Samkomulag um samskipti ákæruvalds og héraðsdómstóla.


1. gr.

Framlagning skjala í sakamálum, sem eru 50 bls. eða meira, skal vera með þeim hætti að sérstaklega eru lögð fram með áframhaldandi blaðsíðutali þau skjöl sem kröfur og sönnunarfærsla ákæruvaldsins byggist á. Blaðsíðutal skal koma fram í hægra horni neðst. Skjölin skulu að jafnaði lögð fram í sömu röð og ákæruliðir, sé fleiri en einum til að dreifa.
Málsskjölum ákæruvalds skal ávallt fylgja yfirlit yfir þau útgjöld sem rannsóknaraðilar hafa haft af málinu og teljast til sakarkostnaðar. þ. á m. vegna starfa sérfróðra aðila, ferðakostnaðar vitna og launa verjanda og réttargæslumanna á rannsóknarstigi, þ.m.t. þeirra sem ekki fylgja máli eftir fyrir dómi. Sækjandi skal gera verjanda og réttargæslumanni sem tilnefndur eða skipaður hefur verið við lögreglurannsókn viðvart með tölvupósti ef annar verjandi eða réttargæslumaður er skipaður við dómsmeðferð málsins.

2. gr.

Þegar sakamál er höfðað og ákærði hefur hlotið fullnaðardóm eða viðurlagaákvörðun fyrir öðrum héraðsdómstóli eða ákærði hefur gengist undir sátt hjá lögreglustjóra skulu endurrit dóms, viðurlagaákvörðunar eða sáttargerðar fylgja málsskjölum, enda megi ætla að dómur eða sáttargerð geti haft þýðingu fyrir niðurstöðu í málinu.

3. gr.

Hafi ákærði sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar brots sem hann er ákærður fyrir en ekki setið inni allan varðhaldstímann skulu málinu fylgja upplýsingar um þá hve lengi ákærði sat í gæsluvarðhaldi.

 

4. gr.
Ákæra skal send héraðsdómstól með rafrænum hætti um leið og málið er sent dóminum til meðferðar. Hver og einn héraðsdómstóll tilkynni embættum lögreglustjóra héraðssaksóknara og ríkissaksóknara um það netfang sem senda ber ákærur á.

5. gr.
Hafi birting ákæru og fyrirkalls ekki tekist innan sex mánaða frá því að dómari fékk mál til meðferðar skal það endursent ákæruvaldinu.

6. gr.
Þess sé gætt að tilkynningar um þinghöld komist vel til skila til sækjanda ekki síst þegar um er að ræða breytingar á fyrirtökutíma sem ákveðinn hefur verið. Dómari skal hafa samráð við sækjanda um þingfestingardag áður en hann er ákveðinn.

7. gr.
Dómari boðar verjanda ákærða og réttargæslumann brotaþola til þinghalda í ákærumálum. Dómari getur falið lögreglu boðun verjanda þegar gerð er krafa um gæsluvarðhald og skyldar ráðstafanir.

8. gr.
Frumrit fyrirkalls skal senda lögreglustjóra eða héraðssaksóknara til birtingar og afrit til sækjanda málsins starfi hann hjá öðru embætti, eða tilkynna sækjandanum um þingfestingardag með öðrum öruggum hætti. Birt fyrirköll skulu send dóminum þegar eftir birtingu.

9. gr.
Héraðsdómari skal tilkynna ríkissaksóknara um endurupptöku útivistarmáls skv. XXIX. kafla laga nr. 88/2008 um leið og málið hefur verið endurupptekið. Tilkynningin sendist á netfangið saksoknari@saksoknari.is.

10. gr.
Endurrit dóms eða viðurlagaákvörðunar, ásamt ákæru, sakavottorði, tilkynningu til sakaskrár og endurrit af þinghaldi þegar dómur er kveðinn upp eða viðurlög ákvörðuð, skal héraðsdómur senda ríkissaksóknara án tafar. Héraðsdómur skal senda ríkissaksóknara afrit af viðurlagaákvörðun samdægurs á netfangið saksoknari@saksoknari.is.

11. gr.
Handhafar ákæruvaldsins klæðist ætíð skikkjum við fyrirtökur. Sama máli gegnir þegar beiðnir um rannsóknarúrskurði eru teknar fyrir í dómsal.

12. gr.
Dómstólar gefa upplýsingar um efni ákæru þegar um lokuð þinghöld er að ræða, auk upplýsinga um fyrirtökur og um dómsuppsögu.

13. gr.

Í dómum í sakamálum er rétt að fram komi nöfn sækjanda og verjanda með sama hætti og í dómum Hæstaréttar.

 

14. gr.

Samkomulag þetta tekur gildi 1. janúar 2017.

 


Reykjavík, 12. desember 2016Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknariJón Höskuldsson formaður dómstólaráðs