• Lykilorð:
  • Tolllagabrot
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot

 D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 23. maí 2018 í máli nr. S-21/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

 gegn

 Jóni Gesti Haukssyni

 

            Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 17. maí sl. er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 23. mars 2018, en móttekinni 16. apríl sl., á hendur Jóni Gesti Haukssyni, kt. […], […] […], en með dvalarstað að […] í sama sveitarfélagi;

fyrir fyrir eftirtalda háttsemi sem framin var á árinu 2017:

I.

            Fyrir brot á tollalögum og vopnalögum, í Suðurnesjabæ, með því að hafa snemma morguns, miðvikudaginn 10. maí flutt ólöglega til landsins frá útlöndum og án heimildar og án þess að gera tollayfirvöldum grein fyrir því, við komu flugs WOW air, nr. WW-617, frá Spáni, til Keflavíkurflugvallar, einn hníf með felublaði (butterfly hníf) og einn brúsa með piparúða, sem voru haldlagðir af tollgæslunni á Suðurnesjum við leit í farangri ákærða, sem fór á grænt tollhlið. (317-2017-1677).

II.

            Fyrir umferðarlagabrot í Suðurnesjabæ með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 6. ágúst, ekið bifreiðinni  […], sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældust 3,8 ng/ml,  amfetamín í blóði mældist 515 ng/ml og MDMA í blóði mældist 140 ng/ml). Bifreiðinni ók ákærði Njarðarbraut til norðurs, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn við Reykjavíkurtorg. (008-2017-11734).

III.

            Fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa að morgni sunnudagsins 2. september, ekið bifreiðinni […], sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældust 3,7 ng/ml,  amfetamín í blóði mældist 145 ng/ml og MDMA í blóði mældist 1100 ng/ml). Bifreiðinni ók ákærði suður Lágmúla og inná Háaleitisbraut, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn, nálægt Kringlumýrarbraut. (007-2017-51711).

 

            Telst ákæruliður I varða við 1. mgr. 170. gr., sbr. 3. mgr. 27. gr. tollalaga nr. 88/2005 sbr. breytingarlög og b. lið, 2. mgr. og 4. mgr., 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. breytingarlög.

            Teljast ákæruliðir II og III varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þá er krafist upptöku á hníf með 8 cm löngu blaði og einum brúsa af piparúða, sem haldlagður var skv. I ákærulið, með vísan til 1. tl., 1. mgr. 69. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög, sbr. einnig 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005.“.

A.

            Fyrirkall í máli þessu var gefið út 24. apríl sl. og var það birt ákærða 11. maí sl. Við þingfestingu málsins sótti ákærði ekki þing og boðaði ekki forföll og var málið þá dómtekið að kröfu fulltrúa ákæruvalds með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

            Þykir mega jafna framangreindri útivist ákærða til játningar hans með vísan til ofangreindrar lagagreinar, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins. Telst brot ákærða því nægjanlega sannað og er það réttilega heimfært til lagaákvæða í ákæru.

B.

            Ákærði, sem er 41 árs, á samkvæmt sakavottorði nokkurn sakaferil að baki, m.a. vegna umferðarlagabrota, einkum fíkniefna- og sviptingaraksturs, sbr. ákvæði 45. gr. a og 48. gr. umferðarlaganna nr. 50/1987 með síðari breytingum. Ákærði gekkst þannig undir viðurlagaákvörðun þann 23. september 2014 og var þá gert að greiða sekt til ríkissjóðs, m.a. vegna fíkniefnaakstur, en var þá einnig sviptur ökurétti í tólf mánuði. Þá var ákærði þann 30. apríl 2015 dæmdur til að greiða sekt til ríkssjóðs m.a. fyrir fíkniefna- og sviptingarakstur, en var hann þá jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár frá 22. september 2015. Loks var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi þann 21. nóvember 2016 fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni.

            Með hliðsjón af lýstum sakaferli og dómvenju þykir refsing ákærða nú eftir atvikum hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi og 125.000 króna sekt til ríkissjóðs. Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins sæti hann níu daga fangelsi.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaganna og sakaferils ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja

            Í samræmi við kröfu ákæruvalds, sbr. ákvæði 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga með síðari breytingu og 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 skal ákærði sæta upptöku á haldlögðum hnífi og einum brúsa af piparúða.

            Í samræmi við málsúrslit skal ákærði greiða allan sakarkostnað, að fjárhæð 349.569 krónur, sem er útlagður kostnaður lögreglu við rannsókn málsins samkvæmt sakarkostnaðaryfirlitum.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Jón Gestur Hauksson, sæti fangelsi í 45 daga.

            Ákærði greiði 125.000 króna sekt til ríkissjóðs og skal hann sæta níu daga fangelsi greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði sæti upptöku á haldlögðum hnífi og einum brúsa af piparúða.

            Ákærði greiði 349.569 krónur í sakarkostnað.