• Lykilorð:
  • Sönnun
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 27. mars 2019 í máli nr. S-40/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 A

 Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 23. október 2018, á hendur a, kt. […], […], […]:

„fyrir umferðarlagabrot í Fjarðabyggð, með því að hafa laugardaginn 7. apríl 2018, undir áhrifum áfengis, ekið sendibifreiðinni […] frá söluskála Olís við […] í […], vestur […], um […], […] og að […], þar sem hann stöðvaði bifreiðina. Vínandamagn í blóði kærða mældist 1,30 ‰.

            Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

 

Skipaður verjandi, Gísl M. Auðbergsson lögmaður, krefst þess fyrir hönd ákærða að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að brot hans verði miðað við ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. umferðarlaganna. Verjandinn krefst jafnframt hæfilegra málsvarnarlauna, en einnig ferðakostnaðar.

 

I.

1.         Samkvæmt frumskýrslu barst lögreglunni á Austurlandi tilkynning laugardaginn 7. apríl 2018, kl. 17:55, um ætlaðan ölvunarakstur ökumanns bifreiðarinnar NF-484, sem ekið hefði frá Olísskálanum við […].

Í nefndri skýrslu og öðrum rannsóknargögnum segir m.a. frá því, að tveir lögreglumenn hafi ekið frá Eskifirði á vetttvang og að þeir hafi eftir skamma leit fundið nefnda bifreið þar sem hún var kyrrstæð á bifreiðastæði við […]. Er staðhæft í frumskýrslu, að augljóst hafi verið að bifreiðin var ,,nýkomin úr akstri þar sem vélarhlíf hennar var volg.“

Í nefndum rannsóknarskýrslum segir frá því að lögreglumennirnir hafi knúið dyra á nefndri fasteign og að þá hafi ákærði í máli þessu komið til dyra, kl. 18:20, en jafnframt að nafngreindur aðili hafi og verið gestkomandi. Greint er frá því að ákærði hafi játað að hafa ekið skömmu áður, en jafnframt að hann hafi haft orð á því að hann  hefði neytt áfengis. Fram kemur að vegna þessa og þar sem ákærði hafi verið þvoglumæltur hafi hann verið færður á lögreglustöð vegna frekari rannsóknar málsins.

Samkvæmt árituðum vottorðum lögreglumanns og læknis gaf ákærði þvagsýni vegna alkóhólrannsóknar umrætt kvöld, kl. 18:40, en að auki voru tekin úr honum tvö blóðsýni, kl. 19:00 og 20:00.

Fyrir liggur að ákærði var yfirheyrður á lögreglustöð, á tímabilinu frá kl. 19:06 til 19:38, og þá um kæruefnið. Skýrslan var tekin upp í hljóði og mynd.

Ákærði skýrði frá því við nefnda yfirheyrslu, að hann hefði drukkið einn bjór, um kl. 9:30, þ.e. skömmu eftir að hann vaknaði þá um morguninn, og að þar hefði verið um að ræða síðasta bjórinn á heimili hans. Þá kvaðst hann hafa tekið inn svefntöflu, zopril 10 mg, á milli kl. 16 og 17, og eftir það reynt að sofna, en það ekki tekist, en af þeim sökum hefði hann ekið að verslunarskála Olís til þess að versla. Hann hefði ekið sem leið lá niður […], en síðan aftur til baka um […] og […]. Ákærði kvaðst ekki hafa fundið til áfengisáhrifa við þennan akstur, og aðspurður kvað hann atvik máls hafa gerst „... bara rétt áður en þið komuð. Þegar ég kom heim fékk ég mér einn bjór og drakk hann og ætla svo að fara [að] sofa. Þetta er hálfu líter af áfengum bjór, sem er 4,5 innihald …“ Ákærði bar að hann hefði hins vegar ekki náð að sofna og því verið kominn á fætur á ný þegar lögreglumennirnir komu á vettvang. Nánar aðspurður staðhæfði ákærði að hann hefði keypt sex bjóra og bar hann að þær áfengisumbúðir hefðu verið á heimili hans þegar hann var færður á lögreglustöðina í greint sinn.

 

2.         Með bréfi lögreglu, dagsettu 9. apríl 2018, var óskað eftir rannsókn á fyrrnefndum blóð- og þvagsýnum ákærða hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og þá þannig að ákvarðað yrði alkóhólmagn síðdegis umræddan dag og enn fremur í ljósi frásagnar ákærða um áfengisdrykkju skömmu fyrir afskipti lögreglu, kl. 18:25.

Í vottorði rannsóknastofunnar, sem dagsett er 23. apríl nefnt ár, segir að samkvæmt endanlegum niðurstöðum og að teknu tilliti til vikmarka og frádráttar hafi alkóhól í þvagsýni ákærða, tekið kl. 18:36, mælst 1,72‰, að í fyrra blóðsýninu, tekið kl. 19:00, hafi alkóhólmagnið með sama hætti mælst 2,27‰, en í síðara blóðsýninu, sem tekið hafi verið kl. 19:54, hafi alkóhólmagnið mælst 2,08‰.

            Í álitsgerð rannsóknastofunnar, sem dagsett er 25. apríl nefnt ár, og undirrituð er af tveimur deildarstjórum, segir nánar um nefnd álitaefni, þ.e. ölvunarástand viðkomandi milli kl. 17:48 og 17:52:

U.þ.b. 2 % af neyttu etanóli skilst óumbreytt úr líkamanum og þá fyrst og fremst með þvagi. Útskilnaður etanóls úr blóði í þvag hefst strax og frásog etanóls í blóð hefst úr meltingarvegi. Þetta gerist hægt í byrjun en etanólstyrkur þvagsins eykst svo jafnt og þétt. Þegar etanól í þvagi er lægra en í blóði, bendir það til þess að viðkomandi hafi nýlega hætt neyslu áfengis og jafnvægi milli þvags og blóðs hafi ekki verið náð. Þegar neyslu etanóls er hætt líður nokkur tími þar til allt það etanól, sem kann að vera í maga og þörmum hefur náð að frásogast. Venjulega er gert ráð fyrir að því ljúki að mestu innan 1 – 2 klukkustunda (eftir magni þess áfengis sem drukkið er). Þegar jafnvægi milli etanóls í blóði og þvagi er náð má búast við að styrkur þess í þvagi sé um 20 – 30 % hærri en í blóði. Þá fer styrkur etanóls í blóði að falla en hann fellur með nokkuð jöfnum hraða (brotthvarfshraði), sem er einstaklingsbundinn og getur verið 0,12 ‰-0,25 ‰ á klst. Hátt hlutfall milli etanólstyrks í þvagi og blóði bendir til að talsverður tími sé frá því að viðkomandi losaði þvag síðast og einnig er það sterk vísbending að etanól í blóði hafi verið fallandi á þeim tíma sem sýnin voru tekin. Lágt hlutfall bendir hins vegar til, að drykkju hafi nýlega verið hætt og frásogi ekki lokið. Þegar jafnvægi er milli þvags og blóðs er hlutfallið nálægt 1,2 - 1,3. 

Niðurstöður úr etanólmælingunum sýna að etanólstyrkur hefur náð hámarki í blóði viðkomandi kl. 19:00 og farinn að falla. Það styður niðurstaða úr síðara blóðsýninu (91899). Út frá niðurstöðum má sjá að brotthvarfshraði úr blóðinu er 0,21 ‰ á klst.((2,42-2,23)*60/54). Hlutfall milli þvags og blóðs er 0,8 en þvagsýnið var tekið um ½ klukkustund fyrr eða kl. 18:36. Etanólstyrkur í þvagi kærða þ.e. 1,87 ‰,(þ.e. fyrir frádrátt og vikmörk) segir til um meðalstyrk etanóls í blóðinu einhvern tíma á undan. Sambærilegur etanólstyrkur í blóðinu hefur því verið a.m.k. 1,5 ‰  fyrir kl. 18:36 (sambærilegur styrkur í blóði er 20 til 25 % lægri en í þvagi vegna þess að þvag er að mestu leyti vatn). Eftir drykkju á 500 ml af 4,6 % bjór (18 g af hreinum vínanda) gæti etanólstyrkur [í] 80 kg karlmanni mælst að hámarki 0,4 ‰ (Ferner). Skýrir sú drykkja því ekki þann háa styrk sem mældist í blóðinu kl. 19:00. Ökumaðurinn hefur því drukkið talsvert áfengi fyrir kl. 17:48 og etanólstyrkurinn verið a.m.k. 1,3 ‰ á tímabilinu 17:48 og 17:52.

 

3.         Við áframhaldandi rannsókn lögreglu, þann 20. júní 2018, voru teknar skýrslur af tveimur starfsmönnum Söluskála Olís […], sem báðir lýstu dvöl ákærða þar innandyra þann 7. apríl nefnt ár. Jafnframt aflaði lögreglan myndskeiða úr öryggismyndavélum skálans þennan dag og liggja fyrir nákvæmar tímaskráningar þar um.

            Á nefndum myndskeiðum má fylgjast með ferðum ákærða í og við Söluskála Olís svo og akstri hans á sendibifreiðinni […]. Kemur m.a. fram að ákærði ekur að skálanum kl. 17:23:18 og er kominn þar inn kl. 17:23:37. Eftir þetta eru tímasett myndskeið sem sýna m.a. ákærða fara ítrekað að afgreiðsluborði, en einnig þegar hann fer ítrekað úr og í bifreiðina og síðan aftur inn í skálann. Að endingu má fylgjast með því er ákærði fer inn í nefnda bifreið, kl. 17:54:37, og ekur frá Olísskálanum. 

 

II.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

1.         Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi játaði ákærði sök og verknaðarlýsingu ákæru, þ.e. að hafa ekið nefndri bifreið undir áhrifum áfengis og að háttsemi hans í umrætt sinn hafi m.a. verið í samræmi við það sem fram kom á áðurnefndum myndbandsskeiðum úr öryggismyndavélum Olísskálans […]. Ákærði kvaðst þó ætla að það áfengismagn í blóði hans, sem tiltekið væri í ákæru, 1,30‰, hafi verið ,,eitthvað minna“ og byggir hann hinar endanlegu dómkröfur sínar í máli þessu á því atriði.

Ákærði skýrði nánar frá málsatvikum á þá leið að hann hefði neytt áfengis fyrir umrædda ökuferð, og þá 1-2 bjóra, milli kl. 15:00 og 16:00, og áréttaði að hann hefði fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. Ákæri skýrði jafnframt frá því að skömmu áður en hann fór frá heimili sínu og ók bifreiðinni að skálanum hefði hann tekið inn svefntöflu. Ákærði bar að eftir að hann hafði lokið eigin erindi í skálanum hefði hann ekið bifreiðinni beinustu leið að heimili sínu, um 600-1.000 m, og bar að það hefði tekið um 2-3 mínútur. Hann kvaðst því hafa verið kominn til síns heima á nýjan leik um kl. 18:00, sbr. að því leyti fyrrgreind myndskeið úr öryggismyndavélum Olís. Eftir heimkomuna kvaðst hann hafa drukkið rúmlega tvo hálfs lítra bjóra, 4,5%, á um 20-25 mínútum, og því áður en lögreglan kom á vettvang, en að því leyti kvaðst hann ekki hafa skýrt alveg rétt frá við skýrslugjöf hjá lögreglu. Að öðru leyti áréttaði ákærði að mestu efni nefndrar skýrslu, en sagði að hann hefði tekið inn tvær svefntöflur, 10 mg, af gerðinni Stilnot, og staðhæfi að hann hefði af þeim sökum orðið sljór, með óskýra hugsun og mjög þvoglumæltur. Auk þessa kvaðst ákærði hafa drukkið einn bjór þá um morguninn, en  staðfesti að því leyti efni lögregluskýrslu.

 

2.         Vitnið B, deildarstjóri á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti efni áðurrakinnar álitsgerðar fyrir dómi. Vitnið útskýrði efni gerðarinnar enn frekar og þá m.a. hvað álykta mætti ef viðkomandi hefði drukkið rúmlega tvo bjóra eftir að akstri lauk í greint sinn, en vitnið vísaði jafnframt til þess að örfárra mínútna misskráning hvað varðaði tímasetningar breytti engu varðandi útreikninga í máli þessu og þá að því er varðaði svonefndan brotthvarfshraða, auk þess sem það atriði hefði í ferlinu verið leiðrétt af hálfu lögreglu. Vitnið bar að það sama gilti um hvort viðkomandi væri 75 kg eða 80 kg. Vitnið staðhæfði enn fremur að þó svo að viðkomandi hefði drukkið rúmlega einum bjór meira en vísað hefði verið til í rannsóknarerindi lögreglu og þá eftir að akstri lauk breytti það ekki niðurstöðu rannsóknarinnar sem neinu næmi. Því væri nefnd tala, 1,30‰, lágmarkstala og þá í ljósi fyrrgreinds þvagstyrks og þess hversu skammur tími leið frá því að neyslan fór fram og þar til þvagsýnið var tekið. Vitnið úrskýrði rannsóknarniðurstöðurnar frekar og staðhæfði m.a. að ætíð væri reiknað með, og þá til frádráttar, öllum hugsanlegum mælingarskekkjum, en í þessu máli hefði það verið 0,15‰. Vegna þessa hafi það verið reiknað út að í blóði ákærða hefði a.m.k. verið 1,5‰ alkóhól fyrir kl. 18:36 eða 18:40, þ.e. þegar þvagsýnið var tekið, en að öllu líkindum hefði það verið með hærri styrk og þá í ljósi hins geysiháa styrks sem mælst hefði í blóði hans. Vitnið bar að niðurstöðutölurnar varðandi blóðsýnin hafi og bent til að ákærði hafi drukkið eitthvað eftir á og þá eftir atvikum 1-2 bjóra og þá í ljósi þess að áfengið hefði ekki verið búið að skila sér að fullu út í þvagið, sbr. og að mun skemmri tími hefði liðið frá þvagsýnatökunni og þá miðað við töku blóðsýnanna tveggja. Vitnið áréttaði að vegna þessa alls væri nefnd tala, 1,30‰, í raun hin lægsta sem reiknuð hafi verið út í þessu máli og þá með 95% öryggi, en að öllum líkindum hefði rauntalan verið enn hærri.

 

3.         Vitnið C, sviðsstjóri Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti einnig efni nefndrar álitsgerðar fyrir dómi. Vætti vitnisins var sambærilegt og frásögn B, og þá að því gefnu að viðkomandi hefði drukkið rúmlega einum bjór meira en reiknað hefði verið með. Vitnið bar að það hefði litlu sem engu breytt um rannsóknarniðurstöðuna, sem í þessu tilfelli hefði verið miðað við þvagsýnið og þá einnig í ljósi hins geysiháa blóðstyrks.

 

III.

            Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni […] frá Olís-söluskálanum […] í greint sinn undir áhrifum áfengis, eins og nánar er lýst í ákæru og miða ber við hér fyrir dómi.

Ákærði hefur játað að hafa fundið til áfengisáhrifa við nefnan akstur. Hefur ákærði þannig borið að hann hafi á milli kl. 15:00 og 16:00 drukkið 1-2 hálfs lítra bjóra, 4,5%.

Í máli þessu ber til þess að líta að ákærði hefur staðfest myndefni úr öryggismyndavélum, en þar kemur m.a. fram að nefndur akstur hans frá umræddum skála hófst kl. 17:54. Ákærði hefur borið að aðeins hafi verið um 2-3 mínútna akstur að heimili hans, og er það í samræmi við vettvangsaðstæður. Ákærði hefur jafnframt borið að hann hafi drukkið rúmlega tvo bjóra eftir aksturinn og þá á þeim 20-25 mínútum frá því að hann hætti akstri bifreiðarinnar þar til lögreglumenn höfðu afskipti af honum.

Ágreiningur er samkvæmt framansögðu um það hvort fyrrgreint alkóhólmagn verði rakið að einhverju eða öllu leyti til drykkju ákærða áður en hann ók bifreiðinni eða eftir að hann hætti akstrinum.

 

Þegar virt er í heild áðurrakin sérfræðiálitsgerð svo og skýrt vætti sérfræðinga hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, ásamt rannsóknargögnum lögreglu og fyrrnefndu myndefni úr öryggismyndavélum þar sem sjá má ákærða athafna sig um tíma, m.a. innandyra í Olísversluninni, er að áliti dómsins ekki varhugavert að fallast á röksemdir ákæruvalds í máli þessu. Er því sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi verið ölvaður við nefndan akstur og að áfengismagnið í blóði hans hafi þá verið svo mikið sem greinir í 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr. umferðarlaganna nr. 50/1987 með síðari breytingum. 

 

IV.

            Ákærði, sem er fæddur 1966, hefur samkvæmt sakavottorði ekki sætt refsingu sem áhrif hefur í máli þessu.

Að ofangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 140.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi tíu daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Í samræmi við kröfur ákæruvalds, tilgreind lagaákvæði og ofangreinda niðurstöðu dómsins ber að svipta ákærða ökurétti og þykir hún hæfilega ákveðin 12 mánuðir frá birtingu dómsins að telja.

Með vísan til málsúrslita ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað ákæruvalds, 78.183 krónur, en einnig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, og þykja þau hæfilega ákveðin 252.960 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar verjandans að fjárhæð 20.000 krónur.

Með málið fór fyrir ákæruvaldið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

Dómur þessi er kveðinn upp af Ólafi Ólafssyni héraðsdómara.

 

Dómsorð:

            Ákærði, A, greiði 140.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi tíu daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

            Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 351.143 krónur í sakarkostnað og eru þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, 252.960 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar hans að fjárhæð 20.000 krónur.