• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Refsiákvörðun
  • Fangelsi
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands mánudaginn 26. júní 2017 í máli nr. S-9/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

gegn

A

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní 2017, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 6. febrúar 2017, á hendur A, [...],[...],[...], „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 29. júlí 2016, staðið að útflutningi frá Íslandi og innflutningi til Grænlands á samtals 665 gr [sic] af hassi ásamt umbúðum, ætluðu til söludreifingar í Grænlandi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærði sem farþegi með flugi frá Íslandi til  Ilulissat í Grænlandi, falin í líkama sínum í 107 pakkningum.“

            Í ákæru er háttsemin talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, allt með áorðnum breytingum, „sbr. 2. gr., sbr. 27. gr., bekendtgörelse om euforiserende stoffer, 1993-08-31 nr. 698, (dönsk reglugerð um fíkniefni)“.

            Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að framangreind 665 grömm af hassi ásamt umbúðum, sem lögreglan í Grænlandi lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og  2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, „sbr. 1. tl., 2. mgr. 166. gr. kriminallov for Grönland frá 1. janúar 2010 (grænlensku sakamálalögin)“.

            Í þinghaldi 2. maí 2017 var annað mál á hendur ákærða, nr. S-18/2017, vegna ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, sem gefin var út 29. mars 2017, sameinað máli þessu. Í þeirri ákæru er ákærða gefin að sök „líkamsárás, heimilisofbeldi og fíkniefnabrot í Sveitarfélaginu Hornafirði, framin á heimili sínu og foreldra sinna að [...],[...], fimmtudaginn 17. nóvember 2016, eins og hér er lýst:

I.

            Fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi, með því að hafa, í eldhúsi hússins, slegið föður sinn, B, nokkur hnefahögg í höfuð og andlitið, með þeim afleiðingum að hann  hlaut mikla bólgu og mar við vinstra auga, skurð á efra augnloki vinstra megin og brot á andlitsbeinum vinstra megin, nánar tiltekið var brotakerfi á mótum nefbeins, augntóftarbeins og sáldbeins, stærsti lausi beinbitinn á svæðinu var innkýldur og tilfærður og brotakerfið lá í gegnum augntóftarbeinsbotninn þar sem beinflaski var laus og gekk niður í kinnholuna. Auk þess skertist hreyfigeta vinstra auga og lokun neðra augnloks vinstra megin skaddaðist, hornhimna augans rispaðist og hann hlaut nokkra tvísýni.  

II.

            Fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa, í bílskúr við heimili sitt, haft í vörslum sínum 9 kannabisplöntur, sem voru 11–18,5 cm á hæð, en ákærði hafði um nokkurt skeið fram til þess dags, ræktað greindar plöntur, sem fundust við leit lögreglunnar þennan dag.“

            Í ákæru er háttsemi skv. I. lið talin varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr.  23/2016, en til vara við 1. mgr. 218. gr. sömu laga, með síðari breytingum. Háttsemi skv. II. lið er talin varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, allt með síðari breytingum.

            Í ákæru er þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að framangreindar 9 kannabisplöntur, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerðar upptækar, sbr. 6.  mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Jafnframt er, með vísan til 7. mgr. 5. gr. sömu laga og sama ákvæðis reglugerðar nr. 233/2001, krafist upptöku á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta og meðferðar fíkniefna og lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins:

            „1. Svartir blómapottar, 9 stk.                                                           (nr. 435087).

            2. Svartur 4 tommu sver barki, 1 stk.                                    (nr. 435088).

            3. Grænir plastbakkar, 3 stk.                                                  (nr. 435089).  

            4. Loftblásari tegund Can Fan, 1 stk.                                     (nr. 435090).

            5. Loftsía, 1 stk.                                                                      (nr. 435091).

            6. Hvítar rafmagnsviftur, 2 stk.                                             (nr. 435092).

            7. Spennugjafi fyrir ræktunarlampa, tegund LUMii, 600w, 1 stk.(nr. 435093).

            8. Gróðurtjald, tegund DS150, 1 stk.                                     (nr. 435094).

            9. Gróðurhúsalampi, tegund Powerplant, 1 stk.                    (nr. 435095).

            10. Svartar plastfötur ásamt plastbökkum, 5 stk.                  (nr. 435096).

            11. Hvít rafmagnsfjöltengi, 2 stk.                                          (nr. 435104).

            12. Hvítur tímarofi, 1 stk.                                                      (nr. 435105).

            13. Stálsúlur til að halda upp gróðurtjaldi.                            (nr. 435106).“

 

            Ákærði sótti þing 6. júní sl. ásamt skipuðum verjanda sínum. Að ósk ákæruvalds var þá bókað um breytingu á ákæru, útgefinni 6. febrúar 2017, að í stað orðanna „665 gr af hassi, ásamt umbúðum“ skuli þar standa „550,18 grömm af hassi“. Játaði ákærði skýlaust sök af þeirri ákæru, svo breyttri. Hann tók fram að hann hefði einungis verið burðarmaður efnanna. Þá kvaðst hann ekki taka afstöðu til upptökukröfu ákæruvaldsins, þar sem hann teldi sig þegar hafa látið efnin af hendi í Grænlandi.

            Ákærði játaði jafnframt skýlaust sök af báðum liðum ákæru sem gefin var út 29. mars 2017 og gerði ekki athugasemdir við upptökukröfur ákæruvaldsins sem þar greinir.           

            Var málið að því búnu þegar tekið til dóms á grundvelli 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjandi og verjandi ákærða höfðu reifað sjónarmið sín um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Af hálfu ákærða er þess krafist að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að sakarkostnaður, þ.m.t. þóknun og útlagður kostnaður verjanda, greiðist að verulegu leyti úr ríkissjóði.

            Um lýsingu málavaxta skírskotast til ákæruskjala. Rétt er að geta þess að rannsóknargögn máls samkvæmt ákæru, útgefinni 6. febrúar 2017, voru send ríkissaksóknara með bréfi lögreglustjórans á Grænlandi, dags. 5. september 2016, á grundvelli samstarfssamnings um saksókn í öðru ríki Norðurlandanna en því sem brot hefur verið framið í, frá 6. febrúar 1970.

            Með skýlausri játningu ákærða, sem á sér fullnægjandi stoð í rannsóknargögnum lögreglu, telst sannað að ákærði er sekur um fíkniefnalagabrot samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 6. febrúar 2017, með þeirri breytingu sem gerð var á ákærunni, ákærða til hagsbóta, í þinghaldi 6. júní sl. Brotið er að hluta til framið á Grænlandi, en óumdeilt er og stutt gögnum málsins að það telst refsivert að lögum sem þar gilda. Eru að því leyti uppfyllt skilyrði 5. gr. almennra hegningarlaga til að gera ákærða refsingu vegna brotsins hér á landi. Brotið telst réttilega heimfært í ákæru til 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001. 

            Með skýlausri játningu ákærða, sem á sér fullnægjandi stoð í rannsóknargögnum lögreglu, telst einnig sannað að ákærði er sekur um þau brot sem greinir í báðum liðum ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 29. mars 2017. Verjandi ákærða hreyfði ekki athugasemdum við aðalkröfu ákæruvalds um heimfærslu brots samkvæmt fyrri lið ákærunnar til 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2016 (heimilisofbeldi). Árás ákærða á föður sinn, eins og henni er lýst í ákæru, var alvarlegs eðlis og var brotaþoli fluttur bráðaflutningi á sjúkrahús, þar sem hann gekkst undir aðgerð vegna höfuðáverka. Þykir brotið réttilega heimfært í ákæru til 1. mgr. 218. gr. b. í samræmi við aðalkröfu ákæruvaldsins. Brot samkvæmt síðari lið ákærunnar telst réttilega heimfært í ákæru til 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001.

            Ákærði er fæddur árið [...] og á sér talsverðan sakaferil. Frá árinu 2000 hefur hann hlotið 18 refsidóma og gengist undir eina lögreglustjórasátt vegna ýmissa brota gegn almennum hegningarlögum, löggjöf um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Hafa ekki þótt efni til að skilorðsbinda fangelsisdóma sem hann hefur hlotið frá árinu 2003. Síðast hlaut hann 30 daga fangelsisdóm [...] 2016 fyrir brot gegn 2., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974. Brot ákærða samkvæmt báðum ákærum eru öll framin fyrir uppsögu þess dóms og ber því að ákveða refsingu ákærða nú sem hegningarauka við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem taka ber mið af 77. gr. sömu laga.

            Við ákvörðun refsingar fyrir fíkniefnalagabrotin er litið til umfangs, þ.e. magns efna, og dómvenju um refsingar á þessu sviði. Hvað fyrri ákæruna snertir er litið til þess að efnin voru ætluð til sölu og dreifingar á Grænlandi, þótt ekki liggi annað fyrir en að ákærði hafi einungis verið burðarmaður efnanna, eins og hann heldur fram. Hvað ræktun kannabisjurta varðar er litið til einbeitts ásetnings ákærða, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en hann hefur tvívegis áður á undanförnum tveimur árum verið staðinn að og hlotið refsingu fyrir sams konar brot.

            Eins og fyrr sagði er brot ákærða gegn 218. gr. b. almennra hegningarlaga alvarlegt og liggur allt að 6 ára fangelsi við broti af því tagi. Hlaut brotaþoli verulega áverka á höfði og andliti sem þurftu aðgerðar við og lá hann á sjúkrahúsi í nokkra daga. Í læknisvottorði, dags. 19. janúar 2017, kemur fram að of snemmt sé að segja til um hvort augnáverkar og verkir muni ganga yfir að fullu leyti eða ekki. Ákærði sýndi ekki sérstaka iðrun fyrir dómi, en kvað þá feðga vera sátta í dag. Kvaðst hann enn búa á heimili föður síns og sagðist annast hann. Ekkert hefur verið lagt fram í málinu sem styður staðhæfingar ákærða að þessu leyti og það eitt að hann og brotaþoli búi áfram saman á heimili eftir brotið horfir ekki sérstaklega til refsimildunar. Ákærða hefur áður verið gerð refsing fyrir brot tengd vísvitandi ofbeldi, síðast með dómi Hæstaréttar [...] 2011 í máli nr. [...] og þar áður dómi Héraðsdóms Austurlands [...] 2011. Er til þess litið, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þótt ekki sé um ítrekunaráhrif að ræða, enda tekur ítrekunarheimild 1. mgr. 218. gr. c. sömu laga samkvæmt orðanna hljóðan ekki til brota gegn 218. gr. b. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2016.

            Til mildunar horfir greið játning ákærða, bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, en að öðru leyti þykir hann ekki eiga sér málsbætur.

            Við refsiákvörðun verður samkvæmt framanrituðu litið til 1., 2., 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Litið er svo á að sjónarmið 3. mgr. sömu lagagreinar séu innifalin í nýju ákvæði 218. gr. b. laganna, og orka þau því ekki til frekari refsiþyngingar.

            Að öllu framanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin, sbr. 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, 12 mánaða fangelsi. Að virtum sakaferli ákærða þykja ekki efni til að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið.

            Upptæk eru gerð haldlögð fíkniefni, 550,18 grömm af hassi (665 grömm að meðtöldum umbúðum) og 9 kannabisplöntur, sem og önnur áhöld og munir sem lögregla lagði hald á og talin eru í upp í 13 tölusettum liðum skv. síðari ákærunni hér að framan, allt með vísan til þeirra ákvæða laga nr. 65/1974 og reglugerðar nr. 233/2001 sem greinir í ákærum.

            Í samræmi við niðurstöðu málsins og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar. Ekki er að sjá að sakarkostnaður hafi hlotist af við rannsókn máls samkvæmt ákæru, útgefinni 6. febrúar sl. Samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti vegna ákæru, útgefinni 29. mars sl., nemur sakarkostnaður vegna rannsóknar málsins 312.243 krónum og er sú fjárhæð studd reikningum. Fyrir dómsuppsögu féll sækjandi frá kröfu um 59.162 krónur vegna bílaleigubifreiðar. Eftir stendur kostnaður að fjárhæð 253.081 krónur vegna efnagreiningar á kannabisplöntum, læknisvottorða, læknisskoðunar ákærða, blóðsýnisrannsóknar og póstsendingar. Verjandi ákærða mótmælir því að kostnaður að fjárhæð 86.815 krónur vegna efnagreiningar kannabisplantna verði lagður á ákærða, enda hafi sú greining verið ónauðsynleg í ljósi játningar ákærða og þess að greina hefði mátt plönturnar með ódýrari hætti, s.s. vottorði plöntufræðings. Ekki verður á það fallist að kostnaður af greiningu plantnanna teljist ekki til nauðsynlegs sakarkostnaðar málsins. Verður ákærða því gert að greiða framangreindan sakarkostnað.

            Til sakarkostnaðar telst einnig kostnaður af störfum verjanda og réttargæslumanns. Þóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánsonar hrl., vegna starfa hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi þykir hæfilega ákveðin í einu lagi 463.760 krónur, hefur þá verið litið til ferðatíma verjandans og höfð hliðsjón af tímayfirliti hans. Þá ber að endurgreiða verjandanum útlagðan kostnað skv. reikningi vegna flugferðar, 34.055 krónur, en auk þess á verjandinn rétt til greiðslu dagpeninga vegna fæðis í einn heilan dag, 11.200 krónur. Samkvæmt rannsóknargögnum var Sigurður Jónsson hrl. tilnefndur réttargæslumaður brotaþola og var viðstaddur eina skýrslutöku af honum. Ekki liggur fyrir að réttargæslumaðurinn hafi fengið greitt fyrir vinnu sína á rannsóknarstigi og verður honum því ákvörðuð þóknun sem telst hæfilega ákveðin 66.960 krónur. Við ákvörðun þóknana verjanda og réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Samtals verður ákærða því gert að greiða 829.056 krónur í sakarkostnað.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

            Ákærði, A, sæti fangelsi í 12 mánuði.

            Upptæk eru gerð 550,18 grömm af hassi, auk umbúða, 9 kannabisplöntur og aðrir munir sem lögregla lagði hald á og nánar er lýst í 13 tölusettum liðum í forsendum dómsins, þ.e. 9 blómapottar, einn 4 tommu barki, þrír plastbakkar, loftblásari, loftsía, tvær rafmagnsviftur, spennugjafi fyrir ræktunarlampa, gróðurtjald, gróðurhúsalampi, fimm plastfötur ásamt plastbökkum, tvö rafmagnsfjöltengi, tímarofi og stálsúlur til að halda upp gróðurtjaldi.   

            Ákærði greiði 829.056 krónur í sakarkostnað. Er þar innifalin þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl.  463.760 krónur, ferðakostnaður og dagpeningar verjandans, 45.255 krónur, og þóknun tilnefnds réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Jónssonar hrl., 66.960 krónur.

 

Hildur Briem