• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 17. október 2017 í máli nr. S-34/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra) (Einkaréttarkrafa: Agnar Þór Hauksson hdl.)

gegn

Sverri Kristjáni Einarssyni

(Eva Dís Pálmadóttir hrl.)

                                        

            Mál þetta, sem dómtekið var 3. október 2017, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 23. júní 2017, á hendur Sverri Kristjáni Einarssyni, kt. [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás í Fjarðabyggð með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 13. apríl 2017, utandyra við skemmtistaðinn Kaffihúsið Eskifirði, Strandgötu 10, Eskifirði, rifið harkalega í A og hrint henni svo hún féll í jörðina og lenti illa, með þeim afleiðingum að liðband í hægra hné slitnaði og efri endi hægri sköflungs brotnaði auk þess sem hægra hné tognaði illa og það blæddi inn á hægri hnjálið.“

            Í ákæruskjali er framangreind háttsemi talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Með framhaldsákæru, útgefinni 2. október 2017, var svohljóðandi einkaréttarkröfu aukið við málið, með samþykki ákærða, sbr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála:

            „Í málinu er þess krafist af hálfu Agnars Þórs Guðmundssonar hdl., f.h. brotaþola A, kt. [...], að ákærði verði dæmdur til greiðslu miska- og skaðabóta samtals að fjárhæð kr. 1.027.961, með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 13. apríl 2017, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því að krafan er birt ákærða, til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24% virðisaukaskatti, vegna kostnaðar brotaþola við að halda fram bótakröfu sinni í málinu.“

Í þinghaldi 3. október sl. játaði ákærði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru. Var málið þá þegar tekið til dóms samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, án frekari sönnunarfærslu, eftir að sækjanda og skipuðum verjanda ákærða hafði gefist kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga, sem og um einkaréttarkröfu, en sækjandi flutti þann þátt málsins af hálfu lögmanns brotaþola. Af hálfu ákærða er þess krafist að honum verði gerð sú vægasta refsing er lög leyfa og að komi til fangelsisrefsingar verði hún skilorðsbundin. Aðallega er krafist sýknu af einkaréttarkröfu en til vara lækkunar hennar.

            Samkvæmt rannsóknargögnum ber ákærða og brotaþola saman um að brotaþoli hafi sakað ákærða um refsiverða háttsemi í aðdraganda árásarinnar. Um málsatvik skírskotast a.ö.l. til ákæru. Með skýlausri játningu ákærða, sem samræmist rannsóknargögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás með þeirri háttsemi sem lýst er ákæru. Í ljósi afleiðinga brotsins sem lýst er í ákæru, en sú lýsing fær stoð í læknisvottorði, telst brot ákærða réttilega heimfært til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði er fæddur árið 1981. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur honum einu sinni verið gerð sektarrefsing og ökuréttarsvipting fyrir umferðarlagabrot, en það hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar hans nú. Eins og atvikum er lýst í rannsóknargögnum málsins verður hvorki á það fallist að rétt sé að beita 3. mgr. 218. gr. c. almennra hegningarlaga, né heldur 4. tölul. 1. mgr. 74. gr. eða 75. gr. sömu laga til refsilækkunar. Við ákvörðun refsingar verður aftur á móti litið til þess brotaþoli hlaut talsverð meiðsl af árás ákærða og verður ekki á það fallist að meiðslin hafi orðið mun meiri en ákærða mátti vera ljóst að gætu hlotist af háttsemi hans. Á hinn bóginn er til þess litið að ákærði hefur játað brot sitt greiðlega, bæði við rannsókn lögreglu og fyrir dómi, og auk þess samþykkt að einkaréttarkrafa brotaþola, sem fyrst kom fram eftir að ákæra hafði verið gefin út, kæmist að í málinu. Er því við ákvörðun refsingar tekið mið af 1., 5. og 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

             Að framanrituðu virtu telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en í ljósi greiðar játningar ákærða og þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum verður fullnustu refsingarinnar frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Í einkaréttarkröfu brotaþola, dags. 15. september 2017, er krafa hennar sundurliðuð svo að krafist sé 1.000.000 króna í miskabætur, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og 27.961 krónu vegna útlagðs kostnaðar af læknismeðferð og flugi til Reykjavíkur, sbr. 1. gr. sömu laga. Ákærði krefst sýknu af einkaréttarkröfunni og vísar þar um til eigin sakar brotaþola. Ekki verður á það sjónarmið fallist. Ákærði er hér sakfelldur fyrir líkamsárás á brotaþola sem varðar miskabótum. Þá er ákærði bótaskyldur samkvæmt almennum reglum vegna þess tjóns sem af árás hans hlaust. Þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákveðnar, með vísan til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um áverka hennar, 350.000 krónur. Þá er krafan um útlagðan lækna- og ferðakostnað studd gögnum og hefur henni ekki verið andmælt tölulega eða með öðrum rökum en að framan greinir. Verður á hana fallist. Samtals verður ákærða því gert að greiða brotaþola 377.961 krónu í skaða- og miskabætur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist er. Upphafstímamark dráttarvaxta miðast við mánuð frá því er framhaldsákæra var lögð fram á dómþingi, en ekki verður séð að einkaréttarkrafan hafi verið birt fyrr fyrir ákærða. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola bætur vegna kostnaðar af aðstoð lögmanns við að halda fram bótakröfu í málinu. Þykja þær bætur hæfilega ákveðnar með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað málsins, sem samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins nemur 14.450 krónum vegna öflunar læknisvottorðs. Skipaður verjandi ákærða, Eva Dís Pálmadóttir hrl., afsalaði sér þóknun úr ríkissjóði vegna verjendastarfanna.

            Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Sverrir Kristján Einarsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði brotaþola, A, 377.961 krónu í miska- og skaðabætur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 13. apríl 2017, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá 3. nóvember 2017 til greiðsludags og 124.000 krónur í málskostnað.

            Ákærði greiði 14.450 krónur í sakarkostnað.

                                                                

                                                                 Hildur Briem