• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skaðabætur

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 12. desember 2018 í máli nr. S-

 37/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 Brynjari Erni Rúnarssyni

 (Magnús Davíð Norðdahl lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 26. nóvember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Austurlandi með ákæru, útgefinni 8. október 2018, á hendur Brynjari Erni Rúnarssyni, kennitala […], […], […];

,,fyrir líkamsárás í Fjarðabyggð, með því að hafa  aðfaranótt sunnudagsins 15. júlí 2018 utandyra við íþróttahúsið, Mýrargötu 10, Neskaupstað, skallað A með enninu í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð og mar og bjúg innan á neðri vör, eymsli í framtönnum í neðri góm og höfuðverk.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Einkaréttarkrafa: Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 600.000, ásamt vöxtum skv. 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 15. júlí 2018 til þess dags þegar liðinn var mánuður frá því að ákærða var birt bótakrafa þessi, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.“

 

            Skipaður verjandi, Magnús Davíð Norðdahl lögmaður, hefur fyrir hönd ákærða krafist vægustu refsingar sem lög heimila, en jafnframt að bótakrafa verði lækkuð stórlega. Þá krafðist verjandinn hæfilegrar málflutningsþóknunar, en einnig greiðslu vegna útlagðs ferðakostnaðar.

 

I.

Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru. Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, þ.m.t. læknisvottorð, dagsett 15. júlí 2018.

Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, sem og nefndum rannsóknargögnum, er nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök, en brot hans er réttilega heimfært í ákærunni.

 

II.

Ákærði, sem er 27 ára, hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst brotlegur við lög sem áhrif hefur í máli þessu.

            Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir líkamsárás og ber að ákvarða refsingu hans m.a. með hliðsjón af 1. og 7. tl. 70. gr. hegningarlaganna. Einnig ber að líta til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega fyrir dómi, að hann lýsti yfir iðran og samþykkti bótaskyldu vegna verknaðarins. Að þessu virtu, en einnig í ljósi málsatvika svo og 5., 7. og 8. tl. 70. gr. hegningarlaganna þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi 30 daga fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

III.

            Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður brotaþola lagði fram einkaréttarkröfu við lögreglurannsókn málsins og var hún birt ákærða 20. september sl., en henni er lýst hér að framan. Bótakrafan er rökstudd og var það áréttað fyrir dómi, en um lagarök er m.a. vísað. til 26. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993.

            Fyrir dómi hefur ákærði, eins og fyrr sagði, fallist á bótaskyldu, en hann krafðist aftur á móti lækkunar fjárhæðar kröfunnar.

            Ekki liggja fyrir aðrar afleiðingar vegna brots ákærða en fram koma í áður nefndu læknisvottorði. Ber til þess að líta, en einnig að ákærði með lýstri háttsemi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn brotaþola. Þykir brotaþoli því eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt 26. gr. skaðabótalaganna og eru þær eftir atvikum hæfilega ákveðnar 250.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist er. Þá ber að dæma brotaþola málskostnað við að halda kröfunni fram með aðstoð nefnds lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðinn 175.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

 

            Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað.

            Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Davíðs Norðdahl lögmanns, en hún þykir hæfilega ákveðin, m.a. með hliðsjón af umfangi málsins og tíma- og verkskýrslu, 238.700 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Að auki ber að dæma ákærða til að greiða útlagaðan ferðakostnað verjandans, 38.435. krónur.

Samkvæmt yfirlýsingu aðstoðarsaksóknara Helgi Jensson, sem fór með málið fyrir dómi, féll enginn kostnaður til af hálfu lögreglustjóra.              

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:    

            Ákærði, Brynjar Örn Rúnarsson, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði A 250.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 15. júlí 2018 til 20. september sama ár, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. sömu laga. og 175.000 krónur í málskostnað.

            Ákærði greiði 277.135 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. 238.700 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Davíðs Norðdahl lögmanns og 38.435 krónur vegna ferðakostnaðar hans.