• Lykilorð:
  • Gáleysi
  • Kynferðisbrot

 

 D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands föstudaginn 28. september 2018 í máli nr. S-1/2018:

 Ákæruvaldið

 (Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)

 (Eva Dís Pálmadóttir lögmaður vegna réttargæslu)

 gegn

 A

 (Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 5. september sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 24. janúar 2018, á hendur A, kennitala […], […], […]:

            „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa sunnudaginn 1. mars 2015 í samskiptum við B, fæddan […], þá […] ára, á samskiptaforritinu …. mælt sér mót við hann í því skyni að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök og að hafa hitt hann í framangreindum tilgangi að kvöldi sama dags í bifreið ákærða sem lagt var á óþekktum stað við […], þar sem drengurinn veitti ákærða munnmök og þeir höfðu samræði, án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur drengsins.

            Telst brot þetta varða við 204. gr., sbr. 1. og 4. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Af hálfu Evu Dísar Pálmadóttur lögmanns er gerð einkaréttarkrafa fyrir hönd brotaþolans B, sem dagsett er 11. ágúst 2016. Við aðalmeðferð málsins var þess krafist „að ákærða verði gert að greiða miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2015 til 16. september sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er gerð krafa um greiðslu þóknunar til handa réttargæslumanni vegna réttargæslustarfa, sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 216. gr. sömu laga, þ.m.t. vegna framsetningar bótakröfu.“

            Ákærði neitar sök. Dómkröfur skipaðs verjanda, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, eru aðallega þær að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandinn þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni og til þrautavara að fjárhæð hennar verði lækkuð að mati réttarins. Loks krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun hans við alla meðferð málsins, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

I.

1.         Samkvæmt málsskjölum barst lögreglu kæruerindi frá Félagsþjónustu […] þann 28. júní 2016 um ætluð kynferðisbrot ákærða gagnvart piltinum B, en með erindinu fylgdi bréf móður hans, sem dagsett er 23. sama mánaðar.

            Samkvæmt gögnum var málið þegar tekið til rannsóknar og var ákærði handtekinn 30. júní 2016 og færður til yfirheyrslu. Samkvæmt gögnum beindist rannsóknin að því hvort ákærði hefði brotið kynferðislega gegn nefndum pilti fyrri hluta vetrar 2015, en hann var þá á […] ári.

            Við lögreglurannsókn málsins var ákærði yfirheyrður um sakarefnið 30. júní nefnt ár, að viðstöddum tilnefndum verjanda, sem síðar var skipaður til starfans. Yfirheyrslan var tekin upp í hljóði og mynd, líkt og aðrar skýrslur, þ. á m. af vitnum. Eru gögn þar um á meðal málsskjala.

            Brotaþolinn, pilturinn B, var yfirheyrður af lögreglu 1. júlí 2016, að viðstöddum tilnefndum réttargæslumanni, sem við meðferð málsins fyrir dómi var skipaður til starfans. Loks gaf móðir piltsins, vitnið C, skýrslu þann 8. júlí nefnt ár.

 

2.         Samkvæmt rannsóknargögnum veitti ákærði lögreglu heimild til húsleitar á heimili sínu við upphaf rannsóknar máls þessa. Var í beinu framhaldi af því haldlagður tölvubúnaður, sími, gagnageymslur og annar slíkur búnaður á heimili ákærða. Var búnaðurinn sendur til rannsóknar hjá tölvu- og rafdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 1. júlí 2016.

            Við lögreglurannsókn málsins kom m.a. fram að ákærði og nefndur piltur höfðu verið í samskiptum á sértöku forriti, Grindr. Af hálfu rannsóknaraðila voru endurheimt gögn sem staðfestu þessi samskipti í byrjun júní 2016 og voru gögn þar um lögð fyrir dóminn. Óumdeilt er að gögn þessi greina frá orðræðu ákærða og brotaþola um kynlíf í nefndum mánuði. Samkvæmt skýrslu lögreglu hafði ákærði í samskiptum þessum notað notendanafnið […], en brotaþoli hafði aftur á móti notað tvö nöfn, þ.e. […] og […].

            Samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglu eru eldri samskipti í umræddu forriti ekki vistuð miðlægt. Af þessum sökum voru öll hin eldri gögn um samskipti ákærða og brotaþola horfin úr símtækjum þeirra og þar á meðal um þau sem fram höfðu farið fyrri hluta vetrar á árinu 2015.

            Samkvæmt framlögðum gögnum lögreglu, en einnig gögnum sem skipaður verjandi ákærða lagði fyrir dóminn, er fyrrgreint forrit helst notað í samskiptum samkynhneigðra karlmanna „til að eiga samskipti og finna aðila, (sem) hafa (slíka) kynhneigð og er nærri þeim sem leitar. Forritið getur, sé það heimilað, gefið upp í hve mikilli nánd viðkomandi er við þann sem hann er að eiga samskipti við, það er út frá staðsetningu.“

            Samkvæmt framlögðum gögnum er tiltekið í skilmálum nefnds forrits að aldurslágmark til notkunar þess miðist við 18 ára aldur.

 

3.         Samkvæmt gögnum óskaði barnaverndarnefnd í heimabyggð brotaþola eftir sérfræðilegri greiningu og ráðgjöf/meðferð fyrir brotaþola með bréfi dagsettu 28. júní 2016. Var  brotaþola í framhaldi af því boðið upp á meðferðarviðtöl hjá Barnahúsi, en fyrir liggur að hann fór í alls fimm viðtöl á tímabilinu frá 7. júlí til 3. nóvember 2016, en hann var þá […] ára.      

            Rannsóknargögn lögreglu voru send embætti héraðssaksóknara til ákvörðunar 13. september 2016.

 

II.

            Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

     Ákærði skýrði frá því fyrir dómi að upphaf samskipta hans og kynna við brotaþola hefði verið fyrri hluta ársins 2015. Ákærði vísaði til þess að hann hefði á þessu tímabili dvalið um hríð í fyrrum heimabyggð sinni, […], þ.e. frá 5. janúar 2015 og til loka marsmánaðar, vegna tímabundinna leiðbeiningastarfa við tiltekin félagsstörf í framhaldsskóla, sem fram hefðu farið utan hefðbundins skólatíma. Um hafi verið að ræða blandaðan hóp nemenda, sem upphaflega voru um þrjátíu úr öllum bekkjardeildum, en þeir verið um fimmtán undir lokin. Ákærði kvaðst hafa komið á ný til sveitarfélagsins í lok maímánaðar sama ár, en þá vegna fastrar stöðu sem hann hafði þá verið ráðinn til. Í ljósi þessa og hversu langt var um liðið kvaðst ákærði fyrir dómi hafa svarað því til við lögreglurannsókn málsins að hann gæti í raun hvorki neitað því né játað að sá atburður sem vísað hafi verið til í kæru, og sem síðar hefði ratað í ákæru, hefði gerst þann 1. mars 2015. Ákærði vísaði til þess svars síns fyrir dómi og kvaðst þannig ekki geta staðfest hvort hann hefði átt í nefndum samskiptum við brotaþola fyrri hluta ársins 2015 eða að það hefði verið aðeins síðar á því ári. Ákærði skýrði frá því að hann hefði áður tekið að sér sambærileg verkefni í tvígang, þ.e. á árunum 2002 og 2010/2012, en að öðru leyti ekki hafst við í sveitarfélaginu um árabil.

            Ákærði greindi frá því að hann hefði á nefndum tímaskeiðum á árinu 2015 haldið til í húsnæði foreldra sinna, sem staðið hefði autt þar sem foreldrarnir hefðu verið fluttir úr sveitarfélaginu.

            Ákærði skýrði frá því að samskipti hans við brotaþola hefðu hafist snemma kvölds, um kl. 19:30, en hann hafi þá verið á fyrrnefndum samskiptavef eða Grindr-forriti/appi, og þá í gegnum eigið símtæki. Ákærði áréttaði að um væri að ræða sérstakt forrit, sem nær einungis væri notað af samkynhneigðum karlmönnum, og að samkvæmt notendaskilmálum væri aldurslágmark notenda miðað við 18 ár. Ákærði kvaðst hafa hagað því þannig, að hann hefði haft eigin prófíl með andlitsmynd, en að auki skráð aðrar persónuupplýsingar, þ. á m. aldur. Ákærði sagði að tilgangur hans með netnotkuninni umrætt kvöld hefði verið að komast í kynni við aðra samkynhneigða karlmenn, líkt og hann hefði oft gert áður, og þá eftir atvikum til þess að eiga með þeim kynlíf þó svo að það hefði ekki verið alveg einhlítt í gegnum tíðina. Ákærði bar að þeir karlmenn sem hann hefði haft samskipti við með þessum hætti hefðu yfirleitt verið á svipuðum aldri og hann sjálfur, en einnig karlmenn allt að tíu árum yngri.

            Fyrir dómi staðhæfði ákærði að það hefði verið brotaþoli sem upphaflega hefði sett sig í samband við hann á nefndu forriti umrætt kvöld og því hefði það í raun verið hann sem hóf netspjall þeirra. Ákærði kannaðist þannig ekki við þá frásögn brotaþola við skýrslugjöf hjá lögreglu að þeir hefðu verið í netsamskiptum í nokkra daga áður en þeir hittust. Ákærði staðhæfði að brotaþoli hefði í greint sinn ekki haft uppi eigin prófílmynd og ekki heldur getið um aldur sinn. Þannig hefði brotaþoli aðeins haft uppi andlitslausan prófíl, en bar að það hafi í raun ekki verið óalgengt í fyrstu netsamskiptum notenda forritsins og þá ekki síst í fámennum byggðarlögum. Ákærði kvaðst hafa veitt því eftirtekt að brotaþoli hefði notast við notendanafnið […], sem í hans huga hefði vísað til enska orðsins „[…]“. Ákærði bar að brotaþoli hefði alls ekki viljað birta mynd af sér þegar hann hefði leitað eftir því við hann.

            Ákærði greindi frá því að brotaþoli hefði í netspjalli þeirra m.a. haft orð á því að þeir tveir byggju í sama sveitarfélaginu. Hann staðhæfði og að í netspjalli þeirra, sem varað hefði með hléum í um 30-45 mínútur, hefði brotaþoli lýst yfir vilja til þess að þeir tveir hittust augliti til auglitis.

            Ákærði staðhæfði að brotaþoli hefði greint frá því að hann stundaði nám í framhaldsskóla sveitarfélagsins, en af þeim sökum og í ljósi fyrrnefndra notendaskilmála forritsins kvaðst hann í fyrstu hafa gengið út frá því að brotaþoli væri a.m.k. 18 ára.

            Fyrir dómi kvaðst ákærði í raun ekki hafa haft áhuga á því að hitta unga einstaklinga og vísaði að því leyti til fyrrnefndra leiðbeiningarstarfa sinna. Þá kvaðst hann hafa greint brotaþola frá þeim starfa sínum og bar að með þeirri upplýsingagjöf hefði hann haft í huga að eftir atvikum gæti það verið „óþægilegt“ fyrir þá tvo að eiga frekari samskipti, en að auki hefði hann haft í huga að með þessum upplýsingum gæti brotaþoli örugglega áttað sig á því hver hann væri og þá með hliðsjón af þeim upplýsingum sem hann hafði þegar skráð á prófíl sinn varðandi aldur, en einnig með myndbirtingunni.

            Aðspurður fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa innt brotaþola nákvæmlega eftir aldri sínum, en í þess stað spurst fyrir um á hvaða ári hann væri í skólanum. Ákærði sagði að brotaþoli hefði svarað spurningunni á þá leið að hann væri ekki á fyrsta ári, en ákærði lýsti þessari orðræðu nánar þannig: „... hann sagðist vera, hvort að hann væri á öðru ári, sem sagði mér þá, ... 17 ára eða eitthvað svoleiðis, af því að hann sagði: ,,ég er ungur eða eitthvað svoleiðis.“ Ítrekað aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að brotaþoli hefði í netspjalli haft á orð á því að hann væri 16 ára, líkt og haft var eftir honum við yfirheyrslu hjá lögreglu og lét af því tilefni þessi orð falla: „… ég hélt að 16 ára væri samræðisaldurinn ...“

            Fyrir dómi greindi ákærði frá því að brotaþoli hefði í nefndum netsamskiptum m.a. haft orð á því að hann væri samkynhneigður, að hann hefði aldrei verið með karlmanni, en langaði mjög til þess og í framhaldi af því borið fram þá fyrirspurn hvort ákærði hefði einhvern stað þar sem þeir gætu hist. Ákærði staðhæfði að eftir því sem leið á þessi samskipti hefði brotaþoli greint nánar frá hugðarefnum sínum á sviði kynlífsins og bar að hann hefði í því efni m.a. notað tiltekin slanguryrði, sem tíðkanleg væru um það efni, og sagði: „… hann (brotaþoli) talaði þannig að hann væri mjög vel að sér um kynlíf karlmanna.“ Ákærði sagði að í samræðum þeirra hefði brotaþoli að auki haft orð á því að tilteknir erfiðleikar væru á því að hitta einhvern í sveitarfélaginu og sagði: „... hann var mjög ákafur í að hittast.“ Ákærði kvaðst vegna lýsts talsmáta brotaþola hafa ályktað að þrátt fyrir fyrrnefnd orð um að hann hefði aldrei verið með karlmanni væri ólíklegt „... að hann hefði ekki gert neitt með karlmanni áður.“ Ákærði kvaðst hafa svarað fyrrnefndri fyrrispurn brotaþola með þeim hætti að hann væri í foreldrahúsum, en að systir hans væri þá stundina í heimsókn og að þeir gætu af þeim sökum ekki hist þar.

            Ákærði skýrði frá því að nefnd samskipti hefðu að lokum leitt til þess að hann hefði ákveðið að hitta brotaþola þá um kvöldið og þá í þeim tilgangi að stunda með honum kynlíf. Í framhaldi af því hefðu þeir í sameiningu ákveðið að hann myndi koma á eigin fólksbifreið á tilteknum tíma og þá fyrir utan tiltekið hús. Ákærði kvaðst hafa fylgt þessu eftir og því ekið að nefndum stað og beðið þar um stund, en án þess að brotaþoli, eða sá einstaklingur sem hann hafði þá skömmu áður verið í samskiptum við, léti sjá sig. Vegna þessa kvaðst ákærði hafa ályktað að um fyrirslátt og gabb hefði verið að ræða og hann því ekið af vettvangi og heim til sín og þannig í raun hætt við hin fyrirhuguðu áform.

            Ákærði skýrði frá því að u.þ.b. 10-20 mínútum eftir að hann kom aftur á heimili foreldra sinna hefði nefndur einstaklingur, sem síðar reyndist vera brotaþoli, sent símaskilaboð og þá sem fyrr í gegnum nefnt forrit og með þeirri fyrirspurn hvort hann væri ekki að koma. Vegna þess sem á undan var gengið kvaðst ákærði hafa varpað þeirri fyrirspurn fram hvort ekki væri réttast að þeir létu staðar numið og hættu við nefnd áform. Ákærði bar að brotaþoli hefði lagt á það áherslu að þeir myndu hittast og því hefði hann á ný ekið bifreið sinn á hinn fyrrnefnda stað, en þá séð hvar karlmaður sat þar á bekk í skugganum og myrkrinu ,,með krosslagðar fætur og með húfuna dregna svona dregna niður í andlitið ... kannski ekki ofan í augun, en svona með húfuna bara á sér ... líkt og ... hann væri að fela sig fyrir öðrum en mér … því ég var búinn að segja honum á hvernig bíl ég væri á, ... því þetta er dálítið mikil umferðargata.“

            Ákærði bar að brotaþoli hefði strax gengið að bifreiðinni og sagði: „... ég sé hann eiginlega ekkert þegar hann er að labba að bílnum ... Það blasti ekkert við að hann væri yngri en hann sagðist hafa verið þarna í samtalinu ... hann var mjög grannur, ... […] kg, ... en hann var hærri en ég allavegana ... […].“ Ákærði bar að þann tíma sem hann var með brotaþola í bifreiðinni hefði brotaþoli verið með húfuna á höfðinu. Staðhæfði ákærði og að hann hefði aldrei dregið í efa frásögn brotaþola um aldur sinn og jafnframt að hann hefði er atvik gerðust verið nemandi í framhaldsskóla, á öðru ári.

            Ákærði kvaðst í fyrstu hafa ekið litla stund um götur sveitarfélagsins ásamt brotaþola og sagði að þá hefði verið lítið um orðaskipti og að brotaþoli hefði ætíð talað „... í hálfum hljóðum, einhvern veginn ... og ég spurði hvort að hann væri stressaður og hann sagðist vera mjög stressaður.“ Vísaði ákærði til þess að hann hefði þekkt til þessara aðstöðu þar sem hann hefði sjálfur komið út úr skápnum í sveitarfélaginu við 18-19 ára aldurinn, en í framhaldi af því flust búferlum. Vegna þessa kvaðst ákærði hafa nefnt það við brotaþola að þeir gætu bara spjallað og þá án þess að viðhafa nokkrar kynferðislegar athafnir. Ákærði staðhæfði að brotaþoli hefði sem fyrr verið mjög áfjáður í að þeir gengju lengra og þá með því að eiga saman kynlíf. Og vegna þessa hefðu þeir fljótlega afráðið að aka aðeins út fyrir sveitarfélagsmörkin og þar eftir vegarslóða og að tilteknu húsi. Kvaðst ákærði hafa lagt bifreiðinni um 5-10 mínútum eftir að brotaþoli kom fyrst inn í bifreiðina. Ákærði bar að í framhaldi af því hefðu þeir stundað kynlíf, líkt og lýst er í ákæru. Ákærði bar að eftir það hefðu þeir átt í nokkrum erfiðleikum á vettvangi, við brottför, vegna ófærðar, en eftir það hefði hann ekið sem leið lá aftur inn í þéttbýlið og á þeirri leið hefði hann talið við hæfi að þeir kynntu sig með nafni, en bar að samræðurnar hefðu sem fyrr ekki verið miklar þar sem brotaþoli hefði aðeins tilkynnt hvar hann vildi fara út úr bifreiðinni. Kvaðst ákærði í framhaldi af því hafa ekið nærri tilteknu fjölbýlishúsi og brotaþoli síðan horfið á braut. Var það ætlan ákærða hann hefði verið með brotaþola í bifreiðinni í u.þ.b. 40-45 mínútur. Ákærði kvaðst aldrei hafa vitað um heimilisfang brotaþola og í raun ekki vitað frekari deili á honum en hér að framan var rakið.

            Fyrir dómi staðfesti ákærði þá frásögn brotaþola hjá lögreglu um að áður en leiðir skildu hefði hann beðið brotaþola um trúnað um lýst samskipti þeirra. Þar um vísaði ákærði til fyrrnefndra leiðbeiningarstarfa hans í tengslum við framhaldsskólann og þá að það „myndi ekki fréttast að hann væri að hitta einhvern „[…]“. Ákærði kvaðst á hinn bóginn ekki kannast við þá frásögn brotaþola hjá lögreglu, að hann hefði látið orð falla um að hann, þ.e. ákærði, liti svo á að greint athæfi hans með brotaþola hefði verið ólöglegt.

            Ákærði bar að eftir viðskilnaðinn hefði hann strax ekið sem leið lá að heimili sínu, en fljótlega eftir það hafa fengið þakkarskilboð frá brotaþola og þá fyrir samskiptin, en bar að samhliða hefði brotaþoli látið að því liggja að hann væri eftir atvikum ekki „tilbúinn í eitthvað meira“. Ákærði kvað að slíkt hefði ekki staðið til af hans hálfu og vísaði jafnframt til þess það hefði aldrei komið til tals þeirra í millum, a.m.k. ekki á þessari stundu. Ákærði sagði að brotaþoli hefði í framhaldi af þessum síðustu samskiptum „blokkað“ hann út af nefndu forriti, og bar að með þeirri aðgerð hefði hann komið í veg fyrir frekari samskipti þeirra í millum.

            Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að allnokkru eftir ofannefndan atburð, þ.e. á árinu 2016, hefði brotaþoli á ný haft samskipti við hann með nefndu forriti, en þá með nýjum „prófíl“ sem þó hefði verið líkur þeim sem hann hafði notað í hinum fyrstu samskiptum þeirra. Ákærði kvaðst hins vegar hafa notað sama „prófílinn“ og í fyrra skiptið. Ákærði skýrði frá því að í kjölfar þessara endurnýjuðu samskipta hefði brotaþoli í netspjalli greint frá því að á árinu 2015 hefði hann „logið til um aldur ... og sagði ... af því að ég er […] ára núna, eitthvað svoleiðis.“ Ákærði bar að í framhaldi af þessum upplýsingum hefði brotaþoli látið þau orð falla að hann væri „að leita sér að einhverjum til þess að hitta reglulega og þá í þeim tilgangi að stunda kynlíf.“

            Ákærði bar að honum hefði brugðið mjög þegar honum varð nefnt ósannsögli brotaþola ljós. Áréttaði ákærði að hinn ungi aldur brotaþola við hin fyrri samskipti þeirra á árinu 2015 hefði m.a. ekki verið í samræmi við þann talsmáta sem hann hefði viðhaft áður en fundum þeirra bar saman. Ákærði áréttaði jafnframt að hann hefði heldur ekki skynjað það í samskiptum þeirra á árinu 2015, að brotaþoli hefði verið eftirbátur þeirra ungmenna, sem hann hafði verið í samskiptum við á nefndum tíma, að því er varðaði þroska og útlit.

            Ákærði bar að eftir þessi síðustu netsamskipti hefði hann hitt brotaþola í tvígang og bar að þeir hefðu þá stundað kynmök saman.

 

            Pilturinn B kvaðst hafa náð í fyrrnefnt Grindr-forrit/app á veraldarvefnum og niðurhalað því í eigin síma, að hann ætlaði í marsmánuði 2015. Ákærði kvaðst aldrei fyrr hafa notað forritið og vísaði til þess að hann hefði verið […] ára er atburður þessi gerðist. Hann kvaðst hafa kynnt sér notendaskilmála forritsins og þar á meðal að það væri ætlað einstaklingum 18 ára og eldri, en af þeim sökum kvaðst hann ekki hafa gefið upp réttan aldur við skráningu. Hann kvaðst hins vegar hafa gefið upp eigin hæð, en jafnframt skráð að hann væri einhleypur og hvítur á hörund. Aðspurður kvaðst brotaþoli ætla að hann hefði á þessum tíma verið um […] cm og bar jafnframt að hann hefði á nefndu tímabili, líkt og nær alltaf áður, verið hávaxnari en jafnaldrar hans. Brotaþoli kvaðst ekki minnast þess hvort hann hefði skráð þyngd sína, en ætlaði að hann hefði á þessum tíma verið um […] kg. Fyrir dómi staðfesti brotaþoli að þessu leyti ljósmyndir sem lögreglan aflaði við rannsókn málsins og bar að tvær þeirra hefðu verið teknar af honum við […] ára aldurinn, og lýsti m.a. þeim tilefnum þegar þær voru teknar. Fyrir dómi greindi brotaþoli frá því að hann hefði hækkað í lofti á undanförnum árum og vísaði til þess að hann væri rétt […] cm og um […] kg.

            Brotaþoli skýrði frá því að til þess að hefja netspjall með nefndu forriti þyrfti að haka við prófíl hjá þeim viðmælanda, sem ætlunin væri að ræða við hverju sinni, en í framhaldi af því þyrfti að ýta á sérstakan spjalltakka.

            Fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa komist í kynni við ákærða með nefndu forriti. Nánar aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess hvor þeirra hóf þau samskipti, en kannaðist við að ákærði hefði verið með sýnilegar og skráðar persónuupplýsingar, þ. á m. varðandi hæð og þyngd, þegar samskipti þeirra hófust, en jafnframt verið með sérstakt notendanafn. Að auki kvaðst brotaþoli hafa séð mynd af ákærða, en bar að andlit hans hefði ekki verið vel greinilegt þar sem hann hefði verið með sólgleraugu. Það var hins vegar ætlan brotaþola að ákærði hefði ekki skráð eigin aldur, en sagði nánar um það atriði: „... ég er ekki viss um það alveg, en ég held ekki.“

            Fyrir dómi greindi brotaþoli frá því að í þeim netsamskiptum sem hann átti við ákærða hefðu umræðuefni aðallega varðað það hvort þeir ættu yfirleitt að hittast augliti til auglitis, en þá einnig um fundarstaðinn. Hann áréttaði að þessar samræður þeirra hefðu átt sér stað „einhvern tímann í mars ... eða apríl 2015“ og bar að niðurstaðan hefði að lokum orðið sú að þeir myndu hittast og þá í þeim tilgangi að eiga saman kynlíf. Brotaþoli kvaðst minnast þess að í þessari orðræðu hefði ákærði látið þess getið að gestir væru á heimili hans og bar að af þeim sökum hefðu þeir afráðið að ákærði næði í hann á bifreið sinni og þá á fyrirfram ákveðnum stað í sveitarfélaginu.

            Fyrir dómi skýrði brotaþoli frá því nánar aðspurður að í nefndum netsamskiptum, þ.e. þá áður en þeir hittust, hefði ákærði spurst fyrir um aldur hans og sagði þar um: „Ég svaraði því að ég væri 16 ára.“ Brotaþoli kvaðst helst minna að viðbrögð ákærða við þeim orðum hans hefðu verið með þeim hætti, að hann hefði sagt að „það væri dálítið ungt.“ Kvaðst brotaþoli hafa ályktað af þessum viðbrögðum að ákærði væri hikandi og sagði: „... en ég man ekki hvort að ég hafi talað eitthvað meira við hann eða hvort ég hafi sagt eitthvað til þess að hann skipti um skoðun ...“ Nánar aðspurður kvaðst brotaþoli ætla að það hefði ekki komið fram í þessari fyrstu orðræðu þeirra í hvaða skóla hann væri. Aðspurður kvaðst brotaþoli hins vegar ekki vefengja orð ákærða fyrir dómi um að í lýstum samskiptum þeirra hefði hann verið all berorður og grófur í tali og þá um kynlíf samkynhneigðra einstaklinga og sagði hann þar um: „Já, ég held að það geti alveg verið rétt.“

            Nánar aðspurður um hin fyrstu netsamskipti við ákærða bar brotaþoli að frá því að þau áttu sér stað og þar til þeir hittust augliti til auglits hefði ekki liðið meira en ein vika, en sagði síðan eftir umhugsun: „... ég man það ekki alveg ... gæti bara hafa verið samdægurs, gæti líka verið einn til tveir dagar.“

            Brotaþoli kvaðst er atvik gerðust í raun ekkert hafa þekkt til ákærða og þ. á m. hefði hann ekki þekkt hann í sjón þegar þeir hittust og þá ekki heldur haft neina vitneskju um störf hans og þá ekki hin tímabundnu störf hans í framhaldsskóla. Hann kvaðst hins vegar eftir hin fyrstu kynni þeirra hafa aflað sér upplýsinga um hagi ákærða.

            Brotaþoli ætlaði að hann hefði farið frá heimili sínu umrætt kvöld um kl. 20:30, og minntist þess að þá hefði verið snjór á jörðu. Brotaþoli staðfesti aðspurður frásögn ákærða, að hann hefði eftir það haft samskipti við ákærða í nefndu forriti, sem þá hefði svarað því til að hann væri á leiðinni á hinn fyrirfram ákveðna stað á eigin bifreið, líkt og þeir hefðu sammælst um. Brotaþoli bar að það hefði síðan allt gengið eftir og staðfesti m.a. að eftir að hann var kominn inn í bifreiðina til ákærða hefðu þeir báðir kynnt sig með nafni. Vegna veðurs kvaðst hann m.a. hafa verið íklæddur úlpu, en að auki haft húfu á höfðinu, en farið úr þessum fatnaði eftir að hann var kominn inn í bifreiðina til ákærða. Brotaþoli bar að eftir það hefði umræðuefnið aðallega snúist um hvar þeir gætu verið í næði og sagði að þeir hefðu að lokum afráðið að aka lítillega út fyrir sveitarfélagið, að hann ætlaði um fimm mínútna akstursleið.

            Nánar aðspurður um orðræðuna í bifreiðinni sagði brotaþoli: „Svo spurði hann (ákærði) mig hvort að ég væri örugglega 16 ára og vildi vera viss um það.“  Brotaþoli kvaðst þá hafa áréttað ranglega fyrri frásögn sína að því leyti, en bar að ákærði hefði þá haft orð á því að hann væri………., en í framhaldi af því spurt hann um nafnið á skólastofnuninni. Nánar aðspurður bar brotaþoli um þessa síðustu orðræðu að verið gæti að ákærði hefði í greint sinn innt hann eftir því hvort hann væri í framhaldsskóla og sagði: „... ég man ekki hvort að ég hafi sagst þá vera í ………..en ég sagðist alla vegana vera 16 ára ...... en ég man þetta ekki alveg.“

            Fyrir dómi skýrði brotaþoli frá því að þegar til hefði komið hefði ákærði frekar haft frumkvæðið að kynlífi þeirra og áréttaði í því samhengi að hann hafði þá ekki áður verið með karlmanni eða átt kynlífreynslu með öðrum einstaklingi. Hann hefði því verið stressaður, en ekki nefnt það við ákærða eða þá aðeins með takmörkuðum hætti.

            Brotaþoli greindi frá því að þegar ákærði hefði verið að aka af vettvangi hefði hann fest bifreiðina lítillega í snjónum, en að þá hefðu tveir akandi vegfarendur um tvítugt, sem áttu hefðu leið hjá, komið þeim til aðstoðar.

            Brotaþoli skýrði frá því að einhugur hefði verið með honum og ákærða um að þeir myndu halda þessum fundi þeirra leyndum. Hann skýrði eigin afstöðu að því leyti þannig: „... af því að þá var ég ekki kominn út úr skápnum og ég vildi náttúrulega alls ekki að það fréttist nema þá bara út frá mér sjálfum þegar ég væri tilbúinn. Og það var þá aðallega hræðsla við það og líka þá að ég væri búinn eða byrjaður að stunda kynmök … ég vildi ekki að það fréttist út og sérstaklega ekki þegar aldursmunurinn var mikill.“

            Brotaþoli ætlaði að hann hefði komið á heimili sitt umrætt kvöld um kl. 21:30, eftir um 45 mínútna samveru með ákærða, og bar að þá hefði verið algjört myrkur, en auk þess snjór á jörðu, eins og áður sagði.

            Brotaþoli skýrði frá því að daginn eftir nefndan atburð hefði móðir hans, vitnið C, veitt því eftirtekt að hann var með sogblett á hálsinum og í framhaldi af því innt hann eftir því hverju það sætti og m.a. gengið á hann um hvað hann hefði verið að gera þá um kvöldið. Vegna þessa kvaðst brotaþoli hafa lýst að nokkru samskiptum sínum við ákærða, en er móðir hans hefði ekki óskað eftir því að líta á netsamskiptin hefði hann haft varann á og eytt fyrrnefndum netsamskiptum við ákærða úr eigin símtæki. Brotaþoli kvaðst í orðræðu sinni við móður sína hafa vikið að þeim aldurmuni sem var á honum og ákærða, en ætlaði helst að hann hefði nefnt að ákærði væri u.þ.b. 25 ára og sagt að hann væri: „... svona kannski á menntaskólaldri jafnvel ... en mig minnir að hann (ákærði ) hafi sagt mér að hann væri svona um […] ára eða […] ára.“ Í framhaldi af þessum orðaskiptum kvaðst brotaþoli hafa fundið ákærða á facebook og bent móður sinn á hann og bar að hún hefði þá kannast við hann.

            Fyrir dómi lýsti brotaþoli líðan sinni eftir greindan atburð og lýsti samskiptum við ákærða og sagði þar um: „Mér leið dálítið skringilega, ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra það, en ég held alveg örugglega að ég hafi vitað að ég ætti ekki að vera að gera þetta, en ég fattaði það ekki þá ... það var örugglega einhver smá eftirsjá ... ég hafði aldrei fundið fyrir neinu svona áður, þetta var náttúrulega í fyrsta skipti sem ég gerði eitthvað svona og það er náttúrulega mikill aldursmunur ... en ég gerði mér ekki svona mikla grein fyrir öllum tilfinningum sem voru í gangi.“

            Fyrir dómi greindi brotaþoli frá því að hann hefði átt samskipti við ákærða á nýjan leik á árinu 2016, í tvígang, nánar tiltekið í mars/apríl og í maímánuði. Bar hann að aðdragandi þessara funda hefði verið líkur þeim og gerðist í fyrsta skiptið á árinu 2015. Ákærði kvaðst vegna þessara síðastgreindu samskipta hafa opnað nýjan „reikning“ og þannig í raun haft frumkvæðið að samskiptunum, a.m.k. að því er varðaði fyrri fund þeirra nefnt ár. Ákærði bar að í bæði þessi skipti hefði hann haft kynmök við ákærða og kannaðist við að í annað hvort þessara skipta hefði hann í fyrsta sinnið greint ákærða rétt frá eigin aldri.

            Fyrir dómi skýrði brotaþoli frá því að líðan hans væri almennt góð, en staðfesti að eftir að upp komst um eðli samskipti hans við ákærða hefði málið verið kært til lögreglu, en í framhaldi af því hefði hann farið í hefðbundin viðtöl hjá sálfræðingi Barnahúss. Um afleiðingar þessara atburða og um eigin líðan hafði hann svofelld orð: „Þetta mál er ekki búið að hafa neinar svona langvarandi slæmar hugrænar afleiðingar, finnst mér á mig.“

 

            Vitnið C, móðir brotaþola, skýrði frá því fyrir dómi að sonur hennar hefði að kveldi 1. mars 2015 farið út af heimili fjölskyldunnar með frekar mikilli skyndingu og þá með þeim orðum að hann ætlaði að hitta nafngreindan vin sinn. Vitnið bar að er brotaþoli hefði komið aftur inn á heimilið hefði hann gefið fremur fátækleg svör um útivist sína, en enn fremur verið fremur flóttalegur í öllum háttum. Vitnið kvaðst morguninn eftir hafa veitt því eftirtekt, þegar brotaþoli var að tygja sig í skólann ásamt bróður sínum, að hann var með sogblett á hálsinum, en af þeim sökum kvaðst það hafa gengið á hann og spurt hverju þetta sætti. Eftir nokkra eftirgangsmuni kvaðst vitnið hafa heyrt skýringar brotaþola og þ. á m. að hann hefði kvöldið áður hitt ákærða eftir að hafa verið í netsamskiptum við hann. Vitnið kvaðst síðar hafa fengið nánari fregnir af atburðarásinni og þ. á m. að ákærði hefði tekið brotaþola upp í bifreið sína á tilteknum stað í sveitarfélaginu, en þeir eftir það ekið á afskekktan stað. Vitnið kvaðst jafnframt hafa heyrt þá frásögn brotaþola að þegar til hefði komið hefði hann misst kjarkinn til að viðhafa kynlífsathafnir og í framhaldi af því farið fram á það að ákærði æki honum aftur að heimili sínu og að það hefði þá gengið eftir. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið grátandi þegar hann skýrði frá þessum samskiptum. Vitnið staðhæfði að það hefði gætt að fyrrnefndri dagsetningu af sérstökum ástæðum. Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða í sjón eftir að brotaþoli hafði fundið mynd af honum á facebook, en í framhaldi af því kvaðst það hafa bent honum á þann aldursmun sem með þeim var. Vitnið kvaðst í ljósi atburðarásarinnar, en þó aðallega vegna óska brotaþola og þá vegna ótta hans um hugsanleg viðbrögð af hálfu ákærða, hafa afráðið, í samráði við eiginmann sinn, að aðhafast ekkert frekar í málinu.

            Vitnið staðhæfði að er ofangreind atvik gerðust hefði brotaþoli ekki verið eins hávaxinn og hann síðar varð. Vitnið lýsti brotaþola sem venjulegu ungmenni, að öðru leyti en því að hann hefði á nefndu tímaskeiði verið mjög bókelskur og heimakær, en þess utan hefði hann verið í samskiptum við tvo til þrjá vini sína og jafnaldra. Vitnið áréttaði að brotaþoli hefði á árinu 2015 í flestu verið á svipuðu róli og jafnaldrar hans og þar á meðal ekki hávaxnari. Að því er varðaði þroska og talsmáta brotaþola kvaðst vitnið ekki hafa merkt mun á honum á nefndu ári og á bróður hans, sem væri þremur árum eldri.

            Fyrir dómi staðfesti vitnið að þær myndir sem lögreglan aflaði og eru á meðal málsgagna væru af brotaþola og ætlaði það helst að þær hefðu verið teknar á árinu …..

            Fyrir dómi lýsti vitnið aðdragandanum að síðari samskiptum brotaþola og ákærða, á árinu 2016, með svipuðum hætti og hinum fyrri og bar að þá hefði í raun hin sama atburðarás endurtekið sig. Þannig hefði brotaþoli rokið út af heimilinu að kvöldlagi og þá með þeim orðum að hann ætlaði að hitta vini sína, en bar að við komu aftur á heimilið hefði hann verið mjög áfjáður í að komast í sturtu, sem hefði verið mjög ólíkt öllu atferli hans. Vitnið kvaðst hafa verið hugsi vegna þess og meðal annars hringt í nafngreindan vin piltins, en þá fengið þær fregnir að þeir hefðu ekkert hist þá um kvöldið. Daginn eftir kvaðst vitnið hafa gengið á brotaþola og bar að hann hefði þá greint frá því að hann hefði kvöldið áður farið á heimili ákærða þar sem þeir hefðu haft samræði. Vitnið kvaðst þá jafnframt hafa heyrt frásögn brotaþola um að hann hefði sagt ósatt um atvik máls er hann hitti ákærða fyrrihluta vetrar 2015, þ.e. þegar hann var … ára. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa leitað eftir aðstoð hjá félagasamtökum og síðan haft samband við Barnahús, en í framhaldi af því ritað bréf til félagsmálayfirvalda sveitarfélagsins og þannig greint frá öllum málavöxtum.

            Vitnið skýrði frá því fyrir dómi að líðan brotaþola í dag væri með þeim hætti að eftir atvikum væri þráðurinn í honum heldur styttri en áður og að því leyti væri hann viðkvæmari. Vitnið treysti sér ekki til að segja til um hvort það ástand væri tengt því máli sem hér er til umfjöllunar.

 

            Samkvæmt gögnum var brotaþola boðið í meðferðarviðtöl hjá Barnahúsi í kjölfar þess að barnaverndarnefnd í heimabyggð hans hafði óskað eftir sérfræðilegri greiningu og ráðgjöf með bréfi dagsettu 28. júní 2016.

            Í vottorði, sem D sálfræðingur ritaði af ofangreindu tilefni og dagsett er 4. september 2018, segir frá því að brotaþoli hafi farið í fimm viðtöl á tímabilinu frá 7. júlí til 3. nóvember 2016, er hann var […] ára. Í vottorðinu segir að útlit og þroski brotaþola hafi á nefndu tímabili verið í samræmi við aldur hans. Þá er m.a. tekið fram að hann hafi verið rólegur í fasi og ekki tjáð sig mikið að eigin frumkvæði. Greint er frá þeirri frásögn brotaþola, og að því er varðaði hið ætlaða kynferðisbrot, að það hefði ekki verið ætlan hans að gera samskipti hans við ákærða að umtalsefni, en að viðbrögð móður hans hefðu gert það að verkum að málið var tekið til umfjöllunar.

            Í vottorðinu er greint frá því að í aldurssvarandi sjálfmatsprófi, DASS, hafi brotaþoli „skorað innan eðlilegra marka í öllum mældum þáttum.“ Einnig segir frá því að áhyggjur brotaþola hafi fyrst og fremst snúið að því ,,hvernig viðbrögð annarra yrðu vegna kynhneigðar hans og að þær áhyggjur hefðu íþyngt honum frekar en hið ætlaða „kynferðisbrot“, sem hann hugsaði aldrei um.“

            Í niðurlagsorðum vottorðs er greint frá því að brotaþoli hafi haustið … hafið nám í framhaldskóla og að hann hafi í framhaldi af því gengið til liðs við nýstofnað félag til stuðnings samkynhneigðum og þá jafnframt boðið sig fram í stjórn þess. Tekið er fram að með þessu framtaki hafi brotaþoli stigið það skref að „koma út úr skápnum.“ Um viðbrögð og líðan brotaþola í kjölfar þessa segir að nefndu framtaki hans hafi verið „vel tekið af öllum sem skiptu hann máli. Í síðast viðtalinu þann 3. nóvember lét (brotaþoli) vel af sér og var ánægður með lífið og tilveruna. Greining leiddi í ljós að (brotaþoli) hafði ekki þörf fyrir frekari viðtöl. Ákveðið var í samráði við barnaverndarnefnd, foreldra og (brotaþola) sjálfan að þau myndu hafa samband ef eitthvað breyttist.  

            Fyrir dómi staðfesti nefndur sérfræðingur að öllu leyti efni greinds sérfræðivottorðs.

 

            Vitnið E lögreglufulltrúi staðfesti fyrir dómi áðurrakin rannsóknargögn lögreglu. 

 

III.

            Í máli þessu er ákærða gefin að sök kynferðisbrot með því að hafa að kveldi 1. mars 2015 á sérstöku samskiptaforriti mælt sér mót við brotaþolann B, sem þá var […] ára, í því skyni að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök. Þá er ákærða gefið að sök að hafa hitt brotaþola síðar um kvöldið í eigin bifreið og að hafa haft við hann mök, eins og nánar segir í ákæru, án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur brotaþola.

            Í ákæru eru brot ákærða talin varða við 204. gr., sbr. 1. og 4. mgr. 202. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

            Í 204. gr. hegningarlaganna segir: Hafi brot skv. 201. eða 202. gr. verið framið í gáleysi um aldur þess er fyrir broti varð skal beita vægari refsingu að tiltölu sem þó má ekki fara niður fyrir lágmark fangelsis. :

            Í 4. mgr. 202. gr. laganna segir: Hver sem með samskiptum á netinu, annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni eða með öðrum hætti mælir sér mót við barn yngra en 15 ára í því skyni að hafa við barnið samræði eða önnur kynferðismök eða til að áreita það kynferðislega á annan hátt skal sæta fangelsi allt að 2 árum.

            Loks segir í 2. mgr. 202. gr. laganna: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.)

            Nefnd ákvæði hegningarlaganna hefur löggjafinn sett til þess að veita æskufólki vernd með tilliti til kynferðislegrar hegðunar og er hún mörkuð við tilgreindan aldur. Verða þessi mörk ekki upphafin með samþykki barns eða ungmennis.

 

            Hér að framan hefur m.a. verið rakin frásögn ákærða og brotaþola við meðferð málsins. Verður lagt til grundvallar að þeir hafi ekkert þekkst er samskipti þeirra hófust á nefndu samskiptaforriti snemma kvölds fyrri hluta árs 2015. Að virtum hreinskiptum framburði brotaþola, m.a. um veðurfar, birtuskilyrði og að snjór hafi verið á jörðu er fundum þeirra bar saman, svo og trúverðugri frásögn móður brotaþola fyrir dómi, verður lagt til grundvallar að atvik máls hafi gerst sunnudaginn 1. mars nefnt ár. Er til þess að líta að frásögn ákærða hefur að þessu leyti ekki alveg verið óyggjandi. 

            Ákærði hefur skýlaust við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, viðurkennt að hafa haft mök við brotaþola umrætt kvöld.

            Fyrir liggur að brotaþoli var á […] ári er atvik máls gerðust, nánar tiltekið rétt […] ára og […] mánaða. Er lýsing brotaþola og ákærða í öllum aðalatriðum í samræmi við verknaðarlýsingu ákæru, en einnig er hún í veigamiklum atriðum samhljóða.

            Ákærði krefst sýknu af sakargiftum og er sú krafa hans byggð á því að saknæmisskilyrðum sé ekki fullnægt með því að hann hafi ekki vitað að brotaþoli væri yngri en […] ára. Ákærði hefur í reynd borið að hann hafi á verknaðarstundu gengið út frá því að brotaþoli hafi verið á 18. aldursári og í framhaldsskóla. Hefur ákærði þar um einkum vísað til þess að í notkunarskilmálum nefnds samskiptaforrits hafi verið kveðið á um 18 ára aldurslágmark, að tilgangur hans með því að nota það hafi verið að stofna til náinna kynna og að hann hafi í engu leynt persónuauðkennum sínum. Hann hafi þannig að nokkru skráð persónuauðkenni sín, en einnig vikið nánar að eign högum í orðræðu sinni við brotaþola. Þá hefur ákærði vísað til orðbragðs og bersögli brotaþola í netspjalli þeirra og að brotaþoli hafi í raun átt frumkvæðið að því að samskipti þeirra hófust og þróuðust með þeim hætti sem síðar varð. Loks hefur ákærði borið að hann hafi eigi efast um þann aldur sem brotaþoli hafði nefnt í netspjalli þeirra þegar þeir hittust og þá m.a. í ljósi útlits hans, en einnig líkamsburða og þroska.

            Fyrir liggur að brotaþoli hefur við alla meðferð málsins borið að hann hafi í nefndu netspjalli ranglega greint ákærða frá aldri sínum, að hann væri á 17. aldursári og jafnframt borið að hann hafi endurtekið það þegar ákærði innt hann eftir því er þeir hittust augliti til auglitis umrætt kvöld. Þá er til þess að líta að frásögn brotaþola um orð hans við ákærða varðandi skólagöngu er að áliti dómsins nokkuð á reiki,

            Að áliti dómsins var frásögn ákærða trúverðug í öllum aðalatriðum. Hið sama má segja um vitnisburð brotaþola að öllu verulegu. Af gögnum verður ráðið að samskipti þeirra umrætt kvöld hafi í heildina varað í u.þ.b. 90 mínútur, í fyrstu með netspjalli á nefndu samskiptaforriti og síðan í nær beinu framhaldi í bifreið ákærða eftir að þeir höfðu sammælst um að hittast og eiga saman kynlíf. Báðir greindu frá því að þeir hefðu verið einhuga um að trúnaður skyldi ríkja um þessi samskipti, þó svo að ólíkar forsendur hafi legið þar að baki.

            Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að brotaþoli villti í raun á sér heimildir í samskiptum sínum við ákærða.

            Brotaþoli hefur lýst högum sínum á því tímabili sem hér um ræðir. Þá hefur náinn aðstandandi hans lýst þroska hans og talsmáta og m.a. borið að þar hafi hann ekki verið eftirbátur bróður síns, sem er þremur árum eldri. Sérfræðivottorð eða önnur framlögð gögn hnekkja þessu síðastgreinda atriði ekki að áliti dómsins.

            Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu en ekki honum. Er meginregla í sakamálaréttarfari að vafi skal skýrður hinum ákærða manni í hag.

            Þegar framangreint er virt í heild er að áliti dómsins varhugavert gegn eindreginni neitun ákærða, að ákæruvaldið hafi fært nægjanlegar sönnur á að ákærði hafi mátt vita að brotaþoli hafi verið yngri en 15  ára er lýst samskipti og síðar kynmök þeirra áttu sér stað. Að því leyti verður m.a. ekki fram hjá því horft að tæpir þrír mánuðir voru í greint aldursmark brotaþola. Verður það ekki metið ákærða til gáleysis eins og á stóð og þrátt fyrir verulegan aldursmun, að hafa ekki gengið frekar úr skugga um aldur brotaþola en hann sannanlega gerði, áður en hin kynferðislegu samskipti þeirra hófust. Ber því að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvalds í máli þessu.

 

            Í samræmi við ofangreind málsúrslit og 235. gr. sakamálalaganna greiðist allur kostnaður málsins, þ.m.t. kostnaður af störfum skipaðs verjanda og skipaðs réttargæslumanns, úr ríkissjóði.

            Þóknun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, vegna starfa hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi, þykir hæfilega ákveðin í einu lagi 885.360 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og hefur þá verið höfð hliðsjón af framlögðu tímayfirliti. Að auki fellur til ferðakostnaður verjandans að fjárhæð 45.980 krónur.

            Samkvæmt rannsóknargögnum var Eva Dís Pálmadóttir lögmaður tilnefnd en síðan skipuð réttargæslumaður brotaþola við alla meðferð máls þessa. Verður henni því ákvörðuð þóknun sem telst hæfilega ákveðin 306.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og hefur þá m.a. verið höfð hliðsjón af framlögðu og rökstuddu tímayfirliti. Að auki ber að greiða ferðakostnað réttargæslumannsins að fjárhæð 11.000 krónur. 

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, A, er sýkn af refsikröfu ákæruvalds.

            Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, 885.360 krónur, og 45.980 krónur vegna ferðakostnaðar hans. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur lögmanns, 306.000 krónur, en einnig ferðakostnaður hennar, 11.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

            Ólafur Ólafsson

 

            Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum fulltrúa ákæruvalds, Helga Jensyni ftr., skipuðum verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssyn lögmanni og skipuðum réttargæslumanni brotaþola, Evu Dís Pálmadóttir lögmanni, og er þeim afhent afrit dómsins.

            Dómurinn verður sendur lögreglustjóra til tíðkanlegrar birtingar.

                                                                             Dómþingi slitið,

 

                                                                             Ólafur Ólafsson