuðla að faglegri umræðu um starfsemi sína.

Dómstólarnir skulu leitast við að veita upplýsingar um starfsemina.