Reglur um birtingu dóma og úrskurða á heimasíðu héraðsdómstólanna

 

1. gr.
Opinber birting dómsúrlausna og ábyrgð á birtingu

Með þeim takmörkunum sem greinir í reglum þessum skulu dómsúrlausnir (dómar og úrskurðir) héraðsdómstólanna birtar á heimsíðu þeirra.

Í samræmi við meginregluna um opinbera málsmeðferð er með opinberri birtingu dómsúrlausna samkvæmt framansögðu leitast við að koma á framfæri upplýsingum sem erindi geta átt við almenning og varpa um leið ljósi á starfsemi héraðsdómstólanna. Þá er tilgangur birtingarinnar jafnframt sá að miðla upplýsingum sem komið geta lögfræðingum og öðrum sérfræðingum að notum í störfum þeirra.

2. gr.
Umsjón og ábyrgð

Dómsúrlausn skal birt af hálfu skrifstofu dómstóls innan þriggja virkra daga frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar. Úrlausn skal þó ekki birt fyrr en liðin er ein klukkustund frá uppkvaðningu þannig að lögmanni/verjanda gefist ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu máls.

Dómari í viðkomandi máli skal semja stutta lýsingu á máli og niðurstöðu þess. Hann skal enn fremur tilgreina atriðisorð (lykilorð/uppflettiorð) sem að hans mati eiga við hverju sinni, svo og viðeigandi lagaákvæði.

3. gr.
Takmarkanir á birtingu

Dómsúrlausn skal ekki birt þegar um er að ræða:

a. kröfu um gjaldþrotaskipti
b. kröfu um opinber skipti
c. beiðni um heimild til greiðslustöðvunar
d. beiðni um heimild til að leita nauðasamnings
e. mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997
f. beiðni um dómkvaðningu matsmanns
g. beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981
h. mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002
i. mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003
j. mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993
k. kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál)
l. úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess
m. einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum
n. kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008
o. kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940
p. sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð

Þegar sérstaklega stendur á að mati dómstjóra getur hann ákveðið að vikið skuli frá ákvæði 1. mgr. Þannig getur hann annars vegar ákveðið að birta skuli úrlausn sem ákvæðið tekur til og hins vegar að úrlausn skuli ekki birt þrátt fyrir að ekki sé unnt að fella málið undir neinn þeirra flokka sem greinir í 1. mgr. Dómstjóri skal skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá og í bréfabók héraðsdóms.

Þegar um er að ræða undantekningar samkvæmt 2. mgr. er dómstjóri ekki bundinn af fresti samkvæmt 1. mgr. 2. gr.


4. gr.
Nafnleynd

Í dómum í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur. Ef birting á nafni ákærða getur talist andstæð hagsmunum brotaþola eða um er að ræða úrskurð sem gengur undir rekstri máls (frávísun máls) skal nafnleyndar einnig gætt um ákærða. Hið sama á við hafi ákærði ekki verið orðinn 18 ára er hann framdi brot sem hann er sakfelldur fyrir.


Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða er til. Þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið.

Nafnbirtingu skal aflétta samkvæmt beiðni þegar eitt ár er liðið frá birtingu dóms.

 

5. gr.
Atriði sem ber að afmá úr dómsúrlausnum

Við útgáfu dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari.

Áður en dómari sendir dóm eða úrskurð til birtingar metur hann hvort afmá beri atriði úr úrlausninni í samræmi við áðurnefnd ákvæði. Gæta skal þess að það sem eftir standi sé ekki hægt að tengja þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda.

Kennitölur skulu afmáðar úr dómum og úrskurðum sem birtir eru á netinu. 

 

6. gr.
Gildissvið

Tilkynning þessi, sem samþykkt hefur verið af dómstólaráði samkvæmt heimild í 22. gr. a, laga nr. 15/1998, tekur þegar gildi og er bindandi fyrir dómara og annað starfsfólk héraðsdómstóla. Fellur þá úr gildi tilkynning dómstólaráðs nr. 4/2014.

 

 

Þannig samþykkt í dómstólaráði
12. maí 2016

Símon Sigvaldason
formaður dómstólaráðs
sign.