• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 19. september 2017 í máli nr. S-30/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

gegn

Róberti Reynissyni

 

            Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 5. september 2017, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 15. maí 2017, á hendur Róberti Reynissyni, [...],[...],[...], „fyrir umferðarlagabrot í Fjarðabyggð með því að hafa föstudaginn 3. mars 2017, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, ekið bifreiðinni NU950, vestur Búðaveg í Fáskrúðsfirði, þar sem hann missti stjórn á bifreiðinni og ók út af veginum og niður háan kant og hafnaði bifreiðin inni í garði við Búðaveg 37a. Vínandamagn í blóði kærða mældist 2,49 ‰.“

            Í ákæru er háttsemin talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum. Þar er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. sömu laga.

            Um málavexti skírskotast til ákæru. Ákærði kom ekki fyrir dóminn við þingfestingu málsins og boðaði ekki forföll, enda þótt birting ákæru hafi farið fram með lögmætum hætti og þess verið getið í fyrirkalli að hann mætti búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum.

            Í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 24. gr. laga nr. 78/2015, og þar sem dómari telur framlögð gögn nægileg, verður ákærði sakfelldur fyrir þau umferðarlagabrot (ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti), sem honum eru gefin að sök í ákæru. Eru brotin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæruskjali.

            Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann fimm sinnum sætt refsingu frá árinu 2004. Hann hefur tvívegis áður sætt refsingu fyrir ölvunarakstur, fyrst með viðurlagaákvörðun 26. nóvember 2004 og svo með dómi 8. desember 2008, en sökum þess hve langt er um liðið hafa þær refsiákvarðanir ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans nú. Þýðingu hafa aftur á móti fjórar refsiákvarðanir sem ákærði hefur sætt fyrir akstur sviptur ökuréttindum (brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga), þ.e. nefndur dómur frá 8. desember 2008, lögreglustjórasátt frá 4. febrúar 2011, dómur frá 26. maí 2014 og loks dómur frá 19. október 2015. Í dómaframkvæmd hafa slík brot varðað 30 daga óskilorðsbundnu fangelsi við aðra ítrekun, og þyngri refsingu sé um frekari ítrekanir að ræða. Ákærði hefur nú í fimmta sinn gerst sekur um að aka sviptur ökurétti, þ.e. um fjórðu ítrekun slíks brots er að ræða.

            Með hliðsjón af framangreindu, dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi.

            Þá ber að svipta ákærða ökurétti vegna þess ölvunaraksturs sem hann er sakfelldur fyrir, með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi 8. desember 2008. Verður ekki séð að honum hafi verið veitt ökuréttindi að nýju á grundvelli 106. gr. umferðarlaga. Verður ævilöng ökuréttarsvipting hans því áréttuð.

            Samkvæmt yfirliti ákæruvalds, sem stutt er gögnum, nemur sakarkostnaður  vegna sýnatöku og rannsóknar 48.998 krónum. Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, verður ákærði dæmdur til að greiða þann kostnað, en annar sakarkostnaður hlaust ekki af málinu.

            Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Róbert Reynisson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

            Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

            Ákærði greiði 48.998 krónur í sakarkostnað.

 

                                                            Hildur Briem