• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 24. maí 2018 í máli nr. S-3/2018:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

(Gísli M. Auðbergson lögmaður)

gegn

Samúel Þórir Grétarssyni

(Kristján ÓskarÁsvaldsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí sl., höfðaði lögreglustjórinn á Austurlandi með ákæru, útgefinni 8. janúar 2018, á hendur Samúel Þór Grétarssyni kennitala […], […], […] og X.

Endanleg verknaðarlýsing ákæru og sakargiftir eru samkvæmt yfirlýsingu sækjanda fyrir dómi svohljóðandi:

            ,,fyrir líkamsárás í …, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 8. júlí 2017 utandyra á ….götu á móts við …., [....] veist að A og slegið hann ítrekað í andlitið svo hann féll í jörðina, með þeim afleiðingum að hann hlaut marbletti og dofnað við gagnauga hægra megin, marblett og bjúg við vinstra auga, sár á vinstri kinn, 1 cm langt sár, marblett og bjúg innan á vinstri vör hægra megin og marbletti á hægri handlegg.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Einkaréttarkrafa: Af hálfu A er þess krafist að ákærðu verði in solidum dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 500.000, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 8. júlí 2017 til þess dags þegar mánuður verður liðinn frá því að bótakrafa þessi verður birt fyrir ákærðu og eftir það er krafist dráttarvaxta til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða skv. málskostnaðarreikningi, sem verður lagður fram við meðferð málsins, auk virðisaukaskatts á málskostnað.“.

 

            Við meðferð málsins fyrir dómi féll fulltrúi ákæruvalds frá sakargiftum á hendur X.  Þá féll lögmaður bótakrefjanda einnig frá öllum kröfum á hendur X, en áréttaði aftur á móti lýsta kröfu á hendur ákærða Samúel.

 

I.

            Fyrirkall ásamt ákæru var birt ákærða Samúel þann 22. janúar sl. Samkvæmt beiðni ákærða, sem dagsett er 24. janúar sl., var honum skipaður verjandi. Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins, þann 8. febrúar sl., en sendi þess í stað dómara yfirlýsingu, sem m.a. er vottfest af lögmanni. Yfirlýsingin, sem er dagsett 15. febrúar sl., er svohljóðandi: ,,Ég Samúel Þórir Grétarsson …játa skýlaust þá háttsemi sem mér er gefið að sök samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, dags. 8. janúar 2018, í sakamáli nr. S-3/2018, er varðar líkamsárás aðfaranótt laugardagsins 8. júlí í Neskaupsstað. Hvað einkaréttarkröfu A varðar, þá fellst ég á bótaábyrgð, en krefst lækkunar á bótkröfu.“.

            Fyrirkall var á ný gefið út af hálfu dómsins til handa ákærða Samúel með boði um að mæta fyrir dóminn. Í fyrirkalli þessu, sem birt var ákærða Samúel þann 27. apríl sl., er þess getið að fjarvist hans við boðaða fyrirtöku málsins fyrir dómi geti haft þá þýðingu að hún verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið brot það sem hann hafi verið ákærður fyrir samkvæmt ákæru og að dómur verði í framhaldi af því lagður á málið að honum fjarstöddum.

            Við fyrirtöku málsins hinn 17. maí sl. sótti ákærði Samúel ekki þing, en lögmaður, sem mættur var fyrir hönd skipaðs verjanda hans áréttaði efni áður rakinnar yfirlýsingar frá 15. febrúar sl., vitandi að það yrði metið með sama hætti og hann hafði verið varaður við í fyrirkalli, nefnilega svo að hann viðurkenndi að hafa framið það brot sem hann væri ákærður fyrir og að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum. Að því sögðu lagði lögmaðurinn málið í dóm, líkt og fulltrúi ákæruvalds og lögmaður bótakrefjanda.

            Samkvæmt framangreindu sótti ákærði ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. ákvæði 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Að ofangreindu virtu er að áliti dómsins heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008, að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varði brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn eru talin nægjanleg til sakfellingar.

            Að virtum rannsóknargögnum lögreglu, þ. á m. framburðarskýrslu ákærða, ljósmyndum og læknisvottorði, en einnig að virtri áður rakinni yfirlýsingu ákærða, eru að áliti dómsins áður greind lagaskilyrði uppfyllt til að leggja dóm á málið.

Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

II.

            Ákærði, sem er 22 ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins ekki áður gerst brotlegur við lög.

            Ákvarða ber refsingu ákærðu m.a. með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þykir hún hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

            Gísli M. Auðbergsson lögmaður lagði fram hjá lögreglu, fyrir hönd brotaþolans A, rökstudda miskabótakröfu að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta og málskostnaðar. Bótakrafan, sem er dagsett 8. október 2017, var birt ákærða Samúel 27. sama mánaðar.

            Afstöðu ákærða til kröfunnar er hér að framan lýst, en hann samþykkt bótaskyldu, en andmælti fjárhæðinni. 

            Það er niðurstaða dómsins að með greindu líkamsárásarbroti hafi ákærði Samúel bakað sér bótaskyldu gagnvart brotaþolanum A. Verður því fallist á að brotaþoli eigi rétt til miskabóta úr hendi ákærða með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

            Við ákvörðun miskabótanna er einkum litið til líkamlegra afleiðinga árásarinnar og þykja þær hæfilegar 200.000 krónur, ásamt vöxtum eins og nánar segir í dómsorði. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði Samúel að auki dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað vegna lögmannsaðstoðar, sem þykir hæfilega ákveðin 186.000 krónur, en við ákvörðun þeirrar fjárhæðar hefur verið tekið mið af virðisaukaskatti.

            Af hálfu ákæruvalds féll enginn sakarkostnaður til samkvæmt yfirlýsingu sækjanda fyrir dómi. Dæma ber ákærða til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ástvaldssonar lögmanns, sem að teknu tilliti til virðisaukaskatts og tímaskýrslu ákvarðast 200.260 krónur. 

            Af hálfu ákæruvalds fór með málið Helgi Jensson fulltrúi.

            Ólafur Ólafsson, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

            Ákærði, Samúel Þór Grétarssyni, sæti fangelsi í 45 daga, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði Samúel greiði A 200.000 krónur í miskabætur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. júlí 2017 til 27. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags og 186.00 krónur í málskostnað.

            Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ástvaldssonar lögmanns, 200.260 krónur.