• Lykilorð:
  • Líkamsárás

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands mánudaginn 14. janúar 2019 í máli nr. S-31/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

 gegn

 A

 (Kristján Stefánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 20. júní sl., á hendur A, kennitala […], […], […].

            Í endanlegri gerð ákæru, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, er ákærði saksóttur;

            ,,fyrir líkamsárás á […], gagnvart sambýliskonu sinni B, kt. […], með því að hafa mánudagskvöldið 5. mars 2018, […], […], veist að B og slegið hana með flötum lófa á vinstri kinn svo hún hné niður með þeim afleiðingum að hún fékk kúlu, roða og eymsl á gagnauga hægra megin í hárlínu efst á enni.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Skipaður verjandi ákærða, Kristján Stefánsson lögmaður, krefst þess að ákvörðun refsingar ákærða verði frestað skilorðsbundið, til vara að ákærða verði ekki gerð refsing og til þrautavara að refsing hans verði eins væg og lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður falli á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málflutningsþóknun og ferðakostnaðu hans.

 

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru. Játning ákærða hefur stoð rannsóknarskýrslum lögreglu, þ. á m. ljósmyndum, framburðarskýrslum og læknisvottorði.

 

            Með játningu ákærða og með vísan til ofangreinds er eigi ástæða til að efa að játning ákærða sé sannleikanum samkvæm. Er því nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst. Brot ákærða eru réttilega heimfært til laga í ákæru.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. 

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali.

 

II.

            Ákærði, sem er […] ára, hefur ekki sætt refsingum, sem áhrif hafa í máli þessu.

            Þegar litið er til þess að umræddur verknaður ákærða beindist gegn sambýliskonu hans verður litið til 1. tl. 1. mgr. 70. gr., en einnig 3. mgr. sömu lagagreinar hegningarlaganna nr. 19/1940, og þá ákærða til refsiþyngingar. Fyrir dómi játaði ákærði á hinn bóginn brot sitt skýlaust, líkt og hann hafði áður gert við rannsókn lögreglu. Fyrir dómi lýsti ákærði jafnframt yfir iðran sinni vegna verknaðarins, en fyrir liggur að hann hefur nýverið leitað sér sérfræðiaðstoðar vegna þessa máls. Ber að líta til þessara viðbragða og þá til refsimildunar. Á hinn bóginn verður ekki litið til afstöðu brotaþola og þar á meðal skriflegrar yfirlýsingar þess efnis að hún vildi ekki gefa skýrslu fyrir dómi enda er ákæruvaldið ekki bundið slíkri afstöðu við saksókn í málum sem þessum.

            Að öllu ofangreindu virtu telst refsing ákærða hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi, en með hliðsjón af því sem hér að ofan hefur verið rakið, sbr. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, þykir fært að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 og framlagðra gagna ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað vegna læknisvottorðs að fjárhæð 13.170 krónur. Þá þykir rétt m.a. með hliðsjón af því að breyting var gerð á verknaðarlýsingu ákæru eftir höfðun málsins, að ákærði greiði helminginn af þóknun og ferðakostnaði hins skipaða verjanda eins og nánar segir í dómsorði og þá með hliðsjón af tíma- og verkskýrslu. Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:    

            Ákærði, A, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að þremur árum liðnum frá dómsuppsögu að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 13.170 krónur, en einnig helming þóknunar skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, sem í heild ákvarðast 463.760 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig helming ferðakostnaðar hans, sem í heild er að fjárhæð 43.931 króna. Helmingur málflutningsþóknunar, auk helmings ferðakostnaðarins, greiðist úr ríkissjóði.