• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Sakarkostnaður
  • Upptaka
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 19. september 2017 í máli nr. S-31/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

gegn

Stefaníu Óskarsdóttur

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 5. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 29. maí 2017, á hendur Stefaníu Óskarsdóttur, [...],[...],[...], fyrir eftirtalin umferðarlagabrot og brot gegn lögum um ávana-  og fíkniefni, með því að hafa:

I.

            Mánudaginn 15. febrúar 2016, ekið bifreiðinni SO598, svipt ökurétti og óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 180 ng/ml og metamfetamín 100 ng/ml) um Breiðholtsbraut í Reykjavík, á móts við Mjóddina, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn og fyrir að hafa í umrætt sinn haft í vörslum sínum 1,15 gr. af  amfetamíni, sem fannst við leit lögreglu í bifreiðinni SO598. (mál 007-2016-8890)

II.

            Föstudaginn 4. mars 2016, ekið bifreiðinni YR522, svipt ökurétti og óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 75 ng/ml, metamfetamín 285 ng/ml og metylfenidat 105 ng/ml) um Vatnsendaveg í Kópavogi, norðan við Hattarvelli, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. (mál 007-2016-12463)

III.

            Sunnudaginn 27. mars 2016, ekið bifreiðinni ON174, svipt ökurétti og óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 495 ng/ml og metamfetamín 30 ng/ml) vestur Vesturlandsveg í Reykjavík, vestan við Höfðabakka, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn og fyrir að hafa skömmu síðar á lögreglustöðinni við Vínlandsleið 2-4, Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,06 gr. af amfetamíni, sem fannst við leit lögreglu í bifreiðinni ON174. (mál 007-2016-16615)“

            Í ákæruskjali eru brotin talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og ákæruliðir I og III að auki við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, allt með síðari breytingum.

            Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og  102. gr.  umferðarlaga.     Þá er þess krafist að framangreind 1,21 gramm af amfetamíni, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn ákæruliða I og III, verði gerð upptæk, sbr. 6.  mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

            Ákærða játaði skýlaust hér fyrir dómi alla þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru, utan þess að hún kvaðst ekki viðurkenna vörslur á 1,15 grömmum af amfetamíni, sbr. ákærulið I. Lýsti sækjandi þá yfir að fallið væri frá þeim hluta ákæruliðsins sem þetta sakarefni varðaði. Var málið að því búnu þegar tekið til dóms á grundvelli 164. gr. laga um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og ákærðu sjálfri hafði gefist kostur á að tjá sig stuttlega um lagaatriði og sjónarmið við ákvörðun viðurlaga.

            Með skýlausri játningu ákærðu, sem fær fullnægjandi stoð í rannsóknargögnum málsins, er fram komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærðu af þeim brotum sem henni eru gefin að sök í öllum þremur liðum ákærunnar, með þeirri breytingu sem gerð var á ákærunni og lýst er hér að framan. Eru brotin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærða er fædd árið [...]. Samkvæmt sakavottorði gekkst hún undir sektargerð lögreglustjóra 28. nóvember 2015, en þá var henni gert að greiða 234.000 króna sekt í ríkissjóð fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. (akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna) og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga (akstur svipt ökurétti), sem og fyrir vörslur á smávægilegu magni fíkniefna, auk þess sem hún var svipt ökurétti í 12 mánuði frá 18. nóvember 2015. Hér fyrir dómi benti sækjandi á að í sektargerðinni sjálfri og færslu um hana í sakavottorði virtist ranghermt að ákærða hefði ekið bifreið svipt ökurétti umrætt sinn, en það fengi ekki staðist samkvæmt sakavottorði hennar og skráningum í ökuskírteinaskrá. Lýsti sækjandinn því yfir að rétt væri að miða refsingu við að brot ákærðu nú gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga (akstur svipt ökurétti) teljist fyrstu brot hennar af því tagi, en ekki ítrekuð brot. Verður fallist á þau rök og tekur ákvörðun refsingar mið af því. Aftur á móti teljast brot ákærðu gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. umferðarlaga ítrekuð, með vísan til sömu sektargerðar. Á sakavottorði er getið um tvær sektargerðir til viðbótar sem ekki hafa áhrif við ákvörðun refsingar ákærðu.

            Ákærða kvaðst fyrir dómi hafa hætt neyslu fíkniefna í kjölfar þeirra brota sem hér eru til umfjöllunar. Hún sýndi iðrun og lýsti breyttri stöðu og högum sínum í dag. 

            Samkvæmt framanrituðu, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, en fullnustu refsingarinnar verður frestað skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.

            Þá ber að svipta ákærðu ökurétti eins og krafist er, vegna brota hennar gegn 45. gr. a. umferðarlaga. Þykir hæfilegt að svipta ákærðu ökurétti í fjögur ár frá birtingu dómsins að telja með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, einkum 6. mgr. 102. gr. laganna.

            Upptæk skulu gerð samtals 1,21 gramm af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, með vísan til sömu ákvæða laga og reglugerðar og í ákæru greinir. 

            Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að gera ákærðu að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirlitum ákæruvaldsins nemur sakarkostnaður vegna málsins alls 295.690 krónum. Styðst sú fjárhæð við reikninga, utan þess að engin sönnun liggur fyrir um kostnað af sýnatöku í einu tilviki að fjárhæð 12.757 krónur. Þá er meðal liða eins yfirlitsins kostnaður að fjárhæð 24.605 krónur vegna dráttar á bifreið sem ákærða ók umrætt sinn, sem ekki þykir sýnt fram á að teljist til nauðsynlegs sakarkostnaðar. Verður sá sakarkostnaður sem ákærðu verður gert að greiða því lækkaður sem þessum fjárhæðum nemur. Samtals verður ákærðu því gert að greiða 258.328 krónur í sakarkostnað, en að öðru leyti fellur hann á ríkissjóð. Annar sakarkostnaður en að framan greinir féll ekki til vegna málsins.

            Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara.

 

Dómsorð:

            Ákærða, Stefanía Óskarsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum, frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærða er svipt ökurétti í fjögur ár, frá birtingu dómsins að telja.

            Upptæk eru 1,21 gramm af amfetamíni.

            Ákærða greiði 258.328 krónur í sakarkostnað.         

           

                                                                        Hildur Briem