• Lykilorð:
  • Skjalafals

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 20. mars 2019 í máli nr. S-6/2019:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 X

(Stefán Þór Eyjólfsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars 2019, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni þann dag, á hendur X […], […] ríkisborgara, með óþekkt heimilisfang:

„fyrir skjalafals, með því að hafa, þriðjudaginn 19. mars 2019, framvísað við lögreglu, á Seyðisfjarðarhöfn, í blekkingarskyni, grísku vegabréfi nr. […] á nafni A fæddum […], með gildistíma frá 8. júní 2015 til 7. júní 2020 sem reyndist breytifalsað, þ.e. falsað að hluta, er ákærði kom í vegabréfaskoðun vegna komu farþegaferjunnar Norrænu frá Hirtshals í Danmörku, með viðkomu í Færeyjum.                                                                                                      

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Skipaður verjandi, Stefán Þór Eyjólfsson lögmaður, krefst þess að ákærða verði ekki gerð refsing í máli þessu, en til vara að honum verði gerð eins væg refsing og lög heimila. Þá krefst verjandinn hæfilegrar þóknunar vegna starfa sinna hér fyrir dómi og við rannsókn málsins hjá lögreglu.

 

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og háttsemi hans er lýst í ákæru.

Játning ákærða er í samræmi við rannsóknarskýrslur lögreglu, þ. á m. framburðarskýrslu, sem hann staðfesti fyrir dómi, en þar lýsir hann m.a. bágum aðstæðum sínum, þ. á m. að hann hafi haft ástæðu til að óttast um líf sitt yrði honum gert að fara á ný til föðurlands síns. Fyrir dómi greindi ákærði m.a. frá því að hann hefði dvalið sem flóttamaður í D undanfarin rúm þrjú ár, en að hælisbeiðni hans þar í landi hafi verið hafnað. Hann hafi því haft ástæðu til að óttast að hann yrði sendur úr landi og því óttast um líf sitt. Við komu hingað til lands hafi hann þegar greint lögregluyfirvöldum frá því að hann vildi sækja um hæli sem flóttamaður. Var þessi síðastgreinda frásögn hans staðfest af sækjanda hér fyrir dómi.

            Með játningu ákærða og með vísan til ofangreinds er að áliti dómsins eigi ástæða til að efa að játning ákærða sé sannleikanum samkvæm. Er því nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst, en brot hans er þar réttilega heimfært til laga.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008, en sækjanda og skipuðum verjanda var gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og viðurlög. 

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali.

 

II.

            Ákærði, sem er 28 ára […] ríkisborgari, á ekki sakaferil hér á landi að baki samkvæmt yfirlýsingu sækjanda. Sakavottorðs ákærða var ekki aflað og nýtur því engra gagna við um að hann hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Verður við ákvörðun refsingar að miða við þá staðreynd, skýlausa játningu ákærða og að hann hefur verið samvinnuþýður við rannsókn málsins. Þá verður ekki litið fram hjá ákvæði 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sem íslenska ríkið gerðist aðili að 30. nóvember 1955, sbr. auglýsingu nr. 74/1955, sem kveður á um að aðildarríkin eigi ekki að beita refsingu gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins ef þeir koma beint frá landi, þar sem lífi þeirra eða frelsi var ógnað, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöld og beri fram gildar ástæður fyrir ólöglegri komu sinni. Þó svo að samningur þessi hafi ekki lagagildi hérlendis og ákvæði hans geti þar af leiðandi ekki leitt til sýknu ber engu að síður að skýra lög til samræmis við slíkar heimildir, en af hálfu ákæruvalds hafa bágborgnar ástæður ákærða ekki verið dregnar í efa. Að þessu virtu en einnig í ljósi breyttra réttarviðhorfa í málum sem þessum hér á landi, sbr. að því leyti lög um útlendinga nr. 80/2016, en einnig dóma Hæstaréttar Íslands nr. 345/2015 og 86/2016, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, sem fært þykir að skilorðsbinda eins og segir í dómsorði.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda síns við alla meðferð málsins, fyrir lögreglu og dómi, eins og nánar segir í dómsorði.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:    

            Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Þórs Eyjólfssonar lögmanns, 168.640 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.